Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

Ekki alveg nógu gott

Meðalhiti dagsins í dag (föstudags 29. apríl) var undir meðallagi síðustu tíu ára á öllu landinu. Landsmeðalvikið var þó ekki nema -1,3 stig og telst vart til tíðinda. Langkaldast að tiltölu var austanlands, vikið í Neskaupstað var -3,3 stig.

Fortíðin á fjölmarga miklu kaldari daga á þessum tíma árs, kaldastur almanaksbræðra þess 29. (sem við þekkjum) er sá sem heimsótti landið 1975, en þá var landsmeðalhitinn -10,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. - En þetta er svonefnt pollíönnubragð - í raun vildum við auðvitað samt hafa hitann hærri en hann er.

En leiðindin felast samt aðallega í því að svalviðri á að ríkja áfram - og það e.t.v. með einhvers konar skaki. 

Lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um 500 hPa hæð og þykkt síðdegis á sunnudag (1. maí).

w-blogg300416a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykktin sýnd í lit - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra - ofan frostmarks að vísu á láglendi - en ekki mikið meir en það (nema þar sem sólin skín). En ritstjórinn er ekkert sérlega órólegur út af þessum þykktargildum - en finnst staðan samt ekki mjög hagstæð í lengdina. 

Rauða örin bendir á vestankulda sem eltir (og dýpkar) lægð suður af landinu. Lægðinni er síðan spáð norður með Austurlandi og í slaufu úti fyrir norðausturhorninu um það bil á þriðjudag. - Og það er einfaldlega ekki nógu gott. 


Heimshiti - hiti hér á landi

Hér fer langur og torræður pistill - varla fyrir aðra en sjóngóða þrekmenn. 

Einhvern veginn virðast fjölmargir gera því skóna að eigi hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa sér stað á annað borð hljóti hún að vera samfelld - og þá ekki aðeins á heimsvísu heldur einnig svæðisbundið - og að fyrst svo sé ekki hljóti hlýnunarhugmyndir þar af leiðandi að vera vafasamar. 

Í þessum pistli verður ekkert þrasað sérstaklega um þetta - en litið á nokkrar tölur og myndir. Heimshitagagnaröðin sem notuð er er fengin frá bresku hadley-miðstöðinni og nær aftur til ársins 1850 - 166 ár alls. Stykkishólmshitaröðin kemur einnig við sögu - hún hefur verið framlengd aftur til 1798. 

Í heimshitaröðinni eru 74 tilvik (af 165) þannig að ár var kaldara heldur en næsta ár á undan - rúmlega 4 sinnum á áratug hverjum að meðaltali. Síðustu 10 árin gerðist það þrisvar. Í jafnstöðuveðurfari byggjumst við að 5 ár á áratug væru kaldari en árið á undan. - Það hefur einu sinni gerst á heimsvísu að aðeins tvö ár af tíu voru kaldari en árið á undan - það var 1961 til 1970. Kólnun var eindregnust á áratugnum 1947 til 1956, þá voru 7 ár af tíu kaldari en árið á undan. 

Hvað um það - það er greinilega algengt að ár séu kaldari en árið að undan - þrátt fyrir mikla hnattræna hlýnun. Að það kólni frá einu ári til annars segir ekkert um lengri þróun. 

Berum nú saman stærð hitasveiflna á heimsvísu og hér á Íslandi. Til þess notum við fyrst myndina hér að neðan.

w-blogg290416a

Grábláusúlurnar sýna breytileika heimshitans frá ári til árs (stærð hans - án formerkis), en þær rauðu breytileikann í Stykkishólmi. Ef við reiknum stærðarmun talnanna á þessum tveimur ferlum kemur í ljós að meðalbreytileikinn í Stykkishólmi er 7,4 sinnum meiri heldur en heimsbreytileikinn [0.67 stig á móti 0,09 stigum]. - Af þessu má sjá að hitasveiflur frá ári til árs hér á landi ráðast ekki neitt af heimshitanum. - Sé miðað við norðurhvel eingöngu er munurinn ívið minni - eða 5,6 faldur. 

En - förum við í saumana á fylgni árabreytileikans kemur samt nokkuð óvænt í ljós - það sýnir næsta mynd.

w-blogg290416b

Lárétti ásinn sýnir mun á heimshita hvers árs og ársins á undan, en sá lóðrétti það sama fyrir Stykkishólm. Hér er Stykkishólmskvarðinn sexfaldur miðað við heimskvarðann. 

Sé fylgin reiknuð (og myndin rýnd) kemur fram marktæk neikvæð fylgni á milli árlegra heimshitabreytinga og hitabreytingar í Stykkishólmi. Með öðrum orðum að líkur eru til þess að hlýni snögglega milli ára á heimsvísu muni kólna milli ára í Stykkishólmi. 

Séu hitaraðir hadley-miðstöðvarinnar rýndar hver um sig kemur í ljós að það eru fyrst og fremst norðurhvels- og landhlutar hennar sem eru að skila þessu merki - ekki suðurhvel, hitabelti eða heimshöfin. 

Við skulum nú ekki fara að gera neitt úr þessu - en það sýnir alla vega svart á hvítu að hlýtt ár á heimsvísu er ekkert endilega vísun á einhver aukahlýindi hér á landi. Eins og venjulega er auðvelt að finna skýringar á þessu háttalagi - en mjög erfitt að finna rétta skýringu - við látum það liggja milli hluta.

Hins vegar hefur hlýnað bæði á heimsvísu og hér á landi síðustu 150 árin - þannig að fylgni er á milli heimshita og hita í Stykkishólmi. Sú fylgni er hins vegar ekki tilkomin af breytileika frá ári til árs - heldur eingöngu af lengri þróun.

Næsta mynd sýnir heimshita á móti Stykkishólmshita - frá ári til árs.

w-blogg290416c

Heimshitavikin (lóðrétti kvarðinn) eru hér miðuð við tímabilið 1961 til 1990 - og Stykkishólmsvik líka. Fylgnin líka marktæk - .

Úti til vinstri á myndinni er rauður hringur utan um nokkur mjög köld ár hér á landi. Kuldinn þá virðist hafa haft eitthvað með hafísinn að gera - eins konar staðbundinn aukakuldi hafísjaðarsins sem heimshitinn hefur enga hugmynd um. - Við sjáum líka að breidd Stykkishólmsskýsins (á hverju hitabili heimshitans) er að minnsta kosti 3 stig. - Svo vill til að það er einmitt sá breytileiki sem auðvelt er að skýra með því að mismunandi vindáttir ríkja frá ári til árs - og að loft er af mismunandi uppruna.

Hringrásarbreytileikinn er miklu stærri heldur en sá sem fylgir hnattrænu breytingunum. - Heimshlýindin á síðustu árum hafa slitið skýið í sundur - upp á við - á því svæði er breytileiki Stykkishólmshitans ekki nema um 2 stig. Það er í raun allt of lítið miðað við reynsluna - hvort við eigum þá inni kaldari ár eða hlýrri eða hvort tveggja skal ósagt látið - en aðalatriðið er við eigum meiri breidd inni. Eitt „mjög kalt“ ár getur því vel komið - án þess að bresti í heimshlýnun sé um að kenna. - Svo eigum við líka inni aukakulda úr norðri snúi hafísinn aftur - en fráleitt er að útiloka það algjörlega - þrátt fyrir rýrð í íshafinu. - Myndin gefur til kynna að hafís bæti við 1 til 2 stigum í átt til meiri kulda. 

Síðasta myndin sýnir heimshitann og Stykkishólmshita sem tímaraðir - auk 10-ára keðjumeðaltala.

w-blogg290416d

Samfelldu ferlarnir sýna 10-ára keðjurnar. Hér kemur í ljós að áratugabreytileiki í Stykkishólmi þarf ekki nema þrefaldan kvarða á við áratugabreytileika heimshitans - þurfti sexfaldan til að koma breytileika frá ári til árs heim og saman. - Þessi þrjú stig sem munar eru e.t.v. hringrásarbreytileikinn - áratugabreytingarnar þurfum við að skýra með einhverju öðru en legu og uppruna háloftavinda. 

Heildarleitnina er sjálfsagt að skýra með auknum gróðurhúsaáhrifum - en áratugabreytileikinn er enn óskýrður að fullu. - Það er hins vegar tilgangslaust að reikna leitni og nota til framtíðarspádóma. - Við lendum fljótt í alls konar dellumakeríi ef ekki er varlega farið. 

Sem dæmi má nefna að sé leitni beggja hitaraða reiknuð frá 1850 fáum við út 0,5 stig á öld fyrir heimshitann, en 1,0 stig á öld fyrir Stykkishólm. Stykkishólmsleitnin er tvöföld á við heimshitaleitnina - Sé tímabilinu frá 1798 bætt við Stykkishólm lækkar aldarleitnin þar hins vegar niður í 0,8 stig - það var tiltölulega hlýtt um skeið framan af 19. öld. Hverning var heimshitinn á sama tíma?

Það er varla eðlilegt að byrja leitnireikninga í lágmarki. Ef við byrjum hins vegar 1920 dettur aldarleitnin í Stykkishólmi niður í 0,4 stig, en heimsleitnin magnast í 0,8 stig - verður tvöföld á við hitaleitni hér á landi. - Nú, og sé miðað við tímann eftir 1965 fer Stykkishólmsleitnin upp fyrir 3 stig á öld - heldur það áfram?

Tímaleitnireikningar geta skýrt gögn á ýmsa vegu - og eru ekki gagnslausir - en við skulum varast að nota þá sem hjálpartæki við framtíðarspár - framtíðin á sig sjálf. Eins og ritstjóri hungurdiska hefur einnig oft tekið fram áður telur hann sveiflugreiningar sama eðlis - gagnlegar til greiningar - jú, en annars gagnslausar - nema - og það er mikilvægt „nema“ - einhver aflræn skýring sé að baki sveiflanna. Hann trúir þannig í blindni á bæði dægursveiflur og árstíðasveiflur - fellur fram og tilbiður þær. 


Snarpur kuldapollur - en bæði lítill og hraðfara

Útlit er fyrir kuldakast í vikunni - það er þó ekki sérlega fyrirferðarmikið miðað við t.d. það sem heimsótti okkur sömu daga í fyrra. En við skulum samt líta á tvö spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar.

Það fyrra gildir síðdegis á þriðjudag.

w-blogg250416aa

Heildregnu línurnar sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mikill þykktarbratti er yfir landinu. Mjög hlýtt er vestan við land, það er 5380 metra jafnþykktarlínan sem snertir Reykjanes, en 5240 metra línan er við Austfirði - hér munar 140 metrum - eða um 7 stigum. 

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum, sem er hér í ríflega 1500 metra hæð yfir landinu. Við vesturströndina er hitinn um frostmark, en töluna -13 stig má sjá við Norðausturland, munar 13 stigum. Af þessu sjáum við að kalda loftið er fyrirferðarmeira í neðstu lögum heldur en ofar - fleygast undir það hlýja.

Meginkuldapollurinn sjálfur er svo alveg við norðurjaðar kortsins, - þar má sjá að þykktin er um 5040 metrar - loftið um 10 stigum kaldara heldur en við Austurland.

Þetta er ekki stór pollur - en hreyfist hratt til suðurs og verður yfir Íslandi austanverðu aðeins sólarhring síðar - síðdegis á miðvikudag. Þetta er heldur fyrr en spáð var fyrir nokkrum dögum - og tekur líka fyrr af.

Kortið að neðan gildir síðdegis á miðvikudag, 27. apríl.

w-blogg250416a

Hér má sjá töluna -17 í 850 hPa í uppstreyminu áveðurs á Austurlandi - og þykktin er komin niður í um 5070 metra þar sem lægst er. Meðalhiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur því fallið um 8 stig eða svo á Austurlandi frá því sem spáð er á þriðjudag, en við Reykjanes hefur þykktin fallið um 120 metra - sem samsvarar um 6 stiga kólnun. 

En það er ekki mikil fyrirferð í mesta kuldanum - og daginn eftir (á fimmtudag) á þykktin yfir landinu að vera komin aftur upp í um 5300 metra - ekki sérlega hlýtt - en nærri meðallagi árstímans. 

Svona til að ná einhverjum samanburði lítum við loks á samsvarandi kort frá 25. apríl í fyrra. Þá gekk skelfilegt og langvinnt kuldakast yfir landið - ekki þarf að horfa lengi til að sjá að væntanlegt kuldakast er í allt öðrum flokki - þó nógu leiðinlegt sé.

w-blogg250416b

Þetta er kort frá í fyrra - athugið það. 


Vorið komið í háloftunum

Síðari hluta aprílmánaðar dregur venjulega mjög úr afli vestanvinda í háloftunum á norðurhveli. Staðbundnar rastir geta að vísu látið illum látum - en þegar á heildina er litið er veturinn búinn. 

Þetta sést glögglega á kortinu hér að neðan. Það sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á sunnudaginn kemur, 24. apríl - í reiknigerð evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg230416a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Vindstefnuna má einnig ráða af legu þeirra. Mikil hæð er fyrir suðvestan Ísland og þrengir nokkuð að kaldasta polli norðurhvels - en hann er við Norður-Grænland. Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. 

Hringrásin hefur öll brotnað upp í fjölmarga litla kuldapolla sem munu nú fram á sumar reika um eins og fé án hirðis - smám saman hlýnandi - oft lífsseigir en mjög leiðinlegir viðfangs þar sem þeir koma við - berandi í sér leifar vetrarkuldans.

Það er sjaldan sem við sleppum alveg við vorheimsóknir þessarar hjarðar - og varla hægt að ætlast til þess nú.  


Háþrýstingur enn á ný

Hæðarhryggurinn sem gaf eftir um stund er nú að rísa upp á ný og ræður veðri hér í nokkra daga. Kortið sýnir stöðuna - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar - um hádegi á laugardag, 23.apríl. 

w-blogg220416a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, talsverður norðvestanstrengur er yfir landinu og norðan við það - í góðri hæðarsveigju. Mjög hlýtt er í hæðinni - litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Guli liturinn er sumarhiti - undir liggur þó töluvert svalara vorloft - en frostmark verður í meir en 2500 metra hæð yfir vestanverðu landinu. 

Eins og margoft hefur komið fram á hungurdiskum áður er staða sem þessi þó frekar óþægileg - sitji hlýtt loft í norðlægri stöðu - þýðir það líka að kalt loft færist í suðlæga og við getum alveg orðið fyrir því síðar. 

En sé að marka reiknimiðstöðvar eru útrásir kalda loftsins ekki sérlega ógnandi á okkar slóðum - en við sleppum samt varla alveg. Kortið hér að neðan sýnir spána fyrir fimmtudag í næstu viku - lítið að marka hana en ágæt til fróðleiks og dæmi um möguleika í stöðunni.

w-blogg220416b

Hér er hæðarhryggurinn enn lifandi - en kuldapollur hefur brotist til suðurs á austurvæng hans - en er lítill um sig og fer hratt hjá. Telst varla til alvarlegra hreta - þótt býsna kalt sé á litlu svæði í pollinum miðjum. 

Það er hollt til samanburðar að líta á stöðuna á sama tíma í fyrra - þá gerði alvöruhret og við sjáum strax hversu miklu alvarlegra það var - kuldinn miklu meiri um sig. Við skulum vona að ekkert svona sé í pípunum í vor - en auðvitað getur enginn verið viss um að svo sé ekki. 

w-blogg220416c

Þetta kort er sum sé frá því í fyrra. 


Af hita íslenska vetrarins 2015 til 2016

Gamla íslenska tímatalið skiptir árinu í tvennt, sumar og vetur. Nú er veturinn 2015 til 2016 liðinn og til skemmtunar lítum við á meðalhita í samanburði við bræður hans - allt aftur til 1950. 

Fyrri myndin sýnir meðalhita í Reykjavík alla vetur þessa tímabils. 

w-blogg210416a

Við sjáum að útkoman er frekar hlý - sé miðað við tímabilið allt og hefði talist óvenjuhlý á tímabilinu 1965 til 2002. Hlýindin miklu sem hófust hér á landi nærri aldamótum standa greinilega enn. Það er raunar ekki nema einn vetur síðari ára (2002 til 2003) sem var miklu hlýrri en sá nýliðni. Veturinn í fyrra var svipaður og nú - og sömuleiðis 2011, 2008 og 2007. 

Meðalhiti vetrarins í Reykjavík var +1,3 stig (sama og 2008), en -0,7 á Akureyri (kaldastur frá 1999 - þá var töluvert kaldara þar en nú). 

Næsta mynd sýnir samanburð einstakra vetrarmánaða - annars vegar miðað við tímabilið 1961 til 1990 - en hins vegar 2006 til 2015. 

w-blogg210416b

Ýlir og þorri voru nú kaldari en bæði meðaltölin, góa og einmánuður hlýrri en þau bæði, en mörsugur var kaldari en að jafnaði síðasta áratug en aftur á móti hlýrri en tíðkaðist á kalda tímabilinu. 


Með öflugra móti

Hæðarhryggur fyrir vestan land færist nú í aukana og verður óvenjuöflugur í nokkra daga. Evrópureiknimiðstöðin segir að á mánudagskvöld (11. apríl) verði staðan sú sem myndin sýnir.

w-blogg090416a

Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins, en litir þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin milli grænu og gulu litanna er við 5460 metra - meiri þykkt en það telst sumarhiti. - En uppheimahiti sem þessi nýtist illa við jörð - hér fyrst og fremst vegna vindáttarinnar (að norðan) sem og þess að yfirborð landsins er enn kalt - snjór víða að bráðna til heiða og fjalla - auk þess sem sjávarhiti er auðvitað nærri vetrarstöðu líka. En aldrei samt að vita nema að einhvers staðar á landinu verði hlýtt. 

Svona staða er oft harla óþægileg - þegar mikil hlýindi skjóta sér langt norður fyrir venjulega stöðu eru kuldar oft á ferð sunnar en vant er - þeir eru það svosem í þessu tilviki eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

Litirnir sýna þykktarvik næstu tíu daga í reikningum evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg090416b

Hlýindin yfir Grænlandi (í hæðarhryggnum) sýna hita um 190 metra yfir meðallagi (9,5 stig) - en vestur af Bretlandi er óvenjukalt - hiti rúmlega -100 metra undir meðallaginu (-5,0 stig) - það er mikið í 10 daga yfir varmagefandi hafi. 

En okkur finnst þetta svosem í lagi - miðað við vindátt - hér er hita spáð nærri meðallagi í mannheimum - ríflega vestan- og suðvestanlands - en tæplega í meðallagi eystra. - En ritstjóra hungurdiska er þó sjaldnast rótt undir mjög stórum háþrýstisvæðum að vorlagi - sama þótt reiknimiðstöðvar syngi þýðum rómi. - Hófsamir söngvar eru hollari. 


Marshlýindi í veðrahvolfinu

Eins og fram hefur komið í marsyfirliti Veðurstofunnar var hiti hér á landi í mars yfirleitt 1,5 til 3,2 stig ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Víða var talsverður eða mikill snjór fram eftir mánuðinum og mikil orka fer í að bræða hann. Almenn hlýindi í veðrahvolfinu skila sér því ekki á vanga alveg eins og best verður á kosið.

w-blogg030416a

Heildregnu línurnar á kortinu sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í mars. Dálitill hæðarhryggur er við Ísland og hagstæð hæðarsveigja á jafnhæðarlínunum við landið. Strikalínur sýna meðalþykkt - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litirnir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. 

Vikin eru mest við Norðaustur-Grænland, nærri því 100 metrar. Það samsvarar um það bil 5 stiga hitaviki. Mest er þykktarvikið við landið við Vestfirði - um 70 metrar, það samsvarar um 3,5 stigum. Vik hita í Bolungarvík frá meðallagi áranna 1981 til 2010 var um 2,7 stig. - Um 0,8 stig vantar upp á að þykktarvikin skili sér að fullu til jarðar - það gera þau reyndar nærri því aldrei. - Þumalfingursregla segir okkur að líklegri ágiskun á vik við sjávarmál fáist með því að margfalda þykktarvikið (í metrum) með 0,04 í stað 0,05.

En lítum þá á spá um þykktarvik næstu tíu daga (2. til 12. apríl) - evrópureiknimiðstöðin reiknar.

w-blogg030416c

Hér má sjá að hlýindin færast heldur til vesturs - kuldapollur er norðvestur af Bretlandseyjum - og kuldi yfir Hudsonflóa sprengir litakvarða kortsins. Hita er spáð nærri meðallagi aprílmánaðar hér á landi. Undanfarna daga hefur mikil hryggjarmyndun yfir Grænlandi (eftir viku) legið í loftinu (í spám) - með þá töluverðum breytingum á veðurlagi. En reynslan segir okkur að trúa lítt framtíðarspám um öfgar - og rétt að bíða með að þusa um þær - líkur mestar á að ekkert sérlega markvert verði úr.

Að lokum lítum við á sjávarhitavik marsmánaðar.

w-blogg030416b

Enn er kalt fyrir sunnan land - en fremur hlýtt norðurundan. Þetta mynstur hefur í öllum aðalatriðum verið ríkjandi í rétt rúm tvö ár. - Ekki gætti þess þó á þykktarvikakortinu hér að ofan - sjávarhiti í fjarlægum sveitum hefur ekki alltaf áhrif. - En þessa vikamynsturs gætir trúlega samt í þrýstifari og legu háloftavinda, nú og næstu mánuði - það er erfitt að losna við það. 


Vetrarhitinn 2015 til 2016

Ritstjóri hungurdiska reynir sem fyrr að reikna landsmeðalhita (í byggð) og bera saman við fyrri tíð. Hér má sjá vetrarhita (desember til mars) á landinu aftur til 1824. Fyrstu áratugir reikninganna eru reyndar harla óvissir - en svo má endurtaka að trúanlegt verði (segir reynslan). 

w-blogg020416

Nýliðin vetur fékk töluna -0,4 stig, 0,1 stigi hlýrri en veturinn í fyrra, -0,7 stigum kaldari en meðalvetur síðustu tíu ára - enda eru þeir mjög hlýir í langtímasamhengi. 

Eins og oft er á myndum sem sýna aðskiljanleg hitameðaltöl á Íslandi er tímabilaskipting mjög áberandi. Einskonar hlýskeið var í gangi fyrir miðja 19. öld, síðan tekur við mjög langt kuldaskeið, það var verst í upphafi og svo aftur á 9. áratug 19. aldar. Langkaldastur var veturinn 1880 til 1881 - við höfum slitið kvarðann til að koma honum fyrir. 

Vetur hlýnuðu snögglega eftir 1920 - (veturinn hlýnaði á undan öðrum árstíðum) og stóðu hlýindin til og með 1964 - hluti vetrar 1965 var reyndar mjög hlýr líka. Ritstjóri hungurdiska man þessi umskipti vel - líka þá von um hlýrri tíð sem kom með vetrunum 1972 og 1973 - og þau stöðugu vonbrigði sem fylgdu síðan því sem virtist ætla að verða endalaust kuldaskeið. Það tók þó enda um síðir - eftir myndinni að dæma virðist það hafa gerst snögglega með vetrinum 2003. Ekki er annað að sjá en að það hlýindaskeið standi enn. 

Enga reglu virðist mega greina í lengd þessara tímabila - þau bara koma og fara eins og þeim sýnist - að leggja einhverjar reglubundnar sveiflur ofan í er tilgangslaust - nema eiga haldbærar skýringar á lager. Núverandi hlýskeið heldur þó enn sínu aðaleinkenni að ekki hefur sést einn einasti kaldur vetur síðan það byrjaði (í 14 ár) - tuttugustualdarhlýskeiðið mikla var langt í frá flekklaust hvað þetta varðar - og nítjándualdarhlýskeiðið með enn meiri hikstum.

En það hlýtur að koma að því - við hljótum að eiga eftir að sjá raunverulega kaldan vetur - þrátt fyrir hlýnandi heim - nema að hlýnunin sú sé enn ískyggilegri en talið hefur verið. 


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband