Með snarpara móti - miðað við árstíma

Leifar vetrarins lifa oft lengi fram eftir í norðurhöfum og slettast þar um svæðið í líki snarpra kuldapolla. Í þeim miðjum er afskaplega kalt, en komist þeir í námunda við hlýrra loft úr suðri geta þar myndast öflugar lægðir sem valda leiðindum þar sem þær fara hjá. Við þekkjum þetta auðvitað mætavel hér á landi, oftar þó í formi norðlægra hreta heldur en útsynningskasta þegar komið er fram yfir miðjan maí. 

Við finnum þó slík útsynningsköst í fortíðinni, sum voru minnisstæð vegna vandræða sem þau ollu í sauðburðinum, en gera minna af sér nú á dögum þegar allt slíkt á sér stað í húsum. Ekki þarf að fara mörg ár aftur til að rekast á leiðindaútsynning í síðari hluta maímánaðar. Það var 2018. 

Nú er spáð einhverju ámóta (veðrið er þó aldrei eins). Ekkert verður á þessu stigi sagt til um það hvort veruleg leiðindi fylgja - eða bara bleytuhrollur. Þetta er samt með snarpara móti (rætist spár).

w-blogg170523a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins, vind og hita í honum síðdegis á föstudag, 19.maí. Gríðarlegur vindstrengur er þá yfir landinu. Vindhraði í 5 km hæð meiri en 50 m/s. Jafnhæðarlínur þéttar eftir því. Við vitum um fáein tilvik með svona miklum vindi yfir Keflavíkurflugvelli síðari hluta maí, en að jafnaði líða samt mörg ár á milli þess sem það gerist. 

Mikil hlýindi fylgja, en aðeins stutta stund. Þykktin (en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs) á að fara upp fyrir 5560 metra yfir Austurlandi um þær mundir sem kortið gildir. Það er því rétt hugsanlegt að við fáum fyrstu 20 stig ársins á landinu þennan dag - en vegna sólarleysis er það samt algjörlega sýnd veiði en ekki gefin. Leiðindaveður verður um mikinn hluta landsins - og það jafnvel í nokkra daga.

Lægðarmiðjan er vestur á Grænlandshafi. Spár segja að miðjuþrýstingur hennar fari niður fyrir 970 hPa á föstudag. Það er ekki algeng tala á þessum tíma árs hér við land - en þar sem lægðin er langt vestan við land eru lágþrýstimet ekki í hættu hér á landi. Hæð 500 hPa-flatarins í háloftalægðarmiðjunni er líka óvenjulág, 5010 metrar. Við vitum ekki um mörg lægri tilvik yfir landinu - en einhver má finna í nágrenni þess - sé leitað. 

Við, veðurnördin, getum alla vega skemmt okkur eitthvað yfir þessu. Aðrir verða bara að gera sem best úr á sinn hátt og við vonum öll að sumarið verði gjöfult. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 984
  • Frá upphafi: 2420868

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 863
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband