13.6.2022 | 22:10
Fárviðrið 29. október 1948
Þann 29. október 1948 gerði mikið landsynningsillviðri um landið sunnan- og vestanvert, þá talið það mesta í nokkur ár, allt frá veðrinu mikla þann 15. janúar 1942. Ekki hefur verið auðvelt að spá veðrinu með tækjum og tólum þessa tíma, en þó var spá um vindátt og veður sæmilega rétt, en vantaði upp á vindhraðann. Vindhraðamælieiningar koma nokkuð við sögu í þessum pistli - og kann sú umfjöllun að þykja staglkennd.
Við skulum fyrst líta á frétt í Vísi þann 30. október:
Í gær [29.] myndaðist stormsveipur skammt suður af Reykjanesi, er olli fárviðri um suðvesturhluta landsins, og mun veðurhæðin hafa varð mest í Keflavík, af þeim stöðum þar sem vindhraði var mældur. Þar komst vindhraðinn upp í 53 metra á sekúndu, en fárviðri er talið, ef hann kemst upp í 29 metra eða þar yfir, Hér í Reykjavík komst vindhraðinn upp i 42 metra á sekúndu um kl.4 í gær.
Eins og að líkum lætur urðu talsverðar skemmdir hér i Reykjavik af völdum veðurofsans, en minni en búast mætti við. Einkum urðu skemmdir, þar sem verið er að ljúka húsasmíði Til dæmis fuku vinnupallar, utan af nýbyggingum í Hlíðahverfi og við Dómkirkjuna, og féll brak ofan á bifreið, þar hjá, en skemmdir urðu litlar á henni. Þá fuku þakplötur víða í bænum og lenti ein þeirra á bifreið, sem ók eftir Laugavegi, en tjón varð ekki. Ekki er kunnugt um, að menn hafi orðið fyrir meiðslum af völdum fárviðrisins hér i bænum.
Lítill vélbátur, sem Flugfélag Íslands notar til farþegaflutninga á Skerjafirði, sökk við bauju" í gær, en mun óskemmdur. Tjón varð lítið á Reykjavikurhöfn, að því er hafnsögumenn tjáðu Vísi i morgun. Tveir bátar löskuðust eitthvað, Hafborg frá Borgarnesi og Þorsteinn úr Reykjavík, en ekki er kunnugt um stórtjón á bátum hér i höfninni. Strandferðaskipin Esja og Skjaldbreið frestuðu för sinni vegna veðurofsans.
Í þessari frétt var minnst á vindhraðamælingar. Þar er ýmislegt að athuga.
Í fyrsta lagi er vísað í m/s - en mælar voru ekki í þeirri einingu. Í fréttum í öðrum blöðum er bæði talað um vindstig og mílur. Í veðurbókum er aðeins minnst á vindstig (Beaufort) og síðan annað hvort sjómílur (hnúta) eða mílur (enskar/amerískar). Sannleikurinn er sá að ritstjóri hungurdiska er ekki hundrað prósent viss um hvora gerð mílunnar er átt við.
Í öðru lagi segir að fárviðri sé talið komist vindhraði yfir 29 m/s. Þetta er sú tala sem miðað var við hér á landi til áramóta 1948-49. Eftir það þurfti vindur að ná 32,7 m/s til að fárviðri (12 vindstig) væri talið. Þessi einkennilegi munur stafar líklega af því að meðaltalstímabilið var misjafnt (þess er þó ekki getið í leiðbeiningum). Bretar voru fastir á því að meðalvindur skyldi ná til heillar klukkustundar - en flestar aðrar þjóðir höfðu um talsvert skeið miðað við 10-mínútur (eins og nú er gert) - og bandaríkjamenn miða enn oftast við 1 mínútu. Sennilega hefur einhver reiknað út að einhvers konar jafnræði væri með 29 m/s í klukkustund og 32,7 m/s í 10-mínútur - til að ná 12 Beaufortstigum (vindstigum).
Vindhraðamælar voru næstum því hvergi á íslenskum veðurstöðvum árið 1948. Þó var mælt á flugvöllunum í Reykjavík og í Keflavík. Engin vindrit hafa þó varðveist frá stöðvunum á þessum tíma. Sennilega var vindhraði lesin af skífu. Það er auðvelt að lesa hviður af skífum - en erfiðara að meta meðalvind af nákvæmni. Kannski í 1 mínútu, varla í 10 og mikið þolinmæðisverk í klukkustund. Vindhraðamælirinn á Reykjavíkurflugvelli var á stöng ofan á þaki gamla flugturnsins - í 17 m hæð yfir jörð. Um það ákveðna vandamál hefur verið minnst áður hér á hungurdiskum.
Í veðurskeytum þessa tíma var mælingum í Reykjavík breytt í vindstig - og ekki getið um mesta vindhraða milli athugana nema í athugasemdum í veðurbókum (ekki í skeytunum sjálfum). Á flugvöllunum í Reykjavík og Keflavík var hins vegar athugað á klukkustundarfresti allan sólarhringinn - og þær athuganir eru í skjalasafni Veðurstofunnar.
Hér má sjá athuganir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis þann 29. október 1948. Vindhraði er á miðri mynd - vindátt skammstöfuð, tala þar undir og önnur tala (vindstig) við hliðina. Við skulum taka eftir því að kl.13 (fyrsta athugun á síðunni) er áttin SA (suðaustan) 11 vindstig, en 65 (eitthvað) undir vindáttinni. Væru það hnútar ættu að vera 12 vindstig (33,4 m/s) - hvort sem við notum yngri eða eldri vindstigatöfluna - en ef um mílur er að ræða eru það 11 vindstig eftir báðum töflum (29,0 m/s, 29,1 m/s væri 12 vindstig). Kl. 16 og 17 er vindur SA 72 (mílur) eða 62,5 hnútar eða 32,2 m/s. Það eru 11 vindstig samkvæmt núverandi viðmiði, en 12 sé miðað við eldri töflu. Gallinn er bara sá að við vitum ekki um viðmiðunartímann, er hann 10-mínútur eða eitthvað annað? Í athugasemd segir að hámarksvindhviða sé 85 - væru það hnútar er vindhraðinn 44 m/s, en í mílum 38 m/s. Fréttin segir að vindur hafi komist í 42 m/s. Hvaðan sú tala kemur vitum við ekki - en sennilega hafa menn slegið á þetta í huganum - og e.t.v slegið saman sjómílum og enskum mílum.
En fleiri blaðafréttir geta um vindhraða - og flækist vindhraðamálið enn frekar - greinilegt að þetta mílutal veldur umtalsverðum ruglingi:
Morgunblaðið segir frá 30.október:
Í gær geisaði um Suður- og Suðvesturland, frá Mýrdal og vestur fyrir Snæfellsnes, eitt mesta veður sem komið hefur um þessar slóðir um nokkra ára skeið. Vindur var af suðaustan. Veðurhæðin var yfirleitt 11 til 12 vindstig, en í snörpustu hviðunum þó miklu meiri. Hér í Reykjavík náði vindhraðinn nær 100 mílum á klukkustund og á Keflavíkurflugvelli rúmlega 100 mílum. Flugstjórnarturninum á Reykjavíkurflugvelli barst um kl. 10 í gærmorgun, aðvörun um að óveður væri í aðsigi. Var búist við að vindhraðinn myndi verða 40-50 mílur á klukkustund 18 til 22 m/s]. Eftir því sem á daginn leið fór veðurhæðin vaxandi. Um hádegisbilið var hún 9 vindstig og fór þá enn vaxandi. Um kl.3 náði hún hámarki. Mældist vindhraðinn þá 6274 mílur að öllu jöfnu, en í snörpustu hviðunni, sem stóð nokkra stund, komst vindhraðinn upp í 95 mílur á klst hér í Reykjavík. Á sama tíma mældist vindhraðinn um 120 mílur á Keflavíkurflugvelli, eða nánar tiltekið um 50 m. á sek. Úr mesta veðurofsanum tók að draga um kl.4 og eftir því sem leið á kvöldið. Í samtali við Veðurstofuna, taldi hún víst, að í dag myndi vindur verða allhvass suðvestan en veðurhæðin verða minni. Veður þetta er talið eitt hið mesta, sem komið hefur um nokkra ára bil. Sumir giska á að það hafi verið engu minna, en veturinn 1941, er skipin tvö rak hér upp í Rauðarárvík í norðan stórviðri.
Strax eftir hádegi í gær fór fólk að tilkynna lögreglunni að járn væri að fjúka af þökum víðsvegar um bæinn. Vinnuflokkar frá bænum unnu í allan gærdag við að hjálpa fólki sem heima átti í húsum þeim sem fyrir skemmdum urðu. Veðurofsinn var svo mikill að járnplötur fuku yfir bæinn og á haf út. Girðingin umhverfis íþróttavöllinn varð nú enn einu sinni fyrir skemmdum. Bæjarbyggingin við Lönguhlið varð fyrir skemmdum á þaki. Allmargir kofar munu hafa fokið og járn tekið utan af öðrum, svo aðeins stóð grindin eftir. Hluti af vinnupöllunum við Dómkirkjuna brotnuðu og féll brakið niður á bíl, en skemmdi hann lítið. Þakplata skall niður á bíl. sem ók eftir Laugavegi, en braut framrúðuna, en bílstjórinn slapp ómeiddur. Í höfninni slitnuðu bátar frá bryggju. Einn þeirra mun hafa orðið fyrir nokkrum skemmdum. Ein bátabryggja skemmdist nokkuð. Særokið var svo mikið, að ekki sást út í grafvélina nema öðru hvoru, en hún lá út af Ægisgarði. Tvö skip, Esja og Skjaldbreið frestuðu för sinni í gær, til hádegis í dag Þá sneri breska skipið, sem hreinsar Hvalfjörð, við á leið sinni hingað og leitaði vars í Hvalfirði. Á Reykjavíkurflugvelli fuku nokkrir braggar. Skemmdir á brautarljósum og vindpokarnir rifnuðu. Í úthverfum bæjarins urðu skemmdir á rafmagnslínum og síma. Í Hafnarfirði tók af í heilu lagi, þak hússins Brekkugata 22. Það hús eiga þeir Páll Sveinsson og Stefán Júlíusson kennarar. Þakið sveif í loftinu yfir eina húsaröð, en féll svo niður hjá prentsmiðjunni og braut brakið úr því þrjá glugga í prentsmiðjunni og urðu þar inni nokkrar skemmdir. Allt járnið af þaki Hótel Hafnarfjörður tók af. Vegna slysahættu af völdum þakjárns, var hafnfirðingum ráðlagt að vera sem minnst á ferð um göturnar í gærkvöldi. Engar skemmdir urðu þar á bátum í höfninni, svo vitað sé. Í Keflavík slitnaði mb. Ægir frá bryggju. Skipstjórinn var einn um borð. Tókst honum að setja vélina í gang og gat hann náð sambandi við annað skip, og komið dráttartaugum á milli og var Ægir síðan dreginn að bryggju á ný. Á flugvellinum [í Eyjum] skemmdust nokkrir braggar. Í Vestmannaeyjum slitnaði upp af legunni mb. Óðinn og rak bátinn á land. Hann var mannlaus. Óvíst er hve miklar skemmdir hafa orðið á honum. Um skemmdir í Hveragerði bárust blaðinu þær fréttir að járn hafi tekið þar af þökum nokkurra húsa. Um aðrar skemmdir austan fjalls, er Mbl. ekki kunnugt, enda var símasamband austur mjög slæmt í gær, vegna bilana á kerfinu.
Enn segir Tíminn af vindhraða í frétt 30.október (hér má sjá misræmi í skilgreiningu á fárviðri miðað við fréttir hér að ofan):
Rokið í gær var með mestu fárviðrum, er komið hefir hér við Faxaflóá. Í Reykjavík komst vindurinn upp í 42 metra á sekúndu, og í Keflavík 50 metra á sekúndu. Það eru aftur á móti talin tólf vindstig, ef vindur er 32 metrar á sekúndu, og kallast það fárviðri Skemmdir af veðrinu hafa þó orðið vonum minni. Í Reykjavík urðu ekki teljandi skemmdir, nema hvað hlið íþróttavallarins féll niður, og rúður brotnuðu í stöku húsi, einkum í úthverfunum, þar sem nýbyggingar eru og ýmis konar dót lá á víð og dreif kringum húsin. Einnig slitnuðu allvíða rafmagnsvírar. Hafði lögreglan um tíma ærið að gera að forða skemmdum og slysum af völdum ýmislegs, sem veðrið hafði losað og hrifið með sér. Þök tók af tveim húsum í Hafnarfirði. Í Hafnarfirði fuku þök af tveimur húsum, Austurgötu 1 og Brekkugötu 22. Þakið af Brekkugötu sviptist af í heilu lagi. Barst það yfir hús við Suðurgötu og féll niður á byggingu Prentsmiðju Hafnarfjarðar. Brotnuðu við það rúður í prentsmiðjubyggingunni og öðru húsi til þar í grenndinni. Af Austurgötu 1, sem áður var Hótel Hafnarfjörður, voru plötumar lengur að tínast. Varð að stöðva umferð um Reykjavíkurveginn á þriðja klukkutíma vegna slysahættunnar. Í Keflavík var geysilegt ofviðri. Vélbáturinn Ægir slitnaði frá bryggjunni laust eftir hádegið, og var þá skipstjórinn, Marteinn Helgason, einn í bátnum. Kom hann bátnum undir Stapa, en þar var fyrir annað skip, og festi Marteinn bát sinn við það. Í gærkvöldi kom Marteinn aftur með bátinn til Keflavíkur og lagðist þar við bryggju. Einnig brotnaði skjólgarður steinsteyptur úr hafnargarðinum.
En hvað segja veðurathuganir á Keflavíkurflugvelli? Á Veðurstofunni er að finna afrit af athugunum sem gerðar eru á ameríska vísu (herinn var að vísu fjarverandi - opinberlega).
Ekki er þetta skýr mynd - en batnar nokkuð við stækkun. Þar tökum við fyrst eftir því að í fyrirsögn vindhraðadálksins stendur skýrum stöfum m.p,h. (miles per hour), mílur í klukkustund. Mestur meðalvindur dagsins er 65 mílur (þrjár klukkustundir í röð) og mesta vindhviða 95 mílur (42,4 m/s). Hinar 120 mílur fréttarinnar er hvergi að finna - við komumst upp í 110 með því að ímynda okkur að tölurnar á blaðinu séu hnútar.
Ekki er auðvelt að greiða úr þessu, en höfum í huga að margt skolast til í fréttum, ekki síst þegar einingar eru á reiki. Ritstjóri hungurdiska hallast að því að allar tölur athugana séu enskar mílur. Hefur hann breytingu athugunarbókarinnar á Reykjavíkurflugvelli milli mílna og vindstiga sérstaklega í huga. Sömuleiðis þá staðreynd að veðrið olli varla nægilegu tjóni til að geta hafa verið fárviðri á nútímakvarða. Það breytir því þó ekki að um óvenjuharkalegt veður var að ræða.
Fleiri fréttir bárust af veðrinu. Við látum pistil Tímans 31. október ljúka þeim:
Í ofviðrinu sem gekk yfir mikinn hluta landsins í fyrradag urðu nokkrar skemmdir á Andakílsárvirkjuninni í Borgarfirði. Varð að hætta rafmagnsframleiðslu stöðvarinnar um tíma, svo að kaupstaðirnir Borgarnes og Akranes, sem fá orku frá Andakílsárstöðinni voru rafmagnslausir í fyrrakvöld og mesta hluta næturinnar. Staurar háspennulínunnar urðu líka fyrir skakkaföllum í storminum, einkum í Skilmannahreppinum undir Akrafjalli, þar sem óhemju hvasst verður í þessari átt. Skekktust þar margir staurar háspennulínunnar, svo við liggur að þeir falli. Einnig skekktust margir staurar, sem halda uppi símalínunni á þessum sömu slóðum. Nánari fregnir eru nú fyrir hendi af hvassviðrinu, sem skall á í fyrradag 0g usla þeim er það gerði. Al miklar skemmdir urðu á bátum víðsvegar um Suður- og Vesturland, en þó minna, en gera hefði mátt ráð fyrir. Einna mestar munu skemmdirnar hafa orðið á Suðurnesjum, þar sem veðurhæðin varð líka einna mest. Nokkurt tjón varð á bátum og skipum víðs vegar í ofviðrinu í fyrradag. í Keflavik slitnaði vélbáturinn Ægir frá bryggju og var skipstjórinn, Marteinn Helgason einn um borð í bátnum er þetta skeði. Sýndi hann mikið snarræði og dugnað með því að bjarga bátnum. Hélt hann honum út og fór í var undir Vogastapa, en þar var gott í þessari átt, undir háum stapanum. Í Keflavík hefir veðrið annars mælst einna mest, þar komst vindhraðinn i 53 metra á sekúndu, en í Reykjavík mest upp í 42 metra á sekúndu. Á báðum stöðunum urðu talsverðar skemmdir á húsum og mannvirkjum, sérstaklega þó í Keflavík. Þar urðu miklar skemmdir. Mikill hluti af dekki hafskipabryggjunnar fauk og einnig skjólgarður ofan við bryggjuna. Í Grindavík brotnuðu tveir vélbátar í ofviðrinu. Heita þeir Teddy og Maí. Annar þeirra, Teddy sökk við bryggjuna, en vélbátnum Maí var siglt upp í fjöru mikið brotnum. Í Reykjavíkurhöfn urðu talsverðar skemmdir á bátum, en þó engar verulegar. Á Akranesi urðu engar teljandi skemmdir á bátum eða mannvirkjum. Sjómenn voru um borð í bátunum meðan mest hætta var á að þeir slitnuðu upp, eða ræki á land, en það var um flóðið. Til þess kom þó ekki og þurfti enginn bátur að fara út. Óttast var um einn bát frá Akranesi, Sigurfara, sem var á Breiðafirði í gær. En Sigurfari var kominn til Stykkishólms, áður en ofviðrið skall á. Á Ísafirði urðu skemmdir á bátum. Vélbáturinn Bryndís, sem var á sjó bilaði fimm mílur austur af Straumnesi. Kom allmikill leki áð bátnum. En það vildi til happs, að vélbáturinn Freydís gat fljótlega komið bátnum til hjálpar og kom með hann til Ísafjarðar í gær. Ekkert manntjón varð af völdum ofviðrisins, en margir hlutu minniháttar skrámur og byltur, því óstætt mátti heita, þegar hvassast var á þeim stöðum, er veðurofsinn varð mestur. Verður ekki annað sagt, en tekist hafi sérstaklega lánlega til, að ekki skyldi hljótast illt af þessu veðri, sem var eitt hið mesta hvassviðri er komið hefir hér á landi í lengri tíma.
Veðurathugunarmaður á Lambavatni getur þess að í veðrinu hafi þak fokið af hlöðu í Sauðlauksdal og bílskúr hafi fokið á Patreksfirði.
Hér má sjá þrýstirit frá Reykjavíkurflugvelli dagana 28. til 30. október 1948. Lægðin snarpa sést vel - og eins að hvasst hefur verið við Flugturninn, ferillinn er mjög loðinn. Það er vísbending um óreglulegt vindsog í húsinu. Loftvogin féll mjög ört, en reis enn hraðar eftir að skil lægðarinnar fóru yfir. Klukkunni á blaðinu ber ekki alveg saman við athuganirnar sem myndin að ofan sýnir.
En hvernig veður var þetta? Við látum bandarísku endurgreininguna aðstoða okkur við að leita svars. Hún virðist ná þessu veðri betur en sumum öðrum.
Daginn áður var ákveðin sunnanátt á landinu. Lægð var að grynnast á Grænlandshafi, en önnur mjög vaxandi var suðvestur í hafi og stefndi í átt til landsins. Mikil hæð (rúmlega 1035 hPa) var yfir Noregi. Hæðin hélt vel á móti og mikill strengur hefur verið í háloftunum milli hæðar og lægðar.
Næsta kort sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á sama tíma. Stefnumót er á milli hlýrra strauma úr vestsuðvestri og kaldra úr vestri.
Klukkan 6 um morguninn þann 29. október er lægðin í miklum vexti. Það sem vekur sérstaka athygli eru gríðarþéttar jafnhæðarlínur (jafnþrýstilínur) austan við lægðina. Þar er veðrið sem skall á um og upp úr hádeginu.
Það er fróðlegt að líta á veðurspárnar þennan morgun.
Veðurfræðingur á vakt kvöldið áður vissi af lægðinni, en ekki dýpkun hennar, en hann gerði ráð fyrir vaxandi suðaustanátt. Í veðurfréttum sem voru lesnar kl.9:10 um morguninn segir spá fyrir Suðvesturland til Breiðafjarðar: Suðaustan hvassviðri eða stormur og rigning í dag, en gengur sennilega í suðvestan- og vestanátt með skúrum í kvöld eða nótt.
Kl. 12:20 er spáin endurskoðuð - en það var sjaldgæft. Jón Eyþórsson ritar spána og er stuttorður: Suðvesturland og Faxaflói: Suðaustan rok og rigning frameftir deginum, en sunnan- eða suðvestan hvassviðri og skúrir í nótt. Breiðafjörður til Suðausturlands: Suðaustan og síðan sunnan stormur. Þíðviðri og víðast hvar rigning. Heldur ítarlegri væri spáin í sömu stöðu nú á dögum. Klukkan 16:00 segir: Djúp lægð og stormsveipur skammt suður af Reykjanesi hreyfist hratt norður eftir.
Síðasta kortið sýnir lægðina í fullum þroska skammt vestur af Reykjanesi kl.18 (þá var kl.17 hér á landi). Samkvæmt athugunum var þrýstimunur milli Reykjavíkur og Dalatanga mestur einmitt þarna, 31,2 hPa. Þrýstimunurinn fór upp í 16 hPa klukkan 9 um morguninn, og var svo mikill eða meiri fram yfir miðnætti um kvöldið. Um hádegi daginn eftir var veðrið alveg gengið niður.
Þetta veður myndi valda umtalsverðu tjóni nú á dögum, en trúlega mundu tölvuspár ná því ágætlega. Það á ýmsa ættingja.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:49 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 178
- Sl. sólarhring: 386
- Sl. viku: 2557
- Frá upphafi: 2434999
Annað
- Innlit í dag: 158
- Innlit sl. viku: 2268
- Gestir í dag: 150
- IP-tölur í dag: 145
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.