Kaldir dagar framundan?

Svo virðist sem nokkrir kaldir dagar séu framundan, sérstaklega þriðjudagur og miðvikudagur (16. og 17. janúar). Framhaldið þar á eftir er óvissara. Þetta eru viðbrigði eftir hlýindin að undanförnu. 

Loftið kemur langt úr norðri. Gróflega má segja að kuldapollurinn Síberíu-Blesi sendi okkur stroku. Hún skiptist raunar fyrir norðan okkur - hluti fer hratt yfir og suður í átt til Bretlands (sjórinn sér um að milda hann). Annar hluti kemst ekki hingað - fer vestur um Grænland norðanvert og reynir að fóðra hinn meginkuldapollinn, Stóra-Bola en hann hefur varla náð sér á strik í vetur. Mikil óvissa er um hvort fóðrið dugi til að kveikja vel í honum. En alla vega eru spár nú þannig að áhrifa jaðars hans fari að gæta á föstudag. 

En hreyfingar kuldapollanna og sendingar á milli þeirra eru alltaf ákveðið áhyggjuefni. Best er að þeir haldi sér sem mest og lengst á sínum básum - hvor fyrir sig. En við skulum ekki gera okkur of mikla rellu úr slíku í bili að minnsta kosti. 

En kuldastrokan að norðan er alveg raunveruleg. 

w-blogg150224a

Ísland er falið á miðri mynd - Grænland lengst til vinstri. Á kortinu má sjá jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins, vindstefnu og styrk (vindörvar), en hiti í fletinum er sýndur með litum. Dekkri fjólublái liturinn sýnir meir en -45 stiga frost - talsvert kaldara en verið hefur að undanförnu. Það er ekki mjög oft sem hiti í 500 hPa er svona lágur - við verðum þó að taka eftir því að mikill munur er á hita yfir Suðvesturlandi annars vegar og Norðausturlandi hins vegar. Sé rýnt í jafnhæðarlínur má sjá lægðardrag yfir landinu - þar er éljagangur eða snjókoma með mestum ákafa - gæti aðeins slitið úr syðra, en aðallega á norðan- og austanverðu landinu - eins og venjulega í þessari átt. 

Spár gera ráð fyrir því að þykktin (sem mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs fari niður fyrir 5000 metra stutta stund. Það er svona „alvöru“ eins og sagt er nú til dags. 

Á miðvikudag er gert ráð fyrir smálægðarmyndun á Grænlandshafi vestanverðu.

w-blogg150224b

Seint um kvöldið verður lægðin búin að koma sér upp úrkomukerfi og stefnir ákveðið til austsuðausturs rétt vestan og suðvestan við land. Talsverð óvissa fylgir úrkomumagni, allt frá nánast engu upp í heiðarlegt (en vonandi ekki langt) hríðarveður. Við verðum að láta Veðurstofuna alveg um að fylgjast með þessu. 

En það er hávetur þessa dagana - og varla við öðru að búast. Við höfum sloppið fremur vel það sem af er í vetur - kannski heppnin verði með okkur áfram. Nóg er af öðru meini í náttúrunni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband