Sumareinkunn maímánaðar?

Meðan við bíðum eftir maímánaðarniðurstöðum Veðurstofunnar skulum við leika okkur smávegis. 

Fyrir sex árum (31.maí 2017) birtist hér á hungurdiskum pistill undir yfirskriftinni „Sumareinkunn maímánaðar“. Kominn er tími á uppfærslu, sérstaklega vegna þess að sá maímánuður sem nú má heita liðinn hefur verið bæði sólarlítill og úrkomusamur - samanburður við fyrri mánuði kannski athyglisverður. Við byrjum á hreinni endurtekningu á texta gamla pistilsins - þar eru varnaðarorð sem enn eru í fullu gildi:

„Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska leikið sér að því gefa sumarmánuðum og heilum sumrum einkunn. Aðferðafræðin er skýrð í fyrri pistlum. Sú óraunhæfa krafa kemur stundum upp að meta beri veður í maí á sama hátt - og það heyrist meira að segja að menn taki kalda, sólríka þurrkþræsingsmaímánuði fram yfir vota og hlýja. Slíkt er hins vegar í töluverðri andstöðu við það sem tíðkast hefur þegar vortíð er metin.

Gott og vel - við skulum nú bera saman maímánuði í Reykjavík eins og um sumarmánaðakeppni væri að ræða“.

w-blogg310523

„„Bestur“ var maí 1932 með fullt hús stiga - en lakastur er maí 1992 með aðeins 1 stig (bæði kaldur og blautur). Við skulum taka eftir því að hinn hræðilegi og kaldi maí 1979 er hér metinn góður - fær 12 stig. Jú, sólin skein og úrkoma var lítil og úrkomudagar fáir - mánuðurinn fékk hins vegar 0 stig (af fjórum mögulegum) fyrir hita.

En það er kannski að nútíminn vilji hafa veðrið þannig - menn geta vökvað garðinn sé þurrviðrasamt - en erfiðara er að verjast rigningu“.

En hvað hefur gerst síðan 2017? Jú, við fengum afskaplega „laklegan“ maí árið 2018 (2 stig) og svo aftur nú (3 stig). Stigin 3 í ár koma öll með hitanum. Hitinn er í meðallagi 1991 til 2020, og yfir meðallagi tímabilsins alls. Hann fær hins vegar núll stig í öðrum einkunnaflokkum. Rauði ferillinn á myndinni sýnir 10-ára keðjumeðaltal. Við sjáum að 2 stig hafa „tapast“ miðað við hámarkið á árunum 2002 til 2011, en við erum samt um 3 stigum ofan þess sem „laklegast“ var á 9. áratug síðustu aldar. En höfum hér í huga að þessi mælitala mælir bara það sem hún mælir - raunveruleg gæði koma þar ekki endilega við sögu.

Sú spurning kemur oft upp hvort þetta segi eitthvað um veður sumarsins. Hvert er samband maíeinkunnar og heildareinkunnar mánaðanna júní til ágúst? Einfalda svarið er að það er nákvæmlega ekki neitt - veður í maí segir ekkert um veður sumarsins.

w-blogg310523b

Síðari mynd pistilsins ætti að sýna það (myndin skýrist við stækkun). Lárétti ásinn sýnir maísumareinkunn, en sá lóðrétti einkunn sumarsins í heild. Reiknuð fylgni er nánast engin (r=0,2). Bölsýnismenn geta þó haft eitthvað upp úr krafsinu með því að túlka myndina á sinn svartsýna hátt. Ef við lítum á þau sumur sem fylgja maímánuðum sem hafa fengið mjög lága einkunn (4 eða lægri) kemur í ljós að ekkert eftirfylgjandi sumra er með mjög háa einkunn. Autt svæði er þar á myndinni í kringum 40, svo há sumareinkunn virðist aðeins fylgja öllu hærri maíeinkunnartölum. Sömuleiðis er líka autt svæði á myndinni neðst til hægri - enginn hraksumur fylgja allra hæstu maíeinkunnartölunum.

Sannleikurinn er hins vegar sá að við eigum í framtíðinni eftir að sjá ár fylla þessi „auðu“ svæði myndarinnar, nema að enginn nennir auðvitað að gera myndir sem þessar áfram og aftur - og öllum nákvæmlega sama. Einhverjir aðrir munu kannski búa til öðruvísi einkunnarkvarða og þar með öðruvísi útkomu. Hver veit hvað gerist nú? Hvar lendir sumarið 2023 á myndinni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 984
  • Frá upphafi: 2420868

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 863
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband