Fimmtíu ár frá upphafi eldgossins á Heimaey

Eins og fram hefur komið í flestum fjölmiðlum eru nú 50 ár liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey. Ritstjóri hungurdiska var þá staddur í Noregi og fylgdist því með athurðum úr talverðri fjarlægð - og því hvernig fréttir gátu brenglast á ekki lengri leið. Þegar þessir atburðir eru rifjaðir upp er þess jafnan getið að floti eyjamanna hafi verið í höfn vegna illviðris daginn áður, en þegar gosið hófst hafi verið besta veður. Þetta var afskaplega heppilegt svo ekki sé meira sagt. Þó flestir viti þetta skulum við samt rifja veðrið upp í mjög stuttu máli. 

Janúarmánuður var sérlega hlýr, en nokkuð umhleypingasamur. Tímaritið Veðráttan segir um mánuðinn:

Tíðarfarið var óvenju milt og var talið hagstætt víðast hvar. Sunnanlands var þó votviðrasamt og umhleypingasamt og gæftir slæmar. Jörð var oft auð og jafnvel klakalaus og hagar víðast góðir. Færð var yfirleitt góð.

Um veðrið þann 22. og 23. segir sama heimild:

Aðfaranótt þ. 22. fór að hvessa á suðaustan og austan, en þá var djúp lægð fyrir suðvestan land. Varð stormur við suðvesturströndina um morguninn þ. 22. og víða hvasst og rigning síðari hlutann. Vindur snerist þá til suðurs og suðvesturs, og lægði jafnframt. Þ. 23. var fyrst hægviðri, en síðari hluta dags fór lægð norðaustur fyrir sunnan land, og vindur varð norðlægur og norðvestlægur með úrkomu, er á daginn leið.

Kortið hér að neðan sýnir endurgreiningu japönsku veðurstofunnar og gildir um hádegi mánudaginn 22. janúar.

Slide1

Lægðarmiðjan er um 947 hPa djúp í miðju og situr rétt austan við Hvarf á Grænlandi. Á undan henni fer mikill vindstrengur - tengdur samskilum sem berast hratt til norðausturs í átt til landsins. Suðvestur í hafi er síðan önnur lægð á hraðri leið til norðausturs - ábyggilega áhyggjuefni veðurfræðinga þennan dag. En hún fór síðan rétt fyrir austan land.

Slide2

Næsta mynd sýnir bút úr veðurskeytum frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum á þriggja klukkustunda fresti þessa tvo daga. Við sjáum að frostlaust er allan tímann, og hiti sveiflast reyndar ekki svo mjög, ívið hlýrra á undan skilunum - og rétt á eftir þeim - heldur en síðar. Vindur er fyrst af suðaustri, síðan austsuðaustri var 33,5 m/s á hádegi (12 vindstig) og 31,4 m/s  (11 vindstig) kl.15 síðdegis. Slydduél var fyrst um morguninn, en síðan rigning. Veður var ekki sérlega slæmt daginn áður (sunnudagur) og veit ritstjóri hungurdiska ekki hvort skipstjórar héldu í land vegna veðurs - eða veðurspár - en skip voru í höfn hina örlagaríku nótt. Kannski einhver geti upplýst það?

En klukkan 18 höfðu skilin gengið yfir. Loftvog hafði stigið snögglega í kjölfar þeirra (um 6,3 hPa á 3 klst), vindur hafði gengið mikið niður, var 13,9 m/s kl.18, eða 7 vindstig (sem þykir reyndar talsvert á stundum í Reykjavík) og áttin snúist í suðsuðvestur. Úrkomulaust var á athugunarstað - en úrkoma í grennd. Þegar kom fram undir miðnætti lægði enn og þá var vindur kominn niður í 6,2 m/s (4 vindstig) og kl. 3 um nóttina var vindur aðeins 2,1 m/s (1 vindstig). Síðan jókst vindur heldur að nýju, en varð aldrei mikill allan fyrsta gosdaginn. Um hádegið gerði slyddu. Þar fór vestasti hluti úrkomubakka lægðarinnar nýju. 

Slide3

Hér má sjá endurgreininguna fyrir miðnætti - rétt áður en gosið hófst. Skilin voru þá komin langleiðina yfir landið, en nýja lægðin í töluverðum vexti suður í hafi - en hún fór hjá án mikilla áhrifa eins og áður sagði. 

Slide4

Góðviðrið um nóttina náði til landsins alls að kalla mátti. Kortið sýnir stöðuna kl. 3. Hvergi blæs nema á Hornbjargsvita. Takið eftir því hversu fáar veðurstöðvarnar eru miðað við það sem nú er - en á móti kemur að upplýsingar eru um bæði veður og skyggni - sem aðeins sárafáar sjálfvirkar stöðvar ráða við. 

Björgunaraðgerðir hefðu verið mun erfiðari í illviðri (eins og oft hefur verið bent á). Ritstjóri hungurdiska óskar Eyjamönnum alls hins besta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 38
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 2485
  • Frá upphafi: 2434595

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 2207
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband