Hiti norðanátta í apríl

Þegar auðsveipur gagnagrunnur er við höndina er með mjög lítilli fyrirhöfn að framleiða allskonar vafasamt sull sem virkar samt trúlega. Það sem hér fer á eftir er þannig. Enginn ætti að taka því sem sannleika - miskunnarlaust er sparslað í götin með ódýru efni og síðan lakkað yfir. 

Til framleiðslunnar notar ritstjórinn þrjár heimagerðar töflur - þær eru í sjálfu sér ekki sem verstar - nokkuð gott fóður einar og sér. Það er blandan sem verður til við samsetninginn sem er varasöm. 

Töflurnar eru: (i) Hiti klukkan 9 að morgni í Stykkishólmi frá 1871 til 2023. (ii) Vindátt á svæðinu kringum Ísland (skipt á 8 áttir) eins og bandaríska endurgreiningin c20v2 (1871 til 1939) og era5 endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar (1940 til 2023) segja frá. Svæðið er „ferhyrningur“ milli 60°N og 70°N og 10°V og 30°V. (iii) reiknuð meðalvigurvindátt á landinu 1949 til 2023 (allar skeytastöðvar Veðurstofunnar). 

Við veljum þá daga aprílmánaðar þegar vindáttatöflurnar segja áttina hafa verið norðvestur, norður eða norðaustur og reiknum síðan meðalmorgunhita í Stykkishólmi fyrir þá daga í hverjum aprílmánuði fyrir sig. Talnaglöggir munu nú strax átta sig á því að tíðni norðanáttardaga er afskaplega misjöfn í apríl, allt frá einum eða hugsanlega engum - upp í alla daga mánaðarins. Vægi einstakra daga verður þannig mjög misjafnt. Síðan eru vindáttatöflunar tvær ekki endilega sammála um það hvaða daga norðanátt er ríkjandi - svæðin eru til dæmis misstór. 

Það fyrsta sem við lítum á er einmitt þessi talning - samanburður á töflunum tveimur.

w-blogg160424a

Apríldagafjölda endurgreininganna má sjá á lárétta ásnum, en vigurvindgreiningu stöðvanna á þeim lóðrétta. Árin eru 1949 til 2023. Við megum taka eftir því að endurgreiningarnar eru ívið linari við að lýsa því yfir að norðanátt hafi verið ríkjandi. Norðanáttadagafjöldi er lægri í þeirri töflu heldur en hinni. En samt sjáum við að í öllum aðalatriðum er samræmið samt harla gott. Það er 1953 sem leiðir fjölda norðanáttadaga í apríl á stöðvunum - frægur kuldamánuður (kaldasti mánuður ársins 1953 reyndar - eini aprílmánuður sem náð hefur í þann titil), 22 dagar með norðanáttum. Endurgreiningin segir dagana hafa verið 18 - og nefnir fleiri mánuði með þann fjölda. 

Síðan lítum við á hitann. Við sleppum því að líta á einstök ár - dagafjöldinn er alltof misjafn til þess - en veljum sjöárakeðju - meðalhita norðanáttardaga sjö aprílmánaða í röð - þó þannig að mánuðirnir eru jafnvægir (þetta væri hægt að laga). 

w-blogg160424b

Myndin sýnir niðurstöðuna. Endurgreiningarnar ná aftur til 1871 - þannig að við getum reiknað meðaltöl aftur til þess tíma. Blái ferillinn á hér við. Aftur á móti nær stöðvataflan ekki nema aftur til 1949 og sýnir rauði ferillinn þær niðurstöður. Í öllum aðalatriðum liggja ferlarnir saman (enda oftast um sömu daga að ræða). 

Nokkrar sveiflur eru fram til 1920, en síðan hlýnar aprílnorðanáttin um meir en 4 stig. Sú dýrð stóð þó ekki lengi, fljótlega kólnaði hún aftur og var um 1950 orðin ámóta lág og meðaltal fyrri tíma. Eftir kuldana um 1950 hlýnaði aftur - en ekki lengi og hafísárin tóku við. Síðan hefur hlýnað - sérstaklega eftir 1990 og síðustu árin hefur aprílnorðanáttahitinn verið um 3 stigum ofan við það sem var á unglingsárum ritstjórans. 

En segir þetta eitthvað eitt og sér? Best er að fullyrða sem minnst um það. Nánari athugunar væri þörf - ef eitthvað ætti að segja. Ritstjórinn heldur að sér höndum en minnir þó á að hann hefur á þessum vettvangi gert ámóta greiningu fyrir vetur og sumar - og fyrir landið í heild. 

Hér og nú er þetta einkum ætlað sem skemmtiatriði í þeim kalda apríl sem nú gengur yfir (og við vitum ekki hvar lendir - eða hvort norðanáttirnar eru að sýna einhvern annan svip heldur en að undanförnu). Það tekur enga stund að spyrja gagnagrunninn spurninga af þessu tagi - séu þær rétt orðaðar svarar hann umsvifalaust. Það tók hins vegar verulegan tíma og fyrirhöfn að búa grunntöflurnar til (ekki margir sem nenna að standa í slíkri galeiðuvinnu). 


Hálfur apríl

Fyrri hluti apríl hefur verið kaldur. Meðalhiti í Reykjavík er +0,9 stig, -2,0 neðan meðallags 1991-2020 og -2,6 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Þetta er næstkaldasta aprílbyrjun það sem af er öldinni í Reykjavík, kaldara var 2006, meðalhiti þá 0,4 stig. Hlýjastur var fyrri hluti apríl í fyrra, +5,3 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 117. hlýjasta sæti (af 152). Hlýjasta aprílbyrjun þess tímabils var 1929, meðalhiti þá +6,6 stig. Kaldast var hins vegar 1876, meðalhiti -4,1 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti það sem af er mánuði -2,0 stig og hefur sjö sinnum verið lægri síðustu 89 árin (en aldrei á þessari öld).
 
Á öllu svæðinu frá Breiðafirði, norður og austur um að Austurlandi að Glettingi er þessi aprílbyrjun sú kaldasta það sem af er þessari öld, en að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðurlandi þar sem hitinn raðast í 20. hlýjasta sæti (af 24).
 
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, minnst -1,4 stig í Önundarhorni undir Eyjafjöllum, en mest -5,4 stig í Svartárkoti.
 
Úrkoma hefur verið lítil í Reykjavík, aðeins 7,4 mm, fimmtungur meðalúrkomu, en hefur samt 13 sinnum mælst minni sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 40,2 mm, ríflega tvöföld meðalúrkoma. Á Dalatanga hafa mælst 47,3 mm, rúmlega 10 prósent neðan meðallags.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 105,4 í Reykjavík, um 30 fleiri en í meðalári og hafa aðeins 10 sinnum mælst fleiri sömu daga. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 58,7.
 
Eitthvað eru spár að gefa til kynna hlýnandi veður í lok vikunnar - en hafa svo sem gert það áður.

Enn er giskað á ársmeðalhita

Fyrir rúmum mánuði var hér fjallað um samband ársmeðalhita og þykktar yfir landinu. Við höldum okkur við ársmeðalhita en lítum nú á samband hans við vindáttir í háloftunum og hæð 500 hPa flatarins yfir landinu. Það kemur ekki á óvart að ár þar sem suðlægar áttir eru ríkjandi skuli vera hlýrri heldur en ár með veikum sunnanáttum. Hlutur vestanáttarinnar er heldur óráðnari, en við reikninga kemur samt í ljós að því öflugri sem hún er því svalari er tíðin. Áhrif hennar eru þó aðeins hálfdrættingur á við áhrif sunnanáttarinnar. Hæð 500 hPa-flatarins hefur einnig mikil áhrif - álíka mikil og sunnanáttin. Meginástæða þess er sú (má segja) að hæðin geymi að nokkru leyti uppruna loftsins. Hár flötur fylgir lofti af suðrænum uppruna og þessa uppruna gætir jafnvel þótt loftið komi hingað úr norðri. Sama má segja um loft undir lágum fleti, að meðaltali er það norrænt að uppruna - jafnvel þótt það berist til okkar úr suðri. Vindáttirnar greina því frá því hvaðan loftið berst, en hæðin hvíslar að okkur hver uppruni þess er.

Frá degi til dags getur vindátt í 500 hPa-fletinum verið nánast hver sem vera skal.  Suðvestanáttin er þó algengust í miðju veðrahvolfi og þar ofan við. Sé meðalvindstefna reiknuð yfir heila mánuði er sama að segja, það koma nær allar áttir fyrir, en þó þannig að mjög sjaldgæft er að norðaustanátt reiknist að meðaltali heilan mánuð. Ársmeðalvindáttin er hins vegar furðustöðug. Meðalársvindátt í 500 hPa-fletinum er um 250 gráður (20 gráður sunnan við vestur). 

Ársmeðalvindstefnan hefur aldrei farið suður fyrir 220 gráður - rétt sunnan við suðvestur (við höfum nokkuð áreiðanlegar tölur aftur til 1940 í 84 ár) og það hefur aðeins gerst einu sinni á öllum þessum tíma að meðalvindáttin hefur verið rétt norðan við hávestur. Það var árið 2010 - við fjölluðum um það merka tilvik í gömlum hungurdiskapistli. Þá vildi hins vegar þannig til að 500 hPa-flöturinn var sérlega hár. Eins og fram kom að ofan þýðir það að loftið
var þrátt fyrir allt upprunnið langt að sunnan - og árið varð hlýtt - þrátt fyrir norðanáttina. Óvenjulega kalt var hins vegar í Skandinavíu - í norðanátt langt frá hæðinni.

Við getum líka reiknað út hvernig jafnþykktarfletir liggja við landið - svonefndur þykktarvindur liggur samsíða jafnþykktarlínum (rétt eins og háloftavindur samsíða  jafnhæðarlínum) - hann er því stríðari sem þykktarbrattinn er meiri. Í ljós kemur að þykktarvindurinn heldur sig á enn þrengra bili heldur en háloftavindurinn. Ársmeðalstefnan hefur aldrei (frá 1940) farið suður fyrir 240 gráður - en einu sinni norður fyrir 270 (eins og háloftavindurinn). Meðalstefnan er 255 gráður, um fimm gráðum norðar heldur en háloftavindurinn. Það þýðir að aðstreymi af hlýju lofti ríkir að meðaltali yfir landinu.

Nú vitum við auðvitað ekki hvort þessi stefnuþrái háloftavinda hefur haldist alla tíð frá upphafi Íslands - né hvort fortíð eða framtíð geyma einhver tímabundin vik frá honum. Eins og kerfið er nú eru sunnanátt og hæð 500 hPa-flatarins ekki alveg óháðir þættir. Hneigðin er sú að því hærri sem 500 hPa-flöturinn er því líklegra er að sunnanáttin sé veik og því lægri sem flöturinn er því meiri er sunnanáttin. Þetta er í sjálfu sér ekki óvænt, en hins vegar
er nær öruggt að aðfallslína milli þáttanna tveggja er ekki á sama róli á kulda- og  hlýskeiðum á norðurhveli. Versta (kaldasta) háloftastaða sem gæti komið upp hérlendis er mikil norðanátt með lágum 500 hPa-fleti. Slíkt hefur sést í stöku mánuði (og auðvitað fjölmarga daga), en líkur á að heil ár verði þannig eru litlar. Möguleiki er þó fyrir hendi - auðvitað - ekki síst á tímum skyndilegra veðurfarsbreytinga. Ritstjóra hungurdiska finnst mikilvægt að gefa þessu gaum - það er fleira undir heldur en hitinn einn.

En aðalefni þessa pistils átti að birtast á þremur myndum (skýrara eintak af þeirri fyrstu má finna í viðhenginu).

w-blogg120424a

Sú fyrsta sýnir dreifirit (skotrit). Þar sýnir lárétti ásinn ágiskaðan hita í Reykjavík 1940 til 2023, en lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhitann eins og hann var í raun og veru. Við tökum strax eftir því að ágiskunin raðar allvel í sæti. Fylgnistuðull er um 0,7 (þættirnir þrír skýra um helming breytileikans). Aftur á móti bælir hún breytileikann umtalsvert. Hún giskar rétt á kaldasta árið (1979), en segir meðalhita þess 3,8 stig, en hann var í raun undir 3
stigum. Aðferðin segir árið 1941 hafa verið það hlýjasta (og giskar nákvæmlega rétt), en í raun var 2003 svipað - en þá er giskað á 5,5 stig.

Ár á þessari öld eru merkt með rauðum lit. Við sjáum að þau eru öll nema tvö (2002 og 2018) ofan aðfallslínunnar, hiti reiknast hærri heldur en þetta einfalda vindáttalíkan segir hann vera. Við getum nú reiknað mun á reiknuðum og réttum gildum - þann mun köllum við „leif“. Sé leifin jákvæð hefur hiti mælst hærri heldur en líkanið giskar á, sé hún neikvæð hefur hiti mælst lægri.

w-blogg120424b

Lárétti ásinn á myndinni sýnir ár frá 1940 til 2023, en sá lóðrétti leifina í Reykjavík (í °C). Súlurnar eiga við stök ár, en rauði ferillinn er 7-árakeðja leifarinnar. Við tökum strax eftir tímabilaskiptingunni. Kalda tímabilið var í raun kaldara heldur en líkanið reiknar, og hin hlýju ár í upphafi 21. aldar eru aftur á móti hlýrri en líkanið. Þetta gefur til kynna að þótt líkanið „skýri“ vel hitabreytingar frá ári til árs nær það áratugasveiflum (sem koma ofan í þann breytileika) illa eða ekki. Við vitum ekki fyrir víst hvernig á þessu stendur, en ef til vill munu flestir giska á áhrif sjávar, en varðandi hlýindin á þessari öld munu aðrir nefna aukin gróðurhúsaáhrif.

Á næstu mynd sjáum við staðbundin áhrif sjávarkulda betur.

w-blogg120424c

Hér er reiknuð 7-ára leif fyrir tvær veðurstöðvar - og byggðir landsins að auki. Stöðvarnar eru Reykjavík og Dalatangi. Reykjavíkurlínan er sú sama og á fyrri mynd (rauð á báðum myndunum), Dalatangalínan er blá, en landsleifin er græn. Hafísárin skera sig úr á Dalatanga, neikvæð leif er mun meiri heldur en í Reykjavík. Landsleifin er þarna á milli. Mesta hafísárið, 1968, var leifin á Dalatanga -1,8 stig, en „ekki nema“ -0,8 í Reykjavík. Við getum gróflega giskað á að hafísinn hafi kælt Dalatanga um heilt stig umfram það sem hann gerði í Reykjavík, (og 0,4 stig umfram það sem var að meðaltali á landinu). Það er athyglisvert að síðasta áratug hefur leifin farið minnkandi bæði í Reykjavík og á landinu í heild, en haldist mikil og jákvæð á Dalatanga. Ritstjórinn veit auðvitað ekki hvers vegna.

Rétt að láta þetta gott heita - enda sjálfsagt ekki margir sem hafa áhuga á vangaveltum sem þessum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hægur vetur

Veðurstofan telur veturinn fjóra mánuði, desember til mars. Þó sá nýliðni hafi verið heldur kaldari en algengast hefur verið síðasta aldarfjórðunginn verður samt að telja að hann hafi farið vel með (eins og oft er sagt). Slík ályktunarorð fara þó auðvitað eftir því hver sjónarhóllinn er. Úrkoma hefur t.d. verið í minna lagi um landið sunnanvert, sem varla er hagstætt í huga þeirra sem áhyggjur hafa af vatnsbúskap, en auðvitað hagstætt fyrir þá sem berjast við slagregn og leka. Þrátt fyrir stöku hríðarköst hefur færð lengst af verið með skárra móti - þótt kröfur um góða færð vaxi mjög hratt - og ófærðardagur getur valdið röskun á ferðum mun fleiri heldur en áður var. 

Ritstjóri hungurdiska hefur lengi fylgst með illviðrum (í 60 ár) og reynir að meta þau, afl þeirra og tíðni, á ýmsa vegu. Ekki eru það skotheld fræði - en gefa þó ýmsar vísbendingar. Sú aðferð sem hér er fjallað um hefur komið við sögu á hungurdiskum áður. Á hverjum degi er talið saman á hversu mörgum veðurstöðvum (í byggð) vindur hefur náð stormstyrk (20 m/s eða meira). Ekkert er tekið tillit til þess hvort sá stormur stóð stutt eða lengi. Síðan er reiknað hlutfall á milli þessa stöðvafjölda og allra stöðva sem athuga þann sama dag. Sú tala (sem er alltaf á milli núll og einn) er margfölduð með þúsund. Sérhver dagur fær þannig hlutfallstölu (langoftast mjög lága). Síðan leggjum við saman allar hlutfallstölur hvers mánaðar - og síðan vetrarins í heild. 

Stórfelldar breytingar á stöðvakerfinu eru nokkuð áhyggjuefni í þessu sambandi. Fyrri mynd dagsins á að róa okkur hvað það varðar.

w-blogg110424

Hér má sjá stormasummur mannaða og sjálfvirka kerfisins á vetrum áranna 2001 til 2023 bornar saman. Þær eru aldrei nákvæmlega þær sömu, en í öllum aðalatriðum eru þær samt að sýna það sama. Munurinn er ekki kerfisbundinn, þó er það þannig að meðaltal sjálfvirka kerfisins er aðeins lægra en þess mannaða. - Ártöl eru síðara ár vetrarins, 2001 er tíminn frá desember 2000 til mars 2001. 

w-blogg110424b

Við komumst aftur til 1949. Súlurnar sýna summur einstakra vetra, en rauða línan er tíuárakeðja. Talsverður breytileiki er frá ári til árs. Það vekur athygli hversu lág tala nýliðins vetrar er (2023-24), sú lægsta frá 1964 (reyndar mjög svipuð 1977). Flestir munu telja þetta vísbendingu um að veturinn hafi verið hagstæður. Auðvitað er hann ekki flekklaus, slíkur vetur kemur varla fyrir á Íslandi. Veturnir 2020 og 2022 voru hins vegar mjög illviðrasamir og 2015 sá illviðrasamasti á þessari öld (það sem af er) - eins og margir muna. 

Við gætum reynt að búa til samsettan gæðavísi fyrir vetrartíðina og fengi nýliðinn vetur háa einkunn fyrir veðramildi (ef þessi kvarði hér er notaður). Hann skorar ekki eins hátt í hita (en mjög skiptar skoðanir eru uppi um gæði vetrarhlýinda - sumir vilja alls ekki neitt svoleiðis). Minnisstæðar eru fréttir sem birtust árið 1929 - en sá vetur var bæði hægviðrasamur og hlýr (rétt eins og 1964). Þá voru einnig óvenjuleg hlýindi á Vestur-Grænlandi. Þau voru þar mjög illa séð og ollu umtalsverðum vandræðum - veiðar heimamanna röskuðust svo að lá við matarskorti - hlýr vetur var þar ekki talinn til gæða. Sagt er að svo sé enn. 


Fyrstu tíu dagar aprílmánaðar 2024

Apríl byrjar heldur kuldalega. Meðalhiti fyrstu tíu dagana í Reykjavík er +0,5 stig, -2,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -2,3 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 20. hlýjasta sæti það sem af er öldinni (af 24). Kaldastir voru þessir sömu dagar árið 2021, meðalhiti þá -0,9 stig. Hlýjastir voru þeir 2014, meðalhiti +6,0 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 115. hlýjasta sæti (af 152). Hlýjast var 1926, meðalhiti þá +6,6 stig, en kaldast var 1886, meðalhiti -4,4 stig.
 
Á Akureyri er meðalhitinn -2,6 stig og raðast í 79. hlýjasta sæti síðustu 89 ára. Hlýjast var í fyrra (+5,5 stig), en kaldast 1961 (-6,1 stig).
 
Á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi er þetta kaldasta aprílbyrjun aldarinnar, en raðast í 20. hlýjasta sæti (af 24) á Suðaustur- og Suðurlandi.
 
Hiti er vel undir meðallagi um land allt. Minnsta vikið frá meðalhita síðustu tíu ára er við Skarðsfjöruvita, -1,1 stig, en mest -5,2 stig í Svartárkoti (þar er meðalhiti fyrstu 10 daga mánaðarins -7,7 stig).
 
Úrkoma í Reykjavík hefur aðeins mælst 3,2 mm og er það aðeins sjöundi hluti meðalúrkomu. Úrkoma þessa sömu daga hefur þó alloft verið minni, síðast 2013. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 36,7 mm (óstaðfest tala) og 27,3 mm á Dalatanga.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 67,4 í Reykjavík það sem af er mánuði. Það er um 20 stundir umfram meðallag. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 45.

Smávegis af mars

Meðan við bíðum eftir tölum marsmánaðar frá Veðurstofunni skulum við líta á 500 hPa-meðalkort mánaðarins. 

w-blogg020424a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en hæðarvik eru sýnd með litum. Dálítill hæðarhryggur er fyrir norðan land og mikil jákvæð hæðarvik yfir Grænlandi. Hlýindi fylgdu á þeim slóðum og eins var mjög hlýtt á meginlandi Evrópu. Vik voru mjög neikvæð við Bretland. Ekki var þó sérlega kalt þar því sunnanátt var ríkjandi, lægðir viðloðandi mestallan mánuðinn. Eina svæðið þar sem hiti var undir meðallagi var blettur í vesturjaðri bláa svæðisins, þar ríkti svöl vestnorðvestanátt. 

Eins og við sjáum af kortinu voru austlægar áttir ríkjandi í háloftunum í mars. Það er ekki algengt. Við athugun kemur í ljós að þetta er í fyrsta sinn síðan 1963 sem austanátt er ríkjandi í marsmánuði yfir landinu - og ekki er vitað um aðra marsmánuði sem þannig er háttað um á tíma háloftamælinga. Sá er þó munur á mars nú og 1963 að þá var meiri sunnanátt heldur en nú og meðalhiti á landsvísu 2,5 stigum hærri heldur en nú - frægur mánuður fyrir hagstæða tíð. 

Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina. 


Sérviskulegt einkahugtak

Erfitt veður var víða um landið norðan- og austanvert í dag, páskadag. Færð spilltist og fjölmargir lentu í erfiðleikum á vegum úti og jafnvel innanbæjar í hvassviðri og blindu. Frést hefur af snjóflóðum á vegum. Full ástæða til aðgætni. Veðurstofan gaf út viðvaranir eins og vera ber. 

Fyrir fáeinum dögum gáfu spár til kynna að einmitt í dag, páskadag, myndi veðurkerfi fara yfir landið af því tagi sem ritstjóri hungurdiska hefur í sérvisku sinni kosið að nefna „þverskorinn kuldapoll“. Eftir því sem hann best veit kemur það hvergi fyrir í veðurfræðitextum öðrum, þó rétt hugsanlegt að einhverjir ámóta sérvitringar erlendir hafi nefnt þetta einhversstaðar - þá undir einhverju öðru nafni.

Í þessu tilviki er fyrirbrigðið í minna lagi og var ritstjórinn jafnvel vantrúaður á að einhver vandræði hlytust af framhjáhlaupi kuldapollsins, en svo vel fór sumsé ekki - þótt stórvandræði verði vonandi ekki. Ritstjórinn hefur lengi gefið þverskornum kuldapollum gaum (þótt aðrir geri það ekki) og hefur fengið framleitt sérstakt kort sem sýnir vel hvenær svona nokkuð er á ferðinni. 

w-blogg310324a

Svæðið er sérvalið - flestir leiðindavaldandi kuldapollar koma úr norðri eða norðvestri.  Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting. Hæð er yfir Grænlandi (yfir 1040 hPa), en mikið lægðasvæði rétt utan korts við Bretland. Litirnir sýna hæð 500 hPa-flatarins. Meginhæðin þar er við Vestur-Grænland (H). Meginkuldapollur er utan kortsins, en minni pollur hefur snarast út úr straumnum austan Grænlands og er á kortinu yfir Íslandi (L). Hér sést megineinkenni þverskorins kuldapolls mjög vel - vel skilgreind háloftalægð er þverskorin af jafnþrýstilínum sem lítið sem ekkert taka þátt í sveigju háloftastrauma. Mjög skýrt - ekki öflugt, en samt nóg til þess að valda umræddum leiðindum. 

w-blogg310324b

Næsta kort er alveg hefðbundið háloftakort úr 500 hPa-hæð. Jafnhæðarlínur þéttar dregnar en á hinu kortinu (þar sem litir voru notaðir). Vestan lægðarinnar er vindur stríður af norðri og norðaustri, en austan hennar er öllu hægari suðvestanátt. Lægðin kom hratt norðan úr hafi og fer hratt til suðvesturs til morguns og verður fljótt úr sögunni. 

Svo vill reyndar til að annar pollur, heldur minni þó, á enn að snarast út fyrir norðan land og gera spár ráð fyrir því að hann fari yfir landið aðra nótt (aðfaranótt þriðjudags). Hugsanlega versnar veður þá aftur - en kannski verður sú þróun kæfð í fæðingu.

w-blogg310324c

Síðasta myndin í dag sýnir annað sérviskukort ritstjóra hungurdiska (svona kort er hvergi annars staðar að finna). Hér sýna heildregnar línur sjávarmálsþrýsting, en litir sýna svokallaðan stöðugleikastuðul. Við förum ekki nánar út í hann, nema að við nefnum að hann er vísir á stöðugleika veðrahvolfs, milli 850 hPa-flatarins og veðrahvarfa. Á brúnu svæðunum er stöðugleikinn mjög lítill, loft á auðvelt með að velta - lóðrétt samskipti lofts eru auðveldari en ella. Við sjáum snúningsform kuldapollsins vel í sveigjum brúnu litanna. Þetta kerfi á nú að fara hratt til suðvesturs og á að vera ekki langt undan strönd Nýfundalands á þriðjudagskvöld og á miðvikudag - spár eru ekki sammála um hvort Ganderflugvelli verði lokað um stund - (trúlega verður það ekki). 

En þau eru mörg elliviðfangsefnin.  


Snjóflóðið á Tungudal 1994 (veðrið)

Við rifjum nú lauslega upp veðuraðstæður tengdar snjóflóðinu mikla sem grandaði sumarhúsabyggð í Tungudal við Ísafjörð og olli sömuleiðis gríðarlegu tjóni á skíðasvæðinu á Seljalandsdal.

Svo vildi til að ritstjóri hungurdiska var um þessar mundir að taka við stjórn á Úrvinnslu-og Rannsóknasviði Veðurstofunnar og fékk þetta flóð því í fangið (í óeiginlegri merkingu). Árið eftir féllu síðan enn skaðvænlegri flóð sem urðu til þess að snjóflóðamál voru tekin til gagngerðrar endurskoðunar og fjármagn í varnir gegn þeim stóraukið. Grundvelli hættumats var í kjölfarið gjörbreytt. Allan þann tíma sem ritstjórinn var síðan í þessu sama starfi liðu aldrei margir dagar í senn án þess að snjóflóðamál bæri á góma. Þetta voru tæp tíu ár. 

En það er þó þannig að allt frá snjóflóðunum miklu í Neskaupstað 1974 hafði hreyfing verið á snjóflóðavörnum. Frá 1979 hafði starfsmaður á Veðurstofunni sinnt þessum málum þar og frá 1989 voru starfsmennirnir þar tveir. En við mjög ramman reip var að draga, skilningur á hættunni var lítill meðal ráðamanna flestra, bæði á landsvísu og í heimabyggð. Mörgum þótti rétt að fela vandann og þrátt fyrir augljósa hættu var leyft að byggja ný hús á hættusvæðum, jafnvel barnaheimili. En eins og kemur fram í fréttaútdrætti hér að neðan áttu rýmingar sér þó stað - gert hafði verið ráð fyrir þeim. Og í apríl 1994 var rýmt á fáeinum stöðum, en aðeins eftir að stóra flóðið féll. 

Flóðið mikla 1994 kom algjörlega á óvart, og stærð þess var sannarlega óvenjuleg. Samkvæmt mælingum var rúmmál þess um 650 þúsund rúmmetrar, það mesta sem mælt hefur verið hér á landi allt til dagsins í dag. Þetta er stór tala. Á Veðurstofunni var talað um að þetta samsvaraði nokkurn veginn því að allur bílafloti landsmanna hafi komið ofan hlíðina á 150 til 180 km hraða á klukkustund. Sú samlíking (þó ónákvæm sé og ekki alveg réttmæt) ætti að koma flestum í skilning um það hversu hættuleg snjóflóð eru.

Um flóðið má lesa í ýmsum heimildum. Blöðin greindu ágætlega frá því, þess er að sjálfsögðu getið í skýrslum Veðurstofunnar og nú þessa dagana er um það fjallað í tveimur ágætum útvarpsþáttum. 

Hér verður ekki farið nánar út í þá sálma, en við notum tækifærið og rifjum upp veðuraðstæður með hjálp nokkurra korta era-interim endurgreiningarinnar. Í Morgunblaðinu 6.apríl lýsir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur aðdraganda veðursins í fáum orðum. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að gera það betur:

Tvær óvenju djúpar lægðir fóru yfir landið um páskana og ollu illviðri víða um land. „Þær réðu ríkjum alla páskana,“ sagði Haraldur Eiríksson veðurfræðingur. „Það má segja að skásta veðrið hafi verið á laugardag þegar fyrri lægðin fór að grynnka.“ Í seinni lægðinni mældist loftþrýstingur um 951 millibar á Dalatanga sem er nálægt meti miðað við árstíma. Að sögn Haraldar var mjög djúp lægð fyrir suðaustan land, milli Íslands og Skotlands, á skírdag sem þokaðist hægt norður á bóginn. Þann dag gerði leiðinda norðanátt um allt land en daginn eftir, á föstudaginn langa, var lægðin fyrir austan landið og var áfram mjög djúp. Seinnihluta dagsins var lægðin komin norðaustur fyrir landið og farin að grynnka. Á laugardag var lægðin kyrrstæð fyrir norðan og norðaustan land og hélt hún áfram að grynnast. „Þá er hins vegar farið að sjá í mjög vaxandi lægð fyrir suðvestan land og að morgni páskadags kemur hún upp að landinu," sagði Haraldur. „Fyrst um morguninn er austlæg átt um nær allt land með snjókomu en um tíma gerði hvassa vestanátt syðst á landinu með blindbyl.“ Lægðin var undan Austurlandi um kvöldið og var þá óvenju djúp miðað við árstíma eða rúmlega 951 millibar og lítið eitt dýpri en fyrri lægðin. Þessi lægð hélt kyrru fyrir fram á annan í páskum og var viðloðandi Norðurland en þokaðist þá heldur vestur með norðurströndinni og grynntist lítillega en var þó áfram mjög djúp.

Við lítum því næst á kortin:

Slide1

Kortið að ofan sýnir fyrri lægðina sem Haraldur talar um. Hún varð dýpst miðvikudaginn í dymbilvikunni, líklega um 941 hPa í miðju. Það er mjög óvenjulegt svo seint í marsmánuði. Rétt rúmri viku áður hafði reyndar enn dýpri lægð farið nærri landinu, en vestan við það. Þrýstingur á Keflavíkurflugvelli fór niður í 942,0 hPa og í miðju lægðarinnar hefur þrýstingur verið enn lægri, innan við 940 hPa. En á skírdag versnaði veður hér á landi þegar lægðin fór um það bil í stefnu sem örin á kortinu sýnir. En hún grynntist smám saman. Töluverð úrkoma varð um landið norðanvert og var ýmist rigning, slydda eða snjókoma á láglendi. Giskað hefur verið á að myndast hafi veikt lag í snjóþekjunni á Vestfjörðum. En e.t.v. er fullt eins líklegt að það hafi gerst áður. Lægðin sem er hér austur af Nýfundnalandi fór mjög hratt til austurs og olli illviðri á Bretlandseyjum og í sunnanverðri Skandinavíu á föstudaginn langa, en kom ekki við sögu hér á landi.  

Slide2

Á laugardaginn fyrir páska [2.apríl] var háloftastaðan eins og kortið að ofan sýnir. Gríðarkalt loft sækir út yfir Atlantshaf úr vestri og lægðabylgja gengur á móts við það úr suðvestri.

Slide3

Grunnkortið gildir á sama tíma, síðdegis á laugardag. Þá var stund milli stríða hér á landi, en úrkomusvæði er enn við Vestfirði. Það má taka eftir því að áttin þar er úr hánorðri eða jafnvel norðvestri, en áttir milli vesturs og norðurs eru óvenjulegar undan Vestfjörðum, nánast óeðlilegar vegna nálægðar Grænlandsstrandar og hinna háu fjalla þar. Lægðin sem á kortinu er austur af Nýfundnalandi dýpkar mjög ört og hreyfist eins og örin sýnir.

Slide4

Rúmum sólarhring síðar, seint að kvöldi páskadags [3.apríl] er lægðin skammt undan Norðausturlandi, innan við 950 hPa í miðju. Þrýstingur á Dalatanga fór niður í 951,3 hPa og er það næstlægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í apríl. Fjórum árum áður, 11.apríl 1990 hafði þrýstingurinn farið niður í 951,0 hPa á Bergstöðum í Skagafirði. Í þriðja sætinu er síðan mæling frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum 21.apríl 1947. Ekki er ólíklegt að aprílþrýstimet hefði verið sett 1994 hefðu stöðvar með loftvog verið jafnmargar og nú er.   

Slide5

Eftir að hafa náð fullum þroska tók lægðin slaufu til vesturs undir Eyjafjörð og þaðan suður og suðaustur yfir landið. Kortið gildir á miðnætti að kvöldi annars dags páska, 4.apríl, fáeinum stundum áður en flóðið mikla féll. 

Í framtíðinni verður vonandi gerð nákvæmari greining á úrkomu og vindi samfara þessari lægð til að hægt verði að kveða úr um það um hvers konar atburð var í raun að ræða. Úrkoma mældist allmikil, en ekki samt aftakamikil. Tvær sjálfvirkar veðurstöðvar voru komnar á fjöllum vestra, á Þverfjalli og á Dynjandisheiði. Á þeim báðum fór vindátt vestur fyrir norður og þótt vindur mældist ekki sérlega mikill var hann þó nægilegur til að koma snjó í gil og brúnir. 

Lægðakerfin sem ollu síðan snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri árið eftir fóru ekki ósvipaða braut og þessi, en veður var þó í þeim tilvikum miklu verra en hér. Allar lægðirnar báru með sér loft sem upphaflega var komið úr suðri og lægðirnar sent norður fyrir og þaðan inn yfir Vestfirði. Margar fleiri skæðar snjóflóðalægðir (og úrhellisvaldar að sumarlagi) bera þetta svipmót. 

Við skulum að lokum líta á fáeinar blaðafregnir [sleiktar af timarit.is]. Þær voru mun ítarlegri og fleiri en hér er greint frá. Morgunblaðið segir t.d. mjög ítarlega frá þann 6.apríl:

Ísafirði, frá blaðamönnum Morgunblaðsins Helga Bjarnasyni og Brynju Tomer. Snjóflóðið sem féll á skíða- og sumarhúsahverfi Ísfirðinga í Seljalandsdal og Tungudal í gærmorgun [5.] skildi eftir sig mikla eyðileggingu, auk þess manntjóns sem varð. Tveir sumarbústaðir standa eftir af liðlega 40 húsum. Af flestum sést spýtnabrak eitt og er það dreift um stórt svæði ásamt innanstokksmunum. Þá hefur flóðið rifið upp flest trén úr Simsonsgarði sem er um 50 ára gamall gróðurreitur á sumarhúsasvæðinu.

Hlaupið fór yfir skíðasvæðið á Seljalandsdal og yfir flest mannvirki sem þar voru, skíðaskálinn Skíðheimar var þó utan flóðsins. Úr skíðalyftunum fjórum standa nú eftir 5-7 möstur af um 30 og allir lyftuskúrarnir eru farnir. Þá tók snjóflóðið með sér Harðarskála, sem endurbyggður var fyrir nokkrum árum, og færður út á skíðasvæðið. Megnið af flóðinu stöðvaðist á brún Seljalandsmúla, fyrir ofan Tungudalinn, og gróf þar mannvirkin af skíðasvæðinu. Áfram hélt svokallað kófhlaup, það er laus snjór á mikilli ferð, niður í Tungudalinn og lagði í rúst sumarhúsasvæðið. Þar voru 42 bústaðir og gjöreyðilögðust 40. Af flestum sést ekki annað en spýtnabrak í snjónum. Talið er að loftþrýstingurinn á undan hlaupinu hafi valdið mestum skemmdunum. Brak úr húsunum og innanstokksmunir og stór tré úr skrúðgörðunum dreifðist um stórt svæði, meðal annars hluta golfvallarins og hluti fór yfir Tunguá í dalbotninum.

Snjóflóðið féll úr 600-700 metra hæð af brúnum Eyrarhlíðar og endaði niður í á. Flóðið var vel á annan kílómetra að lengd og 400-500 metra breitt að meðaltali. Það var víða 2ja-3ja metra þykkt. Áætla má að tjónið nemi um 130 milljónum króna, þar af nemur tryggingarupphæð bústaðanna um 90 milljónum króna.

Sama blað segir einnig frá hættuástandi sem lýst var yfir á nokkrum þéttbýlisstöðum, en við tökum eftir því að það var ekki fyrr en að flóðið hafði fallið. Rýmingar voru á þessum tíma alfarið í höndum heimamanna, þó Veðurstofan hafi verið innanhandar. En einnig kemur fram að stórt snjóflóð hafi fallið við Núp í Dýrafirði daginn áður [á annan páskadag]. Hefði það e.t.v. mátt benda á yfirvofandi stórhættu. - En líklega hafa yfirvöld einfaldlega ekki frétt af því. 

Hættuástandi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir í gær [5.] á Flateyri og í Hnífsdal. Á Flateyri var á milli 20-30 manns í efstu húsum hreppsins gert að flytja úr þeim þangað til hættuástandi væri aflétt, og álíka margir íbúar beðnir um að yfirgefa híbýli sín í Hnífsdal.

Almannavarnanefnd Bolungarvíkur kom saman til fundar í gærmorgun [5.], þar sem veruleg snjóflóðahætta hafði skapast í Traðarhyrnu, en íbúðarbyggðin liggur undir því fjalli.

Þingeyri. Snjóflóð féll rétt fyrir innan Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði s.l. mánudag [4. apríl] og flaut nokkuð hundruð metra yfir veginn og niður á tún fyrir neðan bæinn. Flóðið kom úr svonefndum Krossgiljum og lá leið þess nánast meðfram innstu húsum á Núpi og verður að teljast mikil mildi að enginn var þar á ferð.

Einnig segir Morgunblaðið 6.apríl frá margs konar hrakningum um páskana, mest á fjöllum, en líka í byggð:

Borg í Miklaholtshreppi. Fullvíst má telja að bóndinn á Snorrastöðum í Kolbeinsstaðahreppi, Kristján Magnússon, hafi bjargað lífi þriggja stúlkna sem ætluðu að ganga á Eldborg á páskadag [3.apríl].

Slide6
Þetta kort birtist í Morgunblaðinu 6.apríl Það sýnir í grófum dráttum útlínur flóðsins mikla.

Morgunblaðið segir áfram af rýmingum 7.apríl, hér kemur fram að fjöldi snjóflóða féll í námunda við þorpið, en að flestir voru til þess að gera rólegir samt. 

Flateyri. Almannavarnanefndin skipaði svo fyrir að morgni þriðjudags [6.] að hús í efstu götu bæjarins skyldu rýmd vegna snjóflóðahættu. Látlaus ofankoma hafði verið nóttina áður og var snjór mjög blautur og þungur. Íbúar húsanna fluttu með tannbursta sína og sængur til ættingja eða kunningja á öðrum stöðum í bænum og bíða þess rólegir að hættuástand verði flautað af. Ástandið nú svipað og fyrir fjórum árum. Ekki er hægt að segja að menn hafi kippt sér sérstaklega upp við þessar aðgerðir, því samskonar ástand skapaðist árið 1990 þegar fólk úr sömu húsum var í viku frá heimilum sínum, vegna snjóflóðahættu. Snjóalög í hlíðum Önundarfjarðar eru með mesta móti og bætti hressilega í um páskahelgina. Má sjá snjóspýjur á víð og dreif um fjallshlíðina fyrir ofan Hvilftarströnd, sem er fyrir innan bæinn. Var veginum um hana lokað á tímabili vegna snjóflóðahættu, en hefur hann verið opnaður aftur. Í ljósaskiptunum á þriðjudagskvöld [5.] féll snjóflóð úr bæjargilinu fyrir ofan Flateyri, en staðnæmdist í öruggri fjarlægð frá byggð. Urðu nokkrir vitni að því þegar það flóð féll og er óhætt að segja að það hafi verið hrikaleg sjón að sjá þegar snjórinn steyptist niður gilið og breiddist út í hlíðinni rétt fyrir innan bæinn.

Tíminn segir 7.apríl frá snjóflóði í Álftafirði daginn eftir að stóra flóðið féll.

Snjóflóð féll úr Sauratindum í Sauradal innan við Súðavík í gærmorgun [6.] og braut þar staura í háspennulínu en engin byggð er í dalnum.

Við látum hér staðar numið. 


Fyrstu 20 dagar marsmánaðar 2024

Fyrstu tuttugu dagar mars hafa verið fremur hlýir. Meðalhiti í Reykjavík er +2,7 stig, +2,0 ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og +1,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í sjöttahlýjasta sæti (af 24) það sem af er öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar 2004, meðalhiti þá 5,2 stig, kaldastir voru dagarnir hins vegar í fyrra (2023) meðalhiti þá -3,0 stig. Á langa listanum er hiti nú í 27. sæti (af 152). Hlýjast var 1964, meðalhiti +6,4 stig, en kaldast 1891, meðalhiti -5,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú +0,4 stig, raðast í 37. sæti 89 ára.

Á spásvæðunum er raðast hiti í 5. til 8. sæti á öldinni, að tiltölu hlýjast á Austurlandi að Glettingi. Á einstökum stöðvum er jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár mest á Miðfitjahól á Skarðsheiði +2,5 stig og +2,3 á Brú á Jökuldal. Minnst er vikið á Siglufirði +0,1 stig.

Úrkoma hefur mælst 44,8 mm í Reykjavík. Það er um 80 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 37,8 mm, í rétt rúmu meðallagi. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 138,8 mm, um 70 prósent umfram meðallag.

Sólskinsstundir hafa mælst 86,5 í Reykjavík, 20,7 fleiri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 65,3.


Lægð sem gefa þarf gaum

Í dag hefur slydduhríð gengið yfir höfuðborgarsvæðið, annars staðar hefur ýmist verið rigning eða snjókoma. Heldur hráslagalegt veður. 

w-blogg200324a

Kortið sýnir stöðuna nú síðdegis (kl.18 - spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Lægð er á Grænlandshafi og frá henni liggur úrkomubakki til austurs, sá sem er að fara yfir þegar þetta er skrifað nú um kl.16 á miðvikudag 20.mars. Lægðin sem nefnd er í fyrirsögninni er sú sem á kortinu er suður í hafi, 978 hPa í miðju. Hún dýpkar rösklega og stefnir til norðausturs eða norðnorðausturs og fer á morgun nærri Suðausturlandi eða yfir það. Lægðin ber svipmót illrar ættar þó ekki sé hún þó af allra verstu gerð. 

Hún er ekki alveg „í fasa“ við háloftalægðina vestan við - eins og sjá má af kortinu hér að neðan. Það gildir kl. 6 í fyrramálið (fimmtudag).

w-blogg200324b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum örvum en hiti í fletinum með litum. Lægðin illa er hér við suðurströndina, rétt komin framhjá eldri lægðinni fyrir vestan - „stefnumótið“ tekst ekki alveg (reikni tölvurnar rétt), lægðin lendir því ekki í svonefndum „óðavexti“ sem kallaður er. Henni er nú spáð niður í um 960 hPa síðdegis á morgun, miðjan þá rétt fyrir austan land. Gróflega má segja að hefði stefnumótið tekist fullkomlega hefði lægðin orðið fáeinum hPa dýpri en ráð er fyrir gert - munar um hvað lítið sem er. Það hjálpar líka að hreyfingin er ákveðin - taki lægðin einhverja slaufu um sjálfa sig gerist það austan við land. 

Þrátt fyrir þessar lítillega mildandi aðstæður er full ástæða til að gefa þessari lægð gaum. Norðaustan- og norðanáttin vestan við hana verður mjög hvöss, sérstaklega á Vestfjörðum og þar að auki virðist svo vera sem mjög mikil úrkoma verði um landið norðanvert, aðallega sem snjór í fjöllum. Úrkomuútgildavísar reiknimiðstöðvarinnar eru mjög háir og úrkomutölur í spánum líka, ávísun á veruleg leiðindi. 

Eins og venjulega þá látum við Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila um allar viðvaranir og hvetjum þá sem eitthvað eiga undir að fylgjast vel með spám þeirra. Það borgar sig. 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 80
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 1829
  • Frá upphafi: 2348707

Annað

  • Innlit í dag: 71
  • Innlit sl. viku: 1601
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 67

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband