Breytingar á breytileika

Meðan við bíðum eftir næstu tíðindum af ólgunni í vestanvindabeltinu, heiðhvolfinu og við heimskautin skal litið á nördaefni - og það eru ekki einu sinni öll veðurnörd sem hafa áhuga. Eftir hver áramót er sest niður og reiknað út hvernig síðastliðið ár hefur staðið sig. Sumar tölurnar sem koma út úr því segja nákvæmlega ekki neitt einar og sér - en alltaf er gaman að sjá þær í lengra samhengi. Við lítum á þrjár slíkar mælitölur - allar reiknaðar út frá hitamælingum í Stykkishólmi.

w-blogg150113

Fyrsta myndin sýnir hvernig ársmeðalhiti hefur hnikast til frá einu ári til annars. Síðasta talan sem við höfum er munurinn á hitanum árið 2012 og hitanum 2011. Ekki er tekið tillit til þess hvort árið er kaldara en hitt, útkoman er alltaf jákvæð. Ein og sér segir er þessi tala algjörlega marklaus í öllu samhengi en ef sams konar munur er reiknaður út fyrir allt mælitímabilið (sem við ímyndum okkur að nái aftur til 1798) kemur skemmtilegur breytileiki í ljós.

Lárétti ásinn sýnir árin (merkt á tuttugu ára fresti) en sá lóðrétti hitamuninn. Við sjáum að á 19. öld er eitthvað allt annað í gangi heldur en síðar. Þá skjóta gríðarlega köld ár sér inn öðru hvoru. Árið 1892 er það síðasta á tímabilinu. En um miðja tuttugustu öld var á það minnst að eftir það hafi veðurfar bara verið nokkuð skaplegt (þótt við myndum kveina - svo góðu vön).

Tímabilið 1860 til 1870 var sérlega breytilegt - en munum að ef alltaf er jafnkalt (eða jafnhlýtt) verður munurinn frá ári til árs enginn. Tímabilið frá því um eða rétt fyrir 1970 og fram yfir 1980 virðist hafa verið nokkuð órólegt - enda var það þannig í meir en áratug að sléttatöluárin voru sæmilega hlý en oddatöluárin aftur á móti sérlega köld.

Nýja öldin byrjar með fremur litlum breytileika - e.t.v. þeim minnsta á öllu mælitímabilinu. Tuttugustualdarhlýskeiðið mikla virðist taka ámóta dýfu - en þegar betur er að gáð er það ekki síst á árabilinu 1920 til 1930 að breytileikinn er lítill - en vex síðan. Ekki er vert að draga leitnilínu í gegnum safnið (blái ferillinn er aðeins til augnhægðar) frekar að um þrep sé að ræða milli 19. og 20. aldar. Hvað gerist síðan afgang 21. aldarinnar veit enginn.

w-blogg150113a

Þá er það breytileikinn innan ársins, holdgerist hér í mismuni kaldasta og hlýjasta mánaðar. Frostaveturnir 1881 og 1918 skera sig úr með sína ofurköldu mánuði, mars 1881 og janúar 1918. Reyndar voru janúar og febrúar 1881 einnig kaldir. Hér virðist sem spönnin minnki hægt og bítandi mestallt tímabilið. Lágmark er þó árið 1922 en það var sérlega eftirtektarvert - veturinn frekar hlýr og sumarið sérlega kalt. Á árabilinu 1930 til 1940 var frekar hlýtt á sumrum en þá komu líka nokkrir allkaldir vetrarmánuðir.

w-blogg150113b

Og að lokum sjáum við breytileikann frá degi til dags. Þegar kalt er í veðri er hann meiri en annars. Þarna sker kalda tímabilið 1965 til 1985 sig vel úr og virðist svo sem nálægð hafíss norður undan skipti máli. Hæsta gildi 21. aldarinnar á 2005 - en svo skemmtilega vill til að það er einmitt mesta ísár aldarinnar - fram að þessu. [Allt má nú nöfnum nefna]. Einnig sést að „litlu hafísárin“ upp úr 1940 eru ívið hærri heldur en t.d. sá tími sem fylgdi í kjölfarið. Fyrstu 20 ár 20. aldar fylgja hér fast á eftir 19. öldinni í breytileika.

Lítill hafís mun hafa verið hér við land á árunum 1841 til 1852 og er mesta lágmark 19. aldarinnar (það við sjáum af henni) einmitt 1851 og 1852. Sagt er að árin 1844 til 1847 hafi verið alveg íslaus. Ekki er rétt að trúa því alveg því samkvæmt sama mælikvarða (Koch-mælitalan) átti líka að vera alveg íslaust 1933 til 1937 - en smámunasemi veldur því að það getur ekki talist alveg rétt. Borgarís er ekki talinn með.

Mælitölur greinir á um hvert sé íslausasta árið við Austur-Grænland - við látum þann meting eiga sig í bili. Snemma á ævi hungurdiska birtust nokkrar ritgerðir um hafís við Ísland, sem dæmi má nefna umfjöllun um vesturís í nóvember 2010.


Bloggfærslur 15. janúar 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 19
  • Sl. sólarhring: 522
  • Sl. viku: 2028
  • Frá upphafi: 2466717

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 1875
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband