Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað einkunn sumarsins 2025 í Reykjavík og á Akureyri. Aðferðin hefur verið skýrð áður (og er auðvitað umdeilanleg). Sumarið nær hér til mánaðanna júní til ágúst - aðferðin gæti gengið fyrir maí líka en varla september. Hæsta mögulega einkunn í þessu kerfi er talan 48 - ekkert sumar hefur náð slíkum hæðum - hvorki í Reykjavík né á Akureyri, hæsta einkunn fær nú sumarið á Akureyri 2021, 43. Lægsta mögulega tala er núll, sumarið 1983 komst nærri henni í Reykjavík - einkunn þess sumars var einn. Rétt er að taka fram að einkunnin er háð hverjum stað - hún gefur engan tölulegan samanburð milli stöðva. Auk þessa getur einkunn sumars breyst frá ári til árs - vegna þess að þegar nýtt sumar bætist í safnið getur það stolið stigum frá fyrri sumrum.
Sumareinkunn Reykjavíkur 2024 er 24. Það er í meðallagi og 11 stigum meira heldur en 2024 fær. Súlurnar á myndinni sýna einkunn hvers árs. Mánuðirnir þrír, júní, júlí og ágúst skila hver um sig átta stigum. Júní var svalur, en sólskin og fremur rýr úrkoma eykur veg hans.
Það vekur alltaf athygli á sumareinkunnarmyndinni í Reykjavík hversu tímabilaskipting er mikil. Tíuárameðaltal fór lægst niður í 15 stig á árunum 1975 til 1984, en hæst í 32 stig, á árunum 2003 til 2012 - árin 2009 til 2012 skera sig sérstaklega úr fyrir gæði - og 2019 síðan í sama flokki. Almennt má segja að sumur hafi síðasta áratug verið alveg á pari við það sem best gerðist áður en kuldaskeiðið alræmda skall á af fullum þunga á sjöunda áratug 20. aldar.
Eins og áður sagði telst maí ekki með - hefði sá mánuður verið með hefði einkunnin væntanlega orðið eitthvað hærri - stolið af öðrum árum.
Sumarið telst á þessum kvarða einnig í meðallagi fyrir norðan, fær 25 stig. En hér er misskipting milli mánaða mikil. Júní fékk ekki nema eitt stig (kalt og blautt), júlí 11 stig og ágúst 13 stig - vantar ekki nema 3 stig í toppeinkunn.
Heildaútlit línurits fyrir Akureyri er nokkuð annað en fyrir Reykjavík. Lægsta tíu ára meðaltalið er þannig 19 (1966 til 1975) og það hæsta 29 (2000 til 2009) - munar 10 stigum, en 17 í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska túlkar það svo að meiri þráviðri séu syðra heldur en nyrðra - mánuðirnir sjálfstæðari á Akureyri heldur en í Reykjavík. Þannig eru það 5 sumur í Reykjavík sem ekki ná 10 stigum, en aðeins 1 á Akureyri (1985). Ellefu sumur ná 35 stigum eða meira í Reykjavík - en ekki nema fimm á Akureyri. Þetta bendir til þess að mánuðir í Reykjavík vinni fremur sem heild heldur en fyrir norðan. Ekki er þó á þessari hegðan byggjandi við langtímaveðurspár - eins og sumarið 2023 sýndi glögglega.
Það er nákvæmlega ekkert samband á milli sumareinkunnar nyrðra og syðra. Þó eru fleiri sumur góð á báðum stöðum (samtímis) heldur en vond á báðum. Frábærlega góð á báðum stöðum voru 1931, 1939, 1957, 2004, 2007, 2008 og 2012, en 1959, 1969, 1992 og sumarið í ár voru slök á báðum stöðum - 1983 var ekki sérlega gott á Akureyri heldur - á mörkum hins slaka.
Munum að lokum að þetta er bara ábyrgðarlaus leikur - ekki má nota þessar niðurstöður í neinni alvöru. Svo er september eftir - hann telst formlega til sumarsins í árstíðaskiptingu Veðurstofunnar.
Alþjóðasumarið - landsmeðalhiti í byggð.
Við höfum oft áður litið á meðalhita mánaðanna júní til ágúst saman. Þetta er sá tími ársins sem Alþjóðaveðurfræðistofnunin skilgreinir sem sumar á norðurhveli jarðar, Veðurstofan telur september með. Skipting þessi hefur komið til ítarlegrar umræðu hér á hungurdiskum.
Að þessu sinni var meðalhiti í byggðum landsins 10,4 stig. Ef við teljum frá og með 1874 hefur hann tíu sinnum verið jafnhár eða hærri heldur en nú, þar af fimm sinnum á þessari öld (2003, 2021, 2014, 2004 og 2010). Á fyrri tíð var hann hærri 1933, 1880, 1939 og 1934, og jafnhár 1953. Munum að júní var fremur kaldur í ár.
Heildarleitni sumarhitans er um 0,8 stig á öld. Sumur sjöunda og áttunda áratugar síðustu aldar liggja mjög í huga ritstjóra hungurdiska, þegar hann var á tánings- og þrítugssaldri. Á þeim 50 til 60 árum sem síðan eru liðin hefur hlýnað um meir en 1,2 stig. Er nokkur furða að honum finnist öll sumur nú hlýrri og betri en áður - jafnvel þau lakari. Köld sumur hafa lengi látið bíða eftir sér. Við skulum þó muna að hnattræn hlýnun mun seint útrýma þeim og enginn má verða hissa þótt það gerist. En ekkert (alþjóða-) sumar hefur enn náð því að lenda út úr kortinu hvað hlýindi snertir. Við bíðum enn 12 stiga sumars. Það gæti komið.
31.8.2025 | 22:56
Sumardagafjöldi í Reykjavík 2025
Talning sumardaga í Reykjavík og á Akureyri hefur verið fastur liður á bloggi hungurdiska frá því 2013. Uppgjörið hefur ætíð verið gert um mánaðamótin ágúst-september. Að meðaltali er aðeins einn dagur í september í Reykjavík sem nær þessum (algjörlega) tilbúna staðli ritstjórans. Skilgreiningu á hungurdiskasumardegi má finna í pistli [20.júní 2013] - (nokkuð frjálslegt - enda er þetta bara leikur).
Ritstjórinn hefur neyðst til þess að hætta talningu sumardaga á Akureyri. Ástæðan er sú að mannaðar athuganir hafa verið felldar niður þar á bæ. Jú, það væri vel hægt að nota sjálfvirkar athuganir auk athugana frá flugvellinum - en eftir smáíhugun hefur ritstjórinn komist að þeirri niðurstöðu að það sé viðfangsefni yngri veðurnörda að búa til annað ámóta kerfi - kannski hefur ekkert þeirra áhuga á því - en það verður þá bara að hafa það.
Sumarið 2025 var nokkuð óvenjulegt, í maí voru sumardagarnir sjö, sex fleiri heldur en í meðalári og hafa aldrei verið svo margir í þeim mánuði. Júní var mun daufari. Að meðaltali eru þó ekki nema 5 sumardagar í þeim mánuði að jafnaði, voru fjórir að þessu sinni. Í júlí eru sumardagarnir að meðaltali 12, en voru 8 að þessu sinni. Í ágúst voru sumardagarnir 14 og er það sex fleiri en í meðalári. Að meðaltali er aðeins einn sumardagur í september, en eftir spám að dæma virðast líkur vera nokkrar á að þeir gætu orði fleiri að þessu sinni. Myndi slíkt þá enn bæta ásýnd sumarsins.
Sumardagar í september hafa flestir orðið 11. Það var árið 1958. Slík viðbót er ekki líkleg nú - en kæmi þá sumrinu upp í hóp þeirra gæfustu. Lengst til vinstri á myndinni hefur verið gerð tilraun til þess að telja sumardaga áranna 1936 til 1948. Ekki er víst að sú talning sé fyllilega samanburðarhæf hinni venjulegu talningu, en ætti samt að sýna innbyrðis mun á mánuðum og árum þess tímabils. Sumrin 1936, 1939, 1941 og 1944 skora öll sérlega vel og keppa við bestu sumur þessarar aldar í fjölda sumardaga í Reykjavík.
Síðan er sumareinkunn hungurdiska - ritstjórinn reiknar hana eftir að Veðurstofan hefur reiknað meðalhita, úrkomusummu og talið úrkomudaga og sólskinsstundir bæði í Reykjavík og á Akureyri (jú, þar ráðum við við Akureyri líka). Ekki er fullvíst að hún segi nákvæmlega sömu sögu (en það kemur í ljós).
En við minnum á að þetta er aðeins leikur - við gætum notað aðrar skilgreiningar og fengið út allt aðrar tölur. Ef svo ólíklega fer að sumardagar hrúgist inn í september (og október) verður myndin endurskoðuð.
28.8.2025 | 23:59
Af hlýjum dögum í Reykjavík
Það er einhvern veginn tilfinningin að hlýir dagar hafi verið óvenjumargir í Reykjavík það sem af er ári. Hér er reynt að komast að því hvort sú tilfinning á við eitthvað að styðjast.
Til að losna við árstíðasveifluna lítum við á hlýja daga hvers mánaðar fyrir sig. Við gerum miklar kröfur - og horfum til langs tíma. Hægt er að reikna meðalhita hvers dags í Reykjavík með sæmilegri nákvæmni aftur til 1920. Við byrjum í janúar 1921 og teljum allt fram til þess 27.ágúst 2025. Til athugunar eru því rúmlega þrjú þúsund dagar í hverjum mánuði. Við veljum nú aðeins þá 20 hlýjustu í hverjum almanaksmánuði, vel innan við 1 prósent allra daga mánaðarins. Býsna hörð keppni að komast í þann hóp.
Við teljum nú hversu mörgum dögum af þessu tagi hvert ár hefur náð til sín. Myndin hér að neðan sýnir það.
Við sjáum að algengast er að slíkir dagar séu einn til tveir á ári. Fjölmörg ár eiga engan slíkan dag. Það var sérlega algengt á síðustu tveimur áratugum 20. aldar. Síðan urðu mikil umskipti. Á þessari öld eru aðeins tvö ár, 2016 og 2022 sem hafa alveg misst af slíkum (ofurhlýjum) dögum. Á hlýja tímabilinu frá 1939 og fram til 1965 skila allmörg ár meira en 4 dögum á ári í safnið, toppurinn er 1965, sem reyndar var fyrst hafísáranna svokölluðu og eitt hafísár til viðbótar, 1968, nær 5 dögum. Þá var sérlega hlýtt í bæði september og nóvember. Mikill klasi ára frá 2001 til 2010 er áberandi, hvert einasta ár nær fjórum eða fleiri ofurhlýjum dögum, síðan slær nokkuð af. Langflestum dögum nær árið 2004, hvorki meira né minna en 15. Í öðru sæti er síðan 2019 - og árið í ár, 2025 er þegar búið að næla sér í 9, jafnmarga og 2019. Eitthvað er greinilega til í þessari tilfinningu sem minnst var á í upphafi.
Þessir hlýju dagar 2025 voru tveir í apríl, fjórir í maí, einn í júlí og tveir nú í ágúst. Það verður bara að sýna sig hvort árinu tekst að hala inn fleiri hlýja daga og komast í næstefsta sæti. Við verðum hér að hafa í huga að ekki er nema endanlegur fjöldi sæta í boði í þessari sérviskulegu keppni. Náist sæti í haust er því óhjákvæmilega stolið frá einhverju fyrra ári. Tæknilega gætu slíkir dagar síðar í haust allir komið frá árinu 2004 - það er því ekki öruggt með sína 15 daga - og munu trúlega fjaðrirnar reytast af því um síðir - þegar árunum fjölgar. Hins vegar nennir ábygglega enginn að endurtaka þessa talningu á sama hátt eftir 20 ár.
Vegna þess að ekki er beint samhengi á milli meðalhita ársins og tölu ofurhlýrra daga (slatti af mjög hlýjum dögum má sín lítils á móti miklum fjölda kaldra). Árið 1964 var því talvert hlýrra heldur en 1965 í Reykjavík - en ofurhlýir dagar voru samt færri. Við grípum því til 10-árakeðjumeðaltala og lítum á þau - myndrænt.
Niðurstöðu þeirrar æfingar má sjá á myndinni hér að ofan. Rauðbrúnu súlurnar sýna 10-ára keðjumeðaltöl talnanna á fyrri mynd, kvarðinn er til vinstri. Við sjáum að toppurinn sem nær hámarki á árunum 2001 til 2010 er miklu hærri heldur en topparnir tveir á hlýskeiðinu á 20.öld. Þeir falla annars vegar á árin 1939 til 1948, en hins vegar á árin 1959 til 1968. Síðustu ár hafa verið ámóta gæf á hlýja daga og þessi hlýindi fyrr á tíð - nokkuð slakari á tölunni heldur en áðurnefndur toppur á fyrsta áratugnum. Lágmarkið er hins vegar á árunum 1981 til 1990 - aðeins örfáir ofurhlýir dagar á þeim árum.
Rauði ferillinn (hægri kvarði) sýnir 10-árakeðju ársmeðalhitans. Toppar og lágmörk ferlanna tveggja falla ekki alveg saman, en samt í stórum dráttum. Það er helst sláandi að fall ársmeðalhitans eftir 2010 er ekki nándar nærri því eins mikið og fækkun ofurhlýrra daga gefur til kynna. Minnir þetta dálítið á pistil sem breska veðurstofan sendi frá sér um sumarið í sumar á Bretlandi. Það stefnir í að það verði hlýjasta eða næsthlýjasta sumar allra tíma þar í landi, en þó voru mjög hlýir dagar ekki sérlega margir miðað við það sem stundum hefur verið áður - og hitabylgjur skammvinnar. Eitthvað var talað um að hinn venjulegi sumardagur væri bara orðinn miklu hlýrri en menn ættu að venjast. Sumar án meta væri orðið hlýrra en vænta mætti. Ekki ætlar ritstjóri hungurdiska að gera þessi orð að sínum - alla vega ekki umhugsunarlaust. En lesendur mega gefa þessu gaum.
26.8.2025 | 15:03
Hlý nótt
Síðastliðin nótt (aðfaranótt 26.ágúst 2025) var óvenjuhlý víða um land - þar á meðal í Reykjavík. Næturlágmarkið sem var skráð kl.9 í morgun var 14,4 stig. Við vitum ekki enn hvert sólarhringslágmarkið verður. Það kemur í ljós eftir að mælt hefur verið kl.18. Líklega heldur þó þetta lágmark - og verður þar með að sólarhringslágmarki, sem kemst á lista yfir hæstu lágmörk í Reykjavík.
Samfelldar lágmarksmælingar hófust í Reykjavík í maí 1920 og hefur sólarhringslágmarkið aðeins fjórum sinnum verið hærra en nú, og þrisvar jafnhátt. Langhæst var lágmarkið að morgni 31.júlí 1980, 18,2 stig - eiginlega út úr kortinu - eins og sagt er.
Næsthæst var lágmarkið þann 8.júní 1929, 15,5 stig og 15,4 stig þann 11.ágúst 2004. Þann 28.júlí 1936 var það 14,5 stig.
Jafnt lágmarkinu nú (14,4 stig) var það 25.júlí og 3.september 1939 sem og 8.júlí 1991.
Það flækir málið að á sjálfvirkum veðurstöðvum er farið að miða við réttan almanakssólarhring (kl.0 til 24). Það þýðir að á sjálfvirku stöðinni þurfum við að bíða til kl.24 til að sjá sólarhringslágmarkið. Hiti hefur reyndar ekki enn farið niður fyrir 14,5 stig - en spár segja að hann geri það fyrir kl.24 í kvöld. Meðan sólarhringslágmark mönnuðu stöðvarinnar verður meðal þeirra hæstu gæti svo farið að sólarhringslágmark þeirrar sjálfvirku verði það ekki, mælirinn er þó sá sami.
Þetta ætti að sýna vel að met þurfa að hitta í - við gætum sífellt verið að finna met með því að hringla til með viðmiðunartíma og þess háttar. Við gætum hugsanlega náð hærra sólarhringslágmarki með því að skipta sólarhringnum á annan hátt. Þótt það gangi reyndar ekki í þessu tilviki gæti það hafa gerst í fyrri tilvikum. Að þessu sinni hafa klukkumet - hæsti hiti á athugunartíma - ekki verið sett í Reykjavík (eitt féll reyndar í apríl og tvö í maí). Best við höggi liggur nú hæsti hiti sem mælst hefur kl.21 í Reykjavík. Núgildandi met er frá 8. ágúst 1964. Þá mældist hitinn 18,1 stig (ekki man ritstjórinn þann dag - og skilur ekkert í því) - það er enn rétt hugsanlegt (ólíklegt þó) að hiti kl.21 í kvöld nái þessari tölu. Önnur klukkumet eru líklega alveg utan seilingar.
Viðbót 27.ágúst
Lágmarkshiti í Reykjavík 26.ágúst 2025 endaði í 14,4 stigum, bæði miðað við eldri og nýrri mælihætti. Hlýindin héldust nægilega lengi fram eftir kvöldi til að ná því marki. Uppgjörið hér að ofan stendur því.
Sólarhringslágmark þess 26. var víða mjög hátt á höfuðborgarsvæðinu, hæst á Skrauthólum á Kjalarnesi og er það nýtt met á þeim stað (athugað frá 2002). Við Blikdalsá á Kjalarnesi fréttist lægst af 16,8 stigum og raunverulegt lágmark hefur sjálfsagt ekki verið lægra að mun, en engar formlegar lágmarksmælingar eru á vegagerðarstöðvum.
Sólarhringsmeðalhitinn í Reykjavík var einnig óvenjulega hár, 15,9 stig á mönnuðu stöðinni. Á henni er meðaltalið reiknað eftir 8 athugunum sem gerðar eru á 3 klst fresti. Sjálfvirki mælirinn sem miðað er við sýndi hins vegar 16,0 stig (eða 15,96) - þar er meðalhitinn meðaltal 24 athugana á klukkustundar fresti. Hrekkur hér til um einn aukastaf við þessar tvær mismunandi reikniaðferðir.
Þetta er næsthæsti sólarhringsmeðalhiti sem við vitum um svo seint að sumri í Reykjavík. Þann 2.september 1939 var hann jafnhár eða lítillega hærri (en ónákvæmni er auðvitað nokkur). Þetta er áttundi hæsti sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík í ágúst frá 1881 að telja. Langhæstur varð meðalhitinn þann 11.ágúst 2004, 20,1 stig, 1.ágúst 2008 var hann 17,5 stig og sömuleiðis þ.12. ágúst 2004 og 10. ágúst 2004 var hann 17,4 stig. Þann 25.ágúst 2015 var hann 17,0 stig, þann 14.ágúst 1977 16,4 stig og 16,1 stig daginn áður 13.ágúst 1977.
Leyfum við júlí- og júnímánuðum að vera með dettur tala gærdagsins niður fyrir 30. sæti - svo mikill munur er á ágúst og júlí. Það eru ekki nema tveir júnídagar sem eru hlýrri heldur en gærdagurinn, sá 24. árið 1891 og sá 10. árið 2002. Jafnhlýtt var 2.júní 1955 og 20.júní 1949.
Flestar þessar eldri dagsetningar eru væntanlega horfnar í gleymskuþoku langflestra - kannski kveikja einhver veðurnörd á þeim. Vonandi muna sumir aðrir þó enn hitabylgjurnar miklu 2008, 2004 og 2002.
Vísindi og fræði | Breytt 27.8.2025 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2025 | 23:35
Veðrahvarfakort - og leifar fellibylsins Erin
Ritstjóranum þótti skemmtilegt nú í kvöld (mánudaginn 25.ágúst) að skoða veðrahvarfakort evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þau sýna enn einhverskonar auga í leifunum - en hafa verður í huga að reiknireglur þær sem notaðar eru til að teikna kortin eiga e.t.v. ekki við í tilvikum sem þessum - þær eru þrátt fyrir allt málamiðlun. Líkanið sjálft getur verið alveg rétt þrátt fyrir það.
Við lítum á tvær myndir.
Svæðið á kortinu er hið sama og á hefðbundnu Atlantshafskorti, Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Litirnir sýna mættishita í veðrahvörfunum. Oftast auðvelt að finna þau, en þó ekki alltaf. Mættishiti vex alltaf með hæð, því hærri sem hann er því ofar erum við (að jafnaði). Suður af landinu er lítill blár blettur. Þar er mættishitinn í veðrahvörfunum að sögn ekki nema 286 Kelvinstig (13°C), en yfir Íslandi sunnanverðu er hann hins vegar nærri 100 stigum hærri, 382 Kelvinstig (109°C). Mættishitinn segir okkur hvaða hita er að vænta gætum við dregið loftið niður í 1000 hPa.
Síðari myndin sýnir í raun það sama - nema að við notum þrýsting í veðrahvörfunum til að segja okkur frá hæð þeirra. Í auganu (við notum gæsalappir) er hann 968 hPa, reyndar hærri heldur en sjávarmálsþrýstingur í lægðarmiðjunni - eitthvað skemmtilegt hér á ferð. Yfir sunnanverðu Íslandi er þrýstingurinn í veðrahvörfunum hins vegar 131 hPa. Við erum komin í um 14 km hæð.
Það er svo hlýtt í efri hluta veðrahvolfs yfir landinu að við getum eiginlega fullyrt að um hitabeltisloft sé að ræða. Líklega hittir þó ekki það vel í að við náum metum yfir Keflavíkurflugvelli - en það munar samt ekki mjög miklu. Í neðri hluta veðrahvolfs munar meiru - meira vantar upp á met.
Veðurlagi sem þessu getur fylgt óvenjulegt skýjafar - þar sem náðarsamlegast myndast göt í lágskýjabreiðuna. Þetta verður ekki alveg jafnbólgið á morgun - en rétt samt að gefa skýjafari gaum.
25.8.2025 | 00:00
Um gamla kennslubók
Um þessar mundir er blogg hungurdiska 15 ára. Fyrsti pistillinn (reyndar aðeins ein lína) féll af himnum ofan (nánast) þann 19. ágúst árið 2010. Fyrsti alvörupistillinn birtist hins vegar þann 23.ágúst og fjallaði um fyrsta íslenska veðurfræðiritið, Um meteora sem Magnús Stephensen tók saman og birti í þriðja árgangi rita Lærdómslistafélagsins 1782 (merkileg bók). Næstu daga var fjallað um fleiri gömul rit á íslensku og fjalla um veður og veðurfræði.
Eitt þessara gömlu rita hafði reyndar þar til alveg nýlega farið framhjá ritstjóranum. Það ber nafnið Sjór og loft, kaflar úr almennri jarðlýsingu eftir Bjarna Sæmundsson aðjúnkt (eins og hann kallar sig). Bókin kom út hjá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar 1919 og var - eins og segir á forsíðu, til notkunar við kenslu í lærdómsdeils mentaskólans. Bókin er 69 síður.
Í formála segir Bjarni að allt frá því að lærdómsdeild Menntaskólans hafi verið sett á stofn hafi verið kennd þar undirstöðuatriði í eðlislýsingu sjávar og lofts af þeirri eðlilegu ástæðu að sjór og veðrátta hafa svo afarmikil áhrif á öll kjör þjóðar vorrar, að það getur varla talist sæmandi að mentaður Íslendingur sje með öllu ófróður um þessi atriði ... ,
Síðan segir Bjarni það hafa verið sitt hlutskipti að kenna þetta og hafi hann gert það í tíu ár og stuðst við norska bók, sem hann segir ágæta en hún taki lítið tillit til Íslands. Síðan segir Bjarni: Hafði ég fyrir löngu hugsað mjer að semja svipaða bók - (heldur kunnugleg áform). Að lokum er þess getið að stjórnarráðið veitti nokkurn styrk til útgáfunnar.
Eins og þeir sem kynnst hafa öðrum skrifum Bjarna, svosem ritum hans um Fugla og fiska, vita er texti hans mjög lipur og skýr og margt af því sem fram kemur í bókinni gæti alveg eins átt heima í nýrri bók um þetta efni. Það er þó ljóst að ýmislegt er hér líklega verið að segja í fyrsta sinn á prenti á íslensku - eða alla vega ekki komin festa í hugtakaheiti og þess háttar.
Bókin skiptist í tvo meginkafla sá fyrri heitir Eðlislýsing sjávarins (sjófræði) - bendir til þess að nafnið haffræði hafi annað hvort ekki verið mönnum tamt - eða jafnvel ekki orðið til.
Síðari meginkaflinn heitir Eðlislýsing loftsins (Loftfræði eða veðurfræði). Orðið loftfræði er ritstjóra hungurdiska ókunnugt og sömuleiðis virðis sem að orðið veðurfræði hafi e.t.v. ekki verið alveg tamt á þessum árum - þótt það sé hins vegar að minnsta kosti 40 árum eldra.
Árið 1919 var þekking á bæði efri loftlögum sem og aflfræði lofthjúpsins mjög takmörkuð - en ekki svo langt í byltingarkenndar framfarir í þeim efnum. Texti bókarinnar líður auðvitað nokkuð fyrir þetta. Menn þekkja hér bæði lág- og háþrýstisvæði og hringrás loftsins í kringum þau, en orðin lægð og hæð eru ekki notuð hér - heldur sveipir og andsveipir - eða jafnvel minim og maxim. Greinilegt er að ritstjórinn þarf eitthvað að athuga hvenær nútímaorðin komast í notkun - hvort það er Þorkell Þorkelsson fyrsti veðurstofustjórinn eða Jón Eyþórsson, fyrsti veðurfræðingur landsins nota þau fyrst.
Eftir að hafa fjallað nokkuð um dæmigert veðurlag í lægðum og hæðum (minimum og maximum) er stuttlega minnst á veðurspár (s.53):
Það liggur í augum uppi, að það mætti segja fyrir um veður með nokkurum fyrirvara, ef menn gætu reiknað nákvæmlega út göngur eða hreyfingar sveipanna, en það er ógerningur enn sem komið er. Síðan bendir Bjarni á að fylgjast megi með hreyfingum sveipanna með hjálp veðurskeyta og þannig séu einhverjar veðurspár mögulegar.
Mynd úr bókinni. Hún sýnir dæmigert skýjafar sem fylgir sveip (lægð). Hér má sjá jafnþrýstilínur dregnar í mm kvikasilfurs (750 = 1000 hPa).
Þegar á allt er litið er bók þessi holl lesning fyrir veðuráhugamenn.
Þess má að lokum geta að pistlar hungurdiska eru nú orðnir 3436 - ristjórinn nokkuð farinn að mæðast - og orðinn endurtekningasamur úr hófi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2025 | 16:53
Leifar fellibylsins Erin
Undanfarna viku - rúma - var mjög öflugur fellibylur á ferð um Atlantshaf. Kerfið kom fyrst fram undan ströndum Vestur-Afríku, varð að hitabeltisstormi 11. ágúst og hreyfðist síðan til vestnorðvesturs yfir hafið. Náði um stund styrkleikanum fimm, en það er efsta styrkleikastig fellibylja. Fór miðjuþrýstingur þá stutta stund niður í 915 hPa. Síðan tók við stækkunarstund - það dró heldur úr vindhraðanum en kerfið stækkaði verulega og sveigði nú til norðurs og norðausturs. Þótt miðjan væri alltaf langt frá landi varð sjógangur mikill við austurströnd Bandaríkjanna og á eyjum Karíbahafs og þar rigndi sumstaðar verulega þegar kerfið fór hjá. Tjón varð talsvert. Kerfið fékk nafnið Erin - fimmta nafngreinda hitabeltiskerfi ársins, en það fyrsta sem náði fellibylsstyrk.
Um síðir lenti kerfið svo í vestanvindabeltinu - en er svo stórt að enn er veruleg hringrás í því, þrýstingur í miðju lægðarinnar um 955 hPa og svo virðist sem vindur sé enn af fárviðrisstyrk á mjóu belti í suðurjaðri kerfisins.
Kortið sýnir stöðuna í dag (sunnudag 24.ágúst kl.18) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Lægðin er rétt norðan við 50. breiddarstig. Til morguns er gert ráð fyrir því að hún þokist norður á bóginn, en fari að grynnast. Reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir því að regnsvæðið norðan við miðjuna komist alveg norður fyrir Ísland. Það yrði síðdegis á morgun og annað kvöld (mánudag). Ekki er gert ráð fyrir miklum vindi (hugsanlega þó staðbundið). Á þriðjudag á lægðarmiðjan að komast norður undir 60. breiddarstig, en farin að grynnast. Síðan á hún að fara suðaustur til Bretlands og eyðist þar síðar í vikunni.
Kerfinu fylgir mjög hlýtt loft, hversu mikið við njótum þess fer að nokkru eftir úrkomumagninu. Verði úrkoma ekki mikil gæti hiti á landinu skotist vel upp fyrir 20 stig, bæði vestan- og norðanlands. En rigni eitthvað sem heitir fer hluti hlýindanna í uppgufun á regndropum og bleytu - lækkar hita töluvert. En eins og oft er sagt - miði er möguleiki.
Það er ekki oft sem við sjáum þrýsting undir 965 hPa á þessum árstíma í námunda við landið. Ágústlandslágmarksmetið er orðið gamalt, 960,7 hPa, sett þann 27. árið 1927. Um það merkilega tilvik er fjallað í pistli hungurdiska um árið 1927. Þá kom fyrsti fellibylur ársins við sögu. Kominn alla leið frá vesturströnd Afríku, rétt eins og Erin. Munurinn hins vegar sá að mjög hvasst varð á landinu, úrkoma mikil og gerði hálfgert hausthret í kjölfarið, alhvítt varð niður í miðjar hlíðar nyrðra - en þetta tók fljótt af.
22.8.2025 | 00:36
Hæsti hiti ársins - upprifjun
Hér á hungurdiskum hefur nokkrum sinnum áður verið fjallað um hæsta hita ársins á Íslandi - þetta er því eins konar endurtekning - en myndirnar eru þó nýgerðar - og gagnaröðin nær allt til ársins í ár (2025). Á dögunum mældist hæsti hiti á landinu í 79 ár, 29,8 stig. Svo sannarlega óvenjuleg tala. Í öðrum pistli hungurdiska - frá árinu 2018 - var fjallað um öll þau tilvik þar sem hiti hefur mælst 30 stig eða meira - flest eru þau vafasöm eða klárlega röng. Við höldum þó (fyrir siðsemi sakir) í þrjár mælingar (þar af tvær sama daginn) og segjumst trúa því að hiti hafi náð 30 stigum.
Hér er hins vegar spurt um hæsta hita ársins - svona yfirleitt. Við lítum á síðustu 100 ár, árin 1926 til 2025 og teljum hversu oft þessi hámarkshiti lendir á hverri hitatölu. Við veljum hér bilin 20,0 til 20,9 og svo framvegis, en hefðum alveg eins getað valið 20,5 til 21,4 og þá endað á 30,5 til 31,0. Þá hefðu súlurnar á myndinni hér að neðan aðeins hliðrast til.
En við horfum á þessa. Síðustu 100 árin hefur hiti á hverju einasta ári náð 20 stigum einhvers staðar á landinu. Litlu munaði þó árin 1961 og 1979. Hæstur varð hitinn 1939, 30,5 stig - á Teigarhorni (eins og flestir lesendur vita), sama dag mældist hiti 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri - gefur okkur kannski afsökun fyrir því að trúa mælingunum. Árið 1946 er getið um 30,0 stig á Hallormsstað - ekki alveg trúlegt - en við getum samt ekki þurrkað þá tölu út án umhugsunar (meir um það mál í áðurnefndum pistli).
Ef við framkvæmum talninguna með 0,1 stigs nákvæmni kemur í ljós að miðgildið er 26,0 stig. Í fimmtíu árum hefur hæsti hiti ársins verið lægri en 26,0 stig, og í fimmtíu árum meiri en 26,0 stig. Af einstökum bilum (eins og við skilgreindum þau) er algengast að hæsta hámark ársins sé 26 komma eitthvað stig, 22 sinnum á 100 árum. Frá 21 stigi upp í 26 er fjölgunin nokkuð jöfn frá stigi til stigs, en tíðnin fellur öllu hraðar, strax og komið er upp í 27. Segja má að það sé eftirtektarvert nái hæsti hiti ársins 28 stigum eða meira.
Þá er komið að því að spyrja hvort við sjáum einhverja greinilega breytingu - fjölgar mjög háum árshámörkum eða ekki?
Einfalda svarið er nei. Myndin sýnir hæsta hámark hvers árs síðustu 100 árin. Við getum reiknað leitni og fengið út að hún sé um 0,8 stig á þessum 100 árum - sem ekki er marktækt miðað við dreifina. Þeir sem vilja halda fram leitni geta þó bent á að á tímabilinu 1950 til 1973 hafi verið skortur á háum tölum - en fjöldi lágra. Tímabil þetta nær út yfir hafísárin svonefndu, byrjar um 15 árum áður - meðan ársmeðalhiti var enn í sæmilegu lagi. Við höfum hins vegar áður bent á að hlýindaskeiðið fyrra stóð styttra að sumarlagi heldur en á öðrum árstímum - hvað sem veldur - það er alveg raunverulegt. Ef við byrjum að reikna inni í þessu svalara skeiði (hvort sem við byrjum 1950 eða 1970 skiptir litlu) - virtist leitni hámarkshitans vera meiri, meira að segja töluvert meiri.
Það má einnig segja að á áratugnum 1950 til 1960 var einmitt verið að skipta um hitamælaskýli hér á landi, veggskýli lögð af, en fríttstandandi tekin upp. Kannski hefðu hin háu hámörk tímabilsins 1926 til 1950 ekki mælst í fríttstandandi skýlunum? Á hinn bóginn geta aðrir bent á að hin háu gildi síðustu 25 ára séu aðallega mælihólkum sjálfvirku stöðvanna að þakka - svona háar tölur hefðu ekki sést í gömlu skýlunum. Eitthvað gæti verið til í því varðandi hámörkin sjálf. Rétt að ítreka að samanburðarmælingar sýndu nær engan mun á meðalhita skýla og hólka. Við vitum hins vegar að samanburðarmælingar (þótt þær séu ekki margar) sýndu oftast að veggskýlin voru of hlý yfir hádaginn - miðað við fríttstandandi skýlin. Einfalt var að laga það - með því að nota síðari tíma aðferðir til reikninga meðaltala. Þéttara veðurathuganakerfi gæti einnig skipt máli.
En niðurstaðan er alla vega sú að við getum ekki dregið neinar ályktanir um hlýnandi veðurfar (né kólnandi) með því að líta á árshámarkshitann eingöngu - til þess er hann of tilviljanakenndur - aðeins ein tala á ári.
Eins og sjá má á myndunum hér að ofan hefur það gerst í 13 árum síðastliðna öld að árshámarkshiti á landinu hafi náð 28 stigum. Það var 1926, 1937, 1939, 1946, 1949, 1974, 1988, 1991, 2004, 2008, 2012, 2021 og 2025. Þegar farið er í saumana á þessum tilvikum kemur í ljós að stundum voru 28 stigin ein á ferð, en stundum mældist svo mikill hiti á fleiri stöðvum, jafnvel mörgum.
Í hitabylgjunni miklu 21. og 22. júní 1939 þegar íslandsmetið var sett fréttist af 28 stigum eða meira á fjórum stöðvum - og mánuði síðar á einum. Það síðara tilvik (Lambavatn er raunar talið vafasamt). Hefði stöðvanetið verið þéttara hefðu stöðvarnar ábyggilega verið talsvert fleiri sem skiluðum 28 stigum. Einnig fréttist af 28 stigum á einni stöð einn dag síðar sama sumar.
Í flestum þessum tilvikum náði hiti 28 stigum aðeins einn dag - og oft aðeins á einni stöð. Þannig var það 1926, 1937, 1946, 1949, 1974, 1988 og 2012. Árið 1939 voru tveir dagar með í spilinu og 1991 komu 6 stöðvar við sögu og 5 dagar - grunur er um tvöföld hámörk í tveimur tilvikum - dagarnir væru þá þrír. En þetta var í langtímasamhengi mjög óvenjuleg hitabylgja. Það var hitabylgjan mikla í ágúst 2004 líka. Þá fór hiti í 28 stig á tíu sjálfvirkum stöðvum, sjö mönnuðum - og fjórum vegagerðarstöðvum að auki - og þrír dagar komu við sögu (10., 11. og 13. ágúst - einnig var mjög hlýtt þann 12. þótt ekki næðust 28 stig þann dag). Þetta átti sér líka stað bæði um landið sunnanvert og norðaustan- og austanlands.
Mjög mikla hitabylgju gerði einnig í júlílok 2008. Þá fór hiti í 28 stig á sjö sjálfvirkum stöðvum um landið sunnanvert. Í ágúst 2021 fór hiti í 28 stig á fjórum stöðvum - tveir dagar komu þá við sögu. Í sumar (2025) gerðist hins vegar hið óvenjulega, að hiti náði 28 stigum tvisvar - alveg aðskilið, annars vegar þann 14.júlí þegar hiti fór svo hátt á sjö stöðvum - (og þremur vegagerðarstöðvum að auki) og hafði náð 28 stigum á einni stöð daginn áður. Síðan var það 16. ágúst að hiti komst aftur í 28 stig - nú á þremur stöðvum sama dag.
Á síðastliðnum 100 árum eru þrjár stórar hitabylgjur til viðbótar þar sem ekki er ósennilegt að hiti hefði e.t.v. náð 28 stigum hefði veðurathugunarnetið verið jafnþétt og nú. Þetta eru júlíhitabylgjurnar 1944, 1976 og 1980. Eins er næsta öruggt að þétt kerfi hefði náð einhverjum stökum 28 stigum í viðbót.
Við vitum eitthvað um hámarkshita á landinu lengra aftur í tímann - en þá voru hámarksmælar sorglega fáir á landinu.
Af eldri hitabylgjum sem hefðu e.t.v. gert það gott má nefna júlíbylgjuna 1911 þegar hiti mældist 29,9 stig á Akureyri og hiti náði 28 stigum á fjórum stöðvum öðrum - án hámarkshitamæla. Einnig má nefna ágústhitabylgjuna 1876 og júlíhitabylgjuna miklu 1842. Gallinn sá að mæliaðstæður voru illa staðlaðar. Nokkra væna daga upp úr 1890 má einnig nefna - en líklega hefði aðeins verið þar um stakar tölur að ræða. Um þessar hitabylgjur allar má lesa í eldri pistlum hungurdiska. Sjálfsagt er einnig fyrir áhugasama lesendur að rifja upp pistil frá því í fyrra um hitabylgjuhlutfall - og langtímabreytingar þess.
Það þarf nokkuð góðan vilja til að sjá að hitabylgjum hafi fjölgað á síðari árum. Þó ritstjóri hungurdiska sjái þá fjölgun illa eða ekki er ekki þar með sagt að hún hafi hvorki orðið né sé hún í pípunum. Það verður bara að koma í ljós.
Vísindi og fræði | Breytt 24.8.2025 kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2025 | 16:48
Fyrstu 20 dagar ágústmánaðar 2025
16.8.2025 | 15:24
Fyrri hluti ágústmánaðar 2025
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.9.): 65
- Sl. sólarhring: 468
- Sl. viku: 1625
- Frá upphafi: 2495409
Annað
- Innlit í dag: 60
- Innlit sl. viku: 1420
- Gestir í dag: 60
- IP-tölur í dag: 59
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010