6.2.2025 | 21:26
Stöðvarfjörður
Mikið illviðri hefur gengið yfir landið undanfarna daga, einkum í gær (miðvikudag 5.febrúar) og í dag (fimmtudaginn 6.). Svo virðist sem einna mest tjón hafi orðið í Stöðvarfirði. Meðan við bíðum eftir því að allar tölur berist á ritstjórnarskrifstofu hungurdiska (og veðrametingur geti hafist þar) skulum við rifja upp fáein illviðri sem komið hafa við sögu í firðinum. Til að fletta notar ritstjórinn atburðaskrá hungurdiska - töflu sem hann tók saman fyrir um áratug. Unnið hefur verið að þéttingu skrárinnar á undanförnum árum, en lítið er þar þó um nýlega viðburði. Ritstjóranum finnst einhvern veginn að önnur nörd (eða jafnvel opinberir aðilar) geti þar bætt um betur - en e.t.v. hefur enginn eða ekkert áhuga á slíkri vinnu.
Hvað um það. Ekki er mikið um illviðratíðindi frá Stöðvarfirði fyrr en um miðja síðustu öld. Ekki er þó hægt að ætla að þar hafi verið illviðralaust með öllu því við eigum til prýðilega lýsingu á vindum í firðinum. Höfundur hennar er séra Magnús Bergsson sóknarprestur í Stöð og er hún dagsett á gamlársdag 1839 (nálgast 200 árin). Magnús var því fljótur að svara tilmælum sem Hið íslenska bókmenntafélag beindi til klerka víðs vegar um land. Voru þessi tilmæli í spurningaformi. Beðið var um lýsingar á sóknum og háttum manna. Átta spurningar voru sérstaklega um veður. Svör Magnúsar eru meðal þeirra ítarlegustu í safninu.
[Kortaklippunni er stolið af vef danska þjóðskjalasafnsins. Það kom út í Frakklandi 1833].
Við rifjum hér upp svar Magnúsar við 22. spurningu í lista félagsins - og dáumst að orðfæri hans [xxii: Er þar veðrasamt? Og af hvörri átt og um hvörn tíma árs, mest eður minnst?]:
Í hreinni landátt er sveitin að kalla veðrasæl því sögn manna er að þar sjaldan sem aldrei komi stórveður af norðri, því er þar oft blíðalogn eða lítil kylja af þessari átt þegar í sveitunum hvoru megin, einkum Breiðdal, er grenjandi gustur af norðri. Hér leiðir það líka að í snjóvatíð rífur þar aldrei til jarðar, þar einungis þotvindur setur snjóinn í harðfennisfergjur, og yfir höfuð oftast í hörðustu vetrum minnstir landvindar.
Af hafaustri, austri, norðaustri, norðri og vestri koma þar engin veður er telja megi en af suðri, eður öllu fremur landsuðri, koma þar veður hin ógurlegustu, það standa stundum af miðjum fjöllunum sunnan megin fjarðarins og eru þá hörðust út í sveitinni en stundum standa þau fyrir andnes sömu fjalla; standa þau þá inn fjörð og eru hörðust á innsveitinni. Harka og afl þessara veðra framúrskarandi og ógurlegt, þau taka fjörðinn frá ysta til innst í einlægt rok upp á móts við tinda, flytja stundum steina úr stað, sem eru meðalmanns tak, rykkja jafnvel hálffreðnum þökum af húsum, kippa króm og hjöllum frá veggjum og endog rífa naglföst borð af húsræfrum. Um afl og óstjórn veðra þessara eru margar sögur, sem ótrúlegar virðast mættu, hvörra hér verður ei getið. Af því þetta ætíð eru þíðuveður fylgist og með þeim áköf stórrigning er eykst af vatnsdrífi því sem stormurinn með sér flytur, endog upp til dala, svo að þó áfrör og snjóar liggi á jörðu verður á skömmum tíma öríst. Þetta eru kölluð landsynningsveður og stendur á þeim dægrið, hálft annað og mest tvö dægur í senn, oftar linnir þeim upp á þann máta að hann snýr sér til norðvesturs og skírist þá loftið, en oft stendur ei nema litla stund á hvíld þeirri, mest tvo til þrjá daga.
Líka ber við að af norðvestri koma veður sem lítið gefa eftir landsynningnum að hörku nema hvað þau jafnvel fara fram með enn sviplegri rykkibyljum. Þessi veður eru oftast milli frosts og hláku en og stundum frostveður, en þó ber við að þau hafa snjóburð með sér. Þessi norðvestanveður sýnast því að vera sama átt sem landsynningur því á þeim stendur skamma stund og þegar hann gengur úr þeim gengur upp með landsynningsveðrið; sjaldan eru landsynningsveður nema í bestu vetrum en það er merkilegt að þau byrja með hausttímanum og hætta með vortímanum. Þeirra verður aldrei vart á sumri og það er ei þó hann sé að sunnan og útsunnan enda mundu þau þá og gjöra bráðan og óbætanlegan skaða á heyjum og fleiru.
Vafalítið má telja að þessi lýsing séra Magnúsar eigi enn vel við vindafar í firðinum - geri aðrir betur.
Síðan segir fátt af vindum í Stöðvarfirði fyrr en tjóns í hvassviðri er getið árið 1956. Þann 1. febrúar það ár gerði aftakaveður á landinu - um það má lesa í sérstökum pistli hungurdiska. Þar á meðal er stutt frétt um tjón í Stöðvarfirði:
Tíminn 3.febrúar 1956: Stöðvarfirði í gær. Í fárviðrinu í fyrrinótt urðu talsverð spjöll í Stöðvarfirði. Á Háteigi, sem er sveitabýli í firðinum fuku fjárhús og hlaða. Missti bóndinn þar talsvert af heyi og varð fyrir tilfinnanlegu tjóni. Það verður þó að teljast mikil heppni, að kindur, sem voru í fjárhúsinu sakaði ekki. Stóðu þær allar eftir lifandi í fjárhústóftunum, þegar húsin sjálf höfðu fokið ofan af þeim. Í Stöðvarfirði var veðrahamurinn mestur eftir hádegi í fyrradag og lengi nætur í fyrrinótt.
Næstu stórfréttir af foki í firðinum urðu haustið 1963. Þá gerði annað aftakaveður sem hungurdiskar hafa líka fjallað um sérstaklega. Við rifjum hér upp frásögn Morgunblaðsins sem birtist 26. október:
Stöðvarfirði, 25.október. Á miðvikudaginn [23.] brast hann á með sunnan- og suðvestan roki. Annað eins veður hefur hér ekki komið í mörg ár. Fuku margar járnplötur af húsum og þrír bátar, sem lágu á legunni sukku. Það voru 2 trillubátar og einn 9 tonna dekkbátur. Kafari var fenginn frá Norðfirði og vann hann að því í dag að ná dekkbátnum upp. Haft er eftir kafaranum, að bátnum hafi hvolft, því bæði möstrin væru brotin. Síðdegis i dag tókst að ná dekkbátnum upp og var hann talsvert skemmdur. Trillubátunum tókst að ná upp í gær. Það verk unnu eigendur þeirra með aðstoð hjálpfúsra. Bátarnir voru lítið skemmdir. Tíðarfar hefur verið fjarska umhleypingsamt í haust, en sumarið var yfirleitt ágætt. Stefán.
Árið 1972 varð stórtjón vegna sjávargangs á Austurlandi - þar á meðal í Stöðvarfirði. Frá þessu veðri er sagt í samantekt hungurdiska um árið 1972. Í fregnum frá Stöðvarfirði er tekið fram að ekki hafi verið tiltakanlega hvasst þegar sjávarflóðið varð. Við látum því nægja að vísa í fyrri pistil - þar er lýsing á aðstæðum.
Í mars 1976 varð tvisvar foktjón í Stöðvarfirði, fyrst þann 5. og síðan þann 21. Djúpt virðist á fregnum af þessu tjóni í blöðum, við vitnum hér í smáklausu í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Þar segir: [5.] urðu allmiklar skemmdir á húsum í Stöðvarfirði, járn fauk af þökum og þak fauk í heilu lagi, og [21.] skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum i Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Járn fauk af húsum og vinnupallur fauk. Kannski var fréttamat annað heldur en nú er.
Foktjón varð einnig tvisvar á Stöðvarfirði í desember 1982, þann 1. og 19. Fyrra veðrið var þar mun verra en hið síðara (en það síðara mun verra á landsvísu): Morgunblaðið segir frá 2.desember 1982:
Stöðvarfirði, 1.desember. Sunnan óveður gekk yfir Stöðvarfjörð í dag og urðu miklar skemmdir á húsum og bílum. Hvessa tók upp úr hádegi, en verst var veðrið um klukkan 16:00. Þakjárn fauk af mörgum húsum, stór hurð fauk af frystihúsinu og einnig fauk hurð af skemmu við síldarbræðsluna. Bílar fuku út í skurði og einnig brotnuðu rúður í nokkrum bílum og rúða brotnaði í barnaheimilinu og voru börnin send heim. Veðrið gekk fljótt yfir og um sexleytið í dag var farið að lygna aftur. Ekki er vitað um heildartjón i bænum, en ljóst að tjón hefur orðið talsvert. S.G.
Ekki þurfti að bíða mörg ár eftir næsta foktjóni á Stöðvarfirði, Morgunblaðið segir frá 4. febrúar 1986:
Stöðvarfirði, 27.janúar. Aðfaranótt sunnudagsins 26. janúar. sl. varð þó nokkurt tjón í suðaustan roki á Stöðvarfirði. Félagar úr Björgunarsveitinni Björgólfi voru fyrst kallaðir út skömmu eftir miðnætti, en þá höfðu m.a. fokið járn- plötur af húsum, rúður brotnað og ýmislegt fleira gengið úr lagi. Um kl.2 hafði verið lokið við lagfæringar á helstu skemmdunum og var þá mikið farið að lægja. Bjuggust flestir við því að eiga náðugar stundir það sem eftir lifði nætur. En það var bara lognið á undan storminum því um kl.5 sömu nótt hvessti hann aftur. Var áttin þá austlægari og sýnu hvassara en í fyrra áhlaupinu. Fyrst fauk stór hluti útihúsa og í sömu rokunni þeyttist lítill árabátur 2300 m og gjöreyðilagðist. Höfðu þó festingar hans verið treystar fyrr um nóttina. Brak úr útihúsunum mun hafa skemmt 2 íbúðarhús og bíl, en rúður brotnuðu í nokkrum farartækjum. Mesta tjónið varð þó við höfnina, en þar skemmdust 2 bátar, sem stóðu uppi á landi. Tókst þó að afstýra frekara tjóni með dyggri framgöngu smábátaeigenda og björgunarsveitarmanna, sem voru á þönum þar til veðrið fór að lægja. Ekki urðu teljandi skemmdir á smábátum þeim, er voru á floti í höfninni. Félagar úr björgunarsveitinni unnu allan sunnudaginn meðan að birtu naut við að tína saman járnplötur og hreinsa til eftir óveðrið. Steinar.
Á þessari öld er þess tvívegis getið í atburðaskránni að gámar hafi fokið í Stöðvarfirði og valdið skemmdum. Það var 6.janúar 2002 og 6.nóvember 2011.
Við látum þessa upprifjun duga að sinni.
Vitnað var í: Múlasýslur: Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1874, Reykjavík, Sögufélagið, 2000, s.447-448
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:04 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.2.): 17
- Sl. sólarhring: 358
- Sl. viku: 3026
- Frá upphafi: 2441042
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 2659
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning