Hugsað til ársins 1928

Árið 1928 þótti hagstætt lengst af eftir umhleypingasama byrjun. Lengst af var hlýtt og aðeins einn mánuður telst kaldur. Það var júní, þá var kvartað um kulda, þurrka og illa grassprettu. Skaðaveður voru fátíð á árinu og tjón í þeim til þess að gera lítið, en eins og venjulega á þessum árum fórust allmörg skip og togarar. Tengsl þeirra óhappa við veður eru oft óljós.  

Í janúar var óhagstæð tíð, umhleypingasamt var og allmikill snjór. Febrúar þótti sömuleiðis óhagstæður nema síðari hlutinn fyrir norðan. Mikill snjór um miðjan mánuð syðra. Í mars var tíð hagstæð, hægviðrasöm og snjólétt. Þurrviðrasamt var nyrðra. Gæftir voru góðar. Í apríl var hlý og góð tíð, þurrt var nyrðra en úrkomusamt á Suðurlandi. Maí var hagstæður og hlýr, mjög þurrt var víðast hvar. Í júní var óvenjuþurrt og sólríkt um landið sunnanvert, en þurrkar töfðu gróður. Kalsasamt var norðaustanlands. Kalt var í veðri. Júlí var sólríkur, en nokkuð úrkomusamt þótti norðaustanlands. Ágúst var einnig hagstæður. Þá var úrkomulítið á bæði Norður- og Vesturlandi. Í september var nokkuð þurrt norðaustanlands, gæftir voru góðar og tíð almennt talin góð. Í október var tíð mjög hagstæð og hægviðrasöm. Fremur þurrt á Suður- og Vesturlandi. Nóvember var hagstæður til landsins, en gæftir misjafnar. Desember var hagstæður og snjóléttur. Úrkomulítið var norðan- og austanlands.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Blöðin vitna oft til „FB“ sem mun vera Fréttastofa blaðamanna. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. 

Veðurathugunarmenn telja tíð heldur órólega í janúar - en líta þó misjöfnum augum til hennar:

Hörðuból í Dalasýslu (Flosi Jónsson): Tíðin má heita að hafi verið góð þennan mánuð. Þó hún hafi verið óstöðug þá hefur alltaf verið smáviðrasamt og frostvægt.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið heldur stórgert. Reglulegt vetrar veður. Hagar hafa lítið verið notaðir á gjafajörðum síðari hluta mánaðarins vegna harðviðra og kulda. En nú er allstaðar jarðlaust, svellstorka yfir allt.

Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): Tíðarfarið hefur mátt heita gott, yfirleitt - frost fremur væg og oft hiti. Þótt oft væri snjókoma fyrsta hluta mánaðarins var hún svo lítil að lítið sakaði.

Raufarhöfn (Árni Árnason): Tíðarfarið hefur verið umhleypingasamt en ekki stórillt. Ísing og bleytuhríðar hafa gert það að verkum að oft hefir verið slæmt til jarðar og að staðaldri varla nema snöp. En af því frostleysur hafa verið og fjörur þíðar hefir fullorðnu fé ekki verið gefið við sjó.

Stórhöfði í Vestmannaeyjum (Gunnar Þ. Jónathansson): Óláta tíð. Stormar og umhleypingar. Litlar gæftir á sjó.

Aðfaranótt þess 5. janúar gerði vestanhvell. Morgunblaðið segir 6.janúar frá:

Tvo báta rekur á land [á Akranesi]. Snemma í morgun rak á land tvo stóra vélbáta, Geir goða og Hrefnu. Eru þeir 30—40 smálestir að stærð. Var veður mjög hvasst og brim mikið. Bátarnir náðust báðir út seinna í dag, lítið eða ekki skemmdir.

Úr Mýrdal (símtal 5. jan.) Talsverðan snjó hefir sett niður í Mýrdal síðustu daga; fénaður var tekinn á gjöf fyrir jól, en fram að þeim tíma var einmuna tíð.

Morgunblaðið segir af snjóalögum sunnanlands 17.janúar:

Talsverður snjór er sagður fyrir austan fjall, sérstaklega þegar austur í Rangárvallasýslu kemur. Hefir þar dregið í stórskafla, og hefir tæplega verið útbeitandi að undanförnu. En í gær brá þar til þíðviðris og sjatnaði snjór talsvert.

Morgunblaðið segir 20.janúar frá góðri tíð nyrðra:

Akureyri 18. janúar FB. Tíðarfar framúrskarandi. Lítilsháttar snjókoma undanfarið, nú
hláka og hlýindi.

Á þessum árum voru alloft jarðskjálftar við Reykjanesvita, en Morgunblaðið segir í þetta sinn af tíðindaleysi 21.janúar:

Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi er staddur hér í bænum og náði blaðið tali af honum og spurði frétta að sunnan. Hann sagði að meiri snjór hefði verið á Reykjanesi nú um áramótin en nokkuru sinni hefði komið þar í sinni tíð, en nú mætti snjólaust kalla. Jarðskjálftar hafa verið þar með langminnsta móti að undanförnu eða síðan í vor, aðeins lítilsháttar hræringar við og við.

Þann 20. janúar gekk sérlega djúp lægð yfir landið vestanvert. Þrýstingur mældist lægstur í Grindavík um kl.10, 932,6 hPa. Veðráttan getur þess að líklega hafi hann farið enn neðar síðar um daginn á Ísafirði, en þrýstisíriti náði lágmarkinu þar ekki. Giskað er á 931,9 hPa og að lægðarmiðjan hafi jafnvel verið enn dýpri. 

Slide1 

Eftirtektarvert er hversu endurgreiningar hafa (hingað til) náð þessari lægð illa. Það má t.d. sjá í dæminu hér að ofan. Evrópska greiningin er ámóta og missir líka af þessari lægð. 

Slide2

Myndin sýnir kort sem dregið er á Veðurstofunni kl.8 að morgni 20.janúar 1928. Lægðin er þá skammt suður af Reykjanesi. Hér er þrýstingur kominn niður undir 938 hPa í Grindavík, en fór tæpum 6 hPa neðar um 2 klukkustundum síðar. Hvasst er í kringum lægðina, en þó urðu (eins og áður sagði) skaðar ekki verulegir. Veðrið hefði valdið meiri vandræðum nú á dögum, einkum vegna samgöngutruflana. 

Svo er það eitt togarastrandið, Morgunblaðið segir frá 25.janúar:

Klukkan hálfátta í fyrrakvöld strandaði enskur togari, „Gladwyn“ frá Aberdeen á Bæjarskerseyri hjá Sandgerðisvík. Var þá ákaflega mikið brim og lengi tvísýnt hvort takast mundi að bjarga skipshöfninni ... Það þykir mesta furða, að svo heppilega skyldi takast, að allir mennirnir björguðust, eins og illt var þar aðstöðu og brimið gífurlegt. Var það að þakka framúrskarandi dugnaði manna úr landi, að öllum varð bjargað. Í gær var farið um borð í skipið og er sýnt, að engin von er um að því verði bjargað, því að það er mölbrotið og sennilega verður ekki hægt að bjarga úr því neinu sem nemur.

Veðráttan segir frá því að þann 7. janúar hafi bátur farist nærri Flatey á Skjálfanda, tvennt hafi drukknað og þann 13. hafi maður orðið úti við Kirkjubæ á Rangárvöllum. 

Í Reykjavík var alhvítt samfellt frá 22. janúar til 20. febrúar. Þann 12. til 13. febrúar bætti mjög í snjóinn, snjódýptin fór úr 11 cm þann 11. í 34 cm þann 14. Þann 19. sjatnaði og var nánast alautt orðið þann 20. Aðeins var alhvítt tvo daga í mars í Reykjavík, síðast í þann 19. (5 cm) og síðan ekki aftur fyrr en 18.nóvember (6 cm). Óvenjulegt fannkynngi var á mörgum veðurstöðvum um og fyrir miðjan febrúar. 

Veðurathugunarmenn kvarta undan febrúartíðinni, en hún batnaði þó eftir illviðrið þann 20.:

Hvanneyri (Þorgils Guðmundsson): Þann 20. var mjög mikill stormur og fauk hér að Hvanneyri hlaða og eldiviðarskúr, hvoru tveggja nokkuð feyskið orðið en annars vel um búið.

Lambavatn: Tíðafarið mátti heita heldur slæmt. Til þess 20. var allstaðar jarðlaust fyrir allar skepnur af svellhúð sem kom upp úr nýárinu. Um miðjan mánuðinn setti niður óvenju mikinn snjó á svo stuttum tíma (38 cm snjódýpt þann 12.). Nú er allt orðið alautt svo svell er að hverfa af tjörnum því að hefir í 3 daga verið svo hlýtt og vindur svo mikill að snjór og svell hafa horfið í svipan.

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Athugasemdir um mánuðinn: Frostmildur, gjaffeldur, umhleypingasamur, sjógæftafár, óhagstæður.

Raufarhöfn: Þann 19. Rokveður stundum eftir kl.4. Fauk þak af íbúðarskúr í heilu lagi og sleit með því allt símasambandið.

Papey (Gísli Þorvarðsson): Snjólagið var ekki mikið, en afar illa gerði krap á krapa ofan. Frostið lítið svo varla náði að samfrjósa, tók því fljótt upp. Síðan 23. besta tíð svo talsvert er farið að grænka í túnum og úteyjum. Litlar sjógæftir.

Fagurhólsmýri (Ari Hálfdanarson): Þennan mánuð hefur tíðin verið umhleypingasöm og oftast haglaust. Snjór er mikill (56 cm þ. 17.) og illa gerður, gaddur undir snjónum. Versti kaflinn á vetrinum það sem af er.

Stórhöfði: Óvenju mikil harðindi og ótíð fram yfir miðjan mánuð. Litlar gæftir sökum storms og brims. Þann 13. brotnaði mb Sigríður við Ofanleitishamar, menn björguðust. Klifraði einn upp hamarinn morguninn eftir og komst til bæja; voru hinir svo halaðir upp. [Nánari lýsingu á þessu mikla klifurafreki má finna í blöðum og víðar]. 

Blaðafréttir kvarta einnig undan febrúartíðinni. Morgunblaðið segir frá í þremur stuttum fréttum:

[5. febrúar] Úr Mýrdal. Þetta nýbyrjaða ár fór allhöstugt af stað hvað tíðarfar snertir, hefir verið mjög illviðrasamt það af er.

[8.] Tíðarfar heldur umhleypingasamt. Snjóaði talsvert um daginn, síðan hlánaði, en snjó tók ekki upp, svo jörð skemmdist og er nú víðast haglitið.

[10.] Úr Biskupstungum. Öndvegistíð, hér sem annarstaðar fram að nýári, Síðan nokkuð snjóasamt og harðbýll hagi. Allur fénaður á fastagjöf og hross öll í húsavist.

Alþýðublaðið segir frá mikilli ófærð í Reykjavík og grennd 12.febrúar:

Vegna ófærðar var ekki hægt að komast milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur í allan gærdag. Umferðin stöðvaðist frá kl. 2 á laugardag. Bifreiðastöðvarnar voru lokaðar í allan gærdag, því ekki var fært með bifreiðar um göturnar.

Morgunblaðið segir 14.febrúar frá hörmulegu slysi í Óshlíð og kvörtunum undan slæmum veðurspám:

Ísafirði 12. jan. FB. Vélbátur frá Ísafirði fór aðfaranótt sunnudags [12.febrúar] áleiðis til Bolungarvíkur með fólk, sem þaðan hafði komið til að sjá „Lénharð fógeta“ leikinn. — Vegna þess að báturinn þótti ofhlaðinn, voru 5 farþegar settir á land í Hnífsdal og héldu þeir förinni áfram gangandi til Bolungavíkur. En utanvert við Óshlíð skall á þá snjóflóð og fórst fernt.

Vestmannaeyjum FB 13. febr. Sjómannafélag Vestmannaeyja hefir samþykkt áskorun til stjórnar sinnar um að rannsaka ástæður fyrir því að veðurspár Björgunarfélagsins hafa í vetur reynst miklu óáreiðanlegri en á sama tíma í fyrra. Fannkyngi óvenjulegt eftir illviðrið í fyrrinótt. [Það var Björgunarfélagið sem birti spar Veðurstofunnar, útvarpið hafði ekki tekið til starfa]. 

Vísir greinir 13. febrúar frá illviðri í Vestmannaeyjum - og Morgunblaðið segir frá framhaldi í frétt þann 15. 

[Vísir, 13.] Vestmannaeyjum 12. febr. FB. Í gær og nótt einhver hin mesta hríð, sem komið hefir um margra ára bil. Nítján vélbátar náðu ekki til hafnar í gærkveldi og var ófrétt um sjö í aftureldingu. Maí, Skallagrímur, Surprise, Ver og Þór leituðu í nótt. Allir eru nú komnir nema þrír, en frétt komin, að þeir séu á heimleið. Loftnetið á Þór slitnaði í óveðrinu.

[Morgunblaðið 15.] Vestmannaeyjum 14. febrúar. Fjöldi báta var á sjó í Vestmannaeyjum í gær er stórviðri með svartabyl skall á. Brim var með afbrigðum mikið og áttu bátar mjög erfitt með að ná landi.

Slide3

Þessa daga streymdi mjög kalt loft til landsins sunnan Grænlands, lægðir og snjókomubakkar komu í röðum að landinu og snjó kyngdi niður þó kerfin væru ekki sérlega djúp. 

Slide4

Háloftastaðan að kvöldi 13. er dæmigerð. Snarpt og kalt lægðardrag við Suðvesturland. 

Morgunblaðið og Vísir sega enn af fannkynngi í fréttum næstu daga:

[Morgunblaðið 16.febrúar] Snjókoma hefir verið mikil í Borgarfirði undanfarna daga, ekki síður en hér. Hefir bændum reynst mjög örðugt að koma mjólk sinni til niðursuðuverksmiðjunnar Mjallar [í Borgarnesi], og í tvo daga stöðvuðust flutningar alveg frá þeim er lengst eiga að sækja, svo sem úr Þverárhlíð og neðstu bæjum í Hvítársíðu og Reykholtsdal. Í gær höfðu menn rutt mestu snjóskaflana, svo að bifreiðir gátu- farið alla leið upp að Kláffossbrú.

[Vísir 17.febrúar] Óvenjulegt fannkyngi er á Hellisheiði um þessar mundir. Á þriðjudaginn var brutust nokkrir menn austur yfir heiðina og voru um sjö stundir frá Kolviðarhól austur á Kambabrún.

[Morgunblaðið 18.febrúar] Samgönguteppa. Nú er snjókyngið svo mikið hér í bænum og grenndinni, að bílar komast aðeins um bæinn. — Til Hafnarfjarðar komst enginn bíll í gær; var verið að moka skafla allan daginn, en snjó fauk í jafnóðum.

[Vísir 19.febrúar] Íþróttavöllurinn og fönnin. Áður en girðingin var reist umhverfis íþróttavöllinn nýja, var á það bent opinberlega oftar en einu sinni, að sennilegt mætti telja, að svo mikill snjór legðist á vetrum að girðingunni við austurhlið vallarins, að farartálmi yrði að. Girðinguna átti að setja rétt við vesturbrún vegarins, en gatan er mjó og land allt sundurgrafið á löngu svæði þar austur af og oft með öllu ófært umferðar. En ekki þótti „forráðamönnunum" þetta sennilegt. Þeir fengu ekki skilið, að til mála gæti komið, að snjórinn yrði svo hlálegur, að fara að haugast saman á þessum stað, jafnvel þó að annars staðar væri kafhlaup. Síðan girðingin var reist getur varla heitið, að snjó hafi fest á jörðu dægri lengur hér á suðurnesjum, þar til nú. Og nú gefur líka á að lita. Meðfram allri austurgirðingu vallarins er samfelld þilja, sumstaðar nálega jafnhá girðingunni og aflíðandi út á eystri vegarbrún. Má vegurinn heita ófær bifreiðum sem stendur. Verða þær nú að krækja vestur fyrir völlinn og er það ekki til neins hægðarauka. Á veginum sjálfum geta bifreiðir, sem. mætast, ekki komist leiðar sinnar, sakir fannkyngi. Þessa hættu sáu margir fyrir í upphafi og vöruðu „forráðamennina" við, en framsýni þeirra þá var lík því, sem hún hefir alla tíði verið. Minnugur.

Mesta illviðri ársins gerði þann 20. febrúar með hvassviðri, úrkomu og leysingu. Tjón varð þó ekki verulegt. 

Slide5

Endurgreiningin nær þessari lægð mjög vel. Henni fylgdi mikill sunnanstrengur, hvassviðri og hlýindi. 

Vísir segir frá 22. febrúar: 

Akureyri 21. febr. FB. Í gær var afspyrnu suðsuðvestan rok og þeyr, meiri og minni skemmdir á mannvirkjum. Hey fuku og menn meiddust lítillega. Vatnavextir miklir.

Morgunblaðið 23. febrúar:

Borgarnesi FB 22. febrúar Mikið rok um helgina. Í dag gekk á með þrumum og eldingum um kl.5.

Íslendingur [Akureyri] 24. febrúar:

Ofviðri. Á mánudagsmorguninn [20.] gerði ofviðri af suðri og hélst allan daginn langt fram á kvöld. Urðu bilanir miklar á símalínum og ljósleiðslum hér í bænum og ýmsar aðrar skemmdir. Þannig fauk allt járnþakið að sunnanverðu af Oddfellowhúsinu í Gránufélagsgötu. Tveir menn slösuðust í veðrinu, annar all-alvarlega. Fauk á hann vatnsbali og meiddi mikið á höfði. — Ofviðrið geisaði um allt Norðurland, en um verulegar skemmdir af völdum þess hefir ekki frést.

Vísir 24. febrúar:

Ísafirði 23. febr. FB. Ofviðri í fyrradag. Fauk þá hlaða á Ósi í Bolungarvík á sjó út, með öllum heyforða bóndans, kringum áttatíu hestum. Mótorbátur brotnaði og sökk við öldubrjótinn í Bolungarvík.

Enn urðu hörmungar í snjóflóði. Morgunblaðið segir frá 25.febrúar:

Stúlka ferst í snjóflóði í Þistilfirði. Um helgina var [18. til 19. ] voru tveir kvenmenn og einn karlmaður á ferð um Borgarfjörur í Þistilfirði. Gekk önnur stúlkan spölkorn á undan samferðafólki sínu. Yfir hana skall snjóflóð, er varð henni að bana. Hún var á leið til Kollavíkur. (Eftir símfregn frá Akureyri).

Dagur segir einnig af sköðum í illviðrinu þann 20. og Þistilfjarðarmannskaðanum í pistli 27.febrúar: 

Hvassviðrisrok geisaði hér allan mánudaginn 20. þ.m. fram á kveld. Sumstaðar urðu skemmdir á húsum, járn fauk af þökum, reykháfar brotnuðu og gluggarúður. Á stöku stað fauk hey, en ekki í stórum stíl; símalinur biluðu og ljósleiðslur flæktust saman og skemmdust svo að lengi var ljóslaust í bænum á mánudagskveldið. Tveir menn slösuðust, en þó ekki hættulega.

Snjóflóð féll á Borgarfjörum, skammt frá Kollavík í Þistilfirði um miðjan þ.m. Tvær stúlkur og unglingspiltur lentu í snjóflóðinu, voru það tvö systkin frá Völlum í Þistilfirði og Petra Pétursdóttir, til heimilis í Kollavík, hún var um fertugt, fædd og uppalin á Krákárbakka í Mývatnssveit; fórst hún í flóðinu og hafði dáið strax; hin stúlkan barst á sjó út, og gat krafsað sig í land; en pilturinn fannst mjög máttfarinn í snjóskriðunni og þótti tvísýnt um að hann héldi lífi.

Jón Eyþórsson tók sig til og svaraði þeim sem skömmu áður gagnrýndu veðurspár Veðurstofunnar. Gefur þetta svar hans innsýn í hug veðurfræðings fyrir nærri 100 árum. Hér er greinin tekin úr Morgunblaðinu 26. febrúar, en hún birtist víðar:

Veðurspárnar í fyrravetur og nú. Samkvæmt fréttastofuskeyti frá Vestmannaeyjum, sem nýverið stóð í dagblöðunum hér, hafa veðurspár þótt rætast þar miklu verr nú í vetur heldur en um sama leyti í fyrra. Með því að undirritaður hefir samið langflestar veðurspárnar, bæði þær sem vel reyndust í fyrra og þær sem nú þykja illa gefast, tel ég mér vera skyldast að svara til sakar í þessu máli. Í fyrsta lagi þarf að athuga, hvort ummælin virðast á rökum byggð og í öðru lagi, ef svo reynist, hvað muni þá valda afturförinni. Til þess að fá hugmynd um fyrra atriðið, hef ég borið veðurspár, sem gefnar voru út að kvöldinu í janúar 1927 og janúar 1928, saman við veðurskeyti frá Stórhöfðavita í sömu mánuðum. Kvöldspáin gildir fyrir nóttina og næsta dag og er því eðlilega mestu varðandi fyrir þá, sem sækja sjó. —

Samanburðurinn gildir vindátt og veðurhæð, en ekki úrkomu. Hefir verið farið eftir föstum reglum, sem of langt yrði að greina hér frá. En að sjálfsögðu er hverjum, sem óskar, heimil aðganga að öllum gögnum, sem að þessu lúta. — Hvert dægur er tekið út af fyrir sig og einkunn gefin fyrir spána um vindátt og veðurhæð. Rétt spá fær tvo í einkunn, nokkurn veginn rétt fær 1 og röng 0. Með þessu móti er auðreiknað, hve margar spár af hverjum 100, sem út eru gefnar, mega teljast réttar. Sýna eftirfarandi tölur hve margar spár af hundraði hafa reynst réttar í jan. 1927 og 1928:

Tafla: Næturspá (fyrstu tveir dálkar), Spá fyrir næsta dag (síðari tveir dálkar).

w-1928v-t

Þessar tölur benda ekki til þess að afturför hafi orðið, heldur þvert á móti allmikil framför, einkum í spánni fyrir næsta dag. Var og ástæða til að vænta heldur aukins árangurs, með því að veðurskeyti berast nú oftar frá Grænlandi heldur en í fyrra vetur. Hinsvegar hefir janúar í ár verið enn þá umhleypingasamari heldur en í fyrra og því erfiðari. Í janúar í fyrra var 6 sinnum spáð hvössu veðri næsta dag en í sama mánuði í vetur 14 sinnum. Í fyrra komu 4 hvassviðrisdagar (8—9 vindstig), sem ekki var gert ráð fyrir kvöldið áður. Í vetur varð einnig 4 sinnum hvass vindur, þegar aðeins var spáð allhvössu. Í fyrra var tvisvar spáð hvössu, þegar veðurhæðin aðeins varð 4—7 vindstig; en í vetur hefir það komið þrisvar fyrir, er spáð var hvössu, að veðurhæðin varð aðeins snarpur vindur (7 stig). Er hér sem fyrr aðeins átt við janúarmánuð.

Nú kann einhver að segja, að samanburður við veðurathuganir frá Stórhöfða sanni lítið um gildi veðurspánna, vegna þess að veðurhæð sé þar meiri, heldur en við sjávarflöt. En þetta breytir vitanlega engu um samanburðinn milli beggja áranna. Athuganirnar hafa verið gerðar á sama stað og af sömu mönnum. Því má og við bæta, að Stórhöfði er, þrátt fyrir allt, einhver besta veðurstöðin, sem sendir skeyti til Veðurstofunnar, vegna þess að vindur nær sér þar jafnt af öllum áttum. 

Við rannsókn á sjósókn og veðurhæð í Vestmannaeyjum á vertíðunum 1925 og 1926 kom það í ljós, að einungis fáir bátar sækja á sjó úr því veðurhæðin er orðin yfir 7 stig, og tel ég vafalítið að það verði oft slarkferðir með lítinn afla og veiðafæramissi. (Sbr. Mbl 4. tbl. 1927 bls. 76—78). Annars er það margreynt að venjulegir vélbátar geta ekki verið að veiðum í rúmsjó úr því að veðurhæðin er orðin 6—7 vindstig og smábátum er þá hætta búin, ef nokkuð ber af leið. Hér að framan er stormfregn því aðeins talin hafa ræst að fullu, ef veðurhæðin á Stórhöfða verður 8 (hvass vindur) eða meira. — Það væri æskilegt, að þeir sem kvarta yfir veðurspánum gefi um leið bendingar um það, hvort mistökin liggja einkum í því, að veðurhæðin sé áætluð of lítil eða of mikil. Veðurstofan mundi þiggja slíkar leiðbeiningar með þökkum (einkum ef þær væru sendar henni á undan Fréttastofunni).

Að lokum skal það tekið fram, að eins og hér hagar til, er ómögulegt að komast hjá því með öllu, að eigi skelli á illviðri, án þess að hægt sé að vara við því í tíma. Ef engar fregnir eru fyrir hendi, sem benda á hættu innan þess tíma, sem veðurspáin gildir, væri það auðvitað óðs manns æði að spá illviðri, því það væri út í bláinn gert. Í öðru lagi getur einstök fregn bent á, að illviðri sé í aðsigi, án þess að hægt sé þá að vita með vissu um hraða þess eða stefnu. Þegar svo ber undir fylgi ég að minnsta ! kosti þeirri reglu, að vænta heldur hins versta og haga veðurspánni þar eftir. Að öllu þessu samanlögðu verður ekki séð, að spárnar séu í raun og veru lakari nú, heldur en um svipað leyti í fyrra. —

Mundu ekki vonbrigði þau, sem gert hafa vart við sig í Vestmannaeyjum, geta stafað af því, að þegar Björgunarfélagið tók að birta veðurspárnar í fyrra voru þær flestum sem nýmæli, sem litlar kröfur voru gerðar til og þótti því gefast vonum framar, en í vetur hefir hinsvegar verið vænst meira af þeim, heldur en þær geta uppfyllt? Jón Eyþórsson.

Þessari grein svaraði Jóhann Jósefsson þingmaður Vestmanneyinga 28.febrúar og ítrekaði kvartanir eyjamanna.

Þann 27. febrúar varð mikill mannskaði þegar togari strandaði við Stafnnes. Morgunblaðið  segir af því 28.febrúar. Ítarlegri frásögn af björgun er í blaðinu og víðar:

Klukkan eitt í fyrrinótt eða þar um bil strandaði togarinn Jón forseti á Stafnnesi. Er það rétt hjá Stafnnesvita. Er þar að sögn einhver hinn versti og hættulegasti staður hér á landi fyrir skip sem stranda. Rifið er langt frá landi og er þar sífellt brim þótt sjór sé hægur annars staðar. En að þessu sinni var brim mikið. [15 menn af skipinu fórust, 10 komust lífs af].

Hlaupársdagurinn, 29. febrúar 1928 er sá hlýjasti frá upphafi mælinga ásamt sama degi 1964.

Að mati veðurathugunarmanna var góð tíð í mars:

Hvanneyri: Veðráttan framúrskarandi góð. Flesta daga mánaðarins auð jörð og veðurhæð aldrei yfir 5.

Hraun í Fljótum: Tíðin var ágæt í þessum mánuði. Slæmt veður varð aðeins frá 17. til 23, eða einn vikutíma. Þó varð snjókoma aldrei mikil hér í sveitinni eða nokkurs staðar í Skagafirði. Í Siglufirði var miklu meiri snjókoma.

Fagridalur (Kristján N. Wiium): Yfirleitt mjög góð tíð, þó heldur óstillt síðari hluta mánaðarins, en oftast autt og engin stórveður.

Morgunblaðið segir af tíð 17.mars:

Borgarnesi FB 16. mars. Afbragðs tíð, svo vart eru dæmi til slíks á þessum tíma árs.

Seyðisfirði FB 16. mars. Uppsveitir að mestu auðar, ágætt færi milli Héraðs og fjarða. Seyðisfjörður lagður fjögra þumlunga ísi út undir Þórarinsstaðaeyrar.

Þann 17. mars fórst bátur úr Vogum, Morgunblaðið segir frá þann 20.:

Vogum, FB. 18. mars. Bátur ferst. Þrír bátar reru héðan kl. 7 — 7 1/2 í gærmorgun og var þá gott veður. Nokkru síðar hvessti skyndilega og gerði byl og sneru þá tveir bátarnir aftur. Einn báturinn hélt áfram og komst í netin og mun hafa tafist við það og lent í versta bylnum. ... Voru sex menn á honum.

Morgunblaðið lofar fegurð á fjöllum og skíðamennsku þann 24. mars:

Skíðafærið er enn eins gott og hugsast getur hjá Kolviðarhóli og þar í grennd, Veturinn er nú senn liðinn og óvíst að fleiri tækifæri gefist til þess að skemmta sér við þessa fögru og hollu íþrótt, njóta háfjallaloftsins hreina og tæra og hrista af sér Reykjavíkurmolluna. Skyldi nú hver, sem nokkur dugur er í, og kann að standa á skíðum, taka þátt í þessari för. Hvergi í heimi er eins fallegt og á Íslandsfjöllum í marsmánuði og hvergi er loftið heilnæmara né betra, eins og rannsóknir Þjóðverja á sólargeislunum hér hafa sýnt og sannað. Menn drekka hreint og beint í sig „mátt sólar“ uppi í fjöllunum.

Morgunblaðið birtir enn stuttar fregnir af tíð þann 30.mars:

Úr Öræfum er skrifað 16. mars: Veturinn fram að hátíðum var fremur góður, en upp úr því fór að snjóa, og var harðindatíð þar til í þorralok. Með góu kom ágæt hláka og komu víðast hvar hagar í sveitinni eftir fyrstu góuvikuna. Síðan hefir verið einstök blíða og mjög stillt veður.

Austan af Síðu er skrifað 20. mars: Tíð ágæt alla góuna, og eru það mikil umskipti frá því á þorranum; þá var algerður gjafatími, á bestu útigangsjörðum, hvað þá annars staðar. Á Núpstað í Fljótshverfi var fullorðnu fé gefið stöðugt í heilan mánuð og mun það líklega einsdæmi. Þennan harðindatíma var sífelldur snjógangur og krapaveður hvað eftir annað er orsökuðu alger jarðbönn.

Ánægja var með apríltíðina, nema hret gerði í fyrstu sumarvikunni.

Lambavatn: Veðurfarið hefir verið ágætt, nema nú 24.-25. var hér mjög harður norðan garður með frosti og kafaldi.

Hraun í Fljótum: Tíðarfar má heita að hafi verið gott að undanteknum kaflanum 23.-27. Kom þá stórhríð og snjór nokkur. En hann hjaðnaði bráðlega aftur.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Frámunalegar stillingar og milt tíðarfar. Oftast samt næturfrost, en aðeins fjórir frostdagar. Slíkt tíðarfar er afarsjaldgæft á Austurlandi í aprílmánuði.

Vík í Mýrdal (Júlíus Steindórssón): Óvenju mild og góð tíð. Jörð að mestu algræn í mánaðarlokin.

Morgunblaðið birti 5.apríl fróðlega þýdda grein um hafís og ísrek í norðurhöfum:

Ísrek í norðurhöfum. Það var óvenjulega lítið síðastliðið ár. Síðastliðið ár var ísrekið í norðurhöfunum miklu minna en í meðalári, en svipað nokkuð næstu árum á undan. Einnig virðist svo sem suðlægir straumar hafi flutt meira af hlýjum sjó norður á við en venja er til, því að mælingar leiddu í ljós, að höfin voru um það bil 2 gráðum heitari þar norður frá en undanfarið. Hefir því orðið minna um ísinn en áður. Skipin, sem fóru í rannsóknarferðir austur með Síberíu, til Ob og Jenissej, komust óhindrað gegn um Karahafið og þegar þau komu aftur í septembermánuði var alveg íslaust á þeim slóðum, og í norðurhluta Barentshafsins var ísinn svo dreifður, að skip komust til Franz Jósefs lands. Því fer fjarri, að hægt sé að komast til þessara eyja á hverju ári. Var rekísinn aðeins 1 fet á þykt, en árið 1908, sem er með minnstu ísárum, var hann 3 fet. Við Spitzbergen var svo hlýtt í fyrra, að öll vesturströndin lá fyrir íslausu hafi í ágústmánuði. Í Grænlandshafi voru ísmörkin miklu vestar, en venja er til og í aprílmánuði sáust brot á ísnum hjá Angmagsalik, en það er tveim mánuðum fyrr en vant er að vera. í ágústmánuði var ísinn dreifður um Scoresbysund og um miðjan mánuð var íslaust við Angmagsalik og hélst svo þangað til í desember.

Við Ísland sást enginn ís, og þar hafa menn næstum gleymt, hvernig heimskautaísinn lítur út. Líkt er að segja um Newfoundlandsfiskimiðin. Í júlí sáust einstaka ísjakar á stangli og allt fram í febrúar þ.á. hefir enginn ís komið þangað. Í Davissundi kom ísinn mánuði síðar en í meðalári og yfirleitt var ísinn þar minni en vant er og skammærri, því að í ágúst var orðið íslaust. Í Baffinsflóa gengu skip í íslausu hafi allt til Etah og Cornwallislands, gegn um Lancastersund, en þar fyrir norðan tók við ís mikill. Skip, sem komu frá Alaska, náðu til Cambridgeflóans og var þannig tiltölulega lítill hluti, um 460 sjómílur, af norðvesturleiðinni sem ekki var farinn sumarið 1927. Fyrir norðan Beringshaf unnu rússnesk skip að rannsóknum við góða aðstöðu á líkan hátt og annarstaðar. Þau komust næstum því alla leið norður að Haraldseyjum og Wrangellslandi í auðum sjó og eitt skip komst frá Beringssundi með allri strönd Síberíu alt til ósanna á Lenafljótinu.

Um sumarið 1927 má því segja líkt og um 4 undanfarin sumur, að ísinn í norðurhöfunum hefir verið mjög með minna móti að undanteknum einstökum stöðum, svo sem norðausturhluta Spitzbergen og norðurströnd Alaska, þar sem mikill ís og þykkur lá skammt undan landi. En hvergi er getið um mikið ísrek. Það kynni einhver að spyrja, hvort heimskautaísinn, sem í þessum góðu árum verður kyrr að mestu leyti, verði ekki stöðugt þykkari og þykkari. En ísmyndunin heldur ekki þannig stanslaust áfram. Þegar ísinn er orðinn margra metra þykkur, verður hann frekari ísmyndun til hindrunar. Ísinn er slæmur hitaleiðari og þegar hann er búinn að uá vissri þykkt, kemst jafnvægi á milli kuldans að ofan og hlýjunnar úr sjónum að neðan. Ísinn getur því orðið ævagamall, þó að þykkt hans sé aldrei fram úr hófi mikil. (Þýtt úr Berlingske Tidends.)

Morgunblaðið birti enn skíðafréttir 8.apríl:

Skíðafarir. Á föstudaginn langa [6.apríl] fór um 40 manns í skíðaför upp á Hellisheiði. Var skíðafærið ágætt, hafði nýlega bætt fetþykkum snjó ofan á vetrarsnjóinn. Var því mjúkt undir fæti.

Morgunblaðið segir frá 27. apríl:

Akranesi 26. apríl FB. Heldur slæmar gæftir undanfarið, vegna storma. Stóru bátarnir hafa þó verið á sjó og aflað vel.

Borgarnesi 26. apríl. F.B.
Tíðarfar hefir verið gott undanfarið, en þó gerði kuldakast á þriðjudaginn var [24.]. Menn eru nú sumstaðar farnir að plægja garða og undirbúa kartöflusáningu.

Aðeins varð vart við ís við Vestfirði í maí. Veðráttan greinir þannig frá:

Þ. 8. maí er fyrst getið um is á Halanum. Þ. 18. er talsverður ís frá Ísafjarðardjúpi austur fyrir Horn, ístangi 4 mílur undan Straumanesi, og allmikill ís í Reykjarfjarðarál. Þ.19. er orðið íslaust við Ísafjarðardjúp og Straumnes, en ísinn kominn allur austur fyrir Horn, og liggur óslitin breiða norður af Húnaflóa. Landmegin er auður sjór. Þennan dag sést ísinn frá Grænhól, en er horfinn aftur þ. 22. Þ. 27. sást ísbreiða úti fyrir Norðurlandi, en er horfin vesturúr daginn eftir. 

Maí hlaut aðallega góða dóma, en takið þó eftir muninum á tíðarmati í Papey og á Stórhöfða:

Suðureyri: Frábærlega þurrt, stillt og hlýtt. Hagstætt til lands og sjávar.

Grænhóll (Níels Jónsson) - segir af hafís: 19. maí sást hafísspöng árdegis undan Dröngum. 20. maí hér við Sælusker (Selsker) og austur þar. Fáir jakar landfastir á Reykjanesi og Rifskerjum á Gjögri. 21. Hafísspöngin komin djúpt austur í flóa að sjá héðan um Spákonufell og allir landföstu jakarnir horfnir. 22. maí. Sást enginn ís og aldrei síðan til maíloka.

Hraun í Fljótum: Tíðarfarið hefir verið fremur gott, jafnvel þótt kalt hefir verið flestar nætur og gróðurlítið. Að gróðurleysinu hefur stutt óvanalega litlar úrkomur.

Fagridalur: Fremur óstillt, kalt og þurrt. Þó stöku hitadagar, gróður seinn af þurri jörð.

Papey: Einhver sá besti maí sem ég man eftir, oft blíð veður á sjó og landi, jörð algræn í lok mánaðar.

Stórhöfði: Jörð farið illa fram sökum þurrka og næðinga.

Morgunblaðið 3.maí:

Seyðisfirði 30. apríl. F.B. Sumarveðrátta. Jörð grænkar óðum.

Morgunblaðið 12.maí:

Borgarnesi 11.maí FB Einmunatíð og almenn velmegun. Heilsufar gott. Heybirgðir miklar.

Morgunblaðið 16.maí:

Þjórsá, 15. maí. F.B. Einmunatíð í allan vetur. — Skepnuhöld góð og voru heybirgðir bænda yfirleitt miklar í vetrarlokin. Nógur gróður er kominn fyrir sauðfé, má segja, að gróður sé hátt upp undir mánuð á undan venjulegum tíma.

Júní var mjög kaldur og óhagstæður gróðri:

Hvanneyri: Veðráttan óvenjuköld og þurrviðrasöm. Fraus nokkrar nætur fyrri part mánaðarins, svo að sumstaðar urðu skemmdir á kartöflugrasi. Vegna þessara kulda og þurrka spratt þurrlend jörð illa og sumstaðar brann af harðlendum túnum.

Lambavatn: Það hefir verið þurrt og kalt nú seinni hluta mánaðarins hefur mátt heita óslitin norðan kuldanæðingur og hefir mikill kyrkingur komið í allan gróður einkum á þurrlendi. Tún greru mjög snemma svo víða var farið að slá sléttur á túnum kringum 20. júní og sumstaðar fyrr og er það mjög sjaldgæft hér að spretti svo snemma.

Þórustaðir [Hólmgeir Jensson]: 23. Gras fölnar vegna þurrka á daginn og kulda á nóttum.

Hraun í Fljótum: Mánuður þessi hefir yfirleitt verið þurr og kaldur; oftast næturfrost. Grasvöxtur mjög hægur og útlit með grassprettu slæmt.

Raufarhöfn: Þ.7. Jörð gránaði á 9. tímanum í kvöld.

Fagurhólsmýri: Veðráttan hefir verið góð og hagstæð allan mánuðinn og lítið rignt.

Vík í Mýrdal: Köld tíð. Í öndverðum mánuðinum leit vel út með grasvöxt, en jörð fór tiltölulega illa fram í mánuðinum. Grasmaðkur gerði tjón, einkum austan Mýrdalssands.

Slide6

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik (litir) í júní 1928. Köld norðlæg átt er ríkjandi. Óvenjusólríkt var um landið sunnanvert og þurrt um mestallt land.  

Morgunblaðið segir frá 6.júní:

F.B. í maí. Vík í Mýrdal: Tíðarfar einmuna gott frá góubylnum. Þ. 19.—21. febr. rigndi hér stöðugt og tók upp allan snjó, nema í fannstæðum. Síðan var mikið til auð jörð og frostlaust til 24. apríl. Þá gerði lítils háttar frost í 2—3 nætur, en þó ekki neitt til muna. Jörð var orðin óvenjulega gróin með sumri og í annarri viku sumars var víða farið að láta út kýr. Með maí gerði allmikla þurrka og vestan næðinga, svo gróðri hefir lítið farið fram upp á síðkastið. 28. maí. Tíðin hálfköld og stormasöm undanfarna daga og talsvert frost á nóttum. Vöruskip kom til Víkur í síðastliðinni viku og náðist nokkuð af vörum úr því 24. og 25. þ.m. Þó er mikið eftir í því enn, sem ekki hefir náðst vegna brims og storma.

Morgunblaðið segir þurrkafréttir 10.júní:

Tíðarfar ágætt undanfarið, en menn kvarta almennt undan of miklum þurrkum. Útlit með sprettu er þó ágætt á túnum og valllendi, miður á mýrum. Yfirleitt má telja að kominn sé Jónsmessugróður.

Skálholti, FB 8. júní. Blíðviðri, sólskin og þurrkar undanfarið. Spretta góð, en framfarir heldur litlar vegna þurrka.

Mjög víða var talsvert næturfrost 11. til 12. júní, þar á meðal -3,3 stig á Hvanneyri. Morgunblaðið segir frá 13.júní:

Borgarnesi 12. júní. F.B. Svalviðri undanfarið, sólskin og þurrkar. Í morgun hafði verið hvítt af hélu í Þverárhlíð og í gærmorgun var sumstaðar frosið á pollum. Grasi fer lítið fram þessa dagana vegna þurrka og kulda.

Skúra varð sums staðar vart, Morgunblaðið 21.júní:

Borgarnesi 20. júní F.B. Talsverð úrkoma í gær eftir langvarandi þurrka og svalviðri. Hlýtt og gott veður í dag. Grasvöxtur hefir beðið stórkostlegan hnekki undanfarið vegna þurrka. Hefir sumstaðar brennt af túnum og skemmst í kartöflugörðum.

Stykkishólmi 20.júní FB Engin úrkoma hér um slóðir í meir en hálfan mánuð og vætti lítið. Hér hafa verið svalviðri í vor, yfirleitt stormasamt og ókyrr veðrátta.

Morgunblaðið segir enn af þurrkum 23.júní:

Ásgarði. FB 22. júní Undanfarið miklir þurrkar og fer gróðri ekkert fram. Sífellt norðankaldi. Sumstaðar farið að brenna af túnum. Engin úrkoma í meir en þrjár vikur, aðeins dropar í fyrrakvöld, ekki svo að vætti á steinum. Lítur afar illa út með grassprettu ef ekki koma úrkomur. Sumstaðar hafði rignt í suðurdölum, gengið á með skúrum, en einnig þar víða ekki komið dropi úr lofti lengi.

Morgunblaðið 1. júlí:

Akranesi, FB. 30. júní. Norðanstormar, sífeldir þurrkar að undanförnu. Víðast búið að
hirða af túnum hér.

Þegar upp var staðið var júlí góður víðast hvar, en spretta lítil:

Hvanneyri: Oftast votviðri fram til 25. en úrkoma þó lítil. Eftir 25. mjög góður þurrkur.

Suðureyri: Mjög þurrt. Vel hlýtt, bjart og stillt. Vindasamt til hafsins. Mjög hagstætt til heyskapar. Töðunýting ágæt.

Blönduós: Mjög kalt fyrri part mánaðarins. Annars fremur góð tíð. Nýting á töðu ágæt. Grasspretta slæm.

Fagridalur: Þurr og köld tíðin, þó engin stórviðri. Gras og garðavöxtur afar lélegur.

Fagurhólsmýri: Þ.8. (athugasemd): Mest magn í mæli á 24 stundum síðan regnmælir kom (104,7 mm).

Slide7

Mjög djúp lægð (eftir árstíma) kom að landinu 7. og 8. Þrýstingur fór niður í 975,9 hPa á Akureyri þann 8. Þetta er sjöttilægsti júlíþrýstingur sem vitað er um hér á landi. Gríðarleg úrkoma var daginn áður og um nóttina á landinu sunnanverðu. Mældist yfir 100 mm á Fagurhólsmýri og í Hveradölum. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa að kvöldi þess 7. Mikil háloftalægð nálgast þá landið. Ekki fréttist af tjóni í þessu veðri.  

Morgunblaðið segir frá 5.júlí:

Seyðisfirði, FB 4. júlí Norðanátt ríkjandi. Köld veðrátta. Stórrigning í tvo sólarhringa fyrir helgina.

Morgunblaðið segir fréttir af góðri tíð 19.júlí:

Úr Skaftafellssýslu. Tíðarfar, samgöngumál. Tíðin hefir verið ágæt hér í vor, einmuna þurrkatíð og fénaðarhöld því ágæt. Grasspretta er ekki vel góð, því valda þurrkarnir, en þó verður almennt farið að slá. Vötnin hafa verið sem sagt þurr, enda hafa bílar gengið vikulega frá Seljalandi til Víkur, og má það heita mikil samgöngubót fyrir okkur Mýrdælinga.

Morgunblaðið birti þann 1.ágúst fréttir af gróðureldi, sem blaðið kallar hér „heiðareld“ - heldur sjaldséð orð, en var einnig notað i annarri frétt síðar í mánuðinum:

Heiðareldur. Í gær var beðið um aðstoð slökkviliðsins til þess að slökkva heiðareld hjá gömlu Lækjabotnum. Hafði af einhverjum ástæðum kviknað eldur í hraun mosa, rétt fyrir vestan Selfjallsskálann og vegna þess að mosinn var næfurþurr og vindur stóð af eldsvæðinu á skálann, óttaðist eigandi að eldurinn muni ná skálanum. — Þegar slökkviliðsmennirnir komu þangað uppeftir, hafði þó tekist að kæfa eldinn að mestu og vindátt hafði einnig breytt sér svo að eldinn lagði frá skálanum. Um sama leyti gerði líka skúr og er búist við að hún og aðgerðir manna hafi kæft eldinn að fullu. — Menn eiga að muna eftir að fara varlega með eld á víðavangi, helst þar sem mikið er um lyng, mosa og sinu, þegar langvarandi þurrkar og hitar hafa gengið. — Ógætni manna í þeim efnum hefir oft valdið stórtjóni erlendis og getur víða valdið talsverðu tjóni hér á landi, eins og dæmi sanna (t. d. þegar Goðaskógur brann). [Ölkofra þáttur].

Tíð var mjög hagstæð í ágúst.

Hvanneyri: Óvenju úrkomulítið og framúrskarandi góð veðrátta.

Suðureyri: Óminnilega þurr ágúst, frábærlega hlýr og stilltur. Of þurrt við slátt. Hagstæður til lands, miður til sjávar.

Fagridalur: Ágætis tíð, engin stórveður. Hagstætt til lands og sjávar, en grasspretta yfirleitt rýr.

Papey: Stuttir þurrkar, oft þokuskýjað loft. Hey þó ekki hrakist til muna að þessu, fremur góðar sjógæftir.

Vík í Mýrdal: Góð heyskapartíð. Hey nást óhrakin og fjúka hvergi. Grasvöxtur í meðallagi á valllendi, en laklegur á mýrum. Matjurtir þrífast vel, því sjaldan er hvassviðri.

Hrepphólar: Óvenjulega lítill snjór í Heklu í sumar.

Morgunblaðið birtir fréttir af góðviðri og berjatínslu 14.ágúst:

Fátt var um manninn í hænum á sunnudaginn [12.]. Notaði fólkið góða veðrið til ferðalaga suður á Reykjanes, austur í Fljótshlíð, í Þrastaskóg, til Þingvalla, upp á Kjalarnes, upp í Hvalfjörð og um allar trissur hér nærlendis á berjamó. Er nú óvenjulega mikið af berjum, krækiber og bláber hvarvetna þar sem lyng vex.

Morgunblaðið 19.ágúst:

Holti undir Eyjafjöllum, FB. 18. ágúst 1928. Heyskapur, afli og uppskera. Heyskapur hefir gengið afbragðsvel fram að þessu. Engin heyfok, ágæt nýting. Allir búnir að hirða af túnum. Kartöfluuppskera í besta lagi. Eru menn almennt farnir að nota sér kartöflur til neyslu.

Heiðarbruni. Tveir drengir vestur í Arnarfirði kveiktu nýlega af rælni í sinu eða kjarri þar inni í dal. Varð af bál, og magnaðist svo, að menn áttu fullt í fangi með að slökkva það og voru að því í tvo daga. Var þá stórt svæði komið í auðn. Er þetta mönnum viðvörun um að fara varlega með eld úti á víðavangi, þegar miklir þurrkar hafa gengið.

Norðlingur segir af góðri tíð 4.september:

Heyskapur hefir gengið óvenjulega vel í sumar hvað nýtingu snertir, en heyfengur mun verða allstaðar nokkru minni en síðastliðin sumur, sumstaðar munar allt að fjórða hluta. En þess er að gæta, að síðastliðið ár fengust óvenjulega mikil hey.

Vel fór með veður í september, en helst kvartað syðst á landinu:

Hvanneyri: Veðrátta framúrskarandi góð. Fremur úrkomusamt, en aldrei stórfellt rigning. Óvenjuhlýtt og fraus aðeins þrjár nætur allan mánuðinn.

Suðureyri: Fremur stillt. Lítil úrkoma. Vel hlýtt. Hagstætt til lands, miður til sjávar.

Grænhóll (Níels Jónsson): Heyskapartíð alveg óminnilega góð í sumar.

Fagridalur: Sérlega góð tíð, bæði til lands og sjávar.

Vík í Mýrdal: Óstöðugt og rosasamt tíðarfar fram yfir miðjan mánuðinn.

Sámsstaðir: Tíðarfarið mjög óhagstætt fyrir allan fyrri hluta mánaðarins. Miklar rigningar fram að 18. en oftast þurrkur úr því.

Veðráttan segir að þann 15. september hafi bátur slitnað upp og rekið í land í landsunnanroki í Keflavík.

Mjög hagstæð tíð var lengst af í október: 

Hvanneyri: Veðráttan framúrskarandi góð og alveg sérstaklega hægviðrasamt saman borið við það sem vant er að vera á þessum tíma árs.

Húsavík (Benedikt Jónsson): Veðráttan einmunamild. Ekki frosið teljandi og aldrei fölvgað á láglendi. Brim og ókyrrð í sjó aftur meira en vindhæð virtist gefa tilefni til hérna innarlega við flóann.

Fagridalur: Ágætis tíð, þó nokkuð votviðrasamt síðari hluta. Ennþá sjást sóleyjar og fíflar í túnum hér og ýmis blóm eru að sjá nýútsprungin, t.d. blóðberg og fleiri tegundir í úthaga.

Teigarhorn. Fyrsta þessa mánaðar varð vart við öskufall.

Stórinúpur: Ómuna góðviðrasamt.

Morgunblaðið greinir 10.október frá landskjálftum í uppsveitum Borgarfjarðar. Þar var talsverð hrina haustið áður. 

Borgarnesi, FB. 8. okt Frést hefir hingað að landskjálftahræringar komi öðru hvoru í uppsveitunum, en sjaldnar en áður.

Morgunblaðið 19.október:

Úr Rauðasandshreppi. FB. í okt. Yfir vorið og sumarið ágætis tíðarfar. Þurrkar allt til ágúst loka. Haustið votviðrasamt en þó góðviðri. Grasvöxtur var í betra lagi, nema á harðlendum og sendnum túnum. Heyfengur með besta móti og nýting ágæt; óvíða látið í vothey. Uppskera úr görðum með allra mesta móti.

Morgunblaðið 1.nóvember:

Dýrafirði. 29. okt. FB. Sumarið hér vestra mátti teljast með afbrigðum gott. Heyfengur líklega í meðallagi, en nýting sérlega góð. Alauð jörð, og frekar milt veður. Er því óhætt, ef góð veðrátta helst fram á jólaföstuna, að telja árið með þeim bestu, er okkur hér hefir fallið í skaut síðustu 1—2 áratugina.

Tíð þótti góð í nóvember, en þó ekki alveg illviðralaus:

Lambavatn: Það hefir verið óvenju gott, kulda og úrkomulítið. En nokkuð vindasamt, aðallega austan og norðan næðingur. Snjó hefir ekki komið nema einu sinni og stóð hann ekki yfir nema 2 daga.

Húsavík: Mild veðurátt en nokkuð hvikul.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðin góð. Nokkuð votviðrasöm. Snjór enginn teljandi, aðeins gránaði í rót. Má því teljast hagstæð tíð.

Stórinúpur (Ólafur V. Briem): Góðviðrasamt, snjólaust. Norðurljós tíð.

Morgunblaðið segir 13.nóvember af enn einu togarastrandi:

Vík í Mýrdal í gær. Ofsaveður var í Mýrdal á sunnudaginn var [11.]. Í veðrinu strandaði enskur togari, Solon frá Grimsby, á Mýrdalssandi, en hvar vita menn ekki með vissu ennþá. Sennilegt er að skipið hafi strandað nálægt Álftaveri á sunnudagsmorgun. Voru tólf skipverjar á togaranum, og björguðust. þeir allir á land. En á leiðinni til byggða dó einn maðurinn úr vosbúð og kulda. [nánari fréttir af hrakningunum í blaðinu 14.nóvember].

Norðlingur segir 17.nóvember af tjóni í hvassviðri á Vestfjörðum:

Í landaustan stórviðri því, er gerði um síðustu helgi [10. til 11.], sleit bát upp á legunni á Þingeyri og rak hann á land og brotnaði í spón. Þá sleit bát upp af legunni á Súgandafirði, og hefir hann ekki sést síðan. Ætla menn, að hann hafi rekið til hafs. Hann hét »Mars« og bíður eigandi hans um 20 þús. kr. tjón.

Vísir segir 18.nóvember almennar fréttir af tíð og heyskap fyrir norðan:

Úr Suður-Þingeyjarsýslu. Einmunatíð má kalla að hafi verið síðan í júlíbyrjun í sumar. Í júnímánuði var mjög köld tíð en úrkomulítil hér nyrðra. Voru þá frost svo að segja á hverri nóttu um tíma og oft svo mikil, að jörð var gaddfrosin á morgnana. Í júlíbyrjun hlýnaði aftur og þurrkarnir héldust svo að segja sumarið úf, því þó að kæmi dagur og dagur með úrkomu, þá stóð það varla nokkurntíma nema dægur í einu. Haustið hefir líka verið mjög gott og úrkomulítið og þíð jörð allt fram um veturnætur. Vegna þurrkanna og kuldanna í sumar spratt öll jörð seint og illa. Best spratt þó áveituengi, þar sem það var, og var stór munur á því og öðru engi. Tún spruttu öll mikið ver en vant er, og fengu bændur 1/4—1/3 minna af þeim en árin á undan. — En þó að sprettá væri svo rýr, þá varð heyskapur manna þó tiltölulega meiri en við mátti búast. Gerði tíðarfarið það að verkum, því að allt hey nýttist miklu betur vegna þurrkanna. Einnig mátti heyja viða i flóum og mýrum, þar sem lítið hafði verið hægt að heyja áður vegna bleytu, en nú var það allt þurrt. Uppskera úr kartöflugörðum varð með minna móti, en þó nokkuð misjöfn eftir staðháttum.

Morgunblaðið segir 22.nóvember enn af vandræðum togara:

Í ofveðrinu, sem geisað hefir undanfarna daga, hafa togararnir legið inni á Vestfjörðum, margir á Önundarfirði. Í gærmorgun barst H.P. Duus skeyti frá skipstjóranum á „Ólafi“ og var það svohljóðandi: „Ólafur tók niðri á mölinni á Flateyri í fyrri nótt í blindbyl, og stóð í 6 klukkutíma. Hannes ráðherra dró okkur út. Ég álít skipið mjög lítið skemmt, lítilsháttar leki með stefnisrörinu.“

Íslendingur segir 23. nóvember af símabilunum í illviðri.

Símabilun. Meiri hluta vikunnar hefir síminn verið bilaður á löngum kafla milli Hvalfjarðar og Reykjavikur; brotnuðu um 80 staurar, og ekkert talsamband verið við höfuðstaðinn, og ritsímasamband aðeins lítillega í gær. Í morgun aftur á móti ekkert samband.

Norðlingur segir af sama illviðri 24.nóvember:

Tvo vélbáta rak á land um fyrri helgi [17. til 18.] hér í firðinum. Annar í Hrísey, »Unni«, eign Ágústar Jónssonar á Ystabæ, en hinn »Baldur«, eign Svanbergs Einarssonar í Syðri-Haga á Ársskógsströnd. Báðir bátarnir brotnuðu mjög mikið.

Vísir segir 2.desember frá góðri tíð vestra:

Önundarfirði, í nóv. (FB). Veðrátta hefir verið svo góð hér um langt skeið að fáir muna slíkt eða betra. Sumarið var með afbrigðum sólríkt, og bjuggust menn þó við votu sumri eftir þurrt vor og kviðu hálfgert óþurrkum um heyskapartímann. Sá kvíði reyndist óþarfur, sem betur fór. Hey nýttust afbragðs vel, en vegna vorþurrkanna var spretta heldur í lakara lagi. Heyskapur mun þó víðast hvar hafa náð meðallagi, sumstaðar enda betri. Haustið hefir líka verið gott og hefir aðeins tvisvar fölvað á jörð enn sem komið er (22. nóvember) og þó lítið í bæði skiptin. Má það heita óminnilegt. Eftir sumarið var snjór i fjöllum fádæma lítill sökum snjóleysis í fyrravetur og jafnri hlýju sumarsins. Búast nú sumir við vondum vetri, en aðrir eru hinir vonbestu.

Veðráttan segir frá því að þann 20. hafi þak fokið af fjárhúsum og heyhlöðu í Vigur og þann 22. hafi aldraður maður orðið úti við Reykjavík.

Desember var einnig hagstæður, en órólegur þó framan af:

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt, en snjó- og kuldalítið. Fyrstu viku mánaðarins leit illa út með haga, þá voru umhleypingar og blotar svo allt var að verða að klaka, en síðan alltaf autt öðru hvoru.

Grænhóll: Aðfaranótt 1. desember var byljaveður mikið, urðu þá allstaðar skaðar hér nokkrir. Í Veiðileysu reif rokið hey velumbúið og var talið að 30 til 40 kinda fóður hafi farið, meira og minna skemmt af regni áður en varð tyrft. Á Reykjanesi fuku 30 hestar af heyi. Á Gíslabakka fauk alveg til grunna 30 hesta hey, vel um búið með grjóti og viðum og stór móhlaði, vel umbúinn. Rokið aðfaranótt 1. desember: Seint um kvöldið 30. nóvember kl.23:40 herti byljaveðrið í vindmagn 9, stórspildu rok, sem stóð til kl.3:30 um nóttina, þó að mestu ofsa stórviðri eftir kl.2. Úrkomulaus, sá mikið til lofts. Linaði eftir kl.3:30, ofurfljótt, örhægur kl. 4:30 til 7. Hvessti úr því sunnan og dimmdi að og í loft. Jörð mikið auð og þurr til kl. 9 árdegis. Úr því stórdropaskúrir af og til til kl.17. Skaðarnir urðu um nóttina á 12.-1.-2.- tímanum.

Húsavík: Framúrskarandi mild veðurátt og úrfellalítil. Snjór ekki teljandi.

Nefbjarnarstaðir: Snjólétt og úrkomulítið. Nokkuð frosthart 5.-10. Annars má teljast fremur milt og hagstætt tíðarfar, yfirleitt.

Norðlingur segir frá 4.desember (en nefnir ekki dagsetningu atburðarins):

Þegar Drottningin var hér síðast, lá hún við innri bryggjuna. Gerði sunnanstorm um kvöldið, og lagðist hún svo þungt í vírana, að hún braut 5 festarstólpa og rak frá bryggjunni.

Vísir segir 7.desember frá skipskaða vestra:

Ísafirði, 7. des., FB: Bátur ferst. Róðrarbátur frá Ögurvík fórst í fiskiróðri í gærdag. Drukknuðu fjórir menn, er á bátnum voru.

Vísir ræðir 8.desember um rýrar fannir í fjöllum:

Fátt ber órækara vitni um árferði, en fannir i fjöllum. Er þess því vert, að í minnum sé haft, þegar snjóalög eru meiri eða minni en að venju lætur. Nú hafa farið saman margir vetur snjóléttir og síðasta sumar eitt hið lengsta og besta, er menn muna. Hefir því fannir leyst úr fjöllum og öræfum framar venju. Til þessa má nefna, að ekki sá snjódíl úr Þingvallasveit í haust í Skjaldbreið, að sögn Jóns bónda á Brúsastöðum, skilríks manns. — Í Esju sást aðeins ein fönn úr Reykjavik, litill díll í Gunnlaugsskarði. Þá var og Skarðsheiði alauð úr Reykjavík að sjá, nema tveir örlitlir ská-dílar í giljum, líkt og fingraför. Gera má ráð fyrir, að Veðurstofan athugi þess konar vitni um veðráttufar, sem hér er getið, en engu að síður sendi ég „Vísi" þessar línur til varðveislu.

Vísir rifjar 27.desember upp tíð á Jökuldal:

Úr Jökulsárhlíð. FB. í des. Þetta ár hefir verið einmunatíð að kalla má. Veturinn frá nýári mjög góður, en vorið kalt allt til hvítasunnu og úrkomulaust. Sumarið þaðan frá mjög hagstætt og heyskapartíð með afbrigðum góð. Haustið að þessu milt, aldrei fest snjó, en rignt nokkuð. Grasspretta var mikið með verra móti, bæði á túnum og útengjum, en þó spruttu þau tún vel, sem saltpétur var borinn á með húsdýraáburðinum. Heyfengur manna var þó allgóður, sem þakka má hinni ágætu heyskapartíð.

Vísir rifjar upp árið í stuttum pistli 31.desember og lofar (maklega) góða tíð:

Þetta liðna ár mun mega telja annað hið besta og hagfelldasta íslandi á þessum áratug. Veðrátta hefir verið einhver hin albesta, í flestum héruðum, veturinn frá áramótum nær snjólaus sunnanlands, svo að bifreiðaferðir tepptust nálega aldrei yfir Hellisheiði. Sumarið sólríkt mjög, einkum á Suðurlandi, þerrar háðu grasvexti, en nýting heyja hin besta. Fannir leysti úr fjöllum og hálendi allri venju fremur. Haust hlýtt og snjólaust, svo að varla gránaði í byggðum norðanlands fram til 1. desember, og því síður syðra. Síðan hafa komið fjúk öðru hverju, en hlákur á milli, og snjó tekið að mestu jafnharðan. Einn eða tvo daga nær miðjum desembermánuði hindruðust bifreiðaferðir um Hellisheiði. Þetta ár er hið áttunda, er samfellt hefir verið hin mesta árgæska, svo að margan undrar. Má nærri því segja, að veðráttan hafi farið síbatnandi ár frá ári, eða svo finnst mörgum, hvað sem veðurvísindi kunna að segja. — En hvenær koma „harðindin næstu"?

Morgunblaðið birti 31.desember frétt af Reykjanesi. Menn greinilega að reyna fyrir sér með jarðskjálftaspár:

Geysir á Reykjanesi er ekki farinn að gjósa ennþá og er því búist við jarðskjálftum þar þá og þegar, ef að vanda lætur. Að vísu hefir að undanförnu verið miklu meiri gufuúthlaup í flestum hverum þar en venjulega, og getur það máski valdið því, að ekki verði úr jarðskjálftunum.

Veðráttan segir frá því að þann 29. hafi bæjarbryggjan í Vestmannaeyjum skemmst töluvert í sjógangi. Línuveiðari slitnaði þar upp og rak á land.

Hér lýkur að sinni upprifjun hungurdiska á veðri og tíð ársins 1928. Margvíslegar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband