Íslenska sumrinu lýkur

Fyrsti vetrardagur er á laugardaginn kemur (26.október) og óhætt að reikna meðalhita liðins sumars - allt frá sumardeginum fyrsta, en hann bar upp á 25.apríl í ár (2024). Að vísu lifa enn tveir dagar, en þeir munu ekki hnika meðalhitanum neitt sem heitir, þótt það gerist alloft að síðustu dagana hrekkur hitinn til á aukastaf - vegna upphækkana - eða niðurfellingar annars aukastafs (okkur smámunasömum til hrellingar).

Sumarið var í kaldara lagi miðað við það sem verið hefur í tísku síðustu 25 árin.

w-blogg241024a

Meðalhiti í byggðum landsins reiknast 7,1 stig og er það -0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og -0,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020. Næstkaldasta sumarmisseri aldarinnar, 2015 var lítillega kaldara - en ekki marktækt. Myndin nær aftur til 1949. Ef vel er að gáð má koma auga á strikalínu þvert yfir myndina - neðan hennar hefur sumarhiti verið lægri heldur en nú. Þannig var flest ár frá og með 1963 til 1999, enda er hiti sumarsins nú +0,3 stigum yfir meðallagi sumra á tímabilinu 1961 til 1990. Langkaldast var 1979, en hlýjast 2010 - þetta á við landið í heild. 

Í Reykjavík er meðalhitinn 7,9 stig, sjónarmun kaldara var þar 2018. Á Akureyri er meðalhitinn 7,5 stig, rétt ofan við 2015 (sem margir muna). 

Við skulum líka (til tilbreytingar) reikna meðalhita þess sem við getum kallað íslenska árið, vetrar- og sumarmisserin saman. Það eru eitthvað skiptar skoðanir um það hvenær á að skipta um ár í íslenska tímatalinu - við gætum gert hvort sem er. Hér reiknum við hitann frá fyrsta vetrardegi í fyrra til dagsins í dag - og fyrir önnur ár frá fyrsta vetrardegi til síðasta vetrardags árið á eftir. Til þess að gera þetta „rétt“ verðum við að vita hita hvers daga. Fyrir landið í heild náum við aðeins aftur til 1949. Byrjum á að líta á það.

w-blogg241024b

Hér sjáum við að það ár sem nú er nærri liðið er afgerandi það kaldasta á landinu aftur til aldamóta - og lægri tölu höfum við ekki séð síðan 1996-97, í 27 ár. Fólk man nú yfirleitt ekki veður fyrstu æviára sinna - þannig að óhætt mun að segja að varla nokkur undir 35 ára aldri muni jafnkalt ár. - En það er eins og með sumarhitann að á sjöunda og níunda áratugnum hefði þetta talist fremur hlýtt ár - og í góðu lagi á þeim áttunda. Við sem komin erum á áttræðisaldur munum kuldana auðvitað eins og þeir hefðu verið í gær. 

Að meðaltali munar um 0,3 stigum á ársmeðalhita í Stykkishólmi og á landinu, landmeðalhitinn er lítillega lægri  - auðvitað eru samt nokkur áraskipti, en mjög svipað lag er á langtímasveiflum. Í Stykkishólmi vitum við daglegan hita allt aftur til hausts 1845 (nema haustið 1919) og getum því reiknað ársmeðalhitann íslenska allt það tímabil.

w-blogg241024c

Þetta ætti að vera orðin kunnugleg mynd hjá þrautseigari hluta lesenda hungurdiska. Sá hluti myndarinnar sem nær yfir árin frá 1950 er nærri því eins og fyrri mynd - en hér getum við litið miklu lengra aftur. Við það dettur leitnin úr +1,4 stigum á öld, niður í +0,9 stig - sem sýnir að til að reikna leitni þurfum við langan tíma, 75 ár duga ekki. Að auki segir leitnin sem slík ekkert um framtíðina.

En árið í ár hefði verið hlýtt fyrir 1920 (strikalínan merkir meðalhita þess þvert yfir myndina), en þá var breytileiki hitans frá ári til árs líka mun meiri en hann hefur verið síðustu árin. Hafísnum er venjulega kennt um. Nærvera hans stingur inn fáeinum ofurköldum mánuðum sem hver um sig hefur mikil áhrif á meðalhitann, jafnvel þótt aðeins sé um staka mánuði að ræða þar sem slíkt ástand ríkir hverju sinni. Undantekning var veturinn 1880 til 1881 - frostaveturinn mikli - þegar ísinn hafði þessi ofuráhrif marga vetrarmánuði í röð - fleiri heldur en t.d. 1917 til 1918 eða 1865 til 1866. Meðalhiti þessa kalda árs var rétt ofan frostmarks í Stykkishólmi. 

En eins og sagði hér að ofan er framtíðin frjáls. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 984
  • Frá upphafi: 2420868

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 863
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband