6.2.2025 | 21:59
Eldingaábendi
Þrumuveðrið sem gekk yfir vestan- og sunnanvert landið í gær (miðvikudag 5.febrúar) fór ekki framhjá ritstjóra hungurdiska, hann minnist þess varla að hafa að vetrarlagi séð svo marga eldingarglampa á stuttum tíma. En hafa verður í huga að hann svaf af sér hið mikla eldingaveður sem gekk yfir snemma morguns þann 15.febrúar 1959 - óskiljanlegt - því aðrir íbúar hússins vöknuðu - og eldingu sló niður í Borgarneskirkju sem þá var í byggingu og olli nokkru tjóni. Kannski var þetta atvik eitt þeirra helstu sem kveiktu áhuga verðandi veðurnörds?
Það sem kom e.t.v. enn meira á óvart að þessu sinni var að eldingaveðri þessu var reyndar spáð með meir en tveggja sólarhringa fyrirvara. Spáð já, en sú spá þurfti samt ákveðna túlkun því spár af þessu tagi eru svo nýtilkomnar í því veðurlagi sem hér ríkir að ef vel á að vera þarf reynslu til að spárnar verði nýtingarhæfar. Þá reynslu hefur ritstjórinn ekki. Það kemur í hlut annarra að gera grein fyrir þessu ákveðna eldingaveðri og þeim spám sem hefði mátt nota til að segja fyrir um það.
En nú ber svo við að eldingaábendi þetta er einnig að gera ráð fyrir allmiklum líkum á eldingum um landið vestanvert í kringum hádegi á morgun (föstudaginn 7.febrúar) og enn og aftur síðla nætur aðfaranótt laugardags. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér þó til þess að taka mark á þessu - né hafna möguleikanum. Hann hefur einfaldlega ekki þá reynslu sem til þarf, en vonandi er að einhverjir unglingar grípi boltann.
Ritstjórinn mun hins vegar á næstunni klóra sér eitthvað í höfðinu yfir ástæðum þrumuveðursins í gær. Eins og eitt uppáhaldsorðtak hans segir: Það er mjög auðvelt að finna skýringar, en mjög erfitt að finna réttar skýringar. Það er auðvelt að finna eyju á Breiðafirði, en rétt eyja - það er allt annað mál - og krefst þekkingar.
6.2.2025 | 21:26
Stöðvarfjörður
Mikið illviðri hefur gengið yfir landið undanfarna daga, einkum í gær (miðvikudag 5.febrúar) og í dag (fimmtudaginn 6.). Svo virðist sem einna mest tjón hafi orðið í Stöðvarfirði. Meðan við bíðum eftir því að allar tölur berist á ritstjórnarskrifstofu hungurdiska (og veðrametingur geti hafist þar) skulum við rifja upp fáein illviðri sem komið hafa við sögu í firðinum. Til að fletta notar ritstjórinn atburðaskrá hungurdiska - töflu sem hann tók saman fyrir um áratug. Unnið hefur verið að þéttingu skrárinnar á undanförnum árum, en lítið er þar þó um nýlega viðburði. Ritstjóranum finnst einhvern veginn að önnur nörd (eða jafnvel opinberir aðilar) geti þar bætt um betur - en e.t.v. hefur enginn eða ekkert áhuga á slíkri vinnu.
Hvað um það. Ekki er mikið um illviðratíðindi frá Stöðvarfirði fyrr en um miðja síðustu öld. Ekki er þó hægt að ætla að þar hafi verið illviðralaust með öllu því við eigum til prýðilega lýsingu á vindum í firðinum. Höfundur hennar er séra Magnús Bergsson sóknarprestur í Stöð og er hún dagsett á gamlársdag 1839 (nálgast 200 árin). Magnús var því fljótur að svara tilmælum sem Hið íslenska bókmenntafélag beindi til klerka víðs vegar um land. Voru þessi tilmæli í spurningaformi. Beðið var um lýsingar á sóknum og háttum manna. Átta spurningar voru sérstaklega um veður. Svör Magnúsar eru meðal þeirra ítarlegustu í safninu.
[Kortaklippunni er stolið af vef danska þjóðskjalasafnsins. Það kom út í Frakklandi 1833].
Við rifjum hér upp svar Magnúsar við 22. spurningu í lista félagsins - og dáumst að orðfæri hans [xxii: Er þar veðrasamt? Og af hvörri átt og um hvörn tíma árs, mest eður minnst?]:
Í hreinni landátt er sveitin að kalla veðrasæl því sögn manna er að þar sjaldan sem aldrei komi stórveður af norðri, því er þar oft blíðalogn eða lítil kylja af þessari átt þegar í sveitunum hvoru megin, einkum Breiðdal, er grenjandi gustur af norðri. Hér leiðir það líka að í snjóvatíð rífur þar aldrei til jarðar, þar einungis þotvindur setur snjóinn í harðfennisfergjur, og yfir höfuð oftast í hörðustu vetrum minnstir landvindar.
Af hafaustri, austri, norðaustri, norðri og vestri koma þar engin veður er telja megi en af suðri, eður öllu fremur landsuðri, koma þar veður hin ógurlegustu, það standa stundum af miðjum fjöllunum sunnan megin fjarðarins og eru þá hörðust út í sveitinni en stundum standa þau fyrir andnes sömu fjalla; standa þau þá inn fjörð og eru hörðust á innsveitinni. Harka og afl þessara veðra framúrskarandi og ógurlegt, þau taka fjörðinn frá ysta til innst í einlægt rok upp á móts við tinda, flytja stundum steina úr stað, sem eru meðalmanns tak, rykkja jafnvel hálffreðnum þökum af húsum, kippa króm og hjöllum frá veggjum og endog rífa naglföst borð af húsræfrum. Um afl og óstjórn veðra þessara eru margar sögur, sem ótrúlegar virðast mættu, hvörra hér verður ei getið. Af því þetta ætíð eru þíðuveður fylgist og með þeim áköf stórrigning er eykst af vatnsdrífi því sem stormurinn með sér flytur, endog upp til dala, svo að þó áfrör og snjóar liggi á jörðu verður á skömmum tíma öríst. Þetta eru kölluð landsynningsveður og stendur á þeim dægrið, hálft annað og mest tvö dægur í senn, oftar linnir þeim upp á þann máta að hann snýr sér til norðvesturs og skírist þá loftið, en oft stendur ei nema litla stund á hvíld þeirri, mest tvo til þrjá daga.
Líka ber við að af norðvestri koma veður sem lítið gefa eftir landsynningnum að hörku nema hvað þau jafnvel fara fram með enn sviplegri rykkibyljum. Þessi veður eru oftast milli frosts og hláku en og stundum frostveður, en þó ber við að þau hafa snjóburð með sér. Þessi norðvestanveður sýnast því að vera sama átt sem landsynningur því á þeim stendur skamma stund og þegar hann gengur úr þeim gengur upp með landsynningsveðrið; sjaldan eru landsynningsveður nema í bestu vetrum en það er merkilegt að þau byrja með hausttímanum og hætta með vortímanum. Þeirra verður aldrei vart á sumri og það er ei þó hann sé að sunnan og útsunnan enda mundu þau þá og gjöra bráðan og óbætanlegan skaða á heyjum og fleiru.
Vafalítið má telja að þessi lýsing séra Magnúsar eigi enn vel við vindafar í firðinum - geri aðrir betur.
Síðan segir fátt af vindum í Stöðvarfirði fyrr en tjóns í hvassviðri er getið árið 1956. Þann 1. febrúar það ár gerði aftakaveður á landinu - um það má lesa í sérstökum pistli hungurdiska. Þar á meðal er stutt frétt um tjón í Stöðvarfirði:
Tíminn 3.febrúar 1956: Stöðvarfirði í gær. Í fárviðrinu í fyrrinótt urðu talsverð spjöll í Stöðvarfirði. Á Háteigi, sem er sveitabýli í firðinum fuku fjárhús og hlaða. Missti bóndinn þar talsvert af heyi og varð fyrir tilfinnanlegu tjóni. Það verður þó að teljast mikil heppni, að kindur, sem voru í fjárhúsinu sakaði ekki. Stóðu þær allar eftir lifandi í fjárhústóftunum, þegar húsin sjálf höfðu fokið ofan af þeim. Í Stöðvarfirði var veðrahamurinn mestur eftir hádegi í fyrradag og lengi nætur í fyrrinótt.
Næstu stórfréttir af foki í firðinum urðu haustið 1963. Þá gerði annað aftakaveður sem hungurdiskar hafa líka fjallað um sérstaklega. Við rifjum hér upp frásögn Morgunblaðsins sem birtist 26. október:
Stöðvarfirði, 25.október. Á miðvikudaginn [23.] brast hann á með sunnan- og suðvestan roki. Annað eins veður hefur hér ekki komið í mörg ár. Fuku margar járnplötur af húsum og þrír bátar, sem lágu á legunni sukku. Það voru 2 trillubátar og einn 9 tonna dekkbátur. Kafari var fenginn frá Norðfirði og vann hann að því í dag að ná dekkbátnum upp. Haft er eftir kafaranum, að bátnum hafi hvolft, því bæði möstrin væru brotin. Síðdegis i dag tókst að ná dekkbátnum upp og var hann talsvert skemmdur. Trillubátunum tókst að ná upp í gær. Það verk unnu eigendur þeirra með aðstoð hjálpfúsra. Bátarnir voru lítið skemmdir. Tíðarfar hefur verið fjarska umhleypingsamt í haust, en sumarið var yfirleitt ágætt. Stefán.
Árið 1972 varð stórtjón vegna sjávargangs á Austurlandi - þar á meðal í Stöðvarfirði. Frá þessu veðri er sagt í samantekt hungurdiska um árið 1972. Í fregnum frá Stöðvarfirði er tekið fram að ekki hafi verið tiltakanlega hvasst þegar sjávarflóðið varð. Við látum því nægja að vísa í fyrri pistil - þar er lýsing á aðstæðum.
Í mars 1976 varð tvisvar foktjón í Stöðvarfirði, fyrst þann 5. og síðan þann 21. Djúpt virðist á fregnum af þessu tjóni í blöðum, við vitnum hér í smáklausu í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Þar segir: [5.] urðu allmiklar skemmdir á húsum í Stöðvarfirði, járn fauk af þökum og þak fauk í heilu lagi, og [21.] skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum i Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Járn fauk af húsum og vinnupallur fauk. Kannski var fréttamat annað heldur en nú er.
Foktjón varð einnig tvisvar á Stöðvarfirði í desember 1982, þann 1. og 19. Fyrra veðrið var þar mun verra en hið síðara (en það síðara mun verra á landsvísu): Morgunblaðið segir frá 2.desember 1982:
Stöðvarfirði, 1.desember. Sunnan óveður gekk yfir Stöðvarfjörð í dag og urðu miklar skemmdir á húsum og bílum. Hvessa tók upp úr hádegi, en verst var veðrið um klukkan 16:00. Þakjárn fauk af mörgum húsum, stór hurð fauk af frystihúsinu og einnig fauk hurð af skemmu við síldarbræðsluna. Bílar fuku út í skurði og einnig brotnuðu rúður í nokkrum bílum og rúða brotnaði í barnaheimilinu og voru börnin send heim. Veðrið gekk fljótt yfir og um sexleytið í dag var farið að lygna aftur. Ekki er vitað um heildartjón i bænum, en ljóst að tjón hefur orðið talsvert. S.G.
Ekki þurfti að bíða mörg ár eftir næsta foktjóni á Stöðvarfirði, Morgunblaðið segir frá 4. febrúar 1986:
Stöðvarfirði, 27.janúar. Aðfaranótt sunnudagsins 26. janúar. sl. varð þó nokkurt tjón í suðaustan roki á Stöðvarfirði. Félagar úr Björgunarsveitinni Björgólfi voru fyrst kallaðir út skömmu eftir miðnætti, en þá höfðu m.a. fokið járn- plötur af húsum, rúður brotnað og ýmislegt fleira gengið úr lagi. Um kl.2 hafði verið lokið við lagfæringar á helstu skemmdunum og var þá mikið farið að lægja. Bjuggust flestir við því að eiga náðugar stundir það sem eftir lifði nætur. En það var bara lognið á undan storminum því um kl.5 sömu nótt hvessti hann aftur. Var áttin þá austlægari og sýnu hvassara en í fyrra áhlaupinu. Fyrst fauk stór hluti útihúsa og í sömu rokunni þeyttist lítill árabátur 2300 m og gjöreyðilagðist. Höfðu þó festingar hans verið treystar fyrr um nóttina. Brak úr útihúsunum mun hafa skemmt 2 íbúðarhús og bíl, en rúður brotnuðu í nokkrum farartækjum. Mesta tjónið varð þó við höfnina, en þar skemmdust 2 bátar, sem stóðu uppi á landi. Tókst þó að afstýra frekara tjóni með dyggri framgöngu smábátaeigenda og björgunarsveitarmanna, sem voru á þönum þar til veðrið fór að lægja. Ekki urðu teljandi skemmdir á smábátum þeim, er voru á floti í höfninni. Félagar úr björgunarsveitinni unnu allan sunnudaginn meðan að birtu naut við að tína saman járnplötur og hreinsa til eftir óveðrið. Steinar.
Á þessari öld er þess tvívegis getið í atburðaskránni að gámar hafi fokið í Stöðvarfirði og valdið skemmdum. Það var 6.janúar 2002 og 6.nóvember 2011.
Við látum þessa upprifjun duga að sinni.
Vitnað var í: Múlasýslur: Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1874, Reykjavík, Sögufélagið, 2000, s.447-448
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2025 | 01:22
Smávegis af janúar
Janúar var kaldur - miðað við það sem verið hefur á þessari öld. Taflan sýnir hvernig hiti á spásvæðum raðast - röðin nær til 25 ára.
Þetta reyndist kaldasti janúarmánuður það sem af er öldinni á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Að tiltölu var mildast á Miðhálendinu og við Breiðafjörð. Þar raðast hitinn í 19. hlýjasta sætið. Á landsvísu eru þrír janúarmánuðir síðustu 25 ára lítillega kaldari heldur en sá nýliðni. Næstu 25 árin á undan voru 13 janúarmánuðir kaldari heldur en sá nýliðni.
Það er svipað og að undanförnu að hlýtt er við mestallt norðanvert Atlantshaf, sérstaklega vestan við okkur.
Kortið hér að ofan sýnir þetta vel. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, jafnþykktarlínur eru strikaðar (daufar), en þykktarvik eru sýnd í lit. Hér er miðað við tímabilið 1981 til 2010, sem var nokkru kaldara heldur en það sem af er öldinni. Meðalhiti á landinu í nýliðnum janúar var -0,6 stigum neðan þessa meðaltals (1981-2010), nokkru neðar heldur en vikin voru í neðri hluta veðrahvolfs (+0,5°C). Þetta er í takt við stöðuna að undanförnu, neikvæðu vikin hafa einkum gert sig gildandi í allra neðstu 1500 metrum lofthjúpsins.
Vestanáttin í háloftunum var lítillega undir meðallagi, en sunnanáttin í slakasta þriðjungi dreifingarinnar - undir meðallagi sum sé. Skýrir það væntanlega hin neikvæðu hitavik.
3.2.2025 | 18:56
Óvenjudjúp lægð
Í dag komst loftþrýstingur við sjávarmál niður í 940,9 hPa á Siglufirði (óstaðfest tala). Þetta er óvenjulág tala og virðist vera sú lægsta sem mælst hefur á spásvæðinu Strandir og Norðurland vestra í febrúar. Við verðum þó að hafa í huga að þótt þrýstimælingar hafi staðið á landinu samfellt í rúm 200 ár var athugunarkerfið lengi vel mjög gisið - og þar að auki var ekki athugað þétt í tíma. Upplýsingar okkar um lágþrýstimet eru því ekki fullkomnar.
Líkan dönsku veðurstofunnar segir þrýsting í lægðarmiðju hafa komist niður í 936 hPa. Það verður þó seint staðfest.
Síðast fór þrýstingur lægra á landinu þann 15. febrúar 2020, þá var lægsta talan 932,9 hPa í Surtsey. Mikið illviðri gekk þá yfir landið og víða varð talsvert tjón. Veðrið varð reyndar einna verst þann 14. Lægðarmiðjan gekk ekki yfir landið, en greiningar giskuðu á að hún hafi verið á bilinu 919 til 922 hPa í miðju þegar verst lét. Tveir pistlar hungurdiska fjölluðu um þessa lægð.
Næst á undan mældist þrýstingur undir 940 hPa þann 30. desember 2015, sannkölluð ofurlægð sem gekk norður yfir landið, lægstur varð þrýstingurinn 930,2 hPa á Kirkjubæjarklaustri. Um þetta var fjallað á hungurdiskum. Eftirminnilegasta tjónið var e.t.v. af völdum sjávargangs á Austfjörðum. Sama ár, 2015, fór þrýstingur á Gufuskálum niður í 939,0 hPa þann 7. janúar, sömuleiðis getið á hungurdiskum.
Næstu fjögur tilvik á undan voru í janúar (1999, 1995, 1993 og 1990), mikil skaðaveður. Á aðfangadag 1989 fór þrýstingur á Stórhöfða niður í 929,5 hPa, og sama ár hafði hann farið niður í 931,9 hPa þann 5.febrúar. Vindur mun hafa haft töluverð áhrif til lækkunar þrýstings á stöðinni í þessum tilvikum báðum, slík vindhrif koma ekki fram í greiningum í líkönum. Í desembertilvikinu 1989 var vindhraði 48,9 m/s, en 46,8 m/s í febrúar (komst þá mest í 49,4 m/s).
Hér að neðan er einungis fjallað um febrúar. Næsta febrúartilvik á undan því 2020 var 8.febrúar 1982. Eftirminnilegt ritstjóranum, enda á vaktinni. Þrýstingur fór niður í 937,0 hPa á Keflavíkurflugvelli og var það þá lægsti þrýstingur sem mælst hafði á landinu frá 1942 að telja. Mannskaði varð í þessu veðri er bifreið fauk af vegi, en annars varð tjón minna en útlit hafði verið fyrir.
Þótt þrýstingur hafi ekki komist niður í 937 hPa frá 1942 þar til 1982 fór hann samt nokkrum sinnum niður fyrir 940 hPa á tímabilinu. Í febrúar þarf hins vegar að leita allt aftur til þess 8. árið 1925, í Halaveðrið svokallaða. Þá fór þrýstingur í Stykkishólmi niður í 934,1 hPa. Í febrúar 1922 mældist þrýstingur í Grindavík 935,2 hPa þann 19. Ekki var mikið tjón í því veðri, en þó eitthvað.
Tvær mjög djúpar lægðir fóru yfir landið seint í febrúar 1903. Á veðurstöð varð þrýstingur lægstur í Vestmannaeyjum þann 24., 932,3 hPa, en hafði farið niður í 933,0 hPa í Reykjavík nokkrum dögum áður á hinni opinberu veðurstöð. Jónas Jónassen landlæknir fylgdist vel með loftvog sinni og segir að hún hafi komist niður í 931,3 hPa bæði þann 20. og þann 24.febrúar, ekki er sérstök ástæða til að efast um það - en um nákvæmni loftvogar Jónasar er ekki vitað. Eitthvað var um tjón í þessum veðrum, einkum fjárskaða, en svo virðist sem þessar lægðir hafi verið búnar að brenna það versta úr sér þegar þær komu að landinu. Kannski hafa þær verið enn dýpri.
Á árunum 1822 til 1826 mældi Jón Þorsteinsson fjórum sinnum afarlágan loftþrýsting, í öll skiptin í febrúar. Þrisvar var þrýstingurinn neðan við 930 hPa, 926,5 hPa þann 8. febrúar 1822, 923,8 hPa þann 4. febrúar 1824 og 920,4 hPa þann 13. febrúar 1826. Danska vísindafélagið taldi síðastnefndu töluna ranga, en viðurkenndi þá næstlægstu og stóð hún (og stendur víða enn sem lægsta tala sem mælst hefur á veðurstöð á landi við Norður-Atlantshaf) - þrjósk tala. Jón var ágætur veðurathugunarmaður, en við vitum ekki nákvæmlega hversu hátt yfir sjávarmáli mælir hans var - þannig að aldrei verður vitað hverjar þessar tölur eru nákvæmlega. En ástæðulaust er að taka ekkert mark á þeim, þrýstingur hefur vafalítið verið sérlega lágur þessa daga. Tvisvar síðar mældi Jón lægri þrýsting heldur en 940 hPa, það var 5. mars 1834 og 21. janúar 1852. Eftir það þurfti að bíða 28 ár eftir næstu 940 hPa - en höfum gisið net og gisinn athugunartíma í huga.
Nú er gert ráð fyrir erfiðri tíð næstu daga, bæði með skakviðrum og úrhelli. Kannski fjöllum við eitthvað um það - telji ritstjórinn ástæðu til.
2.2.2025 | 16:03
Hitamet fellur
Hiti fór í 11,7 stig í Stykkishólmi seint í fyrrinótt (1.febrúar). Hámarkshitamælingar eru til í Stykkishólmi í gagnagrunni Veðurstofunnar aftur til 1854. Þetta er hæsta hámark sem mælst hefur þar í febrúar allan þennan tíma (172 ár). Næsthæsta hámarkið er frá því í febrúar 1942, 11,0 stig.
Í Reykjavík fór hið opinbera hámark í 9,7 stig. Það er reyndar dægurhámark - hæsti hiti sem mælst hefur 1.febrúar. Mánaðarmetið er hins vegar 10,2 stig, sem mældust þann 25. árið 2013, og tvisvar hafa mælst 10,1 stig, 8. febrúar 1936 og 16. febrúar 1942 (í sama veðri og gamla Stykkishólmsmetið). Nú gerðist það hins vegar að hiti fór í 10,3 stig á Reykjavíkurflugvelli, en þar var hin opinbera stöð einmitt staðsett á árunum 1950 til 1973. Það telst samt ekki methiti í Reykjavík - miðað við núverandi metaafgreiðsluhætti. Eiga slík formsatriði að ráða úrslitum í svona keppni?
En höfum í huga að metametingur af þessu tagi (stök met á einstökum stöðvum) telst frekar vera skemmtiefni heldur en alvara. Alvaran fellst hins vegar í stórfelldum breytingum á meðalhita - eða ítrekuðu metafalli á stórum svæðum.
1.2.2025 | 14:18
Djúp lægð?
Þótt skemmstu spár hafi staðið vel fyrir sínu þessa síðustu daga hefur hringl verið með mesta móti í 3 til 4 daga spám. Dæmi um það er lægðin sem á að koma að landinu á sunnudagskvöld. Í fyrradag (á fimmtudag) var hún að vísu talin verða nokkuð gerðarleg, en átti að fara yfir landið austanvert um 960 hPa í miðju - og ekki valda teljandi veðri að sögn evrópureiknimiðstövðarinnar.
Síðan hafa ýmis afbrigði birst, eiga það þó sameiginlegt að gera lægðina mun dýpri heldur en áður hafði verið reiknað með. En enn er þó reiknað með að aðkoma hennar að landinu verði ekki af verstu gerð - miðað við dýptina sem í nýjustu spá reiknimiðstöðvarinnar á að vera 937 hPa í miðju. Þar með er komið niður í það sem verður að teljast óvenjulegt - og það er enn óvenjulegra að þessi lægsta tala á að vera í lægðinni norðan við land.
Við sjáum hér spákort sem gilda á um hádegi á morgun, sunnudag. Þá er sunnanátt á landinu, en mjög vaxandi lægðasvæði fyrir sunnan land. Fyrri lægðin virðist ekki ætla að ná sér verulega á strik - hefur eitthvað mistekist við stefnumót það sem myndaði hana. Þá er það spurning hvað gerist með aftari lægðina, dýpkunin mikla byggir á því að þessar lægðir geti á einhvern hátt sameinast. Það gerist þá helst þannig að aftari lægðin tekur fram úr þeirri fyrri - rétt austan við hana - þannig að hún nái að grípa hana með sér, en jafnframt hægir á - svo allt kerfið þýtur ekki langt norðaustur í haf - eins og vel gæti gerst. Fyrri lægðarmiðjan á nú að fara í stefnu á Suðvesturland, en sú síðari í stefnu yfir landið austanvert og dýpka verulega yfir landinu. Kannski þrýstingur komist niður fyrir 950 hPa á einhverri veðurstöð landsins.
Rúmum sólarhring síðar, kl.18 síðdegis á mánudag hafa lægðirnar sameinast og eru 937 hPa í miðju. Þótt spár séu ekki sérlega grimmar varðandi vind og úrkomu er samt allur varinn góður í stöðu sem þessari - ekki síst vegna þess hringls sem verið hefur í spánum. Það er furðuhlýtt í þessari lægð og sé það raunverulegt dregur það úr áhættu varðandi hana.
En það er ekki oft sem 937 hPa lægðir sjást á þessum slóðum, þær eru algengari sunnan við land. Eitthvað óvenjulegt á ferð - og rétt að gefa gaum.
31.1.2025 | 21:47
Enn af línuritum - snjókoma
Reynt er að halda utan um það hversu oft snjókomu er getið í veðurathugunum. Úr slíku verða auðvitað til tímaraðir. Gallinn er hins vegar sá að í gegnum tíðina hafa reglur um það hvað telst með í slíkum talningum ekki verið alveg þær sömu - en samt kannski í aðalatriðum. Fleira þarf að hafa í huga. Veðurathugunarmenn eru misnæmir gagnvart snjókomu, hvort færa eigi hana til bókar eða ekki, á fjölmörgum stöðvum er t.d. ekki athugað að nóttu - tekur því að telja fáein korn - eða ekki?
Það sem hér fer á eftir er meira sett fram til gamans heldur en sem hörð vísindi. Vinsamlega hafið það í huga.
Við byrjum á því að taka saman árlegan fjölda snjókomudaga í Stykkishólmi, allt aftur til 1846. Eins og fram kom að ofan er ekki alveg víst að röðin sé gallalaus (hún er það örugglega ekki). Við sjáum í stórum dráttum það sem við kannski búumst við að sjá. Snjókomudagar virðast hafa verið fleiri á 19. öld heldur en þeirri 20 og að snjókomudagar hafi verið fleiri á kuldaskeiði 20. aldar heldur en á hlýskeiðinu fræga. Sé rýnt í smáatriði fer kannski að verða meiri vafi, snjókomutíðnin óx t.d. ekki að ráði fyrr en eftir 1980 og hefur á nýjasta hlýskeiðinu ekki fallið niður í sömu gildi og á fyrra hlýskeiði. Lágmark er einnig í snjókomutíðninni á milli 1870 og 1880. Það er nokkurn veginn í samræmi við almannaróm, 8. áratugur 19. aldar fær almennt betri eftirmæli heldur en þeir 7. og 9.
Rauða línan á myndinni sýnir 10-árakeðjur, við notum hana aftur á þarnæstu mynd.
Í Reykjavík komumst við ekki lengra aftur en til 1921. Það ár var snjókoma mjög tíð og snjóathuganir sýna einnig töluverðan snjó. Ekki er mikið um þetta ár talað í þessu sambandi. Líklega er það vegna þess að snjómagnið bliknaði mjög í samanburði við veturinn á undan, 1920, en í mínu ungdæmi minntust eldri menn og konur þess vetrar sérstaklega sem ódæma snjóavetrar. Rétt eins og í Stykkishólmi skera árin upp úr 1980 og aftur um 1990 sig mjög úr, en aukningin sem virðist hafa fylgt kuldaskeiðinu kom fyrr fram heldur en í Stykkishólmi. Fækkun snjókomudaga varð líka meira afgerandi og hefur snjókomutíðnin haldist svipuð nú í 30 ár og var á fyrra hlýskeiði. Tíðnin náði algjöru lágmerki 2010 - en það ár var einnig mjög rýrt í Hólminum.
Hér leyfum við okkur að setja 10-árakeðjur þriggja stöðva saman á mynd, Akureyri bætist við. Þrátt fyrir nokkurn mun á stöðvunum eru höfuðdrættir þeir sömu. Snjókomutíðni tók að vísu við sér á Akureyri strax í upphafi kuldaskeiðsins - en lét lengur bíða eftir sér á hinum stöðvunum tveimur, sérstaklega í Stykkishólmi. En höfum enn í huga að þessi smáatriði kunna að tengjast athugunum á stöðvunum.
Síðasta myndin sýnir allt annað. Hér er talið hversu marga daga á sumri (júní til ágúst) snjóar á Grímsstöðum á Fjöllum á árunum 1920 til 2024. Hretið mikla í júní á síðastliðnu ári kemur vel fram sem mikill toppur. Algengust var snjókoma sumarið 1964, hlutur ágústmánaðar drjúgur, einnig eru miklir toppar 1952 og 1968, tengdir júníhretum þau ár. Hin afbrigðilega svölu sumur 1921 til 1923 koma einnig vel fram, þrjú í röð. Séu ár tekin saman verður tíminn upp úr 1990 einna feitastur, snjókomudagafjöldi var yfir meðallagi 8 sumur í röð. Sumur alveg án snjókomudags eru ekki mjög mörg, fleiri þó síðustu 15 árin heldur en áður hefur verið.
Meltum nú þetta með okkur.
30.1.2025 | 20:18
Tvö (misheppnuð?) stefnumót
Veðrið er heldur órólegt þessa dagana, eins og algengt er um þetta leyti árs. Staðan dæmigerð. Mikill kuldapollur, sem ritstjóri hungurdiska hefur kosið að nefna Stóra-Bola er í góðum styrk vestan Grænlands og beinir jökulköldu norrænu meginlandslofti út yfir Atlantshaf og sömuleiðis hlýju suðrænu úthafslofti til stefnumóta á sömu slóðum. Allt mjög kunnuglegt.
Að venju látum við Veðurstofuna um spár og aðvaranir en lítum lauslega á skipan aðflutningsmála á þremur spákortum evrópureiknimiðstöðvarinnar, en líkan hennar er þanið til hins ítrasta og reynir að ná tökum á stöðunni.
Fyrsta kortið sýnir stöðuna eins og reiknað er með hún verði síðdegis á morgun (föstudag 31. janúar). Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en úrkoma er sýnd í lit. Lægðin sem angraði okkur í dag (fimmtudag 30.janúar) er alveg gufuð upp og ný komin í hennar stað, með miðju vestur undir strönd Grænlands. Kl.18 er úrkomunnar farið að gæta verulega um landið vestanvert og orðið býsna hvasst af suðaustri og suðri. Rétt fyrir ferðamenn og aðra að fylgjast vel með - krapi og vatnselgur geta einnig valdið vandræðum.
Suður í hafi eru tvær litlar lægðarmiðjur sem bent er á með örvum. Fyrri spár höfðu sumar hverjar gert ráð fyrir því að þær ættu stefnumót, en svo virðist sem sá hittingur gerist ekki. Lægðin sem merkt er með tölustafnum 2 og átti að bera fóður í lægð 1 sem kom að sunnan. Þetta hefur þær afleiðingar að ákveðinn fóðurskortur verður hjá lægðunum báðum og þær verða ekki eins stórar og djúpar og hefði orðið - hefði stefnumótið heppnast. Samt er gert ráð fyrir því að fyrri lægðin verði foráttukröpp og til alls líkleg - en á mun minna svæði heldur en ella hefði orðið. Sú síðari fylgir síðan í kjölfarið, hálfgert lík - sem þarf þó að gefa gaum.
Lægðirnar tvær sjást vel á korti sem gildir kl.9 á laugardagsmorgni.
Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting, en litirnir hvernig þrýstingur hefur breyst næstliðnar þrjár klukkustundir. Tölurnar eiga við lægðirnar tvær. Fyrri lægðin, sú krappa, er ekki stór um sig, en þrýstisveiflan með henni er gríðarmikil, þrýstirisið í kjölfar lægðarinnar sprengir litakvarðann. Vindur er mjög mikill við lægðina, en ekki á mjög stóru svæði. Eftir þessari spá að dæma virðist mesti krafturinn renna vestan við landið - þannig að kannski sleppur þetta.
Við verðum þó að hafa í huga að þetta er afskaplega ótrygg staða og lægðirnar það litlar um sig að mjög litlu má muna í braut þeirra til að illa geti farið. Við fylgjumst því mjög vel með spám. Síðari lægðin á síðan að fara hjá undir kvöld á laugardag, en henni er ekki spáð jafnöflugri og þeirri fyrri - fær ekki það hlýja loft sem stefnumótið lofaði.
En hádegisruna reiknimiðstöðvarinnar segir okkur síðan að annað stefnumót eigi að misfarast suðvestur í hafi á laugardagskvöld.
Kortið gildir kl.18. Síðari lægðin á fyrri kortum er nú rétt sunnan við Reykjanes, valdandi nokkrum leiðindum. Fyrri lægðin, sú öflugri er að deyja við strönd Grænlands. Suðvestur í hafi er nýtt stefnumót í uppsiglingu. Hafi reiknimiðstöðin rétt fyrir sér misheppnast það líka. Lægð sem merkt er tölustafnum 1 er of fljót í förum til að hitta í lægð 2 - sem ber í sér hluta fóðursins. Þótt þetta verði samt umtalsvert kerfi er það samt ekki eins afgerandi slæmt eins og sumar eldri spár höfðu gefið til kynna.
Hér er líka veruleg óvissa og svo sannarlega rétt að fylgjast með. Reiknimiðstöðin segir lægðina (1) verða í kringum 960 hPa yfir Austurlandi á sunnudagskvöld og hina fylgja síðan á eftir - sem lamaður aumingi í kjölfarið.
Hádegisruna bandarísku veðurstofunnar er meira krassandi - setur lægðina yfir landið vestanvert, um 950 hPa í miðju á aðfaranótt mánudags.
Margar vandræðalægðir eru síðan áfram á ferð í spám reiknimiðstöðva.
Viðbót að kvöldi 31.janúar.
Myndin sýnir spá um vind í 925 hPa-fletinum, sú til vinstri gildir kl.20 að kvöldi föstudags 31.janúar, en sú til hægri kl.05 að nóttu laugardaginn 1.febrúar 2025. Litakvarða er komið fyrir ofan við myndaklippurnar. Á vinstri myndinni má sjá mikið vindhámark norðan við Snæfellsnes, þar nær vindurinn í fletinum nærri 50 m/s og er yfir 40 m/s á löngu nær samfelldu belti norðan við fjallgarðinn. Þar fyrir norðan er mjótt belti með hægum vindi - og síðan kemur annað vindhámark. Hér er greinilega mikil flotbylgja á ferð (fjallabylgja) vakin af fjallgarðinum og stöðugu lofti - trúlega gætir þessarar kröppu bylgju mjög hátt í lofti. Mikil ámóta bylgja er einnig norðan við Ok og Langjökul. Á síðari myndinni er hinn almenni vindur á svæðinu svipaður og á þeirri fyrri, jafnvel meiri - en nú vantar þessi bylgjuhámörk, þau eru ekki til staðar, hvorki á Snæfellsnesi né við Langjökul. Stöðugleiki loftsins hefur greinilega breyst á milli þessara tveggja spátíma - síðara kortið sýnir blandaðra loft í neðri lögum - og sést það raunar á háloftaritaspám.
[Það truflar myndina aðeins að sum fjöll ná upp í 925 hPa - og virðist þar vera logn eða hægur vindur. Hæð flatarins er hér í 4-500 metra hæð].
Vísindi og fræði | Breytt 31.1.2025 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2025 | 22:14
Línurit enn - sólskinsstundafjöldi
Línuritaskriðan rennur enn frá lyklaborði ritstjóra hungurdiska (og langt í lok hennar). Í þetta sinn lítum við á sólskinsstundafjölda ársins í Reykjavík og á Akureyri frá upphafi mælinga.
Geta verður þess að búast má við því að einhverjar ósamfellur séu í gagnaröðunum. Mælar hafa verið fluttir nokkrum sinnum á báðum stöðum og nú hin allra síðustu ár var skipt um mæligerð. Auk þess hefur pappír í mælunum ekki alltaf verið eins. Slæðing af mánuðum vantar í mælingar á Akureyri. Ritstjórinn hefur leyft sér að skálda í þær eyður með aðstoð skýjahuluathugana. Einhver óvissa verður af slíku, en ekki þó stórfelld. Við trúum því mælingunum í öllum aðalatriðum.
Línuritið sýnir gögnin úr Reykjavík. Við leyfum okkur að láta mælingar sem gerðar voru á Vífilsstöðum 1911 til 1921 fylgja með. Þær eru ekki ótrúverðugar, t.d. er ljóst að mikið sólarleysi var á árinu 1914. Við megum taka eftir miklu sólskini flest árin 1924 til 1931. Þennan tíma voru mælingar reyndar gerðar við Skólavörðustíg, en fluttust þá í Landssímahúsið og voru þar til 1945 - þá var flutt í Sjómannaskólann og mælt þar, þar til 1973. Skiptin árið 1931 gætu verið grunsamleg - en við gerum samt ekki veður út af þeim. Áberandi mest sólarleysi var á árunum 1983 og 1984, hin eftirminnilegu rigningasumur. Og mjög sólríkt var öll árin frá 2005 til 2012, átta ár í röð - og svo aftur 2019, en rýrara þar á milli. Síðustu tvö ár hafa einnig verið fremur sólrík, þó ekki nái þau alveg sólríkasta flokknum.
Sama mynd fyrir Akureyri - en ekki er byrjað fyrr en 1928. Reynt var við sólskinsmælingar fyrr á Akureyri, en eitthvað gekk ekki upp. Það er sama og í Reykjavík, mælingarnar hafa verið fluttar til hvað eftir annað. Langsólríkast var árið 2012 - mikið þurrkasumar og síðan afskaplega eftirminnilegt hausthret. Einnig hefur verið til þess að gera sólríkt síðustu fimm árin - kann það að tengjast nýrri mæliaðferð - (kemur vonandi í ljós síðar hvort svo er). Áberandi er að mjög sólrík ár komu mörg í röð frá 1974 til 1978 - þá báru norðlendingar sig vel, sumrin 1975 og 1976 voru í allrablautasta lagi syðra. Sérlega sólarlaust var 1943 - það sumar var afskaplega dauft og kalt á Norðurlandi.
Að lokum - í þessari sólarsyrpu - lítum við á algjörlega ólöglegt línurit (aðeins til skemmtunar). Það segist sýna meðalskýjahulu á landinu allt aftur til 1875 - í 150 ár (býður einhver betur?). Hér er mjög margs að gæta. Í fyrsta lagi sýna gagnaraðir glögglega að mat einstakra veðurathugunarmanna á skýjahulu er óþægilega misjafnt, man ritstjórinn of mörg dæmi slíkra ósamfella. Í öðru lagi var skýjahula lengi athuguð í tíunduhlutum en ekki áttundu eins og nú er gert. Þótt við eigum samanburð frá allmörgum stöðvum (sem notaður er við súpugerðina sem myndin sýnir) er öruggt að þessi breyting spillir samfellu raðarinnar. Leitnin sem hún virðist sýna er líklega af þessum völdum.
Við sjáum að nær engin leitni er frá því um 1950 (1949) til okkar daga, hún kemur mestöll fram í einu þrepi þar næst á undan - einmitt þegar skiptin á milli tíundu- og áttunduhluta á sér stað. En e.t.v. má eitthvað lesa úr breytingum frá ári til árs. Við vitum t.d. að árið 2012 var mjög þurrt og sólríkt - þá var skýjahula óvenju lítil - hún var hins vegar mikil árið 2014 - og nærri meðallagi í fyrra. Við vitum líka að árið 1928 var líka óvenjusólríkt - og fleiri ár þar um kring - skera sig úr öðrum árum. Þrepið árið 1949 er mjög áberandi - það er einmitt árið þegar endanlega var skipt um lykil - og tíunduhlutarnir hurfu úr gögnunum. Um þetta vandamál hefur reyndar verið fjallað á hungurdiskum áður (með einhverju óljósu loforði um frekari umfjöllun - sem auðvitað hefur verið svikið).
Ritstjóri hungurdiska trúir því einlæglega að það séu breytingar á athugunarháttum sem í raun og veru valda leitninni sem svo greinilega sést á myndinni, þetta sé því sýndarleitni. Til eru þeir sem ekki trúa því að hlýnað hafi hér á landi af völdum breytinga á efnasamsetningu lofthjúpsins. Þeir eru þekktir fyrir að halda því fram að hitaleitnin sem við sjáum svo greinilega í öllum athugunarröðum sé sýndarleitni, byggist á breyttum athugunarháttum. Að benda þeim á þessa mynd er dálítið eins og að siga á foræðið - en gefum þeim hér með kost á annarri skýringu. Mælingar sýna að hér á Íslandi eru skýjaðir dagar hlýrri en léttskýjaðir nær allt árið. Það er aðeins fáeinar vikur að sumarlagi sem sólarylur skiptir meira máli heldur en skýin ef halda á hinni miskunnarlausu kælingu útgeislunarójafnvægisins í skefjum - aðeins lengri tími ársins á Norðurlandi heldur en syðra. [Um þetta má lesa í gömlum hungurdiskapistli]. Nú er boðið upp á þann valkost að skýra hlýnunina sem aukningu í skýjahulu - en ekki auknum gróðurhúsaáhrifum. Hvað það þá er sem veldur aukningu skýjahulunnar (?) er þá önnur spurning - sem þyrfti að svara - gjörið svo vel.
25.1.2025 | 16:36
Fyrri hluti vetrar
Við lítum nú á meðalhita í Reykjavík fyrri hluta íslenska vetrarins, eins og við höfum stundum gert áður. Fyrstu þrír vetrarmánuðirnir, gormánuður, ýlir og mörsugur voru heldur kaldari en að meðallagi að þessu sinni, þó lítillega hlýrri heldur en í hitteðfyrra. Þetta er í þriðja sinn í röð sem mánuðirnir þrír saman eru undir meðallagi síðustu 100 ára.
Eins og sjá má á línuritinu er töluverður munur á hitafari þessa árstíma frá ári til árs. Langhlýjastir voru mánuðirnir þrír veturinn 1945 til 1946, meðalhiti var þá yfir 4 stig í Reykjavík. Í nokkur skipti önnur hefur meðalhitinn verið yfir 3 stigum, síðast 2016-17. Fjölmargir kaldir mánuðir komu í klasa á árunum 1973-74 og til 1985, en heldur hlýrra verð aftur eftir það. Það hefur ekki gerst enn á þessari öld að meðalhiti fyrri hluta vetrar hafi verið undir frostmarki. Síðast átti það sér stað 1996 til 1997. Á fyrra hlýskeiði tuttugustu aldar gerðist það hins vegar endrum og sinnum.
Í (ítarlegri) pistli hungurdiska um sama efni sem skrifaður var fyrir 6 árum kom fram að köldum fyrri hluta fylgdi oftar hlýr seinni hluti heldur en kaldur (og öfugt) - ekki er reglan þó svo ákveðin að nota megi hana til spádóma (slatti er af undantekningum - en lítið á síðustu myndina í þeim pistli).
Við getum líka látið þess getið að í dag (25.janúar) er Pálsmessa - um hana var kveðið:
Ef heiðbjart er og himinn klár
á helga Pálusmessu,
mun þá verða mjög gott ár;
mark skalt hafa af þessu.
Ef að þoka Óðins kvon
á þeim degi byrgir,
fjármissi og fellisvon
forsjáll bóndinn syrgir.
(hér haft eftir Þjóðsögum Jóns Árnasonar).
Þessi fróðleikur er frá útlöndum kominn - í ensku rímversi segir:
If St. Paul´s Day be faire and cleare,
It doth betide a happy yeare ;
But if by chance it then should rain.
It will make deare all kinds of graine ;
And if ye clouds make dark ye skie,
Then neate and fowles this yeare shall die ;
If blustering winds do blow aloft.
Then wars shall trouble ye realm full oft.
Ekki gott að segja á hverju þetta byggir - sennilega komið frá miðjarðarhafslöndum í fyrndinni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.2.): 243
- Sl. sólarhring: 527
- Sl. viku: 3252
- Frá upphafi: 2441268
Annað
- Innlit í dag: 212
- Innlit sl. viku: 2858
- Gestir í dag: 209
- IP-tölur í dag: 199
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010