Víkur kuldinn?

Fyrsta vika ársins 2025 hefur verið köld á landinu, hiti yfirleitt 4 til 6 stigum undir meðallagi á landinu. Nú gera spár hins vegar ráð fyrir hlýnandi veðri. Spár segja hita kominn upp fyrir frostmark um landið suðvestanvert um hádegi á föstudag og um sólarhring síðar á Austurlandi. Fyrst er kuldanum í háloftunum stuggað burt en síðan fara suðlægir vindar að reyna að hreinsa það kalda loft sem lægra liggur burt - eða blanda það hlýrra lofti - kannski er síðari hátturinn heppilegri.

w-blogg080125a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi á föstudag. Þá er kaldasta loftið í neðri hluta veðrahvolfs horfið á braut og fremur hægur suðvestlægur vindur ber hlýrra loft (meiri þykkt) í átt að landinu. En ekki eru læti í þessu til að byrja með þannig að kaldasta og kyrrasta loftið í dölum landsins þrjóskast eitthvað við - kannski fer það burt, en eins og áður er minnst á gæti það líka blandast loftinu sem kemur að sunnan - og þá gengur hlýnunin hægar fyrir sig. 

Við tökum eftir gríðarlega snörpum kuldapolli nyrst á kortinu. Þykktin er minni en 4800 metrar þar sem hún er minnst. Við þurfum alltaf að hafa auga á svona kulda - þessum er reyndar spáð til austurs og þar með út af þessu korti, en það er þó þannig að það sem af er vetri hefur farið illa um kuldapolla norðurslóða og sá vestlægi (sem við höfum oft kallað Stóra-Bola) hefur ekki almennilega komist í sitt venjubundna bæli norðarlega í Kanada, hefur alltaf hrakist burt þaðan eftir skamman tíma. Óvenjuleg hlýindi hafa því verið á þeim slóðum um langa hríð. Spár eru auðvitað ekki sammála um hvernig fer með þau mál, en vísbendingar eru þó um að þessir hrakningar haldi áfram og að þessi meginkuldi norðurhvelsins geti tregðast við að yfirgefa austurgrænlandssvæðið - þótt hlýindi sæki nú að - að sinni. 


Af dægurmetauppskeru (að mestu endurtekið efni)

Hér fer endurtekið efni - uppfært þó - í tilefni þess að árið 2024 var það kaldasta til þessa á öldinni. Við lítum á talningar dægurhitameta á sjálfvirkum veðurstöðvum landsins - afskaplega nördalegt viðfangsefni. Dægurhámarksmet er hæsti hiti (hámark) sem mælst hefur á viðkomandi stöð ákveðinn almanaksdag og dægurlágmarksmet lægsta lágmarkið. Nýgengi þeirra fer bæði eftir því hversu lengi stöð hefur mælt hita, en almennt tíðarfar hefur einnig nokkuð að segja. Líkur eru á að fleiri dægurhámarks falli í hlýju ári heldur en köldu og öfugt þá í köldu. Væri veðurlag stöðugt gætum við að jafnaði búist við um 12 dægurmetum á hverju ári. Fyrir landið hefur verið athugað mun lengur og dægurmet fyrir landið allt eru sjaldséðari sem því munar.

Þótt fréttir að utan geri oft mikið úr dægurmetum (sérstaklega þeim amerísku) segja einstök met samt harla lítið - þó þau geti falið í sér skemmtileg tíðindi. Hafi verið mælt mjög lengi á stöðinni verða þessi tíðindi eftirtektarverðari. Svipað má segja um mjög miklar metahrinur - daga þegar dægurmet falla um stóra hluta landsins.

Talning leiðir í ljós að alls féllu 3226 hámarksdægurmet á almennu sjálfvirku stöðvunum hér á landi á árinu 2024 - séu þær stöðvar sem athugað hafa í 5 ár eða meira aðeins taldar með. Lágmarksmetin urðu hins vegar 5143 - talsvert fleiri en hámarksmetin - og mun fleiri heldur en undanfarin ár - enda var um svalt ár að ræða. En fjöldi metanna er líka háður fjölda stöðva - og þeim hefur farið fjölgandi þau 30 ár sem við lítum hér á. Því er hagkvæmara að líta á hlutfall hámarks- og lágmarksmeta, það er mjög breytilegt frá ári til árs og hlýtur að segja okkur eitthvað. Meir en 72 þúsund dægurmet hvorrar tegundar eru skráð alls á tímabilinu frá 1995 til 2024.

Lítum nú á línurit sem sýnir hlutfall hámarksdægurmeta af heildinni frá ári til árs.

w-blogg070125ha

Aðeins þarf að doka við til að skilja myndina - lárétti ásinn sýnir ár tímabilsins. Lóðrétti ásinn til hægri og rauðstrikaða línan sýna landsmeðalhita. Hlýjust eru árin 2003, 2014 og 2016, en 2015 og nýliðið ár voru hins vegar ámóta köld og árin fyrir aldamót.

Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir hlut hámarksdægurmeta af summu útgildametanna (hámarks og lágmarks). Hlutur lágmarksmetanna fæst með því að draga frá einum. Við sjáum að allgott samband er á milli hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans. Í hlýjum árum er hlutur hámarkshitameta yfir 0,5 (50 prósent) og fer enn hærra þegar hlýjast er. Í köldum árum, eins og t.d. 2015 og 2024 verða lágmarksmet mun fleiri en hámarksmet, árið 2015 fór hámarksmetahluturinn niður í 0,31 og 2024 niður í 0,39. Árið 2016, fór hann hins vegar upp í 0,73 - og lágmarkshitahluturinn því aðeins 0,27.

Eftir því sem árunum fjölgar verður erfiðara að slá metin 72 þúsund (þeim fjölgar svo þegar stöðvum fjölgar). Þrátt fyrir það er á þennan hátt hægt að fylgjast með veðurfarsbreytingum. Skyndileg breyting á veðurlagi á hvorn veg sem er - nú eða í átt til öfga á báða bóga - kæmi fram við samanburð hegðunar metanna síðastliðin 30 ár. - En því nenna nú fáir nema útnörd - eins og ritstjóri hungurdiska - varla að slíkt eftirlit verði í forgangi hjá því opinbera (þrátt fyrir tal um veðurfarsbreytingar).

Við skulum næst líta á línurit sem sýnir samband hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans.

w-blogg070125hb

Lárétti ásinn markar hámarksmetahlutinn, en sá lóðrétti meðalhitann. Punktadreifin raðast vel og reglulega í kringum beina línu - því fleiri sem hámarkshitametin eru miðað við þau köldu, því hlýrra er árið. Fylgnistuðull er 0,92, nánast hægt að mæla landsmeðalhitann með því að reikna hlutfallið. En við skulum ekki venja okkur á að líta alveg hugsunarlaust á dreifirit sem þetta - athugum t.d. að hlutur hámarksmeta getur ekki orðið hærri en 1,0. Skyldi árið þegar landsmeðalhiti nær 6,16 stigum verða algjörlega lágmarksmetalaust? - eða árið þegar landsmeðalhitinn fellur niður í 2,34 stig - skyldu þá nákvæmlega engin hámarkshitamet verða sett? Árið 1979 fór landsmeðalhitinn niður í 1,75 stig, en hámarksmetahluturinn var þó 0,12. 

Ef rýnt er í myndina sést að hámarksmetahlutur ársins 2024 er nokkru hærri heldur en meðalhiti þess gefur til kynna. [Kannski árið hafi verið hlýrra en við reiknum?]

Í eldri pistlum um þetta efni höfum við stundum getið þeirra daga sem skila flestum metum (miðað við fjölda stöðva í rekstri) - en aðeins fyrir sjálfvirka kerfið. Í ljós kemur að bæði hitabylgjur og kuldaköst ná frekar til landsins alls að vetri heldur en sumri. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart, skýjahula og sólfar sér til þess.

Engar breytingar hafa orðið á toppsætum nú í nokkur ár. Sá dagur sem nú á mest metfall er 17. nóvember 2018. Þá féllu hámarksdægurmet á 88 prósent stöðva landsins. Þessi dagur vakti hvað mesta athygli á sínum tíma fyrir gríðarmikla úrkomu, t.d. varð met í Reykjavík fyrir tveggja sólarhringa úrkomusummu. Sá er munur á „hitabylgjum“ að sumarlagi að þær ná mun síður til landsins alls. Sá sumardagur sem nær hæstu hlutfalli er sá eftirminnilegi 30.júlí 2008, dægurmet féllu þá á 68 prósent veðurstöðva.

Á lágmarksmetahliðinni er það enn 30.apríl 2013 sem á hæstu methlutfallstöluna, 95 prósent. Um þann dag var ritað á hungurdiskum á sínum tíma. Óvenjukaldur dagur.


Þótt enginn spyrji

Ritstjórinn fær nær aldrei spurningar um met í háloftunum yfir Íslandi - áhugamenn um slíkt virðast mjög, mjög fáir. En eins og þrautseigir lesendur vita gefur hann þeim samt reglulega gaum, lítur yfir valinn eftir hver áramót og athugar hvort einhver met liggi þar fallin. 

Ekki var mikið af háloftametafalli á nýliðnu ári - enda eru í skrá ritstjórans háloftaathuganir yfir Keflavíkurflugvelli aftur til ársins 1973 fyrir fleti ofan við 100 hPa og aftur til 1952 fyrir þá neðri. Þetta er það langur tími að tíðra meta er vart að vænta. 

En samt má nefna fáein atriði. Þann 30.júní mældist hiti í 850 hPa yfir Keflavík 12,4 stig. Þetta er jafnhátt og hæst hefur mælst áður í fletinum í júnímánuði. Þegar litið er á þykktarmælingu kemur í ljós að þykktin þennan dag var sú fjórðahæsta sem mælst hefur í júní. Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hærri er hitinn. Um þetta atvik var getið í pistlum hungurdiska, fyrstu spár um veður þennan dag höfðu gert ráð fyrir hitametum, en síðan dró úr ákafa í spánum og við fengum hlýindin í skammvinnum fleyg sem gekk hratt yfir landið. Hiti komst þó í 25,4 stig á Bakkagerði á Borgarfirði eystra og meðalhámarkshiti dagsins á landinu var með því hæsta sem gerðist á árinu. 

Tæpum mánuði áður, þann 2. júní varð óvenjuhlýtt í 150 hPa-fletinum (í 13 til 14 km hæð), júnímet frá 1972 var slegið þegar hiti fór upp í -37,8 stig. Ekki hefur ritstjórinn athugað málið sérstaklega, en hiti í fleiri háum flötum komst nærri meti. Eins og margir muna skall einmitt þarna á mikið hret sem olli miklu tjóni í landbúnaði. Þau tengsl gætu verið á milli hretsins og þessara háloftahlýinda að framsókn kalda loftsins í veðrahvolfinu hafi verið nægilega áköf til að framkalla niðurstreymi í 150 hPa-fletinum - er það líklegasta skýring á metinu (að að öðru leyti óathuguðu máli - gæðamat hefur ekki farið fram). 

Þann 4. september náðu 70 og 50 hPa-fletirnir nýjum septemberhæðarmetum, 18860 m og 21040 m. Þessu fylgdi líka atburður við jörð. Snögg hitabylgja gekk yfir landið aðfaranótt og morgun þess 5.september og sló öll septemberathugunartímahámörk landsins frá því kl.6 um morguninn og til kl.12 - og reyndar svo kl.14 líka. Hiti komst hærra á Seyðisfirði en vitað er um áður í september, 25,1 stig. Þykktin yfir Keflavík varð sú þriðjahæsta sem vitað er um. 

Eins og margir muna var fyrri hluti nóvember óvenjuhlýr. Þann 11. var slegið hitamet í 850 hPa yfir Keflavík, hiti fór í 11,4 stig, hafði áður hæst mælst 10,0 stig. Margs konar hitamet voru slegin á landinu um þetta leyti og varð meðalhámarkshiti landsins 14,0 stig, sjónarmun hærri en nokkru sinni áður í nóvember. Þann 14. var landshitamet nóvembermánaðar síðan slegið - eins og hungurdiskar fjölluðu þá um

Engin lágmarkshitamet voru slegin í háloftaathugunum yfir Keflavík á árinu. Nokkrar athuganir í heiðhvolfinu á árinu voru þó meðal þeirra tíu köldustu sem vitað er um í viðkomandi mánuði. 

Hvað skyldu nú margir hafa lesið þetta? 


Heldur óljóst - en samt

Við skulum nú líta á línurit sem ritstjórinn kastaði upp. Hann reynir nú að meta hina og þessa veðurþætti nýliðins árs - er ekki kominn langt með það en getur samt sýnt þetta heldur óljósa rit. Þar má sjá tvo (af fleiri) mæliþáttum sunnanátta á landinu nokkurn veginn á ævitíma ritstjórans. Gallinn er hins vegar sá að alls konar ósamfellur geta truflað mæliröð sem þessa - tölurnar eru lágar - og villuþættir ámóta. En eitthvað segir þetta samt. 

w-blogg050125a

Hér má sjá tvær tímaraðir (lárétti ásinn sýnir ártöl frá 1949 til 2024). Á lóðrétta ásnum til vinstri má lesa þrýstimun á milli Austurlands og Vesturlands, þannig að sé þrýstingur hærri á Austurlandi er munurinn jákvæður - sem hann langoftast hefur verið. Bláu súlurnar á myndinni sýna þennan mun. Lengst til hægri má sjá að gildið fyrir árið 2024 er jákvætt - en bara rétt svo og þetta er lægsta gildi síðan 2010 og þar áður 2005. Þetta þýðir að sunnanáttin hefur verið lin á árinu sem var að líða. 

Bleiki ferillinn - og tölurnar á hægri lóðrétta kvarðanum sýna þrýstimun á milli 10°V og 30°V (á breiddarbilinu 60-70°N). Við skulum ekki velta okkur upp úr einingunum, en sé talan lægri en núll hefur verið norðanátt á þessu svæði. Þessi kvarði er ekki eins viðkvæmur og hinn fyrir smávillum, en er samt ekki alveg laus við slíkan vanda. Það vekur athygli að talan fyrir árið 2024 er sú lægsta frá 1981 að telja. Norðanáttin hefur verið meiri heldur en síðan þá. 

Ekki skulum við taka þetta allt of bókstaflega, en hér er samt um að ræða vísbendingar um að norðanáttir hafi verið algengari 2024 heldur en að undanförnu. 

Tekið skal fram að ritstjórinn reiknar fleiri svona vísa (sér til hugarhægðar) - og ekki víst að útkoman úr þeim sé jafn eindregin og hér. 


Spurt var

Ritstjórinn getur raunar ekki svarað þeirri spurningu sem fram var borin í hans eyru á dögunum um það hvort nýtt kuldaskeið væri hafið hér á landi - þar sem ársmeðalhitinn í Reykjavík 2024 er sá lægsti síðan 1995. Á landinu í heild þarf að fara aftur til 1998. Ritstjórinn hefur enn ekki athugað þaula hvort eitthvað ámóta eigi við um allar veðurstöðvar landsins - en hann gerir það þegar ársmeðaltöl þeirra hafa verið reiknuð.

En óþægilegra er þegar sú fullyrðing fylgir spurningunni að hið nýja kuldaskeið í Reykjavík hafi hafist þegar árið 2013. Þeirri fullyrðingu er hægt að svara með einfaldri neitun. Til að skýra sjónarhornið nánar kastaði ritstjórinn upp myndinni hér að neðan. Hún sýnir 12-mánaða hitakeðju í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga þar 1866. 

w-blogg040125ia

Ferillinn er viljandi gerður daufur - til að sérstaka áherslu sé hægt að leggja á hlýjustu og köldustu búta hans. Tölur lægri eða jafnar 3,0 stigum eru merktar í bláu. Slíkan kulda upplifðum við síðast árið 1979 - þá hafði hann ekki komið síðan 1920. Á sama hátt merkjum við þann hluta ferilsins þegar hiti er hærri eða jafn 5,9 stigum með rauðu. Það gerðist fáeinum sinnum á fyrra hlýskeiði að hitinn fór svo hátt og síðast var eitt 12-mánaða gildi á árinu 1964 sem fór svo hátt (það stóð svo stutt að myndin nær ekki að merkja það). Næst gerðist það svo árið 2003. Eftir það hefur það síðan gerst þrisvar, árið 2010, 2014, 2017 og 2019. Að halda því fram að nýtt kuldaskeið hafi hafist árið 2013 er mjög á skjön við allt - taka þarf upp einhverja nýja skilgreiningu á kuldaskeiði til að slíkt geti gengið upp. 

Það er svo annað mál að eftir 2019 hefur hiti verið lægri - þó ekki sérlega lágur fyrr en árið 2024. Hann er þó ekki lægri en svo að hefðum við átt að lýsa yfir upphafi kuldaskeiðs strax og það gerðist eftir að hlýindin hófust fyrir um 100 árum hefði það verið gert strax árið 1930 og 1931 þegar hitinn fór niður í 4,0 stig og síðan aftur hvað eftir annað í næstu 35 árin - það var ekki fyrr en árið 1965 sem eitthvað raunverulegt kuldaskeið hófst. Á hinu gamla hlýskeiði fór 12-mánaðahitinn í Reykjavík lægst í 3,7 stig. Það var árið 1951. Ekki var hlýskeiðinu lokið þá. 

Þótt við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega ættum við samt að hinkra um sinn með yfirlýsingar um nýtt kuldaskeið - og alla vega getum við ekki með nokkru móti haldið því fram að ef að slíkri yfirlýsingu kemur að það nýja skeið hafi byrjað árið 2013. [En slíkt er svosem í takt við aðrar öfugmælavísur í fréttum samtímans].

Nú reyna menn að svara því hvers vegna árið 2024 hafi verið í kaldara lagi. Þótt ritstjórinn þykist eiga svör er hann langt í frá viss um að þau séu þau réttu - og hinkrar því aðeins með yfirlýsingar um hugsanlegar ástæður (umfram það sem hann hefur þegar nefnt í fyrri pistlum). 

Mun skýrari mynd er í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis af desember

Nýliðinn desember var nokkuð umhleypingasamur en lengst af fór þó ekki mjög illa með veður. Það var helst kringum jólin að veðrið ylli einhverjum vandræðum. Um hita á einstökum stöðvum og margskonar meiri fróðleik má lesa í yfirliti Veðurstofunnar (á vef hennar).

Við lítum (eins og oft áður) á stærri drætti.

w-blogg040125a 

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Eins og lengst af á árinu voru hlýindi voru að meðaltali ríkjandi á mestöllu því svæði sem kortið nær yfir. Þó er áberandi kaldur blettur norðvestan við Ísland og teygði hann sig hingað. Vindátt var mjög eindregið úr vestsuðvestri, talsvert yfir meðallagi raunar. Sunnanþátturinn var líka dálítið yfir meðallagi mánuðinn í heild.

Loftþrýstingur var nærri meðallagi og sömuleiðis hæð 500 hPa-flatarins.

w-blogg040125b 

Taflan hér að ofan sýnir að desember var í kaldasta þriðjungi nóvembermánaða á öldinni um land allt. Ekki er mikill munur á spásvæðunum, hiti á Miðhálendinu raðast þó hæst hita spásvæðanna. Trúlega stafar það af því að vindhraði var ofan meðallags. En athugum þó að hér er reiknað fyrir heil spásvæði - einstakar veðurstöðvar kunna að raðast á annan hátt (sjá yfirlit Veðurstofunnar).

Þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.


Ævihiti (nýtt hugtak)

Eftir nýliðið ár, sem varð til þess að gera kalt miðað við það sem verið hefur að undanförnu hefur ritstjóranum verið hugsað til þess hitaviðmiðs sem býr með honum sjálfum. Í reynd er að sjálfsögðu ekki svo auðvelt að reikna það, háð ýmsum huglægum þáttum - auk þess breytileika sem hitamælingar sýna að hann hefur upplifað. 

En honum datt þó í hug að reikna meðalhita ævinnar - ævihita - og miða við byggðameðaltal landsins. Hann man að sjálfsögðu ekki fyrstu árin - hið mikla rigningasumar 1955 fór t.d. alveg framhjá honum - var í öðru eins og sagt er. Svo tók líka mörg ár að norma ástandið, að það væri munur á sumri og vetri og síðan að munur væri á þessum árstíðum frá ári til árs. Í framhaldi af því varð svo til einskonar huglægt væntisumar (varð til á undan væntivetri). Væntisumarið fór að verða til um 1960, og væntiveturinn síðan ekki löngu síðar - frá og með vetri 1961-1962. Fyrstu árin voru þó býsna stór vik frá þessum væntingum - vetur reyndust mun fjölbreyttari heldur en hugur og tilfinning hafði gert ráð fyrir - rétt eins og áður hafði komið fram með sumrin. 

Þrátt fyrir þetta ákvað ritstjórinn samt að miða við fæðingarárið - til einföldunar fyrst og fremst. Kom þá í ljós að ævihiti hans reiknast 3,7 stig (eða 3,72 stig sé reiknað með tveimur aukastöfum). Næst var síðan að reikna hvernig þessi ævihiti hefði breyst í áranna rás og kom þá út niðurstaða sem sjá má á myndinni hér að neðan.

w-blogg020125a

Blái ferillinn sýnir einfaldlega meðalhita í byggðum landsins frá ári til árs - við höfum séð hann hér áður. Rauði ferillinn er hins vegar ævihitinn. Byrjaði á frekar köldum árum 1951 og 1952 og var þá lægstur á allri ævinni (og verður víst ekki lægri). Síðan hlýnaði og fór hann í 3,87 stig árið 1961 - en svo vill til að þá var 30 ára meðalhiti meginhlýskeiðs 20. aldarinnar einmitt líka í hámarki. Eftir það lækkaði hitinn hægt og bítandi og náði ævihitinn staðbundnu lágmarki árið 1986 3,38 stig. Þá var ritstjórinn 35 ára. Eftir það hækkaði hitinn og náði hámarki við áramót í fyrra, 3,73 stigum, lækkaði nú um 0,01 stig. Svo stutt er eftir af ævinni að mjög mikið þyrfti að ganga á til að verulegar breytingar verði á ævihita ritstjórans úr þessu. Eins og áður sagði reiknast meðalhiti ársins 2024 3,36 stig sem er auðvitað sama tala og 3,38 stiga meðalhiti fyrstu 35 ára ritstjórans. 

Til gamans var einnig reiknaður ævihiti þeirra sem eru áratugum eldri eða yngri heldur en ritstjórinn og má sjá þær tölur í ramma. Mjög litlu munar á þeim sem fæddir eru fyrir 1970, en ævihiti þeirra sem fæddir eru eftir 1990 er áberandi hærri, hæstur hjá þeim sem fæddust 2001, 4,33 stig. Þeir sem fæddir eru eftir það mega búast við mun meira flökti á sínum tölum heldur við sem eldri erum - mun færri ár eru komin í pottinn. 


Varúð

Í dag (nýársdag 2025) er kalt á landinu. Kuldinn er þó til þess að gera grunnur sem kallað er. Víðast hvar er stutt í öflug hitahvörf fyrir ofan. Þegar þetta er ritað segja líkön þannig að hiti í 100 metra hæð sé mjög víða 10 til 15 stigum hærri heldur en á athugunarstað. Í nótt á aðeins að hreyfa vind og blandast þá kaldasta loftið saman við það hlýrra og hiti stekkur upp um nokkur stig. Úti yfir sjó er þessu ekki þannig farið, þar er yfirborð sjávar hlýrra heldur en loftið í 100 metra hæð og loftið niður undir sjávarmáli er ekki svo kalt. Engin hitahvörf eru til staðar. 

En eins og áður sagði á hlýrra loft nú að koma af hafi. Sé vindur lítill situr kalda loftið þó eftir á víð og dreif. Við þetta getur skapast töluverð hætta geri súld eða fari að rigna. Þá verður til frostregn - eða frostúði. Úðinn frýs á köldu yfirborði og myndar íslag og hálka getur orðið veruleg - en lítt sýnileg. 

w-blogg010125i

Hér er spákort Veðurstofunnar fyrir hádegi á morgun (fimmtudag 2.janúar). Þá er orðið ámóta hlýtt í stöðvarhæð og 100 metrum víðast hvar suðvestanlands. Munum þó að það tryggir alls ekki að hugsanleg úrkoma frjósi ekki við snertingu frosinnar jarðar eða annars. Í Borgarfirði og fyrir austan fjall situr enn mjög kalt loft (sé líkanið rétt), munar enn 10 til 12 stigum á hita í 100 metrum og í stöðvarhæð. Þar spáir líkanið beinlínis frostregni.

Þessu mögulega varúðarástandi linnir ekki fyrr en aftur snýst til norðaustanáttar og það léttir til. Förum varlega.


Áramót - enn á ný

Við höfum mörg undanfarin ár alltaf byrjað nýtt ár hér á hungurdiskum með því að líta á ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 og áfram. Röðin er nú orðin 227 ára löng. Nokkur óvissa er að sjálfsögðu í tölunum fyrstu hálfa öldina - sérstaklega þó fyrir 1830. En við látum okkur hafa það. Línuritið er að sjálfsögðu mjög líkt línuritum undanfarinna ára, en bregður þó út af að því leyti að nýliðið ár er það kaldasta það sem af er þessari öld í Hólminum. Við förum aftur til áranna 1998 og 1999 til að finna svipað eða sama, og aftur til 1995 til að finna kaldara ár.

w-blogg010125 

Lárétti ásinn sýnir ártöl, en sá lóðrétti hita. Meðalhiti ársins 2024 er lengst til hægri. Reiknaðist 3,7 stig. Það er -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára (2014-2023) og -0,8 stig neðan við meðallag tímabilsins 1991 til 2020, +0,2 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og -0,5 stigum neðan meðallags 1931-1960, nákvæmlega í meðallagi 20. aldar og +0,8 stig ofan meðallags 19. aldar.

Rauða línan sýnir 10-ára keðjumeðaltal. Það stendur nú í 4,56 stigum, -0,16 stigum lægra en við síðustu áramót og -0,29 stigum lægra en það var fyrir 5 árum, en +0,14 stigum hærra en það var hæst á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld.

Græna línan sýnir 30-ára keðjumeðaltal. Það stendur nú í 4,51 stigi og hefur aldrei verið hærra, +0.32 stigum hærra heldur en það varð hæst á hlýskeiðinu mikla á 20.öld - en nú eru rúm 60 ár síðan það reis (tölulega) hæst. Ekki er ólíklegt að 30-ára meðaltalið hækki enn frekar - eða láti mjög lítið undan síga á allranæstu árum - vegna þess að árið 1995 var mjög kalt - og fyrstu árin þar á eftir ekki hlý. Til að 30-ára meðaltalið hækki marktækt fram yfir 2030 og þar á eftir þarf hins vegar að bæta í hlýnunina - annað hlýnunarþrep þarf að bætast við til að svo megi verða. Bið gæti orðið á því vegna þess að hlýnunin sem orðið hefur hér á landi er talsvert meiri en heimshlýnun - og engin sérstök ástæða til að vænta þess að Ísland sé í einhverri sérstöðu hvað hina almennu hlýnun snertir.

um framhald vitum við því auðvitað ekki, jafnvel þótt hlýnun haldi áfram á heimsvísu. Meðalhlýnunarleitni fyrir allt þetta tímabil er um +0,8°C á öld, frá upphafi þess tíma sem línuritið nær yfir reiknast hlýnunin 1,8 stig - en í smáatriðum hefur hún gengið afskaplega rykkjótt fyrir sig. Sé hlýnun reiknuð á milli toppa hlýskeiðanna tveggja (og séum við nú í toppi) fáum við út töluna +0,5°C á öld. Reiknum við hins vegar hlýnun síðustu 40 árin er hún miklu meiri. Um leitnisveiflur var fjallað nokkuð ítarlega í tveimur pistlum á hungurdiskum fyrir um 8 árum. [Hve mikið hefur hlýnað] og [Hve mikið hefur hlýnað - framhald] - þrátt fyrir árin 8 stendur sá texti í öllum aðalatriðum (en ritstjórinn ætti þó e.t.v. að endurnýja hann).

En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öðrum árs og friðar á nýju ári. Hann heldur vonandi eitthvað áfram að fjalla um veður og veðurfar, þó aldur og mæði færist óhjákvæmilega yfir (vonandi engar innsláttarvillur hér í tölum að ofan - en sjónin mætti vera betri - en verða leiðréttar hafi þær slæðst inn).


Ársmeðalhiti á landsvísu (óformlega þó)

Nú má reyna að slá á ársmeðalhita í byggðum landsins. Það sem hér birtist er þó óformleg niðurstaða ritstjóra hungurdiska. Hann lætur Veðurstofuna um að koma með nákvæmari tölur fyrir einstakar veðurstöðvar - og fleiri niðurstöður.

Ársmeðalhitinn 2024 stendur nú í 3,4 stigum. Það er -0,6 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 (eða 0,5 allt eftir því hvernig stendur á öðrum aukastaf í endanlegu uppgjöri). Hitinn er -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Árið er því það kaldasta síðan 1998, en þá var sjónarmun kaldara en nú. Kaldasta í 26 ár. Segja má að þetta sé því kaldasta ár allra íbúa landsins undir þrítugu (nema að þeirra sem voru sérlega veðurnæmir fyrstu æviárin). Ritstjóri hungurdiska telur hins vegar 23 kaldari ár á sinni æfi - og nokkur með sama hita að auki. 

Við skulum til gamans líta á tvær myndir (smáatriðin eru hálfgert klám - en aðalatriði koma vel fram).

w-blogg271224aa

Hér má sjá hita á landinu síðustu 200 árin - (fyrstu 50 að vísu næsta ónákvæm). Fyrsta árið, 1823, er lengst til vinstri á myndinni, en 2024 lengst til hægri. Litamerkingar eru þannig að 20 hlýjustu árin eru rauð. Þessi öld, sú 21., hefur stolið þeim langflestum, en fáein ár á tímabilin 1928 til 1964 verjast þó enn. Afgangur hlýjasta þriðjungs áranna (um 48 ár) eru merkt með bleikrauðum lit. Finna má slatta af slíkum á hlýskeiði 19. aldar, fyrir 1860. Við viljum trúa því. Tuttugu köldustu árin eru merkt með dökkbláum lít. Aðeins eitt ár í okkar minni fær hann, árið 1979. Afgangur kaldasta þriðjungs áranna (um 48 ár) er gefinn daufur blár litur. Hafísárin skera sig þar úr í minni okkar gamlingjanna. Afgangur áranna (um 67) fékk ekki lit - en myndaforritið ákvað hins vegar að gera þau gráleit - (ritstjórinn nennir ekki að eiga við það - spillir í sjálfu sér ekki meginatriðum). Árið í ár verður þannig grátt og guggið - er meðalár miðað við allt tímabilið. 

Við lítum líka á aðra mynd. Þar má sjá sömu liti og sömu skiptingu nema að allir mánuðir eru saman á myndinni.

w-blogg271224a

Hér sjást hlýskeiðin þrjú mæta vel - en það er samt misjafnt hvernig þau birtast í einstökum mánuðum. Einnig kuldaskeiðin. Það eru ekki margir bláir blettir á þessari öld. Aðeins tveir eru dökkbláir, september 2005 og desember 2022. Bláir blettir aldarinnar eru alls 20 talsins á 24 árum. Árið í ár, 2024 státar tveimur bláum blettum, í september og október. Það færði okkur hins vegar þrjá bleika, mars, maí og júlí. 

Þetta segir okkur auðvitað ekkert um framtíðina - jafnvel þótt augun kunni að finna alls konar mynstur á myndunum - sum smáatriði mega kannski teljast merkingarbær, en það er í reynd mjög erfitt að heyra ákveðna tóna í nið vestanvindafljótsins. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 270
  • Sl. viku: 2387
  • Frá upphafi: 2434829

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2116
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband