Bloggfærslur mánaðarins, desember 2024

Af reykjavíkurhitanum

Við höfum endrum og sinnum hér á hungurdiskum litið á stöðu 12-mánaðakeðjuhitameðaltala. Í apríl í fyrra, 2023 var síðast drepið niður fæti í Reykjavík og er það sem hér fer á eftir bein framlenging á því. Ástæðan e.t.v. sú að nú er útlit fyrir að við fáum kaldasta ár í Reykjavík í tæp 30 ár. Það er töluverður tími, það var t.d. ekki fyrr en komið var fram á síðasta hluta níunda áratugarins að ritstjóri hungurdiska gat farið að tala um að hann myndi meir en 30 ára veðurlag. Það sama mun eiga við um þá sem nú eru á fertugsaldri, að þeir muna ekki vel veður langt aftur fyrir aldamót. Hitafar í ár hlýtur því að marka nokkur tíðindi í tilfinningu þeirra veðurgleggri í þeirra hópi, þótt við gamalmennin látum okkur fátt um finnast (eins og venjulega).

w-blogg101224a

Fyrri myndin sýnir 12-mánaðakeðjur hita frá aldamótum. Í kringum þau hlýnaði verulega frá því sem verið hafði áratugina á undan og hafa nær öll ár síðan verið hlý. Hlýnunin kom eiginlega öll í einu þrepi á árunum 2002 til 2004. Síðan hefur ekkert hlýnað, en verulega köld ár hafa þó ekki látið sjá sig fyrr en e.t.v. nú, en það er þó ekki kaldara en svo að það er í meðallagi áranna 1966 til 1995. Bláu súlurnar á myndinni sýna 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á þessum tíma. Fyrsta gildið er sett við janúar 2001, það er hiti tímabilsins febrúar 2000 til janúar 2001. Síðan er haldið áfram. Síðasta gildið nær til desember 2023 til nóvember 2024.

Rauði ferillinn er settur inn til gamans (gerir myndina ólæsilegri að vísu). Þetta er samskonar ferill fyrir 24 ár (tæp) á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld. Hann byrjar á meðaltali mánaðanna febrúar 1925 til janúar 1926, en endar á desember 1948 til nóvember 1949. Síðara hlýja tímabilið er heldur hlýrra en það fyrra - rauði ferillinn er oftast neðan við þann gráa.

Á fyrra tímabilinu er hlýjast um 1929, 1939, 1941 og 1946, en á því síðara 2003, 2004, 2010, 2014, 2016 og 2019. Á síðara tímabilinu er einna kaldast 2015 og 2018, og svo nú. Á fyrra tímabilinu er kalt 1930, í kringum 1936, 1943 og síðan langkaldast 1949. Segja má að sá kuldi hafi staðið þar til í lok árs 1952 og jafnvel lengur. Eftir það komu nokkur mjög hlý ár (aðallega hlýir vetur) þar til að kólnaði snögglega 1965 eins og alkunna er. Stærð sveiflna á milli ára er ekkert ósvipuð á tímabilunum tveimur - ræðast aðallega af tíðni vindátta og uppruna þess lofts sem um landið leikur á hverjum tíma.

w-blogg101224b 

Síðari myndin sýnir 30 ára keðjumeðaltal hitans eins og það blasir við í baksýnisspeglinum á hverjum tíma. Síðasta gildið á bláa ferlinum tekur til tímabilsins desember 1994 til nóvember 2024, en það fyrsta á við febrúar 1971 til janúar 2001. Á rauða ferlinum á fyrsta gildið við febrúar 1896 til janúar 1926, en það síðasta frá desember 1919 til nóvember 1949. Á báðum tímabilunum er 30-ára hitinn smám saman að hrista af sér kulda fortíðarinnar og hækkar eftir því sem á líður, heldur örar á því síðara heldur en því fyrra. Hlýnunin er í báðum tilvikum mjög mikil. Halli rauða ferilsins samsvarar 2,8°C/öld, en þess bláa 3,5°C/öld. Ef við rýnum í ferlana sjáum við að meiri sveigjur eru á bláa ferlinum, hlýnunin var sérlega snörp í kringum hann miðjan, þegar árin ofurköldu í kringum 1980 voru að hverfa út úr honum og ofurhlý ár að taka við. Á síðustu árum hefur heldur minni munur verið á þeim árum sem detta út og þeirra sem hafa komið inn. Þannig hagar til að næstu 4 til 6 ár gæti blái ferillinn haldist í svipaðri stöðu (jafnvel þótt fleiri ámóta „köld“ ár og það núlíðandi komi inn). Aftur á móti mun hann eiga erfitt með hækkun eftir það, því þá þurfa methlý ár að koma inn í stað hinna gríðarhlýju ára eftir 2002. Yngri og miðaldra veðurnörd geta fylgst spennt með því, við, þau elstu förum að týna tölunni úr þessu.

Við vitum auðvitað um framhald rauða ferilsins, hæsta gildi hans kom um 12 árum eftir þann enda sem við sjáum hér, hann toppaði í júnílok 1961 (frá júlí 1931, rauð strikalína) - eftir það fór hann niður á við og náði lágmarki í októberlok 1995 (grá strikalína), en hefur hækkað síðan. Fór síðan framúr fyrra hæsta hámarki í ágúst 2016 (blái ferillinn), og hefur verið ofan við það síðan.

Bláa strikalínan neðarlega á myndinni sýnir stöðu 30-árakeðjunnar í lok árs 1895, meðaltal áranna 1866 til 1895. Hún er um 0,6 stigum neðan við þá gráu (kaldasta 30-ára meðaltal síðara kuldaskeiðs). Má segja að það muni hnattrænni hlýnun - gróflega.

Ritstjóri hungurdiska mun vonandi halda áfram að gefa þróuninni gaum (á ýmsa vegu).

 


Hlýtt kvöld og nótt

Mjög hlýtt varð um stund sums staðar um landið norðan- og austanvert í gær og nótt (eins og gert hafði verið ráð fyrir). Sýnist í fljótu bragði að hiti hafi hæst komist í 17,6 stig á Sauðanesvita og Siglufirði milli kl.20 og 21 í gær. Trúlega eru nú mestu hlýindin gengin hjá. Þegar talin eru tilvik sem þessi er í fyrstu umferð gjarnan leitað að hæsta hita hvers desembermánaðar aftur í tímann. Við eigum nú á lager fjóra desembermánuði með hámarki hærra en 17,6 stig. Þar fer auðvitað fremst í flokki desemberíslandsmetið sjálft, 19,7 stig, sett á Kvískerjum 2. desember 2019, síðan koma 18,4 stig frá Sauðanesvita 14. desember 2001 - merkilegt fyrir það að það var jafnframt hæsti hiti ársins á þeim stað. Þann 15.desember 1997 fór hiti í 18,2 stig á Skjaldþingsstöðum og í 18,0 stig á Seyðisfirði þann 14. árið 1988. - Síðan kemur desember nú (sem er auðvitað ekki liðinn). Átján stigin á Seyðisfirði 1988 slógu eldra met, 16,6 stig, sem þá höfðu mælst í þremur fyrri desembermánuðum, fyrst 1933. Við bíðum enn eftir 20 stigum í desember, en þau liggja einhvers staðar í leyni í framtíðinni.

Við lögreglustöðina á Akureyri fór hiti nú í 14,6 stig, við vitum af þremur hærri tölum frá Akureyri í fortíðinni, 14,8 stig við lögreglustöðina við Þórunnarstræti þ.15. 1997 og 15,1 stig þegar stöðin var við Smáragötuna þann 21. árið 1964. Hæsta talan er 15,5 stig sem mældust 2. desember 2019 (þegar metið var sett í Kvískerjum). Nú fór hiti hins vegar í 16,1 stig við Krossanesbrautina, og er það næsthæsti hiti sem mælst hefur í desember á Akureyri. Hiti mældist 16,5 stig við Krossanesbrautina áðurnefndan 2. desember 2019. 

Í beinu framhaldi af þessu má spyrja hver sé lægsti hámarkshiti einstaks desembermánaðar. Lægstu tölurnar eru reyndar frá því tímaskeiði þegar stöðvar voru mjög fáar, og að auki ekki staðsettar á stöðum þar sem hárra talna er að vænta. En í okkar minni eru 7,9 stig sem mældust á Dalatanga 11.desember 1985 trúlega lægsta hámark af þessu tagi í minni núlifandi manna - og er í 10. sæti á listanum.

Á seinni árum hefur það aðeins gerst einu sinni að lágmarkshiti í byggðum landsins hefur ekki farið niður í -15 stig í desember, að minnsta kosti einu sinni. Það var í hinum sérlega hlýja mánuði árið 2002 að lægsta byggðarlágmarkið varð -12,5 stig (mældist á Torfum í Eyjafirði). Hálendið gerði betur, -17,5 stig mældust þá í Þúfuveri. Í desember 1933 mældist mesta frost desembermánaðar -11,3 stig, það var á Eiðum í Eiðaþinghá.


Skammvinn hlýindi

Þetta er skrifað að kvöldi laugardagsins 7.desember 2024. Á morgun er spáð skammvinnum hlýindum á landinu með allmikilli úrkomu og vindi úr suðri. Síðan snýst til suðvestlægrar og vestlægrar áttar og kólnar eitthvað aftur. 

w-blogg071224a

Kortið sýnir stöðuna annað kvöld (sunnudagskvöld). Þá eru hlýindin í hámarki. Við sjáum hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (sýnd í lit). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og á að fara í um 5520 metra þegar mest verður (sumarhlýindagildi). Svona hlýtt loft heimsækir okkur endrum og sinnum í desember. Skyndifletting stingur upp á að það gerist á 7-8 ára fresti að jafnaði (en ójafnt samt). 

Ekki eru nema fimm ár síðan ámóta - eða lítið eitt hlýrra - loft fór hjá í desember. Þá urðu þau tíðindi að landsmánaðarhitamet var sett í Kvískerjum í Öræfum og hiti á fleiri stöðvum varð hærri heldur en áður hafði mælst í mánuðinum. Um það má lesa í gömlum pistli hungurdiska.

w-blogg071224b

Ekkert kort fylgdi pistlinum 2019 þannig að við lítum á það hér. Þetta er auðvitað svipað að útliti, heldur efnismeira þó 2019 heldur en nú. Að þessu sinni stendur hlýja loftið líka styttra við og þarf að takast á við bæði klaka og snjó (sem er orkufrekt) þannig að varla er von á stórtíðindametum, en dægurmetahrina er næsta vís á fjölda stöðva (ekki víst að landsdægurmet verði slegin). 

Sumir muna e.t.v. að í desember 2019 þurfti ekki að bíða nema viku frá hlýindunum eftir einu versta veðri síðari ára hér á landi. Þeir sem urðu fyrir því gleyma ekki, en líklega eru samt flestir aðrir farnir að ryðga - og þurfa að leggjast í minnisuppgröft. 

Þótt skyndihlýindi á þessum tíma árs séu raunar sjaldnast mikið fagnaðarefni hagar þó þannig til nú víða um sunnan- og vestanvert landið að illur en þunnur klaki liggur á gangstéttum og plönum, gott væri að losna við hann. Hvað þessum skammvinnu hlýindum verður ágengt í því verður bara að koma í ljós. Svo óheppilega hagar til að frost hefur hlaupið nokkuð í jörð og verður viðvarandi hætta á frostrigningu (eða einu af afbrigðum hennar) hér eftir - eða allt þar til sankti-Pétur „setur vermisteininn í jörðina“ á messu sinni 22.febrúar. Af einhverjum illskiljanlegum ástæðum er þessarar dagsetningar ekki lengur getið í Almanaki Háskólans - og er það gagnrýnivert (alveg satt). Annars þarf langvinna hláku (margra daga hlýindi) til að bjarga málum. Skyndihlýindum á frosna jörð fylgja oft furðumiklir vatnavextir því svampeiginleikar jarðvegarins njóta sín ekki - allt rennur á yfirborði (sem er eins og stálskúffa - minnir mig að Sigurjón Rist hafi einhverju sinni sagt undir svipuðum kringumstæðum). Vonandi verður úrkoma þó í einhverju hófi - en rétt að gefa henni gaum.  


Smávegis af nóvember 2024

Eins og margir muna var veðurfar í nýliðnum nóvember alveg tvískipt. Fyrri hluti mánaðarins [3. til 14.] var sérlega hlýr, en síðan kólnaði að mun og fáeinir dagar urðu meira að segja óvenjukaldir. Svipað á við um dreifingu úrkomu um landið. Þetta þýðir að mánuðurinn varð ekki fjarri meðallagi í heild. Um hita á einstökum stöðvum og margskonar meiri fróðleik má lesa í yfirliti Veðurstofunnar (á vef hennar).

Við lítum (eins og oft áður) á stærri drætti. 

w-blogg031224a

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Hlýindi voru að meðaltali ríkjandi á nær öllu því svæði sem kortið nær yfir. Aðeins smáblettur yfir Grænlandi þar sem þykktin (hiti) var lítillega undir meðallagi. Neikvæða vikið er heldur meira áberandi á hitavikakorti 850 hPa-flatarins, rétt eins og í október. Þrátt fyrir hið tvískipta eðli mánaðarins var vindátt mjög eindregið úr vestri, yfir meðallagi raunar. Sunnanþátturinn var nærri meðallagi mánuðinn í heild. 

Ef taka má mark af greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var sjór nokkuð kaldur á allstóru svæði fyrir norðan og austan land. Þetta má sjá á kortinu að neðan.

w-blogg031224b

Á ljósgulu og ljósbláu svæðunum er hiti nærri meðallagi (ómarktækt ofan eða neðan við).  Hitavikin sem sett eru á hin hefðbundnu hafíssvæði vestur undir Grænlandi eru óviss (það er erfitt að reikna áreiðanleg meðaltöl á slíkum svæðum). Ritstjórinn hallast að því að litli blái bletturinn undan Suðvesturlandi sé raunverulegur - af þá völdum uppdráttar sjávar í norðanáttinni síðari hluta mánaðarins. Ekki er gott að segja hvað veldur þessum neikvæðu hitavikum fyrir norðan og austan. Því miður sjást ekki neinar mælibaujur inni á þessu svæði - þær sem sjást eru austar. Ritstjórinn treystir sér því ekki til að vera með neinar ágiskanir um ástæður vikanna, en þær ástæður gætu verið af margvíslegum toga. Á heildina litið er hiti á kortsvæðinu vel yfir meðallagi árstímans. 

Loftþrýstingur var vel ofan við meðallag í mánuðinum sem var nokkuð illviðrasamur, ekki þó nærri metum hvað þetta tvennt varðar.  

w-blogg031224c

Taflan hér að ofan sýnir að hann var í kaldasta þriðjungi nóvembermánaða á öldinni vestan- og suðvestanlands, en annars í meðallagi. Á Austurlandi að Glettingi var hann mjög nærri því að komast í hlýjasta þriðjung - og þar með teljast hlýr. Athugum þó að hér er reiknað fyrir heil spásvæði - einstakar veðurstöðvar kunna að raðast á annan hátt (sjá yfirlit Veðurstofunnar). 

Þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.  


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 395
  • Sl. sólarhring: 713
  • Sl. viku: 4144
  • Frá upphafi: 2428975

Annað

  • Innlit í dag: 328
  • Innlit sl. viku: 3677
  • Gestir í dag: 311
  • IP-tölur í dag: 294

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband