Hann hrekkur stundum við

Stöku sinnum tekst skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar að láta ritstjóra hungurdiska hrökkva dálítið við. Slíkt gerðist núna áðan (laugardagskvöld 13. ágúst) þegar rennt var yfir tíu daga hádegisspárunu reiknimiðstöðvarinnar. Í henni birtist þetta spákort:

w-blogg130822a

Það gildir eftir viku, laugardagskvöldið 20. ágúst og sýnir 962 hPa djúpa lægð við Jan Mayen. Svona djúpar lægðir eru sárasjaldséðar í ágúst og ritstjórinn telur nær víst að engin dæmi séu um þær við Jan Mayen. Líkur eru heldur meiri við Ísland, ágústíslandsmetið er 960,7 hPa sett í Hólum í Hornafirði 27. ágúst 1927. Gamall fellibylur kom þar við sögu. 

Auðvitað er líklegast að þessi spá rætist ekki, enda er uppruni lægðarinnar harla óvenjulegur. Þótt hún sér skilgetinn afkomandi djúprar lægðar sem á að koma að landinu á miðvikudaginn er kraftur hennar kominn úr „bylgju“ sem kemur eiginlega sunnan frá gömlu Júgóslavíu. Nota orðið eiginlega vegna þess að erfitt er að fylgja kerfinu eftir eða greina uppruna þess á þessu stigi (það er ekki enn orðið til). Síðan á þessi bylgja að fara norður um Noreg vestanverðan og dýpka rækilega á leið sinni til norðvesturs, vestnorðvesturs og vesturs fyrir norðaustan land. Allt með talsverðum ólíkindum.

Bandaríska veðurstofan er með aðra útgáfu - líklegri fyrir okkur. Í þeirri útgáfu dýpkar lægðin ekki heldur strandar að mestu við Noreg og veldur þar miklu (og hættulegu) úrhelli austanfjalls og í Þrændalögum um og rétt fyrir næstu helgi. Heldur ótrúleg spá líka. 

Eins og áður sagði er líklegast að lofthjúpurinn taki á þessu með einhverjum allt öðrum hætti heldur en reiknimiðstöðvar gera á þessari stundu - en það kemur þá fljótlega í ljós - og ekki síðar en í vikulok. 

Viðbót rúmum sólarhring síðar:

Það fór sem líklegt var að næsta spáruna dró tennurnar úr spánni - en sú þarnæsta (og nýjasta nú - hádegisruna sunnudags) er enn með lægðina - frestað um 2 sólarhringa og 17 hPa grynnri:

w-blogg130822b

Ætti að gefa þessu gaum áfram?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 identicon

Það er auðvitað spurning hvort ekki sé fréttnæmara hversu kalt var í nótt víða á láglendi (og byggð á landinu, þ.e. aðfararnótt sunnudagsins). Hér á höfuðborgarsvæðinu fór hitinn í Víðidal lægst í 3,9 stig og við Korpu í 4 stig. Fyrir norðan var enn kaldara. Á Haugi (í Miðfirði) fór kuldinn lægst í 1,1 stig, á Végeirsstöðum í Fnjóskadal í 1,2 stig, Staðarhóli í Aðaldal 1,9 stig og Torfum í Eyjafjarðarsveit í 2,4 stig. Svo er spáð enn meiri kulda í nótt og næstu nótt.

Merkilegt nokk var þó í textavarpinu á RÚV aðeins sagt frá því að kuldinn í byggð hafi farið lægst í 2,2 stig og enginn af framangreindum stöðum nefndir um þá staði þar sem var kaldast.
Hvernig ætli standi á því?
http://textavarp.is/sida/192/1

 

 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 14.8.2022 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 978
  • Sl. sólarhring: 1107
  • Sl. viku: 3368
  • Frá upphafi: 2426400

Annað

  • Innlit í dag: 872
  • Innlit sl. viku: 3028
  • Gestir í dag: 852
  • IP-tölur í dag: 786

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband