Smávegis af sumardeginum fyrsta (endurtekið efni - að mestu)

Sumardagurinn fyrsti hefur alloft komið við sögu hér á hungurdiskum. Í apríl 2013 birtist pistill „Sumardagurinn fyrsti - sundurleitir fróðleiksmolar“. Ritstjórinn hefur tvisvar síðan uppfært pistla þessa - fyrir 7 árum og síðan í hitteðfyrra (2022). Mæli helst með þeim yngsta - hann er ítarlegastur (auðvitað). En þegar ritstjórinn fór að lesa uppfærslurnar tvær sá hann að ekki er þar getið um hlýjasta fyrsta sumardaginn í þeim - en það er gert í elsta pistlinum. Þeir köldustu eru hins vegar tíundaðir. 

Í fyrsta pistlinum er þess getið að landsmeðalhiti var hæstur 1974 (7,7 stig) og litlu lægri 1976 (7,6 stig). Meðalhámark var hæst 1974 (11,1 stig) og litlu lægra (10,8 stig) 2005. Einhver handvömm að sleppa þessu í uppfærslunum tveimur - sérstaklega vegna þess að þetta atriði þurfti sérstaklega á uppfærslum að halda. 

Hlýindametið frá 1974 (eða 1976) stendur nefnilega ekki enn - og síðan 2013 hefur þrisvar mælst hærri landsmeðalhiti á sumardaginn fyrsta (2014, 2019 og 2023), hæsta talan, 9,0 stig)  er frá 2019 en methlýtt var í þeim mánuði. Nú eru að verða gríðarlegar breytingar á stöðvakerfinu - þess vegna er vissara að reikna líka þessi meðaltöl eins og sjálfvirka kerfið (mun fleiri stöðvar) mælir það. Það segir sumardaginn fyrsta 2019 líka hlýjastan - og landsmeðalhita 9,5 stig. 

Hæsti meðalhámarkshiti á landinu hefur líka hækkað frá 2013, var þá 11,5 stig (1976), en komst í 13,5 á sumardaginn fyrsta 2019.

Að öðru leyti vitnum við í fyrrnefnda pistla. 

Það virðist líka ástæða til að endurtaka annan pistil frá 2013 - þann um þjóðtrúna - hér er megnið af honum:

Hungurdiskapistill frá 24.apríl 2013 - endurtekið efni:

Eitt af því sem sífellt er verið að tala um í kringum sumardaginn fyrsta er hvort nú frjósi saman sumar og vetur. Er frost þá tengt góðu sumri. Alloft er gott vit í gömlum veðurspádómum - en þessi verður að teljast fullkomin della eins og nú er til hans vitnað. Einföld athugun sem nær til síðustu 64 ára sýnir að vetur og sumar frusu saman á landinu 56 sinnum af þessum 64. Voru öll þau sumur góð?

Það er sérlega eftirtektarvert að á sumardaginn fyrsta 1974 var lægsta lágmark næturinnar á landinu öllu 3,5 stig. Hvergi fraus í byggðum. Þetta var eins og sumir muna enn eitt hagstæðasta sumar á Suðurlandi um langt árabil - og ekki taldist það sérlega óhagstætt nyrðra. Tveimur árum síðar, 1976, var líka frostlaust um land allt á aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Það var óminnilega hagstætt sumar um landið norðan- og austanvert - en mikið rigningasumar syðra.

En getur þetta þá ekki átt við einstaka staði á landinu? Nei, varla, koma þá aldrei hagstæð sumur í hlýjustu byggðum landsins? Nefna má að gaddfrost var í Reykjavík aðfaranótt sumardagsins fyrsta 1983 - á undan versta sumri sem um getur þar um slóðir.

En sem skemmtiatriði? Má ekki hafa gaman af þessu? Jú, auðvitað má það - en þá væri best að fara eftir fornum leikreglum. Í gömlu reglunni er talað um góða málnytu frjósi sumar og vetur saman. Það er að segja að meiri sumarmjólkur sé að vænta úr kúm og ám en annars. Ekkert er sagt um gæði sumars samkvæmt kröfu nútímamanna. Sól og þurrkur eru nú á tímum talin sérlega hagstæð að sumarlagi. Í því veðurlagi er hins vegar oft kyrkingur í gróðri og gras lélegt - heldur til baga fyrir mjólkurframleiðslu. Fyrr á árum höfðu menn ekki heldur hitamæla - heldur átti að leggja út grunnan disk eða trog með vatni. Væri á því þykkt skæni eða það heilfrosið að morgni var talað um að sumar og vetur hefðu frosið saman - annars ekki.

Þeir sem eru smámunasamir segja að ísskánin sé merki um þykkt rjóma á mjólkurtrogum á komandi sumri.

Upplýsingar um málnytu og fitumagn mjólkur liggja ekki fyrir í veðurmælingum þannig að áhugamenn hafa enn rými til varnar fyrir regluna. Ekki er endilega víst að ritstjórinn hafi hana rétt eftir í þessum pistli. Gaman væri ef uppruninn fyndist og sömuleiðis væri skemmtilegt að vita hvernig var til hennar vitnað fyrir 1950 - nú eða þá á 18. eða 19. öld?

Gamlar reynslureglur um veður eru mjög skemmtilegar - jafnvel þær vafasömu. En það er heldur sorglegt þegar þær enda í óætum olíugraut. Þá eru þær ekki lengur til ánægju heldur bara þreytandi suð. Æ.

En gleðilegt sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 28
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 2326
  • Frá upphafi: 2413990

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2141
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband