Af páskahretinu 1963

Illræmdasta páskahret í minni núlifandi manna skall á um og eftir miðjan dag þriðjudaginn 9. apríl 1963, með hörkufrosti og stormi eftir óvenju milda tíð. Það var í dymbilviku. Alls fórust 18 menn á sjó og fádæma skemmdir urðu á gróðri, einkum um landið sunnanvert. Fimm menn fórust af tveimur bátum frá Dalvík, 2 menn af báti frá Þórshöfn, 2 af báti frá Siglufirði. Allir þessir bátar voru norðan við land, skip fórst einnig við Reykjanes, þar fórust fimm en sex björguðust naumlega. Tvo menn tók út af þýskum togara. Fjárskaðar urðu vestan lands og norðan. Bátur sökk í Vopnafjarðarhöfn, mikið brim var á þeim slóðum. Rúður brotnuðu í húsum á Hvallátrum, þak tók af fjárhúsum í Breiðavík og hús í Hænuvík löskuðust nokkuð. Miklir skaðar urðu á sunnanverðu Snæfellsnesi, þök tók af útihúsum á Bláfeldi, Lýsuhóli, Kálfavöllum, Hraunsmúla, Hofgörðum og Hólakoti og af íbúðarhúsi á Hóli. Bíll fauk út af veginum við Bláfeld. Steinsteypt sæluhús fauk í Hafursey á Mýrdalssandi. Á páskadaginn tók þak af hálfum fjárhúsum á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi. 

Við rekjum nánar blaðafregnir síðar í pistlinum, en fyrst er mikil (og alldjúp) langloka um veðrið sjálft. [Auðvelt er við lesturinn að sleppa þeirri umfjöllun alveg]. Aftan við blaðafregnirnar er litið á veðurspár sem voru gefnar út áður en veðrið skall á og þegar það var að skella á. Að lokum verður minnt á skyldleika veðursins við páskahretið mikla 1917. 

Eins og nánar er fjallað um í pistli hungurdiska um veður og veðurfar ársins 1963 var veturinn mjög óvenjulegur. Í janúar réð mikið háþrýstisvæði lengst af ríkjum, vindur var hægur lengst af, en stundum kalt. Í febrúar og mars ríktu austlægar áttir og nánast stöðugt góðviðri var í mars, gróður fór að taka við sér. Í Evrópu var aftur á móti óvenjuleg harðindatíð. Umskiptin sem urðu með hretinu voru því sérlega harkaleg. 

Ritstjóri hungurdiska minnist umskiptanna vel. Hann var staddur í Varmalandi í Borgarfirði  í góðu veðri þegar vindur gekk skyndilega í norður og norðaustur, hvessti og kólnaði rækilega. Lítið sem ekkert snjóaði þar um slóðir þennan fyrsta dag hretsins, en samt lá mjög einkennileg fjúkslæða yfir hæðum og hálsum, man varla að hafa séð nokkuð þvílíkt síðan - nema stöku sinnum í fjallahlíðum.

Fyrsta myndin (af fjölmörgum) sem við lítum hér á sýnir hita í háloftunum yfir Keflavíkurflugvelli dagana 5. til 14. apríl. Lóðrétti ásinn sýnir hæð yfir sjávarmáli, en sá lárétti tímann. Athuganir voru lengst af gerðar á 6 klukkustunda fresti þannig að tiltölulega auðvelt er að draga upp jafnhitalínur, en af þeim má auðveldlega ráða hversu hátt veðrahvörfin liggja. Samband er á milli hita í veðrahvolfi og hæðar veðrahvarfa. Sé neðri hluti veðrahvolfs hlýr, liggja veðrahvörfin hátt og kalt er í þeim sjálfum. Sé neðri hluti veðrahvolfs kaldur liggja veðrahvörfin lágt. 

w-1963-04-09-keflavik-haloftahiti 

Á myndinni eru veðrahvörfin mörkuð með rauðri línu. Fyrstu dagana liggja veðrahvörfin óvenju hátt, eða í um 11 til 12 km hæð, þar sem frostið er -60 til -65 stig. Aftur á móti er frostlaust upp fyrir 1000 metra, lengst af. Þann 9. verða mjög mikil umskipti. Veðrahvörfin hrapa á innan við sólarhring úr 11 km niður fyrir 7 - og kannski alveg niður í 2 til 3 km (punktalína). Þegar þetta gerist hlýnar mjög mikið í 11 km hæð, þar er þá minna en -45 stiga frost og hiti í veðrahvörfunum sjálfum er í kringum -50, um 15 stigum hærri heldur en fyrir breytinguna. Í hinni nýju hæð veðrahvarfanna hefur hins vegar kólnað um 20 stig, úr -30 niður í -50 stig. Mínus 10 stiga jafnhitalínan nær nú alveg til jarðar, en hafði áður verið í um 3 km hæð. Af lögun jafnhitalínanna má ráða að veðrahvörfin fóru aftur að hækka um og fyrir hádegi þann 11.apríl, á skírdag. Úr því fór aftur hlýnandi, allra kaldasta loftið hafði farið framhjá Keflavíkurflugvelli. 

w-1963-04-09-pmin-sponn

Næsta mynd sýnir sömu atburðarás, hér nær myndin yfir dagana 1. til 20.apríl. Rauði ferillinn sýnir lægsta loftþrýsting á landinu á hverjum athugunartíma (athugað var á 3 klst fresti), en bláu súlurnar sýna þrýstispönn landsins, mismun á hæsta og lægsta þrýstingi á hverjum athugunartíma. Mikil hæð var nærri landinu þann 6. og 7. Þá var lægsti þrýstingurinn í kringum 1030 hPa, sá hæsti litlu hærri. Allan þann 8. og fram til hádegis þess 9. féll þrýstingurinn stöðugt, alls um meir en 30 hPa. Þetta skeið er merkt með rómverska tölustafnum I. Um hádegi þann 9. jókst þrýstispönnin snögglega, og um kvöldið var hún komin upp fyrir 25 hPa, norðanillviðrið er skollið á. Spönnin fór mest í 32,1 hPa, það næstmesta sem við þekkjum í apríl (frá 1949). Þrýstifallið hætti um stund, veðrahvörfin héldu áfram að falla, en aðstreymi kulda í veðrahvolfi hélt nú í við þrýstifallið sem fall veðrahvarfanna olli (II). 

Eftir um það bil sólarhring fór þrýstingurinn aftur að falla, þá sótti hlýrra loft að inn undir lág veðrahvörfin. Hin lága staða þeirra fékk að „njóta sín“ (III). Síðan fór hlýrra loft að berast að úr austri, veðrahvörfin hækkuðu aftur, og þrýstingur reis. 

Eins og við munum sjá á veðurkortunum hér að neðan kom lægðardrag úr norðri, lægð myndaðist yfir Íslandi og dýpkaði fyrir suðaustan land, loks það mikið að hún gat snúið vindi úr norðri í austur. Þessi atburðarás er raunar mjög algeng, á sér stundum stað oft á hverju ári, en hittir misvel í - og auk þess skiptir miklu máli hvar kalda loftið nákvæmlega brýst fram - og hversu kalt það er í upprunasveit sinni.  

w-1963-04-09-422-era5 

Myndin að ofan er unnin með gögnum úr endurgreiningu evrópsku reiknimiðstöðvarinnar, era5. Rauði ferillinn sýnir loftþrýsting yfir miðju landinu (65°N, 20°V) á 6 klst fresti dagana 1. til 20. apríl 1963 (sama tímabil og fyrri mynd sýnir). Ferillinn er nánast samhljóða rauða ferli fyrri myndar. Blái ferillinn sýnir hins vegar hæð 500 hPa-flatarins yfir landinu. Hún er mjög góður fulltrúi hæðarbreytingar veðrahvarfanna. Græni ferillinn sýnir þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir hæð og þykkt (í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Hér sjáum við vel hvernig veðrahvörfin héldu áfram að falla í um hálfan sólarhring eftir að það dró úr þrýstifallinu. Þykktin hrapaði einnig. Þykktarfallið var um 40 dekametrar á 12 klst. Það samsvarar um 20 stiga kólnun og sé allt fallið frá 5. apríl tekið, sést að neðri hluti veðrahvolfs kólnaði um 25 stig eða þar um bil. Þann 12. (á föstudaginn langa) óx þykktin aftur umtalsvert, versti kuldinn var liðinn hjá.

w-1963-04-09-422hiti

Næst lítum við á hitann. Við veljum Akureyri (en hefðum getað valið aðrar stöðvar). Grái ferillinn sýnir hita á 3 klst fresti, en rauðir krossar hámarkshitamælingar og bláir lágmarkshita. Þann 3. gerði nokkuð ákveðna sunnanátt og hiti hækkaði um 10 stig. Næstu dagar voru hlýir (miðað við árstíma). Við sjáum nokkra dægursveiflu og þann 5. komst hitinn upp í 14 stig. Heldur kaldara var þann 7. og 8. Vægt frost var aðfaranótt þess 9. - dagsins sem hretið skall á og um hádegi þann dag komst hiti í tæp 5 stig. [Nokkur þjóðsagnabragur er á þeirri fullyrðingu margra um að sérstaklega hlýtt hafi verið þennan morgun, en 5 stig er samt allgott sé vindur mjög hægur]. Tólf klukkustundum síðar var hitinn kominn niður í -10,4 stig, hafði því fallið um rúm 15 stig á 12 klukkustundum (það er alllangt frá meti á Akureyri). Kaldast varð á Akureyri að morgni skírdags (11.) þegar frostið mældist -13,5 stig. Á föstudaginn langa var hiti aftur kominn upp fyrir frostmark, en síðan kólnaði aftur á páskadag og mjög kalt var á annan páskadag og þriðjudaginn þar á eftir. 

Þetta varð upphaf á almennt köldu vori. Mjög kalt var oft um sumarið og þótt næsti vetur á eftir væri alveg sérlega hlýr segja sumir að þetta páskahret hafi verið einskonar inngangur að kaldara veðurlagi hafísáranna og kulda næstu áratuga á eftir. Kannski er eitthvað til í því, en einnig mætti þó nefna aðra atburði, bæði áður og eftir sem slíkan upptakt breyttra tíma. 

En næst lítum við á fjölmörg veðurkort. 

Slide1

Fyrsta kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins á norðurhveli um hádegi sunnudaginn 7.apríl, tveimur dögum áður en hretið skall á. Mikil og hlý hæð er við Suður-Grænland og þaðan hæðarhryggur austur til Suður-Noregs. Ritstjóri hungurdiska man vel veður daginn áður, laugardaginn 6. apríl. Þá var síðasti kennsludagur fyrir páskafrí (kennt var á laugardögum á þessum árum). Vindur var hægur af suðvestri í Borgarnesi með lítilsháttar þokusúld. Á kortinu má sjá mikinn kuldapoll við Ellesmereyju. Hann var á leið til austsuðausturs og þrýsti á hæðina. Það er trú ritstjórans að tölvur nútímans hefðu farið létt með að spá framhaldinu. 

Slide2

Um hádegi daginn eftir, mánudaginn 8.apríl var miðja kuldapollsins við norðausturhorn Grænlands, háloftalægðardrag ef yfir Grænlandi norðvestanverðu á leið suðaustur. Hér sést nokkurn veginn hvað verða vill - en harkan þó nokkuð óráðin njóti aðstoðar reikninga ekki við. 

Slide3 

Kortið sýnir það sama og kortið á undan, nema hvað minna svæði er undir - og þykktinni hefur verið bætt við. Litirnir á fyrri kortum fylgdu hæð flatarins. Hér sýna litir þykktina, yfir Íslandi er hún um 5340 metrar. Miðja kuldapollsins við norðurjaðar kortsins. 

Slide4

Sjávarmálskortið kl.18 sama dag er til þess að gera saklaust að sjá. Það vekur þó athygli að miðja hæðarinnar er úti fyrir Norðvestur-Grænlandi, en ekki inni á landi. Staða sem ætíð vekur ugg. Vindur er mjög hægur á landinu. Ekki munaði nema 2-3 hPa á hæsta og lægsta þrýstingi landsins (sjá línuritið að ofan). Kortið sýnir einnig hita í 850 hPa-fletinum (litaðar strikalínur). Í kuldapollinum er hitinn lægri en -30 stig, aprílmetið hér á landi er -24,4 stug (sett 1.apríl 1968). 

Slide5

Það var um hádegi á þriðjudag sem veðrið skall á Norðurlandi. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum. Áttin er af norðvestri og vestri yfir landinu og ber með sér jökulkalt loft úr norðri. Í neðri lögum er áttin úr norðaustri. Að vindur snúist andsólarsinnis með vaxandi hæð er merki um kuldaaðstreymi. Þótt kuldinn skelli á eins og veggur er það samt þannig að aðstreymi hans er ívið ákafara eftir því sem neðar dregur. Framrásin er lengst komin í neðstu lögum. Það er hér þá þegar orðið kaldara á landinu heldur en þykktin yfir því vísar til.

Hér má sjá að kuldinn í miðju pollsins er ógurlegur, þykktin minni en 4800 metrar - nálgast það sem ritstjóri hungurdiska hefur óformlega kallað „ísaldarþykktina“ 4740 metra. Þegar svona kalt loft fer út yfir sjó hlýnar það fljótt, enda hefur þykktarkuldi af þessu tagi aldrei náð til Íslands þann tíma sem háloftaathuganir hafa verið gerðar. 

Slide6

Klukkan 18 þriðjudaginn 9. var kalda loftið að ná undirtökunum á landinu öllu. Þrýstispönnin nálgaðist 20 hPa og fór í meir en 25 hPa undir nóttina. Rétt er að geta þess að endurgreiningarinnar ná misgóðum tökum á lægðarmynduninni sjálfri yfir landinu, en aðalatriðin eru nægilega rétt á þessu korti. 

Slide7

Næstu tvo daga [10. og 11.] var veðrið í hámarki. Lægðardragið fór að snúa upp á sig. Þykktin yfir landinu fór niður fyrir 4950 metra, dregið hefur úr vindi í háloftunum, en lítil breyting var í lægri lögum.

Slide8

Af sjávarmálskortinu þennan dag má ráða að lítillega hefur dregið úr afli veðursins um landið vestanvert, en kuldinn er í hámarki. Þess má geta að til stóð að halda skíðalandsmót austur á Norðfirði um páskana. Vegna snjóleysis eystra var mótið flutt til Siglufjarðar. Þar var þó ekki mikill snjór. Mótið hófst, en illviðrið varð svo slæmt og hríðin svo mikil og köld að umtalsverðar tafir urðu á mótshaldi. 

Slide9

Á skírdag var háloftalægðardragið orðið að lægð. Þannig fer um lægðardrög sem fara suður. Þegar svo var komið tók lægðin til við að dæla hlýrra lofti úr suðri til norðurs fyrir austan land, og síðan til vesturs yfir landið. Jafnþykktarlínur liggja aftur þvert á jafnhæðarlínur, nú snýst vindur sólarsinnis með hæð, hlýtt aðstreymi á sér stað. Kalda loftið stendur fast fyrir og þrýstispönnin jókst að nýju. Í þetta sinn fór hún upp í 32 hPa yfir landinu, efni í fárviðri á stöku stað. 

Slide10

Það var á skírdagskvöld og aðfaranótt föstudagsins langa sem vindurinn náði hámarki. Hlý skil gengu vestur um landið og hiti fór víða upp rétt upp fyrir fyrir frostmark. Jafnframt snjóaði, einkum þó um landið norðan- og austanvert. 

Slide11

Á föstudaginn langa var hættulegasti ofsinn úr veðrinu. Þrýstispönnin hélst þó nokkuð mikil næstu daga, 15 til 20 hPa lengst af, en mjög dró úr frosti. 

Slide12

Laugardaginn fyrir páska var norðaustanstrekkingur á landinu, heldur leiðinlegt veður, en þótti samt gott eftir það sem á undan var gengið. 

Slide13

Á páskadag kom annar, en mun vægari kuldapollur úr norðri. Lægðardrag myndaðist við Suðurland og olli það snjókomu víða um land á annan í páskum. 

Slide14

Þriðjudaginn 16. var kuldapollur undan Norðurlandi. Vestlæg átt var í háloftum, en austlæg við jörð (öfugsniði). Þá snjóaði víðar. Nokkrum dögum síðar hlýnaði að mun og þótti manni þá vorhlýindi skammt undan. Maímánuður varð hins vegar mjög hretasamur. 

Við förum nú yfir helstu blaðafregnir. Rétt að taka fram að lítið var um blaðaútgáfu þessa daga - enda páskar. Blöð komu út fram á skírdag [11.], en síðan ekki fyrr en á miðvikudag eftir páska [17.]. Fréttir af hinum miklu mannsköðum á sjó eru mun ítarlegri í blöðunum heldur en hér er tíundað. Við vísum áhugasömum á þær fréttir. Sömuleiðis hefur verið talsvert um þessi slys ritað á síðari tímum - og líklega meira að segja gerð um þau útvarpsþættir og heimildakvikmynd. Það varð svo ekki til að bæta hugarástand þjóðarinnar að á páskum fórst flugvélin Hrímfaxi við Osló í Noregi og með henni áhöfn öll og farþegar, þar á meðal leikkonan ástsæla Anna Borg. Talið var að óvænt ísing hafi grandað vélinni. 

Hið blíða tíðafar sem ríkti á undan hretinu gerið það tvímælalaust enn áhrifameira en ella hefði orðið - og gróðurskemmdir urðu mun meiri heldur en í ámóta hreti í kaldari tíð. Við byrjum því á tilvitnun í Tímann 5.apríl - þar er tíðin lofuð og bjartsýni ríkjandi um framhaldið - gróðurinn jafnvel talinn þola áföll vel.

Í gær rigndi hér í Reykjavík, og þótt enn sé snemmt vakti rekjan garðagróðurinn, og víða um bæinn mátti sjá tré, sem voru að byrja að laufgast. Fyrir nokkrum dögum var víðirinn farinn að laufgast, en í gær mátti sjá laufgaðan reyni í garði á Bergþórugötu. Þetta gerist hér á meðan ísalög eru enn við strendur landa, sem kölluð hafa verið hlý til þessa, samanborið við Ísland. Á öðrum stað í blaðinu er þess getið að vorannir séu í nánd hér sunnanlands. Það er því ekki ofsögum sagt af því, að síðari hluti þessa vetrar hefur verið með þeim mildustu á þessari öld. Gróðurinn ber vitni þess. Við töluðum í gær við Hafliða Jónsson, garðyrkjuráðunaut borgarinnar. Hann kvaðst einmitt hafa veitt því sérstaka athygli í morgun, hvernig gróðurinn hefði tekið við sér af vætunni, og til dæmis hefði hann séð ljómandi fallega útsprungna selju í garði við Laugaveginn. Hann bar engan kvíðboga fyrir því, að illa kynni að fara ef kæmi hret, garðagróðurinn mundi þola það úr þessu.

En svo skall veðrið á. Tíminn segir frá miðvikudaginn 10.apríl - þar á meðal frá óvenjulegri hálkumyndun nærri Rauðavatni:

MB-Reykjavík, 9.apríl. Foráttuveður gerði um norðan og vestanvert landið fyrri part dagsins í dag og hefur það valdið tjóni og mannsköðum og er óttast, að enn séu ekki öll kurl komin til grafar. Alvarlegast er ástandið við Eyjafjörð og er vitað um þrjá báta frá Dalvík, sem hafa farist. Mannbjörg varð á tveimur þeirra, en af hinum þriðja fórust tveir menn. Vegna beiðni gefur blaðið nöfn þeirra ekki upp í dag. Þá er óttast um a.m.k. þrjá báta til viðbótar. Tveir þeirra eru frá Þórshöfn og einn frá Dalvík. Á þessum bátum eru alls níu menn.

GB-Reykjavík, 9. apríl. Bílslys varð í kvöld er tvær bifreiðir rákust á hjá Rauðavatni,var ekill annarrar bifreiðarinnar fluttur meðvitundarlaus í slysavarðstofu og þaðan á Landakotsspítala, og var ekki enn kominn til meðvitundar, er blaðið átti siðast tal við sjúkrahúsið í kvöld. Slysið varð með þeim hætti, að áætlunarbifreið kom austan frá Selfossi með 17 farþega og þegar kom á beygjuna suðvestan við Rauðavatn mætti hún bíl, sem var á leið austur. Skipti það engum togum, að bílarnir runnu og skullu saman. Fór áætlunarbíllinn út í vegarbrúnina, en hinn bíllinn valt út af veginum í vatnið. Í honum var maður við stýrið og stúlka í sæti hjá honum. Voru þau bæði flutt í slysavarðstofuna. Var gert að meiðslum stúlkunnar, sem ekki voru alvarleg, en bílstjórinn var, sem fyrr segir, fluttur áfram á spítala, og ekki enn útséð um, hve alvarlega hann var slasaður. Fólkið í áætlunarbílnum sakaði ekki svo teljandi væri. Orsök árekstursins er sú, að í rokinu í dag, sem stóð af vatninu, skvettist stöðugt upp á veginn og fraus jafnharðan, þegar leið á kvöldið. Munu bílstjórarnir ekki hafa varað sig á þessu fyrr en út á svellið var komið. Það skal tekið fram, að varað var við hálkunni á þessum stað í kvöld. Í kvöld slitnaði rafstrengur hjá Hlégarði í Mosfellssveit og kviknaði í staurnum við straumrofið. Fóru viðgerðarmenn strax á staðinn. Mikið bar á því, að uppsláttur kringum nýbyggingar fyki út í veður og vind, en engin slys hlutust af svo vitað væri í kvöld.

Morgunblaðið segir ótíðindi 11.apríl:

Í óveðurskaflanum sem gekk yfir landið upp úr hádegi á þriðjudag, fórust fimm bátar norðanlands og eitt stærra fiskiskip við Reykjanes. Með þessum skipum fórust alls 16 sjómenn, og misstu 19 ung börn þar feður sína, en alls áttu þessir skipverjar 22 börn. Fjórir bátanna sem fórust voru frá Dalvík. Áhafnir tveggja þeirra björguðust, eins og áður hefur verið frá skýrt í fréttum. 7 menn fórust hins vegar með hinum tveimur Dalvíkurbátanna, 5 með vélbátnum Hafþór og tveir með vélbátnum Val. Vélbáturinn Magni frá Þórshöfn fórst undan Sævarlandi í Þistilfirði og með honum tveir menn, að því er fullvíst má telja. Þá tók út tvo skipverja af vélbátnum Hring frá Siglufirði, er hann fékk á sig brotsjó á leið til hafnar. Loks gerðist það í gær er Súlunni frá Akureyri hvolfdi norðvestur af Reykjanesi, og 5 af 11 manna áhöfn fórust.

Tíminn segir einnig af sjóslysunum 11.apríl:

JK-Reykjavik, 10. apríl. Hið sögufræga aflaskip, Súlan frá Akureyri, fékk á sig brotsjó fjórar sjómílur vestnorðvestur af Garðskaga klukkan hálfþrjú í dag og sökk á örskammri stund. Sex menn af áhöfninni komust í björgunarbát, en fimm menn fórust með skipinu. Sigurkarfi frá Ytri-Njarðvík bjargaði mönnunum sex úr gúmbátnum og flutti þá til Keflavíkur.

MB-Reykjavík, 10. apríl. Ljóst er nú orðið. að ofviðrið, er skall yfir í gær, hefur valdið miklum mannsköðum og er vitað um 11 sjómenn nyrðra, er farist hafa af völdum þess. Fullvíst má nú telja, að Dalvíkurbáturinn Hafþór hafi farist, svo og annar báturinn frá Þórshöfn, er saknað var í gær, Magni, ÞH 109, en brak úr báðum þessum bátum hefur rekið. Þá tók tvo menn út af vélbátnum Hring, SI 34, er sambandslaust var við í gær. Annar þeirra náðist aftur, en var þá látinn.

ED-Akureyri, 10. apríl. Eins og skýrt var frá í Tímanum í dag, tókst bátnum Ármanni frá Ólafsvík að bjarga áhöfnunum af tveimur Dalvikurtrillum, Helga og Sæbjörgu, sem fórust í óveðrinu í gær. Ármann kom til Akureyrar kl.20:20 í gærkvöldi. B

HRT-Haganesvík, 10. apríl. Sex menn héðan úr Fljótum brutust upp í Siglufjarðarskarð í nótt í foraðsveðri til að bjarga þaðan hjónum og tveimur ungbörnum, er voru þar föst í bíl sínum. Tókst ferðin giftusamlega, þrátt fyrir fannkomu, frost og veðurofsa, svo að tæplega sá út úr augum.

Næstu daga komu engin blöð út vegna páskaleyfa. Tíminn heldur áfram að segja frá hretinu í pistli 17.apríl:

MB-Reykjavík, 16. apríl. Í gærmorgun [annan í páskum] tók að snjóa um mestan hluta landsins og vegir víða teppst af þeim sökum. Samkvæmt upplýsingum Jónasar Jakobssonar veðurfræðings, eru horfur á snjókomu víða um land næsta sólarhringinn, en þó lítilli á Suðurlandi. Á Norður- og Austurlandi mun hins vegar snjóa talsvert. Frost hefur gengið niður í dag, og er nú frostlaust viða suðvestanlands og vægara nyrðra en í gær. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hefur snjór víða truflað samgöngur. Á Suðurlandi eru vegir færir austur að Litla-Hvammi í Mýrdal, en þar fyrir austan munu vegir ófærir með öllu, og hafa bílar lítt verið hreyfðir í Vík í dag. Á Snæfellsnesi mun fært í Ólafsvík og Sand og Grafarnes að vestanverðu. Kerlingarskarð er fært, en ófært í sjálfri Helgafellssveit, en þar hefur mikinn snjó sett niður í logni. Búast má við að fjallvegir á Vestfjörðum séu orðnir ófærir. Fært er norður yfir Holtavörðuheiði, en norðan til í henni hefur sett niður mikinn lognsnjó, svo og í Hrútafirðinum, og má búast við, að þar verði allt ófært, ef hvessir. Sæmileg færð mun yfirleitt um innsveitir Norðanlands ennþá, en Veðurstofan býst við, að þar muni setja niður mikinn snjó í nótt. Hins vegar er ófært fyrir Skagann og á Reykjaströndinni, svo og út með Skagafirði að austanverðu. Þá er einnig slæm færð beggja vegna við Eyjafjörð utanverðan og vegir austan Húsavíkur eru víða ófærir. Vaðlaheiði var mokuð í dag, þar eð ekki þykir rétt að nota veginn um mynni Fnjóskadals, vegna snjóflóðahættu. Norður á Melrakkasléttu er kominn mikill snjór og ófært öllum bílum, Austin Gipsy bíll var nýlega kominn til Raufarhafnar frá Húsavík og hafði verið 25 klst á leiðinni. Austanlands hafði ekki snjóað mjög mikið. Fagridalur hefur verið opnaður og talið var að Oddsskarð myndi opnast í dag. Færð um Hérað var sæmileg og fært suður um frá Reyðarfirði. Á Lónsheiði var þung færð. Búast má við fleiri vegir lokist eystra, ef þar snjóar eitthvað að ráði í nótt.

Morgunblaðið segir af áfallinu í pistli 17.apríl:

Látrum, 15.apríl. Norðanstormurinn skall hér á mjög snögglega með frosti og snjókomu. Aftakaveður gerði þó ekki fyrr en á skírdagskvöld og aðfaranótt föstudags. Þá varð hér harðasta veður, sem komið hefur af norðaustri, síðan Halaveðrið gekk yfir 1925, enda urðu víða skemmdir. Rúður brotnuðu, og ýmislegt fauk. Má segja, að víða hafi legið við stórskaða. Í Breiðuvík fauk þak af hlöðu og 200 kinda fjárhúsum, sem munu að mestu ónýt. Á annað hundrað kindur voru í fjárhúsunum, en svo vel vildi til, að enga þeirra sakaði, og ekki tapaðist heldur neitt teljandi af heyi. Heimamenn komu fénu þegar fyrir í fjósi og fjóshlöðu, sem hvort tveggja eru stórar byggingar, en fáir nautgripir á bænum. Illt var að standa að slíkum fjárflutningum í myrkri og ofsaveðri, en engum varð neitt að meini, hvorki mönnum né skepnum. Hús þessi voru gömul, en vel viðuð. Í Hænuvík fauk hluti af þaki af tveimur hlöðum og nokkrar plötur af þaki á íbúðarhúsi Kristins Ólafssonar. Munaði minnstu að þakið færi allt. Síminn milli Látra og Breiðuvíkur slitnaði, vegir lokuðust, og einhverjar smáskemmdir urðu hér. — Hér er nú komið bjart veður, en kalt, norðanátt með 8 stiga frosti. — Þórður.

Tíminn segir einnig af foktjóni og fjársköðum 18.apríl:

ÞG-Ölkeldu, 17.apríl. Hér í sveit urðu miklar skemmdir af völdum ofviðris aðfaranótt föstudagsins langa. Þök fuku af húsum og útihús fuku burt. Veðrið skall hér á á þriðjudaginn, en náði hámarki sínu aðfaranótt föstudagsins. Þá var mikið frost, 12—14 stig, snjókoma og ofsarok. Þá um nóttina fauk þak af íbúðarhúsinu í Hólkoti, og allt járn og pappi. Hlaða og áföst fjárhús í Böðvarsholti, sem byggð voru úr timbri og járni, fuku alveg i burtu og nokkuð af heyi, sem í hlöðunni var. Nokkru af því tókst að bjarga með því að strengja net yfir. Í fjárhúsunum voru þrjátíu kindur og nokkur hross, og varð ekki tjón á þeim. Þá fuku nokkrar plötur af fjárhúsi í Vatnsholti, 15 plötur fuku af nýju íbúðarhúsi á Lýsuhóli margar plötur á Hraunsmúla og þak af hlöðu í Hoftúni, en hey bjargaðist.

ED-Akureyri, 16. apríl. Nokkrir fjárskaðar hafa orðið hér nyrðra í óveðrinu undanfarið. Á Ytra-Hóli í Fnjóskadal mun bóndinn, Karl Jóhannesson, hafa misst 20 ær og hafa þær farið með ýmsu móti; flestar hafa hrapað í klettum, ein fór í snjóflóði og sumar beinlínis drepist á berangri. Frá því á þriðjudaginn hefur verið unnið að björgun fjárins á Ytra-Hóli. Féð, er fannst var víða geymt í snjóhúsi og hey skilið eftir hjá því. Í gær unnu svo 16 menn við að bjarga fénu til byggða og var notuð til þess jarðýta með stórum sleða og 53 kindur fluttar þannig í tveimur ferðum. Fimm ær munu hafa drepist á Rauðá í Bárðardal og á Hraunkoti í Aðaldal vantar enn 6 ær, en ekki talið útilokað að þær geti leynst í hrauninu.

Sama dag [17.] segir Tíminn einnig frá óvenjulegri þurrð í Þjórsá. Höfum í huga að þetta var fyrir tíma virkjana í ánni:

HE—Rauðalæk, 16.apríl. [Fréttinni fylgir mynd] — Maðurinn, sem sést á þessari mynd er á gangi á mjög óvenjulegum gönguslóðum síðari hluta skírdags. Hann stendur nefnilega á botni Þjórsár, 2—300 metrum ofan við brúna. Þjórsá þornaði svo að segja alveg upp á skírdag. Var vatnsmagn hennar síðari hluta dagsins aðeins um 20 rúmmetrar á sekúndu, en meðalvatnsmagn er 400 rúmmetrar á sekúndu. Minnsta vatnsmagn, sem hefur mælst í ánni áður er 80 rúmmetrar á sek. Árið 1929 þornaði áin einnig upp, svo sjá má að slíkir viðburðir eru mjög sjaldgæfir. — Myndina tók Sigurjón Rist, en maðurinn sem á henni sést, er aðstoðarmaður hans, Eberg Ellefsen. — Á myndinni má glögglega sjá, hversu hátt vatnið hefur náð, en skilin eru í um fjögurra metra hæð. Sigurjón Rist sagði, að þegar áin þornaði upp árið 1929, hafi veturinn einnig verið mjög mildur, þar til áhlaup gerði. Sé því augljóst, að mesta hættan á vatnsskorti i Þjórsá sé, þegar áin og þverár hennar séu auðar, en áhlaup geri.

Morgunblaðið segir enn fréttir af tjóni 18.apríl:

Borg í Miklaholtshreppi, 17.apríl. Hér hefir hver dagurinn verið öðrum verri, frostharka og hríðarveður og talsverð snjókoma, en vegir munu þó vera greiðfærir, þar sem snjór hefir ekki fest mikið vegna roks. Á páskadag var hér afspyrnurok af norðaustri. Samfara rokinu voru miklir sviptivindar. Á Hjarðarfelli tók af þak af hálfum fjárhúsum yfir 240 fjár. Svo mikill var sviptivindurinn að þakið fór með öllu saman, sperrum og langböndum og er allt sundurmulið. Þess skal þó getið, að þessi fjárhús voru nýleg, byggð 1956 og öllum kröfum fylgt um styrkleika. Þegar veðrið skall á s.l. þriðjudag fauk þak af fjárhúsi og hlöðu í Böðvarsholti í Staðarsveit. Í Hólkoti fauk allt járn og pappi af íbúðarhúsi. Í Vatnholti fauk þak af útihúsum. Á Hraunsmúla fuku 15 plötur af þaki íbúðarhússins. Í Hoftúnum fauk nokkur hluti af hlöðuþaki. Rafmagnslínan, sem lögð var í vetur frá Breiðuvik að Barðastöðum lagðist niður á stórum kafla, niðurslitin og brotin. Einnig urðu skemmdir á heyvögnum og fleiru sem úti stóð . — P.P.

Vopnafirði, 16. apríl. Í norðaustanstórviðrinu, sem gekk yfir landið s.l. þriðjudag, gerði stórbrim hér á Vopnafirði, sem olli bátaeigendum miklum erfiðleikum og tjóni. Einn tveggja tonna trillubátur slitnaði upp og sökk, og mun hann hafa brotnað í spón, því að rekald sást á sjónum nokkru síðar. Eigendur bátsins voru Albert Ólafsson í Leiðarhöfn og Ólafur Halldórsson í Glæsibæ í Vopnafirði. Báturinn var óvátryggður.

Hellnum, 12. apríl. Norðanveðrið skall hér mjög skyndilega á laust eftir hádegi á þriðjudag og hélst óslitið í þrjá sólarhringa. Ein trilla hafði róið héðan á þriðjudagsmorgun í blíðskaparveðri, en var lent fyrir versta veðrið. Hámarki náði veðrið á fimmtudagskvöld. Í vestanverðri Staðarsveit gerði þá aftakaveður og olli spjöllum á húsum. Þak tók af íbúðarhúsinu á Hólkoti. Fjárhús og hlaða fauk í Böðvarsholti. Þak fauk af fjárhúsum í Kálfárvöllum og Vatnsholti, og enn fremur tók járnplötur af húsþökum á Lýsuhóli og Hraunsmúla. Á þessu svæði er nýbúið að leggja háspennulínu, og skekktust staurarnir mjög á löngu svæði. Á nokkrum stöðum brotnuðu rúður í húsum, en meiðsli á fólki urðu hvergi. — Kr. Kr.

Akureyri, 17.apríl. Bóndinn á Ytra-Hóli í Fnjóskadal, Karl Jóhannesson varð fyrir miklum fjárskaða í óveðrinu um daginn, missti 20 kindur af 87, sem hann átti. Hann hafði hleypt fé sínu út á þriðjudagsmorgun, en er bylurinn skall á mjög snögglega um klukkustund síðar, fór hann þegar af stað að reyna að ná því saman. Náðist fátt af fénu þá, þar sem það hraktist undan veðri upp um fjöll og á hættulega staði. Sumt hrapaði fyrir björg, annað króknaði og lamdist til bana. Á annan í páskum var fyrst sæmilega fært veður til leitar og brugðu þá sveitungar vel við til aðstoðar. Voru þá alls 16 menn á skíðum við leitina. Fundust nokkrar kindur dauðar og nokkrar aðframkomnar. Var margt fé flutt heim þann dag á sleðum, sem spenntir voru aftan í ýtur og dráttarvélar. Nokkrar kindur drápust eftir að heim var komið og margar eru veikar enn. Nokkuð af fénu varð að skilja eftir og grafa í byrgi, þar sem ókleift var með öllu að koma því heim yfir torfærur og ófærð. Hinsvegar fannst féð allt. Varð að flytja hey til fjárins. Ekki hefir frést af teljandi fjársköðum annars staðar hér um slóðir, nema á Rauðá í Bárðardal mun vanta 5 kindur. — Sv. P.

Fé ferst í Dölum. Auk þess mikla fjárskaða sem hér getur að framan er blaðinu kunnugt um að fjárskaðar urðu í Laxárdal í Dölum svo og í Miðdölum. Á þriðjudagsmorgun í dymbilviku var hiti 5 stig kl.10 að morgni í Búðardal, en kl.3 síðdegis var komið 5 stiga frost og bylur. Þann morgun fóru menn af stað að smala fé sínu, en uppi á heiðum skall veðrið á laust eftir hádegið. Áttu sumir leitarmanna fullt í fangi með að ná heim undan veðrinu. Vitað er að nokkrar kindur hrakti í vatn uppi á Laxárdalsheiði og fórust þær, annað fennti. Þá lágu tvær kindur í fönn úr Miðdölum og fundust dýrbitnar svo lóga varð annarri. Enn hefir ekki verið hægt að rannsaka að fullu hve tjónið er mikið, því ekki gaf til leitar fyrr en fyrst í gær. Óttast er þó að þarna hafi hlotist verulegt tjón af veðrinu.

Morgunblaðið segir 19.apríl fréttir vestan úr Djúpi:

Þúfum, 18. apríl. Óveðrið þann 8. [9.] þ.m. skall skyndilega á hér um slóðir. Sauðfé var víða komið alllangt frá bæjum og hefur gengið mjög erfiðlega að ná því saman aftur. Á Snæfjallaströnd vantar 17 kindur, eign Engilberts Ingvarssonar á Mýri. Er óttast, að féð sé fennt. Vestan Djúpsins er venjulega minni hætta á fjársköðum, þótt fljótt bresti á. Vantar enn nokkuð af fé frá Hörgshlíð og allt féð frá Sveinshúsum, sem hefur ekki enn fundist þrátt fyrir mikla leit. Í Nauteyrarhreppi vantar fé frá Rauðamýri, en ekki er enn ljóst, hver skaðinn hefur orðið, því veður er hið versta hér ennþá — P.P.

Tíminn segir óvæntar fréttir 24.apríl:

SÁÞ-VÍK, 23. apríl. — Því var veitt athygli er páskahretið var gengið yfir að skýlið undir Hafursey sást ekki. ... Kom þá í ljós að húsið hafði fokið og gereyðilagst í óveðrinu. Húsið var nýtt, vígt í fyrra og talið mjög traust. Veggir þess voru úr steinsteypu; steyptum flekum sem boltaðir voru saman. Þakið hefur fokið af í heilu lagi og síðan brotnað og veggir hússins hafa síðan fokið um koll. ...

Tíminn gerir upp fjárskaða í Dölum vestur 9.maí:

SÞ-Búðardal, 8.maí. Ljóst er nú orðið, að miklir fjárskaðar hafa orðið hér í grenndinni í páskahretinu í vor. Á nokkrum bæjum vantar margt fé og gerðu menn sér í fyrstunni vonir um að finna það flest á lífi, en nú eru menn orðnir mjög vondaufir um það. Á einum bæ er tala þess fjár, sem saknað er eða fundið dautt milli 70 og 80. Mest hefur tjónið orðið á Fjósum, sem eru rétt hjá Búðardal. Bóndinn þar er fjárríkur og getur ekki haft allt sitt fé á Fjósum, en á eyðibýlið Hamra, frammi á Laxárdal, og þar var margt af fé hans, er óveðrið skall á. Þegar hafa fundist milli 10 og 20 kindur dauðar af fé hans, en alls vantar eða hafa fundist dauðar 70—80 kindur. Eru menn vondaufir um að mikið af því fé, er vantar, muni finnast lifandi. Bóndinn á Fjósum er Jón Sigurjónsson. Á Sólheimum í Laxárdal hafa einnig orðið miklir skaðar. Nokkrar kindur þaðan hafa fundist dauðar, en samanlögð tala þeirra, er fundist hafa dauðar og þeirra, er vantar, er milli 50 og 60. Bóndinn á Sólheimum heitir Eyjólfur Jónasson, og er tjón hans mjög tilfinnanlegt, mun hér vera um nærri helming fjárstofns hans að ræða. Frá Sámsstöðum vantar ekki margt fé, en 13 kindur þaðan hafa fundist dauðar. Bóndinn þar heitir Eyjólfur Jónsson. Þá vantar einnig allmargar kindur frá fleiri bæjum í Laxárdal og Miðdölum. — Fundist hafa illa vargbitnar kindur og er auðséð að tófan hefur ekki látið á sér standa, fremur en venjulega, þegar fé er illa statt.

Tíminn segir 16.júní frá tjóni á garðagróðri:

MB-Reykjavík, 15.júní. Garðagróður beið talsverðan hrekki í páskahretinu hér suðvestanlands, — en annars staðar á landinu hafa ekki orðið á honum teljandi varanlegar skemmdir samkvæmt upplýsingum Ingólfs Davíðssonar. Verst hefur Alaskaöspin orðið úti, svo og þingvíðir og ýmsir runnar hafa einnig skemmst illa. Ingólfur Davíðsson tjáði blaðinu í dag, að skemmdir á garðagróðri af völdum páskahretsins hefðu aðallega orðið suðvestanlands. Þar var gróður kominn lengst á veg, vegna langvarandi hlýindakafla og safastraumur komin um þau tré, sem fljótust eru til. Þau tré frusu eðlilega illa og á þeim hafa orðið varanlegar skemmdir. Verst hafa Alaskaöspin og þingvíðirinn orðið úti og Sitka-grenið hefur einnig farið illa víða. Þær tegundir, sem seinna eru til, hafa sloppið miklu betur. Að vísu hafa sumstaðar orðið skemmdir á birki og reynivið, en ekki í stórum stíl. Þá hafa einnig orðið miklar skemmdir á ýmsum runnum. Til dæmis hafa rósir orðið illa úti hér suðvestanlands, svo og fleiri runnar, sem fljótir eru til. Ingólfur kvað áberandi, hve skemmdirnar hefðu orðið mestar, þar sem gróður var lengst kominn, á Reykjanesinu og austur um Suðurland, austur í Fljótshlið. Til dæmis væri gróður ekki eins illa farinn í innsveitum sunnanlands og við sjávarsíðuna. Svo glögg væru skilin, sagði Ingólfur, að gróður í Heiðmörk væri ekki eins illa leikinn og í Reykjavík.

Næst lítum við á hvernig veðurspámönnum tókst til dagana fyrir hretið og í upphafi þess. Á þessum tíma náðu reglubundnar veðurspár aðeins rúman sólarhring fram í tímann. Engin vakt var á Veðurstofunni á Reykjavíkurflugvelli á nóttunni (frá kl.1 til 7.), en þá var spá fyrir landið allt gerð á Veðurstofunni á Keflavíkurflugvelli kl. 04:30 og lesin upp í gegnum Loftskeytastöðvar. Fyrsta spá úr Reykjavík kom kl.8 - ef veðurfræðingur taldi ástæðu til að endurnýja spána frá Keflavík. Næst var lesin spá kl.10:10 (þegar sumartími var í gildi). Sú spá var oftast látin standa óbreytt í lestri með hádegisfréttum - en stundum gerðar smávægilegar breytingar. Ný spá var venjulega gerð kl.16:00 og henni sárasjaldan breytt þar til ný spá var skrifuð kl.22:00. Stundum var smávægileg breyting gerð á þeirri spá við spálestur kl.01:00.

Ekki löngu áður hófst útgáfa á stuttlega orðuðum tveggja daga spám („tvídægru“). Hún var venjulega lesin með spánni kl.16:00. Þótt hún væri stutt veittu ung veðurnörd henni mikla athygli. Við gerð tveggja daga spárinnar var notast við ákveðna grafíska vinnslu háloftakorta. Var aðferðin enn notuð þegar ritstjóri hungurdiska hóf störf við veðurspár vorið 1979. Mjög skiptar skoðanir voru um spár þessar - og lagðist aðferðin endanlega af þegar tölvuspágæðastökkið mikla varð haustið 1982. Þótt tölvuspár hafi vissulega komið að einhverjum notum næsta áratuginn á undan var um algjöra byltingu að ræða.

En hvaða spár fengu landsmenn að heyra þessa örlagaríku daga í apríl 1963?

Litum fyrst á hina stuttaralegu tvídægru sem lesin var í útvarp síðdegis sunnudaginn 7.apríl. 

Horfur á þriðjudag. Austan kaldi og skúrir við suðurströndina, annars hægviðri eða norðaustan gola og víðast bjartviðri. 

Þetta er auðvitað afleit spá. Daginn eftir náði tvídægran til miðvikudagsins 10.apríl. 

Norðanátt, sennilega hríðarveður á Norðurlandi, en þurrt og bjart á Suðurlandi. Kaldara. 

Þetta er mun betra - í sjálfu sér rétt, en þó er engin vísbending um hörku veðursins. Ritstjóri hungurdiska man þessa spá þó furðuvel. 

Þegar spábók Veðurstofunnar er skoðuð kemur á óvart hversu spár sem skrifaðar voru mánudaginn 8. apríl (daginn fyrir áfallið) eru stuttorðar. Spá var gerð á Keflavíkurflugvelli kl.04:30. Hún var endurtekin óbreytt kl.8. Ný spá (aðeins 3 línur) var lesin kl.10:10 og lesin óbreytt bæði í hádeginu og kl.16. 

Aldrei þessu vant var ný spá gerð kl.19:30. Sú spá átti að ná til kvölds daginn eftir, þriðjudaginn 9. Við skulum líta á hana alla:

Mikil hæð er yfir vestanverðu Grænlandi, en lægðardrag mun vera að myndast milli Íslands og Grænlands. Mun það sennilega hreyfast austur og valda norðanátt á miðvikudag. 

Suðvesturland og Faxaflói: Hægviðri og smáskúrir fyrst. Þykknar upp með suðvestan- eða vestanátt á morgun.

Breiðafjörður til Norðurlands, Suðvesturmið til norðurmiða: Hægviðri og víða léttskýjað í nótt. Þykknar upp með suðvestan- eða vestanátt í fyrramálið. 

Austurland til Suðausturlands, Austurmið til Suðausturmiða: Hægviðri. Víðast léttskýjað. 

Veðurfræðingnum er ljóst að einhver breyting er í vændum, en norðanáttin muni samt ekki koma fyrr en á miðvikudag (eins og niðurstaða tvídægrureikninganna hafði sýnt). Sama spá var síðan lesin bæði kl.22 og 01. Spurning er hvaða spá það var sem sjómenn fóru eftir? 

Spáin frá Keflavíkurflugvelli sem gerð var kl.04:30 og lesin þá um loftskeytastöðvar var svona:

Út af Vestfjörðum er vaxandi lægð sem hreyfist suðaustur yfir Ísland.

Suðvesturland til Breiðafjarðar, Suðvesturmið til Breiðafjarðarmiða: Suðvestan kaldi og smáskúrir fram eftir degi, en allhvass norðaustan og ört kólnandi veður í kvöld.

Vestfirðir og Vestfjarðamið: Gengur í norðaustan hvassviðri með snjókomu upp úr hádegi. 

Norðurland og Austurland, Norðurmið og Austurmið. Suðvestan gola og léttskýjað fyrst, en snýst í hvassa norðaustanátt með snjókomu síðdegis.

Austfirðir og Austfjarðamið: Vestan gola og léttskýjað í dag, en allhvass norðaustan og él norðantil í kvöld.

Suðausturland og Suðausturmið: Hægviðri og léttskýjað í dag, en allhvass norðaustan í nótt. 

Ný spá var gerð kl.8. Efnislega er sú spá svipuð og næturspáin, en þó er heldur dregið úr. Allhvössum vindi við Faxaflóa er breytt í stinningskalda, og hvassviðrið á Vestfjörðum er dregið niður í allhvassan vind. Á Norðurlandi var talað um hvassviðri síðdegis (8 vindstig) í Keflavíkurspánni, en í morgunspá Veðurstofunnar hét það kaldi eða stinningskaldi (5-6 vindstig). Kl.10:10 var heldur bætt í aftur og aftur spáð hvössum vindi á miðum norðanlands. 

Klukkan 16 (þegar veðrið er skollið á) er loks minnst á storm (9 vindstig í spánum) - það verður að viðurkenna orðinn hlut. Aftur á móti er vonast til þess að veðrið standi ekki lengi og kl.22 segir í inngangi:

Veðrið er nú að byrja að ganga niður norðan lands, en er í hámarki á Austurlandi. Lægðin er út af Austfjörðum og hreyfist suðaustur, en hæðin yfir Grænlandi fer heldur minnkandi í bili. 

Síðan er í spánni sjálfri gert ráð fyrir minnkandi vindi. Raunin varð hins vegar sú að lítið dúraði og hámark hvassviðrisins varð ekki fyrr en síðdegis á skírdag (þ.11.). Allt fram að því var reynt að spá minnkandi vindi. Á rok (10 vindstig) er ekki minnst fyrr en hámarki veðursins er náð. 

Þetta sýnir auðvitað vel þær gríðarerfiðu aðstæður sem veðurfræðingar áttu við að eiga fyrir 60 árum og hollt fyrir þá yngri að reyna að setja sig í þeirra spor. 

Að lokum nefnum við enn páskahretið mikla 1917. Um það fjölluðu hungurdiskar nokkuð ítarlega á 100 ára „afmæli“ þess. Atburðarásin var furðulík - árás kuldapollsins þá svipuð, stóð ámóta lengi og endaði á svipaðan hátt. Þrýstispönnin varð enn meiri en í hretinu 1963 (>37 hPa). Meginmunurinn felst í veðrinu vikuna á undan. Mjög kalt var þá í veðri 1917, en þó var ámóta hlýtt dagana tvo fyrir hretið og var 1963. Veturinn 1916 til 1917 var nokkru kaldari heldur en 1962 til 1963, en fékk þó góða dóma. Við getum t.d. gripið niður í stutta frétt um góða tíð í Skagafirði sem birtist í Morgunblaðinu 28.mars 1917: 

Sauðárkróki i gær: Hér er alltaf einmunatíð, logn og blíðviðri á hverjum degi. Snjó hefir allan leyst og jörð orðin svo þíð, að farið er að vinna að jarðabótum. Er það líklega eins dæmi hér á Norðurlandi á þessum tíma árs.

Einnig má minna á gríðarlegt hret sem gerði um mánaðamótin mars/apríl 1953 og hefur einnig verið sagt frá því í pistlum hungurdiska. Þeir dagar keppa við 1963-hretið um kulda og hvassviðri - en bar nokkuð öðru vísi að.  

Lýkur hér frásögn hungurdiska af páskahretinu mikla 1963. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 61
  • Sl. sólarhring: 1076
  • Sl. viku: 2732
  • Frá upphafi: 2426589

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 2435
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband