Alþjóðasumarið - landsmeðalhiti

Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur mánuðina júní til ágúst til sumarsins - Veðurstofan bætir september hins vegar við. Við skulum nú athuga hvernig nýliðið alþjóðasumar stóð sig hér á landi hvað hita varðar.

w-blogg010917a

Lóðrétti ásinn sýnir hita, en sá lárétti ár frá 1874 til 2017. Nýliðið sumar er lengst til hægri á myndinni. Það liggur vel ofan meðallags tímabilsins alls, í 42. sæti af 144, en á þessari öld hafa 11 verið hlýrri - enda sérlega hlý. 

Við tökum leitni tímabilsins alls svona hóflega alvarlega, en nefnum þó að nýliðið alþjóðasumar er alveg á leitnilínunni - á væntingareit (sé eitthvað svoleiðis til). 

Í leiðinni lítum við á landsmeðalhita fyrstu 8 mánuði ársins.

w-blogg010917b

Tímabilið er mjög hlýtt í ár, hefur aðeins 7 sinnum verið jafnhlýtt eða hlýrra. Leitnin reiknast 1,2 stig á öld. 

Svo virðist sem meðalhiti júní til ágúst 2017 endi í 10,8 stigum í Reykjavík. Það er í kringum 30. sæti á 147-áralistanum, en í 12 sæti (af 17) á öldinni. Telst eindregið hlýtt að þriðjungatali, en á mörkum þess að vera hlýtt og mjög hlýtt sé fimmtungaflokkun beitt.

Á Akureyri verður meðalhiti þessara mánaða nærri 10,5 stigum og í 40. sæti á 137-áralista þess staðar.


Hlýr dagur eystra?

Nú virðist stefna í hlýjan dag víða eystra. Þykkt er spáð meiri en 5600 metrum yfir landshlutanum á föstudag. Þessi hlýindi komu að Suður-Grænlandi í dag og lausafregnir herma að hiti hafi þá farið í 21,0 stig í Kristjánssundi við Hvarf - þeim útforblásna stað. 

w-blogg310817a

Þessi spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl. 18 síðdegis á föstudag. Sömuleiðis er spáð nokkuð ákveðinni vestanátt sem gæti náð hlýindunum í háloftunum niður. Þetta þýðir að hiti gæti víða farið í meir en 20 stig þar um slóðir. 

Þrátt fyrir heiðarleg hlýindi á köflum í sumar eru þó fáeinar stöðvar sem sitja eftir. Þar á meðal er Dalatangi - þar sem hæsti hiti ársins til þessa er ekki nema 16,0 stig (mannaða stöðin) og 16,6 á þeirri sjálfvirku. Kambanes á sömu tölu sem hæsta hita ársins til þessa.

Seley kemur síður á óvart með 15,1 stig. Fáskrúðsfjörður og Kollaleira í Reyðarfirði hafa ekki enn náð 20 stigum á þessu ári, Fáskrúðsfjörður 18,7 og Kollaleira 19,8 stigum. Allgóður möguleiki ætti að vera á því á föstudaginn að 20 stig mælist á þessum stöðvum. Hæsti hiti ársins til þessa á Höfn í Hornafirði er 17,6 stig. Smávon er um hærri hita þar á föstudag - en heldur minni þó en á Austfjarðastöðvunum. 

Brúarjökull hefur ekki enn náð 10 stigum. Þar er hæsti hiti ársins til þessa aðeins 9,2 stig sem mældust 15. febrúar. 


Bloggfærslur 31. ágúst 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 1375
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1192
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband