Af árinu 1782

Árið 1782 var erfitt. Við getum rakið veður frá degi til dags með hjálp veðurathugana Rasmusar Lievog í Lambhúsum á Álftanesi. Sömuleiðis eru til dagbækur frá þessum tíma sem lýsa veðri. Ritstjóri hungurdiska hefur aðgang að uppskrift Haraldar Jónssonar á dagbókum Sveins Pálssonar frá þessum tíma og ber lýsingum Sveins vel saman við mælingar Lievog. Sveinn dvaldi lengst af á Hólum í Hjaltadal, en fór suður til Hafnarfjarðar í júlí - en síðan aftur norður. 

Astrid Ogilvie rekur veðurlag ársins 1782 nokkuð ítarlega í grein sinni „The climate of Iceland 1701-1784“. Greinin birtist í tímaritinu Jökli 1986 (s.57 og áfram). Megináhersla er á veðurlýsingar í skýrslum embættismanna til stjórnvalda. Í þessum skýrslum má finna ýmsar upplýsingar sem ekki koma fram í hinum hefðbundnu annálum, sérstaklega er þar að finna ítarlegri hafísupplýsingar en annars staðar er að sjá. 

Astrid segir að árið 1782 hafi verið óvenjukalt um land allt, kaldara heldur en árið áður, 1781, og mikið hafísár. Heimildir frá Norðurlandi segi ísinn hafa komið þar um miðjan mars, en að Austurlandi frá miðjum Febrúar og þar hafi hann legið áfram, allt fram í september. Mikill lagnaðarís var á Breiðafirði. Ísinn fór víðast hvar í ágúst.

Hafísinn fór suður fyrir land. Sýslumaðurinn í V-Skaftafellssýslu sagði ís hafa fyrst komið þangað 19.maí og hafi ekki horfið fyrr en 23. ágúst. Sýslumaður Rangárvallasýslu nefndi 13. maí og þá hafi ís þakið sjó að mestu í þrjár vikur. Hann kom svo þangað aftur 14. ágúst. Haft er eftir Skúla Magnússyni (landfógeta) sem sigldi til Kaupmannahafnar seint í ágúst að ísinn hafi verið fyrir norðan fram í ágúst, en þá hafi hann rekið austur með og síðan vestur, allt til Vestmannaeyja. Skip hans hafði þurft að hörfa af stefnu sinni sem var til suðausturs - til suðvesturs - til að komast framhjá ísnum á þeim slóðum. Astrid segir, að eftir öllu að dæma, hafi 1782 verið eitt mesta ísár 18. aldar.

Astrid vitnar í Jón Jónsson í Eyjafirði og segir hann að á tímabilinu nóvember til febrúarloka hafi aðeins ein vika verið mjög hörð. Annan tíma hafi oftast verið einhver jörð. Mars segir Jón kaldan, allt til miðs aprílmánaðar. Thodal amtmaður á Bessastöðum sagði veturinn til þess að gera mildan til 6. janúar, en þá hafi brugðið til frosta og snjóa. Hann segir veturinn þann harðasta til þessa á sínum tíma á Íslandi (frá 1770).

Sýslumaður Dalasýslu (Magnús Ketilsson í Búðardal á Skarðsströnd) segir frá snjókomu í júlíbyrjun og aftur 16. ágúst.

w-1782t 

Myndin sýnir hitamælingar (að morgni, um miðjan dag og að kvöldi) í Lambhúsum 1782. Ákveðin vandamál fylgja mælingunum í Lambhúsum. Hitamælirinn er óvarinn og greinilegt er að á hann skein alloft sól á morgnana (þá er óeðlilega hlýtt miðað við hádegisathugun). Trúlega sýnir hann hins vegar of lágar tölur í úrkomu. Einnig er greinileg hliðrun í mælinum, að sögn Lievog slitnaði kvikasilfursúla mælisins, hann reyndi að leiðrétta fyrir slitinu, en varð í janúar árið eftir að skipta um mæli. Við vitum ekki hversu mikilli ónákvæmni þetta slit olli. Séu mælingarnar teknar bókstaflega reiknast meðalhiti ársins 2,0 stig. Þetta er kaldara heldur en öll ár sem við höfum mælingar frá í Reykjavík. Sömuleiðis eru mánuðirnir júní, júlí og september þeir köldustu sem við vitum um. Mjög kalt var einnig í janúar, mars, ágúst og október, en febrúar, apríl, maí og nóvember mun skárri, febrúar og apríl tiltölulega hlýjastir. Ber því ekki illa saman við lýsingar embættismanna í samantekt Astrid Ogilvie og annálaheimildum. 

Lievog mældi ekki úrkomumagn árið 1782, en úrkomudagar voru fáir - miðað við meðallag athugunarskeiðs hans - í mars, maí og ágúst 1782. Í maí og ágúst var úrkoma aðeins á 11 og 12 athugunartímum (af 94), en var yfirleitt á rúmlega þriðjungi þeirra á þessum árum. Það var helst febrúar sem skar sig út hina áttina. Það snjóaði allan daginn þann 22. maí, í frosti, síðasta snjókoma að vori í athugunum Lievog. Aftur var getið um snjókomu þann 21. september. Júní 1782 sker sig nokkuð úr öðrum júnímánuðum athuganasyrpunnar fyrir tíðni hvassviðra. 

Sveinn Pálsson hélt einfalda veðurdagbók þetta ár. Hann getur oftast um vindátt og einkennandi veður - en oft mjög stuttaralega þó, sérstaklega í janúar og desember. Hann segir frá ofsaveðri af suðvestri þann 30. janúar, væntanlega því sama og feykti kirkjunni á Eyri í Skutulsfirði. Hann segir frá stuttum hlákuköflum í febrúar og hörku í dymbilvikunni. Þann 2. apríl segir hann að ísinn hafi rekið að, en daginn eftir var sólskin, hiti og heiðríkt. Góður kafli kom í apríl, um þann 17. var sólskin og leysing á daginn, en hart frost á nóttum. Í maí var stöðug norðan- og norðaustanátt, hríð þann 8. og 9., og 22., en annars oftast sólskin á daginn, en „hel og frost á næturnar“. Þann 1. til 5. júní var vestanþíða með ýmist éljagarra eða skúrum. Þann 6. suðvestan og „blessaður hiti“, leysing og flóð þann 8. og 9., en síðan gekk til norðurs, fyrst hægur, en þann 11. heljar kuldi, 12., sama og 13. lítið betra og þ.14. sama veður. Síðan komu vestanáttardagar, með fínu veðri, blessuðu veðri, heíðríku og 18. suðvestan blessuðum hlýindum og sama þann 19. til 21. Þann 22. var hins vegar vestan ofvirði og reif hús, sama daginn eftir. Þann 27. gekk aftur í norður og 29. snjóaði í fjöll. Þann 1. júlí snjóaði. 

Í júlí fór Sveinn suður um heiðar, allt til Hafnarfjarðar. mest í suðvestanátt. Þann 17. er hann á leið norður aftur. Um mánaðamótin var norðanþoka. Í ágúst var aðallega norðanátt, nema 11. til 12., þá var hann á suðvestan. Þann 16. var norðan kafald, og síðan alls konar úrkoma. Hann getur um að 30 hollenskar duggur séu komnar á Siglufjörð, væntanlega hafa þær hrakist þangað undan ís (sjá annálana hér að neðan). Þann 8. september er suðvestan stórviðri og óvenjusandfok. Þ.13. er aftur kominn „norðan heljarkuldi“ og þann 16. til 19. „ýmist stormur, kuldi fjúk eða frost“. Fyrri helming október er stundum allgott veður og hláka, en síðan snýst í norðan, „ofboðs harður“ þann 20. til 25. 

Í nóvember er oft getið um blíðu, þann 1. til 5. heiðríkja með heljarfrosti, en síðan sunnan. Öríst varð 18. til 20. og 22. til 30. segir hann „alltaf sama blessað veður og hlýveður og stilling“. Á aðfangadag var fyrst fjúk, en svo góð hláka um kvöldið. Á jóladag var vestan harðviðri mesta - síðan snerist til norðurs og 30. var hreinviðri og sterkt frost. 

Við lítum á annálana, og röðum eftir árstíðum. Leyfum okkur að stytta lítillega, helstu endurtekningar (s - tölur benda á blaðsíðutöl - í misjöfnum bindum annálasafnsins. Stafsetningu er stundum hliðrað til (til að auðvelda yfirlestur). 

Vetur:

Vatnsfjarðarannáll yngsti [vetur]: Vetrarveðurátta frá nýári og fram á gói stórkafalda- og frostasöm, svo batnaði nokkuð um tíma, (s402) en harðindi aftur, þá fram á leið. Vorið var óstöðugt, með kafaldshríðum, sterkum frostum og allmiklum ísalögum yfir flesta firði fram til nesja. Ísafjarðardjúp mátti ríða út til miðs fram yfir páska [31. mars]. Fylgdu hér með hafísar miklir, einkum fyrir Ströndum, samt austan- og norðanlands, hvar ísarnir fyrst tóku að losna frá seinast í ágúst. Voru nú og síðla um veturinn og vorið allvíða stór harðindi og bjargræðisskortur manna á meðal og sér í lagi mikið hallæri í Múla- og Þingeyjarsýslum. ... Þann (s403) 31. [janúar] braut sterkur stormvindur kirkjuna að Eyri við Skutulsfjörð í grunn niður. Þann 12. apríl drukknaði maður, ... niður um ís á Reykjarfirði í Vatnsfjarðarsveit [prestþjónustubók segir 12. apríl]. Þann 19. maí, eður sjálfrar hvítasunnu kveld, annar maður ... ofan um ís í Mjóafirði í sömu sókn. [prestþjónustubók segir 15. maí].

Úr Djáknaannálum: [vetur]: g1. Stöðug veðrátta til þess í seinustu viku þorra [konudagur 24.febrúar], gjörði þá miklar fjúkhríðir, sem gengu öðruhvörju þar til vika var af einmánuði [vika af einmánuði 2.apríl], með skelfilegum frosthörkum svo víða varð vatnslaust, hvar elstu menn ei til mundu að þrotið hefði. Jörð sprakk mjög í sundur, einkum háir túnhólar svo koma mátti mannsfæti ofan í sprungurnar og sást til þeirra mörg ár eftir. Firði lagði mjög og meir en menn til mundu; lagnaðarís kom út í milli allra Breiðafjarðareyja, svo riðið varð fram í Flateyju; lagði og með landi allt út á Hellissand undir Jökli svo bágt var um sjóróðra. Álftir drápust hrönnum vestra við sjóinn. Jarðbönn á góunni nyrðra af spillingarblotum fram undir sumarmál. Vetur þessi var af nokkrum kallaður Frosti, meintu mann hann yfirganga að frostum Frostavetur 1772. Á góu, 16. mars, kom mikill hafís, sem ei sást út yfir, mundu menn það ekki, að sjór hefði eins þakinn verið af hafísi, bæði til hafs og innfjarða; lá hann fyrir Norðursýslu til höfuðdags. Þrisvar sinnum kom hann um sumarið að Eyrarbakka, svo á Michaelismessu [29. september] varð ei róið fyrir honum, fór hann þaðan með vetri. (s235) Milli þrettánda og kyndilmessu [2.febrúar] gjörði 2 skaðaveður; reif í öðru þeirra timburkirkju til grunna og fleygði í sjó niður á Eyri í Skutulsfirði ... (s240). Fyrir hafís komu ekki kaupförin til Húsavíkur né Skagastrandar, það síðara lagði út aftur frá Hólminum syðra. Akureyrar- og Hofsósskip komu vestan fyrir land. Undir veturnætur kom annað skip á Akureyri, (s241) ... Á Húnafirði varð ei skipgengt fyrir ísi fyrr en undir mitt sumar. (s 242).

Höskuldsstaðaannáll [vetur]: Skiptapi 9 manna vestur í Keflavík fyrir nýtt ár [21. desember 1781]. ... Veturinn 1782 var kaldur. Frá Knút [7.janúar] gengu oftast sterk frost til kyndilmessu og stundum fjúk, svo fraus fyrir vatnsból viða. Síðan linara veður til miðgóu (7. mars). Aftur sterk frost og stórhríð norðan í viku. Sást þá hafís fyrir. 17. mars sérlegur spillingarbloti af sunnan stórregni og strax norðanfjúk og síðan þau miklu frost jafnlega til 15. apríl. Frosta- og fjúkapáskar [páskadagur var 31. mars], svo óvíða var kirkna vitjað, enda rak þá ísinn að öllu Norðurlandi. Skip, sem fór með góss úr kaupstað, nefnilega Skutulsfjarðareyri, á þorranum, steytti um nótt á skeri ei langt frá landi með 6 mönnum. Fundust næsta dags eftir allir örendir af kulda og frosti, en skipið fast. (s586) Harðindi til sjós og lands þar norður á Sléttu og annarstaðar norður. Selatekjan brást, og ísinn lá þar við og fyrir Langanesi fram yfir höfuðdag [29.ágúst], svo skip komust engin þá leið á norðurhafnir. Þar til stórkostlegur grasbrestur um sumarið, svo fólk margt gekk frá af bjargarleysu. Ekkert skip kom í Húsavík, ekkert í Höfða, eitt á Akureyri, eitt í Hofsós fyrir vestan land og annað skip kom út að Akureyri nærri veturnóttum. ....

Viðauki Íslands Árbókar [vetur]: Gjörðist vetur mjög harður bæði norðan og austan lands, svo mikill peningur féll í Austfjörðum. Vorið var ei betra, því hafís kom um sumarmál (s103) fyrir allt Norður- og Austurland allt suður til Eyrarbakka, sem víðast lá við fram yfir höfuðsdag. Það má og teljast merkilegt, að danskir duggarar þóttust hafa merkt til íss 15 mílum [meir en 100 km] fyrir sunnan Ísland, hvar við vöruskipin hindruðust að uppsigla norðurhafnirnar, einkanlegast Húsavík og Skagaströnd, en flestar austurhafnirnar vöntuðu nokkur af þeim útsendu skipum. ...

Espihólsannáll [vetur]: Kaldur vetur norðan lands og hafísþök með góu. Losnaði ís fyrst um mitt sumar. Versnaði heldur en batnaði veðurátt eftir því sem voraði að. ... Svo var graslítið, að skepnur fylltu sig ei, þó einkum við sjóinn. Ekki óx heldur í sáðgörðum. Fjöldi var og drepinn af kúm. (Vetur kaldur og frostamikill. Vorið eins. Lá þá ís fyrir Norður- og Austurlandi fram á mitt sumar. Voru frost svo sífelld um sumarið, að fyrir norðan land voru 2 nætur frostlausar um hundadaga. Grasbrestur mesti. Haust hríðasamt. Þá drápu menn pening sinn af heyskorti. Vetur til jóla áfreðasamur). 

Viðaukar Espihólsannáls (1): Eins harða sumar- og hausttíð mundi enginn í Múlasýslu. Fennti þar á héraðinu bæði sauðfé og hesta um Michaelsmessu [29.september]. En á allraheilagramessu [1.nóvember] voru orðnar 7 innistöður í Jökulsárhlíð. (s229)

Ketilsstaðaannáll [vetur]: Vetur harður frá nýári til einmánaðar fyrir norðan land og austan. Hafís kom með gói og viðhélst fyrir Austfjörðum fram í september, hvers dæmi gamlir menn þar ei þóttust muna.

Vor:

Úr Djáknaannálum: [vor]: Eftir páska (sem voru fyrsta sunnudag í einmánuði, páskadagur var 31. mars) stilltist veðrátt með frostum og hreinviðrum til 15. apríl. Með sumri kom góður bati og leysti gadd af jörðu með hægviðrum, kólnaði aftur fyrir krossmessu [3.maí] með fjúki og frosti, var þá gengið af Reykjaströnd í Drangeyju. Norðanáttin hélst til fardaga [6.júní], brá þá veðráttu til sunnanáttar. ... Vorkuldarnir ollu sterklegu gróðurleysi, tók fyrst að grænka í fardögum, varð grasvöxtur hinn minnsti einhver í manna minnum, þó tók yfir grasleysið í Þingeyjarþingi, því á sumum bæjum þar fékkst ei nema kýrfóður; sumum vetrungsfóður og jafnvel minna. Tveir og þrír bæir hjálpuðust að að halda lífi í einni kú um veturinn eftir. Á 8 bæjum á Langanesi urðu ei hærð tún. Á Vestfjörðum gekk heyskapur vel, þó nokkur grasbrestur væri þar, var samt nýting heyja hin besta. Um haustið var mjög víða lógað kúm og lömbum nær öllum af heybresti. (s237) ... Í þeim mikla hafís, sem kom á þessu vori, var fjöldi dauðra hvala... .Harðindi til sjós og lands í Þingeyjarþingi, einkum á Sléttu. ... Um sumarið skáru sumir sauðkindur sér til bjargar og fólk tók um haustið upp að flosna. Á þorra og góu tók fólk við sjósíðu að deyja af bjargarleysi. (s237) ... Nóttina milli 13. og 14. janúar týndist skip á Ísafjarðardjúpi með 6 mönnum. (s239).

Höskuldsstaðaannáll [vor]: Vorið var þurrt og kalt, oftlega frost og alltíð norðanátt til fardaga [6.júní]. Þá grænkaði fyrst og kom sunnanátt. Um vorkrossmessu [3.maí] gengið af vestara landi í Drangey. Flest fé þar dautt. Ísinn rýmdist ei á Húnafirði, svo skipgengt væri fyrir hann, fyrr en í júlí, 11. eður 12. viku sumars [12. vika sumars byrjaði 11.júlí]. Fór Strandakaupmaður á íslensku skipi í 10. [mánaðamót júní/júlí] úr Höfða til Strandakaupstaðar, urðu af ísnum (s588) umkringdir, hétu fyrir sér í lífsháska komnir, sögðu happ þeir komust heilir til baka. ... Þrjár hollenskar fiskiduggur umkringdar af ís á Ísafirði, steyttu á skeri eður grynningum, að fortalað var. ...

Sumar:

Vatnsfjarðarannáll yngsti [sumar]: Sumarið var mjög kulda- og þurrkasamt og grasvöxtur í allra minnsta máta víðast hvar, svo að sumstaðar í Norðursýslu varð ekki borinn ljár í gras um sumarið, og sumstaðar lögðu menn saman að fá fyrir eina kú; þó var nýting á því sem heyjaðist, hin besta vegna sumarþurrkanna.

Úr Djáknaannálum [sumar]: Sumar þurrt með jafnaðarlegum næturfrostum svo að einar 2 nætur um hundadaga voru frostlausar. Hret kom um Jónsmessu og annað stærra 7. og 8. júlí; snjóaði þá ofan í byggð svo kýr og fé var hýst í 2 nætur fyrir norðan.

Höskuldsstaðaannáll [sumar]: Sumarið var þurrt og kalt, sérdeilis þá á leið. (Hret um Jónsmessu og aftur eftir þingmaríumessu [2.júlí]). Stórmikill grasbrestur yfir allt norðan lands, þó næsta misjafnt á bæjum í sveitunum.

Viðauki Íslands Árbókar [sumar]: Um sumarið var hinn mesti grasbrestur víðast um land, svo tún varla gáfu þriðjungstöðu að reikna mót meðalgrasári. Var því víða lógað miklum nautpeningi. ...

Ketilsstaðaannáll [sumar]: Þá var sumar svo kalt að einasta tvær nætur í hundadögunum voru frostlausar [neðanmáls: og 4. ágúst fraus nærri þumlungs þykkur ís á vatnspotti er úti stóð á Hofi í Vopnafirði b.v. ágrip], hvar af orsakaðist þvílíkur grasbrestur, að fólk fékk ei hálfar töður af túnum og enn minna af engjum, og um sláttinn tókst mönnum varla að brýna ljáina alloftast fyrir frosti á morgnanna. Slátturinn byrjaði þá ei heldur fyrr en í 16. viku sumars [8.ágúst]. Þann 19. september aðlagði með frost og snjóa [neðanmáls: og mátti fara að gefa kúm annað slagið 6 vikum fyrir vetur [um 15.september], b.v. ágrip].

Espólín [sumar]: Þá var grasbrestur mikill og hríðasamt, og drápu menn pening sinn; varð svo lítt sprottið í Þingeyjar þingi, að ekki urðu hærð tún á 8 bæjum á Langanesi; komust ei skip á hafnir fyrir ísum, og gengu sumir menn frá heimilum; er sagt: á því ári og hinu fyrra hafi dáið á 8 mánuðum 9 hundruð 80 og 9 menn. (s 35). Var vetur áfreðasamur til jóla ...  

Haust og vetur til áramóta:

Vatnsfjarðarannáll yngsti [haust og vetur til áramóta]: Haustveðráttan kuldasöm, með frostum og snjóhríðum á milli, sömuleiðis frá veturnóttum til nýárs mjög rosasamt, þó ei stórar jarðleysur. ...

Úr Djáknaannálum [haust og vetur til áramóta]: Haustið frostasamt með fjúkhríðum. Á Michaelismessu [29. september] var kominn hestís á læki og keldur. Kom á algjörlega með imbruviku [14. september] meir en mánuð fyrir vetur. Með nóvember gjörði góða hláku, síðan víðast bærilegt til jóla, gjörði þá útsynningssnjóa, sérdeilis vestra. Fyrir norðan féllu hross nokkur fyrir hirðingarleysi, líka syðra, en ei annar peningur, því hey voru allstaðar gnógleg og fyrntust. Útigangsfé drapst flest í Drangeyju.

Höskuldsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]: Haustið og svo kalt og frostasamt. Kom á með imbruviku meir en mánuði fyrir vetur. Það viðhélst, nema einn vikutíma var gott. Var víða lógað kúm og lömbum af heyleysi. ... Veturinn vægur eftir allraheilagramessu [1. nóvember] til jóla. Súld og óveður á jóladag, svo óvíða gaf til kirkna. ... Laugardaginn fyrsta í vetri, 26. október, hröktust (s589) fiskimenn fjórir á bát frá Þangskála á Skaga í suðvestanveðri. Kom norðanhríð með sunnudegi. Voru úti til mánudags. Bar bátinn með þá að Bæjarfjöru á Höfðaströnd. Var þeim hjálpað af manni þeim sem þá fyrst sá. Komust þrír lífs af, þó kalnir og skemmdir. (s590)

Viðauki Íslands Árbókar [haust og vetur til áramóta]: Haustið var mjög kalt og snjósamt, en batnaði þó með allraheilagramessu. (s104)

Ketilsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]: um Michaelsmessu [29. sept] kom svo mikið snjóveður, að fé fennti víða á útsveitum í Fljótsdalshéraði, hver harðindi viðhéldust fram eftir haustinu og það með svoddan frekju, að um allraheilagramessu hafði sauðfé bænda í Jökulsárhlíð, sem í norðanátt er einn veðurnæmur reitur, fengið 6 eða 7 innistöður. Þá fannst varla sá bóndi, sem ei svo fyrir norðan sem austan fækkaði kúm sínum um haustið. En úr því allraheilagramessa leið og fram til nýárs voru harðindin vægari. (s454)

Brotabrot úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1782:

Æddi góa einsog ljón,
ypti þungum nauðum,
þakti snjóum fjöll og frón
færði hungur sauðum.

Harðla þéttur hafís grár
hart fékk grandi ollað.
hann hefur þetta heila ár
hér við landið tollað.

Grasár lítið víða var,
vann ei ljár á jörðu,
góð þó nýting blíða bar
bót við fári hörðu.

Af skólabókum minnar kynslóðar var helst að ráða að harðindi hefðu hafist með Skaftáreldum, árin á undan hefðu verið allgóð. Vonandi sýnir þessi samantekt að svo var alls ekki. Árið 1782, árið áður en eldgosið mikla hófst, var eitt hið kaldasta sem við vitum um. Móðan færði landsmönnum öðruvísi vanda, mengun brennisteins og annarra eiturefna sem þar að auki var mest nærri gróandanum sjálfum. Við skulum greina þarna á milli. Það má líka hugsa til þess hvað hefði orðið hefði gosið verið í hámarki á vindatíð á vetri og mengun fokið burt og rignt niður. En við förum síðar - ef þrek ritstjóra hungurdiska endist - líka í gegnum veðurfar áranna 1783 og 1784 á þessum vettvangi. 

Annálarnir eru prentaðir í útgáfu Bókmenntafélagsins „Annálar 1400-1800“. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á meginhluta tilvitnaðs texta þeirra hér að ofan og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Eins og áður er getið vann Haraldur Jónsson í Gröf í Breiðuvík það afrek að lesa dagbækur Sveins Pálssonar - við margþökkum þá vinnu. Sem kunnugt er skrifaði Haraldur upp „ferðabók Sveins“ - þá sem út kom á sínum tíma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband