24.12.2024 | 02:34
Jólaútsynningur
Spár gera ráð fyrir því að útsynningur verði ríkjandi aðfangadag og jóladagana tvo. Útsynningur er suðvestanátt, ekki hvaða suðvestanátt sem er heldur aðeins sú sem flytur óstöðugt loft til landsins, einkennist af éljagangi að vetrarlagi en oftast upprofi á milli þótt élin geti verið dimm. Stöku sinnum verður hann alveg glórulaus, nánast án upprofs sé loftið nægilega kalt. Ritstjóri hungurdiska er þó ekki svo harður á skilgreiningunni að hann geti ekki liðkað aðeins um - þegar honum finnst slíkt eiga við. En hann er samt nokkuð stífur á því að vilja ekki kalla vetrarsuðvestanátt með súldarveðri útsynning - þótt vindur blási af útsuðri. Útsuður er átt, en útsynningur er veðurlag. Sama má segja um hinar þrjár gömlu höfuðáttirnar, þeim fylgja veðurlag sem kennt er við þær, en er ekki þær.
Kortið gildir kl.18 á aðfangadag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins gefa til kynna vindstefnu og vindátt, en þykktin er sýnd í lit. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Við sjáum að ekki er mikill munur á stefnu jafnþykktarlína (mörk á milli lita) og jafnhæðarlína (heildregnar). Þó sést ef vel er að gáð að þegar kemur suðvestur fyrir land er vindurinn að bera kaldara loft til landsins. Það þýðir jafnframt að vindur þar snýst lítillega móti sólargangi með hæð - en ekki munar þó miklu. Jafnþykktar- og jafnhæðarlínurnar eru dregnar með sama bili, hér er hæðarbrattinn meiri en þykktarbrattinn, en það kólnar í átt að lægðinni. Það þýðir að hinn mikli háloftavindur nær sér ekki að fullu til jarðar, það slaknar á honum (til allrar hamingju). Þetta á að breytast fram á jóladag. Það dregur að vísu úr háloftavindinum, en það á að draga meira úr þykktarbrattanum. Það þýðir að háloftavindurinn nær sér betur niður þessa síðari daga heldur en á aðfangadag - og væntanlega verður þá öllu hvassara á landinu (þótt fleira komi við sögu, jafnvel smáatriði sem týnast á jafngrófu korti sem þessu).
Éljagangur er algengur um jólin, jafnvel útsynningur. En þó er það þannig að hvert tilvik er með sínum sérstaka hætti og það sem við horfum á hér er býsna tært. Ritstjórinn gerði það sér til gamans að leita uppi svipuð tilvik um jólin, fann nokkur, en samt eru þau flest öðru vísi á einhvern áberandi hátt. Það var helst jólin 1921 - og hér að neðan má sjá kort bandarísku endurgreiningarinnar sem gildir á jóladag það ár. (Árið 1921 var reyndar ekki hlaupár - hefði það verið það hefði veðrið borið upp á sama almanaksdag og nú).
Flest á svipuðum stað. Kuldinn var þó meiri 1921 heldur en nú - og ekki hefur ritstjórinn athugað hvort kuldapollur var í námunda við Kanaríeyjar - eins og nú. Um árið 1921 má lesa í pistli hungurdiska. Þar kemur fram að kvartað var um snjó og illviðri suðvestanlands um jólin, símslit og fleiri vandræði. Í stað símslita þá er nú komin krafan um tafalausar samgöngur um allar heiðar alla daga - og í þeim efnum getur vetrarútsynningurinn verið mjög til ama og jafnvel stórkostnaðar, meiri heldur en símabilanir þó fyrir 100 árum.
Það er ólíkt með tilviki dagsins og sumum fyrri jólatilvikum að enginn suðlæg bylgja á að skjóta sér inn í útsynninginn miðjan. Slík staða er stórhættuleg. En þó eru framtíðarspár ekki vandræðalausar, satt best að segja nokkuð flóknar. En við vonum að hann fari vel með - eins og oftast hefur verið í þessum mánuði.
Þetta var ekki sérlega léttur pistill - þurr jólalesning, en engu að síður hollustufæði fyrir þá sem hafa smekk fyrir slíku (telur ritstjórinn). En pistlinum fylgja samt einlægar óskir um gleðileg jól til allra lesenda og landsmanna annarra.
22.12.2024 | 23:22
Hringrásarslef
Ritstjóri hungurdiska hefur alloft í gegnum árin slefað um stað Íslands í hringrás lofthjúpsins. Rétt eins og landið er nærri 65°N og 20°V á það sér einnig stað í hringrás lofthjúpsins, í norðurjaðri háloftavestanvindabeltis norðurhvels, á milli háloftalægðardrags yfir austanverðri Norður-Ameríku (Baffinsdragið) og veiks háloftahryggjar fyrir suðaustan land (Golfstraumshryggurinn). Þetta þýðir að suðlægar áttir eru algengari í háloftunum heldur en norðlægar, gróflega helmingi fleiri sunnan- heldur en norðanáttardagar.
Neðst í lofthjúpnum er landið hins vegar norðan vestanvindabeltisins, austlægar áttir eru ríkjandi á landinu. Landið mótar vind mjög í neðstu lögum og er tíðni vindátta umhverfis það einnig mjög mótað af hinu mikla hálendi Grænlands í vestri. Grænland er raunar svo hátt að verulegra áhrifa þess gætir einnig hátt í lofthjúpnum.
Í neðri hluta veðrahvolfs fellur hiti nærri Íslandi um um það bil 0,7 stig á breiddargráðu þegar horft er á árið í heild.
Myndin hér að ofan birtist áður í pistli hungurdiska fyrir rúmum þremur árum (26.október 2021). Hún sýnir ársmeðalhita sem fall af breiddarstigi (norðurhvels). Við skulum þó taka eftir því að ekki er farið langt suður í hitabeltið og að hiti við miðbaug er ekki yfir 40 stig - eins og mætti halda væri aðfallslínan framlengd að miðbaug. Umhverfis línuna er töluverð dreif. Punktarnir ofan línunnar eru stöðvar þar sem hiti er hærri en hann ætti að vera miðað við breiddarstig. Reykjavík (og Ísland almennt) eru þar á meðal. Meðalhiti áranna 1961 til 1990 (en auðveldast var að finna gögn fyrir það tímabil við gerð myndarinnar) í Reykjavík er 4,3 stig. Aðfallslínan segir að hann ætti að vera -2,1 stig, munar 6,4 stigum. Við getum tekið eftir því að 4,5 stigin eiga frekar heima suður á 55. breiddargráðu. Einfalda skýringin á þessu ósamræmi fellst í tvennu, annars vegar yljar sjórinn okkur meginhluta ársins, en hins vegar er það hin ríkjandi suðlæga vindátt háloftanna og áður var minnst á.
Það að sunnanátt sé ríkjandi er auðvitað engin tilviljun heldur er það skipting jarðar í úthöf og meginlönd sem veldur.
Myndin sýnir meðalbreiddarstig 5400 metra jafnhæðarlínu 500 hPa-flatarins í janúar, gróflega norðurjaðar heimskautarastar norðurhvels. Lóðrétti ásinn sýnir landfræðilega breidd, en sá lárétti lengdarstig - vesturhvel til vinstri, (rúmt) austurhvel til hægri. Bláa strikalínan er sett nærri 20°V, lengdarstig Íslands (sem er reyndar alveg ofan við myndina). Lengst suður gengur kalda loftið við austurströnd Asíu. Þó hér sé aðeins um eina jafnhæðarlínu að ræða getum við samt ráðið í hvort ríkjandi vindstefna hvers lengdarstigs sé suðlæg eða norðlæg. Til að ráða í vindstyrkinn (og nákvæmari stefnu) þurfum við fleiri jafnhæðarlínur. Við sjáum alla vega að suðlæg átt er ríkjandi í veðrahvolfinu miðju á lengdarstigi Íslands - og raunar yfir mestöllu Atlantshafi norðanverðu.
En nú má spyrja hversu læst þessi staða er. Við vitum að frá degi til dags bregður mjög frá henni, jafnvel getur hún raskast talsvert mánuðum saman, en þegar komið er ár eða meira er mesta furða (nánast kraftaverk) hvað hún heldur sér. Við vitum dæmi þess að sunnanáttin hafi brugðist í heilt ár, en það er alveg sárasjaldan og önnur merkileg staðreynd er sú að stefnan hefur aldrei - á ársgrundvelli komist suður fyrir suðvestur. Algengast er að hún sé af vestsuðvestri, nokkurn veginn í stefnu af Hvarfi syðst á Grænlandi. Bendir það til þess að Grænland sé líka eitt af því sem ræður mjög veðurfari á Íslandi.
Menn hafa reynt að þátta ástæður hlýindanna hér á landi. Ekki er um það fullt samkomulag því flestir orsakavaldar hafa áhrif hver á annan og því erfitt að segja nákvæmlega hvað er hvað. Ef við teiknum ámóta dreifirit og ársritið hér að ofan fyrir janúar og júlí kemur í ljós að hlýja vikið hér við land er enn meira á vetrum heldur en að sumarlagi. Tækjum við þau dreifirit bókstaflega ætti meðalhiti janúar í Reykjavík að vera -13,8 stig (en ekki -0,6 stig - eins og var 1961-1990), munar meiru en 13 stigum. Meðalhiti í júlí ætti hins vegar að vera 11,5 stig, en er 10,5 stig. Að sumarlagi er hiti hér sum sé sjónarmun lægri en meðallag breiddarstigsins.
Hér förum við að taka eftir öðru. Hitaspönn ársins (munur á hlýjasta og kaldasta mánuði) í Reykjavík var 11,1 stig (1961-1990). Meðalhitaspönn breiddarstigsins er hins vegar 24,3 stig. Ísland er umkringt sjó og hann (ásamt sunnanáttinni) bjargar vetrarhitanum. En hversu miklu máli skiptir hvort um sig? Og hvers vegna er sjórinn svona hlýr. Þegar við förum að hugsa um það flækjast málin. Áhrifum sjávarins má skipta í að minnsta kosti tvo þætti. Annars vegar er það sú staðreynd að hann geymir varma næstliðins sumars mun betur heldur en landið gerir. Hluti af vetrarvarmanum er því þannig til kominn. Annan hluta flytja straumar norður til okkar. Sá hluti er raunar tvískiptur líka. Annars vegar er sá hluti sem vindurinn knýr - sem er lægðaganginum og suðvestanátt háloftanna að þakka og hins vegar óljósari hluti sem lóðrétt streymi vekur (svokölluð veltuhringrás/varma-seltuveltihringrás heimshafanna). Sú hringrás er enn og aftur háð fjölmörgum þáttum (við rekjum þá ekki hér og nú - en á marga þeirra hafa hungurdiskar reyndar minnst á áður).
Þegar veðurfar breytist hratt (eins og það virðist vera að gera þessi árin) vill verða erfitt að halda utan um alla þessa króka og útúrdúra. Það er fjölmargt sem getur hrokkið til. Við vitum þannig alls ekki hvort allir þessir hringrásarþættir eru stöðugir í hlýnandi heimi. Hringrás lofts og hafs er að gefa okkur 6 stig í forgjöf á ársgrundvelli. Það er rétt hugsanlegt að þessi forgjöf muni haldast í breyttu veðurfari. Með því er átt við að hlýni um tvö stig á heimsvísu, muni línuritið að ofan haldast óbreytt að öðru leyti en því að allar hitatölur hækki um 2 stig. Hér muni því líka hlýna um 2 stig. En - svo eru hinir möguleikarnir tveir auðvitað líka mögulegir: Að forgjöfin minnki - eða að hún aukist. Tilfinning ritstjórans er heldur sú að annað hvort muni forgjöfin haldast óbreytt - eða þá að hún minnki, frekar en að hún aukist. Vonin er þá sú að hún minnki ekki mikið.
En sú hlýnun - á heimsvísu - sem er í kortunum af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa er nægilega mikil til þess að hún gæti valdið lítilsháttar stefnu- eða styrkbreytingum ríkjandi vindátta í háloftunum nærri Íslandi - slíkt hefði áhrif. Taka verður fram að ekkert bendir þó til þess að slíkar breytingar hafi átt sér stað - engin áreiðanleg merki um þær hafa enn fundist (sem útilokar þær þó ekki). Reikningar hafa sýnt að veltihringrásin áðurnefnda er viðkvæm fyrir truflunum. Ritstjóri hungurdiska hefur þó ekki tiltakanlegar áhyggjur af þeim orsakavöldum sem oftast eru nefndir, en hefur hins vegar áhyggjur af öðrum truflanaþáttum sem ekkert (eða lítið) hefur verið fjallað um. Það hefur ekki enn tekist að ná utan um allt kerfið - jafnvel þótt hlýnun á heimsvísu sé næsta vís.
Við sjáum til hvort eitthvað meira verður um þetta fjallað á hungurdiskum - eða hvort nóg er komið.
21.12.2024 | 13:16
Fyrstu tuttugu dagar desember 2024
Fyrstu 20 dagar desembermánaðar eru í svalara meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík þó ofan frostmarks, +0,2 stig, -0.9 stigum undir meðallagi sömu daga á árunum 1991-2020 og -0.7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 16. hlýjasta sæti (af 24) á öldinni, hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá 5,6 stig, en kaldastir voru þeir árið 2011, meðalhiti -2,8 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 81. sæti (af 151). Kaldastir voru dagarnir 20 árið 1886, meðalhiti þá -5,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga desember -1,6 stig og er það -1,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Miðhálendinu, þar raðast hitinn nú í 12.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast að tiltölu hefur verið á Vestfjörðum og Austfjörðum þar sem hiti raðast í 19. hlýjasta sæti aldarinnar. Á einstökum stöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast við Setur, hiti +0,7 stigum ofan meðallag síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Hornbjargsvita, hiti -1,7 stig neðan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 57,8 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa mælst 19,5 mm og er það um 40 prósent meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 88,0 mm og er það nærri meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 9,1 í Reykjavík og er það í meðallagi. Sólarlaust hefur verið á Akureyri, eins og oft í desember (meðaltalið er 15 mínútur).
16.12.2024 | 13:15
Hálfur desember 2024
Hálfur desember 2024. Í svalara meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík er +0,4 stig, -0,6 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en -0,2 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 14. hlýjasta sæti (af 24) á öldinni. Dagarnir 15 voru hlýjastir árið 2016, meðalhiti þá 6,2 stig, en kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti -3,4 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 74. sæti af 151. Kaldastir voru dagarnir 15 árið 1893, meðalhiti -5,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 -0,8 stig. Það er -0,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en +0,4 ofan við meðallag síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið einna hlýjast á Miðhálendinu og á Austurlandi að Glettingi. Hiti þar raðast í 11. hlýjasta sæti (af 24), en kaldast er við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á Austfjörðum þar sem hiti raðast í 15. hlýjasta sæti aldarinnar.
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Sauðárkróksflugvelli, hiti þar +1,5 stigum ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Hornbjargsvita, -1,4 stig neðan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 49,0 mm í Reykjavík, rétt ofan meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 17,2 mm, um helmingur meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 61,9 mm og er það nærri meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 7,4 í Reykjavik og er það í meðallagi. Sólarlaust hefur verið á Akureyri - eins og oft í desember, enda hverfur sól þar bak fjalla á mælistað í kringum þann 9. og sést ekki aftur fyrr en rétt eftir áramót.
12.12.2024 | 20:49
Hitaspönn nóvembermánaðar með mesta móti
Óskar J. Sigurðsson fyrrum vitavörður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum vakti athygli á óvenjumiklum mun á hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita nóvembermánaðar á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann var 40,6 stig. Óskar hefur sérlega næma tilfinningu fyrir því sem óvenjulegt er í veðri og kann ritstjóri hungurdiska honum bestu þakkir fyrir ábendinguna.
En þetta vakti auðvitað frekari forvitni. Hversu óvenjulegur er þessi munur innan sama mánaðar? Gagnagrunnur Veðurstofunnar gaf greið svör. Gögnin skiptast þó á nokkrar töflur. Fyrirspurn í töfluna sem inniheldur mælingar mannaðra stöðva sýndi að aldrei hefði þar jafnmikill eða meiri munur orðið á hæsta hámarki og lægsta lágmarki stöðvar í nóvember. Taflan nær aftur til 1949 og fundust tvö tilvik þar sem munurinn var lítillega meiri en nú, en bæði í mánuðum sem í eru 31 dagur. Þetta var í mars 1998 þegar munurinn var 41,4 stig á Staðarhóli í Aðaldal og í desember 1995 þegar hann varð 41,2 stig í Möðrudal. Tafla með eldri gögnum fann að auki 41,3 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal í janúar 1918.
Þvínæst var að svara spurningunni fyrir sjálfvirku stöðvarnar. Þar er stöðvum Vegagerðarinnar haldið sér m.a. vegna þess að reglur um hámarks- og lágmarksmælingar eru örlítið aðrar en á öðrum stöðvum. Í ljós kom að í mars 1998 var munurinn á stöðinni við Mývatn 43,3 stig - og telst það mesti munur hámarks og lágmarks sama mánaðar hér á landi. Síðan kom í ljós að Grímsstaðir voru ekki eina stöðin með svo öfgakenndan mun í nýliðnum nóvember. Þar voru líka Ólafsfjörður (42,7 stig), Staðarhóll (40,7 stig) og vegagerðarstöðvarnar Kaldakinn (41,1 stig) og Fljótsheiði (40,8 stig). Allt saman mjög óvenjulegt.
Sú spurning kemur eðlilega upp (hjá forvitnum) hver sé þá minnsti munur hámarks- og lágmarkshita í sama mánuði. Það reynist vera í Litlu-Ávík í júlí árið 2015. Þá var hæsti hiti mánaðarins 8,8 stig, en sé lægsti 4,0 stig, munurinn aðeins 4,8 stig. Leit í gögnum sjálfvirku stöðvanna skilar ekki lægri tölu. Sú lægsta þar er 5,1 stig, frá Fonti á Langanesi í júlí 2010 og Skagatá 5,2 stig í júlí 2015.
Á Stórhöfða var mestur munur hámarks- og lágmarkshita sama mánaðar 26,5 stig, í apríl 1968, en minnstur 5,3 stig í ágúst 1981 og 1995. Í mars 1892 var munur á hæsta og lægsta hita í Vestmannaeyjakaupstað 30,9 stig.
Í Reykjavík er mesti munur sem við þekkjum, 30,9 stig. Það var í janúar 1918, minnstur munur var í júlí 1972, 7.8 stig. Á Akureyri var munurinn mestur í nýliðnum nóvember, 36,1 stig, en minnstur í júlí 2015, 12,4 stig.
Þetta er allt mjög nördalegt - og eins gott að týna sér ekki alveg, gæti endað í slæmu gagnafyllerí eða jafnvel gagnatúr, en þolið býður varla upp á slíka hegðan lengur. Við höldum samt aðeins áfram og bergjum á fleiri veigum.
Spurt er hver sé mesti munur á hæsta og lægsta hita ársins á veðurstöð - og hvaða ár? Árið hlýja 2004 mældist hæsti hiti við Mývatn 28,3 stig, en lægstur varð hitinn þar sama ár -29,7 stig. Munurinn er 58,0 stig. Á mönnuðu stöðvunum er það Brú á Jökuldal sem á mestan mun, 56,5 stig. Það var 1988 (25,0 stig og -31,5 stig). Engin fulláreiðanleg tala frá fyrri tíð slær þetta út.
Minnsta mun á hæsta og lægsta hita ársins á veðurstöð finnum við í Seley árið 2016, 19,8 stig (14,2 stig og -5,3 stig). Litlu munar að Stórhöfði í Vestmannaeyjum næði þessu bæði 1972 og 1983 þegar munur á hæsta og lægsta hita ársins var aðeins 20,0 stig.
Í Reykjavík hefur mestur munur á hæsta og lægsta hita sama árs á tíma samfelldra hámarks- og lágmarksmælingar orðið 40,1 stig. Það var árið 2008, má segja að hitabylgjan mikla það ár hafi séð um það. Á Akureyri var munurinn mestur árið 1975, 47,3 stig (27,6 stig og -19.7 stig). Á Stórhöfða er mesti munurinn 33,0 stig, það var 1966 (19,0 stig og -14,0 stig). Minnstur munur á hæsta og lægsta hita ársins í Reykjavik er 24,8 stig. Það gerðist árið 1926 (16,6 stig og -8,2 stig). Á Akureyri var munurinn minnstur árið 2001 32,8 stig (20,2 stig og -12,6 stig).
Við viljum líka vita hvaða veðurstöð á stærstu spönnina á öllum sínum athugunartíma. Þar flækist fyrir að hámarkshitamælingar í Möðrudal voru mjög óáreiðanlegar á fyrri tíð - við getum ekki trúað öllu þar. En að því slepptu er það Mývatn sem nær mestu spönninni, 63,0 stig, frá -34,7 stiga frosti upp í 28,3 stiga hita. Reykjahlið er í efsta sæti mönnuðu stöðvanna með 59,4 stig.
Við látum þessa yfirferð duga i bili. Stekkjarstaur (ritstjóri hungurdiska leikur það hlutverk í dag) hefur þar með reynt að sjúga ærnar (gagnagrunn Veðurstofunnar) - en staurfætur í augum (hvað sem það nú merkir) flækjast fyrir.
Í gær var hér á hungurdiskum fjallað um óvissu í spám í næstu viku - hugsanleg lægð gæti þá komið mjög langt sunnan úr höfum og dýpkað mikið hér við land - nú, eða ekki.
Hér er til gamans spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar nú frá hádegi (fimmtudag 12.desember 2024).
Miðstöðin hefur greinilega (að þessu sinni) ákveðið að gera alvöru úr (sem ekki var í gær). Kortið gildir um hádegi á miðvikudaginn kemur (18.desember). Líklegt er að við fáum að sjá allskonar hringl í spánum næstu daga. Kortið lítur ekki vel út, en höfum samt í huga að auðvitað er enn ekkert að marka þessa spá. Bandaríska veðurstofan er t.d. mun mildari, setur lægðina austar þannig að hún komi lítt við sögu hér á landi. En ritstjórinn er samt ánægður með að hans eigin órar skuli geta komið fram í reiknilíkönum - vonar þó jafnframt innilega að þetta muni hallast að skárri niðurstöðu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2024 | 14:47
Óvissudæmi
Undanfarna daga hefur verið óvissa af skemmtilegra taginu í spám reiknimiðstöðva. Það er alltaf óvissa, oftast af óljósum ástæðum, en stundum mjög áberandi. Þannig er staðan einmitt nú. Taka verður fram að vel má vera að þessi ástæða sem hér er gerð að umfjöllunarefni verði horfin í næstu spárunum, strax í dag, en svo getur hún líka orðið viðvarandi næstu daga.
Lítum á nokkur spákort (myndin batnar sé hún stækkuð).
Þetta eru klippur úr hefðbundnum norðurhvelsháloftakortum. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi, en þykkt er sýnd i lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Bláu litirnir sýna kalt loft, en þeir gulu og brúnu hlýtt.
Fyrsta kortið (efst til vinstri) sýnir stöðuna í dag, miðvikudaginn 11.desember. Vindrastir háloftanna hlykkjast um kortið, meginröstin liggur frá miklu lægðardragi yfir Norður-Ameríku um Ísland og austur til Síberíu. Nokkrir hlykkir eru á röstinni, áberandi bylgja (merkt c) á kortinu er við Ísland og veldur sunnanátt hennar rigningu og hlýju veðri hér á landi í dag, en berst hratt til austurs og öllu kaldara loft fylgir síðan á vesturhlið hennar. Mikil framsókn af hlýju lofti er austan við ameríska lægðardragið (þar sem merkt er með bókstafnum a). Þessi framsókn ryður upp nýjum hrygg sem hingað verður kominn á laugardag (kortið efst til hægri).
Það skiptast á hryggir og lægðardrög í röstinni. Langflestar bylgjurnar brotna fram yfir sig, þannig að þær hafa tilhneigingu til að loka kalda loftið úr næstu bylgju á undan inni fyrir sunnan röstina. (Heldur færri bylgjur brotna hins vegar aftur fyrir sig - þá lokast hlýtt loft inni á norðurslóðum). Röstin er sum sé svo óstöðug að hún er ýmist að loka inni hlýtt loft norðar en það á erindi, en kalt sunnar. Sá er munur á þessum afskornu hæðum og lægðum að hæðirnar eru hlýjar, en lægðirnar kaldar.
Kaldar afskornar lægðir hafa verið viðvarandi við Miðjarðarhaf í haust, loftið í þeim hefur sífellt verið endurnýjað - að norðan, en lokast af vegna atgangs rastarinnar í norðri. Á korti dagsins (efst til vinstri) má sjá svona lægð, hún er merkt með bókstafnum b.
Á kortinu efst til hægri hefur lægð þessi þokast til vesturs og er á laugardag komin vestur fyrir Kanaríeyjar. Hún er þá ekki eins köld og áður, hlýr sjórinn hefur yljgað henni og er að belgja hana frekar út af raks.
Óvissan sem minnst var á í upphafi fylgir þessari suðlægu og hlýnandi lægð. Á síðasta kortinu, því sem er í neðra horni til vinstri og gildir á þriðjudag í næstu viku virðist lægðin vera að ná sambandi við enn eitt lægðardragið sem meginröstin er að bera til austurs. Úr getur orðið innskot í röstina úr suðri, rakaþrungið og hlýtt. Hitti það vel í kalda bylgju úr vestri getur orðið umtalsverður vöxtur úr. Hitti ekki í lokast lægðin annað hvort af aftur (og eyðist smám saman) - eða hún straujast sem ritstjórinn kallar sem svo - tætist í sundur á suðurjaðri vindrastarinnar, án þess að ná nokkrum vexti, en styrkir röstina sem heild.
Undanfarna daga hafa spár verið með ýmsum hætti. Evrópureiknimiðstöðin kom með fyrstu hugmynd um samband rastar og lægðar, en bandaríska veðurstofan afneitaði slíku gersamlega. Reiknimiðstöðin linaðist þá heldur - en þá fór sú bandaríska að gera sig líklegri - en ekki svo mjög.
Ritstjóra hungurdiska finnst svosem líklegast að ekki verði mikið úr, en mun þó fylgjast spenntur með til lokadags því hlutirnir eru fljótir að gerast. Önnur óvissa - óþekkt gæti þó orðið á undan til að breyta öllu. Slíkt er alvanalegt.
11.12.2024 | 13:33
Fyrstu tíu dagar desembermánaðar 2024
10.12.2024 | 22:16
Af reykjavíkurhitanum
Við höfum endrum og sinnum hér á hungurdiskum litið á stöðu 12-mánaðakeðjuhitameðaltala. Í apríl í fyrra, 2023 var síðast drepið niður fæti í Reykjavík og er það sem hér fer á eftir bein framlenging á því. Ástæðan e.t.v. sú að nú er útlit fyrir að við fáum kaldasta ár í Reykjavík í tæp 30 ár. Það er töluverður tími, það var t.d. ekki fyrr en komið var fram á síðasta hluta níunda áratugarins að ritstjóri hungurdiska gat farið að tala um að hann myndi meir en 30 ára veðurlag. Það sama mun eiga við um þá sem nú eru á fertugsaldri, að þeir muna ekki vel veður langt aftur fyrir aldamót. Hitafar í ár hlýtur því að marka nokkur tíðindi í tilfinningu þeirra veðurgleggri í þeirra hópi, þótt við gamalmennin látum okkur fátt um finnast (eins og venjulega).
Fyrri myndin sýnir 12-mánaðakeðjur hita frá aldamótum. Í kringum þau hlýnaði verulega frá því sem verið hafði áratugina á undan og hafa nær öll ár síðan verið hlý. Hlýnunin kom eiginlega öll í einu þrepi á árunum 2002 til 2004. Síðan hefur ekkert hlýnað, en verulega köld ár hafa þó ekki látið sjá sig fyrr en e.t.v. nú, en það er þó ekki kaldara en svo að það er í meðallagi áranna 1966 til 1995. Bláu súlurnar á myndinni sýna 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á þessum tíma. Fyrsta gildið er sett við janúar 2001, það er hiti tímabilsins febrúar 2000 til janúar 2001. Síðan er haldið áfram. Síðasta gildið nær til desember 2023 til nóvember 2024.
Rauði ferillinn er settur inn til gamans (gerir myndina ólæsilegri að vísu). Þetta er samskonar ferill fyrir 24 ár (tæp) á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld. Hann byrjar á meðaltali mánaðanna febrúar 1925 til janúar 1926, en endar á desember 1948 til nóvember 1949. Síðara hlýja tímabilið er heldur hlýrra en það fyrra - rauði ferillinn er oftast neðan við þann gráa.
Á fyrra tímabilinu er hlýjast um 1929, 1939, 1941 og 1946, en á því síðara 2003, 2004, 2010, 2014, 2016 og 2019. Á síðara tímabilinu er einna kaldast 2015 og 2018, og svo nú. Á fyrra tímabilinu er kalt 1930, í kringum 1936, 1943 og síðan langkaldast 1949. Segja má að sá kuldi hafi staðið þar til í lok árs 1952 og jafnvel lengur. Eftir það komu nokkur mjög hlý ár (aðallega hlýir vetur) þar til að kólnaði snögglega 1965 eins og alkunna er. Stærð sveiflna á milli ára er ekkert ósvipuð á tímabilunum tveimur - ræðast aðallega af tíðni vindátta og uppruna þess lofts sem um landið leikur á hverjum tíma.
Síðari myndin sýnir 30 ára keðjumeðaltal hitans eins og það blasir við í baksýnisspeglinum á hverjum tíma. Síðasta gildið á bláa ferlinum tekur til tímabilsins desember 1994 til nóvember 2024, en það fyrsta á við febrúar 1971 til janúar 2001. Á rauða ferlinum á fyrsta gildið við febrúar 1896 til janúar 1926, en það síðasta frá desember 1919 til nóvember 1949. Á báðum tímabilunum er 30-ára hitinn smám saman að hrista af sér kulda fortíðarinnar og hækkar eftir því sem á líður, heldur örar á því síðara heldur en því fyrra. Hlýnunin er í báðum tilvikum mjög mikil. Halli rauða ferilsins samsvarar 2,8°C/öld, en þess bláa 3,5°C/öld. Ef við rýnum í ferlana sjáum við að meiri sveigjur eru á bláa ferlinum, hlýnunin var sérlega snörp í kringum hann miðjan, þegar árin ofurköldu í kringum 1980 voru að hverfa út úr honum og ofurhlý ár að taka við. Á síðustu árum hefur heldur minni munur verið á þeim árum sem detta út og þeirra sem hafa komið inn. Þannig hagar til að næstu 4 til 6 ár gæti blái ferillinn haldist í svipaðri stöðu (jafnvel þótt fleiri ámóta köld ár og það núlíðandi komi inn). Aftur á móti mun hann eiga erfitt með hækkun eftir það, því þá þurfa methlý ár að koma inn í stað hinna gríðarhlýju ára eftir 2002. Yngri og miðaldra veðurnörd geta fylgst spennt með því, við, þau elstu förum að týna tölunni úr þessu.
Við vitum auðvitað um framhald rauða ferilsins, hæsta gildi hans kom um 12 árum eftir þann enda sem við sjáum hér, hann toppaði í júnílok 1961 (frá júlí 1931, rauð strikalína) - eftir það fór hann niður á við og náði lágmarki í októberlok 1995 (grá strikalína), en hefur hækkað síðan. Fór síðan framúr fyrra hæsta hámarki í ágúst 2016 (blái ferillinn), og hefur verið ofan við það síðan.
Bláa strikalínan neðarlega á myndinni sýnir stöðu 30-árakeðjunnar í lok árs 1895, meðaltal áranna 1866 til 1895. Hún er um 0,6 stigum neðan við þá gráu (kaldasta 30-ára meðaltal síðara kuldaskeiðs). Má segja að það muni hnattrænni hlýnun - gróflega.
Ritstjóri hungurdiska mun vonandi halda áfram að gefa þróuninni gaum (á ýmsa vegu).
9.12.2024 | 14:28
Hlýtt kvöld og nótt
Mjög hlýtt varð um stund sums staðar um landið norðan- og austanvert í gær og nótt (eins og gert hafði verið ráð fyrir). Sýnist í fljótu bragði að hiti hafi hæst komist í 17,6 stig á Sauðanesvita og Siglufirði milli kl.20 og 21 í gær. Trúlega eru nú mestu hlýindin gengin hjá. Þegar talin eru tilvik sem þessi er í fyrstu umferð gjarnan leitað að hæsta hita hvers desembermánaðar aftur í tímann. Við eigum nú á lager fjóra desembermánuði með hámarki hærra en 17,6 stig. Þar fer auðvitað fremst í flokki desemberíslandsmetið sjálft, 19,7 stig, sett á Kvískerjum 2. desember 2019, síðan koma 18,4 stig frá Sauðanesvita 14. desember 2001 - merkilegt fyrir það að það var jafnframt hæsti hiti ársins á þeim stað. Þann 15.desember 1997 fór hiti í 18,2 stig á Skjaldþingsstöðum og í 18,0 stig á Seyðisfirði þann 14. árið 1988. - Síðan kemur desember nú (sem er auðvitað ekki liðinn). Átján stigin á Seyðisfirði 1988 slógu eldra met, 16,6 stig, sem þá höfðu mælst í þremur fyrri desembermánuðum, fyrst 1933. Við bíðum enn eftir 20 stigum í desember, en þau liggja einhvers staðar í leyni í framtíðinni.
Við lögreglustöðina á Akureyri fór hiti nú í 14,6 stig, við vitum af þremur hærri tölum frá Akureyri í fortíðinni, 14,8 stig við lögreglustöðina við Þórunnarstræti þ.15. 1997 og 15,1 stig þegar stöðin var við Smáragötuna þann 21. árið 1964. Hæsta talan er 15,5 stig sem mældust 2. desember 2019 (þegar metið var sett í Kvískerjum). Nú fór hiti hins vegar í 16,1 stig við Krossanesbrautina, og er það næsthæsti hiti sem mælst hefur í desember á Akureyri. Hiti mældist 16,5 stig við Krossanesbrautina áðurnefndan 2. desember 2019.
Í beinu framhaldi af þessu má spyrja hver sé lægsti hámarkshiti einstaks desembermánaðar. Lægstu tölurnar eru reyndar frá því tímaskeiði þegar stöðvar voru mjög fáar, og að auki ekki staðsettar á stöðum þar sem hárra talna er að vænta. En í okkar minni eru 7,9 stig sem mældust á Dalatanga 11.desember 1985 trúlega lægsta hámark af þessu tagi í minni núlifandi manna - og er í 10. sæti á listanum.
Á seinni árum hefur það aðeins gerst einu sinni að lágmarkshiti í byggðum landsins hefur ekki farið niður í -15 stig í desember, að minnsta kosti einu sinni. Það var í hinum sérlega hlýja mánuði árið 2002 að lægsta byggðarlágmarkið varð -12,5 stig (mældist á Torfum í Eyjafirði). Hálendið gerði betur, -17,5 stig mældust þá í Þúfuveri. Í desember 1933 mældist mesta frost desembermánaðar -11,3 stig, það var á Eiðum í Eiðaþinghá.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2024 | 22:10
Skammvinn hlýindi
Þetta er skrifað að kvöldi laugardagsins 7.desember 2024. Á morgun er spáð skammvinnum hlýindum á landinu með allmikilli úrkomu og vindi úr suðri. Síðan snýst til suðvestlægrar og vestlægrar áttar og kólnar eitthvað aftur.
Kortið sýnir stöðuna annað kvöld (sunnudagskvöld). Þá eru hlýindin í hámarki. Við sjáum hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (sýnd í lit). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og á að fara í um 5520 metra þegar mest verður (sumarhlýindagildi). Svona hlýtt loft heimsækir okkur endrum og sinnum í desember. Skyndifletting stingur upp á að það gerist á 7-8 ára fresti að jafnaði (en ójafnt samt).
Ekki eru nema fimm ár síðan ámóta - eða lítið eitt hlýrra - loft fór hjá í desember. Þá urðu þau tíðindi að landsmánaðarhitamet var sett í Kvískerjum í Öræfum og hiti á fleiri stöðvum varð hærri heldur en áður hafði mælst í mánuðinum. Um það má lesa í gömlum pistli hungurdiska.
Ekkert kort fylgdi pistlinum 2019 þannig að við lítum á það hér. Þetta er auðvitað svipað að útliti, heldur efnismeira þó 2019 heldur en nú. Að þessu sinni stendur hlýja loftið líka styttra við og þarf að takast á við bæði klaka og snjó (sem er orkufrekt) þannig að varla er von á stórtíðindametum, en dægurmetahrina er næsta vís á fjölda stöðva (ekki víst að landsdægurmet verði slegin).
Sumir muna e.t.v. að í desember 2019 þurfti ekki að bíða nema viku frá hlýindunum eftir einu versta veðri síðari ára hér á landi. Þeir sem urðu fyrir því gleyma ekki, en líklega eru samt flestir aðrir farnir að ryðga - og þurfa að leggjast í minnisuppgröft.
Þótt skyndihlýindi á þessum tíma árs séu raunar sjaldnast mikið fagnaðarefni hagar þó þannig til nú víða um sunnan- og vestanvert landið að illur en þunnur klaki liggur á gangstéttum og plönum, gott væri að losna við hann. Hvað þessum skammvinnu hlýindum verður ágengt í því verður bara að koma í ljós. Svo óheppilega hagar til að frost hefur hlaupið nokkuð í jörð og verður viðvarandi hætta á frostrigningu (eða einu af afbrigðum hennar) hér eftir - eða allt þar til sankti-Pétur setur vermisteininn í jörðina á messu sinni 22.febrúar. Af einhverjum illskiljanlegum ástæðum er þessarar dagsetningar ekki lengur getið í Almanaki Háskólans - og er það gagnrýnivert (alveg satt). Annars þarf langvinna hláku (margra daga hlýindi) til að bjarga málum. Skyndihlýindum á frosna jörð fylgja oft furðumiklir vatnavextir því svampeiginleikar jarðvegarins njóta sín ekki - allt rennur á yfirborði (sem er eins og stálskúffa - minnir mig að Sigurjón Rist hafi einhverju sinni sagt undir svipuðum kringumstæðum). Vonandi verður úrkoma þó í einhverju hófi - en rétt að gefa henni gaum.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 160
- Sl. sólarhring: 311
- Sl. viku: 1467
- Frá upphafi: 2486535
Annað
- Innlit í dag: 153
- Innlit sl. viku: 1308
- Gestir í dag: 148
- IP-tölur í dag: 148
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010