Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023

Norðurhvelsstaðan á síðasta degi veðurstofuhaustsins

Á Veðurstofunni er haustið tveir mánuðir, október og nóvember. Síðan tekur vetur við, fjórir mánuðir. Mikil hlýindi hafa verið ríkjandi á heimsvísu í haust, sjálfsagt er það hið langhlýjasta frá upphafi mælinga. Hér á landi er það þó nær meðallaginu og í Skandinavíu hefur verið kalt, nánast eina kuldasvæði norðurhvels (miðað við meðallag).

w-blogg291123a

Kortið gildir kl.18 síðdegis á morgun, fimmtudaginn 30.nóvember. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og segja frá vindátt og vindhraða. Þykkt er sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sjáum að bláir litir þekja Evrópu norðanverða, þar er svalt. Þó er þetta ekki sérlega mikill kuldi, þykktin er ekki mjög lítil - það hefur heldur hlýnað síðustu dagana. Það er hins vegar ekki sérlega létt að stugga þessu svala lofti burt. Til þess þarf að riðla bylgjumynstri á stóru svæði. 

Af einhverjum ástæðum hafa háþrýstisvæði haldið sig nærri Íslandi nú í um það bil sex vikur, nánast látlaust. Þetta hafa ekki verið mjög öflugar hæðir, en samt nægilega öflugar til að standa fyrir og lægðir hafa því langflestar (allar nema ein) farið fyrir sunnan land - eða ekki komið nærri yfirleitt. 

Kuldapollarnir miklu hafa haldið sig langt frá okkur. Sá fyrir vestan, sem við höfum kallað Stóra bola hefur verið til þess að gera rólegur í haust, þar er t.d. engan fjólubláan lit að sjá ennþá - en hann hlýtur að sýna sig. Austurpollurinn, Síberíu-Blesi er mun öflugri, hann hefur valdið kulda suður í norðanvert Kína. Spár reiknimiðstöðvarinnar gera ráð fyrir því að hann bylti sér eitthvað á næstunni og ráðist e.t.v. á Alaska. Annars er harla litlar breytingar að sjá. Fyrir kemur að Síberíu-Blesi valdi veðrabrigðum hér á landi - en oftast er það þó óbeint, stuggar við Stóra-Bola, eða gerir eittvað af sér í námunda við norðurskautið. 

Þrátt fyrir tíðindalítið veður má samt alltaf finna tilbreytingu í smáatriðunum. Á þessu korti er t.d. lítill, en snarpur kuldapollur yfir Íslandi. Við lítum nánar á hann á kortinu hér að neðan.

w-blogg291123b

Kortið gildir á sama tíma og það fyrra og jafnhæðarlínurnar eru þær sömu (þó dregnar með minna hæðarbili. Hér sýna litirnir hita í 500 hPa fletinum, í um 5300 metra hæð í miðju lægðarinnar. Vindörvar sýna vindstyrk og stefnu. Sólarhring áður (kl.18 á miðvikudag var lægðarmiðjan rétt að verða til yfir austurfjöllum Grænlands, norður af Scoresbysundi. Tekur síðan strikið suður og á 24 tímum síðar (síðdegis á föstudag) að vera komin suður fyrir 60. breiddarstig, suður af Íslandi. Um leið og lægðin kemur yfir hlýjan sjóinn fyrir sunnan Ísland myndast í henni éljagarðar og hún kemur fram á gervinhattamyndum. Við verðum hins vegar furðulítið vör við lægðina. Slakki í þrýstisviðinu fer á undan henni, en um leið og hún fer yfir herðir um stund á norðaustanáttinni, élin þyngjast fyrir norðan, og syðra gætu fallið einhver korn - og kannski sjáum við eitthvað af vindsköfnum skýjum. 

En lægðir sem þessar geta valdið töluverðri snjókomu og vandræðum fari þar hægt yfir - eða snúi við fyrir sunnan land. Slíku er þó ekki spáð nú. 

Svo er spurningin hvor stóru kuldapollanna nær undirtökunum - eða láta þeir okkur kannski bara sitja í friði, eins konar froðu frá brotnandi bylgjum - en friður þýðir yfirleitt kólnandi veður á þessum tíma árs. 


Fyrstu 20 dagar nóvembermánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga nóvember er +3,6 stig, +1,0 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í tíundahlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2011, meðalhiti þá +6,7 stig, en kaldastir voru þeir 2017, meðalhiti +0,8 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 31. hlýjasta sæti, af 150. Hlýjast var 1945, meðalhiti þá +8,0 stig, en kaldast var 1880, meðalhiti þá -2,9 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -0,6 stig, -1,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -2,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hita er nokkuð misskipt á landinu það sem af er mánuði. Hlýjast hefur verið á Suðaustur- og Suðurlandi. Þar raðast hitinn í 8. og 9. hlýjasta sæti aldarinnar. Kaldast hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem hitinn raðast í 18. hlýjasta sætið.
 
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið að tiltölu hlýjast á Fagurhólsmýri, +1,3 stigum ofan meðallags, en langkaldast á Sauðárkróksflugvelli þar sem hiti hefur verið -2,6 stig neðan meðallags.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst aðeins 10,1 mm og er það um sjöundihluti meðalúrkomu. Þessi hluti nóvember hefur aðeins fimm sinnum verið þurrari í Reykjavík, síðast árið 2000. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 16,5 mm og er það rúmur þriðjungur meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoma mælst um 40 prósent umfram meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 56 í Reykjavík, 26 umfram meðallag og hafa aðeins fimm sinnum mælst fleiri sömu daga, síðast árið 2000. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 26,3, 13 fleiri en í meðalári.
 
Almennt má segja að vel hafi farið með veður. Austanátt hefur verið ríkjandi alla daga, þar til í dag (21.) að breyting varð. Austanáttin stóð því samfellt í 28 daga, heldur sjaldséð samfella, en samt ekki með því óvenjulegasta.

Hugsað til ársins 1965

Árið var talið sæmilega hagstætt á Suður- og Vesturlandi, en annars óhagstætt. Í heild var árið þurrt. Seint í febrúar kom óvenjumikið af hafís að ströndum landsins, árið varð hið fyrsta af „hafísárunum“ svonefndu. Hiti lækkaði að mun frá því sem verið hafði, einkum frá og með 1966. Þótt farið sé að fenna yfir sumt í minni ritstjóra hungurdiska eru samt enn fjölmargir atburðir sem standa ljóslifandi fyrir hugskotssjónum hans - ekki síst hinn óvenjulegi febrúarmánuður og síðan hafísfregnirnar. Svipað má segja um marga atburði aðra.

Janúar var talinn óhagstæður lengst af, einkum norðaustanlands, þar var snjóþungt. Gæftir stirðar. Febrúar var sérlega hlýr og hagstæður - að undanteknum tveimur stórviðrum. Það var snjólétt og þurrviðrasamt um mikinn hluta landsins. Mars var mjög þurrviðrasamur og færð var góð. Tíð var fremur góð í apríl, að slepptum kuldakafla um miðjan mánuð. Maí var þurr, hægviðrasamur, en kalt var víðast hvar, einkum á hafíssvæðunum við norður- og austurströndina. Júní var fremur kaldur og óhagstæður gróðri. Í júlí var góð heyskapartíð um landið sunnan- og vestanvert og um meginhluta Norðurlands, en óþurrkasamt var eystra. Ágúst var sömuleiðis hagstæður til heyskapar víðast hvar, en austanlands og í útsveitum nyrðra var þó stirð tíð. Kartöflugras féll víða vegna frosta. September var þurr og kyrrviðrasamur á Suður- og Vesturlandi, en óhagstæður og kaldur um landið norðan- og austanvert. Október var hlýr og sérlega votviðrasamur á Suður- og Vesturlandi, en tíð var hagstæð norðaustan- og austanlands. Tíð var mild og hagstæð framan af, en þurr og köld síðari hlutann. Í desember var tíð hagstæð um landið vestanert, en mikill snjór var á Norður- og Austurlandi. Sérlega kalt inn til landsins fyrir norðan.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Textar eru flestir úr Morgunblaðinu og Tímanum þetta ár. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar og umsagnir veðurathugunarmanna úr skýrslum þeirra sem varðveittar eru á Veðurstofunni. Talnasúpu má finna í viðhenginu. 

Fregnir í janúar voru aðallega af ófærð, en síðast í mánuðinum brá til hláku og betri tíðar. Óvenjumikið snjóaði í Vestmannaeyjum og Hornafirði snemma mánaðar. 

Tíminn segir frá 5.janúar:

KJ—MB, Reykjavík, 4. janúar. Veður hefur enn versnað og eru vegir víðast um land nú þungfærir eða ófærir og var versta veður víða í dag. Spáð er að í fyrramálið verði komið þíðviðri um sunnanvert landið. Hláka var í gærdag hér Suðvestanlands en annars staðar frost og víða snjókoma. Í gærkvöldi skall á snjókoma hér og snjóaði mikið í nótt og varð færð þung í Reykjavík í morgun.

Alþýðublaðið segir af snjó í Hornafirði 5.janúar:

Höfn 4. jan. KI. OÓ. Allt er á kafi í snjó hér um slóðir, sem er mjög sjaldgæft, venjulega er hér autt allan veturinn, nema einstaka sinnum föl sem venjulega tekur upp fljótlega, Svona fannfergi hefur ekki komið hér í yfir 20 ár. Samgöngur eru engar. Í gær átti að fljúga tvær ferðir en ekki var hægt að komast nema aðra og ekki hefst við að ryðja flugvöllinn.

Og Morgunblaðið 5.janúar - ritstjórinn minnist einnig óvenjumikillar snjókomu í Borgarnesi, en sá snjór stóð mjög stutt við - eins og algengast var á þessum árum - börnum og unglingum til vonbrigða:

Akranesi, 4. janúar. Svo ákaft hefur snjó kyngt niður hér í nótt og í dag, — klukkan 5 var ekkert lát á snjókomunni, nema hvað líka var tekið að skafa — að útlit er fyrir að allir vegir verði orðnir ófærir í kvöld. Ef hann hvessir eitthvað meira dregur strax i skafla. — Oddur.

Morgunblaðið heldur áfram 6.janúar:

Víðar er ófærð en á Suðurlandi. Sjálfsagt er fannfergi ekkert nýnæmi Akureyringum en Vestamannaeyingar eru alveg undrandi yfir því vetrarríki, sem þar hefur ríkt undanfarna tvo mánuði, og kemur það til af tvennu, að þar hefur ekki snjóað í 15—20 ár og hinu, að þeim finnst, að hitinn í Surti ætti að bægja svona gaddi frá. Við áttum tal við fréttaritara Mbl. Í Eyjum í gær, og kvað hann þetta fannfergi algera nýlundu þar um slóðir. Mætti segja, að „elstu menn“ myndu ekki annað eins. Samfelldur gaddur í 2 mánuði eða alveg fram að áramótum, þótt eilítill bloti væri.

Nokkuð hlánaði - en síðan fór að snjóa fyrir norðan. Tíminn 9.janúar:

MB-Reykjavík, 8. janúar. Hlákan stóð ekki lengi yfir. Nú er komin snjókoma um allt norðanvert landið með vægu frosti og vegir eru orðnir ófærir, strax og búið er að ryðja þá.

HS-Akureyri, 8. janúar Vélskipið Hildur, RE 380, strandaði í gær á leið til Akureyrar, en náðist á flot í dag algerlega óskemmt. Myrkraþoka var á, er óhappið varð.

Tjón varð í stuttri hláku 3.janúar. Morgunblaðið segir frá þann 9.:

Valdastöðum í Kjós, 7.jan, Töluverð úrkoma var hér s.l. sunnudag [3.janúar] og hljóp vöxtur í sumar ár. Skammt frá áramótum. Dælisár og Bugðu stóð sumarbústaður og hafði hann verið þar mörg ár. Um kvöldið var mikill vöxtur í Dælisá og stíflaðist hún með öllu af jakaburði. Þegar hún ruddi sig tók hún sumarbústaðinn með sér, og bar hann alllangan veg og malaði að lokum í sundur. Er hann, og það, sem í honum var, gjörónýtt. Hið eina heillega úr sumarbústaðnum er þakið. Nokkru neðar við ána fór vatnsflaumurinn yfir veginn, en ekki urðu teljandi skemmdir á honum.

Tíminn segir af ófærð 12.janúar:

MB-Reykjavík, 10. janúar. Færðin hefur lítið breyst frá því fyrir helgina og eru vegir á Norður- og Austurlandi nú yfirleitt ófærir og ekki horfur á breytingu til batnaðar svo fyrirsjáanlegt sé.

Svo kom að ísfregnum. Talsverður ís var á Grænlandssundi og nálgaðist landið. Auslægar áttir síðar í mánuðunum beindu ísnum síðan frá um tíma. Morgunblaðið 13.janúar:

Síðustu daga hefur mikið verið um rekís á siglingaleið við Horn. Breskur togari, Lord Willoughby, sigldi á ísjaka í fyrradag norður af Straumnesi og sama dag sneru við 3 aðrir breskir togarar, sem voru á leið austur, og kusu fremur að sigla suður fyrir land en að hætta á að fara fyrir Horn. Í gær tilkynnti Skjaldbreið íshröngl á siglingaleið frá Hælavíkurbjargi að Straumnesi og kvað einstaka stóra jaka innan um, sem hættulegir kynnu að vera skipum. Skyggni var þá 4—5 sjómílur.

Akureyri, 12. jan. Mikill snjór setti niður í gær og í nótt. Hiti var um frostmark og snjórinn mjög blautur, svo að snjóflóðahætta var talin vera á ýmsum stöðum í grenndinni, svo sem í Dalsmynni, Ekki hefur frést af neinum snjóflóðum, en miklar skemmdir hafa orðið á símalínum, vegna ísingar. Með morgninum tók að frysta og renna. Víða er orðin erfið færð bílum hér á götum bæjarins og sumar göturnar ófærar, en reynt er að halda helstu umferðargötum sæmilega greiðfærum. Flestir þjóðvegir mega heita ófærir með öllu, þó kom einhver mjólk til bæjarins í dag framan úr Eyjarfirði og úr Hörgárdal. Háfjallabíll braust hingað frá Dalvík í dag og var 5 1/2 tíma á leiðinni. Öxnadalsheiði er bráðófær og einnig Dalsmynni en þar er kominn feiknalegur snjór.

Dagur segir af ísingu og símatruflunum af hennar völdum 13.janúar:

Mikil ísing settist á símalínur víða um land í fyrradag [11.], en þá snjóaði mjög mikið í frostlausu veðri. Hafa símalínur slitnað og staurar brotnað. Á Vatnsskarði bilaði símalínan í fyrrinótt og lauk þar viðgerð litlu eftir hádegi í gær. Gera þurfti við línuna á sex stöðum á tveggja kílómetra kafla. Nóttina áður brotnuðu tveir símastaurar á Fljótsheiði og línur slitnuðu vegna ísingar. Lá símalínan niðri á um það bil kílómeters kafla í gær, að því er símastjórinn á Akureyri, Gunnar Schram, tjáði blaðinu. ... Milli Reykjahlíðar og Breiðumýrar var símalínan biluð á fleiri stöðum.

Tíminn segir enn af ófærð og hafís 16.janúar:

MB-Reykjavík, 15. janúar. Segja má að látlaus stórhríð hafi verið á Norðausturlandi síðan um helgi og er þar nú viða kominn mjög mikill snjór og einnig hefur verið símasambandslaust við ýmsa staði vegna þess að staurar hafa brotnað í veðrinu og erfitt verið að komast að til viðgerða. Í sumum kaupstöðum er fannfergið orðið svo mikið að erfitt er að komast milli húsa. ... Í morgun lagði floti stórra vöruflutningabíla upp frá Akureyri á Öxnadalsheiðina og voru með þeim ýtur frá Vegagerðinni. Bílar þessir voru hálfan níunda tíma í Bakkasel, en þangað er aðeins um 50 km leið frá Akureyri.

MB-Reykjavík, 15.janúar. Mikill ís virðist nú vera út af Vestfjörðum og kominn inn á Húnaflóa og er farinn að reka eitthvað inn eftir Ísafjarðardjúpi. Veðurfræðingi ber saman við gamla menn á Vestfjörðum um það, að tíðarfarið undanfarið minni á tíðarfar köldu áranna þegar hafísinn herjaði við strendur landsins. Páll Bergþórsson veðurfræðingur sagði blaðinu í kvöld, að Veðurstofan hefði fengið margar tilkynningar um hafísinn. Frá Hornbjargsvita var tilkynnt síðdegis í dag að íshrafl sæist á siglingaleið, svo langt austur sem séð yrði og frá skipi var tilkynnt um samfelldan ís fjórar mílur norður af Horni og þrjár mílur undan Geirólfsgnúp. Samkvæmt því má búast við að ís sé kominn inn á Húnaflóa. Klukkan fimm var 11 stiga frost á Hornbjargsvita. Þá var einnig tilkynnt um ísbreiðu 2-10 kílómetra norður af Galtarvita og íshrafl á siglingaleið norðaustur af vitanum. KrJúl, fréttaritari blaðsins í Bolungarvík, hringdi til blaðsins í kvöld og sagði að ísjaka væri farið að reka inn Ísafjarðardjúp og hefðu nokkrir jakar setið fastir í fjörunum yst í djúpinu. Hann kvað gamla menn segja, að veðurfarið nú minnti mjög á veðurfar ísáranna og menn væru uggandi. Við bárum þetta undir Pál Bergþórsson og hann sagði að veðurfarið undanfarið væri líkt því sem það hefði verið í reglulegum kuldaárum, eftir því sem næst væri unnt að komast.

Tíminn segir enn af ís 17.janúar og rifjar upp fyrstu spá Veðurstofunnar fyrir 45 árum:

MB-Reykjavík, 16. janúar. Eins og sagt var frá í blaðinu í dag er mikill ís fyrir Vestfjörðum og óttast menn að hann geti orðið landfastur þá og þegar. Íshrafl er í mynni Ísafjarðardjúps og samfelldur ís örskammt undan. Í morgun var vindur þar austanstæður og rak ísinn því fremur frá þar, en spáð er norðlægri átt að nýju og má þá búast við öllu illu. Einnig er mikill ís austan við Horn og nálgaðist ísbreiðan land um hádegisbilið. KrJúl, fréttaritari blaðsins í Bolungarvík, símaði í dag, að skyggni þar væri ekki gott og sæist því ekki vel til íssins, en hann kvaðst hafa fengið þær fregnir, að ísinn ræki inn og norður. Þá hafði hann fengið þær fréttir frá báti, sem var á leið norðan fyrir Horn að skipverjar sæju mikla ísbreiðu svo langt sem augað eygði og mikill rekís var á siglingaleið bátsins. Varð að sigla honum á hægri ferð gegnum ísinn og sumir jakanna sáust illa í ratsjá. Frá Horni fékk Veðurstofan þær upplýsingar í dag að mikið ísrek væri á siglingaleiðum austur og vestur af Horni og ísbreiðan nálgaðist þá landið. Stórar ísspangir voru þá á reki til lands. Eru því allar horfur á því að svo geti farið að ísinn verði landfastur við Horn i dag. Kalt var um allt land í dag, mikið frost norðanlands, til dæmis 16 stig klukkan ellefu á Staðarhóli í Aðaldal, en vægt frost við suðurströndina, ekki nema tvö stig í Reykjavík. Lægð, sem fer fyrir sunnan land dregur úr frosti, en henni mun fylgja nokkur snjókoma sunnanlands og éljagangur fyrir norðan. Þegar hún er farin hjá má búast við norðanátt
með meiri kulda að nýju.

MB-Reykjavik, 16. janúar. Á morgun, sunnudag, eru liðin 45 ár síðan fyrsta veðurspáin var gerð hérlendis á Veðurathugunardeild Löggildingarstofu Íslands. Þá starfaði einungis einn maður við veðurspádóma þar, en nú sinna fjórir veðurfræðingar veðurspánum, margir veðurfræðingar vinna á skrifstofunni við allskyns útreikninga og skýrslugerðir og hafa fjölmennt aðstoðarlið. Dr. Þorkell Þorkelsson var forstjóri Löggildingarstofunnar fyrir 45 árum, og hafði á veðurathugunardeild hennar þrjá aðstoðarmenn. Hann gerði fyrstu opinberu veðurspána þann 17.janúar árið 1920 og hljóðaði hún þannig: Útlit fyrir suðvestan- og vestanátt með vaxandi vindi á Norður- og Austurlandi, svipuðum hita (2 stig) og heldur hækkandi loftvog.

Ísinn lónaði nú frá, Tíminn segir frá 19. og 20. janúar:

[19.] MB—Reykjavík, mánudag. Ísinn virðist heldur hafa lónað frá aftur fyrir vestan en er þó enn skammt undan landi. Mikið frost er nú um allt land, allt upp í 19 stig, en stilla. Vegir eru enn ófærir vegna snjóa um austanvert Norðurland og Austurland en haldist gott veður, mun reynt að hjálpa bílum eftir aðalvegum.

[20.] MB-Reykjavík, þriðjudag. Litlar breytingar hafa orðið á ísnum fyrir vestan. Hann virðist heldur hafa lónað frá og lítil hreyfing hefur verið á honum í dag, enda veður stillt. Bátar á Vestfjörðum hafa sumir hverjir ekki getað lagt eins djúpt og þeir eru vanir vegna ísreks, og vissara er að fara með gát á siglingu vegna þess.

Morgunblaðið 19.janúar:

Þúfum, 18. jan. [Skagafirði] Undanfarið hefir verið hörku vetrarveðrátta, stormur með frosti, en fannkoma lítil. Er þetta ólíkt janúarveðráttunni 1964. Nú er mest hætta á ef frostin haldast lengi að firði og víkur leggi ísi.

Tíminn segir enn ófærðarfréttir 21.janúar:

KJ-Reykjavík, miðvikudag [20.]. Tíminn hafði í dag tal af Ólafi Ólafssyni kaupfélagsstjóra í Króksfjarðarnesi, spurði hann frétta úr byggðarlaginu. Ólafur sagði að hríðarveður hefði verið flesta daga síðan um hátíðar, væri mikill snjór kominn á láglendið, og allir vegir ófærir smærri bifreiðum. Þó hefur verið fært fyrir jeppa í Reykhólasveit og Geiradal. Vegurinn fyrir Gilsfjörð hefur verið lokaður síðan um áramót og hafa því mjólkurflutningar 'austurhluta Barðastrandarsýslu til mjólkurbúsins í Búðardal fallið alveg niður um sinn. Rekís kvað Ólafur töluverðan á innfjörðum Breiðafjarðar, og hefur flóabáturinn Guðmundur góði því ekki getað losað vörur til hafna á innanverðum Breiðafirði.

MB-Reykjavík, miðvikudag.
Mikil ófærð er nú á Suðurlandi vegna snjóa og hafa mjólkurbílar verið í allan dag að brjótast um Árnessýslu, til dæmis var bíllinn úr Laugardalnum ekki væntanlegur fyrr en í nótt að Selfossi. Ófært mun mega teljast austar en til Víkur. Nokkrar bilanir hafa orðið á símalínum í uppsveitum Árnessýslu af völdum snjókomunnar.

Tíminn segir 22.janúar frá snjóflóðaslysi í Húsavíkurfjalli - og hláku:

ÞJ-Húsavík, fimmtudag. Tæplega tvítugur piltur lenti í snjóflóði í Húsavíkurfjalli síðdegis á miðvikudag [20.], er hann var þar á skíðum. Piltinum tókst að komast út úr snjóflóðinu af eigin rammleik, og komst hjálparlaust niður í þorpið. Var hann á annan klukkutíma að komast þá leið, sem er um hálfur kílómetri. Reyndist hann illa meiddur innvortis og var samstundis fluttur í sjúkraflugvél til Akureyrar, þar sem aðgerð var gerð á honum í dag. ... Snæbjörn, sem er átján ára, fór í gær í skíðagöngu upp í Húsavíkurfjall og var einn á ferð. Er hann var í svonefndri Dagmálalág féll á hann snjóflóð. Barst hann nokkurn spöl með því, en fór þó aldrei í kaf. Er snjóflóðið stöðvaðist tókst honum að losa sig við skíðin og losa sig úr snjónum. Um hálfur kílómetri er úr þorpinu að Dagmálalág. Klukkan mun hafa verið nálægt þrjú í gær, þegar snjóflóðið féll, og Snæbjörn lagði af stað heimleiðis örskömmu síðar, en hann kom ekki niður í þorpið fyrr en klukkan hálf fimm og var þá mjög þrekaður orðinn. Er læknir hafði athugað Snæbjörn ákvað hann þegar að senda hann á sjúkrahúsið á Akureyri. Kom Tryggvi Helgason hingað seint í gærkvöldi og flutti hinn slasaða mann á flugvél sinni þangað. Rannsókn þar leiddi í ljós að Snæbjörn er mikið slasaður innvortis.

MB-Reykjavík, fimmtudag. Í kvöld var komin hláka um allt land, en hlýindi voru ekki mikil, yfirleitt 3 stig. Búist er við frostleysu um allt land næstu dagana, og ætti því að hlána nokkuð, en víða um land er nú sannkallað fannfergi. Flutningar á Norðausturlandi og Austurlandi liggja algerlega niðri, nema hvað reynt hefur verið að brjótast með mjólk á trukkum, eða sleðum, sem festir eru aftan : beltisdráttarvélar. Blaðið átti í dag tal við nokkra fréttaritara sína á Austur- og Norðausturlandi og spurði þá um samgöngumálin. Einar Stefánsson á Egilsstöðum sagði, að þar hefði verið ófærð það sem af væri nýja árinu og mætti heita að ekki væri fært út úr þorpinu. Stöku sinnum hefði verið reynt að lagfæra vegina með því að ryðja snjónum brott, en það hefði reynst árangurslítið og jafnan fennt í slóðir aftur.

Tíminn segir 26.janúar frá tjóni á sjó:

JJ-Súgandafirði, mánudag. Tveir bátar héðan urðu fyrir tjóni í vonskuveðri síðastliðinn laugardag, er þeir voru á leið heim úr róðri. Þetta voru bátarnir Hávarður og Draupnir. Hávarður varð að fara til ísafjarðar til viðgerðar, en á Draupni var einungis um veiðarfæratjón að ræða. Bátar héðan reru á laugardag og fóru 20—30 mílur út að venju. Á heimleiðinni hrepptu þeir versta veður, 10—12 vindstig, og mikinn sjó. Veiðarfæri Draupnis fóru mjög illa í veðri þessu, línustamparnir eyðilögðust í áföllunum og línan fór öll í flækju. Enn ver fór fyrir Hávarði, því að hann fékk á sig hnút. Brotnuðu skjólborð á lunningunni og styttur, sem héldu þeim, og línuballar lögðust saman. Varð Hávarður að fara til Ísafjarðar til þess að fá viðgerð í skipasmíðastöð þar. Engin slys urðu á mönnum í þessu veðri, en alls munu 40—50 línubalar hafa eyðilagst.

Slide1

Febrúar 1965 var sérlega óvenjulegur mánuður, sá þriðjihlýjasti sem vitað er um og meðalloftþrýstingur hefur aldrei verið hærri í febrúar. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum (heildregnar línur), þykkt er mörkuð með daufum strikalínum, en þykktarvik með lit. Hlýindin afgerandi. Vestlægar vindáttir voru óvenjuþrálátar. Lengst af mátti heita blíðuveður, en á því voru þó nokkrar undantekningar. Tvö óvenjuhörð illviðri gerði með töluverðu tjóni. Um þau er fjallað hér að neðan. Síðara veðrinu [11. til 13.) fylgdi mikið frost, en skammvinnt. Vestanáttin stíflaði rek hafíss suðvestur um Grænlandssund og hrakti ísinn langt til austurs, alveg austur fyrir land og inn í Austur-Íslandsstrauminn sem hann og norðlægar áttir fluttu síðan langt suður með Austfjörðum í marsmánuði. Þetta var mesta ísmagn við landið frá því 1918 og kom á óvart.

Snjó tók upp, en vegir spilltust vegna aurbleytu. Tíminn segir frá 4.febrúar:

MB-Reykjavík, miðvikudag. Vegir eru nú víða orðnir nokkuð þungir vegna aurbleytu og má búast við að setja verði einhverjar takmarkanir á ferðir þungra bifreiða á næstunni ef veðurfar verður óbreytt. Skriður hafa fallið úr Búlandshöfða og Ólafsvíkurenni vegna þíðunnar og hefur orðið að ryðja þeim burt með jarðýtum. Blaðið spurði Hjörleif Ólafsson á Vegamálaskrifstofunni í dag um ástandið á vegum landsins. Hann kvað aurbleytu víða orðna mikla á vegum, verst væri ástandið sennilega suðvestanlands og á Snæfellsnesi, en norðanlands væri ástandið einnig slæmt sums staðar, svo sem í Eyjafirðinum og Húnavatnssýslum. ... Allir fjallvegir á Austurlandi eru enn ófærir vegna snjóa og verða ekki ruddir að sinni. Fært er um Héraðið að mestu og einnig frá Egilsstöðum um Fagradal til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.

Morgunblaðið segir af vexti Svarfaðardalsá í pistli 6.febrúar:

Svarfaðardalsá tók að flæða yfir þjóðveginn í gærmorgun við svonefndan Hrísahöfða við Dalvík. Áin er enn á ísi og hefur ekki rutt sig. Vatnsflóðið er samt ekki meira en svo, að stórir bílar komust leiðar sinnar eftir veginum, en hann er ófær minni bilum.

Þann 8. hvessti, fyrst af suðri og suðvestri, en síðan gerði vestan- og norðvestan ofsaveður, einkum þó um landið norðan- og austanvert aðfaranótt þess 9. 

Slide2

Allkröpp lægð fór til norðausturs um Grænlandssund. Á undan henni var mjög hlý suðvestanátt, en um hádegi þann 8. snerist vindur snögglega til vesturs og kólnaði. Um kvöldið herti mjög á vestanáttinni og gerði aftakaveður. Kortið sýnir stöðuna á miðnætti. Veðrið gekk fljótt yfir. Næsta lægð var vestan Grænlands. Hún sendi síðan lægðardrag inn á Grænlandssund.

Tíminn segir frá 10.febrúar:

FB-Reykjavík, þriðjudag [9.]. Mikið rok gekk yfir vestanvert landið og einnig var geysilega hvasst á Norður- og Austurlandi í gærkvöldi og nótt. Töluverðar skemmdir urðu af járnplötufoki, og hey fuku víða. Ekkert tjón hefur þó orðið á mönnum í þessu óveðri svo vitað sé. Sunnanlands var nokkuð hvasst, en samt ekki svo tjón hlytist af. HS fréttaritari blaðsins á Akureyri símaði í dag, að undanfarna daga hefði verið sunnan og suðvestan rok á Akureyri, en í gær hefði hvesst mikið og fylgdi hvassviðrinu rigning og snjófjúk og varð illstætt á götum úti í verstu hryðjunum. Mest varð veðurhæðin upp úr miðnætti og náði hámarki um kl. 4 í nótt. Á lögreglustöðinni á Akureyri mældust 47 hnútar, eða 9—10 vindstig, og mun þó hafa orðið mun hvassara uppi í fjallinu fyrir ofan bæinn. Nokkrar skemmdir urðu á húsum og bílum á Akureyri. Til dæmis fuku milli 10 og 15 þakplötur af sambýlishúsinu Skarðshlíð 40. Plöturnar fuku á nærliggjandi hús, og brutu þær meðal annars glugga í húsinu Þverholti 2 og Langholti 4. Þá lentu bárujárnsplötur á þremur bifreiðum og skemmdust þær meira og minna. Engin slys urðu á mönnum í þessu óveðri, en eitthvað mun hafa fokið af heyi í nágrenni Akureyrar. IH á Seyðisfirði sagði, að ofsarok hefði verið þar í nótt, og einna mest milli klukkan 6 og 7 í morgun. Miklar skemmdir urðu þar á kaupfélagshúsinu, en þakplötur fuku af meira en hálfu þaki hússins sem stendur við Hafnargötu 28. Fuku þær út um allt og lentu meðal annars á báti, er var í smíðum í skipasmíðastöðinni. Er hann tíu og hálft tonn og skáru plöturnar sundur fjögur borð í lúkar og einnig nokkur borð aftan til en tjónið talið mjög mikið. Þarna skammt frá stóð ný bifreið, og lentu plötur á henni og brutu afturljósin og skemmdu bílinn töluvert að öðru leyti. Þá fuku plötur af 300 fermetra þaki fiskiðjuversins og annar löndunarkrani síldarverksmiðjunnar fauk og lenti á bryggjunni. Færiböndin á söltunarstöð Valtýs Þorsteinssonar fuku einnig í þessu óveðri, og munu skemmdir á fáum stöðum á landinu hafa orðið jafn miklar og á Seyðisfirði í þessu veðri.

Mjög hvasst var einnig á Egilsstöðum og á Héraði. Þakplötur fuku af húsi í smíðum í Egilsstaðaþorpi, en það stendur í útjaðri þorpsins, og gerðu því engan usla. Talsvert fauk af heyi hjá þeim bændum, sem höfðu orðið að kasta því úti í haust, þegar hlöður voru orðnar fullar og var það aðallega í Fellum, sem tjón varð af heyfokinu.

AA fréttaritari á Hornafirði sagði þær fréttir í dag, að báturinn Gissur hvíti hefði orðið fyrir áfalli í gærkvöldi milli klukkan 10:30 og 11, þegar hann var að koma inn úr róðri. Hnútur kom á bátinn, og fyllti stýrishúsið, vélin stoppaði, og urðu skipverjar að kasta akkerum. Þeim tókst þó að koma vélinni í gang aftur eftir nokkurn tíma og komu inn í nótt eða morgun. Líklegt er talið að öll siglingatæki séu ónýt því sjór komst í radar og dýptarmœli, og talstöðin ónýttist. Skipstjórinn á Gissuri hvíta, Óskar Valdimarsson, tjáði fréttaritaranum, að báturinn hefði ekki fengið annan sjó á sig en þennan eina, og engin slys höfðu orðið á mönnum um borð. Þá sagði AA, að nokkuð hefði brotnað af rúðum í húsum í Hornafirði og þar í kring, til dæmis fóru 16 rúður úr félagsheimilinu að Hrollaugsstöðum í Suðursveit.

Mikið hvassviðri var einnig á Vestfjörðum, og sagði GS á Ísafirði, að hávaðarok hefði verið þar í gær og nótt. Þar fyrir vestan fuku fiskhjallar með fiski í, og einnig fauk afgreiðsluskúr, sem Vestanflug hefur á flugvellinum á Ísafirði, og einnig fauk bensínafgreiðslu- og sælgætissöluskúr í Skutulsfirði.

Að lokum náðum við tali af Eiríki bónda í Arnarfelli í Eyjafirði en hann varð fyrir töluverðu tjóni af völdum óveðursins í nótt. Hjá honum fuku tveir braggar, var hey í öðrum en þrjátíu lömb og tíu kvígur í hinum. Drápust tvö lömbin, þar sem þau höfðu orðið undir brakinu þegar bragginn lagðist saman. — Þetta voru gamlir braggar, en voru vel frá gengnir og búnir að standa af sér mörg veður áður, sagði Eiríkur. Þetta var alveg feikilegt veður hérna að minnsta kosti, hélt hann áfram. Alveg frá því í gærkvöldi um tíuleytið og fram undir morgun, og braggarnir voru að smáliðast sundur hjá mér. Um tólfleytið í nótt fór svo líka þakið af íbúðarhúsinu hjá mér. Það lenti á símalínum og rafmagnslínum, og sleit þær niður, og verið var að enda við að koma símanum í lag aftur nú upp úr fjögur í dag. Nokkrar rúður brotnuðu í fjósinu, og kýrnar lágu í glerjahrúgunni í morgun, ég held þær hafi ekki skaddast, en annars hef ég lítið mátt vera að því að rannsaka það ennþá, því ég hef verið að koma skepnunum fyrir, sem voru í bragganum.

Morgunblaðið segir af sama veðri 10.febrúar - eitthvað um endurtekningar aðalatriða en smáatriði þó stundum önnur en í frásögn Tímans og annarra blaða:

Vestanstormur gekk yfir nærri allt landið í fyrrakvöld og nótt. Nokkrar skemmdir munu víða hafa orðið, einkum á Austurlandi. Ekki er þó kunnugt um nein slys á mönnum, Mest var veðurhæðin milli kl. 8 og 10 í gærkveldi í Reykjavík var um skeið 10 til 11 vindstig í hviðunum, 12 vindstig í Hornbjargsvita og 10 til 12 vindstig á annesjum norðanlands og austan. Jónas Jakobsson, veðurfræðingur, tjáði Morgunblaðinu í gær, að lægðin, sem óveðrinu olli, væri nú komin norður undir Svalbarða, enda hefði mjög lægt aftur. Komið hafði frost í fyrrakvöld, en hlýnað aftur í gær, er vindur gerðist suðlægari og um nónbilið var víðast hvar 4—6 vindstig og 4—5 stiga hiti sunnanlands. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum voru þó 8 vindstig kl.2 í gærdag og 8 í Grímsey, en hægara mun hafa verið á sjó. Togarinn Síríus slitnaði upp á Elliðavogi í fyrrakvöld og rak upp í fjöru í Viðey gegnt Vatnagörðum. Einnig slitnaði Lagarfoss frá bryggju í Reykjavíkurhöfn, en dráttarbáturinn Magni sem var í grenndinni, kom þegar á vettvang og ýtti skipinu aftur að bryggjunni, svo að engar skemmdir urðu af þessum sökum. Unnið var að því í gærkveldi að ná Síríusi á flot aftur.

Akureyri, 9. febrúar. Meiriháttar hvassviðri af vestsuðvestri gekk hér yfir í gærkvöldi og fyrri hluta nætur. Veðrið var mest um kl. 2 og eftir Því sem næst verður komist, var vindhraðinn þá ekki undir 70 hnútum, eða 13 til 14 vindstig. Mörgum varð ekki svefnsamt vegna veðurdynsins og húsráðendur fóru sumir á stjá til að huga að þökum húsa sinna eða skorða og fergja ýmislegt lauslegt úti við, sem annars hefði getað valdið skaða. Ekki er þó kunnugt um, að umtalsvert tjón hafi orðið af veðri þessu hér í bæ, nema í Glerárhverfi. Þar fuku margar járnplötur af þaki fjölbýlishúss, sem er í smíðum við Skarðshlíð, yst í hverfinu. Flugu þær eins og skæðadrífa yfir í þéttbýlt íbúðarhverfi austan Hörgárbrautar og ollu þar tjóni á þremur bílum og a.m.k. 2 húsum, þar sem rúður brotnuðu. í öðru þeirra, Langholti 3, þar sem Sigurður Flosason, kennari, býr með fjölskyldu sinni, brotnuðu 3 stórar rúður, en engin meiðsli urðu á fólki. Lögreglumenn fóru út eftir og reyndu að handsama þakplöturnar, draga þær í skjól og bera á þær farg, en það gekk misjafnlega í náttmyrkrinu og veðurofsanum, enda var alls ekki stætt í verstu byljunum. Einnig aðstoðuðu þeir við áð negla fyrir brotna glugga. Sem dæmi um hamfarirnar má nefna það, að ein þakplatan skall á ljósastaur, er bognaði við það og varð eins og U í laginu, en féll ekki til jarðar fyrr en lygna tók.

Í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði varð stórtjón á þremur bæjum af völdum ofviðrisins, en þar virðist veðrið hafa verið enn harðara en hér á Akureyri. Símabilanir voru miklar i Eyjafjarðardölum í dag, svo að erfitt var að afla nákvæmra frétta af skemmdunum. Á Tjörnum, fremsta bæ í Eyjafirði, fauk hluti þaks af nýrri 1600 hesta hlöðu, og einnig brotnaði úr henni annar stafninn gersamlega, en hann var úr timbri og stóð beint í veðrið. Ennfremur fauk eitthvað af þaki íbúðarhússins og hey, sem geymt var á bersvæði. Bóndinn á Tjörnum er Gunnar Jónsson. Á Arnarfelli eyðilögðust tveir braggar, sem voru áfastir við nýtt fjós. Annar bragginn, sem notaður var sem hlaða, fauk þegar í gærkvöldi, en lítið hey mun hafa verið geymt þar. Hinn bragginn, gamalt fjós, lagðist alveg saman, þegar kom fram á nóttina, ofan á fé, hesta og kálfa, sem þar voru inni. Drápust tveir gemlingar og margar aðrar skepnur lemstruðust. Brak úr bröggunum fauk á nýja fjósið, braut rúður í því og laskaði það nokkuð að öðru leyti, en ekki stórvægilega. Einnig slitnuðu rafmagns og símalínur af völdum braksins. Þá tók allt járn af þaki íbúðarhússins á Arnarfelli og óttast var um tíma að þakið færi allt, svo að bóndinn, Eiríkur Björnsson og heimilisfólkið alls 7 manns, leitaði skjóls í kjallara hússins, meðan ósköpin gengu yfir. Hjá Ásgeiri bónda Guðmundssyni í Hlíðarhaga fauk braggahlaða með nokkru heyi og víða annars staðar fauk eitthvað af heyi og lausir munir, sem geymdir voru utanhúss. Þá brotnuðu þrír staurar á háspennulínu utan við Hjalteyri og olli það rafmagnsleysi fram yfir hádegi í dag. — Sv. P.

Morgunblaðið átti tal við fréttaritara sína á Húsavík, í Vestmannaeyjum og Ísafirði. Þar hafði verið mjög hvasst, en ekkert tjón orðið á mönnum né eignum.

Egilsstöðum, 9. febrúar. Þak fauk í gærkvöldi af íbúðarhúsi, sem er í smíðum hér á Egilsstöðum. Þá urðu víða smávægileg tjón á húsum og heyjum í Héraði. Símalínur slitnuðu á nokkrum stöðum. — St. E.

Hornafirði, 9. febrúar. Geysilegt óveður var hér í gærkveldi og nótt, en skemmdir urðu engar á húsum. Vélbáturinn Gizur hvíti, sem var að koma að landi hér, fékk á sig sjó og stöðvaðist vélin og ljós slokknuðu. Vörpuðu skipsmenn akkerum hér rétt undan landi, komu vélinni síðan af stað aftur og tókst að sigla bátnum inn. Skemmdir munu hafa orðið á ýmsum siglingar- og fiskileitartækjum. Á bænum Leiti í Suðursveit brotnuðu 12 rúður af völdum óveðursins. — G.Sn.

Raufarhöfn, 9. febrúar. Í óveðrinu í gær fauk löndunarband á einni söltunarstöðinni. Einnig fuku síldarsöltunarkassar og ollu nokkrum skemmdum. — Einar.

Seyðisfirði, 9. febrúar. í gærkveldi fauk langt færiband hjá Síldarsöltunarstöð Valtýs Þorsteinssonar og olli skemmdum. Þá fuku þakplötur af Fiskiðjuverinu og Kaupfélaginu. Tvær þakplötur höfnuðu i Skipasmíðastöð Austfjarða og af svo miklu afli, að þær fóru gegnum byrðing báts, sem þar er í smíðum. Verst var veðrið hér síðari hluta nætur. Nýlega hafði stóri löndunarkraninn við Síldarverksmiðjuna verið fluttur til og var ekki búið að festa hann að fullu. Fauk hann því um koll og skemmdist mikið. Hélt honum m.a. stag, og hefði svo ekki verið, hefði hann fokið í sjóinn. — Sv.G.

Neskaupstað 9. febrúar. Í nótt skall hér á ofsaveður á suðvestan. Mun hafa verið vökunótt hjá mörgum, því að í slíkum veðurofsa verður mönnum varla svefnsamt og vissara þykir að vera við öllu búinn. Tveir bátar, sem lágu við festar í firðinum, slitu legufæri sín og ráku á land. Annar báturinn, sem heitir Hrefna, 10 lestir að stærð, rak á bryggju og bókstaflega tók hana með sér upp í fjöru og gjöreyðilagðist hún. Báturinn er mjög mikið skemmdur eða ónýtur með öllu. Hinn báturinn, 3ja tonna, er nokkuð skemmdur, komu á hann tvö göt. Plötur af húsum voru eins og fjaðrafok um allan bæinn og ollu ýmsum smávægilegum skemmdum. Á einu íbúðarhúsinu fauk mest af þakplötunum. Engin slys munu hafa orðið á mönnum í þessum hamförum. — Ásgeir.

Vík í Mýrdal, 9. febrúar. Suðvestan stórviðri gerði í gær og stóð það fram eftir nóttu. Nokkrir skaðar urðu í Fagradal. Tveir rafmagnsstaurar brotnuðu, þakplötur fuku og bílskúr. — Fréttaritari.

Ísafirði, 9. febrúar. Í hvassviðrinu í gær fauk afgreiðsluskúr, sem Vestanflug reisti nýlega á flugvellinum hér. Brotnaði skúrinn í spón og er gerónýtur. Sömuleiðis fauk bensínafgreiðsluskúr við Úlfsá, en skorðaðist við nærliggjandi hús og skemmdist því ekki mikið. HT.

Morgunblaðið heldur áfram að segja frá tjóni 11.febrúar:

Nánari fregnir hafa nú borist af tjóni sem varð víða á bæjum í Saurbæjarhreppi í ofviðrinu í fyrrinótt. Eins og getið hefur verið um, fauk timburstafn úr stórri, nýlegri hlöðu á Tjörnum, einnig þriðjungurinn af þakinu og þrjár sperrur brotnar. Einnig fauk blásarahús við hlöðuna, stór fjórhjólaður heyvagn, sem brotnaði í spón, og fjögur olíuföt, sem stóðu upp á endann, fuku langa leið og náðust aftur heil. Tvö uppborin hey skelltust um, og munu um 30—40 hestburðir hafa fokið. Enn tók mikið járn af þaki íbúðarhússins og nokkuð af timburklæðningu. Gunnar bóndi Jónsson tjáði mér í dag að hann hefði aldrei lifað annað eins voðaveður, nema ef vera skyldi fyrir 32 árum. Hann kvað veður enn vera svo hvasst, að ekki sé viðlit að reyna að komast upp á hlöðuna til viðgerða, enda væri enn að fjúka meira af þakinu. Vinnuafl væri ekkert að fá, en þrír nágrannar væru þó búnir að bjóða aðstoð sína stund og stund, en annars væri svo fáliðað á bæjum í grennd, að hver ætti nóg með sig. Tjón sitt hvað hann ekki vera minna en 30—40 þúsund krónur, og væri þó engin vinna reiknuð. Á Þormóðsstöðum í Sölvadal brotnuðu yfir 30 rúður í íbúðarhúsinu af grjótflugi. Engu lausu grjóti er þó til að dreifa í grennd við bæinn, nema í steypumalarbing, sem stendur á gilbarmi um 100 metra sunnan við bæinn. Þá fauk mikið járn af þakinu í Kálfagerði og heyskaðar urðu víða, meðal annars á Helgastöðum og Stekkjarflötum. Er þá minniháttar tjón ótalið. — Sv. P.

Fréttamaður Morgunblaðsins fór í dag að Arnarfelli í Eyjafirði, þar sem stórtjón varð í ofviðrinu í fyrrinótt, og hitti þar að máli Eirík bónda Björnsson, sem var að vinnu á þaki íbúðarhússins, ásamt vinnumanni sínum og tveimur nágrönnum. Þeir voru að setja borð i klæðninguna í stað þeirra, sem rifnað höfðu upp, og negla niður fáeinar járnplötur, sem fundist höfðu lítið skemmdar niðri á túni. Enn var bálhvasst, svo að erfitt var að hemja járnplötur, borðin og verkfæri þarna á þakinu. Menn máttu líka hafa sig alla við að verjast falli í verstu hviðunum. Norðan við húsið lágu rústirnar af öðrum bragganum, og undir þeim tvö lömb kramin til bana, en af hinum bragganum var ekki tætla eftir nema grunnurinn og fáeinir fallnir járnbogar. — Hér er mikið tjón orðið, Eiríkur? — Já, þetta var voðaleg nótt og harla minnisstæð, svaraði Eiríkur hress í bragði. — Þessir braggar voru búnir að standa af sér mörg veður, voru sterk og góð hús, enda offíserabraggar á sínum sokkabandsárum. Sá sem fauk var hlaða alla tíð, en hinn sem lagðist saman var búinn að þjóna sem tuttugu og fjögurra kúa fjós í fjöldamörg ár, eða þangað til ég byggði nýja fjósið fyrir tveimur eða þremur árum. Nú voru í honum þrjátíu lömb og tíu kvígur. Það var stálheppni að ekki skyldu farast nema þessi tvö lömb. Kvígumar voru í vesturendanum, en hann féll ekki alveg saman. Steypti gaflinn varði allvel, þó að hann léti undan og hallaðist dálítið. í austurendanum var dálítill heybingur og svo garði í miðju húsinu, og hvort tveggja hlífði lömbunum við því að járnið legðist alveg ofan á þau. Hinsvegar þurfti ég að fá logsuðutæki til að ná þeim undan brakinu. Annars vissi ég ekki fyrr en í gærmorgun hvernig komið var, maður átti nóg með sjálfan sig og börnin meðan ósköpin stóðu, enda stórhættulegt að vera úti vegna alls járnsins, sem var að fjúka. — Já, hvernig leið ykkur? — Við áttum náttúrlega ekki næðissama nótt. Tvö elstu börnin voru ekki heima, eru í skólum á Eiðum og Akureyri, en við hjónin vorum heima og þrjú yngstu börnin, það yngsta á fyrsta ári og svo vinnumaðurinn. Þó að vindáttin væri suðaustan, stóð stormurinn af austri hjá okkur, hefur endurkastast úr fjallinu og náði að spenna upp þakbrúnina, brjóta nokkuð af klæðningunni, þyrla upp kurleinangrun og svo tína allt járnið og þeyta því út í buskann. Það liggur bögglað og bramlað úti um allan dal. Ég var nú ekki hræddur um að þakið færi alveg, en hávaðinn í veðrinu og járninu, sem barðist á þakinu meðan það var að losna, var svo óskaplegur, að við héldumst ekki við á íbúðarhæðinni, en fórum öll ofan í kjallara og vorum þar til morguns. Alltaf var eitthvað að fjúka á gluggann á herberginu sem við vorum í með börnin, svo að ég og vinnumaðurinn fórum út til að sækja fleka til að láta fyrir gluggann. Þegar við komum með flekann fyrir húshornið skellti veðrið okkur flötum og lágum við þar ofan á flekanum sjálfsagt í fullar tuttugu mínútur. Það var ekki viðlit að standa upp. Járnplöturnar flugu allt í kringum okkur á meðan, kubbuðu meðal annars símalínurnar framan við bæinn. Loksins komum við flekanum fyrir gluggann meðan aðeins lægði, og urðum svo fegnir að skríða í húsaskjól. Okkur leið ágætlega þarna í kjallaranum, börnin voru ekki mjög hrædd, en  vitanlega var ekki um neinn svefn að ræða. — Hvernig hafði farið um kýrnar í fjósinu? — Þegar við komum í fjósið um morguninn, stóðu kýrnar í haugum af glerbrotum, því að allar rúður höfðu brotnað í nýja fjósinu okkar. Ekki hafði neina kúna þó sakað. — Hvar getur þú látið skepnurnar, sem í bragganum voru? — Lömbunum tróð ég inn í gamalt hesthús, sem er allt of lítið að vísu, en ég er í hálfgerðum vandræðum með kvígurnar, get eiginlega hvergi látið þær. Eina bótin að það er hlýtt í veðri núna. — Sv.P.

Austurland segir af sama veðri 12.febrúar:

Hallormsstað, 10. febr. SBl/SÞ Eins og kunnugt er af fyrri fréttum geisaði hér aðfaranótt 9. febrúar afspyrnuveður af vestsuðvestri. Mönnum hér ber saman um, að slíkt hvassviðri hafi ekki komið hér síðan árið 1950, en menn jafna þessu við veður er þó geisaði hér á sama árstíma. Hér á ofanverðu Héraði urðu allmiklar skemmdir bæði á útihúsum, en þó einkum á heyjum, en þar sem heyfengur var mikill s.l. sumar áttu bændur óvenjumikið hey í stökkum. Stefán Hallgrímsson, bóndi að Arnaldsstöðum í Fljótsdal telur þetta vera versta veður sem hann man eftir. Þar fuku þök af tveim hlöðum og stafn fauk einnig úr hinu þriðja af útihúsunum. Einnig tættist blæjuhús af jeppabifreið. Svo var rokið mikið, að það reif upp grjót úr áreyrunum. Á Víðivöllum fram, en þar býr Jörgen Sigurðsson, fauk þak af stórri, nýrri hlöðu og mest allt járnið á íbúðarhúsinu. Einhverjar skemmdir munu einnig hafa orðið á Egilsstöðum í Fljótsdal. Á Bessastöðum í Fljótsdal hristist íbúðarhúsið svo mikið, að bækur duttu úr bókahillum. Á nokkrum bæjum í Skógum mun hafa orðið eitthvað tjón. Í þessum hamförum ýfðist Lagarfljót svo mjög, að menn muna það vart úfnara. T.d. var íbúðarhúsið á Strönd undir stanslausri ágjöf meðan veðurhæðin var sem mest. Þykkir ísströnglar hlóðust á símalínur, er næst lágu Fljótinu því lítilsháttar frost var. Á bænum Jaðri, sem er í landareign Vallaness, fuku 60 hestar af heyi. Í Egilsstaðakauptúni fauk járn af íbúðarhúsi Halldórs Ármannssonar úrsmiðs og einnig hjá Helga Gíslasyni að Hlöðum við Lagarfljótsbrú, einnig fauk járn af fjósi hjá syni hans Gísla. Ekki virðist hafa orðið verulegt tjón af veðurofsa þessum í Eiðaþinghá nema eitthvað á Finnsstöðum. Hér á Hallormsstað vorum við all hræddir um ófyllt steypumót í barnaskólabyggingunni, en þar er ósteypt í mót að tveim álmum, en þau sluppu án skemmda. Fullvíst er, að fáir munu hafa sofið á Héraði þessa óveðursnótt, í það minnsta á tímanum frá kl.2—4, en þá var veðurhæðin mest. Annars hefur veðráttan undanfarið verið mjög góð. Snjórinn er algjörlega horfinn af láglendi. Ennþá er nokkur ís á vegum, en minnkar nú ört og ennþá hafa vegir hér ekki skemmst af aurbleytu.

Seyðisfirði 11. febr. JS/ÖS Mikil spjöll í óveðri Aðfaranótt þriðjudagsins 9.febr. s.l. gerði hér mikið vonskuveður og olli það miklum skemmdum. Í roki þessu fauk allt járn af þaki verslunarhúss Kaupfélagsins, „Þórshamri“, og skemmdi járnið næsta hús mikið svo og nýjan Morrisbíl er stóð þar skammt frá. Þá fuku plötur af húsinu á bát, sem er í smíðum í Skipasmiðastöðinni og stakkst ein platan í gegnum byrðing bátsins og stóð þar föst. Einnig urðu talsverðar skemmdir á ýmsum mannvirkjum í Skipasmíðastöðinni. Einnig fuku nokkrar plötur af þaki Fiskiðjunnar. Löndunarkrani við Síldarverksmiðjur ríkisins fauk einnig um í þessu roki. Svo óheppilega vildi til, að unnið hafði verið að því að losa kranann, og átti að færa hann eitthvað til á bryggjunni, þar sem til stendur að fjölga löndunarkrönum við SR fyrir næsta sumar. Loks má geta þess, að miklar skemmdir urðu á færiböndum o.fl. á söltunarstöð Valtýs Þorsteinssonar.

Tíminn segir ísfregnir 12.febrúar:

FB-Reykjavík, fimmtudag. Mikill ís er nú fyrir Vestfjörðum, og er hann sums staðar orðinn landfastur. Er þetta fremur óvenjulegt á þessum tíma árs, miðað við undanfarin ár og áratugi, en í vestanhrinunni, sem gerði aðfaranótt þriðjudagsins, mun ísinn undan Grænlandsströnd hafís dreift úr sér og fært upp að landi hér. Veðurstofunni bárust tvær ístilkynningar í dag, var önnur þeirra frá skipstjóranum á Heklu, en hin kom frá einu varðskipanna, sem var á svipuðum slóðum. Tilkynning skipstjórans á Heklunni barst klukkan 13 og sagði hann, að mikill ís væri allt frá Rit austur fyrir Hælavíkurbjarg, væri hann landfastur og talsvert þéttur á köflum. Þá var einnig mjó ís-spöng 8 sjómílur austur af Horni. Klukkan 16:30 tilkynnti landhelgisgæslan, að mikill ís væri fyrir norðanverðum Vestfjörðum allt frá Horni að Kögri. Þarna voru stórir jakar innan um illfært í björtu og algjörlega ófært í myrkri.

Slide3

Hér er lægðardrag síðari illviðrislægðarinnar yfir landinu á leið til austurs, kortið gildir um hádegi þann 11. Ritstjóri hungurdiska minnist umskiptanna þennan dag, úr hlýrri suðvestanrigningu yfir í norðaustansnjókomu á örskömmum tíma. Síðan skall á norðanofsi, ekki svo mjög hvass í Borgarfirði þó.

Slide4

Hér er lægðin fyrir austan land um hádegi þann 12. Verulega kólnaði. Landsmeðalhiti í byggð þann 10. var +4,6 stig, þann 11. (þegar tvíátta var) var meðalhitinn +1,4 stig, en -7,4 stig þann 12. - daginn sem kortið hér að ofan sýnir. Svipaður hiti hélst daginn eftir, en síðan hlýnaði að mun. 

Tíminn segir af þessu síðara veðri í pistli 13.janúar:

MB—Reykjavík, föstudag. Foraðsveður hefur geisað um mikinn hluta landsins undanfarinn sólarhring, rok og snjókoma, og sums staðar hefur veðrið verið svo vont að menn telja það versta veður árum saman. Hafa menn orðið veðurtepptir í kaupstaðaferðum og ekki komist heim til að bjarga fé sínu og brotist hefur verið á snjóbíl til að bjarga fólki, sem sat fast á fjallvegi. Ekki er kunnugt um mannskaða af veðri þessu, en saknað er lítils báts með tveim mönnum á leið frá Ísafirði til Grindavíkur (sjá frétt á 14. síðu.) Veðrið skall á á Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi fyrri partinn í gær og færðist síðan austur um land. Síðdegis í dag var komið sæmilegt veður á Vestfjörðum, en þá var veðrið í hámarki á Austfjörðum. Veðrinu hefur fylgt mikið frost um allt land. Snjókoma að ráði náði suður um Breiðafjörð og talsverð snjókoma hefur verið í uppsveitum Borgarfjarðar, en mikil snjókoma hefur verið nyrðra og eystra. Til dæmis mældist frá klukkan 8-17 í dag 16 mm snjókoma á Staðarhóli í Aðaldal 10 á Raufarhöfn, 11 á Sauðárkróki og þannig mætti lengur telja. Um áttaleytið náði snjókoman suður til Hornafjarðar. Mest frost mun hafa mælst 10 stig á Raufarhöfn og víðar norðanlands, frost sunnanlands hefur yfirleitt verið 7—9 stig, nema á Fagurhólsmýri, þar var aðeins 1 stigs frost um fimmleytið í dag.

Ísinn, sem óttast var í gær að væri að verða landfastur, virðist heldur hafa lónað frá, en þó er íshrafl upp í landsteina fyrir vestan og samfelld ísbreiða örskammt frá landi. Landhelgisgæslan hefur tilkynnt ís í mynni Dýrafjarðar, inni á Önundarfirði eru ísjakar á reki og Esja og Narfi, sem fóru fyrir Horn í dag tilkynntu mikið ísrek. Esja sem í gær sneri við út af Straumnesi á norðurleið, fór fyrir Horn í dag. Skipið varð að fara hæga ferð. vegna ísreksins og tilkynnti ísrek á siglingaleið við Horn og 4—5 sjómílur undan landi kvað skipstjórinn samfellda ísbreiðu að sjá, svo langt sem augað eygði. Þá er einnig mikið ísrek frá Kögri og vestur að miðdjúpi. Virðist því lítið mega útaf bera til þess að meginísinn verði landfastur.

Talsverðar símabilanir hafa orðið norðanlands og austan vegna veðursins og hér i Reykjavík varð að grípa til rafmagnsskömmtunar vegna ísreks í Soginu. Segja má, að allar samgöngur norðan- og austanlands hafi legið niðri í dag vegna veðurofsans, bílar sem voru á leið norður urðu veðurtepptir í Fornahvammi, þegar veðrið skall á og mjólkurflutningar á Norðurlandi hafa að mestu leyti legið niðri. Hér fara á eftir frásagnir nokkurra fréttaritara blaðsins norðanlands og austan af veðurhamnum.

GÓ-Sauðárkróki. Hér er nú norðan hvassviðri með stórhríð og frosti og hafa engir mjólkurbílar komist til okkar í dag vegna veðursins. Í gærmorgun var hér stórrigning en í gærdag snerist hann í norður með stórhríð. Engir bátar voru á sjó. Flóabáturinn sem koma átti hingað í dag, er veðurtepptur á Akureyri.

BJ—Siglufirði, Hér er norðaustan hríð með miklu frosti. Veðrið skall á seinnipartinn í gær en í gærmorgun var hér rigning. Við erum hér mjólkurlaus í dag, þar eð Drangur er veðurtepptur á Akureyri.

BS-Ólafsfirði. Hér var norðvestan stórhríð í nótt en með morgninum lægði heldur, svo ekki þótti ástæða til að aflýsa skóla og hefur hann verið sóttur nokkurn veginn á eðlilegan hátt. nema hvað nokkur börn. sem lengst áttu að sækja, hafa fengið leyfi vegna veðurs. Veðrið skall á í gær, rétt eftir hádegið, bátar héðan sluppu sæmilega, þeir síðustu komu að um fjögurleytið, en þá var komin norðaustanstórhríð og talsverður sjór. Aðfaranótt síðastliðins þriðjudags var hér suðvestan rok. sem olli skemmdum á einu íbúðarhúsi hér en af því fuku þrjátíu járnplötur.

HS-ED-Akureyri. Hér hefur verið iðulaus stórhríð frá því í dag, með verstu veðrum sem hér koma og eru margar götur í kaupstaðnum orðnar ófærar af völdum veðursins. Samgöngur liggja allar niðri, þó braust Gunnar Jónsson frá Dalvík hingað í dag og var níu klukkustundir á leiðinni í stað einnar venjulega.

ÞJ-Húsavík. Í gærkvöldi skall hér á norðaustan stórhríð og hefur staðið óslitið síðan og nú er hér átta stiga frost. Áætlunarbíll fór héðan í gær til Akureyrar og kom aftur í gærkvöldi og var þá hálfan fimmta klukkutíma á leiðinni hingað í stað hálfs þriðja tíma, sem ferðin tekur venjulega. Í dag var ákveðið að fella niður kennslu í tveimur yngstu bekkjum barnaskólans vegna veðursins. Engir mjólkurbílar hafa komist hingað í dag vegna veðursins, en vonir standa til að bílarnir úr Aðaldalnum og Reykjadalnum komist hingað ef eitthvert lát verður á veðurofsanum.

ÞB-Kópaskeri. Hér er iðulaus stórhríð, versta hríð sem hér hefur komið í mörg ár. Veðrið er svo vont að fólk situr þar sem það er komið og fólk úr nágrenninu er veðurteppt hér. Hríðin skall á síðdegis í gær og var þá fólk úr Kelduhverfi statt hér á fjórum bílum. Tveir komust heim til sín en tveir sitja hér enn. Ekki er vitað um skaða af veðrinu, en þó er ekki vitað til að búið sé að bjarga öllu fé bóndans að Ási í Kelduhverfi. Þar er tvíbýli og búa þar brœður. Annar bróðirinn var staddur hér með fjölskyldu sína, þegar veðrið skall á og komst ekki heim. Bróðir hans bjargaði fyrst sínu fé en reyndi síðan að bjarga hans fé og þegar síðast spurðist til hafði hann ekki náð því öllu. Bóndinn í Ásbyrgi var einnig staddur hér með konu sína og tvö börn, þegar veðrið skall á. Hann skildi þau eftir hjá skyldmennum hér og braust heim til sín, þar eð hann óttaðist um fé sitt, er hann hafði beitt í eyjunni í Ásbyrgi um morguninn. Er hann kom heim. höfðu nágrannarnir, sem vissu að hann var að heiman, bjargað fé hans í hús.

MS-Reyðarfirði. Hér hefur verið blindhylur frá síðastliðnu miðnætti og eru hér nú allir vegir ófærir. Þegar veðrið skall á var fólksbíll á leið frá Eskifirði upp á Hérað og voru hjón í bílnum. Þau urðu að stansa á Fagradal og fólkið komst við illan leik í kofann þar og lét þar fyrirberast. Í dag var svo brotist til fólksins á snjóbíl og munu björgunarmenn hafa komist að kofanum síðdegis í dag. Veðrið skall mjög snöggt á, eins og skotið væri af byssu, en til allrar hamingju munu bátar héðan af fjörðunum ekki hafa verið á sjó.

MB—Reykjavík, föstudag. Óttast er um afdrif 7—8 tonna trillu, Valborgar, GK-243, sem fór frá Ísafirði snemma á fimmtudags áleiðis til Grindavíkur. Hefur síðan ekkert til bátsins spurst, nema hvað menn á Hellissandi halda að þeir hafi heyrt bátinn kalla á Patreksfjörð milli klukkan fjögur og fimm á fimmtudag. Tveir menn eru á bátnum, ungir bræður frá Hvammstanga.

Morgunblaðið segir einnig frá 13.febrúar:

Stórhríð og hörkuveður var um allt norðanvert landið í gær og snjóaði alla leið suður að Hornafirði að austan og suður í Borgarfjörð að vestan. Var svo mikið dimmviðri og iðulaus hríð að ekki var hægt að átta sig á hvort vegir væru færir. Lágu mjólkurflutningar niðri að mestu eða öllu leyti á Norðurlandi og á Akureyri var umferð innanbæjar lömuð og bílastöðvar lokaðar. Bílar sem ætluðu norður, þar með tveir áætlunarbílar og tveir stórir flutningabílar, létu staðar numið í Fornahvammi. Svo glórulaus var hríðin að víða féll kennsla niður í skólum, því varla var stætt sums staðar. Á Seyðisfirði var svo mikið rok að járnplötur fuku af húsum. Símabilanir urðu, svo ekki náðist samband við norðausturhluta
landsins. En Mbl. hafði samband við nokkra fréttaritara sína annars staðar og fara fregnir frá þeim hér á eftir.

Blönduósi, 12. febr. — Stórhríð hefur verið hér í allan dag. Engin mjólk barst utan úr sveitunum fyrr en seint í dag, þegar náðist í mjólkina af nokkrum bæjum af Ásum. Jóhannes Hansen frá Sauðárkróki kom hingað til Blönduóss í gærkveldi með létthlaðinn flutningabíl og er þar um kyrrt vegna veðurs í dag. Ég lagði af stað frá Reykjavík kl.12 í gær. Vegurinn var blautur og seinfarinn og orðið grátt á jörð, er kom norður að Hreðavatni. Mér gekk sæmilega yfir Holtavörðuheiði og fór frá Stað í Hrútafirði um kl.8. Þá var komin talsverð hríð og fór versnandi. Allt gekk þó skaplega norður í Miðfjörð, en hjá Norðurbraut var komin iðulaus stórhríð. Ég var 3 1/2 klst þaðan austur að Vatnshorni, en það mun vera 6-7 km. leið. Frá Vatnshorni til Blönduóss var ég 3 1/2 tíma. Snjór var hvergi til tafar, en veðurofsinn geysilegur.

Siglufirði, 12. febr. Í gær var hér talsverð rigning, auð jörð á láglendi og lítill snjór í fjöllum, fremur milt árdegis, en um hádegið breyttist veðrið mjög snögglega og gerði iðulausa norðanhríð. Segja má að það veður hafi haldist síðan, þó er vindur nokkru hægari eftir hádegi í dag. Frost er um 10 stig. Umferð var orðin erfið minni bílum í gærkveldi, en í dag hefur aðalumferðargotunum verið haldið opnum með jarðýtu bæjarins. St. F.

Akureyri, 12. febr. — Glórulaust veður hefur verið hér í dag, sérstaklega hefur verið mikil harka og veðurhæð, en fannkoma hefur aukist með kvöldinu. Er erfitt víða á götum, sums staðar illfært eða ófært. Samgöngur hafa gengið mjög erfiðlega í dag. Dalvíkurbíllinn sem fór kl. 8 í morgun frá Dalvík kom kl.5. Ekkert sást út úr augunum á leiðinni. Nemendur úr Gagnfræðaskóla Akureyrar voru staddir í tveggja daga útilegu í skíðahótelinu í j Hliðarfjalli. Þegar veður varð svona slæmt, fór skólastjóri í háfjallabíl með talstöð og tveimur þaulvönum og kunnugum bílstjórum og selflutti þau í bæinn í tveimur ferðum, en leikfimiskennari skólans, Haraldur Sigurðsson, var með hópnum. Gekk ferðin vel, en varla sá nokkuð út úr bíl vegna veðursins. Tóku þessar tvær ferðir 5 klukkustundir. Aflýst var kennslu í barnaskólunum og gagnfræðaskólunum eftir hádegið vegna veðurs, og margir foreldrar treystu nemendum ekki í skólann í morgun.

Húsavík, 12. febr. — Seinni hluta dags í gær skall hér á stórhríð og hefur svo haldist í dag. Skaðar hafa ekki orðið svo vit1 að sé, en óþægindi nokkur. Áætlunarbíllinn frá Húsavík fór frá Akureyri kl.5 í gær og var þá lemjuhríð. Þegar hann kom að Krossi, skall alveg saman, en bíllinn komst samt til Húsavíkur. Var þangað komið kl. 10. Fólksbíll og vörubíll, sem síðar lögðu af stað frá Akureyri, komust ekki nema í Köldukinn, fólksbíllinn að Lækjarmóti og vörubíllinn að Ófeigsstöðum. Snjór var ekki til fyrirstöðu á vegi, heldur veðurhæð og hve dimmt var af hríð. Þessir bílar hafa ekkert getað rótað sér í dag og enginn bíll komið úr sveitinni. Áætlunarbíllinn fer ekki samkvæmt áætlun til Akureyrar á morgun. Kennsla féll niður í barnaskólanum eftir hádegi vegna óveðurs. — Fréttaritari.

Egilsstöðum, 12. febrúar: — Hjón héðan úr þorpinu lentu í miklum hrakningum í óveðrinu á Fagradal. Voru þau á leið frá Reyðarfirði til Egilsstaða í bíl sínum í gærkvöldi, þegar gekk í hríðarbyl. Var veðrið mjög slæmt rokhvasst, allmikið frost og fannfergi og fór bíllinn út af. Í morgun voru þau ókomin fram. En um kl.9 hringdi maðurinn, sem heitir Haraldur Gunnlaugsson, úr sæluhúsinu á Fagradal, hafði gengið þangað úr bílnum. Lagði snjóbíll af stað héðan og með honum Guðmundur Þorleifsson, bifvélavirki, sem er hraustur maður og vanur slíkum ferðum. Komst snjóbíllinn til hjónanna og lagði af stað til baka kl.3:30 síðdegis.

Seyðisfirði, 12. febrúar: Breskur togari, St. Wistan, strandaði í morgun á Leirunni, sem er hér í fjarðarbotninum. Var hann kominn inn til Seyðisfjarðar með vélarbilun og mun hafa verið að bíða fyrirmæla, er hann lenti of innarlega og rak upp. Stórviðri er hér, hríð og ofsarok, svo að plötur eru farnar að fjúka af húsum, t.d. Fiskiðjunni, Sláturhúsinu og tveimur íbúðarhúsum. Af þeim sökum hefur ekki verið hægt að komast út í togarann til að gera við vélina. En meðan hún fer ekki í gang, nær hann sér að sjálfsögðu ekki út sjálfur a.m.k. Skipverjar eru um borð og ekki taldir í neinni hættu þar.

Mikið rok var á Selfossi í gær, einkum á tímanum kl. 5—7 í síðdegis. Fuku þakplötur af skúr og dreifðust um þorpið. Á Þrengslavegi rákust tveir bílar á í hríð og hálku.

Húsavík, 12. febrúar: Bóndinn á bænum Vellir í Þistilsfirði fótbrotnaði í morgun, er tunna fauk á hann, þar sem hann var úti við gegningar. Símasambandslaust er frá Reykjavík til Þórshafnar og nálægra staða, en eftir því sem fréttaritarinn á Húsavík gat best fengið upplýst um þetta slys vildi þetta þannig til: Í morgun er bóndinn á Völlum, Þórarinn Þorvaldsson, var að fara milli húsa (líklega fjárhúss og íbúðarhúss) í grenjandi stórhríð, fauk á hann tunna og fótbraut hann. Bóndinn var einn og gat hann því enga aðra björg sér veitt en að skríða og tókst honum við illan leik og eftir mikla þrekraun að ná heim til sín. Geta menn gert sér í hugarlund að til slíks hefur þurft mikið þrek í stórhríð og miklu frosti, þó ekki sé vitað hve löng leiðin var. Símað var til læknis til Þórshafnar, og lagði héraðslæknirinn, Friðrik Sveinsson af stað um hádegi, en gekk ferðin mjög illa. Þegar síðast fréttist um kl 19, var læknirinn kominn að Sævarlandi eða um 30 km. leið. Var , hann þá búinn að skipta þrisvar um bíla og þriðji bíllinn, sterkur og mikill bíll, var á leiðinni frá Þórshöfn. Vonir stóðu til að læknirinn næði til sjúklingsins milli kl. 9 og 10 í kvöld, en milli Sævarlands og Valla er 5 km. leið, en í stórhríð að fara.

Tíminn segir af ísnum 14.febrúar:

MB-Reykjavík, laugardag. Norðanveðrið er nú gengið niður um allt land, en þó var enn hvasst á hafinu austur og suðaustur af landinu um miðjan dag. Ísinn er enn mjög skammt undan landi og hefur valdið miklu veiðarfæratjóni hjá Vestfjarðabátum. Í dag var í fyrsta skipti í langan tíma flogið yfir íssvæðið og sáu leitarmenn ísspangir í mynni Ísafjarðardjúps og margar spangir fimm mílur frá landi og nær út af Vestfjörðum norðanverðum. ... Fréttaritarar blaðsins á Vestfjörðum hafa sagt okkur frá miklu veiðarfæratjóni báta þaðan vegna ísreks. Guðmundur Sveinsson á ísafirði sagði okkur í dag, að samkvæmt fregnum frá bátum á miðunum virtist ísröndin vera um 23 mílur undan Kóp (milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar) og um 20 mílur undan Barða (milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar) og á öllu þessu svæði og að Straumnesi væri mikið ísrek á miðum bátanna. Hann kvað marga báta í dag ekki hafa lagt nema hlut af línunni.

En það hlánaði strax aftur og enn varð aurbleyta til vandræða. Tíminn 16.febrúar:

KJ-Reykjavík, mánudag Þung færð er nú víða á vegum landsins vegna aurbleytu, og á einum stað, að minnsta kosti, flæddi á yfir veg í dag vegna krapastíflu. Var það Bjarnadalsá í Norðurárdal í Borgarfirði.

Morgunblaðið segir 16.febrúar frá vatnsflóði í stórhríð og skaða sem það olli - og síðan eru enn frekari fregnir af ofsaveðrinu:

Um 500 hænsni drukknuðu í hænsnahúsinu. Íslensk veðrátta getur valdið bóndanum miklum erfiðleikum og jafnvel stórtjóni, hvað þá þegar aðrir eins umhleypingar eru og snögg veðraskipti á þorra, eins og var í sl. viku. Fréttaritari blaðsins, Víkingur bóndi á Kífsá í Eyjafirði, lýsir hér tveimur slíkum dögum bóndans, föstudag og laugardag í s.l. viku [12. og 13.]. Hjá nágrönnum hans, á Lónsbakka, varð stórtjón, er lækur stíflaðist af skafli og vatnið fór inn í hænsnahúsið og drekkti 500 ungum og olli meiri skemmdum. Er giskað á að tjónið af þessu sé um 100 þúsund krónur. Fer frásögn Víkings hér á eftir í fréttabréfi.

Kífá, Akureyri, 15. feb. Kæru vinir. Héðan af norðurhjaranum er sitthvað að frétta, þegar farið er að tala mann til og rekja úr manni garnirnar. Fyrst er það þá veðrið, eins og vant er. Þetta hefur verið dásamleg tíð allan þorrann, að einum degi undanskyldum. Ef maður sleppir goluskrattanum um daginn, en hún kom eitthvað misjafnt niður og það var ekkert mjög hvasst hér. En á föstudaginn fékk maður að kynnast þorra gamla, eins og hann er að  eðlisfari. Um morguninn sá ég að það var ekkert skólaveður fyrir strákana (10 og 11 ára), svo að ég ákvað að hafa þá með í fjósið. Við lögðum svo af stað í jeppanum eftir að hafa hresst okkur vel á kaffi og hafragraut. En fljótt eftir að húsveggnum sleppti, sáum við ekki til jarðar fyrir kófi, svo að ég sagði eldri stráknum að hlaupa á undan og vísa veginn. Ég varð að fylgja honum fast eftir til að sjá hann og þó var orðið bjart af degi. Eftir skamma stund kom hann og kvartaði um að hríðin væri sár í andlitið. Ég sendi þá þann yngri og hljóp hann á undan um stund, en þá fór jeppinn að hiksta og drap loks á sér. Við skildum bílinn svo eftir og löbbuðum í fjósið, en það er röskur kílómeter. Þar var allt í besta lagi, nema hvað ein kýrin var að beiða og urðum við að sleppa henni hjá. Ég skildi svo drengina eftir við gegningarnar, en fór að huga að hænsnum, sem ég á um einn km frá fjósinu. Þá tók ég eftir að lækirnir voru í hroða vexti ennþá eftir hlákuna undanfarið. Það hafði leyst til fjalla og seig enn undan og veðraskiptin voru svo skammt að jörðin var þíð undir snjónum. Það var því sýnilegt að ef ræki í lækina svona, mundu þeir bólgna mikið upp. Ég komst í hænsnahúsið, en ekki var árennilegt að komast inn, fennt fyrir allar dyr og kófið svo mikið, að það var nær ógerningur að moka. Mér kom þá í hug gamalt ráð beitarhúsamanna á Hólsfjöllum og fór að athuga strompinn. Jú, hann var myndarlegur, eins og annað á þessu búi, sem Brynjólfur Brynjólfsson lét byggja, en er nú eign Útvegsbanka Íslands, og hinn besti inngangur. Ég var fljótur að fleygja í hænsnin og dreif mig svo af stað til baka. Ég kom við hjá Jónasi á Lóni, en þar er hænsnabú byggt á Lónbakkanum. Lónið er lækur, sem aðrir lækir renna í úr fjallinu. Jónas hafði komið gangandi úr bænum, um 5 km leið, og var hinn hressasti að vanda. Við athuguðum lækinn og var ekki að sjá að hann væri hættulegur ennþá. Ég hélt svo áfram upp í fjós og voru strákarnir þá langt komnir með fjósverkin, en flórinn varð að vera ómokaður þetta málið. Við drifum okkur svo heim og komum við í fjárhúsunum á leiðinni og gáfum fénu.

Það var farið að halla af degi, þegar við komum heim holdvotir og klökugir eftir að fara úr einu húsinu í annað og út í hríðina á milli. Við borðuðum vel og fórum í þurrt og lögðum svo af stað aftur til að gera kvöldverkin. Þá var svolítið farið að lægja, en versta veður samt. Lónið hafði haldið áfram að bólgna upp og var nú farið að flæða yfir veginn og upp á túnið á Mýrarlóni, þar sem aldrei er vitað til að hafi flætt fyrr. Á laugardagsmorguninn þurfti í ýmsu að snúast. Nú þurfti að koma bílnum í gang og koma tveggja daga mjólk á veginn. Ég varð að láta strákana vera heima og hjálpa mér með fjósið. Svo varð ég að láta draga bílinn í bæinn. Háspennukeflið var ónýtt og hann allur uppfenntur og klukkan var orðin þrjú, þegar ég kom til hænsnanna til að gefa fyrri gjöfina. Klukkan að ganga fimm kom ég til Jónasar á Lóni og þar var heldur ljótt um að litast. Skafl hafði dregið þvert yfir Lónið, rétt fyrir neðan hænsnabúið og stíflað það og vatnið hafði runnið inn í húsið. Um allt húsið var hnédjúpt vatn um morguninn þegar að var komið og nær helmingur af hænsnunum dautt. „Ef við hefðum ekki verið búnir að koma upp skítapöllunum hefði allt verið dautt," sagði Jónas, þegar ég hitti hann. Það fóru um 500 stykki, flest ungar, komnir að varpi. Þeir voru óvanir prikunum og engin prik hjá sumum þeirra. Þar fóru allir nema nokkrir sem stóðu ofan á líkunum af þeim dauðu, þar sem þeir höfðu hrúgast upp.“ Kornbirgðir voru stórskemmdar og ónýtar og allt rennandi blautt, hvergi hægt að gefa hænunum, nema í dalla, en þær eru vanar að fá kornið á gólfið. Svo má reikna með að þær sem eftir lifa hætti að verpa í bili að minnsta kosti. Það er vægt reiknaður 100 þús. kr. skaði fyrir þessa ungu menn, sem þarna hafa verið að koma upp sjálfstæðu fyrirtæki af fádæma dugnaði og þrautseigju, en þeir eru Jónas Ellertsson og Óskar Hermannsson. Kl. var að ganga sex þegar ég kom heim í hádegismatinn þennan daginn og þó hafði ekkert komið fyrir hjá mér, — Víkingur.

Höfn, Hornafirði, 14. febrúar. — Síðastliðinn föstudag [12.] gerði hér afspyrnurok af norðri. Telja eldri menn að veður þetta sé ámóta og hið fræga páskaveður 1917. Miklar skemmdir urðu á mannvirkjum á mörgum sveitabæjum. Það helsta er að þak fauk af heimavist barnaskólans í Suðursveit, á annað hundrað járnplötur. Á Reynivöllum fauk jeppi og fór margar veltur. Á Jaðri í sömu sveit fauk vörubíll um eina veltu. Víða brotnuðu rúður úr gluggum og á einstaka stað fauk eitthvað af járnplötum af húsum. Á Krossbæ í Nesjum tók þak af nýrri þúsund hesta hlöðu, þannig að önnur hliðin lagðist inn en hin fauk af. Á Reyðará í Lóni fauk fjárhús og hlaða og nokkuð af heyi. Fénaður allur hafði hrakist frá húsum en bjargaðist í djúpum grafningum, sem þar voru nærri, en hús þessi standa á bersvæði, og lá ekkert fyrir fénu annað en lónið, ef grafningar þessir hefðu ekki bjargað. Í Svínhólum sem er eyðijörð, tók þak af tveim hlöðum, 13 símastaurar brotnuðu í Lóninu, bara af hvassviðrinu. Túngirðing á Reyðará sópaðist alveg burt og mikið grjót fauk á tún. Bátur skemmist af eldi. Klukkan 7:30 á laugardagsmorgun varð þess vart að eldur var laus í m.b. Hvanney SF 51 þar sem hún lá við bryggju. — Slökkviliðið kom óðara á vettvang og tókst að slökkva eldinn á 40 mínútum. Mjög miklar skemmdir urðu á bátnum. Brann þil það sem er milli lúkars og lestar. Lúkarinn er mikið sviðinn innan en hann er allur þiljaður með harðplasti. Dekk, mastur og þilfarsbitar brunnu og nokkuð. Báturinn fer nú í slipp til Neskaupstaðar. Má búast við að viðgerð taki mánuð. — Gunnar

Breiðdalsvík, 13. febr, — Ofsaveður með snjókomu gekk hér yfir í fyrrinótt og í gær. Þakplötur fuku af íbúðarhúsi í Snæhvammi og símalínur slitnuðu beggja vegna Breiðdalsvíkur. Þetta er í annað sinn á þessum vetri, sem við erum símasambandslaus. Brýn nauðsyn er að Landssíminn og Slysavarnafélögin starfræki talstöðvar til öryggis íbúum afskekktra byggðarlaga. — Fréttaritari

Tíminn segir 18.febrúar tjónafregnir - úr fyrra veðrinu [9.].

SA-Fagurhólsmýri, miðvikudag. Nóttina milli áttunda og níunda þessa mánaðar gerði mikið hvassviðri hér í Öræfunum. Á Fagurhólsmýr'i voru 8—9 vindstig, en á Kvískerjum, sem er austasti bær í Öræfum, gerði eitt hið mesta fárviðri, sem þar hefur komið í manna minnum. Virtist fárviðrið vera á mjóu belti, og var svo mikið, að það drap veiðibjöllu í hrönnum og eru þess aðeins fá dæmi hér um slóðir svo kunnugt sé. Fárviðrið á Kvískerjum stóð í um það bil tólf tíma. Því fylgdi mikið grjótflug og um tuttugu járnplötur fuku af vélaskemmu og hlöðu á bænum. Einnig skemmdust gluggar, og rúður brotnuðu af norðurhlið húsanna. Svo virtist að hvassviðrið væri aðeins á takmörkuðu svæði eða á eins til tveggja kílómetra belti út frá bænum. Þar hefur grjótfokið orðið mest og skafið allan grassvörð, þar sem ís huldi ekki, en þó ekki af ræktuðu landi. Þar úti á fjörunum fundust 50 veiðibjöllur dauðar eftir veðrið. Á Breiðamerkursandi hefur það áður komið fyrir, að veiðibjöllur hafi drepist í fárviðrum, en þá aðeins í skararbyl. Einnig getur Hannes á Núpsstað þess, að er hann fór í póstferð árið 1918 [rétt: 1917] eftir hið svonefnda páskaveður, hafi verið mikið af dauðum fugli á sandinum, aðallega skúmi, austan við Stemmu. Á Breiðamerkursandi skemmdust símalínum 4 símastaurar brotnuðu og línur slitnuðu og um 60 símakúlur brotnuðu. Hinn 12. þessa mán. slitnuðu einnig símalínur á Skeiðársandi í norðaustan hvassviðri, og varð þá símasambandslaust við sveitina hér í 3—4 daga. Enn þá er símasambandslaust héðan við sveitirnar austan Breiðamerkursands.

Morgunblaðið segir 18.febrúar enn fregnir af tjóni - nú úr síðara veðrinu:

Vopnafirði, 17. febr. Símasambandslaust hefur verið í nokkra daga hér. Á föstudag kom hér versta veður, sem elstu menn í Vopnafirði muna. Veðurhæðin var geysileg, nokkur snjókoma og mikill skafrenningur. Á tveimur bæjum í sveitinni, sem hafa dyr í suðurgafli, átti fólk erfitt útgöngu, þar sem snjórinn safnaðist þar fyrir. Skólinn var lokaður eftir hádegi. Á laugardag brá til betri áttar og gerði hláku. Á sunnudag átti að halda áfram norrænu skíðagöngunni, en þá var svo komið snjólagi, að ekki tókst að finna nógu langa göngubraut. Á þriðjudag var sunnan gola og 10 stiga hiti kl.8 að morgni. Nú er akfært um alla sveitina. Mjólkurflutningar lögðust aðeins niður á föstudag og fram á miðjan laugardag. — R.G.

Austurland segir nú fregnir af tjóni í síðara illviðrinu í pistli 19.febrúar:

Frá Fáskrúðsfirði. Búðum 17. febr. — BB/GÓ Fárveður Síðastliðinn föstudag [12.] rauk hér upp með eitthvert hið mesta fárveður, sem menn muna, og þó að skaðar yrðu töluverðir, má segja að þeir urðu minni en vænta mátti. Mestir skaðar urðu á húsþökum og þá fyrst og fremst á félagsheimilinu nýja. Er því kennt um, að samkvæmt brunareglugerð er bannað að hnykkja nagla og því séu þakplötur yfirleitt lausar. Af félagsheimilinu fuku allar plötur af innþakinu. Ekki urðu skemmdir innanhúss. Gert hefur verið við þakið til bráðabirgða. Þá fauk og að mestu þakið af bátaskýli Einars Sigurðssonar í Odda. Ein trilla snerist við og fleira bæði fast og laust fór á stjá. Má reyndarkallast mildi, að ekki skyldu verða slys á fólki, má eflaust mest þakka það því, að fáir voru á ferli meðan veðurofsinn var mestur, enda engum úti vært.

Eins og áður sagði skipti aftur yfir í veruleg hlýindi að loknu illviðrinu. Allsterk sunnanátt varð og olli hún hláku - en snjór var þó hvergi mikill.

Morgunblaðið segir 17.febrúar frá flóði á Þingvöllum:

Fréttir bárust af því í gær, að Öxará flæddi yfir veginn á Þingvöllum og Vellina ofan i Nikulásargjá, en hefði ekki valdið vegarspjöllum.

Tíminn segir 23.febrúar frá grjóthruni undir Eyjafjöllum:

EÓ—Þorvaldseyri, mánudag. Í morgun lá við stórslysi á bænum Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum, er grjótskriða féll úr Lambafellsfjalli. Stór björg lentu á skúr við bæjardyrnar og á fjósþekjunni, en svo giftusamlega tókst til að hvorki menn né skepnur sakaði. Þetta gerðist um tíuleytið í morgun. Hróbjartur Pétursson, bóndi á Lambafelli var staddur í fjósinu en annað heimilisfólk var inni í bænum. Heyrði hann þá þyt í lofti líkt og þrýstiloftsflugvél færi yfir og um leið skaust hundur hans inn í fjósið og bar sig aumlega. Fór Hróbjartur þá út í fjósdyrnar til þess að aðgæta hverju þetta sætti, en um leið staðnæmdist heljarstórt bjarg um sex metra á hvern veg við fjósgaflinn. Í sömu svifum skall annað bjarg á fjósþekjunni af svo mikilli ferð, að það fór ekki niður í fjósið heldur reif skarð fram úr þekjunni og skall niður á steypt haughúsþak fyrir framan fjósið. braut það og sat fast í gatinu. Var þetta bjarg um einn metri á hvern veg. Vestan við íbúðarhúsið er skúr fyrir bæjardyrum. Hafði enn einn steinn, einnig um metri á hvern veg, farið fram sundið milli hlöðu og íbúðarhúss, brotið reykháf um og staðnæmst fyrir framan bæinn. Þá hafði einn steinn af líkri stærð staðnæmst fast við búrgluggann en ekki valdið skemmdum á húsinu. Við íbúðarhúsið stóð fólksbíll af Moskvits-gerð og var hann eign fatlaðs pilts á bænum, Enn einn steinn lenti á honum og stórskemmdi hann. Þess má geta, að þar sem stærsta bjargið stöðvaðist við fjósgaflinn, hafði um morguninn staðið nýleg dráttarvél, en af tilviljun hafði hún verið hreyfð og slapp því. Furðu litlar skemmdir urðu á túninu, því aurskriðan staðnæmdist ofan við túnið, nema björg þau er fyrr voru nefnd Má teljast mikil mildi, að ekki skyldi stórslys hljótast af þessu skriðufalli. [Í Morgunblaðinu 26.febrúar má sjá myndir af björgunum og skriðunni].

Slide5

Það eru fjögur risaháþrýstisvæði sem keppa um hæsta 500 hPa-flöt febrúarmánaðar í sögu athugana yfir Keflavíkurflugvelli. Metið sem enn stendur er frá hádegi 21. febrúar 1965, 5782 metrar, 12 stundum síðar en gildistími kortsins hér að ofan. Næst þessu kemst svo hæðin mikla í lok febrúar 1962, en þá varð loftþrýstingur við sjávarmál hærri en 1965, 1051,7 hPa, en þann 21. 1965 fór þrýstingur í 1048,6 hPa á Vopnafirði. 

Nú nálgaðist ísinn fyrir alvöru. Tíminn segir ísfregnir 26.febrúar:

MB-Reykjavík, fimmtudag OLD. Meiri ís er nú fyrir Norðurlandi en verið hefur áratugum saman og er lega hans þannig, að þeir sem best þekkja til telja hættu á því að Austfirðir geti fyllst af ís, ef ekki verður breyting á átt. Hafísbreiðan er aðeins örskammt frá ystu töngum norðanlands, og má einnig búast við að hún geti orðið þar landföst, ef norðanáttin helst. Blaðamönnum var í dag boðið í flug með TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar. Flogið var norður með Vestfjörðum og fyrsti ísinn sást 70 km út af Stiga. Í mynni Ísafjarðardjúps er svo stór en gisin ísbreiða, mun þéttleiki hennar vera frá tveim til fjórir áttundu, og er hún fær skipum í björtu. Þá eru ísrastir upp að Kögri og Straumnesi, þær eru mjóar og færar skipum í björtu. Íshrafl er upp undir land við Horn, en austan við Horn fjarlægist ísinn landið nokkuð og er einkum stórt vik norður í ísröndina út af Húnaflóa. Út af Skagafirði þverbeygir ísinn svo að landi og er aðeins 4 mílur frá Siglunesi og liggur þar á kafla austur með landinu á móts við fjöllin austan Eyjafjarðar. Er þarna um að ræða ísbreiðu, sem virðist hafa losnað nokkuð frá meginísnum og er jakahröngl milli hennar og meginíssins. Íslítið er vestan við Grímsey, en skammt norður af henni er samhangandi og allþétt ísbreiða, eins langt og séð verður. Um hádegið í dag hringdi fréttaritari blaðsins í Grímsey og sagði hann að ísinn sæist þá greinilega frá Básum. Er við flugum yfir eyjuna var þar þoka, og byrgði hún raunar víða útsýni. Hún grúfði einkum þar yfir, sem ísinn var gisinn, en greiddist heldur í sundur þegar samfelldur ís var undir.

Ísbreiðan norður af Grímsey liggur svo austur með og norður af Hraunhafnartanga á Sléttu gengur svo ístota til suðurs, og er aðeins 12 sjómílur frá Hraunhafnartanga. Síðan liggur ísinn í boga um 60 km. norðaustur af Langanestá og beygir þar til suðurs og er syðsta tungan nú um 150 kílómetra undan landi, beint út af Gunnólfsvíkurfjalli á sunnanverðu Langanesi. Tunga þessi bendir til þess að Austur-Íslandsstraumurinn sé farinn að hafa áhrif á ísrekið, enda eru áberandi margar mjóar en þéttar rastir í þessari tungu, með aðeins jakastangli á milli, Þessar ísrastir virðast stefna þvert á strauminn og er mjög hætt við því, að ísinn haldi áfram að reka suður með Austfjörðum og kvað Jón Eyþórsson ekki enn unnt að sjá fyrir afleiðingar þess. Ókunnugt var um þessa ístungu fyrr en flogið var þarna yfir í dag, og má raunar segja, að hún sé einna alvarlegasta sönnun þess, að hætta er á að landsins forni fjandi geti hæglega gert mönnum búsifjar að þessu sinni, ef ekki bregður skjótlega til austan- eða sunnanáttar. Er nánar sagt frá því á baksíðu blaðsins. Ís sá, sem er fyrir landinu, er venjulegur vetrarís, að sögn Jóns Eyþórssonar, veðurfræðings, sem var með í þessari ferð, og flestar þessar upplýsingar eru hafðar eftir. Hann kvað ísinn yfirleitt vera þunnan, frá 80—100 cm á þykkt. Ísinn er mjög brotinn og er ískurlið víðast sundurlaust, nema í ísbeltum og röstum, þar eru sumstaðar jakasamfellur og belti, mest ber á því austan til. Enn eru belti þessi ekki samfrosta en ef frost gerir má búast við því, að þau frjósi saman og verði þá með öllu ófær skipum. Jón kvaðst ætla, að nú væri meiri ís fyrir Norðurlandi en verið hefði áratugum saman, telur hann að svona mikill ís hafi vart verið þar síðan á öðrum áratug aldarinnar.

MB-Reykjavík, fimmtudag. Eins og s]á má af samanburði á ískorti því, sem birt er hér á síðunni og Landhelgisgæslumenin teiknuðu á leið heim úr ísfluginu í dag og á því korti, sem birtist í fimmtudagsblaðinu, hefur ísinn færst mikið nær landi á einum sólarhring. Hefur hann rekið allt að 24 mílum nær sums staðar, að sögn Þrastar Sigtryggssonar, skipherra. Þá fannst nú einnig ístunga, sem virðist á ferð suður með Austfjörðunum, og ef ekki verður breyting á átt, getur svo farið að Austur-Íslandsstraumurinn beri hann inn á Austfirði, en það hefur ekki komið fyrir i hálfa öld, svo nokkru nemi. Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, sagði í viðtali við blaðið, að greinilegt væri, að Austuríslandsstraumurinn væri farinn að hafa áhrif á ístungu þá, sem nú gengur suður með Norðausturlandinu. Verði áframhaldandi vestanátt og norðvestlæg átt fyrir norðan land, má búast við því, að stöðugt reki meira og meira úr ísnum austur fyrir. Þar tekur Austuríslandsstraumurinn við honum og keyrir hann suður með Austfjörðunum, en þessi straumur beygir vestur á bóginn, þegar komið er fyrir Berufjörð, og hefur stundum borið ísinn vestur með Suðurlandi, eins og síðar verður sagt frá. Jón kvað enn ekki hægt að segja neitt fyrir um afleiðingarnar af ístungunni austur af Langanesi, en svo gæti farið, ef ekki skipti um átt, að straumurinn bæri ísinn suður með Austförðum og inn á þá. Slíkt hefur ekki komið fyrir lengi. Hins vegar kvað hann þennan ís það þunnan, að hann myndi fljótlega bráðna, þegar kæmi suður með landinu, svo fremi engar stórvægilegar breytingar yrðu frá því sem nú er. Þess má geta í þessu sambandi, að Veðurstofan telur engar breytingar á vindátt sjáanlegar. og má því búast við að ísinn haldi áfram að lóna þar sem hann er nú og haldi áfram að færast nær landinu. Þeir Jón og Þröstur Sigtryggsson skipherra kváðu allmiklar breytingar hafa orðið á ísnum frá því í gær, einkum austan Horns, Að vísu hefur ísinn þokast talsvert nær landi í Ísafjarðardjúpi en þegar kemur austur fyrir Horn, er munurinn meiri. Til dæmis hefur hann rekið um 16 sjómílur nær landi á Strandagrunni og út af Rifstanga hefur hann nálgast um 24 sjómílur. Í gær var ísinn 14 sjómílur út af Sauðanesi, en nú er hann aðeins fjórar mílur þar undan. Jón kvaðst óttast, að einnig fyrir Norðurlandi gæti ísinn orðið landfastur, ef þessi átt héldist.

Hins vegar berst ís aldrei suður fyrir Vestfjarðakjálkann, suður á Breiðafjörð, og ís sá, sem stundum hefur rekið að suðurströnd landsins í mestu ísaárum, hefur ávallt komið suður með Austfjörðum. Á þessari öld hefur ekki verið mikið um hafís hér við land, eftir að kemur fram á þriðja áratuginn. Jón Eyþórsson sagði okkur, að árið 1902 hefði verið mesta ísárið hér við land á öldinni. Í marslok það ár voru komin hafþök af ís fyrir Austurlandi og barst íshroði vestur um Ingólfshöfða. Við Rit (norðan Ísafjarðardjúps) var þá landfastur ís og í seinni hluta apríl lá ís með öllu landi frá Langanesi og suður á Papós og ískurl rak allt til Vestmannaeyja. Þá hvarf ísinn ekki frá Norðurlandi að fullu, fyrr en um miðjan júní. 1907 var mikill ís við Langanes þá fórst þar skip í ís 22. mars fimmtán sjómílur suðaustur af Langanesi. Var það norskt skip. 1911 fyllti Austfirði, suður að Berufirði, af ís í mars mánuði. Árið 1914 varð ís landfastur við Langanes í maímánuði, en náði ekki nema suður um Vopnafjörð. Síðan mun ís ekki hafa rekið fyrir Austfirði svo teljandi sé, að sögn Jóns. Þá má þess geta, að á seinni hluta síðustu aldar, nánar til tekið árið 1881. rak ís vestur um Meðallandsbugt og gengu, þá þrjú bjarndýr á land í Vestur-Skaftafellssýslu! Þess skal að lokum getið, að allmikil þoka var yfir ísnum er við flugum yfir hann í dag og fylgdi flugvélin ísröndinni eftir ratsjármælingum og má óhætt hrósa áhöfn vélarinnar fyrir leikni hennar og natni við það starf. Í áhöfn vélarinnar voru þessir menn: Þröstur Sigtryggsson, skipherra, Guðjón Jónsson, flugstjóri, Sigurjón Hannesson, stýrimaður, Ásgeir Þorleifsson, aðstoðarflugmaður, Ásgeir Halldórsson, loftskeytamaður og Ingi Loftsson, vélamaður.

ED-Akureyri, fimmtudag. Nokkuð hefur verið um það undanfarna daga, að menn við Eyjafjörð hafi gætt sér á hnísu kjöti. Ástæðan er sú, að í vikunni innikróaðist hnísuvaða, sem í voru um fimmtíu hnísur í smávík við Eyjafjörð, og hafa menn farið þangað til þess að draga sér björg í bú. Forsaga þessa máls er sú, að fyrir helgina voru miklar stillur við Eyjafjörð, og þrátt fyrir það að frost kæmist aldrei niður fyrir fimm stig, og væri yfirleitt ekki meira en 2-3 stig að næturlagi, skændi fjörðinn. Á mánudag gerði svo norðan hvassviðri og fór ísinn að reka að landi. Ísinn rak inn á Arnarnesvík, sem er fram undan Fagraskógi, og þar lenti stór hnísuhópur fyrir innan hann, og komust þær ekki út aftur, því ísrekið hrannaðist upp og var það mikið, að þær gátu ekki synt undir það.

Morgunblaðið segir 28.febrúar af hálku í Reykjavík:

Mikil ísing var á götum borgarinnar í gærmorgun [27.] og var lögreglunni kunnugt um 12 árekstra á tímanum frá því rétt fyrir 9 og fram til kl. 11. [Veðráttan segir ástæðuna hafa verið frostregn].

Tíminn segir 28.febrúar af góðri færð:

SÞ-Þingeyri, FB, MB, Reykjavík, laugardag. Færð er nú allgóð um land allt, að því er Snæbjörn Jónasson verkfræðingur Vegagerðarinnar sagði okkur í dag. Í gær var Breiðadalsheiðin opnuð fyrir bíla, og þar með mun vera orðið bílfært frá Bolungarvík, suður í Vatnsfjörð að minnsta kosti. Þingmannaheiði hefur verið farin á jeppum, en hefur samt ekki verið opnuð formlega fyrir bílaumferð. Er hún orðin snjólítil og ætti að vera hægt að ryðja hana með litlum tilkostnaði, að því er Vestfirðingar segja, ef ekki breytir um veður. Það er mjög sjaldgæft, að fært skuli vera alla þessa vegalengd á þessum tíma árs, þótt litlu hafi munað oft undanfarin ár, en nú má segja, að jeppafært sé að minnsta kosti frá Reykjavík og alla leið til Ísafjarðar.

Háþrýstisvæðið sem framan af mánuði hélt sig mest við Bretland þokaðist í síðustu vikunni nær Íslandi og nálgaðist metstyrkleika. Það fór síðan rólega vestur á bóginn. Lægðardrög komu hvert á fætur öðru úr norðvestri, yfir Grænland og ollu til skiptis vestan- og norðanáttum. Tvö urðu skæðari en önnur, það fyrra þeirra gekk yfir í byrjun marsmánaðar. Mikið norðanhvassviðri gerði í kjölfar þess. Tjón varð töluvert. Næsta lægðardrag fór yfir fáeinum dögum síðar - minnisstætt, en olli samt ekki tjóni sem talandi er um. 

Hafísinn lagðist nú að landi, náði hámarksútbreiðslu undir lok marsmánaðar. Tíminn segir frá 3.mars:

MB—Reykjavík, þriðjudag. Hinar verstu spár um hafísinn virðast vera að rætast. Hvöss norðan og norðaustanátt er um allt land og ísinn rekur óðfluga til lands og sennilegt má telja, að hann verði landfastur um allt norðanvert landið á morgun. Vegna afar slæms skyggnis hefur ekki verið unnt að kanna nákvæmlega hvernig ísröndin er í dag, en ísinn virðist reka hratt til suðvesturs, þar sem spurnir hafa verið af honum. Ófært er orðið til Grímseyjar vegna íss og leiðin fyrir Horn er ófær. Búist er við miklum truflunum á skipaferð um. Í dag hefur verið norðanrok og frost um mest allt landið og talsverð snjókoma norðan lands og skyggni slæmt. Veður hæðin hefur náð 10—11 vindstigum á nokkrum stöðum og frost er nálægt 10 stigum nyrðra og klukkan fimm í dag var frost um allt land nema í Öræfum. Fréttaritari blaðsins í Grímsey, Guðmundur Jónsson, sagði blaðinu í dag að geysimikið ísrek færi framhjá eyjunni til suðvesturs og ræki ísinn hratt. Þá var skyggni svo slæmt, að ekki sást neitt til meginíssins, en Guðmundur taldi, að ísinn ræki með 1—2 mílna hraða á klukkustund. Ófært er nú talið á skipum til Grímseyjar. Guðmundur Sveinsson á Ísafirði kvað mikinn ís kominn inn á Ísafjarðardjúp og rekur hann vestur Djúpið. Guðmundur kvað menn á Ísafirði óttast, að Djúpið yrði með öllu ófært á morgun. Olíulítið er orðið á Ísafirði, enda hafa menn keypt þar mjög mikla olíu undanfarna daga og birgt sig upp. Vitað er að talsverður ís er á reki á Húnaflóa út af Skaga og Siglunesi, í mynni Eyjafjarðar, inni á Skjálfanda og nokkrir jakar hafa orðið landfastir á Sléttu. Þá má einnig telja nær víst að ísinn leggist að Austfjörðum norðanverðum ef dæma á eftir vindáttinni, en engar ísfregnir hafa borist frá Austfjörðum í dag.

jma-1965-03-01-24

Dagana 24.febrúar til 6.mars fóru fjögur (eða fimm) lægðardrög úr norðvestri yfir landið. Fyrstu tvö (þrjú) voru veigalítil - en sveifluðu samt vindátt og hita, Næstsíðasta lægðardragið varð mun öflugra heldur en sú fyrri. Kortið hér að ofan sýnir stöðu þess seint að kvöldi mánudagsins 1.mars. Það dýpkaði ört og undir morgun skall á með norðanstormi um land allt og ört kólnandi veðri. Veður þetta varð sérlega slæmt undir Eyjafjöllum. Síðasta dagið í röðinni fór svo yfir þann 6., en olli ekki teljandi tjóni - þótt eftirminnilegt sé ritstjóranum. 

Morgunblaðið segir af fyrri degi illviðrisins  í pistli 3.mars:

Hríðarveður var um allt Norðurland í gær, 10—11 vindstig á norðan og frostið fór vaxandi. Af þeim sökum var lítið skyggni og sást því lítið til íssins úr landi, en skip voru lítið á ferðinni. Þó færðist ísinn nær landi fyrir Norðurlandi, svo sem eðlilegt má teljast í slíku veðri og talinn færast ört nær á Austurlandi. Gerðu menn eins ráð fyrir að ís yrði kominn inn á firði, þegar veðrinu slotaði. Skip fóru ekkert fyrir Horn, því þar hafði varðskip tilkynnt um landfastan ís í gærmorgun. Í gærmorgun sást samfelld ísbreiða frá Grímsey, skammt norðan við eyna og rak ísinn hratt til suðurs. Bárust einnig fréttir af stökum jökum inni á Eyjafirði og frá Hrauni á Skaga sást íshrafl, sem nálgaðist hratt. Litlafell var á ferð austur með Norðurlandi í gær og varð vart ísjaka mílu af Kjálkanesi og aftur 3 mílur norðvestur af Gjögurtá. Einnig varð skipið vart við ísspöng 4—6 sjómílur norðan við Flatey á Skjálfanda, en þar hefur ekki frést af ís fyrr. Þá fréttist af nokkrum landföstum jökum við Harðbak á Melrakkasléttu. Þyrill var á leið til Raufarhafnar austan megin, en sneri við í gær og fór til Seyðisfjarðar og bíður veðurs. Stapafellið sá í gær staka ísjaka á Ísafjarðardjúpi. Annars taldi varðskip sæmilega greiðfært að Horni í gærmorgun, en eftir það var landfastur ís. Fréttist af fastri ísspöng við Kögur.

Í gær var norðanhvassviðri um allt land með kulda og miklu sandroki, þar sem aðstæður eru fyrir slíkt. Í Vestmannaeyjum voru 12 vindstig og þar fauk olíugeymir frá húsi. Í Reykjavik fauk skorsteinn úr múrsteinum ásamt sjónvarpsloftneti af húsinu nr. 87 við Hverfisgötu.

Veðrið varð sérlega slæmt undir Eyjafjöllum. Tíminn segir frá 4.mars:

MB-Reykjavík PE-Hvolsvelli. Stórtjón varð í fárvirði undan Eyjafjöllum í gærkvöldi og í nótt, en erfitt er að gera sér að fullu grein fyrir því hve mikið tjónið er, því símasambandslaust er austur. Þó er vitað, að þök hafa fokið af mörgum húsum meira og minna og fjöldi símastaura og rafmagnslínustaura hefur brotnað og einnig hafa orðið skemmdir á bilum, meðal annars braut grjótfokið framrúður úr þremur mjólkurbílum. Blaðið náði í kvöld tali af Brynjólfi Björnssyni mjólkurbílstjóra, sem fór austur í dag til að ná í mjólk. Hann kvað þakplötur hafa fokið af fjárhúsi í Skarðshlíð, á Leirum sópuðust þök burtu af tveimur hlöðum. Í Berjanesi fór þakið af vélageymslu og rúður brotnuðu í fjósi i Nýabæ og í íbúðarhúsinu á Miðgrund. Á túninu í Ormskoti fauk jeppi á hliðina. Brynjólfur kvaðst ekki vita með vissu, hve miklar skemmdir hefðu orðið á símalínum og rafmagnslinum, en hann kvaðst hafa séð marga brotna símastaura og rafmagn fór af klukkan þrjú í nótt Á Skógum var rafmagnslaust frá því klukkan þrjú í nótt. Brynjólfur kvað tvo mjólkurbíla frá Kaupfélagi Skaftfellinga, sem voru á leið austur í gærkveldi, ekki hafa farið lengra en að Skarðshlíð og voru þá framrúðurnar farnar úr báðum bílunum vegna grjótfoks. Þegar hann var á leiðinni í dag sá hann vindstrók fram undan sér og skipti engum togum að steinhnullungur á stærð við bolta skall á framrúðunni og braut hana. Hafði rokið rifið þennan hnullung upp. Blaðið hafði spurnir af því, að rafmagn væri komið á undir Útfjöllunum í kvöld, þar eð svo vel hittist á að viðgerðarflokkur frá rafmagnsveitunum var staddur eystra til að gera við  Vestmannaeyjalínuna. Hins vegar var þá enn rafmagnslaust undir Austur-Eyjafjöllunum. Veðrið mun hafa náð hámarki í gærkveldi og nótt, en eins og sjá má af grjótfokinu í bílinn hjá Brynjólfi var enn ofsahvasst í hrinum í dag. Telja má víst, að tjónið undir Fjöllunum hafi orðið eitthvað meira en enn hefur tekist að fá upplýsingar um, en alla vega er ljóst, að tjónið er mjög mikið.

MB-Reykjavík, miðvikudag. Norðangarðurinn er að mestu genginn niður. Þó er enn allhvasst á Austfjörðum í kvöld, og þar hefur verið mikið foraðsveður og allir vegir tepptir vegna fannkomu. Norðanáttin mun ganga alveg niður á morgun, en á föstudag er spáð vestlægri átt með vægu frosti eða frostleysu vestanlands, en nokkru frosti austanlands. Ekki er reiknað með því að vestanáttin hafi neitt gott í för með sér norðanlands, heldur haldi áfram að keyra ísinn nær, en annars er því ekki spáð að hún verði mjög hvöss. Blaðið hafði í dag samband við fréttaritara sína á ísasvæðinu og fleiri kunnuga aðila og fara umsagnir þeirra hér á eftir:

Stefán Eggertss á Þingeyri símaði í dag að sjá mætti ísjaka á reki út á Önundarfirði væri farið rétt út fyrir þorpið. Vel væri fært í gegnum ísinn að deginum til, en gæta þyrfti mikillar varúðar við siglingu að nóttu til. Stefán fréttaritari hafði það eftir sjómönnum á bátum, að ísjakar væru komnir allt suður á Patreksfjarðarflóa. Guðmundur Sveinsson á ísafirði kvaðst hafa heyrt á tal sjómanna, og væri mikið ísrek vestur með öllum fjörðum alla leið suður á Patreksfjarðarflóa. Einar Hálfdáns fór fyrir Kóp í dag og varð að fara alveg upp undir landi til að komast fyrir ísnum. Hins vegar væri engan ís að sjá á Djúpinu sjálfu frá Ísafirði. Guðmundur P. Valgeirsson á Bæ í Trékyllisvík sendi skeyti síðdegis í dag og kvað hann hafísinn nálgast óðfluga. Væri samfelldur ís landfastur austur í Drangaskarð og Drangavík. Frá Dröngum sæist ekki út fyrir ísinn. Allmikið íshrafl væri út af Trékyllisvík, og ræki það hratt að landi, stakir jakar væru þegar orðnir landfastir. Guðmundur taldi allar líkur á því að allar víkur og firðir fylltust í nótt.

Guttormur Óskarsson á Sauðárkróki kvað ísjaka komna upp í fjöru á Borgarsandi, fyrir botni Skagafjarðar, en þar væri þó aðeins um nokkra jaka að ræða, 10 eða svo. Guttormur talaði við bóndann á Reykjum á Reykjaströnd og kvað hann þó nokkra jaka vera komna þar upp í fjöru og væri jakahröngl að sjá þar út með. Ísspöng var þá fyrir utan Drangey, en vegna slæms skyggnis var ekki gott að segja til um, hve stór hún væri. Bjarni Jóhannsson á Siglufirði kvað skyggni þar slæmt, en þó sæist ís úti á firðinum, en þar væri þó aðeins um einstaka jaka að ræða. Hann talaði við vitavörðinn á Sauðanesi vestan Siglufjarðar og bóndann á Reyðará austan fjarðarins. Á báðum stöðum var mikinn ís að sjá. Við Sauðanesið var hann orðinn landfastur og mikill ís að sjá úti fyrir. Sömu sögu er að segja frá Reyðará. Þar er ísinn einnig orðinn landfastur, en skyggni er slæmt, svo ekki sést hve mikill ís er þar úti fyrir.

Björn Stefánsson á Ólafsfirði kvað fjörðinn vera að fyllast af ís og þegar í nótt hefðu ísjakar komist inn í höfnina. Í morgun var mikill ís kominn inn á fjörðinn, og þegar póstbáturinn Drangur kom til Ólafsfjarðar í morgun varð hann að snúa við hjá Kleifum. Síðan hefði verið meira og minna ísrek inn fjörðinn í allan dag og væri nú mjög mikill ís kominn þar inn. Síðdegis í dag náði ísinn út Básavík í austanverðum firðinum, en heldur minni ís var þá enn vestan megin. Hins vegar var þá mikið ísrek inn vestan megin og kvað Björn allar horfur á því að fjörðinn fyllti af ís næstu klukkutímana. Hinsvegar var skyggni það slæmt að ekki sást nema rétt út í fjarðarmynnið. Björn kvað ís ekki kominn að ráði inn í höfnina sjálfa. Vír var strengdur milli hafnargarðanna til þess að hindra ísinn í að reka inn á höfnina vegna bátanna, en þrátt fyrir það hafa þó nokkrir stórir jakar komist inn fyrir. Pálmi Jóhannsson á Dalvík kvað fyrstu jakana hafa sést þar í gærkvöldi og í dag, einkum í hádeginu hefði verið talsvert ísrek, en skyggni væri slæmt. Talsverð hrönn væri komin í fjöruna austan við þorpið og í Hálshorni, sem er austan við víkina, væri kominn nokkur ís og mætti því telja víst að einhver ís væri kominn inn Eyjafjörð. Guðmundur Jónsson í Grímsey hafði þær fréttir að færa, að eyjan væri orðin umflotin ís, sem stöðugt ræki suðvestur á bóginn. Guðmundur kvað ísrekið meira í dag en í gær og spangirnar bæði stærri og þéttari. Hann kvað ísrekið nú ná orðið saman rétt fyrir innan eyjuna. Hann kvað óhætt að segja, að geysilegt ísmagn hefði rekið framhjá eyjunni þessa daga og væri ísinn nú orðinn mjög þéttur. Ekkert kvikt hefði enn sést á ísnum og engin borgaris hefði sést innan um. Guðmundur kvað
alla báta þeirra Grímseyinga hafa verið tekna á land, svo ísinn grandaði þeim ekki.

Þormóður Jónsson á Húsavík kvað engan ís sjást þaðan og vegna veðurs hafa engir bátar verið á sjó. Esjan kom til Húsavíkur í dag frá Akureyri og mun liggja þar, þangað til í birtingu á morgun. Skipinu gekk vel frá Akureyri. Þormóður ræddi í dag við Tryggva Blöndal, skipstjóra á Esjunni, og hvað Tryggvi töluvert íshrafl vera í mynni Eyjafjarðar, þó meira út af Gjögri. Norðaustur af Hvalvatnsfirði var ísinn þéttastur og þar varð skipið að þræða milli jaka. Eftir að skipið kom austur á Skjálfandaflóa sást enginn ís. Blaðið átti tal við húsfreyjuna á Grjótnesi, sem er nær yst á vestanverðri Melrakkasléttu. Hún kvað jaka sjást þaðan og væru nokkrir þeirra orðnir landfastir. Guðmundur Stefánsson á Harðbak á Melrakkasléttu kvað mikinn ís að sjá fyrir Sléttu. Jakar væru landfastir á fjörum og ísspöng að sjá úti fyrir og þaðan að sjá samfelldur ís úti fyrir. Guðmundur kvaðst ætla, að tvær til þrjár mílur væru út að spönginni.

Björn Kristjánsson, vitavörður í Skoruvík, gekk á fjörur í dag og fann þá rekinn dauðan rostung. Rostungurinn var fjórir metrar á lengd og einn og tuttugu þvert yfir. Björn kvað rostunginn ekki hafa verið alveg nýdauðan og voru vígtennurnar brotnar úr honum. Björn kvað ísinn hafa sést í dag frá Skoruvík, en skyggni væri mjög slæmt. Mjó ístunga væri komin upp í fjöru frá miðri Skoravík og út að Fossi, en fyrir utan hana virtist vera auður sjór, þá átta kílómetra, sem séð yrði. Þorsteinn Magnússon í Borgarfirði eystra sagði okkur þær fréttir, að enginn ís hefði enn sést þar, enda skyggni afleitt í gær og í dag, þar eð foraðsveður af norðaustri með snjókomu hefði geisað þar. Hins vegar sagði hann, að brim hefði verið minna en búast hefði mátt við, og drægju menn þá ályktun af því, að ís myndi vera úti fyrir.

SK—Vestmannaeyjum, miðvikudag. Hér gekk ofsaveður yfir í gærkvöldi og nótt. Náði veðurhæðin þrettán vindstigum af norðri, sem er mjög slæm átt hér vegna byljahættu. Olli veður þetta skemmdum á húsum og meiðslum á fólki. Alvarlegustu afleiðingar veðurs þessa voru þær, að þak tók af geymsluhúsi hér við kirkjugarðinn. Lenti þakið á húsinu á Fjólugötu eitt og mölbraut eldhúsgluggann þar, einnig setti það göt á þak hússins. Heimilisfólk sat að snæðingi í eldhúsinu, þegar þetta dundi yfir, og þyrluðust glerbrotin um fólkið og skarst það meira og minna og varð að sauma skurði á andlitum þess. Fleiri rúður brotnuðu og í húsinu og einnig mun brakið hafa lent á bíl er stóð úti fyrir og skemmdi hann eitthvað. Enn fremur fuku plötur af fleiri húsþökum, en ekki munu þær hafa valdið teljandi tjóni. Geysimikið særok gekk yfir bæinn og var næstum útilokað að aka bílum, vegna þess að rúðurnar urðu ógagnsæjar af völdum seltunnar undir eins.

Morgunblaðið segir frá Eyjafjallaveðrinu 5.mars:

Borgareyrum, Vestur-Eyjafjallahreppi, 4. mars. Norðaustan ofsaveður var hér undir Eyjafjöllum í fyrradag og fram yfir hádegi í gær er tók að lægja. Símabilanir hafa orðið miklar svo erfitt er að ná greinilegum fréttum úr sveitunum hér í kring. Veðrið hefur orðið að tjóni á húsum og mannvirkjum. Heyhlaða fauk í Skarðshlíð, sennilega fjárhúshlaða, tvær hlöður og fjárhús að Leirum fuku og að Berjanesi fauk geymsluhús og einnig svínahús að einhverju leyti, en bóndinn þar hefur svínarækt. Á Hvassafelli, nýbýli byggt úr jörðinni Steinum, fauk fjárhúshlaða, og í Holti fauk fjós að einhverju leyti. Þá brotnuðu rúður í húsum víða. Jeppi, sem var á leið eftir þjóðveginum við Holt fauk út af veginum. Bílstjórinn var Sigurður Eiríksson, bóndi í Ormskoti, en séra Sigurður Einarsson í Holti var með honum. Þá sakaði hvorugan við veltuna. — Markús.

Vík í Mýrdal, 3. mars. Norðan fárviðri brast á í gær og fylgdi því nokkurt frost, en ekki úrkoma. Veðurhæðin var svo mikil, að óstætt var í verstu hrinunum. Áætlunarbíllinn, mjólkurbílarnir og fleiri bílar, sem áttu að koma til Víkur í gær frá Selfossi og Reykjavík, komust ekki lengra en austur undir Eyjafjöll. Grjótflug var svo mikið í rokinu, að rúður brotnuðu í bílum og segldúkar sviptust af. Bílar komust ekki heldur frá Vík yfir Sólheima- og Skógasand, vegna veðurhæðar, sandbyls og grjótflugs Sums staðar var snjóföl og þar sást ekkert fyrir skafbyl. Símasambandið héðan til Reykjavíkur rofnaði og svo mikið ólag komst á Sogsrafmagnið, að notast varð við raforku frá gömlu ljósamótorunum í Vík. Tvö nýleg hús í Vík skemmdust töluvert í óveðrinu, þar sem þakplötur fuku af þeim. Á öðru húsanna fauk nokkur hluti þaksins í burtu og sperrur og bitar brotnuðu og fuku með þakplötunum. Lenti sumt af þessu á þaki þriðja hússins og skemmdi það dálítið. Nokkrir Vestmannaeyjabátar lágu í vari hér upp við ströndina í gær og fram til þessa. Menn telja þetta norðanhvassviðri það versta, sem þeir muna eftir að hér hafi komið. — Fréttaritari

Tíminn segir enn af ísreki 10.mars - og roktryggingum:

MB-Reykjavík, þriðjudag. Ísinn hér við land virðist í stórum dráttum ekki hafa breyst mikið frá því í gær, en þó mun hann yfirleitt hafa færst heldur fjær. Þó er ísinn enn skammt undan víða og til dæmis símaði fréttaritarinn á Raufarhöfn í dag, að höfnin þar væri lokuð eins og stæði vegna ísreks og skip, sem fór fyrir Melrakkasléttu í dag, tilkynnti að allmikið íshrafl væri á siglingaleiðinni. Einhverjar skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum á Raufarhöfn vegna ísreksins, m.a. á söltunarbryggju. Var verið að „teyma“ jakana út úr höfninni síðdegis í dag. Skip, sem fór fyrir Melrakkasléttu í dag tilkynnti að nokkurt íshrafl væri þar á siglingaleið. Ísinn við Grímsey er heldur gisnari en í gær, en þó er íshrafl við eyjuna og þéttari ís að sjá utar. Íshrafl náði í dag inn að Hrólfsskeri á Eyjafirði. Á Húnaflóa er enn talsverður ís og er aðeins fáar mílur undan Vatnsnesi. Suðlæg átt og hlýindi eru nú ríkjandi og spáð hægu veðri næstu daga.

MB-Reykjavík, þriðjudag. Brunabótafélag íslands hefur nú tekið upp „roktryggingar", það er að vátryggja hús gegn þeim skemmdum sem á þeim kunna að verða í roki Enn eru þessar tryggingar að nokkru á tilraunaskeiði og bundnar við einn hrepp, Austur-Eyjafjallahrepp, en þar hafa nokkrir bændur þegar tryggt hús sín á þennan hátt — og sumir notið góðs af.

Fréttamenn Tímans fóru austur undir Eyjafjöll og ræddu við heimamenn um vinda og illviðri þar um slóðir - ýmis konar fróðleikur kemur fram í þessari grein sem birtist í blaðinu  12.mars - dagsetningin sem nefnd er, 24. febrúar er vafasöm, hægviðri var á landinu þann dag eftir því sem best verður séð. Væntanlega er átt við miðvikudaginn 3.mars:

„Fárviðri undir Eyjafjöllum“, „Stórtjón í ofsaroki undir Eyjafjöllum“. „Þök fjúka af húsum undir Eyjafjöllum" ... Slíkar fyrirsagnir hafa býsna oft birst í íslenskum blöðum fyrr og síðar, og eiga því miður vafalaust eftir að birtast oft enn þá. Þessar fréttir hafa valdið því, að þegar við heyrum minnst á rok detta okkur Eyjafjöllin í hug, og þegar við heyrum minnst á Eyjafjöllin, dettur okkur rok í hug. Ef einhver skyldi láta sér detta í hug að þessi sífelldu rok undir Eyjafjöllum stöfuðu einfaldlega af því að þar væri eitthvað óvenju illa gengið frá húsum, þá er sá sami á slæmum villigötum staddur, því hvergi á Íslandi mun eins tryggilega gengið frá húsum og þar. Í stuttu máli sagt þá dettur engum þar í hug að ganga frá húsþökum og gluggum þar á sama hátt og gert er í vönduðustu húsum annars staðar. Til dæmis er í Reykjavík og sjálfsagt víðast eða alls staðar í kaupstöðum bannað að hnykkja þaksauminn, svo unnt sé að rjúfa þekjuna utan frá, ef eldsvoði verður. Þeir undir Fjöllunum segja, að þeir geti alveg eins fleygt járninu strax eins og skilið við sauminn óhnykktan. Og að þeir láti sér nægja að binda sperruendana niður í steypuna með einum vír, — nei, þeir eru ekki að henda timbrinu á þann hátt undir Fjöllunum.

Hún er fræg, gamla lygasagan, um það þegar naglbítur, sem var gaddaður niður í kálgarði undir Fjöllunum, fauk, en sumar sönnu sögumar eru hreint ekkert trúlegri, og satt best að segja myndi ég ekki þræta fyrir að hún gæti verið sönn! Sannleikurinn er nefnilega sá, að rokið undir Eyjafjöllum er ekkert venjulegt rok, eins og við eigum að venjast því. heldur óskaplegir og óútreiknanlegir sviptibyljir sem æða úr skörunum og kastast fram og til baka. Stundum fjúka þök í austur í austanátt, langar leið ir „á móti“ veðrinu, og þegar ofsaveðrið skellur á rammbyggðum þökum er það stundum að hlíðin, sem er í skjóli, lætur undan, einfaldlega vegna sogkraftsins.

Blaðamenn Tímans óku austur undir Eyjafjöll síðastliðinn sunnudag [7.mars], sumpart til þess að virða fyrir sér skemmdirnar í síðasta fárviðri, sem geisaði þar aðfaranótt miðvikudagsins 24. [?] febrúar, og sumpart til að spjalla við tvo fullorðna og greinargóða bændur þar eystra um rokið, fyrr og síðar. Á sunnudaginn var blíðskaparveður undir Fjöllunum, enda getur veðursæld verið þar ákaflega mikil. Sólríkir og lygnir sumardagar undir Fjöllunum eru til dæmis einhverjir fegurstu dagar, sem getur á landi hér, og þeir sem aldrei hafa ferðast undir Fjöllunum nema á slíkum dögum geta ekki ímyndað sér hamfarir náttúrunnar þar í almætti hennar. Nóttina áður en við komum hafði að vísu verið hvasst á þessum slóðum, og við heyrðum skáldprestinn í Holti segja yfir kaffibolla á Hvoli að „rafmagnið hefði farið af í Holti, eins og venjulega", en Eyfellingar kippa sér ekki upp við svoleiðis smámuni. Enda mun lítill skaði hafa orðið í því veðri.

Við hittum fyrst að máli Einar Jónsson bónda á Moldnúpi, sem um margra ára skeið var skipstjóri í Eyjum. Hann flutti síðan að nýju á föðurleyfð sína, en hefur þó ekki að öllu sagt skilið við sjóinn. Hann er sem sé formaður á síðasta sexæringnum undir Fjöllunum síðasta skipi, sem gert er enn út til fiskjar frá hinni hafnlausu strönd suðurlandsins á sama hátt og gert var öldum saman, en það er önnur saga. Og yfir rjúkandi kaffibollum tókum við tal saman. — Það þýðir ekkert að vera að segja þessar sögur héðan, sagði Einar. — Það halda allir, sem ekki þekkja til, að þær séu lygi, og hinum koma þær ekki á óvart. Einn merkisbóndi, sem býr hér nálægt mér, var eitt sinn samferða fólki austan úr sveitum í áætlunarbíl. Hann fór að segja því frá því, hvernig þessi veður höguðu sér, og hann krítaði hvergi liðugt, enda sannsögull maður með afbrigðum. Hann sá, að sessunautur hans var ekki meira en svo trúaður á frásögn hans og leit í kringum sig. Og þá sá hann, að þeir sem í kringum þá sátu byrgðu niður í sér hláturinn. Þeim datt bersýnilega ekki annað í hug en hann væri að segja tómar lygasögur. Ekki hefur hann þó verið að segja söguna um gaddaða naglbítinn? — Nei, sagði Einar og kímdi við, — en hann var að segja þeim frá einna ótrúlegasta atvikinu, sem ég hef heyrt. Það gerðist í Mínervuveðrinu svokallaða á þriðja áratug þessarar aldar. Þá var óskaplegt veður sem olli hér miklum skaða. Jörð var orðin þíð á yfirborðinu, en klaki undir. Þá kom óskaplegur sviptivindur hjá Hvammi og hann skrúfaði sig niður í jörðina og bókstaflega reif hana upp niður á klaka, og þeytti öllu út í buskann. Þarna var lengi far í jörðina eftir, en nú mun það varla sjást lengur. Það er ekki von að húsþök standist slíka vinda. — Og svo var það þegar hestasláttuvélin fauk á Núpi. Hún fauk að vísu ekki langt, en Sigurður heitinn Ólafsson, sem þar bjó og var mjög sannorður maður. sá þegar hún barst til fyrir vindinum. Þetta er vissulega ótrúlegt, því hesta sláttuvélar eru mjög þungar, það þarf tvo hrausta menn til ð færa þær til hliðar, og þær eru mjög lágar og taka lítið veður á sig. En engu að síður færði einn bylurinn hana til á Núpi. —

Veðrin hérna skella yfirleitt ekki á okkur að óvörum. Við sjáum það á skýjamyndunum á jöklinum, ef von er á þeim. Ef það myndast slétt, grá þoka á jökulhettunni, þá er vissara að vera við öllu búinn. Verstu veðrin eru í norðlægri átt, allt frá útnorðan og til austurs. En hina einstöku bylji getur enginn reiknað út. Þeir koma niður úr skörðum og dölum, æða fram og til baka og geta valdið stórskaða á einum bænum, en á næsta bæ hreyfist enginn hlutur. Til dæmis á Hvammi kemur það fyrir að vindsveipur æðir vestur fyrir núpinn og þar vestur úr. Þá myndast geysilegur sogkraftur meðfram hlíðinni, sem beinir stormsveipnum þangað og þar tvíeflist hann, og fer þá gjarna til baka austur með fjallinu. Og hið sama gerist raunar oft, þegar stormsveiparnir skella á húsþökunum. Þá sést ekkert á þeirri hlið sem snýr að veðrinu, en ofan við þá hliðina, sem undan snýr, myndast óskaplegur sogkraftur og hann sogar þakið út undan veðrinu. Og niður í lofttómið, sem myndast við skjólhlið húsanna skrúfar vindurinn sig einnig og rífur þar allt lauslegt í burtu. í síðasta veðrinu hérna til dæmis gerðist þetta. Annars varð hér lítið tjón þá. Ég á þungan heyvagn með járnbeisli og hann stóð í skjóli undir fjósveggnum. En engu að síður reif rokið hann með sér. Heim að bænum liggja rafmagns og símalínur á ská, þannig að vagninn hefur varla með nokkru móti komist á milli stauranna alla þá vegalengd sem hann fauk. Hann fauk hátt í hundrað metra niður á tún og hlýtur að hafa skrúfast upp fyrir línurnar, því hvergi hefur hann komið við staurana og hvergi er far eftir hann á jörðinni alla þessa leið. Nú liggur hann á hvolfi við heimreiðina og það er svo erfitt að velta honum við, að ég er að hugsa um að bíða eftir dálitlu austanveðri, til þess að rétta hann við! Við gengum út með Einari bónda. Hann sýndi okkur austangaflinn á steinsteyptu húsi og auðséð var, að efsti hluti hans hafði verið steyptur upp. — Það var í einu veðrinu, að það fauk hluti af þakinu hérna. Það var rammbyggilega bundið ofan í steypuna en rokið gerði sér lítið fyrir og reif bara efsta hluta hennar með sér og bar allt saman samhangandi góðan spöl. Í þessu sama veðri átti ég rauðviðartré, sem var tíu tommur á kant hér uppi á túni. Það fauk langar leiðir!

Nú stigum við upp í bílinn og ókum í austurátt og Einar bóndi fylgdi okkur. Er við komum yfir Holtsósinn beygðum við til suðurs því við ætluðum að líta á skemmdirnar af völdum síðasta veðursins á Berjanesi og Leirum, en á báðum þessum bæjum urðu miklar skemmdir. — Hérna er eitt almesta roksvæðið, sagði Einar, — á Steinabæjunum og bæjunum þar suður af, og reyndar ókum við áðan framhjá slæmu svæði. þar sem eru bæirnir Holt, Vallnatún, Ormskot og Grundarbæirnir, sem standa frammi undir Holtsnúpnum. Við hittum Andrés bónda Andrésson í Berjanesi heima á hlaði — og þar gaf á að líta. Fyrir öllum gluggum hússins voru rimlaflekar og sömu sögu var að segja um fjósgluggana. Örskammt frá bænum (í ca. tuttugu metra fjarlægð) stendur nýbyggð hlaða geysistór. Hún er steinsteypt og þræljárnbundin. Nú er mikið af járninu fokið burt af þaki hennar. Hún var byggð síðastliðið sumar og þetta er í annað skiptið, sem járnið fýkur. Þó var Andrés búinn að hnykkja hvern einasta nagla í þakinu í annað sinn. En það var ekki þakið sjálft, sem vakti mestu athygli okkar heldur norðurgafl hússins. Hann er byggður úr 16 cm þykkri steinsteypu og allur járnbundinn. Á tveim stöðum ganga stuðningsveggir í vinkilinn úr gaflinum einnig úr steinsteypu og járnbundnir við meginvegginn. Þeir ná upp á miðjan gafl. Og þessi rammbyggilegi steinveggur hafði bókstaflega fokið í sundur! Hann hafði rifnað að endilöngu fyrir ofan stuðnings veggina og lyfst upp á þá! Járnbindingarnar í veggnum höfðu ekki slitnað, en hins vegar gefið sig eitthvað. Þarna er ekki um annað að gera en steypa nýjan gafl þegar vorar. Hafi einhver efi leynst í hugskoti okkar yfir roksögunum undir Fjöllunum áður en við sáum þessi vegsummerki, þá hvarf hann í það minnsta núna. Það væri gaman að vita, hver styrkleikur þess vindsveips sem þessu olli hefur verið á vindmæli. — Þeir eru snarpir byljirnir hérna á stundum, sagði Andrés bóndi, — og þeir taka oft ekki yfir nema örmjótt belti. Til dæmis get ég sagt ykkur það, að við urðum ekki vör við þann byl, sem þessu olli heima í húsinu, og er þó ekki langt á milli. Járnplöturnar voru svo að tínast af fram eftir allri nóttu. — Þú neglir fyrir gluggana? — Já, annað er þýðingarlaust. Rokið sópar upp mölinni hér á hlaðinu og feykir með sér steinum af aurunum Rúðurnar verða eins og silunganet ef ekki er neglt fyrir gluggana. — Ég sá einu sinni rúður í bæ í Holtshverfinu eftir svona veður. sagði Einar. — Þær voru eins og smáriðið net krafturinn á steinunum hefur verið eins og á byssukúlu, því hvergi var brotið út frá, bara götin eftir steinana eins og klippt út úr. Næst lá leið okkar að Leirum. Þar býr ungur bóndi Jón Sigurðsson og hann varð einnig fyrir miklu tjóni í síðasta veðri. Skammt norðan við bæinn stóð hlaða og fjárhús. Í fjárhúsunum voru um áttatíu kindur þessa nótt. Húsin voru að vísu gömul, en tryggilega frá þeim gengið, eftir því sem hægt er við slík hús. Þakið fór af öllum húsunum í heilu lagi og lagðist fram og niður yfir fjárhúsið, yfir allan kindahópinn. Svo giftusamlega tókst að enga kind sakaði og ekki heldur hest sem var í kró í húsunum. Skammt frá var minni hlaða, steypt. Þakið af henni var horfið út í buskann. Okkur datt helst í hug loftárás.

Svo var haldið upp fyrir þjóðveginn að nýju og Gissur bóndi í Selkoti sóttur heim. Hann byrjaði á sama formálanum og Einar á Moldnúpi að það þýddi ekkert að segja þessar roksögur, það tryði þeim enginn. En við fullvissuðum hann um að við tryðum orðið hinu og þessu eftir að hafa séð steinsteypta vegginn í Berjanesi. — Ég er afskaplega veðurhræddur maður, sagði Gissur og tók í nefið og bauð öðrum að góðum og gömlum íslenskum sið. — Það á líklega rætur sínar að rekja til þess, að ég varð afskaplega hræddur sem barn. Það var um vor árið 1907, þegar ég var 8 ára. Þá gerði óskaplegt veður hérna undir Fjöllunum. Ég átti þá heima í Drangshlíð hjá foreldrum mínum. Þá nótt fauk hver einasta rúða úr húsinu í Drangshlíð. Fólkið tók sængur úr rúmum sínum og tróð í gluggana eftir því sem hægt var. Ég man að ég varð svo hræddur að ég skreið upp í til ömmu minnar. Þá var nýbúið að sleppa fénu og margt fauk ofan fyrir og drapst. Ég held að allt fólkið hafi verið hrætt og ég bý að þessu enn. Nei annars það var ekki allt hrætt. Ég man eftir gömlum manni þarna á heimilinu. og sá var nú rólegur yfir þessu öllu. Hann svaf alla nóttina, nema þegar umgangur fólksins hélt fyrir honum vöku og ég man enn eftir að hann reis einu sinni upp og hreytti út úr sér: „Hver andskotinn er þetta, getið þið ekki hangið í rúmunum!" Þá var hver einasta rúða farin úr bænum op allir aðrir en hann dauðhræddir um líf sitt! Og í þessu veðri gerðist einn af þessum ótrúlegu atburðum, sem þið eruð víst að sækjast eftir að heyra um. Hann gerðist á Hrútafelli. Það voru traðir heim að bænum, ég man nú ekki nákvæmlega lengur hve breiðar né háar þær voru, en mig minnir þær hafi verið nokkuð breiðar og garðarnir svona mittisháir. Þriggja vetra hestur stór og stæðilegur, var fyrir norðan traðirnar, þegar ein stormhviðan gekk yfir. Og heimilisfólkið horfði á klárinn takast á loft, svífa yfir traðirnar og koma standandi niður hinum megin við þær, án þess að snerta garðana! Þetta þótti ótrúleg saga og þykir víst enn, en fólkinu bar svo saman í frásögninni, og var enda mjög sannort að ég veit að þetta er satt. Hesturinn var kallaður Fok-Nasi upp frá því og ég man vel eftir honum. — Tapast ekki oft hey í þessum veðrum að sumarlagi? — Jú, blessaðir verið þið, hvort það gerir, eða öllu heldur gerði, það er nú orðið minna um það, vegna þess að slátturinn er fyrr búinn. Septemberveðrin voru oft verst. En ég man eftir að Sigurjón í Hvammi sagði einu sinni við mig, að hann vildi glaður gefa 60 hesta af töðu á hverju sumri ef hann ætti víst að annað hey fengi að vera í friði. Ég man eftir því, að pabbi var einu sinni að heyja á svokölluðum Helgubakka í Bakkakoti. Við vorum að hirða um daginn og fluttum heim á klökkum jafnóðum. Ekki höfðum við undan að flytja og um kvöldið var farið að hvessa og við sáum, að vonskuveður var í aðsigi. Við tókum það til ráðs að velta öllum böggunum saman og binda þá saman á bakreipunum. Svo bundum við reipi vandlega utan um alla hrúguna og gengum eins vel frá og okkur var framast unnt þar eð við bjuggumst við hinu versta. En morguninn eftir var ekki einn einasti baggi á sínum stað. Mest af heyinu var fokið út í veður og vind nokkuð hafði staðnæmst í jökulá. sem rennur þarna hjá og var vitanlega ónýtt. Annars stenst einn og einn baggi þessi veður auðvitað ekki. Þeir hverfa bara út buskann. Það er oft einkennilegt í þessum veðrum, hve verstu sveipirnir koma úr allt annarri átt, en veðrið stendur raunverulega af. Ég man til dæmis eftir páskaveðrinu 1917. Þá fuku og eyðilögðust hérna 5 skip af völdum veðursins, fjögur undir Austur-Eyjafjöllum og eitt undir Vesturfjöllunum. Þau fuku öll í buskann og brotnuðu, en eitt þeirra fauk í heilu lagi upp á bakkann og brotnaði þar í spón. Var þetta þó norðanveður og talsvert frá fjöllunum. — Og kannski það sé best að bæta einni við enn, sagði Gissur og kímdi. Ég veit fyrir víst að hún er sönn, því vegsummerki sá fjöldi manns. Það var einu sinni hlaða á Steinum, sem var steinsteypt. í einu svona veðri tók stormsveipur hana bókstaflega á loft í heilu lagi, veggi og allt saman niður í svörð og kastaði henni drjúgan spöl og þar skall allt niður í mask! Það var orðið áliðið dags, þegar við slitum okkur frá sögum og góðgerðum Gissurs og Gróu konu hans og héldum til Reykjavíkur. Og það voru „hljóðir og hógværir menn sem héldu til Reykjavíkur“, að þessu sinni í logninu og þökkuðu sínum sæla fyrir að hafa ekki lent í neinu þeirra veðra, sem við höfðum heyrt þessa skemmtilegu og greinargóðu bændur segja okkur frá.

Tíminn segir af ís 18.mars:

MB—Reykjavík, miðvikudag. Hafþök af ís eru nú fyrir öllum Ströndum. Ís er orðinn landfastur að nýju við Straumnes og frá Horni er landfastur ís sem ekki sér út fyrir með Hornströndum og Ströndum og í kvöld var ísinn búinn að loka Steingrímsfirði og kominn inn undir höfnina í Hólmavík og jakahröngl var komið inn á Hrútafjörð. Fyrir austan Húnaflóa hefur ísinn ekki færst nær, svo kunnugt sé, nema á Langanesi, þar færðist ísinn talsvert nær landi í dag og er þar komið mikið íshrafl á siglingaleið að nýju.

Þjóðviljinn segir af tjóni í sinubruna 23.mars:

Á sunnudagsnóttina brunnu fjárhús og hlaða sem stóðu í svonefndu Flatahrauni við Hafnarfjörð. Höfðu unglingar kveikt í sinu þarna skammt frá og breiddist eldurinn út um stórt svæði og komst í fjárhúsin og hlöðuna. Voru þau alelda er slökkviliðið kom á vettvang og tókst ekki að bjarga neinu sem í þeim var. Hins vegar tókst að verja þriðja húsið sem var áfast við þau. Eigandi húsanna var Gunnlaugur Stefánsson kaupmaður, hafði hann engar kindur í fjárhúsunum en geymdi í þeim timbur og fleiri byggingarvörur. Byggingarvörurnar voru allar óvátryggðar og er tjón eigandans því mikið. [Að sögn Vísis brunnu 6 til 8 þúsund fermetrar lands].

Sérlega kalt var í nokkra daga eftir þann 20.mars og minnisstæður næðingurinn í Borgarnesi. Tíminn segir af ísreki 24.mars:

MB-Reykjavík, þriðjudag. Ísinn hefur færst talsvert nær landi á austursvæðinu, þ.e. austan við Grímsey í norðanáttinni undanfarið. Eru nú hafþök af ís fyrir Sléttu, frá Skoruvík á Langanesi sést ekki út fyrir ísinn, hann er landfastur í Vopnafirði og Borgarfirði eystra og jakar hættulegir skipum eru komnir alla leið inn á Norðfjarðarflóa. Jónas Jakobsson veðurfræðingur sagði blaðinu í kvöld, að norðaustanáttin, sem ríkt hefur undanfarið fyrir norðan hefði greinilega þokað ísnum nær landi, einkum á austursvæðinu. Á vestursvæðinu hefðu breytingar ekki orðið miklar svo sýnilegt væri. Varðskip tilkynnti mikið ísrek í dag sex sjómílur norðvestur af Stiga í stefnu á Aðalvík, en skyggni var þá mjög slæmt. Þó töldu varðskipsmenn að ísinn myndi loka fyrir Straumnes. Frá Horni var tilkynnt í morgun til Veðurstofunnar, að þar væri endalausa ísbreiðu að sjá, hvert sem litið væri til hafs. Frá Grímsey var tilkynnt í kvöld, að stóra jaka og spangir hefði rekið í allan dag framhjá eynni til suðvesturs. Ísbreiðan væri landföst norðaustan á eynni og í þeirri átt sést ekki í auðan sjó. Frá Vopnafirði var tilkynnt í kvöld, að ísinn hefði í dag rekið til austurs og væri orðinn landfastur við Fagradal. Frá Dalatanga var Veðurstofunni tilkynnt klukkan fimm í kvöld, að stakir jakar og mjög gisið íshröngl væri á öllu svæðinu frá Norðfjarðarhorni og eins langt og séð yrði i norður og austur. Jakar væru í Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðarflóa og væru þeir hættulegir skipum. Mikið frost hefur verið nyrðra í dag, 10—16 stig og norðaustlæg átt ríkjandi og kvað Jónas horfur á óbreyttu veðri og frosti fram á fimmtudag.

Þorsteinn Magnússon i Höfn í Borgarfirði eystra símaði í morgun að ísinn væri orðinn landfastur þar og hefði hann þjappast mikið saman sunnan til í firðinum og væri orðinn þar bæði mikill og þéttur.

Ísfregnir í Morgunblaðinu 25. og 26. mars:

[25.] Hafísinn, sem hingað til hefur legið að Ströndum og lokað leiðinni að Norðurlandi að vestan, er nú kominn suður með öllu Austurlandinu, allt suður á móts við Fáskrúðsfjörð og var í gær á hraðri leið suður og nær landi. Er skipaleiðin austur með landinu því lokuð, og menn óttast að ísinn fari nú að fylla Austfirðina. Jafnframt er mikill kuldi alls staðar á landinu. Voru 11 stig í Reykjavík í gær, 15 stig á Akureyri og 23 á Grímsstöðum. Á Austfjörðum var 12—17 stiga frost og mundi því ísinn frjósa saman, ef hann stöðvaðist inni á fjörðunum. Feðgar frá Mánárbakka á Tjörnesi heyrðu torkennileg hljóð, er þeir voru á ferðinni úti við í gær, og lét fólkið sér detta í hug að þar væru bjarndýr úti á ísnum. Ekki varð þó nokkur kviks vart og allskonar hljóð í ísnum, er hann brotnar, eru algeng. Flugvél landhelgisgæslunnar fór í ísflug við Austurland í gær og kvað ísinn ná suður fyrir Hvalbak.

[26.] Blaðið átti í gær tal við fréttaritara sína á Húsavík, Kópaskeri, Vopnafirði og Borgarfirði eystra og spurðist fyrir um veðurfar og ís. — Á Húsavík liggur Herðubreið og kemst ekki þaðan sökum íss, en hafís er þar ekki nálægt, hefur ekki farið að ráði inn fyrir Lundey, og því ekki þörf að girða fyrir höfnina, en þar er nú að myndast lagís sökum undangenginna frosta. Á Kópaskeri er allt fullt af ís. Lausafregnir herma að spor eftir hvítabirni hafi sést á Melrakkasléttu, en talið er að það hafi ekki við rök að styðjast. Talsvert er af ísi út af Tjörnesi og eftir að kemur austur fyrir Axarfjörð er ís samfellt með Núpasveit eins langt og sér út. í ís breiðunni er einn og einn stór jaki. Á Vopnafirði er enginn ís sjáanlegur, en ísþoka að sjá út flóann. Þar hefur verið geysilegt frost og síðast 21 stig í fyrradag. Á Borgarfirði eystra er allt samfrosið í ís að landi sunnan megin og að Geitavíkurtanga að norðan. Þaðan er autt út með landinu og sér yfir ísinn í auðan sjó. Í gærmorgun var ísbrún með öllu hafi, en horfin síðari hluta dags. Engin dýr er að sjá á ísnum frá þessum stöðum. Frost hefur verið mikið fyrir Austurlandi að undanförnu, en lækkaði að marki í gær og var t.d. 8 stig á Borgarfirði síðdegis.

Neskaupstað, 25. mars. Ísinn, sem í gær svo til girti fyrir Norðfjarðarflóa, er nú allur horfinn utan nokkrir stakir jakar. Í morgun sást þó í ísröndina við hafsbrún svo varla er hann langt undan. Olíuskipið Kyndill, sem átti að koma hingað með olíu í dag, hefir ekki komist leiðar sinnar þar sem ís er landfastur við Gerpi. Nú hefir dregið mikið úr frosthörkunni, ekki nema 5 gráðu frost í dag og hallast margir á skoðun að nú muni draga til austanáttar, en það geti þýtt að þá reki ísinn að landi aftur. — Ásgeir.

Gilsárstekk, Breiðdal 25. mars. Hér hafa að undanförnu verið miklar frosthörkur, 15—18 stiga frost og jörð nærri snjólaus og fer því illa. Í gærkvöldi sást hafísinn hér úti í hafi allangt úti. Menn vona að ísinn eigi ekki eftir að heimsækja okkur hér, en um það verður engu spáð á þessu stigi málsins. Norðanáttin heldur honum frá landi hér eins og er. Héðan er gerður út einn bátur frá Breiðdalsvik, Sigurður Jónsson og er hann búinn að landa hér um 170 tonnum, meirihlutinn er ufsi. Um tuttugu manns vinna í frystihúsinu og þarf að fá menn að úr nálægum sveitum til vinnunnar, enda er mjög lítið um atvinnu á Stöðvarfirði og Djúpavogi. — Páll

Slide7

 Kortin hér að ofan eru fengin úr árlegu yfirliti sem Jón Eyþórsson ritaði þessi árin í Jökul, tímarit Jöklarannsóknafélagsins um hafís á viðkomandi ári. Gagnlegir pistlar. Eftir að Jón féll frá er bestu heimildir um hafís að finna í riti Veðurstofunnar, Hafís við strendur Íslands (sem því miður hefur enn ekki verið myndað stafrænt). Tíminn segir af ískönnunarflugi 27.mars - þessa daga komst ísinn vestur undir Hrollaugseyjar - það lengsta í þetta sinn:

MB—Reykjavík, föstudag. Landhelgisgæsluflugvélin SIF fór í dag í ískönnunarflug og virðast ekki hafa orðið miklar breytingar á ísnum, þó hefur rekís út af Austfjörðum enn borist suður á bóginn, og syðsti ísinn, sem sást úr flugvélinni, er kominn beint austur af Hrollaugseyjum, það er sunnar en Hornfjörður. Að fluginu loknu var gefin út svohljóðandi fréttatilkynning: „Ískönnunarflug 26.3. 1965. Rekís var nú kominn um 35 sjómílur suður af Hvalsbak, en var mjög gisinn (1/10-2/10) allt norður á móts við Skrúð. Þétt spöng virtist vera að loka Reyðarfjarðarmynni. Þaðan lá ís að landi að Norðfjarðar horni, að Fjúksnesi sunnan Dalatanga, Kögri við Loðmundarfjörð og landfastur þaðan að Ósafles sunnan Héraðsflóa. Þaðan var íslaust með landi að Langanesi. Ístungan suður með Austfjörðum var 30—40 sjómílna breið, og bar mest á löngum (10—20 sjómílna) spöngum, eða röstum, er lágu aðallega frá vestri til austurs. Í mynni Norðfjarðar og Seyðisfjarðar var ísinn ekki þéttari en svo, að sigling var möguleg ef ekki hefði verið þung undiralda af norðaustri. Norður af Skoruvík var ísinn samfrosta um 10 sjómílur út, en sundurlaus utar, eftir því, sem séð varð. Frá Sléttu og vestur á Húnaflóa virtist sigling allgreið meðfram landi í björtu veðri. Enginn rekís sást á Húnaflóa innan línu Gjögur—Kálfshamar. Inn með öllum Hornströndum lá tveggja til fimm sjómílna breið landföst ísræma, en meðfram henni virtist sigling sæmilega greið allt að 2—3 sjómílur út, en þar þéttist ísinn aftur. Frá Horni að Straumnesi var þéttleiki um 5/10 og sigling virtist möguleg. Ástand íssins á þessum slóðum mun talsvert háð sjávarföllum, en háflóð var, er flogið var þarna yfir. Nokkrir borgarísjakar sáust austur af Horni.”

Morgunblaðið segir 30.mars frá miklum sinubruna nærri Eyrarbakka:

Á laugardag varð mikill sinubruni í mýrinni ofan við Eyrarbakka. Urðu talsverðar skemmdir á háspennulínunni til Þorlákshafnar, sem þarna liggur áleiðis yfir Ölfusárósa. Eyrbekkingar urðu þess varir á laugardagsmorgun, að mikill eldur logaði í sinu fyrir ofan bæinn. Lagði svo mikinn reyk yfir Eyrarbakka, að leggja varð niður kennslu í barnaskólanum fyrir hádegi. Í ljós kom að skemmdir höfðu orðið á háspennulínunni til Þorlákshafnar og hún rofnað. Fjórir staurar brunnu og eyðilögðust alveg og aðrir fjórir skemmdust meira eða minna. — Fljótlega tókst þó að gera við línuna. Morgunblaðið hafði í gær tal af Guðjóni Guðmundssyni, rekstrarstjóra raforkumálastjórnarinnar, og kvað hann skemmdir hafa orðið á háspennulínunni á u.þ.b. tveggja kílómetra svæði. Væri nokkuð algengt, að sinubrunar yllu tjóni á raflínum, en þó væri þetta mesta tjón, sem honum væri kunnugt um af þessum völdum. Jón Guðmundsson, yfirlögreglu þjónn á Selfossi, skýrði svo frá, að ókunnugt væri um upptök sinubrunans, en biður alla þá, sem einhverjar upplýsingar kynnu að geta gefið um það mál, að hafa samband við lögregluna á Selfossi eða hreppstjórann á Eyrarbakka, hið fyrsta.

Undir mánaðamót snerist vindur til suðaustlægrar og austlægrar áttar og hlýnaði verulega í fáeina daga, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Ótrúleg viðbrigði á fáum dögum þótti ungu veðurnördi. Vorið var samt ekki alveg komið. Það gerði líka töluverð hret í apríl. Morgunblaðið segir frá hlýindunum í pistli 1.apríl:

Í fyrradag og þó einkanlega í gær hef»r verið óvenjulega hlýtt í veðri á Suður- og Vesturlandi. Stafar þetta af því, að hlýir loftstraumar frá Bretlandseyjum leika nú um landið. Er mistrið í loftinu því sennilega verksmiðjureykur frá stórborgum Bretlandseyja. Í gær varð mestur hiti 17 stig á Hellu, 15 stig í Síðumúla og 13 stig í Nautabúi. Í Reykjavík var hitinn laust eftir hádegi 10 til 11 stig. Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, skýrði blaðinu frá því i gær, að hæg suðaustan átt væri um allt Suður- og Vesturland en stafalogn nyrðra. Svo hlýtt væri á Suður- og Vesturlandi, að nánast væri um hitabylgju að ræða, miðað við árstíma. Veður þetta væri ættað frá Bretlandseyjum og því fylgdi mistur, sem sennilega væri verksmiðjureykur eins og oftlega áður. Mestur hiti í gær var 17 stig á Hellu á Rangárvöllum, 15 stig í Síðumúla í Borgarfirði og 13 stig í Nautabúi í Skagafirði. Við ströndina suðvestan lands og í Vestmannaeyjum væri heldur minni hiti, 8 til 9 stig, og í Reykjavík 10 til 11 stig. Nálægt fjöllum væri hitinn yfirleitt mun meiri, og stafaði það af hnúkaþey. Sólskin var yfirleitt alls staðar fram yfir hádegi í gær en úr því dró mistrið fyrir sólu. Þó var mun glaðara sólskin í Borgarfirði en á Suðurlandi. Yfirleitt var hlýtt í dölum nyrðra en á annesjum var hitinn yfirleitt 3 til 5 stig en aðeins 1 stig á Raufarhöfn. Þar var enn stafalogn, og því ekki líklegt að hlýindin hefðu áhrif á hafísinn fyrst um sinn, að því er Jón Eyþórsson sagði.

Austurland segir frá ískomunni á Norðfirði í pistli 2.apríl:

Síðdegis á laugardag [27.mars] sáu Norðfirðingar hafísinn teygja sinn hvíta, kalda fingur inn fyrir Uxavogstangann. Síðan þokaði hann sér hægt en örugglega inn að Eyrinni, en þá hikaði hann við, eins og honum litist ekki meira en svo á blikuna. Og ísinn beygði af leið og mjó rönd af honum lagðist upp að suðurlandinu og inn með Búlandinu. En á sunnudagsmorgun gaf á að líta. Í skjóli myrkursins hafði hafísinn, sem daginn áður staldraði við út af Eyrinni, laumast um allan fjörðinn og fyllti hann svo landa á milli, að varla sá vök. Mönnum varð tíðlitið út á fjörðinn á þessa nýstárlegu sjón og ekki var um annað rætt en hafísinn. Þetta þótti mönnum fögur, en kuldaleg sjón. En gömlu mennirnir ypptu öxlum og létu lítið yfir. „Þið hefðuð átt að sjá ísinn 1918, eða 1902. Það var ís, sem talandi var um. Þar mátti sjá stóra og ægifagra borgarísjaka. Það var nú eitthvað annað en þetta skæni, í mesta lagi þriggja metra þykkt“. Og gömlu mennirnir segja sögur af ísaárunum 1918 og 1902, þegar farið var labbandi beint af augum frá Nesi suður á bæi og þegar bjarndýrið gerði vart við sig á Stuðlum, og þeir velta því fyrir sér, hvort það muni ekki hafa verið sama dýrið og unnið var í Mjóafirði. Og hugurinn reikar lengra aftur en minnið nær, þegar bjarndýrið var skotið úr bæjardyrunum á Nesi. ... En það eru fleiri firðir hér eystra, sem orðið hafa fyrir heimsókn íssins, s.s. Seyðisfjörður og Mjófjörður. Samgöngur við Mjóafjörð liggja alveg niðri. Einu samgöngur við Seyðisfjörð eru með snjóbíl um Fjarðarheiði. Borgarfjörður er einangraður, og þannig er um fleiri byggðarlög. Norðfjörður hafði ekki aðrar samgöngur fyrst eftir að ísinn kom, en um flugvöllinn, en nú hefur Oddsskarð verið rutt og eru því samgöngur á landi við nágrannabyggðir. Ísinn hefur borist allt suður um Berufjörð. Lokaði hann um tíma Breiðdalsvík og Fáskrúðsfirði og mikinn ís bar inn á Stöðvarfjörð. En Reyðarfjörður hefur sloppið og komast skip nú að sunnan allt til Eskifjarðar.

Talsvert hret gerði um miðjan mánuð. Morgunblaðið 13.apríl:

Hríð var um allt Norðurland í gær, allt frá Breiðafirði og austur á Hérað, og talsverð veðurhæð. Svo páskahretið [páskar voru 18.apríl] lætur ekki á sér standa. Norðanátt er spáð á morgun og bjartviðri um Suður- og Vesturland. ísinn virtist vera að hreinsast út úr fjörðunum á Austurlandi undan veðrinu, en skyggni var alls staðar slæmt í gær og litlar fréttir bárust. A Akureyri var í gær skafrenningur og frost, en ekki hafði bætt á miklum snjó, að sögn fréttaritara blaðsins. Hann hafði farið um Fljótsheiði og Vaðlaheiði, sem voru vel færar og taldi hann alla vegi færa enn. Fréttaritarinn á Húsavík sagði, að þar væri mestur snjór í sjálfum bænum. Þó væri fært um aðalgöturnar. Aðrir vegir væru betri, t.d. vel fært úr sveitinni og til Akureyrar. En á Tjörnesi væri mikill snjór og óvíst um færð á vegum. Þessi snögga veðurbreyting olli erfiðleikum hjá Húsavíkurbátum. Margir áttu úti grásleppunætur, sem þeir geta ekki vitjað um og óttast að eitthvað af þeim tapist. Fréttaritarinn á Þórshöfn símaði í gær að fjörðurinn væri aftur orðinn fullur af ís og að stórhríð hefði verið á Þórshöfn síðan daginn áður. Frá Vopnafirði símaði fréttaritari blaðsins: — S.l. viku hefur verið talsverður ís á firðinum, en í nótt hefur verið vestan og norðvestan stormur með nokkuð mikilli snjókomu og hefur ísinn rekið til hafs. Nokkrir áttu hákarlalínu úti, þegar ísinn kom og mun hún nú alveg farin. Nú er enginn ís sjáanlegur lengur nema jakar á fjöru. Töluverður snjór er kominn hér og allir vegir héðan ófærir. Samgöngur hingað s.l. mánuð hafa svo að segja engar verið, aðeins komið 2—3 litlar flugvélar frá Akureyri. Ekki er þó orðinn skortur á neinu. Nóg er af olíu, en verra er það með póstinn. Við erum núna að fá mestan hluta blaðanna síðan fyrir mánaðamót. Þó vantar í, því bíll bilaði og pósturinn okkar situr á Raufarhöfn. En við höfum þurft að sækja hann til Þórshafnar. — RG.

Morgunblaðið segir af samgöngum og ís 21.apríl:

Margir Reykvíkingar lögðu leið sína austur yfir heiði og um Suðurland um bænadagana og páskadagana. Sumir fóru upp á Öræfi og til jökla. Veður var yfirleitt gott, svalt og bjart. Um 200 manns óku allt til Hornafjarðar, því að eiði eða grandi hafði hlaðist upp fyrir ármynni Jökulsár á Breiðamerkursandi, og lítið var í öðrum ám. Notuðu ferðamenn sér þetta á laugardag, og mátti ekki tæpara standa, því að á sunnudagsmorgun braut áin sér rennu í sjó fram.

Ófært virtist bæði Langanesmegin og fyrir Horn til Norðurlandsins vegna ísbreiðunnar, er flugvél landhelgisgæslunnar fór ísflug á 2. páskadag. Virðist ísinn mjög út af Húnaflóa og fyrir Skaga og er þar illfært skipum, en víðast annars staðar er fært með landinu fyrir norðurlandi. Ísbreiðan liggur síðan alla leið norður til ísjakans Arlis II við Grænlandsströnd, að því er flugmenn af Keflavíkurflugvelli hafa séð. Landhelgisflugvélin sá þéttan ís út af Þistilfirði og var hann að leggjast að einnig sunnan megin Langaness og ófært norður fyrir Horn. Ennfremur lá ís upp að Digranesi, en autt var með landi þaðan og suður úr. Sjálf ístungan teygði sig svo út á haf allt suður á móts við Hvalbak, en lítið var í henni syðst. Við sjálft Horn vestan megin virtist fært, en ekki austur af Horni. Mikill is var í gær á Húnaflóa, inn Miðfjörð og Hrútafjörð. — Fréttaritarar blaðsins á Blönduósi og Hvammstanga símuðu eftirfarandi ísfréttir: Hvammstanga, 20. apríl. Miðfjörður er nú fullur af hafís og svo langt sem séð verður. Ísinn rak hér inn fyrir rúmri viku og er nú alveg samfrosinn bakka á milli. Stillt og bjart veður hefur verið undanfarið, en í dag er þíðviðri. Mikill hafís er einnig inni á Hrútafirði. Snjólaust má heita í  Vestur-Húnavatnssýslu og því vel fært um allar sveitir. — S.T.

Blönduósi, 20. apríl. — Síðan í lok mars hefur hafís verið mjög nærri landi úti fyrir Blönduósi. Fram í miðjan apríl var hann að mestu kyrrstæður og oftast landfastur við Þingeyrarsand og Vatnsnes. Um bænadagana rak þann ís norður með Skaga, en á laugardaginn fylltist Húnaflói af ís, eins langt og séð varð frá Blönduósi, nema hvað mjó renna var auð við landið frá Ytri-Laxá inn að Húnaósi. Í morgun var ísinn óbreyttur og sjórinn allagður milli ísbrúnarinnar og lands. Í dag hefur verið suðaustanátt og þíðviðri. Ísinn hefur færst nokkuð frá, en sýnir þó ekki á sér verulegt fararsnið. Og alltaf í frosti hefur ísinn lagt milli jakanna. Allstór borgarísjaki er strandaður skammt frá landi móts við Vindhæli á Skagaströnd og gnæfir hann upp úr ísbreiðunni. BB

Slide8

Í lok apríl, sérstaklega þann 30., komu aftur óvenjulega hlýir dagar á Suðvesturlandi,  Vesturlandi og á norður fyrir Djúp. Einnig var mjög hlýtt inn til landsins norðaustanlands.  Kortið sýnir stöðuna kl.15 föstudaginn 30. Hiti komst í 17,5 stig á Reykhólum, hæsti hiti sem mælst hefur í apríl á Vestfjörðum. Hiti var víða á bilinu 13 til 15 stig. Hafís var við Norður- og Austurland og þar var mjög kalt við sjóinn og meira að segja neðan frostmarks bæði á Dalatanga og á Teigarhorni um miðjan daginn.

Norðaustan- og austannæðingar ríktu í maí. Sæmileg tíð var suðvestanlands, en mjög kalt á hafíssvæðunum fyrir norðan og austan. Þótt íslítið væri á siglingaleiðum, hélst þéttur ís inni á innfjörðum Húnaflóa og við norðausturhornið og olli staðbundnum vandræðum, auk kulda.

Tíminn segir af tregri sprettu 19.maí:

MB—Reykjavík, þriðjudag. Segja má að engin spretta til gagns sé komin um mestan hluta landsins, enda ríkja þrálátir kuldar við norðurströndina og suður um Austfirði. Í flestum héruðum eru þó enn til nóg hey, þótt einstaka menn séu orðnir heylausir, en þó standa nú yfir heyflutningar til nokkurra byggðarlaga.

Morgunblaðið dregur 20.maí saman pistla sem þá höfðu birst í tímaritinu Veðrinu:

Í tímaritinu Veðrið gerir Knútur Knudsen, veðurfræðingur, grein fyrir veðráttunni hér á landi sl. haust og vetur. Það vekur athygli í töflum hans, að í vetur hefur úrkoma verið óvenjulítil í Reykjavík, og langt fyrir neðan meðallag í marsmánuði, þ.e. 13 mm á móti 65 í meðalári, og jafnframt eru sólskinsstundirnar í vetur langt fyrir ofan meðallag, alltaf nema í nóvember. Aftur á móti hefur marga mánuðina verið talsvert kaldara en í meðalári, t.d. 0.1 stigs frost í mars í stað 1.5 stiga hita í meðalári. Í annarri grein i heftinu, þar sem Jónas Jakobsson ræðir um hitastig yfir Keflavík, segir hann m.a. að marsmánuður þar hafi verið nærri tveimur stigum kaldari við jörð en i meðalári, nálægð hafíssins við Norður- og Austurland hafi án efa átt þar sinn þátt, ásamt lágum sjávarhita við Suðurland, því fyrir ofan eins kílómeters hæð hafi hitinn yfir Keflavík verið vel í meðallagi. Og Knútur Knudsen segir í sínu yfirliti um marsmánuð, að hafísinn hafi verið stutt undan eða uppi í landsteinum allan marsmánuð og norðlægir vindar hafi því lítt náð að mildast yfir auðum sjó og verið óvenjukaldir. Lengra fram á vorið en til marsloka ná yfirlit veðurfræðinganna ekki, en leikmönnum finnst einmitt að hafísinn hafi haft þau áhrif á vorið þar til þessa í Reykjavík, að það sé óvenju þurrt, sólríkt en svalt.

Morgunblaðið segir af sprettu 22.maí:

Grímsstöðum, Mývatnssveit, 21. maí. Lítið er farið að grænka hér um slóðir og frekar kalt i veðri. Allt þar til í gær var Mývatn ísi lagt, en þá var hér hvassviðri og braut þá allan ísinn af vatninu svo það er nú íslaust orðið með öllu. Okkur virðist sem allir þeir farfuglar er hingað koma á sumrin, hafi þegar skilað sér, þrátt fyrir kalsasama tíð, en það var um síðustu helgi sem næturfrost komst hér allt niður í -5 stig. Stórfenni er hér í heiðunum í kring. — Jóhannes

Morgunblaðið segir af gróðurleysi 23.maí:

MBL. hafði tal af nokkrum fréttariturum sinum fyrir norðan og austan í gærmorgun. Vorið hefur verið ákaflega gróðurlaust og kalt og þurft að gefa fé inni. Í gærmorgun var svolítið betra hljóð í mönnum, sögðu að nú væri farið að rigna og veður heldur mildara og höfðu þeir því vonir um að nú væri ástandið að skána.

Ágætt að minna á að eldsumbrot héldu allt árið áfram við Surtsey, tvær eyjar risu úr sæt - en hurfu aftur. Tíminn segir frá 25.maí:

MB-Reykjavík, mánudag. Eldsumbrot eru á sjávarbotni í norðaustur og austur frá Surtsey. Skipverjar á Þórunni, VE 28, sáu greinilega merki eldsumbrota á sjöunda tímanum í morgun og blaðamenn Tímans, sem flugu út að Surtsey um hádegið í dag, sáu einnig greinileg ummerki, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér, en sennilega nær Surtsey en skipverjar á Þórunni telja sig hafa orðið varir við þau. Dr. Sigurður Þórarinsson taldi í viðtali við blaðið i kvöld, að sennilegt væri að þarna væri um að ræða fleiri en einn gos stað á sömu sprungu.

Tíminn segir 26.maí af þéttum hafís við Húnaflóa:

HS-Hólmavík, þriðjudag Enn liggur þéttur ís inni á fjörðum við Húnaflóann, og eru Steingrímsfjörður, Kollafjörður, Bitrufjörður, Hrútafjörður og Miðfjörður fullir af ís. Eins og nærri má geta fylgja ísnum miklir kuldar og síðustu tvær næturnar eru þær fyrstu í vor, sem næturfrost hefur ekki verið á Hólmavík. Ísinn fyllir enn Steingrímsfjörð inn í fjarðarbotn og engin hreyfing er á ísnum nema eftir sjávarföllum. Sömu sögu mun að segja úr öðrum fjörðum við innanverðan Húnaflóa, austur að Vatnsnesi. Er þegar fyrirsjáanlegt, að allur gróður bíður stórkostlegan hnekki vegna kulda þeirra, sem ís þessum fylgir, auk annars tjóns. Úthagi er hér enn fannhvítur og ekki er enn hægt að segja, að grænn litur sé kominn á tún hér í Steingrímsfirði. Aðeins sést breyting í börðum, gömlum túngörðum og vegarköntum. ... Mikil næturfrost hafa fylgt þess um ís, og hefur kuldinn komist niður í fimm til sjö stig að næturlagi. Síðustu tvær nætur hafa þó ekki verið frost. Það hefur bjargað mönnum hér mikið, að vegir hafa ávallt verið færir, þannig, að unnt hefur verið að flytja vörur landleiðina. Ekki er of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé, að ástandið hér sé mjög alvarlegt. Vegna atvinnuleysisins, sem ísnum fylgir, má segja, að gjaldgeta fólks sé engin, og hið sama er að segja um sveitarfélagið.

Vorinu miðar hægt. Morgunblaðið segir frá 26.maí:

BÆ, Höfðaströnd — Fönn er að heita má farin af láglendi hér og ísinn tekinn af flestum vötnum. Næturfrost hafa verið fram undir 20. maí og verið bansettur kuldi ef eitthvað kulaði af norðri. Ís hefur alltaf verið að flækjast á firðinum, en er nú að verða minni og hefur ísinn verið til óhagræðis fyrir allan veiði skap. Frost er ennþá í jörðu og þiðnar seint. Er því viðbúið að nokkur tími líði þar til hægt verður að setja í garða. Mér virðist líka að nokkur óhugur sé í þeim er kartöfluuppskera hefur brugðist hjá undanfarin ár vegna sumarfrosta.

Nú fór tíð heldur batnandi, nema helst í hafíssveitunum. Tíminn segir frá 1.júní:

MB—Reykjavík, mánudag. Nú eru hlýindi um allt land og gróður hvarvetna að taka við sér. Blaðið átti í dag tal við nokkra fréttaritara sína í þeim byggðarlögum, sem mestir kuldar hafa verið í vegna hafíssins og gróður var sama og ekkert á veg kominn. Þeir voru allir léttir í skapi og bjartsýnir og kváðu mikil og góð umskipti hafa orðið síðustu dagana. Undanfarna daga hafa verið mikil hlýindi norðanlands og hefur hiti víða komist hátt upp í tuttugu stig. Hafísinn hefur einnig að mestu kvatt strandir landsins og siglingar eru orðnar greiðfærar á flestallar hafnir. Jafnframt hefur gróðurinn þotið upp og þar sem hann er skemmst á veg kominn telja menn að skammt sé þess að bíða að fé hafi nægan haga. Guðmundur P. Valgeirsson á Bæ í Trékyllisvík sagði að nú væri þar engan ís að sjá og gróðri færi vel fram en þó væri enginn hagi kominn enn þá. Von væri nú alveg á næstunni á áburðarskipinu, en enginn áburður hefur enn verið fluttur til íbúa Árneshrepps. Pétur Bergsveinsson á Hólmavík sagði að allur ís væri horfinn af Steingrímsfirði. Í fyrradag kom þar vestankul og rak ísinn i burtu. Sést nú enginn ís frá Hólmavík. Ísinn hefur rekið austur yfir Húnaflóa og mun einhver ís vera á Húnafirði. Steingrímsfjörður hefur veríð lokaður af ís hátt í þrjá mánuði. Þar hafa verið hlýindi undanfarna daga og hefur hitinn komist yfir fimmtán stig.

Hreinn Helgason á Raufarhöfn kvað nú allan ís horfinn enda snerist vindur til vestanáttar fyrir helgina og rak ísinn brott. Undanfarna daga hafa verið hlýindi á Raufarhöfn, upp í fjórtán stiga hita, og í dag voru þar gróðrarskúrir. Hreinn kvað gróður taka býsna snöggt við sér, en þó væri enginn hagi kominn enn enda enn snjór í brekkum. Vegir væru orðnir ágætir, en þó myndi klaki enn ekki farinn úr jörðu. Strax og ísinn var burtu hófust siglingar, en síðasta skip sem kom með almennar vörur til Raufarhafnar var Herðubreið, er þangað kom 20. mars. Í millítíðinni braust Bakkafoss þangað með vörur til Síldarverksmiðjunnar og einnig lýsistökuskip og Óðinn komst með olíu þangað á dögunum. Fyrsta skipið kom í gær með áburð, í nótt kom þangað tunnuskip og var væntanlegt í dag og í dag kom einnig sementskip. Í nótt kemur lýsistökuskip og á morgun kemur Esjan. Þá má einnig telja víst að olíuskip komi við fyrstu hentugleika. Kristján Víum á Vopnafirði sagði síðasta ísinn hafa rekið brott í nótt. Tíðin hefði verið góð undanfarna daga og í gær og í dag hefði verið heitt. Hagi væri samt enginn kominn og menn hefðu ekki getað sleppt sauðfé enn þá, en gróðri fer vel fram í hlýindunum. Þorsteinn Magnússon i Höfn í Borgarfirði eystra kvað ísinn horfinn, en Þó kvaðst hann í dag sjá, í ís úti fyrir, en það myndi vera ís, sem rekið hefði frá Vopnafirði austur á Héraðsflóann. Þorsteinn kvað byrjað að grænka, en fyrir tveimur dögum hefði engan grænan lit verið að sjá, ekki einu sinni í tóftarbrotum. Þessa tvo daga sem hlýindin hefðu verið hefði græni liturinn komið ótrúlega fljótt. Blaðið átti einnig í dag tal við Árna G. Pétursson, sauðfjárræktarráðunaut hjá Búnaðarfélagi íslands og Gísla Kristjánsson, ritstjóra. Árni kvaðst telja, að sauðburður hefði alls staðar gengið vel og væri honum nú að verða lokið víðast hvar. Gísli kvaðst telja, að ekki kæmi til mála að meira hey þyrfti að útvega úr þessu, því menn myndu almennt geta byrjað að beita fé sínu innan skamms.

Morgunblaðið segir af vatnavöxtum í pistli 1.júní:

Skyndilega hlýnaði um nærri allt land á laugardag. Í hitunum fyrir norðan urðu miklir vatnavextir og flæddi yfir allt láglendi Eyjafjarðar hlíða í milli.

Veðráttan segir frá því að 3.júní hafi eldingu slegið niður í íbúðarhús í Lóni í Kelduhverfi.

Tíminn segir enn af gosi við Surtsey og ís á Vopnafirði 4.júní:

MB-IGÞ-Reykjavík, fimmtudag. Stórgos hófst síðdegis i dag við Surtsey, þar sem nokkur ókyrrð hefur verið að undanförnu. Jafnframt fylgdu jarðskjálftakippir í Vestmannaeyjum og sprenging frá gosinu er talin hafa heyrst upp á Hvolsvöll. Um níuleytið i kvöld töldu menn, sem flugu þarna yfir, að gosstrókurinn væri um sex þúsund metrar á hæð.

KW-Vopnafirði, fimmtudag. Fyrsta síldin kom hingað i gær, en hafísinn rak inn fjörðinn í dag og sneru sjö skip við með um fimmtán þúsund mál og sigldu suður á firði. Virðist hafísinn ekki ætla að gera endasleppt við okkur og ekki gott að segja hve miklu tjóni hann á eftir að valda, nema hann reki hið bráðasta til hafs. Í gær komu hingað tveir bátar með samtals um 3000 mál síldar. Fyrri part dagsins í dag rak allmikinn js hingað inn á fjörðinn. Mun þar bæði um að ræða ís sem var hér áður á firðinum svo og ís, sem rak út af Bakkaflóanum. Ísinn rak nær inn undir höfn. Sjö bátar ætluðu að landa hér um 15 þúsund málum í dag, en þegar þeir komu inn á fjörðinn var ísinn orðinn svo þéttur, að þeir urðu að snúa við. Munu þeir hafa þurft að fara suður á firði, sumir alla leið til Breiðdalsvíkur, til þess að landa. Einn þessara báta var kominn inn fyrir Fagradal, þegar hann varð að snúa við. Hafísinn virðist ekki ætla að gera það endasleppt við okkur og er vitanlega mikið tjón af honum hvern daginn sem hann hindrar svo mikla löndun hjá okkur sem í dag.

Tíminn segir 5.júní frá stofnun veðurathugunarstöðvar á Hveravöllum:

GB—Reykjavík, föstudag Um næstu mánaðamót verður hafin bygging fyrsta íbúðarhúss uppi á miðhálendi Íslands, nánar tiltekið á Hveravöllum, þar sem Veðurstofa Íslands ræðst í að byggja fyrstu veðurathugunarstöð með lærðu starfsfólki uppi á öræfum, og verða þar til húsa hjón, sem raunverulega eru einangruð frá byggðum hálft árið. ... Einu sinni áður hefur starfað veðurathugunarstöð á Jökulhálsi við Snæfellsjökull. Að þeim athugunum stóðu Svisslendingar, og var dr.Zingg forstöðumaður. Hann dvaldist vetrarlangt í skála á Jökulhálsi fyrir röskum þrjátíu árum við annan mann. Dr. Zingg hefur og gefið Veðurstofunni góð ráð í sambandi við þessa fyrirhuguðu veðurathugunarstöð á Hveravöllum, sem erlendur styrkur hefur fengist til að reisa og Veðurstofan gerir sér vonir um að gefi góðan skerf í veðurrannsóknir hér á landi. Undanfarin sumur hefur Veðurstofan haft veðurathugunarmenn sumarlangt í Jökulheimaskálanum og einnig á Hveravöllum, en það sem skortir, er að fylgjast sem nánast með veðurfari og úrkomu þar að vetrarlagi.

Tíminn segir 9.júní frá góðum heyskaparhorfum suðvestanlands:

MB-Reykjavík, þriðjudag. Sláttur er hafinn hér í nágrenni Reykjavíkur og er það fyrr en menn þorðu að vona fyrir skömmu og fyrr en í meðalári. Gróður hefur þotið upp eftir að hin langþráða væta kom á dögunum og nú horfir mjög vel með heyskap hér suðvestanlands, að sögn Gísla Kristjánssonar ritstjóra.

Morgunblaðið birtir enn ísfrétt 11.júní:

Blönduósi, 9. júní. — Fyrir helgina var mikill ís á Húnaflóa og eins langt og sást frá Blönduósi. Ís er enn á sömu slóðum, en orðinn. mjög gisinn.

Tíminn segir fréttir úr Vatnsdal 12.júní:

GJ, Ási Vatnsdal, föstudag. Hér hefur vorið verið allerfitt og hafa bændur orðið að gefa fé fram undir mánaðamótin síðustu. En undanfarnar tvær vikur hefur tíðin verið ágæt og nú er spretta orðin í meðallagi. Kartöflur hafa nýlega verið settar niður. Klaki fór með seinna móti úr jörð í vor vegna kuldanna, og íshrafl er enn um allan Húnaflóa. Þar var ísinn samfelldur fyrir nokkrum dögum.

Tíminn segir 13.júní frá víðtæku kali í túnum á Austurlandi. Minnir okkur á að „hafísárin“ svokölluðu voru einnig kölluð „kalárin“. Kalið olli miklu tjóni og vandræðum.:

BÞG—Reykjavík, laugardag. Segja má a8 algert neyðarástand ríki nú víðast hvar á Austurlandi, í Fljótsdalshéraði, og sums staðar annarsstaðar á Austfjörðum, vegna gífurlegs kals í túnum, sem er svo víðtækt, að menn muna ekki annað eins. Á um 30 jörðum er varla stingandi strá á túnum og standa bændur uppi alveg ráðalausir. Má jafnvel búast við, að fækka verði búfénaði stórlega. Er ástandið verst þar sem tún en flöt og eru aðeins grænir toppar á stangli.

Morgunblaðið segir einnig af kalskemmdum 15.júní:

Blaðið aflaði sér nánari upplýsinga um kalskemmdir í túnum á Austurlandi, en frá þeim var skýrt hér í blaðinu í samtali við fréttaritara nú fyrir helgina. Í ljós kemur að kalskemmdir eru miklar í Breiðdal, um miðbik Fljótdalshéraðs, á utanverðum Jökuldal og nokkuð í Borgarfirði eystra og á Vopnafirði Orsakanna virðist að leita í svellalögum á flötum mýrartúnum. ... Blaðið átti í gær tal við dr.Bjarna Helgason jarðvegsfræðing, en hann fór austur nú fyrir skemmstu og athugaði kalskemmdirnar og tók jafnframt nokkur jarðvegssýnishorn. Skoðaði hann aðallega Mið-Hérað. Taldi hann, að ef svo mætti að
orði kveða, myndu bændur hafa flutt til Ameríku, ef þetta hefði skeð fyrir rúmri hálfri öld svo alvarlegt væri þetta á allmörgum jörðum. Mætti segja að þar yrði varla um kúhaga að ræða á túnum í sumar, svo slæmt væri kalið. Dr. Bjarni taldi að þetta fylgdi algerlega svellalögum í vetur og mætti því kalla þetta svellkal. Ekki sagði hann kal sjást á úthaga. Spurningin væri því sú hvort hér gæti verið um að ræða of lingert grasfræ fyrir okkar veðráttu og stofnarnir sem fluttir eru inn, ættu ekki við hér á landi. Styddi það enn nauðsyn þess að við gætum komið upp okkar eigin grasfræstofni. Þá kæmi eflaust að einhverju leyti til áburðarnotkun og kalkskortur á jarðvegi, en þau mál væru enn á algeru rannsóknarstigi. Kalið virðist fylgja eftir djúpplægðum mýrum. Alvarlegast virtist honum ástandið niðri á Norðfirði, en þar liti út fyrir að erfitt yrði með kúahaga í sumar, hvað þá hey í vetur.

Gaman að rifja upp framtíðarspádóma Gunnars Bjarnasonar. Tíminn segir frá 16.júní:

Gunnar Bjarnason, búfræðikennari og ráðunautur, hefur nú nýlega látið spádómsbók sína á þrykk út ganga, — stutta að vísu, aðeins einn kapítuli í sex versum sem hljóða svo: „1. Fóður búfjárins í 50—60 fóðurverksmiðjum, sem hver nýtir 2000 hektara af landi. Jarðyrkja og búfjárrækt skiljast að. 2. Mjólk og lítið af smjöri verður framleitt úr 50 þúsund kúm, sem standa á hundrað fjósum. Nautakjöt verður framleitt af einblendingum af holdakynjum. 3. Afurðir af svínum og alifuglum verða framleidd á nokkrum stórbúum á jarðhitasvæðum. 4. Loðskinn verða framleidd af minkum og chinchiue. Mikilvægur iðnaður mun byggjast upp í landinu, sem hagnýtir þessi skinn og gærur. Þessi iðnaður gerir kröfur til smekkvísi og listfengi, sem íslendingar eiga nóg af. 5. Sauðfjárrækt verður stunduð áfram af þróttmiklum fjallabændum, en efnamenn munu einnig stunda ræktun og kynbætur sauðfjár sér til skemmtunar. 6. Íslenski reiðhesturinn verður ræktaður eins og nú, landsmönnum til unaðar og frægðar meðal annarra þjóða.“ — „Svo mörg eru þau orð.

Morgunblaðið segir 16.júní fréttir úr Öskju, þegar þrjú og hálft ár voru liðin frá síðasta eldgosi þar:

Jóhannes Sigfinnsson, bóndi á Grímsstöðum í Mývatnssveit, skýrði Morgunblaðinu svo frá í gær, að um síðastliðna helgi hefðu 10 skátar frá Akureyri farið inn að Öskju og m.a. mælt hitastigið Víti við Öskjuvatn. Reyndist hitinn í vatninu 60 stig. en í leirnum meðfram tjörninni yfir 80 stig. Þó sáu skátarnir gufustrók leggja upp af hver sunnan við Öskjuvatn. Virtist þeim vera gufusprengingar í hvernum norðanvert í fjallinu.

Sagt er frá hafís á Miðfirði í Tímanum 19.júní:

Fyrsti ísjakinn, sem kom inn á Miðfjörð 1965, kom 15. mars. Næstu daga komu nokkrir ísjakar daglega inn fjörðinn. Jakastangl þetta jókst svo, að um eða upp úr 20. mars var komið svo mikið jakahröngl á fjörur, kannski þó fremur að vestan, að ekki varð bátum fram komið til hrognkelsaveiða. Svo var reyndar víða í nágrenni Miðfjarðar, til dæmis við Vatnsnes. En fyrst sunnudaginn 28. mars, síðari hluta dags, kom svo fyrsta spöngin inn fjörðinn. Var svo meiri og minni ís á firðinum, sem hraktist nokkuð milli landa, og tók hann að þéttast eftir mánaðamótin — og að kvöldi sjötta apríl var Miðfjörður alveg fullur af ísi, nema fyrst var lítil vök með landi frá Syðri-Hvammsá að Grafarmelum. Hélst sá ís nálega eins til 27. maí — þó með þeim frávikum, að vökin fylltist mjög fljótt og mjög lítillega virtist ísinn gisna á norðurhluta fjarðarins 8. og 9. apríl og 29. apríl til 2. maí, alls sex daga, en var alveg óbreyttur annars, nema lagís milli jaka eyddist í maí. Tuttugasta og sjöunda maí, á uppstigningardag, byrjaði ísinn að gisna. Hélt ísinn svo áfram að gliðna og gisna, uns annan júlí, að segja mátti, að hann væri farinn, nema lítið jakastangl, og var það fyrsti dagurinn, eftir að ísinn kom, sem skip hefðu komist inn fjörðinn og að bryggju á Hvammstanga. Skip voru þar þriðja til fimmta júní, með áburð til bænda. (Þetta er ritað 7. júní). ... Ísinn olli því, að mjög seint greru tún við sjóinn, þar sem ísinn lá, en miklu fyrr til dæmis einn til tvo km frá sjó og fjær, þó þokur væru hér óvenju tíðar frá miðjum maí og þar til losnaði um ísinn. — Ólafur Tryggvason, Kothvammi, V.-Hún.

Heldur kalt var austanlands. Morgunblaðið segir frá 19.júní:

Egilsstöðum, 18. júní. Hér er mikill kuldi í dag og meira að segja snjóél. Hiti er aðeins 3 gr. nú um hádaginn. Þessi kuldi hefur verið í nokkra daga og fer gróðri ekkert fram.

Slide9

Fyrstu helgina í júlí var allmikil hitabylgja inn til landsins á Suðvesturlandi, kennd við landsmót Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Gengu miklar sögur af hitunum. Kortið að ofan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum og hrygginn hlýja sem olli blíðunni. Kortið að neðan sýnir hita kl.15. sunnudaginn 4.júlí. Hiti komst í tæp 25 stig á Hæli í Hreppum og á Jaðri í Hrunamannahreppi og víðast hvar á Suðurlandi yfir 20 stig. Einnig var mjög hlýtt inn til landsins vestanlands og á stöku stað á vestanverðu Norðurlandi - en síður í hafgolunni í Reykjavík (og Borgarnesi). Sögur gengu um að hiti hefði náð 30 stigum á Laugarvatni, en það hefur tæplega verið, gæti hugsanlega hafa farið í 26 til 27 stig þar og á stöðum eins og á Húsafelli - en engar mælingar er að hafa. Við trúum vart hærri tölum en það. 

Slide10

Enn ollu sinueldar vandræðum. Morgunblaðið 6.júlí:

Um 1000-2000 fermetrar af falllegri lyngbrekku skemmdust af eldi s.l. sunnudag við Grunnuvötn í Heiðmörk. Eldurinn var kveiktur af mannavöldum og hafði breiðst út frá grjóthlóðum. ... Þetta er í þriðja sinn, sem kveikt er í sinu og mosa á þessu vori og sumri. Hin svæðin, sem brunnin eru, eru heldur stærri en brunasvæðið nú.

Tíminn segir af heyskap 7.júlí:

BÞG—Reykjavík, þriðjudag. Tíminn gerði í dag könnun á því, hvað heyskap liði í sveitum landsins. Af viðtölum við menn úr öllum landsfjórðungum, virðist mega draga þá ályktun, að heyskapur sé víðast hvar hafinn og gangi allsæmilega sunnan lands og norðan, en rétt byrjaður og heldur lítill á Suðvesturlandi, og á Austfjörðum er ekki að tala um neinn heyskap, svo miklar eru kalskemmdirnar, eins og kunnugt er af fyrri fréttum.

Svo var það víkingaskipið á Hlíðarvatni og vandræði þess. Morgunblaðið 12.júlí:

Vegna hinna miklu þurrka, sem verið hafa í sumar, hefur Víkingaskipið á Hlíðarvatni ekki komist á flot. Þar er þó tekið á móti gestum, þar sem skipið stendur á landi við vatnið, og seld gisting, beini og veiðileyfi. Opnað var um miðjan júní, en aðsókn verið fremur lítil. Síðan um miðjan mars hefur mælst innan við 200 mm regn í Haukatungu, og vatnsborðið á Hlíðarvatni er því miklum mun lægra en það var í fyrra. Aftur á móti mundi Víkingaskipið fara sjálfkrafa á flot, eftir 3—4 daga rigningu, því það stendur niðri við vatnið, að því er Ingólfur Pétursson, hótelstjóri, tjáði blaðinu. Svo miklir þurrkar eru þarna, svo sem víðast hvar á landinu, að vatnsból eru þorrin og laxveiðiárnar eru mjög litlar. Silungurinn veiðist þó eftir sem áður í Hlíðarvatni, en göngufiskur gengur ekki í það í svo vatnslitlu. Ekki kvað Ingólfur hæft í því að til stæði að flytja Vikningaskipshótelið á annað vatn, enda ekki þægilegt að gera það svona um hásumarið.

Tíminn segir af blíðu sunnanlands 20.júlí:

Stjas-Vorsabæ, laugardag. Síðustu tvo daga hefur brugðið til sunnanáttar með lítilsháttar vætu annars hefur lítið rignt hér að undanförnu og mikil veðurblíða verið í langan tíma. Það, sem af er slætti hefur heyskapartíð verið hagstæð. Þar sem snemma var byrjað að slá og vélvæðing mikil við heyskapinn er fyrri sláttur túna vel á veg kominn.

Laxveiði var treg, Morgunblaðið segir frá 21.júlí:

Eins og áður hefur verið skýrt frá í blaðinu, hefur lax gengið seint í flestar ár landsins, og veiði verið fádæma lítil.

Tíminn segir 23.júlí frá heyskap og kalskemmdum og nauðsynlegri aðkomu hins opinbera:

MB—Reykjavík, fimmtudag. Meiri og minni kalskemmdir eru á túnum a.m.k. 240 býla í Múlasýslu og á þessum býlum eru samtals 946 hektarar, eða 31% af túnum Þeirra, ýmist dauðkalin eða svo mikið kalin að óumflýjanlegt er að endurvinna það land, og hafa sumir þegar endurræktað tún sín. Auk þessa eru um 680 hektarar af túnum þessara býla stórskemmdir af kali, og tekur mörg ár að láta það land jafna sig. Varlega áætlað mun töðufengur í Múlasýslum verða 50—70 þúsund hestburðum minni í sumar en venjulega. Þetta kom meðal annars fram i erindi, sem dr. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri hélt í útvarpið, í gærkvöldi, en þar ræddi hann einkum um heyskaparhorfur í sumar. Búnaðarmálastjóri sagði, að of snemmt væri enn þá að segja til um hvernig heyskapur í sumar yrði, en heyskaparhorfur væru frá því að vera góðar til þess að vera ágætar, nema á Austurlandi. Búnaðarmálastjóri sagði, að veðrátta um allt land hefði verið óvenju stillt og þurrviðrasöm frá því fyrir sumarmál, en mjög köld austanlands og norðan fram undir maílok, er hlýna tók norðanlands, en austanlands hefði verið mjög kalt þar til síðustu dagana.

Sunnan og suðvestanlands greri snemma í vor, en vegna langvarandi þurrka spratt þar fremur hægt og sláttur hófst þar ekki almennt fyrr en um mánaðamótin júní/júlí. Fyrrihluta júlí lék veðráttan við bændur á þessu svæði og mikið magn náðist af vel verkuðum heyjum. Hins vegar fengu margir minna magn en venjulega vegna lítillar sprettu, en treysta því að fá meiri há, enda hefur hún sprottið vel í rekjunni undanfarið, einkum þar sem vel hefur verið borið á. Má því telja að heyskaparhorfur suðvestanlands og sunnan séu ágætar, svo framarlega sem tíðar far verður gott næstu sex sjö vikurnar. Vestanlands og norðan greri mun seinna en sunnanlands og voru tún víða mjög lítið sprottin um mánaðamótin júní/júlí vegna kulda og þurrka, og höfðu fáir bændur í þessum landshlutum Þá byrjað slátt að nokkru ráði. Tún á Vestur- ,og Norðurlandi hafa yfirleitt sprottið vel síðastliðinn hálfan mánuð. Við Breiðafjörð eru horfur góðar og sömu sögu mun yfirleitt að segja um Vestfirði, og snúi brátt til þurrkatíðar aftur mun heyskapur verða vel í meðallagi á þeim slóðum.

Í Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu spratt mjög seint og þar er sláttur víðast hvar nýbyrjaður og mjög lítið magn hefur veríð unnt að þurrka þar. Spretta er nú orðin góð víða í þessum sýslum og horfur því fremur góðar með heyskap ef vel viðrar. Í A-Húnavatnssýslu og Skagafirði var spretta nokkru fyrri til en við vestanverðan Húnaflóa, einkum í innsveitum. Byrjuðu margir þar slátt um mánaðamótin eða í fyrstu viku júlí. Lítur vel út með heyskap í þessum sýslum. Í Eyjafirði eru horfur ágætar og hefur þar náðst upp mjög mikið magn af vel verkaðri töðu og hafa ýmsir bændur þegar lokið fyrri slætti eða eru að ljúka honum, en eins og venjulega er heyskapur ekki eins langt kominn í úthluta Eyjafjarðar og i mið- og innhluta héraðsins. Í Suður-Þingeyjarsýslu eru horfur allgóðar, en þar spratt fremur seint vegna þurrka og kulda. Heyskapartíð hefur verið hagstæð og bændur slegið allmikið og hirt eftir hendinni og síðustu dagana hefur gras þotið upp í hlýindum. Í Norður-Þingeyjarsýslu eru heyskaparhorfur batnandi, en þar var seinsprottið og á nokkrum jörðum voru tún kalin til mikils skaða, alls um 80 ha á 14 býlum og má reikna með að heyfengur þar verði 3—4 þús. hestburðir undir meðallagi.

Í Múlasýslum er ástandið mjög slæmt eins og fyrr segir vegna kalsins. Hefur áður verið greint frá ýmsum orsökum þess í Tímanum, en Búnaðarmálastjóri skýrði frá því í erindi sínu, að Búnaðarfélag Íslands hefði sent tvo starfsmenn sína austur til þess að mæla skemmdirnar og í skýrslu þeirra koma fram þær upplýsingar, sem getið var í upphafi fréttar þessarar. Auk kalsins í Múlasýslum hefur spretta verið mjög léleg á óskemmdri jörð vegna þurrka og kulda, en nú síðustu daga hefur mjög brugðið til hins betra. Eru nú flestir byrjaðir heyskap eystra. Í Austur-Skaftafellssýslu er lítið sem ekkert um kal, en spretta var þar lengi léleg vegna þurrka og kulda en nú er þar orðið allgott útlit og verði góð tíð héðan af munu Austur-Skaftfellingar ekki verða í vandræðum, þótt ólíklegt sé að þeir geti miðlað öðrum. Búnaðarmálastjóri sagði, að ekki væri að svo komnu máli unnt að segja til um, hve mikil hey mundi vanta á Austurlandi í haust, en öruggt væri að þar yrði mikill heyskortur. Væri því óhjákvæmilegt og sjálfsagt að hið opinbera hlypi undir bagga með þeim, sem verst yrðu staddir, og treysta menn því að ríkisstjórnin bregðist vel við, en það leysti ekki allan vandann. Til Þess að unnt væri að hjálpa þyrftu að hey að vera til og hvort bændur í öðrum landshlutum yrðu aflögufærir í haust væri ekki hægt að fullyrða um að svo komnu máli. Þó væru góðar horfur á því að bændur suðvestanlands yrðu aflögufærir. Búnaðarmálastjóri sagði að lokum: „Ég vil ljúka orðum mín um með þeim tilmælum til allra bænda landsins að afla eins mikilla heyja og nokkur kostur er á. Ég þoli ekki að heyra bændur segja, að þeir séu búnir að heyja nóg. Sú þjóð, sem átt hefur í stríði við heyleysi tæpar 11 aldir mun seint eiga of mikil hey. Í haust þarf að gæta þess að setja varlega á heyin, hvar sem er á landinu. Heykaup og heyflutningar þurfa að gerast í sumar og haust. Því má enginn á hausti komanda setja óvarlega á í trausti þess að einhver fyrirhyggjusamur bóndi bjargi honum á síðustu stundu ef fóður þrýtur.“

Þann 30.júlí varð jörð alhvít á Grímsstöðum á Fjöllum, snjódýpt mældist 2 cm. Tíminn segir af kuldum og snjó fyrir norðan 31.júlí:

ED-Akureyri, föstudag. Nú hefur kólnað í veðri hér norðanlands og aðfaranótt miðvikudags féllu kartöflugrös í allmörgum görðum í Mývatnssveit og Aðaldal. Í morgun var grátt í rót í Mývatnssveit og sum fjöll voru hvít. Á miðvikudagsnóttína var mjög kalt nyrðra og víða frost. Frost fór niður í þrjú stig í Aðaldal. Þar féll gras víða í kartöflugörðum, en eins og venjulega var það mjög misjafnt, enda fer það eftir legu garðanna mót vindum og sól. Í Mývatnssveit var einnig kalt þessa nótt og féllu Þar einnig víða grös í kartöflugörðum. Þar er sömu sögu að segja, sumir garðar eru svartir aðrir grænir. Ekki mun hafa fallíð grös í görðum hér í Eyjafirði. Í morgun var grátt í rót í Mývatnssveit, Vaðlaheiðin var grá og Kinnarfjöllin hvít. Fnjóskadalnum var grátt heim undir bæi og sporrækt var í Grýtubakkahreppi. Þá er færð farin að þyngjast á Siglufjarðarskarði. Áætlunarbílnum frá Siglufirði til Varmahlíðar gekk að vísu allvel, ekki er talið ráðlegt að leggja á Skarðið á keðjulausum bílum. — Búist er við kalsaveðri hér norðanlands um helgina, en vonandi verða ekki svo miklir kuldar að gróður bíði hnekki í stórum stíl.

Tíminn segir af ískönnun 4.ágúst:

MB-Reykjavík, þriðjudag. Varðskip kannaði í dag ísinn út.af Vestfjörðum, en undanfarið hefur verið talsvert um tilkynningar frá skipum um ís á siglingaleið fyrir Horn. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem Landhelgisgæslan hefur sent blaðinu virðist ís ekki vera að ráði nær landinu ven venjulega og Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, sagði að ekki væri neitt unnt að spá fyrir um legu íssins í vetur af þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Það kemur alloft fyrir síðari hluta sumars að ís rekur nálægt Horni, einkum ef vestanátt hefur verið ríkjandi á hafinu. Nú teygist mjó ístunga suður á móts við Horn við austurjaðar Reykjarfjarðaráls eins og sést af meðfylgjandi korti. Að vísu mun þessi tunga vera óvenjulega sunnarlega, en þó engan veginn svo að til stórtíðinda megi teljast. Vegna þess að blaðið hefur heyrt menn hafa, orð á því að líklega væri nálægð íssins nú fyrirboði ísaveturs spurði það Jón Eyþórsson veðurfræðing um það atriði. Jón sagði að þessi ís væri í sjálfu sér engin bending um íshættu næsta vetur, því hann myndi verða á bak og burt innan tíðar og sá ís, sem okkur myndi stafa hætta af væri tæplega myndaður ennþá.

Morgunblaðið segir 4.ágúst af næturfrosti í Kjós:

Valdastöðum, Kjós, 3. ágúst. Frost mældist í nótt sem leið í Kjósinni og komst frostið niður í eitt til tvö stig. Ekki er mér kunnugt um skemmdir en búast má við að þær hafi orðið nokkrar, t.d. á kartöflugrasi.

Morgunblaðið segir af þurru ári og vatnsskorti 7.ágúst:

Úrkoman í Beykjavík fyrstu 7 mánuði þessa árs mældist aðeins 65% af því sem er í meðalári og er það minna en nokkru sinni fyrr frá því að mælingar hófust. Varð úrkoman þessa 7 fyrstu mánuði aðeins tæplega 262 mm á móti 404 mm í meðalári. Hefur þetta haft það í för með sér, að yfirvofandi hætta er á vatnsskorti í Gvendarbrunninum, ef ekki rignir fljótlega. Hafnfirðingar fá sitt neysluvatn úr Kaldárbotnum og er nú farið að bera á vatnsskorti hjá þeim. Gripið hefur verið til þess ráðs að minnka framrennsli fram í Elliðavatn til að reyna að halda í horfinu í Gvendsbrunnum. Það hefur einnig hjálpað nokkuð til, að vatnsneysla er minni þennan hluta árs heldur en að vetrarlagi og er einkum minna notað af vatni til iðnaðar.

Tíminn segir enn af heyskap 11.ágúst:

JHM-Reykjavík, þriðjudag. Heyskapur hefur gengið vel um allt land í sumar, nema á Austurlandi, þar sem bændur hafa orðið illa úti vegna kalskemmda á túnum sínum. Blaðið hafði tal af Gísla Kristjánssyni, ritstjóra, og sagði hann, að heyskapurinn á Suður- og Suðvesturlandi hafi verið svo góður, að til fágæta má teljast. Spretta á túnum allt frá Mýrdal og upp í Borgarfjörð hefur verið óvenju góð, og heyskapur gengið svo vel, að flestar hlöður eru orðnar fullar, og bændur eru farnir að stakka hey úti. Hrakningar á hey hafa engir orðið í sumar og tafir við heyverkun hafa verið sama og engar. Bændur á þessum slóðum eiga margir hverjir þegar of mikið hey og geta sumir selt töluvert magn til þeirra, sem með þurfa. Heyskapurinn hefur einnig gengið vel fyrir vestan, nema hvað það spratt nokkuð seint á túnum. Þurrkar hafa komið í veg fyrir háarsprettu, en grasið hefur samt verið gott. Á Norðurlandi hefur heyskapurinn einnig gengið vel, nema hvað sprettan var seint á ferðinni. Aftur á móti hefur heyskapurinn verið mjög erfiður fyrir austan í sumar, og sums staðar hefur varla verið nógu mikil beit fyrir nautgripi. Sauðlönd hafa aftur á móti verið skárri. Það er of snemmt að spá nokkru um heildarútkomuna fyrir austan, sagði Gísli, „það hefur nefnilega verið hálfgerð ísöld þar“.

Nú horfði til vandræða í vatnsmálum Hafnfirðinga. Morgunblaðið 15.ágúst:

Vegna mikilla þurrka í vor og í sumar er nú orðinn mikill vatnsskortur í Hafnarfirði. Frá því kl.10 á morgnana fram til kl.7 á kvöldin er algjörlega vatnslaust í stórum hlutum bæjarins og þá fyrst og fremst í kringum Hamarinn. Á öðrum svæðum bæjarins, sem hátt liggja, er og vatnsrennslið mjög lítið. Hefur fólk tekið það ráð við þessu að fylla öll hugsanleg ílát af vatni, jafnvel baðker í því skyni að sitja ekki uppi. Orsök er sú, að vatnsmagnið i vatnsbóli Hafnfirðinga við Kaldárbotna hefur farið stöðugt minnkandi í sumar vegna þurrka. ... Vatnsleysið í Hafnarfirði hefur komið öllum á óvart, þar eð talið hafði verið til þessa, að vatnsbólið myndi geta fullnægt vatnsþörf bæjarfélagsins, sem hefði tugþúsundir íbúa.

Morgunblaðið segir óþurrka- og kalfréttir úr Breiðdal 24.ágúst:

Breiðdalsvík, 20. ágúst. — Eins og áður hefur komið fram í fréttum, var óvenju mikið um kalskemmdir í túnum í vor. Af þessum sökum byrjaði sláttur mjög seint og vegna ótíðar eru margir bændur enn ekki farnir að hirða neitt. Jafnvel dæmi til að ekki sé byrjað að slá. Ef ekki bregður fljótlega til þurrka, verða hér mjög alvarleg vandræði. Nokkuð víða er spretta sæmilega góð, en þá koma óþurrkarnir til. Eru óþurrkarnir eiginlega orðnir ennþá verri en kalskemmdirnar, því í sæmilegri heyskapartíð hefði þó verið hægt að nýta úthaga. — Páll.

Tíminn segir 24.ágúst frá grjóthruni á Krýsuvíkurvegi:

KJ-Reykjavik Ik, mánudag. Tvö nokkuð stór björg féllu í gær á Krýsuvíkurveginn, þar sem hann liggur meðfram Hlíðarvatni. Mun vætutíðin hafa orsakað það að þau losnuðu úr skriðu, sem er fyrir ofan veginn, og varð hann illfær af þeim sökum. Voru lesnar tilkynningar til ökumanna í útvarpið af þessum sökum, og vegagerðin fjarlægði síðan björgin í morgun. Engar teljandi skemmdir urðu á veginum.

Mikið hret gerði 25.ágúst og næstu daga á eftir. Alhvítt varð á fjórum veðurathugunarstöðvum, Barkarstöðum í Miðfirði, Hólum í Hjaltadal, Reykjahlíð og Grímsstöðum á Fjöllum. Á Hólum var alhvítt 2 morgna, en 4 á Grímsstöðum, snjódýpt mældist þar mest 9 cm. Ritstjóri hungurdiska minnist þess sérstaklega að um morguninn 25. féllu snjókorn í Borgarnesi og snjó festi stutta stund niður í rætur Hafnarfjalls handan fjarðar. Er það eina skipti sem hann man eftir slíku í ágústmánuði. 

Slide11

Kortið sýnir kuldann og hrakviðrið að morgni 25. ágúst. Vísir segir af hretinu sama dag undir fyrirsögninni „Vetur heilsar“.

Hitinn komst víða niður í 3—5 stig, t.d. var 3ja stiga hita á öllu Suðurlandsundirlendinu í nótt, en kaldast í byggð var 1 stigs hiti á Kjörvogi. Aftur á móti var 1 stigs frost á Hveravöllum með snjókomu. Norðanlands og á Vestfjörðum var ýmist kalsarigning eða slydduél í morgun og náðu þau suður fyrir Snæfellsnes, en þar fyrir sunnan er yfirleitt þurrt veður. ... Í Reykjavík urðu nokkrar skemmdir af völdum hvassviðris í nótt, m.a. fauk girðing á Hverfisgötu og rafmagnslína slitnaði inni í Höfðaborg og féll í götuna.

Hretfréttir í Tímanum 26.ágúst:

HÓl, Reykjavík, miðvikudag. Hvassviðri og kuldi var á vestanverðu landinu í dag og nótt. Voru 8 vindstig í Reykjavík og fjögurra stiga hiti. Í Vestmannaeyjum og á Vestfjörðum voru 9 til 10 vindstig, víðast eins til þriggja stiga hiti um Vestfirði, en komst niður í frostmark í Kjörvogi. Úrkoma var talsverð á Vestfjörðum, rigning og slydda. Á Norðurlandi og Austfjörðum var lygnara, en kalt. Víða slydda og rigning á Norðurlandi, en þurrt á Austfjörðum. Austanfjalls var þriggja stiga hiti, en austan Mýrdalsjökuls var allmiklu hlýrra. Blaðið átti tal við Guðmund Sveinsson, fréttaritara sinn á Ísafirði í dag. Sagði hann, að þar hefði verið vonskuveður í nótt og fram eftir degi. Tepptist Breiðadalsheiði í gærkvöldi og var ófær milli klukkan 8 í gærkvöldi og til kl. 2 í dag. Snjóaði í fjöll á Ísafirði í morgun, en frost var ekki í byggð, og féll ekki kartöflugras. Skriða féll á Óshlíðarveg í nótt en vegurinn var strax ruddur.

Guðmundur P. Valgeirsson, fréttaritari blaðsins í Trékyllisvík, tjáði blaðinu að norðan hríðarveður væri þar í dag og hefði gránað í sjó niður. Talsvert hvassviðri var með rigningu og sjókomu, Er allt á floti og hefur víða runnið á vegi. Nokkuð var að lægja undir kvöldið. Haraldur Sigurðsson á Akureyri sagði, að þar væri leiðindaveður, þriggja stiga hiti og hvasst, en úrkomulaust.

Morgunblaðið segir einnig hretfréttir 26.ágúst:

Í fyrrinótt kólnaði mikið, einkum um vestanvert landið. Snjóaði í fjöll og allt niður í byggð á Vestfjörðum, og á vestanverðu Norðurlandi. Þessu fylgdi hvassviðri, 8—9 vindstig í Reykjavík og var kalsarigning eða slydda víða fyrir norðan og vestan í gær. Seinni hluta dags í gær lægði veðrið, en Veðurstofan spáði víða næturfrosti í nótt. Fannst mörgum þetta fyrsta kuldakast minna óþægilega mikið á að Vetur konungur væri í nánd. Mbl. hafði tal af nokkrum fréttariturum sínum, til að fá hugmynd um veðrið og fara þær fréttir hér á eftir:

Akranesi — Snjóað hefir í Akrafjall í nótt. Var greinilegt í morgun að snjó hafði fest á Geirmundartind og Háahnjúk. Í fyrsta sinn á sumrinu snjóaði í fjöll í Flókadal og Heiðarhyrna í Skarðsheiði brá litum. — Oddur

Stykkishólmi, — Hér er snjór niður í miðjar hlíðar. Krapahríð var í nótt og nú er norðaustankaldi og gengur á með skúraleiðingum. Heiðarvegir tepptust. Fréttaritari.

Ísafirði, — Í gærkvöldi og í nótt snjóaði talsvert við Ísafjarðardjúp. Er snjór niður í miðjar hlíðar og næstum alveg niður í sjó á Grænuhlíð, austan Ísafjarðardjúps. Heiðavegir tepptust. Í morgun var mjög þungfært yfir Breiðadalsheiði milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar, en þó munu jeppar með keðjur á öllum hjólum hafa komist þar yfir. Heiðavegirnir verða sennilega ruddir í dag, enda ættu að vera hæg heimatökin, því 6 jarðýtur vinna nú að mikilli vegagerð á Breiðadalsheiði. Kuldakast hefur verið hér undanfarna daga, veður hryssingslegt og talsvert mikið rignt. Má heita að það sé eina úrkoman í sumar. En tíðarfar á Vestfjörðum á þessu sumri hefur verið eindœma -gott. — H.T.

Hólmavík. — Hér snjóaði í fjöll í nótt. Í morgun var 4 stiga hiti, norðaustan hvassviðri og rigning á láglendi. Nú er að lægja. Mér er ekki kunnugt um hvort meira hefur snjóað norðar á Ströndunum, en í Kjörvogi var 1 stigs hiti. Ég sé ekki að kartöflugras hafi orðið fyrir skemmdum af frosti ennþá. Aflabrögð hafa verið hér heldur rýr í sumar. Mjög lítið fengist á dragnót og handfærabátar hafa aflað lítið. Þó virðist afli heldur að glæðast. — Andrés.

Blönduósi. — Hér hefur verið norðan hret í dag og alsnjóa allt niður í 100 m yfir sjó. — Björn.

Siglufirði. — Hér er orðið grátt ofan í byggð. Hefur verið úrkoma, snjóað í fjöll og rignt í byggð. Eins stigs hiti er og kalt. Er Siglufjarðarskarð orðið torfært. — Stefán

Mývatnssveit — Hér er kalt, rúmlega 3 stiga hiti og norðan súld. Nú er að kólna og má búast við að snjói í nótt. Í suðursveitina að sjá, er mjög dimmt yfir og sennilega komin snjókoma þar. — Jóhannes.

Tíminn segir af skemmdum sem illviðrið olli í Bolungarvík í pistil 27.ágúst:

KJÚL, Bolungarvík, fimmtudag. Aðfaranótt miðvikudagsins [25.] var mikið hvassviðri í Bolungarvík og olli nokkrum skemmdum. Í Þjóðólfstungu fauk allt járn af nýbyggðu íbúðarhúsi, og varð bóndinn þar fyrir miklu tjóni. Í þorpinu urðu víða skemmdir á girðingum, og var laust brak á fjúka, járnplötur losnuðu á nokkrum stöðum.

Fregnir af miklum fjársköðum í þessu veðri birtust ekki fyrr en í október. Morgunblaðið segir frá þann 13.október:

Ærlæk, Axarfirði: Haustgöngur hófust hér að venju um 20. september og var ekkert fréttnæmt af nærheiðunum. Höfðu aðeins fundist nokkrar kindur, sem lagst höfðu afvelta eða faríð í hættur, en engu meira en oft áður. En gangnamenn af Búrfellsheiði höfðu aðra sögu að segja. Þar hafði verið ljót aðkoma, fé fundist dautt í tugatali. Hafði það ýmist fennt eða hrakið í hættur og farist. Fundust þá strax í fyrstu göngum milli 30 og 40 kindur og í öðrum göngum bættust margar við, svo talið er að þegar hafi fundist um 50 fjár alls. Og munu þá ekki Öll kurl komin til grafar enn, því snjó hefur ekki að fullu leyst úr heiðinni. Telja gangnamenn varla vera undir 70 fjár, sem farist hafi, þó varlega sé áætlað. Fjárskaði sem þessi hefur ekki orðið á Búrfellsheiði á þessari öld, en sagnir eru um, að um svipað leyti árið 1902 hafi farist þar fé, en ekki líkt því svona mikið. Foraðsveður það,  sem hefur valdið þessum fjárskaða í sumar, mun hafa verið 25. ágúst. — Jón.

Morgunblaðið segir af hrakningum í pistli 31.ágúst:

Aðfaranótt sunnudagsins s.l. [29.ágúst] komu tveir menn úr Reykjavík gangandi ofan að Húsafelli. Var þá frost og hörkubylur. Kristleifur Þorsteinsson á Húsafelli fór þegar með mönnunum upp á Kaldadal, en þar höfðu þeir velt Land-Roverbifreið sinni í snjónum. Í bílnum, sem valt, voru auk hinna tveggja fyrrnefndu manna kona með þrjú börn, 2ja, 4ra og 6 ára. Bjó hún um sig í bílnum þar sem hann lá á hliðinni og voru börnin sett í hvílupoka. Varð hún ásamt börnunum að bíða þar á staðnum í 5 1/2 tíma þar til hjálpin barst. Bíllinn valt á Langahrygg miðjum. Kristleifur sagði að það hefði rétt verið svo að hann hafði sig þangað upp eftir á nýjum Austin-Gipsi bíl, svo var fannfergið. Tók hann fólkið með sér niður að Húsafelli og gisti það þar um nóttina. Daginn efir var haldið upp á Langahrygg að sækja bílinn og náðist hann brátt á réttan kjöl og var þegar gangfær, en ekki komst hann af eigin rammleik niður að Húsafelli sökum þess að hann var á sléttum dekkum. Kristleifur hafði orð á því að konan og krakkarnir hefðu sýnt sérstakan dugnað. Engum varð meint af volkinu nema hvað karlmennirnir fengu harðsperrur.

Tíminn segir 1.september af lokum hretsins:

MB-Reykjavik, þriðjudag. Illviðrakaflanum, sem gengið hefur yfir Norðurland að undanförnu er nú lokið, og í dag var þar yfirleitt besta veður, en fjöll eru enn alhvít. Heyskapur hefir staðið i stað viðast norðanlands í um hálfan mánuð og í snjónum síðustu vikuna hefur fé flykkst niður til byggða og hefur verið rekið til réttar á a.m.k. fjórum stöðum i Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu. Í dag skein sól á Norðurlandi eftir nær óslitinn illviðrakafla í hálfan mánuð. Síðustu viku hefur snjóað meira og minna og eru fjöll alhvít. Fé hefur flykkst niður í byggð og hefur sums staðar verið rekið til réttar. Á fimmtudaginn var réttað í Staðarrétt í Skagafirði og á sunnudag inn í Sauðárkróksrétt. Í gær var svo réttað í Vatnsdalsrétt og í dag í Auðkúlurétt. Heldur virtist þeim Vatnsdælingum féð rýrt, en á það ber að lita að það var blautt og svangt, en náð var í það fram fyrir girðingu, þar sem það var á hagleysu vegna snævarins. Skagfirðingar telja féð hafa litið allvel út. Erlingur Davíðsson, ritstjóri á Akureyri, kannaði þessi mál fyrir blaðið í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslum. Hann kvað fé víðast hvar hafa komið heim til byggða og sums staðar í ríkum mæli, nefndi hann t.d. að við fjárgirðingu Akureyrarbæjar hefðu i gær verið mörg hundruð fjár og frammi í Saurbæjar- og Hrafnagilshreppum væri mikið fjöldi kominn. Þar væru bændur yfirleitt búnir að heyja tún sín og hleyptu fénu á þau, er það kæmi til byggða. Hann kvað hvergi hafa verið réttað enn á þessu svæði. Um færð hafði hann þær fréttir, að Axarfjarðarheiði hefði lokast vegna snjóa fyrir helgina og hefði verið ófær eða illfær í dag, Siglufjarðarskarð væri ófært enn og Lágheiði hefði verið haldið opinni með vegheflum. Á mánudagsnóttina hefðu jeppar verið fastir á veginum milli Möðrudals og Grímsstaða og hefði þá mikill snjór verið á öllum öræfum og allt austur í Hrafnkelsdal. Illviðrakafli þessi hefur einnig hamlað heyskap, eins og gefur að skilja. Erlingur sagði að hann hefði fengið þær fréttir að á Langanesi og í Þistilfirði hefði innan við helmingur bænda náð að heyja helming af fyrri slætti og sumir sáralítið. Blaðið náði í dag tal af Einari Stefánssyni á Egilsstöðum, en hann var þá staddur á Bakkafirði. Hann kvað þar ákaflega kuldalegt og hefði snjóað langt niður í fjöll. Hann fór þangað á laugardag um Möðrudalsfjöll og Vopnafjörð og fékk þreifandi byl. Nú kvað hann orðið nokkurn veginn heiðríkt. Hann kvað heyskap mjög mismunandi á veg kominn, en margir ættu eftir að heyja mjög mikið. Sömu sögu væri að segja af Héraði, þar væru sumir allvel á veg komnir með heyskapinn, en aðrir ættu mjög mikið eftir. Fé hefði komið mikið niður fyrir austan, en þar hefði ekkert verið réttað, enda engar girðingar sem fé stöðvast við. Hann kvaðst hafa heyrt á mönnum að þeim litist prýðilega á féð, enda væri gróður til fjalla eystra með allra besta móti og gróðri hefði farið þar fram, alveg þar til snjóaði.

Tíminn frá vandræðum á Akureyrarhöfn 2.september:

HS—Akureyri, miðvikudag Um áttaleytið í morgun fór togarann Hrímbakur EA 5 á kreik hér í höfninni, en hann hefur legið við festar undanfarin ár. Rak togarann norður undir tanga, en hann strandaði þó ekki. Samkvæmt upplýsingum hafnarstjórans var Hrímbakur með fimm liði af keðjum úti, en allhvasst var í morgun, vindur á sunnan og suðaustan 25 til 40 hnútar. Harðbakur mun flytja Hrímbak upp að bryggju á morgun.

Morgunblaðið segir 2.september af snjókomu á Siglufirði og snjóflóði í Siglufjarðarskarði:

Siglufirði: — Undanfarna daga hefur úrkoma verið mikil og snjóað til fjalla og raunar niður í byggð. Skarðsvegurinn tepptist, en dag hvern hefur þó vegamálastjórnin látið aðstoða bifreiðir yfir fjallveginn. Á sunnudag s.l. [29.] er hvítur snjórinn lá yfir bæ og byggð, og bleytuslyddan minnti á nálægð haustsins, kom vb. Siglfirðingur með söltunarsíld til Siglufjarðar. Það er máski ekki einsdæmi, en áreiðanlega fátítt, að síld sé söltuð í snjókomu.

Siglufirði, 1. september. Það bar til á 10. tímanum í morgun, að 15 m breið snjóskriða féll á Skarðsveginn ofarlega í sneiðingnum Siglufjarðarmegin. Féll snjóskriðan á jarðýtu Siglufjarðarkaupstaðar, sem þarna vann að snjóruðningi, braut rúður í hlífðarhúsi ýtunnar, fyllti hana af snjó og færði í kaf. Tveir menn voru að störfum á ýtunni, en höfðu rétt áður en skriðan féll yfirgefið hana til að fá sér kaffisopa. Sakaði þá ekki. Þegar var sendur mannsöfnuður til að ná ýtunni úr snjóskriðunni og tókst það skömmu fyrir hádegið í dag og heldur hún áfram snjóruðningi af Skarðinu, sem að forfallalausu ætti að opnast til umferðar einhvern tíma í nótt. Þá féllu nokkrir smærri aurskriður úr Strákafjalli á vegarruðninginn út að jarðgöngunum. Var sá vegur um tíma í morgun ófær, en er nú fær a.m.k. jeppum og stærri bílum. Þá féll og um eitt-leytið í dag aurskriða úr fjallshlíðinni ofan við bæinn sunnan svokallaðra Gimbrarkletta, skar í sundur veg, sem liggur upp í Hvanneyrarskál, fyllti á kafla svonefndan Efriskurð, en það er skurður sem ætlaður er til að taka á móti vatnsog aurrennsli úr fjallinu, hélt áfram niður undir efstu hús bæjarins, en stöðvaðist í svonefndum Neðri-skurði, sem þjónar sama tilgangi og hinn. Hefðu þessir skurðir ekki verið til staðar er vafalaust að skriðan hefði valdið skemmdum á lóðum og máski öðrum verðmætum. Í gær var hér hiti og gott veður, eftir margra daga úrfelli og snjókomu, en í nótt gekk aftur á með úrfelli og mun það orsök skriðufallanna. — Stefán

Nú dró til tíðinda við Skeiðará. Tíminn 3.september:

MB—Reykjavík, fimmtudag. Allt bendir nú til þess, að hlaup sé komið í Skeiðará, en ekkert bendir enn til eldsumbrota í Vatnajökli, enda mun það vera venja, að Grímsvötn gjósi ekki, fyrr en Skeiðarárhlaup hafa náð hámarki.

Tíminn heldur áfram 4.september:

MB-Reykjavík, föstudag. Það er nú orði ljóst, að komið er hlaup í Skeiðará úr Grímsvötnum, þótt hlaupið sé enn ekki orðið mikið að vöxtum, en eins og sagt var frá í blaðinu í dag eru hlaup í Skeiðará oft lengi að vaxa til hámarks, allt að 10—20 daga. Þá er einnig orðið mjög hátt í Grænalóni og ekki ósennilegt að hlaup komi úr þeim í Súlu í haust. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur, Magnús Jóhannsson útvarpsvirkjameistari og kona hans frú Hanna Brynjólfsdóttir flugu yfir Grímsvötn og Skeiðará í dag. Í viðtali við blaðið að fluginu loknu sögðu þau, að ekki væri vafi á því að Grímsvötn væru hlaupin. Magnús flaug þarna yfir í síðasta hlaupi, í janúar 1960, þegar hlaupið var nýbyrjað, og sagði hann nákvæmlega sams konar ummerki nú, nema hvað hlaupið nú væri enn ekki orðið alveg eins mikið. Greinilegar sprungur eru komnar í jökulinn á Grímsvatnasvæðinu, sem sýna að jökullinn er þegar tekinn að síga vegna framrennslis vatnsins, sem undir er. Skeiðará sjálf er ekki orðin mjög vatnsmikil ennþá, en þó talsvert meiri en eðlilegt er. Hún er mjög dökk að sjá og af henni leggur megna brennisteinsfýlu og nokkur jakaburður er kominn í hana. Áin kemur öll fram undan jöklinum í einu lagi ennþá, fast við Jökulfellið svokallaða, sem er vestan við Bæjarstaðarskóg. Síðan greinist hún í tvær höfuðkvíslar. Önnur þeirra lónar fyrst nokkuð í Morsárdalinn, en rennur síðan fram með brekkunum austan hans og austur með þeim fyrir framan Skaftafell og hefur, eins og segir í blaðinu í dag rofið vegarsamgöngur að Skaftafelli. Önnur kvísl, álíka mikil, rennur beint fram sandinn, vestar. Annað sáu þeir félagar í þessari ferð. sem einnig er mjög fréttnæmt og menn áttu síður von á. Vatnsborð Grænalóns hefur hækkað mjög mikið og mun ekki hafa verið svo hátt um ára- eða jafnvel áratugaskeið. Er vatnsborðið nú aðeins um 10—15 metrum lægra en hæstu ummerki eftir vatnsborð eru þarna. Fyrir nokkrum árum, þegar lítið var í lóninu, var heillöng leið frá því inn að skriðjökli, sem gengur niður frá Þórðarhyrnu, en nú er hann umflotinn og gengur tunga úr honum út í. Áður fyrr rann vatn úr Grænalóni út í Núpsvötn en ekki Súlu, og nú vantar aðeins um 5—6 metra til þess að vatn renni þangað. Magnús kvað allar líkur benda til þess að búast mætti við hlaupi í Súlu í haust, en ef vatnið næði að renna út í Núpsvötnin gæti skapast jafnvægi, sem kæmi í veg fyrir Súluhlaup. Magnús kvað allan jökulinn frá Þórðarhyrnu og inn að Grímsvötnum vera mjög sprunginn og brotinn og kvaðst hann hræddur um að fram færu að koma einhver umbrot i jöklinum. Hefðu miklar breytingar orðið þarna í yfirborði jökulsins undanfarin tvö ár. En er of snemmt að spá neinu um það, hvort gos verður í Grímsvötnum í sambandi við þetta hlaup í Skeiðará, en gos verða þar ekki nærri alltaf, þegar hlaup koma. Síðasta gosið varð árið 1945, en það var lítið. Næsta gos þar áður varð 1934 og það var stórgos, til dæmis sást gosmökkurinn alla leið frá Reykjavík. Gosin koma yfirleitt ekki fyrr en hlaupin eru í hámarki, svo enn getur liðið vika, þar til útséð er um hvort gos verður. Búast má við að símasamband rofni austur yfir Skeiðársand þá og þegar, því stór hlaup í Skeiðará eira engu þar sem þau fara yfir. Fyrir ári síðan voru gerðar fyrstu mælingar fyrir framtíðarvegi yfir Skeiðarársand með tilliti til brúargerðar á Skeiðará. Áin hefur löngum verið óyfirstíganlegur þröskuldur í vegarmálum og til skamms tíma hefur verið talið að brúargerð á henni yrði óframkvæmanleg og hún yrði síðasti og eini farartálminn í hringvegi kring um landið. Mælingarnar í fyrrasumar voru gerðar beinlínis með tilliti til þess að búist var við hlaupi í Skeiðará á næstunni og væri því unnt að sjá hvaða áhrif hlaup myndi hafa á veg og brú yfir Skeiðará. Ættu um það að fást merkar upplýsingar að afstöðnu því hlaupi, sem nú er að hefjast.

Í Tímanum 7.september er léttlesin grein „Þegar Skeiðará breytist í Amasonfljót“ - „mb“ kvittar fyrir. Ágætt yfirlit um sögu Skeiðarárhlaupa eins og hún var þekkt þá (síðar hefur margt bæst við). 

Tíminn segir af vatnsskortinum í Hafnarfirði í pistli 8.september - og einnig af Skeiðarárhlaupinu:

MB-Reykjavík, þriðjudag. Mjög tilfinnanlegur vatnsskortur er nú í Hafnarfirði og fer vaxandi með degi hverjum. Þau hverfi, sem standa hátt, hafa ekkert vatn allan daginn og jafnvel frá klukkan átta að morgni og fram yfir miðnætti. Veldur þetta eðlilega miklum óþægindum, auk þess sem það getur beinlínis orsakað mikla hættu, ef eldsvoða ber að höndum. Húsmæður í þeim hverfum, sem verst eru sett, hafa ekkert rennandi vatn allan daginn og verða að vaka fram yfir miðnætti til þess að fá vatn til að geyma til næsta dags. Öldugötuskólinn, sem átti að taka til starfa 1. september, getur ekki tekið til starfa meðan þetta ástand ríkir í vatnsmálunum, en einnig mun þar fleira koma til, því eftir mun að hreinsa í kringum skólann, vegna byggingarframkvæmda, áður en kennsla hefst. Þá er þess að gæta, að öryggi gegn eldsvoðum er að sjálfsögðu mjög skert á meðan slíkt vatnsleysi er, þar eð bílar ná ekki vatni úr brunahönum, og hefur þetta ástand vafalaust m. a. stuðlað að því að slökkviliðsstjórinn lét háþrýstibíl kaupstaðarins ekki fara út fyrir bæjartakmörkin í margumræddum bruna á Setbergi, þar eð langan tíma myndi hafa tekið að fylla bílinn að nýju hefði eldur orðið laus í vatnslausu hverfi. Fyrir nokkru voru gerðar vatnaveitingar við vatnsbólið við Kaldárbotna, og áttu þær að bæta ástandið, en þær urðu ekki til mikilla úrbóta og fer ástandið stöðugt versnandi, vegna hins óvenjulega úrkomuleysis. Nú mun vera í ráði að taka vatn úr borholu við Kaldársel, en hola sú var boruð árið 1962 á vegum Jarðborana ríkisins, er verið var að leita að jarðhita. Lítill hiti fannst þá þótt borað væri 900 metra niður, en hins vegar er unnt að fá gott vatn úr holunni. Er nú fyrirhugað að setja upp rafstöð við holuna og dæla úr henni vatni og gera menn sér vonir um að fá úr henni um 500 lítra á mínútu. Hins vegar mun ekki unnt að segja til um hvenær þetta verk kemst í framkvæmd.

MB—Reykjavík, þriðjudag. Skeiðará heldur áfram að vaxa en þó mun ekki hafa verið mikill munur á vatnsmagninu í henni í dag og í gær, og hún hegðar sér að öllu leyti líkt og þá. Ekkert gos er ennþá í Grímsvötnum, en megna brennisteinsfýlu leggur af ánni, sem hefur brotið allmikið jakahröngl úr jöklinum og borið fram. Ekki mun hafa vaxið neitt að ráði í öðrum vötnum á sandinum, Sandgígjukvísl, Súlu né Núpsvötnum.

Skeiðarárhlaupið rénaði. Tíminn segir frá 10.september:

MB—Reykjavík, fimmtudag. Skeiðarárhlaupið er nú í rénun, og verður því ekki eins mikið og flest fyrri hlaup. Að vísu er enn allmikið vatn í ánni, en munurinn nú og fyrir nokkrum dögum er samt greinilegur, að sögn Sigurðar Arasonar á Fagurhólsmýri. Sigurður sá yfir hlaupið í gær og telur hann, að þá hafi vatnsflaumurinn verið um þrír kílómetrar á breidd þar sem símalínan liggur austur yfir sandinn, enda hafa nokkrir staurar farið í flóðinu og er símasambandslaust austur yfir sandinn, en samband er í gegnum Höfn vestur yfir Breiðamerkursand.

Morgunblaðið segir heyskaparfréttir úr Mýrdal 24.september:

Litli-Hvammur, 19. sept.: Slætti í Mýrdal lauk almennt um viku af september og hafði staðið heldur með lengra móti og stafar það af óþurrkakafla, sem var hér í ágústmánuði. Annars má telja þetta sumar fremur gott og eru hey með mesta móti og hafa menn víða hlaðið upp stórum heyjum úti, þar sem hlöðupláss hefur þrotið. Kartöflugras féll sumstaðar snemma af völdum frosts og er kartöfluuppskera mjög misjöfn, þar sem búið er að taka upp.

Tíminn segir 26.september af heyflutningum milli landshluta:

KJ—Reykjavík, laugardag. Í næstu viku lesta tvö heyflutningaskip i Borgarnesi og Þorlákshöfn á Austfjarðahafnir, en fjórar heybindingavélar eru nú i gangi á Suðurlandi og í Borgarfirði. Dísarfellið mun lesta fyrst, en það tekur um 40 þúsund cub. fet í lest og auk þess mun  skipið taka dekkfarm af heyi á Austfjarðahafnir. Mælifellið mun lesta síðar í vikunni, og taka um fimm hundruð í lest. Fjórar heybindingsvélar eru nú í gangi, og er unnið við þær eftir því, sem hægt er vegna veðurs, en veður verður að vera þurrt þegar heyið er bundið í vélunum. Ein heybindingsvélin er staðsett í Borgarfirði, önnur í nágrenni Reykjavíkur, sú þriðja er í Árnessýslu og fjórða vélin er i Rangárvallasýslu. Hermann Guðmundsson, bóndi á Blesastöðum, annast um innkaup á heyi á Suðurlandi, auk þess sem hann tekur á móti gjafa heyi og peningum til heykaupa. Núna um helgina mun hann verða í Rangárvallasýslu við heykaup. Nokkuð hefur það tafið fyrir, að heykaupin eru gerð á sama tíma og göngur og réttir standa yfir, og er búist við, að heyflutningar til Austfjarðahafna muni standa yfir langt fram í október, því að þegar göngum og réttum lýkur, tekur sláturtíðin við, og bændur eru það fáliðaðir, að ekki er hægt að sinna mörgum verkum samtímis. Er það von manna, að haustveðráttan verði það góð, að hægt verði að sinna heyflutningum til bænda á kalsvæðunum á Austurlandi.

Tíminn birti 1.október fregn um mögulegt eldgos - en það var alls ekki. Við látum fréttina samt fylgja með:

MB-Reykjavík, fimmtudag. Sú fregn barst út um borgina í morgun að eldgos væri hafið einhvers staðar á miðhálendinu. Veðurathugunarmenn á Hveravöllum töldu í morgun að þeir sæju reykjarstróka frá eldgosi í stefnu á norðanverðan Hofsjökul. Svo virðist nú, sem hér hafi eingöngu verið um einkennilegar skýjamyndanir að ræða, og þegar dr. Sigurður Þórarinsson flaug yfir hálendið fyrri part dags í dag sá hann engin merki um eldsumbrot, en skýjabakki var þá yfir Sprengisandi, austanverðum Hofsjökli og norður yfir Eyjafjarðarhálendi.

Mikil umskipti urðu í veðri með október. Mánuðurinn varð hlýr og mjög úrkomusamur um landið sunnan- og vestanvert. Morgunblaðið segir af umskiptum eystra í fregn 2.október:

Egilsstöðum, 1. okt.: — Ljómandi fallegt veður er hér í dag, þessi yndislega suð-vestan átt, sem við þráum svo mjög hér á Héraði en höfum að mestu farið á mis við í sumar, enda nota bændur nú þennan góða þurrk til að slá og hirða síðasta stráið, því mjög votviðrasamt og kalt hefur verið nú um tíma. En í dag er hitinn um 14 stig. Í dag er verið að flytja hey, sem kom í gær til Reyðarfjarðar með skipi. Verið er þessa dagana að skera korn á Héraði. Er það þurrkað í þurrkunarvélum hér á Egilsstöðum. Kornið er misjafnt, sumt mjög gott, sumt mjög slæmt.

Tíminn birti 2.október aftur fréttir af hugsanlegum eldsumbrotum, í þetta sinn á Reykjaneshrygg. Enn er ekki fullupplýst um hvort hér hafi verið um umbrot að ræða eða ekki:

MB—Reykjavík, föstudag. Enn bárust fréttir út um borgina í dag um eldsumbrot, að þessu sinni á hafi úti. Smári Karlsson, flugstjóri hjá Loftleiðum, tilkynnti laust fyrir klukkan tíu í morgun að hann sæi mikla ólgu í sjónum um 44 mílur suðvestur af Keflavíkurflugvelli, en á þeim slóðum eru einmitt fornar eldstöðvar. Í dag flugu margir þarna yfir, en eru ekki á eitt sáttir um það hvað þarna sé að gerast, og á það bæði við um leikmenn og sérfræðinga. Smári Karlsson, sem er einn af elstu og reyndustu flugstjórum íslendinga og hefur svo hundruðum skiptir flogið yfir þessar slóðir, sagði í viðtali við blaðið í kvöld, að hann væri sannfærður um, að þegar hann flaug þarna yfir í morgun hefðu verið einhver neðansjávarumbrot þarna. Hann kvað þá í flugvélinni hafa séð úr mikilli hæð og fjarlægð hvítan blett á
sjónum. Hann kvað fyrstu tilgátuna hafa verið risastóran borgarísjaka, en þeir hefðu strax áttað sig á að hann gat ekki verið á þessum slóðum. Þá lækkuðu þeir flugið og aðgættu hvað um væri að vera. Smári kvað sjóinn hafa bókstaflega kraumað á allstóru svæði. Þetta var því líkast, sagði hann, að geysimiklu magni af lofti væri hleypt upp í gegnum sjóinn. Fyrst í stað var þetta alveg stöðugt, en svo dró aftur úr því, svo jókst það aftur, en þegar við fórum var krafturinn greinilega miklu minni. Smári kvað kraftinn hafa verið svo mikinn í þessu, þegar mest var um að vera, að hann hefði ekki þorað annað en að færa sig fjær vegna sprengihættu, enda flugvélin fullhlaðin farþegum. „Ég hefi séð allskonar fyrirbrigði á sjó úr lofti, og ég fellst alls ekki á að það sem ég sá hafi, verið neitt venjulegt brot“ sagði Smári.

Margir flugu þarna yfir í dag, bæði jarðfræðingar, blaðamenn og aðrir leikmenn og eru skoðanir vægast sagt allskiptar um það, hvað þarna sé að gerast. Guðmundur Sigvaldason, jarðfræðingur, sem fór þarna yfir um hádegisbilið, sagði í viðtali við fréttamann útvarpsins, og tekið var upp í flugvél yfir þessum slóðum, að þarna væri um greinileg eldsumbrot að ræða. Hins vegar er dr. Sigurður Þórarinsson ekki á sama máli. Hann telur sig ekki hafa séð neitt þarna, sem sannaði að eldsumbrot væru þarna á hafsbotni, og taldi að þarna myndi vera um að ræða brot á Eldeyjarboða svokölluðum, sem er gömul eldstöð á hafsbotni, talinn vera leifar eyjunnar sem þarna myndaðist í eldgosinu 1783, en þá myndaðist á þessum slóðum heil eyja, en þar sem hraun kom þá ekki upp úr sjónum hvarf hún aftur í öldu
rótinu. Blaðamenn Tímans flugu þarna yfir í flugvél Björns Pálssonar á fjórða tímanum í dag, ásamt fleirum. Þá var þarna mikil ólga í sjónum og vikur sást fljóta í jöðrum ólgublettsins. Stöku sinnum komu eins og gusur upp úr miðjum blettinum og virtust þær í fljótu bragði ekki eins og þegar venjulega brýtur á boðum. Einnig virtust stundum koma upp eins og loftbóluflákar utan við sjálfan blettinn. Rétt á eftir flaug flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF þarna yfir. Þröstur Sigtryggsson skipherra hvað þessa ólgu vera á svokölluðum Eldeyjarboða, sem oft brýtur á, og taldi hann að þarna væri ekki um nein óvenjuleg umbrot að ræða. Hvað vikrinum viðvíkur telja menn ekkert ósennilegt að hann sé kominn frá Syrtlingi, enda eru vikurflekkir frá honum um allan sjó og allt norður á Tjörnesi hefur hans orðið vart. Það virðist sem sagt ekki fara á milli mála, að ólgan í sjónum er á Eldeyjarboða. Hins ber að gæta, að þarna er gömul eldstöð, og því alls ekkert ósennilegt, að þar geti verið um eldsumbrot að ræða. Þá er þess enn að gæta, að gos geta dottið niður og magnast, einmitt eins og Smári Karlsson lýsir því sem hann sá, og því er vel hugsanlegt að engir sem á eftir honum fóru hafi séð eins mikla ólgu og greinilega í sjónum og hann og þeir hátt á annað hundrað farþegar sem með honum voru í RR-400 skrúfuþotu Loftleiða. Ef til vill fæst aldrei úr því skorið, hvað þarna var á seiði, en kannski kemur líka í ljós, að þarna sé um umbrot að ræða. Svo mikið er víst, að hvorki jarðfræðingar né blaðamenn hefðu neitt á móti því!!

Tíminn heldur áfram 3.október - en dregur heldur úr:

MB-Reykjavík, laugardag Engar fréttir hafa í dag borist af Eldeyjarboða, þar sem menn töldu í gær sumir hverjir líkur á eldsumbrotum á hafsbotni. Eftir því sem blaðið veit best hafa engar flugvélar farið þarna yfir í dag, og mun sennilega ekkert gert í málinu, nema nýjar fréttir berist af torkennilegri hegðan sjávarins þarna. Sennilega verður því reynt að ná í sýnishorn af vikri þeim sem þarna virtist fljóta á sjónum. Jafnvel þótt einhver eldsumbrot hafi verið þarna og vikurinn stafi frá þeim er talið sennilegt að hann sé að efnasamsetningu líkur vikrinum frá Surtsey og Syrtlingi, svo hæpið er að hann geti sannað eitt eða neitt í málinu.

Minniháttar hret gerði undir miðjan mánuð. Tíminn segir af því 15.október:

MB-Reykjavik, fimmtudag Snjókoma hefur verið á Vestfjörðum og víða norðanlands í dag og hafa sumir fjallvegir orðið ófærir. Hvöss norðanátt hefur verið um mestallt landið, og hefur kuldi fylgt henni. Vonast er til að veðrið gangi niður á morgun. Í nótt fór lægð austur með suðurströnd landsins og gekk vindur þá til norðanáttar. Í dag hefur víða verið hvasst, en í kvöld var farið að lægja vestanlands. Hins vegar gengur veður þetta austur yfir landið og má gera ráð fyrir að áhrifa þess gæti á Austfjörðum fram á morgundaginn. Jafnframt þessu hefur kólnað mikið í veðri og síðdegis í dag var frost á þrem stöðum á láglendi, á Horni, Kjörvogi og Nautabúi í Skagafirði. Í nótt tók að snjóa á Vestfjörðum, og hefur snjókoma þessi gengið austur yfir landið og síðdegis í dag mátti heita, að snjókoma væri um allt norðanvert landið, austur að Grímsstöðum. Ekki hefur heyrst um tjón af völdum veðurs þessa, en vegir
hafa eðlilega spillst nokkuð á hálendi. Samkvæmt upplýsingum Vegamálaskrifstofunnar var i dag kunnugt um tvo fjallvegi, sem þá voru orðnir ófærir, Breiðadalsheiði og Siglufjarðarskarð. Þá var Þingmannaheiði aðeins fær stórum bílum eða bílum með drifi á ölum hjólum. Einnig var þá kominn talsverður snjór á fleiri heiðar. en ekki svo mikill. að til verulegs trafala væri.

MB—Reykjavík, fimmtud. Í gær tilkynnti skipið Runólfur SH, að hafísspöng væri suðaustur af Hornbjargi og töldu skipverjar, að varasamt væri að sigla þar um nema { björtu og góðu veðri. Enn hefur ekki reynst unnt að kanna þetta mál nánar, þar eð flugvél Landhelgisgæslunnar hefur ekki getað flogið þarna yfir vegna dimmviðris. Ekki er víst, að þarna sé um verulegan ís að ræða. Fyrir nokkru sáu menn hafísspöng um 20 mílur frá Straumnesi úr flugvél Landhelgisgæslunnar. Getur verið, að hér sé um sama ísinn að ræða. Ef verulegur hafís er hins vegar kominn í mynni Húnaflóa, eru það vissulega uggvænleg tíðindi og illur fyrirboði undir veturinn. Landhelgisgæslan mun láta athuga fyrirbæri þetta, þegar flugveður gefur á þessum slóðum, en reynsla síðastliðins vetrar sýnir, að miklu gleggri mynd fæst af hafísnum úr lofti heldur en af skipum.

Tíminn segir 16.október af ástæðulausum hafísótta:

MB—Reykjavík, föstudag. Ótti manna við það að hafís væri kominn upp að landinu er sem betur fer ástæðulaus. Landhelgisgæsluflugvélin TF-SIF flaug í dag út fyrir Vestfirði og út af Húnaflóa, en menn í henni urðu ekki varir við neinn ís nær landinu en í 60 mílna fjarlægð, utan nokkra borgarísjaka.

Upp úr miðjum október gerði mjög sterka sunnanátt með gríðarlegri úrkomu sem var að nokkru tengd leifum fellibylsins Elenu. Úrkoman olli skriðuföllum og flóðum um landið sunnan- og vestanvert, og einnig var eitthvað um fokskaða.

Slide12

Myndin sýnir leið fellibylsins Elenu til Íslands dagana 12. til 19. október. Þótt ritstjórinn muni vel hversu Borgarfjörð hvítskóf í þessu veðri varð foktjón ekki verulegt, en úrkoma og vatnavextir því meiri. Áminning um að leifar fellibylja geta valdið aftakaúrkomu hér á landi, eins og önnur dæmi sýna. 

Slide13

Landið var í nokkra daga undir miklum sunnanstreng í háloftunum. Kortið sýnir stöðuna þann 19.október. Um kvöldið gufuðu leifar fellibylsins nánast upp skammt suðvestan við land, en ekkert lát var á rigningunni.

Tíminn segir frá 19.október fyrst frá óhappi á sjó, en síðan flóðum og skriðuföllum:

MB-Reykjavík, mánudag. Vélbáturinn Strákur, SI 145, fórst út af Grindavík í gærkvöldi, en enski togarinn Imperialist bjargaði áhöfninni, 9 mönnum, á síðustu stundu. Strákur, sem var 59 tonna eikarbátur, var á leið frá Vestmannaeyjum til Hafnarfjarðar. ... Þegar þetta gerðist var sunnan hvassviðri á þessum slóðum og mikill sjór. Eins og við mátti búast var haugabrim í Grindavík og innsiglingin algerlega ófær. Varð því þegar ljóst, að ekki væri um að ræða að sigla þangað inn. Skömmu síðar, stöðvaðist vél bátsins, vegna þess hve mikill sjór var kominn í vélarrúmið, og var því útlitið harla óglæsilegt og báturinn þá staddur rúmar tvær mílur undan Hópsnesi.

GS-Ísafirði, mánudag. Í nótt féllu sex skriður í Óslandshlíðarveginn, og stórt bjarg féll úr Gleiðarhjalla hér fyrir ofan bæinn í dag. Neysluvatn bæjarbúa er mjög mórautt, og rafmagnslaust hefur verið hér á Ísafirði af og til í dag. Í morgun kom í ljós að sex skriður höfðu fallið á Óslandshlíðarveginn í nótt, sem liggur á milli Ísafjarðarkaupstaðar og Bolungarvíkur. Var strax hafist handa um að hreinsa skriðurnar af veginum og var verkinu lokið um hádegisbilið í dag, svo hann er nú aftur akfær. Stórt bjarg féll í dag úr svokölluðum Gleiðarhjalla sem er hér fyrir ofan bæinn, og stöðvaðist bjargið fyrir ofan auð fjárhús. Spennistöð frá rafmagnsveitunum er þar rétt hjá og munaði minnstu að bjargið lenti á henni. Rafmagnslaust hefur verið hér síðasta hálftímann og alltaf af og til í allan dag. Neysluvatnið sem bæjarbúar fá innan úr Dagverðardal, hefur verið mjög mórautt og líklegt að skriður hafi fallið í vatnsbólið. Geysileg úrkoma hefur verið hér í nótt og fram á dag, sem orsakað hefur þessi skriðuföll, rafmagnstruflanir og ólag á vatninu. Með kvöldinu hefur stytt upp, og komin er SV átt.

Tíminn segir 20.október frá hlaupi í Súlu, sem ekki varð þó mjög mikið:

MB-Reykjavík, þriðjudag. Fyrir helgina hófst hlaup í Súlu á Skeiðarársandi, en eins og fram kom í fréttum af Skeiðarárhlaupinu á dögunum, var vatn orðið mjög hátt í Grænalóni. Vegna mjög slæms skyggnis eystra hefur ekki verið unnt að fylgjast með hlaupinu eins og annars hefði verið gert, en það hefur ekki verið mikið vestur á, sandinum. Blaðið átti í dag tal við Hannes bónda á Núpsstað, sem öllum mönnum er kunnugri vatnsföllunum á Skeiðarársandi. Hann kvað hlaupið hafa byrjað á föstudag og náði það hámarki vestan til á sandinum á laugardag, en á sunnudag var tekið að fjara í Súlu. Hins vegar hefur ekki verið unnt fylgjast með Sandgígjukvísl austar á sandinum og getur því vel verið að þar belji enn fram mikið vatn. Hannes kvað stórhlaup í Súlu geta varað um vikutíma, en eins og fyrr segir er enn ekki unnt segja til um, hve mikið þetta hlaup raunverulega er. Mjög mikið vatn er nú i Núpsvötnum vegna rigningarinnar eystra og gætir þess einnig í Súlu.

Tíminn segir fréttir af flóðum í ám og tjóni af þess völdum 21.október:

MB og KJ-Reykjavík, miðvikudag. Óhemju miklar skemmdir hafa orðið á brúm og vegum sunnanlands og vestan síðasta sólarhring og munu það einhverjar mestu vegarskemmdir um áratugabil hérlendis. Alvarlegasta skemmdin er að brúin á Jökulsá á Sólheimasandi hefur fallið niður og óttast er um brúna á Múlakvísl. Vestur-Skaftafellssýsla er nú algerlega einangruð og bændur sitja uppi með 10 þúsund mjólkurlítra á dag og ekki verður unnt að ljúka þar haustslátrun. Einnig hafa vegir rofnað á fjölmörgum stöðum á Suður- og Vesturlandi og skriður hafa fallið á vegi og útihús. Markarfljót var í dag vatnsmeira en það hefur verið í 20 ár, en vonir standa til að þar verði unnt að firra vandræðum.

Í morgun fór af vestasti hluti brúarinnar yfir Jökulsá á Sólheimasandi og er Vestur-Skaftafellssýsla þar með algerlega einangruð. Minnstu munaði að stórslys yrði, þegar flutningabifreið staðnæmdist á brúnni í morgun aðeins um 3 fet frá vatnsflaumnum. Daglega eru fluttir um 10 þúsund mjólkurlítrar úr Vestur-Skaftafellssýslu til mjólkurbúsins á Selfossi, og verða bændur nú að nota mjólk sina heima, eða hella henni niður að öðrum kosti, og fresta verður lokum haustslátrunar. Í morgun var Runólfur Sæmundsson bílstjóri hjá Verslunarfélagi Vestur-Skaftfellinga á leið suður og ók hann með ljósum, þar eð enn var ekki orðið bjart af degi Hann ók grunlaus út á Jökulsárbrúna, en þegar hann var kominn langleiðina vestur yfir hana, sá hann að vestasti hluti hennar var horfinn og vatnsflaumur beljaði fram. Runólfur snögghemlaði og staðnæmdist, bifreiðin um það bil 3 fet frá skarðinu. Runólfur bakkaði síðan austur yfir brúna aftur og þegar hann var kominn yfir féll niður haf það sem bifreiðin hafði staðnæmst á, og einnig uppgötvaði hann að bifreiðin var orðin hemlalaus. Höfðu hemlarnir bilað á brúnni en til allrar hamingju ekki of snemma. Með Runólfi voru farþegar úr fjölskyldu hans.

Áin hélt áfram að vaxa fram eftir degi. Jón R. Hjálmarsson, skólastjóri i Skógum fór austur að ánni í morgun, og aftur eftir hádegið og taldi hann að vatnsmagnið hefði greinilega aukist á þeim tíma. Var áin í tveimur meginkvíslum. Sú vestari hafði grafið undan stöplinum og vesturendinn hafði fallið niður ... Hann taldi austurkvíslina liggja þungt á eystri stöplinum, en Stefán Á. Þórðarson í Vík í Mýrdal, sem kom að ánni síðdegis, taldi þá ekki hættu á að eystri stöpullinn gæfi sig. Hins vegar var símalínan þá orðin í mikilli hættu og austasti símastaurinn vestan árinnar hékk á línunni. Vestur-Skaftafellssýsla er algerlega einangruð vegna bilunarinnar á Jökulsárbrúnni, og skapar það íbúunum, sem eiga allt sitt undir flutningum á landi, margháttaða erfiðleika. Samkvæmt upplýsingum Guðmundar Böðvarssonar kaupfélagsstjóra í Vík eru daglega fluttir um 10 þúsund lítrar mjólkur úr sýslunni til mjólkurbúsins á Selfossi, og er nú ekki um annað að ræða fyrir bændur en að nýta mjólkina heima, eða hella henni niður að öðrum kosti. Langsamlega flestir munu hafa fargað mjólkurvinnslutækjum sínum, þannig að fáir munu geta svo mikið sem nýtt mjólkina til smjörgerðar heima. Í dag var skilað aftur þeirri mjólk sem bílar höfðu tekið til flutnings í gærkvöldi. Haustslátrun er að mestu lokið. Í Vík mun unnt að ljúka að mestu annarri slátrun en stórgripa, en á Kirkjubæjarklaustri verður að hætta slátrun í bili. Þar verður slátrað til annars kvölds og gærur saltaðar og kjöt og innmatur sett í frystihús, en þar með verður það orðið fullt. Er þá eftir að slátra öllu fé frá tveim austustu bæjum í Fljótshverfi, Rauðabergi og Núpsstað, sem hvort tveggja eru mjög fjármiklar jarðir og eftir að slátra úr annarri smölun á öllu svæðinu milli Skaftáreldahrauns og Skeiðarársands, samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Valdimarssonar á Kirkjubæjarklaustri. Veldur samgönguröskun þessi því bændum í Vestur-Skaftafellssýslu gífurlegu beinu fjárhagslegu tjóni á hverjum einasta degi og hætt er við að nokkuð langan tíma muni taka að lagfæra skemmdirnar við Jökulsá.

Markarfljót óx ákaflega mikið í gær og í nótt, og var ástandið þar mjög ískyggilegt í nótt og framan af degi, en í kvöld hafði heldur sjatnað í fljótinu og gerðu menn sér vonir um að takast myndi að firra vandræðum. Eysteinn vegaverkstjóri, sem býr við Markarfljótsbrú og hefur búið þar í tuttugu ár, kveðst aldrei hafa séð annað eins vatn í fljótinu, nema ef vera kynni í febrúar 1952, þegar óhemju vatnavextir urðu á þessum slóðum. Í nótt mun aðeins hafa vantað um eitt fet upp á að vatnið færi yfir sjálfa brúna og um 40 cm á að það færi yfir varnargarða.en þarna er 250 metra vatnshaf. Kvað hann fljótið breiða úr sér vestan frá Kotabæjum og upp að engjunum í Stóru-Mörk. Í nótt var talin hætta á að fljótið bryti niður varnargarð norðan við bústað Eysteins og var unnið að því í nótt að treysta hann. Eysteinn kvað vatnið hafa sjatnað nú síðdegis og gerðu menn sér vonir um að það myndi ekki valda spjöllum héðan af, en athuga þyrfti alla varnargarða, þegar flóðið væri rénað, og væri það mikil vinna. Eysteinn kvað ár hafa rofið vegi við tvær brýr í Landeyjum, við brú á veginum heim að Njálsbúð og við brú austan við Álfhólahjáleigu. Þá mun vegur einnig hafa rofnað við brúarsporð milli Barkarstaða og Fljótsdals í Fljótshlíð. Vatnið í Þjórsá hefur vaxið mjög síðustu dægur og alls hækkað um 3 metra, þar af heilan metra síðasta sólarhring. Óhemju rigning hefur verið sunnanlands og vestan síðustu dagana. Síðasta sólarhring mældist 110 mm úrkoma á Hveravöllum og í dag var þar 9 stiga hiti. Er ekki að undra þótt óhemjuvöxtur hlaupi í ár þegar svo mikið rignir á hálendinu.

Geysimiklar skemmdir urðu á vegum á Suðurlandi í dag fyrir utan Jökulsárbrúna sem getið er um annars staðar. Í kvöld var talin hætta á því að brúin á Múlakvísl á Mýrdalssandi væri að fara og var búið að loka henni fyrir allri umferð. Skógá flæddi yfir veginn og hafði rofið skarð í hann, minnstu munaði að Markarfljót brytist yfir varnargarða, vegurinn í Landeyjum rofnaði á tveimur stöðum og vegurinn í Fljótshlíð á a.m.k. einum stað. Óhemju rigning hefur verið undanfarna daga sunnanlands og vestan. Til dæmis mun hafa rignt yfir 170 mm á þremur dægrum frá mánudagskvöldi til miðvikudagsmorguns á Kvískerjum í Öræfum, en þar er mesta úrkomusvæði landsins og í dag var óhemju vatn í Hrútá á Breiðamerkursandi, að sögn eins og í mestu jökulhlaupum í Fjallsá á Breiðamerkursandi, en Hrútá er óbrúuð og hafa því ekki hlotist skemmdir af vatnavöxtum í henni. Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Valdimarssonar á Kirkjubæjarklaustri hafa ekki orðið skemmdir milli sanda, en gangnamenn á Landbrotsafrétti liggja tepptir við Hellisá og komast ekki til byggða. Seinni partinn í dag var Múlakvíslarbrú lokuð fyrir allri um ferð. Hékk Þá austasta undir staða brúarinnar í lausu lofti og farið var að grafa undan sjálfum endastöplinum austan megin. Jeppa var ekið austur yfir brúna síðdegis og sagði ökumaðurinn að sveigja hefði verið komin á brúna, er hann fór yfir. Þetta er stór og ný brú og ef hún færi af myndi mikið verk að koma nýrri brú á.

Í Mýrdalnum sjálfum hafa ekki orðið miklar skemmdir, þó hefur Klifandi brotist úr farvegi sínum undan brúm á veginum heim að Felli og Álftagróf, að sögn Sveins á Reyni. Skógá braust í morgun úr farvegi sínum og hefur í dag runnið yfir veginn skammt vestan við brúna. Þó var fram undir myrkur unnt að komast þarna yfir á jeppum, en búist var við að veginn myndi taka af þá og þegar. Nú í sumar hefur ný brú verið byggð á Írá, sem er vestan við Holtsnúp, og einnig verið byggður þar nýr vegarkafli. Brúin og nýi vegurinn voru í hættu í dag og var unnið að því að treysta veginn í allan dag.

Tíminn hafði í dag tal af Snorra Þorsteinssyni kennara í Bifröst vegna flóða í Norðurá í Borgarfirði. Sagði Snorri að vatnsmagn hefði í morgun verið með því allra mesta sem verður í Norðurá. Flæddi áin á tveim stöðum yfir þjóðveginn; hjá Brekku og Hraunsnefi. Hjá Brekku var vegurinn undir vatni á 80—100 metra kafla, sem var um það bil hnédjúpt. Var fært þarna yfir á stórum bilum, en litla bíla varð að draga yfir. Um níu leytið var vatnið farið að sjatna, og ekki munu hafa orðið verulegar skemmdir á veginum. Þá flæddi Bjarnardalsá yfir veginn sem liggur vestur í Dali. Guðmundur Arason hjá vegagerðinni í Borgarnesi sagði að víða hefði runnið úr vegum í Borgarfirði, en ekki hefðu þó orðið stórvægilegar skemmdir nema þar sem skriðan féll yfir veginn undan Arnþórsholti í Lundareykjadal, og ræsi fór á Dragavegi í Skorradal. Hvítá flæddi yfir veginn hjá Hvítárvöllum, og var alófær minni bílum. Kunnugir bílstjórar á stórum bílum fóru þar yfir, en minni bílar fóru yfir hjá Kljáfossi. Háflæði var um klukkan þrjú og var þá flóðið á veginum mest, en var mikið farið að sjatna um klukkan fimm. Þá flæddi líka yfir veginn á milli síkisbrúnna við Ferjukot, og vestan við brýrnar, en skemmdir munu ekki hafa orðið á veginum.

Skriða féll á fjárhús og tún að Arnþórsholti. Heimilisfólkið að Arnþórsholti í Lundareykjadal í Borgarfirði vaknaði við heldur vondan draum í morgun klukkan langt gengin í sex. Hafði skriða fallið úr fjallinu fyrir ofan bæinn, lagt fjárhúsinu í rúst, gjöreyðilagt traktor, skemmt mikið af túninu, og gert veginn fyrir neðan bæinn ófæran á löngum kafla. Tíminn hafði í dag tal af Guðmundi Magnússyni, syni Magnúsar bónda Sigurðssonar í Arnþórsholti. Sagði Guðmundur að heimilisfólkið hefði vaknað klukkan að ganga sex | morgun við að aur og grjót hafði brotið upp hurðir á bænum, og borist inn í eldhús. Þegar að var gáð, kom j ljós að skriða hafði fallið úr fjallinu fyrir ofan bæinn. Eyðilögðust fjárhúsin, sem rúma um 200 fjár og eru úr torfi, einnig fjárhúshlaða sem í voru um 500 hestar af heyi, en ekki var víst hvort allt heyið hefði skemmst. Allir skurðir í túninu fylltust af aur og grjóti, og túnið er þakíð aur og grjóti á stórum kafla. Traktor. sem stóð við bæinn fór í smátt, en skriðan fór sitt hvoru megin við fjósið. Á veginum fyrir neðan bæinn er um bað bil tvö hundruð metra kafli þakinn aur og grjóti, og var engum bíl fært um veginn í dag. Jarðýta var fengin í dag til að ýta skriðunni frá bænum, og ræsa fram. Bóndinn í Arnþórsholti hefur þarna orðið fyrir miklu tjóni, en hann hafði engar tryggingar sem ná yfir tjón af völdum skriðufalla. Sagði Guðmundur Magnússon í viðtali við blaðið í dag, að ekki væri vitað til þess að skriður hefðu áður fallið úr fjallinu fyrir ofan bæinn.

Mjólk úr Borgarnesi til Snæfellsness Mjólkurbúið í Grafarnesi fær daglega nokkurt magn af mjólk frá mjólkurbúinu í Búðardal, en vegna vegaskemmda í Dölunum tókst ekki að ná í mjólk af öllum bæjum þar í dag. Pantaði því Mjólkurbúið í Grafarnesi 2500 lítra af mjólk frá Borgarnesi til þess að ekkí yrði mjólkurskortur þar á morgun, og hægt yrði að fullnægja eftirspurn í þorpunum á Snæfellsnesi. Skriður féllu á Skógarstrandarveginn undir Narfeyrarhlíð, en ekki munu hafa orðið verulegar skemmdir á veginum. Þá féll aur á veginn fyrir Búlandshöfða, en hann mun þó ekki hafa verið ófær af þeim sökum. Miklar vegaskemmdir í Dölum. Steinþór Þorsteinsson fréttaritari Tímans í Búðardal sagði í viðtali við blaðið í dag að töluvert hefði orðið um vegaskemmdir í Dölunum í nótt. Skriða féll á veginn um Bröttubrekku þar sem kallað er Banavellir rétt sunnan við Austurá. Komu tveir olíubílar frá Akranesi þar að í morgun, og tókst að komast yfir skriðuna, þegar þeir höfðu velt stærstu steinunum af veginum. Veghefill var svo sendur frá Búðardal og var vegurinn orðinn vel fær um hádegisbilið. Reykjadalsá rann yfir veginn á um 500 metra kafli við Fellsenda í Miðdölum, og mun áin hafa grafið sig þar niður á kafla. Var á tímabili meira en skófludjúpt vatn á veginum, og einnig mun áin hafa farið yfir nýrækt á Fellsenda. Olíubílarnir tveir voru á leið í Saurbæinn, en urðu að snúa við á Svínadalsvegi, því þar hafði vegurinn rofnað við ræsi. Hörðudalsá rann í tveim strengjum yfir Skógarstrandarveg. um miðjan dag í dag var farið að sjatna i ánni og var vegavinnuflokkur að fara á staðinn. Vonuðust vegagerðarmenn til að vegur inn yrði orðinn akfær um kvöldmatarleytið.

Flóð hefur verið i ám í Skagafirði í dag eins og víða annars staðar á landinu, en ekki er kunnugt um neinar skemmdir af völdum flóða utan hvað Víðinesá hafði flætt lítillega yfir veginn í Hjaltadal, en engar skemmdir eða tafir á umferð hlutust af því.

Morgunblaðið segir einnig af vatnsvöxtum 21.október:

Feikna miklir vatnavextir urðu í fyrrinótt og gær um sunnan- og vestanvert landið og aur- og grjótskriður féllu úr fjallshlíðum. Skriða féll í Hvalfirði og lokaði veginum um skeið. Þá er Dragavegur ófær og Hvítá flæddi yfir bakka sína hjá Hvítárvöllum og við Síkisbrýrnar. Þá flæddi Norðurá í Borgarfirði yfir veginn hjá Hraunsnefi og skriða féll á veginn í Lundarreykjadal. Flóð þessi voru í rénun í gærkvöldi. Yfirverkfræðingur Vegagerðar ríkisins, Snæbjörn Jónasson, sagði í fréttaauka útvarpsins í gærkvöldi að þetta myndu mestu vegaskemmdir, af völdum flóða á tilteknu svæði, síðustu áratugina. Mestar eru skemmdirnar við Jökulsá á Sólheimasandi en frá þeim er skýrt á öðrum stað í blaðinu. Blaðið átti í gær tal við Magnús Rögnvaldsson, vegaverkstjóra í Búðardal, og sagði hann svo frá: Skaðar hafa orðið á Vesturlandsvegi hér í Dölum. Reykjadalsá flæðir yfir veginn vestan við Bröttubrekku hjá Fellsenda á 500—600 m kafla. Í Svínadal fór stykki úr veginum á tveimur stöðum, á öðrum staðnum skekkist ræsi og tveir metrar fóru af veginum, en á hinum staðnum tók 15 m úr veginum, en hann var um 5 metrar á hæð á þeim stað. Skriða féll í Svínadal, þar sem vegurinn liggur þó ekki, og allt út í á og stíflaði hana um skeið en rann síðan fram. Hörðudalsá tók stykki úr veginum við brúna og var hann lokaður í gær. Hægt var að komast vestur yfir Reykjadalsá á stórum bílum og jeppum, þótt hún flæddi yfir veginn. Úrfellið mun hafa verið mest í Miðdölum og Svínadal. Þurr jörðin gleypir mikið vatn í sig, bólgnar síðan upp og hleypur fram þar sem aðstæður eru fyrir hendi, sagði Magnús að lokum. Skriður féllu á veginn í Narfeyrarskriðum í Álftafirði og var hann lokaður í gær.

Sólheimajökull, einn af skriðjöklum Mýrdalsjökuls, hefur á seinni árum gengið til baka, sem aðrir jökulsporðar, oft 30-50 m á ári ,en Jón Eyþórsson mælir árlega jökulsporðinn þarna. S.l. sunnudag fór Jón þangað til mælinga og komst að raun um að í þetta sinn hafði Sólheimajökull gengið fram, allt að 50 m. Þetta telur Jón að hafi gerst í fyrravetur. Hefur aðaljökullinn gengið fram um 50 m, og hafði jökullinn ýst upp brekkuna á höfðanum á milli sporðanna, er nefnist Jökulhaus, af feiknarkrafti og farið 18 m upp eftir brattri brekkunni. Eystri jökulsporðurinn hafði gengið fram um 22 m. Fyrst fór að bera á þessu í hitteðfyrra, er Sólheimamenn sáu að jökullinn hafði bólgnað upp, er þeir fóru yfir hann á Hvítmögu. í vor sem leið hafði jökulsporðurinn þó ekki enn náð að ganga fram, þegar Jón skoðaði hann. En mjög bratt er þarna við upptök þessa skriðjökuls og má alltaf búast við kippum í honum, sagði Jón.

Tíminn greinir frá lokum Súluhlaups 22.október:

MB—Reykjavík, fimmtudag. Svo virðist nú sem hlaupinu í Súlu sé lokið, en verið getur, að hlaupsins úr Grænalóni gæti enn austur í Sandgígjukvísl, en þangað er engum fært nema fuglinum fljúgandi vegna vatnavaxta á Skeiðarársandi, o>g þokuloft hefur komið í veg fyrir, að unnt væri að athuga hlaupið úr lofti. ... Hannes [á Núpsstað] sagði, að hefði ekki mikið vatn runnið fram um Sandgígjukvísl, væri hlaup þetta miklu minna en Súluhlaupin voru, meðan þau voru og hétu.

Morgunblaðið rekur flóða- og skriðuskemmdir í pistli 22.október:

Eins kunnugt er, hafa orðið geysilegar skemmdir á vegum og brúm vegna hinna miklu rigninga undanfarið, og t.d. hefur Vestur-Skaftafellssýsla einangrast af þessum völdum. Til þess að fá nánari fregnir af þessum skemmdum hafði blaðið í gær tal af Sigurði Jóhannssyni vegamálastjóra og Snæbirni Jónassyni yfirverkfræðingi Vegamálaskrifstofu ríkisins. — Er þetta ekki með almestu vegaskemmdum núna seinni árin? — Jú, það er óhætt að segja það, að ekki hafi orðið þetta miklar skemmdir á svona stóru svæði núna á síðustu áratugum. Aftur á móti má geta þess, að 1933 urðu geysimiklar skemmdir á vegum af völdum rigninga, og fóru þá ein eða tvær brýr á Mýrdalssandi og ein í Norðurárdal. Hvar hafa mestu skemmdirnar orðið? — Helstu skemmdirnar hafa að sjálfsögðu orðið við Jökulsá á Sólheimasandi, en þar hefur, eins og kunnugt er farið hluti af brúnni. Þá hafa miklar skemmdir orðið á vegum við Skógará, Reykjadalsá, Hörðudalsá og í Svínadal í Dölum. Þá hafa hrunið skriður á Hvalfjarðarveg, í Narfeyrarhlíð á Skógarströnd og í Lundareykjadal. Auk þess hefur verið stórhrun á Bolungarvíkurvegi alveg síðan í síðustu viku. Víða hafa líka orðið minniháttar skemmdir, þar sem ár hafa flætt á vegi. — Hvenær reiknið þið með að vera búnir að koma vegunum í ökufært ástand? — Við gerum ráð fyrir, að umferð verði beint á vegina á Vesturlandi í dag eða á morgun, þótt fullnaðar viðgerð verði ekki lokið strax. Það mun aftur á móti dragast lengur, þar til bráðabirgðaviðgerð verði lokið á brúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi, því að eins og ástandið var í morgun, er ekki viðlit að hefja neinar framkvæmdir þar fyrr en lækkað hefur í ánni. Tækin verða komin að ánni í dag eða í kvöld, og mun strax verða hafist handa, þegar vatnið sjatnar í ánni. -— Hvaða skemmdir urðu á brúnni? — Brúin, sem er 220 metra löng, er í tíu höfum og er vestasta hafið alveg sigið í annan endann og liggur hann undir vatnsflauminum. — Og hvernig fer svo viðgerðin á brúnni fram? — Um það er ekki hægt að segja fyrr en athuguð hafa verið öll verksummerki. Ef brúin er ekki þeim mun meira löskuð og snúin, verður reynt að lyfta henni með því að setja trékálf undir annan endann. Sé hafið hins vegar mjög illa farið, getur farið svo að stytta þurfi brúna, sem því nemur. En þetta verður aðeins bráðabirgðaviðgerð, því að fullnaðarviðgerð getur ekki fari fram fyrr en einhvertíma næsta vor. — Hafið þið nokkrar tölur um það, hvað kostnaðurinn við lagfæringuna á brúnni komi til með að verða mikill. — Nei, það höfum við ekki, en hann skiptir eflaust hundruðum þúsunda. Kostnaðurinn bara við stöpulinn og við það að lyfta brúnni og gera nýja varnargarða. getur hæglega farið upp í hálfa milljón. Þar við bætist svo kostnaðurinn við að koma umferðinni á og allt tjónið sem Vestur-Skaftfellingar hafa orðið fyrir af þessum sökum. — En hvað um kostnaðinn við að lagfæra alla þá vegi, sem urðu fyrir skemmdum? — Við höfum heldur ekki tölur um það, en þegar allt þetta, sem hér er að framan nefnt, að viðbættum kostnaði við ýmsar smærri viðgerðir, er lagt saman, er ekki svo fjarri lagi að ætla, að heildar kostnaðurinn geti orðið um ein til tvær milljónir.

Um skriðuna í Arnþórsholti - Í vatnsveðrinu mikla á Suðvesturlandi í fyrradag [20.] féll stór skriða á bæinn Arnþórsholt í Lundareykjardal, lagðist yfir hluta af túninu, lenti aðeins utan í íbúðarhúsinu og sprengdi upp útidyr, huldi 200 kinda fjárbús, og rann báðum megin við fjósið. Mbl. hringdi til bóndans, Guðmundar Magnússonar. Klukkan var að ganga sex um morguninn og fólk í svefni þegar skriðan kom utan í húsið, sprengdi upp útihurðina og kom aur og grjót inn á gólfið. En hurðin er svo til við jafnsléttu. Fólkið vaknaði en þetta gerðist svo snöggt, að ekki varð tími til að verða hræddur. Þetta var eins og skot úr byssu, að því er Guðmundur sagði. Skammt fró húsinu stóðu fjárhúsin, gömul hús úr torfi og járnklædd, sem rúma 200 kindur. Skriðan fór yfir þau og sagði Guðmundur að þau væru ónýt. Hann er með á annað hundrað fjár, og er nú að velta fyrir sér hvernig hann eigi að leysa þann vanda að vera húsalaus fyrir skepnurnar. Skriðan kom úr hálsinum fyrir ofan bæinn og er 600—700 m löng. Í henni er bæði aur og grjót og lagðist hún yfir talsvert stórt svæði af túni. Fé gæti hafa farist í henni, það er ógerlegt að vita, sagði Guðmundur. Í fjósinu voru 12 gripir. Sakaði fjósið ekki, en skriðan fór báðum megin við það. Guðmundur sagðist ekki vita til að nokkurn tíma hefði fallið skriða fyrr á þessum slóðum. En þessa nótt var geysileg úrkoma.

skridufar_lundareykjadal220774_klippt

Skriðufarið við Arnþórsholt í Lundareykjadal nærri tíu árum eftir að skriðan féll 1965. Mynd tekin 22.júlí 1974. 

Tíminn segir enn af vatnavöxtum 23.október:

MB—Reykjavík, föstudag. Í nótt og dag rigndi víða mikið sunnanlands og mikil hlýindi voru um allt land og frostlaust upp fyrir efstu jökla. Má því búast við miklu vatni áfram i ám hér sunnanlands, enda er jörðin orðin mjög vatnsmettuð. Síðdegis í dag hafði vaxið mjög í Skálm á Mýrdalssandi og rann hún á löngum kafla með fram veginum og var hann talinn í hættu. Vatn jókst í dag í Jökulsá á Sólheimasandi og hefur ekki reynst unnt að aðhafast neitt þar til úrbóta. Í dag var brotist á stórri jarðýtu yfir álinn vestan við brúna og náð í menn sem þurftu að komast vestur yfir og stukku þeir af brúnni og yfir á ýtuna, og einnig komu menn austur yfir, sem höfðu teppst fyrir vestan. Sýnt er nú af veðurlaginu, að ekki muni takast að koma brúnni í lag næstu dagana. Mun á morgun komið fyrir stálvírum yfir ána, til þess að ferja mjólkina, en eins og áður hefur verið sagt hér í blaðinu, teppast um 10 þúsund mjólkurlítrar daglega fyrir austan Jökulsá, og verða bændur að hella mestu af mjólk inni niður. Í kvöld var orðið mjög mikið vatnsmagn í ánni, og mun hafa verið orðið næstum eins mikið og það varð þegar brúin fór, og er ekki viðlit að vinna neitt þar við viðgerðir, meðan svo er ástatt. Síðdegis í dag var orðinn mikill vöxtur í Skálm á Mýrdalssandi og óx áin enn undir dimmumótin. Rann hún þá með fram veginum á fjögurra metra kafla, og var vegurinn talinn í nokkurri hættu, en þó mun ekki hafa legið mikill straumþungi á honum. Mikið hefur rignt hér sunnanlands í dag, og samfara rigningunni hafa verið mikil hlýindi, einnig norðanlands, Þar sem þurrt hefur verið. Var til dæmis 16 stiga hiti á Tjörnesi í dag. Samkvæmt upplýsingum veðurfræðinga mun í dag hafa verið frostlaust upp í a.m.k. tveggja kílómetra hæð, þannig að þíða hefur verið á öllum jöklum og hefur það vitanlega geysimikil áhrif á vöxt allra jökulvatna Þá kemur það og til, að vegna hinna miklu úrkomu undanfarið er jörðin orðin mjög vatnsmettuð og því hellist vatn ört fram af öllum heiðum. Má því búast við mjög miklum vatnavöxtum næstu dægrin og enn er spáð hlýindum og úrkomu á suðaustan hér sunnanlands.

Morgunblaðið segir 23. október enn af vatnavöxtum:

Holti, 22. október. Stórrigningar hafa gengið hér undanfarna daga og valdið miklum vatnavöxtum. Mikið vatn liggur á þjóðveginum á Mýrdalssandi á um 4 kílómetra kafla vestan við Langasker. Er vegurinn í hættu ef vatnavextir halda áfram.

Tíminn segir 27.október af viðgerð brúarinnar á Sólheimasandi:

JRH—Skógum, þriðjudag. Allar líkur benda til þess að vegarsamband komist á við Vestur-Skaftafellssýslu á morgun því þá verður réttur hlykkurinn á Jökulsárbrúnni. Þar er nú mikið af stórvirkum tækjum og fjöldi starfsmanna. Í dag hefur vatnið i Jökulsá minnkað mikið, enda hefur nú stytt upp.

Tíminn segir 28.október af grein í Náttúrufræðingnum:

MB-Reykjavík, miðvikudag. Í nýútkomnu hefti Náttúrufræðingsins birtist ritgerð eftir Jón Jónsson jarðfræðing, er nefnist „Bergsprungur og misgengi í nágrenni Reykjavíkur." Ræðir hann þar ýmsa þætti jarðfræði nágrennis Reykjavíkur og segir m.a. að engar líkur séu til þess að eldgosum sé lokið að fullu og öllu á Reykjanesskaga, en japanskir vísindamenn hafi sagt fyrir um eldgos, með því að rannsaka efnasamsetningu grunnvatns, 9 mánuðum áður en eldgos hefjist ...

Síðar segir Jón: „Því skal hér slegið föstu, að alls engar líkur eru til þess að eldgosum sé að fullu og öllu lokið á Reykjanesskaga. sömuleiðis skal á það bent, að gos í námunda við það svæði, sem hér hefur verið um rætt, geta haft alvarleg áhrif á vatnsból í námunda við gosstaðinn. Að ógleymdum öðrum hættum beinum og óbeinum. Jón segir, að miklar líkur séu til þess að gos á þessu svæði myndu hafa áhrif á efnasamsetningu grunnvatnsins og í Japan hafi verið hægt að segja fyrir eldgos út frá rannsóknum á efnasamsetningu grunnvatnsins allt að 9 mánuðum áður en gos hófst og sé því ærin ástæða til að fylgjast vel með efnasamsetningu grunnvatns á Reykjanessvæðinu og gildi þetta fyrst og fremst um vatnsból á sunnanverðu svæðinu, Kaldárbotna og Gvendarbrunna.

Morgunblaðið segir af hlýindum í Miðfirði 28.október:

Staðarbakka í Miðfirði, 26. október. Eins og annars staðar á landinu hefur verið hér veðurblíða í haust, að vísu mikið úrfelli með köflum, en alltaf hlýtt. Kýr eru víðast látnar út ennþá, og tún hafa jafnvel grænkað í haust.

Tíminn segir 29.október frá Grænalóni - eftir hlaupið í Súlu:

MB-Reykjavík, fimmtudag. Í gær v»r flogið yfir Grænalón í fyrsta skipti eftir hlaupið á dögunum. Vatnsborðið virðist hafa lækkað um 20 metra og að sögn Jóns Eyþórssonar er það álíka hátt og eftir ýmis fyrri hlaup Grænalóns, að því er talið er. Enn er mikið vatnsmagn í Súlu og talsvert mikið hefur brotnað úr jöklinum og sjást jakar í hlíðum við vatnið.

Tíminn segir 2.nóvember síðbúnar fréttir af skriðuföllum:

KJ—Rvík, mánudag. Aðfaranótt miðvikudagsins í síðustu viku [27.] féllu tvær skriður í nánd við Húsafell í Reykholtsdal og lentu þær á hitaveituleiðslu og fullorðinni kind. Guðmundur Pálsson, annar bóndinn á Húsafelli, sagði Tímanum frá þessu í dag, er hringt var í hann. Sagði hann, að önnur skriðan hefði fallið úr Útfjalli, og hefði sú farið á hitaveituleiðsluna. Hitaveituleiðslan er um 600 metrar að lengd og eyðilagðist 150 metra kafli vegna skriðunnar, en búið er að gera við skemmdirnar. Hin skriðan fór úr Bæjarfjalli, og lenti ein fullorðin kind undir henni, að vitað er, en ekki er vitað, nema fleiri kindur hafi orðið undir skriðunni. Skriðuhlaup þessi orsökuðust af hinu mikla vatnsveðri sem var um daginn, og þá gróf vatnið líka niður veginn heim að bænum, en ekki alvarlega þó.

Tíminn 4.nóvember segir af spá um kólnandi veðurfar - segja má að hún hafi ræst hvað næstu ár snerti - en enn bíðum við ísaldar þeirrar sem minnst er á:

MB-Reykjavík, miðvikudag. Að sögn Arbeiderbladets i Osló hefur frægur norskur jöklafræðingur, Olav Liestöl, látið í ljósi áhyggjur yfir kólnandi veðurfari og vitnað til rússnesks veðurfarsfræðings, sem spáir 10 köldum árum fram undan. Ekki er þó ástæða fyrir okkur íslendinga að hrökkva mikið við vegna þessara spádóma, enda eru þeir ekki nýir af nálinni, og þróun jökla hér síðustu árin bendir ekki til áðurnefndrar þróunar, eins og flestir vita. Yfirfyrirsögnin a grein hins norska blaðs er: Begynnelsen pá en ny is-tid?, „Upphaf nýrrar ísaldar?" og í aðalfyrirsögn segir: Slæmt veður í næstu tíu ár. Síðan segir: „Við eigum von á nýrri ísöld, segir Olav Liestöl. Fjórða árið í röð hefur mælst greinileg aukning á jöklunum okkar Hingað til hefur þessi aukning komið fram á efstu bungum þeirra, en reynslan sýnir að eftir fjögur ár fara þeir einnig að vaxa neðst. Til dæmis getur Svartisen vaxið 20—30 metra á ári. Þetta getur haft áhrif á raforkuver, sem knúin eru jökulvatni. Til dæmis mun raforkuverið í Glomfjord fá minna aðrennslisvatn við það að Svartisen vex. Hið sama getur gerst um allt landið. Liestöl sagði í fréttatíma útvarpsins að t.d. Harðangursjökullinn hefði bætt við sig hálfum metra, umreiknað í vatn. Það lítur út fyrir að aukningin í Norður-Noregi verði talsvert meiri en þetta. Meðal orsakanna eru kaldari sumur, meiri vestlægir vindar, meira regn og meiri vetrarúrkoma. Liestöl vitnaði einnig til ummæla rússnesks veðurfarsfræðings sem nýlega heimsótti heimskautarannsóknarstofnunina. Hann hélt því fram, að hann gæti sannað að það kæmu tímabil, þar sem veðurfarið héldist nokkurn veginn óbreytt og að nú sé að hefjast tímabil með köldum sumrum og miklum vetrarsnjó. Um lengd slíkra tímabila sagði Liestöl að talið sé að þau vari í 10—20 ár og „ef slíkt tímabil er á annað borð að byrja hjá okkur getur svo farið að við megum búast við slæmu veðri næstu tíu árin, en þetta eru nú bara ágiskanir", flýtti hann sér að bæta við í viðtalinu. Blaðið átti tal við Jón Eyþórsson veðurfræðing um þessa grein og spurði hann álits. Jón sagði m.a.: Það getur vel verið að jöklar séu að bólgna upp í Noregi, og Liestöl á að vita alveg um það. Raunar hafa tveir jöklar sýnt sig í því hér á landi, bæði Brúarjökull og Síðujökull. Hitt er svo alger firra að vera að tala um ísaldir, og það er því miður ekki nýtt að vísindamenn slái um sig með slíkum orðum til þess að vekja á sér athygli, en ég hélt satt að segja að prófessor Olav Liestöl væri yfir slíkt hafinn og grunar mig að blaðamaðurinn hafi þar lagt honum stærri orð í munn en hann myndi sjálfur kjósa. Ég minnist þess í þessu sambandi, að nú eru nákvæmlega 30 ár síðan Niels Nielsen prófessor fór í ferð sína til Grímsvatna og eftir heimkomuna lét hann hafa eftir sér: Vi gár en ny istid i möde, En einmitt þessi ár hefur hér óneitanlega verið geysimikið góðviðri. Hann kvaðst ekki vera búinn að vinna tæmandi úr mælingum frá í sumar, en hann hefði farið upp að Hagavatni um helgina og mælt jökulinn þar. Eystri jökullinn hefði hopað um 228 metra síðustu tvö árin, sem væri mjög mikið. Við spurðum Jón nokkuð um þróun íslensku jöklanna undanfarið. Hann gat þess að Síðujökull og Brúarjökull hefðu bólgnað talsvert, og Sólheimajökull hefði einnig gengið nokkuð fram.

Slide14

Þann 4. og 5. nóvember fór djúp lægð norðaustur um Grænlandshaf og Grænlandssund. Henni fylgdi bæði hvassviðri og gríðarleg úrkoma. Loftið kom langt að sunnan, rakaþrungið. Ekki hefur þó tekist að tengja það hitabeltisstormum eða öðrum hvarfbaugshroða. Tíminn segir frá 5.nóvember:

MIÍ—Reykjavík, fimmtudag. Óhemju skemmdir urðu á vegum á Vestfjörðum og Vesturlandi í miklu vatnsveðri síðastliðinn sólarhring. Skriður hafa fallið í tugatali á vegi og hús, ár hafa rofið vegi á mörgum stöðum og brýr hafa eyðilagst í vatnsflaumnum. Enn hefur ekki reynst unnt að kanna nærri allar vegaskemmdirnar, þar eð skriður hafa einangrað stóra kafla, en óhætt er að fullyrða að tjónið skipti mörgum milljónum króna. Erfitt er enn að gera sér glögga grein fyrir skemmdunum, en hér fara á eftir þær upplýsingar, sem blaðið gat aflað sér í dag frá fréttariturum sínum og hjá Snæbirni Jónassyni yfirverkfræðingi hjá Vegamálaskrifstofunni og Páli Bergþórssyni. veðurfræðingi. Páll sagði, að úrkoma hefði verði geysimikil á mörgum stöðum vestanlands síðasta sólarhringinn, en mjög mismikil. Nú í kvöld var úrkoman yfirleiti gengin niður. eða um það bil. Til dæmis var úrkoman í Kvígindisdal 61 mm frá því kl. 17 i gærdag til kl 8 í morgun og alls 71 mm allan sólarhringinn frá klukkan 8 til 8. Hins vegar var sólarhringsúrkoman á Hvallátrum ekki nema 17 mm. Á Galtarvita var sólarhringsúrkoman 32 mm í Æðey var hún aðeins 3.3 mm. en 41 í Látravík og 3 á Kjörvogi. Sést af þessu, hve mjög misjöfn úrkoman hefur verið. Segja má, að vatnsveðrið hafi náð frá Borgarfirði norður um Vestfjarðakjálkann. Fylgdu því hlýindi og víða mikið hvassviðri. Í kvöld var enn víða allhvasst, en Páll bjóst við því. að yfirleitt myndi kólna allmikið í nótt. Hann taldi líkur á miklu saltroki hér um vestanvert landið í nótt.

Guðmundur Sveinsson á Ísafirði sagði blaðinu i dag, að þar hefði byrjað að rigna kl.12 í gær, og hefði rignt stanslaust til klukkan 12 á hádegi í dag. Geysilegar skemmdir hafa orðið á Ísafirði og i nágrenni vegna skriðufalla og veit enginn enn hve miklar þær raunverulega hafa orðið vegna þess að ófært er um vegina. Klukkan átta i morgun byrjaði aurskriða að renna niður svokallaðan Stakkaneshrygg sem er rétt innan við Ísafjarðarkaupstað. Við það komust nýbyggð íbúðarhús við Miðtún, Sætún og Seljalandsveg í mikla hættu Var mikið aurrennsli þarna niður fram undir hádegið, og var stór jarðýta höfð til taks til að ýta aurnum fram af Seljalandsveginum. Um hádegisbilið í dag var Oddur Pétursson bæjarverkstjóri á leið heim til sín í mat. Tók hann þá eftir því, að mikil aurskriða var að koma niður. Oddur var gangandi. og ýtustjórinn var farinn heim til sin i mat Oddur sá, að skriðan stefndi beint á íbúðarhús Guðbjarts Guðbjartssonar í Miðtúni 29. Hann hafði snör handtök. hljóp upp á jarðýtuna og tókst í tíma að komast á henni að húsinu. Gat hann lagt henni þannig að skriðan lenti á ýtutönninni og rann þannig fram hjá húshorninu Hefði Oddur ekki gripið til þessa snarræðis myndi húsið hafa fyllst af aur. Alls munu fimm eða sex skriður hafa runnið niður af Stakkanesshryggnum, og um fjögurleytið í dag kom stór skriða þaðan. Lenti hún á steinsteyptum bílskúr. sem var fyrir tvo vörubíla og stóð við Seljalandsveg. Skúrinn var eign Sigurðar Ólafssonar og Kristmundar Gíslasonar. Skriðan braut skúrinn niður. Óhemju mikið af grjóti hefur borist niður í þessu aurrennsli og liggur mikið af því nú í kringum íbúðarhús Agnars Jónssonar og Hermanns Hálfdánarsonar við Seljalandsveg. Í morgun slitnaði lítil spennistöð Rafveitu Ísafjarðar úr sambandi, og varð rafmagnslaust á Ísafirði í um það bil hálftíma rétt fyrir hádegið. Guðmundur kvað ógerlegt að segja til um. hve miklar skemmdir hefðu orðið á vegum í nágrenni Ísafjarðar, en vitað væri, að þær væru geysimiklar Hefur enn ekki verið unnt að kanna þær til neinnar hlítar þar eð ófært er vegna skriðufalla í nágrenni kaupstaðarins.

Þó sæist frá Ísafirði, að skriður hefðu fallið á veginn í Álftafirði og valdið þar miklum skemmdum. Þá vissi Guðmundur til, að fimm eða sex skriður hefðu fallið á veginn út i Hnífsdal og miklar skemmdir hefðu orðið á veginum yfir Breiðadalsheiðina. Kristján Júlíusson i Bolungavík kvað óhemju úrfelli hafa verið þar um slóðir undanfarinn sólarhring, svo að elstu menn myndu ekki annað eins. Mikill aur hefði hlaupið í vatnsföll og væri víkin kolmórauð og sæist liturinn á sjónum langt út á Djúp. Geysimiklar skemmdir hafa orðið á vegum þar í grenndinni. Eina mestar eru þær í Óshlíðinni, og er vegurinn um hana meira og minna undir aur.skriðum. Til dæmis er vegarkaflinn frá Sporhamri inn að Kálfadal að mestu leyti undir aur, en það er rúmlega hálfs kílómetra kafli. Þar var í haust gerður stallur í urðina og var til þess ætlast, að stallurinn tæki við grjóthruni og aurskriðum, en nú virðist svo sem vatnið hafi grafið sig niður í stallinn og aurinn þar fyrir neðan hafi beinlínis flotið fram og yfir veginn. Þá hefur hækkað mjög mikið í Miðdalsvatni og hefur vatn úr því flætt yfir veginn neðan við Geirastaði, og er þar nú sums staðar hnédjúpt vatn á veginum.

Séra Stefán Eggertsson á Þingeyri sagði. að vitað væri með vissu, að fært væri frá Mjólká til Þingeyrar. Vörubílar frá Landsímanum hefðu í gær teppst við skriðu norðan Dýrafjarðar og sneru þá við. Í dag lögðu þeir aftur af stað og fór jarðýta með þeim. Mokaði hún margar skriður af veginum en þegar kom inn að Lambadalsá, varð ekki lengra komist, því að áin hafði flætt framhjá brúnni og hafði rofið þar 20—30 metra skarð í veginn. Beljaði hún þar fram og var útilokað að komast yfir hana. Sneru bílarnir því við og voru komnir til Þingeyrar aftur í kvöld. Þá hafði Stefán frétt, að aurskriður hefðu fallið í Bjarnardal í Önundarfirði en ýta var komin þangað í kvöld og farin að ryðja veginn. Þá var nýi vegurinn yfir flatlendið inn af Önundarfirði illfær eða ófær. og verður að krækja inn fyrir, eftir gömlum og slæmum vegi. Stefán náði í dag talstöðvarsambandi við Guðmund Þórðarson, verkstjóra. og taldi Guðmundur þá að einar 8 skriður hefðu fallið á veginn í Breiðadalnum, en var þá ekkí búinn að fullkanna tjónið þar. Svavar Jóhannsson á Patreksfirði vissi ekki um miklar skemmdir í nágrenni við sig. Þó var vitað, að vegurinn inni í Patreksfirði, innan til við bæinn Hvalsker hafði skemmst vegna þess að tunnuræsi þar tók ekki vatnsflaum, sem þar beljaði fram. svo vatnið flóði yfir veginn. Þá er vitað til, að eitthvað hafði runnið úr veginum á Kleifaheiði, en hann var fær. Svavar bjóst við, að miklar skemmdir hefðu orðið á veginum yfir Þingmannaheiði, en þær væru ókannaðar. 

Ólafur Ólafsson og Snæbjörn Jónasson sögðu, að miklar skemmdir hefðu orðið á vegum í Barðastrandarsýslu. Snæbjörn vissi um, að vegurinn upp úr Vatnsfirði hefði farið í sundur beggja vegna Þverdalsár. Í austursýslunni hafa skriður og vatnsflóð rofið veginn á mörgum stöðum. Alvarlegastar skemmdir hafa orðið við Laxá í Reykhólasveit. Þar hefur áin rofið veginn á um 20 m kafla vestan við brúna og grafið undan vesturstöpli brúarinnar, sem er um 12 metra löng. Þegar Ólafur kom þar að um fjögurleytið í dag var vestar; hluti brúarinnar mjög tekinn að síga. Þá hafði vatnsflaumurinn grafið frá símastaurum, svo að þeir héngu í línunni og ekki annað sýnt en hún myndi slitna þá og þegar. Ólafur kvað úrkomuna í Mýrartungu í nótt hafa mælst 51 mm og væri það meira en þar hefði áður mælst. Þá hafa einnig orðið miklar skemmdir á Klettshálsi vegna skriðufalla og þar hafa ræsi bilað, á Ódrjúgshálsi hafa tvö ræsi farið, Hjarðarholtsá og Eyrará hafa rofið veginn og við Eyrará nú komið um 20 metra skarð í veginn, Djúpadalsá og Gufudalsá flæða yfir veginn á stórum köflum, í Þorskafirði er vegurinn milli Kinnastaða og Kollabúða ófær og skriður hafa fallið um allan Gilsfjörð.

Í Dölum voru miklar vegarskemmdir í dag, og trufluðust mjólkurflutningar þar og féllu sums staðar alveg niður. Ólafur kvað langferðabifreiðar tepptar hingað og þangað í Barðastrandarsýslu og með öllu óvíst. hve nær þær gætu haldið för sinni áfram. Snæbjörn kvað miklar samgöngutruflanir hafa orðið á Snæfellsnesi og í Borgarfirði. Hörðudalsá á Skógarströnd flæðir yfir veginn og hefur skemmt hann og þar er alófært. Norðurá í Borgarfirði flæddi í dag yfir veginn á þremur stöðum og í kvöld fór Hvítá að flæða yfir veginn, bæði hjá Hvítárvöllum og eins vestan við síkjabrýrnar. Þá var alófært í dag yfir Reykjadalsá (norðan Bröttubrekku). Snæbjörn Jónasson kvað ómögulegt að segja um á þessu stigi málsins hve mikið tjónið á vegum og brúm væri, enda hefði ekki enn verið unnt að kana það til hlítar, þar eð heilir vegakaflar eru einangraðir vegna skriðufalla og vatnaflóða, en aðspurður kvað hann engan vafa á því að það skipti milljónum. Gleggri mynd af atburðum  mun væntanlega fást á morgun. þegar veður er orðið skaplegra.

Morgunblaðið segir 5.nóvember af hvassviðri:

Akranesi, 4. nóvember: Línubátarnir fiskuðu í gær frá tveimur og upp í fimm tonn. Var Rán aflahæst. Í gær seinnipartinn var stormsveljandi kominn og í nótt fór hann síhvessandi og síðan eldsnemma í morgun komið hvínandi rok á sunnan suðaustan og auðvitað landlega yfir alla línuna, því illstætt er á götunum í landi og haugasjór úti á miðum Ægis konungs. Morgunferð Akraborgar féll niður og einnig hádegisferðin í dag. Engin blöð fyrr en seint og síðar meir í kvöld. — Oddur.

Mikið hvassviðri var í Reykjavík og nágrenni í gærdag og gærkvöldi. Ekki urðu neinar meiriháttar skemmdir eða slys af þeim sökum, en járnplötur fuku af nokkrum húsum. T.d. fuku járnplötur á bíl sem skemmdist nokkuð. Þá fuku steinskífur af þaki vestur-þýska sendiráðsins við Túngötu í gærkvöldi og ollu nokkrum skemmdum á næsta húsi og í gærmorgun fuku járnplötur af húsi við Bergþórugötu. Truflanir urðu nokkrar á rafmagnslínum í Reykjavík og Kópavogi. Var þar einkum um að ræða, að heimtaugar slitnuðu niður. Nokkur hús urðu rafmagnslaus vegna þess.

Tíminn segir senn fréttir af fleiri skriðuföllum, vegaskemmdum og viðgerðum vestra 6.nóvember:

MB-Reykjavík, föstudag. Enn eru samgöngur í hinum mesta ólestri á Vestfjörðum. Víða hefur verið unnið í dag að viðgerðum, en búast má við að alllangt sé þar til vegir verði komnir þar í eðlilegt horf eftir hinar miklu skemmdir. Í gærkvöldi féll skriða á hús á Ísafirði og stórskemmdi það og önnur féll á háspennulínuna frá Ísafirði út í Hnífsdal, svo þar varð rafmagnslaust í nótt. Hér fara á eftir upplýsingar nokkurra fréttaritara blaðsins vestra í dag.

Guðmundur Sveinsson á Ísafirði sagði, að enn hefðu skriður valdið tjóni þar i gærkvöldi. Klukkan hálf átta í gærkvöldi féll mikil aurskriða niður svokallaða Miðhlíð, sem er milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Sleit hún sundur háspennulínuna út í Hnífsdal og var rafmagnslaust þar í alla nótt. Þegar þetta gerðist var þornað til og komið frost. Skömmu síðar, eða um áttaleytið, féll svo önnur skriða í Eyrarhlíðinni og lenti hún á húsinu Hnífsdalsvegi 35. Þar búa öldruð hjón, Árni Gunnlaugsson, 85 ára, og Kristín Jónsdóttir, 79 ára. Þau voru stödd í eldhúsinu, þegar skriðan féll. Skriðan braut vegginn á svefnherberginu, þannig að hann lyftist frá gólfi og skriðan féll inn frá Sporhamri inn í Hnífsdal, húsinu og húsmunum. Guðmundur kvað veginn inn í Súðavík ófæran, sömuleiðis veginn til Önundarfjarðar og Súgandafjarðar og hann hefur frétt að 10 skriður hafi fallið á Breiðadal í Álftafirði féllu einnig nokkrar skriður. en engin þeirra mun hafa verið stór. Kristján Júlíusson í Bolungavík fór inn á Óshlíðarveg um það leyti sem jarðýturnar voru að ryðja veginn þar. Hann kvað milli 20—30 skriður hafa fallið á veginn frá Sporhamri inn í Hnífsdal, sumar mjög efnismiklar, svo að vegurinn hefur horfið alveg á nokkrum stöðum og hefur bylst fram fyrir brún. Þungir steinar hafa á nokkrum stöðum sprengt frambrún vegarins, svo að stór skörð hafa myndast, en a öðrum stöðum hefur vatnsflaumurinn grafið fremri vegbrúnina, svo greinilega sást beint niður í fjöru. Vatnsrennsli er enn mikið á veginn og myndar þar stórar og smáar tjarnir, sem torvelda munu mjög umferð, ef frost herðir áður en næst til að ræsa þar fram, þar eð ræsi hafa fyllst. Búið er að ryðja veginn það vel að búið er að opna akfæra leið, þótt sums staðar sé aðeins ein akrein. Víða standa berir steinar út úr skriðunum, sem hreinsa þyrfti, þegar um hægir. Kristján lagði áherslu á það, að þrátt fyrir það að Óshlíðarvegur hefði farið illa i þessari miklu úrkomu, mætti ekki gleyma því, að aðrir vegir, sem þótt hafi liggja betur við samgöngukerfi Vestfjarða, hafi einnig orðið fyrir mjög slæmum skemmdum, sem engu síður verði erfitt að ráða bót á í fljótu bragði, nú þegar þessi árstími sé kominn. Þá beri einnig að undirstrika það, að Óshlíðarvegur hafi verið lífæð byggðarlagsins í Bolungavík, síðan hann var tekinn í notkun fyrir fimmtán árum, þrátt fyrir það að hann hafi legið undir ámæli margra, sem um hann hafi farið. Kristján kvað nokkrar skemmdir hafa orðið á túnum á tveim býlum. Tvær aurskriður féllu á túnið í Meirihlíð og ein féll á nýja sáðsléttu á Fremri-Ós. Trausti Friðbertsson á Flateyri sagði að ræsi hefðu yfirfyllst á nokkrum stöðum á Hvilftarströndinni og hefði runnið þar úr veginum, en í morgun hefði verið unnið þar að viðgerðum. Í dag hefði verið orðið fært kringum fjörðinn á jeppum og léttum bílum. Taldi hann að ekki myndi miklum erfiðleikum bundið að laga veginn svo fært yrði innan fjarðar, þó væri ekki vitað um veginn frá Hjarðardal og út í Valþjófsdal, vegna þess hve mikið vatnsrennsli hefði verið, en búið væri að telja yfir 10 skriður á þessum spotta. Breiðadalur var tepptur á móts við Fremri-Breiðadal af skriðum. Þá var einnig í dag ófært yfir Breiðadalsheiðina sjálfa á bílum. Trausti sagði, að ekki myndu hafa orðið tjón á túnum né húsum í Önundarfirði, nema hvað hluti af þaki á nýbyggðri hlöðu í Valþjófsdal hefði fokið. Þá hefði komist vatn í kjallara nokkurra húsa á Flateyri. Í gær var sem einn flóa að sjá fyrir ofan nýja veginn innst í firðinum, en hann hefur staðist flóðið og í dag var þar allt með felldu.

Ólafur Ólafsson í Króksfjarðarnesi sagði, að vegir í Barðastrandarsýslu væru enn víða ófærir. Bílar komast yfir Laxá neðan við brúna, en hún er mjög illa farin, stöpullinn að vestanverðu hefur haggast mikið og vængirnir brotnað af og þar fyrir vestan er stórt skarð í veginum. Ekkert var farið að vinna í dag að viðgerðum á vegunum og er ástandið því yfirleitt óbreytt frá því í gær, nema hvað búið er að hreinsa veginn í Gilsfirði. Ólafur kvað mikið hafa minnkað í ánum, enda komið þurrt veður með frosti. í Dölum munu allir vegir sæmilega færir.

Tíminn segir af ískönnunarflugi í pistli 9.nóvember:

IVIB—Reykjavík, mánudag. Flugvél Landhelgisgæslunnar fór í dag í ískönnunarflug út af Vestfjörðum. Svo sem sjá má af því er ísinn allnálægt landi út af Vestfjörðum, t.d- er ísspöng í aðeins um 6 mílna fjarlægð frá Kögri, en meginísinn er í 20 mílna fjarlægð frá landi. Hann er þó gisinn, eða um 4—5/10 víðast. Undanfarið hefur verið suðvestlæg átt á þessum slóðum og hefur hún haft þau áhrif að straumar hafa ýtt ísnum upp undir land. Fyrir hálfum mánuði könnuðu landhelgisgæslumenn ísinn úr lofti og flugu þá um 60 mílur út og sáu líklega um 90 mílur út en urðu ekki varir við neinn ís. Þröstur Sigtryggsson skipherra. sagði blaðinu að ísinn myndi nú óvenjulega nálægt, en nú væri komin norðaustlæg átt á þessum slóðum og myndi hún að öllum líkindum ýta ísnum frá landi að nýju.

Nú varð mikil veðurbreyting að nýju. Gríðarmikið háþrýstisvæði þokaðist úr austri og endaði yfir Grænlandi. Meðan á þeim færslum stóð var vindur hægur og veður bjart. Um 20. kom allkröpp lægð úr vestri og braust austur með Suðurlandi. Hún olli mikilli snjókomu, sem náði þó ekki í Borgarfjörð (ungu veðurnördi til sérlegra vonbrigða).Tíminn segir frá 23.nóvember:

MB-Reykjavík, mánudag. Þung færð er nú víða i lágsveitum sunnanlands vegna snjóa, en miklum snjó hefur kyngt niður sums staðar á þessu svæði í nótt og í dag. Mjólkurbílar frá Vík i Mýrdal urðu að snúa við í morgun og um fimmleytið í kvöld voru þeir enn ekki farnir af stað. Hjörleifur Ólafsson hjá Vegamálaskrifstofunni sagði blaðinu að færð væri þung víða á Suðurlandsundirlendinu, en verst virtist hún vera í Mýrdalnum og vestur eftir Rangárvallasýslu. Einnig hefði verið talsverður þæfingur á Þrengslaleiðinni og í Ölfusinu. og vegarspottinn niður í Þorlákshöfn hefði verið mjög þungfær. Hellisheiðin er alófær og verður ekkert reynt að ryðja hana fyrr en veður batnar. Miklu skárri færð væri yfirleitt þegar dregur frá ströndinni, og ágæt tærð í uppsveitum sunnanlands. Vesturlandsvegur er fær alla leið vestur að Þingmannaheiði, en hún er slæm yfirferðar vegna svellbólstra, sem hlaðist hafa upp, en halda ekki, og hafa myndast þar djúpir klakaskorningar. Á Hrafnseyrarheiði var i dag þæfingsófærð og hálfófært, og Breiðadalsheiðin er alófær. Hins vegar er fært í kringum Ísafjörð. Hjörleifur kvað víða hálku á vesturlandsveginum og Snæfellsnesi. og nauðsynlegt vær; að aka með gát en snjór er þar ekki að öðru leyti til trafala, nema þar sem getið var hér að framan. Norðurlandsvegur er fær allar götur norður og austur, nema hvað Vaðlaheiðin er slæm litlum bílum, vegna djúpra hjólfara í snjóinn. Hins vegar er nokkur jafnfallinn Snjór í Eyjafjarðarsýslu, Þingeyjarsýslum og á Austurlandi og má búast við algerðri ófærð þar á samri stundu og hvessir. Pálmi Eyjólfsson á Hvolsvelli taldi, að ekki hefðu orðið verulegar truflanir á samgöngum í Rangárvallasýslu vegna snjóa, og ef hvessti mætti búast við ófærð. Stefán Á. Þórðarson í Vík sagði að þar hefði snjóað mikið í nótt og mjólkurbílarnir úr Vík sneru þar við í morgun, eftir að hafa brotist inn með fjallinu nokkurn spöl. Í kvöld var allt óráðið um, hvenær reynt yrði að brjótast vestur með mjólkina. Vilhjálmur Valdimarsson á Kirkjubæjarklaustri sagði, að þar væri sama og enginn snjór, en mikil ófærð væri á Mýrdalssandi og í Skaftártungum, einnig væri þung færð í Meðallandi. Menn voru á ferð í nótt yfir Mýrdalssand á jeppa og gekk þeim mjög illa, og í morgun komu þeir gangandi heim að vestasta bænum í Skaftártungu, Hrífunesi, og höfðu orðið að skilja bílinn eftir við Hólmsá. 

Tíminn er enn í ófærðinni 24. og 25. nóvember:

[24.] MB—Reykjavík, þriðjudag Síðdegis í dag var enn ófært vegna snjóa austur í Vík í Mýrdal, og þá var tekið að hvessa norðanlands. Má búast við, að fjallvegir nyrðra verði mjög þungir eða ófærir, en mikill snjór er kominn þar. Hjörleifur Ólafsson hjá Vegamálaskrifstofunni sagði blaðinu í dag, að mikið hefði snjóað norðanlands í dag og undanfarna daga, en þar hefði verið hægviðri þar til síðdegis í dag og nú væri kominn bylur nyrðra. Mætti búast við því, að vegir nyrðra verði þungfærir og fjallvegir ófærir, ef eitthvað verður úr hvassviðri. Einkum er kominn mikill snjór í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslur en einnig er talsverður snjór í Norður-Múlasýslu. Um Suðurland er það að segja, að nú er orðið greiðfært austur í og um Árnessýslu en vegir í Rangárvallasýslu eru enn þungfærir nema þá stórum bílum. Stefán Á. Þórðarson í Vík sagði blaðinu um fimm-leytið í dag, að ekki væri enn orðið fært úr Vík og mjólkurbílarnir, sem áttu að leggja af stað í gærmorgun, voru enn ófarnir. Þá var talið, að bráðlega yrði fært úr Vík og voru heflar að ryðja veginn, en Hins vegar var tekið að hvessa þar að nýju svo ekki er gott að segja um, hve lengi helst opið. Erlingur Davíðsson,  ritstjóri á Akureyri sagði blaðinu í kvöld, að þar væri komin stórhríð. Hefði verið kominn allmikill jafnfallinn snjór þar um slóðir, og í dag tók að hvessa. Ekki hafði Erlingur spurnir af því, að vegir hefðu lokast. en búast mætti við því að þeir yrðu erfiðir a.m.k. á fjöllum. Þormóður Jónsson á Húsavík hafði líka sögu að segja, en þó taldi hann, að veðrið væri orðið heldur skárra aftur á níunda tímanum í kvöld.

[25.] MB—Reykjavík miðvikudag. Vegir eru nú víða mjög þungfærir og sums staðar ófærir. Í morgun voru vegir á Suðurnesjum ófærir þar á meðal nýi Keflavíkurvegurinn, ófært er með öllu austur frá Akureyri, vegir í Þingeyjarsýslum eru þungfærir um allt hérað og illfært er eða ófært í Mýrdalnum. Blaðið leitaði upplýsinga um ófærðina hjá Hjörleifi Ólafssyni á Vegamálaskrifstofunni og nokkrum fréttariturum í dag. Hjörleifur sagði að í morgun hefðu allir vegir á Suðunesjum verið ófærir þar á meðal nýi Keflavíkurvegurinn. en yfir hann hafði skeflt á nokkrum stöðum á Strandarheiðinni. Um níuleytið í morgun komst umferð um hann i lag og síðdegis í dag var orðið fært um alla vegi á Suðurnesjum. Fært er austur um Þrengsli. en kaflinn neðst i þeim í kvosinni austan við sjálf Þrengslin er þó vondur og mjög illa gengu, að halda spottanum niður í Þorlákshöfn opnum þar skefur jafnóðum og heflarnir ryðja snjónum brott, en þess, vegur er nú mikið notaður við síldarflutningana. Fært er á bílum til Akureyrar en þar fyrir austan er ófært eða illfært. Hjörleifur sagði að stórir bílar sem lögðu af stað úr Mývatnssveit um fimm-leytið gær hefðu ekki verið komnir til Akureyrar fyrr en um fótaferðartíma morgun. Þormóður Jónsson á Húsavík sagði að brotist hefði verið með mjólk til Húsavíkur í dag úr öllum sveitum sunnan Húsavíkur, en ófært væri fyrir Tjörnesið. Vaðlaheiðin er orðin gersamlega ófær og einnig leiðin um Dalsmynni. Vörubílar er voru á leið til Húsavíkur að sunnan urðu að vera um kyrrt á Akureyri í nótt Bílstjórarnir ætluðu að fá ýtu með sér í morgun og freista að brjótast austur yfir en á sjötta tímanum í dag voru þeir ókomnir til Húsavíkur. Einar Stefánsson á Egilsstöðum sagði, að færð um Héraðið væri góð en vissi ekkí um fjallvegi. Hjörleifur taldi sennilegt, að þeir væru ófærir. og vegurinn um Hólsfjöll austur á land mun alófær. Stefán A. Þórðarson í Vík sagði, að í gærkvöld; hefði tekist að opna veginn til Víkur, en mikill snjór væri í Mýrdalnum, einkum út fyrir Litla-Hvamm, og væru traðirnar þar háar. Mjólkurbílar fóru vestur í nótt en klukkan sex í kvöld voru þeir ókomnir til baka og Stefán bjóst við, að mjög erfitt yrði að halda veginum opnum, enda kominn skafrenningur. Þungfært er úr Vik austur á Klaustur, til dæmis komu menn þaðan í dag eftir að hafa verið hálfan sjöunda tíma á ferð á jeppabifreið. Pálmi Eyjólfsson á Hvolsvelli sagði að þar væri mikill jafnfall inn snjór, logn og frost. Fært væri á stórum bílum og jeppum um héraðið. en illfært á fólksbílum, og jafnskjótt og hreyfði vind mætti búast við, að allt yrði ófært.

Síðan tepptust flestir vegir á Norðausturlandi. Tíminn 27.nóvember:

MB—Reykjavík, föstudag. Nú má heita að allir vegir norðaustanlands og á Austfjörðum séu ófærir vegna snjóa. Engin mjólk barst í dag til mjólkurbúsins á Egilsstöðum og ekki hefur verið unnt að flytja mjólk til Seyðisfjarðar í þrjá daga, en síðdegis í dag var þó ekki orðinn mjólkurskortur þar. Blaðið aflaði sér í dag upplýsinga um færðina hjá Vegamálaskrifstofunni og fréttariturum sínum. Suðurlandsvegur er nú fær til Víkur, og þaðan er farið á stórum bílum austur að Klaustri. Hellisheiðin hefur nú verið opnuð. Enginn snjór til trafala er á Vesturlandsvegi, en á Vestfjörðum eru nokkrir heiðavegir ófærir. Hrafnseyrarheiði, Gemlufallsheiði og Breiðdalsheiði. Langidalur í Húnavatnssýslu er þungur yfirferðar og einnig er Þung færð í Skagafirði og Öxnadal, en heiðarnar á milli eru snjóléttari. Bílstjórinn á Norðurleiðarútunni frá Akureyri bað í dag um aðstoð jarðýtu upp Bakkaselsbrekkuna. Þung færð er austur frá Akureyri, en þó er fært á stórum bílum yfir Vaðlaheiði og um Dalsmynni. Fært er á stórum bílum um | alla Suður-Þingeyjarsýslu, en ófært austur fyrir Mývatnssveit, og vegir í Norður-Þingeyjarsýslu munu margir alófærir. Í dag barst engin mjólk í mjólkurbúið á Egilsstöðum og var ófært um Héraðið. Ekki hefur verið unnt að flytja neina mjólk niður á firðina, þar eð allir fjallvegir eru alófærir, til dæmis hefur ekki verið unnt að flytja mjólk til Seyðisfjarðar í þrjá daga.

Vísir segir af ísingartjóni eystra 27.nóvember:

Háspennulínan frá Grímsárvirkjuninni slitnaði á Fjarðarheiði í gær og urðu viðgerðarmenn frá að hverfa sökum stórhríðar og veðurhæðar. Stórhríð var á Austurlandi í gær, þæði mikil fannkoma og rok, Eftir hádegið slitnuðu strengir í háspennulínunni, sem liggur yfir Fjarðarheiði til Austfjarða, og olli það margháttuðum truflunum, m. a. stöðvaði það eina síldarverksmiðju. Viðgerðarmenn voru sendir frá Egilsstaðakauptúni strax og fréttist um bilunina, en veðurhæðin var svo gífurleg, að þeir urðu frá að hverfa án þess að fá nokkuð að gert. Á Norðfirði var feiknaleg veðurhæð í gær, ásamt sortabyl. Gekk illa með mjólkurflutninga innan úr dalnum, þótt aðeins sé um nokkurra kílómetra leið að fara. Sömuleiðis urðu tafir á uppskipun af völdum veðursins.

Tíminn segir enn ófærðarfréttir 30.nóvember og sömuleiðis af kuldum og hitaveituvandræðum syðra:

MB-Reykjavík, mánudag. Enn hefur færð þyngst á Norðurlandi og Austurlandi af völdum snjóa, og má nú heita að allir vegir austan Akureyrar og suður á Breiðdalsvík séu alófærir. Mjólk þraut alveg á Seyðisfirði í morgun og síðan á laugardag hefur verið reynt að brjótast með um 3000 lítra af mjólk frá Egilsstöðum þangað, en sú ferð hefur gengið ákaflega illa og í kvöld voru tvær jarðýtur tepptar í Stöfunum og enginn vafi á að mjólkin er öll frosin og þar með stórskemmd.

FB—Reykjavík, mánudag. Óvenju kalt hefur verið hér í borginni að undanförnu, og hefur það haft sín áhrif á hitaveituna eins og endranær. Nú er svo komið, að hitaveitugeymarnir á Öskjuhlíðinni tæmast fljótlega upp úr hádeginu dag hvern, og eftir það situr fólk skjálfandi heima hjá sér þangað til hlýna tekur, þegar á nóttina líður, og geymarnir fara að fyllast aftur. Við náðum tali af Gunnari Kristinssyni yfirverkfræðingi hjá Hitaveitunni og sagði hann að geymarnir á Öskjuhliðinni væru nú farnir að tæmast óvenju snemma. Væri því kalt á þeim tveim stöðum í bænum, sem venjulegast verða harðast úti, þegar minnkar um heitavatnið, á Skólavörðuhæðinni og Landakotshæðinni og eitthvað út frá þeim. Gunnar sagði hins vegar. að menn vonuðu, að þetta myndi lagast fyrir fullt og allt, þegar tveir nýju hitavatnsgeymarnir verða reistir á Öskjuhlíðinni. en þeir eiga hvor um sig að taka meira vatnsmagn en allir geymarnir, sem nú eru þar fyrir. í dag fréttist til þess, að á einstöku stað í austurbænum hefði orðið svo kalt upp úr hádeginu, að senda hefði orðið fólk heim af vinnustöðum. Var ekki talið forsvaranlegt að láta það hírast í kuldanum. Af framangreindu má sjá, að margir Reykvíkingar mega búast við köldum vetri, nema, veðurguðirnir verði miskunnsamir og láti frostinu linna.

Morgunblaðið segir ófærðarfréttir af Austfjörðum 30.nóvember:

Neskaupstað, 29. nóv. — Undanfarna daga hefur verið hér hið versta veður ,snjókoma og iðulaus stórhríð. Svo er nú komið, að erfitt er að komast á bílum um bæinn, þótt tvær ýtur og snjóhefill hafi verið að verki mestallan sólarhringinn og reynt að ýta snjó af götunum.

Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla lýsir tíðarfari í desember:

Þurrviðri og staðviðri einkenndu mest þennan mánuð. Fyrstu 4 dagana var úrkomulaust en frost.  Þ. 15. og 16. rigndi svolítið. Mældist úrkoman 5mm til samans báða dagana og það var síðasta mælanlega úrkoma mánaðarins. Þessa hlýju daga hvarf snjórinn að mestu leyti, en frost og þurrviðri næddi um jörðina svo að í mánaðarlokin  varð sumstaðar knappt um vatn handa skepnum. Nóttina þ. 29. hvessti hér óvanalega mikið, þá fauk hér stór heygalti, sem stóð við hlöðu á túninu. Þurrviðrið bjargaði þá, svo að heyið náðist að mestu með hjálp góðra nágranna. Þá brotnaði líka símastaur hér í nágrenninu og urðu þá margir bæir í Hvítársíðu símalausir þann dag.

Tíminn segir af legufærasliti 7.desember:

KJ-Reykjavík, mánudag. Togarinn Síríus slitnaði upp af legufærum á Viðeyjarsundi í nótt og rak hann upp í fjöru við Elliðaárvog, undir Gufuneshöfða.

Og Morgunblaðið segir af mikilli snjókomu nyrðra í pistli 7.desember:

Akureyri, 5. des. Hér hefur verið mikil snjókoma síðan á sunnudagsmorgun, þar til síðdegis í dag að upp stytti, en herti frost. Snjórinn hefur fallið í logni, þannig að hann er jafnfallinn, og er 60 — 70 sm. djúpur til jafnaðar. Götur bæjarins urðu flestar ófærar litlum bílum, en í dag hefur verið reynt að skafa helstu umferðargötur. Vegir í nágrenni Akureyrar eru allir ófærir öðrum en sterkustu trukkum, og hafa þeir verið notaðir til mjólkurflutninga. Mjólk hefur borist úr flestum eða öllum sveitum á þennan hátt.

Enn var ísing til vandræða. Morgunblaðið 11.desember:

Seinni hluta dags á miðvikudag skall á slyddubylur í Vestur-Skaftafellssýslu. Ákaflega mikill snjór hlóðst á símalínur, svo að nálega þrjátíu símastaurar brotnuðu vegna þungans á linunni. Flestir brotnuðu í Landbroti, sem Meðallandslínan liggur um, en einnig nokkrir í Skaftártungu. Er nú símasambandslaust við Landbrot, Meðalland og nyrðri hluta Skaflártungu. Einnig er sambandslaust við nokkra bæi annars staðar. Flokkur símaviðgerðamanna vinnur nú að við gerðum. Hér er um mikið verk að ræða og ekki hægt að giska á, hvenær því lýkur, en það fer að miklu leyti eftir veðri. Jörð er gödduð, og því tafsamt að grafa. Raflínustaurar brotnuðu sums staðar, og eru nokkrir bæir nú rafmagnslausir.

Morgunblaðið segir af hríð syðra í pistli 14.desember:

Samkvæmt upplýsingum, sem Mbl. fékk hjá Vegamálaskrifstofunni í gær, var vegurinn í Árnessýslu mjög þungfær í gær og fyrrinótt. Hafði skafið mikið í Ölfusinu, í Grímsnesi og alveg upp í Laugardal. Var vegarkaflinn við Ingólfsfjall niður að Selfossi t.d. algjörlega ófær í gær morgun. Þá var vegurinn upp í Grímsnes og niður við Eyrarbakka og Stokkseyri lokaður smærri bifreiðum. Tæki voru komin á staðinn í gær. Í Rangárvallasýslu er færðin ágæt, en fer aftur á móti versnandi þegar kemur í Skaftafellssýslu. Austur frá Vík er svo ekki fært nema stærstu bifreiðum. Í Borgarfirði og á Snæfellsnesi er færðin mjög svipuð því sem verið hefur, en í Dalasýslu var aftur á móti ekki fært nema stórum bifreiðum, en samkvæmt dagskrá Vegagerðarinnar, stendur til að ryðja Bröttubrekku í dag, þ.e.a.s. ef veður leyfir. Á Vestfjörðum eru vegir mjög svipaðir og verið hefur — velfært um sveitirnar, en færð verri á fjallvegum. Vegir eru þungir í Strandasýslu, en verða ruddir í dag, ef veður leyfir. Holtavörðuheiðin og vegurinn um Hrútafjörð var ófær í gær, en samkvæmt dagskránni verður reynt að ryðja veginn þ«r í dag. Hins vegar er ágæt færð úr Húnavatnssýslu til Akureyrar og einnig í Skagafirði. Þá er lokið við að moka veginn í Eyjafirðinum og til Dalvíkur, en einnig stendur til að Dalsmynnisleiðin til Húsavíkur verði mokuð. Úr Húsavík er fært um næstu sveitir en allþung færð er í Mývatnssveit. Á Austfjörðum er færð allsæmileg, t.d. er ágæt færð milli Egilsstaða annars vegar og Seyðisfjarðar hins vegar, svo og milli Egilsstaða annars vegar og Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og yfir Oddskarð til Norðfjarðar hins vegar. Þá er jeppafært frá Reyðarfirði um Staðarskarð til Fáskrúðsfjarðar og þaðan til suðurfjarðanna.

Slide15

Þann 15. kom óvenjudjúp lægð sunnan úr höfum upp að landinu, hún olli hláku, rigningu og hvassviðri. Dýpt lægðarinnar var nokkur undantekning frá því sem almennt var um þessar mundir - og fór ekki jafnlágt eða lægra aftur fyrr en 1982. Tíminn segir frá 16.desember:

MB-Reykjavík, miðvikudag. Í dag var mikið hvassviðri hér sunnanlands og hafrót við strendurnar og loftvog féll óvenjulega mikið. Í Reykjavík stóð hún lægst 952 millibara og á Reykjanesi 946 millibara. Klukkan 11 í morgun var veðurhæðin í Vestmannaeyjum 12 vindstig, en nokkru minni inni í landinu. Síðan slotaði veðrinu heldur síðdegis í dag meðan vindur snerist úr austri til suðvesturs og var búist við miklu suðvestanhvassviðri hér sunnanlands í nótt. Það er óvenju djúp lægð suður undan landinu, sem veldur þessu mikla hvassviðri. Víða á suðurlandi voru 7—9 vindstig í dag, og þá var einnig stormur og sums staðar rok undan Vestfjörðunum, en þar var vindur á norðaustan. Loftvog stóð mjög illa sunnanlands í dag, en þó er þar ekki um „met“ að ræða. Hún stóð lægst 946 millibara á Reykjanesi í dag [samkvæmt Veðráttunni fór þrýstingur á Reykjanesvita niður í 940,8 hPa], en í Reykjavík komst hún niður í 952 millibara. Þess má geta, að það sem menn vita til að loftvog hafi staðið lægst á Íslandi var 2.desember 1929, þá stóð hún 919,7 millibara í Vestmannaeyjum. Fyrir tveimur árum komst loftvog hér niður í 938,4 millibara. Engu að síður er mjög óvenjulegt að loftvog komist eins neðarlega og nú var. Síðdegis í dag var loftvog farin að stíga að nýju. Í nótt er búist við suðvestan hvassviðri og heldur kaldara veðri, en á morgun er þess vænst að veðrið gangi niður. Það verður samt skammgóður vermir, því önnur lægð er á leiðinni, sem valda mun hvassviðri hérlendis. Ekki var blaðinu í kvöld kunnugt um neinar teljandi skemmdir af völdum óveðursins, en því fylgdi mikil leysing og mun nokkuð hafa runnið úr vegum sunnanlands og því nauðsynlegt að aka þá með mikilli gát.

BS-Ólafsfirði, miðvikudag. Hér gerði mikið austanrok í fyrrinótt og gærdag og urðu í því miklar skemmdir á þurrkunarhúsi Magnúsar Gamalíelssonar, en um eitt hundrað járnplötur fuku af annarri hlið þess. Engin úrkoma fylgdi þessu veðri, þannig að skemmdir urðu ekki á birgðum þeim, sem geymdar voru í húsinu, en heita má að önnur hliðin sé alveg opin eftir veðrið. Ekki er mér kunnugt um að skemmdir hafi orðið á öðrum húsum hér á Ólafsfirði. Þeir tveir þilfarsbátar. sem héðan eru gerðir út voru úti, meðan óveðrið gekk yfir og öfluðu sæmilega. Þegar þeir komu að var veðrið mjög farið að lægja.

Tíminn segir 17.desember frá breytingu á farvegi Markarfljóts:

MB—Reykjavík, fimmtudag. Markarfljót breytti í gær farvegi sínum, braut skarð í varnargarð og rann austur af Dalsás, sem er austan fljótsins, austur af Litlu-Dímon. Þar flæddi fljótið upp að nýgerðum vegi og var hann um sinn í hættu, en strax var hafist handa við að keyra grjót í skarðið á varnargarðinum og sagði Eysteinn Einarsson verkstjóri við Markarfljótsbrú blaðinu í dag, að í morgun hefði hættan verið liðin hjá og fljótið verið hamið að nýju.

Mikla hálku gerði í Reykjavík (rétt einu sinni). Tíminn 18.desember:

KJ-Reykjavík, föstudag. Mikið var um bifreiðaárekstra á götum Reykjavíkur í dag, og einkum þó fyrir hádegið. Urðu alls 16 árekstrar á tímabilinu frá því klukkan níu í morgun og fram til klukkan eitt, en frá eitt til átta urðu sjö árekstrar, eða 2" talsins samanlagt í dag. Langflesta þessa árekstra mátti rekja til hálkunnar á götunum, og það er sama sagan að ökumenn gæta sín ekki á hálkunni fyrst á morgnana.

Tíminn reynir að ráða í jólaveðrið pistli 22.desember:

MB—Reykjavík, þriðjudag. Þótt vissast sé að slá engu föstu um veðrið hér á Íslandi fram í tímann, má þó telja líklegt að um mestallt landið verði hvít jól í ár að því er Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, tjáði blaðinu í kvöld. Nokkur vafi leikur á því hvernig umhorfs verður hér á suðvesturhorninu. en það ræðst sennilega í nótt. því ekki er gert ráð fyrir snjókomu þar að ráði til jóla. Hitastigið hér verður sennilega nálægt frostmarkinu nótt og vafi, hvort snjófölið hér tekur upp. en síðan kólnar með þurri norðaustan átt hér í Reykjavík.

Enn dró til tíðinda við Surtsey. Tíminn 28.desember. Einnig segir af frosthörkum:

FB-Reykjavík, mánudag. Surtur er enn ekki dauður úr öllum æðum, eins og sýndi sig á annan dag jóla, en þá tóku menn, sem flugu yfir Surtseyjarsvæðið eftir því, að gufustrók lagði upp úr sjónum nokkur hundruð metra suðvestur af Surtsey. Skömmu seinna fór Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur í flugvél yfir gosstöðvarnar með Birni Pálssyni flugmanni og nokkrum öðrum áhugamönnum, og sáu þeir þá gufustrók leggja upp og stöku sinnum komu svartar gjallgusur í ljós.

HZ-Reykjavík, mánudag. Miklar frosthörkur hafa verið um allt land um hátíðarnar. Í dag var frostið mest norðanlands og um miðbik landsins allt frá 15 st. upp í 20 stig. Mest var frostið á Staðarhóli í Aðaldal, það mældist 23 stig. Á Akureyri var 19 stiga frost og víðast eitthvað svipað norðanlands og í innsveitum. Aftur á móti var frostið minna út við sjóinn, þó var 14 stiga frost á Raufarhöfn.

Morgunblaðið segir enn fréttir af ófærð syðst á landinu í pistli 28.desember. Einnig er fjallað um frosthörkur:

VÍK, 27. des. — Miklir samgönguerfiðleikar hafa verið hér síðan í fyrstu snjóum og hefur næstum daglega verið unnið með jarðýtu og veghefli við að ryðja snjó af vegum. Þrátt fyrir það hafa vegir oft lokast eða verið mjög seinfærir. Nú er Mýrdalssandur talinn ófær. Áætlunarbifreið frá Austurleið, sem fór frá Kirkjubæjarklaustri kl. 1 í gærdag, varð stopp á Mýrdalssandi, vestan við Blautukvísl. Þar var skafrenningsbylur. Sex farþegar voru í bifreiðinni. Bifreiðarstjórinn gat náð sambandi við Lóranstöðina á Reynisfjalli um talstöð og bað um aðstoð. En þá þegar var jarðýta frá Vegagerðinni lögð af stað frá Vík í Mýrdal og gat rutt leiðina, svo að áætlunarbifreiðin kom til Víkur kl. 3 í nótt. Og hélt síðan áfram til Reykjavíkur. Var hún þá orðin 12 tíma á eftir áætlun. Mjólkurbílar frá Kaupfélagi Skaftfellinga í Vík, er ætluðu að Kirkjubæjarklaustri í gær, voru með trukk með ýtu á, til að ryðja leiðina, sneru aftur á Mýrdalssandi og komu til Víkur í gærkvöldi. Brandur Stefánsson, verkstjóri í Vík, taldi í viðtali ófærðina á Mýrdalssandi vera á 20 km kafla. Svo eru aðeins snjóadrög á vegum í Skaftártungu, en síðan má heita snjólaust í austursveitum. Hér í Mýrdal eru víða snjótraðir á vegum. Ef nokkuð hvessir eða snjóar má búast við að leiðin lokist fljótt. Á þetta við kaflann frá Vík að Litla-Hvammi, en úr því er færi fyrir hvaða bíl sem er til Reykjavíkur. — Sigþór.

Mikið frost hefur verið um land allt undanfarna daga og í gær var mesta frost á vetrinum, en þá fór að draga úr frostinu sunnanlands, svo búist var við frostlausu í dag um Suðvesturlandið og að einnig færi að draga úr frosti fyrir norðan. Skv. upplýsingum frá Veðurstofunni var í gær 23 stiga frost é Staðarhóli í Aðaldal í gærmorgun og fram um hádegi. Þá var 20 stiga frost á Grímsstöðum á Fjöllum. Yfirleitt var 10—20 stiga frost inn til landsins. Í Reykjavík var 9 stiga frost á mælingarstað í 2ja metra hæð í gærmorgun, en 12 stig í fyrrinótt. Þó hefur verið kaldast niður við jörð og mældist þar 17 stig. Á Akureyri var i gær 17 stiga frost, svo og á Sauðárkróki og 16 stig á Egilsstöðum. Á Hveravöltum var í gær ekki nema 16 stiga frost og kominn sunnan kaldi, en á annan jóladag var þar 22 stiga frost. Í gær var byrjað að draga úr frostinu, fyrst suðvestan lands og var kominn 2ja stiga hiti í Vestmannaeyjum um miðjan daginn.

Þann 29. fór djúp lægð til austurs fyrir sunnan land. Hún olli miklu hvassviðri við suðurströndina og hríð víða, en hríðin var þó mjög misáköf. Tíminn segir frá 30.desember:

FB—Reykjavík, miðvikudag. Geysilegt hvassviðri hefur gengið yfir sunnanvert landið í nótt og í dag. Hvergi hefur þó orðið nokkurt tjón á mönnum svo vitað sé, en í Vestmannaeyjum fuku járnplötur af húsum og trilla slitnaði þar upp og rak hana upp í kletta, þar sem hún brotnaði í spón. Mestur mældist vindhraðinn á Stórhöfða klukkan 11 í morgun en þá komst hann upp í 15 stig. Mikið hvassviðri var í Reykjavík í nótt og morgun. Engar skemmdir urðu af völdum veðursins á verðmætum, en tvær óreiðutrillur slitnuðu upp í Reykjavíkur höfn í rokinu, en þær brotnuðu samt ekki. Mikill sjógangur var við höfnina og gekk sjórinn hátt upp úti á Granda. — Það hefur verið ofsaveður hér í Vestmannaeyjum síðastliðinn sólarhring sagði fréttaritari blaðsins í dag. Óveðrið byrjaði upp úr klukkan 5 i gærdag og enn er hér ofsarok. Smávegis snjókoma var hér í- gærkvöldi en í dag hefur ekkert snjóað, og þann snjó, sem fyrir var, skafið í burtu að mestu. Járnplötur hafa losnað af húsum. rúða brotnað í einni verslun, og trillubátur slitnaði upp og er hann nú gjörónýtur. Engin slys hafa orðið á mönnum í þessu roki. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var enn 12 stiga vindhraði á Stórhöfða klukkan 5 í kvöld en spáð, að heldur mundi lægja með kvöldinu. Herjólfur hafði átt og fara til Vestmannaeyja í kvöld en ferðinni var frestað þar til veður skánaði. Á Hellu var vindhraðinn 10 stig kl. 5 í dag Þar hafði verið skafbylur fyrr í dag svo mikill, að skyggni var á tímabili aðeins um 100 metrar Fréttaritarinn á Hvolsvelli sagði, að veðrið hefði verið óskaplega vont þar í kring í alla nótt, en þó hefði lygnt milli klukkan 6 og 8 í morgun en síðan hvesst mikið aftur og verið allra hvassast um og upp úr hádeginu. Það hefur verið hér ofanbylur en nú sér til himins, sagði hann að lokum Frost hefur verið 3—4 stig. Á Skógum og í Vík í Mýrdal hafði einnig verið mikið austanóveður í alla nótt og dag og ekki hafði mjólkurbíllinn komist til Skóga um miðjan dag í dag. Var búist við, að bílstjórinn legði ekki í að halda lengra en að Markarfljóti en þangað var hann kominn, þar sem mikil ísing var á veginum, og búast mátti við, að bíllinn fyki jafnvel út af í hálkunni. Víkurbúar sátu í myrkri annað slagið í dag, þar sem rafmagnið var alltaf að fara. Það hafði líka farið um tíma í nótt. Ófært er á vegum frá Vík, og hafði meira að segja tíu hjóla trukkur orðið að halda kyrru fyrir, þar sem hann var kominn um 4 kílómetra frá Vík, og hafði orðið að sækja bílstjórann þangað á snjóbíl og flytja hann aftur til Víkur. Ekki náðist samband við Kirkjubæjarklaustur þar sem ísing hafði hlaðist á línuna, að því er talið var. Hægt var þó að ná í Fagurhólsmýri í gegn um Höfn í Hornafirði, og fréttaritarinn á Fagurhólsmýri sagði að þar væri hvasst líklega 7—10 vindstig, úrkoma væri lítil, og lítið hefði snjóað, nema á Breiðamerkursandi þar væri snjór. Tveggja stiga frost var á Fagurhólsmýri, en þar hefur verið allt upp í 12 stig að undanförnu. Í Hornafirði var mun hægara, engin snjókoma síðdegis í dag og frostlaust. Norðanlands er mun hægara og þar hefur lítið snjóað, en frost er 2 til 5 stig.

Lýkur hér upprifjun hungurdiska á veðri og tíð á árinu 1965. Að venju má finna talnasúpu, meðalhita, mánaðaúrkomu og margt fleira í viðhenginu.  

Í fréttum af febrúarillviðrunum var minnst á páskahretið mikla 1917 - um það er sérstakur pistill á hungurdiskum, auk þess minnst á það í umfjöllun um árið 1917. Veður á sömu slóðum sem lömdu gæsir og máva til bana gerði líka 1892 og 1906 eins og fjallað er um í pistlum um þau ár. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hálfur nóvember

Meðalhiti í Reykjavík fyrri hluta nóvember er +3,4 stig. Það er +0,6 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 14. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Hlýjast var 2011, meðalhiti þá +6,7 stig, en kaldast 2010, meðalhiti -0,5 stig. Á langa listanum raðast hiti nú í 42. sæti (af 150). Hlýjastir á þeim lista eru sömu dagar árið 1945, meðalhiti +8,2 stig, en kaldastir voru þessir dagar 1969, meðalhiti -2,6 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta nóvember -0,4 stig. Það er -1,7 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -2,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðusturlandi, þar raðast hitinn í 10. hlýjasta sæti aldarinnar. Að tiltölu hefur hins vegar verið kaldast á Ströndum og Norðurlandi vestra, þar raðast hitinn í 18. hlýjasta sæti. Röðun á öðrum spásvæðum er þarna á milli.
 
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast að tiltölu á Fagurhólsmýri, hiti þar +1,1 stig ofan meðallags. Kaldast að tiltölu hefur verið á Sauðárkróksflugvelli, hiti -3,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma hefur ekki mælst nema 3,3 mm í Reykjavík og hefur aðeins þrisvar mælst minni sömu daga, minnst 1963, en einnig minni en nú 1955 og 1926. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 16,3 mm og er það um helmingur af meðallagi. Austur á Fjörðum, á Dalatanga er úrkoma hins vegar í meðallagi.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 46,4 í Reykjavík, 22 fleiri en í meðalári og hafa aðeins fjórum sinnum mælst fleiri sömu daga. Það var 1984, 1967, 1996 og 2000. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 21,4, 11 fleiri en í meðalári.
 
Stöðugar austanáttir hafa verið ríkjandi, og sömuleiðis síðustu átta daga októbermánaðar.

Enn hagstætt - að mestu

Hér hefur nú í tvígang verið minnst á hina hagstæðu háloftahæð (eða hrygg) fyrir norðaustan land. Hann hefur nú haldið frá okkur lægðum að mestu í rétt rúmar þrjár vikur. Að vísu hefur veðrið ekki verið alveg jafngott um allt land allan tímann - en slíkt væri enn óvenjulegra. Þessar rúmu þrjár vikur hefur stöðug austanátt verið ríkjandi á landinu, kannski ekki alveg nægilega lengi til að teljast óvenjulegt samt. Óvenjulegheitin byrja ekki fyrr en í kringum 5 vikurnar. 

Eins og spár eru í augnablikinu virðist þessari austanáttarsamfellu eiga að linna upp úr helgi - kannski þegar á sunnudag. Hvort vestanáttin sem þá er sögð taka við hefur erindi sem erfiði er auðvitað of snemmt að meta - spár bregðast oft á styttri tíma en fjórum til fimm dögum.

w-blogg151123a

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir síðdegis á föstudag, 17. nóvember. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og styrk í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hæðarhryggurinn hóflegi er þarna enn (strikalína nærri Íslandi). Mikil lægð er sunnan við land - hún á að fara austur til Bretlands án þess að hafa mikil áhrif hér á landi. Allmikið lægðardrag er vestan við Grænland - og er það sem sagt er muni valda breytingu - á að senda lægð norðaustur um Grænlandshaf og Grænlandssund á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku - og þar með sópa hæðarhryggnum loks út af borðinu. 

Góðviðrið undanfarna daga hefur auðvitað komið sér mjög vel. Illviðri hefði enn þyngt viðbragðaróðurinn á Suðurnesjum - nóg er samt við að eiga. Við vonum svo sannarlega að umskipti í veðrinu verði ekki verulega illkynja. 

Síðastliðið sumar reyndi ritstjóri hungurdiska að grafast fyrir um uppruna orðróms um að góðviðri fylgi jafnan eldgosum og/eða jarðskjálftum - og ritaði um það stuttan pistil á fjasbókarsíðu sína. Þótt sumir lesendur hungurdiska hafi séð þann pistil áður hafa ábyggilega ekki allir gert það. Því skal hann endurtekinn hér að neðan - myndin sem sýnir tilvitnunina birtist einnig í sama pistli. Þeir sem hafa áður séð þetta þurfa að sjálfsögðu ekki að lesa meir.

„Ég heyri alloft (og sé) talað um eitthvað sem kallað er „jarðskjálfta- eða eldgosaveður“. Eftir þessari „þjóðtrú“ er um að ræða mikil hægviðri - jafnvel hita líka. Þegar farið er að grafast fyrir um rætur þessarar trúar kemur í ljós að hún er ævagömul - og reyndar að utan komin, allt frá rómverjum eða grikkjum hinum fornu. Í þeirra bókum er þessu haldið fram - og síðan tuggið aftur og aftur allar miðaldir - og jafnvel inn í huga íslendinga - dæmi meira að segja nefnd.

Sé farið í saumana koma saman tilvitnanir í „Náttúrusögu“ rómverjans Plíníusar eldri. Hann fórst í Vesúvíusargosinu í ágúst árið 79, en hafði áður skrifað gríðarmikið um náttúru- og landafræði.

pliniusartilvitnun-facebook-a

Í 81. kafla annarrar bókar verksins og næstu köflum á eftir segir af jarðskjálftum. Getið er þeirrar hugmyndar Babýlóníumanna að gangur himintungla valdi skjálftunum. - Síðan er sagt frá tveimur frægum grískum jarðskjálftaspám, annars vegar leist Anaximander frá Míletos ekki á ástandið í Spörtu, varaði menn þar við yfirvofandi skjálfta og skriðu, en hins vegar spáði Pýþagóras skjálfta eftir að hafa litið á vatn úr brunni.

Þetta er athyglisverður lestur - nokkuð skrýtinn samt og við hraðan yfirlestur finnst manni flest vera vitleysa ein. Byggt er á hugmynd grikkja (frægust hjá Aristótelesi) að jarðskjálftar séu vindgangur í jörð. - Og fljótlega er minnst á að jarðskjálftar eigi sér aldrei stað nema þegar sjór er hægur og himinn svo kyrr að fuglar geti ekki svifið - vegna þess (skilji ég rétt) að sá andi sem ber þá venjulega hafi lokast inni í jörðinni og valdi þar síðan vindgangi (skjálfta). Skjálftarnir hætti þegar jarðvindarnir hafi fengið greiða útrás - séu skjálftar fleiri en einn haldi þeir áfram í 40 daga eða meira - eins til tveggja ára jarðskjálftahrinur séu jafnvel þekktar.

Ekki er allt dellukennt sem kemur á eftir. Sagt er frá mismunandi skjálftum og fjölbreyttum afleiðingum þeirra. Þess er getið að borgir þar sem mikið er um neðanjarðarmannvirki, skemmist síður í skjálftum heldur en þær sem slíkt er ekki. Bogagöng eyðileggist síður heldur en annað, og svo framvegis. Jarðskjálftar boði oft eitthvað meira - Rómaborg hafi aldrei skolfið án þess að skjálftinn væri fyrirboði.

Nútímatölfræði sýnir ekkert samhengi milli veðurs og jarðskjálfta. Hugmyndir Plíníusar um mismundandi tíðni jarðskjálfta eftir tíma dags og árstíma eru einnig vafasamar - en við skulum þó geta þess að þeir stóru skjálftar sem við þekkjum hér á landi hafa ekki raðast jafnt á árið. Eru menn í alvöru að klóra sér í höfðinu yfir því.

Þess má geta í framhjáhlaupi að í 77. kafla sömu bókar er hin fræga tilvitnun í Pytheas frá Marseilles um eyjuna Thule. Þar er verið að fjalla um mismunandi lengd sólargangs (lengsta dags ársins) eftir breiddarstigum. Bókin er aðgengileg á netinu (víðar en á einum stað - en aðallega í þeirri útgáfu sem myndin vísar í)“.


Fyrstu tíu dagar nóvembermánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga nóvembermánaðar er +2,9 stig í Reykjavík. Það er -0,2 stigum neðan meðallags sömu daga 1991-2020 og -0,7 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 16. hlýjasta sæti (af 23 á öldinni). Hlýjast var 2004, meðalhiti þá +6,1 stig, en kaldast 2010, meðalhiti +0,1 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 60. sæti (af 150). Hlýjast var 1945, meðalhiti þá +8,2 stig, en kaldast var 1899, meðalhiti -3,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +0,1 stig. Það er -1,4 stigum neðan meðaltals 1991-2020 og -1,7 neðan meðaltals síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur nú verið einna hlýjast á Suðausturlandi, þar raðast hiti i 9. hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem hiti raðast í 17. hlýjasta sætið.
 
Jákvætt vik (miðað við síðustu tíu ár) hefur verið mest á Fagurhólsmýri, +1,8 stig, en neikvætt vik er mest á Brúsastöðum í Vatnsdal, -2,8 stig.
 
Óvenjuþurrt hefur verið um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoma í Reykjavík hefur mælst aðeins 2,8 mm. Það hefur alloft gerst áður að úrkoma hefur mælst svo lítil fyrstu tíu daga nóvembermánaðar, síðast árið 2013, þegar hún var engin. Þá haugrigndi hins vegar síðdegis þann 10, - mælt þann 11. Í 10 skipti önnur mældist úrkoma minni en nú í Reykjavík fyrstu 10 daga nóvember.
 
Á Akureyri hefur úrkoma nú mælst 16,3 mm sem er um 70 prósent meðalúrkomu. Austur á landi er úrkoma ofan meðallags.
 
Sólskinstundir hafa mælst 37,8 í Reykjavík, 21 stund fleiri en í meðalári og hafa aðeins tvisvar mælst fleiri sömu daga (1996 og 1984). Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 15,3, 7 fleiri en í meðalári.
 
Almennt má segja að vel hafi farið með veður það sem af er mánuði að slepptu ísingarveðri austanlands.

Lítið lát á

Fyrir um hálfum mánuði var hér á hungurdiskum sagt frá „hóflegri fyrirstöðu“ fyrir norðaustan land. Er átt við þaulsetna háloftahæð - sem ekki er sérlega öflug, en virðist ætla að verða afskaplega þaulsetin. Vindur er nú raunar heldur meiri en að undanförnu, en veðurlag að öðru leyti þrálátt - og til þess að gera meinlítið - úrkoma þó í meira lagi sums staðar fyrir austan og norðan suma daga - og jörð hér syðra orðin óþarflega vinveitt ryki og sandfoki.

w-blogg061123a

Kortið gildir síðdegis á þriðjudag. Hæðin enn fyrir norðaustan land og enn ein lægðin virðist ætla að brjótast til austurs talsvert fyrir sunnan land. Auðvitað herðir eitthvað á vindi af hennar völdum, en álitamál hvort úrkomusvæði hennar nær inn á Suðurland. 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar á kortinu og segja okkur frá vindátt og vindstyrk, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - hún er enn og áfram nokkuð mikil - yfir meðallagi árstímans - nægilega mikil til að halda hita á láglendi ofan frostmarks, blási vindur. Þegar lygnir er hiti hins vegar fljótur að lækka niður fyrir frostmark inni í sveitum. 

Spár gera ekki ráð fyrir miklum breytingum. Kortið hér að neðan sýnir tíudagameðalspá reiknimiðstöðvarinnar. Enga grundvallarbreytingu þar að sjá.

w-blogg061123b

Hér sýna litirnir ekki þykktina - heldur hæðarvik, hversu mikið hæð 500 hPa-flatarins víkur frá meðallagi. Eins og áður sagði er þetta ekki sérlega öflug hæð. Hún samt þannig að hún víkur ekki nema fyrir tilstilli annað hvort öflugra háloftavinda - eða þá tímans tönn, þá hægt og bítandi. Lægðirnar sem fara fyrir sunnan land gefa henni lítilsháttar fóður sem unnið hefur gegn niðurbroti hennar - sem auðvitað verður um síðir. 


Smávegis af október

Enn forðast heimshlýindin okkur - jú, við vorum raunar á landsvísu +0,5 stigum ofan meðalhitans 1961-1990, nákvæmlega í meðallegi 1991-2020 - og hvorki meira né minna en +1,3 stigum ofan meðallags októbermánaða áranna 1871-1900. 

w-blogg041123a

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (1981-2010 - í lit). Þykktin er ekki fjarri meðallagi. Hlýindi voru ríkjandi víðast hvar á kortsvæðinu, mest þó vestur í Labrador og suður við Miðjarðarhaf. Kalt var í Skandinavíu, sérstaklega norðan til. Eins og sjá má var norðanátt þar ríkjandi. Jafnhæðarlínur eru mjög gisnar við Ísland, vindar lengst af hægir í háloftunum og lægðir fóru flestar langt fyrir sunnan land. 

w-blogg041123b

Heldur kaldara var um landið austanvert. Taflan sýnir að á Austfjörðum og Suðausturlandi raðast hitinn í kaldasta þriðjung á öldinni - en annars staðar getum við með góðri samvisku talað um hita nærri meðallagi. Hlýjast þó við Faxaflóa. 

Við vonum auðvitað flest að hann haldi áfram að fara vel með. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina. 

 


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 179
  • Sl. sólarhring: 380
  • Sl. viku: 2558
  • Frá upphafi: 2435000

Annað

  • Innlit í dag: 159
  • Innlit sl. viku: 2269
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 146

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband