Kuldapollur úr austri

Í dag (mánudag 21. nóvember) bárust fregnir af töluverðri snjókomu í Svíþjóð og jafnvel Danmörku líka. Slíkt er auðvitað langt í frá óvenjulegt á þessum árstíma og hafa þarlendir reyndar talað um að fyrstu austanhríðar vetrarins gætu orðið sérlega þéttar vegna þess hve sjávarhiti í Eystrasalti hefur verið óvenjuhár nú í haust - skilyrði fyrir klakkamyndun yfir sjónum verða þá með besta móti (ekki ósvipað því og hefur verið í fréttum við vötnin miklu í Bandaríkjunum). 

Snjókoman (og kuldinn) er samfara dálitlum kuldapolli sem upphaflega kom langt úr norðri - en sveigði síðan til suðvesturs og vesturs meðfram hæðinni miklu og hlýju sem hefur verið viðloðandi Skandinavíu norðanverða að undanförnu. Hæðin (eða leifar hennar) beina nú þessum kuldapolli til vesturs í átt til Íslands. Hann á reyndar að skiptast í tvennt. Annan hlutann rekur hingað aðra nótt (á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudags). Síðan heldur hann áfram hratt til vesturs fyrir sunnan land þar sem stórlægðakerfið sem þar er og verður étur hann með húð og hári. 

Nokkuð dofnar yfir kuldanum á leiðinni yfir hafið og hingað, en þó gera spár ráð fyrir því að þykktin í honum miðjum verði um 5200 metrar aðra nótt. Það er heldur lægra en verið hefur hér að undanförnu og er umhverfis kerfið (en varla samt hægt að tala um kulda í þessu sambandi). 

Lítum á tvær myndir:

w-blogg221122a

Sú fyrri sýnir stöðuna í 500 hPa seint annað kvöld (kl.24). Þá er sveipurinn ekki langt undan Suðausturlandi á leið sinni til vesturs. Hiti í miðju (í 500 hPa) er um -38 stig, um 10 stigum lægri heldur en almennt á svæðinu. Mikill norðaustanstrengur er vestan sveipsins og mun hann að einhverju leyti slá sér niður á fjöllum og nærri þeim. Við látum Veðurstofuna hins vegar alveg um slíkar spár. Reiknilíkön eru ekki sammála um úrkomu og úrkomulíkur - en auðvitað fylgjast þeir sem eitthvað eiga undir með.

w-blogg221122b

Hin myndin sýnir ákveðna, einfalda stöðugleikamælitölu. Því hærri sem hún er því óstöðugra er loftið. Hún er fengin þannig að reiknaður er munur á sjávarhita og hita í 500 hPa hæð (litakvarði). Einnig má sjá sjávarmálsþrýsting og þykktina (rauðar strikalínur). Við sjáum hér báða hluta kuldapollsins mjög greinilega sem hámörk í stöðugleikavísinum, 48 í þeim hluta sem er suðaustan við land, og svo 49 í þeim hluta sem er undan strönd Noregs. Brúnar, heildregnar línur (ekki áberandi) sýna svokallað veltimætti (CAPE) - ekki hátt hér en merkist þó. Við sjáum líka að lægðarhringrásin nær ekki til jarðar - lægðardrag er þó við Færeyjar og eltir miðju kuldapollsins - vindur nær hámarki hér á landi þegar það fer hjá, einhvern tíma undir morgunn á miðvikudaginn. 

Spyrja má hversu algengt það er að fá kuldapolla sem þessa úr austri. Vandinn er að ekki er alveg auðvelt að finna þá í gögnum. Ritstjórinn reyndi það þó og fann ekkert óskaplega marga sem eru ámóta öflugir eða öflugri. Það er því einhver ástæða fyrir nördin að njóta fyrirbrigðisins meðan það varir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg030425c
  • w-blogg030425b
  • w-blogg030425a
  • w-blogg030425i
  • w-blogg020425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 598
  • Sl. viku: 2273
  • Frá upphafi: 2458512

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2100
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband