Smávegis af maí

Eins og flestir muna var tíðarfar í nýliðnum maímánuði heldur hraklegt um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoma hefur sjaldan mælst meiri í Reykjavík í maí og sólskinsstundir aldrei mælst jafnfáar. Sömuleiðis var hvassviðrasamt með afbrigðum. Er þetta í fyrsta skipti sem sólskinsstundir maímánaðar eru færri en eitt hundrað í Reykjavík. Ef sól skini linnulaust frá sólarupprás til sólarlags í Reykjavík í heilan maímánuð myndu sólskinsstundirnar mælast um 530. Sólargangur er þó lítillega lengri, fyrstu og síðustu geislar hennar ná ekki að mælast. Slíkur sólarmánuður yrði enn óvenjulegri heldur en sá sem við upplifðum nú - og er nánast óhugsandi nema við eitthvað heimseindaástand. Ritstjóranum finnst algjörlega sólarlaus maí talsvert líklegri. En flestar hafa sólskinsstundirnar mælst 335,0 í maí í Reykjavík. Það var reyndar í hitteðfyrra, 2021 - ekki langt á milli öfganna. 

Þó sól sé lengur á lofti í júní og júlí heldur en í maí er sólarleysi eins og það sem við nú upplifðum í maí algengara í þeim mánuðum. Fimm sinnum hafa sólskinsstundir í júní verið færri en 100, 1925, 1986, 1988 og 2018 auk 1914 (þegar mælt var á Vífilsstöðum). Í júní 2018 voru sólskinsstundirnar í júní ekki nema 70, langt fyrir neðan nýliðinn maí, og 1914 voru þær ekki nema 61. Síðustu 100 árin hefur það 9 sinnum gerst í júlí að sólskinsstundafjöldinn náði ekki 100 í júlí og á Vífilsstöðum þrisvar. Við vitum auðvitað ekkert enn hvernig fer nú - en ekki lofa fyrstu tíu dagarnir góðu (lítum nánar á þá á morgun).

w-blogg100623a

Hér má sjá háloftastöðuna í maí. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins. Af þeim ráðum við meðalvindstefnu og styrk. Suðvestanbeljandi ríkjandi, meiri en við vitum um áður í maí á mæliskeiðinu sem með öryggi nær aftur til 1949 og sæmilegri ágiskun aftur til 1920. Vestanáttin hefur aldrei verið svona ákveðin í maí - svo vitað sé. Litirnir sýna vikin, þau eru jákvæð yfir Bretlandseyjum, en neikvæð yfir Grænlandi - mjög gerðarlegt allt saman. 

Rétt er að ítreka að þessi staða segir ekkert um framtíðina, hvorki í bráð né lengd. Við getum minnt á að strax á eftir nánasta ættingja þessa maímánaðar, 1991, kom ofurþurr og bjartur júnímánuður og síðan einhver hlýjasti júlí sem við munum - heldur ólíklegt allt saman fannst okkur þá. En við þurfum ekki að bíða lengi eftir framhaldinu. Sumarið verður litið fyrr en varir - reynum að njóta þess sem best hvað sem veðurlaginu líður. 

Við þökkum BP fyrir kortið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband