Lítilsháttar af júní - (og litið á vestanáttarstöðuna)

Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar var nýliðinn júní nokkuð úrkomusamur um landið vestan- og suðvestanvert. Hiti var ofan meðallags á Suðausturlandi og á sunnanverðum Austfjörðum, en heldur svalt var á Norðvesturlandi. Þetta kemur heim og saman við meðalstöðuna í háloftunum í mánuðinum. 

w-blogg070722aa

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og má af þeim ráða meðalvindátt og styrk. Daufar strikalínur sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981-2010. Hiti er ofan meðallags á mestöllu kortinu, en allkaldur blettur yfir Grænlandi. Sveigjan á jafnhæðarlínunum er með krappara móti - og nákvæmlega þessi staða ekki algeng í júní. Sé leitað, er það einna helst júní 2006 sem hefur svipað yfirbragð (sjá kortið hér að neðan). 

w-blogg070722a

Háloftavindur var þó ívið eindregnari þá. Í umsögn um mánuðinn segir: „Úrkomu- og umhleypingasamt um landið sunnanvert, en hagstæðara norðan- og austanlands“. Mikil hvassviðratíð var framan af júlí og er ritstjóra hungurdiska minnisstæð. Hann taldi mjög líklegt að sama tíð myndi haldast út sumarið og þar með yrði þetta fyrsta rigningasumar um nokkurra ára skeið - en svo varð ekki. Veðrið kemur alltaf á óvart. 

Hér á hungurdiskum hefur nokkrum sinnum verið minnst á áberandi „vestanáttarýrð“ í háloftum síðustu árin. Vart var við því að búast að slíkt héldi áfram um alla framtíð og nú hefur orðið nokkur viðsnúningur - alla vega í bili.

w-blogg070722b

Hér má sjá 12-mánaðakeðju sem nær aftur til 1949. Mælitalan á lóðrétta ásnum segir til um styrk vestanáttarinnar, meðaltalið um 24 einingar. Svo virðist sem styrkurinn vaxi og minnki á víxl án þess að um nokkra sýnilega reglu sé að ræða. Þó má sjá áberandi dæld í ritinu síðustu 15 árin (eða svo) - þar til nú síðasta árið. Styrkurinn um þessar mundir er hærri en hann hefur verið frá 2006, þá var hann ámóta og nú og fara þarf um 30 ár aftur í tímann til að finna hærri tölur. Mikið lágmark var árið 1960 og var það ekki slegið út fyrr en árið 2016. 

Ekki er sterkt samband á milli vestanáttarstyrksins og hita hér á landi, þó marktækt þannig að þegar vestanáttin er sterk er að jafnaði kaldara en þegar hún er veik. Má giska á að hinn mikli styrkur vestanáttarinnar nú „hafi lækkað“ ársmeðalhitann um 0,3 - miðað við meðalstyrk. Styrkur sunnanáttarinnar í háloftunum hefur meiri áhrif á hitafar. Áhrif á ársmeðalúrkomu eru ekki veruleg (sunnanáttin ræður mun meiru), en þó er það þannig að slakni verulega á vestanáttinni eykst úrkoma austanlands töluvert. 

Í þeim árum sem vestanáttin er sterk er veðurlag að öðru jöfnu umhleypinga- og illviðrasamara heldur en þegar hún er slök. Við fengum að finna fyrir því í vetur. Oft er reynt að „skýra“ þessa sveiflukenndu hegðan með því að kalla hana eitthvað, til dæmis NAO  (North Atlantic Oscillation) eða AO (Artic Oscillation) - eða leita tengsla við einhver fjarhrif úr hitabeltinu eða heiðhvolfinu. Með þessum nafngiftum erum við litlu nær svo lengi sem ekki er hægt að sjá raunveruleg eðlisfræðileg tengsl - frekar en þau tölfræðilegu (sem við þó notum til að leita að einhverju feitara). Ritstjóri hungurdiska hefur skrifað drjúgt um þessi mál á þessum vettvangi (og öðrum) í gegnum árin - en ætlast ekki til þess að lesendur elti það allt uppi - og sömuleiðis ólíklegt að hann hafi þrek í að taka það saman enn og aftur. Styttist í að hungurdiskar fyllist - enda farið að slá í sumar kræsingarnar. 

Ritstjórinn fylgist hins vegar með stöðunni svo lengi sem hann framast getur. 

Við þökkum Bolla P. fyrir kortavinnuna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (23.5.): 54
 • Sl. sólarhring: 93
 • Sl. viku: 1595
 • Frá upphafi: 2356052

Annað

 • Innlit í dag: 50
 • Innlit sl. viku: 1480
 • Gestir í dag: 47
 • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband