Nýtt landshitamet fyrir nóvember

Í dag, fimmtudaginn 14.nóvember var sett nýtt landshitamet fyrir nóvembermánuð þegar hiti fór í 23,8 stig á Kvískerjum í Öræfum. Gamla metið (23,2 stig) var sett á Dalatanga 1999. Í fljótu bragði virðist um rétta mælingu að ræða þannig að við trúum henni - í bili að minnsta kosti. Ritstjórinn verður þó að játa að hann hefur ekki séð nýlega mynd af stöðinni, en minnið segir honum að allt ætti að vera í lagi - á þessum árstíma að minnsta kosti. 

Við skulum nú líta aðeins betur á málið. Fyrst verður fyrir spákort frá því í morgun (14.11).

w-blogg141124i

Þetta er úr þróunarspálíkani Veðurstofunnar (sem reiknað er flesta daga í 750 metra upplausn). Ef við rýnum í kortið má sjá staðbundið hitahámark við Kvísker. Ekki sést vel hvaða hita er spáð, en sýnist vera 16 til 17 stig - nokkuð gott að ná bletti sem þessum. Annar ámóta blettur er svo austast á Breiðamerkursandi - eða rétt þar austan við. Kannski hefur verið sett hitamet þar. 

w-blogg141124a

Á línuritinu eru þrír ferlar sem sýna hitamælingar á 10-mínútna fresti frá því kl.2  síðastliðna nótt (aðfaranótt 14.) þar til klukkan 14:40 í dag. Blái ferillinn sýnir hámarkshita hverra 10-mínútna í Kvískerjum, en á bak við þá tölu eru 6 hitamælingar, 6 tveggja mínútna meðaltöl, hæsta gildið valið. Græni ferillinn sýnir það sama en á Fagurhólsmýri í sömu sveit. Miklu munar á hitanum á stöðvunum tveimur. Loftið á Fagurhólsmýri komið af hafi, en á Kvískerjum var það komið að ofan, hitað af niðurstreymi yfir austurhlíðum Öræfajökuls. Hitinn fór í 18 stig strax upp úr kl.6 og náði fyrst 20 stigum milli kl. 7 og 8. Þokaðist síðan upp á við og náði hámarki upp úr kl.12. 

Rauði ferillinn sýnir hitamælingar frá stöð Vegagerðarinnar við Kvísker. Ekki er langt á milli stöðvanna. Frá því upp úr 6 og fram á 8. tímann var hlýrra á vegagerðarstöðinni og fór hiti í 21,7 stig upp úr kl.7. Meiri sveiflur voru þar síðan á hitanum heldur en á stöð Veðurstofunnar. Mælingarnar sem hér eru sýndar eru þó ekki alveg sambærilegar. Þótt hita sé getið á vegagerðarstöðvunum á 10-mínútna fresti, vantar þar 8 (eða 9) mínútna mælingar á milli hverrar skrásetningar. Á Veðurstofustöðvunum getum við fengið upplýsingar um hæsta og lægsta tveggja-mínútnahita milli hvers mínútutugar, en ekki á vegagerðarstöðvunum. Reyndar er málið þannig vaxið að ritstjóri hungurdiska veit ekki hvort viðmiðunartími vegagerðarhitamælanna er 1 mínúta eða 2 mínútur (það getur verið mismunandi eftir því hvors er óskað) - varla er það þó 10-mínútur. Nú er rétt hugsanlegt að stöðvarnar mæli þennan „millihita“ í raun og veru, en hann bara berist ekki til Veðurstofunnar. Atriði eins og þessi eru mikilvæg þegar met eru staðfest eða þeim hafnað. 

Til gamans skulum við líta á línurit sem ber saman hita á athugunartíma (10-mínútna fresti) og hámarkshitans sem skráður er á sama tíma - mælingarnar frá Kvískerjastöð Veðurstofunnar frá kl.2 til 14:40.

w-blogg141124b

Hámarkið „hittir“ í í um 1 tilviki af 8 (við búumst við 1 af 6 - sem sjálfsagt er, væru athuganir nægilega margar). Í álíka mörgum tilvikum munar meira en 1 stigi á hámarki og athugunarhita - meðaltalið er 0,4 stig. Með vangaveltum af þessu tagi má giska á að nokkrar líkur séu á því að mælingin á vegagerðarstöðinni hafi ekki hitt í hæsta hita dagsins - og nokkrar líkur sé á því að munurinn sé meiri en 0,5 stig - gæti verið enn meiri. Til að meta það frekar þurfum við auðvitað að vita hvort hæsta mælingin er niðurstaða 2-mínútna meðaltals eða einhvers annars tímaskeiðs. Upplýsingar auðvitað vel þegnar. Veðurnörd vita vel að almennt séð hafa stöðvar Vegagerðarinnar reynst ólíklegri til meta heldur en stöðvar Veðurstofunnar. Ástæður kunna að vera fleiri en ein - en þessi er líklega ein þeirra. Aðalatriðið er að rugla þessum tveimur mismunandi stöðvagerðum og metum þeirra ekki saman. Þær keppa ekki í sama „þyngdarflokki“. 

Að lokum lítum við á gervihnattamynd sem tekin er um hádegi í dag (12:08) (af vef Veðurstofunnar). 

w-blogg141124ii

Sé rýnt í myndina (hún stækkuð) sést mjög vel hversu háreistar bylgjur rísa yfir Vatnajökli sunnanverðum og Öræfajökli - má segja að hitametið sé afleiðing bylgjugangsins. Þar skiptist á gríðarlegt uppstreymi (hvít ský) og snarpt niðurstreymi á milli (eyður í skýjabreiðuna). 

Þetta tilvik í dag minnir nokkuð á gamla „þjóðsagnamælingu“ frá Kvískerjum. Um hana er fjallað í gömlum pistli hungurdiska. Úr þeim pistli má rekja sig í blaðafréttir af þeim merka atburði. 

Látum þetta duga að sinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband