Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2025
2.7.2025 | 16:55
Smávegis af júní 2025
Eftir alveg sérlega hlýjan maí kom mun svalari júnímánuður (sjá yfirlit Veðurstofunnar). Fyrstu tíu dagana var óvenjusvalt, en eftir það hékk hiti lengst af í meðallagi. Niðurstaðan varð sú að í byggðum landsins endaði meðalhitinn um -0,7 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020, (en - í meðallagi köldu áranna 1961-1990). Rétt upp úr aldamótunum hlýnaði júní mjög, meira en flestir aðrir mánuðir. Þessi hlýnun hefur á síðustu árum að einhverju leyti gengið til baka - hvað sem það svo endist.
Það er svalur svipur á yfirlitsmyndinni hér að ofan. Hún sýnir röðun meðalhita júnímánaðar 2025 á öldinni. Á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra er þetta 22.hlýjasti mánuður aldarinnar (fjórðikaldasti), en hæsta sætið er það 19. (sjöundikaldasti á öldinni).
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Hér á landi var þykktin yfirleitt 10 til 30 metrum undir meðallagi og hiti því um 1 stigi neðan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs. Mjög þrálát, köld, háloftalægð var í námunda við landið mestallan mánuðinn með heldur skúrasælu veðri. Mjög hlýir dagar voru engir. Loftþrýstingur var sérlega lágur, hefur ekki verið jafnlágur í júní í Reykjavík síðan 1994 og hefur ekki nema níu sinnum verið lægri í júní síðustu 200 árin rúm.
Á öllum nyrðri hluta kortsins víkur þykktin (hiti) ekki svo fjarri meðallagi, en mun hlýrra er sunnan við, sérstaklega þegar komið er suður undir Alpana þar sem þykktarvikin voru ámóta mikil og hér við land í maímánuði.
Kortið sýnir meðalsjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og hlutfallslega úrkomu (litafletir). Á bláu svæðunum við Norðausturland var úrkoma í líkaninu meir en þreföld meðalúrkoma - og hæsta talan sýnir meira en fjórfalda meðalúrkomu. Er þetta nokkuð í samræmi við veðurathuganir. Um vestanvert landið var úrkoma hins vegar nærri meðallagi - eða jafnvel undir því.
Eins og minnst hefur verið á á hungurdiskum áður er það ekki algengt að meðalhiti í maí sé lægri heldur en í júní. Á landsvísu er munur á meðalhita þessara tveggja mánaða rúm 3 stig. Á árunum 1991 til 2020 var meðalhiti í byggðum landsins 5,4 stig í maí, en 8,6 stig í júní. Á árunum 1961 til 1990 var meðalhitinn lægri (4,8 og 7,9 stig), en munurinn á mánuðunum mjög svipaður. Að þessu sinni var munur á maí og júní neikvæður, -0,6 stig á landsvísu.
Ekki náði þessi neikvæði munur þó til landsins alls. Júní var hlýrri heldur en maí á allstóru svæði um landið sunnanvert og sömuleiðis á fáeinum stöðvum við sjávarsíðuna á Vesturlandi, alveg vestur á Patreksfjörð. Þannig var hiti í júní 1,0 stigi hærri á Önundarhorni undir Eyjafjöllum heldur en í maí og vestur á Lambavatni á Rauðasandi var munurinn +0,9 stig, júní í vil. Á stöðinni á Veðurstofutúni var munur á meðalhita maí og júní 0,0 stig, en á þeirri nýju við Háuhlíð - sem nú er hin opinbera Reykjavík var munurinn neikvæður, -0,2 stig. Þetta varð því í fyrsta skipti frá 1851 sem júní var kaldari en maí í Reykjavík. Nú eru margar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu, algengasti munur er -0,1 stig, júní kaldari heldur en maí.
Eins og áður sagði var júní kaldari heldur en maí í Reykjavík árið 1851, eina skiptið sem það hefur gerst þar til nú. Þá munaði -0,9 stigum. (Gerðist reyndar líka 1845, en þá var maí grunsamlega hlýr - þarf að athuga nánar). Í Stykkishólmi munaði -0,1 stigi þá og -0,5 stigum á Akureyri, júní var þá einnig kaldari heldur en maí í Hvammi í Dölum og í Siglufirði, en ekki á Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Þótt þessar tölur séu auðvitað nokkuð óvissar er samt næsta víst að þetta tilvik er alveg raunverulegt.
Þetta er í fjórða sinn sem júní er kaldari heldur en maí í Stykkishólmi. Síðast gerðist það árið 1946, þá var júní líka kaldari en maí á landsvísu - og fjölmörgum veðurstöðvum. Á Akureyri hefur júní 6 sinnum verið kaldari heldur en maí fyrr en nú, síðast árið 1991. Þetta hefur ekki gerst jafnoft eða oftar á nokkurri annarri stöð - en flestar þær sem helst koma til greina hafa athugað mun skemur en Akureyri. Þar má t.d. nefna Grímsstaði á Fjöllum og Reykjahlíð við Mývatn - á þeim stöðvum hefur þetta nú átt sér stað fimm sinnum, en á hvorugum staðnum var athugað 1851.
Alls eru 13 ár merkt tilvikum af þessu tagi, þetta er hið fjórtánda. Í fyrra, 2024 var júní kaldari en maí á einni veðurstöð, en 2017 á 36 stöðvum. Nú gerðist það á um 140 stöðvum (af um 215 - nærri 2/3 hlutar allra stöðva). Þetta var svipað árið 1928. Þá var júní kaldari heldur en maí á rúmlega 60 prósent stöðva. Árið 1946 var júní kaldari heldur en maí á um helmingi landsins. Árið 1928 var júní -2,8 stigum kaldari heldur en maí á Grímsstöðum á Fjöllum. Þetta var þar til nú mesti munur sem vitað var um. Nú varð munurinn ívið meiri eða svipaður og þetta á fáeinum stöðvum á heiðum og hálsum austanlands, mestur -3,0 stig á Vatnsskarði eystra, -2,9 stig á Hálsum, og -2,8 stig í Hófaskarði, á Biskupshálsi og Sandvíkurheiði. Munurinn var einnig -2,9 stig á Hallormsstaðahálsi. Á Grímsstöðum á Fjöllum var munurinn nú -2,6 stig, ívið minni heldur en 1928. Spurning hvað hefur verið á heiðum og fjöllum eystra þá - kannski svipað og var nú.
Júlí er (á landsvísu) að meðaltali (1991 til 2020) 1,8 stigum hlýrri heldur en júní. Síðustu 150 árin hefur það aðeins gerst 6 sinnum að júlí hefur verið kaldari í byggðum landsins heldur en júní. Í einum þessara júnímánaða var meðalhitinn jafnlágur og í nýliðnum júní (7,9 stig), en júlí varð enn kaldari, 7,5 stig (1887). Árið 1970 var meðalhiti í júní 8,8 stig, en aðeins 7,7 stig í júlí. Árið 2023 var meðalhiti í júní 10,0 stig (mun hlýrri heldur en nú), en meðalhiti í júlí aðeins 9,6 stig. Tilvik sem þessi eru auðvitað mun algengari á einstökum veðurstöðvum heldur en á landsvísu.
Rétt eins og sú spurning vaknaði eftir fádæma hlýjan maí hvort telja ætti maí til sumarsins (svarið er eindregið neitandi) vaknar sú spurning eftir fremur kaldan júní hvort sá mánuður ætti að teljast til vors frekar en sumars. Ritstjóri hungurdiska er þannig séð ekki jafnviss um það eins og hann er handviss um að maí sé ekki sumarmánuður. Sumarið er stutt á Íslandi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.7.): 112
- Sl. sólarhring: 323
- Sl. viku: 2831
- Frá upphafi: 2481585
Annað
- Innlit í dag: 108
- Innlit sl. viku: 2513
- Gestir í dag: 107
- IP-tölur í dag: 107
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010