Erfið vika (fyrir spálíkön - og veðurfræðinga kannski líka)?

Nú virðist veðurlagi þannig háttað að spár marga daga fram í tímann eru mjög út og suður - breytast stórlega frá einni spárunu til annarrar. Stórar lægðir birtast nánast upp úr engu eða hverfa jafnharðan út úr spám. Þetta er svosem ekki mjög óalgengt ástand - það abbast bara sjaldan upp á okkur. En þegar ekki eru nema tveir sólarhringar undir er langoftast komin meiri festa á spár (þótt óvissa sé ætíð nokkur fram á síðustu stundu).

Spálíkön hafa í allmarga daga gert ráð fyrir því að lægð kæmi að landinu á mánudaginn kemur (30. janúar). Spár bandarísku veðurstofunnar hafa lengst af gert talsvert úr henni (þó ekki alveg samfellt), en evrópureiknimiðstöðin ekki fengist til þess að taka vel undir - hún hefur að vísu verið með lægðina - en bæði grynnri og þar að auki sent hana sem skjótast austur til Færeyja - ekki valdandi verulegu illviðri hérlendis. 

Nú hefur orðið breyting á og reiknimiðstöðvarnar tvær orðnar meira sammála. Lægðin er að komast inn á kortið - hún er nú í kringum 1020 hPa í miðju, suður á 40. breiddargráðu, suðsuðaustur af Nýfundnalandi - hreyfist mjög hratt til norðausturs þannig að hún á að vera hér skammt fyrir suðvestan land síðdegis á mánudag - eftir tveggja sólarhringa siglingu og óðadýpkun - um 60 hPa. 

Lægðin á hins vegar að staðnæmast um stund fyrir suðvestan land - það er því allsendis óvíst hversu vont veður fylgir henni hér. Satt best að segja óþægilega óljóst. Sem stendur er Veðurstofan með gular viðvaranir um landið sunnanvert undir kvöld á mánudag - og líklegt er að þær haldist - ekki er ólíklegt að þær verði eitthvað þyngdar þegar nær dregur. Þeir sem eitthvað eiga undir veðri ættu því að fylgjast vel með spám, bæði frá Veðurstofunni og öðrum til þess bærum aðilum (sem hungurdiskar eru ekki). 

Spár fyrir afgang vikunnar eru satt best að segja talsvert út og suður. Reiknimiðstöðvar virðast þó sammála um að lægðin djúpa fari austur um Færeyjar þrátt fyrir allt - kannski hafa þá allir haft rétt fyrir sér á einhvern hátt. 

Hér að neðan er erfiður pistill um óðadýpkunina sjálfa - hvernig sjá má hana á korti sem sýnir samspil raka í neðri lögum lofthjúpsins og veðrahvarfanna. Ekki fyrir alla - en 

w-blogg280123a

Við höfum stöku sinnum brugðið upp korti sem þessu hér á hungurdiskum. Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting á Norður-Atlantshafi annað kvöld (sunnudag 29. janúar kl.24). Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Litafletirnir segja frá því sem kallað er stöðugleikastuðull. Hann reiknast hér sem mismunur á mættishita í veðrahvörfum og jafngildismættishita í 850 hPa-fletinum. [Þetta síðasta hljómar eins og sunnudagskrossgáta Morgunblaðsins - auðráðið fyrir innvígða, en illskiljanlegt flestum öðrum). 

Rauða svæðið suðaustan og austan við lægðarmiðjuna suðvestur í hafi sýnir hvar mjög rakt loft af suðrænum uppruna er á ferð (hár jafngildismættishiti í 850 hPa). Rauða og brúna svæðið fyrir vestan kerfið sýnir mjög lág veðrahvörf (mættishiti í þeim er lágur). Þessi lágu veðrahvörf nálagst raka loftið við lægðina eins og veggur - þegar þessi tvö rauðu svæði snertast (í námunda við hringinn sem markaður er á kortið) fer lægðarmiðjan í óðadýpkun - gríðarlegt magn raka þéttist (og veðrahvörfin dragast niður úr öllu valdi. Hlýr kjarni verður til í lægðarmiðju. Fleira skemmtilegt kemur líka við sögu - en látum að eiga sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 119
  • Sl. sólarhring: 149
  • Sl. viku: 954
  • Frá upphafi: 2420769

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 842
  • Gestir í dag: 105
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband