Hver er að jafnaði sólrikasti mánuður ársins?

Lesandi spurði að því fyrir nokkrum dögum hver væri að jafnaði sólríkasti mánuður ársins? Í Reykjavík er það maí. Á 99 árum samfelldra mælinga var hann 31 sinni sólríkastur, júní var það 24 sinnum, júlí 20 sinnum, ágúst 13 sinnum, apríl 10 sinnum og mars einu sinni (1947).

Það sem hér fer á eftir er óttalegt stagl - en hugsanlegt að einhver nörd fái samt eitthvað að bíta.  

Sólargangur er heldur lengri í Reykjavík í júní heldur en í maí, en þá er einnig meira skýjað. Maí er líka einum degi lengri heldur en júní - það munar um það. Ef metsólskinsstundafjöldi væri jafnaður á hverjum einasta degi maímánaðar eitthvert árið yrði sólskinsstundafjöldinn í þeim mánuði samtals um 524 stundir (hefur mestur orðið 335), í júní gæti hann orðið 538 stundir (hefur mestur orðið 338) og í júlí 539 stundir (hefur mestur orðið 278). 

Desember er (eins og við má búast) oftast sólarminnsti mánuður ársins, 74 sinnum af 99. Hefur einu sinni náð upp í 10. sæti - það var 1993. Janúar er oftast í 11. sæti, en hefur hæst náð upp í það 8. Það var 1959, ef til vill muna einhverjir eftir því - afskaplega eftirminnilegur mánuður. Nóvember hefur hins vegar náð 8. sætinu 5 sinnum. Það var 1962, 1963, 1965, 1996 og 2000. Fyrstu þrjú ártölin eru einmitt þegar ritstjóri hungurdiska var fyrst að reyna að læra á árstíðasveifluna - kannski átti nóvember að vera tiltölulega bjartur - (en það er hann ekki - erfitt með þessar „reglur“). Október hefur komist hæst í 3. sæti (vel af sér vikið), það var árið 1926 (afskaplega kaldur mánuður). Febrúar náði einu sinni 2. sæti - næstsólríkasti mánuður ársins 1947 í Reykjavík - og mars varð sá sólríkasti. Fyrir minni ritstjóra hungurdiska, en á þessum bjarta tíma voru frægir kuldar í Evrópu - og rússagrýlan fitnaði sem aldrei fyrr - og svo kom Heklugosið. 

September hefur 6 sinnum verið næstsólríkasti mánuður ársins í Reykjavík, 1926, 1954, 1975, 1982, 1992 og 2018. Nokkur kuldaslikja yfir þessum mánuðum - sól og hiti fara sjaldan saman í september í Reykjavík. 

Nóvember hefur tvisvar verið sólarminnsti mánuður ársins, 1955 og 1958, annars sjá janúar og desember alveg um 12. sætið. Október hefur einu sinni verið í 11. sætinu, það var 1969. September hefur neðst lent í 10. sæti, það var 1996 (þegar hlýindin voru hvað mest fyrir norðan). Ágúst hefur einu sinni lent í 9 sæti, árið 1995. Júlí hefur líka komist niður í 9. sæti, það var árið 1977. Júní hefur neðst verið í 8. sæti á árinu, það þrisvar sinnum, 1986, 1988 og 2018. Maí hefur aldrei verið neðar en í 6. sæti, en fimm sinnum, síðast árið 1991. 

Á Akureyri (dálitlar gloppur í mæliröðinni) hefur júní oftast verið sólríkasti mánuður ársins, 38 sinnum á 89 (heilum) árum. Maí kemur rétt á eftir með 31 tilvik, en aðrir mánuðir eru sólríkastir mun sjaldnar, júlí 14 sinnum og ágúst ekki nema fjórum sinnum. Apríl hefur tvisvar verið sólríkasti mánuður ársins á Akureyri. Fjöll stytta sólargang mjög á Akureyri, minnst þó í júní. Ef sólskinsstundadægurmet yrði jafnað á hverjum degi í júní á Akureyri færi mánaðarfjöldinn upp í 522 stundir (en var 538 í Reykjavík) - ekki munar mjög miklu. Nýtt met á hverjum degi í desember skilar hins vegar ekki nema 6 stundum á Akureyri (þar er alveg sólarlaust á mælislóðum frá og með þeim 8.), en gæti skilað 104 stundum í Reykjavík (það mesta sem hefur mælst þar í desember er 32 stundir).

Ljúkum nú stagli að sinni - en vonandi ekki í síðasta sinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Inn Eyjafjörðinn kemur oft ískaldur vindur norðan úr ballarhafi og víða á Tröllaskaganum á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar er ekkert sólskin mánuðum saman á veturna vegna hárra fjalla, líkt og til að mynda á Ísafirði.

Þar sést ekki til sólar frá því seint í nóvember til 25. janúar, sem fagnað er með sólarkaffi og rjómapönnukökum.

En á Fjalli í Kolbeinsdal í Skagafirði sést sólin ekki í rúmlega 5 mánuði (154 daga) og í Baugaseli í Barkárdal, inn úr Hörgárdal í Eyjafirði, er sólarlaust í tæplega 5 mánuði en í Hvammi í Hjaltadal í Skagafirði sést ekki til sólar í fjóra og hálfan mánuð (135 daga).

Í Syðra-Firði í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu sést hins vegar ekki til sólar í rúmlega 5 mánuði, um 160 daga, og hann er sá bær hér á Íslandi sem er lengst í skugga ár hvert.

En Eiríkur Eiríksson bóndi í Syðra-Firði orti:

Mikaels- frá messudegi,
miðrar Góu til,
sólin ekki í Syðra-Firði,
sést það tímabil.

En að þreyja í þessum skugga,
þykir mörgum hart,
samt er á mínum sálarglugga,
sæmilega bjart.

Mikjálsmessa höfuðengils er 29. september og mið Góa 4.-10. mars.

Þorsteinn Briem, 5.10.2022 kl. 23:02

2 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Ég held að ekki sé rétt farið hér með vísur Eiríks í Syðra Firði, en til að hafa þær réttar (og rétt rímaða þá fyrri) tel ég að þær séu þannig:

Mikaels frá messudegi,
miðrar góu til,
í Syðra Firði sólin eigi
sést það tímabil.

Lengi að þreyja í þessum skugga
þykir mörgum hart.
Samt er á ínum sálarglugga
sæmilega bjart.

Þórhallur Pálsson, 6.10.2022 kl. 06:45

3 identicon

Þorsteinn.Eitthvað hefur skolast til hjá þér með sólarleysið í Hvammi í Hjaltadal. Sólarleysið er einhverjir 73 dagar, sést 26. janúar. Tók mynd af því fyrir nokkrum árum.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 6.10.2022 kl. 17:55

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður hefur nú ekki kannað þetta sjálfur og allt tekið af netinu fyrir margt löngu, að vísunum meðtöldum. cool

Kannast hins vegar af eigin raun við sólarleysið í Skíðadal, sem nú er í Dalvíkurbyggð, og er einn af snjóþyngstu dölum landsins í byggð.

Þorsteinn Briem, 6.10.2022 kl. 20:17

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Þið, Þorsteinn, Þórhallur og Hjalti þekkið sjálfsagt ritgerði Bjarna J. Guðleifssonar, Forsæla (Náttúruskoðarinn III, Úr steinaríkinu, s.167 og áfram). Þar fjallar hann um sólarleysisbæi - einkum á Norðurlandi, en nefnir fáeina í öðrum landshlutum, svosem Syðri-Fjörð og segir sólarleysið þar 153 daga (tilfærir sömu vísur og Þórhallur og Þorsteinn). Hann nefnir einnig Birkihlíð í Súgandafirði, með sama dagafjölda (153). 

Trausti Jónsson, 6.10.2022 kl. 21:57

6 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Það munar um einn dag þegar hlaupár er. Svo komu skýjaðir dagar eitt tvö eða þrjú ár. Eftir hlaupár þá er 1. mars einum degi seinna eða einum degi framar miðað við sólina. Fyrir hlaupár er 28 febrúar þá kominn einum degi aftar miðað við sólina. 

Þess vegna þarf að bæta við nýum degi.

Ég þarf að hugsa þetta betur, hvernig best er að orða þetta. 

Þetta er skýringin á mismunandi dagsetningum á því hvenær sólin fer aftur að sjást. 

Egilsstaðir, 07.10.2022    Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 7.10.2022 kl. 02:41

7 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Bloggið hjá þér er til fyrirmyndar. 

Egilsstaðir, 07.10.2022    Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 7.10.2022 kl. 02:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband