Meira af desember

Eins og fram er komið í yfirliti Veðurstofunnar var desember 2022 sá kaldasti í byggðum landsins frá 1973 að telja og sá kaldasti frá 1916 í Reykjavík. Munur á Reykjavíkurhitanum nú og 1916 er ómarktækur. Við þykjumst vita af nokkrum eldri mánuðum enn kaldari. Þrýstifar var óvenjulegt í mánuðinum, gríðarmikil og þaulsetin hæð var við landið og síðar yfir Grænlandi. Meðalþrýstingur mánaðarins varð lítillega hærri í desember 2010, en síðan þarf að leita aftur til 1878 til að finna eitthvað ámóta eða hærra. Við getum kennt óvenjuþrálátri háloftanorðanátt um kuldann. Á tímabili áreiðanlegra háloftaathugana (frá 1949) virðist hún aðeins einu sinni hafa verið ámóta sterk í desember og nú. Það var 2010, en þá nutum við meira skjóls af Grænlandi heldur en nú - (niðurstreymis austan jökuls og tíðari vinda af Grænlandshafi). Endurgreiningar þykjast líka sjá svipaða stöðu og nú bæði 1880, 1925 og 1878. Veðurlag í hinum kalda desember 1973 var með nokkuð öðrum hætti. 

w-blogg030123a

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í desember 2022 og hæðarvik (kortin tvö í pistlinum gerði Bolli Pálmason). Mikill - og óvenjulegur - hæðarhryggur er yfir Grænlandi og beinir hann hingað norðlægum vindáttum. Við Vestur-Grænland er meðalhæðin nærri 260 m yfir meðallagi 1981-2010. Norðvestanátt er ríkjandi yfir Íslandi. 

w-blogg030123b

Síðara kortið sýnir einnig hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mesta þykktarvikið er við Austurland meir en -80 metrar. Þar er hiti í neðri hluta veðrahvolfs því um -4 stig neðan meðallags. Almennt er mjög gott samband á milli þykktar og hita á veðurstöðvum, en þó alls ekki fullkomið. Inn til landsins er blöndun oft léleg í neðstu lögum, sérstaklega á hægum dögum og vanmeta þykktarvik þá hitavik stöðva. 

Desember í ár var einnig óvenjuþurr, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert og alveg sérlega sólríkur (þar sem fjöll ekki skyggja á), sá langsólríkasti sem við vitum um. Vindhraði var einnig undir meðallagi (þó ekki mjög mikið). Þetta ýtir undir vanmat þykktarinnar á hitavikum. Á Vestfjörðum og við Breiðafjörð þar sem einnig var þurrt og bjart eru áhrif sjávar meiri. Í Bolungarvík og í Stykkishólmi var þannig ekki jafn kalt að tiltölu og í Reykjavík og á stöðum inn til landsins á Suður- og Vesturlandi - meira í ætt við þykktarvikin á kortinu. 

Eins og fram hefur komið var nóvember sérlega hlýr á landinu - og þrátt fyrir það varð desember jafnkaldur og raun ber vitni. Lítið samband er á milli hita samliggjandi mánaða hér á landi (nema helst í júlí og ágúst). 

En þetta er einn sárafárra kaldra mánaða hér á landi á þessari öld. Vonandi gefst ritstjóra hungurdiska færi á því síðar að sýna það á þessum vettvangi - (en hann vonar líka að aðrir verði fljótari til). 

Síðari hluti þessa pistils er ívið erfiðari. Við gerum tilraun til að reikna meðalhita mánaðarins í Stykkishólmi út frá háloftavindáttum og hæð 500 hPa-flatarins eingöngu. Vindurinn er þáttaður í vestan- og sunnanþætti. Reikningarnir sýna að því stríðari sem vestanáttin er, því kaldara er veður, því meiri sem sunnanátt er því hlýrra er (því meiri norðanátt því kaldara) og því hærri sem 500 hPa-hæðin er því hlýrra er í veðri. Myndin skýrist sé hún stækkuð.

w-blogg030123c

Reynt er að giska á hita í desember eftir háloftastöðunni allt aftur til 1921. Ákveðin samfelluvandamál eru í gögnunum, en við gleymum áhyggjum af þeim (í bili). Lárétti ásinn sýnir ágiskaðan desemberhita í Stykkishólmi, en sá lóðrétti þann mælda. Í aðalatriðum er býsna vel giskað (fylgnistuðull er um 0,8 - sem þykir gott í mörgum fræðum). Desember 2022 er meðal þeirra köldustu - um -1,3 stigum kaldari heldur en giskað er á, ásamt desember 1925 og 1974. Ágiskunin fyrir 1973 er mun síðri. Sennilega má finna ástæðu með því að líta á einstaka daga þess mánaðar. 

Sams konar rit má gera fyrir Reykjavík.

w-blogg030123d

Svipaðar myndir - nema hvað hér er 2022 á svipuðum stað og 1973 - talsvert kaldari heldur en reiknað var með - varla nokkur mánuður annar jafnlangt frá aðfallslínunni (kannski svipað og desember 1976). Eitthvað hefur því verið kuldanum sérlega hagfellt í þessum nýliðna mánuði. Sennilega er það bjartviðrið og þurrkurinn. Við lítum e.t.v. á það mál síðar (ef eitthvað kemur í ljós). 

Jú, desember 1916? Hvernig var hann? Í heimildum hungurdiska segir:

Þurrviðrasöm og lengst af góð tíð suðvestanlands, en harðari með nokkrum snjó norðaustanlands. Kalt. Bátur fórst á Breiðafirði, en ekki eru fréttir af öðrum sköðum (Goðafoss strandaði reyndar við Straumnes þann 30.nóvember). Þann 22. kvarta bæði Morgunblaðið og Suðurland um norðanstorm og kulda. Morgunblaðið segir: „Ofsastormur af norðri var hér í gær með hríð á stundum og frosti. Versta veður um land allt“. Suðurland: „Hér sífelldur norðanstormur og kuldi. 14 stiga frost í dag“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 58
  • Sl. sólarhring: 148
  • Sl. viku: 1979
  • Frá upphafi: 2412643

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 1732
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband