Leitilausi hitinn - og fleira (endurtekið) efni

Á nýársdag litum við hér á hungurdiskum á línurit sem sýndi ársmeðalhita í Stykkishólmi á árunum 1798 til 2024. Þar kom vel fram hversu mikið hefur hlýnað á þessu tímabili. Leitnin á því línuriti er heldur meiri heldur en ritstjórinn reiknaði fyrst fyrir um 25 árum. Þá tók hann sig fyrst til og dró leitnina frá árshitanum og fékk út nýja hitaröð, leitislausan hita. Hann hefur síðan haldið uppteknum hætti (án þess þó að breyta þeirri leitni sem þá reiknaðist). Við höfum áður litið á myndina hér að neðan, en hún hefur nú verið uppfærð til loka ársins 2024.

w-blogg120125a

Kosturinn við að nema á brott hina almennu leitni er helst sá að köld og hlý tímabil koma vel fram - eitthvað sem við getum kannski frekar tengt „náttúrulegum“ breytileika, án þeirrar miklu hlýnunar sem nú á sér stað í heiminum. Hlýskeiðin þrjú síðustu 200 árin rúm koma fram á „jafnréttisgrundvelli“ 0g kuldaskeiðin sömuleiðis. Við sjáum aðeins í endann á því fyrsta, kannski stóð það frá því um 1780 og fram yfir 1815 (við vitum það ekki glöggt, sjá þó gamlan hungurdiskapistil). Næsta kuldaskeið varð mjög langt, stóð frá því seint á sjötta áratug 19.aldar rétt fram yfir 1920, 60 ár rúm. Þriðja kuldaskeiðið stóð síðan frá 1965 þar til því rétt um aldamótin síðustu. 

Við skulum hafa í huga að sá mikli breytileiki sem er sjáanlegur frá ári til árs á fyrri hluta tímabilsins getur verið tvenns konar. Annars vegar er hann alveg raunverulegur, breytileiki er meiri á kuldaskeiðum heldur en hlýskeiðum, en á tímabilinu fyrir 1850 kann að vera að skýringuna sé að einhverju leyti að finna í því hvernig hitaröðin er búin til - breytileikinn sýnist heldur meiri en hann í raun og veru var. Enginn sérstakur efi er þó á því að aðferðin finnur köld og hlý ár - og tímabil. 

Enga reglu er að sjá, jú, það skiptast í raun og veru á köld og hlý tímabil á mjög eindreginn hátt, en lengd þeirra er óregluleg. Við getum alla vega ekki með nokkru móti búið til einhverja reglubundna sveiflu sem gengur í gegnum allt línuritið. Hér má líka nota tækifærið til að benda á að þau línurit sem veifað er á netinu og kennd eru við AMO eða AMV eru líka leitnilaus - rétt eins og þetta, hinni almennu hlýnun er þar sleppt til þess að sú sveifla sem sýna á sjáist betur. AMO línuritum ber ekki saman við þetta línurit nema á stuttu skeiði. 

Það sem við einnig sjáum er að hverju kulda- og hlýskeiði um sig má skipta í styttri tímabil. Tíuárakeðjan sem hér er notuð gerir það fyrir okkur (ef við notuðum t.d. 7 eða 15 ára keðjur í staðinn kæmi skipting eftir þeim tímaalengdum einnig í ljós). Alvarlegasti hikstinn í fyrsta hlýskeiðinu kom fram á árunum 1834 til 1836. Þá komu nokkur mjög köld ár með miklum hafís inn í hlýja skeiðið. Almennt má segja að þetta fyrsta hlýskeið hafi verið aðeins öðru vísi en þau síðari að þessu leyti. Hafís var meiri - og þótt vetur, vor og sumur væru hlý var mjög lítið um hlý haust - sjálfsagt er það eins og flest annað tilviljun. 

Næsta hlýskeið var lengst á vetrum, sumar- og hausthlýindi hófust síðar en vetrarhlýindi og sumarhlýindunum lauk mun fyrr en öðrum hlýjum árstíðum. Mesti hiksti í þau hlýindi kom fram á árunum 1948 til 1953. Héldu þá sumir að hlýskeiðinu væri lokið. Sumarhlýindum var að vísu lokið (að mestu), en vetrarhlýindin (sérstaklega) héldu síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. 

Nýliðið ár, 2024, er alvarlegasti hiksti sem komið hefur í núverandi hlýskeið, en við „njótum“ auðvitað hinnar undirliggjandi hlýnunar. Meðalhiti í Stykkishólmi 2024 var 3,7 stig, en án þessarar undirliggjandi hlýnunar hefði hann verið 2,4 stig - og e.t.v. enn lægri hefði þá hafís verið við land - sem er líklegra við 2,4 stig heldur en 3,7. 

w-blogg120125e

Næst lítum við á breytingu hitans í Stykkishólmi frá ári til árs. Þar sést vel hinn mikli breytileiki á 19. öld. Ákveðin breyting virðist verða 1892. Það heyrðist sagt að það hefði verið síðasta harðindaárið - í gömlum stíl. Síðan hefur breytileikinn almennt verið minni, en hann kemur fram þegar kalt ár fylgir hlýju - eða öfugt. Síðasti mikli toppurinn var á milli áranna 2015 og 2016, þegar mjög hlýtt ár fylgdi fremur köldu. Áberandi lítill breytileiki var í kringum aldamótin og sömuleiðis upp úr 1920.

w-blogg120125c

Munur á hlýjasta og kaldasta mánuði ársins hefur einnig farið minnkandi, eins og myndin að ofan sýnir. Munurinn er mestur þegar sérlega kaldir vetrarmánuðir sýna sig, eins og 1859, 1881 og 1918. Síðari tveir veturnir fengu báðir viðurnefnið „frostaveturinn mikli“ og sá 1859 var helst kallaður „álftabani“. Munurinn er hins vegar sérlega lítill þegar vetur er hlýr, en sumar svalt, eins og var t.d. 1851 og 1922. Á síðari árum var þessi munur minnstur árið 2015. Við megum taka eftir því að á fjórða áratug síðustu aldar, um og upp úr 1930 var ársspönnin meiri en verið hefur síðan, fór t.d. yfir 16 stig árið 1936 - þótt á hörðu hlýskeiði væri. 

w-blogg120125b

Síðasta mynd dagsins segir frá hitaflökti frá degi til dags í Stykkishólmi. Þær tölur höfum við aftur til 1846 og getum reiknað mun á morgunhita frá einum degi til annars og meðaltal ársins. Það er athyglisvert að þetta flökt er meira á kuldaskeiðum heldur en hlýskeiðum. Fáein ár fyrsta hlýskeiðsins sýna meira að segja ámóta lágar tölur og við höfum verið að sjá á þessari öld. Hafísárin svokölluðu í upphafi kuldaskeiðs tuttugustu aldar koma einnig mjög vel fram sem eindreginn toppur í breytileikanum. 

Við lítum fljótlega á fleiri línurit úr garði ritstjóra hungurdiska. Kannski hafa ekki margir áhuga á svona línuritum, en minna má á að líkur á því að sjá ámóta rit annars staðar eru nánast engar - svo mikil er ritstjórasérviskan. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og átta?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg120125b
  • w-blogg120125c
  • w-blogg120125c
  • w-blogg120125e
  • w-blogg120125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.1.): 21
  • Sl. sólarhring: 328
  • Sl. viku: 2743
  • Frá upphafi: 2431323

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 2133
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband