Ekki lát á kuldatíð

Svo virðist sem ekkert lát sé á kuldatíðinni, staðan nokkuð læst. Norðvestanátt er ríkjandi í háloftum. Með henni berst hvert kuldalægðardragið á fætur öðru yfir Grænland, en þau draga síðan á eftir sér slóða af köldu lofti langt úr norðri meðfram Norðaustur-Grænlandi og í átt til okkar. Ákveðin óvissa er í spám þegar þessi drög fara hjá. Margt kemur þar til. Grænland aflagar vindáttir í mestöllu veðrahvolfinu - en stíflar jafnframt fyrir loft beint úr vestri eða norðvestri. Síðan er „birgðastaða“ kulda við Norðaustur-Grænland nokkuð misjöfn frá degi til dags. 

Um síðustu helgi tókst lægðardragi „vel“ upp í úrkomumyndun. Það „sauð á“ kalda loftinu yfir hlýjum sjónum, það drakk í sig raka sem það síðan gat skilað sér aftur niður sem snjókoma á Suðvesturlandi. Úrstreymi í efri lögum varð til þess að uppstreymið gat náð hátt í loft og komist undan til austurs í lofti. Síðan gerðist það að lægð vestur af Bretlandseyjum var að reyna að koma hingað hlýju lofti úr austri á sama tíma (sem olli skriðuföllum og snjóflóðum í Færeyjum). Árekstur varð á milli kalda loftsins (sem þá hafði skilað megninu af úrkomunni aftur frá sér) og þess hlýja - og úr varð mikið norðaustanhvassviðri sem reif upp mestallan þann snjó sem fallið hafði, bjó til ógurlegt kóf og barði hann í skafla - alls staðar þar sem vindur var hægari en annars, t.d. á hringtorgum og við leiðara í vegköntum. Beinlínis undravert hversu mikið efnismagn er hér á hreyfingu. Hættulegar aðstæður.

Í dag (fimmtudaginn 22. desember) hefur slaknað á og morgundagurinn virðist ætla að verða svipaður. Eitthvað snjóar þó í hafáttinni á Norður- og Austurlandi. En nú er annað lægðardrag að koma úr norðri og norðvestri. 

w-blogg221222a

Kortið sýnir stöðuna á norðurhveli, eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa hana síðdegis á morgun, Þorláksmessu. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af henni ráðum við vindhraða og stefnu í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykkt, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er, því kaldara er loftið. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Þykktin yfir miðju landi er um 5100 metrar, um 120 metrum lægri en að meðallagi. Það þýðir að hiti er um 6 stigum neðan meðaltalsins. Talsvert kaldara er norðurundan - og sá kuldi sækir heldur að í kjölfar lægðardragsins - sem þarna er ekki fjarri Scoresbysundi á suðurleið. Örin bendir á lægðardragið. Þegar kalda loftið kemur yfir hlýjan sjó myndast strax éljaklakkar (svipað og skúraklakkar yfir hlýju landi síðdegis að sumarlagi). klakkarnir raða sér oft í samfellda garða - séu vindáttarbreytingar (vindsniði) með hæð hagstæðar verður uppstreymið og úrkomumyndunin auðveldari og skipulegri. Þá vex vindur sem auðveldar uppgufun. Allt þetta er háð ýmsum smáatriðum, t.d. getur kalt, grunnstætt loft yfir landinu - og fjöll þess flækst fyrir. Margar ástæðar til þess að jafnvel hin bestu veðurlíkön eiga ekki alveg létt með að benda á hvar og hvenær úrkoma fellur. 

Þegar litið er á kortið í heild má sjá að vestanáttahringrásin um norðurhvelið er talsvert trufluð. Sérstaka athygli vekur mjög hlý hæð norður af Síberíu. Hún tekur talsvert rými - og ekki getur kalda loftið verið þar á meðan. Hæðin fer að vísu minnkandi næstu daga - loftið í henni kólnar, en hún flækist samt fyrir þar til tekst að hreinsa leifarnar burt. Mjög snöggt kuldakast leggst nú suður yfir mestöll Bandaríkin - austan Klettafjalla og veldur ábyggilega miklum vandræðum. Það er víðar en hér sem flugfarþegar lenda í vanda og umferð á vegum lendir í steik - slíkt er þrátt fyrir allt nær óhjákvæmilegur hluti veðráttunnar - gerist endrum og sinnum á hverjum einasta bletti jarðarkringlunnar - þótt ýmislegt sé e.t.v. hægt að gera varðandi afleiðingarnar. 

Efnislega virðast ekki eiga að verða miklar breytingar næstu viku til tíu daga í nánd við okkur. Þeir sem leggja í ferðalög eiga auðvitað að fylgjast mjög náið með veðurspám - við skilyrði sem þessi er nákvæmni þeirra marga daga fram í tímann mjög ábótavant. Veðurstofan gerir veðurspár (en ritstjóri hungurdiska ekki). Það skapar svo aukna óvissu að ratsjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði virðist í lamasessi - og háloftaathuganir hafa ekki sést frá Keflavíkurflugvelli í meir en viku - hvort tveggja auðvitað algjörlega óviðunandi fyrir þá sem eru að berjast við að gera sem bestar og öruggastar veðurspár. - Ritstjóri hungurdiska hefði einhvern tíma orðið meiriháttarpirraður í þessari stöðu - en hann liggur nú gamall og blauður í sínu fleti og rausar út í loftið - kemur þetta víst ekki við lengur. 

En ljúkum þessu með því að líta á úrkomuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl.18 á aðfangadag jóla.

w-blogg221222b

Svo virðist nú sem háloftalægðardragið ætli að gangsetja tvær smálægðir seint á Þorláksmessu. Aðra úti af Vestfjörðum, en hina fyrir norðaustan land. Úrkomubakkar hrings sig um báðar þessar lægðir. Sú fyrir norðan hreyfist til suðvesturs í stefnu á Vestfirði, en hin til suðaustur rétt fyrir suðvestan land. Auk þessa er úrkomubakkinn sem sést á kortinu yfir Suðurlandi nokkuð sjálfstæð myndun. Hans á að byrja að gæta þar um slóðir seint annað kvöld - spurning síðan hvort lægðin suðvesturundan grípur hann upp. Úrkomuóvissa er mest í kringum þennan sjálfstæða bakka - fylgjast ber vel með honum (en ratsjárbilunin gerir að mun erfiðara). Sé þessi spá rétt verður vindur mestur á miðunum - en minni á landi. Allur er þó varinn góður í þeim efnum, því ekki þarf mikinn vind til að búa til kóf úr nýjum snjó sem fellur í miklu frosti. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafðu góðar þakkir fyrir þína fróðlegu og oft skemmtilegu pisla. Og gleðileg jól og farsælt nýtt ár.

jakob jónsson (IP-tala skráð) 22.12.2022 kl. 22:42

2 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Takk fyrir þína fróðlegu pistla Trausti. Gleðileg jól til þín og þinna.

Ragna Birgisdóttir, 23.12.2022 kl. 17:49

3 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Gleðileg jól Trausti. Takk fyrir fallegt jólaveðir á Héraði😉

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 24.12.2022 kl. 08:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 141
  • Sl. sólarhring: 356
  • Sl. viku: 1936
  • Frá upphafi: 2412956

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 1730
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband