Kaldur mörsugur

Mörsugur er þriðji vetrarmánuður íslenska misseristímatalsins. Að þessu sinni hófst hann 21. desember og honum lauk á fimmtudaginn var, 19. janúar. Hann var óvenjukaldur að þessu sinni. Við getum reiknað meðalhita hans rétt eins og hinna hefðbundnu almanaksmánaða, en til þess að geta gert það þurfum við að eiga meðalhita hvers dags. Hann er ekki á (tölvu-)lager fyrir allar stöðvar nema til 1949. Á Akureyri getum við farið aftur til 1936, í Reykjavík aftur til 1871, en slæðing af dögum vantar þar. Lengst er hitadægurröðin í Stykkishólmi, hún nær aftur til 1846, mörsugur 1846 til 1847 er sá fyrsti sem við eigum meðaltal fyrir. Átta daga vantar í hitamælingar í Hólminum á mörsugi 1919-1920 - fyrir áramótin. 

Við lítum nú á línurit sem sýnir mörsugsmeðalhitann í Stykkishólmi. Ártalið er sett á síðari hluta mánaðarins - mánuðurinn nær alltaf yfir áramótin. Þar sem stendur 2023 á við mörsug 2022 til 2023.

w-blogg220123

Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita, en sá lárétti ár (aftur til 1847). Við sjáum ekki sérlega mikla tímabilaskiptingu, þó mjakast hiti hægt upp á við, leitni reiknast +0,8 stig á öld. Undanfarin ár hefur breytileiki milli ára verið talsvert minni en var áður - þar til nú að hinn kaldi mörsugur sem nú er nýliðinn sker sig mjög úr. Við þurfum að fara aftur til ársins 1984 til að finna eitthvað ámóta. Þá stóð yfir um 10 ára tímabil mjög kaldra mörsuga - sker sig reyndar úr á öllu tímabilinu sem við horfum hér á. Á hlýindaskeiðinu 1925 til 1964 komu fáeinir ámóta kaldir mörsugar og nú, nefnum hér 1959 og 1936. Það er mörsugur 1918 (1917 til 18) sem var langkaldastur á öllu tímabilinu, 1874 og 1881 eru þó í svipuðum flokki. 

Mjög hlýir mörsugir sýnast heldur færri hin síðari ár en var á fyrra hlýskeiði. Hlýjastur var mörsugur 1928 til 1929 og ámóta hlýr 1846 til 1847, þá var líka mælt í Reykjavík og staðfesta þær mælingar hlýindin. 

Eins og fram hefur komið í fréttapistli Veðurstofunnar hafa sólskinsstundir aldrei mælst jafnmargar eða fleiri í Reykjavík heldur en í nýliðnum desember. Það er því fróðlegt að líta einnig á skýjahuluna. Hún var að meðaltali ekki nema 3,6 áttunduhlutar. Þetta er lægsta tala sem við vitum um í Reykjavík í desember. Við þurfum að fara allt aftur til mars 1962 til að finna jafnlága tölu í nokkrum mánuði, þá var meðalskýjahula einnig 3,6 áttunduhlutar. Sama var í febrúar 1955. Árið 1949 varð rof í skýjaathugunarháttum á landinu, en samanburður sýnir þó að skýjahula hefur nær áreiðanlega verið ámóta lítil í Reykjavík í febrúar og mars 1947 og var í desember nú, sömuleiðis í febrúar 1936. En þetta er alla vega mjög óvenjulegt ástand - bæði hitafar og skýjahula. Heiðríkjan ýtti undir það að tiltölulega kaldara hefur verið á Suðvesturlandi heldur en í öðrum landshlutum - vik hafa verið meiri. Þannig var einmitt staðan í hinum bjarta febrúar 1947 og nefndur var hér að ofan. 

Taka skal fram að ritstjórinn er alls ekki viss um að við hæfi sé að nota fleirtölumyndir á íslensku mánaðanöfnin - þær eru að jafnaði ekki notaðar á hin hefðbundnu almanaksmánaðanöfn. Rétt að biðjast afsökunar á þessum subbuskap. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 78
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 1504
  • Frá upphafi: 2407509

Annað

  • Innlit í dag: 62
  • Innlit sl. viku: 1335
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband