Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2025

Smávegis af desember

Nýliðinn desember var nokkuð umhleypingasamur en lengst af fór þó ekki mjög illa með veður. Það var helst kringum jólin að veðrið ylli einhverjum vandræðum. Um hita á einstökum stöðvum og margskonar meiri fróðleik má lesa í yfirliti Veðurstofunnar (á vef hennar).

Við lítum (eins og oft áður) á stærri drætti.

w-blogg040125a 

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Eins og lengst af á árinu voru hlýindi voru að meðaltali ríkjandi á mestöllu því svæði sem kortið nær yfir. Þó er áberandi kaldur blettur norðvestan við Ísland og teygði hann sig hingað. Vindátt var mjög eindregið úr vestsuðvestri, talsvert yfir meðallagi raunar. Sunnanþátturinn var líka dálítið yfir meðallagi mánuðinn í heild.

Loftþrýstingur var nærri meðallagi og sömuleiðis hæð 500 hPa-flatarins.

w-blogg040125b 

Taflan hér að ofan sýnir að desember var í kaldasta þriðjungi nóvembermánaða á öldinni um land allt. Ekki er mikill munur á spásvæðunum, hiti á Miðhálendinu raðast þó hæst hita spásvæðanna. Trúlega stafar það af því að vindhraði var ofan meðallags. En athugum þó að hér er reiknað fyrir heil spásvæði - einstakar veðurstöðvar kunna að raðast á annan hátt (sjá yfirlit Veðurstofunnar).

Þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.


Ævihiti (nýtt hugtak)

Eftir nýliðið ár, sem varð til þess að gera kalt miðað við það sem verið hefur að undanförnu hefur ritstjóranum verið hugsað til þess hitaviðmiðs sem býr með honum sjálfum. Í reynd er að sjálfsögðu ekki svo auðvelt að reikna það, háð ýmsum huglægum þáttum - auk þess breytileika sem hitamælingar sýna að hann hefur upplifað. 

En honum datt þó í hug að reikna meðalhita ævinnar - ævihita - og miða við byggðameðaltal landsins. Hann man að sjálfsögðu ekki fyrstu árin - hið mikla rigningasumar 1955 fór t.d. alveg framhjá honum - var í öðru eins og sagt er. Svo tók líka mörg ár að norma ástandið, að það væri munur á sumri og vetri og síðan að munur væri á þessum árstíðum frá ári til árs. Í framhaldi af því varð svo til einskonar huglægt væntisumar (varð til á undan væntivetri). Væntisumarið fór að verða til um 1960, og væntiveturinn síðan ekki löngu síðar - frá og með vetri 1961-1962. Fyrstu árin voru þó býsna stór vik frá þessum væntingum - vetur reyndust mun fjölbreyttari heldur en hugur og tilfinning hafði gert ráð fyrir - rétt eins og áður hafði komið fram með sumrin. 

Þrátt fyrir þetta ákvað ritstjórinn samt að miða við fæðingarárið - til einföldunar fyrst og fremst. Kom þá í ljós að ævihiti hans reiknast 3,7 stig (eða 3,72 stig sé reiknað með tveimur aukastöfum). Næst var síðan að reikna hvernig þessi ævihiti hefði breyst í áranna rás og kom þá út niðurstaða sem sjá má á myndinni hér að neðan.

w-blogg020125a

Blái ferillinn sýnir einfaldlega meðalhita í byggðum landsins frá ári til árs - við höfum séð hann hér áður. Rauði ferillinn er hins vegar ævihitinn. Byrjaði á frekar köldum árum 1951 og 1952 og var þá lægstur á allri ævinni (og verður víst ekki lægri). Síðan hlýnaði og fór hann í 3,87 stig árið 1961 - en svo vill til að þá var 30 ára meðalhiti meginhlýskeiðs 20. aldarinnar einmitt líka í hámarki. Eftir það lækkaði hitinn hægt og bítandi og náði ævihitinn staðbundnu lágmarki árið 1986 3,38 stig. Þá var ritstjórinn 35 ára. Eftir það hækkaði hitinn og náði hámarki við áramót í fyrra, 3,73 stigum, lækkaði nú um 0,01 stig. Svo stutt er eftir af ævinni að mjög mikið þyrfti að ganga á til að verulegar breytingar verði á ævihita ritstjórans úr þessu. Eins og áður sagði reiknast meðalhiti ársins 2024 3,36 stig sem er auðvitað sama tala og 3,38 stiga meðalhiti fyrstu 35 ára ritstjórans. 

Til gamans var einnig reiknaður ævihiti þeirra sem eru áratugum eldri eða yngri heldur en ritstjórinn og má sjá þær tölur í ramma. Mjög litlu munar á þeim sem fæddir eru fyrir 1970, en ævihiti þeirra sem fæddir eru eftir 1990 er áberandi hærri, hæstur hjá þeim sem fæddust 2001, 4,33 stig. Þeir sem fæddir eru eftir það mega búast við mun meira flökti á sínum tölum heldur við sem eldri erum - mun færri ár eru komin í pottinn. 


Varúð

Í dag (nýársdag 2025) er kalt á landinu. Kuldinn er þó til þess að gera grunnur sem kallað er. Víðast hvar er stutt í öflug hitahvörf fyrir ofan. Þegar þetta er ritað segja líkön þannig að hiti í 100 metra hæð sé mjög víða 10 til 15 stigum hærri heldur en á athugunarstað. Í nótt á aðeins að hreyfa vind og blandast þá kaldasta loftið saman við það hlýrra og hiti stekkur upp um nokkur stig. Úti yfir sjó er þessu ekki þannig farið, þar er yfirborð sjávar hlýrra heldur en loftið í 100 metra hæð og loftið niður undir sjávarmáli er ekki svo kalt. Engin hitahvörf eru til staðar. 

En eins og áður sagði á hlýrra loft nú að koma af hafi. Sé vindur lítill situr kalda loftið þó eftir á víð og dreif. Við þetta getur skapast töluverð hætta geri súld eða fari að rigna. Þá verður til frostregn - eða frostúði. Úðinn frýs á köldu yfirborði og myndar íslag og hálka getur orðið veruleg - en lítt sýnileg. 

w-blogg010125i

Hér er spákort Veðurstofunnar fyrir hádegi á morgun (fimmtudag 2.janúar). Þá er orðið ámóta hlýtt í stöðvarhæð og 100 metrum víðast hvar suðvestanlands. Munum þó að það tryggir alls ekki að hugsanleg úrkoma frjósi ekki við snertingu frosinnar jarðar eða annars. Í Borgarfirði og fyrir austan fjall situr enn mjög kalt loft (sé líkanið rétt), munar enn 10 til 12 stigum á hita í 100 metrum og í stöðvarhæð. Þar spáir líkanið beinlínis frostregni.

Þessu mögulega varúðarástandi linnir ekki fyrr en aftur snýst til norðaustanáttar og það léttir til. Förum varlega.


Áramót - enn á ný

Við höfum mörg undanfarin ár alltaf byrjað nýtt ár hér á hungurdiskum með því að líta á ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 og áfram. Röðin er nú orðin 227 ára löng. Nokkur óvissa er að sjálfsögðu í tölunum fyrstu hálfa öldina - sérstaklega þó fyrir 1830. En við látum okkur hafa það. Línuritið er að sjálfsögðu mjög líkt línuritum undanfarinna ára, en bregður þó út af að því leyti að nýliðið ár er það kaldasta það sem af er þessari öld í Hólminum. Við förum aftur til áranna 1998 og 1999 til að finna svipað eða sama, og aftur til 1995 til að finna kaldara ár.

w-blogg010125 

Lárétti ásinn sýnir ártöl, en sá lóðrétti hita. Meðalhiti ársins 2024 er lengst til hægri. Reiknaðist 3,7 stig. Það er -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára (2014-2023) og -0,8 stig neðan við meðallag tímabilsins 1991 til 2020, +0,2 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og -0,5 stigum neðan meðallags 1931-1960, nákvæmlega í meðallagi 20. aldar og +0,8 stig ofan meðallags 19. aldar.

Rauða línan sýnir 10-ára keðjumeðaltal. Það stendur nú í 4,56 stigum, -0,16 stigum lægra en við síðustu áramót og -0,29 stigum lægra en það var fyrir 5 árum, en +0,14 stigum hærra en það var hæst á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld.

Græna línan sýnir 30-ára keðjumeðaltal. Það stendur nú í 4,51 stigi og hefur aldrei verið hærra, +0.32 stigum hærra heldur en það varð hæst á hlýskeiðinu mikla á 20.öld - en nú eru rúm 60 ár síðan það reis (tölulega) hæst. Ekki er ólíklegt að 30-ára meðaltalið hækki enn frekar - eða láti mjög lítið undan síga á allranæstu árum - vegna þess að árið 1995 var mjög kalt - og fyrstu árin þar á eftir ekki hlý. Til að 30-ára meðaltalið hækki marktækt fram yfir 2030 og þar á eftir þarf hins vegar að bæta í hlýnunina - annað hlýnunarþrep þarf að bætast við til að svo megi verða. Bið gæti orðið á því vegna þess að hlýnunin sem orðið hefur hér á landi er talsvert meiri en heimshlýnun - og engin sérstök ástæða til að vænta þess að Ísland sé í einhverri sérstöðu hvað hina almennu hlýnun snertir.

um framhald vitum við því auðvitað ekki, jafnvel þótt hlýnun haldi áfram á heimsvísu. Meðalhlýnunarleitni fyrir allt þetta tímabil er um +0,8°C á öld, frá upphafi þess tíma sem línuritið nær yfir reiknast hlýnunin 1,8 stig - en í smáatriðum hefur hún gengið afskaplega rykkjótt fyrir sig. Sé hlýnun reiknuð á milli toppa hlýskeiðanna tveggja (og séum við nú í toppi) fáum við út töluna +0,5°C á öld. Reiknum við hins vegar hlýnun síðustu 40 árin er hún miklu meiri. Um leitnisveiflur var fjallað nokkuð ítarlega í tveimur pistlum á hungurdiskum fyrir um 8 árum. [Hve mikið hefur hlýnað] og [Hve mikið hefur hlýnað - framhald] - þrátt fyrir árin 8 stendur sá texti í öllum aðalatriðum (en ritstjórinn ætti þó e.t.v. að endurnýja hann).

En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öðrum árs og friðar á nýju ári. Hann heldur vonandi eitthvað áfram að fjalla um veður og veðurfar, þó aldur og mæði færist óhjákvæmilega yfir (vonandi engar innsláttarvillur hér í tölum að ofan - en sjónin mætti vera betri - en verða leiðréttar hafi þær slæðst inn).


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 201
  • Sl. sólarhring: 259
  • Sl. viku: 2918
  • Frá upphafi: 2427248

Annað

  • Innlit í dag: 189
  • Innlit sl. viku: 2626
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband