Skemmtideildin í kasti - eða?

Skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar sendi nú í kvöld frá sér spá sem gerir ráð fyrir því að í næstu viku gangi tvær sérlega djúpar lægðir (miðað við árstíma) framhjá landinu eða yfir það. Þetta á að gerast á þriðjudagskvöld og síðan aftur á aðfaranótt laugardags.

Þetta með fyrri lægðina fer að verða trúverðugt hvað úr hverju þar sem bandaríska reiknilíkanið gerir líka ráð fyrir heilmikilli dýpkun á henni. Setur hana þó heldur fjær landinu (austar) heldur en evrópureiknimiðstöðin. Síðari lægðin sést ekki sem slík í bandarísku hádegisrununni. Tilvera hennar er því mun vafasamari.

w-blogg230623a

Myndin sýnir lægðirnar tvær, þriðjudagslægðin er til vinstri, en laugardagslægðin til hægri. Varla þarf að taka fram að rætist þessar spár verður um mikil leiðindaveður að ræða, bæði hvassviðri og mikla úrkomu - varla upplífgandi nema fyrir stöku veðurnörd. 

Lægðirnar eru hér báðar dýpri en 975 hPa. Það er óvenjulegt á þessum árstíma. 

w-blogg230623b

Myndin sýnir lægsta þrýsting sem mælst hefur hvern almanaksdag á landinu síðustu 74 árin á tímanum 20. júní til 20. júlí. Greinilegt er að allt sem er niður við 975 hPa er mjög óvenjulegt. Þar sem djúpar lægðir sem fara í námunda við landið ganga ekki allar yfir veðurstöðvar á landi er víst að lægri gildi er að finna á tímabilinu sé farið langt út á miðin. Djúpar lægðir eru því eitthvað algengari en myndin sýnir. En engu að síður er harla óvenjulegt að sjá spár sem þessar á þessum tíma sumars. 

Lægstu gildin tvö sem við sjáum á myndinni eru frá 1967 og 2014. Árið 1967 urðu ekki stórtíðindi þegar lægðin fór hjá, en þó má segja að það hafi verið í kjölfar hennar sem óvenjulegt úrhelli gerði á Ströndum með skriðuföllum og vegaskemmdum. Árið 2014 er mun nær okkur í tíma og muna e.t.v. sumir eftir þeim leiðindum sem gengu yfir. 

Það er út af fyrir sig freistandi að kenna hlýindum þeim sem nú kvu ríkja á Norður-Atlantshafi um þessar öflugu lægðir og úrkomuna sem þeim myndi fylgja (ef af verður). En slíkar fullyrðingar fela þó í sér lengri og dýpri orsakasamhengispælingar heldur en ritstjóri hungurdiska treystir sér í að svo stöddu (enda varla ástæða til fyrr en fram kemur). 

Viðbót - sunnudag 25.júní.

Evrópureiknimiðstöðin heldur áfram að reikna lægðir í okkur. Það sem við hér að ofan kölluðum þriðjudagslægðina er enn harla raunveruleg, en sjónarmun grynnri en reiknað var á föstudaginn - munar því að ekki verður höggvið nærri metum. Staðsetning er samt svipuð og áður.

w-blogg230623va

Vinstri hluti myndarinnar hér að ofan sýnir þetta. Það sem við kölluðum laugardagslægðina (laugardagur í enda þessarar viku) datt umsvifalaust út úr næstu spárunu (eins og kannski líklegast var) - en hádegisrunan í dag (sunnudag 25.) reisir hana að nokkru upp aftur - en rúmum sólarhring síðar en áður hafði verið talað um. Þessi nýi svipur er ekki alveg jafndjúpur og sá fyrri, en veðrið sem verið er að spá engu betra - þó smáseinkun sé. 

Við vonum auðvitað að þessi nýja gerð helgarlægðarinnar verði jafn hvikul og sú fyrri - og að raunveruleikinn færi okkur eitthvað ljúfara. Það er samt þannig að eitthvað „óeðli“ er í veðrakerfum um þessar mundir - getur brugðið til beggja vona. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband