2.3.2025 | 21:04
Hríðarveðrið mikla 12. til 15. janúar 1975
Tíð var erfið í janúar 1975, stórviðri tíð og sérlega mikil fannkoma. Lengsta illviðrið stóð linnulítið á fjórða sólarhring, dagana 12. til 15. Fannfergi var óvenjulegt, sérstaklega á Norður- og Austurlandi - og einnig var snjór til mikilla vandræða syðst á landinu, þótt sá snjór félli aðallega í öðrum veðrum mánaðarins.
Á 500 hPa hæðar- og þykktarkorti má sjá eðli veðursins. Lægðardrag kom yfir Grænland úr vestri og greip hlýtt loft sem kom að sunnan og lægð dýpkaði fyrir sunnan land. Eins og sjá má er vindur í miðju veðrahvolfi mjög hægur, en áttin þó suðlæg, var úr hásuðri fyrst, en síðan austlægari. Þykktarbratti er hins vegar gríðarlegur á milli hlýja loftsins úr suðaustri og mjög kaldrar tungu við Grænland. Hálendi Grænlands stíflar leið loftsins til vesturs og það verður að flæða í gríðarmiklum vindstreng til suðvesturs yfir Ísland - en í neðri hluta veðrahvolfs. Sést þetta glöggt af hinum gríðarmikla þykktarbratta yfir Íslandi. Jafnþykktarlínur liggja þar nánast hver við hlið annarrar, 3 stiga hitamunur á milli lita.
Við sjávarmál er þá norðaustanillviðri um land allt - og á hafinu fyrir norðan- og norðvestan land líka. Dæmigert norðaustanstífluveður knúið af hitamun í neðri hluta veðrahvolfs. Mikil úrkoma er austast á landinu þar sem hlýtt loft liggur ofan á því kalda. Kortið sýnir stöðuna á hádegi, sunnudaginn 12.janúar, fyrsta dag illviðrisins.
Blöðin birtu langar frásagnir af gangi veðursins, fannkomu og ófærð, síðan einnig snjóflóðum. Veðrið skall á á sunnudegi þannig að fyrstu blaðafréttir komu á þriðja degi, þann 14. Við leyfum okkur að hnika stafsetningu á fáeinum stöðum, en styttingar eru ekki margar. Tíminn segir frá þann dag:
Um miðjan dag í gær [13.] var veðurhæðin mjög víða 9 til 10 vindstig, og hafði verið í fyrrinótt og gærmorgun, bæði á og í kringum landið. Þessu veðri fylgdi mikil snjókoma fyrir norðan, og þar var frostið i kringum fimm stig, á Vestfjörðum fór frostið í 9 stig, en frostlaust var á Austfjörðum og á Suðausturlandi. Sunnanlands var hríðarmoldroksmugga í lofti, eins og veðurfræðingur komst að orði við Tímann, en úrkomulaust að heita
mátti. Veðurfræðingur taldi, að veðrið færi heldur að ganga niður, enda var vindhraðinn þá kominn niður í 10 vindstig í Æðey úr tólf vindstigum fyrr í gærdag. Í dag var spáð talsvert mikilli norðanátt á landinu, þótt fari að draga úr mesta ofsanum. Einnig var búist við, að veðrið ætti eftir að geta orðið mjög slæmt á Austfjörðum ennþá, því að áttin væri slík.
Hjá vegagerðinni fengum við þær upplýsingar hjá Hjörleifi Ólafssyni, að fært hefði verið í gærdag um Suðurlandsundirlendið, um Hellisheiði og allt austur i Mýrdal. Dimmviðri hafði þó verið á Hellisheiði, en þrátt fyrir það talið fært þar yfir. Einnig var dimmviðri á Suðurnesjum, og ófært var i gær í Hafnirnar og suður í Garð, þó var aðalleiðin til Keflavikur, Sandgerðis og til Grindavikur fær. Það átti að heita fært upp i Borgarfjörð, þar sem ekki var snjór á veginum, en hins vegar var afspyrnu rok og þess vegna var mjög slæmt ferðaveður. Síðan mátti heita, að blindbylur og ófærð væri alls staðar annars staðar á landinu. Þó var sú undantekning, að á Patreksfirði var veðrið ekki sem verst, og í gær komust bilar milli Patreksfjarðar og Bíldudals. Hjá Landhelgisgæslunni fengum við þær upplýsingar, að með rokinu hefðu togarar af miðunum leitað vars undir Grænuhlið, og lægju þar nú í vari togarar af öllum þjóðernum og tegundum.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar i Reykjavik var umferð í borginni fremur róleg í gær og í fullu samræmi við veðurhaminn. Tafir urðu því litlar sem engar, og fremur rólegur dagur. Fólk hélt sig líka mest innanhúss, það sem fékk því viðkomið, en utan þeirra, sem ekki gátu hjá því komist að vera á ferli, má nefna það, að ekki gátu allir stillt sig um að kíkja á útsölurnar, en óveðrið feykti sumu fólki, sem á ferð var og munu í sumum tilfellum hafa hlotist af einhver meiðsl. Í Hafnarfirði gætti óveðursins ekki, þar var að heita mátti logn í gær og ekki snjókorn á flögri, hvað þá meir. Í Kópavogi gekk umferð með eðlilegum hætti og veður ekki tiltakanlega slæmt. Þó mun hafa losnað um húsþak á sunnudagskvöldið, en það var fljótlega njörvað rammlega niður. Í Grindavik var mikill snjór og mikið fjúk um helgina. Færð var slæm, svo að við lá að vegurinn þangað tepptist svo og umferð, en hefillinn bjargaði málum við, þótt oft mætti ekki miklu muna. Í Sandgerði var kófið svo mikið í gær, að naumast sást á milli húsa, og unnu þar 3 ruðningstæki að því að halda vegum opnum. Var fjúkið svo mikið, að á Miðnessneiðinni var því líkast sem ekið væri í gegnum snjóvegg. Þrátt fyrir erfiðleikana hefur verið unnt að halda vegum opnum, bæði til Keflavikur og út í Garð. Í Keflavík var næðingur og fjúk í gær, en vel fært um alla vegi og götur. Í fyrrinótt kom skuttogarinn Aðalvík inn í Keflavikurhöfn. Þótti vissara að hafa hann ekki i Njarðvíkurhöfn á stórstreyminu í gær. Á Akranesi var mikið fjúk og hvasst, en ekki var kunnugt um neitt tjón af völdum veðursins, er blaðið hafði samband við lögregluna þar í gær. Í Borgarnesi fengum við þær upplýsingar, að þar væri besta veður, en vitlaust veður allt í kring, og þyrfti ekki að fara langt út fyrir bæinn til þess að lenda í hinni verstu færð. Þá hefði líka fennt í grenndinni. Í Norðurárdalnum skóf harðfenni um helgina, svo að rúður brotnuðu í húsi þar, en um annað tjón var ekki kunnugt.
Til Stykkishólms komu engir bílar og engin mjólk í gær. Ekki festi þar mikinn snjó, en hins vegar hefur skafið mikið saman í skafla. Áætlunarbíllinn fór á sunnudaginn um Álftafjörð og suður Heydal en í gær var ekki búist við að Álftafjörðurinn væri fær, þótt það hefði ekki verið kannað. Síðari hluta föstudags skall vont veður á á Þingeyri og fór versnandi á laugardag, og einnig á sunnudag. Var þá hvöss austanátt og norðaustanátt. Aldrei var þó neitt stórviðri á Þingeyri, mest sjö vindstig, að sögn fréttaritara blaðsins þar. Snjókoma var þó talsvert mikil. Vegir tepptust minna i þessu veðri en oft áður, þar sem hvassviðrið var þó þetta mikið. Samt lokuðust vegir, og á mánudagsmorgun varð að fara á veghefli til þess að opna leið fyrir mjólkurbila og fyrir skólafólk, sem ekki komst í skóla á réttum tíma. Talsvert frost hefur verið, og í gær var níu stiga frost. Veður hefur verið mjög slæmt á Ísafirði frá því seinni hluta dags á laugardag, og þar hefur snjóað mikið. Fjöldinn allur af skipum liggur inni á Ísafirði, þar á meðal margir togarar, sem hafa fiskað ágætlega að undanförnu, en urðu nú að leita vars vegna veðurs. Á Ísafirði er nóg rafmagn, að sögn fréttaritara blaðsins, og þar hefur ekki þurft að fresta neinum skólum, við erum svo vanir þessum byljum, sagði hann. Veður hefur verið mjög slæmt nú um helgina á Hólmavik og þar í kring. Rafmagn hefur verið þar með skárra móti, en Hólmvíkingar hafa búið við rafmagnsskort frá því fyrir jól, en nú er komin þangað díselstöð, sem á að bæta nokkuð úr vandanum. Díselstöðin er hins vegar ekki nægilega aflmikil, og er spennufall mikið af þeim sökum, að sögn fréttaritara blaðsins á Hólmavik.
Ekki var hægt að ná sambandi við Hvammstanga í gær, en samkvæmt fréttum, sem okkur bárust frá Blönduósi var rafmagnslaust á Hvammstanga, og þar var síminn einnig i ólagi vegna rafmagnsleysisins. Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum sagði í viðtali við Tímann, að það væri mjög alvarlegt, að heilt þorp skyldi verða algjörlega sambandslaust við umheiminn vegna þess að rafmagnið færi af. Sagðist hann ekki vita til þess að rafvirkjar eða símaviðgerðarmenn væru búsettir á Hvammstanga, og enginn maður gat komist i gær frá Blönduósi til Hvammstanga til þess að lagfæra þar það sem aflaga hafði farið. Sæbjörn HU3 sökk i höfninni á Skagaströnd, vegna þess að mikil ísing hafði hlaðist á bátinn. Vöktuðu menn bátana í höfninni og hjuggu af þeim ísinguna eftir því sem hægt var, en veður var mjög slæmt á Skagaströnd. Vonskuveður hefur verið hér í Húnavatnssýslum síðan á sunnudag sagði Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum. Geisaði fyrst stórhríð á Blönduósi, en náði ekki fram í dalina að ráði fyrr en á mánudag. Frést hefur af einhverjum rafmagnsbilunum i sýslunum, en þær fást ekki staðfestar hér fyrir norðan, heldur verður að afla slíkra upplýsinga hjá sérstökum starfsmanni Rafmagnsveitnanna i Reykjavik, en það er kafli út af fyrir sig. Á Sauðárkróki hefur verið ofsarok á norðan og stórhríð undanfarna daga. Allt er ófært, og enginn bíll hafði komið til bæjarins í gær, þegar Tíminn hafði samband við fréttaritara sinn á staðnum. Sagði hann, að þetta væri versta veður á vetrinum, en ekki væri þó mikið frost.
Á Siglufirði voru skólar lokaðir í gær vegna veðurs. Veðurofsinn var mjög mikill í gær, og á sunnudaginn, höfðu menn vart komið út í aðra eins bylji, að sögn fréttaritarans. Snjórinn er ekki mikill, en skaflarnir aftur á móti óskaplegir. því allur snjórinn er kominn í skafla, og autt á milli. Skaflarnir eru viða orðnir jafnháir húsunum. Enginn snjór er í fjöllunum umhverfis Siglufjörð. Í gærkvöldi var heldur farið að lægja, en þó var enn iðulaus stórhríð. Hér á Akureyri var leiðindaveður á sunnudag, en um kvöldið færðist veðrið mjög í aukana og síðan hefur verið hér nær iðulaus stórhríð og i verstu hviðunum er vindurinn um níu stig, sagði Árni Magnússon hjá Akureyrarlögreglunni í viðtali við Tímann i gær. Færð er mjög slæm og raunar ófært víðast hvar í bænum og allir vegir út frá Akureyri eru tepptir.
Hér hefur verið hið versta veður, sagði Ingimundur Hjálmarsson, fréttaritari Tímans, í Seyðisfirði, við blaðið i gær, og allt á kafi í snjó, en frostlaust að kalla. Á Selsstöðum, hér út með firðinum, var slíkt afspyrnuveður, að húsið skalf og nötraði. Við erum hér alveg innilokaðir, því að Fjarðarheiði er ófær og flugvöllurinn á kafi, og innanbæjar er ekki fært nema á snjóbilum. Margir síldarbátar hafa leitað hingað undan veðrinu. Undirbúa átti Hafsíldarverksmiðjuna fyrir bræðslu, en hún stendur sem kunnugt er á viðsjárverðum stað undir Bjólfinum. Tveir menn lögðu af stað þangað fótgangandi, en sneru við af ótta við, að snjóflóð kynni að koma. Hér hefur verið alveg brjálað veður, og er ekki enn farið að ganga niður, sagði Benedikt Guttormsson, fréttaritari Tímans í Neskaupstað. Allt er hér ófært, og Bjartur hefur i heilan sólarhring verið hér fyrir utan og beðið færis að leggjast að bryggju. Dísarfellið biður þess einnig að komast upp að, en Börkur liggur við bryggju. Tvo báta rak upp i nýju höfninni fyrir fjarðarbotninum. Rafmagnslaust varð hér frammi í sveitinni á mánudagsnóttina, en viðgerð lauk, þegar kom fram á morguninn. Reyðarfjörður er eins og eyja í óveðurshafi, sagði Marinó Sigurbjörnsson, fréttaritari Tímans þar. Þótt allt hafi ætlað af göflunum að ganga í kring um okkur, hefur hér verið logn með mikilli snjókomu, og er nýja snjólagið allt að hálfur metri. Ekki hefur verið lagt i að ryðja Fagradal, en hér í Reyðarfirði eru snjósleðar á þeytingi um allar trissur. Engin mjólk hefur borist hingað. Aftur á móti fóru jafnvel smábörn i skóla, þótt kennslu væri viða aflýst hér austan lands. Verið er að gera við rafmagnslínuna milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en hún liggur héðan upp á svokallaða Skessu og yfir Stuðlaheiði í átta til níu hundruð metra hæð yfir sjávarflöt. Hér hefur verið blindbylur í tvo sólarhringa, og allir vegir á Héraði eru á kafi í snjó, sagði Jón Kristjánsson, fréttaritari Tímans á Egilsstöðum.Ekkert hefur verið ýtt af götum hér í þorpinu, og engin mjólk hefur borist úr sveitunum. Rafmagn höfum við haft hér um slóðir, en sjónvarpið brást á sunnudaginn og er endurvarpsstöðin á Gagnheiði enn biluð. Í Borgarfirði eystra mun vera rafmagnslaust í sveitinni vegna línubilunar.
Við erum hér alveg innilokuð, sagði Símon Gunnarsson, fréttaritari Tímans í Vík í Mýrdal og snjórinn alveg óskaplegur. Ýtan okkar er biluð, en ýta frá Selfossi er á leið vestan yfir, bíður þess að komast suður, og læknirinn okkar, sem var meðal þeirra, sem urðu, fyrir mestum töfum á leið hingað á dögunum, er í þann veginn að tygja sig til ferðar á snjóbil til þess að vitja veiks manns í Álftaveri. Í Vestmannaeyjum var blankalogn, þegar við ræddum við lögregluna þar í gær. Töluverður snjór er í Eyjum, en ekkert snjóaði þar um helgina.
Vísir segir einnig frá 14.janúar:
Á Húsavík er nú eitt versta veður, sem menn muna eftir lengi, linnulaus stórhríð. Veður þetta hefur haldist frá því á aðfaranótt sunnudags, og er nú svo komið, að menn verða víða að grafa sig út úr húsum sínum,og komast vart á milli húsa sökum ófærðar. Skaflar nema víða við þakbrúnir. Ingvar sagði til dæmis, að snjóað hefði upp fyrir dyr og glugga i verslun hans, sem er til húsa á jarðhæð, og varð að loka versluninni i gær og aftur i dag vegna þessa. Og það hefur ekki skeð áður, síðan Ingvar tók við versluninni, en það var árið 1945. Skólar eru allir lokaðir og fólk er teppt á Húsavik. Engin mjólk hefur komið til bæjarins, en ekki er þó mjólkurleysi. Í mestu hviðunum sér ekki á milli húsa.
Tíminn heldur áfram 15.janúar:
EDAkureyri. Óveðrinu slotaði ekki á Norðurlandi í gærdag. Alls staðar, þar sem samband náðist við menn, höfðu þeir þá sögu að segja, að snjókoman væri gífurleg og ófært um allt. Hið versta veður var enn í gærdag á Skagaströnd með snjókomu og snjór var þar orðinn gífurlegur, og allir vegir ófærir. Þar sökk 15 tonna bátur í höfninni eins og áður hefur verið skýrt frá í Tímanum, vegna ísingar, sem á hann hlóðst, og annar bátur var þar nær sokkinn á mánudagskvöldið af sömu orsökum. Sjómenn börðu þarna klaka af bátum sinum dag og nótt, þegar veðrið var hvað verst, og ísingin örust. Eitthvað mun hafa brotnað af rúðum í húsum á Skagaströnd, þegar veður var verst. Engin mjólk hafði í gær borist mjólkursamlaginu á Blönduósi síðan á föstudaginn, og í gær var enn hið versta veður. Tæplega var farandi á Blönduósi á milli húsa. Snjóbíll er i Vatnsdalnum, og hafa menn haft af honum mikið gagn. Öll umferð var teppt vegna snjóa á Sauðárkróki, og þangað hafa enn engir bílar komið frá því um helgi. Í gær var aðeins jeppafæri á einni götu bæjarins, og illfært þó. Hjá vegagerðinni á Akureyri fengust þær upplýsingar að enginn mjólkurbíll hefði komist til Akureyrar frá því um helgi, og ekki var útlit fyrir að bíll kæmist þangað með mjólk í gær. Eins og veðrið var í gær virtist ekki unnt að gera neitt á vegunum. Voru allir vegir út frá bænum ófærir öllum venjulegum bílum, og vegagerðarmenn voru í gær mikið á aðra klukkustund á leiðinni á vinnustað í gærmorgun, en höfðu þó tvo veghefla á undan sér. Aðsetur vegagerðarinnar er vestanvert við bæinn. Þá sagði yfirlögregluþjónninn á Akureyri í gær, að hann hefði ekki séð eins mikinn snjó síðan hann flutti á Ásveginn. Í nýlegum hverfum vestanvert í bænum eru skaflar jafnháir húsum. Allar samgöngur hafa því rofnað. Snjóbílar hafa verið í stöðugum ferðum, t.d. hafa tveir snjóbílar Baldurs Sigurðssonar verið á ferð síðustu sólarhringa og ennfremur snjóbíll Dúa Eðvaldssonar, og einnig koma vélsleðar sér vel þessa dagana.
Stórhríðarveður var enn á Húsavik í gær, og kominn geysilegur snjór. Garðarsbraut var rudd á mánudag og komu þá háir ruðningar. Fyllti á milli þeirra í fyrrinótt af snjó. Kunnur bilstjóri, Skarphéðinn Jónasson fór héðan fram i Reykjahverfi á mánudag með mjólkurbrúsa til bændanna, og enginn veit hvernig honum hefur reitt af að sækja brúsana aftur í gær. Mjólkurbíll var lagður af stað til Húsavikur í gær úr Aðaldal, en ekkert hafði frést af honum síðdegis í gær. Stórfenni var þá milli húsa á Húsavik og hafði fólk sjaldan séð meiri snjó. Á Dalvik var fannfergi orðið ótrúlega mikið, og ekki mun fólk alls staðar hafa komist fyrirhafnarlaust út úr húsum sinum í gærmorgun. Menn muna þar tæplega eftir öðru eins stórfenni, og enn var þar látlaus stórhríð i gærdag. Enginn vegarspotti var þar fær, né í nágrenni bæjarins. Mjólkurbílar, sem fóru af stað fram í sveit á sunnudag komust skammt, og urðu að snúa við, og við það situr. Í Hrísey var í gær kominn geysilega mikill snjór, og sá þá skrifstofufólk kaupfélagsins ekki út um neinn glugga, því að allt var þar á kafi i snjó. Menn sögðust þar reyndar hafa séð stærri skafla, en aldrei eins jafnfallinn snjó og jafnmikinn og er nú í Hrísey.
JK-Egilsstöðum. Enn er blindbylur og mikil veðurhæð á Fljótsdalshéraði, og hefur víða hlaðist ákaflega mikill snjór á húsþök. Á Árbakka í Hróarstungu hefur fjárhúsþak sligast undan snjóþunganum ofan á féð, sem inni var, og orðið einhverju af því að fjörtjóni. Bóndi á Árbakka er Hafsteinn Kröyer, en ekki er vitað, fyrir hversu miklum fjárskaða hann hefur orðið, því að lítið hefur verið aðhafst vegna veðurofsans. Víðar á Héraði eru flöt og stór húsþök talin í hættu vegna snjóþungans á þeim, og er sums staðar farið að setja styttur undir þök stórra útihúsa til þess að styrkja þau. Þannig eru bændur á Egilsstöðum að slá stoðum undir þök fjóss og hlöðu, og hið sama hefur víðar verið gripið til bragðs.
Símabilanir eru þó nokkrar á Fljótsdalshéraði, og eru þess vegna óljósar eða alls engar spurnir úr sumum byggðarlögum, og vegir allir eru ófærir eins og gefur að skilja. Rafmagnslaust er uppi á Jökuldal, og ekki er kunnugt, hvað bilað hefur þar, en annars staðar mun rafmagn vera yfirleitt.
BSHvammstanga. Íbúar á Hvammstanga hafa verið rafmagnslausir frá því klukkan 10 á sunnudagskvöldið, og voru það enn kl.7 i gær. Nær rafmagnsleysið til Hvammstanga og Vatnsness, norðan Hvammstanga. Þá hafa Hvammstangabúar verið símasambandslausir frá því skömmu eftir að rafmagnið fór þar til um 6 i gær. Sjálfvirki síminn hefur verið úr sambandi vegna rafmagnsleysis, en á hinn bóginn hefur gengið ágætlega að ná sambandi frá símstöðinni sjálfri og út um sveitir. Á mánudaginn var reynt að sækja hér innan staðar, rafstöð, sem Vegagerð ríkisins á, en menn urðu frá að hverfa vegna veðurs. Síðan var aftur reynt á þriðjudagsmorgun. Var þá lagt af stað á stærsta veghefli staðarins, til þess að ná stöðinni, sem var rúman hálfan km frá símstöðinni. Lagt var upp kl.9 i morgun, og um fjögurleytið var fyrst hægt að fara að tengja hana. Eftir það komst fjölsíminn i samband. Ekki gátu menn þeir, sem voru að sækja stöðina komist heim í mat, vegna þess hve færðin var erfið, heldur fengu þeir hressingu i mjólkurstöðinni, vegna þess að mjólkurstöðin, slökkvistöðin og eitt búðarhús eru með rafmagn. Fólk hefur haldið sig að mestu innan dyra. Sumir hafa verið innifenntir, og ekki komist út, og ekki heldur getað haft samband við nágranna sina vegna símasambandsleysisins, til þess að biðja þá að moka sig út.
SS-Vopnafirði. Aftakaveður hefur verið á Vopnafirði frá því á laugardagskvöld, og hefur sett niður mikinn snjó. Allar götur í þorpinu eru ófærar, svo og vegir í nágrenninu. Mjólk hefur ekki borist hingað síðan á föstudag, og er nú mjólkurlaust. Snjóbíll átti að sækja mjólk á næstu bæi, en varð að snúa við sökum illviðris. Olíubirgðir eru nú á þrotum hér, og ekki er til olía nema til nokkurra daga. Í þessum veðurham hafa orðið verulegar skemmdir við höfnina, og er ekki séð fyrir þær enn. Saman hefur farið aftakabrim, svo að menn muna vart annað eins, og stórstraumsflóð. Brimið hefur rofið tvö skörð í hafnargarðinn, og óttast er, að sjórinn haldi áfram að brjóta garðinn, því að veður fer enn harðnandi. Þá hefur sjórinn brotið að mestu húseignir við gömlu hafskipabryggjuna, sem áður var söltunarstöðin Hafblik hf, en er nú i eigu kaupfélagsins. Einnig hefur sjór flætt inn í eina af vöruskemmum kaupfélagsins, þar sem m.a. voru geymdar fóðurvörubirgðir. Var unnið að því í gær, að bjarga fóðurvörunum. Var ekki vitað seint i gær, hversu miklar skemmdirnar voru. Þá hefur og margt annað gengið úr lagi við höfnina, sem ekki hefur verið hægt að kanna sökum illveðursins og brims, því að segja má, að allar bryggjur í höfninni séu á kafi í sjó. Ekki hefur frést um tjón á öðrum mannvirkjum á landi uppi. Úr sveitinni hafa nú verið heldur litlar fréttir, en ekki hefur frést um skaða. Þó hafa bændur átt í einhverjum örðugleikum við að fara til gegninga og dæmi eru um, að þeir hafi þurft að skríða milli húsa. Skólar hafa legið hér niðri, og börn úr heimavistarskólanum, sem keyrð voru heim á föstudagskvöld, hafa ekki komist aftur i skólann. Sjónvarp hefur ekki sést hér síðan á laugardag. Er það ekkert nýtt, því að ekki virðist mega koma snjókorn úr lofti, þá bilar stöðin á Gagnheiði, og er hún svo oft í ólagi dögum saman.
SJ-Reykjavik. Stórhríð hefur verið á Þórshöfn að heita má síðan 8. desember að sögn Óla Halldórssonar, fréttaritara okkar á Gunnarsstöðum. Síðan á laugardag hefur veðrið verið sérstaklega vont og hefur ekki slotað enn, sagði Óli i símtali i gær. Ófært er á Þórshöfn og i nágrenni og fólk fer litið af bæ. Þó komast menn um á vélsleðum, ef brýn þörf er á. Síðan að ganga níu á þriðjudagsmorgun hafði verið rafmagnslaust á Þórshöfn, og sjónvarp hefur ekki sést þar síðan á laugardag. Í Holti skammt frá Þórshöfn var þak á hlöðu farið að gefa sig undan fannferginu, sem á því var. Réðust menn i að styrkja þakið, og gekk það vel. Háspennulinur á Þórshöfn eru nú i seilingarhæð, svo mikill er snjórinn. Foreldrar hafa verið beðnir að sjá um, að börn séu ekki að leik á sköflunum, þar sem þau gætu náð að snerta línurnar.
SJ-Reykjavik. Rafmagnslaust var á sunnanverðu Snæfellsnesi i gær og fyrrinótt. Það var þó ekki nýja háspennulinan, sem bilaði, heldur línur í sveitunum. Um miðjan dag var sums staðar kominn á straumur, en rafmagnslaust annars staðar. Menn frá Orkustofnun voru komnir vestur, en gátu litið að gert, því að ekki var stætt úti i veðrinu. Í Skagafirði var eitthvert straumleysi, að sögn Baldurs Helgasonar hjá Orkustofnun. Þar var einnig skammtað rafmagn. Í Dölum var einnig býsna víða rafmagnslaust, sennilega vegna bilana á línum af völdum storms og áfoks. Í Húnavatnssýslum var víða rafmagnslaust, svo sem i Vatnsdal, Langadal, Hvammstanga, Svínadal, Borðeyri að hluta og á Strandalínu frá Borðeyri. Á öllum þessum stöðum var það sameiginlegt að viðgerðarmenn gátu lítið að gert. Veðurofsinn var svo mikill, að skríða varð milli húsa. Snjókófið var það mikið að erfitt var að gera sér grein fyrir, hverjar bilanirnar i raun og veru voru. Þá er og mikill krapi i virkjunum, sem einnig dregur úr rafmagninu.
Flugskýli Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli brann í þessu veðri. Tíminn segir 15.janúar: Ofsarok af norðri, allt upp í 11 vindstig, erfiðleikar við áð fá nægilegt vatn til slökkvistarfsins, eldfim klæðning í byggingunum sem eldurinn lék um.
Morgunblaðið var með mjög ítarlegar fregnir af veðrinu þann 15.janúar:
Siglufirði, 13. janúar Í ofsaveðrinu, sem geisaði hér um helgina, urðu skemmdir á kirkju bæjarins. Stormurinn reif járn af þaki kirkjunnar að sunnanverðu og timburklæðningin undir járninu varð líka fyrir skemmdum. Það kom sér vel, að hér í bænum er sveit hraustra manna, Björgunarsveitin Strákar. Til þeirra var leitað og björguðu þeir því, sem bjargað varð og forðuðu kirkjunni frá enn frekari skemmdum. Að vísu brotnaði einn hinna steindu glugga kirkjunnar, sem settir voru í nú í haust. Hér á Siglufirði sem öðrum norðlenskum bæjum er mikið vetrarríki með feikna fannfergi og ófærð. mj.
Stórviðri með gífurlegum fannburði geisaði í gær og hafði staðið nær óslitið síðan um helgi frá austanverðum Vestfjarðakjálka um Norðurland og suður á miðja Austfirði. Á Suður- og Vesturlandi var mikil veðurhæð en úrkomulaust víðast hvar. Morgunblaðið hafði í gær samband við fréttaritara sína í öllum landshlutum og fer lýsing þeirra á veðurfari og ástandi hér á eftir. Til sumra héraða var símasambandslaust og má þar t.d. nefna Vopnafjörð, Raufarhöfn og Kópasker. Eins og fram kemur hér á eftir er víða farið að bera á erfiðleikum vegna mjólkurskorts og á Borgarfirði eystra er einnig að verða skortur á helstu nauðsynjavörum. Snjófargið er víða ótrúlegt, svo sem t.d. á Akureyri, þar sem menn hafa leitast við af veikum mætti að halda helstu umferðargötum opnum með því að gera um þær traðir. Erfitt hefur þó reynst að halda tröðunum opnum, vegna þess hve ótt fýkur í þær. Traðirnar á Akureyri eru víða á jafnsléttu orðnar á fjórða metra á dýpt eða eins og Sverrir Pálsson, fréttaritari Morgunblaðsins, sagði í gær: Það trúir þessu enginn, sem ekki sér.
Júlíus Þórðarson á Akranesi sagði að aftakaveður hefði verið þar í fyrrinótt, en í gær var heldur hægara. Engir skaðar urðu af veðri og Akraborgin hélt áætlun sinni og færð var góð um nágrennið. Rafmagn fór af á Akranesi í gær um hálfa klukkustund. Júlíus sagði, að oft og tíðum væri dágott veður í stífri norðanátt og teldu menn að Skarðsheiðin veitti skjól. Því sagði hann að skaplegt veður gæti verið á Akranesi, þótt skæfi duglega út báða firðina. Í fyrrinótt kvað Júlíus fólk hafa átt erfitt með svefn í húsum, sem voru áveðurs einkum í timburhúsum.
Borgarnes. Hörður Jóhannesson í Borgarnesi sagði að þar hefði verið hvassviðri, en ekkert hefði orðið að. Veðurhamurinn hefði ekki verið svo mikill sem lýsingar frá öðrum stöðum gæfu til kynna. Þó sagðist hann hafa frétt að vitlaust veður væri í Borgarfjarðarhéraði og mikið fannfergi á Snæfellsnesi og í Dölum.
Grundarfjörður Emil Magnússon í Grundarfirði sagði, að óveður það, sem gengið hefði yfir landið að undanförnu. hefði að litlu gætt í Grundarfirði, nema hvað mjólkurflutningar hefðu stöðvast úr Búðardal vegna ófærðar og veðrahams. Hefur mjólk ekki borist í þorpin á norðanverðu Snæfellsnesi í tvo daga. Ekki er vitað, hvort mjólk kemur í dag. Samgöngur í þorpinu hafa verið með eðlilegum hætti, en strax og komið hefur verið út fyrir þorpið hefur veðurhæðin verið miklu meiri og nánast stórviðri á köflum. Rafmagn sem við fáum frá Fossárvirkjun í Ölafsvik hefur ekki brugðist og kennsla í skólum aldrei fallið niður. Emil sagðist hafa haft tal af mönnum, sem fóru til Ólafsvíkur og komu aftur og sögðu þeir veginn snjólausan, en mikið rok eftir því sem utar dregur á nesið.
Kristjana Helgadóttir í Búðardal sagðist naumast sjá út úr gluggum fyrir stórhríð. Veðrið versnaði mjög í fyrrinótt þar vestra, um klukkan 02, og sagðist Kristjana geta trúað að veðurhæðin hefði komist í 11 til 12 vindstig. Um klukkan 04 lægði nokkuð aftur. Rafmagnslaust var í gær í Dölum og vegna veðurs voru viðgerðarmenn ekki sendir út. Var það mat manna að þeir myndu ekki geta athafnað sig í illviðrinu. Olíubílar og fleiri bílar, sem komu úr Reykjavík á sunnudag, eru enn veðurtepptir á Hörðubóli. Þá hafa truflanir verið á símasambandi og þegar Morgunblaðið ræddi við Kristjönu í gær var sambandið mjög slitrótt, en línan, sem samtalið fór um, var eina línan, sem þá var í lagi.
Hafsteinn Ólafsson í Fornahvammi sagði, að þar væri iðulaus stórhríð og var skyggni ekki nema um 3 metrar, er Morgunblaðið ræddi við hann á þriðja tímanum í gær. Þetta stórviðri sagði hann hafa staðið óslitið í tvo sólarhringa og þó hefði verið slæmt veður áður. Engir eru veðurtepptir á Holtavörðuheiði eða í Fornahvammi. Hafsteinn sagði, að þetta væri fimmti vetur sinn í Fornahvammi og sá langversti. Hann sagðist ekki hafa komist til þess að gefa hrossum sínum á sunnudag. Í fyrradag reyndi hann að komast í hesthúsin, en varð frá að hverfa vegna veðurs og sagði Hafsteinn að hann hreinlega þyrði ekki út í veðrið af ótta við að finna ekki húsið aftur. Sem dæmi um óveðrið sagði hann að kjallaradyr, sem stæðu áveðurs, hefðu opnast og hefði forstofa þar fyllst af snjó á augabragði. Þá sagði hann að snjór hefði komist í kyndiklefann hjá sér og slokknað hefði á kyndingunni, en honum hefði þó tekist að koma henni í gang á ný. Hér er enginn á ferð, sagði Hafsteinn, hér sést ekki einu sinni fugl.
Páll Ágústsson á Patreksfirði sagði: Hér er ljómandi gott veður, hægviðri og heiðskírt. Aftur á móti er stórviðri úti á miðunum. Þótt hér hafi verið smástrekkingur hefur ekkert verið það að veðri að í frásögur sé færandi og börn hafa sótt skóla eins og ekkert væri síðustu daga. Ekki hefur gefið á sjó vegna ísingar og roks þar úti. Rafmagn nóg og allt í sómanum.
Ragnheiður Ólafsdóttir, Tálknafirði, sagði að veður hefði verið vont og leiðinlegt, en ekki svo að vandræðum hefði valdið. Það hefur verið rokhvasst og skafið og ekki gefið á sjó. Frost er varla meira en 67 stig. Flestir halda sig inni við og skóli hefur ekki verið í nokkra daga. Varastöð er hér á staðnum, svo að engin rafmagnsvandræði hafa verið. Nú virðist vera að skána og létta til. Aftur á móti er veðrið fyrir norðan okkur miklu verra enda skiptir yfirleitt um Arnarfjörðinn. Færð hefur verið dágóð, en þó mun í dag vera ófært héðan bæði til Patreksfjarðar og Bíldudals.
Ólafur Þórðarson á Ísafirði sagði að þar væri ekki hundi út sigandi, iðulaus stórhríð og hefði þetta veður staðið alveg frá því á föstudag. Í raun sagði hann að mikil ótíð hefði verið frá 27. desember með sæmilegu hléi í eina viku. Helstu götur voru mokaðar á Ísafirði í gær og myndaðir í þær gangar, en Ólafur sagði að erfitt reyndist að halda þeim opnum vegna fannkomu. Á Ísafirði lágu í höfn í gær 3 breskir togarar, 8 íslenskir svo og Brúarfoss. Undir Grænuhlíð lágu í gær 40 skip í vari, þar á meðal eitt af Fellum Sambandsins og annað var í vari í Aðalvík. Í mestu hviðunum sagði Ólafur að væru um 12 vindstig og kvað hann veðrið vera heldur verra síðdegis en það hefði verið í gærmorgun.
Magnús Gíslason á Stað í Hrútafirði sagði Morgunblaðinu eftirfarandi: Leiðindahríð hefur verið hér síðan í fyrradag, en fyrir hádegi í dag rofaði til nokkra stund. Nú sýnist vera að versna aftur. Veðurhæð hefur verið feiknaleg og skafið öðru hverju. Hingað kom þó bíll í gær frá Skálholtsvík á Ströndum, sem er um 40 km vegalengd og lét bílstjóri ekki illa af færðinni. Vafamál er þó hvort fært sé lengra og yfir Hrútafjarðarháls hefur enginn farið. Unglingar hafa ekki verið fluttir í skóla í dag vegna veðurs og ófærðar. Rafmagnsmál hafa verið í skínandi lagi og við höfum varla misst nokkuð nema um eina klukkustund í gær. Á Borðeyri aftur á móti hef ég fyrir satt að séu erfiðleikar að því leyti.
Allengi hefur verið algjörlega símasambandslaust við Hvammstanga. Rafmagn fór af á Hvammstanga á sunnudag og notast síminn i slíkum tilfellum við rafmagn frá rafgeymum. En þeir endast aðeins skamma hríð. Um fimmleytið í gær náði Morgunblaðið símasambandi við símstöðina á Hvammstanga. Þar var þá enn allt rafmagnslaust, nema símstöðin, sem hafði þá fengið að láni frá Vegagerð ríkisins litla dísilstöð. Var þá enn ekki unnt að tala við íbúa á Hvammstanga, vegna þess að rafgeymarnir höfðu ekki náð að hlaðast rafmagni að nýju. Símstöðin tjáði Morgunblaðinu, að ástandið þar væri mjög erfitt. Dísilstöð vegagerðarinnar hafi t.d. verið í um eins kílómetra fjarlægð frá símstöðinni og hefði það tekið starfsmenn símans um 7 klukkustundir að koma henni að símstöðinni, svo að hún gæti tengst símakerfinu. Óhemjusnjór er á Hvammstanga og ekki fært nema gangandi milli húsa. Einnig var þar svo mikið rok að menn réðu sér varla. Sú er þó bót í máli að á Hvammstanga er hitaveita og hlýtt í húsum. Í kvöld tókst Karli Sigurgeirssyni, fréttaritara Morgunblaðsins að ná símasambandi gegnum varastöðina stutta stund. Hann sagði að stórhríðin væri glórulaus og stytti aldrei upp. Ekki sæist einu sinni til þriggja báta úti á legunni þar sem skyggni væri aðeins örfáir metrar. Hann sagði að mannlíf væri í láginni og fólk sem minnst á ferli. Kaupfélagið hefði haft einhverja vakt í verslun sinni, en aðrar verslanir væru ekki opnar, enda væri færðin slík að veghefill hefði verið margar klukkustundir að komast í gegnum þorpið til að ná i varastöðina.
Guðjón Sigurðsson á Sauðárkróki, sagði að fannfergi væri þar mikið og rétt jeppafært um götur. Í dag hefur gengið á með snörpum éljum, en þó er vindur ívið hægari en í gær. Alls staðar er ófært í nágrannasveitum. Í gær, mánudag, bárust um 200 l af mjólk til bæjarins frá Áshildarholti sem er hér skammt frá kaupstaðnum. Að óbreyttu veðurfari verður ekki mokað strax. Hver verður því að vera þar sem hann er kominn. Þetta mikla fannfergi veldur bændum óskaplegum vandræðum, því að þeir hafa engin tök á að geyma mjólkina nema um skamma hríð og á morgun er hætt við að mjólkurskortur hér fari að gera vart við sig. Tvö Sambandsskip voru á leið hingað með vörur en liggja nú í vari undir Grænuhlið og treysta sér ekki áfram. Ekki hef ég heyrt um neina skaða né skemmdir, hvorki úr sveitunum né héðan, sagði Guðjón að lokum.
Fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði, Matthías Jóhannsson, sagði: Það birti aðeins upp aðfararnótt þriðjudags og var sæmilegt veður í morgun, en nú er skollin á norðaustan stórhríð aftur. Eru nú hér um 89 vindstig, en frostlítið. Skólar og barnaheimili voru lokuð í gær, en starfa í dag. Mjólkurlaust er í bænum og báturinn, sem átti að koma í dag, kemur ekki vegna þess, að enga mjólk var að hafa frá Akureyri. Rafmagn hefur verið nægjanlegt í bænum og sama máli mun gegna um Ólafsfjörð. Við höfum meira að segja umframorku, ef lína væri fyrir hendi. Fólk er hér orðið þreytt á þessu leiðinlega tíðarfari, sem hefur verið afleitt síðan fyrir jól eftir afbragðsgott haust.
Jakob Ágústsson á Ólafsfirði sagði að allt frá 8. desember væri búið að vera þar erfitt og slæmt tíðarfar, stórviðri og snjókoma. Síðastliðinn sunnudag hófst stórhríð, sem geisað hefur síðan og eru allar samgöngur gjörsamlega útilokaðar. Hefur hvorki komið farartæki til Ólafsfjarðar á láði né legi síðan á fimmtudag er Flóabáturinn Drangur kom þangað. A föstudag var byrjað að ryðja Múlaveg og var það verk langt komið, þegar stórhríðin brast á. Ekkert sagði Jakob að orðið hefði að í þessu stórviðri. Hins vegar sagði hann að gífurlegt brim væri á Ólafsfirði og myndu elstu menn ekki annað eins. Í verstu ólögunum er hafnargarðurinn þar á kafi í sjó.
Sigurður Finnbogason í Hrísey sagði að veður þar væri heldur leiðinlegt og hefði verið þannig að undanförnu. Ekki var þar afspyrnuveður í gær, en snjór væri gífurlegur og kvaðst hann ekki muna annað eins. Venjuleg hús eru alveg komin á kaf, sagði Sigurður og giskaði á að snjór á götum væri um það bil hálfur annar metri á dýpt. Mun meiri dýpt væri þó í sköflum. Engir skaðar hafa orðið af völdum veðursins. Rafmagn í Hrísey hefur verið heldur stopult, en dísilstöð er á staðnum, svo að fólk hefur alltaf getað haft hita. Hins vegar hefur verið lítið um ljós og sitja Hríseyingar aðallega við kertaljós þessa daga. Þó var í gær rafmagn í Hrísey frá Laxárvirkjun, þótt rafmagnslaust hafi orðið þar tvisvar í gær, en þó aðeins í stuttan tíma, 20 mínútur i hvort sinn.
Sverrir Pálsson á Akureyri sagði að ástandið á Akureyri væri heldur rólegt. Akureyringar væru lukkulegir og í senn undrandi yfir að hafa nú heldur truflanalítið rafmagn. Umferð um Akureyrarbæ liggur að mestu niðri, nema hvað menn reyna að brjótast um fótgangandi eftir helstu nauðsynjum. Kafhlaup er í flestum götum og fanndýpt ótrúleg. Sverrir sagði að menn hefðu reynt að mynda einfaldar traðir eftir helstu götum, en erfitt hefði verið að halda þeim opnum, því að ótt fyki í þær á ný. Þessar grafir eru á jafnsléttu orðnar á fjórða metra að dýpt og sagði Sverrir að þessu tryði enginn, nema sá sem sæi. Ég óð eða klofaðist hér um götuna fyrir framan hús mitt áðan, sagði Sverrir Pálsson, og þar sem ég stóð á götunni sá ég að glitti fyrir neðan mig á eitthvað, sem reyndist vera toppgrind á bíl nágranna míns. Sverrir sagði að skaflar væru orðnir jafnháir einlyftum húsum og menn kæmust ekki út án utanaðkomandi aðstoðar. Hins vegar sagði Sverrir að allt væri í lagi á Akureyri á meðan fólk hefði bæði hita og ljós. Á meðan svo er eru menn rólegir. Skólahald var ekkert á Akureyri í gær og ákveðið hefur verið að kennsla falli niður þar I dag. Flugbjörgunarsveitin á Akureyri hefur haldið uppi sjúkraflutningum í ófærðinni og hefur hún notað til þess bíl með drifi á öllum hjólum. Hefur hann komist þessar götur, sem reynt hefur verið að mynda í traðir, en annað verður að bera sjúklingana. Þá hefur snjóbíll verið notaður til þess að annast sjúkraflutninga út í sveitir. Sverrir Pálsson sagði að á Akureyri væri geysilegur fannburður, skafrenningur og kóf. Hins vegar var lítið frost og um hádegið rétt glóraði í moldinni og héldu þá menn að eitthvað ætlaði að rofa til. Sú von brást. Á Akureyri eru yfirleitt engir á ferli. Sverrir sagði að kaupmaður einn, sem hann hefði hitt, hefði sagst hafa haft mjög náðuga daga undanfarið og hefði hann ekki lesið eins mikið á eins skömmum tíma í 25 ár.
Alfreð Jónsson í Grímsey sagði að þar gengi allt ljómandi vel. Og eiginlega er sæmilegasta veður. Hann hefur jú lamið í 1012 vindstigum í gær og dag, en úrkomulaust hefur verið að kalla og snjó skefur burt jafnóðum. Hér amar ekki neitt að neinum. Við höfum ekki komist á sjó síðan 6. desember, því að sífelldir umhleypingar hafa verið allar götur síðan. En mannlífið gengur sinn góða gang og hver unir við sitt. Við höfum fengið mjólk frá Akureyri og það hefur gengið skrykkjalítið. Sömuleiðis hefur flug verið í allgóðu lagi, en ekki hefur verið flogið allra síðustu daga. Menn vinna hér við að dytta að veiðarfærum og undirbúa vertíðina. Aðrir vinna við félagsheimilið, sem við vonumst til að ljúka við fyrir páska. Þá sláum við þessu öllu upp í grín og förum bara að dansa.
Sigurður P. Björnsson á Húsavík sagði við Morgunblaðið: Hér er áframhaldandi stórhríð, veðurhæð hefur verið mikil, svo að viða hefur dregið í stóra skafla. En vonir standa til þess að þjóðvegirnir geti verið dálítið auðir með köflum, vegna þess hve veðurhæðin hefur verið mikil. Mjólkurbíll kom í dag úr Aðaldal og var aðalvegurinn, sem er nýlegur og töluvert hár, að mestu auður, allt undir bæinn, en þá mætti honum fyrst veruleg fyrirstaða i Kaldbaksleiti og komu heflar honum þar til aðstoðar, en þeir hafa aðeins haldið opinni aðalgötu bæjarins. Reykdælir, Kinnungar og Mývetningar hafa ekkert getað rótað sér og i þeim sveitum horfir víða til vandræða ef ekki birtir fljótlega, því að margir eru búnir að fylla sina mjólkurbrúsa. Símalínur eru eitt hvað slitnar en sambandið er lengst til Leirhafnar, en ekkert samband við Raufarhöfn og þar fyrir austan. Erfitt hefur verið fyrir kvenfólk að mæta til vinnu, vegna veðurofsa og ófærðar um bæinn og bæjarlífið gengur ekki sinn vanagang, því að hver sem getur heldur sig heima. Skólar hafa ekki starfað síðan á föstudag og barnaheimili er lokað. öllum mannfagnaði hefur verið frestað um sinn.
Sr. Sverrir Haraldsson í Borgarfirði eystra sagði: Hér er öskubylur nánast allan sólarhringinn og ófært um allt nema um þorpsgötuna. Í sveitinni hefur verið rafmagnslaust í nokkra daga, en hér í þorpinu fáum við rafmagn frá díselmótor. Sjónvarp hefur verið bilað svo dögum skiptir og útvarp tekur út langtímum saman. Við eigum að fá mjólk frá Egilsstöðum, en nú er langt um liðið síðan við fengum mjólk og nauðsynjavörur { kaupfélaginu eru á þrotum. Við erum algerlega einangruð, því að hvorki er hægt að komast hingað landleið né i lofti. Ekki verður ýtt fyrr en verður lagast og sem stendur er flugvöllurinn á kafi i snjó. Fólk er orðið langþreytt á tíðarfarinu, enda hefur það verið á þessa lund síðan löngu fyrir jól. Læknir hefur ekki komist hingað síðan í byrjun desember, en hann á að vera hér hálfs mánaðarlega. Mundi skapast erfitt ástand ef einhver yrði alvarlega sjúkur. Hugsanlegt er að hingað megi brjótast á snjósleða en snjóbíll kemst ekki hingað eins og er. Þrátt fyrir þetta liggur félagslíf ekki alveg niðri. Verið er að undirbúa þorrablót af krafti og hingað er nýkominn Hörður Torfason, sem er að setja upp leikritið Á útleið" með félögum úr leikfélaginu Vöku. Við búumst við að það verði frumsýnt i febrúar og vonumst til að geta farið með það um firðina þegar þar að kemur.
Myndinni er nappað úr Vísi - hún sýnir fannfergi við Egilsstaðabæinn en víða féllu hús vegna snjóþunga. Myndasmiðs er ekki getið. En Morgunblaðið heldur áfram:
Steinþór Eiríksson á Egilsstöðum sagði að þar væri moldbylur og botnlaus stórhríð. Veður var þar allgott í gærmorgun, en versnaði þegar á leið daginn og um hádegi var veður orðið vont. Frost var lítið, um eitt stig. Steinþór nefndi sem dæmi um ástandið, að á Eiðum væri aðeins unnt að komast út úr símstöðinni, sem er í tveggja hæða húsi, með því að skríða út um glugga á efri hæð. Í fyrradag tók það fjórar klukkustundir að grafa göng að dyrum hússins. Á götum á Egilsstöðum voru áður en þetta veður gerði um 2ja metra snjógöng, en nú eru þau öll orðin full og slétt yfir. Ég man ekki eftir annarri eins snjókomu þau 30 ár, sem ég hefi verið hér. Steinþór sagði að veturinn 1950 til 1951 hefði kannski verið jafn snjóþungur, en þá hefði hlaðið niður á miklu lengri tíma. Steinþór sagðist hafa heyrt í útvarpi í gær, að erfiðleikar væru þar eystra með þungaflutninga, þar eð snjóbílar gætu ekki borið slíkt. Hann gat þess að 1950 hefðu Héraðsbúar notast við sérstaka sleða og á þeim hefði verið unnt að flytja allt að 12 tonn. Voru sleðarnir dregnir af jarðýtum. Kvað hann nú ekkert til fyrirstöðu að unnt væri að flytja um 30 tonn á slíkum sleðum. Þegar við ræddum við Steinþór var iðulaus stórhríð á Egilsstöðum og sá hann aðeins grilla í næstu hús. Steinþór sagði að Egilsstaðabúar hefðu alltaf haft rafmagn i þessum veðurofsa og kvað hann það einkum að þakka rafveitustjóranum, Erling Garðar Jónassyni, sem væri harðduglegur og sagðist Steinþór efast um, að aðrir hefðu haldið rafstöðinni gangandi eins og hann hefði gert.
Ævar Auðbjörnsson á Eskifirði sagði að Eskfirðingar hefðu að mestu sloppið við óveðrið sem geisað hefur f nágrannasveitum. Hér er þó gífurlega mikill snjór, en logn hefur verið í marga daga. Ófært er um götur og að sjálfsögðu bæði á Reyðarfjörð og Neskaupstað. Snjór nær langt upp á húsgafla og bílar eru á kafi. Ég man í fljótu bragði ekki eftir svona miklum snjóþyngslum.
Samkvæmt upplýsingum Unnar Jónsdóttur á Djúpavogi var veður þar ekki mjög vont, en ófærð þar eystra er mjög mikil. Mjólkurbíllinn, sem sækir mjólk í Álftafjörð, á Berufjarðarströnd og í Breiðdal, komst ekki í fyrradag og í gær ferða sinna fyrir ófærð og sagði Unnur að ef eins yrði í dag, myndi byrja að bera á mjólkurskorti á Djúpavogi. Ófært hefur verið yfir Lónsheiði til Hornafjarðar í heila viku. Alla jafna er heiðin rudd á þriðjudögum, en sökum veðurs treysti Vegagerðin sér ekki til þess að ryðja snjó af heiðinni nú. A Djúpavogi var í gær snjófjúk, og ekki mjög hvasst.
Elías Jónsson á Höfn í Hornafirði sagði að tíðarfar hefði verið mjög rysjótt að undanförnu. Í fyrradag var Elías staddur i Öræfum og hafði þá verið veðurtepptur þar í einn dag. Braust hann síðan til Hafnar og lenti í ofsaveðri á leiðinni og var skyggni á stundum aðeins um 50 metrar. Einkum var vont veður á Breiðamerkursandi. Vegir rétt utan við Höfn hafa verið að lokast annað slagið og ófært var á Mýrar og út nesið í Lón. Hefur snjó af vegunum verið rutt, en aftur skeflir í. Annars er sumarfæri á Mýrum og sæmileg færð í Suðursveit. Í gær byrjaði að skafa upp úr miðjum degi. Elías sagði að leiðindaveður væri þar um slóðir, hvasst, en engin ofanhríð. Hins vegar sagði hann að töluvert skæfi.
Markús Jónsson á Borgareyrum undir Eyjafjöllum sagði að þar um slóðir væri ofsaveður og hvínandi rok. Þar var engin snjókoma síðdegis í gær, en Markús sagði að sér sýndist snjókoma vera við Merkurbæina og á Markarfljótseyrum ryki sandurinn mjög. Markús sagðist hafa talað við mann, sem hefði verið á ferð um Rangárvelli og var þar þá svo mikið sandrok, að varla sá út úr augum. Ekki sagðist Markús muna aðra eins tíð og verið hefði að undanförnu og sagði hann að hús stæðu, þar sem þau væru vel gerð. Hann sagði að ávallt væri mikill stormur en síðan gengi á með hviðum og væri þá mikill ofsi í veðrinu. Rifi veðrið steinvölur og annað sem lægi við rót.
Jón Þorgilsson á Hellu sagði að þar væri auð jörð og hefði ekki verið undan snjóþyngslum þar að kvarta. Hvassviðri hefur verið undanfarnar vikur, svo til samfleytt og farið í tíu tólf vindstig. Þó er ég ekki frá því að veðrið hafi heldur gengið niður í dag. Moldrok hefur verið mjög mikið, en ekkert að færð, mjólkurflutningar ganga þar af leiðandi eðlilega fyrir sig, svo og aðrar ferðir um þessar slóðir.
Björn Erlendsson í Skálholti sagði, að þar hefði verið ofsarok í 3 sólarhringa, en þar væri enginn snjór og væri færð sæmileg, þótt talsverð hálka væri á vegum. Ekki kvaðst Björn hafa frétt um neinar teljandi skemmdir, nema á Espiflöt í Reykholtshverfi, sem er í nágrenni Aratungu. Þar fauk gróðurhús Eiríks Sælands, garðyrkjubónda, og mun tjón hans hafa orðið talsvert. Sagði Björn, að leifar hússins væru á víð og dreif um nágrennið. Eiríkur Sæland tjáði Morgunblaðinu, að þakið hefði farið af húsinu i einu lagi klukkan tæplega 07 í gærmorgun. Húsið var fremur lítið, um 100 fermetrar, og í því voru blóm, sem tókst að koma fyrir í öðru húsi, hvernig sem tekst svo til með þau. Þakið rifnaði upp úr steypunni, en húsið var svokallað uppeldishús með 3ja metra háum steinvegg að norðanverðu. Ekkert sér nú af húsinu sagði Eiríkur, sem þeyttist út í veður og vind. Veðurhæðin var mikil, þegar húsið fór, og ekki stætt sagði Eiríkur.
Snjólaust var í gær á Selfossi, en hvassviðri mikið. Tómas Jónsson, fréttaritari Morgunblaðsins og lögregluvarðstjóri, sagðist ekki hafa frétt af neinum teljandi sköðum vegna veðursins.
Óskar Magnússon á Eyrarbakka sagði að sem betur færi væri ástand mála þar um slóðir þolanlegt. Þar var ofsarok, en enginn snjór. Um helgina fengum við þann snjó, sem var í Flóanum, yfir okkur og fylltust þá allar götur af snjó. Það mokuðum við á sunnudag og er nú hér auð jörð og engin snjókoma, sagði Óskar. Óskar sagði að rokið væri það mikið, að ekki hefði verið talið fært að minnstu börnin sæktu skóla í gær og var því gefið frí í barnaskólanum á Eyrarbakka. Engar skemmdir hafa orðið á Eyrarbakka af völdum veðursins að þessu sinni, en eins og menn rekur minni til skemmdust tveir bátar Eyrbekkinga í áhlaupi, sem gerði fyrir nokkrum vikum. Eru báðir bátarnir nú komnir til Njarðvíkur, þar sem annar er kominn í slipp, en hinn biður þess að komast þar að. Í sumar brann Eyrarbakkabáturinn Hafrún, en eigendur bátsins er nú um þessar mundir að kaupa tvo aðra báta í stað þess, sem brann.
Guðfinnur Bergsson í Grindavík sagði að þar væri að vísu hvassviðri, en þessi átt sem var í gær er ekki sú versta i Grindavík. Engin sjókoma var í Grindavík og færð góð. Menn þar syðra eru nú sem óðast að undirbúa vertíð.
Tíminn segir af ástandi á Raufarhöfn í pistli þann 16.:
Neyðarástand vofir nú yfir á Raufarhöfn, og er olía að ganga þar alveg til þurrðar. Reynt hefur verið að safna saman slöttum til þess að geta yljað hús og haldið dísilstöðinni gangandi. En slíkt hrekkur skammt og frestar aðeins vandræðaástandi örskamma stund. Ýmsar vörutegundir eru á þrotum i þorpinu, en langalvarlegast er olíuleysið. Rætist ekki úr því, verða þorpsbúar að hírast í myrkri og kulda, þar til olíuskip kemur. Skuttogarinn Rauðinúpur, sem væntanlegur er til hafnar innan skamms, mun ekki heldur komast á veiðar á ný, nema olía fáist.
Kortið að ofan sýnir veðrið kl.18 þriðjudaginn 14. janúar, en þá var það um það bil í hámarki. Takið eftir því að aðeins 100 metra skyggni er í skafbyl í Síðumúla í Borgarfirði og eins á Kirkjubæjarklaustri. Þess má geta að ritstjóri hungurdiska var staddur í Borgarnesi í veðrinu og sá þá Borgarfjörðin allan hvítskafa, en það er mjög óvenjulegt í norðaustanátt þar um slóðir - þótt særok sé algengt á firðinum í suðlægum og vestlægum áttum.
Meginkortið gildir á sama tíma. Seinni illviðrislægðin er milli Íslands og Færeyja, fer norðaustur og fór úr þessu að grynnast og veðrið gekk þá niður. Daginn eftir var það mun skaplegra.
Þegar veðrinu fór að slota bárust fregnir af fjölmörgum snjóflóðum, mörgum mjög stórum. Líklegt er að flóðin hafi orðið miklu fleiri en hér er greint frá.
Tíminn segir frá 16.janúar - snjóflóðafréttir og fréttir af hruni húsa vegna snjóþunga:
FBReykjavik. Snjóflóð hefur fallið á síldarbræðsluna Hafsíld á Seyðisfirði. Talið er líklegt, að snjóflóðið hafi fallið aðfaranótt miðvikudagsins, en ekki er þó vitað nákvæmlega um það. Skemmdir eru miklar að sögn Kristins Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra verksmiðjunnar, en hann gat ekki í gærkvöldi gert sér neina grein fyrir því, hversu miklar þær væru. Afkastageta verksmiðjunnar var um 3-400 lestir á sólarhring, og er illt í efni, að önnur bræðsla á Austfjörðum skuli nú vera óstarfhæf í upphafi vertíðar. Kristinn sagði i viðtali við Tímann, að engir hefðu verið hafðir við vinnu i verksmiðjunni undanfarna daga. Þar væri ekki haft fólk, þegar menn vissu ekki hvað væri fyrir ofan þá, eins og hann komst að orði, en Hafsíld stendur norðan við Seyðisfjörð, beint á móti Ríkisverksmiðjunum, undir svokölluðum Háubökkum. Kristinn sagðist hafa verið i verksmiðjunni á mánudagskvöldið, og þá hefði verið þar allt með kyrrum kjörum. Hann kom svo aftur i verksmiðjuna um klukkan eitt í gærdag, og sá þá, hvað gerst hafði. Snjóflóðið hefur ekki verið mikið, að sögn Kristins, þrátt fyrir það, að það hafi valdið miklu tjóni. Hann sagði, að það hefði brotið niður tvær-þrjár sperrur í verksmiðjuþakinu og liggur nú yfir þurrkurunum. Skemmdir eru enn ókannaðar, og ómögulegt um þær að segja, að svo komnu máli. Erfitt getur reynst að moka snjónum út úr verksmiðjunni, því engum tækjum verður þar við komið. Þar við bætist svo, að allt er á kafi i snjó og ekki nema jarðýtur, sem komast leiðar sinnar og svo snjóbílar, en af þeim er ekki nema einn til staðar. Kristinn sagðist ekki geta sagt um það, að svo komnu máli, hvaða áhrif þetta snjóflóð ætti eftir að hafa nú í upphafi loðnuvertíðar, en hann sagði, að allt yrði gert til þess að koma verksmiðjunni í gang sem fyrst.
Skömmu eftir hádegi í gær féll afarmikið snjóflóð i Óslandshlið, sem gengur til norðurs frá mynni Kolbeinsdals við austanverðan Skagafjörð. Kom það úr Hlíðarfjalli, sem þó er ekki sérlega bratt, tók sig upp við fjallsbrún og hljóp niður á láglendi á þriggja kílómetra kafla á að giska. Hér hefur verið látlaus hríð síðan á sunnudagsnótt, sagði Þóra Kristjánsdóttir, húsfreyja á Óslandi, er Tíminn ræddi við hana i gær, og það er fyrst i dag, að farið er að rofa. Ekkert hefur því sést til fjallsins, en vafalaust hefur safnast þar fyrir óskapleg hengja. Ég er borin og barnfædd á þessum slóðum, og ég hef aldrei heyrt fyrr um snjóflóð á þessum stað. Ég sá ekki, þegar flóðið kom, sagði Þóra enn fremur, en menn urðu þess varir hér á öðrum bæjum i grenndinni. Það mun hafa farið yfir landjaðra Óslands, Melstaðar, Marbælis og Kross. Hvorki urðu fyrir því hús né skepnur, en það hefur vafalaust brotið mikið af girðingum, og sums staðar fór það heim á tún einkum á Marbæli og eyðibýli, sem er hér skammt undan og tilheyrir Óslandi. Frá Sauðárkróki frétti Tíminn, að ummerki flóðsins hefðu sést þaðan síðdegis i gær, áður en dimmdi, en þaðan eru sem næst tuttugu kílómetrar i beina linu skáhallt yfir botn Skagafjarðar.
JK-Egilsstöðum Hér á Fljótsdalshéraði er nú mesti snjór, sem komið hefur í mörg ár, og þarf að leita langt aftur til að finna annan slíkan vetur. Aðalerfiðleikarnir, sem af fannferginu stafa, eru þar sem skeflir á þök, en þá er hætta á að þau gefi sig undan farginu. Viða hafa þök bilað. Í gær fóru þök inn á fjárhúsum að Árbakka í Hróarstungu og Ormsstöðum í Eiðaþinghá, og varð mjög mikið tjón á báðum bæjunum. Að Fljótsbakka í Eiðaþinghá var þak að sligast inn, en mokað var af því og reynt að styrkja það. Víða hefur verið mokað af þökum húsa og rekið undir þau. Mokað var af fjósi og hlöðu á Egilsstaðabúinu á mánudag og þriðjudag. Í fyrrinótt var vegurinn þaðan inn i kauptúnið ruddur með jarðýtu, og var það mjög mikið verk þótt um skamma vegalengd sé hér að ræða, nokkur hundruð metra. Egilsstaðabúar fengu i gærmorgun mjólk þaðan, sem nægir fyrir þorpið. Að öðru leyti eru allir vegir útfrá Egilsstöðum og innan þorpsins ófærir bílum og illfærir gangandi fólki. Skaflar eru geysilegir og berrifið á milli, enda var veðurhæðin mikil. Iðulaus stórhríð skall á aðfaranótt sunnudags, sem stóð þangað til i gærmorgun, og náði hámarki á þriðjudagskvöld. Íbúar Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Seyðisfjarðar eru mjólkurlausir og hafa verið síðan á föstudag. Símabilanir hafa verið nokkrar á Fljótsdalshéraði og i nágrenni, og sömuleiðis rafmagnsbilanir, en þó tiltölulega litlar miðað við veðurofsann. Í gærmorgun birti og lægði á Egilsstöðum, og í gær var þar éljagangur. Verið var að moka frá skólanum, en kennsla var enn ekki hafin. Margar byggingar voru á svartakafi, m.a. bensín- og olíutankar kaupfélagsins og söluskáli, og var ýtt frá þeim i gær til þess að ná i eldsneyti á bíla.
Mikið ófremdarástand hefur ríkt í Vík í Mýrdal að undanförnu vegna þess eins og víðar á landinu, hversu snjónum hefur kyngt niður. Um tíma voru allir vegir þar eystra ófærir ... eru skaflarnir sums staðar margra metra djúpir, bílar eru á kafi og víða eru íbúðarhús að miklu eða öllu leyti á kafi.
SJ-Reykjavík. Aðfaranótt þriðjudags féll snjóflóð á tvenn fjárhús og hlöðu að Ljótsstöðum á Höfðaströnd, skammt frá mynni Unadals. 87 kindur voru í húsunum, og seinnihluta dags í gær hafði tekist að bjarga um 20 kindum og talið víst, að fleiri væri ekki lifandi i rústunum. Hús og fénaður voru óvátryggð, og er þetta áfall mikið fjárhagslegt tjón fyrir bóndann að Ljótsstöðum, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, og fjölskyldu hans. Sex manns er í heimili á bænum. Einnig var talið, að heyið í hlöðunni hefði glatast að mestu. Við fundum nokkrar kindur lifandi i dag, sagði Sveinbjörn þegar við töluðum við hann í síma í gær. Snjóflóðið féll einhvern tíma í fyrrinótt, við vitum ekki hvenær. Ég varð þess var hvernig komið var, þegar ég fór í húsin um morguninn. Alltaf þriggja metra snjór var ofan á öllum húsunum. Þá fór snjóflóðið ofan á önnur fjárhús, sem standa neðar, og setti þau á kaf, en þar skemmdust hvorki mannvirki né fénaður. Aðeins einn maður af næsta bæ komst til hjálpar á þriðjudag vegna veðurs, en þá tókst að bjarga um tíu kindum. Í gær voru 14-15 manns af nágrannabæjum og frá Hofsósi til aðstoðar heimilisfólki að Ljótsstöðum. Síðdegis höfðu þeir lokið við að moka ofan af húsunum, sem eru gjörónýt, og dysja féð i snjó. Þetta hefur verið sorglegt verk, sagði Sveinbjörn Sveinbjörnsson bóndi i gær. En hér er ekki meira að gera að sinni, nema grafa kindurnar, þegar snjóa leysir. 70 fjár voru i húsunum, sem björguðust, ásamt fjórum geldneytum. Fjósið stendur nær bæjarhúsunum, og þar voru sjö kýr. Í snjóflóðinu missti Sveinbjörn því nær helming bústofns síns. Hann kvaðst tæpast búast við því að verða heylaus, en önnur hlaða er að Ljótsstöðum, og e.t.v. mætti bjarga einhverju af heyinu, sem í flóðinu lenti. Sveinbjörn kvaðst ekki vita til að snjóflóð hefði orðið á þessum slóðum áður. Hann sagði, að ekki væri nákvæmlega hægt að gera sér ljóst, hvar upptök snjóflóðsins hefðu orðið.
BS-Hvammstanga. Þegar birta tók í gærmorgun á Hvammstanga, var vedur farið að ganga niður. Þá var skyggni orðið allsæmilegt. Það fyrsta, sem blasti við íbúum staðarins, er litið var út á leguna, var það, að einn af þremur bátum, sem þar höfðu legið við legufæri, hafði sokkið. Þetta var báturinn Stakkafell, sem var 28 lestir að stærð. Þar sem Stakkafellið hafði legið, var nú uppblásinn gúmbátur frá bátnum, og var hið eina, sem sást af Stakkafellinu. Á legunni lágu ennfremur Rósa og Hinrik. Voru þessir bátar báðir mjög ísaðir. Í gær voru þegar gerðar ráðstafanir til þess, að menn færu um borð og berðu af þeim ísingu. Eru þeir því úr hættu. Stórskaði hefur nú orðið á Hvammstanga í annað sinn á skömmum tíma, því aðfaranótt gamlársdags slitnaði upp af legunni i suðvestanveðri rækjubáturinn Straumur, 18 lestir að stærð. Heimamenn náðu að bjarga honum á gamlársdag, en síðan var varðskipið Albert fengið til þess að draga Straum til Siglufjarðar til viðgerðar. Þegar komið var út af Skaga, vildi svo óheppilega til, að Straumur sökk, en mönnunum af honum var bjargað naumlega. Hafa því Hvammstangamenn misst á hálfum mánuði tvo af fimm rækjubátum sinum. Ennfremur má bæta því við, að skipstjóri og háseti á Sæbirni, sem sökk i höfninni á Skagaströnd nú i óveðrinu, eru frá Hvammstanga. Eru því þrír skipstjórar og þrír hásetar frá Hvammstanga búnir að missa báta sina á hálfum mánuði.
SJReykjavik. Í gær voru bilanir á síma víðsvegar á landinu. Að sögn Sigurðar Þorkelssonar voru þetta mest minniháttar bilanir, sem fljótt yrði gert við, þegar komist yrði til þess vegna veðurs og færðar. Í Fáskrúðsfirði varð hins vegar alvarleg bilun, en þar brotnuðu 29 símastaurar, og tekur eina 2-3 daga að gera við þá, þegar veður hægist. Þó var ekki símasambandslaust við Fáskrúðsfjörð, þar sem aðeins önnur linan til Reyðarfjarðar var biluð. Hins vegar er sambandslaust milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Allmargar símstöðvar i sveitum landsins voru sambandslausar í gær vegna áðurnefndra bilana. Þá var sambandslaust við Vik i Mýrdal, Kirkjubæjarklaustur, Stöðvarfjörð, Breiðdalsvik og Hólmavik. Sambandslaust hafði verið við Raufarhöfn og Leirhöfn, en síminn þangað var kominn í lag í gær.
Tíminn segir enn af snjóflóðum 17.janúar:
Í gær [16.] féllu enn snjóflóð í Skagafirði, að þessu sinni á tveim stöðum í Stíflu í Fljótum, þar sem snjóalög eru orðin gífurleg. Komu þau bæði úr austurhlíðum dalsins. Annað snjóflóðið skall á bænum Lundi, bæði íbúðarhúsi og fjárhúsi, en hvorki olli það tjóni á mönnum né skepnum, því að enginn er þar á vetrum. Aftur á móti voru í fjárhúsunum um tvö hundruð og fimmtíu hestar af heyi, sem bóndinn á Molastöðum átti, og má búast við, að það hafi ónýst. Hitt snjóflóðið kom niður hjá Melbreið, skammt utan við bæinn, og sleit það símalínur og raflínur. Eru nú tveir bæir í Stíflu sambandslausir og rafmagnslausir að talið er. Raflínuna frá Skeiðsfossvirkjun um Lágheiði til Ólafsfjarðar sakaði ekki, því að þar var rafmagn sem endranær, að því er Pétur Már Jónsson, bæjarstjóri þar, tjáði blaðinu í gærkvöldi. Aftur á móti er Ólafsfjörður gersamlega innilokaður vegna fannalaga og hefur svo verið um langt skeið.
SJReykjavik. Snjóflóð féll i Dalsmynni fremst í Fnjóskadal aðfaranótt þriðjudags sl. Snjóflóðið varð i austanverðu Dalsmynni og nær alveg milli bæjanna Skarðs og Þverár að heita má óslitið og er a.m.k. 2 km að breidd, að sögn Skírnis Jónssonar i Skarði. Meginhluti snjóflóðsins kom úr svonefndri Stóru-skál og er skógurinn í hlíðinni fyrir neðan illa farinn og svo girðingar. Vegurinn um Dalsmynni hefur ekki verið ruddur síðan þetta varð og er óvist, hvort það verður fyrir helgi. Mjólk úr Fnjóskadal verður flutt til Húsavikur en ekki Akureyrar, en þangað er nú ófært bæði um Dalsmynni og Vaðlaheiði. Rafmagnslaust hefur verið að Skarði síðan snjóflóðið féll, en þar er heimarafstöð til vara, sem komið hefur að góðum notum.
Austurland segir 17.janúar frá óvenjulega miklum snjó við Hallormsstað og sköðum á Héraði:
[Frá Hallormsstað 14.janúar] Á Þorláksmessukvöld gekk í byl, sem stóð allan aðfangadag og var hinn mesti. sem komið hafði hér á Hallormsstað síðan janúarbylurinn 1966, en það veður stóð samfleytt í 4 sólarhringa, frá 27.30. janúar. Þá kom 65 sentímetra djúpur. jafnfallinn snjór í skóginum, en aðeins í samfelldu skóglendi hreyfir snjó svo lítið, að hægt sé raunverulega að mæla jafnfallinn snjó. Við héldum, að þar með væri þessum veðraham lokið. en svo reyndist ekki, því að á sunnudagsnóttina síðustu, gekk í svipað veður sem stendur enn. Er það mjög líkt veður og 18. desember sl. og 27. janúar 1966. Veðurathuganamaðurinn hér, Páll Guttormsson, sagði mér áðan, að jafnfallinn snjór í skóginum væri nú 1 metri. en varð mest 85 sentímetrar 1966, svo að þetta er að verða heilmikill vetur. Þessir byljir minna okkur á, að enn geta vetrarveður komið á Íslandi og vissast að vera við öllu búnir.
[Frá Egilsstöðum 15.janúar - stytt] Gífurlegt fannfergi er hér á Egilsstöðum, og ef til vill farið að nálgast það sem var veturinn 195051. Menn hafa heyrt um það í útvarpi, hvernig háttar um skólahúsið. sem lítið sést af fyrir skefli, og hér á götunum eru sumir skaflarnir 56 metra á þykkt og liggja samfellt á mörg hundruð metra bili. Snjóbíll sem ætlaði að halda 'upp úr þorpinu í morgun komst ekki inn á hraðbrautina vegna snjóhryggjanna við hana. Egilsstaðabændur hafa unnið að því síðan aðfaranótt þriðjudags að bjarga gripahúsum. þar sem þök þeirra hafa verið að sligast undan snjó. Þarna er hlaða og margstæð gripahús fram undan henni. Í fyrrinótt var reft undir fjósþakið og síðastliðna nótt var unnið að því að setja stoðir undir þak hlöðunnar og styrkja fjósið enn frekar.
Þá hafa okkur borist fregnir af svipuðu eða verra ástandi og áföllum víðar á Héraði. Þannig voru fjárhús á Fljótsbakka komin að hruni í gær, en á síðustu stundu tókst að verja þau falli með því að skjóta stoðum undir þakið. Jarðýta reyndi lengi í gær að komast héðan í Fljótsbakka, en hún náði aldrei lengra en upp í Eyvindarárgilið vegna fannfergis og veðurofsa. Fjárhús féll niður á 150 fjár að Ormsstöðum í Eiðaþinghá nú aðfaranótt miðvikudags. Björgunarlið var sent héðan á vettvang í morgun, og ég var að fá af því fréttir að betur hafi þarna til tekist en á horfðist um skeið og aðeins um 10 kindanna hafi drepist. Einnig munu fjárhús í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá hafa fallið, en glöggar fregnir hafa ekki borist um tjónið. og einnig að Árbakka í Hróarstungu. Þetta er hið helsta um meiriháttar eignatjón, sem ég hef haft spurnir af. hvert svo sem framhaldið verður, en veðurútlit er því miður ekki gott og hefur talsvert bætt við snjóinn í dag þótt vindinn hafi lægt.
Tjón á íbúðarhúsnæði hér á Egilsstöðum hefur orðið nokkurt, en er hvergi nærri fullkannað. Er það einkum vegna kófs inn um loftræstiraufir undir þökum húsa, en síðan þiðnar og lekur niður í íbúðirnar. Mættu byggingaraðilar og arkitektar nokkuð af þessu læra, en þeir síðarnefndu virðast teikna hús fyrir reykvískt veðurfar eða þaðan af suðlægara Þetta tjón verða menn víst að þola bótalaust. því að jafnvel hinar dýru húseigendatryggingar taka ekki til þess. Ástæða er til að geta um skemmdir á trjágróðri í görðum, sem orðið hafa í þessum óveðrakafla. Eink'um fór austanveðrið milli hátíða illa með tré og beinlínis sleit af þeim greinar. og fönnin nú bætir ekki um. Þetta austanveður var geysilega hart hér og víðar á Héraði, og í því fauk þak af 350 fermetra vélageymslu á Hvanná á Jökuldal.
Þjóðviljinn segir 18.janúar frá tjóni í Dalasýslu:
Margskonar tjón varð i Dalasýslu i óveðrinu. Mesta tjónið á rafmagnslínum varð er línan milli Króksfjarðarness og Saurbæjar féll niður á hálfs annars kílómetra löngum kafla. Slitnaði línan niður vegna ísingar og fauk. Tvö fjárhús sliguðust undan snjóþunga, á Oddsstöðum i Miðdalahreppi og Gillastöðum i Laxárdal, og urðu einhverjir fjárskaðar á Gillastöðum. Í Gröf i Miðdalahreppi fauk þak af hlöðu og á Fellsenda brotnuðu rúður i nýbyggðu íbúðarhúsi af grjótfoki. Í Miðdölum fauk kyrrstæður bíll af gerðinni Cortina eina veltu og er mjög mikið skemmdur. Ofsinn var slíkur að sums staðar sáust hnefastórir grjóthnullungar velta á snjónum.
Tíminn segir af sjávargangi í Njarðvíkurhöfn í pistli 18.janúar:
SJ-Reykjavik. Í óveðrinu í byrjun vikunnar fór stórgrýti yfir skjólvegginn við Njarðvíkurhöfn. Hafnarstjórinn í Keflavik og Njarðvík hefur varað skipstjórnarmenn við að sigla skipum nálægt ytri hafnargarðinum vegna þessa. Strax eftir helgina verður grjótið væntanlega fjarlægt úr höfninni.
Morgunblaðið birt 23.janúar fregn um ógurleg snjóþyngsli á Grenivík:
Grenivík, 16. janúar 1975. Stórtjón varð á frystihúsi Kaldbaks h.f. á Grenivík í óveðrinu á dögunum. Söltunarhús, sem áfast er frystihúsinu, fór gjörsamlega á kaf í snjó og er þó ekki um neinn smákofa að ræða. Húsið er um 40 m langt, vegghæð er um 5 m og hæð undir ris um 7 m. Á mánudaginn var þakið farið að sligast undan snjóþunganum og voru 1520 manns að moka af því í stórhríðinni meðan birta entist. Það dugði þó skammt, því að morguninn eftir var snjórinn á þakinu orðinn jafnþykkur og áður. Hér varð sem sagt ekki við neitt ráðið og fór þriðjungurinn af austurhlið þaksins inn. Þar undir brakinu eru saltfiskbirgðir hússins sem betur fer litlar og töluvert af salti.
Veður þetta skorar mjög hátt á báðum stormdagalistum ritstjóra hungurdiska, meðalvindhraði var mikill og útbreiðsla sömuleiðis.
Lýkur hér að segja frá hríðinni miklu 12. til 15.janúar 1975. Fleiri skaðaveður gerði í þessum mánuði. Lesa má um þau í almennum pistli hungurdiska um það helsta á árinu 1975. Þar er einnig sagt frá nokkrum snjódýptarmetum sem féllu í mánuðinum og enn standa til þessa dags (2025).
Vísindi og fræði | Breytt 3.3.2025 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.2.2025 | 19:48
Spurt var
Var spurður um snjó nú í febrúar. Hann hefur verið með minnsta móti, en ekki rétt að fara út í mikinn samanburð því enn eru fjórir dagar eftir af mánuðinum og vel hugsanlegt að einhverjir alhvítir dagar bætist við þann eina sem bókaður er - bæði í Reykjavík og á Akureyri. Febrúar er sjaldan snjólaus í Reykjavík - og enn sjaldnar á Akureyri (hefur þó komið fyrir).
Snjóleysið hefur fylgt miklum hlýindum. Fyrstu 23 dagar mánaðarins eru þeir hlýjustu á öldinni í Reykjavík - og ekki nema þrisvar frá upphafi mælinga sem þeir hafa verið hlýrri. Á Akureyri stendur hitinn örlítið neðar á listum, en ofarlega samt. En bæði snjóleysi og hiti segja lítið um framhaldið. Fyrri vetrarmánuðirnir voru ekki hlýir - og snjóhula var yfir meðallagi. Meðalfjöldi alhvítra daga í febrúar er 12 í Reykjavík, en 10 í mars. Á Akureyri eru tölurnar 17 í febrúar og 16 í mars. Mars er vetrarmánuður hér á landi sem kunnugt er.
Þetta gefur tilefni til að rifja upp fáeinar gamlar veðurvísur - pör reyndar, það fyrra tilheyrir deginum í dag (24.febrúar), Matthíasarmessu guðspjallamanns. Þessi messudagur hefur þá sérstöðu meðal slíkra daga að hann ber ekki upp á sama almanaksdag í hlaupárum - þá 25. febrúar og kallaðist þá stundum hlaupársmessa. Pétursmessa (Péturs stóll) er hins vegar 22.febrúar í öllum árum. Ástæða þessa misræmis er að í rómverska tímatalinu - var hlaupársdagur ekki 29.febrúar, heldur tróðst inn á undan Matthíasarmessu - (aldrei einföld þessi almanaksfræði).
Vísur þessar lét Jón Þorkelsson prenta í Almanak Þjóðvinafélagsins aldamótaárið 1900 (ásamt fleiri veðurvísum).
Matthías þíðir oftast ís,
er það greint í versum,
annars kæla verður vís,
ef vana bregður þessum.
Matthías ef mjúkur er,
máttugt frost þá vorið ber,
vindur, hríð og veðrið hart
verður fram á sumarið bjart.
Heldur óljóst allt saman. Skyldi dagurinn í dag hafa talist mjúkur? Fyrri vísan vísar eiginlega beint til þess sem sagt er um Pétursmessu (22.febrúar) - að þá setji Sankti Pétur vermisteininn í jörðina - það er slík sólarþíða sem væntanlega er átt við í fyrri vísunni. Sé sólarlaust (kannski með hlýindum) - er kulda að vænta.
Þessi vantrú á febrúarhlýindi kemur einnig vel fram í hinum vísunum tveimur:
Febris ef ei færir fjúk
frost né hörku neina,
kuldi sár þá kemur á búk,
karlmenn þetta reyna.
Ef þig fýsir gefa að gætur
gátum fyrri þjóða,
páskafrostið fölna lætur
februari gróða.
Það er talsvert vit í þessu með vermisteininn - eins og hungurdiskar hafa minnst á áður (eða var það ekki). Þetta með febrúarhlýindi sem bregðast eru líka almenn sannindi - tölfræðileg á sinn hátt. Það er harla ólíklegt að margir hlýir kaflar fari samfellt saman allt frá miðjum vetri til vors - en munum þó að það hefur gerst.
Hér er rétt að kveina í lokin. Hvers vegna í ósköpunum hefur Almanak Háskólans hætt að birta nöfn messudaga? Þetta var mjög til þæginda við lestur gamalla rita að geta bara flett upp í almanakinu. Stöðugt er verið að nefna suma messudagana í umfjöllun um tíðarfar - aðrir fátíðari. Ritstjóra hungurdiska er svosem engin vorkunn enda hefur hann komið sér upp sérstakri skrá til að fletta upp í. Þetta væri e.t.v. skiljanlegra ef nauðsynlegt þætti að koma öðru efni að, en svo er ekki - í langflestum tilvikum er bara eyða á blaðsíðunni.
Það er auðvitað viðurkennt að arfavitlausir veðurspádómar fylgdu sumum messudögunum, en þeir voru ekki aðalatriðið. Heldur voru þessir dagar, ásamt misseristalinu gamla og stórhátíðum, allir mikilvægir áfangar í gangi árstíðanna og auðvelda tilfinningu manna fyrir honum - sem er þrátt fyrir allt mikilvæg enn á dögum - þrátt fyrir allar framfarir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2025 | 18:46
Snöggar hitasveiflur
Í pistlasafni hungurdiska er nokkrum sinnum minnst á stórar og skyndilegar hitasveiflur á veðurstöðvum. Reyndar hefur ritstjórinn reglulega auga með slíkum tilvikum en er þó ekki nægilega vel vakandi eða þrekmikill til að komast fyrir allar villur í athugunum (langt í frá). Á dögunum rifjaðist upp gamall fyrirlestur ritstjórans um þetta efni, líklega fyrir um 12-14 árum að því er hann taldi. Árin síðan fyrirlesturinn var fluttur reyndust hins vegar vera tuttugu þegar að var gáð. Kannski kominn tími til að endurnýja talnaefni fyrirlestursins.
Það hefur nú verið gert, í stað 8 athugunarára eru þau orðin 28. Helstu niðurstöður eru þó furðu lítið breyttar - nema hvað upplýsingar liggja nú fyrir um hegðun hitafars á miklu fleiri veðurstöðvum heldur en var árið 2005.
Fyrst þurfti að meta hvað væri snögg hitasveifla. Lagt var í að reikna mun á hámarks- og lágmarkshitamælingum allra klukkustunda á öllum veðurstöðvum í 28 ár. Muninum var síðan breytt í heilar tölur. Væri munurinn minni en 4 stig var honum sleppt í frekari meðferð, en síðan talið hversu oft munurinn félli á hvert stig. Auðvitað fækkar tilvikum mjög eftir því sem munurinn er meiri.
Fyrsta myndin reynir að sýna þetta. Lárétti kvarðinn sýnir mun á hámarks- og lágmarkshita innan sömu klukkustundar á sömu stöð. Við sjáum að á árunum öllum hefur hann verið 4,0 til 4,9 stig í 176.893 tilvikum (af um 32 milljón athugunum). Síðan fækkar þessum tilvikum eftir því sem munurinn er meiri. Nú verður að taka eftir því að lóðrétti kvarðinn er svonefndur lograkvarði, upp á við er hvert merki tíu sinnum stærri tala heldur en það næsta fyrir neðan. Með því að nota kvarða af þessu tagi sjáum við vel að fækkunin er býsna regluleg, á hvert hitabil fellur um þriðjungur þess fjölda sem féll á næsta bil fyrir neðan. Meðalhlutfallsfallið er um 2,8 fyrir hvert bil. Myndu nú platónistar taka við sér og jafnvel halda því fram að svona eigi þetta að vera, fækkunin eigi að vera nákvæmlega talan e - (grunntala náttúrulega lógaritmans). Ekki veit ritstjórinn það - en vill samt taka fram að hann er mjög eindreginn andstæðingur platónismans.
Brúnleitu súlurnar sýna það sama, nema fyrir vegagerðarstöðvar. Athuganir eru þar um helmingi færri, en hin reglubundna fækkun milli hitabila er sú sama. Hér verður líka að taka fram að eiginlegar hámarksmælingar eru ekki gerðar á vegagerðarstöðvunum. Á hefðbundnum stöðvum er hámarkshiti klukkustundar hæsta 2-mínútna meðaltal innan klukkustundarinnar, 30 gildi til að velja úr. Á vegagerðarstöðvunum er hámarkshiti ekki mældur, hiti er mældur á 10-mínútna fresti, og hámarkshiti klukkustundarinnar er sá hæsti meðal þeirra 6 mælinga sem gerðar eru á klukkustund. Vegagerðarstöðvarnar missa þannig ítrekað af hæstu gildum. Sama á við um lágmarksmælingarnar. Hlutur stórra hitabreytinga innan klukkustundar er því óhjákvæmilega minni heldur en á hinum almennu stöðum - það munar meiru í tíðni stóratburða en sem nemur fjölda klukkustundarathugana.
Nú er það óhjákvæmilegt að talsvert af villum er að finna í þessum gögnum - þrátt fyrir allgott eftirlit. Sé gert ráð fyrir því að tilviljanakenndar villur séu ámóta algengar á öllum hitabilum er líklegt að hlutfallslegt vægi þeirra aukist eftir því sem munurinn er meiri á skráðum hámarks- og lágmarkshita. Tölulegar vísbendingar hníga í þá átt að svo sé. Í þeirri lauslegu athugun sem hér er gerð voru villur aðeins hreinsaðar úr hæstu flokkunum - niður í um það bil 14 stig. Æskilegt væri að fara neðar. Sömuleiðis kom í ljós að einstakar stöðvar eru einfaldlega til vandræða - þeim er ekki að treysta. Voru þær ekki teknar með.
Í því sem hér fer á eftir er einungis fjallað um tilvik þar sem munur á hámarki og lágmarki innan sömu klukkustundar á sömu stöð er meiri en 6 stig. Mat ritstjórinn það svo að þá væri fjöldi tilvika enn nægilega mikill til að eitthvað vit væri í hugsanlegum árstíða- og dægursveiflum.
Myndin sýnir greinilega árstíðasveiflu snöggra hitabreytinga. Þær eru langalgengastar í desember og janúar, en fækkar jafnt og þétt í febrúar til maí. Lágmarkstíðni er í ágúst og tíðnin tekur sig ekki vel upp fyrr en í nóvember. Sveiflan á vegagerðarstöðvunum (rauður ferill) er svipuð - en tíðnin mun minni.
Í hægviðri á vetrum getur mjög kalt loft legið langtímum saman neðan grunnstæðra hitahvarfa. Strax og sól fer að hækka á lofti eiga slík hitahvörf erfiðara uppdráttar, mun þetta vera meginástæða árstíðasveiflunnar. Hin stóra sveifla verður þegar kalda loftið sviptist burt, oftast í vaxandi vindi. Þegar nánar er að gáð geta aðstæður þó verið býsna fjölbreyttar.
Á sumrin verða stórar hitasveiflur oftast í átökum sjávar- og landlofts, ekki endilega á sömu veðurstöðvum og vetrarsveiflurnar eru sem stærstar.
Hér má sjá dægursveiflu snöggra hitasveiflna. Tíðnin er áberandi mest að morgni dags og rétt fram yfir hádegi, en annars svipuð á öðrum tímum sólarhringsins. Næsta mynd sýnir þetta e.t.v. betur.
Hér er reynt að setja bæði árstíða- og dægursveiflu á sömu mynd. Rauðu litirnir sýna mesta tíðni snöggra sveiflna, en þeir dökkgrænu minnsta. Ekki er mikill munur á tíðninni eftir tíma sólarhrings nema fyrri hluta árs, frá febrúar frem í júní (og jafnvel í júlí). Þá er áberandi hámark síðla morguns og undir hádegi. Hámarkið á þeim tíma á fyrri mynd er því orðið til á þessum ákveðna árstíma, en gætir ekki á haustin. Tilhneiging er til þess að tíðnihámarki þessu seinki þegar kemur fram á vorið, það er um klukkan tíu í febrúar, um 12 í apríl og um kl.14 í júní. Þessu ræður sólin sjálfsagt - fyrst ein og óstudd, en síðan með aðstoð hitamunar lands og sjávar.
Tíðnihámarkið einkennilega fyrr á morgnanna sem virðist liggja frá kl.6 í júní, um kl.8 í ágúst og 9 til 10 í september gæti verið raunverulegt, en kannski eru villur í gögnum að stríða okkur. Þarfnast nánari athugunar við.
Að lokum er eðlilegt að spyrja hvaða stöðvar það séu sem skila flestum snöggum hitasveiflum. Þær tíu gæfustu má sjá í töflunni hér að neðan. Hlutfallstalan er þúsundustuhlutar (prómill).
Sumar af þessum stöðvum hafa legið undir grun um ákveðna óþekkt, en ekkert slíkt hefur sannast. Við látum slíkt liggja milli hluta - kannski er þetta allt eðlilegt.
Tvær mestu skyndisveiflurnar sem ritstjórinn fæst til að viðurkenna eru þessar:
Í Möðrudal 9. nóvember 2005, 15,9 stig og á Sauðárkróksflugvelli 23. desember 2023 15,8 stig.
Vonandi mun einhvern tíma verða gerð vísindaleg úttekt á þessu atriði, það sem hér fór að ofan er það ekki. Látum þetta duga.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2025 | 13:34
Fyrstu 20 dagar febrúar 2025
17.2.2025 | 18:00
Enn eitt gagnafylleríið?
Fyrir nokkrum dögum var á það minnst hér á hungurdiskum að hægt væri að bera fram spurningar eins og þessa: Hver er hlýjasti norðanáttardagur sem við þekkjum á landinu í febrúar? Það er meira að segja mjög auðvelt að finna svar - ef við miðum aðeins við síðustu 75 árin. Vandinn hefst hins vegar þegar kemur að nánari spurningum. Hvað er það sem við eigum við þegar við segjum hlýjastur? Hvað er norðanáttardagur? Þetta eru öllu þvælnari spurningar heldur en sú fyrsta. Svörin eru ætíð álitamál og þar með verður svarið við spurningunni um hlýjasta norðanáttardaginn einhvern veginn marklausari en áður, og jafnvel misjafnt eftir því hvaða skilgreiningar eru notaðar - örugglega misjafnt ætti frekar að segja.
Ritstjóri hungurdiska heldur úti þremur skrám þar sem giskað er á ríkjandi vindátt hvers dags á landinu langt aftur í tímann (auk tveggja sem aðeins ná til þessarar aldar - en eru nákvæmari). Sú sem hann notar mest reiknar meðalvigurvindátt hvers dags eftir athugunum á mönnuðum veðurstöðvum allt aftur til 1949. Hver dagur fær sína vindátt, meðalvindhraða og vigurvindhraða. Af hlutfalli vigur- og meðalvindhraða má reikna það sem ritstjórinn kallar festu eða festuhlutfall. Því nær sem það er einum, því fastari hefur hann verið á áttinni. Festan er að jafnaði marktækt meiri í miklum vindi heldur en hægum, og þar af leiðandi er hún að jafnaði meiri að vetri heldur en að sumri. Að sumarlagi þegar sólfarsvindar eru ríkjandi, eða vindur er mjög hægur er oft nánast tilviljun úr hvaða átt vigurvindurinn blæs, festan er þá lítil. Því má búast við því að á slíkum dögum sé áttin í raun illa ákvörðuð eða ónákvæm. Freistandi væri því að sleppa slíkum dögum þegar við leitum að hæsta eða lægsta hita hverrar áttar - eða telja þá sérstaklega. Um leið og við förum að gera slíkt getum við lent í miklum gagnaskógi og hætt að sjá skóginn fyrir trjám. Í því sem hér fer á eftir hefur vindáttunum 360 verið skipað á 8 höfuðáttir, hver átt fær 45 gráðu bil á hringnum.
Fyrsta verkefnið sem við leggjum upp með er einfalt. Við viljum vita hver hefur verið ríkjandi vindátt þá daga þegar landsdægurhámarksmet hafa verið sett. Byrjum á febrúarmánuði. Svo vill til að dægurmet hlaupársdagsins (29.febrúar) er frá því 1948, utan þess tímabils sem áðurnefnd skrá nær til, sama á við met þess 16. og 22. En hinir 26 dagarnir skila sér. Af þessum 26 dögum var sunnanátt ríkjandi 13 daga, en suðvestanátt 12 daga, einn dag segist austanátt hafa verið ríkjandi.
Þá spyrjum við um alla daga ársins (við náum áttgreiningu á 311 dögum) - 55 dægurmet eru eldri. Sunnan- og suðvestanáttin eiga langflesta metdagana, 225 samtals (72 prósent), austan- og suðaustanáttir eiga samtals 49 (16 prósent), vestan- og norðvestanáttir 17 (5 prósent) og norðan- og norðaustanáttir samtals 20 (7 prósent). Þetta með norðlægu áttirnar kemur dálítið á óvart, en þegar við athugum þessi tilvik hvert og eitt eiga þau sér sínar skýringar. Hrein norðanátt á 10 tilvik, í langflestum er vindur hægur og festuhlutfallið lágt, (innan við 0,4). Einstöku sinnum er líka hlýtt á Suðurlandi í norðansólskini að hásumri. Eitt tilvik sker sig úr, með bæði dágóða festu (0,9) og meðalvindhraða (9,8 m/s). Það tilvik þekkjum við vel, þetta er 4.júní 1997, í upphafi hretsins mikla sem þá gerði. Mettalan 24,0 stig á Akureyri tilheyrir leifum dagsins áður. Þetta met er því eitt þeirra bókahaldsmeta sem fylgir athugunarháttum - og við verðum að sætta okkur við - en truflar auðvitað athuganir eins og þær sem við stöndum hér í.
En spurningunni sem borin var fram í upphafi hefur ekki verið svarað. Til að geta gert það þurfum við líka að ákveða hvers konar hitaviðmið við eigum að nota þegar við tölum um hlýjasta daginn. Ekki er óeðlilegt að reikna meðalhita í byggðum landsins - ekki óskaplega umdeilanleg tala - en við sitjum þó uppi með hægviðrið - og tilviljanakennda átt. Í stað þess að leggja inn í sjálfan skóginn leitum við að þessu sinni aðeins að einu tré, þar sem við finnum hvaða dagur það er sem hefur verið hlýjastur norðanáttardaga í byggðum landsins á árunum 1949 til 2024, en við skulum líka leyfa okkur að finna hann fyrir bæði mannaðar og sjálfvirkar stöðvar.
Og dagurinn er 28. febrúar 2018, meðalhiti á landsvísu var 3,6 stig, hægur dagur og loftþrýstingur hár. Á sjálfvirku stöðvunum (1997 til 2024) lendir þessi dagur í öðru hlýjasta sæti norðanáttardaga, meðalhiti líka 3,6 stig. En 15. febrúar árið áður, 2017 nær rétt að toppa hann, nær 3,7 stigum - ómarktækur munur auðvitað.
Sannleikurinn er auðvitað sá að það ærir fljótt óstöðugan að halda utan um öll svona met, en maður sér nú ámóta gert í íþróttum þar sem farið er að halda utan um ótrúlegustu hluti. Við látum hér staðar numið - þótt freistandi sé að sitja áfram á millibarnum og fá sér góðan og sterkan gagnakokteil - rétt einu sinni.
16.2.2025 | 16:40
Fyrstu 15 dagar febrúarmánaðar
14.2.2025 | 20:28
Ritstjórinn hrökk aðeins við
Við höfum stöku sinnum í gegnum tíðina litið á ýmsar ólíkindaspár skemmtideildar evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þær hafa langflestar verið þannig að ólíkindin hafa blasað við. Langalgengast er að slíkar spár rætist ekki. Spáin sem hér er bent á er þannig séð í svipuðum flokki nema hvað nokkuð þjálfað auga þarf til að átta sig á því hver ólíkindin eru.
Hér má sjá spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykkt mánudaginn 24. febrúar 2025. Þetta er það langt í framtíðinni að ólíklegt er að þessi staða verði uppi þennan ákveðna mánudag. Í fljótu bragði virðist kannski ekki mikið að. Maður hrekkur þó við þegar maður áttar sig á því að það er febrúar, en ekki apríl - og það er norðanátt - og 500 hPa-flöturinn er nokkuð neðan meðallags - og að þykktin yfir landinu er nærri 100 metrum hærri en að meðallagi (það er 4-5 stigum hlýrra en í meðallagi) - í norðanátt.
Leit að svipaðri stöðu í fortíðinni skilar líka heldur rýrri niðurstöðu. Það má kannski finna 2 eða 3 tilvik á því 75 ára tímabili sem áreiðanlegar háloftaathuganir hafa verið gerðar, en ekki fleiri - og þá aðeins að sveigjanleikaleyfi sé gefið.
En ritstjórinn veit að skemmtideildin er ekki alveg áreiðanleg (mjög óáreiðanleg - ætti að segja) og hann vill því ekki enn leggja vinnu í að reyna að svara spurningunni um það hver sé hlýjasti norðanáttadagurinn sem komið hefur í febrúar - en ef þessi spá heldur - er sennilega rétt að leggja í alvöruleit. Leitargögn og fararskjótar eru fyrir hendi í þann leiðangur - ef frekara tilefni gefst til. En lesendur verða bara að trúa því að þetta er óvenjulegt - það sýna skyndiflettingar.
13.2.2025 | 17:17
Hvað gerum við í austanáttinni?
Eftir illviðri síðustu viku skipti yfir í hagstæðara veðurlag, til þess að gera hlýja austanátt. Viðbrigðin svo mikil að sumum finnst jafnvel að vor sé í lofti. Austanátt þessi virðist ætla að halda eitthvað áfram. Það er samt ýmislegt sem veðurnördin gefa gaum.
Sjávarmálskortið hér að ofan gildir síðdegis á morgun, föstudaginn 14. febrúar 2025. Mikið lægðasvæði er sunnan við land, en öflug hæð yfir Grænlandi og hafinu þar austur af. Eindregin austanátt ríkir á stóru svæði, allt frá Noregi í austri vestur um til Labrador. Lægðin sem er langt suður af landinu grynnist, en ný og öflug lægð er við Nýfundnaland á austurleið - tekur við hlutverki hinnar fyrri í viðhaldi austanáttarinnar. Allt í sóma.
Á háloftakortinu sem gildir á sama tíma má sjá jafnhæðarlinur 500 hPa-flatarins (heildregnar) og einnig þykktina (merkt með litum). Af legu jafnhæðarlína getum við ráðið að vindstefna í rúmlega 5 km hæð er aðeins suðlægari heldur en í mannheimum og vindstyrkur er töluvert minni. Jafnframt má sjá að nokkur þykktarbratti er yfir landinu, hlý tunga sunnan við, en kaldara fyrir norðan. Þessir tveir þættir, hæðar- og þykktarbratti leggjast hér saman - og styrkja austanáttina í neðri lögum.
Háloftahæðarhryggur gengur til norðurs skammt austur af landinu, allt norður fyrir Grænland. Loftið sem heldur honum uppi kólnar og þá veikist hann smám saman, nema hann fái meira hlýtt loft að sunnan sér til viðhalds. Kannski mun lægðin við Nýfundnaland sjá til þess? Fari svo munum við njóta lítið breytt veðurlags nokkra daga til viðbótar.
En eins og venjulega í austanáttinni fylgjumst við náið með því sem gerist í háloftunum. Reiknimiðstöðvar eru nokkuð óvissar á framhaldinu. Evrópureiknimiðstöðin segir í dag að fleiri lægðir komi frá Nýfundnalandssvæðinu eftir helgina og verði smám saman ágengari - og að þá muni loftþrýstingur falla aftur - en hann er nokkuð hár í dag. Aðrar spár undanfarna daga hafa gefið til kynna að lægðirnar muni um síðir brjóta sér leið fyrir sunnan land og vindur muni þá snúast til norðaustanáttar og kólnandi veðurlags. Hæðarhryggurinn þokast þá vestur fyrir Grænland. Þriðji möguleikinn er að loft fyrir norðan land kólni í friði, þá mun vindur yfir landinu smám saman snúast til vesturs - þótt austanátt haldi áfram í mannheimum - austanáttin verði þannig bara plat. Í slíkum kringumstæðum getur margt gerst, en er yfirleitt til leiðinda.
Það sem við gerum er að fylgjast með háloftavindum - og loftvog. Á morgun er vindur suðlægari í hæð heldur en neðar. Hlýtt loft streymir að (ekki af ákafa að vísu - en samt). Fari vindur í hæð að blása úr norðaustri eða austnorðaustri meðan vindur við jörð er úr háaustri er aðstreymið orðið kalt.
Næg vinna framundan, en henni þarf þó ekki að sinna í langan tíma á degi hverjum - rétt að gefa loftvoginni, vindátt, háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli og þessum spákortum gaum. Horfum líka til himins - segja skýin okkur eitthvað?
11.2.2025 | 22:30
Drjúgur pistill um áhrif Grænlands
Við rifjum nú upp fornan pistil hungurdiska - sem endaði á orðunum ég er að hugsa um að endurtaka þetta síðar eða bæta í, nóg er efnið. Lesendur hungurdiska munu kannast vel við innantóm loforð af þessu tagi - þau eru víst drjúgmörg. Það sem hér fer að neðan er að mestu leyti samhljóma eldri pistli, en þó er bætt við skýringarmyndum og smávægilegar lagfæringar gerðar - vonandi til bóta - en ekki endilega.
Grænland hefur gríðarleg áhrif á veðurfar við norðanvert Atlantshaf og þar með hér á landi. Áhrifin einskorðast ekki við lofthjúpinn heldur sjávarhringrás líka. Austur-Grænlandsstraumurinn ber með sér bæði hafís og kaldan sjó til landsins, í mestu hafísmánuðum verður Ísland eins konar skagi út úr miklu meginlandi norðurheimskautsins.
Því er stundum haldið fram að miklum kuldum stafi frá Grænlandsjökli og Grænland sé þannig eins konar kuldalind. Rétt er þó að tala varlega um slíkt, því oftar er málum öfugt farið. Loft kólnar að sönnu mikið yfir hájöklinum og streymir niður til allra átta, en við að falla niður til sjávarmáls hlýnar það um 20 til 30 stig. Loftið í kringum Grænland er líka stöðugt að kólna og hiti þess er því oftast lægri heldur en hiti loftsins sem streymir beint ofan af jöklinum.
Líkanreikningar hafa leitað skýringa á því hversu hlýtt er hér á landi miðað við breiddarstig. Loft- og sjávarstraumar valda langmestu (kemur ekki á óvart), en hins vegar má það koma á óvart er að hin lóðrétta hringrás sem kólnunin yfir jöklinum og þar með fallvindarnir niður af honum ná að eiga hlut í hlýindunum. Tvennt kemur til:
Loft sem annars hefði legið einskis nýtt í háloftum lendir í niðurdælingu yfir jöklinum og hluti þess leitar yfir Ísland og getur þar blandast niður í hvössum vindum yfir fjöllum hér. Kalda loftið af jöklinum kemst þó sjaldnast niður að sjávarmáli. Loft streymir nú samt niður eftir jöklunum. þar til það mætir kaldara lofti neðan við. Í stað þess togast efra loft niður og hlýnar það einnig þurrinnrænt (1°C/100 metra lækkun). Þetta niðurstreymi verður til þess að veðrahvörfin dragast niður og úr verður lægðarsveigja sem bætir heldur í sunnanátt á Íslandi og veldur því að hér er hlýrra en væri ef Grænland væri lágslétta nærri sjávarmáli - auk blöndunaráhrifanna áðurnefndu.
Sömuleiðis hindrar Grænland að loft frá nyrstu eyjum Kanada streymi til landsins. Kalt loft er þungt og það rekst á vegg við Grænland og verður að fara umhverfis það. Við fáum oft að kynnast lofti sem kemur að norðan meðfram austurströnd Grænlands. Það er miskunnarlítið, en loftið sem ætlar syðri leið verður að fara suður fyrir Hvarf og þar með fara yfir hlýjan sjó sem dregur mjög úr kulda þess, þó að vísu sé það oftast heldur hráslagalegt.
Kuldinn sem fylgir Grænlandi er því ranglega kenndur því, en réttilega ísasvæðinu austan þess.
Þótt háhryggur Grænlands sé ekki nema 2 3 þúsund metra hár hefur hann veruleg áhrif á framrás lofts í báðar áttir. Þegar vindur í neðri hluta veðrahvolfs er austlægur myndar Grænland fyrirstöðu og neyðir vind til að beygja úr austlægri í norðaustlæga stefnu (norðlæga norðan sjötugasta breiddarbaugs). Þar sem (grunnar) austanáttir eru tíðar á heimskautasvæðunum liggur kaldur norðan- og norðaustanstrengur langtímum saman meðfram Grænlandi, oft á skjön við þrýstilínur nærri ströndinni. Ganga má svo langt að kalla þetta hið eðlilega ástand á svæðinu. Þessi norðlægi straumur getur einnig drifið sig sjálfur ef svo má segja, án þess að vindur úr austri þrengi að. Slík norðanátt er þó að jafnaði hæg.
En þegar þrengir að strengnum mjókkar hann, en þykknar jafnframt og verður stríðari. Mörg illviðri hér á landi tengjast þessum streng og við viljum gjarnan kalla ástandið Grænlandsstíflu. Loftið sem kemur þá að landinu á sér oft mjög norðlægan uppruna og telst þá oft sérstakur loftmassi sem upphaflega er ekki eiginlegur hluti af hringrás lægðarinnar sem veldur suðaustan- eða austanáttinni sem þrengir að strengnum.
Nokkuð skörp skil verða þá á milli norðlæga loftsins annars vegar og þess sem sækir að úr austri. Freistandi er þá að teikna skil á kort, en hvers konar skil eru það? Þau tengjast oft engum lægðum. Við þessi skil má stundum sjá éljagarða sem eru mörg hundruð kílómetrar á lengd, ná frá Jan Mayen og langleiðina til Svalbarða. Kalsalægðir (öfugsniðnar) geta birst við þessa garða. [Við notum hér heitið kalsalægð yfir erlenda hugtakið Polar Low, öfugsniðin kalsalægð er það sem á erlendum málum heitir reverse shear polar low).
Stundum verður Ísland fyrir því að stífla sem verið hefur við Grænland norðaustanvert brestur og kalda loftið fellur suður um Ísland, þá má oft greina eins konar kuldaskil við syðri brún kalda loftsins, skil sem eru ekki tengd neinni eiginlegri lægð. Þó myndast stundum kalsalægðir í þessu lofti eftir að það er komið suður fyrir land og valda þær leiðindum á Bretlandseyjum.
Þegar loft kemur að Grænlandi úr vestri (mjög, mjög algengt) rekst það á fjalllendið. Það fer síðan eftir stöðugleika (og fleiru) hvernig framhaldið verður. Sé loftið stöðugt stíflast framrás loftsins og það leitar að jafnaði suður með landi og fyrir Hvarf. Sé þetta loft kalt fréttir austurströnd Grænlands (og Ísland) lítið af kuldanum fyrir vestan. Sé það óstöðugt gerist það sama - nema að óðstöðugleikinn nái hærra heldur en jökullinn (ekkert sérlega algengt). Það gerist ekki nema þegar loftið er afspyrnukalt upp í margra kílómetra hæð. En þá fréttist aldeilis af kalda loftinu. Það fer þá yfir jökulinn sem ekkert sé og fellur niður austurströndina í ofsastormi sem Grænlendingar kalla Piteraq. Ekkert getur bjargað málunum nema að loftið austan við sé enn kaldara en það sem að vestan kemur.
Við erum því með ýmis tilbrigði þess hvað verður þegar loft kemur að Grænlandi að vestan. Algengt er að niðurstreymi sé austan Grænlands í vestanátt, loft í niðurstreymi hlýnar, en vegna þess að loft í neðri lögum austan við er fremur kalt, nær niðurstreymið aldrei til jarðar en niðurstreymishitahvörf myndast við efra borð kalda loftsins. Er eins og teppi hafi verið lagt yfir það loft sem neðst liggur. Þá þornar oft og léttir til hér á landi, á sumrin hlýnar jafnvel þó kuldaskil fari yfir. Rakastig getur fallið nokkuð rösklega.
Hér á hungurdiskum höldum við upp á þykktina, stikann sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hæstu þykktartölur sem sjást í tölvuspám hér við land eru oftast tengdar niðurstreymi við Austur-Grænland að sumarlagi. Þar sést hinum afskaplega sjaldséðu 5700 metrum bregða fyrir. Nánast vonlaust er þó að ná þessu lofti yfir til Ísland og þar að auki ná því niður - vonbrigðaveður.
Lægðardrög myndast gjarnan milli Ísland og Grænlands þegar vestanátt ef yfir Grænlandi og hangir þar fast vegna þess að það er bundið niðurstreyminu. Þá snýst vindur til suðvestanáttar hér á landi og algengt er að þokusudda reki þá að vestanverðu landinu. Þá kemur upp sú aðstaða að suðvestanáttin sem getur verið býsna hlý á vetrum er samt kaldari en niðurstreymisloftið sem myndar teppið.
Efri hluti myndarinnar á að sýna teppi, þversnið frá vestri til austurs (austur lengst til hægri). Loft streymir ofan af Grænlandsjökli, en það er ekki nógu kalt til að hreyfa við enn kaldara lofti sem liggur meðfram ströndinni - það loft er e.t.v. komið alla leið úr norðurhöfum - eða hefur farið suður fyrir Hvarf. Teppið er oft ofan Íslands. Veðrahvolfið bólgnar þegar loftið hlýnar og halli myndast á veðrahvörfunum (rauð lína). Af hallanum getum við ráðið að vindur þar uppi blæs inn í myndina, þar er suðlæg vindátt.
Sé loftið austan Grænlands hins vegar hlýrra en það sem er á leið yfir jökulinn kemst kalda loftið alveg niður að sjávarmáli austan við og myndast þá mjög kröftug lægð milli Íslands og Grænlands. Sé fallið mjög víðtækt og stórfellt dragast veðrahvörfin mjög niður, og lægð getur myndast. Stundum má sjá straumstökk, mikla lyftingu veðrahvarfanna rétt austan við niðurstreymið, þar uppi kólnar loft þá mjög og oft má sjá mikinn skýjafald myndast.
Sé málum öðrum þannig háttað að lægðin sem þarna myndast - eða styrkist er á leið til norðausturs gerir venjulega útsynningsillviðri með tilheyrandi særoki hér á landi. Úrkoma er þá lítil vegna þess hvað loftið sem fellur niður af Grænlandi verður þurrt. Þó það fari síðan yfir hlýjan sjó til Íslands nær það ekki að rakamettast vegna þess hve hvasst er (tími hvers loftbögguls yfir sjónum er lítill).
Sé háloftabylgjan á leið suðaustur á hún sem slík mun meiri vaxtarmöguleika. Fer það eftir braut bylgjunnar hvað gerist við Ísland. Ef hún er norðarlega gerir norðanáhlaup. Fari hún yfir mitt Grænland getur fyrst gert suðvestanátt en síðan norðaustanáhlaup. Einnig festast lægðirnar stundum á Grænlandshafi og losna ekki. Þá dælist suðlægara loft til Íslands.
Stundum þegar Grænland stíflar framrás kulda úr vestri nær loftið að krækja suður fyrir í mikilli vindröst sem getur náð til Íslands (þó algengara sé að hún haldi til austurs fyrir sunnan land). Loftið sem fer þessa leið mætir þá lofti sem annað hvort hefur lent í niðurstreymi austan Grænlands og er þá þurrt og tiltölulega hlýtt, eða þá hefur sigið suður austan Grænlands og er mjög kalt. Við skilyrði af þessu tagi myndast gjarnan élja- eða vindgarðar frekar en lægðir yfir Grænlandshafi.
Rissið á myndinni tekur saman helstu punkta hér að ofan. Bláu línurnar eru hið eðlilega ástand. Allt er í jafnvægi kalt loft leitar sína leið suður með Austur-Grænlandi. Loft sem kemur að vestan hefur oftast tilhneigingu til að beygja fyrir Hvarf, þar er vindröst sem síðan dreifir úr sér á Grænlandshafi (ljósbláar örvar). Græna örin sýnir hvernig háloftavindar sveigja þegar mikið af köldu lofti fellur niður við Austurströnd Grænlands (Piteraq). Rauða örin sýnir mun algengara ástand, loft að vestan lyftist yfir Grænland, en kemst ekki niður hinu megin og býr til teppi. Gráa örin á að minna okkur á stíflumyndunina, oftast eru stífluáhrifin mest yfir Grænlandssundi, en mjög mörg mjög slæm illviðri hér á landi eru stífluættar.
Hér má sjá - til minnis - nokkrar lægðabrautir við Grænland. Lægðir sem koma frá Labrador fara oft norður með vesturströnd Grænlands (iii-a) og oft klofna nýjar lægðir frá þeim við Hvarf. Þessar nýju lægðir fara sína leið, stundum austur, en alloft beint til Íslands líka. Norðanlægðirnar eru einkum þriggja gerða. Þær sem koma beint úr norðri og halda nánast beina leið til suðurs (iv-a), en hlykkjast síðan suðaustan við Ísland (því Ísland er ekki áhrifalaust). Þetta eru oft hættuleg veður - og voru enn hættulegri hér áður fyrr fyrir tíma tölvuspáa og enn frekar fyrir tíma veðurskeyta. Gera lítil boð á undan sér, jafnvel skýlausar. Liggi háloftastraumar yfir Grænland kemur oftast hlykkur á þá þegar loftið fer að falla niður af jöklinum (og suðurstefnan hjálpar til, iv-b). Sé leið lægðarinnar svipuð og merkt er iv-c eru líkur til að suðaustanátt nái sér á strik við Ísland þegar lægðin dýpkar á Grænlandshafi.
En Grænland hefur líka áhrif á vindáttatíðni við Ísland. Við rifjum hér upp gamla mynd sem sýnir áttatíðni ofviðra á Íslandi.
Reiknuð er út meðalvigurstefna vinda á landinu þegar illviðri ganga yfir - og hún sett fram sem vindrós lögð ofan á kort af svæðinu. Eftirtektarvert er hversu lítið er um illviðri á áttabilinu hávestur yfir í norðnorðvestur - og einnig úr hreinni suðaustanátt (yfir öllu landinu). Hér má sjá áhrif bæði Grænlands og Íslands. En sennilega er kominn tími á að endurnýja þessa mynd.
Við látum hér staðar numið (og lofum ekki framhaldi - það ræðst bara).
11.2.2025 | 11:29
Fyrstu tíu dagar febrúar 2025
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.9.): 3
- Sl. sólarhring: 128
- Sl. viku: 1638
- Frá upphafi: 2499633
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 1489
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010