Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

Falleg vetrarmynd

Myndin hér að neðan er ættuð af vef Veðurstofunnar - og tekin í dag (fimmtudag 5.mars 2020) kl. 13:50.

w-blogg050320a

Landið alhvítt að kalla. Óregluleg klakkakerfi fyrir sunnan land og austan - gamalt skilasvæði að trosna fyrir norðan - og teygir sig inn á land, - fáein korn náðu meira að segja til höfuðborgarsvæðisins undir kvöld. Éljagörðum úti af Vestfjörðum er haldið í skefjum af hitahvörfum - líkön tala um að þau séu í um 1500 metra hæð. Bjart að mestu yfir kalda sjónum - en hafísröndin við Grænland ósköp aumingjaleg. 


Enn af febrúar

Við lítum nú á þrýstivikakort febrúarmánaðar. Eins og fram hefur komið var sjávarmálsþrýstingur óvenjulágur hér á landi. Mánaðarmeðaltalið í Reykjavík var 981,9 hPa, það sjöttalægsta í febrúar síðustu 200 árin og það lægsta síðan 1997. Munurinn á meðaltali lægstu mánaðanna er svo lítill að hann er ekki marktækur - nema gagnvart allra lægstu tölunni, meðaltali febrúarmánaðar 1990, 976,3 hPa (hefði hann verið 29 dagar eins og sá nýliðni hefði meðalþrýstingur hans orðið 976,7 - samt 5,2 hPa neðar en nú. Hinir þrír eru allir aftur á 19.öld og þekking okkar á mánaðarmeðaltali á þeim tíma getur hæglega skeikað 1 hPa og jafnvel rúmlega það - á hvorn veg sem er. 

w-blogg020320a

Kortið sýnir meðalþrýsting í febrúar (heildregnar línur) og vik frá meðaltali áranna 1991 til 2010 (litir). Þó þetta sé lægsti meðalþrýstingur á landinu í febrúar síðan 1997 (eða 1990) er samt styttra síðan stærri vik sáust í þessum almanaksmánuði a svæðinu. Það var í febrúar 2014 - þá var þrýstingur hér á landi lítillega hærri en nú (marktækt þó) - en enn meiri vik voru fyrir suðaustan land en nú var.

w-blogg020320c

Kortið sýnir stöðuna í febrúar 2014. Fjólublái liturinn var jafnvel enn meiri að útbreiðslu 1990, en 1997 var útbreiðsla hans hér við land svipuð og nú. Þaulreyndir lesendur hungurdiska hafa séð þetta kort áður - það birtist í pistli sem ritaður var 2.mars 2014. Þar var fjallað um óvenjulegan febrúarmánuð. Daginn áður hafði verið fjallað um óvenjuþrálátar austanáttir þá um veturinn. 

Meðalhiti í byggðum landsins var -0,6 stig, -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, febrúar 2016 var heldur kaldari en nú. Sé litið til lengri tíma er hitinn -0,3 stigum neðan meðallags síðustu 30 ára, en +0,2 ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Mánuðurinn raðast í 60. hlýjasta sæti í 147-ára röð.

Annars bíðum við uppgjörs Veðurstofunnar. 


Af þrálátum lágþrýstingi

Loftþrýstingur hefur að meðaltali verið mjög lágur hér á landi síðastliðna þrjá mánuði, sérstaklega í janúar og febrúar. Í fljótu bragði sýnist sem þrýstingur í janúar hafi verið meðal þeirra 10 lægstu síðustu 200 árin - formlega í 9. til 10.sæti á lista ritstjóra hungurdiska og í febrúar lendir hann í sjöttalægsta sæti á sama lista. En saman ná mánuðirnir þrír næstlægsta meðalþrýstingnum - sjónamun ofan sömu mánaða 2013 til 2014 - en ómarktækt og veturinn 1989 til 1990 var þýstingur líka jafnlágur og nú þessa sömu almanaksmánuði.

w-blogg010320

Myndin sýnir meðalloftþrýsting í desember til febrúar allt frá 1821. Nákvæmnin lengi framan af er þó ekki nema 1 til 2 hPa. Breytileikinn frá ári til árs er hins vegar svo mikill að óvissan skiptir í raun litlu máli nema þegar að kemur að smámunasamri röðun í sæti. Reikna má lítilsháttar þrýstifall, um 1 hPa á öld - en það verður að teljast ómarktækt. Breyting frá ári til árs virðist afskaplega tilviljanakennd - en þó gætir þyrpinga lítillega þannig að drjúg sveifla er í 10 ára keðjumeðaltölum (sem rauði ferillinn sýnir).

Þrýstisveiflur á Íslandi ráða að mestu NAO-vísinum svonefnda og sömuleiðis er fylgni þeirra við AO (Arctic Oscillation - (bjarnarilluna (bein þýðing))) mjög mikil. Fyrrnefndi vísirinn var mjög í tísku fyrir um 30 árum, sérstaklega í kringum 1990. Eins og glögglega kemur fram á myndinni var þá mjög langt síðan þrýstingur hafði verið jafnlágur við Ísland og NAO vísirinn því í hæstu hæðum. Á sama tíma gengu sérlega hlýir vetur yfir Evrópu. Margir töluðu um þetta sem veður framtíðar en gættu ekki að því að ámóta ástand hefði verið nokkuð algengt um 70 árum áður. Hvað um það - ótrúlega gott samband er á milli vetrarhita í Evrópu norðanverðri og þrýstings á sama tíma á Íslandi. 

Á síðari árum er farið að bera meira á tali um AO-vísinn. Kannski er það vegna þess að menn eru smám saman að átta sig betur og betur á tengslum vindafars heiðhvolfs annars vegar og veðrahvolfs hins vegar. Hugmyndin kannski sú að vegna einfaldari hringrásar í heiðhvolfinu sé einfaldara að spá veðri þar til lengri tíma heldur en niðri í veðrahvolfi. Séu samskipti hvolfanna á einhvern hátt reglubundin megi e.t.v. nota heiðhvolfsspár til að ráða í stóru drættina í veðurlagi veðrahvolfs jafnvel 2 til 3 vikur fram í tímann. Eitthvað er trúlega til í þessu - jafnvel þó það séu í raun stórir atburðir í veðrahvolfi sem setja af stað stærstu heiðhvolfsbreytingarnar - en ekki öfugt. 

Umræður um AO - bæði í veðra- og heiðhvolfi hafa verið sérlega fyrirferðarmiklar í vetur - enda hefur ástandið verið óvenjulegt. Eins og venjulega þegar þrýstingur er viðloðandi lágur á Íslandi er hringrás heiðhvolfsins öflug - skammdegisröst þess öflug og lítt aflöguð. 

Háloftaathuganir hófust almennt á norðurhveli um 1950. Hinar opinberu mæliraðir AO ná ekki lengra aftur í tímann. Á þessu tímabili hefur hiti í heiðhvolfinu lækkað lítillega - rétt eins og vænta má með auknum gróðurhúsaáhrifum. Á sama tíma virðist AO hafa styrkst og sést hafa myndir sem sýna eiga ákveðna leitni frá 1950 og er þar með gefið í skyn að aukin virkni AO tengist auknum gróðurhúsaáhrifum líka.  Slíkt er auðvitað hugsanlegt - ritstjóri hungurdiska er ekki dómbær um það. En hann hvetur þó til ákveðinnar varúðar gagnvart víðtækum ályktunum - vitandi að þó hinir opinberu vísar nái ekki nema aftur til 1950 eru miklar líkur til þess að ámóta samband hafi verið á milli AO og þrýstings við Ísland fyrir 1950 - rétt eins og síðar. Sé svo hafa ámóta AO-skeið komið áður - að líkum ótengd auknum gróðurhúsaáhrifum. Útilokum þó ekki að samspil sé eitthvað - en kannski flóknara en virðist við fyrstu sýn. [Svo geta menn líka rifjað upp gamlan pistil hungurdiska um þrýsting í febrúar - gömlu pistlarnir eru nú orðnir 2600 talsins - og ritstjórinn mann engan veginn lengur um hvað hann hefur skrifað og hvað ekki - en margt mun óskrifað enn].


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband