Smávegis af september og október - og um stöðuna nú

Við lítum nú á þykktarvikakort september- og októbermánaða. (Samband hefur komist á við gagnasafn evrópureiknimiðstöðvarinnar í Bólónu á Ítalíu). Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Sömuleiðis ræðum við aðeins stöðu dagsins - (en þar er erfiður kafli sem hlaupa má yfir). 

w-blogg091122va

Vikakort septembermánaðar er harla óvenjulegt - ekkert ámóta er að finna á sama árstíma í safninu sem nær nægilega vel til síðustu 100 ára. Gríðarleg hlýindi voru yfir Suður-Grænlandi. Þar er þykktarvikið um 140 metrar þar sem mest er, jafngildir um +7 stiga jákvæðu viki. Vikið fylgir hæðarhrygg á sömu slóðum, liggur norðan og vestan í honum eins og við er að búast. Hér á landi var vikið minna, norðvestlæg átt ríkjandi í háloftum - með hæðarsveigju. Síðasta atriðið er mikilvægt, blíðuveður fylgir að jafnaði hæðarsveigju norðvestanáttarinnar, þótt loft sé komið frá Grænlandi á það samt uppruna sinn á suðlægari slóðum - Grænland þurrkar það og veður verður til þess að gera hlýtt og bjart hér á landi. Lægðarsveigja í norðvestanátt er hins vegar afar óhagstæð. Slíku veðurlagi fylgir kuldi og alls konar hraglandi, jafnvel snjór í september. En þótt oft hafi verið hlýtt í september hér á landi hefur það sum sé ekki gerst á sama hátt og nú, í norðlægri átt. 

w-blogg091122vb

Hlýindabragur er einnig á októberkortinu. Litirnir sýna þykktarvik sem fyrr, heildregnar línur hæð 500 hPa-flatarins. Af þeim ráðum við ríkjandi vindátt og vindstyrk. Daufu strikalínurnar sýna þykktina sjálfa. Hlýindabragur er á þessu korti, en þó ekki eins mikill og á því fyrra. Hlýtt er yfir Íslandi (en athugum að miðað er við októbermánuði áranna 1981 til 2010, en þeir eru kaldari en þau viðmið sem annars hefur verið getið). Suðvestlæg átt var ríkjandi í háloftum, en nokkru vægari en að meðaltali og veit varla hvort um hæðar- eða lægðarsveigju er að ræða - en þetta er meðaltal og í raun var mánuðurinn nokkuð samsettur. 

Fáeinir októbermánuðir fortíðar eru svipaðir að einkennum, sá síðasti haustið 2017.

w-blogg091122vc

Hann var heldur hlýrri á okkar slóðum en þessi, en hæðarsvið 500 hPa-flatarins svipað að formi - en þó aðeins hærra í lofti en nú. Hlaut veður þá góða dóma: „Tíðarfar var hagstætt. Óvenju hlýtt var og hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Fremur þurrt var á vestanverðu landinu en úrkomumeira á Austfjörðum og Suðausturlandi. Vindur var hægur“. - Þetta er ekki ósvipað og nú, nema ívið hlýrra - eins og þykktarkortið gefur líka til kynna. 

Fyrstu dagar nóvembermánaðar hafa verið einkar hagstæðir og staðan haldist svipuð og var í október.

w-blogg091122vd

Hér er spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina sem gildir síðdegis á morgun, fimmtudaginn 10.nóvember. Hér sýna litirnir þykktina sjálfa, en ekki vikin. Ísland er í græna litnum - meðaltalið á þessum tíma árs er dekksti græni liturinn. Háloftavindur er sáralítill við landið, blæs þó af norðaustri milli Vestfjarða og Grænlands (um 10 m/s í 500 hPa hæð). Neðar er norðaustanáttin öllu stríðari. Hún styrkist af völdum þykktarbratta milli Grænlands og Vestfjarða - líklega er um 150 metra munur á þykktinni við Scoresbysund og yfir Íslandi. Lesa má svonefndan „þykktarvind“ af þykktarbratta, rétt eins og háloftvind af hæðarkortum. Í þessu tilviki er hann um 15 -20 m/s af suðvestri. Því má gera ráð fyrir því að vindur í neðstu lögum sé um 25 - 30 m/s (10+15) - sem er reyndar það sem spáin segir. 

Önnur sporaskja hefur verið sett inn á kortið suðvestan Írlands. Þar er líka hvasst, en af öðrum ástæðum. Mun meiri vindur er þar í 500 hPa, 30 m/s af suðvestri. Þarna er líka þykktarbratti - en stefna hans sú sama (eða svipuð) og háloftavindsins - ekki andstæð eins og á Vestfjörðum. Þar með dregur þykktarvindurinn úr vindhraða við jörð. Vestar - við jaðar sporöskunnar er vindhraði í háloftunum enn meiri eða 40-50 m/s - en þykktarvindurinn er líka mjög sterkur - og kemur í veg fyrir að mjög hvasst verði við jörð. Hámarksvindur á þessum slóðum er því rúmir 20 m/s. 

Hvergi á kortinu er mjög kalt loft að finna (það er reyndar til annars staðar á norðurhveli - en sést hér ekki). Nokkuð kaldur straumur liggur þó til suðausturs vestan Grænlands (blá ör) og stefnir til móts við hlýtt loft sem er að komast inn á kortið úr suðri (rauð ör). Þessir straumar tveir eiga að rekast á undir helgina og búa til heilmikla lægð fyrir suðvestan land. Um tíma var útlit fyrir að hún ylli mjög vondu veðri um suðvestan- og vestanvert landið á laugardag, en seinni spár gera minna úr - einkum vegna þess að lægðin á nú ekki að koma jafnnálægt landinu og áður var ráð fyrir gert. Vonandi að þessar síðari spár rætist frekar en þær fyrri - en rétt samt að fylgjast vel með. 

Hlýindin sem stefna að hluta til til okkar um helgina munu líka ná til Skandinavíu sunnanverðrar og má á sumum spákortum sjá þykktina fara upp í 5640 metra. Það er mjög óvenjulegt á þessum árstíma. Þetta ofurhlýja loft á þó væntanlega erfitt með að ná til jarðar yfir flatlendi Danmerkur og Suður-Svíþjóðar það leggst aðallega ofan á kaldara loft sem tregðast við að hörfa til austurs. Það er samt verið að spá 13-14 stiga hita um mestalla Danmörku um helgina - býsna gott á þessum tíma árs. Hér á landi eru fjöll sem gætu hjálpað til að koma hitanum býsna hátt hér líka - þótt þykktinni hér sé ekki spáð „nema“ í 5480 metra. Noregur nýtur einnig fjalllendis þegar svona hlýindagusur fara hjá, sjá má að hita er spáð í 16 stig í Osló um helgina og reynist það rétt má ábyggilega finna aðrar veðurstöðvar þar um slóðir þar sem hiti fer enn hærra. 

Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 61
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 2323
  • Frá upphafi: 2410312

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 2083
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband