23.4.2025 | 21:48
Vetrarhiti 2024-25 í byggðum landsins
Við reynum nú (eins og oft áður) að reikna meðalhita íslenska vetrarins, frá fyrsta vetrardegi til þess síðasta. Talan sem fæst út er +1,0 stig, það er +0,3 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, +0,1 stigi ofan meðallags fyrstu 24 vetra aldarinnar og +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu vetra.
Til að geta reiknað þurfum við að vita landsmeðalhita (í byggð) á hverjum degi vegna þess að íslenski veturinn hrekkur til í dagsetningum. Miklar breytingar hafa orðið á stöðvakerfinu í þessi rúmlega 70 ár og þess vegna er ekki hægt að gera ráð fyrir mjög mikilli nákvæmni í reikningunum - hægt væri að reikna á aðra vegu en hér er gert og fá út lítillega aðrar tölur. Sú er þó sannfæring ritstjórans að það skipti ekki miklu. Veturinn í vetur er t.d. greinilega talsvert hlýrri en sá næsti á undan sem var sá kaldasti allt frá 1998-99. Nýliðinn vetur slefar í meðallag, en er áberandi kaldari heldur en t.d. 2018-19, 2016-17 og 2002-03. Sá síðastnefndi er áberandi hlýjasti vetur allra þeirra 76 vetra sem hér eru undir. Það var hins vegar kaldast veturinn 1967-68.
Reiknuð leitni er um +1,1 stig á öld. Væri enn meiri ef við gætum teygt okkur öld eða meira til baka - eins og við höfum stundum gert fyrir bæði Reykjavík og Stykkishólm þar sem við eigum daglegar tölur lengra aftur en við eigum í þessu tilviki. Veturinn í vetur var nokkuð tvískiptur, kalt var framan af, en síðan með hlýrra móti, kuldi og hlýindi jöfnuðust mikið til út. Tökum samt eftir því að ekki voru nema tveir vetur hlýrri en sá nýliðni allt tímabilið frá 1965 til ársins 2002 (1971-72 og 1990-91). Á þessari öld hafa hins vegar sjö vetur verið hlýrri heldur en sá nýliðni.
Hvernig framtíðin verður vitum við auðvitað ekkert um - frekar en venjulega. Ekkert vitum við heldur neitt um sumarið þótt ekki skorti véfréttarlega spekina frá reiknimiðstöðum heimsins. En kannski skiljum við hana ekki - frekar en forngrikkir sínar véfréttir - þótt réttar væru.
Sýnist að ekki veiti af að rifja upp pistil frá í fyrra - þar er tengt í ýmsan fróðleik um sumardaginn fyrsta. Gleðilegt sumar.
Vísindi og fræði | Breytt 24.4.2025 kl. 02:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2025 | 13:44
Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar 2025
16.4.2025 | 14:04
Fyrri hluti apríl 2025
12.4.2025 | 21:58
Leki milli kvía
Blogg ritstjóra hungurdiska annars vegar og virkni hans á fjasbókinni hins vegar eru tvær ólíkar kvíar, efni þeirra fellur lítið saman og það er mjög fátt í fjasbókarkví sem kemst í gegnum efnisritskoðun bloggsins. Það hefur örfáum sinnum gerst að leki hefur orðið á milli. Það sem hér fer á eftir er efnislega það sama og birst hefur áður í tveimur fjasbókarpistlum. Segja má að fyrri færslan geti fallið undir hefðbundið efni hungurdiska þar sem hún á uppruna sinn í veðurtengdri spurningu sem stöðugt er verið að leggja fyrir ritstjórann - en hann getur, þannig séð, ekki svarað. Umrædd færsla er ekki ný. Sú síðari er hins vegar nýleg. Ástæða þess að hún fær að leka hér inn er skjálftahrina dagsins á Mýraafréttum. Vonandi umbera lesendur lekann.
Oft sést og heyrist talað um eitthvað sem kallað er jarðskjálfta- eða eldgosaveður. Eftir þessari þjóðtrú er um að ræða mikil hægviðri - jafnvel hita líka. Góðviðri séu undanfari eldgosa og jarðhræringa. Þegar farið er að grafast fyrir um rætur þessarar trúar kemur í ljós að hún er ævagömul - og reyndar að utan komin, allt frá rómverjum eða grikkjum hinum fornu. Í þeirra bókum er þessu haldið fram - og síðan tuggið aftur og aftur allar miðaldir - og jafnvel inn í huga íslendinga - nýleg dæmi meira að segja nefnd.
Sé farið í saumana koma saman tilvitnanir í Náttúrusögu rómverjans Plíníusar eldri. Hann fórst í Vesúvíusargoninu í ágúst árið 79, en hafði áður skrifað gríðarmikið um náttúru- og landafræði.
Í 81. kafla annarrar bókar verksins og næstu köflum á eftir segir af jarðskjálftum. Getið er þeirrar hugmyndar Babýloníumanna að gangur himintungla valdi skjálftunum. - Síðan er sagt frá tveimur frægum grískum jarðskjálftaspám, annars vegar leist Anaximander frá Míletos ekki á ástandið í Spörtu, varaði menn þar við yfirvofandi skjálfta og skriðu, en hins vegar spáði Pherecydes kennari Pýþagórasar skjálfta eftir að hafa litið á vatn úr brunni, ekki getur Plíníus þess hvar þetta var, en það er sjálfsagt auðfundið í öðrum heimildum.
Þetta er athyglisverður lestur - nokkuð skrýtinn samt og við hraðan yfirlestur finnst manni flest vera vitleysa ein. Byggt er á hugmynd grikkja (frægust hjá Aristótelesi) að jarðskjálftar séu vindgangur í jörð. - Og fljótlega er minnst á að jarðskjálftar eigi sér aldrei stað nema þegar sjór er hægur og himinn svo kyrr að fuglar geti ekki svifið - vegna þess (skilji ég rétt) að sá andi sem ber þá venjulega hafi lokast inni í jörðinni og valdi þar síðan vindgangi (skjálfta). Skjálftarnir hætti þegar jarðvindarnir hafi fengið greiða útrás - séu skjálftar fleiri en einn haldi þeir áfram í 40 daga eða meira - eins til tveggja ára jarðskjálftahrinur séu jafnvel þekktar.
Ekki er allt dellukennt sem kemur á eftir, langt í frá. Sagt er frá mismunandi skjálftum og fjölbreyttum afleiðingum þeirra. Þess er getið að borgir þar sem mikið er um neðanjarðarmannvirki, skemmist síður í skjálftum heldur en þær sem slíkt er ekki. Bogagöng eyðileggist síður heldur en annað, og svo framvegis.
Í framhaldinu eru fyrirboðar ræddir [s.387 lxxxiv]. og getur þar sama merkis og áður var nefnt, það þegar vatn í brunnum er gruggaðra en venja er og lykt af því er fúl sé von á skjálftum. Jarðskjálftar boði síðan oft eitthvað meira - Rómaborg hafi aldrei skolfið án þess að skjálftinn væri fyrirboði.
Nútímatölfræði sýnir ekkert samhengi milli veðurs og jarðskjálfta. Hugmyndir Plíníusar um mismundandi tíðni jarðskjálfta eftir tíma dags og árstíma eru einnig vafasamar - en við skulum þó geta þess að þeir stóru skjálftar sem við þekkjum hér á landi hafa ekki raðast jafnt á árið. Eru menn í alvöru að klóra sér í höfðinu yfir því.
Þess má geta í framhjáhlaupi að í 77. kafla sömu bókar er hin fræga tilvitnun í Pytheas frá Marseilles um eyjuna Thule. Þar er verið að fjalla um mismunandi lengd sólargangs (lengsta dags ársins) eftir breiddarstigum. Er þessi breiddarstigaumfjöllun öll hin athyglisverðasta. Bókin er aðgengileg á netinu (víðar en á einum stað - en aðallega í þeirri útgáfu sem myndin vísar í).
Maður hrekkur dálítið við að lesa þetta um grugg í vatni sem fyrirboða skjálfta. Í raun og veru hafa verið endurtekin vandræði með (lítilsháttar) grugg í vatni í vatnsveitunni í Borgarnesi - vatnið er komið ofan úr Grábrókarhrauni. Rétt er þó að taka fram að einhverjar aðrar skýringar eru taldar fundnar á þessum vandræðum - og ekki veit ritstjóri hungurdiska um það.
En það er samt með þessar jarðskjálftahrinur á sama sprungusvæði. Þær urðu tilefni annars pistils á dögunum. Fer hann hér á eftir - efnislega óbreyttur.
Undanfarin ár hefur jarðskjálftavirkni færst í aukana í múlunum norður af Mýrum - og það svo að líkur á eldgosi eru þar taldar meiri en verið hefur lengi. Ekkert skal hér um það sagt.
Þótt eldgos á þessu svæði sé ekki líklegt til að verða stórt eða langvinnt - og að mestu falið bakvið fjöll getur (óheppileg) staðsetning valdið furðumikilli röskun. Hægt er að setja upp margskonar sviðsmyndir þar að lútandi - jafnvel væri hægt að búa til einskonar hugmyndaleik um eldgosasviðsmyndir - líklegar og ólíklegar. En hér er ein - og ekki sú ólíklegasta.
Kortið sem hér fylgir er úr safni Landmælinga. Við sjáum Hraundal neðarlega og rétt sést í Langavatn lengst til hægri, ofarlega. Langá rennur úr Langavatni meðfram Staðartungu - aðþrengd af hraunrennsli, sveigir fyrir hana og stefnir síðan suður Grenjadal - en áður en hún fellur inn í dalinn rennur Gljúfurá til austsuðausturs úr Langá - trúlega ein fárra straumvatna landsins sem á upptök í öðru straumvatni.
Þarna er löng saga að baki - ekki þekkir ritstjórinn hana í réttri röð. Líklegt er að meginafrennsli Langavatns hafi í fyrndinni farið um Hraundal, hann er mestur og breiðastur dala á þessum slóðum. Síðan tekur eldvirkni sig upp á svæðinu, kannski fyrir um hálfri milljón ára. Hún er smám saman að færast í aukana (segja kenningar jarðveðurfræðinnar) eftir því sem sigdalurinn sem liggur um Múlasvæðið breikkar og sígur. Einhvern tíma komu upp gos í Hraundal, þar eru móbergsfell. Hvort eða hvernig þau hafa stíflað dalinn og breytt farvegi Langár er hér ekki á lausu. En á nútíma hafa að minnsta kosti tvö eldgos orðið á svæðinu. Í öðru þeirra rann hraun niður Kvígindisdal (efst á kortinu) og að Langavatni, en hitt varð í eldstöðvum í Hraundal, Rauðhálsum og Rauðukúlu. Samtals voru þessi gos nægilega afgerandi til að lyfta Langá svo að eina leið hennar lá um núverandi farveg - og þar með varð hin núverandi Gljúfurá til.
Það sem ekki sést á þessu korti, en mun betur á loftmyndum er að allur farvegur Gljúfurár, frá upptökum og í gegnum múlana er alsettur einkennilegum vinkilbeygjum sem ráðast af brotum á svæðinu - allur sigdalurinn er þverbrotinn. Við sjáum líka dæmi um slíkar vinkilbeygjur á farvegi Langár á kortinu.
Nú kemur að sviðsmyndinni. Hún er ekki einföld - býður upp á annað hvort gos - eða sigvirkni - eða hvort tveggja. Með sigvirkni eingöngu er átt við að eldgosið verði annars staðar, t.d. í næsta dal fyrir vestan, Grjótárdal, eða fyrir austan, þá t.d. í Norðurárdal en að spilda í sigdalnum sigi um kannski hálfan til einn metra. Sig sem þetta getur þurrkað annað hvort Langá eða Gljúfurá - en kannski væri hægt að bæta úr slíkum skaða eftir á - með skurðgreftri, því skaði yrði að missa vatn úr hvorri ánni.
Eldgos í dalnum sjálfum er líklegri breytingavaldur - þá gæti stíflan í dalnum styrkst, jafnvel hækkað umtalsvert í Langavatni, varla þó þá 15 til 18 metra sem þarf til að koma öllu afrennslinu suður eftir Seldal - og í Gljúfurá þar suður af. Myndi sannarlega muna um alla Langá í farvegi Gljúfurár. Um upptök Gljúfurár (eða Langár) er það að segja að þau standa mjög glöggt. Litla breytingu þarf á landslagi þar í kring til að þetta óvenjulega fyrirkomulag verði fyrir bí. Hættulegast er auðvitað ef stíflur myndast og bresta síðan.
Velti þessu fyrir mér í þeim tilgangi að fleiri gefi mögulegum afleiðingum eldvirkni á svæðinu gaum, hún þarf ekki að vera stórbrotin í sjálfu sér til að geta valdið umtalsverðum breytingum á vatnafari - og breytingar á vatnafari eru ætíð afskaplega varasamar. Vatnsveitan sem liggur til Borgarness er þannig ekki alveg stikkfrí og laus við að lenda inn í hamfarasviðsmyndum. Alla vega ættum við ekki að láta þann möguleika koma okkur algjörlega í opna skjöldu.
Á nútíma hafa miklar breytingar orðið á vatnafari á svæðinu í öllum dölum þess. Skemmst er að minnast risaskriðunnar í Hítardal fyrir fáeinum árum - sem flutti Hítará á kafla yfir í Tálma - þeim ósköpum hefði maður seint trúað sem hluta af einhverri ruglaðri sviðsmynd.
11.4.2025 | 11:39
Fyrsti þriðjungur aprílmánaðar 2025
8.4.2025 | 22:32
Smávegis af dægurmetum
Hlýindin að undanförnu hafa verið gjöful á dægurhámarkshitamet - eins og við var að búast, met hafa fallið á landsvísu og heil hrúga sé litið á safn meta einstakra stöðva, meira að segja í Reykjavík þar sem dægurmet var sett í dag, 8.apríl. Gamla metið var nærri því 100 ára gamalt, frá 1929.
Þetta gefur tilefni til að líta á tvær myndir sem sýna aldur dægurhitameta í Reykjavík, á þeirri fyrri er litið á dægurhámarkshitametin, en dægurlágmarkshitametin á þeirri síðari. Nú er það svo að ekki má taka þessi dægurhitamet of alvarlega. Ekki hefur t.d. verið reynt að taka tillit til flutninga stöðvarinnar, né mæla eða mælihátta. Á tímabili voru meira að segja engar formlegar hámarkshitamælingar í Reykjavík, það skapar að sjálfsögðu nokkra óvissu. En samt má sjá ákveðin aðalatriði á myndinni.
Lóðrétti ásinn sýnir ár, sá lárétti mánuði - þar eru undir allir dagar ársins. Árabilið sem myndin nær yfir er 1871 til 2024. Rúmlega 56 þúsund punktar kæmust fyrir á myndinni, en aðeins 366 eru merktir - það eru þeir dagar sem eiga hámarkshitamet viðkomandi almanaksdags. Elsta metið er úr ágústhitabylgjunni miklu 1876, hún er raunveruleg, ein af fáeinum miklum hitabylgjum á hinni almennt köldu 19. öld. Við tökum eftir því að nær öll met sem eru eldri en 1920 eru sett á sumarhelmingi ársins (nema eitt) - miðað við sól. Kann það að vekja grun um að hinar háu tölur kunni að vera afleiðing þess að sólargeislar hafi komist að mælunum - má vera að svo sé í einhverjum tilvikum, en við erum ekkert að hafa áhyggjur af því.
Bláa netið sem er sett á milli punktanna er sett til að auðvelda okkur að sjá aðalatriðið, að punktadreifin er áberandi þétt á milli 1930 og 1950, síðan gisin - og aftur mjög þétt á þessari öld. Þetta er alveg í samræmi við hið almenna hitafar í gegnum tíðina. Hlýindaskeiðin skila mun fleiri hitametum heldur en þau köldu. Tilfinningin er sú að metaákefð síðara hlýskeiðsins sé talsvert meiri en þess fyrra, en tölur fyrra skeiðs hafa þann veikleika að hafa mælst á þaki Landssímahússins, en þök eru talin óheppileg til hitamælinga. Við látum það ekki heldur trufla okkur.
Metið sem sett var í dag er ekki komið inn á myndina. Örin litla bendir á 8.apríl 1929, met var einnig sett daginn eftir. Kannski það met haldi sér, þótt punktur þess 8. færist upp fyrir efstu línu.
Hin myndin sýnir lágmarkshitadægurmetin. Að vissu andstæða þeirrar fyrri. Flest lágmarksmetin eru úr þéttri dreif á tímanum 1880 til 1892 - einu kaldasta skeiði 19.aldar. Kuldaskeiðið síðara á einnig allmörg met, sérstaklega haustið. Á þessari öld hafa sárafá dægurlágmarkshitamet fallið í Reykjavík, en það hefur þó komið fyrir. Lágmarksmetin eru einnig fá á árunum 1930 til 1940.
Á landsvísu stendur 19.öldin sig ekki alveg jafnvel í lágmarksdægurmetakeppninni. Ástæðan er fyrst og fremst sú að stöðvanetið var miklu gisnara heldur en nú. Þéttleiki stöðvakerfisins er sum sé eitt atriði til viðbótar sem truflar túlkun metaraða.
Ritstjóri hungurdiska vill árétta það sem hann hefur oft minnst á áður. Einstök met eru sjaldnast tilefni til stórkostlegra vangaveltna um þróun hitafars. Alla vega hefur það verið þannig - og verður vonandi enn um hríð.
6.4.2025 | 21:47
Ólíkar úrkomuspár
Ritstjóri hungurdiska var nú áðan í einhverju hálfgerðu rænuleysi að fletta spákortum og tók eftir því að lítilli úrkomu var spáð í Reykjavík næsta sólarhring, í framhaldinu leit hann líka á spárit evrópureiknimiðstöðvarinnar og hélt eitt augnablik að ritið hefði ekki endurnýjast - því þar stóð að líklegasta úrkoma á sama tíma yrði meiri en 10 mm og ein 50 safnspáa sagði úrkomuna verða 50 mm á einum sólarhring. Þessa misræmis gætti ekki á nálægum stöðvum, t.d. á Hvanneyri í Borgarfirði eða fyrir austan fjall.
Þetta gefur tilefni til þess að líta á þessar spár á íslandskortum.
Eins og sjá má er ekki mikilli úrkomu spáð á landinu í ig-háupplausnarspá dönsku veðurstofunnar. Helst á venjulegum úrkomustöðum þegar suðvestanátt ríkir - og allsamfellt úrkomusvæði er yfir Snæfellsnesi, Breiðafirði og hluta Vestfjarða - allt eftir bókinni. Háupplausnarlíkan Veðurstofunnar er nær alveg sammála, sömu svæði, en aðeins hærri tölur.
Spá reiknimiðstöðvarinnar er hins vegar talsvert öðru vísi.
Hér er kominn 35 mm blettur rétt við efri byggðir Reykjavíkur og sömuleiðis einkennilegir blettir hlémegin hárra fjalla, 27 mm í Ísafjarðardjúpi þar sem engin úrkoma var á fyrra kortinu, og úrkomusvæðið á Snæfellsnesi er hér áberandi norðan fjallgarðsins, en ekki á honum eins og á fyrra korti. Sunnanverðir Vestfirðir aftur á móti svipaðir.
Við vitum að sjálfsögðu að þessi líkön eru mjög ólík, landslag er útjafnaðra hjá evrópurreiknimiðstöðinni heldur en í hinum líkönunum og að auki verður úrkoma til á ólíkan hátt í líkangerðunum tveimur - lóðréttur vindhraði er reiknaður á mjög ólíkan hátt.
Hér er hvorki rúm né ræna til að ræða þær tæknilegu ástæður sem kunna að liggja að baki þessum ótrúlega mun - aðeins bent á hann. Lærdómurinn kannski sá að stundum sé þess þörf að vera ekki steinsofandi við lestur á veðurspám.
3.4.2025 | 21:06
Hlýindaspá
Spár gera ráð fyrir hlýindum á landinu næstu vikuna eða svo. Þess er þó varla að vænta að markverð landsmet verði sett, þó eitt núverandi dægurhitamet liggi vel við höggi því það er áberandi lægra heldur en þau sem eru dæmigerð. Dagana 4. til 15. apríl eru öll landsdægurmet yfir 16 stigum, nema þann 7., það er ekki nema 14,4 stig sett á Kollaleiru í Reyðarfirði árið 2011. Hæsta hitatala fyrri hluta aprílmánaðar er hins vegar 21,2 stig sett í Neskaupstað þann 3. árið 2007 og hiti fór líka yfir 20 stig á Skjaldþingsstöðum þann 9. árið 2011. Staðan er þannig núna að svo gríðarháar tölur kæmu nokkuð á óvart - en miði er möguleiki. Spár dagsins gera ráð fyrir hámarksþykkt, meiri en 5520 metrum yfir austanverðu landinu í næstu viku - of langt er í það nú til að við getum treyst slíkum spám.
Við getum hins vegar verið sæmilega viss um að þykktin verður vel yfir meðallagi næstu tíu daga eins og spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að ofan sýnir. Myndarlegt, hlýtt háþrýstisvæði er við norðanverðar Bretlandseyjar og beinir hingað mjög hlýju lofti langt úr suðri. Hámarksþykktarvikið á kortinu er um 150 metrar, hiti í neðri hluta veðrahvolfs meir en 7 stig ofan meðallags.
Þótt varla sé búist við hrinu landsdægurmeta eru metahrinur líklegri á einstökum veðurstöðvum. Við skulum til gamans líta á hámarkshitadægurmet Reykjavíkur.
Rauðu súlurnar á myndinni sýna hámarksdægurmet Reykjavíkur alla daga ársins. Þau eru flest kringum 9 stig, eða rétt rúmlega það í janúar til mars, en fara síðan ört hækkandi, sérstaklega undir lok aprílmánaðar. Enn vantar talsvert upp á að allir dagar júlí og ágústmánaðar hafi nokkru sinni náð 20 stigum. Strikalínan ofan við sýnir hins vegar landsdægurmetin, talsvert hærri en þau í Reykjavík.
Til að sjá betur þann árstíma sem nú stendur yfir er hér önnur mynd.
Við lítum nánár á hluta línuritsins að ofan. Það er 25.janúar sem á 10,1 stig alveg lengst til vinstri á línuritinu. Síðasti dagur lengst til hægri er 22.júní. Lægsta hámarksdægurmetið er 8,0 stig. Það á reyndar hlaupársdagurinn 29.febrúar, hann er verr settur en aðrir dagar í keppni sem þessari, fær aðeins að taka þátt fjórða hvert ár - en það kemur væntanlega að því að hann hittir í einhverja hærri tölu en hann hefur enn nælt sér í. Í mars hækka tölurnar smátt og smátt, sól hækkar á lofti. Fáeinir dagar skera sig úr fjöldanum og eru sérmerktir á myndinni, 27. mars 1948 er dæmi. Stendur sig miklu betur heldur en vænta mætti - enda var þetta mjög óvenjulegur dagur víða um land. Fyrri hluti apríl er frekar snautlegur miðað við þessa fínu daga um mánaðamótin. Dægurmetin liggja á bilinu 10,3 stig og upp í 12,5 stig. Það er ekki fyrr en þann 16. að 13 stigin fara að ná sér á strik, og enginn dagur kemst upp fyrir 27.mars fyrr en 25. apríl 2019. Þá fór hámarkið í 14,7 stig. Tveir aðrir dagar (26. og 30.apríl) árið 2019 settu líka ný met - og sá síðarnefndi á enn mánaðarmet apríl í Reykjavík, 17,1 stig.
Fyrstu 20 stig vorsins í Reykjavík eru frá 14.maí 1960. Sá dagur er einnig sérstakur fyrir það að vera sá eini á árinu þar sem Reykjavík á líka landsdægurmetið. Annars eru metin síðari hluta maí flest á bilinu 17 til 18 stig.
Nú er það svo að spár reiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu daga gera ekki ráð fyrir nýjum dægurhitametum í Reykjavík. Ástæðan er þó ekki skortur á hlýju lofti heldur fremur að það sjáist full lítið til sólar og að vindátt verði ekki nægilega austlæg. En staðan er samt þannig að rétt er að gefa málinu gaum og reyna að grípa góðviðrisgæsina ef hún gefst.
Við notum tækifærið og lítum á eina mynd til viðbótar.
Hún sýnir mismun á hámarkshitadægurmetum landsins alls og Reykjavíkur. Einn dag ársins er munurinn núll, 14.maí eins og áður er nefnt. Mestur er munurinn 11.nóvember, 11,5 stig. Ekki er um marktæka árstíðasveiflu að ræða - heldur tilviljanakennt allt saman, meðalmunur í kringum 6 stig allt árið.
Eins og sjá mátti á fyrstu myndinni, þeirri sem sýndi þykktarvik á Atlantshafi er ástæðu hlýindanna að leita í kryppu á hringrás vestanvindabeltisins. Hin miklu hlýindi einskorðast við tiltölulega afmarkað svæði. Kaldara er bæði austan og vestan við. Köldu vikin eru þó minni en þau hlýju, bendir kannski til þess að þeir kuldapollar sem þar verða á ferð séu ekki mjög fyrirferðarmiklir eða fastir fyrir. En það þarf samt að fylgjast vel með þeim næstu vikurnar.
2.4.2025 | 22:50
Smávegis af mars 2025
Mars var hlýr hér á landi, en eins og í febrúar vantaði þó upp á methlýindi. Taflan sýnir hvernig hiti á spásvæðunum raðast. Hún nær til 25 ára - í marspistli Veðurstofunnar má finna meðaltal og röðun á einstökum stöðvum.
Að tiltölu var hlýjast við á Vestfjörðum þar sem þetta var næsthlýjasti mars á öldinni, en ívið hlýrra var í mars 2004. Á öðrum spásvæðum er algengast að hitinn raðist í 3. til 5. hlýjasta sæti aldarinnar, á Suðurlandi þó í sjöunda sæti og það sjötta á Miðhálendinu.
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Hér á landi var þykktin 65 til 70 metrum yfir meðallagi, hiti var því 3,0 til 3,5 stig ofan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs.
Vestanáttin í háloftunum var vel yfir meðallagi, en sunnanáttin í meðallagi - eins og kortið sýnir. Svipuð vindastaða var uppi í mars 2021, en þá var þó kaldara en nú - hlýindin voru mest um landið austanvert. Hlýindi eru um mestallt svæðið sem kortið sýnir, mest á norðvestanverðu Grænlandi. Kuldapollurinn Stóri-Boli fjarri sínum venjulegu beitarhögum. Eins og sjá má á kortinu var aftur á móti kuldapollur yfir Pýrenneaskaga, enda var þar úrkomusamara og kaldara heldur en venjulega í marsmánuði.
Við þökkum BP fyrir kortagerðina - að vanda.
30.3.2025 | 00:37
Öflug lægð
Nú stefnir nokkuð öflug lægð til landsins - eftir alllangan kafla þar sem vindur hefur lengst af verið hægur. Lægðin á að fara til norðurs fyrir vestan land á morgun (sunnudag) og þótt hún verði aðeins farin að linast áður en hingað kemur verðum við samt að gefa henni gaum - sérstaklega vegna þess að það er stórstreymt og vindur stendur á land þegar háflóð er á mánudagsmorgunn. Sjór er þó ekki jafn ókyrr fyrir eins og var fyrir um það bil mánuði síðan þegar áhrifin urðu í frekara lagi við vesturströnd Reykjaness og á innanverðum Faxaflóa.
Kortið sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin geri ráð fyrir að hún verði kl.9 í fyrramálið. Lægðin er þá enn um 1200 km suðvestur í hafi en er á mikilli ferð, líklega um 80 km/klst - eða meira. Litirnir sýna þrýstibrigði, breytingu sjávarmálsþrýstings á 3 klst. Loftvog hríðfellur á undan lægðinni, allt að 13 hPa, en rís hér enn hraðar 20 hPa á 3 klst. Það er orðið býsna mikið. Hér á lægðin að vera um það bil í hámarksafli. Síðan dregur heldur úr. Þó er gul viðvörun Veðurstofu í gildi, einkum vegna hríðar- eða krapabyls á fjallvegum - hugsanlega stutta stund líka í byggð.
Þegar lægðin fer hjá snýst í suðvestanátt og þótt lægðin - og þar með vindur - verði eitthvað farin að linast virðist hún hitta nokkuð vel í morgunflóðið á mánudagsmorgunn.
Það er óþægilegt að fá lægðir sem þessa ofan í langvinna blíðu á Suðvesturlandi - útivistarfólk ætti að hafa það í huga.
En eins og venjulega vísar ritstjóri hungurdiska alfarið á Veðurstofuna varðandi spár - hér er aðeins hugleiðingar að finna.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.4.): 80
- Sl. sólarhring: 225
- Sl. viku: 888
- Frá upphafi: 2461983
Annað
- Innlit í dag: 68
- Innlit sl. viku: 787
- Gestir í dag: 68
- IP-tölur í dag: 67
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010