Býsna kalt - en vonandi ekki svo hvasst

Næstu daga er spáð allmiklu kuldakasti. Þykktin yfir Suðurlandi á að fara niður í 5080 metra á fimmtudag (11. apríl) eða aðfaranótt föstudags og enn neðar fer hún fyrir norðan, jafnvel niður i 5000 metra. Þetta eru vetrartölur. En þegar þetta er skrifað er bara mánudagur og það er oft þannig að sjórinn er drýgri við upphitun heldur en líkön gera ráð fyrir svo marga daga fram í tímann. En verði hlýrra en líkön gera ráð fyrir má gjarnan einnig gera ráð fyrir því að greiðsla í formi meiri úrkomu eða hvassari vinds verði að koma í stað kuldabroddsins sem sleppt er.

Enda deila líkön um þetta atriði - nær snjókomulægð sér á strik undan Suðvesturlandi eða ekki - eða grefur hún um sig annars staðar?

Á miðvikudaginn gerir evrópureiknimiðstöðin ráð fyrir slíkri lægð ekki langt suðaustur af Vestmannaeyjum eins og sjá má á 925 hPa-kortinu hér að neðan.

w-blogg090413a

Jafnhæðarlínur eru heilstrikaðar, vind og stefnu hans má ráða af vindörvunum, en litafletir sýna hitann. Kortið batnar talsvert við stækkun. Við sjáum vel mikinn hitabratta yfir landinu og í námunda við það. Þegar þetta er skrifað gerir reiknimiðstöðin ráð fyrir því að lægðin litla hörfi frekar til suðurs og komi ekki aftur upp að landinu fyrr en á laugardag - þá nærri uppétin af mikilli lægð suður í hafi. Sú lægð á þá að fara niður í 942 hPa. Þetta er svo lág tala í apríl að full ástæða er til að efast um að spáin rætist. En maður veit aldrei.

Á þriðjudag, 9. apríl er 50 ára afmæli upphafs páskahretsins mikla 1963. Eins og minnst var á í pistli í gær er ættarsvipur með stöðunni nú og þá. Í bæði skiptin veldur lægðardrag sem kemur yfir Grænland úr norðvestri norðankasti. Er þessi samlega - sama almanaksdag - fyrst og fremst merki um það hversu algeng staða sem þessi er. Af því að þetta veðurkerfi - norðvestandragið - sést mjög illa á hefðbundnum veðurkortum fyrr en veðrið er rúmlega skollið á er þess nærri því aldrei getið í almennum veðurfréttum t.d. í sjónvarpi. Það skellur bara á eitthvað norðanveður af tilefnislitlu.

Flestum er auðvitað alveg nákvæmlega sama hvað veldur - bara að norðanáttinni sé rétt spáð. Ritstjórinn ber fulla virðingu fyrir þessu viðhorfi - en finnst sagan samt auðlærðari ef upplýsingar um veðurkerfi fylgja.

En í viðhengjum eru upplýsingabrot um páskahretið 1963. Textaskjalið inniheldur lista um meðal-, hámarks- og lágmarkshita á landinu fram eftir apríl 1963 auk meðalvindhraða. Snerpa veðursins sést vel í þessum lista. Annað pdf-skjalið sýnir Íslandskort frá kl. 9 til 21 þann 9. apríl. Þar geta vanir menn fylgst með veðrinu á 3 klukkustunda fresti og þeir elstu rifjað upp hvar þeir voru þennan dag. Hitt pdf-skjalið sýnir aftur á móti hvernig amerísku endurgreiningarnar tvær taka á veðrinu í 500 og 1000 hPa klukkan 18 þennan dag.

Hvorug greiningin nær veðrinu alveg, sú sem er í hærri upplausn (merkt ncep) nær háloftaástandinu mun betur, en 20. aldargreiningin er nokkuð langt frá sanni í háloftum. Í 1000 hPa liggur sannleikurinn einhvers staðar milli greininganna tveggja. Báðar ná þær þó þeim gríðarlega vindstreng sem fylgdi veðrinu - og vindátt er ekki fjarri lagi.

Vonandi að einhverjir hafi gaman af.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 9. apríl 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 158
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 2167
  • Frá upphafi: 2466856

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 2003
  • Gestir í dag: 136
  • IP-tölur í dag: 131

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband