16.9.2024 | 16:42
Illviðrið mikla 23. október 1963
Í október 1963 gerði nokkur eftirminnileg illviðri. Almenna umsögn um þennan mánuð má finna í samantekt hungurdiska um árið 1963. Vegna lengdar frétta af veðri sem gerði 23. október ákvað ritstjórinn að taka það út fyrir sviga - í stað þess að velja og stytta fréttir mikið. Reyndar gerði annað veður - sömuleiðis mjög eftirtektarvert - fjórum dögum áður (19.október) - og fær það að fylgja með - þetta er sama veðrasyrpan. Eins og venjulega er stafsetning færð til nútímahorfa (að mestu) og á stöku stað er sleppt úr textum (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð)
Segja má að þessi syrpa hafi hafist þegar leifar fellibylsins Flóru komu að landinu þann 14. október. Hungurdiskar fjölluðu sérstaklega um þær í pistli 13. september 2019.
Rauði ferillinn á myndinni sýnir lægsta þrýsting hvers athugunartíma á landinu dagana 13. til 25. október 1963. Fyrsta þrýstifallið (þann 14.) varð í tengslum við leifar fellibylsins. Næstu daga á eftir gengu lægðir til norðausturs fyrir suðaustan land, nokkuð djúpar, en ollu ekki teljandi illviðri hér á landi. Það var svo þann 19. að mjög djúp lægð kom sunnan úr höfum og fór til norðurs við Vesturland. Hún varð hvað dýpst síðdegis þann dag, þrýstingur í lægðarmiðju líklega um 935 hPa. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum fór hann niður í 938,4 hPa og var það lægsti þrýstingur sem mælst hafði á landinu í rúm 20 ár, frá því 12,janúar 1942. Þetta er sömuleiðis langlægsti þrýstingur sem mælst hefur í október á Íslandi frá upphafi mælinga (næstlægsta gildið er 945,5 hPa frá 1957).
Við borð lá að þrýstingur færi jafnneðarlega fjórum dögum síðar þegar aftur kom mjög kröpp lægð að landinu, enn krappari heldur en sú fyrri. Þá fór þrýstingur lægst í 945,2 hPa á Sauðárkróki. Trúlega hefur miðjuþrýstingur lægðarinnar verið enn lægri.
Súlurnar á myndinni sýna þrýstispönn landsins á hverjum athugunartíma (mun á hæsta og lægsta þrýstingi). Sjá má lægðirnar fara hjá. Í lægðinni þann 19. fór spönnin mest í 30 hPa, en 32,5 hPa þann 23. Stór tala, ekki síst vegna þess að lægðin fór yfir landið vestanvert.
Kortið sýnir stöðuna þann 19.október kl.18. Rauðum krossum hefur verið bætt við þannig að braut lægðarinnar sjáist. Á tveimur sólarhringum dýpkar hún um nærri 70 hPA, fyrri sólarhringinn um 39 hPa og þann síðari um 30 hPa. Japanska endurgreiningin virðist ná lægðinni undravel. Hér á landi varð tjón bæði vegna vinds, en meira þó vegna brims. Stórstreymt var, nýtt tungl þann 17. Eins og sjá má af línuritinu að ofan var rólegt veður þann 20., en aðfaranótt 22. fór lægð til norðausturs um Grænlandshafi. Komst þrýstispönnin þá upp í 15 hPa, strekkingsvind. Þessi lægð telst þó ekki til neinna tíðinda.
Kortið hér að ofan sýnir stöðuna í háloftunum að kvöldi þess 22., hátt í sólarhring áður en veðrið mikla skall á. Köld tunga liggur langt suður í haf og vekur þar bylgju af mjög hlýju lofti. Í sameiningu þessara afla varð til enn ein ofurlægðin sem dýpkaði ört og stefndi til landsins.
Síðdegis þann 23. var hún við Reykjanes. Hafði á einum sólarhring dýpkað um 35 hPa og á sama tíma borist áfram á um 100 km hraða á klukkustund. Gríðarlegur suðvestanstrengur var í suðaustur- og suðurjaðri lægðarinnar (það sem kallað hefur verið stingröst). Röstin kom inn yfir Suðurland og fór norður yfir. Á nokkru belti frá vestanverðri Árnessýslu austur í Vestur-Skaftafellssýslu og sömuleiðis sumstaðar á svæðinu frá Eyjafirði austur fyrir Langanes gekk hið mesta fárviðri yfir. Vestar og austar á landinu varð ekki eins hvasst. Ritstjóri hungurdiska sá loftvogina detta niður úr öllu í Borgarnesi, en lægðarmiðjan fór um það bil beint þar yfir. Vestur á fjörðum hvessti mjög af norðaustri, en það leið þó fljótt hjá, því fyrr en varði var lægðin komin norður fyrir land.
Vindraðamet var sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Vindhraði mældist 55,6 m/s og var landsmet á sínum tíma - og stendur enn sem vindhraðamet októbermánaðar. Vindhraðamælir var annarrar gerðar en nú tíðkast og nokkur óvissa um kvörðun - en ljóst að um fádæma vind var að ræða.
Hér má sjá hið merkilega veðurkort miðvikudaginn 23.október 1963. Lægðarmiðjan við Mýrar, um 942 hPa í miðju. Tvöfalt flagg á vindör Stórhöfða, meir en 100 hnúta vindur. Fárviðri var einnig í Æðey, en af norðaustri. Eins og áður sagði fór lægðin síðan norðaustur um Húnaflóa og Skaga. Vinstrengurinn barst með henni - en núningur landsins dró smám saman úr honum. Miklir skaðar urðu þó einnig norðanlands.
Við tökum nú til við blaðafregnir af þessum tveimur veðrum. Fyrra veðrið gekk yfir síðdegis og að kvöldi laugardags. Engar fréttir af því birtust því í blöðum fyrr en á eftir helgina. Vísir gat verið fyrstur með fréttirnar mánudaginn 21.:
Mesta flóð sem komið hefur í Þorlákshöfn frá því 1925, skall á s.l. laugardagskvöld. Sjór flæddi inn í frystihús Meitils og allar rúður sjávarmegin á frystihúsinu brotnuðu. Miklar skemmdir urðu á vegum m.a. fór að heita má alveg braut sem lögð hafði verið frá frystihúsinu að Norðurvararbryggju. Sjórinn æddi yfir malarkamba sunnan við þorpið og langt inn á tún þar.
Morgunblaðið segir síðan frá daginn eftir, 22.október:
Miklar skemmdir urðu í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum af völdum brims s.l. laugardagskvöld og sjórinn gekk um kílómetra á land við Vík í Mýrdal. Óvenju mikið háflæði var við Stokkseyri og Eyrarbakka, en þar urðu engar skemmdir. Ástæðan fyrir þessu var, að stórstreymt var, mikið hvassviðri og loftvog með lægsta móti. Hér á eftir lýsa fréttaritarar Morgunblaðsins skemmdum þeim, sem brimið og veðurofsinn olli:
Þorlákshöfn, 21. október. Rétt fyrir kl.8 s.l. laugardagskvöld braust sjórinn hér á land hjá vörugeymslu SÍS og flutti með sér tugi tonna af grjóti. Ofsarok var á af suðaustan. Sjórinn flæddi inn í vörugeymsluna og flutti grjót með sér inn um hurð, á norðurgafli sem brotnaði upp. Talsverðar skemmdir urðu á fóðurmjöli í geymslunni. Kjallari, sem er undir fóðurblöndunarvélum, fylltist af sjó er eyðilagði stóran rafmótor sem þar er staðsettur. Á suðurgafli frystihúss Meitils hf brotnaði inn útidyrahurð og flæddi sjórinn þar inn. Ýmsar smávægilegar skemmdir urðu þar. Þá flæddi sjór og grjót inn í nýbyggt hús Norðurvarar hf. Brotnaði upp hurð og fylltist allt af grjóti og möl. Aðrar skemmdir urðu ekki að hér í þorpinu, nema hvað malarkambur, sem er sunnan við vörugeymslu SÍS, hefur lækkað mjög mikið á 700800 metra löngum kafla. Þar flæddi sjórinn upp að olíutank, sem er um 900 metra frá sjó. Hætta er á, að sjór gangi fremur hér upp, eftir að malarkamburinn lækkaði. Mjög hætt er og við, að sjór gangi upp með norðurenda vörugeymslunnar, þar sem malarkamburinn sem þar var, hefur flust upp á hlað. Við norðurhlið frystihússins stóð fólksbíll. Fuku á hann fiskbalar, skemmdist ein hurð bílsins, en vörubílstjórum úr Reykjavík, sem óku hingað vörum, tókst að forða bílnum áður en frekari skemmdir urðu. Magnús.
Vestmannaeyjum, 21. október. Austan og síðan suðaustan rok gekk hér yfir á laugardag með einhverju því mesta hafróti, sem getur orðið. Versnaði veðrið og brimið, þegar á kvöldið leið. Flóðhæðin var svo mikil, og allar bryggjur voru á kafi í sjó og gekk hann upp að næstu umferðargötum. Bátar í höfninni urðu ekki fyrir teljandi skemmdum, enda fóru sjómenn fljótlega um borð til að binda þá betur og voru um borð margir hverjir fram eftir nóttu. Herjólfur var hér í höfninni og slitnaði upp og var skipinu lagt við akkeri og legubaujur. Samkvæmt áætlun átti Herjólfur að fara kl.9 um kvöldið, en talið var ófært í sjó og fór hann því ekki fyrr en næsta morgun. Miklar skemmdir urðu á nýbyggingu fiskimjölsverksmiðju Einars Sigurðssonar, þar sem nýlega hafði verið komið fyrir ýmsum vélum, svo sem þurrkara, pressu og rafmótorum. Urðu verulegar skemmdir á vélunum, þar sem sjór braut upp hurðir og ólögin gengu um allt húsið. Nú er unnið að hreinsun og viðgerð vélanna. Sjórinn sópaði einnig burt nokkrum tonnum af mjöli og sandi úr ystu bryggjunni, Naust hamarsbryggju. Þá lagði út af uppslátt fyrir bryggjukanti innst í Friðarhöfn. Er hér um töluvert tjón að ræða. Veðrið tók að ganga niður, þegar á nóttina leið. Fréttaritari.
Vík í Mýrdal, 21. október. Suðaustan stórviðri með mikilli rigningu geisaði hér s.l. laugardag. Í þessu veðri gekk sjórinn nokkur hundruð metra á land síðari hluta dags. Komst sjórinn yfir þjóðveginn þar sem hann liggur undir Víkurkletti. Þaðan er annars um kílómetri út að sjó. Miðja vega milli Víkurkletts og strandarinnar fannst í gær lifandi og spriklandi hnísa, fremur lítil, sem borist hafði svona langt upp á sandinn í hafrótinu. Var hnísan skorin í gær. Sjórinn flæddi einnig upp í Víkurá, svo að hann komst þar alla leið upp að aðalbrúnni hér í þorpinu. Áætlunarbíllinn fór ekki yfir Mýrdalssand á laugardag vegna óveðursins. Margir kannast við þurran sandstorm á Mýrdalssandi, sem veldur stórskemmdum á bílum, en á laugardaginn rauk blautur sandur upp í veðurofsanum og er það engu betra. Fréttaritari.
Bláhvítir blossar sáust á himni aðfararnótt sunnudags. Það voru menn í bíl, nálægt Þórshöfn, sem sáu blossana í suðvestri. Tilkynntu þeir þetta í gegnum talstöð í bílnum til Siglufjarðarradíós, sem hafði samband við Veðurstofuna. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni sáust blossarnir öðru hverju með jöfnu millibili, en ekki hafa aðrir en fyrrgreindir menn skýrt frá fyrirbærinu. Er talið líklegt, að eldblossarnir hafi stafað af eldingum í þrumuveðri inni yfir hálendinu, sennilegast yfir vestanverðum Vatnajökli. Veðurathugunarstöðvar hafa ekki skýrt frá þrumuveðri neins staðar, en gæti vel hafa verið yfir hálendinu þrátt fyrir það. Má geta þess, að eldblossar sem sjást, þegar eldgos eru, stafa oft frá eldingum í lofti. Rétt um það leyti, sem eldblossarnir sáust, var mjög djúp lægð við suðvestur ströndina, ein af þeim dýpstu, sem koma á þessum slóðum. Loftþrýstingurinn í þessari lægð mældist lægstur í Vestmannaeyjum, 938 millíbar.
Tíminn segir einnig frá þriðjudaginn 22.október - að mestu samhljóða Morgunblaðinu, en nokkur smáatriði önnur:
BÓ-Reykjavík, 21. október. Á háflæði á laugardagskvöldið gekk sjór upp á suðurströndina og gerði stórspjöll á vörugeymslu SÍS í Þorlákshöfn og frystihúsinu þar, en hafnarmannvirki skolaðist burt í Grindavík. Þá var hvöss suðaustanátt. Í kvöld bárust þær fréttir, að skemmdir hefðu orðið á aðalhafnarmannvirkinu í Þorlákshöfn, Suðurvararbryggju. Guðmundur Ágústsson, umsjónarmaður með verklegum framkvæmdum hjá Olíufélaginu, hringdi til blaðsins og sagði, að starfsmaður félagsins hefði veitt því athygli, að sprunga, sem áður var komin i ljós utan á garðinum, hefði nú komið fram að innan verðu, þar hefði nálega 10 sm glufa opnast. Guðmundur Ágústsson kvaðst halda, að þarna yrði að brjóta niður garðinn og steypa á ný. Um klukkan 19 á laugardagskvöldið skall sjórinn yfir malarkambana sunnan við Þorlákshöfn og langt upp á tún. Mestar skemmdir urðu i vörugeymslu SÍS, en þar braut sjórinn upp norðurdyrnar og kastaði grjóti inn, mölvaði stafnglugga og spýttist upp úr gólfinu, eins og þar væri sægur af gosbrunnum. Undir húsinu er malarfylltur grunnur, og sjórinn þrengdi sér upp um hann. Magnús Bjarnason, starfsmaður í geymslunni, sagði í dag, að neðsta sekkjalagið af fóðurmjöli væri ónýtt, en þá var unnið að því að rífa fram sjóblauta ull og senda hana í þvott til Hveragerðis. Nú er grjóthaugur, rúmur metri á þykkt við norðurstafn geymslunnar, sumir steinarnir meir en hálft tonn á þyngd. Gólfið i húsi Norðurvarar h.f. fylltist af grjóti og möl, en það er nýlega byggt og stendur tómt. Í frystihúsi Meitils brotnuðu dyr að sunnan og norðan og flestir gluggar á neðstu hæð, 6 eða 7 talsins. Frystihússtjórinn sagði, að þar hefðu orðið furðulitlar aðrar skemmdir. Enginn fiskur var á neðri hæðinni, tæki skemmdust ekkert að ráði, en sjórinn komst inn á gólf í símstöðinni, þar til húsa. Eftir þennan forgang var ófært að húsinu fyrir möl og grjóti, en því hefur verið rutt frá með jarðýtu. Þessi sjávargangur stóð á þriðju klukkustund. Guðsteinn Einarsson, fréttaritari Tímans í Grindavík, sagði að brimið hefði gengið upp á milli húsa í þorpinu laust eftir kl.20. Þá voru allar bryggjur í kafi. Í fyrrasumar var steyptur varnargarður fyrir utan höfnina. 2030 metra kafli af honum, framan til við miðju, lagðist út af, og er garðurinn þar með gagnslaus, Það, sem eftir stendur, getur farið í næstu flóðum. Garðurinn var byggður á lausan jarðveg, og sjórinn hefur grafið undan honum. Búið var að treysta hann með stórgrýti, en kom að engu haldi. Aðalhættan sem nú stafar af þessu mannvirki vitamálastjórnar, er sú að grjótið fari inn í höfnina og eyðileggi hana. Engar skemmdir urðu á bátum í Grindavík, enda vel gengið frá þeim.
Fregnir af veðrinu þann 23. birtust í blöðunum daginn eftir, í fyrstu virtist tjón ekki stórkostlegt - en nánari fregnir af því komu síðar. Tíminn segir frá 24.október:
KH-Reykjavík, 23.október. Í dag gerði ofsaveður á Suðurlandsundirlendinu, sem í kvöld hafði náð yfir mestallt landið. Var vindhraðinn slíkur, að hann hefur aldrei mælst meiri við jörðu hér á landi, eða 16 vindstig á Stórhöfða. Spáð er ofsaveðri um Norður- og Austurland í nótt, en stormi á Suður- og Vesturlandi. Tjón hafði ekki orðið stórkostlegt í þessum veðraham, eftir því sem blaðinu var kunnugt um seint í gærkveldi. Þó fuku þakplötur víða af húsum, illa gekk að hemja báta í höfnum, eldur kom upp í skúr á Húsavík, flug tafðist og flugvélar urðu að lenda annars staðar en áætlað var, og togari strandaði á Ísafirði. Tveggja báta var saknað, en annar var kominn fram í kvöld. Ekkert hafði spurst til hins undir miðnætti.
Lægðin, sem völd er að þessu óveðri. var langt suður í hafi í gær, en byrjaði að dýpka mjög ört og hefur loftvogin ekki fallið jafnhratt síðustu árin og hún gerði í Vestmannaeyjum í dag. Frá því klukkan 12 á hádegi til kl. 15 féll hún um 23 millibör, en hér í Reykjavík féll hún á sama tíma um rúmlega 21 millibar og komst niður í 942 millibör, sem er óvenju lágt. Um klukkan sex í dag varð vindhraðinn mestur í Vestmannaeyjum, 16 vindstig. Jónas Jakobsson, veðurfræðingur, kvaðst ekki muna til þess, að svo mikill vindhraði hefði mælst við jörðu hér á landi áður. Mesti vindhraði, sem mældur er, er 17 vindstig. Um klukkan 11 var vindhraðinn aðeins 12 vindstig á Stórhöfða, að sögn veðurstofunnar. Var lægðarmiðjan þá að öllum líkindum komin norður fyrir Grímsey á leið norður eða austur. Spáð er vestanroki eða ofsaveðri á Norður- og Austurlandi í nótt, en hægara á morgun.
Á Suður- og Vesturlandi er spáð vestanstormi eða roki í nótt en heldur hægara á morgun. Saknað var í kvöld vélbátsins Elliða frá Elliðaey, og hafði enn ekkert til hans spurst undir miðnætti. Elliði er sjö smálesta bátur, eign vitavarðarins í Elliðaey. Vitavörðurinn lagði af stað á bát sínum við annan mann frá Rifi klukkan 2 í nótt og ætlaði til Stykkishólms með viðkomu í Elliðaey. Síðan hefur ekkert heyrst frá honum. Talstöð er í bátnum, en álitið er, að hún geti verið biluð. Vitinn i Elliðaey sendir ekki, en vonast er til, að mennirnir og báturinn séu, þar heilir á húfi, þó að þeir hafi ekki látið heyra frá sér. Tveir bátar frá Ólafsvík, Steinunn og Stapafell, voru á sjó og fóru þeir að svipast um eftir Elliða í kvöld. Einnig var reynt að fá báta úr Grundarfirði og Stykkishólmi til að leita. Ætluðu bátarnir fyrst að fara út í Elliðaey og hyggja að bátnum þar, en annars er erfitt um leit að svona litlum bát í myrkrinu. Allhvasst var um tíma á Breiðafirði í dag, en veðrið hafði ekki náð sér upp þar enn undir miðnætti. Spáð er stormi þar i nótt.
Klukkan hálf ellefu hringdi fréttaritari blaðsins á Ísafirði og sagði, að enski togarinn Northern Spray væri strandaður um 3 sjómílur fyrir innan Rif, eða nálægt þar sem Egill rauði strandaði fyrir nokkrum árum. Annar enskur togari var kominn á vettvang og reyndi að koma línu yfir í Northern Spray, en það hafði ekki enn þá tekist. Togarinn hafði nýlega haft samband við varðskipið Óðin, sem var á leið til hjálpar, og sagði eftir Northern Spray, að skipið virtist ekki hafa laskast, og enginn sjór væri í lest eða vélarrúmi. Um þetta leyti var blankalogn á ísafirði, en dimmt og þoka niður í miðjar hlíðar. Undir miðnætti bárust blaðinu síðustu fregnir af strandinu. Varðskipið Óðinn tilkynnti kl.23:17, að búið væri að bjarga allri áhöfn togarans, tuttugu manns, um borð í Óðin, og nú væri aðeins beðið átekta, hvort unnt yrði að bjarga skipinu. Var þá kominn blindbylur og haugasjór á þessum slóðum. Margir enskir togarar liggja þarna í vari undir Grænuhlíðinni. Á Ísafirði var misvindasamt og hvasst í dag. Óttast var um vélbátinn Ver ÍS 108, sem stundar humarveiðar í Djúpinu, og hafði síðast heyrst til hans kl.5, þegar hann var við Æðey. Var auglýst eftir honum í útvarpi og radíóið á Ísafirði kallaði á bátinn. Kl. 21:30 tilkynnti Víkingur II, að Ver væri á leið inn fjörðinn og hefði ekki annað orðið að en að hann tafðist við veiðamar.
Í Vestmannaeyjum var veðurofsinn slíkur um 6 leytið, að menn muna ekki annað eins, vindstyrkurinn komst upp í 16 þegar verst lét. Til marks um ofsann, sagði fréttamaður blaðsins í Eyjum, að gamall nótabátur úr stáli, sem í mörg ár hefur legið á sama stað, fauk langar leiðir í rokinu, hafnaði á ljósastaur og hékk þar. Þak fauk af fiskvinnsluhúsi við Vinnslustöð Vestmannaeyja og lentu sumar plöturnar á Fjallfossi, sem lá í höfninni. Var mesta mildi, að þær lentu ekki á mönnum, sem unnu við skipið. Stöðva varð upp skipun úr Fjallfossi vegna ofsans, og illa gekk að hemja skipið við bryggju. Var lóðsinn látinn keyra á skipið og halda því upp að bryggjunni. Miklum erfiðleikum var bundið að halda skipum í bólunum, en engir teljandi skaðar urðu, aðrir en upp er talið. Vitað var um þrjú skip á leið til Eyja, Eyjaberg, Kristbjörgu og Leó, sem voru að koma úr söluferð til Englands, en um hálfníu voru þau að koma að og virtist allt vera í lagi hjá þeim. Loftleiðavélin Eiríkur rauði, sem var á leið hingað frá Gautaborg, varð að snúa við, þegar hún var komin í hálftíma fjarlægð frá Vestmannaeyjum rétt fyrir klukkan níu í kvöld. Fór hún áleiðis til Stafangurs. Um svipað leyti var tveimur íslenskum flugvélum snúið við úti í Evrópu og lentu þær báðar í Prestwick. Önnur var Loftleiðavélin Þortinnur karlsefni, sem var á leið frá Luxemburg, en hin var frá Flugfélaginu. Allt innanlandsflug lagðist niður seinni hluta dagsins og voru allar áætlunarvélar þá í Reykjavík, nema Flugfélagið átti eina skota-vél á Ísafirði. Í Reykjavik fór að bera á því á áttunda tímanum um kvöldið, að þakplötur væru að losna, og keyrði það um þverbak á tímanum frá kl. 8 til 9:30. Lögreglan kvaddi út lið bæjarvinnumanna til aðstoðar við. að hemja járnið og aðra fauti, sem fuku um í reiðileysi. Enginn slasaðist um kvöldið og árekstrar urðu ekki. Vinnupallar við Álftamýrarskólann voru taldir í hættu, en þeir stóðust veðrið. Hvergi í bænum fuku heil né hálf þök, en mjög víða nokkrar þakplötur. Í Hafnarfirði fauk gamalt salthús Bæjarútgerðarinnar og rafmagnið fór af bænum um tíma. Á Akureyri hvessti með myrkrinu, og sagði fréttaritari blaðsins í kvöld, að nú fyki allt, sem fokið gæti. Um níuleytið höfðu tveir menn þegar slasast. en ekki var vitað, hversu mikið fauk, járnplata á annan, en brak úr uppslætti á hinn. Bátur, er lá við Höepnersbryggju slitnaði upp og rak yfir Pollinn og hafnaði uppi á Strandgötu. Á Húsavík var komið ofsarok í kvöld. Var mikil ókyrrð í höfninni, en þar liggja margir trillubátar. Bátarnir eru í mikilli hættu, en ógerningur er að fylgjast með þeim vegna myrkurs og roks. Engir bátar voru á sjó þaðan í dag. Klukkan átta kom upp eldur í beituskúr á Húsavík. Brann hann allur og varð mikið veiðarfæratjón. Margir skúrar vora í hættu vegna roksins, sem gerði slökkvistarfið erfitt, og einn þeirra skemmdist lítið eitt. Má teljast mildi, hversu vel tókst að slökkva eldinn.
Fréttaritari blaðsins á Hvolsvelli, kvað veðrið hafa verið mjög vont þar í dag, en vissi þó ekki af neinum skemmdum í nágrenni við sig, en símalínan mun þó hafa slitnað til Víkur í Mýrdal. Gissur bóndi Gissurarson í Selkoti undir Eyjafjöllum sagði, að þar hefði í dag geisað eitt allra mesta óveður, sem þar gerist. Hann sagðist ekki hafa frétt af tjóni, en þó hafði legið við að gamalt fjós á Rauðafelli fyki. Þar er verið að byggja nýtt fjós, en kýr eru enn í gamla fjósinu. Brotnuðu í því sperrur og járn spenntist upp, en það stóð samt.
BÓ-Reykjavik, 23. október. Kornuppskera grasmjölsverksmiðjunnar á Hvolsvelli lánaðist illa í þetta sinn. Nú voru sekkjaðar 25 lestir af korni, en 50 í fyrra, sem þótti mjög lélegt. Blaðið talaði i dag við Jóhann Franksson á Hvolsvelli, og sagði hann enn fremur, að 80 hektarar með tvíraða byggi og höfrum hefðu eyðilagst í stormi og frosti, og varð ekki slegið. Eins og áður var skýrt frá hefur kornuppskeran brugðist víðar en á Hvolsvelli. Þingeyingar notuðu korn sitt sem grænfóður. á Hérað er kornið ýmist þreskt og slegið sem grænfóður og þar er enn verið að slá og þreskja. Uppskeran er talin lélegri en í fyrra. Hornfirðingar þresktu allt sitt kom og skáru upp svipað magn og í fyrra, en þá var uppskeran talin léleg. Niðurstöðutölur um uppskeruna í heild liggja ekki fyrir.
Morgunblaðið segir einnig frá sama dag, 24.október:
Í gær gekk ný stórlægð yfir Vesturlandið með ofsaveðri, mældust í gærmorgun 16 vindstig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og muna menn varla annað eins rok. Á tímabilinu frá kl.12 á hádegi til kl.3 féll loftvogin í Reykjavík um 21,0 mb og í Vestmannaeyjum um 23,1 mb. Er þetta alveg óvenjulegt, enda mesta fall á loftvog, sem vitað er um hér á landi, 26 mb á 3 tímum, en það var á Dalatanga 25. janúar 1949. Lægðin í gær kom suðvestan úr hafi, var um 1500 km í burtu kl.6 síðdegis á föstudag og ferðaðist svona hratt og snardýpkaði. Fór lægðarmiðjan niður í 924 mb, en hefur dýpst mælst hér 919 mb. Lægðin gekk seinni hlutann í gær norður yfir Vesturlandið, var kl.18 úti af Mýrum og hélt áfram norður yfir Vestfirði, með sama ofsaveðrinu, nema hvað lægði meðan lægðarmiðjan gekk yfir. Sagði Jónas Jakobsson veðurfræðingur, í gærkvöldi að í dag yrði lægðin komin norður fyrir land.
Í roki þessu fuku víða þakplötur af húsum, eins og t.d. í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík, símalínur biluðu undir Eyjafjöllum, uppsláttur fauk yfir feðga á Akureyri, og verst mun tjónið hafa orðið í Vestmannaeyjum, en frá því er skýrt annars staðar. Auglýst var eftir tveimur bátum, á Breiðafirði og Ísafirði, og er skýrt frá því annars staðar. Í Reykjavík voru 910 vindstig í gær. Varla var stætt í hryðjunum. Járnplötur fuku af húsum, en lögreglan sendi vinnuflokka út til að koma í veg fyrir tjón og varð það hvergi neitt að ráði, þó mest á Snorrabraut 33. Einnig fauk vinnutjald frá rafveitunni. Ekkert varð að i höfninni samkvæmt upplýsingum hafnarvarða.
Morgunblaðið hafði samband við fréttaritara sína á Akranesi, Keflavík, og Stykkishólmi. Kváðu þeir gífurlegan veðurofsa, en ekki tjón, sem þeir vissu af. Fréttaritari blaðsins undir Eyjafjöllum símaði: Borgareyrum. Hér hefur verið ofsaveður af suðaustri frá því kl.2 í dag og allt fýkur sem fokið getur. Ekki er þó vitað um tjón á húsum af völdum þess, enda eru byggingar víða nýlegar og traustlega gerðar og þeim sem eldri eru vel við haldið. Staurarnir á raflínunni sem liggur frá norðri til suðurs undir Eyjafjöllunum hafa látið undan veðrinu og hallast mjög til vesturs. Símalínurnar hafa bilað milli Seljalands og Varmahlíðar. Holtsós líkist fremur úthafi en litlum ósi. M.J. Á Selfossi var næstum óstætt í gærkvöldi og versta veður á Eyrarbakka, en ekki neitt tjón sem vitað var um.
Akureyri. Hér tók að hvessa um kl.6 í kvöld og náði veðrið hámarki um kl.8. Voru þá 9 S-SA vindstig á lögreglustöðinni þar sem veðurathuganir fara fram, en miklu hvassara í byljunum. Á brekkunum og á Oddeyri mun veðurhæð þó hafa verið miklu meiri. Mikið úrfelli fylgir veðri þessu. Rafmagn fór af öllum bænum á 9. tímanum og var rafmagnslaust í stundarfjórðung. Eitthvað munu þakplötur hafa losnað og fokið og varð ungur maður fyrir einni þeirra og skarst á hendi og á fæti. Gert var að sárum hans í sjúkrahúsinu. Tveir ungir heimilisfeður voru í kvöld að vinnu við hús, sem þeir eiga í smíðum. Voru þeir búnir að slá upp mótum útveggja á efri hæð og voru rétt ófarnir heim til kvöldverðar, er uppslátturinn fauk skyndilega yfir þá og síðan eitthvað út í buskann. Urðu þeir undir brakinu og meiddist annar þeirra í baki og marðist nokkuð, en hinn hlaut mikinn skurð á höfði og slæman heilahristing. Meiðsli hans eru þó ekki könnuð til fulls enn og liggur hann á sjúkrahúsinu HSJ.
Fréttaritarinn í Grindavík símaði: Hér var mikið hvassviðri á suðvestan framan af degi og nú er hann genginn í suðaustan með ofsaroki. Sjórinn gengur ekki mikið upp núna. En í stórstreymi og óveðri á laugardagskvöldið brotnaði 2030 m skarð í varnargarð, sem hér var steyptur í fyrrasumar. Eins hefur lækkað mikið í þessu flóði grjótgarður, sem verið var að keyra í grjót í haust og átti að verða uppfylling. Hefur hann lækkað mikið og skolað frá honum öllu smáu grjóti. Enda hefur sjórinn ekki gengið jafn hátt og í laugardagsflóðinu í 30 ár. Mikið tjón er að skarðinu í varnargarðinn. Skarðið myndaðist framarlega á honum og er það sem eftir stendur, framendinn og efri hlutinn orðið mikið sigið. Er hætt við að það leggist út af líka, ef gerir mikið brim. GÞ.
Vestmannaeyjum Ofsarok skall yfir hér í Vestmannaeyjum eins og hendi væri veifað í kvöld. Hvasst var í morgun á austan, síðan lægði. og rétt fyrir sex kom hvellurinn yfir á suðvestan, svo vindhraðinn náði 108 hnútum eða 16 vindstigum á Stórhöfða, sem jafnframt er mesti vindur sem mælst hefur síðan mælingar hófust. Mest mældust áður 100 hnútar. Féll loftvog svo ört að fólk trúði því ekki, og í kvöld hækkaði hún jafnört. Kl.9 var veður heldur farið að ganga niður, vindur kominn niður í 11 vindstig. Meðal skemmda sem vitað er um, er þetta. Bílskúr fauk á Gvendarhúsum fyrir ofan Hraun, Gróðurhús aflöguðust við Suðurgarð. Bílar fuku úr stað. Gafl á gangaskúr við gamalt hús í miðbænum fauk inn. Í morgun var Fjallfoss tekinn í höfn og þar var fyrir breskur togari. Lóðsinn var um borð í Fjallfossi frá kl. 6 til kl. 10, því búast mátti við því versta, en skipið hélst þó við bryggju, enda lá Mb. Lóðsinn á síðu skipsins og keyrði fulla ferð að bryggju upp í veðrið. Togarinn hékk að mestu fastur, slitnaði að vísu frá að hálfu, og var dreginn að bryggju með bílum, þar eð Lóðsinn var upptekinn við Fjallfoss. Hafnarverðir og bátasjómenn hér börðust í ofsanum við að hemja bátana við bryggju. Hefðu þessi veður, bæði þetta á laugardag og í dag skollið yfir að nóttu til eða á morgunflóði hefði mátt búast við miklu tjóni. En í dag voru flestir með bátana í gangi. Við höfnina fauk nótabátur yfir 100 metra og braut á leið sinni 3 ljósastaura og sleit niður rafmagnslínur og hafnaði á ljósastaur vestast og fremst á Friðarhafnarbryggju. En þessi bátur hefur staðið óhaggaður á sama stað í 5 ár. Í Friðarhöfninni mynduðust sviptivindar, svo örugglega má reikna með að í sviptibyljunum hafi verið 1618 vindstig. Þá fuku menn í rokinu. Einn stansaði milli framhjóla á bíl fremst á bryggju brún og annar náði í vírenda. Hvorugur slasaðist. Nýreist mastur vegna fjölsímasambands við Hornafjörð og einnig er fyrir móttakara er við símstöðina laskaðist eitthvað. Plötum rigndi um Friðarhöfn .Mestur hluti af syðsta húsi Vinnslustöðvarinnar, sem nefnt er Kína, fauk og einnig er talið að töluverður hluti af plötum af nýja pökkunarsalnum hafi farið. Hundruð af yfir 20 feta plötum rigndi um alla Friðarhöfn, trúlega af yfir hundruð fermetra fleti. Annars var hvergi gerlegt að fara nálægt til að kanna nánar skemmdir, og er stórmildi, ef ekki hefur orðið meiðsli á mönnum sem voru að bjarga bátum sínum. Hver hafði í rauninni nóg með að hemja sjálfan sig og urðu margir að henda sér niður, svo þeir steyptust ekki í sjóinn. Auk þess var margt lauslegt á ferðinni í rokinu. Á símstöðinni var jafn mikið að gera og þegar brunalúðurinn fer í gang, borðið varð hvítt og númerin hrundu niður, því allt fór á annan endann í bænum. Þrír Vestmannaeyjabátar eru á leið til Eyja frá því að hafa selt erlendis. Þeir halda sjó 70 mílur A-SA af Eyjum og voru kl. 67 í 14 til 16 vindstigum eða í spænuroki", eins.og þeir sögðu, en sjór var ekki að sama skapi mikill. Bátarnir eru Mb. Kristbjörg, Eyjaberg, sem eru saman og Leo er lítið eitt á eftir. Þetta eru allt stórir stálbátar. Fréttaritari.
Ísafirði, 23. október. Breski togarinn Northern Spray frá Grimsby strandaði kl. 21:47 í kvöld um 3 sjómílur innan við Rit. Tuttugu manna áhöfn skipsins hefur verið bjargað umborð í varðskipið Óðinn. Norðaustan rok og blindbylur var á Ísafjarðardjúpi, þegar togarinn strandaði undir Grænuhlið, á svipuðum slóðum og togarinn Egill rauði strandaði fyrir nokkrum árum. Breski togarinn James Barrie kom fyrstur á vettvang og mun hafa bjargað 8 mönnum með því að skjóta línu yfir í Northern Spray og senda síðan björgunarbát yfir að strandaða togaranum. Varðskipið Óðinn, sem fór frá Ísafirði um kl. 3 í dag, en þangað hafði varðskipið komið með togarann Life Guard, kom á strandstaðinn nokkru fyrir kl.23 og mun hafa bjargað þeim 12 mönnum, sem eftir voru í Northem Spray og hefur nú einnig tekið við mönnunum, sem James Barry hafði bjargað. Mun Óðinn koma með skipsbrotsmennina til Ísafjarðar. Ekki er talið vonlaust, að hægt kunni að draga skipið út, en skipherrann á Þór, taldi rétt fyrir miðnætti ekki öruggt að setja dráttarvíra í togarann vegna veðurs. Lítils háttar sjór mun vera kominn í togarann. Hávaðarok var í Ísafjarðardjúpi í kvöld. H.T.
Tíminn segir frá miklu tjóni í fréttapistlum 25.október:
HF, KH, FB-Rvík, 24.október. Í fárviðrinu í gær varð geysilegt tjón um allt land, einkum á Suðurlandi, enda mun þetta hafa verið mesta veður, sem mælst hefur hér á landi. Blaðið hafði í dag samband við menn um land allt og fara hér á eftir frásagnir af hamförunum.
Í Holtunum geisaði ofveður í gærdag og í nótt og víða fuku hey, sem stóðu úti og járnplötur af byggingum. Á Mykjunesi fauk gamalt fjós og losnaði gluggi í nýju fjósi, einnig fór mjög stór heystabbi, sem stóð á túninu, út í veður og vind. Á Efri-Rauðalæk fuku 10 þakplötur af heyhlöðu og á Syðri-Rauðalæk fór hálft þak af hlöðu og skúr, sem áfastur var við hana. Uppsláttur að nýju húsi gereyðilagðist í Helluþorpi. Í Ási tók upp nýlega fjárhúshlöðu, og fór hún 10 metra í loftinu, áður en hana bar niður aftur, alla í lamasessi. Í Hamrahóli vildi svo hörmulega til, að járnplata fauk í glugga á íbúðarhúsinu, svo að glerið fór í andlit húsmóðurinnar og varð að flytja hana á sjúkrahús í Reykjavík í gær. Á sama stað fuku bæði mikil hey og útihús, fjárhús, hlaða og hesthús, en það var mikið tjón fyrir bóndann, sem nýbúinn var að stofna bú. Einnig eyðilagðist mikið fyrir honum af byggingarefni. Héraðslæknirinn þarna, Ólafur Björnsson, kom í dag á bíl sínum yfir Markarfljótsaura, en hann var staddur þar fyrir austan, þegar óveðrið skall á, en á leiðinni gjörskemmdist bíll hans af sandfoki. Í Hvolhrepp fuku járn af húsum og hey úti um allar sveitir. Í Kaupfélagshúsinu á Hvolsvelli brotnuðu rúður, en þar er tvöfalt gler, geysistórt að flatarmáli, og brotnuðu einungis innri rúðurnar, vegna þrýstingsins. Þakplötur fuku og af verslunarhúsinu á Hellu. óveðursins gæti fyrst um tvöleytið, en einna hvassast var á milli 6 og 8.
Að Ámótum fauk gömul hlaða í loft upp og hafnaði hún uppi á fjósi, ekki er vitað, hve tjónið hefur orðið mikið. Í Vík í Mýrdal og þar fyrir austan var veðurofsinn mestur á milli klukkan fjögur og fimm og þá brotnuðu m.a. símastaurar við Klifanda og á Sólheimasandi, en menn muna ekki eftir öðru eins óveðri. Að Svínadal í Skaftártungu fauk stafn úr fjárhúsi og skúr fylgdi með, sem áfastur var við stafninn. Að Borgarfelli í sömu sveit fauk þak af 200 kindafjárhúsi og allt lauslegt hey tók upp. Að Ljótarstöðum, einnig í Skaftártungu fauk önnur hliðin af þakinu á íbúðarhúsinu og á Snæbýli fauk járn af húsakynnunum. Svo illa vildi til, að bóndann að Hvammi í Skaftártungu tók á loft upp í óveðrinu, og kom hann niður á bakið og herðarnar og hlaut af einhver meiðsli. Þó hafði hann smávegis fótavist í dag. Að Hraunbæ í Álftaveri reyndist óveðrið einna verst. Þar fór þakið af íbúðarhúsinu, svo að aðeins sperrurnar stóðu eftir, fyrir utan það, að þakplötur fuku af útihúsum. Þegar þakið tók af vildi svo illa til, að reykháfurinn lenti á spánnýjum bíl, sem stóð fyrir utan bæinn og gereyðilagði hús hans. Tíminn hafði í dag tal af bóndanum á Hraunbæ, Þorbergi Bjarnasyni og sagði hann, að ofsaveður hefði gert upp úr þrjú og þegar verst gegndi a milli kl. 4 og 5 hefði það ekki skipt neinum togum, heldur þakið svipst af íbúðarhúsinu og sperrurnar staðið eftir berar. Í dag var byrjað að smíða nýtt þak og ef veðrið helst eins gott og í dag verður það verk klárað á einum sólarhring. Þorbergur var ekki heima, þegar ósköpin gerðust, en þegar hann kom heim varð fjölskyldan fyrst að flytja í skúr, sem þarna var rétt hjá og síðan í fjósið, en svo gistu þau á nágrannabæ í nótt. Sonur Þorbergs. Vilhjálmur Þór Þorbergsson var staddur í heimsókn hjá foreldrum sínum, en hann er leigubílstjóri í Reykjavík. Var hann á nýjum leigubíl, en á honum lenti reykháfurinn, þegar þakið tók af. Húsið ónýttist alveg, en bíllinn var samt ökufær. Hann var kaskótryggður, en svo illa vill til að þær tryggingar ná ekki yfir tjón af völdum veðurs. Þorbergur sagðist giska á, að tjónið í allt, að bílnum meðtöldum, væri í kringum hundrað þúsund krónur.
Að Höfðabrekku við Vík í Mýrdal, fuku útihús, það voru sambyggð fjós, hlaða og fjárhús. en í fjósinu voru sex gripir, þrjár kýr og þrír kálfar. Þeir lágu undir brakinu í nótt, en voru grafnir undan í morgun. Tíminn hafði i dag tal af bónda i Höfðabrekku, Ragnari Þorsteinssyni, og sagði hann, að á milli klukkan fimm og sex hefðu útihúsin farið, en þá hefði varla verið stætt. Nautgripirnir hefðu náðst út heilu og höldnu i morgun, en þá hefði hann verið búinn að skríða inn í rústirnar um nóttina og gefa þeim hey ekki sást annað á þeim, en nokkrar skrámur. Þakplötur fuku einnig af íbúðarhúsinu hjá honum og 70 hestar af heyi. Ragnar sagðist halda, að í allt væri tjónið í kringum 3040 þúsund krónur. Einnig fuku þakplötur af íbúðarhúsum í Kerlingardal og á Hryggjum í Mýrdal. Í Landeyjunum var mjög hvasst og muna menn ekki eftir öðru eins óveðri, en ekki urðu neinir teljandi skaðar. Verst gegndi um sex-leytið og fauk allt lauslegt, sem úti var. Í Öræfunum gætti óveðursins að nokkru, þó ekki væri þar um að ræða neitt fárviðri. Engir skaðar urðu þar, að heitið geti og þegar verst lét voru vindstigin ekki nema 9. Það má því segja að tiltölulega rólegt hafi verið í Öræfunum miðað við aðra landshluta.
Töluverðar skemmdir urðu ó Síldarbræðslunni á Vopnafirði, þegar hvorki meira né minna en 300 plötur fuku af þaki verksmiðjunnar. Óveðrið byrjaði seinni partinn i gær og stóð fram undir morgun í morgun. Ekki var vitað um neitt tjón á bátum fyrir austan. Á Reyðarfirði varð ekkert tjón, og veður ekki sérlega slæmt í gær eða nótt. A Egilsstöðum var veðurhæðin mest á tímanum milli kl.9 og 11 i gærkvöldi, en óveðrið hélt áfram fram eftir nóttu, og fór síðan heldur að lygna. Var þetta óvenju mikið veður, enda gerir sjaldan stórveður á Héraði. Járnplötur fuku af annarri hlið þaksins á nýlegu barnaskólahúsi að Eiðum, og eru það einu verulegu skemmdirnar, sem frést hefur af á Héraði, annars fauk þar á hliðina gamall braggi, en hann mátti missa sig, að sögn fréttaritara blaðsins, og ekkert tjón af því, að hann fór. Veðrið var verst á tímabilinu milli kl. 10 og 2 í nótt á Seyðisfirði, og fuku þar járnplötur af hálfu húsþaki. Þetta er nýtt íbúðarhús sem er í smíðum, og fór járnið af annarri hlið þaksins.
Á Þórshöfn var veðurhæðin gífurleg, og fauk margt lauslegt. Tvær trillur sukku í höfninni. Magnús Jónsson og Haraldur sonur hans áttu sína hvor. Trillurnar hafa nú náðst upp, og eru þær óbrotnar. Þak fauk af og veggir gliðnuðu í sundur á gömlu timburhúsi, sem í vora geymdar 3 þúsund gærur. Gærunum tókst að bjarga. 15 plötur fuku af þaki frystihússins á Þórshöfn, þak skemmdist á mjölgeymslu og fiskimjölsverksmiðju Fiskiðjusamlagsins, og skreiðarhjallar brotnuðu. Þak fauk af nýju íbúðarhúsi á Flögu í Þistilfirði, gafl fauk af hlöðu að Hvammi í Þistilfirði, og þak fauk af hlöðu á Gunnarsstöðum á Langanesströnd. Heytjón varð allvíða í sveitum, en ekki stórkostlegt. Mývetningar áttu erfiða nótt, og sagði heimildarmaður blaðsins, að einhverjir skaðar hefðu orðið þar á flestum bæjum. Hey fauk á nokkrum bæjum, m.a. á Bjargi, Arnarvatni og víðar. Í Vogum tók þak af hlöðu, og svo var þakið vel fest við einn vegginn, að hann fauk með. Þak tók af fjárhúsi á Syðri-Neslöndum, og veggur fauk af nýbyggðu fjárhúsi á Arnarvatni. Þá skekktust margir rafmagnsstaurar í sveitinni, og úr Mývatni rauk yfir húsin sem næst standa vatninu. Í haust hefur vatnið verið hækkað um nokkra tugi sentimetra vegna virkjunarinnar, og í óveðrinu hækkaði það enn. Eru bændur nokkuð uggandi um, að vatnið muni eyðileggja land fyrir þeim. Blaðið frétti, að á Hofsstöðum hefði fokið heilt fjárhús, en ekki tókst að fá staðfestingu á því, áður en símstöðvum var lokað. Frá Laxárdal í Þingeyjarsýslu er það helst að segja, að þar fauk brú, sem átti að setja á Laxá skammt norðan við Kasthvamm. Brúin var gömul, var áður á Brunná í Axarfirði. Var búið að reisa turn til að lyfta brúnni upp og setja hana á ána. Í nótt fauk brúin á turninn og lagði hann saman. Nokkur truflun var á rafmagnslínunni frá Laxárvirkjun til Húsavíkur í rokinu, og varð bærinn ljóslaus við og við í gærkvöldi. Margir sjómenn voru uggandi um báta sína í höfninni, en ógjörningur var að fylgjast með þeim vegna særoks og myrkurs. Betur fór en búist var við, því að enginn bátur sökk, en nokkrir höfðu dregist til í höfninni.
Fréttaritari blaðsins á Kópaskeri sagði veðrið í nótt hafa verið með því hvassasta sem yrði þar um slóðir. Margir bændur í Axarfirði og Kelduhverfi urðu fyrir heytjóni af völdum óveðursins, og mun láta nærri, að fokið hafi ofan af heyjum á öðrum hverjum bæ þar. sem hey eru úti. Ekki er enn fullkannað, hversu miklu tjóni bændurnir hafa orðið fyrir. Járnplötur fuku af hlöðuþökum á Hóli í Kelduhverfi og Reistarnesi í Presthólahreppi, en af fjárhúsi á Skögum í Axarfirði. Þá fuku einnig járnplötur af annarri hliðinni á nýbyggðu skólahúsi við Lund í Axarfirði. Húsið varð fokhelt í haust. Á Kópaskeri urðu skaðar ekki aðrir en að skúr einn hvarf í vindinn, og hefur ekki fundist tangur né tetur af honum. Var það verkfæraskúr, sem byggingafélag á Akureyri átti, en það hefur annast smíði nokkurra íbúðahúsa á Kópaskeri í sumar. Þau stóðust storminn, en skúrinn hvarf gjörsamlega og einhver verkfæri glötuðust einnig. Víða var byggingum hætt í ofviðrinu,
Raufarhafnarbúar áttu margir andvökunótt vegna óveðursins, sem náði mestum styrkleik milli kl. 10 og 12 í gærkvöldi. Um 30 bátar lágu í höfninni og voru í mikilli hættu. Einn trillubátur sökk og tvær trillur rak upp á land. Báturinn, sem sökk, var tveggja tonna trilla, Harpa, eign Hreins Ragnarssonar, kennara. Hann sökk á legunni, en hefur ekki enn náðst upp, svo að ekki er vitað um skemmdir. Hinir bátarnir skemmdust lítið sem ekkert. Járnplötur fuku af þökum á tveimur húsum. Urðu íbúarnir að flýja úr öðru þeirra yfir nóttina, en skemmdir urðu þó ekki miklar. Þá brotnuðu girðingar og rúður, og eitt og annað lauslegt fauk. Rafmagnslína slitnaði, og var suðurhluti þorpsins myrkvaður um tíma. Áttu margir þorpsbúa andvökunótt, einkum bátaeigendur. Fjórir norskir síldarbátar lágu í höfninni og áttu í erfiðleikum, þegar verst lét.
Frá Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu bárust þær fréttir, að í dalnum og sveitunum í kring hefði eitthvað fokið á flestum bæjum, þakplötur á nokkrum stöðum og hey á öðrum. Héraðsskólinn á Laugum varð rafmagnslaus vegna þess að svo mikið hey fauk í Reykjadalsá, að rafmagnsstöðin, sem skólinn hefur við Laugaból stöðvaðist. Járnplötur fuku m.a. af nýja barnaskólanum, sem er í byggingu á Litlu-Laugum. Fjórir símastaurar brotnuðu í Reykjadal, og símasamband var tregt við Breiðumýri fyrri hluta dagsins. Símabilanir urðu víða annars staðar á Norðurlandi í nótt. Gróðurhúsin á Hveravöllum í Reykjahverfi urðu fyrir einhverjum skemmdum í ofviðrinu. Laxárrafmagnið rofnaði af og til á veitusvæðinu í nótt. Á Akureyri fuku allvíða járnplötur af þökum, og uppsláttur fauk einnig á nokkuð mörgum stöðum. Munaði oft mjóu að hlutir lentu á mönnum eða bílum í ofsanum, en slys urðu þó ekki nema á tveimur mönnum í gærkvöldi, eins og getið er um í blaðinu í dag. Mestur hluti þaksins fauk af nýrri hlöðu á Draflastöðum í Sölvadal, og hlaða skemmdist einnig á Eyvindarstöðum í Sölvadal. Tíu járnplötur fuku af frystihúsi í Hrísey. Við lá að stórbruni yrði á bænum Sólvangi á Árskógsströnd í gærkvöldi. Heimilisfólk þar hafði brugðið sér að heiman, en þegar það kom heim til sín um kl. 10, var húsið allt fullt af reyk. Var þegar hringt í slökkviliðið á Dalvík, og komst það strax fyrir orsök eldsins og gat slökkt hann. Hafði kviknað í saumavél með rafmagnsmótor, en það kom í veg fyrir útbreiðslu eldsins, að allir gluggar og dyr voru harðlokaðar. Lítið brann annað en saumavélin og einhver fatnaður. Í gær reri maður, einn á trillu, frá Akureyri, og var á leið inn fjörðinn, þegar veðrið rauk upp. Hann náði ekki landi á Akureyri og fór austur yfir fjörðinn til Svalbarðseyrar. Batt hann trillu sína við bryggju þar, en hún var sokkin, er hann hugði að í morgun. Eigandi trillunnar er frá Þórshöfn en rær frá Akureyri. Í morgun fannst sex tonna trillubátur rekinn uppi í fjöru á Grenivík og er hann að liðast þar í sundur. Trillan er eign Jóhanns Ásmundssonar frá Litla-Árskógssandi, og hefur hún slitnað upp í óveðrinu í nótt og rekið austur yfir fjörðinn.
Freyr Gestsson, bóndi á Barká í Hörgárdal, varð fyrir tilfinnanlegu tjóni í þessu ofsaroki. Hann átti 30 kúa fjós í byggingu og var búið að hlaða veggi og átti að byrja að reisa í dag. Í morgun voru veggirnir orðnir að grjóthrúgu. Rétt hjá er nýbyggð fjóshlaða, og fauk af henni mestur hluti þaksins. Sést ekki urmull af því neins staðar í nánd. Nýbyggingarnar standa flestar 7800 metra frá bænum, en heima við er gamalt fjós og fjóshlaða. Lagðist gamla hlaðan alveg saman í veðrinu, en hey fauk ekki. Kvaðst Freyr hafa orðið fyrir mjög miklu tjóni, sem ekki er enn metið. Hvasst var á Siglufirði í gærkvöldi, en lægði upp úr miðnætti. Ekkert tjón varð. Frá því snemma í morgun til þess, er blaðið hafði tal af fréttaritara um miðjan dag, hafði verið látlaus snjókoma, og var þæfingsfærð á götum bæjarins, allir bílar með keðjur.
Geysilegt hvassviðri var á Sauðárkróki, en fréttaritara blaðsins var ekki kunnugt um aðrar skemmdir í kaupstaðnum eða sveitunum í kring en að þakplötur fuku af einu húsi, á Sauðárkróki og stór rúða brotnaði í öðru. Á Blönduósi var hvasst, en veðrið náði sér þó aldrei verulega upp. Í dag var þar hvítt niður að sjó. Á Ólafsfirði var rokið mest milli kl. 6 og 10 í gærkvöldi, og fylgdi því úrhellisrigning. Fréttaritara var þó ekki kunnugt um neina skaða af völdum veðursins þar, né í sveitum nálægt Ólafsfirði.
Í dag var gerð tilraun til þess að ná togaranum Northern Spray út, þar sem hann hafði strandað undir Grænuhlíð, en það mistókst, og verður gerð önnur tilraun um eittleytið í nótt. Í morgun fóru yfirmenn togarans og menn úr áhöfn Óðins, sem bjargaði áhöfninni í gærkvöldi eftir strandið, um borð í togarann og komu fyrir dælum í honum. Leki er kominn í fiskilestar togarans, en annars virðist hann ekki vera mjög mikið skemmdur. Um hádegisbilið var settur vír í Northern Spray og var ætlunin, að reyna að ná honum út, en það mistókst, því vírarnir slitnuðu. Varðskipið Albert hefur verið á þessum slóðum í dag, en kom svo inn til Ísafjarðar síðdegis, til þess að ná í bensín á dælurnar. Northern Spray rak á land á svipuðum stað og togarinn Egill rauði strandaði fyrir allmörgum árum. Hafði breski togarinn látið reka þarna í gærkvöldi, en klukkan 21:47 heyrði Óðinn fyrsta neyðarkallið, en hann var staddur þarna skammt frá.
Tilraun til björgunar breska togarans Northern Spray var hætt á ellefta tímanum i kvöld, að því er Þórarinn Björnsson skipherra á Óðni sagði okkur í kvöld, og var ástæðan sú, að skipherrann áleit togarann vera svo ónýtan orðinn, að hann þyldi ekki vírana. Veður var slæmt á Barðaströnd, og á Þingmannaheiði sátu fjórir bílar fastir í nótt, en þangað fór ýta í dag, og aðstoðaði þá við að komast aftur til byggða. Maður hafði lagt af stað yfir Þingmannaheiði og var hann á Austin Gipsy-jeppa. Sat jeppinn fastur á heiðinni, maðurinn komst sjálfur við illan leik niður að Firði í Múlahreppi. Þá var maður að flytja búferlum frá Patreksfirði til Kópavogs. Hafði hann lagt af stað með búslóð sína í gær en bíllinn sat fastur í Þingmannadal. Ýta aðstoðaði síðan alla þessa bíla til þess að komast aftur niður af heiðinni, og voru þeir komnir heilu og höldnu til byggða í dag.
Það er af bátnum Elliða að segja og áhöfn hans, að þegar fór að hvessa af norðan í gær, hröðuðu skipverjar sér til Elliðaeyjar og lögðu bátnum þar. En skömmu siðar dró hann upp legufærin og rak upp að Breiðhólma, sem er áfastur við Elliðaey. Þangað fór svo bátur frá Stykkishólmi í morgun og dró hann til Stykkishólms, þar sem hann var settur í slipp. Þegar þeir félagar sigldu bátnum til Elliðaeyjar í gær, hafði vélin skyndilega bilað og það var rétt svo að þeir komust í land, áður en hún gafst upp.
Morgunblaðið segir frá 25.október:
Óveðrið sem gekk hér yfir á miðvikudag, kom mjög á óvart. Voru menn því vanbúnir, t.d. voru skip í höfnum ekki undir það búin að standa af sér slíkt fárviðri. Var vakað í skipum í flestum höfnum umhverfis landið. SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, stóð fyrir utan skýli, þegar veðrið brast á. Var ekki hægt að koma henni inn í veðrinu, heldur varð áð binda hana niður og hlaða sandpokum. Morgunblaðið spurði Veðurstofuna í gær, hvers vegna veður þetta hefði komið svo skyndilega, án þess að hægt hefði verið að vara við því. Veðurstofan sagði, að gert hefði verið ráð fyrir því, að lægðin, sem veðrinu olli, færi hratt yfir, en þó ekki eins hratt og raun varð á. Fór hún með 70 km hraða á klukkustund. Hitt skipti meiru máli, að hún dýpkaði miklu meira en búist var við, eða 4050 mb á sólarhring.
Vík í Mýrdal, 24. október. Á þriðja tímanum í gær brast hér á suðvestan fárviðri. Voru margir veðurtepptir i Vík, þar sem ekki var viðlit að komast á nokkurn bæ fyrir veðurofsanum, hvorki fyrir austan eða vestan Vík. Símalínur hafa víða slitnað og símastaurar sópast burtu. Sambandslaust er víða og erfitt að afla frétta. Sogsrafmagnið rofnaði og er nú notast við rafmagn frá gömlu díeselmótorunum. Tjón hefur orðið á mörgum bæjum. Það sem frést hefur af bæjum er þetta: Á Höfðabrekku stendur íbúðarhúsið eitt, en hér um bil öll önnur hús eru fokin eða hrunin, þ.e.a.s. fjós, hlaða og hesthús. Menn fóru frá Vík að Höfðabrekku í morgun, en símasambandið er rofið. Aðstoðuðu þeir við að ná kúnum undan rústum fjóssins, og reyndust þær lifandi en slasaðar. Ég fór einnig á staðinn og hafði viðtal við fólkið, og birtist það síðar í fréttinni. Í Kerlingardal fauk miðjan úr þaki íbúðarhússins yfir 20 plötur. Þak fauk af hlöðu, heyvagn fauk út í buskann og hefur ekki sést síðan. Rafmagnsvírar kubbuðust í sundur. Járnplötur yfir súrheysgryfju eru foknar og horfnar. Á Hryggjum í Mýrdal fuku 9 þakplötur og eitthvað af klæðningu. Á Litlu-Heiði eyðilagðist nýtt fjárhús mikið. Á Hraunsbæ í Álftaveri fauk þak íbúðarhússins og lenti á nýjum leigubíl úr Reykjavík, sem skemmdist. Það var aðallega skorsteinninn, sem lenti á bílnum. Búið var að aka honum 30 þúsund km. Á Borgarfelli í Skaftártungum fauk fjárhús og hlaða. Í Svínadal fauk fjárhús. Á Snæbýli fauk hlaða og á Ljótarstöðum fauk járn af nýju íbúðarhúsi. Á Loftsölum brotnuðu símastaurar, tvö útihús og hlaða fuku.
Ég fór austur að Höfðabrekku í hádeginu í dag. Þar var þá búið að bjarga kúnum og koma þeim í fjós á næsta bæ. Voru þær allar, 34 talsins, lifandi en allar meiddar. Ragnar Þorfinnsson býr á Höfðabrekku. Hann var í Vík, en kona hans, dóttir og dótturdóttir voru einar heima, þegar mestur veðurofsinn var. Ragnari og konu hans sagðist svo frá: Veðrið var verst kl. 56 í gærkvöldi. Þá fuku og hrundu útihúsin. Íbúðarhúsið er úr steini, 3540 ára gamalt. Það nötraði og skalf og mátti búast við að það hryndi á hverri stundu, en úti var óstætt. Þetta er það langversta veður, sem gert hefur þau liðlega 20 ár, sem við höfum verið hér. Mæðgurnar sátu inni í hnipri og ekkert heyrðist fyrir þessum veðurgný. Hér á Höfðabrekku stóð vindurinn af suðaustri og hrein furða að austurgafl íbúðarhússins skyldi ekki koma inn á okkur. Ekki fór að draga úr veðurofsanum fyrr en um ellefu leytið. Kúnum var bjargað út úr rústunum kl. 11 í morgun. 6070 hestar af heyi hafa fokið. Fjárhús og heyturnar nokkru vestan við bæinn eru líka skemmd. Þetta er orðið æði mikið tjón, aðeins járnið sem fokið er, skiptir tugþúsundum króna og ekki er enn séð fyrir endann á öllu tjóni, þar sem ekki er enn vitað hve miklu heyi verður bjargað. Helmingur af þaki á súrheysgryfju á næsta bæ, Rap'nisbrekku, fauk líka. Allmikið rok var enn í Höfðabrekku meðan ég dvaldi þar. Bráðabirgðaviðgerð á þaki íbúðarhússins var framkvæmd strax eftir hádegi í dag. Spýtnabrak og járn er eins og hráviðri um allar brekkur og Ragnar bóndi segir, að nú verði rekinn týndur í brekkunum, en ekki í fjörunni. Sprungnir steingaflar úr fjósi og hlöðu liggja á túninu. Aðkoman var eins og eftir loftárás. Viðar bóndi Björgvinsson í Suður-Hvammi í Mýrdal sagði mér í síma að þetta væri eitt allra versta veður, sem menn myndu. Hann kom til Víkur og rétt náði heim til sín í gær. Ég spurði Viðar nánar um þetta ferðalag. Ég fór lækniserinda til Víkur og á heimleiðinni lenti ég í þessu óskaplega veðri. Ég var einn í jeppa og var hann margsinnis nærri skollinn út af veginum. Ég veit ekki hver bjargaði því eða stýrði jeppanum þá. Hvar var svo verst? Í Grafargili og á Gatnabrún, þar sem vindurinn skall þvert á bílinn. Í Gatnabrún þræddi ég vinstri vegarkant eftir því sem ég þorði og svo þegar allt ætlaði um koll að keyra, þverventi ég bílnum á veginum til þess að fá vindinn í gaflinn og stansaði. Beið ég þannig góða stund, uns ég gat haldið áfram heim. Þess má svo geta í sambandi við þetta fárviðri að loftlampi datt niður í einu húsi í Vík í einni vindhviðunni. Var þetta í risíbúð, en þó í steinhúsi. Kristmundur Gunnarsson var að aka stórum verslunarbíl frá Verslunarfélagi Vestur-Skaftfellinga út í Mýrdal í gærdag. Var veðurhæðin þá slík og grjótflugið af veginum á bílinn, að bílstjórinn vissi ekki fyrr en hann fékk framrúðuna inn á sig. Fréttaritari.
Akureyri 24. október. Veðurhæð mældist mest 15 vindstig, 96 hnútar, í verstu byljunum hér á flugvellinum. Vindmælirinn stóð í 1214 stigum að jafnaði, 6085 hnútar, milli kl.19 og 20, en á lögreglustöðinni mældust mest 9 vindstig, 42 hnútar, enda stendur hún í skjóli milli húsa. [Gamla lögreglustöðin á Akureyri stóð við Smáragötu]. Til viðbótar fyrri fréttum er þetta helst að segja: Uppsláttur að útveggjum í húsi í Glerárhverfi, eign Jóns Árnasonar, lagðist niður á þrjá vegu, en var þó vandlega styrktur fyrir veðrið. Ennfremur fauk þar vinnuskúr. Nýhlaðinn veggur í húsi Guðmundar Georgssonar við Suðurbyggð lét undan veðurofsanum, brotnaði og lagðist inn í tóftina. Bát sleit frá Höepnersbryggju og rak út eftir Pollinum, stakk stafni við Oddeyri innanverða, lítt eða ekki skemmdar. Rúður brotnuðu viða í húsum, og plötur fuku af þökum. Fólk var víða á stjái fram eftir nóttu við að vinda upp vatn, sem pískaði inn um glugga og gættir.
Fosshóll. Símasamband var slæmt um nágrennið og ógreinilega vitað um skaða. Eitthvað fauk af þakplötum á bæjum, og nokkrir heyskaðar urðu, m. a. á Litluvöllum. Á nýbýlinu Heiðarbraut sprakk steyptur hlöðuveggur og hallaðist inn í hlöðuna, en hangir þó uppi. Þar fauk af vélageymslu á Ingjaldsstöðum. Ennfremur fauk þar ofan af nýhlöðnum vegg. Raflínustaur brotnaði á túninu á Fljótsbakka. Mönnum ber saman um, að þetta sé eitthvert ægilegasta veður, sem menn muna. Fjórir menn voru í göngum suður með Skjálfandafljóti austanverðu og voru væntanlegir til byggða í gærkvöldi, en voru ókomnir kl. 17 í dag. Þeir eru á tveimur bílum, og ekki talin ástæða til að óttast um þá enn.
Grenivík í morgun rak bátinn Þorvald EA 474, tíu lestir að stærð, á land rétt austan við Akurbakka, ysta húsið á Grenivík. Hafði hann legið við bryggju á Hauganesi, slitnað frá og rekið mannlausan þvert yfir fjörðinn inn á leguna á Grenivík, framhjá bátum, sem þar lágu við festar. Hefur hann verið að liðast í sundur og brotna í dag, enda mikil kvika. Um eitt í dag lá hann þvert fyrir brimöldunni, og gekk sjór inn og út um hann. Eigandi bátsins er Jóhann Ásmundsson á Litla Árskógssandi. Báturinn var keyptur frá Grindavík í fyrra og hét áður Glaður. Allmikið af heyi fauk á Hjalla, ysta byggða bænum á Látraströnd, og á eyðibýlinu Borgargerði fauk útihús af grunni. Á Kljáströnd átti Höskuldur Guðmundsson í Réttarholti í Höfðahverfi árabát í uppsátri. Hann færðist til undan storminum og mjakaðist á hliðinni 3040 metra, en hvolfdi ekki. Símalínur innansveitar slitnuðu, og rafmagnið fór um kl. 21 í gærkvöldi. Kom það ekki aftur fyrr en um hádegi í dag. Lína hafði slitnað á Svalbarðsströnd. Hrísey: Þar varð ekkert teljandi tjón, hvorki á sjó né landi, nema nokkrar þakplötur fuku af frystihúsinu. Bát sleit upp í morgun, en hann náðist fljótlega aftur óskemmdur. Í innanverðum Eyjafirði er ekki kunnugt um neina skaða, sem í frásögur eru færandi.
Morgunblaðið hefur átt tal við nokkra af þeim skipstjórum, sem voru á leið til lands á skipum sínum, þegar óveðrið skall á í gær.
Sigurður Gunnarsson skipstjóri á Eyjabergi frá Vestmannaeyjum var á leið heim frá Englandi, segir hafa verið brælu alla leiðina heim frá Englandi, segir hafa verið brælu alla leiðina frá Leith en þar hafi þeir komið við. Óveðrið hafi skollið á kl.3 í gær og alveg skyndilega. Hafi síðan verið vitlaust veður til kl.7 um kvöldið. Voru þeir 40 mílur SA af Portlandi og reyndum að halda sjó. Klukkan eitt um nóttina byrjuðum við svo að lóna til Eyja. Sigurður segir ölduganginn hafa verið þann mesta, sem hann hafi séð og rokið afskaplegt. Skipstjórinn á Öskju, Atli Helgason, sem Morgunblaðið talaði við kl. 3 gegnum Vestmannaeyjaradíó, en þá var Askja stödd 260 mílur austur af Portlandi, sagðist ekki hafa lent í neinu ofsaveðri, en það hafi verið óþverra veður og magnast kl. 8-9 í gærkveldi og veðurhæðin sennilega verið um 10 vindstig. Skipstjórinn á Laxá, Rögnvaldur Bergsveinsson, sagði veðrið víst hafa verið vont á leiðinni, hafi þeir m.a. legið um 10 tíma undir Færeyjum, en þeir hafi komið inn í gær og líklega sloppið við öll ósköpin. Skipstjórinn á Kristbjörgu frá Vestmannaeyjum, Sveinn Hjörleifsson, sagði Morgunblaðinu í símtali, að óveðrið hafi skollið skyndilega á um kl.3 í gær og hafi komið án allrar aðvörunar. Þetta hafi verið mesta veður, sem hann myndi eftir, og hefði hann þó oft séð það svart, eins og um jólaleytið í fyrra, þegar hann skrapp heim til Eyja, en þá var foraðsveður, sama veðrið og Herjólfur lenti í. Hann telur, að veðurhæðin nú hafi verið 16 vindstig, og stærstu öldur, sem hann hafi séð, það hafi verið sjóir slag í slag, og hafi siglt hálfa ferð uppí. Veðurofsinn hafi haldist svona fram undir kl.9 en þá hafi byrjað að slota. Kl.10 hafi hann byrjað að lóna til lands. Hafi þeir séð til ferða Eyjabergs um miðnætti, og fylgdust skipin að til Eyja og komu þangað kl.11 í morgun.
Tvær tilraunir voru gerðar í gær, til þess að ná breska togaranum Northern Spray á flot, en hann strandaði undan Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi í fyrrakvöld, eins og frá var skýrt í Morgunblaðinu í gær. Reyndi Óðinn tvívegis að draga hann á flot, en dráttartaugin slitnaði í hæði skiptin. Mun nú talið vonlaust að bjarga skipinu, enda er það gamalt og þolir illa veltinginn á skerinu, sem það strandaði á. Þar vegur það salt. Verða dælurnar fluttar úr skipinu með birtingu í dag, svo og önnur verðmæti. Eru allar horfur á því, að skipið beri heinin þarna, en það hefur lengi stundað veiðar við ísland. T.d. tvístrandaði það við Ísafjarðarkaupstað í desember 1950, og í júní 1961 reyndi það nokkrum sinn um að sigla á Óðin sama skipið og nú bjargar áhöfn þess.
Morgunblaðið heldur áfram 26.október:
Þak fauk af íbúðarhúsinu í Hraunbæ í Álftaveri s.l. miðvikudag í hinu mikla óveðri, sem þá gekk yfir landið. Fréttamaður blaðsins ræddi í gær í síma við Þorberg Bjarnason, bónda í Hraunbæ og bað hann að segja frá atburðinum. Það var á miðvikudagskvöldið, sem veðrið skall á með miklum ofsa, sagði Þorbergur. Skyndilega bættist mikið hark og brak við veðurhljóðið og eftir skamma stund áttuðum við okkur á því, að þakið var að fjúka af húsinu. Meiddist enginn er þakið fauk? Nei, allt heimilisfólkið, 10 manns, var inni í húsinu er þakið fauk og allir á neðri hæð, því að ekki er búið í risinu. Fauk þakið langt? Nei, en þegar það kom niður, tættist það í sundur, og járnplöturnar dreifðust um allt. Börn, sem voru inni í húsinu er þakið fauk, urðu mjög hrædd. Er búið að setja nýtt þak á húsið? Í gærkvöldi var lokið við að koma upp bráðabirgðaþaki og mátti ekki seinna vera, því að þá fór að rigna og í dag hefur einnig rignt. Allt efni í nýtt þak er komið hingað heim að Hraunbæ, en ég veit ekki hvenær verður hægt að ljúka við að koma því á. Er íbúðarhúsið gamalt? Já, það er gamalt hús, en ekki er langt síðan að þakið var endurbætt. Að lokum sagði Þorbergur að elstu menn í Álftaveri myndu ekki annað eins veður og á miðvikudagskvöldið.
Stöðvarfirði, 25.október. Á miðvikudaginn brast hann á með sunnan- og suð-vestan roki. Annað eins veður hefur hér ekki komið í mörg ár. Fuku margar járnplötur af húsum og þrír bátar, sem lágu á legunni sukku. Það voru 2 trillubátar og einn 9 tonna dekkbátur. Kafari var fenginn frá Norðfirði og vann hann að því í dag að ná dekkbátnum upp. Haft er eftir kafaranum, að bátnum hafi hvolft, því bæði möstrin væru brotin. Síðdegis i dag tókst að ná dekkbátnum upp og var hann talsvert skemmdur. Trillubátunum tókst að ná upp í gær. Það verk unnu eigendur þeirra með aðstoð hjálpfúsra. Bátarnir voru lítið skemmdir. Tíðarfar hefur verið fjarska umhleypingsamt í haust, en sumarið var yfirleitt ágætt. Stefán.
Í óveðrinu á miðvikudaginn fuku tveir menn í Vestmannaeyjum, annar, Kristján Sigurjónsson, fauk 40 til 50 metra og meiddist á handlegg, en hinn, Bergsteinn Jónasson, var rétt fokinn fram af bryggjunni. Fréttamaður hlaðsins átti í gær tal af Kristjáni og Bergsteini og auk þess ræddum við við Sigurgeir Scheving, en hann sá járnplötur fjúka fram hjá eins og eldglæringar. Kristján Sigurjónsson, formaður á Erninum, sagðist hafa verið á leið niður að höfn til þess að huga að bát sínum, er hann tókst á loft og fauk um 40 til 50 metra veg. Var yður ekki meint af þessu ævintýri, Kristján? Ég skall harkalega niður á annan handlegginn og meiddist talsvert á olnboga. Þegar ég fauk voru járnplötur af þaki fiskvinnsluhússins á þeytingi allt í kringum mig og má heita guðs mildi, að ég varð ekki fyrir þeim. Hvernig leið yður á fokinu? Ég get nú ekki lýst því, en mér finnst furðulegt, að vindurinn skyldi vera nægilega sterkur til þess að feykja 80 kg skrokk svo langa leið Þegar ég tókst á loft var ég á leið niður brekku, sem liggur að höfninni. Ég gekk á miðri götunni, en til beggja handa eru há hús. Ég vissi ekki fyrr en ég tókst á loft og valt og fauk þar til ég stöðvaðist niðri á höfninni með áðurgreindum afleiðingum. Og járnplöturnar hafa fokið framhjá yður? Já, en þær fuku lengra, enda léttari en ég. Plöturnar dreifðust um höfnina og á milli verstu hviðanna tíndu mennirnir, sem voru að vinna þar, þær upp og köstuðu þeim í sjóinn, milli Fjallfoss, sem lá í höfninni, og bryggjunnar. Öðruvísi var ekki hægt að hemja þær. Bergsteinn Jónasson, hafnarvörður, var að vinna við höfnina þegar óveðrið skall á um kl. 6 e.h. Við hófumst þegar handa um að binda skipin betur, sagði Bergsteinn, en þau voru tvö við bryggjuna, þegar óveðrið skall á, Fjallfoss og breskur togari. Fjöldi báta lá í höfninni. Við hringdum til formannanna og gerðum þeim aðvart. Komu þeir með áhafnir sínar og vöktuðu bátana meðan óveðrið gekk yfir. Oft þurfti að skipta um kaðla, sem voru að slitna, en engan bát rak frá. Mjög erfitt var að athafna sig í þessu veðri, en það tókst vonum framar að hemja skipin og engar skemmdir urðu á þeim. Bryggjan, sem er úr tré, laskaðist lítilsháttar, er skipin slógust utan í hana. Var ekki erfitt að fóta sig í veðrinu? Jú, það var hált á bryggjunni og í einni vindhviðunni var ég nærri fokinn í sjóinn. Mig hrakti fram á bryggjubrún, en þar tókst mér að ná tökum á vír, sem notaður er til þess að binda skipin og hélt mér í hann þar til hviðan var gengin yfir, en þá gat ég staðið upp. Hve lengi þurfti að gæta skipanna og bátanna? Við vorum við höfnina frá því að hvessti og fram eftir nóttu. Vindofsinn var mestur fyrst, en um kl. 11 tók að lægja. Eins og eldglæringar Sigurgeir Scheving, sem rekur Verkamannaskýlið við Friðarhöfn, var í skýlinu er veðrið skall á. Verkamannskýlið er timburhús, sagði Sigurgeir, og í fyrstu vindhviðunni hélt ég að það myndi fjúka, því að veggurinn, sem sneri upp í vindinn skókst til og vörur í hillum á honum köstuðust fram á gólfið og yfir afgreiðsluborðið. Ég held, að Verkamannaskýlið hefði fokið, stæði það ekki í skjóli við stórt steinhús. Sáuð þér þegar járnplöturnar fuku af þaki fiskvinnsluhússins? Já, þær fuku margar fram hjá skýlinu, eins og eldglæringar, svo mikill var hraðinn. Margar lentu plöturnar á Fjallfossi þar sem hann lá, en engar skemmdir urðu á skipinu af völdum þeirra. Hvað fuku margar plötur? Ég held að þær hafi verið milli 70 og 80. Þegar veðrið var sem verst voru nokkrir menn af Fjallfossi á leið inn í bæinn, en þeir urðu að leita skjóls í skýlinu hjá mér vegna ofsans. Urðu skemmdir þarna í kring? Nótabátur fauk á tvo rafmagnsstaura hérna nálægt og braut þá og enn er rafmagnslaust hér í skýlinu. Götuljós við höfnina slokknuðu einnig, en nú er búið að gera við þau.
Morgunblaðið 27.október:
Grímsstöðum í Mývatnssveit 24. október: Hér gekk yfir feikna mikið slagveður í gær, eitt hið mesta, sem hér hefur komið. Þak fauk af tveimur hlöðum, og í annarri, á Vogum, fauk 19 metra langur steinsteyptur veggur. Hann tók í sundur alveg niðri við jörð. Á Syðri-Neslöndum fauk þak af gömlum fjárhúsum, á Arnarvatni veggur í fjárhúsi, sem verið var að steypa, og mikið af heyi. Á Skútustöðum urðu töluverðar skemmdir á fjárhúsþökum. Víða fuku þakplötur að meira eða minna leyti. Raflínustaurar sunnan við vatnið fóru að hallast undan veðrinu og skekktust. Vantaði lítið á, að rafmagnið færi. 5 smábátar við vatnið fuku. Þá fuku nýbyggð fjárhús á Hofsstöðum. Fóru 2/3 hlutar af þakinu og einn veggurinn. Fauk þakið í stórum stykkjum og lán að það fauk ekki á íbúðarhúsið. Sperrurnar af húsinu gengu 8090 sm niður í jörðina. Hefur tjónið hér í Mývatnssveit orðið mikið. Varð einhver skaði á flestum bæjum, og járnplötur fuku í hundraðatali. Jóhannes.
Morgunblaðið segir loks frá tjóni í fyrra veðrinu í Grindavík 30.október:
Grindavík, 26. október. Þegar flóðbylgjan gekk hér á land um síðustu helgi [laugardaginn 19.], brotnaði 2030 metra langur kafli úr hafnargarðinum hér í Grindavík. Álíka langur kafli er mjög siginn og sprunginn. Þetta er mesta flóð, sem hér hefur orðið í 30 ár. Gekk sjór allt upp á götur þorpsins.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veðrin miklu 19. og 23. október 1963. Eins og venjulega er blöðum og blaðamönnum þökkuð þeirra mikla vinna.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 108
- Sl. sólarhring: 321
- Sl. viku: 2651
- Frá upphafi: 2414506
Annað
- Innlit í dag: 98
- Innlit sl. viku: 2462
- Gestir í dag: 94
- IP-tölur í dag: 88
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.