Viðmiðunartímabil og fleira

Í athugasemd lesanda við pistli gærdagsins var enn minnst á óánægju með viðmiðunartímabilið 1961 til 1990. Rétt er að fara um það fáeinum orðum - sem og smávegis fleira sem vikið var að í sömu athugasemd.

Árin 1961 til 1990 eru enn aðalviðmiðunartími alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar - og verða það til 2020 þegar farið verður að miða við 1991 til 2020. Stutt er þangað til og varla ástæða til að breyta - aðalmálið er að viðmið sé eitthvað. Sumar veðurstofur og stofnanir miða nú við árin 1981 til 2010 sem meðalár - en breyta því væntanlega líka eftir 2020. Ástæða þess að hentugt þykir að miða við 1981 er trúlega sú að frá þeim tíma til 2010 má reikna meðaltöl mælinga gervihnatta á ýmsum umhverfisþáttum. Sömuleiðis þykja tölvugerðar endurgreiningar á veðri og veðurlagi nokkuð áreiðanlegar fyrir þetta tímabil og það því hentugt af þeim sökum.

En breytingar á veðurfari eru mjög örar og þannig hefur viljað til að viðmiðunartímabil þau sem hafa verið notuð hafa hér á landi aldrei verið í takti við veðurfar hvers tíma. Kannski verður það þannig áfram með næsta tímabil - það vitum við ekki. En þau tímabil sem notuð hafa verið hér á landi eru:

  1. 1873 til 1922 (50 ár). Þetta var viðmið Veðurstofunnar fyrstu ár hennar. Svo hittist á að lengst af þann tíma sem það var notað var hiti langt ofan þess.
  2. 1901 til 1930 (30 ár). Þetta viðmið var notað frá 1944 til 1960. Sömuleiðis nokkru kaldara en ríkjandi veðurfar á notkunarskeiðinu.
  3. 1931 til 1960 (30 ár). Notað til 1990. Sem kunnugt er kólnaði talsvert upp úr 1960 - þannig að hiti var lengst af undir opinberu meðallagi allan tímann.
  4. 1961 til 1990 (30 ár). Notað frá 1991. Upp úr 1995 hlýnaði svo um munaði og hefur verið hlýtt síðan - sérstaklega miðað við viðmiðunartímann.

Eins og áður sagði er líklegt að eftir 5 ár birtist nýtt viðmiðunartímabil, 1991 til 2020. Hvernig í ósköpunum hiti verður eftir það - og miðað við nýja tímabilið veit auðvitað enginn. Auðvitað væri hægt að taka lengri tímabil sem viðmið - en tilgangurinn með því er ekki sérlega skýr [sjá síðar í pistlinum].

Ritstjóri hungurdiska er veikur fyrir því að miða almennt við síðustu tíu ár - og gerir það töluvert - (sjá lata fjasbókarsíðu hungurdiska - og reyndar líka almanak Háskóla Íslands) þótt mörgum öðrum þyki það of stuttur tími. En það er samt sá tími sem flestir muna (þótt veðurminni sé almennt rýrt). En slíkt viðmið breytist á hverju ári, hungurdiskatímabilið sem árið 2015 var 2005 til 2014 verður frá næstu áramótum 2006 til 2015 (lifi hungurdiskar yfirhöfuð).

Eftir „samkomulagið“ í París um 2 stiga hlýnunarviðmið rísa auðvitað upp deilur um það hvaða grunn sé þar miðað við, hvar „núllið“ sé. Við eigum eftir að þurfa að hlusta á alls konar leiðindaþras um það næstu árin. Þetta viðmið er af þeim ástæðum einum (og reyndar mörgum fleirum) algjör brandari (grátlegur brandari). Talan tveir var þó skiljanleg sem táknræn - tákn fyrir eitthvað mikið (eða ekki svo óskaplega mikið) - en ekkert sem eitthvað nákvæmt. Hægt var að fallast á að slík tala væri nefnd. En þá þurfti endilega að fara að tala um 1,5 stig - þar með fauk allur trúverðugleiki út í veður og vind - og illskiljanleg þokan blasir við. Að halda því fram að hægt sé með alþjóðlegu samkomulagi að stilla hitafar heimsins með þvílíkri nákvæmni með samkomulag um losun á koltvísýringi eitt að vopni getur varla verið annað en fáránlegt - góðan vilja gætum við virt svo langt sem hann nær - en ...

Hér þarf að taka fram að ritstjóri hungurdiska er „hlýnunarsinni“ í þeirri merkingu að hann trúir því að þær gríðarmiklu breytingar sem þegar eru orðnar - og þær sem virðast vera fyrirsjáanlegar á geislunarbúskap lofthjúpsins af mannavöldum geti boðið upp á gríðarlegar breytingar á veðurfari um heim allan á næstu áratugum - og séu þegar farnar að gera það. - Því ofbýður honum því meir ofurtrú á að hægt sé að greina á milli 1,5 og 2,0 stiga hlýnunar með samningum af því tagi sem nú er boðið upp á - og að hægt sé að stjórna henni af þeirri nákvæmni sem tölurnar gefa í skyn.

Haldi þessi nýi samningur að einhverju leyti fara í hönd mjög athyglisverðar vendingar á næstu áratugum (ólíklegt hins vegar að ritstjóri hungurdiska lifi það). Athyglisverðast verður þegar deilur hefjast af alvöru um það hvort samningurinn hafi gert gagn eða ekki - þá munu sumir núverandi andstæðingar hans (sem nú reyna að gera sem minnst úr hlýnun síðustu áratuga) reyna að sýna fram á að mikið hafi hlýnað - meira en samningurinn hafi gert ráð fyrir - og hann sé því gagnslaus - en þeir sem hafa reynt að gera sem mest úr hlýnun til þessa munu hins vegar reyna hvað mest þeir mega til að telja almenningi trú um að lítið hafi hlýnað – því samningurinn hafi komið í veg fyrir það. Furðulegur viðsnúningur - nema hvað.

En aftur að aðalefni þessa pistils, viðmiðum. Eins og áður sagði er talan 2 stig ein og sér merkingarhógvær - hún getur verið táknræn og má halda fram að hún sé ekki nákvæm hvort eð er. Hins vegar um leið og farið er að greina á milli 1,5 og 2,0 stiga sem „framtíðarhámarkshlýnun“ fer að skipta verulegu máli hvert grunnviðmiðið er og hvort það sé yfirleitt til. Er hægt í alvöru að byggja alþjóðasamning (þann mesta allra tíma - að sögn) á einhverju sem er ekki til?

Ekkert alþjóðlegt samkomulag er um það að miða við 1851 til 1900 (það er 1851) sem grunnstöðu „fyrir iðnbyltingu“. Kannski verður því viðmiði þvingað upp á okkur sem hinum „rétta skilningi“ á tölum samningsins - eitthvað verður að gera í þeim efnum - svo tölurnar verði ekki fullkomin della.

Á þeim tíma sem ritstjóri hungurdiska var sjálfur á alþjóðamarkaði fyrir 20 til 25 árum var talsvert um þetta (núll-) viðmið rætt. Félagar hans í fræðunum - sem margir hverjir eru/voru í hópi þeirra sem mest vita í heiminum um hitamælingar fyrri tíma allt aftur fyrir miðja 18. öld - voru þá margir á þeirri skoðun að þetta viðmiðunartímabil væri óeðlilegt - hlýrra hefði verið á þeim stöðum sem mælingar voru stundaðar á fyrir 1850 (reyndar lítill hluti heimsins) heldur en á síðari hluta 19. aldar.

Ritstjórinn getur út af fyrir sig tekið undir þetta viðhorf gömlu félaganna varðandi 1851 til 1900. Það er vegna þess að stöðugt veðurfar finnst ekki í fortíðinni - sama hvaða tímakvarði er valinn, langur eða skammur. Við komumst ekkert nær einhverjum platónskum meðalhita staðar (eða jarðar) með því að lengja og lengja meðaltalstímabilið - hann er einfaldlega ekki til. Við getum ekki svarað spurningunni um hver meðalhiti í Reykjavík sé - nema tiltaka ákveðið tímabil í fortíðinni. En sú tala segir lítið um meðalhita þar í framtíðinni - með eða án hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum.

En hnattræn hlýnun af mannavöldum er engu að síður raunveruleg - en við vitum ekkert hver hún verður næstu áratugi - hvað sem Parísarsamkomulaginu líður. Það slær ryki í augu okkar á margan hátt. Í fljótu bragði sýnist það reyndar aðallega vera hluti af kapphlaupi stórfyrirtækja og spilltra stjórnvalda víða um heim um skattpening almennings með bíræfnum bókhaldstrixum og afleiðusölu. - En ritstjórinn vill samt láta það njóta vafans um hríð - honum gæti auðvitað skjátlast sökum pólitískrar blindu.

Ýmislegt jákvætt má líka finna varðandi samkomulagið. Mjög æskilegt er að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda - líka hér á landi. Samningurinn eykur trúlega meðvitund á því sviði - ekki amalegt það. Aukinn þrifnaður varðandi umgengni við náttúruna er líka bráðnauðsynlegur - kannski eykur samningurinn á umræður um hann og aðgerðir? Svo er líka hugsanlegt að hann rjúfi að einhverju leyti hina skelfilegu skotgrafaumræðu um hnattrænar umhverfisbreytingar af mannavöldum - nú eða breyti áherslum þeirrar umræðu. Svo sýnist t.d. að hann sé þegar búinn að kljúfa umhverfisverndarsinna í tvær eða þrjár fylkingar. Verði sá klofningur að fúlri alvöru mun umræðan breytast mikið.


Liggur enn í leyni

Kalda loftið liggur enn fram á lappirnar fyrir norðan land - þótt ásókn þess í gær (fimmtudag) hafi ekki skilað því miklum landvinningum. Hlýja loftið leitar aðallega til austurs fyrir sunnan land - hver bylgja hálfgerðra sumarhlýinda gengur austur um Evrópu. 

Á sunnudag verður enn ein hlýindatotan á leið til austurs fyrir sunnan land eins og sjá má á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á sunndag (20. desember).

w-blogg191215a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Þykkt er sýnd í lit - hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra - rétt yfir meðallagi árstímans hér á landi. 

En við sjáum að töluverður þykktarbratti er fyrir norðan land - jafnþykktarlínur eru þéttar - þar skiptast ört á bláir litir - því dekkri og kaldari eftir því sem norðar dregur. Eins og sjá má er vindur í háloftunum hægur yfir landinu (langt á milli jafnhæðarlína) - en vindátt þó af vestri - nokkuð samsíða þykktarbrattanum - og slakar aðeins á norðaustanáttinni sem þykktarbrattinn er að búa til - 

[Þeir sem rýna í kortið og reyna að slá á vindinn sjá að ljósbláa ræman yfir landinu norðvestanverðu býr til vind sem er meiri en 20 m/s - en jafnhæðarlínurnar (vestanáttin) slá á um kannski 5 m/s. Nettóniðurstaða er því 15 m/s - jæja - við erum bara að slá á þetta - skoðið frekar raunverulegar vindaspár á vef Veðurstofunnar].

Við sjáum í einn af stóru kuldapollum norðurhvels vestan við Grænland - þann sem við höfum gjarnan kallað Stóra-Bola, til aðgreiningar frá öðrum veigaminni. Hann er ekki mjög fyrirferðarmikill en býsna kaldur - þykktin í honum miðjum er minni en 4800 metrar. Grænland verndar okkur að mestu fyrir aðsókn - en samt er aðalóvissa jólahelgarinnar tengd hreyfingum hans - og hvort eitthvað af kuldanum brýst austur um og búi til jólasnjó. 

Bandaríska veðurstofan er með þannig hugmynd þegar þetta er skrifað [10-20 cm í Reykjavík] - en evrópureiknimiðstöðin er mun hógværari (og hefur oftar rétt fyrir sér). Við tölum ekki meir um það - enda gæti jólasnjórinn þess vegna komið strax þar sem hann er ekki þegar kominn. Hér er engu spáð. 


Bloggfærslur 19. desember 2015

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg060725a
  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 110
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 1767
  • Frá upphafi: 2482990

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 1590
  • Gestir í dag: 88
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband