Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2021

Óvenjuhár sjávarhiti

Sjávarhiti við Norðurland er í fréttum þessa dagana. Því miður er sjávarhitamælir Veðurstofunnar í Grímsey ekki í lagi um þessar mundir og við verðum aðallega að reiða okkur á fjarkönnunargögn - en þó eru fáein dufl á reki norðan við land og frá þeim koma einhverjar upplýsingar. Sjávarhitamælingar úr gervihnöttum hafa þann ókost að sjá ekki nema hita yfirborðsins - sá hiti getur verið töluvert annar heldur en hiti rétt neðan yfirborðs - sérstaklega hafi vindar verið mjög hægir í nokkra daga. Slíkur sjór getur á örskotsstund blandast kaldari, hreyfi vind að ráði. 

w-blogg110821a

Hér má sjá sjávarhita gærdagsins eins og hann var í líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það sem er sérlega óvenjulegt er hinn hái hiti í Austur-Grænlandsstraumnum, en á árum áður voru oft talsverðar ísleifar í honum á þessum tíma árs, stundum miklar. Í miklum ísárum fyrri tíma náði sá ís jafnvel til Íslands í ágúst, vestur fyrir Horn og suður fyrir Berufjörð á Austfjörðum. Nær aldrei var greið leið til austurstrandar Grænlands. En nú er það ekki aðeins ísleysi, heldur er hiti ekkert nærri frostmarki heldur. Annað atriði er sérlega hár hiti undan austanverðu Norðurlandi, allt að 13 stigum. Árin 2003 og 2004 fór meðalsjávarhiti í júlí og ágúst yfir 10 stig við Grímsey. Sama gerðist í ágúst 1955, 1939, 1933 og 1931. Á þessu korti er hitinn við Grímsey nærri 12 stig. Höfum í huga að þetta er í dag - líklega fellur hitinn síðar í mánuðinum þannig að spurning er enn hvort mánaðarmeðalhitinn verði þar hærri en áður hefur borið við - alls ekki er það víst. 

Evrópureiknimiðstöðin sýnir okkur einnig vikakort.

w-blogg110821b

Ef við trúum því er vikið hér við land mest við Melrakkasléttu, meira en 6 stig. Enn meiri vik eru síðan á ísaslóðum við Grænland. Svipað má svo reyndar sjá líka á allstórum svæðum við norðurstrendur Síberíu. Hiti undan Suðurlandi er einnig meir en 2 stigum ofan meðallags á stóru svæði. Dálítið neikvætt vik er undan Suðausturlandi - ekki fjarri straumamótunum. Ritstjóra hungurdiska þykja tvær skýringar koma til greina - sú fyrri er að ríkjandi suðvestanáttir hafi dregið upp sjó að neðan - nokkuð sem gerist alloft blási vindur af sömu átt mjög lengi. Hin skýringin er að hlýrri og saltari sjór berist í einhverjum sveipum inn á svæðið - yfir kaldari og seltuminni - við það verður blöndun ákafari við straumamótin - alla vega eru líkur á blöndun meiri við straumamót heldur en annars. 

Gervihnattamælingar sjávarhita eru sérlega ónákvæmar við strendur - þannig að ekki er gott að segja hvort hin neikvæðu vik (síðara kortið) og lági hiti (fyrra kortið) sem við getum greint inni á fjörðum Norðaustur-Grænlands eru raunveruleg. Á þeim slóðum hafa óvenjuleg hlýindi verið ríkjandi upp á síðkastið, svipað og á Norðaustur- og Austurlandi, bráðnun snævar og jökla er þar sjálfsagt með mesta móti, það skilar sér út á firðina þar sem hiti er því nærri frostmarki - þrátt fyrir „hitabylgju“ á snjólausum svæðum. 

Fáein flotdufl eru á reki fyrir norðan land, þau taka dýfur reglulega - mislangt niður - mæla seltu- og hitasnið, og senda síðan mælingarnar til gervihnatta þegar þau koma úr kafi. Í fyrradag fengust upplýsingar frá dufli sem statt var á 68,9°N og 14,8°V. Þar var yfirborðshiti um 8,5 stig, um 4 stig á 50 metra dýpi og 0,5 stig á 100 metra dýpi. Yfirborðið var tiltölulega ferskt (og því gat það vatn flotið) - en ferskasta lagið var örþunnt - aðeins um 10 metrar ef trúa má mælingunni. Gangi mikil hvassviðri yfir þetta svæði á næstunni mun hiti þar geta fallið um mörg stig á stuttum tíma. Svipað mun eiga við um stóra hluta þess svæðis þar sem hitavikin eru hvað mest. 

Nú er spurning hvernig fer með haustið - undir venjulegum kringumstæðum fer mikill hluti sumarorkunnar í að bræða ís við Austur-Grænland - því er venjulega ekki lokið í lok sumars. Nú er hins vegar engan ís þar að finna - fyrr en norðan við 80. breiddargráðu. Varmi getur því safnast fyrir í yfirborðslögum sjávar. Kannski blandast varminn niður í hauststormum - en þá geymist hann þar til lengri tíma - getur e.t.v. nýst til að éta ís síðar og annars staðar - kannski fer varminn í aukna haustuppgufun - austanvindar á Austur-Grænlandi og norðanvindar hér á landi þá e.t.v. orðið blautari en vandi er til. Til þess að við verðum fyrir slíku þarf vindur auðvitað að blása af norðri - en hlýr sjór ræður harla litlu um vindáttir - (jú, einhverju - en vart afgerandi í þessu tilviki). 

Hluti „vandans“ á norðurslóðum fellst svo í því að útflutningur ferskvatns út úr Norður-Íshafi og með Austur-Grænlandsstraumnum gengur greiðar fyrir sig sé ferskvatnið í formi íss en ekki vökva, vindur nær mun betri tökum á ís heldur en sjávaryfirborði. Hugsanlega geta þannig safnast fyrir umframferskvatnsbirgðir í norðurhöfum. Enginn veit með vissu hvernig fer með slíkt eða hvaða afleiðingar slík birgðasöfnun hefur til lengri tíma. Það eitt er víst að mjög miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu fyrir norðan okkur. Óþægilegt er að vita af því að enn meira kunni að „vera í pípunum“ - og að vita ekki hvers eðlis það verður - „gott“ eða „slæmt“ - við vitum ekki einu sinni hvort það sem sýnist „gott“ er í raun slæmt (þá án gæsalappa). 


Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar hafa verið hlýir á landinu

Ágúst byrjar hlýlega. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu dagana er 13,1 stig, +1,6 stig ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +1,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er þriðjahlýjasta ágústbyrjun á öldinni í Reykjavík, hún var hlýjust 2003, meðalhiti þá 13,5 stig, og 13,4 stig árið 2004. Kaldasta ágústbyrjun aldarinnar var 2013, meðalhiti þá 10,4 stig. Á langa listanum er meðalhiti nú í fjórðahlýjasta sæti (af 147). Kaldastir voru þessir dagar árið 1912, meðalhiti 6,4 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga ágúst 13,7 stig, 11-hlýjasta ágústbyrjun frá 1936. Hlýjastir voru dagarnir tíu 1938, meðalhiti þá 15,1 stig. Hiti nú er +2,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og einnig síðustu tíu ára.
 
Hitinn nú er yfirleitt í 2. til 4. hlýjasta sæti á öldinni (af 21). Að tiltölu hefur verið kaldast á Austurlandi að Glettingi, þar er hitinn í 6.hlýjasta sætinu. Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins. Mest er vikið á Vaðlaheiði, +4,7 stig, en minnst í Hamarsfirði, +0,1 stig.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 27 mm og er það um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur hún aðeins mælst 4 mm, og er það um 40 prósent meðallags.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 45,7 í Reykjavík, 8 stundum færri en í meðalári. Sólskinsstundir á Akureyri eru fleiri en í meðalári.

Örlítið söguslef - hitafar

Ritstjóri hungurdiska er um þessar mundir í starfslokatiltekt, flettir og hendir gömlum blöðum og skýrslum. Rifjast þá sitthvað upp. Á dögunum rakst hann á aldarfjórðungsgamla  norska ráðstefnugrein. Fjallar hún um tilraun til mats á hitafari á hellaslóðum við Mo í Rana í Noregi. Mo i Rana er í Nordland-fylki í Noregi, á svipuðu breiddarstigi og Ísland. Ársmeðalhiti 1961-1990 var eiginlega sá sami og í Stykkishólmi, eða 3,5 stig. Staðurinn er þó ekki alveg við ströndina og eru vetur heldur kaldari og sumur hlýrri heldur en í Hólminum. 

Hér að neðan lítum við á mynd (línurit) þar sem reynt er að giska á ársmeðalhitann á þessum slóðum síðustu 9 þúsund ár eða svo. Notast er við samsætumælingar í dropasteinum hellisins. Ritstjórinn minnist þess að línurit þetta fór allvíða á sínum tíma og beið hann lengi eftir því að greinin birtist í því sem kallað er ritrýnt tímarit - eða alla vega einhverju ítarlegra en ráðstefnuriti. Svo virðist sem úr því hafi ekki orðið, kannski vegna þess að eitthvað ábótavant hefur fundist, t.d. í aðferðafræðinni. Aftur á móti birtist grein um niðurstöður mælinga úr sama helli nokkrum árum síðar - en þar var fjallað um hitafar í hellinum á hlýskeiði ísaldar - frá því fyrir um 130 þúsund árum að 70 þúsund árum fyrir okkar daga. Ritstjóri hungurdiska hefur ekkert vit á dropasteinum - né þeim aðferðum sem menn nota til að galdra út úr þeim upplýsingar um hita og/eða úrkomu. En hitaferill myndarinnar er forvitnilegur.

mo-i-rana_dropsteinar-Lauritzen-1996

Í haus myndarinnar segir að þar fari ársmeðalhiti í Mo i Rana. Lárétti ás myndarinnar sýnir tíma, frá okkar tíð aftur til 8500 ára fortíðar. Eins og gengur má búast við einhverjum villum í tímasetningum. Lóðrétti ásinn sýnir hita - efri strikalínan merkir meðalhita á okkar tímum (hvað þeir eru er ekki skilgreint - en hér virðist þó átt við meðaltalið 1961 til 1990). Neðri strikalínan vísar á meðalhita á 18.öld - „litla ísöld“ er þar nefnd til sögu. Rétt er að benda á að ferillinn endar þar - fyrir um 250 árum (um 1750) - en nær ekki til 19. og 20. aldar. Höfundurinn ákveður nú að hiti um 1750 hafi verið um 1,5 stigum lægri heldur en „nú“. Um það eru svosem engar alveg áreiðanlegar heimildir - sem og að sú tala gæti jafnvel átt við annað „nú“ heldur en höfundurinn virðist vísa til - t.d. til tímabilsins 1931 til 1960, sem var heldur hlýrra en það síðara, í Noregi eins og hérlendis. Sé munurinn á „hita nú“ og hita „litlu ísaldar“ minni en 1,5 stig hefur það þær afleiðingar að hitakvarðinn breytist lítillega - en lögun hans ætti samt ekki að gera það. 

Nú er það svo að töluverður munur getur verið á hitafari í Noregi og á Íslandi, mjög mikill í einstökum árum, en minni eftir því sem þau tímabil sem til athugunar eru eru lengri. Allmiklar líkur eru því á að megindrættir þessa línurits eigi einnig við Ísland - sé vit í því á annað borð. 

Höfundurinn (Lauritzen) tekur fram að hver punktur á línuritinu sé eins konar meðaltal 25 til 30 ára og útjafnaða línan svari gróflega til 5 til 6 punkta keðjumeðaltals - og eigi því við 100 til 200 ár. Sé farið meir en 5 þúsund ár aftur í tímann gisna sýnatökurnar og lengri tími líður milli punkta - sveiflur svipaðar þeim og síðar verða gætu því leynst betur. 

En hvað segir þá þetta línurit? Ekki þarf mjög fjörugt ímyndunarafl til að falla í þá freistni að segja að hér sé líka kominn hitaferill fyrir Ísland á sama tíma.

Samkvæmt þessu hlýnaði mjög fyrir um 8 þúsund árum og var hitinn þá um og yfir 6°C. Almennt samkomulag virðist ríkja um að mikið kuldakast hafi þá verið nýgengið yfir við norðanvert Atlantshaf.

Meðalhiti í Stykkishólmi er rúm 3,5°C síðustu 200 árin, hlýjustu 10 árin eru nærri 1°C hlýrri og á hlýjustu árunum fór hiti í rúm 5,5 stig. Getur verið að meðalhiti þar hafi verið 5 til 6°C í rúm 2000 ár? Sú er reyndar hugmyndin - jöklar landsins áttu mjög bágt og virðast í raun og veru hafa hopað upp undir hæstu tinda. Ástæður þessara miklu hlýinda eru allvel þekktar - við höfum nokkrum sinnum slefað um þær hér á hungurdiskum og áherslu verður að leggja á að þær eru allt aðrar heldur en ástæður hlýnunar nú á dögum. 

Höldum áfram að taka myndina bókstaflega. Frá hitahámarkinu fyrir hátt í 8 þúsund árum tók við mjög hægfara kólnun, niður í hita sem er um gráðu yfir langtímameðallagi okkar tíma.  Síðan kemur mjög stór og athyglisverð sveifla. Toppur skömmu fyrir um 5000 árum nær rúmum 5 stigum, en dæld skömmu síðar, færir hitann niður í um 1°C, það lægsta á öllu tímabilinu sem línuritið nær yfir fyrir um 4500 árum, eða 2500 árum fyrir Krist. Þessar tölur báðar eru nærri útmörkum á því sem orðið hefur í einstökum árum síðustu 170 árin. En þær eiga, eins og áður er bent á, væntanlega við marga áratugi. Ýmsar aðrar heimildir benda til verulegrar kólnunar á okkar slóðum fyrir rúmum 4000 árum. Þessi umskipti voru á sínum tíma nefnd sem upphaf „litlu ísaldar“ - en því heiti var síðar stolið á grófan hátt - síðari tíma fræðimenn hafa stundum nefnt þessa uppbreytingu upphaf „nýísaldar” (Neoglaciation á ensku).

Á þessum tíma hafa jöklar landsins snaraukist og náð að festa sig í sessi að mestu leyti. Jökulár hafa þá farið að flengjast aftur um stækkandi sanda með tilheyrandi leirburði og sandfoki, gróðureyðing virðist hafa orðið á hálendinu um það leyti. Ef við trúum myndinni stóð þetta kuldaskeið í 700 til 800 ár - nægilega lengi til að tryggja tilveru jöklanna, jafnvel þó þeir hafi búið við sveiflukennt og stundum nokkuð hlýtt veðurlag síðan. 

Línuritið sýnir allmikið kuldakast fyrir um 2500 árum síðan (500 árum fyrir Krists burð). Þá hrakaði gróðri e.t.v. aftur hér á landi. Það hitafar sem línuritið sýnir milli Kristburðar og ársins 1000 greinir nokkuð á við önnur ámóta línurit sem sýna hitafar á þeim tíma. Ef við tökum tölurnar alveg bókstaflega ætti þannig að hafa verið hlýjast um 500 árum eftir Krist, en aðrir segja að einmitt þá (eða skömmu síðar öllu heldur) hafi orðið sérlega kalt. En línuritið segir aftur á móti frá kólnun eftir 1000. 

Það eru almenn sannindi að þó að e.t.v. sé samkomulag að nást um allra stærstu drætti veðurlags á nútíma gætir gríðarlegs misræmis í öllu tali um smáatriði - hvort sem er á heimsvísu eða staðbundið. Frá því að þessi grein birtist hefur mikið áunnist í rannsóknum á veðurfarssögu Íslands á nútíma, en samt er enn margt verulega óljóst í þeim efnum.

Línurit sem þessi geta á góðum degi hjálpað okkur í umræðunni - en við skulum samt ekki taka smáatriðin allt of bókstaflega. 

Rétt er að nefna greinina sem myndin er fengin úr (tökum eftir spurningamerkinu í titlinum):

Stein-Eirk Lauritzen (1996) Calibration of speleothem stable isotopes against historical records: a Holocene temperature curve for north Norway?, Climate Change: The Karst Record, Karst Waters Institute Special Publications 3, p.78-80.

 


Hlýindamet í háloftum yfir Keflavík

Enn fjölgar fréttum af hlýindametum. Ritstjórinn hefur reiknað út meðalhita í háloftunum yfir Keflavík. Í júlí voru sett þar met í þremur hæðum, 400 hPa, 500 hPa og 700 hPa. Meðalhiti í 400 hPa (rúmlega 7 km hæð) var -28,1 stig og er það um 0,8 stigum hærra en hæst hefur áður orðið í júlímánuði (1991). Meðalhiti í 500 hPa (um 5,5 km hæð) var -16,5 stig, um 0,9 stigum hærri en hæst áður í júlí (líka 1991) og 3,2 stigum ofan meðaltals síðustu 70 ára. Í 700 hPa (rúmlega 3 km hæð) var meðalhiti júlímánaðar -0,9 stig,  1,3 stigum hærri en hæst hefur orðið áður (einnig í júlí 1991). Í 850 hPa (um 1400 metra hæð) var meðalhiti 6,0 stig, -0,1 stigi lægri en í júlí 1991 og sá næsthæsti frá upphafi mælinga. 

Uppi í 300 hPa var meðalhiti mánaðarins -42,2 stig, sá fjórðihæsti í í júlí frá upphafi (1952). Þar uppi var hlýrra en nú í júlí rigningasumrin miklu 1955 og 1983 - og sömuleiðis 1952 (en mælingar í þeim mánuði kunna að vera gallaðar). Aftur á móti var hiti í heiðhvolfinu með lægra móti nú - en engin mánaðamet þó. Í 925 hPa (um 700 m hæð) var heldur ekki um met að ræða - hiti ekki fjarri meðallagi, rétt eins og niðri á Keflavíkurflugvelli. Þar réði sjávarloftið sem umlék vestanvert landið mestallan mánuðinn. 

Þykktin (mismunur á hæð 1000 og 500 hPa-flatanna) yfir Keflavík hefur heldur aldrei verið meiri en nú (rétt eins þykktin í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar sem þegar hefur verið minnst á hér á hungurdiskum), um 10 metrum meiri en hæst áður í júlí (1991) og um 60 metrum meiri heldur en meðaltal síðustu 70 ára. Samsvarar það um +3°C viki frá meðallagi. Ef trúa má greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var vikið enn meira yfir Norðausturlandi. 

Spurt var um ástæður hlýindanna - svar liggur auðvitað ekki á reiðum höndum, en sú er tilfinning ritstjóra hungurdiska að hin almenna hnattræna hlýnun hafi e.t.v. komið hitanum nú fram úr hlýindunum 1991 - en afgangs skýringanna sé að leita í öðru. Ekki síst því að margir styttri hlýindakaflar hafi nú af tilviljun raðast saman í einn bunka - rétt eins og þegar óvenjumargir ásar birtast á sömu hendi í pókergjöf. Þetta má t.d. marka af því að þrátt fyrir öll þessi hlýindi var ekki mikið um algjör hitamet einstaka daga - hvorki í háloftum né á veðurstöðvum (það bar þó við). Við bíðum enn slíkrar hrinu - hvort hún kemur þá ein og sér eða í bunka með fleiri „ásum“ verður bara að sýna síg. 

 


Fleira af merkilegum júlímánuði

Meðan við bíðum eftir endanlegum júlítölum Veðurstofunnar skulum við líta á stöðuna í háloftunum í nýliðnum júlí (2021). 

w-blogg030821a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykktin er sýnd með (daufum) strikalínum, en þykktarvik (miðað við 1981 til 2010) eru í lit. Mesta þykktarvikið er við Norðausturland, um 88 metrar þar sem það er mest. Það samsvarar því að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hafi verið nærri 4,5 stigum ofan meðallags - það er raunar svipað og mestu hitavik á veðurstöðvunum í júlí. Það var mest við Upptyppinga miðað við síðustu tíu ár, +4,6 stig. Þrátt fyrir að þykktarvikið hafi verið minna yfir landinu vestanverðu er þetta samt hæsta mánaðarþykktarmeðaltal á tíma háloftaathugana - síðustu 70 ár. Næstmest var þykktin í júlí 1984. Þá var rigningatíð suðvestanlands (meiri en nú), en mikil hlýindi á Norður- og Austurlandi.  

Það er í aðalatriðum tilviljanakennt hvar mikil þykktarvik (jákvæð og neikvæð) lenda á norðurhveli. Þrátt fyrir að útbreiðsla jákvæðra þykktarvika hafi mjög aukist á síðari árum (vegna hnattrænnar hlýnunar) eru jafnmikil vik og hér um ræðir enn mjög ólíkleg á hverjum stað. Því má vera að löng bið verði eftir öðru eins í júlímánuði hér á landi - jafnvel þó enn frekar bæti í hnattræna hlýnun. 

Hæð 500 hPa-flatarins er einnig í meira lagi - um 60 metra yfir meðallagi - en hún náði þó ekki meti. Styrkur bæði vestan- og sunnanátta var yfir meðallagi í mánuðinum - eins og veðurlagið raunar gefur til kynna. Helstu „vindaættingjar“ mánaðarins eru júlí 2013 og júlí 1987. Endurgreiningar stinga líka upp á júlímánuðum áranna 1913 og 1926 - báðir taldir miklir óþurrkamánuðir um landið suðvestanvert. Síðarnefndi mánuðurinn var víða mjög hlýr um landið norðaustanvert, en öllu svalara var 1913. Rigningamánuðurinn frægi júlí 1955 var sérlega hlýr norðaustan- og austanlands, en suðvestanátt háloftanna var þá mun stríðari heldur en nú - að því leyti ólíku saman að jafna. Júlí 1989 er líka skyldur nýliðnum júlímánuði hvað háloftavinda varðar - en þá var þó talsvert svalara en nú. 

Nýliðinn júlí var furðuþurr á Suður- og Suðvesturlandi miðað við stöðuna í háloftunum - ekki gott að segja hvers vegna. Helst að giska á að hlýindin í háloftunum tengist frekar viðvarandi niðurstreymi heldur en miklum aðflutningi lofts langt að sunnan) - sem mjög bælir úrkomuhneigð. Kannski er hið fyrrnefnda sjaldséðari ástæða hlýinda heldur en það síðarnefnda. 

Það má einnig telja til tíðinda að úrkoma það sem af er ári í Reykjavík hefur aðeins mælst 298 mm. Vantar rúma 160 mm upp á meðaltal áranna 1991 til 2020. Það gerðist síðast árið 1995 að úrkoma fyrstu 7 mánuði ársins mældist minni en 300 mm. Þá var hún enn minni en nú eða 265,4 mm. Síðustu 100 árin hefur úrkoma fyrstu sjö mánuði ársins aðeins 6 sinnum verið minni en 300 mm í Reykjavík, minnst 1965, 261,9 mm. 

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust nú 121,0 og hafa 15 sinnum verið færri en nú síðustu 100 árin. Aðeins eru liðin þrjú ár frá mun sólarminni júlímánuði. Það var 2018 þegar sólskinsstundirnar mældust aðeins 89,9 í Reykjavík, fæstar hafa sólskinsstundir í júlí orðið í Reykjavík árið 1989, 77,7 1955 voru þær aðeins 81,4 og svo 82,6 í júlí 1926. 

Við þökkum Bolla P. að vanda fyrir kortagerðina.


Sérlega hlýr júlímánuður

Nýliðinn júlímánuður var sérlega hlýr. Um mestallt norðan- og austanvert landið var hann sá hlýjasti sem vitað er um frá upphafi mælinga. Á stöku stöðvum er þó vitað um hlýrri júlímánuði - en nokkuð á misvíxl. Á Egilsstöðum var júlí 1955 t.d. lítillega hlýrri heldur en nú. Meðalhiti var meiri en 14 stig á fáeinum veðurstöðvum, en ekki er vitað um slíkt og þvílíkt hér á landi áður í nokkrum mánuði. 

w-blogg010821a

Taflan sýnir eins konar uppgjör fyrir einstök spásvæði. Eins og sjá má var hiti nærri meðallagi síðustu tíu ára á Suðurlandi, við Faxaflóa og við Breiðafjörð, en á öllum öðrum spásvæðum var hann hærri en annars hefur verið í júlí á öldinni. 

Meðalhiti í byggðum landsins í heild reiknast 11,7 stig. Það er það næstmesta sem við vitum um í júlí, í þeim mánuði 1933 reiknast meðalhitinn 12,0 stig. Í raun er varla marktækur munur á þessum tveimur tölum vegna mikilla breytinga á stöðvakerfinu. Við vitum af einum marktækt hlýrri ágústmánuði, árið 2003, en þá var meðalhiti á landinu 12,2 stig, í ágúst 2004 var jafnhlýtt og nú (11,7 stig).  

Meðalhámarkshiti í nýliðnum júlí var einnig hærri en áður, 20,5 stig á Hallormsstað. Hæsta eldri tala sem við hiklaust viðurkennum er 18,7 stig (Hjarðarland í júlí 2008), en tvær eldri tölur eru hærri en talan nú, en teljast vafasamar. Um það mál hefur verið fjallað áður hér á hungurdiskum. Lágmarksmeðalhitamet voru ekki í hættu (hafa verið hærri). 

Það er líka óvenjulegt að hiti komst upp fyrir 20 stig einhvers staðar á landinu alla daga mánaðarins nema einn (30 dagar). Er það mjög óvenjulegt, mest er vitað um 24 slíka daga í einum mánuði (júlí 1997) síðustu 70 árin rúm.

Uppgjör Veðurstofunnar með endanlegum hita-, úrkomu- og sólskinsstundatölum mun væntanlega birtast fljótlega upp úr helginni. Úrkoma var yfirleitt aðeins um þriðjungur til helmingur meðalúrkomu, en hún náði þó meðallagi á fáeinum stöðvum á Snæfellsnesi, við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Suðvestanlands var sólarlítið, en mjög sólríkt inn til landsins norðaustanlands. Ekki er ólíklegt að sólskinsstundamet verði slegið á Akureyri - eða alla vega nærri því - og sama má segja um Mývatn. Endanlegar tölur ættu að liggja fyrir síðar í vikunni.  


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a
  • w-blogg071124a
  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 313
  • Sl. viku: 1624
  • Frá upphafi: 2408638

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband