Haustlægðin Celia - 1962

Orðið „haustlægð“ komst seint á prent í blöðunum sé að marka flettingar á timarit.is, fyrst 1983 og síðan ekki fyrr en 1990. Það hefur þó verið á róli nokkuð lengur manna á meðal - minnir ritstjóra hungurdiska. Enginn veit þó nákvæmlega hvað það er sem greinir haustlægðir frá öðrum, né heldur hvort þeim bregður fyrir á öllum árstímum - eða þær skilgreina haustkomu á einhvern óræðan máta. Við veðurfræðingar ættum sennilega að fara varlega í notkun þessa orðs - en ráðum auðvitað engu um það hvað aðrir gera.

Þrátt fyrir allan efa er það nú samt svo að stundum birtist haustveðrið nokkuð snögglega og fer ekki aftur - jafnvel þótt stöku síðari dagar sama árs sýni sig í gervi sumars. 

Ritstjóri hungurdiska hefur lengi fylgst með veðri, kannski allt frá hausti 1961 - sumt man hann enn eldra - [en margt síðan man hann auðvitað alls ekki] og man fáeinar raunverulegar haustlægðir. Hvað um það, haustkoman 1961 er ekki alveg negld niður á dag eða lægð í huganum  (kom samt) - en er það aftur á móti 1962. 

Óvenju rólegt var á fellibyljaslóðum haustið 1962 og fengu aðeins 5 hitabeltislægðir nafn. Þar af voru þrír fellibyljir. Lægðin Celia náði aldrei styrk fellibyls (svo vitað sé), veðrið snerti Nýfundnaland, en olli engu tjóni fyrr en hér á landi. Þann 22. september var hún austan Nýfundnalands – fremur sakleysisleg að öðru leyti en því að hún virtist bera vel í háloftabylgju sem að vestan kom. Á þessum tíma var ekki mikið um veðurathuganir á þeim slóðum sem hún er stödd. Þetta tilvik er gott dæmi um það að ekkert beint samband er á milli styrks hitabeltislægða og fellibylja og áhrifa afkvæma þeirra hér á norðurslóðum.

celia220962

Kortið hér að ofan er af síðum Morgunblaðsins - þori ekki að fullyrða um höfund þess - líklega Knútur Knudsen - hann var á vakt þennan morgun. Það gildir kl.6 að morgni 22.september. Þessi kort voru ungum veðuráhugamönnum mikils virði og smám saman töluvert á þeim að græða.

w-blogg080919-celia62a

Endurgreining japönsku veðurstofunnar og morgunblaðskortinu ber allvel saman. Vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi á leið norðaustur, en hæð yfir Bretlandi. Á handteiknaða kortinu má einnig sjá veðurathuganir veðurskipanna Bravó, Alfa og Charlie, hið síðarnefnda á kortinu í hlýja geiranum austan lægðarmiðjunnar og sérlega mikilvægt í þessu tilviki. Veðurskipið Bravó fylgist með á norðurjaðri úrkomusvæðis sem sýnt er á japanska kortinu. Veðurfræðingar bíða spenntir eftir því hvað gerist á Alfa sem var á Grænlandshafi miðju - og því hvort lægðin tæki austlægari braut - sem hér var alveg hugsanlegt - skipið Indía, beint suður af Íslandi gæti gefið það til kynna. - Engar tölvuspár var að hafa - og engin von til þess að segja mætti af neinni nákvæmni um dýpkun lægðarinnar - og enn síður hvað síðan gerðist. 

Þrátt fyrir þetta má segja að allvel hafi tekist til með spána - nema hvað norðanáttinni hvössu yfir Vestfjörðum var alls ekki spáð - fyrr en hún var komin. 

spabok-1962

Veðurspár voru handskrifaðar í bók sem þessa. Spá sem lesin var í útvarp kl.10:10 þann 22.september hljóðaði svo (yfirlit og upphaf):

Um 1400 km suðvestur í hafi er lægð sem dýpkar ört og hreyfist norðaustur. [Veðurhorfur næsta sólarhring] Suðvesturland til Vestfjarða, Suðvesturmið til Vestfjarðamiða: Suðvestankaldi og skúrir í dag. Vaxandi sunnan- og síðan suðaustanátt í kvöld. Hvasst og rigning í nótt. 

Takið eftir því að ekkert segir um veður morgundagsins. - Þess var fyrst getið kl.16:30 - allir biðu spenntir eftir þeirri spá. [Hvass suðvestan og skúrir síðdegis].  

w-blogg080919-celia62b

Lægðin hrökk nú í ofurvöxt, dýpkaði um rúmlega 40 hPa á sólarhring, þrýstingur fór líklega niður undir 950 hPa þegar best lét að morgni þess 23. Kortið hér að ofan gildir kl.18 þann dag - sunnudag. Þá var lægðin yfir Breiðafirði og hafði grynnst lítillega. Endurgreiningin nær henni allvel. 

Sá sem þetta skrifar minnist vel veðurhörkunnar þennan dag - betur en veðrið í gær, fyrst í suðaustanáttinni og ekki síður í suðvestanáttinni í svokölluðum snúð lægðarinnar. Þetta tók fljótt af, en síðan skall haustið á með öllum sínum þunga og snjókomu um norðvestanvert landið. Þrýstingur mældist lægstur á landi 956 hPa. Það var í Stykkishólmi. Veðrið varð langverst suðvestanlands, en gætti minna í öðrum landshlutum - nema hvað mjög hvasst varð af norðri um tíma á hluta Vestfjarða. Dægurlagið sem hékk á heilanum þessa daga var „Walk right in“ með hópnum Rooftop Singers (undarlegt að muna það líka).  

w-blogg080919ii-a

Kortið sýnir veðurathuganir á skeytastöðvum kl.18 síðdegis. Kröpp lægðarmiðjan yfir Breiðafirði - en aðeins farin að fletjast í botninn. Takið eftir norðanáttinni á Hvallátrum. Um nóttina skilaði hún snjókomu suður á vestanvert Snæfellsnes og það snjóaði niður í miðjar hlíðar í Hafnarfjalli - haustið var komið þó hlýja og hvassa austanátt drifi yfir nokkrum dögum síðar. Illviðrið hafði rifið lauf af trjám í stórum stíl og lyktin gjörbreyttist. Allt var breytt.   

celia_frjett_mbl250908

Í veðrinu urðu skemmdir á bátum í Reykjavíkurhöfn, sex trillur sukku. Bátur sökk í Þorlákshöfn og stórskemmdir urðu á mannvirkjum í smíðum í Keflavík, tveim síldarþróm og fiskhúsi. Fokskemmdir urðu einnig nokkrar í Sandgerði. Járnplötur tók af nokkrum húsum í Reykjavík, þar skemmdust líka girðingar og tré brotnuðu. Stór mótauppsláttur fauk í Vestmannaeyjum og þar fauk steingirðing um koll. Menn voru hætt komnir er bát rak upp í kletta við Drangsnes. Járnplötur fuku af húsum í Höfn í Hornafirði og á Akranesi. Bíll með knattspyrnuliði ÍA fauk út af vegi í Hvalfirði, slys urðu ekki á fólki. Sjór gekk yfir grjótgarðinn við höfnina í Bolungarvík (í norðanátt) og ljósker brotnuðu, brimið sagt 30 metra hátt. Brimstrókar við Arnarstapa þóttu óvenju tignarlegir. Mikið af korni fauk á Rangárvöllum og eins á ökrum á Héraði. 

Á þessum árum voru stöðug vandræði í höfnum landsins hvessti mikið. Gríðarmikið hefur verið bætt úr síðan. Þó var smástreymt í þessu tilviki, mikill áhlaðandi hefur samt borist inn til Reykjavíkur. 

w-blogg090919-celia

Myndin sýnir þrýstispönn (munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á öllum athugunartímum mánaðarins) - grátt, og lægsta þrýsting hvers athugunartíma (rauður ferill). Mikil sveifla fylgdi Celíu og mikil þrýstispönn - og mikill vindur. Næsta spannarhámark á undan (þann 15.) fylgdi allmiklu norðanveðri - en ekki fylgdi hausttilfinning því á sama hátt og Celíu. Eins var allmikill vindur þann 1. - kannski tengdur leifum fellibylsins Ölmu - kannski einhverju öðru suðlægu kerfi). Djúp lægð var langt suður í hafi og vindur af austri hér á landi. Hætt við að einhver hefði misst út úr sér haustlægðarmerkilappann þegar í upphafi mánaðarins - þó ekki væri ástæða til. Drjúghvasst varð einnig síðasta dag mánaðarins - þá af austri enda mjög djúp lægð fyrir sunnan land. Austanáttin sú var þó mild um landið vestanvert - en náði ekki að skapa tilfinningu fyrir endurkomu sumars. 

Þetta veður sýnir að til þess að gera sakleysisleg hitabeltiskerfi geta verið mjög varasöm - reyndar virðist meira máli skipta að rekja sú og hlýindi sem þau draga með sér langt sunnan úr höfum „hitti rétt í“ vestanvindabeltið heldur en það vindafl sem þau bjuggu yfir í sinni fyrri tilveru. Ekkert virðist ameríska fellibyljamiðstöðin vita af tjóni því sem kerfið olli hér á landi (og er sjálfsagt alveg sama). 

Fyrsta haustlægðin árið eftir var líka minnisstæð - hún kom enn fyrr, 10.september. Ekki varð þá aftur snúið. - En förum sparlega með þetta hugtak - haustlægð - á meðan við vitum ekki almennilega hvað það er. 


Af háloftastöðunni í ágúst

Við lítum nú á hæð 500 hPa-flatarins í ágústmánuði síðastliðnum og vik hennar frá meðaltalinu 1981 til 2010. Kortið gerði Bolli Pálmason eftir gögnum frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg090919a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en vik eru sýnd í lit, neikvæðu vikin eru bláleit, en þau jákvæðu rauðbrún. Þó lægðarmiðja sé yfir Íslandi á kortinu var hæð flatarins ekki svo mjög undir meðallagi. Vikin voru mun meiri fyrir sunnan land heldur en við lægðarmiðjuna sjálfa. Lögun vikanna segir okkur að norðaustlægar áttir hafi verið mun algengari í veðrahvolfinu heldur en venjulegt er - afleiðingar munum við enn. Þungbúið veður norðaustanlands, en bjartara um landið suðvestanvert. 

Við sjáum líka að suðvestanáttin yfir Bretlandseyjum hefur verið talsvert öflugri en venjulegt er og sömuleiðis má sjá óvenjulega stöðu við Grænland norðvestanvert - þar ríktu óvenjuleg hlýindi í neðanverðu veðrahvolfi - við fréttum af óvenjulegum hitum á Ellesmereeyju - en því miður eru mælingar gisnar á þeim slóðum og nær engar inni í „sveitum“ - ástandið í mælimálum svipað og hér var fyrir 1880. Hvernig skyldu sumur hafa verið þar þá? Veðurstöðin Alert er nefnd eftir skipi sem bar sama nafn og kannaði þessar slóðir á árunum 1875 til 1876, en leiðangursmenn héldu sig við sjávarsíðuna. Tala mikið um kulda, m.a. var kvikasilfurshitamælirinn beinfrosinn mestallan marsmánuð 1876. En lægsti hiti sem leiðangurinn mældi var -74°F eða -53°C (mælt á vínandamæli), það var 4.mars. 


Bloggfærslur 10. september 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 1931
  • Frá upphafi: 2350800

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1725
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband