22.8.2025 | 00:36
Hæsti hiti ársins - upprifjun
Hér á hungurdiskum hefur nokkrum sinnum áður verið fjallað um hæsta hita ársins á Íslandi - þetta er því eins konar endurtekning - en myndirnar eru þó nýgerðar - og gagnaröðin nær allt til ársins í ár (2025). Á dögunum mældist hæsti hiti á landinu í 79 ár, 29,8 stig. Svo sannarlega óvenjuleg tala. Í öðrum pistli hungurdiska - frá árinu 2018 - var fjallað um öll þau tilvik þar sem hiti hefur mælst 30 stig eða meira - flest eru þau vafasöm eða klárlega röng. Við höldum þó (fyrir siðsemi sakir) í þrjár mælingar (þar af tvær sama daginn) og segjumst trúa því að hiti hafi náð 30 stigum.
Hér er hins vegar spurt um hæsta hita ársins - svona yfirleitt. Við lítum á síðustu 100 ár, árin 1926 til 2025 og teljum hversu oft þessi hámarkshiti lendir á hverri hitatölu. Við veljum hér bilin 20,0 til 20,9 og svo framvegis, en hefðum alveg eins getað valið 20,5 til 21,4 og þá endað á 30,5 til 31,0. Þá hefðu súlurnar á myndinni hér að neðan aðeins hliðrast til.
En við horfum á þessa. Síðustu 100 árin hefur hiti á hverju einasta ári náð 20 stigum einhvers staðar á landinu. Litlu munaði þó árin 1961 og 1979. Hæstur varð hitinn 1939, 30,5 stig - á Teigarhorni (eins og flestir lesendur vita), sama dag mældist hiti 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri - gefur okkur kannski afsökun fyrir því að trúa mælingunum. Árið 1946 er getið um 30,0 stig á Hallormsstað - ekki alveg trúlegt - en við getum samt ekki þurrkað þá tölu út án umhugsunar (meir um það mál í áðurnefndum pistli).
Ef við framkvæmum talninguna með 0,1 stigs nákvæmni kemur í ljós að miðgildið er 26,0 stig. Í fimmtíu árum hefur hæsti hiti ársins verið lægri en 26,0 stig, og í fimmtíu árum meiri en 26,0 stig. Af einstökum bilum (eins og við skilgreindum þau) er algengast að hæsta hámark ársins sé 26 komma eitthvað stig, 22 sinnum á 100 árum. Frá 21 stigi upp í 26 er fjölgunin nokkuð jöfn frá stigi til stigs, en tíðnin fellur öllu hraðar, strax og komið er upp í 27. Segja má að það sé eftirtektarvert nái hæsti hiti ársins 28 stigum eða meira.
Þá er komið að því að spyrja hvort við sjáum einhverja greinilega breytingu - fjölgar mjög háum árshámörkum eða ekki?
Einfalda svarið er nei. Myndin sýnir hæsta hámark hvers árs síðustu 100 árin. Við getum reiknað leitni og fengið út að hún sé um 0,8 stig á þessum 100 árum - sem ekki er marktækt miðað við dreifina. Þeir sem vilja halda fram leitni geta þó bent á að á tímabilinu 1950 til 1973 hafi verið skortur á háum tölum - en fjöldi lágra. Tímabil þetta nær út yfir hafísárin svonefndu, byrjar um 15 árum áður - meðan ársmeðalhiti var enn í sæmilegu lagi. Við höfum hins vegar áður bent á að hlýindaskeiðið fyrra stóð styttra að sumarlagi heldur en á öðrum árstímum - hvað sem veldur - það er alveg raunverulegt. Ef við byrjum að reikna inni í þessu svalara skeiði (hvort sem við byrjum 1950 eða 1970 skiptir litlu) - virtist leitni hámarkshitans vera meiri, meira að segja töluvert meiri.
Það má einnig segja að á áratugnum 1950 til 1960 var einmitt verið að skipta um hitamælaskýli hér á landi, veggskýli lögð af, en fríttstandandi tekin upp. Kannski hefðu hin háu hámörk tímabilsins 1926 til 1950 ekki mælst í fríttstandandi skýlunum? Á hinn bóginn geta aðrir bent á að hin háu gildi síðustu 25 ára séu aðallega mælihólkum sjálfvirku stöðvanna að þakka - svona háar tölur hefðu ekki sést í gömlu skýlunum. Eitthvað gæti verið til í því varðandi hámörkin sjálf. Rétt að ítreka að samanburðarmælingar sýndu nær engan mun á meðalhita skýla og hólka. Við vitum hins vegar að samanburðarmælingar (þótt þær séu ekki margar) sýndu oftast að veggskýlin voru of hlý yfir hádaginn - miðað við fríttstandandi skýlin. Einfalt var að laga það - með því að nota síðari tíma aðferðir til reikninga meðaltala. Þéttara veðurathuganakerfi gæti einnig skipt máli.
En niðurstaðan er alla vega sú að við getum ekki dregið neinar ályktanir um hlýnandi veðurfar (né kólnandi) með því að líta á árshámarkshitann eingöngu - til þess er hann of tilviljanakenndur - aðeins ein tala á ári.
Eins og sjá má á myndunum hér að ofan hefur það gerst í 13 árum síðastliðna öld að árshámarkshiti á landinu hafi náð 28 stigum. Það var 1926, 1937, 1939, 1946, 1949, 1974, 1988, 1991, 2004, 2008, 2012, 2021 og 2025. Þegar farið er í saumana á þessum tilvikum kemur í ljós að stundum voru 28 stigin ein á ferð, en stundum mældist svo mikill hiti á fleiri stöðvum, jafnvel mörgum.
Í hitabylgjunni miklu 21. og 22. júní 1939 þegar íslandsmetið var sett fréttist af 28 stigum eða meira á fjórum stöðvum - og mánuði síðar á einum. Það síðara tilvik (Lambavatn er raunar talið vafasamt). Hefði stöðvanetið verið þéttara hefðu stöðvarnar ábyggilega verið talsvert fleiri sem skiluðum 28 stigum. Einnig fréttist af 28 stigum á einni stöð einn dag síðar sama sumar.
Í flestum þessum tilvikum náði hiti 28 stigum aðeins einn dag - og oft aðeins á einni stöð. Þannig var það 1926, 1937, 1946, 1949, 1974, 1988 og 2012. Árið 1939 voru tveir dagar með í spilinu og 1991 komu 6 stöðvar við sögu og 5 dagar - grunur er um tvöföld hámörk í tveimur tilvikum - dagarnir væru þá þrír. En þetta var í langtímasamhengi mjög óvenjuleg hitabylgja. Það var hitabylgjan mikla í ágúst 2004 líka. Þá fór hiti í 28 stig á tíu sjálfvirkum stöðvum, sjö mönnuðum - og fjórum vegagerðarstöðvum að auki - og þrír dagar komu við sögu (10., 11. og 13. ágúst - einnig var mjög hlýtt þann 12. þótt ekki næðust 28 stig þann dag). Þetta átti sér líka stað bæði um landið sunnanvert og norðaustan- og austanlands.
Mjög mikla hitabylgju gerði einnig í júlílok 2008. Þá fór hiti í 28 stig á sjö sjálfvirkum stöðvum um landið sunnanvert. Í ágúst 2021 fór hiti í 28 stig á fjórum stöðvum - tveir dagar komu þá við sögu. Í sumar (2025) gerðist hins vegar hið óvenjulega, að hiti náði 28 stigum tvisvar - alveg aðskilið, annars vegar þann 14.júlí þegar hiti fór svo hátt á sjö stöðvum - (og þremur vegagerðarstöðvum að auki) og hafði náð 28 stigum á einni stöð daginn áður. Síðan var það 16. ágúst að hiti komst aftur í 28 stig - nú á þremur stöðvum sama dag.
Á síðastliðnum 100 árum eru þrjár stórar hitabylgjur til viðbótar þar sem ekki er ósennilegt að hiti hefði e.t.v. náð 28 stigum hefði veðurathugunarnetið verið jafnþétt og nú. Þetta eru júlíhitabylgjurnar 1944, 1976 og 1980. Eins er næsta öruggt að þétt kerfi hefði náð einhverjum stökum 28 stigum í viðbót.
Við vitum eitthvað um hámarkshita á landinu lengra aftur í tímann - en þá voru hámarksmælar sorglega fáir á landinu.
Af eldri hitabylgjum sem hefðu e.t.v. gert það gott má nefna júlíbylgjuna 1911 þegar hiti mældist 29,9 stig á Akureyri og hiti náði 28 stigum á fjórum stöðvum öðrum - án hámarkshitamæla. Einnig má nefna ágústhitabylgjuna 1876 og júlíhitabylgjuna miklu 1842. Gallinn sá að mæliaðstæður voru illa staðlaðar. Nokkra væna daga upp úr 1890 má einnig nefna - en líklega hefði aðeins verið þar um stakar tölur að ræða. Um þessar hitabylgjur allar má lesa í eldri pistlum hungurdiska. Sjálfsagt er einnig fyrir áhugasama lesendur að rifja upp pistil frá því í fyrra um hitabylgjuhlutfall - og langtímabreytingar þess.
Það þarf nokkuð góðan vilja til að sjá að hitabylgjum hafi fjölgað á síðari árum. Þó ritstjóri hungurdiska sjái þá fjölgun illa eða ekki er ekki þar með sagt að hún hafi hvorki orðið né sé hún í pípunum. Það verður bara að koma í ljós.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 24.8.2025 kl. 16:14 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.9.): 32
- Sl. sólarhring: 239
- Sl. viku: 1507
- Frá upphafi: 2498027
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 1361
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.