Jólaútsynningur

Spár gera ráð fyrir því að útsynningur verði ríkjandi aðfangadag og jóladagana tvo. Útsynningur er suðvestanátt, ekki hvaða suðvestanátt sem er heldur aðeins sú sem flytur óstöðugt loft til landsins, einkennist af éljagangi að vetrarlagi en oftast upprofi á milli þótt élin geti verið dimm. Stöku sinnum verður hann alveg glórulaus, nánast án upprofs sé loftið nægilega kalt. Ritstjóri hungurdiska er þó ekki svo harður á skilgreiningunni að hann geti ekki liðkað aðeins um - þegar honum finnst slíkt eiga við. En hann er samt nokkuð stífur á því að vilja ekki kalla vetrarsuðvestanátt með súldarveðri útsynning - þótt vindur blási af útsuðri. Útsuður er átt, en útsynningur er veðurlag. Sama má segja um hinar þrjár gömlu höfuðáttirnar, þeim fylgja veðurlag sem kennt er við þær, en er ekki þær. 

w-blogg241224a

Kortið gildir kl.18 á aðfangadag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins gefa til kynna vindstefnu og vindátt, en þykktin er sýnd í lit. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Við sjáum að ekki er mikill munur á stefnu jafnþykktarlína (mörk á milli lita) og jafnhæðarlína (heildregnar). Þó sést ef vel er að gáð að þegar kemur suðvestur fyrir land er vindurinn að bera kaldara loft til landsins. Það þýðir jafnframt að vindur þar snýst lítillega móti sólargangi með hæð - en ekki munar þó miklu. Jafnþykktar- og jafnhæðarlínurnar eru dregnar með sama bili, hér er hæðarbrattinn meiri en þykktarbrattinn, en það kólnar í átt að lægðinni. Það þýðir að hinn mikli háloftavindur nær sér ekki að fullu til jarðar, það slaknar á honum (til allrar hamingju). Þetta á að breytast fram á jóladag. Það dregur að vísu úr háloftavindinum, en það á að draga meira úr þykktarbrattanum. Það þýðir að háloftavindurinn nær sér betur niður þessa síðari daga heldur en á aðfangadag - og væntanlega verður þá öllu hvassara á landinu (þótt fleira komi við sögu, jafnvel smáatriði sem týnast á jafngrófu korti sem þessu).

Éljagangur er algengur um jólin, jafnvel útsynningur. En þó er það þannig að hvert tilvik er með sínum sérstaka hætti og það sem við horfum á hér er býsna tært. Ritstjórinn gerði það sér til gamans að leita uppi svipuð tilvik um jólin, fann nokkur, en samt eru þau flest öðru vísi á einhvern áberandi hátt. Það var helst jólin 1921 - og hér að neðan má sjá kort bandarísku endurgreiningarinnar sem gildir á jóladag það ár. (Árið 1921 var reyndar ekki hlaupár - hefði það verið það hefði veðrið borið upp á sama almanaksdag og nú). 

w-blogg241224b

Flest á svipuðum stað. Kuldinn var þó meiri 1921 heldur en nú - og ekki hefur ritstjórinn athugað hvort kuldapollur var í námunda við Kanaríeyjar - eins og nú. Um árið 1921 má lesa í pistli hungurdiska. Þar kemur fram að kvartað var um snjó og illviðri suðvestanlands um jólin, símslit og fleiri vandræði. Í stað símslita þá er nú komin krafan um tafalausar samgöngur um allar heiðar alla daga - og í þeim efnum getur vetrarútsynningurinn verið mjög til ama og jafnvel stórkostnaðar, meiri heldur en símabilanir þó fyrir 100 árum. 

Það er ólíkt með tilviki dagsins og sumum fyrri jólatilvikum að enginn suðlæg bylgja á að skjóta sér inn í útsynninginn miðjan. Slík staða er stórhættuleg. En þó eru framtíðarspár ekki vandræðalausar, satt best að segja nokkuð flóknar. En við vonum að hann fari vel með - eins og oftast hefur verið í þessum mánuði. 

Þetta var ekki sérlega léttur pistill - þurr jólalesning, en engu að síður hollustufæði fyrir þá sem hafa smekk fyrir slíku (telur ritstjórinn). En pistlinum fylgja samt einlægar óskir um gleðileg jól til allra lesenda og landsmanna annarra.  


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og tveimur?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.12.): 388
  • Sl. sólarhring: 503
  • Sl. viku: 1591
  • Frá upphafi: 2421883

Annað

  • Innlit í dag: 363
  • Innlit sl. viku: 1445
  • Gestir í dag: 351
  • IP-tölur í dag: 347

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband