Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017
9.11.2017 | 01:41
Landsmeðalhiti neðan frostmarks
Ritstjóri hungurdiska gefur því gaum hvenær meðalhiti í byggðum landsins fer fyrst að hausti undir frostmark. Í ár var það 4. nóvember, venju fremur seint eða 17 dögum síðar en að meðallagi. Þessi árvissi atburður er í raun ákaflega tilviljanakenndur eins og sjá má á myndinni hér að neðan sem sýnir dagsetningar hans aftur til 1949.
Hér verður að játa að þetta er ekki með skýrustu myndum - reynir að sýna allt of mikið í einu. Lárétti ásinn er auðveldastur viðfangs, sýnir ártöl. Sá lóðrétti sýnir dagafjölda frá og með 1. september. Gráu súlurnar sýna dagsetningar. Liggi þær ofarlega á myndinni er fyrsti frostdagurinn seint, en liggi súla ársins neðarlega hefur hann komið snemma.
Fyrsta dagsetningin er 25. september 1954. Ekki man ritstjóri hungurdiska þann dag, en hefur heyrt um hann talað. Neðri rauða línan um þvera mynd sýnir 1. október. Sjá má að í fáein skipti önnur hefur landsfrostsdagurinn fyrsti komið í september. Sé talið saman reynist það í 5 skipti, um 14. hvert ár.
Síðasta dagsetningin er 21. nóvember 2016. Hér er reiknað meðaltal mannaðra stöðva. Sjálfvirku stöðvarnar voru 2 dögum fyrr á ferðinni í fyrra. Rauðu strikin sýna dagsetningar þeirra - eins og sjá má munar oftast ekki miklu - aðalatriðin í línuritunum þau sömu. Nóvembertilvikin eru ekki mörg - tíu alls, gerist að meðaltali um 7. hvert ár, en sum sé bæði nú og í fyrra. Engin ástæða er til að ætla að þessi siður haldist næstu árin.
En fyrsti frostdagurinn er langoftast í október, í 83 prósentum tilvika, meðaltalið er eins og áður sagði 18. október (grá þverlína). Það er ekki oft sem mörg ár koma í röð samfellt á undan eða eftir meðaltalinu, þau eru þó orðin fimm núna á eftir, en voru níu í röð á árunum 1957 til 1965.
Meðaltal kuldaskeiðsins 1965 til 1995 er 14. október, en meðaltal tímans síðan (1996 til 2017) er 21. október. Meðaltal áranna 1949 til 1964 er hins vegar 22. október. Jú, kulda- og hlýskeiða virðist eitthvað gæta í meðaltölum.
6.11.2017 | 23:01
Skyldi vera eitthvað í því?
Venjulega eru þriggjavikna spár evrópureikninmiðstöðvarinnar heldur loðnar og óljósar. Nú bregður svo við að sýnd er nokkuð eindregin spá.
Spáð er miklum hæðarhrygg í háloftum yfir Grænlandi og háþrýstingi hér á landi, meginlægðir langt undan. Kortið sýnir meðalsjávarmálsþrýsting og vik frá meðaltali dagana 20. til 26. nóvember, ekki í þessari viku, ekki í þeirri næstu, heldur í þarnæstu. Það væri sannarlega vel af sér vikið hjá reiknimiðstöðinni ef þessi spá rættist.
En við verðum auðvitað löngu búin að gleyma henni þegar þessi framtíðarvika líður hjá - og kannski bara eins gott. Svo getur ýmis konar veður leynst á bakvið meðaltalið - jafnvel þó spáin rættist í aðalatriðum.
Svo segir reiknimiðstöðin að vikan þar á eftir verði líka með svipuðu lagi. Venjulegt fólk (eins og ritstjóri hungurdiska) þarf ekki mikið á framtíðarspám af þessu tagi að halda - en þær eru mjög gagnlegar fyrir stóraðgerðir af ýmsu tagi - svo og fjárhættuspilara í kauphöllum nútímans, þeirra sem gera út á veðurafleiðuviðskipti (eins og það heitir víst). Alls konar ósómi og afbrigðilegheit geta fylgt miklum fyrirstöðum í vestanvindabeltinu sem gott er að frétta af með fyrirvara (sé það hægt).
6.11.2017 | 02:27
Af illviðrinu
Mikil snerpa var í landsynningsillviðri dagsins, hlutfall stöðva þar sem vindhraði fór í stormstyrk eða meira var 32 prósent. Meðalvindhraði í byggðum landsins var þó ekki sérlega hár, veðrinu mjög misskipt (enda varla búið að ná hámarki víða fyrir norðan og austan þegar þetta er skrifað). Á fáeinum stöðvum varð vindhraði mjög mikill - óvenjumikill - og mældist fárviðri á 13 stöðvum, þar af 3 í byggð (við Hafnarfjall, á Þyrli í Hvalfirði og á Hólmsheiði ofan Reykjavíkur). Vindhviður fóru í meir en 60 m/s þar sem mest var, undir Hafnarfjalli (64,9 m/s, á Miðfitjahól á Skarðsheiði, (63,6 m/s) og á Botnsheiði (61,5 m/s).
Ársvindhraðamet (10-mínútna meðaltal 30,9 m/s) var sett á Skrauthólum á Kjalarnesi, en það kemur nokkuð á óvart hvað hviðuhlutfallið þar var lágt, mesta hviða aðeins 40,5 m/s - en staðurinn alræmdur fyrir mun meiri hviður - en vindáttin var um 120 gráður, mestu hviðurnar gerir þar gjarnan í austlægari áttum. Sjálfvirk stöð hefur verið á Skrauthólum frá 2001.
Mánaðarvindhraðamet voru slegin á allmörgum stöðvum. Nefna má staði þar sem athugað hefur verið frá því fyrir aldamót, Bláfjöll, Reykjanesbraut, Veiðivatnahraun, við Hafnarfjall og á Kleifaheiði. Vindhraði náði ekki stormstyrk á Veðurstofutúni (18,4 m/s) en aftur á móti gerði hann það á flugvellinum (25,0 m/s).
Tveir síðustu dagar hafa verið fremur kaldir á landinu - meðalhiti í byggð rétt undir frostmarki. Það er hins vegar langt í frá óalgengt á þessum árstíma.
5.11.2017 | 01:46
Landsynningsrok
Landsynningur er nafn á suðaustanátt, en ekki aðeins vindátt heldur fylgir hangir slagviðri venjulega á nafninu líka. Að vetrarlagi getur hríð komið í stað slagviðris (alla vega á heiðum). Ritstjóri hungurdiska telur gerðir landsynnings raunar að minnsta kosti tvær - en þeirri hugsýn deila víst fáir aðrir (ef nokkrir) og við látum hana því liggja á milli hluta hér og nú.
En kort ámóta því hér að neðan hefur verið sýnt í veðurfréttum. Það sýnir vindátt (örvar) og vindhraða (litir) klukkan 21 á sunnudagskvöld, 5. nóvember - eins og harmonie-líkanið reiknar.
Á bleiku og rauðu svæðunum er vindhraði (10-mínútna meðaltal) meira en 24 m/s, rok að fornu vindstigatali. Meginbeltið er ekki svo breitt - en norðaustan við það eru renningar (í stórum dráttum) þvert á vindátt þar sem vindhraði nær hæstu hæðum. Kunnugir sjá strax að renningar þessir fylgja fjallgörðum. Þar nær vindur í hæð að slá sér niður í öldudali mikilla flotbylgna sem fjallgarðarnir mynda þegar loftið streymir yfir þá.
Sé kortið stækkað má sjá tölur í litlum, gulum ferningum - þær sýna mestu vindhviður sem líkanið reiknar, þær stærstu í norðurhlíðum Langjökuls, um 58 m/s. Þeir sem vilja píra augun mega reyna að finna Reykjavík - þar stingur mjór, blár fingur sér inn í bleiku breiðuna, og er vindhraði á litlum bletti ekki nema 18 m/s. Líkanið virðist finna eitthvað fyrir borginni. - Og sumir borgarbúar munu væntanlega spyrja (eins og venjulega): Hvað varð um þetta veður sem verið var að spá?
Rétt vestur af Reykjanesi er vindur mun minni - einhver skil á ferð, landsynningurinn er þar genginn niður.
Við lítum líka til lofts (þó sumir fái hálsríg). Myndin að neðan sýnir þversnið sem liggur norður með vesturströndinni (sjá litla kortið efst til hægri). Þversnið af þessu tagi eru ekki auðlesin - en áhugaverð engu að síður.
Lárétti ásinn sýnir breiddarstig eftir línunni - gráu fletirnir neðst á myndinni eru sjór og svo fjöll sem línan sker, Snæfellsnes á miðri mynd og Vestfirðir þar hægra megin. Lóðrétti ásinn sýnir loftþrýsting, 1000 hPa neðst og upp í 250 efst, í um 10 km hæð. Vindörvar sýna vindátt og vindhraða á hefðbundinn hátt, litir vindhraðann og heildregnar línur sýna mættishitann.
Það sem skiptir mestu máli hér er að sjá að vindstrengur landsynningsins er mestur í um 850 hPa hæð - í um 1200 metrum yfir sjávarmáli, - sem t.d. Langjökull nær upp í. Ofan við vindhámarkið er vindur langt í frá hægur, en samt áberandi minni heldur en strengnum. Við köllum vindstreng af þessu tagi gjarnan lágröst - ekki er ritstjóri hungurdiska sérlega ánægður með það orð - en það verður að duga þar til betra sýnir sig.
Heimskautaröstin (háröstin) er síðan sýnileg efst í vinstra horni, í um 300 hPa (um 9 km). Ekki vantar mikið á að háröst og lágröst tengist (kannski gera þær það í öðrum sniðum á öðrum tíma í þessu veðri). Til að tenging náist verður vindátt að vera nær samstíga eftir að komist er upp úr því belti þar sem núningur yfirborðs nær að snúa áttinni.
Skilin (undan Reykjanesi) sjást mjög vel á myndinni. Mikill munur er á vindi sitt hvoru megin þeirra allt upp í 3 til 4 km hæð - en hárastarhámarkið er beint ofan við svæðið rétt aftan skilanna. Þeir sem best sjá mega taka eftir því að jafnmættishitalínurnar eru talsvert gisnari sunnan skilanna (vinstra megin) heldur en norðan þeirra. Loft er óstöðugt (eða nær því að vera það) þar sem jafnmættishitafletir eru gisnir, en stöðugt þar sem þær liggja þétt.
2.11.2017 | 02:18
Af októbervikum
Svo virðist sem evrópureiknimiðstöðinni hafi tekist nokkuð vel til við úrkomuframleiðslu hér á landi í október. Alla vega ber vikum sæmilega saman við raunveruleikann.
Brúnir litir sýna hvar úrkoma hefur verið undir meðallagi áranna 1981 til 2010 - að sögn um meginhluta landsins. Úrkoma í Reykjavík var í raun og veru aðeins um helmingur meðaltalsins - og rétt rúmt meðaltal á Akureyri - eins og sjá má á kortinu.
Í fljótu bragði virðist blái borðinn fyrir suðvestan land vera einkennilegur (og tilvist hans getum við ekki staðfest með mælingum) - en samkvæmt reikningum varð þarna einn mikill úrkomuatburður. Halavísir reiknimiðstöðvarinnar (sem segir til um hversu mikið úrkoma víkur frá meðaltali og meðaldreifingu) fór þá upp fyrir töluna fjóra, jafnvel í fimm, sem er sérlega óvenjulegt. Hvort sem sú úrkoma var raunveruleg eða ekki sýnir tilvikið vel að einn atburður getur komið mánaðarúrkomu langt upp fyrir meðallag - slíku áorkar einn kaldur eða hlýr dagur ekki - það þarf fleiri til.
En við lítum líka á hitavik reiknimiðstöðvarinnar í 850 hPa-fletinum (í um 1400 metra hæð).
Gulu litirnir sýna hita meir en 0,5 stig yfir meðallagi. Hiti hefur verið undir meðallagi við Austurbotna og í Finnlandi - en annars nær alls staðar á kortinu vel yfir meðallagi - og langt ofan þess við Norðaustur-Grænland.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 48
- Sl. sólarhring: 147
- Sl. viku: 1969
- Frá upphafi: 2412633
Annað
- Innlit í dag: 48
- Innlit sl. viku: 1722
- Gestir í dag: 47
- IP-tölur í dag: 46
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010