29.6.2023 | 20:28
Laufskemmdaveðrið í maí 1956
Trjágróður lítur nú illa út víða um landið vestanvert, svo illa að óvenjulegt verður að telja. Aspir og ýmsar víðitegundir hafa orðið sérlega illa úti. Ástæðuna má nær örugglega rekja til vestanillviðra sem gerði um og eftir 20. maí í vor. Þau voru óvenjuhörð miðað við vindátt og árstíma, sérstaklega það sem gerði þann 23. Norðanillviðri eru talsvert algengari. Líklega hefur þetta verið afskaplega óheppilegur tími vegna þess að laufgun var einmitt að eiga sér stað. Í kringum okkur er nú harla torkennileg mynd - óraunveruleg á ýmsa lund - lauflítil tré, en vel þroskað grængresi undir.
En veður sem þetta er e.t.v. ekki alveg óþekkt fyrirbrigði. Seint í maí 1956 gerði ámóta veður, eða jafnvel heldur harðara. Trjágróður var þá ámóta á veg kominn og nú, en annars var gróðurfar þá talsvert ólíkt því sem nú gerist. Tré voru mun lágvaxnari, aspir fáar og erlendar víðitegundir mun sjaldséðari en nú er. Lágvaxin tré taka á sig mun minni vind heldur en hávaxin. Ritstjóri hungurdiska er ekki alveg nógu gamall til að muna þetta veður. Hann man hins vegar að mikið var um það talað á sínum tíma - og lengi á eftir. Þótti óvenjulegt. Við skulum nú aðeins rifja þetta upp.
Svo vildi til að dagblöðin voru algjörlega á kafi í alþingiskosningaumræðu og lítið rúm var fyrir veður innan um stjórnmálastóryrði og meting. Þetta voru óvenjulegar kosningar - og þóttu sérlega spennandi.
En við byrjum á greinarstúf sem Ingólfur Davíðsson skrifaði í Fálkann 29.júní undir fyrirsögninni Óveður skemmir gróður:
Trjágróður varð víða fyrir miklu áfalli í vestanhryðjuveðrinu 27. maí. Gekk þá á með óvenju snörpum hagléljum og sjávarlöður gekk langt á land upp. Haglið var stórgert, það særði lauf trjáa og runna og gekk jafnvel í gegnum laufið og tætti það af greinunum. Sjávarseltan olli einnig skemmdum. Rannsókn tveim dögum eftir óveðrið sýndi, að meiri selta var á trjálaufi inni í miðri Reykjavik, heldur en í sjónum úti í Faxaflóa. Vindurinn lamdi saltið inn í laufið. Særok gengur lengra inn í land en flesta grunar i fljótu bragði. Upp um alla Mosfellssveit og Borgarfjörð (t.d. Hvanneyri, Laufskálum og inn á Hvítársíðu) sást saltlag á gluggarúðum og saltbragð fannst af grasi og laufi. Saltúði var einnig í lofti yfir Reykjanesskaga og austur i Árnessýslu. Áhrif hagléljanna og sjávarlöðursins urðu þau að við sjávarsíðuna varð allt svart áveðra i görðum og skemmdir sáust jafnvel á grasi. Sama var sums staðar norðanlands, t.d. á Hvammstanga og á Vesturlandi. Skemmda gætti alllangt frá sjó, í Borgarfirði og víðar.
Barrtré stóðust veðrið miklu betur en lauftrén og runnarnir og er það athyglisverð reynsla. Ekki er hægt að segja með vissu hvernig hinum skemmda trjágróðri reiðir af. Hætt er við að toppar og greinaendar visni og nýgróðursett tré eru viða illa farin. Má teljast vel sloppið ef tré og runnar laufgast að nýju og geta búið sig nokkurn veginn undir næsta vetur, enda þótt sumarvöxturinn tapist að mestu og berjatekjan af ribsinu, sem áveðra stóð.
Áfelli koma fyrir í öllum löndum, en hvað má af þessu læra? Fyrst af öllu mikilvægi skjólsins í okkar vindblásna landi. Ræktun skjólbelta og skjólgirðingar eru aðkallandi verkefni. Hiti er á við hálfa gjöf er orðtæki fjárræktarmanna. Skjólið er garðagróðri öllum síst minna virði en ylurinn búfénu. Í skjóli standa nú reyniviðirnir hvítir af blómum, þótt sams konar tré séu svört og nakin áveðra í næsta garði. Margir spyrja hvað hægt sé að gera hinum veðurbarða trjágróðri til hjálpar nú í sumar. Helst það að sjá honum fyrir nægilegum raka. Vökva ef þurrkar ganga og jafnvel úða með vatni þar sem þess er kostur. Að öðru leyti verður náttúran að hafa sinn gang. Sem betur fer eru svona hörð haglél og saltstormar fágæt fyrirbrigði.
Blómskrúð er víða orðið mikið i skjólgóðum görðum, en óveðrið lék blómin illa á berangri. Lágvaxin blóm, t.d. steinbrjótar og hnoðrar (Sedum), og af sumarblómum lágvaxin kornblóm, hvítar eða fjólubláar garðanálar (Alyssum), brúðarauga, vinablóm, gullbrúða o. fl. Venusvagnar standast storma furðanlega, en annars þurfa hávaxin blóm stuðning i flestum görðum. Þarf að binda þær jurtir upp áður en stormurinn fellir þær. Ingólfur Davíðsson.
Ingólfur hnykkir á þessu í stuttum pistli í Alþýðublaðinu 3.júlí. Sá pistill er að mestu leyti samhljóða, en segir þó líka (tölurnar eiga við seltumælingu - frétt um hana hafði einnig birst í Tímanum 1.júní):
Við Atvinnudeild Háskólans var birkilauf þaðan úr garðinum rannsakað og reyndist 4,6% og á birkirekkum 3,5% tveim dögum eftir veðrið og er hvort tveggja mjög mikið. Berst sjávarsalt sennilega sjaldan eins langt inn í land og að þessu sinni, hver svo sem orsökin er. Nú lögðust þrjú öfl á eitt til gróðurskemmda: Vindurinn, haglélið og saltið. Afleiðingin var mikil þornun og visnun á öllum laufgróðri. Barrtré stóðust miklu betur. Helst skemmdist lerki dálítið og á stöku stað færðist roði á greninálar áveðra. Lauftrén voru nýútsprungin og laufið meyrt og viðkvæmt. Sums staðar jusu menn vatni á trén strax eftir óveðrið og virðist það hafa verið mjög til bóta. Nú eru allvíða að springa út ný brum á skemmdu trjánum og vonandi laufgast flest þeirra nokkurn veginn í sumar, ef þau fá nægan raka. Ef þurrkar ganga, er nauðsynlegt að vökva duglega í sumar og jafnvel úða með vatni.
Maímánuður 1956 var illviðrasamur og kaldur, loftþrýstingur var óvenjulágur, lægðir gengu ýmist austur og norðaustur um landið eða fyrir sunnan það, sumar metdjúpar. Oft var hvasst. Þann 25. dró til sunnanáttar og hlýnaði þá verulega.
Síðdegis þann 26. var vaxandi lægð vestur við Grænland og fór hún til austnorðausturs. Austan við hana var mikill strengur langt sunnan úr hafi, en kalt loft við Grænland kom úr vestri. Mikil hæð er suður í hafi. Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins - jafnhæðarlínur jafngilda þrýstilínum, 120 metra jafnhæðarlínan er 1015 hPa.
Á háloftakortinu er staðan en hreinni. Mjög hlýr hryggur liggur til norðausturs fyrir sunnan og suðaustan land, en mjög kalt loft er yfir Suður-Grænlandi. Gríðarlegur vindstrengur á milli.
Íslandskortið er frá því kl.18 síðdegis laugardaginn 26.maí. Þá er farið að hvessa talsvert. Rigning er um landið suðvestan- og vestanvert, en bjartviðri norðaustan- og austanlands. Þar er mjög hlýtt. Hiti um 20 stig á Egilsstöðum og fór í 22,3 á Hallormsstað og 24,1 á Teigarhorni við Berufjörð. Víða var mistur eða moldrok á Norðausturlandi.
En kuldaskil nálguðust úr vestri. Þau fóru yfir Reykjavík skömmu eftir miðnætti. Þá varð vindátt vestlægari, hiti féll - og loftið varð áberandi þurrara. Veðrið herti síðan þegar á daginn leið.
Klukkan 18 var víða hvassviðri eða stormur. Þrýstingur í miðju lægðarinnar kominn niður í um 975 hPa og hæðin suðvestur í hafi um 1036 hPa í miðju.
Háloftalægðin sérlega öflug og vindur sjaldan meiri yfir landinu á þessum árstíma. Lauslegur samanburður nefnir aðeins eitt annað tilvik í maí og júní, vestanáttina í aðdraganda Jónsmessuhretsins 1992.
Síðdegis gerði miklar haglhryðjur um landið vestanvert - og náðu sumar þeirra allt austur í Mývatnssveit (lítið þó). Við sjáum að verulega hefur kólnað. Síðdegishiti aðeins 2-4 stig á Vesturlandi - harla lágt í hafátt síðustu dagana í maí. Öllu hlýrra er í landáttinni austanlands.
Ekkert lát varð á veðrinu fyrr en undir kvöld mánudaginn 28. Hafði það þá staðið hátt í þrjá sólarhringa - ef allt er talið.
Á síðasta kortinu sem við lítum á hér má sjá að landið er umvafið þurrki frá Grænlandi. Heiðskírt er í vestanáttinni um mestallt landið vestanvert, en þar er þó mikið sæmistur, salt af Grænlandshafi.
Fyrir utan gróðurskemmdirnar olli veðrið öðru tjóni, bæði vegna leysinga og foks. Við rennum yfir umsagnir nokkurra veðurathugunarmanna - og síðan eru fáeinar blaðafregnir.
Andakílsárvirkjun (Óskar Eggertsson): Dagana 27. til 29. var hvöss vestlæg átt hér. Með henni barst mikið af seltu sem fór illa með gróður og kannski sér í lagi trjágróður. Gluggar í húsum urðu mattir af salti.
Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir). Að kvöldi þ. 26. gerði suðvestan veður svo vont að menn segja að um langt árabil hafi ekki slíkt veður komið um sauðburð, rok með rigningu og kafaldsslyddu svo að festi snjó á fjöllum og líka á láglendi, hélst veðrið þá nótt, næsta dag og framá næstu nótt. Áttu því margir vökunætur við að bjarga lömbum sem voru að fæðast. Og það einkennilega skeði að á bíla- og gluggarúður settist selta eins og oft sést á rúðum við sjó. Gætti þessa víða í héraðinu, jafnvel fram til fjalla.
Hamraendar (Guðmundur Baldvinsson): Þann 26. gerði suðaustan storm og regn en strax ofan í það, um nóttina 27. suðvestan storm með slyddu og síðar hagli. Barst þá töluvert af salti með regninu eða haglinu og sveið gróður og blóm. Sitthvað mun hafa farist af unglömbum í þessi hrakviðri.
Reykhólar (Sigurður Elíasson): Gróður stórskemmdur, einkum trjágróður 26. til 29. af sjávarseltu. Þykk húð af salti á rúðum langt inni í landi.
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Nú á sunnudaginn 27. var hér suðvestan- og vestan rok með mjög miklum sjó. Var aldan eins og í mestu haust- eða vetrarveðrum sem er óvanalegt að vorinu.
Suðureyri (Þórður Þórðarson): Stórbrim gerði hér 27. af vestri. Hið mesta er hér hefur komið um nokkurra ára skeið að ég tel. Gerði þó engan skaða á mannvirkjum.
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Þann 27. og 28. mikið vestanveður með hláku í byrjun og vatnavöxtum.
Reykjahlíð við Mývatn (Pétur Jónsson): Aðfaranótt 26. gekk í suðvestan hvassviðri og stóð þrjá sólarhringa. Aðeins eitt snjóél kom hér. Þurrkur varð mjög mikill svo að sá á uppblásturslandi og sand og mold af melum lagði sumstaðar yfir gróðurlendi.
Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir): Rok, svo allt lauslegt fauk, þak af hlöðu og fjósi hér í nágrenninu.
Skriðuklaustur (Jónas Pálsson): ... 26., að gerði mikinn hita [21,6°C] sem orsakaði stórvexti í vötnum. Vestan ofsaveður 28. er olli tjóni í nýsánum kartöflugörðum sumstaðar. Veðráttan óvenjuleg vegna mikilla votviðra fyrri hlutann og tveggja stórviðra, einkum þess síðara sem var með þeim lengstu og mestu er hér koma. [Fyrra veðrið var þann 16.].
Tíminn segir frá 29.maí:
Akureyri í gær. Mikið ofsarok gerði hér í dag og hefir það valdið smávegis skemmdum. Rafmagnslínan til Dalvíkur slitnaði um hádegið. Á Akureyri var rokið svo mikið, að það skóf yfir allan Akureyrarpoll. Heldur lægði hér, er líða tók á daginn.
Frá fréttaritara Tímans í Skagafirði. Síðastliðinn föstudag [25.maí] var mikill hiti, eða seytján stig og urðu mikil flóð, einkum í Héraðsvötnum, af völdum hitans. Norðurvegurinn tepptist vegna vatnavaxta við Kotá í Norðurárdal. Héraðsvötn flæddu yfir veginn hjá Völlum í Hólmi. Ófært var um Borgarsand vegna vatnagangs og vegurinn rofnaði hjá Vestari-Vatnabrú og á Gljúfuráreyrum í Viðvíkursveit. Þegar flóðið var sem mest, var láglendið hulið vatni milli brekkna. I gær, þegar blaðið hafði samband við fréttaritara sína í Skagafirði, var mikið farið að draga úr vatnsaganum á láglendinu. Héraðsvötn fóru að flæða yfir bakka sína á laugardaginn og jókst vatnsmagnið mjög hratt. Urðu af þeim sökum nokkur áhöld um að hægt yrði að bjarga öllum fénaði, en þó munu menn ekki hafa misst skepnur. Flóðið náði svo hámarki um sexleytið á sunnudagsnótt og fór þá aftur að fjara. Á norðureylendinu hélt vatnið þó áfram að vaxa allt fram á sunnudag. Héraðsvötn byrjuðu að flæða yfir bakka sína á svæðinu Stokkhólmi, Vallanes, Vellir og gerðu veginn milli Valla og Héraðsvatnabrúar bráðlega ófæran bifreiðum. Jafnframt þessu ruddi Kotá í Norðurárdal burtu uppfyllingu við veginn, svo að hann varð ófær bifreiðum. Áætlunarbifreiðar komust ekki leiðar sinnar og gistu um fimmtíu manns á Sauðárkróki og í Varmahlíð á sunnudagsnótt. Í gær var svo unnið að því að gera vegi færa að nýju jafnóðum og vatn sjatnaði.
Dalvík í gær. Kuldatíð hefir verið hér undanfarið. Aðfaranótt laugardags [26.] hlýnaði og var um 20 stiga hiti. Á laugardag varð mikil leysing og hljóp vöxtur í vatnsföll, svo að menn muna naumast slíka. Svarfaðardalsá flæddi yfir veginn til Akureyrar hjá Hrísum á svo löngum kafla, að hann varð ófær. Náði flóðið heim að húsum á Dalvík og kom vatn í kjallara þeirra er lægst standa. Lækur hjá Grund í Svarfaðardal olli töluverðum skemmdum. Reif hann stórt skarð í veginn og verður að fara þar utan vegar, en aðeins fært stærri bílum. Sandá í Svarfaðardal gróf undan brúarstöplum svo brúin féll niður. Kindum, er voru á láglendinu meðfram Svarfaðardalsá, varð að bjarga, sumum á báti svo þær flæddu ekki. Á sunnudagsnótt [27.] kólnaði og á sunnudag gekk á með hvössum skúrum og síðar éljum og gránaði niður í sjó. Fram til dala var meiri snjókoma og í gær kveldi voru menn að ná saman fé er búið var að sleppa og koma því í hús. Í dag var mjög hvasst af vestri, en þurrt og bjart veður. Nú eru flóðin tekin að sjatna og vegurinn til Akureyrar fær. PJ
Morgunblaðið segir frá 29. maí:
Vestan ofsaveður gekk yfir landið um helgina og minnti frekar á haustveðráttu en maíveður. Kalt var í veðri og fór hitinn mjög víða niður í 23 stig. Slydda var víða um landið og á fjöllum blindhríð. Hér í Reykjavík olli veðrið skemmdum í skrúðgörðum; eru sumir garðanna mjög illa farnir, blómskrúð bælt og brotið. Í snörpustu hryðjunum á sunnudaginn gerði hér hagl- eða slydduél og komst hitinn í fyrrinótt niður í 3 stig. Mörgum varð hugsað til litlu lambanna í þessu óvenjulega harða veðri, en ekki er blaðinu kunnugt um að lömb hafi króknað, en margir bændur munu hafa gert það, sem í þeirra valdi stóð, til þess að reka fénaðinn í hús. Fyrir helgina voru kýr víða komnar á beit hér í sveitunum næst Reykjavík. Í gær var enn sama vestanrokið, en hlýrra í veðri og ekki svipað því eins kuldalegt. Allt innanlandsflug hefur legið niðri frá því á laugardagsmorgun. Veðurstofan sagði Mbl. í gær, að vestanveðrið myndi verða gengið niður að mestu í dag.
Dalvík, 28 maí. Geysilegir vatnavextir voru hér í Svarfaðardal nú um helgina. Hér hefir verið svo til samfellt suðvestan rok nú á þriðja sólarhring, en er nú heldur tekið að lægja í dag. Hiti var mjög mikill á föstudaginn og fram á laugardag og þá hljóp vöxturinn í árnar. Er þetta veðurfar mjög óvenjulegt á þessum tíma árs. Elstu menn hér um slóðir telja þetta mesta flóð, sem þeir muni eftir að komið hafi í Svarfaðardalsá. Þó er ekki kunnugt um að neinar alvarlegar skemmdir hafi hlotist af flóðum og eru allir vegir nú færir orðnir.
Um tíma var vegurinn héðan og inn til Akureyrar ófær við Árgerðisbrúna, sem er á Svarfaðardalsá hér skammt innan við kauptúnið. Þurftu þeir, sem héðan vildu fara inn í Eyjafjörðinn að fara upp Svarfaðardal og yfir á Skíðadalsbrú og niður dalinn hinum megin. Trébrú eyðilagðist yfir Sandá sem venjulega er bílfær. Eru tveir fremstu bæir í Svarfaðardal, Atlastaðir og Kot, einangraðir. Að Dæli í Skíðadal fauk hey og minni skemmdir urðu víða. Fréttaritari.
Fréttaritari Mbl. á Akureyri símaði í gær, að síðastliðinn laugardag hafi gengið hitabylgja yfir Norðurland. Hljóp þá mikill vöxtur í allar ár og læki. Hitinn fór yfir 20 stig. Vatnavextirnir orsökuðu nokkrar skemmdir. Eyjafjarðará flæddi yfir láglendi fjarðarins. Fyrirhugað hafði verið að halda kappreiðar á vegum hestamannafélagsins á Akureyri á skeiðvelli félagsins, sem er á Eyjafjarðarárbökkum, en þeim varð að aflýsa sökum þess að skeiðvöllurinn fór í kaf í flóðinu.
Búðardal 28. maí. Frá fréttaritara Mbl. S.l. þrjá sólarhringa hefur verið hér allhvasst af Suðvestan. Á laugardaginn fylgdu storminum fyrst hlýindi, en í gær, sunnudag, var kalt og gekk á með skörpu hagléli. Munu þá margir bændur hafa tekið fé aftur í hús. Annars hefur sauðburður til þessa gengið sæmilega, enda kominn góður sauðgróður.
Og Vísir saman dag (29.):
Frá fréttaritara Vísis. Akureyri í morgun. Fréttir eru stöðugt að berast af ýmislegu tjóni víða norðanlands í ofviðrinu um helgina. Í Hrísey sukku sex trillubátar. Á Árskógsströnd fauk þak af hlöðu og fleira tjón varð þar. Í Svarfaðardal féllu skriður, hey fuku og járn tók af húsum. Í Grímsey var versta veður, sem nokkur maður man, vestanátt og hafrót óskaplegt. Uppskipunarbát, sem þar lá, rak á land og brotnaði í spón. Þá fauk um koll stór heyhlaða og er hún nú á hvolfi, í gær var vart komandi út fyrir hússins dyr á Akureyri einkum á Oddeyri, sökum moldroks og þyrlaðist sandurinn um glugga og hurðir. Víða er ekki sjón að sjá húsin. Byrjað er að slá Eiðsvöll á Oddeyri, og víðar er búið að slá bletti, sums staðar tvisvar.
Þann 1.júní greinir Tíminn frá gróðurskemmdum:
Óveðrið sunnudaginn 27. maí olli víða skemmdum á gróðri í görðum. Víða varð lauf trjánna alveg svart áveðra og blóm eyðilögðust. Er ljótt að sjá veðurbitinn og sæbarinn gróðurinn í Reykjavík og víðar. Sumar blómaræktarstöðvar urðu fyrir miklu tjóni er blómin eyðilögðust í opnum gróðurreitum. Trén verða lengi að ná sér, einkum þau, sem nýlega voru gróðursett. Þetta hvassa vestan éljaveður er ábending um hve skjólið er mikilvægt íslenskum garðagróðri.
Fréttaritari Tímans í Mývatnssveit skrifar þann 28. maí - en bréfið birtist ekki í Tímanum fyrr en 7.júní:
Frá fréttaritara Tímans í Mývatnssveit, 28. maí. Frá því á föstudagskvöld 25. maí hefir verið hér sunnan og suðvestan hvassviðri með miklum þurrki. Veðurhæð varð 911 vindstig. Sandur og mold hefir fokið ákaflega, kæft gróður og aukið mjög uppblástur. Leir- og sandskaflar hafa gert veginn nær því ófæran í Námaskarði, og verður að ryðja þeim af. Halldór bóndi Árnason í Garði átti gott vélageymsluhús, sem hafði staðið opið um tíma, en þegar átti að fara að loka því eftir að hvessa tók, kom í ljós maríuerluhreiður inn í því. Vildu heimamenn ekki styggja fuglinn og létu húsið vera opið, svo að hann gæti flogið þar út og inn. Í einum. sviptibylnum í gær tókst húsið á loft í heilu lagi og kom niður alilangt frá grunninum þar sem það brotnaði í rúst. Allir veggir þess voru úr asbesti. PJ
Síðar um sumarið var minnst á veðrið í blöðum. Í pistli um garðfegurðarverðlaun sem birtist í Þjóðviljanum 18.ágúst (og nær samhljóða líka í Vísi) segir stuttlega, greinilegt að gróðurinn hefur ekki fyllilega jafnað sig:
Blómskrúð er víða mikið í görðum, en trjágróður ber hvarvetna greinileg merki stórviðrisins, 27. maí í vor.
Í Morgunblaðinu 8. september er fréttapistill úr Vatnsdal í Húnavatnssýslu:
Tvö áfelli hafa gengið yfir hér fyrir norðan á þessu sumri sem hafa haft alvarleg áhrif á gróður og uppskeru. Hið fyrra var 27. maí, en þá kom hér eitt hið mesta fárviðri sem kemur af suð-vestri og hafði mjög mikil áhrif á gróður allan, bæði tún, garða og yfirleitt allan nýgræðing. Til dæmis má nefna sem afleiðingu af ofsastormi þessum sem gekk á með krapahryðjum, að trjágróður í görðum og gróðrarreitum hefur aldrei náð sér á þessu sumri. Hvorki reynir né birki hafa náð eðlilegu útliti í sumar og fræmyndun varð mjög óveruleg. Berjaspretta er nálega engin.
Síðara áfellið var mikil frostahrina seint í ágúst. Við minnumst vonandi á hana síðar hér á hungurdiskum þegar fjallað verður um veður og tíð á árinu 1956.
Vonandi halda veður sem þessi áfram að vera sjaldgæf. Ritstjórinn minnist skemmda á trjágróðri í júnímánuði, en hann varð ekki eins langvinnur vegna þess að laufgun var nánast lokið og hvert einstakt lauf gat notið skjóls af öðrum. Þetta var í suðvestanveðrinu um 17. júní 1988 og í norðanveðrinu mikla 17. og 18. júní 2002. Norðanveðrið 17. júní hefur ábyggilega valdið gróðurskemmdum líka - en slíkt er fyrir minni ritstjórans. Alloft er um það getið í heimildum að hvassviðri í júní hafi valdið miklu tjóni í matjurtagörðum, en við látum slíkt liggja milli hluta hér.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:31 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 28
- Sl. sólarhring: 134
- Sl. viku: 2475
- Frá upphafi: 2434585
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 2199
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.