Sundurlausir ágústhitamolar

Hæsti meðalhiti ágústmánaðar hér á landi er ekki alveg óumdeildur. Hæsta reiknaða talan er 14,1 stig, á Mýrdalssandi í ágúst 2003. Ekki ótrúlegt í sjálfu sér, en mælingar stöðvarinnar hafa ekki verið „teknar út“ - við vitum ekki hvort einhver hliðrun hefur verið í mælinum. 

Ágúst 2003 var sérlega hlýr á landinu, er í næstefsta sæti á landslistanum með 10,9 stig, aðeins ágúst 1933 er sjónarmun hærri, 11,0 stig. 

Næsthæsta talan er ekki alveg trygg heldur, 14,0 stig reiknast sem meðalhiti ágústmánaðar 1880 austur á Valþjófsstað. Við vitum enn ekkert um aðstæður á stöðinni. Ágúst 1880 var sérlega hlýr um land allt og er í þriðjahlýjasta sæti á landslistanum, 10,7 stig. 

Þriðjuhæstu töluna finnum við á Húsavík í ágúst 1947, 13,9 stig. Sá mánuður er nokkru neðar á landslistanum, í 12. sæti, en var sérlega hlýr um landið norðanvert, hlýjastur ágústmánaða á fjölmörgum stöðvum, m.a. á Akureyri. Í Reykjavík er ágúst 2003 hlýjastur. 

En hver er þá lægsti ágústmeðalhitinn? Auðvitað tók Dyngjujökull þá tölu strax og byrjað var að mæla þar - stöðin í tæplega 1700 metra hæð yfir sjávarmáli og mælar þar að auki ekki í löglegri hæð frá „jörðu“. En meðalhiti í ágúst 2016 var þar 0,0 stig. Spurning hvort meðalhiti ágústmánaðar nú verður enn lægri - takist að ná mælingum mánaðarins alls í hús. Eftir 21 dag núlíðandi mánaðar er meðalhitinn þar +0,4 stig.  

Næstlægsta talan er líka af jökli. Stöðin á Brúarjökli er sögð í 845 metra hæð yfir sjávarmáli, meir en 800 metrum neðar en Dyngjujökulsstöðin. Þar hefur verið mælt samfellt frá 2005. Kaldastur á þeim tíma var ágúst 2011 með meðalhita 2,5 stig. Það sem af er ágúst nú er meðalhiti á Brúarjökli 2,3 stig - spurning hvort hann nær neðsta sætinu. 

En sjálfvirku hálendisstöðvarnar hafa ekki mælt lengi, þær sem lengst hafa mælt eru þó komnar í meir en 20 ár og orðnar vel keppnishæfar. 

Lægstu byggðartölurnar eru líka afspyrnulágar. Meðalhiti í Grímsey í ágúst 1882 var ekki nema 2,4 stig. Það mun vera óhætt að trúa þessari tölu. Bráðnandi hafís í kringum eyna mestallan mánuðinn. Ágúst 1882 er líka lægstur á landslistanum, meðalhiti á landsvísu 6,5 stig. Við eigum til fleiri mælingar frá stöðvum við norðurströndina í ágúst 1882, Kjörvogur á Ströndum segir meðalhita mánaðarins 2,7 stig og á Skagaströnd og á Siglufirði reiknast meðalhitinn í mánuðinum 3,1 stig. Siglufjörður segir ágúst 1864 hafa verið enn kaldari, með meðalhitann 2,6 stig þar á bæ (Hvanneyri).  

Lægsta talan eftir aldamótin 1900 er úr Möðrudal í ágúst 1903, 3,6 stig og þá sömu tölu nefna Grímsstaðir á Fjöllum í ágúst 1943. Sérlega vondir mánuðir nyrðra báðir tveir - en skárri syðra. 

Raðir hámarks- og lágmarksmælinga eru styttri og rýrari heldur en meðalhitaraðirnar. En hæsti meðalhámarkshiti ágústmánaðar sem við sjáum í fljótu bragði er 18,5 stig á Staðarhóli. Þessi árangur náðist 2004, og meðalhiti ágústmánaðar 1984 var litlu lægri á Vopnafirði, 18,4 stig - sem einnig reiknast á Torfum í ágúst 2004.

Lægsti meðalhámarkshitinn reiknast í Grímsey í ágúst 1903, 5,5 stig. 

Hæsta meðallágmark ágústmánaðar finnum við á Vatnsskarðshólum árið 2004, 10,8 stig og lægsta meðallágmarkshitann á Grímsstöðum á Fjöllum 1912, -0,6 stig. Harla ískyggileg tala. 

Hæsti hiti sem mælst hefur í ágúst hér á landi er 29,2 stig - á Egilsstaðaflugvelli þann. 11. árið 2004. 

Lægsti hiti sem er skráður á mæli hér á landi í ágúst eru -10,7 stig, mældist á dögunum á Dyngjujökli (þ.13.). Við vitum ekki enn hvort það er óvenjulegt eða ekki. 

Þann 27. ágúst 1974 mældist lágmarkshiti -7,5 stig í Sandbúðum á Sprengisandsleið, lægsti hiti í ágúst hér á landi utan jökuls. Lægsti hiti sem vitað er um í byggð í ágúst mældist á Barkarstöðum í Miðfirði þann 27. árið 1956. Frost var víða þá nótt og þær næstu, m.a. fór hiti niður í -0,4 stig í Reykjavík, ágústlágmarksmet á þeim bæ og næsta nótt á lágmarkshitamet ágústmánaðar á Akureyri, -2,2 stig. 

Hæsti lágmarkshiti sólarhringsins sem við vitum um í ágúst er 19,5 stig - á Vatnsskarðshólum þann 11. 2004. 

Að lokum spyrjum við hver sé hæsti lágmarkshiti ágústmánaðar. Í ágúst 2003 fór hiti aldrei neðar en 8,5 stig í Patrekshöfn á Patreksfirði og ekki heldur á Steinum undir Eyjafjöllum í sama mánuði (eða er e.t.v. sagt „í Steinum“?). 

 

---

Þess má að sjálfsögðu geta að hungurdiskar halda upp á 7 ára afmæli um þessr mundir, um 1940 pistla á bloggi og fjölmarga þar að auki á fjasbókinni. Ritstjórinn er að vanda meyr á tímamótunum og fyllist efa um framhaldið - hvort halda eigi sömu leið, breyta á einhvern hátt um stefnu eða hreinlega hætta. Pistlarnir 1940 fylla nú 7 allstór bindi - vel á fjórða þúsund blaðsíður alls og hver sem er getur prentað út eða afritað.  


Bloggfærslur 22. ágúst 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 82
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 1680
  • Frá upphafi: 2350957

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 1469
  • Gestir í dag: 61
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband