Dægursveifla tekur við sér í mars

Í skammdeginu er dægursveifla hita og vindhraða lítil, sveiflur þeirra ráðast nær eingöngu af stöðu lægða og hæða. Sólarhringslágmarkshiti er alloft lægstur um miðjan dag og hámarkshiti verður að oft nóttu. Þegar kemur fram í febrúar fer þetta að breytast og í mars er að jafnaði orðið áberandi hlýrra á daginn heldur en á nóttunni - þótt enn geti að sjálfsögðu brugðið út af einstaka daga þegar veðrakerfi takast á. Að meiri festa komist í vindhraðann er ekki eins áberandi - en það er samt þannig að meðalvindhraði er ívið meiri yfir daginn í mars heldur en að nóttu. 

Við lítum nú á dæmi um þetta. Viðfangsefnið hefur áður komið við sögu á hungurdiskum, en samt er ekki um algjöra endurtekningu að ræða.

w-blogg090325a

Fyrsta myndin sýnir dægursveiflu hita (grár ferill) og vinds (rauður ferill) í mars í Reykjavík á árunum 1997 til 2024. Athugið að kvarðarnir eru (tölulega) ekki þeir sömu og sjálf talnagildin skipta litlu máli - það er sveifla þeirra yfir sólarhringinn sem við erum að kanna. 

Lárétti kvarðinn sýnir klukkustundir sólarhringsins. Af gráa ferlinum merkjum við að kaldast er að jafnaði kl.7 að morgni, skömmu fyrir sólarupprás, en eftir það fer hiti hækkandi og nær hámarki um kl.15. Meðaldægursveifla hitans er 2,5 stig. Það er auðvitað sólarylurinn sem sér um að knýja sveifluna. Sólin vermir yfirborð jarðar sem aftur vermir loftið ofan við - eftir kl.15 fer útgeislun aftur að hafa vinninginn. Við megum athuga að útgeislun jarðaryfirborðs er því meira eftir því sem það er hlýrra. Varmatapið er því meira þegar yfirborðið er hlýjast heldur en þegar það er kaldast - en sólarylurinn hefur sum sé betur þar til kl.15 - þá er sól farin að lækka á lofti. 

En vindhraðinn sveiflast líka (rauði ferillinn - hægri kvarði). Lögun hans er öðru vísi að því leyti að vindhraði er svipaður alla nóttina, allt frá því um kl.20/21 til 6/7, en minnkar ekki á þeim tíma sem hiti er þá að lækka. Hann vex hins vegar ákveðið frá morgni og rétt fram yfir hádegi (sól er hæst á lofti um kl.13:35). Talið er líklegast að það sé aukin blöndun lofts í neðstu lögum sem þessu veldur. Lóðrétt hreyfing verður meiri, loft sem er á mjög hægri hreyfingu í allra neðstu lögum (núningur er þar mjög mikill) lyftist vegna kviku (bólumyndunar) og kemst í snertingu við loft sem er á ívið meiri hreyfingu og blandast því. Úr þessu verður blanda þar sem skriðþungi að ofan hefur blandast nær jörðu - niður í þá 10 metra hæð sem vindhraðamælingar eru gerðar í. Núningurinn nær síðan aftur öllum tökum þegar sól lækkar á lofti. 

w-blogg090325b

Á næstu mynd berum við saman dægursveiflu hita á alskýjuðum og léttskýjuðum dögum í Reykjavík. Grái ferillinn á við skýjuðu dagana. Þá er almennt talsvert hlýrra heldur en þegar bjart er (suðlægar áttir ríkjandi í skýjuðu, en norðlægar í björtu). Dægursveiflan er nokkru minni en að meðaltali þegar skýjað er (samanber fyrri mynd). Sólarylurinn skiptir minna máli, en hans gætir þó. Erfitt er að finna hvenær sólarhringsins lágmarkið er. Til að finna það með réttu þyrftum við að jafna út þá hneigð að alskýjaður dagur í mars byrjar kaldari heldur en honum lýkur - væntanlega vegna þess að aðstreymi er af hlýju lofti - og þrátt fyrir allt hlýnar dálítið frá upphafi til enda marsmánaðar. 

Í björtu veðri sést dægursveiflan miklu betur, hún er þá líka nærri tvöföld á við það sem hún er að meðaltali (sjá fyrri mynd). Kaldast er kl. 7/8 og hlýjast kl. 15/16. Það er líka aðeins kaldara í lok sólarhringsins heldur en í upphafi hans. Sólin nær ekki að halda í við kuldann. 

w-blogg090325c

Hér má sjá dægursveiflu vindhraðans í alskýjuðu og björtu veðri. Það að hvassara er í skýjuðu veðri hefur væntanlega ekkert með dægursveifluna að gera - lægðakerfi eru í óða önn að bera hlýtt og skýjað loft úr suðri til landsins. Dægursveifla vindsins í björtu veðri er hins vegar heldur meiri en að meðaltali, en útlit sveiflunnar er svipað. 

w-blogg090325d

Í fljótu bragði virðist þessi mynd ekki sýna neitt - en hún er samt mikilvæg. Hér höfum við reiknað meðalvigurvind hverrar klukkustundar, en vigurvindur á sér bæði stærð og stefnu. Hver vindmæling er þáttuð í austan- og norðanþætti og meðaltal hverrar klukkustundar í marsmánuði reiknað. Hér setjum við niðurstöðurnar í einskonar vindrós. Punktahneppið sem við sjáum sýnir að meðalvigurvindáttin í Reykjavík í mars er nokkuð föst í sömu stöðu allan sólarhringinn - rétt norðan við suðaustur - ekki fjarri útjöfnuðum landhalla á höfuðborgarsvæðinu. Að sumarlagi - tíma hafgolunnar - sveiflast vigurvindáttin umtalsvert. Þessi mynd sýnir okkur að þrátt fyrir sveiflu í vindstyrk hefur hafgolan ekki tekið við sér í marsmánuði. Það er bragðmunur á þessu tvennu, sá aukni skriðþungi lofts sem við upplifum sem hafgolu er ekki bara sóttur til loftstrauma rétt ofan við eins og í mars heldur verður til við flóknari hringrás. Við gætum kannski spurt athuganir hvenær hafgolan byrjar að vorlagi? Hún er komin á fullt skrið í maí. 

Við höfum ekki minnst á eitt mikilvægt atriði til viðbótar, en það er það sem ritstjóri hungurdiska kýs að kalla festu hita og vinds. Vindfesta er hlutfall á milli vigurvindhraða og vindhraða. Festan er því meiri sem vindurinn er stöðugri á áttinni. Festuhlutfallið í meðaltölum þeim sem hér er fjallað um er mjög lítil, ekki nema um 0,2. 

w-blogg090325e

Á síðustu myndinni sjáum við að það sem sagt hefur verið hér að ofan á akki aðeins við um Reykjavík heldur einnig meðaltal allra veðurstöðva landsins. Blái ferillinn (vinstri kvarði) sýnir dægursveiflu hitans. Hún er nánast eins og í Reykjavík (þótt spönn og meðaltal sé annað). Sama á við um vindinn (rauður ferill, hægri kvarði). 

Full ástæða er til að ætla að þessar sveiflumyndir væru þær sömu ef við ættum gögn frá landnámsöld - meðaltölin e.t.v. ekki nákvæmlega þau sömu, en allt annað á sínum stað. 


Beyglast teppið?

Eftir umhleypingana að undanförnu lítur út fyrir góðviðri víðast hvar á landinu næstu daga. Háþrýstisvæði hefur komið sér fyrir fyrir suðvestan land. Þetta háþrýstisvæði er þó ekkert sérstaklega öflugt og sætir engum tíðindum þannig séð - ekki enn að minnsta kosti. Það virðist bara hafa verið þannig að ekki hafi fleiri illviðri verið á lager - í bili. 

Það má þó alltaf sjá eitthvað athyglisvert ef vel er að gáð. Háþrýstisvæðið er af hlýju gerðinni, það nær í gegnum allt veðrahvolfið og yfir því eru veðrahvörfin hærri en umhverfis. Norðvestanátt er því yfir Grænlandi. Norðvestanátt liggur hins vegar þvert á bæði Grænlandsströnd og Grænlandssund - sem ekki gengur vel. Vindur nærri sjávarmáli vill heldur blása um sundið annað hvort úr suðvestri eða norðaustri - og það er eiginlega sama úr hvorri áttinni blæs í neðstu lögum að loftið sem á ferðinni er er kaldara heldur en það sem kemur niður af Grænlandi - eftir að hafa farið yfir háhrygginn - og hlýnað verulega í niðurstreyminu austan hans. Þetta hlýja loft á því ekki greiða leið niður til yfirborðs - og þar með til Íslands og á bágt með að ylja okkur. Það leggst því eins og teppi ofan á kalda loftið og verða til mjög öflug hitahvörf. Í þessu tilviki verður þó um einhverja blöndun að ræða þannig að hitahvörfin smyrjast út á nokkur hundruð metra bil. 

Ofan hitahvarfanna er mjög hlýtt loft, jafnvel 6 til 8 stiga hiti, en neðan við er hiti lægri og þar sem vindur er hægur yfir landi er frost, jafnvel mikið. Sé vindur hægur er varla nokkur von til þess að teppið beyglist og hitinn ofan við blandist niður. 

En við skulum líta á kort sem skýrir stöðuna betur.

w-blogg080325a

Kortið gildir kl.18 síðdegis á mánudag, 10.mars 2025. Jafnþykktarlínur eru heildregnar, þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarlínan sem liggur yfir Ísland sýnir 5400 metra og enn meiri þykkt er undan austurströnd Grænlands, 5460 metrar - við erum hér á mörkum þess að tala um sumarhita. Meðalþykkt yfir landinu í mars er um 5240 metrar. Hún er því um 160 metrum hærri en meðaltalið á þessu korti. Það samsvarar því að hiti sé um það bil 8 stig yfir meðallagi í neðri hluta veðrahvolfs. Við fáum alloft að sjá hærri tölur á þessum árstíma, en oftast standa þær stutt við, hluta úr degi eða þá kannski 1 til 2 sólarhringa. Trúum við spánum er nú reiknað með 4 til 5 daga dvalartíma hlýja loftsins á svæðinu, og í hádegisreiknirunu reiknimiðstöðvarinnar á hún að toppa yfir landinu á þriðjudag eða miðvikudag - í 5450 hPa - og hitavikið þá komið í 10 stig. 

Litirnir á kortinu sýna hita í 850 hPa-fletinum, hann er þessa dagana í um 1500 metra hæð. Marsmetið yfir Keflavíkurflugvelli er 7,8 stig. Að þessu sinni er það met varla í hættu, en svo virðist sem næstu daga verði 3 til 5 stig viðloðandi yfir landinu í 1500 metra hæð. 

Það þýðir að komi einhverjir kaflar þar sem háloftavindur nær að slá sér niður - handan fjalla um norðan- og austanvert landið gætum við fengið að sjá býsna háum hitatölum bregða fyrir stund og stund. Líkurnar hvað mestar á suðaustanverðu landinu. Eins og sjá má á kortinu hér að ofan gætir niðurstreymis yfir Suðausturlandi - þar er áberandi, staðbundið hámark hita í 850 hPa, 5,8 stig - og enn hærri tölur eru í niðurstreyminu undan Grænlandsströndum. 

Til þess að hita að ofan gæti í mannheimum þarf teppið að beyglast. Við sjáum - eins og oft áður - að það má búa til töluverða spennu út úr því sem virðist vera harla óspennandi leikur - alla vega gerum við nördin það, feitustu og bestu bitarnir liggja oft á víðavangi þar sem enginn tekur eftir þeim. 


Hugsað til ársins 1975

Hér verður hugsað til ársins 1975, tíð lýst lauslega og helstu veðuratburðir raktir. Mjög er byggt á blaðafregnum, stöku sinnum styttum. Stafsetningu er í fáeinum tilvikum hnikað - vonandi sætta höfundar sig við slíkt, en þeir eiga allar þakkir.

Árið var mjög illviðrasamt, eitt hið illviðrasamasta á síðari hluta 20. aldar. Tíðin á árinu taldist fremur óhagstæð, nema um sumarið á Norður- og Austurlandi. Haustið var einnig nokkuð hagstætt um mestallt land. Úrkoma í rúmu meðallagi. 

Janúar var óhagstæður og sérlega stormasamur, færð var erfið og snjór jafnvel með mesta móti. Í febrúar var umhleypinga-, storma- og úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en góð tíð eystra. Í mars var tíð óstöðug tíð, talin sæmileg sunnanlands, en erfið nyrðra. Apríl var óstöðugur og stormasamur. Góðviðri var lengst af í maí, en gróður lét á sér standa. Í júní var tíð bæði óstöðug og óvenjuköld. Í júlí var úrkomusamt og svalt á Suður- og Vesturlandi, en hagstæðara fyrir norðan og austan. Ágúst var óvenju votviðrasamur og sólarlítill á Suður- og Vesturlandi, en mun hagstæðari norðan lands og austan. Í september var kalt. Óhagstæð tíð talin norðanlands, en hagstæðari syðra. Uppskera úr görðum var rýr. Hagstæð tíð var í október. Í nóvember var sæmilega hagstæð tíð, en úrkomusöm. Desember var með afbrigðum umhleypinga- og stormasamur. Yfirleitt var þó snjólétt.

Mjög erfið tíð var lengst af í janúar með illviðrum og snjóþyngslum, sérstaklega um landið norðan- og austanvert. Óvenjumikið snjóaði einnig syðst á landinu. Mjög djúp og kröpp lægð fór hratt norðaustur yfir landið að kvöldi nýársdags nóttina þar á eftir. Önnur lægð fór hratt austur yfir landið þann 5. og síðan enn ein fyrir sunnan land þann 8. 

w-1975-01-sponn

Línuritið sýnir mun á hæsta og lægsta loftþrýstingi á landinu (þrýstispönn) á öllum athugunartímum í janúar 1975 (bláar súlur). Þetta er allgóð ábending um vindhraða á landinu (þótt staðbundin veður geti sloppið framhjá vísbendingunni). Þegar munurinn er kominn í 15 til 20 hPa er allvíst að vindur er farinn að valda vandræðum og allt þar ofan við bendir á veruleg illviðri. Rauði ferillinn sýnir lægsta þrýsting á landinu á hverjum athugunartíma, hann er nokkuð órólegur.

Dagarnir 12. til 15. vekja sérstaka athygli. Þá var þrýstispönnin meiri en 25 hPa nærri samfellt í rúma þrjá sólarhringa. Gríðarlegt illviðri gerði einnig þann 22. 

Rétt þótti að taka umfjöllun um hríðarveðrið mikla 12. til 15. „út fyrir sviga“ í sérstökum pistli, en hér má geta þess að lægð dýpkaði fyrir sunnan land og þokaðist austur fyrir. Gerði þá norðaustanhríðarveður um allt norðanvert landið með mikilli fannkomu og hvasst varð um land allt. Lægðin grynntist heldur næsta dag, en vindur hélst svipaður. Daginn þar á eftir, þ.14. kom svo ný lægð úr suðri og tók við af þeirri gömlu. Náði illviðrið og fannburðurinn hámarki þann dag. Sunnanlands var úrkomulítið, en einnig varð hvasst þar.  

Þann 22. dýpkaði lægð gríðarlega fyrir sunnan land og olli miklu austanveðri um meginhluta landsins. Tjón varð mest undir Eyjafjöllum. 

Snjódýptarmet voru slegin á nokkrum veðurstöðvum, þar má nefna Akureyri (160 cm, þ.15), Vaglir (170 cm, 15.), Dratthalastaðir (152 cm, 30.), Hallormsstaður (110 cm 15.) og Vík í Mýrdal (185 cm, þ.28. til 30.). Snjóflóð féllu víða, en þó ekki á þéttbýlisstaði, nema á verksmiðju á Seyðisfirði, - og áður við Brekkuþorp í Mjóafirði. Óttuðust menn það þó mjög eftir nýliðna atburði í Neskaupstað, á Seyðisfirði og Siglufirði. 

Við lítum nú á fréttir mánaðarins. Tíminn segir frá sköðum, aðallega um landið austanvert í pistli 3.janúar, m.a. óvenjulegum snjóflóðum í Beruneshreppi:

Aftakaveður af vestri var á Eskifirði í fyrrinótt [aðfaranótt 2.], og ætlaði allt um koll aö keyra um tíma. Talsvert tjón varð líka í kaupstaðnum af völdum veðursins, og sleit einkum þakplötur af húsum. Mikil veðurhæð var viða annars staðar á Austurlandi, og má með sanni segja, að þar séu miklar sveiflur á veðurfarinu. Má þar minnast þess, að einn daginn, komst hiti á Dalatanga upp í fjórtán stig.

Gsal-Reykjavík. — Ofsaveður geisaði i Þistilfirði í fyrrinótt og urðu talsverðar skemmdir á gripahúsum og öðru. Tíminn leitaði til Óla Halldórssonar, bónda á Gunnarsstöðum, og bað hann að segja frá veðrinu. „Hér gekk yfir i nótt geysilegt hvassviðri. Ég get látið mér detta í hug að veðurhæðin hafi verið nærri 11-12 vindstig. Víða urðu skaðar hér í sveitinni, en ekki hef ég haft spurnir af neinu sem kallast gæti stórskaði. Hins vegar urðu einhverjir skaðar á flestum bæjum í sveitinni. Hlutar af þökum fuku af gripahúsum, einkanlega eldri húsum og ég veit til þess, að á einum bæ fuku útihey og rúður brotnuðu viða. Eitthvert tjón varð því á flestum bæjum. Sennilega hefur þetta ofsaveður ekki náð yfir mjög stórt svæði og það stóð heldur ekki lengi yfir. Ofsaveður var hér ekki nema i 2-3 tíma, frá hálf fjögur og fram yfir sex. Eftir það fór að lægja. Annars hefur verið talsvert hvasst hér i allan dag, en nú er komið hægviðri. Það er ekki hægt að segja, að hér sé mikill snjór, og mun minni en var á sama tíma í fyrra, en hér er búin að vera óskaplega leiðinleg tíð“, sagði Óli að lokum.

Því má bæta hér við, að í Kelduhverfi var slíkt aftakaveður, að tveir bilar, sem stóðu á hlaði úti, snerust í hálfhring.

Gsal-Reykjavik — Nokkrar rafmagnstruflanir hafa orðið á Norður- og Norðausturlandi að undanförnu. Að sögn Ingólfs Árnasonar, rafveitustjóra á Akureyri, bilaði háspennulínan á milli Kópaskers og Raufarhafnar í fyrrinótt, og fannst bilunin ekki fyrr en í gærdag. Rafmagn hefur því verið skammtað á Þórshöfn og í Þistilfirði. Skúr á Raufarhöfn fauk á háspennustöð og braut hana niður í fyrrinótt. Af þeim sökum eru þrír bæir austan við Raufarhöfn rafmagnslausir svo og flugvöllurinn. Að sögn Ingólfs rafveitustjóra, hefur einnig verið talsvert um rafmagnstruflanir í Eyjafirði og þær flestar af völdum áfoks.

Gsal-Reykjavik. Í fyrrinótt féllu nokkur snjóflóð í Beruneshreppi, aðallega hjá Karlsstöðum og Krossgerði. Urðu nokkrar skemmdir af völdum snjóflóðanna. Tíminn náði í gær tali af bændunum á Karlsstöðum og Krossgerði. Sigurður Þorleifsson bóndi á Karlsstöðum sagði svo frá:

— Hér féllu fjögur snjóflóð á tímabilinu frá klukkan eitt í nótt og til þrjú. Það flóð, sem kom næst íbúðarhúsinu, féll um klukkan hálf þrjú og staðnæmdist það u.þ.b. tíu metra frá húsinu. Okkur fannst þetta koma óþægilega nærri húsinu, svo að við hjónin fórum með ungar dætur okkar á næsta bæ, en sjálf héldum við aftur heim. Segja má, að þá hafi samt mesta hættan verið liðin hjá, en eðlilega voru börnin dálítið hrædd og víst er það óþægilegt, þegar svona hlutir gerast í myrkri um hánótt — þá fær maður það á tilfinninguna, að maður viti ekki gjörla hvar maður stendur. Flóðin ollu talsverðum spjöllum, girðingar sópuðust burt og fjárrétt lét undan þunganum. Þá skemmdust einnig einn til tveir hektarar af túnum, þar sem í þessum snjóflóðum er alltaf nokkuð af grjóti. Mikill snjór er hérna og byrjað var að ryðja veginn í dag, en á hann hafa einnig fallið einhver snjóflóð.

Ingólfur Árnason bóndi í Krossgerði sagði svo frá: — Hér fyrir ofan bæinn féllu fjögur snjóflóð i nótt og tóku með sér girðingar á köflum. Þetta voru ekki mikil flóð, og sennilega ekki mikil hætta af þeim.

Morgunblaðið segir 4.janúar frá sama veðri:

Ofsaveður gekk yfir landið skömmu eftir að nýja árið hafði gengið í garð. Ýmsar skemmdir urðu á raflínum, símalínum og bátar slitnuðu upp og rak á land. Á nýársdagsmorgun gerði t.d. slíka asahláku á Akureyri að Ráðhústorgið varð sem stöðuvatn yfir að líta. Hitinn á Akureyri fór á skömmum tíma upp í 9 til 10 stig og höfðu niðurföll ekki við. Á Eyrarbakka gerði ofsaveður aðfararnótt gamlársdags og slitnaði þá upp bátur þar í höfninni og annar sem var á legufærum fyrir utan. Sá í höfninni skemmdist eitthvað, en hinn, sem var á legufærunum, rak upp í fjöru og í öðru áhlaupi á nýársdagskvöld mun hann hafa brotnað mikið og er jafnvel talinn ónýtur. Þá skemmdist rækjubátur á Hvammstanga, sem slitnaði upp 31. desember og rak upp í klettótta fjöru. Komst mikill sjór í bátinn. Ingólfur Árnason, rafveitustjóri á Norðurlandi, sagði að starfsmenn rafveitunnar hefðu átt erfiða daga. Er Morgunblaðið ræddi við hann í gær var línan milli Kópaskers og Þórshafnar biluð og var rafmagnsskömmtun á svæðinu umhverfis Þórshöfn og í Þistilfirðinum. Var dísilstöð á Þórshöfn látin ganga, en hún annar ekki öllu svæðinu og varð því að skipta svæðinu í tvennt. Ástæðan fyrir biluninni var að eitthvert brak mun hafa fokið á línuna og skemmt hana skammt austan við Svalbarðsá, en þar brotnaði staur og slitnaði línan. Sagði Ingólfur að um það bil helmingur allra raflínubilana ætti sér stað með þessum hætti. Á Raufarhöfn fauk útbygging í eigu Síldarútvegsnefndar á spennistöð, sem brotnaði, þannig að nokkrir bæir norðan við Raufarhöfn voru í gær rafmagnslausir. Búist var við að bráðabirgðaviðgerð lyki í Þistilfirðinum í gærkveldi eða í nótt, en gert verður við bilunina á Raufarhöfn strax og lokið er viðgerð inni í Þistilfirðinum. Ingólfur sagði að varla hefði liðið svo dagur nú um hátíðirnar að ekki hefðu orðið einhverjar truflanir. Í gærmorgun voru 12 vindstig á Mánárbakka.

Miklar truflanir urðu á símasambandi á Norðausturlandi, enda sagði Ingólfur að símakerfið þar væri allt háð rafmagni og fer símasamband um leið og rafmagnið. ... Sums staðar er síminn háður rafmagni. Megnið af fjölsímakerfunum eru þó tengd stöðvarafhlöðum og verði rafmagnsleysi í langan tíma munu rafhlöðurnar geta gengið í 2 til 3 sólarhringa. Þar sem radíósamband er hefur sums staðar verið komið upp varaaflstöðvum. Samkvæmt upplýsingum Ólafs Tómassonar, yfirverkfræðings hjá Landssímanum, hafa talsverðar símabilanir orðið yfir hátíðirnar umfram bilunina á Gagnheiði, sem áður hefur verið skýrt frá. Á aðfangadag klukkan 14 rofnaði samband á loftlínu milli Hafnar í Hornfirði og Reyðarfjarðar og komst sú lína í lag á jóladag klukkan 13. Ennfremur varð bilun á loftlínum milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar, sem komust í lag á annan i jólum. Á þessum linum eru fjölsímasambönd milli Hafnar og Reyðarfjarðar. Sæsímabilun varð hjá Galtarvik í Hvalfirði og olli sambandsleysi á 48 talrásum milli Reykjavíkur og Brúar í Hrútaffirði. Bilunin kom fram klukkan 15 á jóladag og var samband komið á aftur klukkan 20:15 á annan i jólum. Orsök bilunar var tæring á vírverjum sæsímans, er varð til þess að gat nuddaðist á blýkápu. Símalínan frá Húsavík til Kópaskers og Raufarhafnar bilaði 28. desember klukkan 15. Orsök bilunar voru mörg slit af völdum ísingar á Melrakkasléttu. Sambandið komst á 30. desember klukkan 07. Á sama tíma varð bilun á Þórshafnarlínu frá Raufarhöfn og einnig slit.

Yfir áramótin hafa orðið nokkrar bilanir. Í fyrsta lagi bilaði símalínan milli Hafnar og Reyðarfjarðar aftur að morgni 2. janúar. Orsökin var snjóflóð, sem féll á línurnar utan við Snæhvamm í Breiðdalsvík og braut 8 staura. Viðgerðarmenn voru í gær á leið á staðinn frá Egilsstöðum. Ennfremur er bilun hjá Vik í Fáskrúðsfirði, sem gert verður við í dag ef veður leyfir. Í gærmorgun bilaði símalínan milli Selfoss og Laugarvatns og var viðgerð hafin í gær. Ekki var þá ljóst hvers eðlis bilunin væri. Þá bilaði símalínan frá Brú til Ísafjarðar 31. desember og hefur verið sambandslaust síðan. Bilanir eru á nokkrum stöðum frá Hólmavík til Ögurs, en ekki taldar alvarlegar, en veður hamlar viðgerð. Samband er við Ísafjörð í gegnum Patreksfjörð. Truflanir urðu á símalínu um Patreksfjörð til Ísafjarðar, en samband hefur þó ekki rofnað á þeirri línu. Orsök truflananna er bilun á Gemlufallsheiði eða í Önundarfirði.

Á Eyrarbakka gerði aftakaveður aðfararnótt gamlársdags. Slitnaði þá upp bátur, sem bundinn var við bryggju, snerist og lagðist upp að klapparvegg. Báturinn, Sæfari, 80 tonn, mun hafa skemmst eitthvað, en flóðhæð var mikil og foráttubrim. Var t.d. ekki fært fram á bryggjuna. Strax um morguninn var bátnum þó bjargað, en annar bátur, Askur ÁR 13, 68 tonn, sem lá fyrir utan við legufæri, slitnaði upp og rak upp í fjöru. Var strax haft samband við tryggingafélagið og var Björgun hf fengin til þess að huga að bátnum, sem var óbrotinn. Setti Björgun taugar i bátinn til þess að halda honum. Á nýársnótt færðist báturinn ofar í fjöruna, en brotnaði þó ekki, en um kvöldið á nýársdag barst báturinn til og fóru böndin, sem strengd höfðu verið i hann, yfir hann. Ámokstursskófla, sem notuð var til þess að strengja böndin fór síðan ekki í gang, þegar til átti að taka og slaka á taugunum. Lagðist báturinn því á hliðina og brotnaði allmikið. Í fjörunni er mikið íshröngl, sem borist hefur úr Ölfusá en áin ruddi sig í veðurofsanum. Fylltist höfnin og allar fjörur af íshröngli. Er jafnvel búist við að vélbáturinn Askur eyðileggist í fjörunni.

Fréttaritari Morgunblaðsins á Eyrarbakka sagði að upp úr 1930 hefði verið gerður varnargarður til þess að varna árísnum að berast á fjörur Eyrbekkinga. Síðan hefur þessi garður orðið fyrir áföllum og tímans tönn hefur markað hann mjög. Hafa Eyrbekkingar margoft farið fram á fjárveitingar til þess að lagfæra megi garðinn, en án árangurs. Þá hefur heldur ekki fengist áætlun um það verk frá hafnarmálaskrifstofunni. Er þetta ástand mjög óbærilegt í vestanátt, er áin ryður sig.

Á gamlársdagsmorgun eða aðfararnótt gamlársdags slitnaði Straumur HU 5 upp í höfninni á Hvammstanga. Þetta er 18 tonna bátur og mun hann hafa skemmst nokkuð, þar sem hann rak upp í klettótta fjöru. Komst mikill sjór i bátinn, en hann náðist út á síðustu klukkustund ársins 1974 og var það heldur heppilegt, því að skömmu siðar gerði annað áhlaup og hefði þá ekki verið að sökum að spyrja um afdrif Straums.

Fréttaritari Morgunblaðsins í Axarfirði sendi svohljóðandi frétt af veðurofsanum þar nyrðra: Skinnastað, Axarfirði 2. janúar. Ofsaveður af suðvestri gekk hér yfir í nótt. Hófst veðrið snögglega laust fyrir klukkan 4, en tók heldur að lægja um klukkan 7 í morgun. Veðri þessu fylgdu stuttar regnhryðjur og 3—4 stiga hiti. Útslag á jarðskjálftamæli á Skinnastað, sem er viðkvæmur fyrir stórviðrum, bendir til, að veðurhæð hafi verið a.m.k. 11—12 vindstig þegar mest var. Fólki varð ekki svefnsamt eftir að veðrið hófst óttuðust menn um hús sín og var reynt að byrgja glugga og treysta hurðir en út var ekki hægt að fara. Fréttir af skemmdum í veðrinu eru óljósar en nokkrar minniháttar skemmdir er vitað um i Axarfirði, t.d. fauk hluti af kirkjugarðsgirðingu á Skinnastað og sjónvarpsloftnet munu hafa skemmst á mörgum stöðum. Þá urðu skemmdir á raflínum í Þistilfirði. Mjög hvöss og byljótt suðvestanátt var hér um hádegi á nýársdag og skemmdust þá hús nokkuð i Gilhaga í Axarfirði. Annars eru fregnir af sköðum í þessu veðri ennþá óljósar. — Sigurvin.

Tíminn segir 4.janúar:

gébé—Reykjavik. Laugarvatnssímalínan sem liggur yfir Hvítá slitnaði þegar staurar brotnuðu þar á fimmtudag. Vinnuflokkur frá landsímanum fór áleiðis til viðgerða um klukkan tíu á föstudagsmorgun og er vonast til að viðgerð geti lokið í dag.

Morgunblaðið segir af veðri 5.janúar:

Hnausum, Meðallandi, 3. janúar — Tíð hefur verið hér heldur rysjótt og kom hér mjög mikill snjór fyrir jól, en hann tók allan upp í fyrrinótt, er gerði mikla vestan hláku. Nú hefur aðeins snjóað aftur. Okkur hér eystra fannst heldur óhuggulegt, þegar hlaupið kom úr Skaftá ofan í allan þennan snjó, en skemmdir urðu furðu litlar. Helst er að tjón hafi orðið á girðingum, en litlu munaði að flóðið færi ekki austur úr miðri sveitinni. Munaði þar ekki nema hálfu feti og stöðvaði vegurinn vatnið af. Óhemjumiklar jakahrannir eru í árfarveginum eftir þetta hlaup. Vilhjálmur.

Leiðindaveður hefur verið á Austfjörðum yfir hátíðarnar. Í viðtali við Vilhjálm Hjálmarsson menntamálaráðherra, sem Morgunblaðið átti við hann i gær sagðist hann ekki hafa komist heim að Brekku í Mjóafirði fyrr en á jóladag vegna veðurs. Í gær var ráðherrann enn tepptur á Egilsstöðum og komst þá ekki til Reykjavíkur. Biðu þá á Egilsstöðum um 200 manns eftir flugfari og hafði þó tekist að flytja alla, sem óskað höfðu eftir fari tveimur dögum áður. Obbi þess fólks, sem beið fars á Egilsstöðum í gær, var skólafólk. Vilhjálmur sagði að mikill snjór væri i Mjóafirði og væri hann laus í sér. Þar hafa fallið óvenjuleg snjóflóð. Eitt þeirra tók af gamalt íbúðarhús innst í svokölluðu Brekkuþorpi og var húsið frá því um aldamót. Ekki var búið i húsinu. Snjóflóðið kurlaði húsið og bar fram i sjó. Ennfremur hljóp fram snjóflóð skammt innan við innsta byggðahúsið, sem nú er, og rétt innan við kirkjuna. Fór það yfir gamlan húsgrunn og kvað Vilhjálmur þar myndu hafa orðið tjón ef enn hefði staðið þar hús Kvað hann það snjóflóð mjög óvenjulegt, þar sem það hefði hlaupið úr aflíðandi hlíð en ekki háum tindum. Vilhjálmur taldi aðalástæðuna fyrir snjóflóðunum að gífurlega miklu snjómagni hefði kyngt niður á mjög skömmum tíma. Þá sagði Vilhjálmur að hann hefði heyrt, að snjóflóð hefði fallið á eyðibýlið Brimnes, utarlega i Seyðisfirði og norðan fjarðar. Er Brimnes talsvert utar en Selstaðir, en þar féll snjóflóð fyrir jól á fjárhús, svo sem menn rekur minni til. Vilhjálmur sagðist ennfremur hafa heyrt sögusagnir af því að fyrir 200 árum hefði fallið snjóflóð á Brimnes og þá orðið mannskaðar. Ekki hefur orðið þar snjóflóð síðan fyrr en nú.

Morgunblaðið bar þessa síðustu frétt undir fréttaritara sinn á Seyðisfirði, Svein Guðmundsson. Hann sagði að kunnugur maður, fyrrum bóndi á Skálanesi, sem er handan fjarðarins, hefði farið á bát út með firðinum og taldi hann að snjóflóðið hefði fallið yfir bæjarstæðið. Eigendur jarðarinnar, sem fluttust af henni fyrir nokkrum árum, er íbúðarhúsið brann, töldu þessa frétt þó ólíklega, en hins vegar höfðu þeir ekki farið að Brimnesi i alllangan tíma. Brimnes er gömul verstöð, sem áður var í eigu Klausturhóla og mun bæjarstæðið ekki hafa verið flutt frá því er snjóflóðið féll á bæinn fyrir 200 árum.

Morgunblaðið segir af illviðrum 7.janúar:

„Það er samdóma álit okkar hjá Flugfélaginu, að þetta sé versti óveðurkafli sem komið hefur í meira en tíu ár og á þessum tíma hefur aldrei verið erfiðara en nú að halda uppi flugsamgöngum hér innanlands," sagði Sveinn Sæmundsson, blaðafulltrúi Flugleiða í samtali við Morgunblaðið.

Djúp lægð fór til austurs fyrir sunnan land, Morgunblaðið 9.janúar:

Ofsaveður var undir Eyjafjöllum í gærdag, þótt ekki væri farið að snjóa þar síðdegis. Samkvæmt upplýsingum fréttaritara Morgunblaðsins þar eystra, Markúsar Jónssonar, fór skólabíll með eitt barn þaðan áleiðis til Seljalandsskóla, en bíllinn komst ekki nema rétt austur fyrir Markarfljótsbrú, er tvær rúður í honum brotnuðu vegna grjótflugs. Sá þar ekki út úr augum fyrir sandbyl. Annar skólabíll var að fara í gær frá Skarðshlíð og ætlaði að Skógum. Lenti sá bíll i miklum erfiðleikum og var eina klukkustund þessa vegalengd, sem ekki er steinsnar. Símasambandslaust var í gær við Seljaland og Varmaland, en fjölsímaleið var þó opin og var því unnt að tala austur í Skarðshlíð í gær. Við Merkurbæina sá ekkert í gær fyrir byl. Markús Jónsson sagði sem dæmi um veðurofsann hjá honum á Borgareyrum, að allstórar steinvölur þytu út um allt tún hjá sér. Engin slys höfðu orðið á mönnum vegna þessa mikla veðurs.

Eins og áður sagði gerði óvenju langt og strítt veður dagana 12. til 14. janúar - og er fjallað um það í sérstökum pistli. Við hoppum því næst til þess 17., en þá varð hörmulegt þyrluslýs á Kjalarnesi, mörgum minnisstætt. Tíminn 18.janúar:

Gsal-Reykjavik — Rétt fyrir klukkan ellefu í gærmorgun hrapaði þyrla til jarðar skammt frá Hjarðarnesi á Kjalarnesi. Í þyrlunni voru sex farþegar — auk flugmanns — og létust allir. Orsakir slyssins eru ókunnar.

Slide5

Þann 22.janúar dýpkaði lægð gríðarlega fyrir sunnan land (óðadýpkun). Olli hún miklu austanveðri á mestöllu landinu, mest tjón varð þó undir Eyjafjöllum. Ekki varð eins mikið úr veðrinu við Faxaflóa. Kortið hér að ofan sýnir stöðuna á hádegi þann 22. Lægðin þokaðist síðan austur skammt fyrir sunnan land og grynntist nokkuð fljótt. 

Morgunblaðið segir frá 23.janúar (í framhaldinu vaknar spurning um öryggi núverandi starfsemi á þessu svæði í Vestmannaeyjum):

Mikill austansjór gekk upp á hið nýja land Heimaeyjar í gær og stórskemmdi þar mannvirki, sem Breiðholt hf hafði reist þar í nóv. s.l. til malarnáms vegna framkvæmda fyrirtækisins í Eyjum. Sigurður Oddsson hjá Breiðholti í Eyjum sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, að hér væri um hundruð þúsunda kr. tjón að ræða, en þó væri erfitt á þessu stigi að gera sér fulla grein fyrir því. Menn voru að vinna þarna í gærmorgun við að harpa grjót, en í hádeginu á flóðinu gekk sjórinn þarna yfir í fárviðrinu og kastaði stórri ljósavél um 30—40 metra. Þegar slotaði lá vélin á hliðinni hálfgrafin i sand, en í gærkvöldi var búið að koma henni á þvottaplan í Eyjum til hreinsunar. Þá skemmdust nokkuð ýmis önnur tæki Breiðholts í sambandi við malarnámið, en Sigurður kvað þá geta gert við það. Bjóst hann við að það tæki 2—3 vikur að koma malarnáminu i samt lag aftur, en þó kvað hann þetta óhapp ekki eiga að tefja neitt framkvæmdir Breiðholts í Eyjum, því þeir hefðu verið búnir að harpa það mikið efni.

Mikið óveður af austnorðaustri gekk yfir Austfirði, Suðaustur- og Suðurland og fylgdi talsverð úrkoma mikilli veðurhæð um austanvert Suðurland og á Austurlandi. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands varð hvassast undir Eyjafjöllum og á Hornafirði, en þar komst vindhraði í 12 vindstig, svo og á Fagurhólsmýri. Í Æðey komst vindhraði í 12 vindstig um klukkan 15 í gærdag. Ekki höfðu í gærkveldi borist fréttir af neinum verulegum skemmdum. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær, að segja mætti að fárviðri hefði geisað á þessum stöðum, sem hér hafa verið upp taldir. Vindur hefði þó verið mjög breytilegur eftir staðháttum á hverjum stað. Vindhraði var heldur minni á Norðurlandi, þar sem hann komst í 10 vindstig hér og þar. Páll sagði, að í nótt væri búist við því, að áttin snerist í norðaustur og myndi vindhraði þá að öllum líkindum aukast eitthvað um norðaustanvert landið og á Austfjörðum, en ákveðið sagði hann, að veðrið færi ekki að ganga niður fyrr en líða tæki á daginn í dag og sagði hann, að jafnvel mætti búast við því að þetta veður héldist fram að hádegi í dag. Austanlands og allt vestur að Eyjafjöllum fylgdi mikill bylur þessu veðri, svo að vart sá út úr augum. Norðanlands var mun hægara og t.d. var í gærmorgun aðeins 2 stiga vindur á Akureyri. Þó var þá á sama tíma 9 stiga vindur í Grímsey og 10 vindstig voru á Sandbúðum, sem eru beint upp af Eyjafirði.

Mestur vindhraði var þar sem vindur stóð af fjöllum. Þannig var t.d. undir Eyjafjöllum. Þangað var ekki símasamband í gær, en óljósar fréttir höfðu þó borist þaðan og fylgdi þeim, að fólk hefði vegna veðurs orðið að yfirgefa einn bæ. Markús Jónsson fréttaritari Morgunblaðsins á Borgareyrum sagði t.d., að veður hefði verið þar eystra svo slæmt að hann hefði ekki treyst sér til þess að fara neitt frá. Þar var ofsaveður og snjóbylur, en Borgareyrar eru með vestustu bæjum undir Eyjafjöllum. Á Höfn í Hornafirði var veður heldur tekið að ganga niður síðdegis, en ofsaveður hafði verið um morguninn. Aflýsa varð jarðarför þar í gærmorgun og um miðjan dag varð árekstur á Höfn milli tveggja bíla og var aðalástæðan sú að ekki sást út úr augum fyrir blindbyl. Talsvert var um að þakjárn losnaði og fyki. Í Hveragerði brotnuðu þrír rafmagnsstaurar fyrir framan barnaskólann og fór þá rafmagn af stórum hluta þorpsins. Var ekki búist við, að rafmagn kæmi aftur í þennan hluta fyrr en nú í morgun. Á þessu svæði er Kaupfélag Árnesinga og varð að flytja allar frystivörur úr húsinu og hljóp ísgerðin Kjörís undir bagga með Kaupfélaginu og tók við vörunum. Alllöng bílalest festist á Öxnadalsheiði í gærdag. Ýta hafði farið fyrir lestinni, en svo óheppilega vildi til að hún varð olíulaus og var þá þegar sendur olíubíll frá Varmahlið í Skagafirði. Sá komst ekki lengra en í Blönduhlíð, þar sem hann festist. Í gær kveldi voru menn að fara á snjóbílum frá Akureyri bílunum til aðstoðar, en eingöngu mun hafa verið um vöruflutningabifreiðir að ræða.

Ofsarok var i Vestmannaeyjum í gærdag og fuku járnplötur víða af húsum og mikill vikurbylur var vestur um kaupstaðinn. Óvenjumiklir sviptivindar voru og í mestu byljunum komst veðurhæð í 14 vindstig. Átti fólk i erfiðleikum með að fóta sig á hálku í óveðrinu. Við lögreglustöðina í Hilmisgötu fauk fólksbíll, Cortina, um og hafnaði á  þakinu. Skemmdist bifreiðin talsvert á hlið og á þaki, en hafnaði þó í snjóskafli. Vegna vikurstorms í Eyjum hefur orðið talsvert tjón á glerjum i húsum og á bílum. Í fyrrinótt slitnuðu nokkrir bátar upp í Vestmannaeyjahöfn, en ekkert alvarlegt varð að. Lögreglan í Reykjavík hafði í gærkveldi fengið 17 tilkynningar um þakplötufok og var það um alla borgina. Að öðru leyti var ekki kunnugt um neinar meiri háttar skemmdir af völdum veðursins en víða varð lögreglan að aðstoða börn á leið heim úr skólum. Skólahaldi var víða aflýst úti á landi, svo sem t.d. í Vestmannaeyjum og er það mjög óalgengt þar.

Tíminn segir frá sama veðri 23.janúar:

gébé Reykjavík — Ofsaveður gengur nú yfir allt land, og eru víðast hvar 10—12 vindstig og snjókoma mikil á mörgum stöðum. Í gær var skólum lokað víða um land og lögreglan í Reykjavík bað fólk að vera ekki að nauðsynjalausu úti við og að sækja börn sín í skóla, því þeim var illa stætt úti í öðru eins roki og var í gær. Miklar rafmagns- og símatruflanir hafa verið á mörgum stöðum á landinu og valdið ýmiss konar erfiðleikum. Ekki er vitað um nein slys né alvarlegar skemmdir á mannvirkjum sökum veðurofsans. Markús Á. Einarsson sagði blaðinu í gærdag, að djúp lægð færi nú yfir landið, og voru 12—15 vindstig á Suður- og Suðvesturlandi í gærdag. Vindurinn komst upp í 70—75 hnúta á Stórhöfða, og snjókoma var víðast hvar. [Fór reyndar í 82 hnúta á Stórhöfða] Þegar á daginn leið, versnaði veður á Norður- og Austurlandi, snjókoma var mikil og 10-12 vindstig á mörgum stöðum. Í veðurspá kl.16:00 í gær, var gert ráð fyrir stormi og roki á öllum spásvæðum, en veðurhæðin var sögð fara minnkandi, þegar á fimmtudaginn liði. Markús sagði, að veðrið myndi fyrr batna vestanlands og sunnan, en myndi smám saman ganga niður austanlands og norðan, er á daginn í dag liði.

Jón Kristjánsson á Egilsstöðum sagði, um miðjan dag í gær, að þar væri blindbylur og veðurhæðin mikil. Veðrið versnaði mikið í fyrrinótt og gærmorgun sagði Jón, og í gær þurfti að loka skólunum eftir hádegi. Menn muna ekki annað eins snjómagn síðan 1951 hér á Egilsstöðum, sagði Jón. Þó var snjólag þá öðruvísi, miklu jafnfallnari snjór. Erfitt er yfirfærðar í kauptúninu, og má búast við að allir vegir séu ófærir út frá því. Hjá Marinó Sigurbjörnssyni á Reyðarfirði fengum við þær upplýsingar, að þar væri leiðindaveður, en ekkert ofsaveður, um 4—6 vindstig í verstu hryðjunum. Vegir eru þó allir ófærir, og mjólkurbíllinn var um tíu klst. að komast frá Egilsstöðum til Reyðarfjarðar, en snjóbíll flutti svo mjólk til Eskifjarðar.

Fólk fer hér ekki út að nauðsynjalausu, sagði Aðalsteinn Aðalsteinsson, fréttaritari blaðsins á Höfn í Hornafirði. Flestir komust þó til vinnu, en erfiðlega gengur að komast heim aftur, og skólar eru allir lokaðir. Þetta er fyrsta verulega snjókoman og óveðrið á vetrinum, sagði Aðalsteinn, en til allrar hamingju eru allir bátar í höfn. Rafmagnið fór af Smyrlabjargarvirkjun, og er nú notast við varadíselrafstöðina, en rafmagnsskömmtun er þó nauðsynleg og í sveitunum hér í kring er allt rafmagnslaust. Ekki er vitað, af hverju rafmagnið fór, en útilokað er að senda viðgerðarflokka til athugunar fyrr en veðrinu slotar. — Í Vestmannaeyjum komst veðurhæðin í 14-15 vindstig í gærmorgun, en engin snjókoma var og snjórinn hér hefur minnkað töluvert. Barnaskólanum var lokað, en allt er i lagi í höfninni, sagði Sigurgeir Kristjánsson, fréttaritari blaðsins. Í þessi 25 ár, sem ég hef búið hér, hef ég aldrei séð bifreið fjúka á hvolf fyrr en í gær, sagði Sigurgeir. Þetta var fólksbifreið, og hún tókst bókstaflega á loft, þar sem hún stóð á stæði hér fyrir utan, og hún er án efa stórskemmd. Við ræddum við Sigurgeir klukkan að ganga sex í gærkvöld, og sagði hann, að heldur væri veðrið að ganga niður.

Um miðbik Suðurlands var ofstopaveður, og munu þar víða hafa orðið miklar skemmdir, en fregnir af því eru mjög óljósar, þar sem símalinur hafa purpast sundur, og er símasambandslaust frá Hvolsvelli austur um til Víkur, milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs og Kirkjubæjarklausturs og Fagurhólsmýrar. Undir Eyjafjöllum er þorri bæja bæði símasambandslaus og rafmagnslaus, og talið er, að þar muni víðast hafa orðið eitthvert tjón. Kunnugt er, að þök tættust af mörgum byggingum á Steinum, þar á meðal fjárhúshlöðu, fjósi, fjóshlöðu og verkfærageymslu, og víðar þar í grennd urðu skemmdir, þótt ókunnugt sé, hversu miklar þær voru. Gluggar munu sums staðar hafa svipst úr húsum, og talin eru dæmi þess, að fólk hafi flúið heimili sin. Grjóthrun var úr fjöllum í ofviðrinu, og á Núpakoti kom hnefastór hnullungur fljúgandi inn um glugga. Óstaðfestar fregnir herma, að í Vík í Mýrdal hafi einnig orðið tjón í veðrinu, þök slitið af húsum og bílar jafnvel fokið. En allt er á huldu um tjónið þar, eins og viðar um miðbik Suðurlands vegna símasambandsleysis.

Tíminn segir 24.janúar nánari fréttir frá tjónsvæðinu undir Eyjafjöllum - og víðar:

gébé-Hvík — Milljónatjón hefur orðið á bæjunum undir Eyjafjöllum, einkum austan megin, sagði fréttaritari blaðsins að Skógum, Jón Hjálmarsson. Það er mjög viða sem þakplötur hafa fokið af húsum, og sums staðar hafa jafnvel heilu húsþökin svipst af. Þá hafa síma- og rafmagnslinur slitnað, er staurar brotnuðu, og girðingar eyðilagst í þessu ofboðslega roki. Þá hafa gluggarúður í íbúðar- og útihúsum brotnað, og má nefna sem dæmi, að á bænum Hvassafelli brotnuðu hvorki meira né minna en átján rúður. Á bænum Raufarfelli var nýtt hús í smiðum, og fuku allar plöturnar af þaki þess.

Bóndinn á Raufarfelli. Þorvaldur Þorgrímsson, var á ferð í jeppabifreið sinni, og vissi hann ekki fyrri til en bifreiðin fauk út af veginum og hafnaði langt utan hans. Þorvaldur meiddist lítilsháttar. Þá fauk einnig vörubifreið út af vegi og gjöreyðilagðist. Enginn maður var í henni. Tjón er meira eða minna á hverjum bæ hér, sagði Jón Hjálmarsson, en sumir bændurnir eru vel settir, því að þeir voru tryggðir fyrir slíku tjóni, höfðu svokallaða roktryggingu.

ó-Sauðárkróki. Mikið austanhvassviðri varð í Skagafirði á miðvikudag, sérstaklega að austanverðu. Þak fauk af fjárhúshlöðu á Úlfsstöðum í Blönduhlið. Austurveggur hlöðunnar var steyptur en suðurstafn og vesturveggur úr járni og fauk hluti af því líka. Þá fuku þakplötur á símalínur og rafmagnslinur. Rafmagnsstaur brotnaði og spennir varð ónýtur. Rafmagnslaust varð, en komst í lag til bráðabirgða í gær, en mun jafnvel hafa bilað eitthvað aftur. Heyið i hlöðunni var bundið og fór lítið af því, þó eitthvað af lausu heyi.

Tíminn segir 25.janúar enn fréttir af tjóni:

gébé-Reykjavik. — Bændur undan Eyjafjöllum voru á fimmtudaginn önnum kafnir við að viða að sér efni eftir skemmdir þær, sem urðu hjá þeim í ofviðrinu á miðvikudaginn. Þá var sæmilegt veður, en það næði varð ekki langvinnt, því að í gær hvessti á ný, svo að ekki var unnt að vinna úti við. Við náðum tali af Þorvaldi Þorgrímssyni, bónda á Raufarfelli, síðdegis í gær, en þá var símasamband nýkomið á. Þorvaldur sagði svo frá, að hann hefði verið á ferð á Landrover-jeppa sinum i ofviðrinu um einn og hálfan til tvo kílómetra frá bænum, er bifreiðin tókst skyndilega á loft. — Hún fór alveg heilan hring og lenti utan vegar, sagði Þorvaldur. Það er furðulegt, hve ég slapp vel, og bifreiðin er ekki mjög mikið skemmd. Þorvaldur var lengi að komast heim að bænum, og varð að leggjast niður og halda sér i girðingar og annað sem til féll, í verstu hrinunum. — Annars slapp ég vel, miðað við marga aðra hér á bæjunum, sagði Þorvaldur. Engar rúður brotnuðu hjá mér, og það fuku aðeins nokkrar plötur af hlöðunni. Vörubifreið, sem stóð hér við bæinn, tókst á loft og fór heilan hring og lenti að lokum hér á túninu. Ég tel, að hún sé því sem næst ónýt. Ég átti ekki þessa bifreið, hún var frá næsta bæ. — Í dag hefur ekki verið hægt að vinna úti við, þótt ekki sé eins hvasst hér nú og á miðvikudaginn, sagði Þorvaldur að lokum. Eins og áður hefur komið fram fuku hlutar af þökum af húsum víða undir Eyjafjöllum, bæði íbúðarhúsum og útihúsum, rúður brotnuðu og glugga tók úr, rafmagnsstaurar kvistuðust sundur og símalinur slitnuðu.

SG-Vík í Mýrdal — Í gær var leiðindaveður í Vik, norðaustan hvassviðri og snjóbylur. Skemmdir urðu miklar í veðrinu, sem geisað hefur undanfarið. Símasambandslaust var við Vík og nágrenni á fimmtudaginn, en um hádegi í gær komst síminn aftur í lag. Plötur hafa fokið af húsum, m.a. fuku nokkrar af kirkjunni. Hálft þak fauk af einu húsinu og partur af öðru, en þessi hús eru í útjaðri þorpsins. Flugskýli í einkaeign, sem er rétt við þorpið, fauk út i veður og vind, og liggur brakið úr því út um allt. Þá fauk skorsteinn af einu íbúðarhúsi. Tveir vöruflutningabílar frá kaupfélaginu lögðu af stað í gærmorgun til Reykjavikur, en annar þeirra fauk á hliðina og fór út af veginum rétt fyrir ofan Vík. Bíllinn skemmdist ekki mikið og ökumaðurinn slapp ómeiddur. Menn úr björgunarsveitinni Víkverja hafa unnið ómetanlegt starf við að koma fólki til hjálpar. Þeir eru með vakt í Slysavarnahúsinu og veita íbúunum dýrmæta þjónustu. Þeir eiga því miklar þakkir skildar.

Morgunblaðið segir frá slysi á Kjalarnesi í pistli 26.janúar:

Ofsarok var undir Esju í fyrrakvöld [24.] og um áttaleytið í fyrrakvöld fauk þar bifreið út af veginum og slasaðist ökumaðurinn nokkuð. Hér var um að ræða vörubifreið með boddí á vörupalli og í einum sviptivindinum fauk bifreiðin út af veginum. Ökumaðurinn kastaðist út um framrúðu bifreiðarinnar og varð hann undir bílnum með annan fótinn. Fljótlega tókst þó að ná manninum undan bílnum en fóturinn mun hafa brotnað nokkuð illa. Boddíið, sem á vörupallinum var, fannst hvergi. Lögreglumenn leituðu þess á nálægum slóðum og allt niður að sjó. Telja þeir víst að boddíið hafi fokið á haf út, og segir það sina sögu um hvassviðrið sem þarna var.

Tíminn fjallar enn, 28.janúar, um illviðrið undir Eyjafjöllum. 

Ég ætla, að tjón hafi orðið á allflestum bæjum undir Eyjafjöllum í ofviðrinu á miðvikudaginn var, bæði undir Austur-Eyjafjöllum og Vestur-Eyjafjöllum, sagði Albert Jóhannsson, kennari í Skógum við Tímann í gær. Það eru varla fleiri en fimm eða sex bæir, sem sloppið hafa alveg að kalla, og sumir bændur hafa orðið fyrir óskaplegu tjóni. Það er til marks um það, hversu þök eru illa farin, bæði á íbúðarhúsum og gripahúsum, að Eyfellingar hafa keypt tíu smálestir af járni á Hvolsvelli, auk þess sem keypt hefur verið á Hellu eða annars staðar. Annað eins veður hefur ekki komið hér í tuttugu ár. Ekki er ólíklegt, að tjónið nemi milljónatugum, ef öllu er til skila haldið — skemmdum á húsum, bæði þökum og gluggum, bifreiðum og búvélum ýmsum, girðingum og síma- og rafmagnslínum og ýmsu öðru, sem og heyskemmdum og afurðatjóni, er hlaust af því, að ekki var unnt að koma gripum, sem fauk ofan af, í skjólgóð hús annars staðar. Auk annars eru svo grjóthnullungar á dreif um túnin á sumum bæjum, einkum Núpakoti, Þorvaldseyri og Hlið, en þar eru brekkurnar fyrir ofan eins og þær hafi verið sópaðar. Það er ekki aðeins að þökin slitnuðu af húsum víða að meira eða minna leyti, rúður brotnuðu og glugga tæki úr, heldur er það, sem eftir situr af járninu, alsett götum eftir grjótflugið, þar sem það var mest, og sjálf eru húsin eins og sorfin utan, líkt og þau hafi verið sandblásin, svo að mikil spjöll hafa orðið á málningu og jafnvel pússningu. Sums staðar urðu jafnvel skemmdir á innbúi, eins og til dæmis á einum þriggja bæja að Rauðafelli, þar sem ofviðrið braut glugga, sprengdi síðan hurð í húsinu og þeytti brakinu út um glugga á hinni húshliðinni.

Miklu meiri hefðu skemmdirnar þó orðið, ef ekki væri sérstaklega traustlega byggt viðast hvar á bæjum undir Eyjafjöllum, og má þar til dæmis geta, að á Þorvaldseyri hefur skipasaumur verið notaður í stað venjulegs þaksaums, svo að allt sé sem rammbyggilegast. Til dæmis um skemmdirnar má geta þess, að á einum Steinabæjanna, þar sem hvað mestar skemmdir urðu, keypti einn bóndinn þakjárn fyrir tvö til þrjú hundruð þúsund krónur. Hjá öðrum brotnuðu þar þrettán rúður, og þar að auki allar rúður úr bil þess sama bónda. Í Núpakoti, sem einnig varð mjög hart úti, flaug grjóthnullungur alla leið inn á eldavél, og á þessum sama bæ molaði steinn, sem þeyttist inn um fjárhúsglugga, höfuðkúpu kindar inni i fjárhúsunum. Alls varð veðrið þremur ám að bana, svo að frést hafi, og eitthvað slösuðust fleiri kindur. Í Hvoltungu, einum Steinabæja, stóð fólksbíll i vari norðan við íbúðarhúsið, og horfði fólk á, er hann tókst á loft og snerist eins og skopparakringla, barst langt til í kringum húsið og stöðvaðist á fjósvegg. Á Þorvaldseyri brotnuðu staurar i raflínu frá einkarafstöð Eggerts bónda Ólafssonar. Girðingar liggja víða niðri á löngum köflum og hver staur að kalla þverkubbaður.

Og það voru ekki aðeins hús og önnur mannvirki og bílar og margvísleg tæki, sem urðu illa úti, heldur einnig dýr merkurinnar. Úti við Holtsós hafa svanir verpt undanfarin ár og verið þar spakir og óhultir, því að þess hefur verið gætt að gera þeim engan átroðning. Halda þeir sig árlangt á þessum slóðum. Fjölskyldan hefur stækkað smám saman, og voru fuglarnir orðnir átján í haust. Þeir voru sunnan við Steinahelli á kaldavermslistjörn, sem ekki leggur, þegar veðrið skall á, þar eð Holtsós var á haldi. Þegar að var hugað eftir veðrið kom í ljós, að fimmtán fuglanna höfðu dauðrotast og aðeins þrír eftir lifandi. Segir þetta sina sögu um hamfarirnar í veðrinu.

Undanfarna daga hafa svo til allir vinnufærir menn undir Eyjafjöllum unnið að viðgerðum, þegar næði hefur verið til þess vegna veðurlagsins, og hefur meginkapp verið lagt á að koma þökum yfir gripahús, en íbúðarhús og hlöður hafa setið á hakanum. Hey liggur þó undir skemmdum, þar sem þök hafa svipst af þeim, því að þar fennir að sjálfsögðu inn, auk þess sem mikil spjöll hlytust af, ef vindur snerist til suðurs og tæki að rigna.

Margir bændur undir Eyjafjöllum hafa foktryggt hjá sér, en þó veltur á ýmsu um það. Til dæmis var ótryggt hjá þeim Steinabóndanum, sem vitnað var til áður, að orðið hefði að kaupa járn til viðgerða fyrir 200-300 þúsund krónur eftir veðrið. Einar Þorsteinsson héraðsráðunautur hefur vakið máls á því, að könnun verði á tjóninu með það í huga, að leitað verði til bjargráðasjóðs vegna þeirra, sem harðast hafa orðið úti og síst eru við því búnir að taka á sig þær byrðar, er þessu áfalli fylgja.

Önnur djúp lægð - en þó talsvert veðraminni en sú fyrri - kom að landinu þann 25., og síðan fór kröpp lægð norður um Austurland þann 26. Þrumuveður gerði suðvestanlands. Vísir segir frá 27.janúar:

Miklar þrumur og eldingar voru í Keflavik í fyrrinótt [aðfaranótt 26.], og var sumum ekki orðið um sel, þvílík voru lætin. Eldingarnar ollu tjóni á Slökkvistöðinni á Keflavikurvelli. Þar var okkur tjáð, að eldingu hefði slegið niður í mastur á stöðinni, og varð til þess, að hátalarakerfi stöðvarinnar eyðilagðist. Búið var að koma fyrir nýju strax í gærmorgun, en eldingin olli miklum blossum og reyk. Um sama leyti og þetta skeði, var tilkynnt um eld i skemmu á Keflavikurvelli. Eldurinn kom upp i skemmu sölunefndar varnarliðseigna. Var jafnvel talið, að sama eldingin hefði valdið þessu og skemmdunum á hátalarakerfinu, en ekki var það þó fullvíst. Í skemmunni var viðgerðarverkstæði til húsa, en hún er nú að mestu ónýt. Bíll var inni í skemmunni og tókst að bjarga honum út óskemmdum, nema hvað lakkið var ónýtt. Á lögreglustöðinni sló eldingu niður í talstöðvarmastur, en eyðilagði þó ekki neitt. „Líklega er talstöðin bara miklu betri”, varð einum lögreglumanna að orði. „Þetta nægir til þess að hrista af þessu rykið”. Nokkrir íbúar í Keflavík töldu, að um jarðskjálfta hefði verið að ræða, svo miklar voru þrumurnar. — EA

Tíminn segir 29.janúar frá lagnaðarísreki við Stykkishólm og vandræðum sem það olli.

KBG-Stykkishólmi. Síðan á áramótum hefur verið dauft yfir atvinnulífinu hér. Skelfisksveiðar hafa legið niðri sökum veðurfars og ísalaga. Þær má ekki stunda ef frost fer yfir 6 stig. Stormar hafa líka oft verið það miklir að veiðum hefur ekki verið komið við. Ís rak hér í höfnina fyrir tveim vikum, og hefur hún verið lokuð fyrir umferð að mestu síðan. Stálbatar hafa þó brotist út ef nauðsyn hefur krafið, en nú hafa tryggingarfélögin tilkynnt bátaeigendum, að þeir verði að bera allt tjón, sem verða kann á bátunum vegna siglingar í ís, og verða þeir því sennilega ekki hreyfðir meira meðan þetta ástand varir. Þetta getur einnig valdið dráttarbrautinni miklum erfiðleikum, þar sem engin bryggja er við hana. Bátar, sem þurfa að fara í hana eða eru að koma úr henni verða því að fara í höfnina. Það hefur lengi verið draumur Hólmara að byggð yrði bryggja við dráttarbrautina í Skipavik, því að þar er jafnan íslaust, þótt norðanátt sé, og hafnarstæði er þar að öðru leyti mjög gott. Það er rétt að taka það fram, að þessi ís í Stykkishólmshöfn og næsta nágrenni hennar, stafar ekki af miklum frosthörkum. Þótt frost sé ekki nema 5-6 stig verður mikil ísmyndun inn á Gilsfirði og út með suðurströnd Breiðafjarðar (Skarðsströnd), sérstaklega ef hvasst er á norðan. Þetta rekur svo út fjörðinn i norðaustan átt, og þá er hafnarsvæðið hér alveg opið fyrir þessum íshroða. Báran þjappar honum inn í höfnina og síðan frýs hann saman. Þetta gerist aðeins í norðanátt. Lagís kemur hér ekki nema í miklum frosthörkum.

w-1975-02-sponn

Eftir mjög kalda mánuði, desember og janúar var fremur hlýtt í febrúar og veðurreyndin allt önnur. Ekki var þó illviðralaust. Línuritið hér að ofan sýnir þrýstispönn (súlur) og lægsta þrýsting á landinu á öllum athugunartímum í febrúar. Allmikil illviðri gerði fyrstu dagana, sérstaklega þann 1. og 3. Síðan kom hægur kafli með til þess að gera háum þrýstingi. En síðari hluta mánaðarins gerði þrjú slæm illviðri sem ollu tjóni. Minnist ritstjóri hungurdiska þes að umskipti þessi komu á óvart.

Tíminn segir frá 4.febrúar:

SJ—Reykjavík. Í gærmorgun [3.] gerði ofsarok á norðvestanverðu landinu, einkum á annesjum, og komst vindhraðinn sumstaðar upp 10 vindstig á veðurstöðvum, t.d. Reyðará og Sauðárkróki, og á Hornbjargsvita mældust 11 vindstig. Í verstu hryðjunum fór vindhraðinn upp í 106 hnúta (54,6 m/s), að sögn Trausta Magnússonar vitavarðar á Sauðanesi. Á Siglufirði var logn um áttaleytið um morguninn, en frá hálftíu til hálfeitt eftir hádegi var þar fárviðri og stórhættulegt að vera á ferli úti við. Fjórir bilar fuku út af þjóðveginum á milli Sauðárkróks og Siglufjarðar, og sá fimmti fauk um koll, eftir að eigandi hafði lagt honum i skjóli við skafl.

Morgunblaðið segir af sama veðri í pistlum 4.febrúar, en sá fyrsti segir af snjóþyngslum á Fáskrúðsfirði og tjóni af þess völdum:

Fáskrúðsfirði 3. febrúar. Umtalsverðar skemmdir hafa orðið hér vegna snjóa og er um milljónatjón að ræða, aðallega hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga en um helgina féll saman stór skemma inni í fjarðarbotni og er hún talin gjörónýt. Í þessari skemmu var geymdur ýmis varningur, fóðurbætir og annað, og hefur verið unnið að björgun hans úr rústunum, en hann mun vera óskemmdur. Inni í þessum skála voru m.a. geymdir kappróðrarbátar sjómannadagsráðs og er annar þeirra gjörónýtur og hinn mikið skemmdur. Einnig féll niður að hálfu leyti síldarsöltunarhús Pólarsíldar hf og er þar um mikið tjón að ræða. Einnig hafa orðið umtalsverðar skemmdir á nýbyggingu frystihússins.

Siglufirði 3 febrúar. Feikn mikið stormveður brast á Fljótunum í morgun og slasaðist maður þegar bíll hans fauk yfir hann. Maðurinn, sem heitir Stefán Þorláksson frá Gautlöndum og er umsjónarmaður með snjómokstri á þessu svæði, var í jeppabíl sínum af Willysgerð er stormhviða feykti bílnum á loft og fór hann eina veltu. Stefán komst þá út úr bílnum, en þá skipti engum togum að bíllinn tókst aftur á loft og fauk yfir Stefán, sem slasaðist nokkuð og átti að flytja hann hingað í dag með sjúkrabíl þegar lægði. Ekki var vitað hvort hann var beinbrotinn, en talið að um einhver innvortis meiðsl væri að ræða. Annar bíll, fólksbíll Guðmundar á Reykjarhóli, fauk einnig í þessum stormi. Guðmundur hafði keyrt bílinn út í skafl við veginn og yfirgefið hann, en skömmu síðar tókst bíllinn á loft og fauk nokkra metra. Á sömu slóðum fauk jeppi í fyrra með skólabörnum og urðu þá einnig slys á mönnum.

Tíminn fjallar um sama veður í pistli 5.febrúar:

SÞ-Búðardal. Í vatnsveðrinu og rokinu, sem hér gekk yfir un síðustu helgi [1. til 2.], laust eldingum niður á nokkrum bæjum í Miðdölum, og hafa viðgerðarmenn rafveitunnar, sem bækistöð hafa í Búðardal, verið önnum kafnir við viðgerðir. Af völdum eldinganna eyðilögðust spennar á nokkrum bæjum, og eru þar tilnefndir Kvisthagi, Skörð og Bær, og munu símatæki hafa brunnið þar. Á Hamraendum varð rafstraumur, sem elding olli, kú að bana. Miklir erfiðleikar hafa verið hér af þeim sökum, að ekki hefur verið unnt að koma olíu og fóðurbæti á bæi, en nú er komið vel á veg að ryðja hér hliðarvegi inn í dalina, svo að úr þessu er að rætast.

SJ-Reykjavik — Mjög mikill snjór hefur verið í Stöðvarfirði að undanförnu, og aðfaranótt [3.] mánudags gerði asahláku. Hlaup kom i árnar 2, sem renna um kauptúnið. Innri-Einarsstaðaá kom niður með mikinn snjó og ís með sér og hreinsaði allt af brúnni á þjóðveginum við þorpið nema sjálft brúardekkið. Þá tók áin tvö útihús, hjall og hænsnahús, sem stóðu niðri við sjó, og bar út á fjörð. 20—30 hænsni voru í húsinu. Mikill flaumur kom að tveim íbúðarhúsum við Árbæ, — þar færðist úr stað 2000 lítra olíutankur, og má af því merkja, hve mikið flóð þetta var. Þessir atburðir áttu sér stað á tólfta tímanum í gærmorgun, og var hrein mildi, að ekki varð manntjón, að sögn Björns Kristjánssonar, fréttaritara Tímans á Stöðvarfirði. Ytri-Einarsstaðaá rennur ofan á snjó og ís og hefur ekki valdið spjöllum, og um miðjan dag í gær hafði stytt upp, a.m.k. um sinn. Vonuðu menn að hún myndi bræða af sér sjálf, án þess að frekara tjón yrði. Mikil göng eru víða í snjónum á götum á Stöðvarfirði og hætta á vatnsflaumi. Voru menn á ferli frá því sex í gærmorgun að fylgjast með ánum og vatni á götum. Hæg hláka hófst á Stöðvarfirði fyrir helgi, en þegar fór að rigna að ráði, var ekki að sökum að spyrja. Í Vik í Mýrdal urðu minni háttar spjöll af völdum þíðunnar. Þar hefur vatn farið inn í kjallara undanfarna daga, en alvarlegar skemmdir vitum við ekki um. Fannfergið í Vik er mikið farið að hjaðna. Færð á vegum í þorpinu og nágrenni hefur verið þolanleg undanfarna daga.

Eins og áður sagði kom nú rólegur kafli - fram í miðjan mánuð. En síðan dró aftur til tíðinda. Morgunblaðið segir frá 18.febrúar:

„Allt í einu heyrðum við eins og hvell frá ofsa sprengingu og í sömu andrá sáum við þakið á 130 fermetra húsi koma svífandi í átt til okkar, en húsið var í 80 metra fjarlægð. Við komumst í skot við húsið en þakið skall niður á hlaðinu þar sem við höfðum staðið fáum sekúndum áður. „Við héldum satt að segja að þetta væri okkar síðasta." Það er Gissur Tryggvason sýsluskrifari í Stykkishólmi, sem sagði svo frá, í samtali við Morgunblaðið í gær en hann ásamt félaga sínum var hætt kominn í rokhvellnum s.l. laugardagskvöld. Rokið var mest á vestanverðu landinu og í samtali við Markús Einarsson veðurfræðing kom þessi hvellur mjög skyndilega er vindurinn rauk upp með suðaustanátt og rigningu. Víðast komst vindhraðinn í 11 vindstig. Mest tjón á landi varð í Stykkishólmi. Tveir húsbyggjendur, Gissur Tryggvason og Sigurþór Guðmundsson, fóru um kl.22 á laugardagskvöld til þess að huga að húsum sínum, sem var nær lokið við að smíða. Hús Sigurþórs er timburhús, en hús Gissurar steypt. „Við komum þarna kl.22:30,“ sagði Gissur, „og lokuðum gluggum og gættum að öðru lauslegu í kring um húsin. Við vorum að ljúka við að bera sementspoka inn í mitt hús þegar þakið fauk af húsi Sigurþórs með fyrrgreindum afleiðingum. Það kom svífandi um 80 metra áður en það skall niður að hluta til á mitt hús, en mest á hlaðið þar sem steypuvél stóð og við höfðum einmitt verið að bera sementspoka frá. Við komust ekki inn í húsið, en leituðum skjóls í smá skoti við húsið og það dugði. Þakið kastaði steypuvélinni marga metra og kurlaðist þarna á hlaðinu að mestu leyti. Ein hliðin á húsinu lagðist niður. Það er því um feikilegar skemmdir að ræða á húsi Sigurþórs, en hann mun ætla að reyna að byggja það upp aftur. Í mínu húsi brotnuðu einnig tvær rúður og nýlegur bíll, sem ég á, stórskemmdist er þakhluti lenti á hlið hans. Þegar þakið hafði skollið niður eftir 80 metra flug og kurlast, fauk hluti þess áfram niður í fjöru eða alls um 150 metra vegalengd."

Á Eiðum fauk sendiloftnet útvarpsins um koll, en búið var að reisa það aftur í gær. Við Hafnarmúlann á Patreksfirði fauk jeppi út af og var í honum einn maður. Jeppinn valt þrjár veltur niður stórgrýtta urð, en maðurinn slapp við smávægileg meiðsli og þykir það ganga kraftaverki næst að ekki hlaust meira slys af. Þá fuku þakplötur af hálfu þaki sambýlishúss á Akranesi, en engin slys hlutust þar af. Plötunum var safnað saman og verður reynt að nota þær aftur á þakið. Þá var ofsarok í Vatnsdalnum, með allra mestu veðrum, sem þar hafa skollið yfir. Talsvert tjón varð í stórviðrinu þar, en mest tjón varð er þak fauk af geymsluhúsi á bænum Asi. Eitthvað fuku bílar til í Vatnsdalnum, en skemmdir urðu ekki á þeim. Einnig rauk hann hressilega upp í Þinginu og á öxl í Þingi fauk talsvert af heyi. Heyfúlgur fuku einnig víða i Vatnsdalnum, en fúlgur af heyi kalla heimamenn það sem í sumum landshlutum er nefnt galti eða lön. Tveir raflínustaurar brotnuðu að Hnausum og rafmagnslaust varð í Vatnsdal og Þingi um tíma s.l. sunnudag.

Síðastliðið laugardagskvöld [15.] var sunnan hvassviðri og Bjarni bóndi Sigurbjörnsson í Hænuvík var á leið heim til sín frá Patreksfirði fyrir Patreksfjörðinn og var kominn í Hafnarmúlann beint á móti þorpinu. Þar er vegurinn mjög hættulegur, 200 metra þverhnípi beint niður í fjöru. Bjarni bóndi og annar, sem var á eftir honum í öðrum bíl, voru komnir langleiðina fyrir Múlann þegar vindhnútur kom á bílinn hjá Bjarna og skipti engum togum, að bíllinn tókst á loft og útaf veginum. Maðurinn sem var á eftir honum varð ekki var við þetta og hélt áfram, en mætti stuttu síðar öðrum bíl, sem var að koma á móti, og hafði tal af bílstjóranum en sá hafði ekki orðið var við Bjarna. Sneru þeir því við og fóru að athuga þetta, og sáu þeir þá ummerki á veginum um að eitthvað hafði borið við og bíll Bjarna hafði farið þrjár veltur niður af veginum og stöðvast í urð. Bjarna hafði tekist að komast út úr bílnum sjálfur og er hann ekki mikið meiddur, en þó nokkuð marinn á baki, og er talið algert kraftaverk að hann skyldi hafa lifað þetta af á þessum stórhættulega stað. — Páll

Tíminn segir af sama illviðri 18.febrúar:

BH-Reykjavik. — Feiknarlegt veður gekk yfir Vatnsdal í Húnaþingi um helgina, og urðu þar skemmdir á húsum, auk þess sem hey og lausir munir fuku. Þykir veður þetta með ólíkindum, þar sem þess gætti ekkert að ráði í sveitum austan og vestan við, en lagði einungis fram Vatnsdalinn af feiknar krafti. Blaðið ræddi í gær við Guðmund bónda í Ási i Vatnsdal, og sagðist honum svo frá, að á laugardaginn hefði gert fárviðri nyrðra, rokið hefði verið þetta 10—12 vindstig og feiknarlegir byljir. Hefði þá allt ætlað um koll að keyra. Í veðurofsanum fauk mikið hey, og svipti ofan af heyjum. Einnig fuku bilar til, en ekki er kunnugt um tjón á þeim. Hins vegar urðu verulegar skemmdir á mannvirkjum á mörgum bæjum i Vatnsdalnum. Á Ási fauk þak af verkfærageymslu, og á næsta bæ fauk stór heyvagn til og er ónýtur. Á einum bænum voru tvær múgavélar úti á túni, og fauk önnur upp á hina. Heyskaðar urðu talsverðir og tilfinnanlegir, því auk þess sem fauk ofan af fúlgum rigndi ofan í heyið: Hafa menn verið önnum kafnir við að lagfæra hjá sér eftir veðrið, og illmögulegt er að segja til um, hvert tjón hefur orðið, á þessu stigi málsins. Rafmagnslaust var vestan Hnausa í allan gærdag, en 2—3 rafmagnsstaurar munu hafa brotnað i hamförunum. Þá var einnig símalaust um tíma, en ekki var Guðmundi í Ási kunnugt um ástæður þess, að síminn fór úr sambandi.

J.K.—Egilsstöðum — Um sjöleytið í fyrrakvöld [16.] gekk hér skyndilega í vestan hvassviðri, eins og hendi væri veifað, og var mjög hvasst hér allt fram til miðnættis. Ekki hefur þó frést af neinum teljandi skemmdum i veðrinu, nema hvað loftnet slitnaði í endurvarpsstöðinni á Eiðum og því heyrðust engar útvarpssendingar i fyrrakvöld og fram eftir degi í gær.

BH-Reykjavik. — S.l. laugardagskvöld [15.] gekk ofsaveður yfir Suðurnesin, og fór rafmagnið af Keflavik og nágrenni í þrjár klukkustundir um kvöldið. Þá slitnaði vélbátur upp í Njarðvíkurhöfn og rak á land og stórskemmdist. Hér var um að ræða vélbátinn Snorra KE 131. Hafði eigandinn, Karl Þorsteinsson, farið um borð um kvöldið, en fékk ekki við neitt ráðið. Slitnaði báturinn upp og strandaði i höfninni, og þrátt fyrir djarflegar tilraunir eigandans til að koma konum út úr höfninni, fór svo að lokum, að bátinn rak upp i fjöru, og er hann nú stórskemmdur.

BH—Reykjavik. — Loðnubáturinn Járngerður GK 477 fór á hliðina í vonskuveðri á sunnudaginn [16.]. Áhöfninni 13 manns tókst að komast í björgunarbáta, og var þeim síðan bjargað um borð í Þorstein RE. Um ellefuleytið í gærmorgun var ljóst, að Járngerður var sokkin. Þá hafði hana rekið til lands, og grillti i masturstoppa hennar 300-400 m frá landi, rúmlega tvær sjómílur vestan ósa Jökulsár á Breiðamerkursandi. Samkvæmt upplýsingum Slysavarnafélags Íslands var hið versta veður á loðnumiðunum vestur af Ingólfshöfða síðari hluta sunnudagsins. Þá var Járngerður á leið af miðunum til löndunar á Austfjarðahöfnum með um 170 lestir af loðnu. Um þrjúleytið lagðist skipið snögglega á hliðina, og var ekki um neitt annað að ræða en yfirgefa það. 6-7 vindstig voru á þessum slóðum og nokkur sjór. Áhöfnin 13 manns, komst greiðlega í tvo gúmmíbjörgunarbáta, og síðan um borð í Þorstein Re, sem þarna var nærstaddur. Gekk það greiðlega, þrátt fyrir veðurofsann. Flutti Þorsteinn skipbrotsmennina af Járngerði síðan til Seyðisfjarðar.

Tíminn heldur áfram 19.febrúar:

K.Sn.-Flateyri — Í óveðrinu á laugardagskvöldið [15.] fauk lítil trilla á bensínstöð Esso við höfnina á Flateyri. Lagði trillan olíudælu á hliðina og braut gat á húsið, en þessum loftköstum trillunnar lauk með því, að hún mölbrotnaði. Bátar í höfninni slitu landfestar og skullu saman, en litið tjón varð af því, enda brugðu sjómenn skjótt við. Varð einn báturinn að halda sjó úti á firðinum, enda tókst ekki að ná honum að bryggju, eftir að landfestar slitnuðu. Veðurhæð var mest frá klukkan níu til ellefu á laugardagskvöldið, en þá losnuðu járnplötur á þökum og fuku nokkrar. Mest losnaði á nýbyggingu Flateyrarhrepps, og er umhugsunarefni, hve illa ný þök standa sig, samanborið við gömul. Í Önundarfirði eru miklir snjóruðningar með vegum, en þó eru þetta ekki langir kaflar. Mikil gagnrýni hefur komið fram á vegagerð ríkisins, vegna þess að ekki er rutt úr ruðningum þessum, þótt ekki væri annað en að jarðýta sléttaði ruðningana, þá mætti aka á þeim, ef snjóaði og frysti. Af þessum vinnubrögðum verður ekki annað séð, en að Vegagerðin hafi mestan áhuga á að safna snjó á vegina. Við í Önundarfirði heyrum, að alltaf er fært í Bolungavik og Súðavik frá Ísafirði, en þar er skrifstofa Vegagerðarinnar, og því hafa ráðamenn skrifstofunnar snjóinn til Súðavikur og Bolungavikur fyrir augum. Það væri ef til vill ráð fyrir Önfirðinga að fara að dæmi landsþekkts rútubilstjóra og senda Vegagerðinni eins og einn poka af snjó úr Önundarfirði! Óvenjulega langvarandi illvirði hafa valdið mikilli innistöðu fjár, og hefur fé varla komið úr húsi síðan um miðjan nóvember. Í síðustu viku hefur þó verið gott veður og hlánað allmikið. Nokkrir bændur hafa notað góða veðrið og hleypt fé út, en fæstir geta beitt að gagni.

Vísir segir 19.febrúar frá næsta veðri:

Akureyringar fóru ekki varhluta af óveðrinu, sem gekk yfir landið í gærkvöldi [18.] og nótt. Veðurhæð var þar um 11 vindstig að staðaldri og fór langt þar yfir í hryðjunum. Um miðnætti í mikilli hryðju fauk þak af tveim húsum i raðhúsasamstæðu við Grundargerði. Efsta lagið á þakinu er þykkur tjörupappi og flettist hann allur af ásamt nokkru af timbrinu á þakinu. Íbúðirnar tvær, sem þakið fór af, hafa verið í byggingu og er ekki flutt í þær ennþá. Í aðrar íbúðir í raðhúsinu eru hins vegar komnir íbúar og fóru tveir húseigendur upp á þak til að bjarga því, sem bjargað varð. Í einum vindsveipnum sviptist enn meira af pappa af þakinu og fuku nú viðgerðarmennirnir tveir með. Þeir svifu norður yfir húsið og höfnuðu í snjóskafli í um 20 metra fjarlægð frá brottfararstaðnum. Annar mannanna slapp við meiri háttar meiðsli, en hlaut hins vegar skrámur og marbletti. Hinn maðurinn hlaut hins vegar nokkuð mikil meiðsli og þar á meðal viðbeinsbrot, að sögn lögreglunnar á Akureyri. Nú hefur veður lægt á Akureyri og verður því hafist handa við að gera við húsin tvö i dag. Í rokinu i nótt snerist stór kyrrstæður flutningabíll þversum í Akurgerði, þakplötur og annað rusl fauk um bæinn og skemmdi einn bíl svo vitað sé og vatn flæddi inn í nokkur hús. Þannig var um 20-30 sentimetra vatnshæð á gólfi verslunar einnar í Hafnarstræti, er komið var að í nótt. JB

Morgunblaðið segir frá sömu syrpu 21.febrúar:

Mælifelli 22. febrúar. Síðan á laugardag [15.] hefur verið stormasamt hér um slóðir, þótt ekki hafi náð viðlíka ofsa og sl. laugardagskvöld. Hjörleifur Kristinsson á Gilsbakka í Austurdal og Grétar Símonarson í Goðdölum í Vesturdal telja að svo hvasst hafi ekki orðið í dölunum síðan 1. febrúar 1955 [þetta var 1956, sjá pistil hungurdiska], en þá var þar fárviðri. Skemmdir urðu á nokkrum bæjum nú, svo sem rúðubrot í Villinganesi og heyfok á Forná en mest í Goðdölum, þar sem 14 þakplötur fuku af velfrágengnu og nýlegu íbúðarhúsi Borgars Símonarsonar. Stóð veðrið af suðaustri eins og 30. desember 1903 þegar kirkja fauk í Goðdölum og brotnaði í smámola, talin vandað hús og hafði staðið í aðeins 17 ár. — Sr. Ágúst. [Í fregnum 1903 segir að þetta hafi verið 28. desember, sjá pistil hungurdiska]

Tíminn segir 25.febrúar frá illviðri 24.febrúar:

gébé Reykjavik. Austanrok gekk yfir Suðurland á mánudag [24.]. Ekki hafa þó borist neinar fréttir af verulegum skemmdum á mannvirkjum sökum veðurofsans. Þó fauk fjárhús og hlaða að bænum Stóradal í Vestur-Eyjafjallahreppi, en þetta var braggi, sem nú er nánast alveg horfinn, að sögn Ólafs Kristjánssonar að Seljalandi. Símasamband var mjög slæmt í gærdag á þessum slóðum og tókst því ekki að fá nánari fréttir af atburðum þessum. Í Keflavik var barnaskólanum lokað i gær, og stöðugar rafmagnstruflanir voru allan daginn. Ekki hafði Sigfús Kristjánsson, fréttaritari blaðsins i Keflavik heyrt um neinar skemmdir á mannvirkjum.

Jón Einarsson i Borgarnesi sagði, að þar hefði gengið á með hvössum hryðjum og í einni hryðjunni fauk ljósastaur á bifreið við Esso-stöðina og skemmdist hún nokkuð. Þá áttu flutningabifreiðir í erfiðleikum með að komast leiðar sinnar, sökum þess hve hvasst var, en ekki var vitað um nein óhöpp vegna þessa. Þetta ofsarok hefur valdið töfum á umferð um Hvalfjörð og er blaðið hafði samband við Vegagerðina i Reykjavik, sögðu þeir, að bifreiðir hefðu orðið fyrir því að fá grjót i bila sina, rúður brotnað og bifreið dældast, en allt voru þetta minni háttar skemmdir og engin slys á fólki. Suðurströndin er fær, allt austur á Hérað, en mikil hálka er nú á Lónsheiði. Þá er viðast hvar aðgæslu þörf vegna úrkomu.

Vísir segir af sama veðri 24.febrúar:

Það er ekki á hverjum degi, sem jafnhvasst er í Reykjavik og á Stórhöfða, en svo var í morgun. 11 vindstig mældust á flugvellinum i Reykjavík en 10 vindstig mældust á Stórhöfða. Hvassara var þó í efra Breiðholti, en þar má gera ráð fyrir að hafi verið allt að 11-12 vindstig. Menn áttu líka erfitt með að hemja bila sína i Breiðholtinu í morgun og lögreglan varaði fólk við að senda börn sín ein út. „Hér er fámennt”, var okkur sagt í Fellaskóla, „í sumum bekkjum mætti ekki nema helmingur og ekkert var kennt í 6 ára bekknum hér í morgun.” Þegar við ræddum við lögregluna, var okkur tjáð, að fokið hefði eitthvað af lausu timbri úr húsum, sem eru i byggingu. Timbur fauk á þrjá bila við Vesturberg og skemmdi þá eitthvað. Þá gerði rokið usla í Tungubakka. Þar vaknaði kona við mikinn hávaða, og hafði þá brotnað rúða í svalahurð og fauk hurðin upp. Lögreglan negldi fyrir hurðina. Ofsarok var i Vestmannaeyjum, en ekki var vitað til, að neitt hefði fokið eða tjón orðið af. Mestum vandræðum veldur þó vikurinn, sem fýkur mikið, þegar hvessir. Þar var barnaskólanum ekki lokað. „Við sitjum hérna og bíðum bara eftir nýrri höfn”, sögðu þeir í höfninni í Þorlákshöfn, þegar við ræddum við þá í morgun. Þar var mikill sjógangur og 8 bátar inni, 8 vindstig voru þar í morgun. Margir loðnubátar fóru til Vestmannaeyja út af veðrinu, en eitthvað er þó af bátum á sjó alveg frá Vestmannaeyjum og austur á firði. Betra veður var fyrir austan i morgun, og frá Hornafirði fóru bátar á sjó i morgun.

Mars þótti sæmilega hagstæður sunnanlands, en var erfiðari nyrðra. Snemma í mánuðinum urðu tvö skipsströnd. Ísleifur frá Vestmannaeyjum strandaði ekki langt frá Ingólfshöfða. Mannbjörg varð, en skipbrots- og björgunarmenn lentu í nokkrum hrakningum í sandbyl sem þar gerði. Hvassafellið strandaði síðan við Flatey á Skjálfanda (föstudag) í norðan hríðarveðri. Mannbjörg varð.

Tíminn segir af illviðri og hríð í pistli 8.mars:

gébé—Reykjavik — Mikil snjókoma og norðaustan hvassviðri gekk yfir Norðurland í gær [7.], og varð að fella niður kennslu í skólum á mörgum stöðum. Mjög þungfært er þar viðast hvar og ófært á köflum. Ekki er vitað um nein óhöpp né skemmdir á mannvirkjum. Á Hólmavik var norðanbylur í gær, að sögn Jóns Alfreðssonar, fréttaritara blaðsins. Ekkert var kennt í barnaskólanum þar, og mjög þungfært var orðið í nágrenni Hólmavikur. - Hér var vonskuveður með mikilli snjókomu í gær, sagði Jóhann Þorvaldsson á Siglufirði. Mikil veðurhæð var á tímabili, en veðrið tók að lægja, er á daginn leið. Hilmar Daníelsson á Dalvik sagði í viðtali við Tímann í gær, að mikið hefði snjóað í fyrrinótt og gærdag, og hefði skafið í stóra skafla. — Vegir eru allir ófærir, sagði Hilmar, og flestar götur á Dalvik eru ófærar bifreiðum, nema þær sem ruddar voru í gær. Barnaskólanum á Húsavík var lokað í gær vegna veðurs, en þar gerði norðaustan stórhríð, og 8-9 vindstig voru þar í gærmorgun, en litið frost, að sögn Þormóðs Jónssonar, fréttaritara blaðsins.

Morgunblaðið segir af tjóni í sama veðri í pistli 13.mars:

Hvammstanga 12. mars. Jóhann Jóhannsson bóndi á Áslandi í Fremri-Torfustaðahreppi tapaði öllu fé sínu, 160 kindum, í blindbyl, sem skall yfir sl. fimmtudag [6.] þar sem hann var að vinna á jörð sinni. Kindurnar 160 voru í girðingarhólfi við fjárhúsin þegar harkalegur blindbylur skall skyndilega yfir og mun féð þá hafa hrakist út úr girðingunni án þess að nokkur gæti að gert fyrir veðri. Þegar rofaði til var allt féð á bak og burt. Bændur í nágrenninu hófu nú leit með Jóhanni bónda og loks í gær kom síðasta kindin í leitirnar, en 4 kindur missti Jóhann í þessi óhappi. Það fé sem lengst hafði hrakist í óveðrinu fannst í 15 km fjarlægð frá fjárhúsunum. Margir menn aðstoðuðu við leitina, bæði gangandi, ríðandi og á vélsleðum. — Karl.

Aftur gerði illviðri þann 11. Tíminn segir 12. mars:

KSn—Flateyri. — Háspennulínan frá Mjólkárvirkjun til Flateyrar og Suðureyrar slitnaði rétt innan við Flateyri i ofsaveðri, af suðaustan aðfaranótt þriðjudags [11.]. Bilunin kom þó ekki að sök því að bæði á Flateyri og Suðureyri eru ljósavélar, sem menn bjargast við, á meðan unnið er að viðgerðum. Viðgerð lauk einnig mjög fljótt og var allt komið i samt lag um hádegi á þriðjudag. Nokkrar skemmdir urðu aðrar í veðrinu hér á Flateyri. Járnplötur losnuðu af húsþökum og hluti af þaki íbúðarhúss fauk. Brakið fór inn um glugga á næsta húsi, en mun ekki hafa valdið verulegum skemmdum. Þá fauk hurð á pakkhúsi kaupfélagsins út i buskann og kajak fauk og mölbrotnaði. Veðrið skall á um miðnætti á mánudagskvöld, en var mjög tekið að lægja á þriðjudaginn.

Dagur segir af snjóflóðum 12. mars:

Um helgina [8. til 9. mars] féllu snjóflóð við Skarð í Dalsmynni og einnig við Ljósavatn. Ekki voru þau talin stór en á báðum stöðum lokuðu þau veginum.

Apríl var óstöðugur og tíð þótti óhagstæð, mjög kalt var undir miðjan mánuð, t.d. mældist -16,5 stiga frost á Akureyri þann 12. og í Sandbúðum á Sprengisandsleið fór frostið í -24,1 stig. Einnig var mjög kalt síðustu daga mánaðarins. Snjóaði þá um mestallt land, m.a. í Reykjavík, þar sem snjódýptin mældist 12 cm þann 27. og er óvenjulega mikið eftir sumardaginn fyrsta. Aðfaranótt 30. mældist -6,9 stiga frost í Reykjavík og daginn áður var hámarkshitinn -2,7 stig. 

w-1975-04-29-500

Kortið sýnir kuldakastið í hámarki. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en þykktin sýnd í lit. Eins og sjá má er mikill þykktarbratti yfir landinu, en jafnhæðarlínur gisnar. Er það bending um hvassan vind í neðri hluta veðrahvolfs, í þetta sinn úr norðri. Tjón varð nokkurt. Vísir segir frá 30.apríl:

Mikill veðurofsi var um allt landið í gær [29.], og var meira að segja ófært viða, sem þykir óvenjulegt á þessum tíma árs. Flutningagámur skoppaði á bíl og skemmdi hann í miklu hvassviðri i Eyjum, er hann tókst á loft í hvassviðrinu í gær og lenti á nálægum bíl. Milli 11 og 12 stiga vindur var að jafnaði i gærdag i Eyjum og var mikill vikurbylur um alla byggðina og eins gekk sjór yfir Eyjarnar. Illfært var af þessum sökum á milli húsa og skemmdir urðu á lakki bila og rúðum vegna vikurfoksins. Veðrið gekk heldur niður með morgninum. Vindur hefur nú aðeins færst í austur og því má gera sér vonir um heldur mildara veður um mestan hluta landsins i dag. Reiknað er með úrkomu um Norður- og Norðausturland. JB

Nýleg amerísk jeppabifreið fauk út af veginum við bæinn Seljaland undir Eyjafjöllum í gærmorgun. Fjórir farþegar í bílnum sluppu við meiri háttar meiðsl. Tveir bilar úr Reykjavik voru á vesturleið um tíuleytið í gærmorgun, er óhappið varð. Höfðu farþegar bílanna ætlað í silungsveiðiferð, en orðið að snúa við vegna óveðurs. Við bæinn Seljaland kom sterk vindhviða með þeim afleiðingum, að síðari bíllinn lyftist upp að framan og ökumaðurinn missti stjórn á bílnum, sem við það steyptist fram yfir sig. Ökumaður og farþegar hrufluðust og skrámuðust allir og nokkrar tennur brotnuðu i einum farþeganna. Fyrri bíllinn var kominn að Hvolsvelli, er slysið varð, og urðu ökumaður og farþegar í honum því einskis varir. Fólksflutningabíll á vesturleið kom fyrst á staðinn og tilkynnti um slysið i gegnum talstöð. Á meðan beðið var eftir lögreglu og lækni, fluttu hjónin á Seljalandi hina slösuðu heim á bæinn og hjúkruðu þeim þar. Eftir læknisskoðun fengu farþegar og ökumaður að halda ferðinni áfram til Reykjavikur. Jeppabifreiðin er enn fyrir austan og er mikið skemmd, ef ekki ónýt. — JB

Tíminn segir af slysi í veðrinu í pistli 3.maí:

G.S.-Ísafirði — Sjötugur maður, Magnús Jónsson, skáld frá Skógi í Rauðasandshreppi, varð úti s.l. þriðjudagskvöld [29.apríl] í Hestfirði. Magnús hafði verið að kenna bókband í Reykjanesskóla, en á þriðjudag hélt hann áleiðis til Ísafjarðar á gömlum bíl er hann átti. Magnús mun hafa fest bílinn í lækjarsprænu í Hestfirði og ekki náð honum upp aftur. Hélt hann því af stað fótgangandi í átt að Hvítanesi og varð úti á þeirri göngu. Veður var mjög slæmt á þessum slóðum s.l. þriðjudagskvöld og var Magnús heitinn mjög illa búinn. Lík Magnúsar fannst á miðvikudagskvöld, er jeppabifreið sem var á leið til Ögurness með farþega fann líkið á veginum. Magnús Jónsson var fæddur 1905 og bjó í Hnífsdal. Hann var hagyrðingur góður.

Afgang maímánaðar var veður tíðindalítið, oftast góðviðri, en í þurrara lagi fyrir gróður. Nokkrir mjög hlýir dagar komu í kringum þann 25., fór hiti þá víða í meir en 20 stig, bæði um landið norðanvert og á fáeinum stöðvum á Suðurlandi. Sú dýrð stóð þó ekki lengi því um mánaðamótin maí/júní gerði hret. Það varð verst fyrstu dagana í júní, en sá mánuður var óvenjukaldur lengst af, og síðustu vikuna var þar að auki nokkuð skakviðrasamt um landið sunnan- og vestanvert. Fyrstu þrír dagar júnímánaðar eru þeir köldustu í júní á því tímabili sem landsmeðalhiti er reiknanlegur, frá og með 1949, 2. júní kaldastur, meðalhiti í byggðum aðeins 0,8 stig. 

Morgunblaðið segir frá hretinu 3.júní:

Björk, Mývatnssveit 2. maí. [átt er við 2.júní] Hér í Mývatnssveit var kalt um helgina [31.maí til 1.júní] og er enn. Í gær [1.] gekk á með éljum og gránaði jörð niður í byggð. Síðastliðna nótt var frost 3-4 stig.

Siglufirði, mánudag. Hjá okkur er það ýmist í ökkla eða eyra þetta með veðrið. Um fyrri helgi var hér milli 25-30 stiga hiti, en í gær er við héldum hátíðlegan sjómannadaginn, varð útiskemmtunum ekki við komið vegna kulda. Var hríðarhraglandi hér í bænum, svo gránaði í rót, og er árrisulir Siglfirðingar skoðuðu á hitamæla sína f morgun var hér 2ja stiga frost. Nú er úlpuklætt fólk á götum bæjarins og kuldalegt um að litast. —m

Þann 3. júní snjóaði sums staðar sunnanlands, en ekki festi þó snjó á veðurathugunarstöðvum þótt getið væri um snjókomu. Morgunblaðið segir frá þessu 6.júní:

Mykjunesi í Holtum, miðvikudag. Í gærmorgun [3.] er fólk á bæjum hér í ofanverðum Holtum vaknaði og leit út um gluggana blasti við þeim sú sjón, sem mun ekki hafa sést hér í hálfa öld á þessum árstíma. Tún voru alhvít af snjó sem fallið hafði um nóttina. Þessa nótt mun þó ekki hafa verið frost, en annars hafa verið hér samfelld næturfrost og þar sem vatn hefur staðið uppi hefur það verið lagt eftir nóttina. Hér mun enginn vera nú sem man slík næturfrost um mánaðamót maí—júní, þori ég að fullyrða. Svo miklir þurrkar hafa verið i þessari kuldatíð, að sauðfé bænda hefur ekki í sig í úthögum og verður því að hafa það á túnunum. Þetta alvarlega ástand bætist ofan á áburðarvandræðin, sem allir þekkja. Því meiri viðbrigði eru þetta og reyndar vonbrigði líka, því menn minnast gjarnan hins góða vors og einmuna tíðar á síðastliðnu sumri. Á veðurfræðingunum er ekki að heyra, að bati sé á næsta leiti. — Magnús.

Á ákveðnum stöðum á Austurlandi er enn feikn mikið af snjó síðan í vetur og hefur ekki verið svo mikill snjór á þessum árstíma í áratugi eða allt síðan snjóaárið mikla 1951. Fáa mánuði á ári er unnt að komast akandi landleiðina til Mjóafjarðar, en áformað er að bæta þar úr því að Mjóifjörður er einn fegursti fjörður Austfjarða og þangað ættu landsmenn að geta ekið eins og til annarra sérstæðra staða á landinu. Sá feikn mikli snjór sem enn hefur verið i norðanverðum Mjóafirði í vor er gamall snjór eða síðan í janúar. Á bæjartúnum byggðarinnar í kring um Brekku var allt upp í margra metra þykkur snjór um miðvetur. „Þetta er því löngu orðinn harður gaddur," sagði Vilhjálmur á Brekku í samtali við Morgunblaðið, en það eru engin dæmi um svona snjóþyngsli síðan 1951 og þá horfði allt öðruvísi við. Þá snjóaði allt fram á sumardaginn fyrsta og þá var allur snjór nýlegur þegar hann grotnaði niður í sumrinu, en síðasti snjórinn hvarf þá ekki fyrr en 1. ágúst úr túngarðinum. Nú er bara að bíða og sjá hverju fram vindur, en það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu með orðum, því að þetta er svo ótrúlegt á þessum tíma þegar vorið fer um hlað í flestum byggðum landsins.

Morgunblaðið segir frá skánandi veðri 8.júní:

Farið er að hlýna í veðri. Markús Einarsson veðurfræðingur tjáði Morgunblaðinu í gær, að þá væri dálítil skúr í öllum landshlutum og veitir ekki af eftir þurrkana undanfarið. Sagði Markús að heldur væri nú farið að hlýna, komin austlæg átt og yrði því fremur milt veður um helgina, rigning og jafnvel dálítil súld um sunnanvert landið.

Þótt bjart hafi verið síðustu dægur, hefur verið kalt í veðri og víða næturfrost. Ekki kvað þó Markús beinlínis hægt að rekja þennan kulda til íssins fyrir Norðurlandi. Hann fór í ísflug með Landhelgisgæslunni sl. fimmtudag undan norður- og norðvestanverðu landinu. Markús kvað ísinn dreifðan en mjög væri hann þó farinn að tærast, einkum austan til. Sagði Markús, að ef kæmi góð suðlæg átt myndi ísbreiðan fljótlega fjarlægjast og þjappast saman norður í höfum. „Við verðum að sætta okkur við þá staðreynd, að það er árvisst að hafísinn er mestur hér við land á vorin,“ sagði Markús, „en ég held samt að okkur stafi ekki mikil hætta af ísnum að þessu sinni. Ég verð þó að játa að það kom mér nokkuð á óvart hversu langt hann teygði sig til austurs, en breiðan þar er að tærast, eins og ég sagði áðan.“

Ekki er getið frekari skaða í júnímánuði. 

w-1975-07-04-500

Júlí var úrkomusamur og slakur á Suður- og Vesturlandi, en mun skárri norðaustan- og austanlands. Snemma í mánuðinum gerði allvæna hitabylgju. Þann 4. komst hiti í 27,6 stig á Akureyri og í 26,5 stig þann 5. Hiti komst einnig í 27,0 stig á Seyðisfirði þann 4. og 26,4 stig á Teigarhorni þann 5. Kortið að ofan sýnir háloftastöðuna þann 4. Mjög hlýtt loft er yfir landinu og ákveðin vestanátt yfir því norðanverðu, dæmigerð hitastaða á Norðaustur- og Austurlandi. Nokkur ýkjustíll er á fréttum blaða - en við leyfum þeim samt að fljóta með. Það er hugsanlegt að hiti hafi í raun komist hærra einhvers staðar en mældist á veðurstöðvunum.

Morgunblaðið segir frá 5.júlí:

Siglufirði 4. júlí. Það var enginn smáræðis hiti hér í dag þegar best lét. Hitastigið komst upp í 32 stig og er það með því almesta sem gerist hér. Það hefst ekki allt með suðurferðum. —m.j.

Morgunblaðið heldur áfram 6.júlí:

Mikil hitabylgja hefur gengið yfir Norðurland undanfarna daga og hefur hitinn komist yfir 30 stig í forsælu. Við slógum á þráðinn til nokkurra fréttaritara okkar í gær og heyrðum hvað þeir höfðu að segja um þetta blíðskaparveður. „Það er fínasta veður hér hjá okkur,“ sagði Kristinn fréttaritari okkar í Ólafsfirði í gær, „16 stiga hiti í forsælu og 20 í gær með suðvestan stinningskalda. Þetta er hitabylgja og það má segja að nú séu vorleysingarnar hjá okkur, því nú er vatnið að koma hér fram framan af heiði." „Hérna er mesta blíðskaparveður logn og sólskin og l5 stiga hiti“ sagði Alfreð fréttaritari okkar í Grímsey í gær þegar við töluðum við hann. Kvað hann 70 manna* hóp úr Eyjafirði vera í Grímsey á ferðabáti og virtist fara vel um þá í hitabylgjunni eins og heima- menn. „Það er mjög heitt hérna og gott veður,“ sagði Matthías fréttaritari okkar í Siglufirði í gær, „hitinn um og yfir 20 gráður og þó er sólarlaust þessa stundina." Það er svo heitt hérna inni í fjörðunum,“ sagði hann, „menn ættu að huga að því að spara gjaldeyrinn og bregða sér norður yfir heiðar, fá sér frískt loft í Grímsey eða á öðrum góðum stöðum." Á Akureyri hringdum við í Flugturninn í gær. Þar var þá 24 stiga hiti í forsælu og sunnan 10—20 hnúta vindur, en viðmælandi okkar taldi hafátt af norðan líklega og þá kvað hann hitann mundu lækka nokkuð, en hitabylgjan dansaði engu að síður um Akureyri eins og fleiri staði norðan og austanlands.

Morgunblaðið er með svipaðar hugleiðingar 8.júlí, en segir einnig frá íshrafli á Húnaflóa:

Veðurguðirnir munu víst hafa í hyggju að sýna landsmönnum sunnan heiða sömu óbilgirnina og undanfarið meðan Norðlendingar verða eftir sem áður í náðinni. Ef marka má 2ja daga spá, sem Veðurstofu Íslands barst frá breskum veðurfræðingum í gær, og íhuganir íslenskra starfsbræðra þeirra þann sama dag, stefnir allt í það að hæg suðvestlæg átt verði ríkjandi hér á landinu allt til miðvikudagskvölds og þar af leiðandi óbreytt veður að mestu. Þess er jafnvel að vænta að heldur kólni í veðri á vestanverðu landinu í bili. Í gærdag var hið fegursta veður á Austurlandi og Norðurlandi. Um þrjúleytið í gær var t.d. 18 stiga hiti á Eyvindará við Egilsstaði og 16 stig á Akureyri. Úti fyrir Húnaflóa er á hinn bóginn töluvert íshrafl, sem losnað hefur frá meginísnum, en hann er töluvert norðar. Er siglingaleiðin yfir Húnaflóa sögð ógreiðfær vegna íssins, en hreint er frá Óðinsboða vestur fyrir Strandir.

Samkvæmt frásögn fréttaritara Morgunblaðsins á Egilsstöðum, Steinþórs Eiríkssonar, var nýlega farið inn í Kverkfjöll og vegurinn þangað allur heflaður. Er nú fært í Kverkfjöll fyrir 2ja drifa bíla. Í Kverkfjöllum er skáli, sem rúmar 50 til 60 manns. Steinþór sagði að íshellirinn, sem fallið hefði saman í fyrra, væri nú kominn í sitt fyrra horf. Þá virðist einnig hafa orðið eitthvert jarðrask í Hveradal vestan í Kverkafjöllum, en þar er snjór allur leirlitaður að sögn Völundar Jóhannessonar, sem þekkir mjög vel til á þessum slóðum. Sagði Steinþór að svo virtist sem þarna hefði orðið leirgos eða eitthvað slíkt í vetur.

Morgunblaðið segir ísfréttir 11.júlí:

Íshrafl hefur borið upp að landinu norðvestanverðu og er gisinn ís allt frá Hornbjargi að Skagafirði, samkvæmt ísfregnum, sem Veðurstofunni bárust í gær. Að sögn Markúsar Á. Einarssonar veðurfræðings er fremur fátítt, að svo mikinn ís beri upp að landinu svo seint á sumrinu, en undanfarið hefur verið stöðug suðvestan og vestangola á þessum slóðum og hefur hún borið íshraflið frá meginísröndinni, sem er miklu utar, upp að landinu. Íshraflið hefur rekið nokkuð inn á Húnaflóa og Skagafjörð. Þó það sé gisið, er það þó til trafala við siglingar.

iskort_mbl_1975-07-25

Ískort sem birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 1975. Sjá má að talsverður hafís er á siglingaleið á utanverðum Húnaflóa.  

iskort_mbl_1975-07-26

Næstu tíu daga gisnaði ísinn, en þó voru enn leifar á svipuðum slóðum þann 25. Myndin sýnir ískort og frétt sem birtist í Morgunblaðinu 26.júlí. 

Ágúst var mjög votviðrasamur á Suður- og Vesturlandi þannig að þetta sumar telst með rigningasumrum á þeim slóðum. 

Tíminn segir 3.ágúst frá vonskuveðri á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum:

BH-Reykjavik. — Vonskuveður geisaði i Vestmannaeyjum aðfaranótt laugardagsins og setti sinn leiðindasvip á þjóðhátíðarhöldin þar. Um ellefu-leytið á föstudagskvöldið byrjaði að rigna og stóð úrhellisrigning með hvassviðri fram undir morgun. Fauk nokkur hluti tjaldanna, sem búið var að reisa, og stóð lögreglan i miklu stappi við að aðstoða fólk, sem veltist drukkið i svaðinu eða hafði misst tjöldin ofan af sér.

Tíminn segir 6.ágúst frá skriðu í Ólafsvíkurenni:

Gsal—Reykjavik — Aðfaranótt sunnudags [3.] hrundi skriða úr Ólafsvikurenni og má það teljast mesta mildi að stórslys hlaust ekki af, því að umferð um veginn hafði verið mjög mikil um nóttina, er samkomugestir frá Arnarstapa voru á heimleið. Skriðan hrundi um fimmleytið um morguninn, og voru stór björg á veginum er að var komið. Að sögn Jónasar Gestssonar, fréttaritara Tímans, hefur hrunið mikið úr fjallinu í sumar, og kvað hann fólk mjög óánægt með aðgerðarleysi vegagerðarinnar í þessu sambandi.

Morgunblaðið ræðir heyskaparhorfur 7.ágúst:

Heyskaparhorfur ekki eins slæmar um árabil. Flestir bændur aðeins búnir að heyja 20-30% heyfengs, segir búnaðarmálastjóri. „Heyskaparhorfur eru slæmar“, sagði Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri í samtali við Morgunblaðið, þegar við höfðum samband við hann í gær til þess að fá almennar fréttir af heyskap bænda. „Það spratt seint vegna kulda í júní og mjög fáir bændur gátu því notað ágæta tíð fyrri hluta júlí, en bændur byrjuðu þó heyskap. Síðan var síðari hluti júlí mjög votur og allt fram til þessa þótt komið hafi tveir-þrír þurrkadagar víða á landinu og sumir náð tuggu, en aðrir varla heystrái. örfáir bændur hafa heyjað meira en helminginn, flestir aðeins 20—30%, og nokkrir ekki neitt. Seinni hluta júlí hefur grasspretta hins vegar verið mjög góð í votviðrinu, en gras er nú víða farið að spretta úr sér. Ef ekki bregður til þurrviðris á næstunni, lítur mjög illa út, því að hey verða þá skemmd. Þetta er óvenjuslæmt ástand miðað við síðastliðin ár og heyskapur seinna á ferðinni en ég man eftir í fjöldamörg ár.

Allmikil þrumuveður gerði á landinu þann 5. og 6. Gætti þess mest á Suður- og Austurlandi. Morgunblaðið segir af því þann 7. og 8.:

Fáskrúðsfirði 6. ágúst. Feikilegt regnveður með þrumum og eldingum gekk hér yfir um 6-leytið í dag og laust tveimur eldingum niður hér á svæðinu, annarri í aðveitustöð Rafmagnsveitnanna og hinni í 11 þúsund volta línu ofanvert við bæinn. Ekki er vitað hve miklar skemmdir hafa orðið í aðveitustöðinni, en hér hefur verið rafmagnslaust í hluta bæjarins síðan eldingunum laust niður og línan í staurnum brann í sundur. Viðgerð er hafin og lýkur henni sennilega í nótt og mun þá aftur verða hægt að veita rafmagni til bæjarins. — Albert.

Morgunblaðið 8.ágúst.

Neskaupstað, 7. ágúst. Um klukkan 19 í gær [6.] gekk ægilegt þrumuveður yfir Neskaupstað með miklum eldingum. Á eftir fylgdi úrhellisrigning. Menn muna ekki eftir öðrum eins látum hér áður og um tíma var eins og skotið væri úr ótal fallbyssum á milli fjallanna. Þessi ósköp stóðu yfir í tæplega klukkustund. Eldingarnar sem komu með þrumunum voru geysibjartar og vissu menn vart í fyrstu hvað um var að vera, þar sem þrumur og eldingar eru sjaldgæf fyrirbrigði hér. Í dag er hér besta veður, um 20 stiga hiti, og sólin gægist niður á milli skýjanna af og til. Ásgeir.

Morgunblaðið segir enn af hitum á Siglufirði 12.ágúst, á veðurstöðvum fréttist mest af 24,0 stigum þennan dag, það var í Reykjahlíð við Mývatn. Allgóður hlýindadagur kom á Suðurlandi nokkrum dögum áður þann 6. og fór hiti þá yfir 20 stig á nokkrum stöðvum:

Siglufirði 11. ágúst. Mikill hiti var í Siglufirði í dag og komst hann upp í 38 stig á móti sólu, en í forsælu var hann 30 stig. — mj

Hringvegurinn lokaðist eftir hádegi á sunnudag [10.], þegar brúarstöpull brast á brúnni yfir Múlakvísl. Ljóst er að viðgerð getur tekið nokkuð langan tíma og verður vart iokið fyrr en um helgi. Til þess að komast í vestur eða austur verður fólk að aka Fjallabaksleið og þar var í gær nokkur umferð. Þar er Vegagerðin með tvo bíla til að aðstoða litla bíla, ef á þarf að halda. Viðgerð á brúnni hófst í gær, en nokkuð seint gekk að veita ánni frá þeim stað, sem stöpullinn var, en þó var gert ráð fyrir að það hefðist í gærkvöldi. Helgi Hallgrímsson, verkfræðingur hjá Vegagerð ríkisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að mikið vatn hefði verið í Múlakvísl í síðustu viku og þó sérstaklega síðari hlutann. Það hefði svo verið um hádegisbilið á sunnudag, sem Vegagerðinni hefði borist tilkynning um að vestasti stöpullinn á brúnni væri horfinn og hefði brúnni þá verið lokað um leið.

Vísir segir af döpru sumri í pistli 1.september:

Sumarið er eitt það drungalegasta síðastliðið 21 ár, að minnsta kosti, og ágúst er einn af fimm sólarminnstu ágústmánuðum allt frá árinu 1923. Það er því langt frá því að vera út í bláinn, þegar við kvörtum um sólarleysi. Á veðurfarsdeild Veðurstofunnar fengum við þær upplýsingar í morgun, að 93 sólarstundir hefðu mælst i ágústmánuði. Er það með því minnsta, sem gerist í þessum mánuði.

September varð sérlega kaldur og allmikið snjóaði norðaustanlands seint í mánuðinum, m.a. var sett snjódýptarmet á Sandhaugum í Bárðardal sem enn stendur þegar dýptin mældist þar 55 cm þann 22. 

Nú dró til tíðinda á Kröflusvæðinu. Morgunblaðið segir frá 12.september:

Jarðskjálfti fannst á virkjunarsvæðinu við Kröflu fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið um miðnætti 8.-9. sept. Mældist skjálftinn 4 stig á Richterkvarða og var svo harður að þeir sem vakandi voru urðu greinilega varir við hann og nokkrir menn, sem voru sofnaðir, vöknuðu við hristinginn. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskólans tjáði Morgunblaðinu í gær, að margir skjálftar hefðu orðið á Kröflusvæðinu í sumar og hefðu menn af því nokkrar áhyggjur. Sagði Páll að náið væri fylgst með öllum jarðhræringum á svæðinu við Kröflu, enda hefðu skjálftar verið þar óeðlilega tíðir að undanförnu. Páll sagði, að hugsanlegt væri að skjálftarnir við Kröflu stæðu í sambandi við boranirnar þar að undanförnu, án þess þó að hægt væri að fullyrða nánar um samhengið þar á milli.

Morgunblaðið segir 15.september frá úrfelli og vegarskemmdum af þess sökum: 

Mikið úrfelli var á Vestfjörðum og víða á Vesturlandi í fyrradag og af þeim sökum skemmdust vegir á allmörgum stöðum vegna skriðufalla. Mestar skemmdir munu hafa orðið í Barðastrandarsýslu og er enn ekki vitað hvenær búið verður að gera við skemmdirnar að fullu, en í gær var gert við vegina til bráðabirgða. Hjörleifur Ólafsson vegaeftirlitsmaður sagði þegar Morgunblaðið ræddi við hann, að mestar skemmdir hefðu orðið á sunnanverðum Vestfjörðum. Víða í Barðastrandarsýslu hefðu fallið aurskriður og valdið skemmdum, einkum í Hvammshlíð. Þar hefði vegurinn algjörlega lokast, en viðgerðarflokkar vegagerðarinnar hefðu verið þar í gær, en ekki var vitað hvernig verkið sóttist. Þá sagði Hjörleifur, að skriður hefðu fallið á Örlygshafnarveg fyrir utan Kvígindisdal og vitað væri um skemmdir á Hofsárhálsi, en ekki hve miklar.

Tíminn getur skemmda í sama veðri 18.september:

Gó-Sauðárkróki — Hér í Skagafirðinum gerði mikið hvassviðri aðfaranótt mánudagsins [15.], og stóð það fram undir hádegi á mánudag. Hvassast var milli kl. 10 og 11 á mánudagsmorgun. Tók viða járnplötur af húsum í ofviðrinu, tuttugu plötur sleit af þaki íbúðarhússins að Ríp á Hegranesi, og í Keldudal fauk fjórði hlutinn af þakinu á fjárhúsinu. Þá rifnaði strigi af fúlgum og sleit viða úr heyi. Bagalegt er með viðgerðir, því að hér um slóðir fæst ekki þaksaumur fremur en glóandi gull.

Veðráttan getur þess að í sama veðri hafi járn rifið af þökum í Suður-Þingeyjarsýslu, en segir ekki hvar. 

Morgunblaðið segir fréttir af göngum og hreti 26.september:

Mælifelli, 25. september. Í morgun var réttað í Stafni, en féð kom þar að í gærkvöldi er hrossarétt lauk á miðaftni. Gangnamenn í Vestflokki lögðu upp á sunnudag úr Svartárdal og Vesturdal og gistu í nýjum og veglegum skála á Skiptabakka þar sem nóg rúm var fyrir 26 menn en Austflokkur gisti þar einnig þessa nótt en hina næstu í byggð og var fé úr þeim göngum réttað í Mælifellsrétt i gær. Á mánudag var illvirði uppi við Hofsjökul og slarksamt allan daginn vestur að Kofa á Áfangaflá við Ströngukvísl, ýmist haglél eða dynjandi rigning. Á þriðjudag var suðaustan strekkingur og skafrenningur af jöklinum, þó ekki ófærð, alla leið út í Buga. Þar var síðasti náttstaður okkar, en Vesturheiðarmanna við Galtará. Snjór reyndist lítill þar fyrir utan, en jeppavegurinn um Litlasand og Gilhagasand var ófær á þriðjudag og Kiðaskarð sem er réttarvegur Skagfirðinga að Stafnsrétt var erfitt yfirferðar í gær vegna snjóalaga. Þótt illa viðraði í þessum göngum var gangnaveðrið skárra en í fyrra. Björn Egilsson á Sveinsstöðum sem nú minntist þess að liðin eru 60 ár frá því hann fór fyrst í göngur sagði að álíka veður hefði verið í göngum 1916, ’23, ’29, '34 og ’43, þótt út yfir hefði tekið 1963 er göngum var alls ekki skipt á þessum slóðum en kapp lagt á að koma mönnum og hestum í skjól. Á 60 árum hafa því verið a.m.k. 8 óveðursgöngur, eða um það bil 7. hvert haust. — Séra Ágúst.

Morgunblaðið segir 27.september fleira af hretinu:

Siglufirði, 26. september. Hér er i fyrsta skipti á þessu hausti vetrarlegt yfir að líta, alhvít jörð. Afli línubáta er heldur í tregara lagi núna. Skipstjórar bátanna hafa kvartað yfir þvi, að breskir togarar þrengi að þeim um þessar mundir. Um veiðarfæratjón af völdum togaranna nú hef ég ekki heyrt getið. mj.

Björk Mývatnssveit 26.9. Hér hefur verið norðanátt síðustu daga. Aðfararnótt þriðjudags [23.] setti niður allmikinn bleytusnjó. Síðan hefur gengið á með dimmum éljum. Sumstaðar er færð farin að spillast á vegum. Öðrum göngum, sem áttu að hefjast á miðvikudag, hefur verið frestað, og ekki ráðið hvenær farið verður. Búast má við, ef snjókoman helst áfram, að erfitt geti reynst að ná fé úr afréttinni. Kristján.

Tíminn segir einnig af hretinu 1.október:

gébé Rvik — Óttast er um fé í Bárðardal og Ljósavatnshreppi, eftir að mikið snjóaði aðfaranótt miðvikudagsins [24.] í síðustu viku. Bændur hafa unnið sleitulaust síðan við að bjarga fé úr fönn, en verkið er mjög erfitt og tafsamt. — Enn vantar gríðarmargt fé, sagði Bjarni Pétursson oddviti á Fosshóli. Kvað Bjarni mjög óvenjulegt að snjókoma væri svo mikil á þessum árstíma og sagði hann að elstu menn ræki ekki minni til þess að þetta hefði skeð áður á þessum slóðum. Langmesti snjórinn féll aðfaranótt miðvikudagsins i síðustu viku, sagði Bjarni, litið hefur snjóað síðan, en dimmt hefur verið yfir og hefur það torveldað leitina. Nú síðustu tvo þrjá daga hefur veður þó skánað, en í fyrrinótt komst frost upp í fimmtán stig og ekki bætti það úr. Bjarni sagði að morguninn eftir að mesti snjórinn féll, hefði hvergi verið minna en hnédjúpur snjór við bæinn að Fosshóli. Það vantar gríðarlega margt fé, sagði Bjarni, nú er þó búið að draga töluvert úr fönn og ekki veit ég til að neitt hafi fundist dautt enn, en féð er mjög illa farið. Fé er líka út um allar heiðar, og mjög erfitt er að ná því saman og reka það, þar sem það þarf að troða slóðir fyrir það. Við það notum við snjósleða og traktora með beltum, en þetta er mjög seinlegt. Fé vantar af öllum bæjum í Bárðardal og syðstu bæjum í Ljósavatnshreppi. Mjög væri misjafnt hve margt hvern bónda vantaði. Sagði Bjarni að ekki væri hann með stórt bú, en sig vantaði enn 5 ær og 15 lömb.

Október þótti hagstæðasti mánuður ársins, lengst af var hægviðrasamt og milt veður. 

Tíminn segir 7.október frá hlaupi í Súlu:

gébé-Rvik — Um klukkan 17 í gærdag, er Sigurður Björnsson á Kvískerjum var á leið frá Klaustri sá hann, að komið var mikið vatn í Súlu undir vestustu brúnni á Skeiðarársandi og er hann leit i sjónauka til Eystrifjalla, sá hann talsvert vatn koma fram með jöklinum og miklir vatnsstrókar þyrluðust upp. — Án þess að fullyrða nokkuð, virðast allar líkur á því að hlaupið komi úr Grænalóni, sagði Sigurður. Sigurður sagðist hafa farið vestur að Klaustri um þrjúleytið i gærdag og sá þá ekkert óvenjulegt og tók ekki eftir nokkrum vexti Súlu. En á leiðinni til baka, tók hann eftir að komið var fullt sumarvatn i Súlu, og var þetta aðeins tveim klukkustundum seinna, sem hann var þarna á ferð aftur, eða um kl.17. Ekki kvaðst Sigurður geta fullyrt um, hvort það hefði verið boðaföll, sem hann sá, er vatnið kom undan jöklinum, eða hvort það væri að brjótast með miklum krafti fram undan honum, og telur það trúlegt að smábætist við vatnið undir jöklinum, sem síðan kemur upp um glufur hingað og þangað. Því sagðist hann ekki vilja fullyrða neitt um hvort hlaupið í Súlu væri úr Grænalóni, þótt það virtist einna trúlegast. Síðasta hlaup í Súlu var fyrir rúmum tveim árum. — Það er ómögulegt á þessu stigi að segja, hve stórt þetta hlaup verður, sagði Sigurður, en auðvitað vonar maður, að ekki verði skemmdir á mannvirkjum. Hlaupið er augsjáanlega að vaxa en venjulega hefur það ekki staðið lengur áður en um tvo sólarhringa, svo því ætti að vera lokið fyrir helgi.

Morgunblaðið segir 7.október frá sjógangi við Hornafjörð:

Höfn 6. október. Mikill sjógangur var við Hornafjörð í veðrinu, sem gekk yfir landið um helgina [4. til 5.], og að sögn kunnugra hefur ekki svona mikill sjógangur hér um fjölda ára, en sem hafsjór var að sjá milli Fjöruvita og Hvanneyjar. Þegar lætin voru afstaðin kom í ljós, að sjórinn hafði tekið mikið af Tanganum og breytt honum mikið. Í þessum látum hækkaði óvenjumikið inni í höfninni og þegar sjórinn var sem hæstur vantaði ekki nema eitt fet, að hann næði upp á bryggjubrúnir. Elías

Hnausum 6. október. Undanfarinn hálfan mánuð hefur Skaftá verið óvenju jökullituð. Hefur lagt af henni megna brennisteinslykt. Ekki hefur áin þó orðið vatnsmikil, en vatnsmeiri en eðlilegt er vegna þurrviðris og kaldrar veðráttu. Bendir þetta til umbrota undir jökli. —Fréttaritari.

Síðbúin frétt af sumartíð á Snæfellsnesi birtist í Morgunblaðinu 8.nóvember:

Breiðuvík 25. okt. Veturinn heilsar í dag með veðurblíðu. Sumarið sem nú hefur kvatt okkur var mjög erfitt til heyskapar, sérstaklega á Vestur- og Suðurlandi. Hér í sveit gekk heyskapur illa vegna óþurrka og hröktust hey verulega, og eitthvað mun hafa eyðilagst af heyjum. Síðari hluta september komu góðir þurrkar og náðu þá bændur inn miklu af heyjum og bætti það ástandið mikið. Segja má að hey séu í meðallagi að vöxtum, en létt munu þau reynast og ólystileg og má gera ráð fyrir að kýr mjólki illa nema með mikilli fóðurbætisgjöf.

Nóvember var einnig fremur hagstæður. Þó gerði óvenjulegt sjávarflóð við suðvesturströndina. 

w-1975-11-sponn

Línuritið sýnir þrýstispönn (mismun hæsta og lægsta þrýstings á landinu) á öllum athugunartímum fyrri hluta nóvembermánaðar (bláar súlur), en rauði ferillinn sýnir lægsta þrýsting á landinu á sama tíma (hægri kvarði). Allmikið veður gerði þann 2. þegar þrýstispönnin komst yfir 20 hPa í landsynningshvassviðri. 

Slide6

Því olli mjög djúp lægð á Grænlandshafi. Að morgni 2. var hún um 940 hPa í miðju, en grynntist síðan og þokaðist nær. Þegar vindur snerist til suðvesturs samtíma flóðinu seint  næstu nótt gekk sjór mjög á land. Nýtt tungl var þann 3. og vaxandi straumur. Mjög hvasst var á miðunum, en gætti minna til landsins. Óhætt mun að segja að þetta flóð hafi komið nokkuð á óvart og spurning hvernig tekist hefði að vara við því á fullnægjandi hátt nú á dögum - þótt afli lægðarinnar væri nær örugglega vel spáð með nokkurra daga fyrirvara. Morgunblaðið sagði frá þriðjudaginn 4.nóvember:

Talið er að um 100 milljóna kr. tjón hafi orðið í sjóganginum á Eyrarbakka í fyrrinótt. Þrír bátar eyðilögðust, þar af sukku tveir í höfninni, hinn þriðji kastaðist að mestu upp á grjótvarnargarðinn við höfnina. Þá skemmdist saltfiskverkunarstöð Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka það mikið, að hún er talin ónýt. Sjór flæddi inn í kjallara fjölda húsa og eyðilagði margvísleg tæki. Í nokkrum húsum skemmdust kynditæki og í einu húsi að a.m.k. flutu upp tvær þvottavélar og ein frystikista. Ennfremur fór rafmagn og vatn af þorpinu um tíma.

Það var um kl.03. í fyrrinótt að hvessti mjög á Eyrarbakka og miklar sjófyllingar gerði í höfninni. Á skammri stundu slitnuðu þrír bátar, sem voru í höfninni, frá bryggju og sukku tveir þeirra, Skúli fógeti ÁR 185, 23ja tonna bátur, og Sleipnir ÁR 99, 10 tonna bátur, á nokkrum mínútum. Þriðji báturinn Sólborg ÁR 15, kastaðist upp á varnargarðinn við höfnina. Talið er að hann sé einnig ónýtur. Matsverð þessara báta mun vera a.m.k. 75 milljónir króna. Á sama tíma og bátarnir slitnuðu frá bryggju, gróf sjórinn undan saltfiskverkunarhúsi Hraðfrystistöðvarinnar og fljótlega hrundi suðurhlið hússins og gólf. Þar nemur tjónið einum 10 millj. kr. Einnig fór rafmagn um tíma og vatnslaust varð. Fyrst fór rafmagn af dælunum við vatnsból hreppsins í Sandvíkurhreppi, og skömmu síðar gróf sjórinn í sundur vatnsleiðsluna, þar sem hún liggur að miðlunargeyminum vestan við þorpið. Þar var leiðslan á 1 1/2 metra dýpi. Í gærkvöldi hafði ekki fengist nákvæm tala yfir þá kjallara, sem fylltust af sjó, en þar á meðal er kjallari Plastiðjunnar. Í kjallaranum voru lykiltæki fyrirtækisins og munu margir rafmótorar hafa eyðilagst af seltu.

Þór Hagalín, sveitarstjóri á Eyrarbakka, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, að það sem nú lægi fyrir, væri að endurskipuleggja útgerðina á staðnum. Kaupa þyrfti skip í stað þeirra sem farist hefðu, — Eyrbekkingar misstu líka eitt skip á legunni fyrravetur og væru þau nú orðin fjögur. Þá þyrfti að byggja upp aðstöðu fyrir saltfiskverkun frystihússins. Um tíma í gær voru Eyrbekkingar hræddir um að aftur flæddi á kvöldflóðinu og var unnið af kappi við að koma fyrir sandpokum við kjallaradyr og í þau skörð sem komið höfðu til að koma í veg fyrir meira tjón. Um kl.18 sáu menn fljótt, að sá ótti var ástæðulaus, því þá hafði veður gengið nokkuð niður og sjóinn lægt. Var þá því fólki, sem unnið hafði að þessum fyrirbyggjandi varnaraðgerðum, gefið frí, þar sem hættan var liðin hjá. Eyrbekkingar höfðu í gær samband við Almannavarnir ríkisins og báðu um aðstoð við skipulagningu. Fór Guðjón Pedersen starfsmaður Almannavarna fljótlega austur til að liðsinna heimamönnum. Að sögn Þórs Hagalín sveitarstjóra, voru mestu vandkvæðin, eftir að sjó lægði í gærmorgun, hve illa gekk að fá stórvirk vinnutæki til að laga það, sem aflaga hafði farið. Það var svo verktakafyrirtækið Ístak hf, sem sér um hafnarframkvæmdir i Þorlákshöfn, sem hljóp undir bagga og sendi allan sinn tækjakost frá Þorlákshöfn til Eyrarbakka og sagði Þór, að forráðamenn fyrirtækisins ættu þakkir skildar fyrir það.

Víða hafa orðið miklar skemmdir í verstöðvum á vestanverðri suðurströndinni, enda þótt þær séu ekki í líkingu við eyðilegginguna á Eyrarbakka. Mest hefur tjónið orðið á Vatnsleysuströnd, í Garðinum og Sandgerði, og í Grindavik. Þannig fauk hlið úr einu fiskvinnsluhúsinu f Garðinum, fimm bátar slitnuðu frá bryggju í Sandgerði og rak upp á land og í Grindavík losnuðu stórir grjóthnullungar [og] bárust úr sjóvarnargarðinum upp á bryggjuna og stór síldveiðibátur, Hrafn GK, slitnaði frá bryggju og rak upp í fjöru. Ljóst er að tugmilljóna tjón hefur orðið í óveðrinu á þessum stöðum.

Athygli vekur hversu næsta þorp við Eyrarbakka — Stokkseyri — slapp vel frá sjóganginum, en þar urðu engar meiriháttar skemmdir. Samkvæmt eftirgrennslan Morgunblaðsins er megin ástæðan fyrir þessu sú, að fyrir skömmu var þar lokið við gerð sjóvarnargarða, sem hlaðnir voru úr grjóti og stóðust holskeflurnar með prýði. Þá er einnig hægt að binda bátana í Stokkseyrarhöfn bæði við bryggjuna og varnargarðinn, þannig að hreyfingin verður minni en ella og sáralítil hætta á að þeir slitni frá. Að sögn Steingríms Jónssonar fréttaritara Morgunblaðsins á Stokkseyri, er það álit manna í þorpinu að það hafi gert gæfumuninn fyrir Stokkseyringa að hjá þeim var sjóvarnargarðurinn hlaðinn úr grjóti en ekki steyptur eins og hjá Eyrbekkingum, og að grjótgarðarnir stæðust mun betur stórsjó af þessu tagi en hinir steyptu garðar. Kvað Steingrímur ofviðrið og stórsjóinn ekki hafa valdið neinu umtalsverðu tjóni á Stokkseyri en engu að síður sagðist Steingrímur ekki minnast þess að sjór hefði gengið þar jafnlangt á land upp síðan árið 1938. Þá hafði Morgunblaðið einnig samband við Þorlákshöfn og kom í ljós að þar höfðu heldur ekki orðið neinar umtalsverðar skemmdir þrátt fyrir veðurofsa. Var okkur tjáð að mannvirkjagerðin þar við höfnina hefði vafalaust átt sinn þátt í því en einnig kæmi það til að áttin væri ekki hin versta sem Þorlákshafnarbúar gætu hugsað sér — það væri aftur á móti suðaustanáttin.

Mikið gekk hins vegar á í Grindavík í fyrrinótt. Veður var þar mjög slæmt og flóðhæð mikil. Mikill sjógangur varð af þessum sökum og við það losnaði grjót úr vestari sjóvarnargarðinum og bárust hnullungarnir þar inn á bryggjuna. Tveir stórir borar sem notaðir hafa verið við sprengingar í sambandi við hafnargerðina, sópuðust einnig í sjóinn í hamaganginum. Mest munaði þó um að á milli kl.4 og 5 í fyrrinótt slitnaði Hrafn GK-12 um 400 tonna síldarskip frá bryggjunni og rak upp í fjörur. Í gærdag þegar veður hafði lægt var strax hafist handa við að reyna að ná skipinu á flot ef unnt væri á kvöldflóðinu. Ekki voru sjáanlegar miklar skemmdir á skipinu, þrátt fyrir þetta ferðalag um höfnina. Hins vegar dældaðist nokkuð síðan á Verði ÞH, er lá við bryggju í Grindavík og lamdist oft óþyrmilega utan í bryggjuna yfir nóttina.

Fréttaritari Morgunblaðsins í Sandgerði, Jón Júlíusson, símaði eftirfarandi í gærdag: Á morgunflóðinu í morgun varð mjög flóðhátt hér í Sandgerði Samfara því var vestsuðvestan hvassviðri. Gekk sjórinn mjög hátt á land upp hér víða, m.a. langt upp á götur hér upp af höfninni. Yfir bryggjuna gekk hann einnig mjög mikið og var með öllu ófært um bryggjuna bæði bílum og gangandi mönnum í um 2—3 klukkustundir meðan lætin voru mest. Skolaði sjórinn þá öllu lauslegu af bryggjunni, þar á meðal var ein fólksbifreið af Ramblergerð, tvær olíuafgreiðsludælur og ein bobbingalengja. Um 30 bátar lágu hér í höfninni og slitnuðu fimm þeirra frá bryggju. Þrír 120—30 lesta bátar sem lágu hver utan á öðrum, slitnuðu frá og lentu á næstu röð, sem í voru tveir 60 lesta bátar. Slitnuðu þeir þá einnig frá og rak alla bátana síðan upp í fjörur. Þrír þeir stærri lentu upp á milli bryggjanna en hinir tveir suður í grjótgarðinn, sem gerður var hér á síðasta ári. Er þeir voru komnir upp í fjöru, komust menn fljótlega um borð í þá og náðust fjórir þeirra þá strax út. En einn þeirra — Skúfur GK — náðist hins vegar ekki á flot aftur fyrr en seinni partinn í dag. Ofsaveður var í Garðinum i fyrrinótt og samkvæmt upplýsingum fréttaritara Morgunblaðsins. Þar varð mikið tjón á mannvirkjum. Til að mynda hafa göt komið í sjóvarnargarða á yfir 2ja kílómetra kafla og ein hliðin úr fiskvinnsluhúsinu Akurhúsum fauk niður. Þá flæddi sjór upp á land og var í gær mikið vatn í kjöllurum og á túnum, auk þess sem grjót var víða á túnum. Víða stóð fólk mestan hluta dags í gær í vatnsaustri í kjöllurum húsa sinna.

Óskar Magnússon, skólastjóri, er hvort tveggja oddviti Eyrarbakkahrepps og formaður Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka og hann hafði í nógu að snúast við skipulagningu á björgunarstarfi í gærmorgun, þegar Morgunblaðið náði tali af honum. „Um klukkan eitt í fyrrinótt var allt með ró og spekt hér á Eyrarbakka, að vísu var smá brim, en ekki svo mikið að menn væru neitt hræddir, en voru samt tilbúnir að fara um borð í bátana. Síðan var það um kl.3 að ég vaknaði við að það er orðið hvellhvasst, ég klæddi mig og fór út. Ég sá lítið frá mér, en sá þó að særok var orðið mikið,“ sagði Óskar í upphafi. — Hvað gerist síðan? „Ég fór inn á ný og hafði ekki verið lengi, er skipstjórinn á Sólborgu hringdi og tilkynnti að þeir bátar, sem voru í höfninni, væru sokknir og Sólborgin komin upp á grjótgarðinn. Það væri engum manni fært niður á bryggjuna til að komast í nánd við bátana. Ég fór þá út og þá var komið gífurlegt sjókóf, og mátti sjá fyllingarnar koma inn yfir í myrkrinu, og um svipað leyti byrjuðu járnplötur að fjúka af saltfiskhúsinu. Það var því mitt fyrsta verk að hringja á lögregluna og ræsa út aðstoðarmenn til að grípa plöturnar og fergja þær. Þegar hér var komið var ekkert hægt að gera nema grípa það sem var fjúkandi og bíða eftir að veðrið gengi eitthvað niður og þá var strax byrjað að bjarga tækjum.“ — Hvenær byrjaði sjórinn að brjóta saltfiskhúsið? „Það hefur verið um kl.4, því þakplöturnar byrjuðu ekki að fjúka fyrr en veggurinn var farinn að siga. Því miður var ekki viðlit að koma nálægt veggnum, þar sem sjórinn gróf undan húsinu, því sjórinn náði langt inn á götu og við frystihúsið náði sjórinn mér í klof. Hamagangurinn var svo mikill, að víða stórsér á sjóvarnargörðunum.“ „Það hefur oft gert verra veður" en þetta, en sjólagið hefur ekki verið svona, að því er eldri menn segja, síðan 1925.“

Þeir eru eflaust margir, sem hafa velt því fyrir sér, hvernig jafn mikill sjógangur og var í fyrrinótt getur orðið. Morgunblaðið leitaði til Markúsar Einarssonar, veðurfræðings, og spurði hann um helstu þættina er yllu þessum mikla hamagangi sjávar. Markús Einarsson sagði, að hér hefði verið um samspil þriggja þátta að ræða. Í fyrsta lagi hefði verið sterk suðvestanátt, komin langt sunnan úr hafi og hefði hún valdið miklum öldugangi. Þá hefði djúp lægð verið á ferðinni þannig að loftþrýstingur hefði verið óvenju lágur, um 950 millibör í lægðarmiðjunni. Þetta lágur loftþrýstingur gæti valdið allt að 1/2 metra yfirborðshækkun sjávar. Og í þriðja lagi hefði mikill straumur bæst ofan á mikinn vind og síðla nætur verið því sem næst stórstreymt. Hann sagði, að þegar djúp lægð og stórstreymi færu saman, þá væru staðir víða á Suður- og Suðvesturlandi illa settir.

Innanlandsflug Flugfélags Íslands fór töluvert úr skorðum í gær vegna óveðursins. Mesta röskunin varð vegna þess að suðvestanáttin var svo sterk að taka þurfti í notkun flugbraut á Reykjavíkurflugvelli sem lítið hefur verið notuð. Er þetta 25 brautin svokallaða, sem liggur upp að Miklatorgi. Hún er svo stutt að takmarka þarf hleðslu Fokkervéla Flugfélagsins ef brautin er notuð. Að sögn Sveins Sæmundssonar blaðafulltrúa var flogið í gær til Akureyrar, Ísafjarðar, Þingeyrar, Patreksfjarðar, Húsavíkur og Egilsstaða. Fljúga átti til Sauðárkróks í gærkvöldi og aðra ferð til Akureyrar. Ekkert var flogið til Vestmannaeyja og Færeyjaflug féll niður, en millilandaflug gekk að öðru leyti snurðulaust fyrir sig. Sveinn nefndi sem dæmi um takmörkun á hleðslu vélanna, að í vélinni til Egilsstaða hefðu verið 44 farþegar. Vélin gat borið einu tonni minna en við venjulegar kringumstæður og varð því að skilja eftir allar vörur, en þar á meðal var spennubreytir í endurvarpsstöð sjónvarpsins á Gagnheiði sem bráðlá á að koma austur.

Tíminn segir frekar af flóðinu mikla í pistli 11.nóvember:

PÞ—Sandhóli— Ekki eru öll kurl komin til grafar enn, og talið að ekki hafi enn fundist allt það fé, sem fórst i sjávarflóðinu í Ölfusi á dögunum. Þegar er vitað að um 20-30 kindur hafa farist frá félagsbúinu Króki og 18 kindur frá Þorláki Kolbeinssyni á Þurá. Þá vantar fé frá Arnarbæli og Þóroddsstöðum, eins og áður hefur komið fram í fréttum hér í blaðinu. Allt er á kafi í vatni ennþá á þessum slóðum og ómögulegt fyrir bændur að vita, hve miklu fé þeir hafa tapað, fyrr en þeir taka það á gjöf í vetur.

PÞ—Sandhóli — Ef gengið er meðfram sjávarkambinum í Selvogi, gefur að lita ófagra sjón, sjóvarnargarðarnir eru útflattir, og túngirðingarnar, sem á þeim voru, eru í tætlum og liggja á túnunum ásamt grjóti úr görðunum, rekavið, sjávargróðri og öðrum hlutum, sem borist hafa inn á túnin. Eins og frá hefur verið greint, gekk sjór upp að íbúðarhúsum, og að sögn fróðra manna var flóðhæðin i þessu óveðri meiri nú en árið 1925. Hins vegar barst á landi i því flóði mikið af fiski, en ekki kom uggi á land að þessu sinni. Mjög alvarlegt ástand hefur skapast nú, vegna þess að túngirðingarnar, sem voru á sjóvarnargörðunum, eyðilögðust, og því er sú hætta nú yfirvofandi, að fé flæði á skerjum úti fyrir. Á öllum býlum hefur grjót borist inn á tún, og eru sum túnin mjög illa útleikin. Hjá Helga Guðnasyni, bónda i Þorkelsgerði, flæddi inn i fjárhúshlöðu, og sl. föstudagsnótt [7.] urðu bændur í Selvogi að rífa upp hey sin í hlöðum vegna hita. Á þriggja kílómetra kafla eru túngirðingarnar gjörsamlega ónýtar, eða frá Selvogsvita að Strandakirkju. Fyrir framan kirkjuna hefur verið landbrot á undanförnum árum, en nú stækkaði það skarð til mikilla muna, og gekk sjór upp að sáluhliði kirkjunnar. Eins og sakir standa er vegurinn heim að kirkjunni ófær, og sjóvarnargarðurinn meðfram veginum er viða að hruni kominn. Selvogshreppur er mjög fámennur, og þar eru aðeins sex einstaklingar, sem greiða opinber gjöld til hreppsins. Því er ljóst, að úrbætur á þessum náttúruspjöllum eru sveitarfélaginu ofviða. Sé það haft i huga, að framlag opinberra aðila til byggðarlagsins hefur ekkert verið á undanförnum áratugum — t.d. hefur rafmagn ekki fengist lagt út í Selvog — verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort Selvogshreppur verður nú settur við sama borð og önnur byggðalög, sem orðið hafa fyrir tjóni að undanförnu.

Eftir snjóflóðin í Neskaupstað í desember árið áður var hættumat vegna ofanflóða talsvert til umræðu. Svissneskur sérfræðingur var fenginn til að líta á hættuna. Einhver misskilningur kom upp varðandi skýrslu hans fyrir Eskifjörð og sáu heimamenn ástæða til andsvara. Þeim svörum svaraði Guðjón Petersen forstöðumaður Almannavarna síðan í grein í Vísi 19. nóvember. Þar er tekin orðrétt tillaga sérfræðingsins varðandi Eskifjörð. Sérstaka athygli vekur hinn örstutti endurkomutími sem miða átti byggingar við. 

(Úr svargrein Guðjóns Petersen vegna snjóflóðahættu á Eskifirði): 10) Athuga verður varúðarráðstafanir í sambandi við húsgrunn á Eskifirði. Sé búist við snjóflóði þarna einu sinni á 30 ára fresti, er ekki ráðlegt að byggja íbúðarhús þarna. Fækki snjóflóðum má taka til athugunar ýmsar nýjar byggingaraðferðir og byggingarlag. 

Desembermánuður var sérlega umhleypinga- og illviðrasamur. Lægðir gengu ótt og títt um landið eða nærri því, flestar til austurs. Bót var að hraði þeirra var slíkur að ekkert illviðranna stóð lengi við. 

Slide7

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum og hæðarvikin. Vestanáttin er langt umfram meðallag og raunar sú mesta sem þekkt er í nokkrum mánuði frá upphafi háloftaathugana.

w-1975-12-sponn

Rauði ferillinn (hægri kvarði) sýnir lægsta þrýsting á landinu á hverjum athugunartíma í desember. Hann er á sífelldri ferð upp og niður, framan af er varla dagur á milli lægða, en frá þeim 20. varð ákafinn heldur minni. Bláu súlurnar sýna þrýstispönnina, hún er á stöðugri hreyfingu líka, upp og niður. Í nokkrum tilvikum náði spönnin yfir 20 hPa og fara þau tilvik að mestu saman við það tjón sem blaðatilvitnanirnar hér að neðan fjalla um. Í Reykjavík komst vindur 12 daga í 8 vindstig (17 m/s eða meira). 

Áhyggjur voru af hafís - hann var býsna nærri landi miðað við árstíma. Morgunblaðið segir frá 5.desember:

Landhelgisgæslan lét í gær gæsluflugvélina SÝR kanna hafísinn undan Vestfjörðum. Reyndist ísinn nú vera miklum mun nær landi en hann hefur verið að undanförnu, og er um að kenna stöðugum vestanvindi að undanförnu. Var íshrafl næst landi um 20 sjómílur út af Straumnesi, og er fátítt að ís sé svo nærri landi á þessum árstíma. Þá tilkynnti varnarliðið í gær að ís hefði sést 45 sjómílur útaf Reykjanesi. Ætlar Landhelgisgæslan að kanna þetta nánar í dag.

Orrustuflugvél frá varnarliðinu sá í gær ís 45 sjómílur útaf Reykjanesi. Varð vélin fyrst vör við ísinn í gærmorgun. Síðar um daginn var einnig flogið þarna yfir og hafði ísinn þá rekið um 10 sjómílur í norðurátt. Landhelgisgæslan mun kanna þetta í dag, en það mun vera afar fátítt að þarna sé ís að finna.

Morgunblaðið segir af illviðri aðfaranótt þ.5. í pistli 6.desember:

Mikið vestanrok gerði á suðvesturhorni landsins í fyrrinótt [5.], og var vindstyrkurinn mestur seinni part nætur. Varð hann að sögn Veðurstofunnar 10 vindstig í Reykjavík og 12 vindstig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Morgunblaðið aflaði sér í gær virðist ekki hafa orðið mikið tjón í þessu mikla veðri. Víða fuku plötur af húsum, lauslegir hlutir fuku um og rúður brotnuðu. Mikill sjógangur var á Skúlagötunni.

Morgunblaðið segir enn frá 9.desember:

Neskaupstað, 8. desember. Aftakaveður var í Neskaupstað í fyrrinótt [7.] og urðu af því allmiklar skemmdir. Meðal annars fauk þak af húsi harðfiskgerðarinnar Clipper, tveir gamlir nótabátar fuku og nokkur íbúðarhús skemmdust af völdum þakplatna sem skullu á þeim. Þá munu rúður hafa brotnað í um 30 húsum. Það var um kl.2 sem byrjaði að hvessa og smám saman jókst veðurhamurinn þar til hann varð mestur á milli 4 og 5. Veðrið stóð af norðvestri og kom síðan út yfir bæinn úr Borgarkrók. Á meðan mestu lætin voru í veðrinu munu allflestir bæjarbúar hafa verið klæddir og ekki orðið svefnsamt fyrr en veður lægði upp úr kl.5. Á milli kl.4 og 5 voru gífurleg læti í bænum. Þakið fór þá af húsi Clippers, ennfremur skemmdist timburhús, sem stóð við Urðarteig, mjög mikið, en í því var ekki búið. Nokkur hús í smíðum skemmdust, t.d. í nýja hverfinu á Bakka-Bakka, þar sem einingahús í byggingu skekktist, og alls konar brak var þar á flugi. Nú er unnið að viðgerðum á skemmdunum og byrjuðu Norðfirðingar að dytta að strax á sunnudagsmorgun. Fréttaritari.

Vísir lýsir úrhelli í Vestmannaeyjum 10.desember:

„Ég man ekki eftir öðru eins vatnsveðri og þennan klukkutíma í nótt. Það var ekki hægt að segja að það væri eins og hellt væri úr fötu, öllu heldur sprautað úr slöngu,” varð lögreglumanni i Eyjum að orði, þegar við höfðum samband þangað í morgun. Mikið vatnsveður var þar í nótt og sérstaklega eina klukkusund. Götur sem lagðar eru vikri grófust margar illa . Ekki voru þær þó ófærar bilum en illfærar sums staðar,sérstaklega svokallaður Dalvegur. Viðgerðir voru hafnar í morgun, en ekki var vitað til að flætt hefði i kjallara eða önnur óhöpp hlotist af. -EA.

Morgunblaðið segir enn af illviðri 14.desember:

Akureyri 13. desember. Mikið hvassviðri gerði hér á Akureyri skömmu fyrir hádegi í dag. Vindurinn stendur þvert af vestri og hafa mælst 10 vindstig að meðaltali á 10 mínútna bili, en farið upp í 12 vindstig í hviðum. Nú um hádegið tók járn að fjúka af húsinu Ásgarði við Höfðahlíð og hefur vindinum tekist að hreinsa járnið af húsinu að mestu leyti. Mikil hætta hefur stafað af plötufokinu, en ein plata hefur í fárviðri þar í gær farið í gegnum glugga á húsi í nágrenninu og önnur fokið á bíl og skemmt hann. Þá hafa tunnur og annað lauslegt dót tekið á rás um bæinn allvíða og þá hefur Kári fækkað nokkuð fiskkössum Útgerðarfélags Akureyringa. Veðri þessu hefur fylgt mikil skrautsýning á suðurhimni þar sem perlumóðurský í öllum regnbogans litum hafa glitrað síðan í dögun í morgun. — Sv.P.

Slide8

Á kortinu má sjá stöðuna að kvöldi 13.desember, þegar hvassast var á Suðureyri. Snörp (en ekki djúp) lægð á hraðri leið austur fyrir norðan land. Mikil hæð suður í hafi. 

Tíminn segir frá 16.desember:

gébé Reykjavík. Tjónið nemur tugmilljónum, sagði Sigurjón Valdemarsson sveitarstjóri á Suðureyri, eftir óveðrið sem þar geisaði um helgina. — Tvær gamlar bryggjur hurfu, nýleg bryggja stórskemmdist, áhaldahús hreppsins stórskemmdist og fiskhjallur hófst á loft i heilu lagi og eyðilagðist. Auk þess urðu miklar skemmdir á íbúðarhúsum, þegar járnplötur losnuðu og gluggarúður brotnuðu. Menn hafa verið að vinna að björgunarstörfum hér alla helgina, sagði Sigurjón. — Seinni hluta laugardags hvessti mikið, sagði Sigurjón Valdemarsson, og um kvöldmatarleyti var komið afspyrnurok, sem stóð i 3-4 klukkustundir, en þá lægði nokkuð. Seinni hluta nætur herti veðrið aftur, og það var ekki fyrr en á sunnudagsmorgun að lægði aftur. Fljótlega fóru að berast fréttir af tjóni vegna veðurofsans, og er þá fyrst að telja skemmdir á áhaldahúsi hreppsins, sem er nýlegt stálgrindahús. Af einu horni hússins fauk álklæðningin alveg af, svo og af gafli þess. Þar eyðilögðust einnig fimm stórar, dýrar rennihurðir, sem brotnuðu í miðju og fóru út af sleðum. Þá sagði Sigurjón, að einingarhús, sem nýbúið var að reisa, en þó var ekki komið á þak, hefði hrunið eins og spilaborg. — Harðfiskhjallur Vonarinnar hf tókst á loft í einu lagi, fauk þvert yfir veg og liggur nú eins og spýtnahrúga. Í hjallinum var mánaðarframleiðsla af fiski, sem eyðilagðist alveg sagði hann. Þá urðu stórskemmdir á hafnarsvæðinu. Steypt þekja (gólf) lyftist á nýlegri bryggju, um 20-30 sm og lemur sjórinn inn undir þekjuna. Tvær gamlar trébryggjur, sem þó voru utan aðalhafnarsvæðisins, hurfu með öllu, svo og nokkrir gamlir fiskhjallar, skúrar, dæluhús og annað, sem var á sjávarkambinum og liggja leifar af þessu eins og hráviði út um allar fjörur, sagði Sigurjón. — Ómögulegt kvað Sigurjón að segja til um hve tjónið væri mikið, en óhætt væri þó að áætla að það næmi tugum milljóna króna.

K. Sn-Flateyri — Aðfaranótt sunnudagsins var hér mikið hvassviðri og verulegt tjón varð á einum bæ, Vífilsmýrum í Mosvallahreppi. Aðfaranótt laugardagsins var hér mikið hvassviðri og tók rokið svo í íbúðarhúsið að Vífilsmýrum, að hjónin sem þar búa bjuggu um sig í gangi í miðju húsinu. Þá nótt urðu þó engar skemmdir, en næstu nótt var hvassviðrið mun meira og brotnuðu þá allar rúður í húsinu sem sneru á móti veðrinu, en þær voru fyrir svefnherbergisgluggum. Í öðru herbergi, sem er með hornglugga, rifnaði allt lauslegt ofan af veggjum og skápur i herberginu opnaðist og út úr honum sópaðist allt. Daginn eftir fann bóndinn svuntu úr skápnum langt uppi í hlíð. Á hlaðinu stóð jeppi og dráttarvél með heyvagni aftan í. Þegar hægt var að huga að úti við um morguninn, lá jeppinn á hliðinni, stórskemmdur ef ekki ónýtur, ofan á heyvagninum upp við húshornið. Þakið var horfið af dráttarvélarhúsinu og hluti fjárhússþaks var horfið. Úti á túni stóð önnur dráttarvél án húss, en með veltigrind. Hún hafði farið tvær og hálfa veltu, en mun litið skemmd. Sveitungar komu til hjálpar bóndanum, og hefur þegar verið gert við þak fjárhússins og neglt fyrir glugga íbúðarhússins. Tjón hjónanna á Vífilsmýrum, sem eru ung og hófu búskap sumarið 1974, er mjög mikið og nemur hundruðum þúsunda. Smátjón mun hafa orðið á öðrum bæjum í Önundarfirði, heyvagn fauk á einum bæ og rúður brotnuðu á nokkrum stöðum. Raflinan frá Mjólká til Ísafjarðar skemmdist, er fimm staurar brotnuðu í Bjarnardal. Þeirri viðgerð er lokið. Á Flateyri gekk sjór yfir plássið, en ekki varð tjón á húsum. Kjallarar fylltust þó viða af sjó. Mesta mildi var að smástreymt var, en í svipuðu veðri fyrir u.þ.b. 20 árum, varð stórtjón á Flateyri.

Morgunblaðið segir frá sama veðri 16.desember:

Súgandafirði, 15. desember. Síðastliðinn laugardag gerði hér aftakaveður. Var það um kaffileytið, að það fór að hvessa og var áttin þá vestsuðvestan til að byrja með, en snerist síðan til norðvesturs, er líða tók á daginn og jók þá vindinn að mun og er ekki of mikið sagt, að það hafi verið ofsarok fram undir miðnætti, en þá lægði lítið eitt, en mjög mikið veður hélst fram undir morgun. Þegar vindur er hér norðvestan, kemur hann beint inn Súgandafjörð. Þessu veðri fylgdi meiri sjógangur en hér hefur sést í áratugi. Stórtjón varð í þessu fárvirði, en það er ekki að fullu metið ennþá, en nemur tugum milljóna króna. Ætla ég hér að nefna það helsta:

Tjón hjá Suðureyrarhreppi: Vatnsveitan liggur fyrir fjallið Spilli út í Staðardal. Liggur leiðslan í þjóðveginum og skolaði sjórinn honum burtu á kafla, þannig að leiðslan liggur upp úr á nokkrum stöðum, en er þó óbrotin. Þekja á ytra hafnargarði i bátahöfninni skemmdist allmikið, er sjór komst undir hana, braut niður á kafla og lyfti henni upp. Hurðir í nýju áhaldahúsi hreppsins brotnuðu inn vegna þunga veðurofsans, einnig brotnuðu rúður og horn hússins tók af og litlu munaði að gaflinn færi úr því í heilu lagi. Járn fauk af þaki verbúðar Suðureyrarhrepps. Hjá Fiskiðjunni Freyju hf braut sjórinn niður tvær trébryggjur. Á annarri bryggjunni stóð harðfiskhjallur og brotnaði hann í spón. Í þeim hjalli var skreið. Hin bryggjan var notuð til löndunar fyrir smábáta fyrir sumartímann og var á henni löndunarfæriband ásamt vigtarskúr, fiskirennum, og fleiru. Einnig voru á þessari bryggju fjórar sjódælur með leiðslum til kælingar fyrir frystivélar. Einnig braut sjórinn stóra hurð á fiskimóttöku. Skemmdir urðu á bræðslu og tæki til lýsisbræðslu skemmdust nokkuð. Vonin hf, er hér rekur harðfiskverkun, varð fyrir miklu tjóni, er harðfiskhjallur, sem stóð á Hjöllum fyrir ofan kauptúnið, fauk i heilu lagi niður af Hjöllunum og tvístraðist þar sundur. Brak úr hjallinum fauk yfir girðingar og lenti á a.m.k. einu húsi. Í hjallinum var öll harðfiskframleiðsla Vonarinnar hf á haustinu og er tjón á hráefni og hjalli allt að 6 til 7 milljónir króna. Óskar Sigurðsson var langt kominn með að byggja íbúðarhús, er hann var að reisa fyrir sjálfan sig. Var þetta einingarhús frá Verk hf og lagðist það saman undan veðurþunganum og er talið gjörónýtt. Er tjón Óskars mjög tilfinnanlegt. Þegar birti á sunnudag, var ófögur sjón, er blasti við bæjarbúum, mesta athafnasvæðið við höfnina leit út eins og eftir hvirfilvind. Miklar skemmdir urðu viðar í kauptúninu og rúður brotnuðu. Þakplötur fuku af nokkrum húsum og girðingar kringum hús fuku. Einnig tók veðrið trillu, er stóð uppi á kambi, fauk hún yfir aðra trillu, er stóð þar rétt hjá og brotnaði í spón er hún lenti niðri í fjöru. Ekki urðu neinar skemmdir á bátum í höfninni, en hald manna er að mikið af drasli hafi fokið í höfnina. Slys urðu engin á mönnum í þessu ofviðri. Viðlagatrygging Íslands greiðir ekkert af þessu tjóni þar sem hér mun ekki vera um náttúruhamfarir að ræða, Sé hins vegar sannanlegt að flóðbylgja hafi gengið á land — samkvæmt skýrslum Veðurstofu Íslands — hefði um náttúruhamfarir verið að ræða.

Einnig varð tjón fyrir austan í sama veðri. Morgunblaðið 18.desember:

Fáskrúðsfirði, 15 desember. Þrjátíu til fjörutíu þakplötur fuku hér um helgina af Síldarsöltun Fáskrúðsfjarðar og Sundlaug Búðahrepps í stormi, sem gerði hér. Þá skemmdist mastur, sem nýlega hafði verið sett upp við símstöðina og mun ætlað fyrir fjölsíma. Þó tókst að bjarga því að mastrið færi gjörsamlega niður, þar sem unnt var að stífa það af með böndum. Nýbúið var að taka mastrið i notkun. — Albert.

iskort_timinn_1975-12-17

Morgunblaðið birti þann 17.desember ískort Landhelgisgæslunnar frá því daginn áður. Ísröndin var þá býsna nærri Vestfjörðum og jakar í fjarðarkjöftum og stöku jaki á fjörum við Gölt. Í vestanveðrunum næsta hálfan mánuð bar það einnig við að staka jaka ræki inn á firði nyrst á fjörðunum. Lokaðist siglingaleið þann 27. milli Hornbjargsvita og Óðinsboða - en opnaðist strax aftur.  

Þann 20.desember varð skammvinnt eldgos við Kröflu - upphaf Kröfluelda og sömuleiðis upphaf mikillar jarðskjálftasyrpu sem gekk norður í Kelduhverfi og náði hámarki nokkrum vikum síðar.

Morgunblaðið segir 21.desember:

Eldgosið í Leirhnúk hefur þá sérstöðu á við önnur gos, að nú var í fyrsta skipti vitað með töluverðri vissu og með nokkrum fyrirvara að eldgos væri í aðsigi og hægt var að gera viðeigandi ráðstafanir í tíma. Að sögn Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings benti hin ákafa jarðskjálftahrina í gærmorgun til þess að gos væri í aðsigi, en á tímabilinu frá klukkan 10:18 til 11 mældust 8 kippir á Kröflusvæðinu á mælum í Reykjavík. Gosið hófst svo um klukkan 11:30. Ragnar Stefánsson sagði að snarpasti kippurinn hefðu mælst klukkan 10:33 og var hann 3,8 stig á Ricterkvarða. Fimm kippir mældust svo sem voru nærri því eins snarpir og þessi. Þegar Ragnar var að því spurður hvort hann teldi að eitthvert samband væri milli gossins og framkvæmda við Kröflu taldi hann það afar ólíklegt. Síðdegis í gær barst Morgunblaðinu eftirfarandi fréttatilkynning frá Raunvísindastofnun Íslands og jarðskjálftadeild Veðurstofu Íslands um aðdraganda gossins í Leirhnúk: Áköf jarðskjálftahrina samfara stöðugum titringi var undanfari eldgossins, sem byrjaði á Kröflusvæði í morgun. Þessi órói kom fram á mörgum jarðskjálftamælum viða um land, en var sterkastur nálægt Kröflu. Jarðskjálftaverðir höfðu því þegar um kl.11 samband við Almannavarnaráð og töldu að sterkar líkur bentu til þess, að eldgos væri í aðsigi. Undanfarið ár hafa Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands og Orkustofnun unnið að uppsetningu jarðskjálftamæla á Norðurlandi. Mælar þessir mynda heilsteypt net, sem gerir kleift að staðsetja upptök jarðskjálfta með meiri nákvæmni en áður. Skjálftavirkni hefur verið fremur mikil á Norðurlandi undanfarið ár, og óvenju há á tiltölulega þröngu svæði nálægt Leirhnúk á Kröflusvæði. Í september s.l var orðið ljóst, að eitthvað óvenjulegt væri á seyði á þessu svæði. Nokkru seinna var bætt við tveimur mælum á svæðið til að kanna þetta nánar, einkum dýpt skjálftanna. Um kl.11 i morgun var Almannavarnaráði tilkynnt að óvenju mikill órói og skjálftavirkni hefði komið fram á mælinum á Húsavík, einnig að stöðugir skjálftar fyndust í Mývatnssveit. Um svipað leyti var einnig tilkynnt að óvenju tíðir skjálftar hefðu mælst í 270 km fjarlægð frá Skammadalshóli í Mýrdal Þessi ákafa hrina og hinn stöðugi titringur á mælum á Norðurlandi bentu til þess að meiri tíðinda væri að vænta. Um kl.11:20 bárust Almannavarnaráði fregnir frá flugvél um eldgos við Leirhnúk.

Eftir þeim upplýsingum að dæma, sem við höfum nýjastar gæti orðið um að ræða allverulegt eldgos og samkvæmt fyrri reynslu af gosi á þessum stað gæti það einnig orðið langvinnt, sagði Guðmundur Sigvaldason jarðfræðingur, forstöðumaður Norrænu eldfjallarannsóknastöðvarinnar, í viðtali við Morgunblaðið í gær.

Morgunblaðið segir meira af jarðhræringum 23.desember:

Rólegt var á gosstöðvunum við Leirhnúk í gærkvöldi og var gosið jafnvel enn minna en í fyrradag. Jarðskjálftar héldu áfram í Mývatnssveit og Axarfirði í gær. Mestir voru þeir í Axarfirði fyrir hádegi. Í harðasta kippnum, sem kom kl.10:35 hentist fólk til þar sem það stóð á gólfum. Þá skemmdust einnig þrjú íbúðarhús, vélahús og fjárhús. Landsig hefur orðið á nokkrum stöðum í Axarfirði og á einum stað hefur þjóðvegurinn sigið á 10 metra kafla og var sigið orðið 50 sm í gærkvöldi og hélt áfram. Þá virðist landris hafa orðið í austur hluta Mývatns, þvi 5 cm vatnsborðslækkun hefur orðið við Voga og er talin vera meiri við Reykjahlíð. Að sögn jarðskjálftafræðinga og jarðfræðinga virðist hrinan ganga norður á bóginn og í gær náði hún langt út í Axarfjörð. Upptök skjálftanna virðast eiga sér stað í kringum Skinnastaði í Axarfirði, og er það norðar en jarðfræðingar töldu í fyrstu.

Á þorláksmessu varð einnig jarðskjálftahrina á Reykjanesi. Tíminn segir frá 24.desember:

Snarpir jarðskjálftakippir urðu á Reykjanesinu síðdegis í gær. Snarpasti kippurinn varð um kl.15:30, og mældist hann 5 stig á Richtersmælikvarða. Hörðustu kippirnir voru þrír talsins og allmargir vægari. Jarðhræringarnar áttu upptök sin 5-10 km austnorðaustur af Kleifarvatni, eða um 20 km frá Reykjavik. Þegar harðasti kippurinn reið yfir fór allt rafmagn af Hafnarfirði, enda varð hræringanna meira vart þar en í Reykjavik. Ástæðan til að rafmagnið fór var að viðkvæm tæki i spennustöðvum fóru úr sambandi er jörðin skalf. Rafstraumurinn fór af kerfinu aðeins stutta stund. Í Hafnarfirði léku hús á reiðiskjálfi og eins og oft vill verða þegar jarðhræringar verða, hrundu munir úr hillum og húsgögn færðust úr stað.

Á annan jóladag gerði asahláku þegar allmyndarleg lægð fór hratt norðaustur Grænlandssund. Morgunblaðið 28.desember:

Nokkrar vegaskemmdir urðu á Suðvestur- og Norðurlandi í asahlákunni í fyrrakvöld [26.], en um hádegi í gær hafði vatn hjaðnað víðast hvar það mikið að bílar gátu komist eftir skemmdum vegunum. Annars eru vegir með betra móti miðað við árstíma, t.d. er greiðfært milli Austfjarða og Suðurlands. Arnkell Einarsson, vegaeftirlitsmaður, sagði í gær, að á Austur- og Suðurlandi væri óvenju góð færð, t.d. væru allir fjallvegir færir á Austurlandi. Á suðvesturlandi gengi hins vegar á með éljum. Á föstudagskvöld komu flóð í Hvítá í Borgarfirði og lokaðist vegurinn af þeim sökum við Hvítárbakka. Um hádegi í gær hafði fjarað það mikið á veginum, að hann var orðinn fær öllum bílum. Þá höfðu orðið allmiklar vegaskemmdir í Borgarfjarðardölum. Höfðu vegir rofnað á nokkrum stöðum vegna vatnsflóða, en þar var unnið að viðgerð. Þá var vel fært um Snæfellsnes og vestur í Búðardal. Að sögn Arnkels er fært frá Patreksfirði austur á Barðaströnd og stærri bílar komast yfir Hálfdán til Bíldudals. Ennfremur er fært milli Þingeyrar og Flateyrar. Breiðadalsheiði og Botnsheiði eru ófærar. Óshlíðarvegur, milli Bolungarvíkur og Ísafjaðar, er ófær vegna snjóflóða og í gær var óvíst hvort hægt yrði að ryðja hann strax þar sem snjóflóð voru enn að falla á veginn. Frá Ísafirði var fært inn í Ísafjarðardjúp. 

Arnkell sagði, að frá suðvesturlandi væri greiðfært yfir Holtavörðuheiði norður í land og til Hólmavíkur. Í fyrrakvöld stíflaðist Miðfjarðará undir gömlu brúnni við Laugabakka og flæddi áin um láglendið, braut rafmagnsstaura og af þessum sökum lokaðist vegurinn um tíma. Töluverðar skemmdir urðu á vegum í A-Húnavatnssýslu, aðallega í Vatnsdal. Um hádegi í gær voru Héraðsvötn stífluð við Grundarstög og flæddu upp á Vallnabakka á 1 km svæði. Þar var farið að frysta í krapi og klakaför og djúp hjólför komin, þannig að stærstu bílar komust aðeins fram. Hins vegar var ytri leiðin um Hegranes fær. Ennfremur var fært til Siglufjarðar. Af Öxnadalsheiði var það að frétta, að þar var orðið fært um hádegi í gær og var vonast til að heiðin yrði fær eitthvað fram eftir degi. Greiðfært var frá Akureyri til Húsavíkur um Dalsmynni og þaðan allt austur til Vopnafjarðar.

Síðustu daga ársins fór djúp lægð til norðausturs fyrir suðaustan land, en á gamlársdag var komið allgott veður. Tíminn segir frá 30.desember:

FB—Reykjavik. Færð var viðast hvar allsæmileg í gær, þegar blaðið hafði samband við Vegagerðina. Hins vegar var veðurspá á þann veg, að búast mátti við skafrenningi, og þá er allt útlit fyrir að færð spillist á nýjan leik. Á annan dag jóla gekk mikið vatnsveður yfir vestanvert landið. Þá flæddi Hvítá yfir bakka sína og yfir veginn. Vegurinn varð þó fær aftur á hádegi á laugardaginn. Einnig rann áin yfir bakka sina við Kljáfoss og varð efri leiðin einnig ófær um tíma. Nokkrar vegaskemmdir urðu í dölum Borgarfjarðar, en þær hafa verið lagfærðar til bráðabirgða. Þá flæddi Miðfjarðará yfir bakka sina og varð vegurinn ófær við Laugabakka. Þarna brotnuðu niður rafmagnsstaurar vegna íshröngls, og óttuðust menn um tíma að línan legðist niður á veginn. Svo fór þó ekki. Héraðsvötn í Skagafirði flæddu yfir bakka sína við Vallhólma, og þar varð ekki fært aftur fyrr en í gær. Um færð á vegum almennt í gær sagði starfsmaður Vegagerðarinnar, að allir vegir væru færir á Austurlandi, og allt vestur í Mýrdal. Veður var slæmt i Árnes og Rangárvallasýslum, en færð var þar sæmileg. Í gærmorgun þurfti að moka veginn yfir Hellisheiði, og einnig þurfti að moka snjó af vegum á Suðurnesjum. Greiðfært var fyrir Hvalfjörð, en erfið færð um fjallvegi á Snæfellsnesi. Fært var i Búðardal um Heydal. Frá Patreksfirði var fært til Bíldudals og á Barðaströnd. Fært var milli Þingeyrar og Flateyrar. Bæði Breiðdalsheiði og Botnsheiði voru ófærar. Fært var frá Ísafirði og inn í Djúp. Greiðfært var um Norðurland til Akureyrar, en ófært til Siglufjarðar. Í gær var verið að ryðja snjóskriðum af veginum um Ólafsfjarðarmúla. Stórum bílum var síðan fært allt frá Húsavik og til Vopnafjarðar um Melrakkasléttu.

GS Ísafirði — Jeppi, sem var á leið til Flateyrar á annan dag jóla, fauk út af veginum á Breiðadalsheiði. Jeppinn fór þrjár veltur en lenti í mjúkum snjó og er lítið skemmdur. Hins vegar rifbeinsbrotnaði kona sem var farþegi i jeppanum. Þá fór annar jeppi út af veginum skammt frá Krossinum í Bolungarvík, en i því tilviki urðu engin slys á mönnum. Sá jeppi er einnig litið skemmdur.

Tíminn segir meira af flóðunum 31.desember, en einnig af hríð daginn áður:

MÓ-Sveinsstöðum. Aðfaranótt laugardagsins 27. desember kom mikið flóð i Vatnsdalsá og var Vatnsdalurinn sem fjörður yfir að líta, og stóð ekkert land upp úr frá Skriðuvaði að Undirfelli. Flæddi yfir veginn hjá Hvammi, Flögu og Gilsstöðum. Tæplega 40 hross frá Hnjúki voru á engjum, og er leið á morguninn stóðu þau öll í vatni. Þar sem dýpst var, náði vatnið þeim á miðjar síður. Kalsaveður var á og 11 stiga frost, sem herti, er leið á daginn. Var miklum erfiðleikum bundið að bjarga hestunum úr vatninu, og stóð sá starfi fram undir kvöldið. Tókst að bjarga öllum hestunum, og er ekki að sjá að þeim hafi orðið meint af þessu volki. Að sögn Sigurðar Magnússonar, bónda á Hnjúki, eru þetta mestu vatnavextir, sem um getur í Vatnsdalnum. Áttu bændur á nokkrum bæjum heysátur á engjum og flaut vatnið undir þær.

FB-Reykjavík. Mikið hvassvirði af norðan gekk yfir landið í gær, og komst vindhraðinn upp i 9 til 10 vindstig fyrir norðan. Éljagangur var víðast hvar, en veðurfræðingur á Veðurstofunni bjóst við að veðrið færi heldur batnandi í dag. Ísfréttir bárust til Veðurstofunnar i gærmorgun. Var þá tilkynnt, að íshrafl væri á fjörum í Önundarfirði. Ekki var hægt um það að segja, hvort mikill is væri þar né annars staðar fyrir utan, þar sem ekkert skyggni var. Í síðasta ísflugi Landhelgisgæslunnar kom i ljós, að ísinn var nokkuð nær landi fyrir norðan, heldur en oft hefur verið áður um þetta leyti árs. Má því allt eins reikna með að hann reki upp að landinu, ef norðanáttin helst í einhvern tíma.

FB—Reykjavík — Um hádegisbilið i gær voru vegir viðast hvar á landinu orðnir — eða i þann veginn —að verða ófærir. Mjög seinfært var orðið í grennd við Reykjavík, og ófært vestur um allt land og vestur á Vestfirði, og síðan áfram um Norðurland og allt austur í Vopnafjörð. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var ráðgert að moka Holtavörðuheiði i dag, ef veður skánaði, en tækist það ekki yrði það ekki gert fyrr en á næsta ári. Í gær var verið að moka veginn frá Höfn um Almannaskarð og Lónsheiði, en annars voru allir fjallvegir á Austurlandi ófærir.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um árið 1975. Í viðhenginu eru ýmsar tölur, mánaðameðalhiti, úrkoma og fleira. Villur í yfirfærslu blaðatexta eru ritstjóra hungurdiska og er beðist velvirðingar á slíku. Ábendingar um villur vel þegnar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meðalhiti alþjóðavetrarins 2024-25 í byggðum landsins

Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska - fyrir forvitni sakir - reiknað meðalhita mánaðanna desember til febrúar. Þetta er sá tími sem Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur til vetrar á norðurhveli, styttri heldur en veturinn hér á landi þar sem mars er alltaf talinn með - enda er hann alloft kaldasti mánuður árs og vetrar hér á landi.

w-blogg030325ia 

Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1823 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,3 stig, um +0,1 stigi ofan við meðaltal síðustu tíu ára, en -0,1 stigi neðan meðaltals áranna 1991 til 2020, en hlýrri en undanfarnir þrír vetur.

Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,4 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 25. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil) á 79 árum.

En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 36 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar „tekið út“ meiri hlýnun en okkur „ber“ og talan orðið nær 30 - jafnvel lægri.

Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld.


Smávegis af febrúar

Febrúar var hlýr hér á landi, nokkuð vantaði þó upp á methlýindi. Mikil umskipti frá fyrra mánuði. Taflan sýnir hvernig hiti á spásvæðunum raðast. Taflan nær til 25 ára. 

w-blogg030325a

Að tiltölu var hlýjast við Faxaflóa þar sem þetta var næsthlýjasti febrúar á öldinni. Hlýrra var 2013. Á öðrum spásvæðum er algengast að hitinn raðist í 3. til 4. hlýjasta sæti aldarinnar. Að tiltölu var kaldast á Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem hiti raðast í 6. hlýjasta sæti aldarinnar, og í 5. sæti á Austurlandi að Glettingi. 

w-blogg030325b

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Hér á landi var þykktin 50 til 70 metrum yfir meðallagi, hiti var 2,5 til 3,5 stig ofan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs. 

Vestanáttin í háloftunum var nokkuð undir meðallagi, en sunnanáttin vel yfir meðallagi - eins og kortið sýnir. Sunnanáttin hefur þó þrisvar á þessari öld verið ámóta mikil í febrúar, það var 2023, 2018 og 2003. 


Hríðarveðrið mikla 12. til 15. janúar 1975

Tíð var erfið í janúar 1975, stórviðri tíð og sérlega mikil fannkoma. Lengsta illviðrið stóð linnulítið á fjórða sólarhring, dagana 12. til 15. Fannfergi var óvenjulegt, sérstaklega á Norður- og Austurlandi - og einnig var snjór til mikilla vandræða syðst á landinu, þótt sá snjór félli aðallega í öðrum veðrum mánaðarins. 

w-1975-01-12-500

Á 500 hPa hæðar- og þykktarkorti má sjá eðli veðursins. Lægðardrag kom yfir Grænland úr vestri og greip hlýtt loft sem kom að sunnan og lægð dýpkaði fyrir sunnan land. Eins og sjá má er vindur í miðju veðrahvolfi mjög hægur, en áttin þó suðlæg, var úr hásuðri fyrst, en síðan austlægari. Þykktarbratti er hins vegar gríðarlegur á milli hlýja loftsins úr suðaustri og mjög kaldrar tungu við Grænland. Hálendi Grænlands stíflar leið loftsins til vesturs og það verður að flæða í gríðarmiklum vindstreng til suðvesturs yfir Ísland - en í neðri hluta veðrahvolfs. Sést þetta glöggt af hinum gríðarmikla þykktarbratta yfir Íslandi. Jafnþykktarlínur liggja þar nánast hver við hlið annarrar, 3 stiga hitamunur á milli lita.  

Slide3

Við sjávarmál er þá norðaustanillviðri um land allt - og á hafinu fyrir norðan- og norðvestan land líka. Dæmigert norðaustanstífluveður knúið af hitamun í neðri hluta veðrahvolfs. Mikil úrkoma er austast á landinu þar sem hlýtt loft liggur ofan á því kalda. Kortið sýnir stöðuna á hádegi, sunnudaginn 12.janúar, fyrsta dag illviðrisins. 

Blöðin birtu langar frásagnir af gangi veðursins, fannkomu og ófærð, síðan einnig snjóflóðum. Veðrið skall á á sunnudegi þannig að fyrstu blaðafréttir komu á þriðja degi, þann 14. Við leyfum okkur að hnika stafsetningu á fáeinum stöðum, en styttingar eru ekki margar. Tíminn segir frá þann dag: 

Um miðjan dag í gær [13.] var veðurhæðin mjög víða 9 til 10 vindstig, og hafði verið í fyrrinótt og gærmorgun, bæði á og í kringum landið. Þessu veðri fylgdi mikil snjókoma fyrir norðan, og þar var frostið i kringum fimm stig, á Vestfjörðum fór frostið í 9 stig, en frostlaust var á Austfjörðum og á Suðausturlandi. Sunnanlands var „hríðarmoldroksmugga í lofti”, — eins og veðurfræðingur komst að orði við Tímann, en úrkomulaust að heita
mátti. Veðurfræðingur taldi, að veðrið færi heldur að ganga niður, enda var vindhraðinn þá kominn niður í 10 vindstig í Æðey úr tólf vindstigum fyrr í gærdag. Í dag var spáð talsvert mikilli norðanátt á landinu, þótt fari að draga úr mesta ofsanum. Einnig var búist við, að veðrið ætti eftir að geta orðið mjög slæmt á Austfjörðum ennþá, því að áttin væri slík.

Hjá vegagerðinni fengum við þær upplýsingar hjá Hjörleifi Ólafssyni, að fært hefði verið í gærdag um Suðurlandsundirlendið, um Hellisheiði og allt austur i Mýrdal. Dimmviðri hafði þó verið á Hellisheiði, en þrátt fyrir það talið fært þar yfir. Einnig var dimmviðri á Suðurnesjum, og ófært var i gær í Hafnirnar og suður í Garð, þó var aðalleiðin til Keflavikur, Sandgerðis og til Grindavikur fær. Það átti að heita fært upp i Borgarfjörð, þar sem ekki var snjór á veginum, en hins vegar var afspyrnu rok og þess vegna var mjög slæmt ferðaveður. Síðan mátti heita, að blindbylur og ófærð væri alls staðar annars staðar á landinu. Þó var sú undantekning, að á Patreksfirði var veðrið ekki sem verst, og í gær komust bilar milli Patreksfjarðar og Bíldudals. Hjá Landhelgisgæslunni fengum við þær upplýsingar, að með rokinu hefðu togarar af miðunum leitað vars undir Grænuhlið, og lægju þar nú í vari togarar af öllum þjóðernum og tegundum.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar i Reykjavik var umferð í borginni fremur róleg í gær og í fullu samræmi við veðurhaminn. Tafir urðu því litlar sem engar, og fremur rólegur dagur. Fólk hélt sig líka mest innanhúss, það sem fékk því viðkomið, en utan þeirra, sem ekki gátu hjá því komist að vera á ferli, má nefna það, að ekki gátu allir stillt sig um að kíkja á útsölurnar, en óveðrið feykti sumu fólki, sem á ferð var og munu í sumum tilfellum hafa hlotist af einhver meiðsl. Í Hafnarfirði gætti óveðursins ekki, þar var að heita mátti logn í gær og ekki snjókorn á flögri, hvað þá meir. Í Kópavogi gekk umferð með eðlilegum hætti og veður ekki tiltakanlega slæmt. Þó mun hafa losnað um húsþak á sunnudagskvöldið, en það var fljótlega njörvað rammlega niður. Í Grindavik var mikill snjór og mikið fjúk um helgina. Færð var slæm, svo að við lá að vegurinn þangað tepptist svo og umferð, en hefillinn bjargaði málum við, þótt oft mætti ekki miklu muna. Í Sandgerði var kófið svo mikið í gær, að naumast sást á milli húsa, og unnu þar 3 ruðningstæki að því að halda vegum opnum. Var fjúkið svo mikið, að á Miðnessneiðinni var því líkast sem ekið væri í gegnum snjóvegg. Þrátt fyrir erfiðleikana hefur verið unnt að halda vegum opnum, bæði til Keflavikur og út í Garð. Í Keflavík var næðingur og fjúk í gær, en vel fært um alla vegi og götur. Í fyrrinótt kom skuttogarinn Aðalvík inn í Keflavikurhöfn. Þótti vissara að hafa hann ekki i Njarðvíkurhöfn á stórstreyminu í gær. Á Akranesi var mikið fjúk og hvasst, en ekki var kunnugt um neitt tjón af völdum veðursins, er blaðið hafði samband við lögregluna þar í gær. Í Borgarnesi fengum við þær upplýsingar, að þar væri besta veður, en vitlaust veður allt í kring, og þyrfti ekki að fara langt út fyrir bæinn til þess að lenda í hinni verstu færð. Þá hefði líka fennt í grenndinni. Í Norðurárdalnum skóf harðfenni um helgina, svo að rúður brotnuðu í húsi þar, en um annað tjón var ekki kunnugt.

Til Stykkishólms komu engir bílar og engin mjólk í gær. Ekki festi þar mikinn snjó, en hins vegar hefur skafið mikið saman í skafla. Áætlunarbíllinn fór á sunnudaginn um Álftafjörð og suður Heydal en í gær var ekki búist við að Álftafjörðurinn væri fær, þótt það hefði ekki verið kannað. Síðari hluta föstudags skall vont veður á á Þingeyri og fór versnandi á laugardag, og einnig á sunnudag. Var þá hvöss austanátt og norðaustanátt. Aldrei var þó neitt stórviðri á Þingeyri, mest sjö vindstig, að sögn fréttaritara blaðsins þar. Snjókoma var þó talsvert mikil. Vegir tepptust minna i þessu veðri en oft áður, þar sem hvassviðrið var þó þetta mikið. Samt lokuðust vegir, og á mánudagsmorgun varð að fara á veghefli til þess að opna leið fyrir mjólkurbila og fyrir skólafólk, sem ekki komst í skóla á réttum tíma. Talsvert frost hefur verið, og í gær var níu stiga frost. Veður hefur verið mjög slæmt á Ísafirði frá því seinni hluta dags á laugardag, og þar hefur snjóað mikið. Fjöldinn allur af skipum liggur inni á Ísafirði, þar á meðal margir togarar, sem hafa fiskað ágætlega að undanförnu, en urðu nú að leita vars vegna veðurs. Á Ísafirði er nóg rafmagn, að sögn fréttaritara blaðsins, og þar hefur ekki þurft að fresta neinum skólum, „við erum svo vanir þessum byljum”, sagði hann. Veður hefur verið mjög slæmt nú um helgina á Hólmavik og þar í kring. Rafmagn hefur verið þar með skárra móti, en Hólmvíkingar hafa búið við rafmagnsskort frá því fyrir jól, en nú er komin þangað díselstöð, sem á að bæta nokkuð úr vandanum. Díselstöðin er hins vegar ekki nægilega aflmikil, og er spennufall mikið af þeim sökum, að sögn fréttaritara blaðsins á Hólmavik.

Ekki var hægt að ná sambandi við Hvammstanga í gær, en samkvæmt fréttum, sem okkur bárust frá Blönduósi var rafmagnslaust á Hvammstanga, og þar var síminn einnig i ólagi vegna rafmagnsleysisins. Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum sagði í viðtali við Tímann, að það væri mjög alvarlegt, að heilt þorp skyldi verða algjörlega sambandslaust við umheiminn vegna þess að rafmagnið færi af. Sagðist hann ekki vita til þess að rafvirkjar eða símaviðgerðarmenn væru búsettir á Hvammstanga, og enginn maður gat komist i gær frá Blönduósi til Hvammstanga til þess að lagfæra þar það sem aflaga hafði farið. Sæbjörn HU3 sökk i höfninni á Skagaströnd, vegna þess að mikil ísing hafði hlaðist á bátinn. Vöktuðu menn bátana í höfninni og hjuggu af þeim ísinguna eftir því sem hægt var, en veður var mjög slæmt á Skagaströnd. — Vonskuveður hefur verið hér í Húnavatnssýslum síðan á sunnudag sagði Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum. Geisaði fyrst stórhríð á Blönduósi, en náði ekki fram í dalina að ráði fyrr en á mánudag. Frést hefur af einhverjum rafmagnsbilunum i sýslunum, en þær fást ekki staðfestar hér fyrir norðan, heldur verður að afla slíkra upplýsinga hjá sérstökum starfsmanni Rafmagnsveitnanna i Reykjavik, — en það er kafli út af fyrir sig. Á Sauðárkróki hefur verið ofsarok á norðan og stórhríð undanfarna daga. Allt er ófært, og enginn bíll hafði komið til bæjarins í gær, þegar Tíminn hafði samband við fréttaritara sinn á staðnum. Sagði hann, að þetta væri versta veður á vetrinum, en ekki væri þó mikið frost.

Á Siglufirði voru skólar lokaðir í gær vegna veðurs. Veðurofsinn var mjög mikill í gær, og á sunnudaginn, höfðu menn vart komið út í aðra eins bylji, að sögn fréttaritarans. Snjórinn er ekki mikill, en skaflarnir aftur á móti óskaplegir. því allur snjórinn er kominn í skafla, og autt á milli. Skaflarnir eru viða orðnir jafnháir húsunum. Enginn snjór er í fjöllunum umhverfis Siglufjörð. Í gærkvöldi var heldur farið að lægja, en þó var enn iðulaus stórhríð. — Hér á Akureyri var leiðindaveður á sunnudag, en um kvöldið færðist veðrið mjög í aukana og síðan hefur verið hér nær iðulaus stórhríð og i verstu hviðunum er vindurinn um níu stig, sagði Árni Magnússon hjá Akureyrarlögreglunni í viðtali við Tímann i gær. Færð er mjög slæm og raunar ófært víðast hvar í bænum og allir vegir út frá Akureyri eru tepptir.

Hér hefur verið hið versta veður, sagði Ingimundur Hjálmarsson, fréttaritari Tímans, í Seyðisfirði, við blaðið i gær, og allt á kafi í snjó, en frostlaust að kalla. Á Selsstöðum, hér út með firðinum, var slíkt afspyrnuveður, að húsið skalf og nötraði. Við erum hér alveg innilokaðir, því að Fjarðarheiði er ófær og flugvöllurinn á kafi, og innanbæjar er ekki fært nema á snjóbilum. Margir síldarbátar hafa leitað hingað undan veðrinu. Undirbúa átti Hafsíldarverksmiðjuna fyrir bræðslu, en hún stendur sem kunnugt er á viðsjárverðum stað undir Bjólfinum. Tveir menn lögðu af stað þangað fótgangandi, en sneru við af ótta við, að snjóflóð kynni að koma. — Hér hefur verið alveg brjálað veður, og er ekki enn farið að ganga niður, sagði Benedikt Guttormsson, fréttaritari Tímans í Neskaupstað. Allt er hér ófært, og Bjartur hefur i heilan sólarhring verið hér fyrir utan og beðið færis að leggjast að bryggju. Dísarfellið biður þess einnig að komast upp að, en Börkur liggur við bryggju. Tvo báta rak upp i nýju höfninni fyrir fjarðarbotninum. Rafmagnslaust varð hér frammi í sveitinni á mánudagsnóttina, en viðgerð lauk, þegar kom fram á morguninn. — Reyðarfjörður er eins og eyja í óveðurshafi, sagði Marinó Sigurbjörnsson, fréttaritari Tímans þar. Þótt allt hafi ætlað af göflunum að ganga í kring um okkur, hefur hér verið logn með mikilli snjókomu, og er nýja snjólagið allt að hálfur metri. Ekki hefur verið lagt i að ryðja Fagradal, en hér í Reyðarfirði eru snjósleðar á þeytingi um allar trissur. Engin mjólk hefur borist hingað. Aftur á móti fóru jafnvel smábörn i skóla, þótt kennslu væri viða aflýst hér austan lands. Verið er að gera við rafmagnslínuna milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en hún liggur héðan upp á svokallaða Skessu og yfir Stuðlaheiði í átta til níu hundruð metra hæð yfir sjávarflöt. — Hér hefur verið blindbylur í tvo sólarhringa, og allir vegir á Héraði eru á kafi í snjó, sagði Jón Kristjánsson, fréttaritari Tímans á Egilsstöðum.Ekkert hefur verið ýtt af götum hér í þorpinu, og engin mjólk hefur borist úr sveitunum. Rafmagn höfum við haft hér um slóðir, en sjónvarpið brást á sunnudaginn og er endurvarpsstöðin á Gagnheiði enn biluð. Í Borgarfirði eystra mun vera rafmagnslaust í sveitinni vegna línubilunar. 

Við erum hér alveg innilokuð, sagði Símon Gunnarsson, fréttaritari Tímans í Vík í Mýrdal og snjórinn alveg óskaplegur. Ýtan okkar er biluð, en ýta frá Selfossi er á leið vestan yfir, bíður þess að komast suður, og læknirinn okkar, sem var meðal þeirra, sem urðu, fyrir mestum töfum á leið hingað á dögunum, er í þann veginn að tygja sig til ferðar á snjóbil til þess að vitja veiks manns í Álftaveri. Í Vestmannaeyjum var blankalogn, þegar við ræddum við lögregluna þar í gær. Töluverður snjór er í Eyjum, en ekkert snjóaði þar um helgina.

Vísir segir einnig frá 14.janúar:

Á Húsavík er nú eitt versta veður, sem menn muna eftir lengi, linnulaus stórhríð. Veður þetta hefur haldist frá því á aðfaranótt sunnudags, og er nú svo komið, að menn verða víða að grafa sig út úr húsum sínum,og komast vart á milli húsa sökum ófærðar. Skaflar nema víða við þakbrúnir. Ingvar sagði til dæmis, að snjóað hefði upp fyrir dyr og glugga i verslun hans, sem er til húsa á jarðhæð, og varð að loka versluninni i gær og aftur i dag vegna þessa. Og það hefur ekki skeð áður, síðan Ingvar tók við versluninni, en það var árið 1945. Skólar eru allir lokaðir og fólk er teppt á Húsavik. Engin mjólk hefur komið til bæjarins, en ekki er þó mjólkurleysi. Í mestu hviðunum sér ekki á milli húsa.

Tíminn heldur áfram 15.janúar:

ED—Akureyri. Óveðrinu slotaði ekki á Norðurlandi í gærdag. Alls staðar, þar sem samband náðist við menn, höfðu þeir þá sögu að segja, að snjókoman væri gífurleg og ófært um allt. Hið versta veður var enn í gærdag á Skagaströnd með snjókomu og snjór var þar orðinn gífurlegur, og allir vegir ófærir. Þar sökk 15 tonna bátur í höfninni eins og áður hefur verið skýrt frá í Tímanum, vegna ísingar, sem á hann hlóðst, og annar bátur var þar nær sokkinn á mánudagskvöldið af sömu orsökum. Sjómenn börðu þarna klaka af bátum sinum dag og nótt, þegar veðrið var hvað verst, og ísingin örust. Eitthvað mun hafa brotnað af rúðum í húsum á Skagaströnd, þegar veður var verst. Engin mjólk hafði í gær borist mjólkursamlaginu á Blönduósi síðan á föstudaginn, og í gær var enn hið versta veður. Tæplega var farandi á Blönduósi á milli húsa. Snjóbíll er i Vatnsdalnum, og hafa menn haft af honum mikið gagn. Öll umferð var teppt vegna snjóa á Sauðárkróki, og þangað hafa enn engir bílar komið frá því um helgi. Í gær var aðeins jeppafæri á einni götu bæjarins, og illfært þó. Hjá vegagerðinni á Akureyri fengust þær upplýsingar að enginn mjólkurbíll hefði komist til Akureyrar frá því um helgi, og ekki var útlit fyrir að bíll kæmist þangað með mjólk í gær. Eins og veðrið var í gær virtist ekki unnt að gera neitt á vegunum. Voru allir vegir út frá bænum ófærir öllum venjulegum bílum, og vegagerðarmenn voru í gær mikið á aðra klukkustund á leiðinni á vinnustað í gærmorgun, en höfðu þó tvo veghefla á undan sér. Aðsetur vegagerðarinnar er vestanvert við bæinn. Þá sagði yfirlögregluþjónninn á Akureyri í gær, að hann hefði ekki séð eins mikinn snjó síðan hann flutti á Ásveginn. Í nýlegum hverfum vestanvert í bænum eru skaflar jafnháir húsum. Allar samgöngur hafa því rofnað. Snjóbílar hafa verið í stöðugum ferðum, t.d. hafa tveir snjóbílar Baldurs Sigurðssonar verið á ferð síðustu sólarhringa og ennfremur snjóbíll Dúa Eðvaldssonar, og einnig koma vélsleðar sér vel þessa dagana.

Stórhríðarveður var enn á Húsavik í gær, og kominn geysilegur snjór. Garðarsbraut var rudd á mánudag og komu þá háir ruðningar. Fyllti á milli þeirra í fyrrinótt af snjó. Kunnur bilstjóri, Skarphéðinn Jónasson fór héðan fram i Reykjahverfi á mánudag með mjólkurbrúsa til bændanna, og enginn veit hvernig honum hefur reitt af að sækja brúsana aftur í gær. Mjólkurbíll var lagður af stað til Húsavikur í gær úr Aðaldal, en ekkert hafði frést af honum síðdegis í gær. Stórfenni var þá milli húsa á Húsavik og hafði fólk sjaldan séð meiri snjó. Á Dalvik var fannfergi orðið ótrúlega mikið, og ekki mun fólk alls staðar hafa komist fyrirhafnarlaust út úr húsum sinum í gærmorgun. Menn muna þar tæplega eftir öðru eins stórfenni, og enn var þar látlaus stórhríð i gærdag. Enginn vegarspotti var þar fær, né í nágrenni bæjarins. Mjólkurbílar, sem fóru af stað fram í sveit á sunnudag komust skammt, og urðu að snúa við, og við það situr. Í Hrísey var í gær kominn geysilega mikill snjór, og sá þá skrifstofufólk kaupfélagsins ekki út um neinn glugga, því að allt var þar á kafi i snjó. Menn sögðust þar reyndar hafa séð stærri skafla, en aldrei eins jafnfallinn snjó og jafnmikinn og er nú í Hrísey.

JK-Egilsstöðum. — Enn er blindbylur og mikil veðurhæð á Fljótsdalshéraði, og hefur víða hlaðist ákaflega mikill snjór á húsþök. Á Árbakka í Hróarstungu hefur fjárhúsþak sligast undan snjóþunganum ofan á féð, sem inni var, og orðið einhverju af því að fjörtjóni. Bóndi á Árbakka er Hafsteinn Kröyer, en ekki er vitað, fyrir hversu miklum fjárskaða hann hefur orðið, því að lítið hefur verið aðhafst vegna veðurofsans. Víðar á Héraði eru flöt og stór húsþök talin í hættu vegna snjóþungans á þeim, og er sums staðar farið að setja styttur undir þök stórra útihúsa til þess að styrkja þau. Þannig eru bændur á Egilsstöðum að slá stoðum undir þök fjóss og hlöðu, og hið sama hefur víðar verið gripið til bragðs.
Símabilanir eru þó nokkrar á Fljótsdalshéraði, og eru þess vegna óljósar eða alls engar spurnir úr sumum byggðarlögum, og vegir allir eru ófærir eins og gefur að skilja. Rafmagnslaust er uppi á Jökuldal, og ekki er kunnugt, hvað bilað hefur þar, en annars staðar mun rafmagn vera yfirleitt.

BS—Hvammstanga. Íbúar á Hvammstanga hafa verið rafmagnslausir frá því klukkan 10 á sunnudagskvöldið, og voru það enn kl.7 i gær. Nær rafmagnsleysið til Hvammstanga og Vatnsness, norðan Hvammstanga. Þá hafa Hvammstangabúar verið símasambandslausir frá því skömmu eftir að rafmagnið fór þar til um 6 i gær. Sjálfvirki síminn hefur verið úr sambandi vegna rafmagnsleysis, en á hinn bóginn hefur gengið ágætlega að ná sambandi frá símstöðinni sjálfri og út um sveitir. Á mánudaginn var reynt að sækja hér innan staðar, rafstöð, sem Vegagerð ríkisins á, en menn urðu frá að hverfa vegna veðurs. Síðan var aftur reynt á þriðjudagsmorgun. Var þá lagt af stað á stærsta veghefli staðarins, til þess að ná stöðinni, sem var rúman hálfan km frá símstöðinni. Lagt var upp kl.9 i morgun, og um fjögurleytið var fyrst hægt að fara að tengja hana. Eftir það komst fjölsíminn i samband. Ekki gátu menn þeir, sem voru að sækja stöðina komist heim í mat, vegna þess hve færðin var erfið, heldur fengu þeir hressingu i mjólkurstöðinni, vegna þess að mjólkurstöðin, slökkvistöðin og eitt búðarhús eru með rafmagn. Fólk hefur haldið sig að mestu innan dyra. Sumir hafa verið innifenntir, og ekki komist út, og ekki heldur getað haft samband við nágranna sina vegna símasambandsleysisins, til þess að biðja þá að moka sig út.

SS-Vopnafirði. Aftakaveður hefur verið á Vopnafirði frá því á laugardagskvöld, og hefur sett niður mikinn snjó. Allar götur í þorpinu eru ófærar, svo og vegir í nágrenninu. Mjólk hefur ekki borist hingað síðan á föstudag, og er nú mjólkurlaust. Snjóbíll átti að sækja mjólk á næstu bæi, en varð að snúa við sökum illviðris. Olíubirgðir eru nú á þrotum hér, og ekki er til olía nema til nokkurra daga. Í þessum veðurham hafa orðið verulegar skemmdir við höfnina, og er ekki séð fyrir þær enn. Saman hefur farið aftakabrim, svo að menn muna vart annað eins, og stórstraumsflóð. Brimið hefur rofið tvö skörð í hafnargarðinn, og óttast er, að sjórinn haldi áfram að brjóta garðinn, því að veður fer enn harðnandi. Þá hefur sjórinn brotið að mestu húseignir við gömlu hafskipabryggjuna, sem áður var söltunarstöðin Hafblik hf, en er nú i eigu kaupfélagsins. Einnig hefur sjór flætt inn í eina af vöruskemmum kaupfélagsins, þar sem m.a. voru geymdar fóðurvörubirgðir. Var unnið að því í gær, að bjarga fóðurvörunum. Var ekki vitað seint i gær, hversu miklar skemmdirnar voru. Þá hefur og margt annað gengið úr lagi við höfnina, sem ekki hefur verið hægt að kanna sökum illveðursins og brims, því að segja má, að allar bryggjur í höfninni séu á kafi í sjó. Ekki hefur frést um tjón á öðrum mannvirkjum á landi uppi. Úr sveitinni hafa nú verið heldur litlar fréttir, en ekki hefur frést um skaða. Þó hafa bændur átt í einhverjum örðugleikum við að fara til gegninga og dæmi eru um, að þeir hafi þurft að skríða milli húsa. Skólar hafa legið hér niðri, og börn úr heimavistarskólanum, sem keyrð voru heim á föstudagskvöld, hafa ekki komist aftur i skólann. Sjónvarp hefur ekki sést hér síðan á laugardag. Er það ekkert nýtt, því að ekki virðist mega koma snjókorn úr lofti, þá bilar stöðin á Gagnheiði, og er hún svo oft í ólagi dögum saman.

SJ-Reykjavik. Stórhríð hefur verið á Þórshöfn að heita má síðan 8. desember að sögn Óla Halldórssonar, fréttaritara okkar á Gunnarsstöðum. — Síðan á laugardag hefur veðrið verið sérstaklega vont og hefur ekki slotað enn, sagði Óli i símtali i gær. Ófært er á Þórshöfn og i nágrenni og fólk fer litið af bæ. Þó komast menn um á vélsleðum, ef brýn þörf er á. Síðan að ganga níu á þriðjudagsmorgun hafði verið rafmagnslaust á Þórshöfn, og sjónvarp hefur ekki sést þar síðan á laugardag. Í Holti skammt frá Þórshöfn var þak á hlöðu farið að gefa sig undan fannferginu, sem á því var. Réðust menn i að styrkja þakið, og gekk það vel. Háspennulinur á Þórshöfn eru nú i seilingarhæð, svo mikill er snjórinn. Foreldrar hafa verið beðnir að sjá um, að börn séu ekki að leik á sköflunum, þar sem þau gætu náð að snerta línurnar.

SJ-Reykjavik. Rafmagnslaust var á sunnanverðu Snæfellsnesi i gær og fyrrinótt. Það var þó ekki nýja háspennulinan, sem bilaði, heldur línur í sveitunum. Um miðjan dag var sums staðar kominn á straumur, en rafmagnslaust annars staðar. Menn frá Orkustofnun voru komnir vestur, en gátu litið að gert, því að ekki var stætt úti i veðrinu. Í Skagafirði var eitthvert straumleysi, að sögn Baldurs Helgasonar hjá Orkustofnun. Þar var einnig skammtað rafmagn. Í Dölum var einnig býsna víða rafmagnslaust, sennilega vegna bilana á línum af völdum storms og áfoks. Í Húnavatnssýslum var víða rafmagnslaust, svo sem i Vatnsdal, Langadal, Hvammstanga, Svínadal, Borðeyri að hluta og á Strandalínu frá Borðeyri. Á öllum þessum stöðum var það sameiginlegt að viðgerðarmenn gátu lítið að gert. Veðurofsinn var svo mikill, að skríða varð milli húsa. Snjókófið var það mikið að erfitt var að gera sér grein fyrir, hverjar bilanirnar i raun og veru voru. Þá er og mikill krapi i virkjunum, sem einnig dregur úr rafmagninu.

Flugskýli Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli brann í þessu veðri. Tíminn segir 15.janúar: „Ofsarok af norðri, allt upp í 11 vindstig, erfiðleikar við áð fá nægilegt vatn til slökkvistarfsins, eldfim klæðning í byggingunum sem eldurinn lék um“.

Morgunblaðið var með mjög ítarlegar fregnir af veðrinu þann 15.janúar:

Siglufirði, 13. janúar Í ofsaveðrinu, sem geisaði hér um helgina, urðu skemmdir á kirkju bæjarins. Stormurinn reif járn af þaki kirkjunnar að sunnanverðu og timburklæðningin undir járninu varð líka fyrir skemmdum. Það kom sér vel, að hér í bænum er sveit hraustra manna, Björgunarsveitin Strákar. — Til þeirra var leitað og björguðu þeir því, sem bjargað varð og forðuðu kirkjunni frá enn frekari skemmdum. Að vísu brotnaði einn hinna steindu glugga kirkjunnar, sem settir voru í nú í haust. Hér á Siglufirði sem öðrum norðlenskum bæjum er mikið vetrarríki með feikna fannfergi og ófærð. mj.

Stórviðri með gífurlegum fannburði geisaði í gær og hafði staðið nær óslitið síðan um helgi frá austanverðum Vestfjarðakjálka um Norðurland og suður á miðja Austfirði. Á Suður- og Vesturlandi var mikil veðurhæð en úrkomulaust víðast hvar. Morgunblaðið hafði í gær samband við fréttaritara sína í öllum landshlutum og fer lýsing þeirra á veðurfari og ástandi hér á eftir. Til sumra héraða var símasambandslaust og má þar t.d. nefna Vopnafjörð, Raufarhöfn og Kópasker. Eins og fram kemur hér á eftir er víða farið að bera á erfiðleikum vegna mjólkurskorts og á Borgarfirði eystra er einnig að verða skortur á helstu nauðsynjavörum. Snjófargið er víða ótrúlegt, svo sem t.d. á Akureyri, þar sem menn hafa leitast við af veikum mætti að halda helstu umferðargötum opnum með því að gera um þær traðir. Erfitt hefur þó reynst að halda tröðunum opnum, vegna þess hve ótt fýkur í þær. Traðirnar á Akureyri eru víða á jafnsléttu orðnar á fjórða metra á dýpt — eða eins og Sverrir Pálsson, fréttaritari Morgunblaðsins, sagði í gær: „Það trúir þessu enginn, sem ekki sér.“

Júlíus Þórðarson á Akranesi sagði að aftakaveður hefði verið þar í fyrrinótt, en í gær var heldur hægara. Engir skaðar urðu af veðri og Akraborgin hélt áætlun sinni og færð var góð um nágrennið. Rafmagn fór af á Akranesi í gær um hálfa klukkustund. Júlíus sagði, að oft og tíðum væri dágott veður í stífri norðanátt og teldu menn að Skarðsheiðin veitti skjól. Því sagði hann að skaplegt veður gæti verið á Akranesi, þótt skæfi duglega út báða firðina. Í fyrrinótt kvað Júlíus fólk hafa átt erfitt með svefn í húsum, sem voru áveðurs einkum í timburhúsum.

Borgarnes. Hörður Jóhannesson í Borgarnesi sagði að þar hefði verið hvassviðri, en ekkert hefði orðið að. Veðurhamurinn hefði ekki verið svo mikill sem lýsingar frá öðrum stöðum gæfu til kynna. Þó sagðist hann hafa frétt að vitlaust veður væri í Borgarfjarðarhéraði og mikið fannfergi á Snæfellsnesi og í Dölum.

Grundarfjörður Emil Magnússon í Grundarfirði sagði, að óveður það, sem gengið hefði yfir landið að undanförnu. hefði að litlu gætt í Grundarfirði, nema hvað mjólkurflutningar hefðu stöðvast úr Búðardal vegna ófærðar og veðrahams. Hefur mjólk ekki borist í þorpin á norðanverðu Snæfellsnesi í tvo daga. Ekki er vitað, hvort mjólk kemur í dag. Samgöngur í þorpinu hafa verið með eðlilegum hætti, en strax og komið hefur verið út fyrir þorpið hefur veðurhæðin verið miklu meiri og nánast stórviðri á köflum. Rafmagn sem við fáum frá Fossárvirkjun í Ölafsvik hefur ekki brugðist og kennsla í skólum aldrei fallið niður. Emil sagðist hafa haft tal af mönnum, sem fóru til Ólafsvíkur og komu aftur og sögðu þeir veginn snjólausan, en mikið rok eftir því sem utar dregur á nesið.

Kristjana Helgadóttir í Búðardal sagðist naumast sjá út úr gluggum fyrir stórhríð. Veðrið versnaði mjög í fyrrinótt þar vestra, um klukkan 02, og sagðist Kristjana geta trúað að veðurhæðin hefði komist í 11 til 12 vindstig. Um klukkan 04 lægði nokkuð aftur. Rafmagnslaust var í gær í Dölum og vegna veðurs voru viðgerðarmenn ekki sendir út. Var það mat manna að þeir myndu ekki geta athafnað sig í illviðrinu. Olíubílar og fleiri bílar, sem komu úr Reykjavík á sunnudag, eru enn veðurtepptir á Hörðubóli. Þá hafa truflanir verið á símasambandi og þegar Morgunblaðið ræddi við Kristjönu í gær var sambandið mjög slitrótt, en línan, sem samtalið fór um, var eina línan, sem þá var í lagi.

Hafsteinn Ólafsson í Fornahvammi sagði, að þar væri iðulaus stórhríð og var skyggni ekki nema um 3 metrar, er Morgunblaðið ræddi við hann á þriðja tímanum í gær. Þetta stórviðri sagði hann hafa staðið óslitið í tvo sólarhringa og þó hefði verið slæmt veður áður. Engir eru veðurtepptir á Holtavörðuheiði eða í Fornahvammi. Hafsteinn sagði, að þetta væri fimmti vetur sinn í Fornahvammi og sá langversti. Hann sagðist ekki hafa komist til þess að gefa hrossum sínum á sunnudag. Í fyrradag reyndi hann að komast í hesthúsin, en varð frá að hverfa vegna veðurs og sagði Hafsteinn að hann hreinlega þyrði ekki út í veðrið af ótta við að finna ekki húsið aftur. Sem dæmi um óveðrið sagði hann að kjallaradyr, sem stæðu áveðurs, hefðu opnast og hefði forstofa þar fyllst af snjó á augabragði. Þá sagði hann að snjór hefði komist í kyndiklefann hjá sér og slokknað hefði á kyndingunni, en honum hefði þó tekist að koma henni í gang á ný. „Hér er enginn á ferð,“ sagði Hafsteinn, „hér sést ekki einu sinni fugl.“

Páll Ágústsson á Patreksfirði sagði: — Hér er ljómandi gott veður, hægviðri og heiðskírt. Aftur á móti er stórviðri úti á miðunum. Þótt hér hafi verið smástrekkingur hefur ekkert verið það að veðri að í frásögur sé færandi og börn hafa sótt skóla eins og ekkert væri síðustu daga. Ekki hefur gefið á sjó vegna ísingar og roks þar úti. Rafmagn nóg og allt í sómanum.

Ragnheiður Ólafsdóttir, Tálknafirði, sagði að veður hefði verið vont og leiðinlegt, en ekki svo að vandræðum hefði valdið. — Það hefur verið rokhvasst og skafið og ekki gefið á sjó. Frost er varla meira en 6—7 stig. Flestir halda sig inni við og skóli hefur ekki verið í nokkra daga. Varastöð er hér á staðnum, svo að engin rafmagnsvandræði hafa verið. Nú virðist vera að skána og létta til. Aftur á móti er veðrið fyrir norðan okkur miklu verra enda skiptir yfirleitt um Arnarfjörðinn. Færð hefur verið dágóð, en þó mun í dag vera ófært héðan bæði til Patreksfjarðar og Bíldudals.

Ólafur Þórðarson á Ísafirði sagði að þar væri ekki hundi út sigandi, iðulaus stórhríð og hefði þetta veður staðið alveg frá því á föstudag. Í raun sagði hann að mikil ótíð hefði verið frá 27. desember með sæmilegu hléi í eina viku. Helstu götur voru mokaðar á Ísafirði í gær og myndaðir í þær gangar, en Ólafur sagði að erfitt reyndist að halda þeim opnum vegna fannkomu. Á Ísafirði lágu í höfn í gær 3 breskir togarar, 8 íslenskir svo og Brúarfoss. Undir Grænuhlíð lágu í gær 40 skip í vari, þar á meðal eitt af Fellum Sambandsins og annað var í vari í Aðalvík. Í mestu hviðunum sagði Ólafur að væru um 12 vindstig og kvað hann veðrið vera heldur verra síðdegis en það hefði verið í gærmorgun.

Magnús Gíslason á Stað í Hrútafirði sagði Morgunblaðinu eftirfarandi: Leiðindahríð hefur verið hér síðan í fyrradag, en fyrir hádegi í dag rofaði til nokkra stund. Nú sýnist vera að versna aftur. Veðurhæð hefur verið feiknaleg og skafið öðru hverju. Hingað kom þó bíll í gær frá Skálholtsvík á Ströndum, sem er um 40 km vegalengd og lét bílstjóri ekki illa af færðinni. Vafamál er þó hvort fært sé lengra og yfir Hrútafjarðarháls hefur enginn farið. Unglingar hafa ekki verið fluttir í skóla í dag vegna veðurs og ófærðar. Rafmagnsmál hafa verið í skínandi lagi og við höfum varla misst nokkuð nema um eina klukkustund í gær. Á Borðeyri aftur á móti hef ég fyrir satt að séu erfiðleikar að því leyti.

Allengi hefur verið algjörlega símasambandslaust við Hvammstanga. Rafmagn fór af á Hvammstanga á sunnudag og notast síminn i slíkum tilfellum við rafmagn frá rafgeymum. En þeir endast aðeins skamma hríð. Um fimmleytið í gær náði Morgunblaðið símasambandi við símstöðina á Hvammstanga. Þar var þá enn allt rafmagnslaust, nema símstöðin, sem hafði þá fengið að láni frá Vegagerð ríkisins litla dísilstöð. Var þá enn ekki unnt að tala við íbúa á Hvammstanga, vegna þess að rafgeymarnir höfðu ekki náð að hlaðast rafmagni að nýju. Símstöðin tjáði Morgunblaðinu, að ástandið þar væri mjög erfitt. Dísilstöð vegagerðarinnar hafi t.d. verið í um eins kílómetra fjarlægð frá símstöðinni og hefði það tekið starfsmenn símans um 7 klukkustundir að koma henni að símstöðinni, svo að hún gæti tengst símakerfinu. Óhemjusnjór er á Hvammstanga og ekki fært nema gangandi milli húsa. Einnig var þar svo mikið rok að menn réðu sér varla. Sú er þó bót í máli að á Hvammstanga er hitaveita og hlýtt í húsum. Í kvöld tókst Karli Sigurgeirssyni, fréttaritara Morgunblaðsins að ná símasambandi gegnum varastöðina stutta stund. Hann sagði að stórhríðin væri glórulaus og stytti aldrei upp. Ekki sæist einu sinni til þriggja báta úti á legunni þar sem skyggni væri aðeins örfáir metrar. Hann sagði að mannlíf væri í láginni og fólk sem minnst á ferli. Kaupfélagið hefði haft einhverja vakt í verslun sinni, en aðrar verslanir væru ekki opnar, enda væri færðin slík að veghefill hefði verið margar klukkustundir að komast í gegnum þorpið til að ná i varastöðina.

Guðjón Sigurðsson á Sauðárkróki, sagði að fannfergi væri þar mikið og rétt jeppafært um götur. Í dag hefur gengið á með snörpum éljum, en þó er vindur ívið hægari en í gær. Alls staðar er ófært í nágrannasveitum. Í gær, mánudag, bárust um 200 l af mjólk til bæjarins frá Áshildarholti sem er hér skammt frá kaupstaðnum. Að óbreyttu veðurfari verður ekki mokað strax. Hver verður því að vera þar sem hann er kominn. Þetta mikla fannfergi veldur bændum óskaplegum vandræðum, því að þeir hafa engin tök á að geyma mjólkina nema um skamma hríð og á morgun er hætt við að mjólkurskortur hér fari að gera vart við sig. Tvö Sambandsskip voru á leið hingað með vörur en liggja nú í vari undir Grænuhlið og treysta sér ekki áfram. Ekki hef ég heyrt um neina skaða né skemmdir, hvorki úr sveitunum né héðan, sagði Guðjón að lokum.

Fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði, Matthías Jóhannsson, sagði: Það birti aðeins upp aðfararnótt þriðjudags og var sæmilegt veður í morgun, en nú er skollin á norðaustan stórhríð aftur. Eru nú hér um 8—9 vindstig, en frostlítið. Skólar og barnaheimili voru lokuð í gær, en starfa í dag. Mjólkurlaust er í bænum og báturinn, sem átti að koma í dag, kemur ekki vegna þess, að enga mjólk var að hafa frá Akureyri. Rafmagn hefur verið nægjanlegt í bænum og sama máli mun gegna um Ólafsfjörð. Við höfum meira að segja umframorku, ef lína væri fyrir hendi. Fólk er hér orðið þreytt á þessu leiðinlega tíðarfari, sem hefur verið afleitt síðan fyrir jól eftir afbragðsgott haust.

Jakob Ágústsson á Ólafsfirði sagði að allt frá 8. desember væri búið að vera þar erfitt og slæmt tíðarfar, stórviðri og snjókoma. Síðastliðinn sunnudag hófst stórhríð, sem geisað hefur síðan og eru allar samgöngur gjörsamlega útilokaðar. Hefur hvorki komið farartæki til Ólafsfjarðar á láði né legi síðan á fimmtudag er Flóabáturinn Drangur kom þangað. A föstudag var byrjað að ryðja Múlaveg og var það verk langt komið, þegar stórhríðin brast á. Ekkert sagði Jakob að orðið hefði að í þessu stórviðri. Hins vegar sagði hann að gífurlegt brim væri á Ólafsfirði og myndu elstu menn ekki annað eins. Í verstu ólögunum er hafnargarðurinn þar á kafi í sjó.

Sigurður Finnbogason í Hrísey sagði að veður þar væri heldur leiðinlegt og hefði verið þannig að undanförnu. Ekki var þar afspyrnuveður í gær, en snjór væri gífurlegur og kvaðst hann ekki muna annað eins. „Venjuleg hús eru alveg komin á kaf,“ sagði Sigurður og giskaði á að snjór á götum væri um það bil hálfur annar metri á dýpt. Mun meiri dýpt væri þó í sköflum. Engir skaðar hafa orðið af völdum veðursins. Rafmagn í Hrísey hefur verið heldur stopult, en dísilstöð er á staðnum, svo að fólk hefur alltaf getað haft hita. Hins vegar hefur verið lítið um ljós og sitja Hríseyingar aðallega við kertaljós þessa daga. Þó var í gær rafmagn í Hrísey frá Laxárvirkjun, þótt rafmagnslaust hafi orðið þar tvisvar í gær, en þó aðeins í stuttan tíma, 20 mínútur i hvort sinn.

Sverrir Pálsson á Akureyri sagði að ástandið á Akureyri væri heldur rólegt. Akureyringar væru lukkulegir og í senn undrandi yfir að hafa nú heldur truflanalítið rafmagn. Umferð um Akureyrarbæ liggur að mestu niðri, nema hvað menn reyna að brjótast um fótgangandi eftir helstu nauðsynjum. Kafhlaup er í flestum götum og fanndýpt ótrúleg. Sverrir sagði að menn hefðu reynt að mynda einfaldar traðir eftir helstu götum, en erfitt hefði verið að halda þeim opnum, því að ótt fyki í þær á ný. Þessar grafir eru á jafnsléttu orðnar á fjórða metra að dýpt og sagði Sverrir að þessu tryði enginn, nema sá sem sæi. „Ég óð eða klofaðist hér um götuna fyrir framan hús mitt áðan,“ sagði Sverrir Pálsson, „og þar sem ég stóð á götunni sá ég að glitti fyrir neðan mig á eitthvað, sem reyndist vera toppgrind á bíl nágranna míns.“ Sverrir sagði að skaflar væru orðnir jafnháir einlyftum húsum og menn kæmust ekki út án utanaðkomandi aðstoðar. Hins vegar sagði Sverrir að allt væri í lagi á Akureyri á meðan fólk hefði bæði hita og ljós. „Á meðan svo er eru menn rólegir.“ Skólahald var ekkert á Akureyri í gær og ákveðið hefur verið að kennsla falli niður þar I dag. Flugbjörgunarsveitin á Akureyri hefur haldið uppi sjúkraflutningum í ófærðinni og hefur hún notað til þess bíl með drifi á öllum hjólum. Hefur hann komist þessar götur, sem reynt hefur verið að mynda í traðir, en annað verður að bera sjúklingana. Þá hefur snjóbíll verið notaður til þess að annast sjúkraflutninga út í sveitir. Sverrir Pálsson sagði að á Akureyri væri geysilegur fannburður, skafrenningur og kóf. Hins vegar var lítið frost og um hádegið rétt glóraði í moldinni og héldu þá menn að eitthvað ætlaði að rofa til. Sú von brást. Á Akureyri eru yfirleitt engir á ferli. Sverrir sagði að kaupmaður einn, sem hann hefði hitt, hefði sagst hafa haft mjög náðuga daga undanfarið og hefði hann ekki lesið eins mikið á eins skömmum tíma í 25 ár.

Alfreð Jónsson í Grímsey sagði að þar gengi allt ljómandi vel. Og eiginlega er sæmilegasta veður. Hann hefur jú lamið í 10—12 vindstigum í gær og dag, en úrkomulaust hefur verið að kalla og snjó skefur burt jafnóðum. Hér amar ekki neitt að neinum. Við höfum ekki komist á sjó síðan 6. desember, því að sífelldir umhleypingar hafa verið allar götur síðan. En mannlífið gengur sinn góða gang og hver unir við sitt. Við höfum fengið mjólk frá Akureyri og það hefur gengið skrykkjalítið. Sömuleiðis hefur flug verið í allgóðu lagi, en ekki hefur verið flogið allra síðustu daga. Menn vinna hér við að dytta að veiðarfærum og undirbúa vertíðina. Aðrir vinna við félagsheimilið, sem við vonumst til að ljúka við fyrir páska. Þá sláum við þessu öllu upp í grín og förum bara að dansa.

Sigurður P. Björnsson á Húsavík sagði við Morgunblaðið: Hér er áframhaldandi stórhríð, veðurhæð hefur verið mikil, svo að viða hefur dregið í stóra skafla. En vonir standa til þess að þjóðvegirnir geti verið dálítið auðir með köflum, vegna þess hve veðurhæðin hefur verið mikil. Mjólkurbíll kom í dag úr Aðaldal og var aðalvegurinn, sem er nýlegur og töluvert hár, að mestu auður, allt undir bæinn, en þá mætti honum fyrst veruleg fyrirstaða i Kaldbaksleiti og komu heflar honum þar til aðstoðar, en þeir hafa aðeins haldið opinni aðalgötu bæjarins. Reykdælir, Kinnungar og Mývetningar hafa ekkert getað rótað sér og i þeim sveitum horfir víða til vandræða ef ekki birtir fljótlega, því að margir eru búnir að fylla sina mjólkurbrúsa. Símalínur eru eitt hvað slitnar en sambandið er lengst til Leirhafnar, en ekkert samband við Raufarhöfn og þar fyrir austan. Erfitt hefur verið fyrir kvenfólk að mæta til vinnu, vegna veðurofsa og ófærðar um bæinn og bæjarlífið gengur ekki sinn vanagang, því að hver sem getur heldur sig heima. Skólar hafa ekki starfað síðan á föstudag og barnaheimili er lokað. öllum mannfagnaði hefur verið frestað um sinn.

Sr. Sverrir Haraldsson í Borgarfirði eystra sagði: Hér er öskubylur nánast allan sólarhringinn og ófært um allt nema um þorpsgötuna. Í sveitinni hefur verið rafmagnslaust í nokkra daga, en hér í þorpinu fáum við rafmagn frá díselmótor. Sjónvarp hefur verið bilað svo dögum skiptir og útvarp tekur út langtímum saman. Við eigum að fá mjólk frá Egilsstöðum, en nú er langt um liðið síðan við fengum mjólk og nauðsynjavörur { kaupfélaginu eru á þrotum. Við erum algerlega einangruð, því að hvorki er hægt að komast hingað landleið né i lofti. Ekki verður ýtt fyrr en verður lagast og sem stendur er flugvöllurinn á kafi i snjó. Fólk er orðið langþreytt á tíðarfarinu, enda hefur það verið á þessa lund síðan löngu fyrir jól. Læknir hefur ekki komist hingað síðan í byrjun desember, en hann á að vera hér hálfs mánaðarlega. Mundi skapast erfitt ástand ef einhver yrði alvarlega sjúkur. Hugsanlegt er að hingað megi brjótast á snjósleða en snjóbíll kemst ekki hingað eins og er. Þrátt fyrir þetta liggur félagslíf ekki alveg niðri. Verið er að undirbúa þorrablót af krafti og hingað er nýkominn Hörður Torfason, sem er að setja upp leikritið „Á útleið" með félögum úr leikfélaginu Vöku. Við búumst við að það verði frumsýnt i febrúar og vonumst til að geta farið með það um firðina þegar þar að kemur.

visir_1975-01-17_snjor_egilsstadir

Myndinni er nappað úr Vísi - hún sýnir fannfergi við Egilsstaðabæinn en víða féllu hús vegna snjóþunga. Myndasmiðs er ekki getið. En Morgunblaðið heldur áfram:

Steinþór Eiríksson á Egilsstöðum sagði að þar væri moldbylur og botnlaus stórhríð. Veður var þar allgott í gærmorgun, en versnaði þegar á leið daginn og um hádegi var veður orðið vont. Frost var lítið, um eitt stig. Steinþór nefndi sem dæmi um ástandið, að á Eiðum væri aðeins unnt að komast út úr símstöðinni, sem er í tveggja hæða húsi, með því að skríða út um glugga á efri hæð. Í fyrradag tók það fjórar klukkustundir að grafa göng að dyrum hússins. Á götum á Egilsstöðum voru áður en þetta veður gerði um 2ja metra snjógöng, en nú eru þau öll orðin full og slétt yfir. „Ég man ekki eftir annarri eins snjókomu þau 30 ár, sem ég hefi verið hér.“ Steinþór sagði að veturinn 1950 til 1951 hefði kannski verið jafn snjóþungur, en þá hefði hlaðið niður á miklu lengri tíma. Steinþór sagðist hafa heyrt í útvarpi í gær, að erfiðleikar væru þar eystra með þungaflutninga, þar eð snjóbílar gætu ekki borið slíkt. Hann gat þess að 1950 hefðu Héraðsbúar notast við sérstaka sleða og á þeim hefði verið unnt að flytja allt að 12 tonn. Voru sleðarnir dregnir af jarðýtum. Kvað hann nú ekkert til fyrirstöðu að unnt væri að flytja um 30 tonn á slíkum sleðum. Þegar við ræddum við Steinþór var iðulaus stórhríð á Egilsstöðum og sá hann aðeins grilla í næstu hús. Steinþór sagði að Egilsstaðabúar hefðu alltaf haft rafmagn i þessum veðurofsa og kvað hann það einkum að þakka rafveitustjóranum, Erling Garðar Jónassyni, sem væri harðduglegur og sagðist Steinþór efast um, að aðrir hefðu haldið rafstöðinni gangandi eins og hann hefði gert.

Ævar Auðbjörnsson á Eskifirði sagði að Eskfirðingar hefðu að mestu sloppið við óveðrið sem geisað hefur f nágrannasveitum. — Hér er þó gífurlega mikill snjór, en logn hefur verið í marga daga. Ófært er um götur og að sjálfsögðu bæði á Reyðarfjörð og Neskaupstað. Snjór nær langt upp á húsgafla og bílar eru á kafi. Ég man í fljótu bragði ekki eftir svona miklum snjóþyngslum.

Samkvæmt upplýsingum Unnar Jónsdóttur á Djúpavogi var veður þar ekki mjög vont, en ófærð þar eystra er mjög mikil. Mjólkurbíllinn, sem sækir mjólk í Álftafjörð, á Berufjarðarströnd og í Breiðdal, komst ekki í fyrradag og í gær ferða sinna fyrir ófærð og sagði Unnur að ef eins yrði í dag, myndi byrja að bera á mjólkurskorti á Djúpavogi. Ófært hefur verið yfir Lónsheiði til Hornafjarðar í heila viku. Alla jafna er heiðin rudd á þriðjudögum, en sökum veðurs treysti Vegagerðin sér ekki til þess að ryðja snjó af heiðinni nú. A Djúpavogi var í gær snjófjúk, og ekki mjög hvasst.

Elías Jónsson á Höfn í Hornafirði sagði að tíðarfar hefði verið mjög rysjótt að undanförnu. Í fyrradag var Elías staddur i Öræfum og hafði þá verið veðurtepptur þar í einn dag. Braust hann síðan til Hafnar og lenti í ofsaveðri á leiðinni og var skyggni á stundum aðeins um 50 metrar. Einkum var vont veður á Breiðamerkursandi. Vegir rétt utan við Höfn hafa verið að lokast annað slagið og ófært var á Mýrar og út nesið í Lón. Hefur snjó af vegunum verið rutt, en aftur skeflir í. Annars er sumarfæri á Mýrum og sæmileg færð í Suðursveit. Í gær byrjaði að skafa upp úr miðjum degi. Elías sagði að leiðindaveður væri þar um slóðir, hvasst, en engin ofanhríð. Hins vegar sagði hann að töluvert skæfi.

Markús Jónsson á Borgareyrum undir Eyjafjöllum sagði að þar um slóðir væri ofsaveður og hvínandi rok. Þar var engin snjókoma síðdegis í gær, en Markús sagði að sér sýndist snjókoma vera við Merkurbæina og á Markarfljótseyrum ryki sandurinn mjög. Markús sagðist hafa talað við mann, sem hefði verið á ferð um Rangárvelli og var þar þá svo mikið sandrok, að varla sá út úr augum. Ekki sagðist Markús muna aðra eins tíð og verið hefði að undanförnu og sagði hann að hús stæðu, þar sem þau væru vel gerð. Hann sagði að ávallt væri mikill stormur en síðan gengi á með hviðum og væri þá mikill ofsi í veðrinu. Rifi veðrið steinvölur og annað sem lægi við rót.

Jón Þorgilsson á Hellu sagði að þar væri auð jörð og hefði ekki verið undan snjóþyngslum þar að kvarta. — Hvassviðri hefur verið undanfarnar vikur, svo til samfleytt og farið í tíu tólf vindstig. Þó er ég ekki frá því að veðrið hafi heldur gengið niður í dag. Moldrok hefur verið mjög mikið, en ekkert að færð, mjólkurflutningar ganga þar af leiðandi eðlilega fyrir sig, svo og aðrar ferðir um þessar slóðir.

Björn Erlendsson í Skálholti sagði, að þar hefði verið ofsarok í 3 sólarhringa, en þar væri enginn snjór og væri færð sæmileg, þótt talsverð hálka væri á vegum. Ekki kvaðst Björn hafa frétt um neinar teljandi skemmdir, nema á Espiflöt í Reykholtshverfi, sem er í nágrenni Aratungu. Þar fauk gróðurhús Eiríks Sælands, garðyrkjubónda, og mun tjón hans hafa orðið talsvert. Sagði Björn, að leifar hússins væru á víð og dreif um nágrennið. Eiríkur Sæland tjáði Morgunblaðinu, að þakið hefði farið af húsinu i einu lagi klukkan tæplega 07 í gærmorgun. Húsið var fremur lítið, um 100 fermetrar, og í því voru blóm, sem tókst að koma fyrir í öðru húsi, hvernig sem tekst svo til með þau. Þakið rifnaði upp úr steypunni, en húsið var svokallað uppeldishús með 3ja metra háum steinvegg að norðanverðu. Ekkert sér nú af húsinu — sagði Eiríkur, sem þeyttist út í veður og vind. Veðurhæðin var mikil, þegar húsið fór, og ekki stætt — sagði Eiríkur.

Snjólaust var í gær á Selfossi, en hvassviðri mikið. Tómas Jónsson, fréttaritari Morgunblaðsins og lögregluvarðstjóri, sagðist ekki hafa frétt af neinum teljandi sköðum vegna veðursins.

Óskar Magnússon á Eyrarbakka sagði að sem betur færi væri ástand mála þar um slóðir þolanlegt. Þar var ofsarok, en enginn snjór. „Um helgina fengum við þann snjó, sem var í Flóanum, yfir okkur og fylltust þá allar götur af snjó. Það mokuðum við á sunnudag og er nú hér auð jörð og engin snjókoma,“ sagði Óskar. Óskar sagði að rokið væri það mikið, að ekki hefði verið talið fært að minnstu börnin sæktu skóla í gær og var því gefið frí í barnaskólanum á Eyrarbakka. Engar skemmdir hafa orðið á Eyrarbakka af völdum veðursins að þessu sinni, en eins og menn rekur minni til skemmdust tveir bátar Eyrbekkinga í áhlaupi, sem gerði fyrir nokkrum vikum. Eru báðir bátarnir nú komnir til Njarðvíkur, þar sem annar er kominn í slipp, en hinn biður þess að komast þar að. Í sumar brann Eyrarbakkabáturinn Hafrún, en eigendur bátsins er nú um þessar mundir að kaupa tvo aðra báta í stað þess, sem brann.

Guðfinnur Bergsson í Grindavík sagði að þar væri að vísu hvassviðri, en þessi átt sem var í gær er ekki sú versta i Grindavík. Engin sjókoma var í Grindavík og færð góð. Menn þar syðra eru nú sem óðast að undirbúa vertíð.

Tíminn segir af ástandi á Raufarhöfn í pistli þann 16.:

Neyðarástand vofir nú yfir á Raufarhöfn, og er olía að ganga þar alveg til þurrðar. Reynt hefur verið að safna saman slöttum til þess að geta yljað hús og haldið dísilstöðinni gangandi. En slíkt hrekkur skammt og frestar aðeins vandræðaástandi örskamma stund. Ýmsar vörutegundir eru á þrotum i þorpinu, en langalvarlegast er olíuleysið. Rætist ekki úr því, verða þorpsbúar að hírast í myrkri og kulda, þar til olíuskip kemur. Skuttogarinn Rauðinúpur, sem væntanlegur er til hafnar innan skamms, mun ekki heldur komast á veiðar á ný, nema olía fáist.

w-1975islkort-1975-01-14

Kortið að ofan sýnir veðrið kl.18 þriðjudaginn 14. janúar, en þá var það um það bil í hámarki. Takið eftir því að aðeins 100 metra skyggni er í skafbyl í Síðumúla í Borgarfirði og eins á Kirkjubæjarklaustri. Þess má geta að ritstjóri hungurdiska var staddur í Borgarnesi í veðrinu og sá þá Borgarfjörðin allan hvítskafa, en það er mjög óvenjulegt í norðaustanátt þar um slóðir - þótt særok sé algengt á firðinum í suðlægum og vestlægum áttum. 

Slide4

Meginkortið gildir á sama tíma. Seinni illviðrislægðin er milli Íslands og Færeyja, fer norðaustur og fór úr þessu að grynnast og veðrið gekk þá niður. Daginn eftir var það mun skaplegra. 

Þegar veðrinu fór að slota bárust fregnir af fjölmörgum snjóflóðum, mörgum mjög stórum. Líklegt er að flóðin hafi orðið miklu fleiri en hér er greint frá. 

Tíminn segir frá 16.janúar - snjóflóðafréttir og fréttir af hruni húsa vegna snjóþunga:

FB—Reykjavik. Snjóflóð hefur fallið á síldarbræðsluna Hafsíld á Seyðisfirði. Talið er líklegt, að snjóflóðið hafi fallið aðfaranótt miðvikudagsins, en ekki er þó vitað nákvæmlega um það. Skemmdir eru miklar að sögn Kristins Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra verksmiðjunnar, en hann gat ekki í gærkvöldi gert sér neina grein fyrir því, hversu miklar þær væru. Afkastageta verksmiðjunnar var um 3-400 lestir á sólarhring, og er illt í efni, að önnur bræðsla á Austfjörðum skuli nú vera óstarfhæf í upphafi vertíðar. Kristinn sagði i viðtali við Tímann, að engir hefðu verið hafðir við vinnu i verksmiðjunni undanfarna daga. Þar væri ekki haft fólk, þegar „menn vissu ekki hvað væri fyrir ofan þá”, eins og hann komst að orði, en Hafsíld stendur norðan við Seyðisfjörð, beint á móti Ríkisverksmiðjunum, undir svokölluðum Háubökkum. Kristinn sagðist hafa verið i verksmiðjunni á mánudagskvöldið, og þá hefði verið þar allt með kyrrum kjörum. Hann kom svo aftur i verksmiðjuna um klukkan eitt í gærdag, og sá þá, hvað gerst hafði. Snjóflóðið hefur ekki verið mikið, að sögn Kristins, þrátt fyrir það, að það hafi valdið miklu tjóni. Hann sagði, að það hefði brotið niður tvær-þrjár sperrur í verksmiðjuþakinu og liggur nú yfir þurrkurunum. Skemmdir eru enn ókannaðar, og ómögulegt um þær að segja, að svo komnu máli. Erfitt getur reynst að moka snjónum út úr verksmiðjunni, því engum tækjum verður þar við komið. Þar við bætist svo, að allt er á kafi i snjó og ekki nema jarðýtur, sem komast leiðar sinnar og svo snjóbílar, en af þeim er ekki nema einn til staðar. Kristinn sagðist ekki geta sagt um það, að svo komnu máli, hvaða áhrif þetta snjóflóð ætti eftir að hafa nú í upphafi loðnuvertíðar, en hann sagði, að allt yrði gert til þess að koma verksmiðjunni í gang sem fyrst.

Skömmu eftir hádegi í gær féll afarmikið snjóflóð i Óslandshlið, sem gengur til norðurs frá mynni Kolbeinsdals við austanverðan Skagafjörð. Kom það úr Hlíðarfjalli, sem þó er ekki sérlega bratt, tók sig upp við fjallsbrún og hljóp niður á láglendi á þriggja kílómetra kafla á að giska. Hér hefur verið látlaus hríð síðan á sunnudagsnótt, sagði Þóra Kristjánsdóttir, húsfreyja á Óslandi, er Tíminn ræddi við hana i gær, og það er fyrst i dag, að farið er að rofa. Ekkert hefur því sést til fjallsins, en vafalaust hefur safnast þar fyrir óskapleg hengja. Ég er borin og barnfædd á þessum slóðum, og ég hef aldrei heyrt fyrr um snjóflóð á þessum stað. — Ég sá ekki, þegar flóðið kom, sagði Þóra enn fremur, en menn urðu þess varir hér á öðrum bæjum i grenndinni. Það mun hafa farið yfir landjaðra — Óslands, Melstaðar, Marbælis og Kross. Hvorki urðu fyrir því hús né skepnur, en það hefur vafalaust brotið mikið af girðingum, og sums staðar fór það heim á tún — einkum á Marbæli og eyðibýli, sem er hér skammt undan og tilheyrir Óslandi. Frá Sauðárkróki frétti Tíminn, að ummerki flóðsins hefðu sést þaðan síðdegis i gær, áður en dimmdi, en þaðan eru sem næst tuttugu kílómetrar i beina linu skáhallt yfir botn Skagafjarðar.

JK-Egilsstöðum — Hér á Fljótsdalshéraði er nú mesti snjór, sem komið hefur í mörg ár, og þarf að leita langt aftur til að finna annan slíkan vetur. Aðalerfiðleikarnir, sem af fannferginu stafa, eru þar sem skeflir á þök, en þá er hætta á að þau gefi sig undan farginu. Viða hafa þök bilað. Í gær fóru þök inn á fjárhúsum að Árbakka í Hróarstungu og Ormsstöðum í Eiðaþinghá, og varð mjög mikið tjón á báðum bæjunum. Að Fljótsbakka í Eiðaþinghá var þak að sligast inn, en mokað var af því og reynt að styrkja það. Víða hefur verið mokað af þökum húsa og rekið undir þau. Mokað var af fjósi og hlöðu á Egilsstaðabúinu á mánudag og þriðjudag. Í fyrrinótt var vegurinn þaðan inn i kauptúnið ruddur með jarðýtu, og var það mjög mikið verk þótt um skamma vegalengd sé hér að ræða, nokkur hundruð metra. Egilsstaðabúar fengu i gærmorgun mjólk þaðan, sem nægir fyrir þorpið. Að öðru leyti eru allir vegir útfrá Egilsstöðum og innan þorpsins ófærir bílum og illfærir gangandi fólki. Skaflar eru geysilegir og berrifið á milli, enda var veðurhæðin mikil. Iðulaus stórhríð skall á aðfaranótt sunnudags, sem stóð þangað til i gærmorgun, og náði hámarki á þriðjudagskvöld. Íbúar Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Seyðisfjarðar eru mjólkurlausir og hafa verið síðan á föstudag. Símabilanir hafa verið nokkrar á Fljótsdalshéraði og i nágrenni, og sömuleiðis rafmagnsbilanir, en þó tiltölulega litlar miðað við veðurofsann. Í gærmorgun birti og lægði á Egilsstöðum, og í gær var þar éljagangur. Verið var að moka frá skólanum, en kennsla var enn ekki hafin. Margar byggingar voru á svartakafi, m.a. bensín- og olíutankar kaupfélagsins og söluskáli, og var ýtt frá þeim i gær til þess að ná i eldsneyti á bíla.

Mikið ófremdarástand hefur ríkt í Vík í Mýrdal að undanförnu vegna þess eins og víðar á landinu, hversu snjónum hefur kyngt niður. Um tíma voru allir vegir þar eystra ófærir ... eru skaflarnir sums staðar margra metra djúpir, bílar eru á kafi og víða eru íbúðarhús að miklu eða öllu leyti á kafi.

SJ-Reykjavík. Aðfaranótt þriðjudags féll snjóflóð á tvenn fjárhús og hlöðu að Ljótsstöðum á Höfðaströnd, skammt frá mynni Unadals. 87 kindur voru í húsunum, og seinnihluta dags í gær hafði tekist að bjarga um 20 kindum og talið víst, að fleiri væri ekki lifandi i rústunum. Hús og fénaður voru óvátryggð, og er þetta áfall mikið fjárhagslegt tjón fyrir bóndann að Ljótsstöðum, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, og fjölskyldu hans. Sex manns er í heimili á bænum. Einnig var talið, að heyið í hlöðunni hefði glatast að mestu. — Við fundum nokkrar kindur lifandi i dag, sagði Sveinbjörn  þegar við töluðum við hann í síma í gær. — Snjóflóðið féll einhvern tíma í fyrrinótt, við vitum ekki hvenær. Ég varð þess var hvernig komið var, þegar ég fór í húsin um morguninn. Alltaf þriggja metra snjór var ofan á öllum húsunum. Þá fór snjóflóðið ofan á önnur fjárhús, sem standa neðar, og setti þau á kaf, en þar skemmdust hvorki mannvirki né fénaður. Aðeins einn maður af næsta bæ komst til hjálpar á þriðjudag vegna veðurs, en þá tókst að bjarga um tíu kindum. Í gær voru 14-15 manns af nágrannabæjum og frá Hofsósi til aðstoðar heimilisfólki að Ljótsstöðum. Síðdegis höfðu þeir lokið við að moka ofan af húsunum, sem eru gjörónýt, og dysja féð i snjó. — Þetta hefur verið sorglegt verk, sagði Sveinbjörn Sveinbjörnsson bóndi i gær. — En hér er ekki meira að gera að sinni, nema grafa kindurnar, þegar snjóa leysir. 70 fjár voru i húsunum, sem björguðust, ásamt fjórum geldneytum. Fjósið stendur nær bæjarhúsunum, og þar voru sjö kýr. Í snjóflóðinu missti Sveinbjörn því nær helming bústofns síns. Hann kvaðst tæpast búast við því að verða heylaus, en önnur hlaða er að Ljótsstöðum, og e.t.v. mætti bjarga einhverju af heyinu, sem í flóðinu lenti. Sveinbjörn kvaðst ekki vita til að snjóflóð hefði orðið á þessum slóðum áður. Hann sagði, að ekki væri nákvæmlega hægt að gera sér ljóst, hvar upptök snjóflóðsins hefðu orðið.

BS-Hvammstanga. Þegar birta tók í gærmorgun á Hvammstanga, var vedur farið að ganga niður. Þá var skyggni orðið allsæmilegt. Það fyrsta, sem blasti við íbúum staðarins, er litið var út á leguna, var það, að einn af þremur bátum, sem þar höfðu legið við legufæri, hafði sokkið. Þetta var báturinn Stakkafell, sem var 28 lestir að stærð. Þar sem Stakkafellið hafði legið, var nú uppblásinn gúmbátur frá bátnum, og var hið eina, sem sást af Stakkafellinu. Á legunni lágu ennfremur Rósa og Hinrik. Voru þessir bátar báðir mjög ísaðir. Í gær voru þegar gerðar ráðstafanir til þess, að menn færu um borð og berðu af þeim ísingu. Eru þeir því úr hættu. Stórskaði hefur nú orðið á Hvammstanga í annað sinn á skömmum tíma, því aðfaranótt gamlársdags slitnaði upp af legunni i suðvestanveðri rækjubáturinn Straumur, 18 lestir að stærð. Heimamenn náðu að bjarga honum á gamlársdag, en síðan var varðskipið Albert fengið til þess að draga Straum til Siglufjarðar til viðgerðar. Þegar komið var út af Skaga, vildi svo óheppilega til, að Straumur sökk, en mönnunum af honum var bjargað naumlega. Hafa því Hvammstangamenn misst á hálfum mánuði tvo af fimm rækjubátum sinum. Ennfremur má bæta því við, að skipstjóri og háseti á Sæbirni, sem sökk i höfninni á Skagaströnd nú i óveðrinu, eru frá Hvammstanga. Eru því þrír skipstjórar og þrír hásetar frá Hvammstanga búnir að missa báta sina á hálfum mánuði.

SJ—Reykjavik. Í gær voru bilanir á síma víðsvegar á landinu. Að sögn Sigurðar Þorkelssonar voru þetta mest minniháttar bilanir, sem fljótt yrði gert við, þegar komist yrði til þess vegna veðurs og færðar. Í Fáskrúðsfirði varð hins vegar alvarleg bilun, en þar brotnuðu 29 símastaurar, og tekur eina 2-3 daga að gera við þá, þegar veður hægist. Þó var ekki símasambandslaust við Fáskrúðsfjörð, þar sem aðeins önnur linan til Reyðarfjarðar var biluð. Hins vegar er sambandslaust milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Allmargar símstöðvar i sveitum landsins voru sambandslausar í gær vegna áðurnefndra bilana. Þá var sambandslaust við Vik i Mýrdal, Kirkjubæjarklaustur, Stöðvarfjörð, Breiðdalsvik og Hólmavik. Sambandslaust hafði verið við Raufarhöfn og Leirhöfn, en síminn þangað var kominn í lag í gær.

Tíminn segir enn af snjóflóðum 17.janúar:

Í gær [16.] féllu enn snjóflóð í Skagafirði, að þessu sinni á tveim stöðum í Stíflu í Fljótum, þar sem snjóalög eru orðin gífurleg. Komu þau bæði úr austurhlíðum dalsins. Annað snjóflóðið skall á bænum Lundi, bæði íbúðarhúsi og fjárhúsi, en hvorki olli það tjóni á mönnum né skepnum, því að enginn er þar á vetrum. Aftur á móti voru í fjárhúsunum um tvö hundruð og fimmtíu hestar af heyi, sem bóndinn á Molastöðum átti, og má búast við, að það hafi ónýst. Hitt snjóflóðið kom niður hjá Melbreið, skammt utan við bæinn, og sleit það símalínur og raflínur. Eru nú tveir bæir í Stíflu sambandslausir og rafmagnslausir að talið er. Raflínuna frá Skeiðsfossvirkjun um Lágheiði til Ólafsfjarðar sakaði ekki, því að þar var rafmagn sem endranær, að því er Pétur Már Jónsson, bæjarstjóri þar, tjáði blaðinu í gærkvöldi. Aftur á móti er Ólafsfjörður gersamlega innilokaður vegna fannalaga og hefur svo verið um langt skeið.

SJ—Reykjavik. Snjóflóð féll i Dalsmynni fremst í Fnjóskadal aðfaranótt þriðjudags sl. Snjóflóðið varð i austanverðu Dalsmynni og nær alveg milli bæjanna Skarðs og Þverár að heita má óslitið og er a.m.k. 2 km að breidd, að sögn Skírnis Jónssonar i Skarði. Meginhluti snjóflóðsins kom úr svonefndri Stóru-skál og er skógurinn í hlíðinni fyrir neðan illa farinn og svo girðingar. Vegurinn um Dalsmynni hefur ekki verið ruddur síðan þetta varð og er óvist, hvort það verður fyrir helgi. Mjólk úr Fnjóskadal verður flutt til Húsavikur en ekki Akureyrar, en þangað er nú ófært bæði um Dalsmynni og Vaðlaheiði. Rafmagnslaust hefur verið að Skarði síðan snjóflóðið féll, en þar er heimarafstöð til vara, sem komið hefur að góðum notum.

Austurland segir 17.janúar frá óvenjulega miklum snjó við Hallormsstað og sköðum á Héraði:

[Frá Hallormsstað 14.janúar] Á Þorláksmessukvöld gekk í byl, sem stóð allan aðfangadag og var hinn mesti. sem komið hafði hér á Hallormsstað síðan janúarbylurinn 1966, en það veður stóð samfleytt í 4 sólarhringa, frá 27.—30. janúar. Þá kom 65 sentímetra djúpur. jafnfallinn snjór í skóginum, en aðeins í samfelldu skóglendi hreyfir snjó svo lítið, að hægt sé raunverulega að mæla jafnfallinn snjó. Við héldum, að þar með væri þessum veðraham lokið. en svo reyndist ekki, því að á sunnudagsnóttina síðustu, gekk í svipað veður sem stendur enn. Er það mjög líkt veður og 18. desember sl. og 27. janúar 1966. Veðurathuganamaðurinn hér, Páll Guttormsson, sagði mér áðan, að jafnfallinn snjór í skóginum væri nú 1 metri. en varð mest 85 sentímetrar 1966, svo að þetta er að verða heilmikill vetur. Þessir byljir minna okkur á, að enn geta vetrarveður komið á Íslandi og vissast að vera við öllu búnir.

[Frá Egilsstöðum 15.janúar - stytt] Gífurlegt fannfergi er hér á Egilsstöðum, og ef til vill farið að nálgast það sem var veturinn 1950—51. Menn hafa heyrt um það í útvarpi, hvernig háttar um skólahúsið. sem lítið sést af fyrir skefli, og hér á götunum eru sumir skaflarnir 5—6 metra á þykkt og liggja samfellt á mörg hundruð metra bili. Snjóbíll sem ætlaði að halda 'upp úr þorpinu í morgun komst ekki inn á hraðbrautina vegna snjóhryggjanna við hana. Egilsstaðabændur hafa unnið að því síðan aðfaranótt þriðjudags að bjarga gripahúsum. þar sem þök þeirra hafa verið að sligast undan snjó. Þarna er hlaða og margstæð gripahús fram undan henni. Í fyrrinótt var reft undir fjósþakið og síðastliðna nótt var unnið að því að setja stoðir undir þak hlöðunnar og styrkja fjósið enn frekar.

Þá hafa okkur borist fregnir af svipuðu eða verra ástandi og áföllum víðar á Héraði. Þannig voru fjárhús á Fljótsbakka komin að hruni í gær, en á síðustu stundu tókst að verja þau falli með því að skjóta stoðum undir þakið. Jarðýta reyndi lengi í gær að komast héðan í Fljótsbakka, en hún náði aldrei lengra en upp í Eyvindarárgilið vegna fannfergis og veðurofsa. Fjárhús féll niður á 150 fjár að Ormsstöðum í Eiðaþinghá nú aðfaranótt miðvikudags. Björgunarlið var sent héðan á vettvang í morgun, og ég var að fá af því fréttir að betur hafi þarna til tekist en á horfðist um skeið og aðeins um 10 kindanna hafi drepist. Einnig munu fjárhús í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá hafa fallið, en glöggar fregnir hafa ekki borist um tjónið. og einnig að Árbakka í Hróarstungu. Þetta er hið helsta um meiriháttar eignatjón, sem ég hef haft spurnir af. hvert svo sem framhaldið verður, en veðurútlit er því miður ekki gott og hefur talsvert bætt við snjóinn í dag þótt vindinn hafi lægt.

Tjón á íbúðarhúsnæði hér á Egilsstöðum hefur orðið nokkurt, en er hvergi nærri fullkannað. Er það einkum vegna kófs inn um loftræstiraufir undir þökum húsa, en síðan þiðnar og lekur niður í íbúðirnar. Mættu byggingaraðilar og arkitektar nokkuð af þessu læra, en þeir síðarnefndu virðast teikna hús fyrir reykvískt veðurfar eða þaðan af suðlægara Þetta tjón verða menn víst að þola bótalaust. því að jafnvel hinar dýru húseigendatryggingar taka ekki til þess. Ástæða er til að geta um skemmdir á trjágróðri í görðum, sem orðið hafa í þessum óveðrakafla. Eink'um fór austanveðrið milli hátíða illa með tré og beinlínis sleit af þeim greinar. og fönnin nú bætir ekki um. — Þetta austanveður var geysilega hart hér og víðar á Héraði, og í því fauk þak af 350 fermetra vélageymslu á Hvanná á Jökuldal.

Þjóðviljinn segir 18.janúar frá tjóni í Dalasýslu:

Margskonar tjón varð i Dalasýslu i óveðrinu. Mesta tjónið á rafmagnslínum varð er línan milli Króksfjarðarness og Saurbæjar féll niður á hálfs annars kílómetra löngum kafla. Slitnaði línan niður vegna ísingar og fauk. Tvö fjárhús sliguðust undan snjóþunga, á Oddsstöðum i Miðdalahreppi og Gillastöðum i Laxárdal, og urðu einhverjir fjárskaðar á Gillastöðum. Í Gröf i Miðdalahreppi fauk þak af hlöðu og á Fellsenda brotnuðu rúður i nýbyggðu íbúðarhúsi af grjótfoki. Í Miðdölum fauk kyrrstæður bíll af gerðinni Cortina eina veltu og er mjög mikið skemmdur. Ofsinn var slíkur að sums staðar sáust hnefastórir grjóthnullungar velta á snjónum.

Tíminn segir af sjávargangi í Njarðvíkurhöfn í pistli 18.janúar:

SJ-Reykjavik. Í óveðrinu í byrjun vikunnar fór stórgrýti yfir skjólvegginn við Njarðvíkurhöfn. Hafnarstjórinn í Keflavik og Njarðvík hefur varað skipstjórnarmenn við að sigla skipum nálægt ytri hafnargarðinum vegna þessa. Strax eftir helgina verður grjótið væntanlega fjarlægt úr höfninni.

Morgunblaðið birt 23.janúar fregn um ógurleg snjóþyngsli á Grenivík:

Grenivík, 16. janúar 1975. Stórtjón varð á frystihúsi Kaldbaks h.f. á Grenivík í óveðrinu á dögunum. Söltunarhús, sem áfast er frystihúsinu, fór gjörsamlega á kaf í snjó og er þó ekki um neinn smákofa að ræða. Húsið er um 40 m langt, vegghæð er um 5 m og hæð undir ris um 7 m. Á mánudaginn var þakið farið að sligast undan snjóþunganum og voru 15—20 manns að moka af því í stórhríðinni meðan birta entist. Það dugði þó skammt, því að morguninn eftir var snjórinn á þakinu orðinn jafnþykkur og áður. Hér varð sem sagt ekki við neitt ráðið og fór þriðjungurinn af austurhlið þaksins inn. Þar undir brakinu eru saltfiskbirgðir hússins — sem betur fer litlar — og töluvert af salti.

Veður þetta skorar mjög hátt á báðum stormdagalistum ritstjóra hungurdiska, meðalvindhraði var mikill og útbreiðsla sömuleiðis. 

Lýkur hér að segja frá hríðinni miklu 12. til 15.janúar 1975. Fleiri skaðaveður gerði í þessum mánuði. Lesa má um þau í almennum pistli hungurdiska um það helsta á árinu 1975. Þar er einnig sagt frá nokkrum snjódýptarmetum sem féllu í mánuðinum og enn standa til þessa dags (2025). 


Spurt var

Var spurður um snjó nú í febrúar. Hann hefur verið með minnsta móti, en ekki rétt að fara út í mikinn samanburð því enn eru fjórir dagar eftir af mánuðinum og vel hugsanlegt að einhverjir alhvítir dagar bætist við þann eina sem bókaður er - bæði í Reykjavík og á Akureyri. Febrúar er sjaldan snjólaus í Reykjavík - og enn sjaldnar á Akureyri (hefur þó komið fyrir).

Snjóleysið hefur fylgt miklum hlýindum. Fyrstu 23 dagar mánaðarins eru þeir hlýjustu á öldinni í Reykjavík - og ekki nema þrisvar frá upphafi mælinga sem þeir hafa verið hlýrri. Á Akureyri stendur hitinn örlítið neðar á listum, en ofarlega samt. En bæði snjóleysi og hiti segja lítið um framhaldið. Fyrri vetrarmánuðirnir voru ekki hlýir - og snjóhula var yfir meðallagi. Meðalfjöldi alhvítra daga í febrúar er 12 í Reykjavík, en 10 í mars. Á Akureyri eru tölurnar 17 í febrúar og 16 í mars. Mars er vetrarmánuður hér á landi sem kunnugt er.

Þetta gefur tilefni til að rifja upp fáeinar gamlar veðurvísur - pör reyndar, það fyrra tilheyrir deginum í dag (24.febrúar), Matthíasarmessu guðspjallamanns. Þessi messudagur hefur þá sérstöðu meðal slíkra daga að hann ber ekki upp á sama almanaksdag í hlaupárum - þá 25. febrúar og kallaðist þá stundum hlaupársmessa. Pétursmessa (Péturs stóll) er hins vegar 22.febrúar í öllum árum. Ástæða þessa misræmis er að í rómverska tímatalinu - var hlaupársdagur ekki 29.febrúar, heldur tróðst inn á undan Matthíasarmessu - (aldrei einföld þessi almanaksfræði).

Vísur þessar lét Jón Þorkelsson prenta í Almanak Þjóðvinafélagsins aldamótaárið 1900 (ásamt fleiri veðurvísum).

Matthías þíðir oftast ís,
er það greint í versum,
annars kæla verður vís,
ef vana bregður þessum.

Matthías ef mjúkur er,
máttugt frost þá vorið ber,
vindur, hríð og veðrið hart
verður fram á sumarið bjart.

Heldur óljóst allt saman. Skyldi dagurinn í dag hafa talist mjúkur? Fyrri vísan vísar eiginlega beint til þess sem sagt er um Pétursmessu (22.febrúar) - að þá setji Sankti Pétur vermisteininn í jörðina - það er slík sólarþíða sem væntanlega er átt við í fyrri vísunni. Sé sólarlaust (kannski með hlýindum) - er kulda að vænta.

Þessi vantrú á febrúarhlýindi kemur einnig vel fram í hinum vísunum tveimur:

Febris ef ei færir fjúk
frost né hörku neina,
kuldi sár þá kemur á búk,
karlmenn þetta reyna.

Ef þig fýsir gefa að gætur
gátum fyrri þjóða,
páskafrostið fölna lætur
februari gróða.

Það er talsvert vit í þessu með vermisteininn - eins og hungurdiskar hafa minnst á áður (eða var það ekki). Þetta með febrúarhlýindi sem bregðast eru líka almenn sannindi - tölfræðileg á sinn hátt. Það er harla ólíklegt að margir hlýir kaflar fari samfellt saman allt frá miðjum vetri til vors - en munum þó að það hefur gerst.

Hér er rétt að kveina í lokin. Hvers vegna í ósköpunum hefur Almanak Háskólans hætt að birta nöfn messudaga? Þetta var mjög til þæginda við lestur gamalla rita að geta bara flett upp í almanakinu. Stöðugt er verið að nefna suma messudagana í umfjöllun um tíðarfar - aðrir fátíðari. Ritstjóra hungurdiska er svosem engin vorkunn enda hefur hann komið sér upp sérstakri skrá til að fletta upp í. Þetta væri e.t.v. skiljanlegra ef nauðsynlegt þætti að koma öðru efni að, en svo er ekki - í langflestum tilvikum er bara eyða á blaðsíðunni.

Það er auðvitað viðurkennt að arfavitlausir veðurspádómar fylgdu sumum messudögunum, en þeir voru ekki aðalatriðið. Heldur voru þessir dagar, ásamt misseristalinu gamla og stórhátíðum, allir mikilvægir áfangar í gangi árstíðanna og auðvelda tilfinningu manna fyrir honum - sem er þrátt fyrir allt mikilvæg enn á dögum - þrátt fyrir allar „framfarir“.


Snöggar hitasveiflur

Í pistlasafni hungurdiska er nokkrum sinnum minnst á stórar og skyndilegar hitasveiflur á veðurstöðvum. Reyndar hefur ritstjórinn reglulega auga með slíkum tilvikum en er þó ekki nægilega vel vakandi eða þrekmikill til að komast fyrir allar villur í athugunum (langt í frá). Á dögunum rifjaðist upp gamall fyrirlestur ritstjórans um þetta efni, líklega fyrir um 12-14 árum að því er hann taldi. Árin síðan fyrirlesturinn var fluttur reyndust hins vegar vera tuttugu þegar að var gáð. Kannski kominn tími til að endurnýja talnaefni fyrirlestursins. 

Það hefur nú verið gert, í stað 8 athugunarára eru þau orðin 28. Helstu niðurstöður eru þó furðu lítið breyttar - nema hvað upplýsingar liggja nú fyrir um hegðun hitafars á miklu fleiri veðurstöðvum heldur en var árið 2005. 

Fyrst þurfti að meta hvað væri snögg hitasveifla. Lagt var í að reikna mun á hámarks- og lágmarkshitamælingum allra klukkustunda á öllum veðurstöðvum í 28 ár. Muninum var síðan breytt í heilar tölur. Væri munurinn minni en 4 stig var honum sleppt í frekari meðferð, en síðan talið hversu oft munurinn félli á hvert stig. Auðvitað fækkar tilvikum mjög eftir því sem munurinn er meiri.

w-blogg220225a

Fyrsta myndin reynir að sýna þetta. Lárétti kvarðinn sýnir mun á hámarks- og lágmarkshita innan sömu klukkustundar á sömu stöð. Við sjáum að á árunum öllum hefur hann verið 4,0 til 4,9 stig í 176.893 tilvikum (af um 32 milljón athugunum). Síðan fækkar þessum tilvikum eftir því sem munurinn er meiri. Nú verður að taka eftir því að lóðrétti kvarðinn er svonefndur lograkvarði, upp á við er hvert merki tíu sinnum stærri tala heldur en það næsta fyrir neðan. Með því að nota kvarða af þessu tagi sjáum við vel að fækkunin er býsna regluleg, á hvert hitabil fellur um þriðjungur þess fjölda sem féll á næsta bil fyrir neðan. Meðalhlutfallsfallið er um 2,8 fyrir hvert bil. Myndu nú platónistar taka við sér og jafnvel halda því fram að svona eigi þetta að vera, fækkunin eigi að vera nákvæmlega talan „e“ - (grunntala náttúrulega lógaritmans). Ekki veit ritstjórinn það - en vill samt taka fram að hann er mjög eindreginn andstæðingur platónismans. 

Brúnleitu súlurnar sýna það sama, nema fyrir vegagerðarstöðvar. Athuganir eru þar um helmingi færri, en hin reglubundna fækkun milli hitabila er sú sama. Hér verður líka að taka fram að eiginlegar hámarksmælingar eru ekki gerðar á vegagerðarstöðvunum. Á hefðbundnum stöðvum er hámarkshiti klukkustundar hæsta 2-mínútna meðaltal innan klukkustundarinnar, 30 gildi til að velja úr. Á vegagerðarstöðvunum er hámarkshiti ekki mældur, hiti er mældur á 10-mínútna fresti, og hámarkshiti klukkustundarinnar er sá hæsti meðal þeirra 6 mælinga sem gerðar eru á klukkustund. Vegagerðarstöðvarnar missa þannig ítrekað af hæstu gildum. Sama á við um lágmarksmælingarnar. Hlutur stórra hitabreytinga innan klukkustundar er því óhjákvæmilega minni heldur en á hinum almennu stöðum - það munar meiru í tíðni stóratburða en sem nemur fjölda klukkustundarathugana.

Nú er það óhjákvæmilegt að talsvert af villum er að finna í þessum gögnum - þrátt fyrir allgott eftirlit. Sé gert ráð fyrir því að tilviljanakenndar villur séu ámóta algengar á öllum hitabilum er líklegt að hlutfallslegt vægi þeirra aukist eftir því sem munurinn er meiri á skráðum hámarks- og lágmarkshita. Tölulegar vísbendingar hníga í þá átt að svo sé. Í þeirri lauslegu athugun sem hér er gerð voru villur aðeins hreinsaðar úr hæstu flokkunum - niður í um það bil 14 stig. Æskilegt væri að fara neðar. Sömuleiðis kom í ljós að einstakar stöðvar eru einfaldlega til vandræða - þeim er ekki að treysta. Voru þær ekki teknar með. 

Í því sem hér fer á eftir er einungis fjallað um tilvik þar sem munur á hámarki og lágmarki innan sömu klukkustundar á sömu stöð er meiri en 6 stig. Mat ritstjórinn það svo að þá væri fjöldi tilvika enn nægilega mikill til að eitthvað vit væri í hugsanlegum árstíða- og dægursveiflum.

w-blogg220225b

Myndin sýnir greinilega árstíðasveiflu snöggra hitabreytinga. Þær eru langalgengastar í desember og janúar, en fækkar jafnt og þétt í febrúar til maí. Lágmarkstíðni er í ágúst og tíðnin tekur sig ekki vel upp fyrr en í nóvember. Sveiflan á vegagerðarstöðvunum (rauður ferill) er svipuð - en tíðnin mun minni. 

Í hægviðri á vetrum getur mjög kalt loft legið langtímum saman neðan grunnstæðra hitahvarfa. Strax og sól fer að hækka á lofti eiga slík hitahvörf erfiðara uppdráttar, mun þetta vera meginástæða árstíðasveiflunnar. Hin stóra sveifla verður þegar kalda loftið sviptist burt, oftast í vaxandi vindi. Þegar nánar er að gáð geta aðstæður þó verið býsna fjölbreyttar. 

Á sumrin verða stórar hitasveiflur oftast í átökum sjávar- og landlofts, ekki endilega á sömu veðurstöðvum og vetrarsveiflurnar eru sem stærstar. 

w-blogg220225c

Hér má sjá dægursveiflu snöggra hitasveiflna. Tíðnin er áberandi mest að morgni dags og rétt fram yfir hádegi, en annars svipuð á öðrum tímum sólarhringsins. Næsta mynd sýnir þetta e.t.v. betur.

w-blogg220225d

Hér er reynt að setja bæði árstíða- og dægursveiflu á sömu mynd. Rauðu litirnir sýna mesta tíðni snöggra sveiflna, en þeir dökkgrænu minnsta. Ekki er mikill munur á tíðninni eftir tíma sólarhrings nema fyrri hluta árs, frá febrúar frem í júní (og jafnvel í júlí). Þá er áberandi hámark síðla morguns og undir hádegi. Hámarkið á þeim tíma á fyrri mynd er því orðið til á þessum ákveðna árstíma, en gætir ekki á haustin. Tilhneiging er til þess að tíðnihámarki þessu seinki þegar kemur fram á vorið, það er um klukkan tíu í febrúar, um 12 í apríl og um kl.14 í júní. Þessu ræður sólin sjálfsagt - fyrst ein og óstudd, en síðan með aðstoð hitamunar lands og sjávar. 

Tíðnihámarkið einkennilega fyrr á morgnanna sem virðist liggja frá kl.6 í júní, um kl.8 í ágúst og 9 til 10 í september gæti verið raunverulegt, en kannski eru villur í gögnum að stríða okkur. Þarfnast nánari athugunar við. 

Að lokum er eðlilegt að spyrja hvaða stöðvar það séu sem skila flestum snöggum hitasveiflum. Þær tíu gæfustu má sjá í töflunni hér að neðan. Hlutfallstalan er þúsundustuhlutar (prómill).

w-blogg220225e

Sumar af þessum stöðvum hafa legið undir grun um ákveðna óþekkt, en ekkert slíkt hefur sannast. Við látum slíkt liggja milli hluta - kannski er þetta allt eðlilegt.

Tvær mestu skyndisveiflurnar sem ritstjórinn fæst til að viðurkenna eru þessar:

Í Möðrudal 9. nóvember 2005, 15,9 stig og á Sauðárkróksflugvelli 23. desember 2023 15,8 stig. 

Vonandi mun einhvern tíma verða gerð vísindaleg úttekt á þessu atriði, það sem hér fór að ofan er það ekki. Látum þetta duga.  


Fyrstu 20 dagar febrúar 2025

Febrúarhlýindin hafa haldið áfram - og veður þar að auki verið með hægara móti síðustu daga (nema þar sem austanáttin er skæð - þar hefur verið þrálátur blástur). Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga febrúar er +3,5 stig í Reykjavík, +2,8 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +3,1 stigi ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Þetta nægir í næsthlýjasta sæti aldarinnar í Reykjavík, sömu dagar 2017 voru hlýrri, meðalhiti þá +4,1 stig. Kaldastir á öldinni voru sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá -2,1 stig. Á langa listanum er hiti í Reykjavík nú í fimmta hlýjasta sæti af 153, hlýjast var 1965, meðalhiti þá +4,8 stig. Kaldastir voru þessir dagar 1892 þegar meðalhiti var -4,8 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga febrúar +2,2 stig, +2,7 stig ofan meðallags 1991 til 2020 og +3,2 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Á spásvæðunum raðast hitinn í ýmist 2. eða 3. hlýjasta sætið á öldinni (af 25), á Vestfjörðum þó í það fjórða hlýjasta. Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast í Hellisskarði, hiti þar +4,7 stig ofan meðallag, en kaldast að tiltölu í Seley, þar sem hiti hefur verið +1,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 106,5 mm og er það rúmlega 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 49,8 mm og er það um þriðjung umfram meðallag. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 93,1 mm og er það ríflegt meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 22,7 í Reykjavík, um 15 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 30,9, um tíu fleiri en í meðalári.

Enn eitt gagnafylleríið?

Fyrir nokkrum dögum var á það minnst hér á hungurdiskum að hægt væri að bera fram spurningar eins og þessa: Hver er hlýjasti norðanáttardagur sem við þekkjum á landinu í febrúar? Það er meira að segja mjög auðvelt að finna svar - ef við miðum aðeins við síðustu 75 árin. Vandinn hefst hins vegar þegar kemur að nánari spurningum. Hvað er það sem við eigum við þegar við segjum „hlýjastur“? Hvað er norðanáttardagur? Þetta eru öllu þvælnari spurningar heldur en sú fyrsta. Svörin eru ætíð álitamál og þar með verður svarið við spurningunni um hlýjasta norðanáttardaginn einhvern veginn marklausari en áður, og jafnvel misjafnt eftir því hvaða skilgreiningar eru notaðar - örugglega misjafnt ætti frekar að segja.

Ritstjóri hungurdiska heldur úti þremur skrám þar sem giskað er á ríkjandi vindátt hvers dags á landinu langt aftur í tímann (auk tveggja sem aðeins ná til þessarar aldar - en eru nákvæmari). Sú sem hann notar mest reiknar meðalvigurvindátt hvers dags eftir athugunum á mönnuðum veðurstöðvum allt aftur til 1949. Hver dagur fær sína vindátt, meðalvindhraða og vigurvindhraða. Af hlutfalli vigur- og meðalvindhraða má reikna það sem ritstjórinn kallar festu eða festuhlutfall. Því nær sem það er einum, því fastari hefur hann verið á áttinni. Festan er að jafnaði marktækt meiri í miklum vindi heldur en hægum, og þar af leiðandi er hún að jafnaði meiri að vetri heldur en að sumri. Að sumarlagi þegar sólfarsvindar eru ríkjandi, eða vindur er mjög hægur er oft nánast tilviljun úr hvaða átt vigurvindurinn blæs, festan er þá lítil. Því má búast við því að á slíkum dögum sé áttin í raun illa ákvörðuð eða ónákvæm. Freistandi væri því að sleppa slíkum dögum þegar við leitum að hæsta eða lægsta hita hverrar áttar - eða telja þá sérstaklega. Um leið og við förum að gera slíkt getum við lent í miklum gagnaskógi og hætt að sjá skóginn fyrir trjám. Í því sem hér fer á eftir hefur vindáttunum 360 verið skipað á 8 höfuðáttir, hver átt fær 45 gráðu bil á hringnum.

Fyrsta verkefnið sem við leggjum upp með er einfalt. Við viljum vita hver hefur verið ríkjandi vindátt þá daga þegar landsdægurhámarksmet hafa verið sett. Byrjum á febrúarmánuði. Svo vill til að dægurmet hlaupársdagsins (29.febrúar) er frá því 1948, utan þess tímabils sem áðurnefnd skrá nær til, sama á við met þess 16. og 22. En hinir 26 dagarnir skila sér. Af þessum 26 dögum var sunnanátt ríkjandi 13 daga, en suðvestanátt 12 daga, einn dag segist austanátt hafa verið ríkjandi.

Þá spyrjum við um alla daga ársins (við náum áttgreiningu á 311 dögum) - 55 dægurmet eru eldri. Sunnan- og suðvestanáttin eiga langflesta metdagana, 225 samtals (72 prósent), austan- og suðaustanáttir eiga samtals 49 (16 prósent), vestan- og norðvestanáttir 17 (5 prósent) og norðan- og norðaustanáttir samtals 20 (7 prósent). Þetta með norðlægu áttirnar kemur dálítið á óvart, en þegar við athugum þessi tilvik hvert og eitt eiga þau sér sínar skýringar. Hrein norðanátt á 10 tilvik, í langflestum er vindur hægur og festuhlutfallið lágt, (innan við 0,4). Einstöku sinnum er líka hlýtt á Suðurlandi í norðansólskini að hásumri. Eitt tilvik sker sig úr, með bæði dágóða festu (0,9) og meðalvindhraða (9,8 m/s). Það tilvik þekkjum við vel, þetta er 4.júní 1997, í upphafi hretsins mikla sem þá gerði. Mettalan 24,0 stig á Akureyri tilheyrir leifum dagsins áður. Þetta met er því eitt þeirra bókahaldsmeta sem fylgir athugunarháttum - og við verðum að sætta okkur við - en truflar auðvitað athuganir eins og þær sem við stöndum hér í.

En spurningunni sem borin var fram í upphafi hefur ekki verið svarað. Til að geta gert það þurfum við líka að ákveða hvers konar hitaviðmið við eigum að nota þegar við tölum um hlýjasta daginn. Ekki er óeðlilegt að reikna meðalhita í byggðum landsins - ekki óskaplega umdeilanleg tala - en við sitjum þó uppi með hægviðrið - og tilviljanakennda átt. Í stað þess að leggja inn í sjálfan skóginn leitum við að þessu sinni aðeins að einu tré, þar sem við finnum hvaða dagur það er sem hefur verið hlýjastur norðanáttardaga í byggðum landsins á árunum 1949 til 2024, en við skulum líka leyfa okkur að finna hann fyrir bæði mannaðar og sjálfvirkar stöðvar.

Og dagurinn er 28. febrúar 2018, meðalhiti á landsvísu var 3,6 stig, hægur dagur og loftþrýstingur hár. Á sjálfvirku stöðvunum (1997 til 2024) lendir þessi dagur í öðru hlýjasta sæti norðanáttardaga, meðalhiti líka 3,6 stig. En 15. febrúar árið áður, 2017 nær rétt að toppa hann, nær 3,7 stigum - ómarktækur munur auðvitað.

Sannleikurinn er auðvitað sá að það ærir fljótt óstöðugan að halda utan um öll svona met, en maður sér nú ámóta gert í íþróttum þar sem farið er að halda utan um ótrúlegustu hluti. Við látum hér staðar numið - þótt freistandi sé að sitja áfram á millibarnum og fá sér góðan og sterkan gagnakokteil - rétt einu sinni.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg090325e
  • w-blogg090325d
  • w-blogg090325c
  • w-blogg090325b
  • w-blogg090325a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.3.): 553
  • Sl. sólarhring: 731
  • Sl. viku: 2704
  • Frá upphafi: 2451659

Annað

  • Innlit í dag: 526
  • Innlit sl. viku: 2441
  • Gestir í dag: 502
  • IP-tölur í dag: 494

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband