8.5.2025 | 14:34
Hlaupið yfir árið 2003
Tíðarfar var mjög hagstætt og árið meðal hlýjustu ára sem komið hafa hér á landi frá upphafi mælinga. Ársmeðalhiti í byggðum landsins hefur aðeins einu sinn orðið hærri, 2014, en munurinn er ómarktækur. Þetta er hlýjasta ár mæliraðarinnar í Reykjavík og á fjölmörgum stöðvum um landið suðvestanvert. Þetta er næsthlýjasta árið í Stykkishólmi og það þriðjahlýjasta á Akureyri og í Vestmannaeyjum.
Þegar hér var komið sögu hafði ritstjóri hungurdiska unnið opinberlega við veður og veðurspár í 25 ár. Allan þennan tíma var það fastur liður hjá öllum reykvíkingum að kvarta undan sumarveðrinu. Ritstjórinn vissi því varla hvernig hann átti að bregðast við að þessu sinni, kveinstafirnir heyrðust ekki - og flestir lofuðu og prísuðu veðrið í Reykjavík. Nálgaðist hinar óvæntu fregnir af falli Berlínarmúrsins á sínum tíma.
Janúar var hlýr og í þurrara lagi. Mikil hlýindi voru fram yfir miðjan mánuð en kuldakast með miklu frosti um allt land gerði dagana 18. til 23. Í febrúar voru hlýindi um allt land, úrkoma talsvert umfram meðallag og nokkuð vindasamt var um tíma. Mars var mjög hlýr, en nokkuð úrkomusamt var um sunnanvert landið. Í apríl voru mikil hlýindi um allt land og þurrviðrasamt var á norðan- og austanverðu landinu. Fyrstu sex dagar maímánaðar voru mjög kaldir, en upp frá því var hiti oftar ofan meðallags en neðan þess. Júní var mjög hlýr um allt land en víða mjög vætusamt á sunnan- og austanverðu landinu. Júlímánuður var mjög hlýr og hagstæður um land allt. Í ágúst voru óvenjuleg hlýindi um land allt. Sums staðar hlýjasti ágúst sem vitað er um. Mjög góð tíð var um land allt fyrri hluta september og var hiti þá langt ofan meðallags. Síðan kólnaði verulega og kalsaveður var um tíma. Í október var þurrviðrasamt og hitafar mjög kaflaskipt. Tveir góðir hlýindakaflar voru um miðjan mánuðinn og dagana 23.-25. Í nóvember var tíð talin hagstæð um mikinn hluta landsins. Fremur kalt var fyrstu dagana og var þá nokkur snjór sums staðar um landi norðanvert, en önnur vika mánaðarins var hins vegar óvenju hlý. Í desember var tíð hagstæð lengst af, þó oft væri hálka á vegum og umhleypingar ríkjandi.
Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins, oftast með beinum tilvitnunum í texta frétta- og dagblaða sem leitað er til með hjálp timarit.is. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu. Sömuleiðis eru textar alloft styttir. Auðvelt ætti að vera að finna frumgerð þeirra. Að þessu sinni (eins og oftast hin síðari ár) er mestra fanga að leita hjá Morgunblaðinu, ritstjóri hungurdiska er að vanda þakklátur blaðamönnum fyrir þeirra hlut.
Tíð var góð í janúar, frosthart fáeina daga í kringum þann 20., en annars hlýtt og fremur þurrt veður. Sérlega snjólétt.
Þann 8. janúar segir Morgunblaðið frá atburði í Vík í Mýrdal:
Fagradal. Morgunblaðið. Töluvert hrun hefur orðið úr Víkurhömrum rétt vestan við Víkurklett í Mýrdal. Hrunið hefur komið alveg ofan frá brún rétt vestan við Heljarkinnarhaus úr svokölluðum Hillum. Hrunið úr Víkurhömrum hefur valdið töluverðum skemmdum á gróðri og nokkrir steinar hafa fallið á golfvallarbraut sem sáð var í síðastliðið sumar og myndað í henni nokkrar aukaholur. Líklegt er að mikil úrkoma að undanförnu valdi hruninu.
Morgunblaðið ræðir óvenju góða tíð í pistli 13.janúar:
Veðurstofan spáir frosti víða um land í vikunni. Erfitt er að spá því hvort framhald verður á þessu, en undanfarna mánuði hefur verið viðvarandi hlýindaskeið hér á landi. Þetta hefur valdið mörgum heilabrotum enda má heita að hægt sé að tala um vetrarlausan vetur það sem er þessum vetri og muna elstu menn vart annað eins. Vilhjálmur Hólmgeirsson veðurathugunarmaður á Raufarhöfn hefur verið viðloðandi veðurathuganir á Raufarhöfn frá árinu 1952. Þetta er alveg einstakt, segir Vilhjálmur um hlýindin í vetur. Hann segist muna eftir því sem drengur að jörð var auð í Langanesi í janúar þar sem hann ólst upp á fjórða áratug síðustu aldar og að hlýindin hafi varað langt fram eftir mánuðinum. Ég þykist muna þetta enda var það alveg sérstakt, segir hann og man ekki eftir viðlíka vetrarlausum vetri þar til nú. Í bænum er lítil tjörn sem hægt er að skauta á þegar frystir. Vilhjálmur segir tjörnina hafa lagt í fyrsta sinn í vetur s.l. fimmtudag. Ég hugsa að þetta sé eini veturinn sem tjörnina hefur ekki lagt eitthvað um haustið. Á föstudag sýndi mælirinn hjá Vilhjálmi 5 gráða hita klukkan 18. Hann segir að í seinni ár hafi það hins vegar sýnt sig að veturnir væru að verða mildari.
Óskar J. Sigurðsson, veðurathugunarmaður á Stórhöfða, segir hlýindakaflann í vetur hafa verið óvenju stöðugan og staðið lengi. Hann man í svipinn eftir óvenju mildum vetri árið 1964 þegar jörð var auð allan veturinn og ekkert hret var um vorið. Veturnir á eftir, 196570, voru á hinn bóginn kuldavetur, að hans sögn ... Vilborg Sigurðardóttir sá um veðurathuganir í Grímsey frá 1950-2000. Hún segist aldrei muna eftir annarri eins veðurblíðu á þessum tíma árs og ekki muna eftir öðrum mildum vetri sem komist í námunda við þann sem nú er. ... Hún segir að það hafi varla komið hret í vetur í Grímsey að frátöldum einum eða tveimur dögum í nóvember. Það eru að verða miklu minni kaflaskil í veðrinu heldur en voru, það eru að koma minni og mildari vetur, sagði Vilborg.
Eins og áður sagði kólnaði um stund. Morgunblaðið segir frá 18.janúar:
Veturinn brast á með fullum þunga á Austfjörðum í gær og olli truflunum í samgöngum og skólahaldi. Tvö snjóflóð og nokkrar spýjur féllu í Vattarnesskriðum, milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en engan sakaði. Einnig féllu spýjur niður á veginn um Fagradal.
Þann 31. janúar sló eldingu niður í hús í Vogum á Vatnsleysuströnd. Morgunblaðið 1.febrúar:
Fyrst heyrðum við hljóð sem við héldum að væri flugvéladrunur. Síðan kom svakalegur hvellur og blossi sem lýsti upp húsið, segir Elvar Árni Herjólfsson sem var að vinna með félaga sínum í skemmu við vélsmiðjuna Norma hf á iðnaðarsvæðinu við Voga á Vatnsleysuströnd í gærmorgun þegar eldingu laust niður í húsið. Eldingin gerði gat á þakglugga fyrir ofan þá. Elvar Árni og Davíð Hreinsson, 18 ára starfsmenn hjá Norma, voru inni í skemmu sem verið er að byggja við vélsmiðjuhúsið um klukkan níu í gærmorgun þegar eldingunni laust niður. Þeir voru uppi í körfu sem lyft var í um hálfs annars metra hæð, með borvél að vinna við klæðningu. Elvar Árni lýsir því svo að þeir hafi heyrt hljóð sem þeir héldu að væru flugvéladrunur þegar eldingunni laust niður í húsið með tilheyrandi hávaða og blossa. Húsið lýstist upp með bláum blossa. Okkur dauðbrá, fengum hálfgert áfall, segir Elvar. Þegar þeir fóru síðan að líta á aðstæður sáu þeir stórt gat á báruplastglugga á þakinu, beint fyrir ofan þann stað sem þeir voru að vinna. Rafmagnið sló út og þegar búið var að koma því á aftur reyndist borvélin ónýt. Telur Elvar hugsanlegt að hún hafi leitt eldinguna en borvélin er með tvöföldu öryggi. Símakerfið hjá Norma varð óvirkt um sama leyti og segir Þórhallur Ívarsson tæknifræðingur hjá Norma ekki útilokað að það hafi verið af völdum eldingarinnar og símkerfið í Vogum og Reykjanesbæ var raunar í lamasessi fram eftir degi.
Fyrstu dagar febrúar voru kaldir, en síðan var hlýtt og úrkomusamt. Talsvert var um illviðri um tíma og kvað mest af veðrum þann 10. og 17.
Morgunblaðið segir af hríð 3.febrúar:
Stórhríð var norðanlands í gær [2. ]og léleg færð á vegum víða vegna hálku og skafrennings. ... Ekkert ferðaveður var á Víkurskarði vegna hríðar og þá voru Brattabrekka og Breiðdalsheiði ófærar og björgunarsveitarmenn aðstoðuðu fólk á ferð um Holtavörðuheiði. ... Rúta með 20 unglingum fór út af Suðurlandsvegi við Ingólfsfjall í gærkvöldi en þar var bálhvasst. Engan sakaði og valt rútan ekki þótt það stæði tæpt. Vel gekk að bjarga farþegum í aðra bíla og hugað verður að rútunni þegar lægir.
Þann 5. gerði nokkuð snarpt landsynningsveður vegna djúprar lægðar á Grænlandshafi. Morgunblaðið segir af tjóni 6.febrúar:
Vonskuveður gekk yfir landið allt í gær [5.] og fór vindhraði víða upp í 20 metra á sekúndu. Lítið tjón varð þó af völdum veðurhamsins. Samkvæmt Veðurstofu Íslands fór vindurinn upp í 54 metra á sekúndu undir Hafnarfjalli í verstu hviðunum og sömuleiðis voru sterkar hviður á Kjalarnesi. Veðrið var verst vestan og suðvestan við landið í byrjun dags og þannig var blindbylur og hvassviðri á Snæfellsnesi í gærmorgun. Aðstoðuðu björgunarsveitir frá Ólafsvík og Hellissandi fólk sem sat fast í bílum sínum á leið til vinnu. Þá urðu nokkrar skemmdir á bílum eftir að þakplötur fuku á þá en engin slys urðu á fólki. Allt skólahald lá niðri í Ólafsvík og á Hellissandi í gærmorgun. Á Akranesi fauk um helmingur þaks af hesthúsi sem er rétt utan við bæinn en að sögn lögreglunnar varð veðrið ekki til vandræða í þéttbýlinu. Ökumenn á höfuðborgarsvæðinu urðu fyrir óþægindum og meðal annars lokaði vatnselgur tveimur af fjórum akreinum á Miklubraut við Elliðaárbrýr síðdegis. Innanlandsflug lá að mestu niðri í gærdag vegna óveðurs. Þá seinkaði Herjólfi verulega á leið til Vestmannaeyja vegna hvassviðris og ölduhæðar.
Þann 10. gerði annað landsynningsveður, í þetta sinn með gríðarlegu hvassviðri um landið suðvestan og vestanvert. Vindhviða mældist 50,2 m/s á Skrauthólum á Kjalarnesi. Þetta er næsthvassasta 3 sek vindhviða sem mælst hefur á hefðbundinni veðurstöð í byggð (fyrir utan Stórhöfða í Vestmannaeyjum). Kortið sýnir lægðina nálgast. Veður að baki skilanna var skaplegra.
Morgunblaðið segir af veðrinu 11.febrúar:
Eitt allra versta veður það sem af er vetri gekk yfir landið í gær og olli víðtækum samgöngutruflunum og minniháttar eignatjóni sums staðar. Ekki urðu þó slys á fólki. Suðaustanstormur og úrhelli fylgdi í kjölfar djúprar lægðar sem kom upp að landinu snemma í gærmorgun og var ekkert flogið innanlands fram eftir degi utan einnar ferðar milli Akureyrar og Þórshafnar. Þá var öllum ferðum með Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi aflýst. ... Á Kjalarnesi varð rafmagnslaust skömmu eftir kl.7 í gærmorgun vegna bilunar í loftlínu sem stóðst ekki vindálag. Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur komu rafmagni á kl.10:30. Þá sló Búrfellslína 1 út milli kl. 10:36 og 10:57 með þeim afleiðingum að járnblendiverksmiðjan á Grundartanga og álverið í Straumsvík urðu rafmagnslaus um tíma. Að sögn Hrannars Péturssonar, upplýsingafulltrúa Alcan á Íslandi, varð einn þriggja kerskála rafmagnslaus í 1520 mínútur og hinir skálarnir tveir voru keyrðir á hálfum afköstum í jafnlangan tíma. Segir hann rafmagnsleysið þó ekki hafa haft nema mjög takmörkuð áhrif á starfsemina. Talsmenn Járnblendifélagsins sögðu að rafmagnstruflanirnar hefðu ekki haft alvarleg áhrif á starfsemina.
Þá sló út Vatnshamralína milli Brennimels í Hvalfirði og Borgarfirði í nokkrar mínútur en ekki hlaust af rafmagnsleysi. Fjórir rafmagnsstaurar brotnuðu í Gunnarsholtslínu í Rangárþingi eystra kl.8:45. Höfuðstöðvar Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti urðu rafmagnslausar af þessum sökum fram til kl.15:30 sem og fóður- og fræverkun Landgræðslunnar auk vistheimilisins að Akurholti. Nokkuð var um að fólk þyrfti á aðstoð björgunarsveita að halda í óveðrinu. ... Þá var Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli kölluð út eftir að tilkynningar fóru að berast um að fjúkandi þakplötur í bænum og Hvolhreppi. Undir Hafnarfjalli var mjög hvasst en umferð gekk áfallalaust. Mestu munaði um að þjóðvegurinn var auður en í uppsveitum var nokkuð um að bílar fykju útaf í hálku. Hellisheiðin var öllu verri, en þar var stormur og hríð og ekkert ferðaveður fram eftir degi.
Að bænum Smárahlíð í Hrunamannahreppi fauk þak af sumarhúsi. Á bænum Brekkum í Mýrdal tókst að afstýra teljandi tjóni með því að festa niður þakplötur sem tóku að losna af útihúsum og á bæjum undir Eyjafjöllum fuku hlutir til án þess að mikið tjón hlytist af.
Í Morgunblaðinu 12.febrúar má finna athyglisvert uppgjör Páls Bergþórssonar á hafísspám þeim sem hann hafði gert reglulega frá 1969:
Páll Bergþórsson segir frá: Frá því að hitamælingar byrjuðu á Jan Mayen 1921 hefur hitinn í ágúst-janúar reynst vel til að segja fyrir um hafís við Ísland á komandi ári, enda segir þessi lofthiti mikið til um sjávarhitann kringum eyjuna. Að þessu sinni varð þar hlýrra að jafnaði þessa sex mánuði en nokkru sinni síðan 1947. Árið 2002 varð hins vegar það hlýjasta frá upphafi mælinga á Jan Mayen, og árið var líka tiltölulega hlýtt á Spitsbergen og Bjarnarey. Hafís í norðurhöfum hefur líka verið með minnsta móti. Þess vegna eru miklar líkur til þess að ís verði mjög lítill við landið á þessu ári.
Nú hefur verið tekið saman hvernig þessi spáregla um hafísinn eftir Jan Mayen hita hefur gefist í 80 ár. Fylgni spáreglunnar við raunverulegan hafís hefur verið 0,76 og fyllilega marktæk. Einnig má prófa spárnar með því að skipta árlegum hafís við landið í þrjá flokka, lítinn ís (0 til 1 ísmánuð), miðlungs ís (1,1 til 3 ísmánuði) og mikinn ís (3,1 til 6 ísmánuði). Í 60 ár hljóðaði spáreglan upp á lítinn hafís. Það reyndist rétt í 51 skipti. Í 9 af þessum 60 árum varð ísinn meiri, miðlungs ís, en aldrei mikill. Í 17 ár sýndi spáreglan miðlungs ís. Það reyndist 10 sinnum rétt, en sjö sinnum varð ísinn lítill, aldrei mikill. Í þrjú skipti sýndi spáreglan mikinn ís, og það reyndist rétt í öllum tilfellum. Niðurstaðan er sú að 64 spár, 80%, reyndust réttar eftir þessari flokkun, en 16 rangar, þó aldrei svo að skeikaði nema einum stærðarflokki. En það er ekki undarlegt að á tveimur árum með álíka kaldan sjó norður undan geti hafísinn við landið orðið nokkuð misjafn vegna ríkjandi vinda sem ógerlegt er að spá um svo langan tíma. Þetta sýnir að það er sjávarhitinn miklu fremur en vindarnir sem ræður ísnum. Spár um mikinn ís voru allar réttar. Þær voru þó fáar og ekki víst að svo vel gengi ef mörg ár með langvinn hafþök af ís yrðu algeng. En þessi árangur hlýtur samt að teljast til stuðnings þeim rökum sem fyrir aðferðinni voru færð, og til nokkurrar leiðbeiningar fyrir þá sem eiga mikilla hagsmuna að gæta vegna hafíssins, sem auk þess segir mikið til um árferði að öðru leyti, bæði á sjó og landi.
Umhleypingar héldu áfram. Að kvöldi 11. fór kröpp smálægð norður með vesturströnd landsins og olli minniháttar tjóni. Morgunblaðið segir frá 13.febrúar:
Hlífar á vinstri væng og hreyfli flugvélar Flugleiða skemmdust í óveðri sem gekk yfir Keflavíkurflugvöll um miðnætti í fyrrinótt [aðfaranótt 12.]. Vélin fauk til og lenti á landgangi sem hún stóð við. ... Björn Ingi Knútsson flugvallarstjóri sagði að vonskuveður hafi verið á svæðinu um miðnætti, allt að því 40 metrar á sekúndu, en það hafi gengið niður þegar leið á nóttina. Þrjár vélar voru á svæðinu, en tvær urðu ekki fyrir neinum skemmdum. Björn Ingi sagði að engin truflun hefði orðið á starfsemi Keflavíkurflugvallar af þessum sökum. Þá var slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli sent á vettvang í nótt til þess að forða þýskri herflugvél á athafnasvæði varnarliðsins frá skemmdum vegna veðurs. Sú var berskjölduð fyrir vindi og því var brugðið á það ráð að nota stóran slökkviliðsbíl til þess að taka mesta vindinn af vélinni. Slæmt veður var á Suðurnesjum í fyrrinótt og þurfti lögreglan í Keflavík að sinna nokkrum útköllum í Reykjanesbæ af þeim sökum.
Morgunblaðið greinir frá tíðarfari í Mývatnssveit 17.febrúar:
Mývatnssveit. Morgunblaðið. Byljóttir sunnanstormar hafa barið á Mývetningum síðasta sólarhring svo sem flestum landsmönnum. Í roku sem gerði um kl.8 í gærmorgun slitnaði upp stór strompur á kæliturni við Kröfluvirkjun. Strompurinn, sem er úr trefjaplasti, 8 metrar í þvermál og 5 metra hár, tættist í sundur. Einnig eyðilögðust þar stórir viftuspaðar og drifbúnaður þeirra. Ekki er að sjá að víðtækara tjón hafi orðið og engin slys urðu. Kæling á vél minnkar við þetta og þarf að draga lítillega úr framleiðslu stöðvarinnar af þessum sökum. Tjónið er verulegt.
Krappar lægðir gengu til norðurs nærri Vesturlandi um miðjan dag þann 16. og síðdegis og að kvöldi 17. Það bar til tíðinda í síðara veðrinu að vindhraði á Skálafelli mældist 63,9 m/s og í hviðu fór hann í 76,5 m/s. Þetta var hvort tveggja meira en mælst hafði áður hér á landi. Þann 7. febrúar 2022 mældist vindhraði lítillega meiri á Ásgarðsfjalli - en hvort tveggja mælingin [Skálafell og Ásgarðsfjall] hafa enn ekki verið staðfest sem Íslandsmet.
Mikið tjón varð í þessu veðri austur á Seyðisfirði. Þótt í allt öðrum landshluta sé heldur en meint met á Skálafelli eykur þetta tjón trú á því að um óvenjulegt veður hafi verið að ræða. Morgunblaðið segir frá 19.febrúar:
Hrikalegar vindhviður ollu milljónatjóni á Seyðisfirði í fyrrinótt [18.] og einn björgunarsveitarmaður höfuðkúpubrotnaði þegar kerra fauk á hann. Þrjú einbýlishús stórskemmdust, fjöldi bíla dældaðist og tré rifnuðu upp með rótum en tilkynningar um tjón bárust jafnt og þétt fram eftir degi í gær. Síðdegis hafði verið tilkynnt um tjón á 32 einbýlishúsum. ...
Þetta er aðeins hluti af skemmdunum en ekki hefur verið lagt mat á heildartjón. Hreinsunarstarf hófst af fullum krafti í gær og úti um allan bæ mátti sjá menn gera við þök og negla hlera fyrir glugga. Víðar á Austurlandi urðu skemmdir af völdum veðursins, en hvergi í líkingu við það sem varð á Seyðisfirði. Einn maður slasaðist af völdum fárviðrisins, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs sem stóð í ströngu við björgunarstörf. Hann er talinn hafa höfuðkúpubrotnað þegar kerra fauk á hann en samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu á Seyðisfirði var hann með meðvitund í gær og líðan hans eftir atvikum góð. Þegar veðrið gekk niður um hádegisbil var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gengst undir frekari rannsóknir.
Fyrsta tilkynning um tjón af völdum veðursins barst lögreglunni á Seyðisfirði um klukkan hálfeitt en veðrið skall á með fullum krafti um klukkan tvö. Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands sýndi vindmælir fyrir ofan bæinn að meðalvindhraði um nóttina var um 20-25 m/sek en í mestu hviðunum rauk hann upp í um 54 m/sek. Ekki er ólíklegt að sums staðar hafi vindurinn verið enn meiri en skemmdirnar urðu mestar innst í firðinum. Eftir því sem leið á nóttina rigndi yfir lögreglu og björgunarsveitir tilkynningum um lausar þakplötur, brotnar rúður og allskyns lausamuni á ferð á flugi. Gámur var meðal þess sem tókst á loft og hafnaði hann ofan í Fjarðará ásamt ýmsu braki. Tré brotnuðu, rúður splundruðust í einbýlishúsum og þakplötur og klæðning rifnuðu frá húsum. Bílar sem stóðu úti í veðurhamnum dælduðust þegar grjót, þakplötur og fleira skall á þeim. Í nokkrum tilvikum brotnuðu rúður í bílunum og er einn þeirra talinn næstum ónýtur eftir að hafa orðið fyrir skæðadrífu af þakplötum. Ljóst er að tugir björgunarsveitarmanna, lögreglumenn, slökkviliðsmenn og smiðir sem kallaðir voru út lögðu sig í talsverða hættu við björgunarstörf.
Í gærmorgun hafði björgunarsveitum Landsbjargar borist beiðni um aðstoð vegna tjóns á 24 húsum, tveimur gróðurhúsum, útihúsi, steypustöð og þremur bifreiðum. Tilkynningum um skemmdir fjölgaði jafnt og þétt og síðdegis hafði verið tilkynnt um skemmdir á 32 einbýlishúsum og á um tug bifreiða. Einn bílskúr splundraðist og annar er ónýtur af völdum vindsins. Gera má ráð fyrir því að næstu daga verði tilkynnt um enn frekari skemmdir. Skilti Vegagerðarinnar við bæjarmörkin, sem sýnir vindstyrk á Fjarðarheiði, fauk um koll og klæðning sviptist af veginum að hluta. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var tjón hennar þó minniháttar. Innandyra fram undir hádegi Páll Elísson, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Austurlandi, var ásamt fleiri björgunarsveitarmönnum kallaður út um klukkan tvö í fyrrinótt til að aðstoða björgunarmenn á Seyðisfirði. Segir hann að þegar mest var hafi 68 manns unnið að björgunarstörfum í bænum enda hafi ástandið verið alvarlegt. Það hafi verið lán í óláni að götur og vegir voru nánast auð en Páll segir að hefði verið hálka á veginum yfir Fjarðarheiði hefði björgunarlið ekki komist þá leið.
Hættuástandi í bænum var aflýst klukkan sex en almannavarnanefnd beindi þeim tilmælum til fólks að halda sig innandyra fram að hádegi en þá hafði veðrið að mestu gengið niður. Björgunarsveitarmenn frá Seyðisfirði, Reyðarfirði, Héraði og Jökuldal og fleiri héldu áfram störfum og var unnið fram á kvöld við að gera við þök og koma böndum yfir brak sem var að finna á víð og dreif um bæinn. Starfsmenn bæjarins unnu einnig ötullega að hreinsunarstörfum. Viðlagatrygging bætir ekki foktjón. Ekki er búið að leggja mat á heildartjón og segist Lárus Bjarnason sýslumaður óvíst að það verði gert. Hann reiknar þó með því að tjónið nemi tugum milljóna króna. Einar Guðmundsson, forvarnafulltrúi hjá Sjóvá-Almennum segir að tjón líkt og það sem varð á einbýlishúsum á Seyðisfirði í fyrrinótt sé bætt, hafi húseignendur keypt fasteignatryggingu. Tjón á kaskó-tryggðum bílum er einnig bætt.
Næstum allar þakplötur hreinsuðust af timburhúsinu við Hlíðarveg 9 þar sem hjónin Katrín Reynisdóttir og Skúli Jónsson búa ásamt ungum syni sínum en unglingurinn á heimilinu var að heiman sem betur fer sagði Katrín í samtali við Morgunblaðið. Það var svolítið hvasst þegar við fórum að sofa og eitthvað sagði nú manninum mínum að láta strákinn sofa inni í hjónaherbergi en sjálfur svaf hann í öðru herbergi. Ég held að klukkan hafi verið eitt eða hálftvö þegar ég rauk upp með andfælum við rosahvell. Það skalf allt húsið og ég var hrædd um að það myndi hreinlega springa ofan af okkur, sagði hún. Þau heyrðu að eitthvað var að losna af húsinu og hringdu því á björgunarsveitina sem var fljót á vettvang. Á húsinu eru stórir stofugluggar og töldu Björn og Katrín stórhættu á að ef rúðurnar brotnuðu gæti vindurinn splundrað húsinu. Þau töldu því öruggast að leita skjóls hjá ættingjum. Helminginn af þaki einbýlishússins við Garðarsveg 9b tók af í ofsaveðrinu og er talið líklegt að afgangurinn af þakinu sé ónýtur. Lonnie Jensen segir að á fjórða tímanum hafi skyndilega heyrst miklar drunur og um leið sviptist helmingur þaksins af húsinu. Hellirigningin átti greiða leið inn í húsið og urðu Lonnie og Björn Hansson, eiginmaður hennar, ásamt 9 ára syni sínum, að leita skjóls í bílskúrnum.
Mjög hvasst var á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar í fyrrakvöld og -nótt. Slíkur var ofsinn að vindmælirinn, sem staðsettur var utan á skíðahótelinu, rifnaði af húsinu. Mælirinn var tengdur við tölvu og mesti vindhraði sem hann sýndi áður en hann hvarf eftir klukkan níu í fyrrakvöld var rúmir 54 metrar á sekúndu, að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns Skíðastaða. Hann sagði að hviðurnar í suðvestanáttinni gætu oft orðið ansi öflugar í fjallinu og að ótrúlegustu hlutir hefðu færst til í látunum. Verst væri þó að nánast allur snjór væri horfinn úr fjallinu og skíðasvæðið því lokað. Annar vindmælir er í Strýtu og sagði Guðmundur Karl að vindhraðinn þar hefði farið í 96 hnúta, eða í um 50 metra á sekúndu. Veðurguðirnir hafa ekki verið skíðamönnum hliðhollir að undanförnu en Guðmundur Karl sagðist ekki vera farinn að örvænta. Menn hafa talað um að þetta sé svipað veðurfar og árið 1975 en þá fór líka allt á kaf í marsmánuði. Mun snjómagnið á Akureyri hafa verið svo mikið að lána þurfti snjótroðarann til sjúkraflutninga niður í bæ, sagði Guðmundur Karl.
Í hvassviðrinu sem geisaði á Vestfjörðum s.l. sunnudag [16.] brann hluti úr rafmagnsstaur í Hrafnseyrardal við Arnarfjörð. Strókur stóð af sjónum upp dalinn þannig að mikil selta settist á staurinn. Neisti af línunni hljóp svo í staurinn og þá kviknaði í honum ofan frá. Fljótlega hefur þó slokknað því ekki brann staurinn alla leið niður. Endar ná því alls ekki saman hjá þessum rafmagnsstaur. Við brunann hrökk einn af rafstrengjunum af staurnum með þeim afleiðingum að rafmagnið fór af Dýrafirði, Hrafnseyri og Auðkúlu við Arnarfjörð. Nýr staur verður reistur í dag.
Hjónin Þórunn Egilsdóttir og Friðbjörn Haukur Guðmundsson lentu í miklum háska þegar hvassviðri lyfti bíl þeirra upp að aftan og sneri honum þegar þau óku yfir Vopnafjarðarheiði og út á Bustarfellsbrúnir á mánudagskvöld [17]. Hjónin þorðu ekki að halda til í bílnum sem var aðeins um 4050 metra frá fjallsbrúninni og hímdu úti, blaut og köld, í rúma klukkustund á meðan veðrið gekk yfir. Þórunn og Friðbjörn Haukur voru á leið heim að Hauksstöðum frá Akureyri. Við vissum að veðurspáin var ekki góð en það var ekkert slæmt veður, hvorki á Mývatns- eða Möðrudalsöræfum né Vopnafjarðarheiði. Þegar við komum í Mývatnssveit stóð og á skiltinu þar að það væru 12 metrar á sekúndu á Möðrudalsöræfum, sagði Þórunn við Morgunblaðið í gær. Svo komum við út að fellsbrúninni hjá útsýnisskífunni og þá kom alveg rosaleg vindhviða og bíllinn lyftist upp að aftan. Maðurinn minn náði að keyra út af veginum og upp fyrir hann og snúa bílnum upp í vindinn og keyra svo upp í skafl. Svo sátum við dágóða stund í bílnum. Þegar á leið fór bíllinn að hreyfast það mikið að við þorðum ekki að vera lengur í honum af því að bjargbrúnin var bara rétt hjá. Við sáum að ef bíllinn fyki af stað þá næðum við ekki bæði að stökkva út úr honum. Þórunn og Friðbjörn Haukur bundu sig snöggvast saman með reipi og fóru út úr bílnum. Við ætluðum að skríða norður, þar sem við vissum að við kæmumst í skjól, og lögðum aðeins af stað, en komumst ekki áfram vindurinn bara tók okkur. Við fórum því aftur að bílnum og vorum í hálfgerðu skjóli af honum, en pössuðum okkur á því að vera ekki í þannig stöðu að hann færi á okkur ef hann færi af stað. Hjónin dvöldu úti í um klukkustund og þorðu ekki inn í bílinn af ótta við að hann fyki fram af fjallsbrúninni. Eftir um klukkutíma fór að koma hlé á milli hviða og við fórum inn í bílinn blaut og köld. Friðbjörn Haukur fór ekki í kuldagallann því hann hélt að hann tæki of mikinn vind. Hann hímdi því úti í klukkustund á gallabuxum og úlpu. Þórunn og Friðbjörn Haukur eru vant fjallafólk en segjast aldrei hafa lent í neinu þessu líku áður. Þau töldu sig í hættu um tíma og bjuggust við því versta. Þar sem við vorum var ekkert til þess að halda sér í, ekki grjót eða neitt. Við spyrntum okkur ofan í snjóinn eftir fremsta megni. Þegar lengra fór að líða milli vindhviða keyrðu þau aftur upp á veginn. Þetta voru bara 200300 metrar sem við áttum eftir niður af fjallinu, sagði Þórunn sem var afskaplega fegin þegar hún komst loks niður af fjallinu.
Hörgá flæddi yfir bakka sína í hlákunni í fyrrinótt vegna klakastíflu sem myndaðist í ánni í beygju við svokallað Möðruvallanes. Vatn flæddi um stórt svæði neðan við brúna yfir Hörgá á Ólafsfjarðarvegi og klaki dreifðist yfir þó nokkurt svæði. Þá var stæða af heyrúllum umflotin vatni skammt frá árbakkanum. Stefán Halldórsson bóndi á Hlöðum sagðist hafa séð meira vatnsmagn við aðstæður sem þessar og hann sagði að klakastífla gæti myndast hvar sem er í ánni í jafn mikilli hláku og var í fyrrinótt og gærmorgun. Stefán sagði að flóðið hefði náð hámarki í gærmorgun en þá var þarna um 10 stiga hiti en að mjög hefði dregið úr flóðinu þegar á daginn leið og veður fór kólnandi. Hann sagði viðbúið að slægjuland sitt við árbakkann yrði fyrir skemmdum þar sem jafnan bærist mikið af sandi og grjóti á land með klakanum. Það kæmi þó ekki í ljós fyrr en klakinn bráðnaði. Stefán sagði líklegt að neðstu heyrúllurnar sem voru umflotnar vatni í Möðruvallalandi vestan árinnar hefðu blotnað en hann sagði að það þyrfti meira til að rúllurnar færðust úr stað.
Morgunblaðið heldur áfram 20.febrúar:
Formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði, Guðni Sigmundsson, er á góðum batavegi eftir alvarlegt slys sem hann varð fyrir aðfaranótt þriðjudags. Þá geisaði fárviðri á Seyðisfirði og vindhraði fór mest í yfir 50 metra á sekúndu. Guðni var í miðjum björgunarstörfum þegar vindhviða feykti honum á kerru fyrir utan heimili hans. Eiginkona Guðna kom að honum liggjandi í götunni og þar sem hann gat ekki staðið á fætur bar hún hann inn í hús og hringdi á hjálp. Í ljós kom að Guðni hafði höfuðkúpubrotnað og slasast illa á öxl.
Seyðfirðingar hafa að mestu lokið við að hreinsa til í bænum eftir hamfaraveðrið sem gekk þar yfir aðfaranótt þriðjudags. Fulltrúar tryggingafélaganna hafa verið á staðnum til að leggja mat á tjón en ljóst er að það skiptir milljónum. Tryggvi Harðarson bæjarstjóri segir að stormurinn sé með þeim mestu sem hafi gengið yfir Seyðisfjörð, elstu menn muni í besta falli eftir einu slíku fárviðri en tekur einnig fram að suðvestanrokið geti oft verið talsvert. Tjón varð á yfir 30 húsum og fjölmörgum bifreiðum en Tryggvi segir að fáir hafi orðið fyrir mjög miklum skakkaföllum. Sumt fáist bætt en annað ekki og eigi það jafnt við um einstaklinga, fyrirtæki og bæjarfélagið sjálft. Seyðfirðingar hafa verið frekar óheppnir með veður í vetur. Í nóvember varð talsvert tjón af völdum hellirigningar og nú þessi hvellur. Menn vita að það ganga yfir afbrigðileg veður ef svo má segja. En þó að það hafi lent hér tvisvar á skömmum tíma hér á Seyðisfirði þá er þetta sem betur fer undantekning en ekki reglan, segir Tryggvi. Menn standi varnarlausir gagnvart slíkum veðurofsa og sjálfsagt muni margir huga að þakfestingum og öðrum frágangi. Það vill enginn lenda í því að það fjúki ofan af honum, segir hann. Þeir sem höfðu keypt fasteigna eða húseigendatryggingu fá tjón á íbúðarhúsnæði væntanlega bætt Hafi orðið tjón á innbúi eru bætur greiddar úr heimilistryggingu. Engin lögbundin trygging bætir tjón eins og varð í hamfaraveðrinu á Seyðisfirði og viðlagatrygging bætir ekki tjón vegna vinds.
Ekkert útfall hefur verið í Dyrhólaósi í miðjum Mýrdalnum í langan tíma og því flæðir yfir hundruð hektara túna. Mikið hefur rignt ásamt því að ár og lækir renna í ósinn sem hefur staðið uppi lengi í vetur án útfalls. Því hefur vatnið enga undankomuleið í sjó og flæðir yfir tún hjá mörgum bændum í Mýrdalshreppi. Ófært er út í Dyrhólaey, þar sem flæðir yfir veginn, og talin er hætta á að vegurinn fari í sundur undir sjó. Bændur á svæðinu hafa töluverðar áhyggjur af því að það frysti því þá er hætt við kali og skemmdum á túnum. Búið er að reyna að opna Dyrhólaósinn en hann lokast alltaf jafnóðum. Ástæðan er sú að lengi hafa verið ríkjandi austan- og suðaustanáttir. Þá tekur sjórinn sandinn milli Reynisfjalls og Dranganna og flytur hann að Dyrhólaósnum. Venjulega jafnar ósinn sig í vestanáttum sem hafa verið sjaldséðar í Mýrdalnum undanfarið. Ekki bætir úr skák að fullt tungl er um þessar mundir og stórstreymt. Í gær flæddi yfir kambinn og inn í ósinn, yfir alla Reynisfjöruna. Guðni Einarsson, bóndi á Þórisholti, er einn þeirra sem eiga land að ósnum. Hann segir oft hafa flætt, en sjaldan svona mikið. Hann segir einnig fróðlegt að sjá hvað gerist við þessar aðstæður þar sem margir vilja leggja veg um ósinn. Menn hafa verið að velta því fyrir sér að bora gat í gegnum Reynisfjall og fara svo með veginn hér út eftir Dyrhólaósnum. Fróðlegt að sjá hverju menn geta átt von á, sagði Guðni og benti á að við mennirnir værum afar máttlausir gegn hinu kröftuga Atlantshafi.
Veðráttan segir frá því að þann 21. hafi spennistöð skemmst í þrumuveðri undir Eyjafjöllum. Síðasta vika febrúar var meinlítil. Lengst af var hlýtt.
Tíð var hagstæð í mars. Lengst af var hlýtt og fremur lítið var um illviðri. Þó hvessti nokkuð af norðri og norðaustri þann 5. og 9. og 10. Morgunblaðið segir frá 6.mars:
Mjög hvasst var í fyrrinótt og í gærmorgun á Vestur- og Norðurlandi þegar norðanhvassviðri gekk yfir landshlutana en ekki var vitað um teljandi tjón af þeim sökum. Óttast var að þakpappi á húsi kaupfélagsins á Blönduósi losnaði í rokinu og ylli tjóni en hættan leið hjá þegar vind lægði. Éljagangur var á Vestfjörðum og rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi. Vindhraðinn fór í 36 metra á sekúndu á Fróðárheiði en lægja tók er leið á daginn. Fólksbifreið fór út af veginum um Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, rétt við Bása, í svartabyl í gærmorgun. Bifreiðin stöðvaðist í snjódyngju en illa hefði getað farið ef hún hefði verið á meiri ferð. Á Vestfjörðum var ófært um Steingrímsfjarðarheiði og var gert ráð fyrir að hún yrði opnuð í dag. Einnig var ófært um Klettsháls. Þá var rafmagnslaust víða á Vestfjörðum um tíu mínútna skeið í gærmorgun. Samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða varð útsláttur í vesturlínu sem olli rafmagnsleysi á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum.
Eftirminnileg teppa varð á Hellisheiði í austanhvassviðri þann 9. Sömuleiðis lentu menn í hrakningum á Langjökli. Morgunblaðið segir frá daginn eftir, 10.mars:
Allt að 30 manns var bjargað úr ofsaveðri og blindbyl á Hellisheiði síðdegis í gær. 16 bifreiðir lentu í árekstri og meiddust þrír svo flytja varð þá á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Meiðsli þeirra voru þó ekki alvarleg og voru allir útskrifaðir samdægurs að sögn læknis. Þá meiddist björgunarsveitamaður lítillega við störf sín er ekið var á hann. Litlu mátti muna að stórslys yrði, þegar ein bifreiðin lenti harkalega aftan á kyrrstæðri lögreglubifreið með blikkandi ljósum með þeim afleiðingum að töluvert eignatjón hlaust af og minniháttar meiðsli. Veginum var lokað klukkan 16 og var fjölmennt björgunarlið kallað á vettvang til aðstoða ferðafólkið. Var unnið fram á kvöld við að ná bifreiðum niður af heiðinni, sem opnuð var aftur kl.19:30. Gríðarlegt eignatjón varð í árekstrinum Gríðarlegt eignatjón varð í árekstrinum, að sögn lögreglunnar á Selfossi, og voru sex bifreiðir fluttar á brott með kranabifreið. Að sögn Jóhanns Más Ævarssonar, varaformanns Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, voru fimm börn og sex fullorðnir meðal þeirra sem bjargað var og voru þau flutt til Hveragerðis en þangað voru þau sótt eða héldu áfram leið sinni með öðrum hætti. Nokkur fjöldi bifreiða hafði lent út af og voru tvær dráttarbifreiðir notaðar fram til kvölds við að draga þær niður af heiðinni. Að sögn Jóhanns Más var fólkinu mjög brugðið eftir reynslu sína í óveðrinu, en mjög hvasst og blint var á heiðinni, auk þess sem hálkublettir voru víða. Sem fyrr segir lentu 16 bílar í árekstri í gær. Metfjöldi bíla í árekstri er 23 en það varð í óhappi sem varð á Kringlumýrarbraut í Reykjavík í febrúar 1997.
Skyggnið versnaði í sífellu uns kominn var blindbylur svo maður sá rétt fram fyrir sig, sagði Ólafur Leifsson, einn vegfarenda sem meiddust í árekstri í Hellisheiðinni í gær. Hann var á leið austur þegar hann ók fram á bílaþvögu í sortanum efst í brekkunni við Skíðaskálann í Hveradölum og lenti á einni bifreiðinni. Á næsta augnabliki lenti rúta aftan á jeppa hans og þeytti honum á lögreglubifreið. Ólafur fékk háls- og bakhnykk og kom sér heim svo fljótt sem auðið varð. Mér fannst veðrið í fyrstu ekki mjög slæmt en þegar ég kom upp á háheiðina missti ég allt skyggni. Í kjölfar árekstrarins komu fleiri bifreiðir og lentu hver aftan á annarri. Þótt jeppi Ólafs væri skemmdur að framan og aftan tókst honum að aka út úr þvögunni og heim til sín. Með honum fór fólk úr mikið skemmdri bifreið sem lent hafði í árekstri við björgunarsveitarbíl.
Morgunblaðið segir af mikilli leit á Langjökli í pistli 11.mars:
Mennirnir eru fundnir. Ég endurtek mennirnir eru fundnir heilir á húfi. Verkefninu er lokið. Svona hljómaði tilkynning sem barst leitarmönnum á Langjökli klukkan 11:30 í gærmorgun, tæpum sólarhring eftir að vélsleðamennirnir Knútur Hreinsson og Jón Bjarni Hermannsson urðu viðskila við samferðamenn sína. Leitin var ein umfangsmesta leitaraðgerð björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar á þessum vetri, en alls tóku 236 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni á 38 jeppum, 76 vélsleðum og 10 snjóbílum. Þá leituðu þyrla Landhelgisgæslunnar og flugvél Flugmálastjórnar einnig.
Þann 30.dýpkaði lægð fyrir suðvestan land og fór síðar austur fyrir. Hvasst varð við Hafnarfjall í suðaustanáttinni á undan lægðinni. Morgunblaðið segir frá 31.mars:
Hópbifreið með 64 farþega fór út af veginum undir Hafnarfjalli síðdegis í gær [30.] en hún valt ekki og engin slys urðu. Vindurinn fór í 40 metra á sekúndu í mestu vindhviðunum undir Hafnarfjalli í gær. Snörp vindhviða kom á bifreiðina og sagði ökumaður hennar við lögreglu að bifreiðin hefði tekist á loft, en hann náð að stýra henni út af veginum án þess að hún ylti. Um svipað leyti varð bílvelta á Þingvallavegi en ekki urðu slys þar frekar en í fyrra tilvikinu. Ökumenn á Fróðárheiði lentu einnig í vandræðum upp úr miðjum deginum í gær þegar hríð skall þar á. Að sögn lögreglunnar á Ólafsvík voru björgunarsveitarmenn kallaðir til frá Ólafsvík og Hellissandi til að aðstoða ökumenn við að komast leiðar sinnar en engin slys urðu á fólki. Var búið að ryðja heiðina í gærkvöld. Þá fauk stór tengivagn, sem fastur var aftan í vöruflutningabifreið, á hliðina í Víðidal um hálfníuleytið í gærkvöld. Að sögn lögreglunnar á Blönduósi varð verulegt tjón á tengivagninum. Ökumaðurinn var einn í bílnum og sakaði hann ekki.
Einmunatíð var í apríl. Jörð greri fljótt. Nokkuð kólnað í blálok mánaðarins. Veðráttan segir frá því að þann 3. hafi vöruflutningabifreið fokið út af veginum í vestanhvassviðri við Kvísker í Öræfum. Ekki urðu slys á fólki. Mikil hlýindi voru þá eystra. Morgunblaðið segir frá 4.apríl:
Sannkallað sumarveður var á Austfjörðum í gær [3.] og mældist hitinn mestur á Teigarhorni í Berufirði og á Dalatanga, hvorki meira né minna en 16°C. Rok kom þó í veg fyrir að íbúarnir gætu notið hitans til fullnustu. Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði í samtali við Morgunblaðið að vegna roksins hefðu bæjarbúar ekki klæðst stuttbuxum í stórum stíl, að öðrum kosti hefði verið upplagt sólbaðsveður. Þetta hefur verið mjög óvenjuleg veðrátta. Þetta hefur auðvitað sína kosti og galla. Okkur hefur lukkast að hafa skíðasvæðið í Oddsskarði opið í 19 daga í vetur og þar er eiginlega allur snjór farinn, segir hann. Eldri menn hafa þó reynt þetta áður en þeir segjast muna eftir því að svona hafi þetta verið fyrir sléttum fjörutíu árum, árið 1963.
Enn voru fréttir af Kötluslóðum. Morgunblaðið 5.apríl:
Ennþá er kvika að koma upp undir Mýrdalsjökli samkvæmt GPS-mælingum, sem gerðar voru í byrjun mars. Síðustu 10 mánuði hefur land í miðju jökulsins risið um 10 cm.
Þótt ekki væri sérlega kalt í maí, varð hann samt eini svali mánuður ársins. Það var einkum fyrsta vikan sem var köld. Kortið að ofan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Norðlæg átt var ríkjandi.
Kortið sýnir stöðuna í háloftunum þann 1.maí. Svellkalt heimskautaloft streymir úr norðri til landsins. Nokkuð snjóaði syðst á landinu. Snjódýpt varð mest þann 1., 13 cm á Kirkjubæjarklaustri, Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á Hólmum í Landeyjum. Aftur varð alhvítt á Stórhöfða þann 4. Alhvítt varð víða á Norður- og Austurlandi og á stöku stað sunnanlands.
Hálka var á Hellisheiði í hretinu - og kvartað var um skemmdir á trjágróðri. Morgunblaðið 4.maí:
Átta manns voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík eftir harðan árekstur fjögurra bíla sem varð í Hveradalabrekku á Hellisheiði um sjöleytið í gærkvöldi [3.] ... Talið er slysið megi rekja til hálku sem skyndilega myndaðist á veginum seinni partinn í gær en allir bílarnir voru á sumardekkjum.
Skemmdir hafa komið í ljós á trjám og plöntum í kjölfar næturfrosts undanfarna sólarhringa á Norður- og Austurlandi og víðar á landinu. Þröstur Eysteinsson, fagmálastjóri Skógræktar ríkisins, segir skemmdirnar einkum bundnar við trjátegundir sem hafi grænkað óvenju snemma í vor. Aðallega sé um að ræða skemmdir á blöðum og nálum. Tegundir sem helst hafa orðið fyrir skemmdum á Norður- og Austurlandi eru lerki og aspir. Þá hafa skrautrunnar í görðum; heggur, toppar, sírenur og fleiri tegundir orðið fyrir skemmdum. Þröstur segir útlit fyrir að gróður verði ljótur í einhverjum görðum og einnig sumar trjátegundir í skógrækt. Síðan eru aðrar tegundir sem eru sennilega ekki skemmdar, eins og greni, fura og birki.
Þann 31.maí sást hringmyrkvi á sólu við norðurströndina. Er hann mörgum minnisstæður. Morgunblaðið segir frá 1.júní:
Hringmyrkvi sást vel á norðanverðum Skaga laust eftir klukkan fjögur aðfaranótt laugardagsins. Útlitið var nokkuð gott framan af nóttu en ekkert benti reyndar til þess að von viðstaddra rættist skömmu áður en ævintýrið gerðist; skýjaþykkni var norður og austur af, og allt þar til klukkan var langt gengin fjögur sást lítið til sólar.
Júní var sérlega hlýr. Austanáttir voru óvenjuþrálátar. Veðráttan segir frá því að þann 7. hafi smáskriður lokað veginum í Þvottárskriðum.
Sunnudaginn 8.júní gerði mikið úrfelli og einnig þrumuveður í Hveragerði. Morgunblaðið segir frá 10.júní:
Talið er að elding hafi kveikt í húsi í Hveragerði á sunnudag. Eldur kom upp í millilofti og logaði upp í þakið en slökkviliðið í Hveragerði var fljótt á vettvang og tókst að koma í veg fyrir stórtjón. Engu að síður urðu miklar skemmdir vegna reyks og vatns. Í kjölfar skýfalls voru miklar eldingar í Hveragerði á sunnudag og skömmu fyrir klukkan fjögur fékk slökkviliðið í Hveragerði tilkynningu um að eldur væri laus í húsinu. Sæmundur Ingibjartsson, varaslökkviliðsstjóri, segir að talið sé að eldingu hafi slegið niður með þeim afleiðingum að kviknað hafi í út frá rafmagni. ... Miklar eldingar hafi verið á svæðinu og símar í nágrenninu farið úr sambandi. Það kom ofboðsleg sprenging, segir hann. Það var skýfall og svo kom þetta svaka skot á eftir.
Hin góða tíð hélt áfram í júlí, en þó var sums staðar nokkuð vætusamt í heyskapnum.
Dagarnir um miðjan mánuð voru eftirminnilega góðir. Kortið sýnir stöðuna í háloftunum þann 17. Þann 18. gerði miklar skúrir að Fjallabaki. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki greint stöðuna í smáatriðum, en líklega hefur slegið saman röku lofti úr austri í neðri lögum, og þurru úr vestri eða norðri í þeim efri. Það er alla vega sígildur bakgrunnur þrumuveðra og úrhellisskúra að sumarlagi hér á landi. DV segir frá þann 21.:
Ég hef aldrei lent í öðru eins, rigningin var hreint út sagt ótrúlega mikil," segir Einar Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, sem varð vitni að gríðarlegu gjörningaveðri á hálendinu á föstudaginn [18.]. Svo mikil varð úrkoman á þeim um það bil 70 mínútum sem skúrin stóð yfir að fjölmargar aurskriður féllu úr fjöllum við Landmannahelli og þar af ein sem lokaði veginum og þurfti jarðýtur frá Vegagerðinni til að opna hann aftur. Einar sagði að hann og förunautar hans hefðu verið búnir að koma sér fyrir við Landmannahelli en ekki hefði þýtt annað en hlaupa upp í bíl og hreinlega flýja af vettvangi þegar ósköpin hófust. Við urðum rennandi blaut af því að hlaupa þessa örfáu metra út í bíl," segir Einar. Skúrin hófst um fimmleytið á föstudaginn og fylgdu henni þrumur og eldingar. Einar og föruneyti keyrðu út úr skúrinni en sneru síðan aftur um það bil 70 mínútum síðar þegar allt var gengið um garð. Þá blöstu við þeim um það bil 15 aurskriður úr fjallinu gegnt Landmannahelli og fljótlega eftir það rann skriðan sem lokaði veginum. Þegar við komum aftur að þeim stað þar sem við höfðum verið fengum við vitnisburð um það hversu gríðarleg rigningin hafði verið. Við höfðum skilið eftir kaffifanta á borði úti við og þeir höfðu næstum fyllst á þessum 70 mínútum. Ég brá málbandi ofan í bollann og þá kom f ljós að á þessum stutta tíma hafði úrkoman verið um það bil 70 mm, eða um það bil 60 mm á klukkustund, sem er hreint ótrúlegt," segir Einar. Bæði fyrir og eftir skúrina var hins vegar hið besta veður. Jafnframt sagði Einar að þetta veður hefði verið mjög staðbundið. Þegar grennslast hafði verið um veðrið í kring hefði komið í ljós að ekkert hafði rignt í Landmannalaugum, en hins vegar talsvert rignt í Emstrum og Hrauneyjum á meðan á gjörningaveðrinu stóð við Landmannahelli. kja@dv.is
Það getur truflað úrkomumælingar með kaffiföntum að í mjög mikilli rigningu endurkastast meira af borðinu umhverfis fantinn heldur en úr vatnsborðinu í fantinum sjálfum. Hann safnar því meiri úrkomu í sig heldur en aðeins því sem í hann fellur. - En engu að síður hefur úrkomuákefð greinlega verið óvenjuleg.
Morgunblaðið segir af full miklum þurrkum, en einnig afburðatíð 21.júlí:
Lítil úrkoma hefur verið víða á norðan- og norðvestanverðu landinu það sem af er sumri. Þurrkar eru farnir að segja til sín og er jörð víða orðin skraufþurr. Í Vatnsfirði er mikil þurrkatíð og hefur lítið sem ekkert rignt í sumar auk þess sem veturinn var fádæma snjóléttur. Þetta veldur því að grunnvatnsstaða lækkar og lindir geta þornað upp. Að sögn Sævars Pálssonar, gestgjafa í Hótel Flókalundi, er þurrkatíðin mikil. Jörðin er orðin mjög þurr, lækir eiginlega allir horfnir og vatnsból sums staðar á þrotum. Ragnar Guðmundsson, bóndi á Brjánslæk, segir elstu menn ekki muna svona langa þurrkatíð. Þetta er líka áframhald af mjög úrkomulitlu vori og það þýðir að það er allt orðið þurrt og skrælnað sem þornað getur. Vissulega vantar rigningu hingað, en þetta hefur þýtt að allir eru búnir að heyja. Afleiðingarnar af svona snjólitlum vetri eru auðvitað vatnsleysi um allt. Þröstur Reynisson, landvörður í friðlandinu í Vatnsfirði, segir mikla eldhættu skapast þegar gróður þornar upp. Ferðamenn sem taka með sér grill, eldfæri og prímusa verða að gæta sín þar sem lítið þarf til þess að mikill skaði verði af. Ég er á nálum öll kvöld því að fólk fer oft mjög ógætilega með eld. Einnota grillin eru sérstaklega varasöm og mikilvægt að gæta þess að þau komist ekki í snertingu við þurran gróður. Varðeldar upp á gamla góða mátann eru vitaskuld alger fíflaskapur við þessar aðstæður, þegar allt er skraufþurrt.
Óvenjugóð tíð hefur verið í Skagafirði undanfarnar vikur og spretta verið afar góð. Heyannir hafa verið eftir því og er nú svo komið að margir bændur eru farnir í seinni slátt þótt ekki sé komið fram í ágúst. Afar sjaldgæft er að bændur hefji seinni slátt svo snemma í Skagafirði. Vigfús Þorsteinsson, bóndi í Uppsölum í Blönduhlíð, sló hána um helgina í blíðskaparveðri. Vigfús segir mikla þurrka hafa einkennt sumarið. Það hefur verið fullþurrt í sumar en það kom bleyta í dag. Það veitir ekki af regni þessa dagana.
Ágústmánuður var sérlega hlýr, en eins og áður kom úrkoma misjafnt niður. Heyskapur gekk þó almennt vel og uppskera var góð. Kortið sýnir meðalstöðuna í háloftunum í ágúst. Litirnir sýna mikil jákvæð þykktarvik við landið.
Vandræði voru við ósa Gljúfurár í Borgarfirði. Morgunblaðið segir frá 10.ágúst:
Hinn umtalaði ós Gljúfurár í Borgarfirði var loks mokaður út í fyrrakvöld og gera menn sér vonir um að þar með hefjist laxagöngur í ána fyrir alvöru, en vegna vatnsleysis og þurrka hefur áin verið talin ólaxgeng og veiði afspyrnuléleg, en ós hennar við Norðurá verður við slík skilyrði afar grunnur, varla nema í ökkla, auk þess sem mikill vatnagróður festir þar rætur. ... Ós Gljúfurár hefur lengi þótt vera til vandræða og hafa staðið veiðiskap í ánni fyrir þrifum, en aldrei sem í sumar, enda snjólaus vetur að baki og óvenju langir þurrkakaflar í sumar.
Morgunblaðið segir af góðum uppskeruhorfum 24.ágúst, sömuleiðis segir af jarðskjálfta:
Útlit er fyrir mjög mikla uppskeru á korni, kartöflum og útiræktuðu grænmeti á Suðurlandi og víðar. Byrjað er að þreskja korn, þremur vikum fyrr en venjulega, og grænmetið er sömuleiðis tíu dögum til tveimur vikum á undan því sem gerist í meðalári. Þá hefur grasspretta verið með eindæmum í sumar og í Hreppunum byrjuðu bændur á þriðja slætti í vikunni. Sumarið hefur verið hlýtt á Suðurlandi og það kemur fram í því að gras og allur annar jarðargróður sprettur óvenjuvel.
Engin slys urðu á mönnum og lítið sem ekkert eignatjón varð í jarðskjálfta upp á rúmlega 5 stig á Richter við Krísuvík um kl. 2 aðfaranótt laugardags. Fjöldi skjálfta fylgdi í kjölfarið; þar af nokkrir yfir 3 stig á Richter. Stærsti eftirskjálftinn, 3,9 stig á Richter, varð kl. 2:07. Skjálftarnir áttu upptök sín í sprungum norðvestan við Krísuvík. Stærstu skjálftarnir fundust m.a. á höfuðborgarsvæðinu, á Akranesi, á Bláfeldi á Snæfellsnesi og í Þorlákshöfn. Vistmenn meðferðarheimilisins í Krísuvíkurskóla vöknuðu við stærsta skjálftann og flúðu út undir bert loft. Þeir fundu skjálftavirknina greinilega frameftir morgni. Þá sakaði ekki. Skv. upplýsingum frá jarðeðlissviði Veðurstofu Íslands bendir ekkert til að skjálftarnir séu fyrirboðar eldgoss á svæðinu.
Ekki var aðeins hlýtt á landi, heldur einnig í sjó. Morgunblaðið 3.september, sömuleiðis segir af miklu rykmistri austanlands, en allhvass suðvestanstrengur gekk yfir landið:
Yfirborðshiti sjávar við Ísland var um 23 gráðum hærri í ágúst en að meðaltali í sama mánuði síðustu þrjátíu ár á undan. Þetta er niðurstaða mælinga Hafrannsóknastofnunar á sjávarhita sem fram fóru í ágúst.
Rykmistur ofan af hálendinu norðan Vatnajökuls lagðist yfir stóran hluta Austfjarða í suðvestlægri átt síðdegis í gær [2.]. Á skömmum tíma dró fyrir sólu en birti aftur til er líða tók að kvöldi. Einmunablíða hefur verið víða á Austfjörðum að undanförnu, logn og hiti um og yfir 20 gráður. Á tímabili var mistrið svo mikið, að sögn fréttaritara Morgunblaðsins á Neskaupstað, að skyggni var ekki nema tveir til þrír kílómetrar hið mesta. Á Eskifirði lýsti lögreglan því svo að svört þoka hefði lagst yfir bæinn og ekki verið hægt að sjá hann úr Hólmahálsinum fyrir rykmekki.
Þrátt fyrir snarpt kuldakast um og fyrir þann 20. þótti tíð í september hagstæð og lengst af var hlýrr. Vætusamt var vestanlands.
Morgunblaðið segir frá því að óvenjulítill sjór sé í Hlíðarfjalli við Akureyri 10.september:
Eftir snjólítinn vetur og hlýtt sumar er nánast allur snjór horfinn úr Hlíðarfjalli. Ívar Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður Skíðastaða í Hlíðarfjalli til 30 ára, gekk á fjallið í vikunni ásamt Stefáni Jónassyni og hann sagðist aldrei hafa séð jafn lítinn snjó á svæðinu og nú. Það var í raun alveg ótrúlegt að sjá þetta. Ívar sagðist oft hafa gengið upp á Hlíðarfjall að sumri til en aldrei við þessar aðstæður. Við skoðuðum aðstæður í Hlíðarskálinni, þar sem sjást þrjár fannir úr bænum. Það hefur verið snjóhaft í gili á milli neðstu fannarinnar og þeirrar í miðjunni. Snjórinn í gilinu er horfinn og ég stend í þeirri meiningu að slíkt hafi ekki gerst áður í minni tíð. Stefán er mér ekki sammála og ég vil nú helst ekki þræta við mér eldri menn. En ástandið er vissulega mjög sérstakt og ég hef aldrei áður farið upp á Hlíðarfjall að sumri til, að maður gangi ekki yfir fönn síðustu metrana upp á fjallið, þar sem það er lægst. Og á jöklinum upp á fjallinu er enginn snjór lengur, heldur aðeins glær ís. Ívar sagði menn hefðu verið að tala um að óhreinindin í snjónum í Hlíðarskálinni væru úr Heklugosinu 1947. Það er ekki alls kostar rétt, við fórum að skoðuðum þetta og þarna er bara drulla sem fokið hefur af fjallsbrúninni. Þeir Ívar og Stefán gengu einnig á Strýtu upp á Hlíðarfjalli, sem er í 1.450 metra hæð og sáu þaðan vel inn á fjallið Kerlingu. Norður af Kerlingu er svokallaður grjótskriðjökull og sagði Ívar að lítill ís hefði sést á honum. Ég hef aldrei séð þetta ástand þarna fyrr en það sagði mér maður sem ég hitti í sundi á dögunum að þetta ástand á svæðinu væri svipað og árið 1939.
Lægð dýpkaði snögglega fyrir sunnan land þann 12. og olli mikilli úrkomu um landið suðaustanvert. DV segir frá 13.september:
Aurskriður féllu í fyrrinótt [12.] á veginn um Þvottárskriður, milli Djúpavogs og Hornafjarðar, og lokaðist hann um tíma. Úrhellisrigning var á þessu svæði þegar skriðurnar féllu. Vegurinn var aftur orðinn fær í gærmorgun en töluverðan tíma tók að koma vinnuvélum á svæðið. Lítil hætta er á frekari skriðuföllum að sinni en spáð er rigningu á þessu svæði svo að ekki er hægt að útiloka frekari aurskriður um helgina.
Umskipti urðu í veðri þann 16. og 17. Lægð dýpkaði fyrir austan land og vindur snerist til norðurs og kólnaði verulega. Þá kom fylla af köldu heimskautalofti langt úr norðri suður yfir landið. Kortið sýnir stöðuna í háloftunum að morgni þess 18. Víða snjóaði um landið norðanvert, m.a. varð alhvít jörð á Akureyri að morgni þess 18. Síðan farið var að fylgjast reglulega með snjóhulu á Akureyri um 1930 hefur það aðeins einu sinni gert að alhvítt hafi orðið fyrr í mánuðinum. Það var 1940 að alhvítt varð að morgni þess 10. og e.t.v. líka að morgni þess 7. Nánar má lesa um það tilvik í pistli hungurdiska um árið 1940. Morgunblaðið segir frá þann 19.september:
Það var heldur kuldalegt um að litast þegar Akureyringar risu úr rekkju í gærmorgun [18.], enda farið að snjóa og jörð nánast hvít. Hitastigið fór niður undir frostmark snemma um morguninn en hækkaði örlítið þegar á daginn leið. Töluverð hálka var á götum bæjarins í gærmorgun. Fjögur umferðaróhöpp urðu fyrir hádegi sem rekja má til hálkunnar enda bíleigendur enn á sumardekkjum. Ekki urðu slys á fólki í þessum óhöppum en töluvert eignatjón. Um var að ræða tvo minni háttar árekstra og tvö tilvik þar sem bílar höfnuðu á ljósastaurum á Hörgárbraut, þar sem flytja þurfti annan bílinn af vettvangi með kranabíl.
Í kjölfarið kom mjög kalt lægðardrag úr norðvestri yfir Grænland. Háloftakortið sýnir stöðuna síðdegis þann 20. Þá var lægðin við Vestfirði á leið austur. Hún dýpkaði og olli hvassviðri um mestallt land þann bæði þann 20. og 21.
Sjávarmálskortið sýnir stöðuna um hádegi þann 21. Svalkaldur norðanstrengur liggur yfir landið. Morgunblaðið segir af þessu veðri þann 21. og 22. september:
[21.] Akureyri, Morgunblaðið: Tvær stórar greinar brotnuðu af gamalli ösp við húsið við Eyrarveg 25 í hvassviðrinu á Akureyri í gærmorgun. Önnur greinin lenti ofan á þakskegginu og rann þaðan niður og nuddaðist eftir stofuglugganum en Ólöf Jónsdóttir, eigandi hússins, segir ekki eina einustu rúðu rispaða. Ólöf telur að aspirnar í garði hennar séu með þeim allra fyrstu sem komu til Akureyrar. Það var rétt um 1950 sem fyrstu aspirnar komu til landsins frá Alaska og þá sendi mágur minn, sem vann í skógræktarstöð í Reykjavík, okkur þessar aspir norður, segir Ólöf. Aldrei hafa aspirnar skemmst fyrr og alltaf verið taldar mikil prýði. Strákarnir mínir hafa alltaf snyrt þær til og maðurinn sem býr hér fyrir sunnan götuna sagði einmitt í morgun að það væri mikill sjónarsviptir að trénu því þessar fallegu hríslur hér í Eyrarveginum hefðu verið stolt Eyrarinnar og eiginlega bæjarins. Stofn asparinnar stendur eftir um það bil hálfur, enda ákaflega sver. Það var hvassast hérna milli klukkan átta og tíu.
[22.] Talsvert annríki var hjá björgunarsveitum og lögreglu víða um land í gær þegar mikið hvassviðri gekk yfir landið en hvergi urðu slys á fólki eða alvarlegt tjón. Færð spilltist á heiðum og fjallvegum með þeim afleiðingum að ökumenn lentu í vandræðum á sumardekkjum vegna hálku. Hvassviðrið var af völdum djúprar lægðar sem myndaðist á Grænlandssundi og færðist austur fyrir land og dýpkaði um leið hratt, að sögn Theodórs Hervarssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Lægðin dró til sín kalt loft úr norðri sem myndaði þannig mikinn strekking sem gekk yfir landið. Í dag er reiknað með að vindur snúist yfir í hlýrri suðvestanátt og veðrið gangi alveg niður fyrir austan þegar líður á daginn. Búast má við éljagangi á Norðausturlandi fram undir hádegi. Um 70 björgunarsveitarmenn að störfum víðs vegar um land Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg voru alls um sjötíu björgunarsveitarmenn að störfum víðs vegar um landið í gær vegna hvassviðrisins. Björgunarsveitin Ársæll í Reykjavík var kölluð út kl. fimm í gærmorgun þegar þakplötur, vinnupallar og annað lauslegt tók að fjúka. Mest gekk á í Vesturbænum og í nágrenni Laugardals og vann sjö manna hópur björgunarsveitarmanna að því að festa niður hluti sem höfðu fokið.
Bátar losnuðu í höfnunum á Hvammstanga og Sauðárkróki, þar sem Björgunarsveitin Skagfirðingur var kölluð út kl. átta í gærmorgun eftir að stór rækjubátur sleit festar í höfninni. Björgunarsveitarmenn komust um borð í bátinn með því að nota lyftara til að stökkva um borð. Síðan gekk illa að festa bátinn og sleit hann víra og tóg hvað eftir annað og tókst ekki fyrr en á ellefta tímanum að festa hann. Bíll björgunarsveitarinnar varð fyrir skemmdum þegar hann var notaður til að draga bátinn að bryggju. Þá losnuðu smábátar og aðstoðuðu björgunarsveitarmenn við að festa þá og ausa úr þeim sjó og jafnframt að festa niður girðingar og þakplötur í bænum. Þegar mest lét voru tuttugu björgunarsveitarmenn að störfum í bænum. Á Hvammstanga var björgunarsveitin Káraborg kölluð út kl.9:30 í gærmorgun eftir að bátur losnaði í höfninni og rak stjórnlaust upp í brimið við hafnargarðinn. Björgunarsveitarmönnum tókst að komast að bátnum á björgunarbát og draga að bryggju með aðstoð vörubíls. Þakplötur fuku og bílar lentu í vandræðum á heiðum Í Vestmannaeyjum og Árborg voru björgunarsveitarmenn að störfum í gærmorgun við að festa niður fjúkandi þakplötur sem höfðu losnað og í Vestmannaeyjum fuku vinnupallar við framhaldsskólann. Um kvöldmatarleytið í gær lentu þrír bílar utan vegar í flughálku á stuttum vegarkafla í Bröttubrekku. Einn bíllinn fór á hliðina og annar valt heilan hring, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi, sem stóð í ströngu í gær.
Á Holtavörðuheiði lentu bílar í vandræðum í hálku og skafrenningi sem olli því að lítið sást fram á veginn. Bíll með erlendum ferðamönnum lenti utan vegar skömmu fyrir hádegi, en að sögn lögreglunnar í Borgarnesi virtust erlendu ferðamennirnir ekki hafa nægar upplýsingar um veður og færð og voru því illa búnir undir slíkar aðstæður. Engin meiðsl hlutust af þessu og seinnipartinn í gær skánaði færðin á heiðinni þegar veðrið gekk niður. Rafmagnslaust var frá klukkan sjö í gærmorgun fram til klukkan eitt á Ísafirði en vonskuveður var á svæðinu. Bilun varð í Mjólkárlínu þegar henni sló út vegna hvassviðris og voru vararafstöðvar ræstar. Bíl var ekið út af Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði um kl.11 í gærmorgun í snjó og krapa. Ökumaður var einn í bílnum ásamt hundi sínum en þá sakaði ekki. Bíllinn var dreginn upp á veg og reyndist óskemmdur. Á Suðureyri við Súgandafjörð fauk laust fótboltamark á bíl um kl. hálftvö í gær en bíllinn stóð á bifreiðastæði við fjölbýlishús. Bíllinn var mannlaus og engan sakaði en talsverðar skemmdir urðu á bílnum. Björgunarsveitin á Suðureyri kom á vettvang og festi markið niður. Þá valt bíll út af veginum um Langadal um fjögurleytið í gærdag vegna krapa á veginum. Meiðsl á fólki reyndust minniháttar en töluverðar skemmdir urðu á bílnum. Á Akureyri brotnuðu þrjú tré í hvassviðrinu í gær en nokkur tré brotnuðu einnig í bænum í fyrradag. Færð um Öxnadalsheiði var ágæt og þurfti lögreglan ekki að aðstoða fólk í umferðinni.
Morgunblaðið segir af hrakningum fugla í hretinu í pistli 23.september:
Norðanstorminum, sem gekk yfir landið um helgina, fylgdi annars konar ofankoma en snjór og slydda. Að sögn Jóhanns Óla Hilmarssonar hjá Fuglaverndarfélagi Íslands sáu menn sem voru á ferð um Húnaþing á sunnudag til fjölda haftyrðla allt frá Langadal og vestur í Hrútafjörð. Þessir smávöxnu sjófuglar voru ýmist að berjast gegn norðanáttinni á leið til hafs eða sátu á tjörnum og lækjum. Jóhann Óli telur líklegt að þúsundir haftyrðla hafi hrakið á land í rokinu. Ráð sé fyrir fólk sem finni þá ósjálfbjarga inn til landsins að koma þeim til sjávar. Búast megi við þeim hvar sem er á landinu, en dæmi eru um að sést hafi til haftyrðla í uppsveitum Árnessýslu um helgina.
Október var hagstæður, þótt umhleypingar væru nokkrir. Morgunblaðið segir af Skaftárhlaupi 6.október:
Skaftárhlaup hófst á hádegi á laugardag [4.] að því er talið er og náði hámarki við Sveinstind síðdegis í gær. Rennsli við Sveinstind, sem er um 17 km frá jökulrönd Skaftárjökuls, var rúmlega 161 rúmmetrar á sekúndu klukkan 16 en lækkaði í 156 rúmmetra á sekúndu klukkan 17:30. Ekki er vitað úr hvorum katlinum hlaupið er, en talið er að hlaupið sé minniháttar.
Lægð dýpkaði vestur af landinu þann 7., en fór hratt austur fyrir. Morgunblaðið segir frá 8.október:
Mjög hvasst veður gerði á landinu í gær [7.]. Björgunarsveitin Ársæll var kölluð út til að aðstoða fólk á höfuðborgarsvæðinu sem var í vanda. Vilhjálmur Halldórsson björgunarsveitarmaður segir stórt tré hafa fokið á hliðina í Sigtúni. Var talin hætta á að það félli inn um glugga. Þá fuku þakplötur af tveimur húsum og byggingarefni við Þjóðminjasafnið fór á flug. Konan á myndinni barðist við vindinn og varði barn sitt í vagninum.
Tíð var enn hagstæð í nóvember, en heldur var samt svalara. Morgunblaðið segir 4.nóvember af heyskap sumarsins. Kvartanir voru af óvenjulegu tagi. Rétt eins og bændur hafi ekki varað sig á óvenjuhagstæðri sprettutíð snemma sumars og því látið grasið spretta úr sér. Þar að auki hefðu veðurfræðingar platað þá með rangri veðurspá föstudaginn 20.júní, spáð bestu helgi sumarsins, en þess í stað hafi hellirignt. Erfitt er að sjá hvað átt er við, því lítil úrkoma mældist á landinu þann 21. og 22.júní (helgardagana) - en nokkuð síðdegis þann 19. og aðfaranótt 20. En Morgunblaðið segir:
Gæði heysins sem bændur á Vesturlandi slógu og hirtu eftir 20. júní síðastliðið sumar voru lítil, segir Laufey Bjarnadóttir, héraðsráðunautur Vesturlands. Rannsóknir á efnainnihaldi heysins sýna að þau hey sem náðust fyrir þann tíma eru hins vegar mjög góð. Laufey segir ástæðuna meðal annars þá að bændur hafi slegið sín bestu tún rétt fyrir föstudaginn 20. júní, þar sem helgin hafði gengið undir heitinu besta helgi sumarsins hjá veðurfræðingum. Ætluðu þeir að fá sín orkumestu og próteinríkustu hey. Við vitum að það rigndi laugardag og sunnudag þegar það átti að vera sól og blíða. Það gerði það að verkum að þessi hey, sem rigndi ofan í, töpuðu mjög miklu næringargildi, segir Laufey. Ekki aðeins féll næringargildi heysins mikið heldur rigndi á meðan hlýtt var í veðri svo þau urðu ólystug fyrir mjólkurkýr. Þetta átti að vera besta heyið þeirra og uppistaðan í fóðrinu í vetur en er svona hrapallega lélegt, segir Laufey. Hún veltir upp þeirri spurningu hve fjárhagslegur skaði bænda sé mikill vegna rigningar þessa helgi. Orkugildið sé minna og próteinið líka. Bóndinn þurfi að kaupa meira kjarnfóður og kýrnar éti heyið illa. Þá mjólka þær minna nema þeim sem sé bætt orkutapið með aðkeyptu fóðri.
Ingvar Björnsson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, segir hey sumarsins heldur minni að gæðum en í fyrra. Það hafi vorað snemma og grasið sprottið hratt. Við það tapaði heyið orku en próteinmagn var ágætt. Bændur þurftu að vera á varðbergi og slá sérstaklega snemma, segir Ingvar sem fylgist með heyfeng á Norðausturlandi. Þeir hefðu þurft að fara hálfum mánuði fyrr af stað í ár en í meðalári. Þau eru samt ágæt heyin. Runólfur Sigursveinsson hjá Búnaðarsambandi Suðurlands segir heyin sem hirt voru í sumar breytilegri að gæðum en mörg undanfarin ár. Margir bændur hafi ekki náð að slá á kjörtíma sem hafi verið síðustu tvær vikurnar í júní. Það hafi aðallega verið vegna veðráttunnar. Það var mjög góð sprettutíð en erfitt að eiga við heyöflunina, sagði Runólfur. Það er meira um lakari hey, sérstaklega á austurkanti svæðisins og austan Mýrdalssands. Þar er augljóst að heyöflun var mjög erfið og við sjáum greinilegan mun þar. Í Rangárvalla- og Árnessýslum er meiri breytileiki innan bæja. Bændur eru með nokkuð gott fóður að hluta til en kannski lakara fóður með.
Fréttir [í Vestmannaeyjum] segja af þrumuveðri 6.nóvember:
Mikið þrumu- og vatnsveður gekk yfir Heimaey aðfaranótt miðvikudags [5.]. Ótti við eldgos virðist blunda í fólki því mörgum var brugðið þegar atgangurinn hófst upp úr klukkan eitt um nóttina. Nokkrir höfðu samband við Neyðarlínuna og sögðu eyjuna skjálfa en aðrir höfðu samband við lögreglu til að leita frétta. Vöknuðu margir upp við feikna drunur í fjöllum og mikinn ljósagang og var bjart eins og miðjan dag. Þeir foreldrar sem sváfu hamaganginn af sér vöknuðu sumir hverjir upp um morguninn og allur barnaskarinn kominn upp í. Þessu fylgdi mikil úrkoma, haglél, snjór og rigning eins og hellt væri úr fötu. Ragnar Baldvinsson, slökkviliðsstjóri, segir að flætt hafi inn í Lundann en tjónið verið smávægilegt. Við dældum vatni úr kjallaranum og það flæddi aðeins inn í Áhaldaleiguna, Fjölverk og önnur hús. Það er hins vegar ekki rétt að slökkviliðið hafi verið ræst út.
Eflaust hafa jarðskjálftarnir, sem komu fram á jarðskjálftamælum aðfaranótt sunnudags [2.], eitthvað setið í fólki. Upptökin reyndust vera tæpa 6 kílómetra norðvestur af Heimaey en skjálftamir voru svo vægir að fólk fann þá ekki. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands - jarðskjálftadeild mældust skjálftar í ágúst á 17 kílómetra dýpi rétt vestur af Eyjum eða á svipuðum slóðum og skjálftarnir komu fram núna. Skjálftarnir gætu tengst hræringum í Kötlu en gosbeltið nær suður gegnum Mýrdalsjökul og til Vestmannaeyja. Það virðist vera aukin virkni við Heimaey en þetta eru skjálftar á miklu dýpi norðvestur af Heimaey, segir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur. Þegar maður ber þetta saman við skjálftana sem voru á undan gosinu 1973 þá voru þeir beint undir Heimaey sólarhring á undan og svo stuttu áður en gosið hófst. Þeir skjálftar voru miklu grynnri en þeir sem nú mældust og á þeim tíma var mjög lítið um mælitæki og við fengum allar upplýsingar miklu seinna. Ragnar bendir á að í dag séu notuð miklu öflugri mælitæki sem gefa nákvæmari upplýsingar. Skjálftarnir núna voru vægari og við sæjum strax ef þeir yrðu grynnri. Það er óvenjulegt að það verði skjálftar á þessu svæði og þar af leiðandi aukum við eftirlitið en það hefur ekki orðið neitt framhald á þessu. Við erum með sjálfvirkt kerfi sem segir okkur hvort skjálftar séu að aukast og veðurfræðingur, sem er á vakt allan sólarhringinn, fylgist með og ræsir út jarðskjálftafræðinga ef einhverjar breytingar verða. Ef við teljum einhverja hættu á ferðum höl'um við samband við Almannavarnir. Mér finnst vera tvennt í þessu sem skiptir miklu máli, jarðskjálftarnir núna voru ekki beint undir eynni heldur úti í sjó og þeir voru ekki eins sterkir eins og fyrir gosið 1973.
Allmikil úrkoma var sumstaðar austan- og suðaustanlands í kringum þann 5. Lægðir ollu þá suðaustlægum áttum. Þá var einnig um tíma allmikil úrkoma norðan til á Vestfjörðum, en var mjög misskipt. Morgunblaðið segir frá 8.nóvember:
Mikið flóð myndaðist í Jökulsá í Fljótsdal í gær, rétt innan við Valþjófsstað, og vatnsborð Lagarfljóts hækkaði verulega. Starfsmenn RARIK opnuðu framhjáhlaupslokur rétt innan við Lagarfossvirkjun til þess að hleypa út vatni og voru þær hafðar opnar í gærdag. Stöðva varð framkvæmdir við Fáskrúðsfjarðargögn í um þrjá tíma í Reyðarfirði í gærmorgun vegna vatnsflóðs en skemmdir voru ekki taldar miklar. Þá ruddi vatnsflaumur niður varnargarði ofan við búðir starfsmanna Fosskrafts, verktakans sem vinnur að gangagerð fyrir stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar í Teigsbjargi. Komust starfsmenn ekki í vistarverur sínar um tíma en engin hætta var sögð á ferðum. Einhverjar skemmdir urðu þó á vinnubúðum. Fært var orðið um alla helstu vegi á Austurlandi í gærkvöld enda hafði stytt þar upp. Nokkur hætta var talin á skriðuföllum á suðurfjörðum og í Reyðarfirði. Hliðarvegir innst inni í Fljótsdal voru þó enn í sundur síðast þegar fréttist. Vatnsborð Jökulsár á Dal, eða Jöklu eins og áin er gjarnan nefnd, hækkaði einnig nokkuð í gær vegna hlýindanna. Sem kunnugt er verður áin stífluð við Fremri-Kárahnjúk og vegna leysinganna fylgdust starfsmenn Impregilo grannt með varnargörðum í ánni í gær, við munna hjáveituganganna. Að sögn Ómars R. Valdimarssonar, talsmanns Impregilo, var fleiri dælum komið fyrir aftan við varnargarðana, sem eru í 458 metra hæð yfir sjó á meðan Jökla er á þessum slóðum almennt í um 451 metra hæð. Rennsli árinnar var í gær um 250 rúmmetrar á sekúndu. Ómar segir að ekki hafi þótt ástæða í gær til að hækka varnargarðana. Vegna leysinga og hálku á vegum hafa ferðir starfsmanna um virkjanasvæðið, og frá því, verið takmarkaðar. Ómar segir þetta vera gert af öryggisástæðum og þurfa starfsmenn að gefa sig fram við öryggisfulltrúa Impregilo ætli þeir sér að ferðast á milli staða. Stöðva varð framkvæmdir við Fáskrúðsfjarðargöng í um þrjár klukkustundir í gærmorgun vegna vatnsflóðs Reyðarfjarðarmegin og tók það starfsmenn Ístaks einn til tvo klukkutíma að ná að hemja flóðið. Að sögn Ásgeirs Loftssonar hjá Ístaki grófst undan skrifstofu fyrirtækisins og þá fór vatn umhverfis vinnubúðir starfsmanna. Eitthvað af fyllingu vegarins Reyðarfjarðarmegin skolaðist út í sjó en Ásgeir taldi þó að tjónið væri minniháttar. Unnið var að því að keyra í veginn sem fór í sundur í gærkvöldi.
Tvö fjölbýlishús í Seljalandshverfi við botn Skutulsfjarðar á Ísafirði voru rýmd um fimmleytið í fyrrinótt vegna hættu á aurflóði í kjölfar mikillar úrkomu, en íbúar húsanna eru alls 45. Vel gekk að rýma húsin og gistu flestir íbúanna á hóteli og fengu að snúa aftur í húsin um kl. 11 í gærmorgun, eftir að hættuástandi var aflýst. Almannavarnanefnd hélt fund klukkan fjögur aðfaranótt föstudags og var ákveðið í framhaldinu að rýma fjölbýlishúsin tvö. Húsin standa við Múlaland en þar fyrir ofan standa yfir framkvæmdir við gerð snjóflóðavarnagarðs. Þar hefur miklu efni verið komið fyrir til að gera fláa á garðinn og í mikilli rigningu er talin veruleg hætta á að stór hluti þessa efnis geti runnið af stað.
Undanfarin ár hafa komið upp vandamál við flatir á ýmsum golfvöllum hér á landi. Þannig berjast Oddsmenn við skemmdar flatir á nýrri helmingi vallar síns. Eldri flatirnar hjá Keili voru slæmar í fyrravor og í sumar voru flatirnar á Akureyri ekki upp á það besta. Ástæður þess að flatir á einum velli eru með besta móti á meðan flatir á næsta velli við hliðina eru nær ónýtar, eru margvíslegar. Einn helsti vágesturinn er sveppasýking sem fusairium-sveppurinn veldur í flötunum. Hann lifir og dafnar þar sem rakinn er mikill og lítið súrefni. Slíkar aðstæður myndast í flötum á haustin og því þarf að bregðast við með því að lofta betur um flatirnar og reyna að halda þeim eins þurrum og hægt er. Sveppur þessi þekktist vart hér á golfvöllum fyrir nokkrum árum en með breyttu veðurfari hefur hann hreiðrað um sig hér. Edwin Rögnvaldsson golfvallahönnuður segir að sveppur þessi sé þekktur í Bretlandi og nú sé veðurfarið hér á haustin að verða svipað og í Skotlandi.
Um tíma héldu menn að tjón sem varð í Urðarvita í Vestmannaeyjum þann 5. væri af mannavöldum, en svo var þó ekki. Morgunblaðið segir frá 20.nóvember:
Vestmannaeyjum, Morgunblaðið. Komið hefur í ljós að skemmdirnar á Urðarvita í Vestmannaeyjum fyrir skömmu voru ekki af mannavöldum heldur náttúrunnar. Þrír starfsmenn Siglingastofnunar komu til Eyja og staðfestu þeir að elding hafi laskað vitann. Sigurður Sigurðarson, einn starfsmannanna, sagði að aðkoman hafi verið heldur ljót. Glerið var allt sprungið utan af, um er að ræða fjórtán millímetra plexigler sem var í molum og það hefði enginn brotið nema með mjög öflugu verkfæri. Auk þess sagði Sigurður að glerið hafi allt sprungið út. Rafmagnstöflurnar voru allar ónýtar og raunar í frumeindum og slíkur hefur krafturinn verið að spennistöð fyrir vitann sem er í um kílómetra fjarlægð skemmdist einnig. Hurðin var gengin út að neðan og nokkur brunagöt voru á klæðningunni. Við teljum okkur vita hvar eldinguna sló niður og er þar járnstykki bráðnað. Aðspurður hversu mikið tjónið er sagði Sigurður ómögulegt á þessari stundu að nefna einhverja tölu. Þeir ætla þó ekki að vera lengi að koma honum aftur í gagnið. Það tekur okkur um tvo daga að laga hann. Við verðum að flýta okkur, það eru 140 vitar um allt land sem við þurfum að laga og það er nóg að gera í því. Sigurður sagði að í sjálfu sér geti menn hrósað happi yfir eldingunni. Þá er alla vega hægt að útiloka skemmdarverk af mannavöldum og ég segi nú sem betur fer, sagði Sigurður. Það voru fleiri sem urðu varir við eldingar þessa nótt. Sigurður Alfreðsson var á vakt í Sorpu aðfaranótt 5. nóvember þegar ósköpin dundu yfir. Það var búið að vera mikið um þrumur þessa nótt en um hálftvö var eins og jarðskjálfti hefði riðið yfir. Húsið lék á reiðiskjálfi og gríðarlegur hávaði sem fylgdi með. Það sló öllu strax út og það blossaði út úr rafmagnstöflunni hjá okkur. Sigurður sagði að eftir eldingarnar hafi fylgt gríðarleg úrkoma, fyrst rigning og svo haglél. Ég brunaði niður í bæ og það sullaði upp úr öllum niðurföllum sem höfðu ekki undan ósköpunum. Spurður um skemmdir á Sorpu sagði hann að eldvarnarkerfið hefði eyðilagst hjá þeim sem og eftirlitsmyndavélar. Það vantar hreinlega stykki í brettið inni í eldvarnarkerfinu og það er allt brunnið yfir.
Hagstæð tíð, en nokkuð umhleypingasöm var í desember. Tíðindalítið. Þó gerði nokkuð snarpt hríðarveður suðvestanlands þann 29. og olli það umtalsverðum umferðartöfum. Lægð dýpkaði skammt fyrir vestan land og henni fylgdi hægfara snjókomubakki sem lá yfir Reykjavík um stund. Að morgni 30. mældist snjódýptin 21 cm.
Morgunblaðið segir frá þann 30.:
Talsverðar tafir urðu í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í gær [29.], en hríðarbylur geisaði fram undir hádegi og skóf mikið í skafla á gatnamótum, hringtorgum og bílastæðum. Bílar voru stopp víða um borgina í gær og ollu þeir talsverðum töfum þar sem þeir sátu fastir á götunum og töfðu auk þess snjómokstur. Ekki var mikið um óhöpp af völdum kyrrstæðra bíla og segir Lögreglan í Reykjavík fjölda slysa eins og á meðaldegi. Lögreglumenn vildu ekki meina að bílar væru verr búnir nú en áður, færð hafi spillst fljótt og ekki orðið verri í langan tíma.
Hér lýkur yfirferð hungurdiska um tíð og veður ársins 2003. Margskonar tölulegar upplýsingar má að vanda finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.5.): 270
- Sl. sólarhring: 329
- Sl. viku: 1453
- Frá upphafi: 2464959
Annað
- Innlit í dag: 257
- Innlit sl. viku: 1265
- Gestir í dag: 245
- IP-tölur í dag: 237
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning