Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2025

Enn af línuritum - snjókoma

Reynt er að halda utan um það hversu oft snjókomu er getið í veðurathugunum. Úr slíku verða auðvitað til tímaraðir. Gallinn er hins vegar sá að í gegnum tíðina hafa reglur um það hvað telst með í slíkum talningum ekki verið alveg þær sömu - en samt kannski í aðalatriðum. Fleira þarf að hafa í huga. Veðurathugunarmenn eru misnæmir gagnvart snjókomu, hvort færa eigi hana til bókar eða ekki, á fjölmörgum stöðvum er t.d. ekki athugað að nóttu - tekur því að telja fáein korn - eða ekki? 

Það sem hér fer á eftir er meira sett fram til gamans heldur en sem hörð vísindi. Vinsamlega hafið það í huga. 

w-blogg290125a

Við byrjum á því að taka saman árlegan fjölda snjókomudaga í Stykkishólmi, allt aftur til 1846. Eins og fram kom að ofan er ekki alveg víst að röðin sé gallalaus (hún er það örugglega ekki). Við sjáum í stórum dráttum það sem við kannski búumst við að sjá. Snjókomudagar virðast hafa verið fleiri á 19. öld heldur en þeirri 20 og að snjókomudagar hafi verið fleiri á kuldaskeiði 20. aldar heldur en á hlýskeiðinu fræga. Sé rýnt í smáatriði fer kannski að verða meiri vafi, snjókomutíðnin óx t.d. ekki að ráði fyrr en eftir 1980 og hefur á nýjasta hlýskeiðinu ekki fallið niður í sömu gildi og á fyrra hlýskeiði. Lágmark er einnig í snjókomutíðninni á milli 1870 og 1880. Það er nokkurn veginn í samræmi við almannaróm, 8. áratugur 19. aldar fær almennt betri eftirmæli heldur en þeir 7. og 9. 

Rauða línan á myndinni sýnir 10-árakeðjur, við notum hana aftur á þarnæstu mynd.

w-blogg290125b

Í Reykjavík komumst við ekki lengra aftur en til 1921. Það ár var snjókoma mjög tíð og snjóathuganir sýna einnig töluverðan snjó. Ekki er mikið um þetta ár talað í þessu sambandi. Líklega er það vegna þess að snjómagnið bliknaði mjög í samanburði við veturinn á undan, 1920, en í mínu ungdæmi minntust eldri menn og konur þess vetrar sérstaklega sem ódæma snjóavetrar. Rétt eins og í Stykkishólmi skera árin upp úr 1980 og aftur um 1990 sig mjög úr, en aukningin sem virðist hafa fylgt kuldaskeiðinu kom fyrr fram heldur en í Stykkishólmi. Fækkun snjókomudaga varð líka meira afgerandi og hefur snjókomutíðnin haldist svipuð nú í 30 ár og var á fyrra hlýskeiði. Tíðnin náði algjöru lágmerki 2010 - en það ár var einnig mjög rýrt í Hólminum. 

w-blogg290125c

Hér leyfum við okkur að setja 10-árakeðjur þriggja stöðva saman á mynd, Akureyri bætist við. Þrátt fyrir nokkurn mun á stöðvunum eru höfuðdrættir þeir sömu. Snjókomutíðni tók að vísu við sér á Akureyri strax í upphafi kuldaskeiðsins - en lét lengur bíða eftir sér á hinum stöðvunum tveimur, sérstaklega í Stykkishólmi. En höfum enn í huga að þessi smáatriði kunna að tengjast athugunum á stöðvunum. 

w-blogg290125d

Síðasta myndin sýnir allt annað. Hér er talið hversu marga daga á sumri (júní til ágúst) snjóar á Grímsstöðum á Fjöllum á árunum 1920 til 2024. Hretið mikla í júní á síðastliðnu ári kemur vel fram sem mikill toppur. Algengust var snjókoma sumarið 1964, hlutur ágústmánaðar drjúgur, einnig eru miklir toppar 1952 og 1968, tengdir júníhretum þau ár. Hin afbrigðilega svölu sumur 1921 til 1923 koma einnig vel fram, þrjú í röð. Séu ár tekin saman verður tíminn upp úr 1990 einna feitastur, snjókomudagafjöldi var yfir meðallagi 8 sumur í röð. Sumur alveg án snjókomudags eru ekki mjög mörg, fleiri þó síðustu 15 árin heldur en áður hefur verið. 

Meltum nú þetta með okkur. 


Tvö (misheppnuð?) stefnumót

Veðrið er heldur órólegt þessa dagana, eins og algengt er um þetta leyti árs. Staðan dæmigerð. Mikill kuldapollur, sem ritstjóri hungurdiska hefur kosið að nefna „Stóra-Bola“ er í góðum styrk vestan Grænlands og beinir jökulköldu norrænu meginlandslofti út yfir Atlantshaf og sömuleiðis hlýju suðrænu úthafslofti til stefnumóta á sömu slóðum. Allt mjög kunnuglegt. 

Að venju látum við Veðurstofuna um spár og aðvaranir en lítum lauslega á skipan aðflutningsmála á þremur spákortum evrópureiknimiðstöðvarinnar, en líkan hennar er þanið til hins ítrasta og reynir að ná tökum á stöðunni. 

w-blogg300125a

Fyrsta kortið sýnir stöðuna eins og reiknað er með hún verði síðdegis á morgun (föstudag 31. janúar). Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en úrkoma er sýnd í lit. Lægðin sem angraði okkur í dag (fimmtudag 30.janúar) er alveg gufuð upp og ný komin í hennar stað, með miðju vestur undir strönd Grænlands. Kl.18 er úrkomunnar farið að gæta verulega um landið vestanvert og orðið býsna hvasst af suðaustri og suðri. Rétt fyrir ferðamenn og aðra að fylgjast vel með - krapi og vatnselgur geta einnig valdið vandræðum. 

Suður í hafi eru tvær litlar lægðarmiðjur sem bent er á með örvum. Fyrri spár höfðu sumar hverjar gert ráð fyrir því að þær ættu stefnumót, en svo virðist sem sá hittingur gerist ekki. Lægðin sem merkt er með tölustafnum 2 og átti að bera fóður í lægð 1 sem kom að sunnan. Þetta hefur þær afleiðingar að ákveðinn fóðurskortur verður hjá lægðunum báðum og þær verða ekki eins stórar og djúpar og hefði orðið - hefði stefnumótið heppnast. Samt er gert ráð fyrir því að fyrri lægðin verði foráttukröpp og til alls líkleg - en á mun minna svæði heldur en ella hefði orðið. Sú síðari fylgir síðan í kjölfarið, hálfgert lík - sem þarf þó að gefa gaum. 

Lægðirnar tvær sjást vel á korti sem gildir kl.9 á laugardagsmorgni.

w-blogg300125b

Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting, en litirnir hvernig þrýstingur hefur breyst næstliðnar þrjár klukkustundir. Tölurnar eiga við lægðirnar tvær. Fyrri lægðin, sú krappa, er ekki stór um sig, en þrýstisveiflan með henni er gríðarmikil, þrýstirisið í kjölfar lægðarinnar sprengir litakvarðann. Vindur er mjög mikill við lægðina, en ekki á mjög stóru svæði. Eftir þessari spá að dæma virðist mesti krafturinn renna vestan við landið - þannig að kannski sleppur þetta. 

Við verðum þó að hafa í huga að þetta er afskaplega ótrygg staða og lægðirnar það litlar um sig að mjög litlu má muna í braut þeirra til að illa geti farið. Við fylgjumst því mjög vel með spám. Síðari lægðin á síðan að fara hjá undir kvöld á laugardag, en henni er ekki spáð jafnöflugri og þeirri fyrri - fær ekki það hlýja loft sem stefnumótið lofaði. 

En hádegisruna reiknimiðstöðvarinnar segir okkur síðan að annað stefnumót eigi að misfarast suðvestur í hafi á laugardagskvöld.

w-blogg300125c

Kortið gildir kl.18. Síðari lægðin á fyrri kortum er nú rétt sunnan við Reykjanes, valdandi nokkrum leiðindum. Fyrri lægðin, sú öflugri er að deyja við strönd Grænlands. Suðvestur í hafi er nýtt stefnumót í uppsiglingu. Hafi reiknimiðstöðin rétt fyrir sér misheppnast það líka. Lægð sem merkt er tölustafnum 1 er of fljót í förum til að hitta í lægð 2 - sem ber í sér hluta fóðursins. Þótt þetta verði samt umtalsvert kerfi er það samt ekki eins afgerandi slæmt eins og sumar eldri spár höfðu gefið til kynna. 

Hér er líka veruleg óvissa og svo sannarlega rétt að fylgjast með. Reiknimiðstöðin segir lægðina (1) verða í kringum 960 hPa yfir Austurlandi á sunnudagskvöld og hina fylgja síðan á eftir - sem lamaður aumingi í kjölfarið. 

Hádegisruna bandarísku veðurstofunnar er meira krassandi - setur lægðina yfir landið vestanvert, um 950 hPa í miðju á aðfaranótt mánudags. 

Margar vandræðalægðir eru síðan áfram á ferð í spám reiknimiðstöðva.

Viðbót að kvöldi 31.janúar. 

w-blogg310125c

Myndin sýnir spá um vind í 925 hPa-fletinum, sú til vinstri gildir kl.20 að kvöldi föstudags 31.janúar, en sú til hægri kl.05 að nóttu laugardaginn 1.febrúar 2025. Litakvarða er komið fyrir ofan við myndaklippurnar. Á vinstri myndinni má sjá mikið vindhámark norðan við Snæfellsnes, þar nær vindurinn í fletinum nærri 50 m/s og er yfir 40 m/s á löngu nær samfelldu belti norðan við fjallgarðinn. Þar fyrir norðan er mjótt belti með hægum vindi - og síðan kemur annað vindhámark. Hér er greinilega mikil flotbylgja á ferð (fjallabylgja) vakin af fjallgarðinum og stöðugu lofti - trúlega gætir þessarar kröppu bylgju mjög hátt í lofti. Mikil ámóta bylgja er einnig norðan við Ok og Langjökul. Á síðari myndinni er hinn almenni vindur á svæðinu svipaður og á þeirri fyrri, jafnvel meiri - en nú vantar þessi bylgjuhámörk, þau eru ekki til staðar, hvorki á Snæfellsnesi né við Langjökul. Stöðugleiki loftsins hefur greinilega breyst á milli þessara tveggja spátíma - síðara kortið sýnir blandaðra loft í neðri lögum - og sést það raunar á háloftaritaspám.

[Það truflar myndina aðeins að sum fjöll ná upp í 925 hPa - og virðist þar vera logn eða hægur vindur. Hæð flatarins er hér í 4-500 metra hæð]. 


Línurit enn - sólskinsstundafjöldi

Línuritaskriðan rennur enn frá lyklaborði ritstjóra hungurdiska (og langt í lok hennar). Í þetta sinn lítum við á sólskinsstundafjölda ársins í Reykjavík og á Akureyri frá upphafi mælinga. 

Geta verður þess að búast má við því að einhverjar ósamfellur séu í gagnaröðunum. Mælar hafa verið fluttir nokkrum sinnum á báðum stöðum og nú hin allra síðustu ár var skipt um mæligerð. Auk þess hefur pappír í mælunum ekki alltaf verið eins. Slæðing af mánuðum vantar í mælingar á Akureyri. Ritstjórinn hefur leyft sér að skálda í þær eyður með aðstoð skýjahuluathugana. Einhver óvissa verður af slíku, en ekki þó stórfelld. Við trúum því mælingunum í öllum aðalatriðum. 

w-blogg250125b

Línuritið sýnir gögnin úr Reykjavík. Við leyfum okkur að láta mælingar sem gerðar voru á Vífilsstöðum 1911 til 1921 fylgja með. Þær eru ekki ótrúverðugar, t.d. er ljóst að mikið sólarleysi var á árinu 1914. Við megum taka eftir miklu sólskini flest árin 1924 til 1931. Þennan tíma voru mælingar reyndar gerðar við Skólavörðustíg, en fluttust þá í Landssímahúsið og voru þar til 1945 - þá var flutt í Sjómannaskólann og mælt þar, þar til 1973. Skiptin árið 1931 gætu verið grunsamleg - en við gerum samt ekki veður út af þeim. Áberandi mest sólarleysi var á árunum 1983 og 1984, hin eftirminnilegu rigningasumur. Og mjög sólríkt var öll árin frá 2005 til 2012, átta ár í röð - og svo aftur 2019, en rýrara þar á milli. Síðustu tvö ár hafa einnig verið fremur sólrík, þó ekki nái þau alveg sólríkasta flokknum. 

w-blogg250125c

Sama mynd fyrir Akureyri - en ekki er byrjað fyrr en 1928. Reynt var við sólskinsmælingar fyrr á Akureyri, en eitthvað gekk ekki upp. Það er sama og í Reykjavík, mælingarnar hafa verið fluttar til hvað eftir annað. Langsólríkast var árið 2012 - mikið þurrkasumar og síðan afskaplega eftirminnilegt hausthret. Einnig hefur verið til þess að gera sólríkt síðustu fimm árin - kann það að tengjast nýrri mæliaðferð - (kemur vonandi í ljós síðar hvort svo er). Áberandi er að mjög sólrík ár komu mörg í röð frá 1974 til 1978 - þá báru norðlendingar sig vel, sumrin 1975 og 1976 voru í allrablautasta lagi syðra. Sérlega sólarlaust var 1943 - það sumar var afskaplega dauft og kalt á Norðurlandi. 

Að lokum - í þessari sólarsyrpu - lítum við á algjörlega ólöglegt línurit (aðeins til skemmtunar). Það segist sýna meðalskýjahulu á landinu allt aftur til 1875 - í 150 ár (býður einhver betur?). Hér er mjög margs að gæta. Í fyrsta lagi sýna gagnaraðir glögglega að mat einstakra veðurathugunarmanna á skýjahulu er óþægilega misjafnt, man ritstjórinn of mörg dæmi slíkra ósamfella. Í öðru lagi var skýjahula lengi athuguð í tíunduhlutum en ekki áttundu eins og nú er gert. Þótt við eigum samanburð frá allmörgum stöðvum (sem notaður er við súpugerðina sem myndin sýnir) er öruggt að þessi breyting spillir samfellu raðarinnar. Leitnin sem hún virðist sýna er líklega af þessum völdum.

w-blogg250125d

Við sjáum að nær engin leitni er frá því um 1950 (1949) til okkar daga, hún kemur mestöll fram í einu þrepi þar næst á undan - einmitt þegar skiptin á milli tíundu- og áttunduhluta á sér stað. En e.t.v. má eitthvað lesa úr breytingum frá ári til árs. Við vitum t.d. að árið 2012 var mjög þurrt og sólríkt - þá var skýjahula óvenju lítil - hún var hins vegar mikil  árið 2014 - og nærri meðallagi í fyrra. Við vitum líka að árið 1928 var líka óvenjusólríkt - og fleiri ár þar um kring - skera sig úr öðrum árum. Þrepið árið 1949 er mjög áberandi - það er einmitt árið þegar endanlega var skipt um lykil - og tíunduhlutarnir hurfu úr gögnunum. Um þetta vandamál hefur reyndar verið fjallað á hungurdiskum áður (með einhverju óljósu loforði um frekari umfjöllun - sem auðvitað hefur verið svikið). 

Ritstjóri hungurdiska trúir því einlæglega að það séu breytingar á athugunarháttum sem í raun og veru valda leitninni sem svo greinilega sést á myndinni, þetta sé því sýndarleitni. Til eru þeir sem ekki trúa því að hlýnað hafi hér á landi af völdum breytinga á efnasamsetningu lofthjúpsins. Þeir eru þekktir fyrir að halda því fram að hitaleitnin sem við sjáum svo greinilega í öllum athugunarröðum sé sýndarleitni, byggist á breyttum athugunarháttum. Að benda þeim á þessa mynd er dálítið eins og að siga á foræðið - en gefum þeim hér með kost á annarri skýringu. Mælingar sýna að hér á Íslandi eru skýjaðir dagar hlýrri en léttskýjaðir nær allt árið. Það er aðeins fáeinar vikur að sumarlagi sem sólarylur skiptir meira máli heldur en skýin ef halda á hinni miskunnarlausu kælingu útgeislunarójafnvægisins í skefjum - aðeins lengri tími ársins á Norðurlandi heldur en syðra. [Um þetta má lesa í gömlum hungurdiskapistli]. Nú er boðið upp á þann valkost að „skýra“ hlýnunina sem aukningu í skýjahulu - en ekki auknum gróðurhúsaáhrifum. Hvað það þá er sem veldur aukningu skýjahulunnar (?) er þá önnur spurning - sem þyrfti að svara - gjörið svo vel. 


Fyrri hluti vetrar

Við lítum nú á meðalhita í Reykjavík fyrri hluta íslenska vetrarins, eins og við höfum stundum gert áður. Fyrstu þrír vetrarmánuðirnir, gormánuður, ýlir og mörsugur voru heldur kaldari en að meðallagi að þessu sinni, þó lítillega hlýrri heldur en í hitteðfyrra. Þetta er í þriðja sinn í röð sem mánuðirnir þrír saman eru undir meðallagi síðustu 100 ára. 

w-blogg250125a

Eins og sjá má á línuritinu er töluverður munur á hitafari þessa árstíma frá ári til árs. Langhlýjastir voru mánuðirnir þrír veturinn 1945 til 1946, meðalhiti var þá yfir 4 stig í Reykjavík. Í nokkur skipti önnur hefur meðalhitinn verið yfir 3 stigum, síðast 2016-17. Fjölmargir kaldir mánuðir komu í klasa á árunum 1973-74 og til 1985, en heldur hlýrra verð aftur eftir það. Það hefur ekki gerst enn á þessari öld að meðalhiti fyrri hluta vetrar hafi verið undir frostmarki. Síðast átti það sér stað 1996 til 1997. Á fyrra hlýskeiði tuttugustu aldar gerðist það hins vegar endrum og sinnum. 

Í (ítarlegri) pistli hungurdiska um sama efni sem skrifaður var fyrir 6 árum kom fram að köldum fyrri hluta fylgdi oftar hlýr seinni hluti heldur en kaldur (og öfugt) - ekki er reglan þó svo ákveðin að nota megi hana til spádóma (slatti er af undantekningum - en lítið á síðustu myndina í þeim pistli). 

Við getum líka látið þess getið að í dag (25.janúar) er Pálsmessa - um hana var kveðið: 

Ef heiðbjart er og himinn klár
á helga Pálusmessu,
mun þá verða mjög gott ár;
mark skalt hafa af þessu.

Ef að þoka Óðins kvon
á þeim degi byrgir,
fjármissi og fellisvon
forsjáll bóndinn syrgir.

(hér haft eftir Þjóðsögum Jóns Árnasonar).

Þessi fróðleikur er frá útlöndum kominn - í ensku rímversi segir:

If St. Paul´s Day be faire and cleare,
It doth betide a happy yeare ;
But if by chance it then should rain.
It will make deare all kinds of graine ;
And if ye clouds make dark ye skie,
Then neate and fowles this yeare shall die ;
If blustering winds do blow aloft.
Then wars shall trouble ye realm full oft.

Ekki gott að segja á hverju þetta byggir - sennilega komið frá miðjarðarhafslöndum í fyrndinni.


Skaðræðislægð stefnir á Írland

Spár gera nú fyrir að skaðræðislægð skelli á Írlandi og víðar á Bretlandseyjum aðra nótt (aðfaranótt föstudags 24.janúar 2025). Spárnar eru þó auðvitað ekki alveg sammála um afl hennar. Írar kalla lægðina Éowyn - ekki veit ritstjórinn hvaða kyns það nafn er - og ekki er framburðurinn honum tamur - en það skiptir engu. 

w-blogg220125a

Hér má sjá spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir nú kl.18 síðdegis - miðvikudaginn 22.janúar. Mikil háloftalægð (Stóri-Boli) er við Baffinsland og beinir gríðarlega köldu lofti út á Atlantshaf. Á kortinu má sjá daufar strikalínur - jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum. Þær liggja um það bil þvert á vindstefnu sunnan Grænlands (vindstefnuna ráðum við af legu jafnþrýstilína). Þegar kemur suður af Grænlandi dreifir kalda loftið úr sér og við það dragast veðrahvörfin ofan við niður og við það bætir í háloftavind sunnan köldu útrásarinnar. Hlý bylgja úr suðvestri gengur síðan í átt til þessara lækkuðu veðrahvarfa - og þá getur fjandinn orðið laus. Á þessu korti er lægðin enn grunn, rétt um 1000 hPa í miðju sunnan Nýfundnalands, en gengur nú á móts við veðrahvörfin lágu og hitti hún rétt í stefnumótið lendir hún í óðadýpkun, á að dýpka í kringum 50 hPa á sólarhring. 

Jú, ritstjóri hungurdiska hefur að vísu séð slatta af svona lægðum áður, en minnist þess þó varla að hafa séð slíka fara svo illa að ströndum Írlands. Vindspárnar eru mjög rausnarlegar, fárviðri við ströndina og jafnvel beint in flóann vestur af Galway við Araneyjar - sem e.t.v. verja Galway flóðum (en ritstjórinn er ókunnugur á þessum slóðum og veit ekkert um flóðahættu - og -háttu þar. 

Þessi kuldaútrás Stóra-Bola hefur einnig áhrif hér á landi. Við sjáum á kortinu að kuldinn er að baki skila sem nálgast landið. Það er löng leið frá Kanada og yfir úthaf að fara þannig að loftið hefur hlýnað að mun þegar hingað kemur. Hiti mun vera ofan frostmarks á undan skilunum, en nærri frostmarki á eftir þeim. Svona skil eru til alls líkleg hvað snjókomu ræðir - sem stendur er ekki spáð mikilli snjókomu á bakhlið skilanna, en það er nú samt rétt að gefa slíkum möguleika gaum. Írlandslægðin mun síðan senda pakka af hlýrra lofti hátt yfir landið seint á föstudag og laugardag. Þá kemur eitthvað hik á skilin - og ekki alveg ljóst hvað úr verður. 

Fleiri lægðir - en aflminni þó eru síðan á svipaðri braut næstu daga. Reiknilíkön ná vonandi betri tökum á þeim þegar nær dregur. En þetta er mikið brak sem verður úr atburðum sem þessum og hristir hann upp í veðri á mjög stóru svæði. 

Eftirfarandi athugasemd barst frá Ingólfi Sigurðssyni - og er ég þakklátur fyrir hana: „Éowyn, kvenmannsnafn, er af keltnesk-brezkum uppruna og þýðir "vinkona hests", "stríðshestsgleði". J.R.R. Tolkien bjó til þetta nafn uppúr gelísku og fornensku. birtist í Lord of the Rings, er nú orðið kvenmannsnafn almennt. Borið fram Ei-ó-ven“.

Af þessu telur ritstjórinn mega ráða að wyn sé þá væntanlega sama orð og okkar „vin“.

Viðbót fimmtudaginn 23.janúar:

Lægðin hegðar sér enn eins og gert var ráð fyrir í gær. Ritstjórinn notar (í ábyrgðarleysi sínu) tækifærið og sprautar þunnri fræðafroðu yfir ritvöllinn. Kannski ekki til eftirbreytni, en það er samt rétt hugsanlegt að einhver lesi sér til einhvers gagns - en kannski ekki nema einn. Já, varað er við textanum - nánast óskiljanlegur. 

w-blogg220125ia

Fyrst verður fyrir svokölluð vatnsgufumynd af vef Veðurstofunnar. Vatnsgufumyndir nema varmageislun á því tíðnisviði sem vatnsgufa sendir út á. Á hvítu svæðunum byrgir vatnsgufa alveg sýn til jarðar, oftast er þar bæði mikið af henni og að auki er hún mjög köld. Á myndinni má einnig sjá mjög dökk svæði - þar er lítið af vatnsgufu - stundum vegna þess að loft úr heiðhvolfinu hefur dregist niður (og blandast). Heiðhvolfið er skraufþurrt. Þetta gerist í ört dýpkandi lægðum - og bletturinn sem fylgir lægð dagsins er bæði stór og svartur. Veðurfræðingar tala um þurru rifuna (dry slot á ensku - vilji einhver fletta hugtakinu upp og fræðast frekar um það og tilurð þess). Örin bendir á stöð nærri lægðarmiðjunni - eða rétt aftan viðhana. Á undan fer allmikil hvít klessa - skýjahaus óðalægðarinnar. Þar er hins vegar uppstreymi (og streymir loft reyndar út til allra átta þar uppi - rétt eins og að undir þurru rifunni streymir kalt loft út til allra átta - það er það úrstreymi sem „veldur“ niðurdrættinum - rétt eins og efra úrstreymið veldur þrýstifalli og uppstreymi á undan lægðarkerfinu. Við sjáum líka mjög hvítt skýjaband sem fylgir heimskautaröstinni - skörp brún þar á milli uppstreymis (hvítt) og niðurstreymis (svart) - í löngum hala á eftir lægðinni. Óstöðugleiki rastarinnar verður að bylgju - sem verður að lægð.

w-blogg220125ib

Næsta kort könnumst við betur við. Hér má sjá samspil 500 hPa hæðar og þykktar. Hlýju lofti er snúið inn undir lág veðrahvörf (sem hæð 500 hPa-flatarins er góður fulltrúi fyrir) - mikið misgengi er milli jafnhæðarlína og jafnþykktarlína - loftið er mjög riðið sem kallað er (áberandi möskvar myndast á milli þessara tveggja gerða lína) - óskastaða fyrir lægðardýpkun. Við sjáum að í hlýjasta loftinu eru nær engar jafnþykktarlínur - þar ná háloftavindar nær jörðu heldur en annars staðar. Ritstjórinn kallar það rastarhes (já) - hangir eins og hes neðan úr röstinni. Á smábletti norðvestan við lægðarmiðjuna eru jafnþykktarlínurnar nægilega þéttar til þess að upphefja háloftavindinn alveg - þar er norðlæg átt vestan lægðarmiðjunnar. 

w-blogg220125ic

Þá er komið að öllu erfiðara korti. Það sýnir iðu í 500 hPa hæð - iða er náskyld því sem bílamenn kalla stundum „tork“ - það er eins með þessi fyrirbrigði þau vilja varðveitast. Lúmskasta iðan er jarðsnúningurinn sjálfur - við snúumst hring í kringum sjálf okkur einu sinni á sólarhring - vegna þess að við erum ekki á sífelldri hreyfingu á milli breiddarstiga verðum við ekki vör við þennan snúning - en loft á mikilli ferð verður það hins vegar óhjákvæmilega. Loft á leið suður - á suður þar sem jarðiða er minni en norðar man sitt fyrra breiddarstig og eykur við hægrihandarsnúning (lægðarsnúning) - en loft sem fer norður dregur úr honum (fer í hæðarsnúning). En iða lofts getur legið í leyni (rétt eins og okkar eigin). Til eru mælitölur fyrir það sem kallað er iðumætti - við þurfum ekki hér og nú að ná tökum á slíku - en gott er að vita að í heiðhvolfinu er mikill iðugeymir - þar er nánast ótakmarkað framboð a iðumætti (mættisiðu) niðurdráttur á veðrahvörfunum losar um og breytir iðumættinu í snúning. Á kortinu sjáum við að rauði flekkurinn nærri lægðarmiðjunni er á sama stað og þurra rifan - þar er iða úr heiðhvolfinu á ferð og snúningur verður að verða til. En iða er aldrei ókeypis - sé henni stolið verður að skila henni aftur. Ákafinn í ferlinu er svo mikill að lægðakerfið borgar með gráa flekknum norðan við  - þar er úttekt í lægðaiðu greidd með hæðarsnúiningi. Stórir dökkgráir flekkir sem þessi fylgja því oftast óðalægðum á ákveðnu þroskaskeiði þeirra - borgað er fyrir snúninginn. Loft ryðst undir veðrahvörfin (haus skýjakerfisins sýnir það ferli) og lyftir þeim - búið er að borga. 

w-blogg220125id

Á síðustu myndinni sjáum við það sama, reiknaður er út mismunur á mættishita við veðrahvörf og jafngildismættishita í 850 hPa-fletinum. Mættishiti segir okkur hver hiti lofts yrði væri það dregið niður til 1000 hPa þrýstings. Jafgildismættishiti sýnir það sama, nema hvað þá er búið að reikna hversu miklum varma þétting raka myndi skila inn í mættishitann. Mismunur sá sem hér er kortlagður sýnir okkur sitt af hverju tagi. Við sjáum t.d. bæði hita- og kuldaskil lægðarinnar, við sjáum brotið í veðrahvörfunum norðan við úrstreymisskjöldinn þar sem verið er að skila iðunni og síðast en ekki síst sjáum við hvernig svonefnd stingröst lægðarinnar er einmitt að verða til - ör bendir þar á. Illviðrið nær hámarksafli um það bil sem stingurinn næri inn í fjólubláa svæðið smáa við lægðarmiðjuna - sú örlagastund er hér skammt undan. 

Þetta var erfiður lestur - og nánast ófær vegslóði - en svona er það. 


Vindhraði og stormar (fleiri línurit)

Enn eru línurit á dagskrá, enn fleiri tímaraðir úr fórum ritstjóra hungurdiska. Í þetta sinn er sjónum beint að vindhraða og illviðratíðni. Illviðratíðnin er það atriði veðursögunnar sem ritstjórinn hefur lengst sinnt (ekki endilega þó best), eða allt frá árinu 1969.

Vindhraðaraðir eru erfiðar vegna fjölþættra samfelluvandamála sem koma upp. Vindathuganir hafa mjög breyst, mælum hefur fjölgað mjög mikið og þeir orðið mun betri heldur en þeir voru. Auk þess hafa orðið mjög miklar breytingar á stöðvakerfinu sem kunna að trufla samfelluna. En raðirnar eru þó settar hér fram í góðri trú og sömuleiðis von um að í framtíðinni megi leysa að minnsta kosti verstu samfelluvandamálin.  

w-blogg200125a

Fyrsta myndin sýnir einfalt meðaltal vindhraða í byggðum landsins. Fram til 2012 voru eingöngu notaðar athuganir á mönnuðum stöðum, en eftir það eingöngu á sjálfvirkum. Ekki er mikill munur á kerfunum tveimur fyrr en núna allra síðustu árin þegar mönnuðu stöðvarnar eru orðnar sárafáar. Súlurnar sýna meðalvindhraða einstakra ára, en ferillinn sýnir 10-árakeðju. Nokkur áraskipti eru greinileg. Vindhraði var t.d. áberandi meiri árin 2020 og 2015 heldur en annars hefur lengst af verið á þessari öld. Að sama skapi var hægviðrasamt árið 2010. Sé farið lengra aftur í tímann sjáum við að mjög illviðrasamt var á árunum í kringum 1990 og sömuleiðis stundum á áttunda og níunda áratugnum. Mjög hægviðrasamt var aftur á móti á árunum 1960 til 1965. Það er örugglega rétt að þau ár voru hægviðrasöm, en ritstjórinn hefur þó í huga ákveðið samfelluvandamál sem kann að hafa eitthvað að segja. Ætti þó ekki að muna nema einum til þremur tíunduhlutum í átt til vanmats vindhraðans.

w-blogg200125b

Við höfum áður litið á þrýstióróavísi. Hann hefur þann kost að vera algjörlega óháður vindhraðamælingum, og er ekki mjög margt sem getur skapað alvarleg samfelluvandamál í tímaröðum hans. Við litum á dögunum á breytileika hans síðustu 200 ár, en einbeitum okkur hér að tímabili vindhraðameðalatala, frá og með 1949. Árið 2015 og 2020 skera sig nokkuð úr - meðalvindhraði var þá líka mikill - og óróinn var sérlega lítill árið 2010, en þá var mjög hægviðrasamt. Einhver líkindi eru með þessum tveimur línuritum. 

w-blogg200125c

Þetta línurit ber þessa tvo ólíku veðurþætti saman. Þrýstióróann má lesa af lárétta ásnum, en meðalvindhraða af þeim lóðrétta. Við sjáum að samband virðist vera á milli. Fylgnistuðullinn er að vísu ekki mjög hár (0,51) en tengslin teljast hins vegar vel marktæk. Við tökum eftir því að árið 1949 liggur nokkuð út úr. Þrýstiórói var þá allmikill (enda mjög umhleypingasamt ár, en meðalvindhraði var hins vegar ekki mikill). Mjög mikil breyting var gerð á skeytalykli um áramótin 1948 til 1949 - rétt hugsanlegt er að hún eigi hér sök á. Tíma hafi tekið fyrir athugunarmenn að venjast nýja lyklinum (en þetta er auðvitað bara ágiskun út í loftið). Ár á þessari öld eru merkt með rauðu, vindhraðinn er fremur mikill miðað við þrýstióróann. 

w-blogg200125d

Til að sannfæra okkur betur um að eitthvað samband sé hér á milli lítum við einnig á sértaka mynd sem sýnir 10-árakeðjur þessara tveggja veðurþátta. Meðalvindhraðaferillinn er blár, en þrýstióróaferillinn er rauður. Við sjáum að þeir eru furðulíkir í forminu. Lágmark beggja ferla er á sama tíma, sömuleiðis hámarkið, minni lágmörk og hámörk eru einnig samtíma. Þess má geta að ritstjóri hungurdiska hefur (ásamt fleirum) ritað um þrýstióróann í svokölluð ritrýnd tímarit. Vitnað hefur verið í þær 87 sinnum - sem þykir sæmilegt. 

w-blogg200125e

Ritsjórinn reiknar einnig það sem hann kallar stundum stormdagavísi. Reiknar alla daga hlutfall þeirra stöðva þar sem 10-mínútna vindhraði hafur náð 20 m/s einhvern tíma dagsins. Fjöldi stöðva skiptir því litlu máli, að öðru leyti en því að þegar þær verða mjög margar  (í kerfinu) aukast líkur á því að einhver þeirra nái þessu marki. Þegar lagt er saman fyrir alla daga ársins getur munað um þessar stöku tölur - miðað við fyrri tíma þegar stöðvar voru miklu færri. Hér er því allra lægstu tölurnar skornar burt. Við skulum ekki hafa áhyggjur af tölum lóðrétta kvarðans, en trúa því að súpan sé samt nokkuð einsleit allan tímann þannig að breytileiki frá ári til árs og áratug til áratugar sé raunverulegur. 

Gerum við það kemur enn í ljós að stormar voru fáir í kringum 1960 og að miklir toppar komu um miðjan áttunda áratuginn og í kringum 1990. Síðustu árin hafa hins vegar sýnt mjög mikinn breytileika frá ári til árs - rétt eins og fram hefur komið á línuritunum hér að ofan. 

w-blogg200125f

Hér er hins vegar skorið meira. Taldir eru dagar þar sem hlutfallið áðurnefnda nær 25 prósentum allra veðurstöðva. Þetta eru þá hinir eiginlegu stormdagar. Sem fyrr var skipt um úr mönnuðum í sjálfvirkar athuganir 2013. Árið 2020 var sérlega illviðrasamt, virðist meira að segja hafa slegið út árið 1975, en árið eftir var hins vegar mjög rólegt. Samt erum við nú ekki fjarri þriðja toppi tímabilsins alls. 

w-blogg200125g

Á síðustu myndinni skerum við allt burt nema allra verstu dagana, það eru þeir dagar sem skarta 45 prósentum stöðva með 20 m/s eða meira. Enginn slíkur dagur kom allt árið í fyrra (2024), en það hefur svosem gerst alloft áður. Hér fer 2022 vel fram úr 2020 - ásamt 2015. Verstu árin eru í kringum 1990, árið 1993 á toppnum, síðan 1991, 1989 og 1975. Árið 1956 er einnig ofarlega á þessum kvarða. 

Við höfum séð að ekki er hægt að tala um einhverja langtímaleitni í vindhraða og ekki heldur í illviðratíðni. Sé um slíka leitni að ræða er hún að minnsta kosti minni en óvissa mæliraðanna. Við sjáum hins vegar bæði mikinn breytileika frá ári til árs sem og breytileika á milli lengri tímabila. Árið 2003 tók ritstjóri hungurdiska saman langa ritgerð um illviðri og illviðratíðni og birti í ritgerðaröð Veðurstofunnar. Var þar mun ítarlegri umfjöllun en hér er boðið upp á. Kannski er kominn tími á að uppfæra ritgerðina - eða kasta henni á haugana? 


Fyrstu tuttugu dagar janúar 2025

Fyrstu 20 dagar janúar 2025. Meðalhiti í Reykjavík er -0,2 stig, -0,7 stigum undir meðallagi sömu daga árin 1991-2020 og -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 18. hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2002, meðalhiti þá ´4,1 stig, en kaldastir voru þeir árið 2023, meðalhiti -3,5 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 76. sæti (af 153). Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 1972, meðalhiti þá +4,7 stig, kaldastir voru þeir 1918, meðalhiti þá -10,6 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -2,6 stig, -1,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, í 58. hlýjasta sæti síðustu 90 ára.
 
Að tiltölu hefur verið kaldast á Austfjörðum, þar raðast hitinn í 22. hlýjasta sæti aldarinnar (fjórða kaldasta), en mildast aftur á móti á Vestfjörðum þar sem hitinn raðast í 16. hlýjasta sætið.
 
Á einstökum veðurstöðvum er hefur verið hlýjast að tiltölu á Steinum undir Eyjafjöllum, +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast hefur verið á Egilsstaðaflugvelli, -1,8 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 41,4 mm og er það um 70 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hafa mælst 44,0 mm og er það í meðallagi. Á Dalatanga hafa mælst 158,5 mm og er það um 40 prósent umfram meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 15,0 í Reykjavík, og er það í meðallagi, Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 1,6 og er það líka í meðallagi.

Komið að snjóhulunni

Þá er komið að snjóhulunni (á línuritafylleríinu). Það er eins með hana og úrkomuna að athugunarstöðvum hefur farið óþægilega fækkandi á síðustu árum og óvissa þar með aukist. Fari svo sem horfir verður ekki hægt eftir tíu ár að skrifa pistil sem þennan með nýjum gögnum. Jú, það verður (með mjög mikilli fyrirhöfn) hægt að splæsa saman eldri gögn og gervihnattaathuganir, en hver skyldi vilja greiða fyrir það og hver vinna þrælavinnuna? Þessi staða er því óskiljanlegri fyrir það að við lifum á breytingatímum í náttúrunni og mikilvægt er að fylgjast með slíkum breytingum (eða er það kannski misskilningur hjá ritstjóra hungurdiska - eru breytingarnar allar reiknanlegar í líkönum?).

Hvað um það, fyrsta línuritið sýnir meðalsnjóhulu í byggðum landsins frá 1924 til 2024. Meðaltalið nær hér reynda ekki til ársins (janúar til desember) heldur frá september að hausti til ágúst að sumri. Það köllum við snjóár. Það er raunar álitamál hvort setja eigi þessi áramót við mánaðamót ágúst og september eða mánuði síðar. Fyrsta árið sem hér eru upplýsingar um er því september 1924 til og með ágúst 1925, það síðasta byrjaði í september 2023 og endaði í ágúst síðastliðnum (2024). 

w-blogg180125a

Lárétti ásinn sýnir árin (merkt við síðara ártal snjóársins). Lóðrétti ásinn sýnir prósentur. Snjóhula er athuguð þannig að ýmist er alautt (snjóhula 0 prósent), alhvítt (snjóhula 100 prósent) eða jörð er flekkótt (snjóhula 50 prósent). Sumir veðurathugunarmenn hafa komist upp með það að nota 25 og 75 prósent líka - við höfum ekki áhyggjur af því, vegna þess að ritstjóri hungurdiska hefur gert viðeigandi samanburð. Meðaltal er reiknað fyrir mánuðinn og síðan fyrir allt árið. Í ársmeðaltalinu er (rétt eins og í meðalhitareikningum) gert ráð fyrir því að allir mánuðir séu jafnlangir - febrúar hefur því aðeins of þungt vægi miðað við janúar og mars - en það skiptir í raun mjög litlu. 

Meðalsnjóhula ársins í byggðum landsins er 29 prósent. Það eru um 3,5 mánuðir, safnað saman, en dreifist auðvitað í raun á miklu lengri tíma, bæði alhvítt og flekkótt. Blá lína liggur um myndina þvera við meðaltalið. Við sjáum að snjóhula var lítillega yfir meðallagi veturinn 2023 til 24. Það eru töluverð tímabilaskipti. Veturinn 1928-29 virðist hafa verið sá snjóléttasti síðustu 100 árin. Áberandi snjóavetur komu í kringum 1950 og sérlega snjólétt var um nokkurra ára skeið rúmum áratug síðar. Það voru reyndar mótunarár ritstjórans og hélt hann þá að svona væri þetta á Íslandi. Mikil breyting varð síðan um miðjan sjöunda áratuginn og allt önnur snjóatíð tók við - og stóð linnulítið til vors árið 2000 (margir muna enn hinn snjóþunga mars það ár). Síðan var mjög lítill snjór í nokkur ár - en eftir það hafa skipst á snjólitlir vetur og meðalvetur, helst að veturinn 2019-20 falli í flokk snjóþungra vetra. 

Flestar stöðvar athuga einnig snjóhulu í fjöllum. Miðað er við 500 til 700 metra hæð, dálítið misjafnt eftir staðháttum og útsýni. Ekki var farið að athuga fjallasnjóhuluna reglulega fyrr en árið 1935. Fyrsta árið í þeirri röð er því 1935-36.

w-blogg180125b

Nokkur líkindi eru með þessum tveimur línuritum. Meðaltalið er um 54 prósent (6,3 mánuðir). Snjór var mjög lítill í fjöllum í kringum 1960, en hafði náð hámarki veturinn 1948-49. Munar þar mestu að vorið þá var sérlega snjóþungt og leifar af snjó héldust um landið norðanvert langt fram eftir júnímánuði. Snjóléttast í gagnaröðinni var veturinn 1941-42. Þá var mjög hlýtt í veðri. Lítill snjór var í fjöllum 2002-03 og lengst af hefur snjór í fjöllum verið undir meðallagi á þessari öld, lítillega yfir því þó 2023-24 og einnig báða veturna 2013-14 og 2014-2015. Tveir síðastnefndu veturnir teljast snjóþungir á fjöllum. Snjóþyngsti vetur köldu áranna var 1982-83, en litlu munar þó á honum og þremur öðrum vetrum (ómarktækur munur). 

Við sjáum að samband er á milli snjóhulu í byggð og í fjöllum. Lítum aðeins nánar á það.

w-blogg180125c

Hér er snjóhula í byggð á lárétta ásnum, en í fjöllum á þeim lóðrétta. Fylgjast þessar mælitölur vel að. Tölurnar eiga við síðara ártal snjóársins. Tvö ár skera sig dálítið úr, veturna 1941-42 og 1945-46 var snjóhula í fjöllum enn minni heldur en snjóhula í byggð ein og sér gefur til kynna. Einnig sjáum við að árið 2013-14 er á jaðrinum hinu megin, þá var snjóhula á fjöllum í mesta lagi miðað við snjóhulu í byggð (en sker sig samt kannski ekki sérstaklega úr). Jafnan sem sjá má (og ritstjórinn gleymdi að þurrka út) er aðfallslínan. Af henni má sjá að verði snjólaust í byggð má enn búast við meir en þriggja mánaða snjóhulu í fjöllum og öfugt, verði alhvítt allt árið á fjöllum er snjóhula í byggð tæpir tíu mánuðir. En við skulum hafa í huga að hefðu slík aftök átt sér stað er viðbúið að þau hefðu ekki endilega gerst á aðfallslínunni. 

Eðlilegt er, í framhaldi af þessu, að spyrja hvort ekki sé samband á milli hita og snjóhulu. Svo reynist vera.

w-blogg180125d

Við sjáum hér samband meðalsnjóhulu í byggð og hita í Stykkishólmi. Ártöl á þessari öld hafa verið lituð rauð. Við tökum strax eftir því að ekkert rautt ártal er í vinstri hluta myndarinnar - þrátt fyrir almannaróm um kulda. Reikna má halla aðfallslínunnar og segir hún okkur að fyrir hvert stig í auknum hita styttist alhvíti tíminn um 22 dag - sama ef kólnar um eitt stig, þá lengist alhvíti tíminn sem því nemur. Tökum við þetta bókstaflega (sem er e.t.v. varasamt) færi alhvíti tíminn upp í rúma 6 mánuði ef ársmeðalhitinn færi niður í núll (sem er alveg innan mögulegrar dreifingar hita - alla vega í eldra veðurfari). Á hinn bóginn - til að fá alveg alautt þarf meðalhitinn að fara upp í 8,7 stig. Gríðarlega mikið þarf að hlýna til að snjólaust verði á láglendi Íslands (athugið að hér verðum við þá líka að gera ráð fyrir óbreyttri árstíðasveiflu - breytist hún breytast forsendur allar). 

w-blogg180125e

Það sama má gera fyrir snjóhulu í fjöllum. Alhvíti tíminn styttist um 19 daga fyrir hvert stig í hlýnun, og lengist, kólni að sama skapi. Fari ársmeðalhitinn niður í núll verður snjóhula á fjöllum í kringum 9 mánuðir, en ársmeðalhiti þarf að fara í 14 stig til að losna alveg við vetrarsnjó af hálendinu - ekki beinlínis líklegt. 

Við vitum ekkert um það hversu mikið hlýna mun hér á landi á næstu áratugum (þótt líkindi séu á þeirri hliðinni frekar en hinni). Tveggja stiga hlýnun (sem er reyndar dálítið í lagt) myndi geta stytt alhvíta tímann um tæpan einn og hálfan mánuð, úr þremur og hálfum niður í rúma tvo. Slíkt væri umtalsverð breyting, og á fjöllum myndi alhvíti tíminn fara úr 6,3 mánuðum niður í rúma fimm. Við látum vera að fylgja slíkum vangaveltum frekar. Leitni í snjóhulu í byggð og í fjöllum hefur ekki verið teljandi síðustu 100 árin - þrátt fyrir hlýnun. Breytileiki milli ára og áratuga er svo mikill að lengri tíma athugana þarf til slíkra reikninga. Vonum bara að athuganir á snjóhulu haldi áfram. 

Fyrir rúmum 20 árum tók ritstjóri hungurdiska saman ritgerð um snjó og snjóhulu. Auðvitað hefur margt gerst síðan, en almennar upplýsingar í ritgerðinni standa þó enn fyrir sínu. 


Busl og skvamp

Hinir stóru kuldapollar norðurhvels hafa ekki mjög angrað okkur það sem af er vetri. Nokkur gangur var þó á dögunum í Síberíu-Blesa sem sendi sérlega kalt loft suður um Mansúríu, Kóreu og olli því gríðarlegri snjókomu norðanvert í Janpan. Nú er allt í einu hreyfing á Stóra-Bola (sem við höfum kallað svo). Hann hefur verið til þess að gera rólegur í Norður-Íshafi, en heldur nú suður í átt að Hudsonflóa austanverðum og sendir þar með gríðarkalda slummu langt suður í Bandaríkin og er spáð sérlega köldu veðri í námunda við vötnin miklu. Þegar suður til Bandaríkjanna er komið lendir öllu saman við heimskautaröstina sem skerpist og hrekkur til og liggur við að sjá megi bæði busl og skvamp næstu daga austur um allt Atlantshaf af þessum sökum.

w-blogg170125ha

Kortið er hefðbundið, heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins og má af þeim ráða vindstefnu og styrk í miðju veðrahvolfi. Miðja Stóra-Bola er þarna yfir norðanverðum Labradorskaga og fyrir vestan hana er kalda loftið á leið suður og síðar austur. Þessi framsókn sveigir síðan allar jafnhæðarlínur langt austur á bóginn næstu daga - eins og þegar belti eða svipu er sveiflað - og eitthvað af kalda loftinu ryðst austur á Atlantshaf nokkuð sunnan Grænlands. Þykktina má sjá í lit, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mjög hlýtt hefur verið undanfarna daga á norðanverðum Bretlandseyjum og í sunnanverðri Skandinavíu, enda er þykktin þar í íslenskum sumarhæðum og rúmlega það. Mjög leiðinlegur kuldapollur er hins vegar yfir Miðjarðarhafi vestanverðu og hlýtur að valda miklu úrhelli þar um slóðir. Hér við Íslend er lægðarbylgja rétt sunnan við land - en atburðir í vestri sparka henni austur á bóginn þannig að hún verður alveg úr sögunni á þriðjudag. 

Ekkert samkomulag er síðan um framhaldið í næstu viku. Spár reiknimiðstöðvarinnar eru alveg sitt á hvað frá einni spárunu til annarrar. Ýmist er þar ekki mjög mikið um að vera - rétt eins og skvampbylgjurnar leggist öfugar ofan á hver aðra og eyðist - eða þá að þær magna hver aðra upp (já, þær eru margar). Mjög erfitt virðist vera að reikna út stærð hverrar bylgju og þar með hraða. Spáin sem gerð var á hádegi gerir ráð fyrir 940 hPa lægð vestan við Skotland eftir viku, en spáin frá miðnætti sýnir ekkert slíkt. Amerísku spárnar eru ámóta fjörugar - ýmist svosem ekki neitt - eða allt í botni. En í veðrinu gerast svona hlutir ekki á jarðfræðilegum tímakvarða þannig að staðan skýrist ekki seinna en á gildistíma spánna - og trúlega áður. 

Best fyrir okkur væri auðvitað að buslið skilaði okkur hóflega hlýju lofti með hægum vindum og góðviðri í eina til tvær vikur - en ætli sé ekki þar með verið að fara fram á allt of mikið. 


Af úrkomubreytileika síðustu 24 árin

Áframhald á línuritafylleríinu, þó þannig að við lítum nú aðeins til úrkomumælinga á þessari öld. Meginástæða þess að við bíðum með að horfa til lengri tíma er sú að mönnuðum úrkomumælingum hefur mjög fækkað og allar heildartölur því orðið óáreiðanlegri. Vonandi kemur að því að hægt verður að sameina gögn frá fjölmörgum sjálfvirkum stöðvum þessum mönnuðu mælingum þannig að betri samanburður fortíðar og nútíðar náist. 

Hér er því áhersla frekar lögð á breytieika frá ári til árs nú upp á síðkastið - og þá í formi einfaldra línurita. Fyrsta ritið er e.t.v. vafasamast.

w-blogg160125a

Það sýnir „meðalúrkomu“ á landinu frá árinu 2001 til 2024. Við höfum hugtakið í gæsalöppum því hér er örugglega ekki um meðalúrkomu landsins að ræða í hinum venjulega skilningi. Súlurnar sýna 12-mánaðakeðjur þannig að breytileiki milli ára komi sem best fram. Það gæti sýnst sem úrkoman fari minnkandi - en við tökum ekkert mark á slíku. Í fyrsta lagi er tímabilið mjög stutt og í öðru lagi gæti verið að stöðvum þar sem úrkoma er að jafnaði mikil hafi fækkað meira en stöðvum þar sem hún er lítil. 

Við sjáum þó að um greinilega toppa og dali er að ræða. Topparnir eru þar sem úrkoma hefur verið mikil, en dalirnir þar sem þurrt hefur verið í veðri. Mest áberandi er þurrkurinn mikli á árinu 2010, og svo hefur aftur verið mjög þurrt nú í ein tvö ár - sé eitthvað að marka gögnin. Þetta er reyndar í takt við tilfinningu ritstjórans og líklega líka lóna Landsvirkjunar. 

w-blogg160125b

Næsta mynd sýnir nærri því það sama, en hér er þó hugsanlegur ójöfnuður vegna fækkunar stöðva þurrkaður út (að mestu). Reiknað er hlutfall úrkomu hvers mánaðar á veðurstöð af ársúrkomu á tímabilinu 1971 til 2000. Þetta tímabil var valið vegna þess að þá voru stöðvar sem flestar og auðveldast að skálda í stakar eyður í gögnum. Leitnin sem var áberandi á fyrri mynd er nú vægari. Talan 100 segir að úrkoma sé í meðallagi. Það hefur sýnt sig á einstökum veðurstöðvum að þurrkur er orðinn alvarlegur á einhvern hátt þegar ársúrkoman er ekki nema 75 prósent af meðalúrkomu. Þetta á enn frekar við landið í heild og lægstu 12-mánaða tölurnar fara niður undir 80 prósent, janúar til desember 2010 niður í 80 prósent, og tímabilið júlí 2023 til júní 2024 niður í 83 prósent. Þetta styður hugmyndir um þurrk, jafnvel þótt gögnin mættu vera betri. 

w-blogg160125c

Síðasta myndin er aðeins öðru vísi. Við teljum þá daga sem úrkoma er 0,5 mm eða meiri á öllum úrkomumælistöðvum og reiknum hlutfall þeirrar tölu af heildarfjölda stöðva. Þessi kvarði versnar auðvitað líka fækki stöðvum mjög, en þó eru þær enn það margar á landinu í heild að truflun ætti ekki að vera veruleg (en auðvitað hugsanleg). Við sjáum að venjulega mælist úrkoma 0,5 mm eða meiri á nærri helmingi veðurstöðva sama daginn (úrkomur eru þrálátar á Íslandi). Við sjáum líka að þótt hlutfallsleg hæð toppanna á þessari mynd sé ekki alveg sú sama og á fyrri myndum eru þeir samt hinir sömu. Það sama má segja um dalina. Þurrkarnir á síðastliðnu ári, árið 2010 og árið 2010 skera sig úr sem fyrr. 

Vonandi getum við síðar litið á lengra tímabil - og hugsanlega einstaka landshluta, en við hinkrum að minnsta kosti þar til yfirlit Veðurstofunnar verður birt, þá verður ritstjórinn aðeins rólegri gagnvart gögnunum og getur hreinsað upp eigin subbuskap. 

En þetta setur stöðuna nú samt í eitthvað samhengi (þótt óöruggt sé). 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • w-blogg030225b
  • w-blogg030225c
  • w-blogg030225a
  • w-blogg010225b
  • w-blogg010225a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.2.): 495
  • Sl. sólarhring: 534
  • Sl. viku: 3339
  • Frá upphafi: 2440387

Annað

  • Innlit í dag: 436
  • Innlit sl. viku: 3026
  • Gestir í dag: 405
  • IP-tölur í dag: 391

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband