3.5.2022 | 01:39
Hugsað til ársins 1937
Árið 1937 var ekki ár mikilla tíðinda. Snjódýptarmet Reykjavíkur er þó frá þessu ári og menn minntust lengi óþurrka á Suður- og Vesturlandi þetta sumar, þó það félli síðar í skuggann af sumrunum 1955, 1983 og fleiri slíkum. Þrumuveður gerðu líka usla. Hæsti hiti ársins mældist 28,0 stig, í Möðrudal 25.júlí - en mælingin er ekki trúverðug. Mesta frostið mældist -27,3 stig, á Grímsstöðum á Fjöllum 18. mars. Sú mæling er trúverðug, sama dag mældist frostið á Akureyri -22,1 stig, óvenjulega mikið á þeim bæ - kannist nánar.
Janúar var umhleypingasamur og snjóþungt var með köflum, febrúar var talinn óhagstæður og ógæftir miklar. Í mars var hagstæð þurrviðratíð á Suður- og Vesturlandi, en nokkuð snjóþungt norðanlands og austan. Úrkoma var sérlega lítil víða um vestanvert landið, mældist ekki nema 0,3 mm á Hvanneyri, 1,2 mm í Síðumúla og 7,0 mm í Reykjavík, það næstminnsta sem vitað er um þar í þeim almanaksmánuði. Meðalloftþrýstingur mánaðarins var líka með hærra móti. Í apríl var tíð talin hagstæð en úrkomusöm, þá var hlýtt í veðri. Maí var talsvert óhagstæðari. Í júní töldu menn tíð óhagstæða gróðri, þó hlýtt væri í veðri. Júlí var votviðrasamur, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Votviðrin héldust fram í ágúst, en þá var tíð talin góð norðaustanlands. Votviðrasamt var líka í september. Október var órólegur, en tíð hagstæð á Norður- og Austurlandi. Nóvember og desember voru hagstæðir, jörð víða alauð síðari hluta desembermánaðar.
Við rifjum nú upp nokkra atburði með aðstoð blaðafregna og fleira.
Aðfaranótt 10.janúar sló eldingu niður í íbúðarhús á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd og olli miklu tjóni. Það var á öðrum bæ á ströndinni, Auðnum, sem eldingarslysið mikla varð í mars 1865 og lesa má um í pistli hungurdiska fyrir það ár.
Alþýðublaðið segir frá þann 11.janúar:
Í fyrra kvöld gerði afspyrnurok og hvassvíðri um Reykjanes og suðvesturströndina. Ekki hefir þó ennþá frést um nein alvarleg slys af völdum óveðursins. Um miðnætti í fyrrakvöld [9.] var ofviðrið einna snarpast í Vestmannaeyjum, eða 10 vindstig. Hér í Reykjavík var stormurinn 9 stig og 56 stiga hiti. Um kl. 2 í fyrrinótt gekk í suðvestan átt og voru mjög harðar hryðjur, Vindhraði var hér um það leyti 11 stig. Í gær var skaplegt veður, útsynningur, en í morgun gekk í suðaustan ofsaveður og er vindurinn 911 stig. Símabilanir hafa ekki orðið miklar, smáslit hér og þar, en víðast samband; þó er Suðurlandslínan slitin milli Núpsstaða og Skaftafells, á Skeiðarársandi. Það er því ekkert samband við Austfirði um Suðurlandslínuna.
Í fyrri nótt kl.2 laust niður eldingu í íbúðarhúsið á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Húsið er úr steinsteypu, eign Guðjóns Péturssonar. Fólk sakaði ekki, en nokkrar skemmdir urðu á útveggjum hússins og þaki. Inni brotnaði í mola útvarpstæki og skápur, er það stóð á, og allt lauslegt í því herbergi kastaðist til og brotnaði og þiljur sviðnuðu og gluggatjöld brunnu. Enginn maður svaf í því herbergi. Víðar á húsinu urðu meiri og minni skemmdir.
Morgunblaðið 12.janúar - lýsir afleiðingum eldingarinnar á Brunnastöðum:
Eiríkur Einarsson, maður héðan að sunnan, er var á ferð þarna snemma á sunnudagsmorgun, hefir gefið Morgunblaðinu lýsingu á því, hvernig umhorfs var þarna þá. Fer frásögn hans hér á eftir. Skemmdir voru miklar á þaki hússins og útvegg, þiljur brotnar og þakið gengið inn, þakrennan hafði fallið niður og brunnið í sundur. Veggir voru víða sviðnir og holaðir, eins og eftir byssukúlur.Inni í húsinu var eldavél og útvarpstæki sundurtætt og brotið. Í stórum skáp í eldhúsinu var veggurinn allur sviðinn, og leirtau allt og önnur áhöld meira og minna brotin, eða færð úr stað. Þá voru gluggatjöldin mjög sviðin, og margt skemmt af sóti. Seytján rúður voru brotnar í húsinu, en á tveimur öðrum gluggum voru karmar sundurtættir. Um átta manns var í húsinu, þegar eldingunni laust niður: Guðjón Pjetursson og kona hans Margrét Jónsdóttir, ljósmóðir ,ásamt dóttur þeirra og tengdasyni, með 4 börn. Er það mikil mildi að enginn skyldi meiðast. Er svo heppilega vildi til, að enginn svaf í þeim hluta hússins, sem verst varð úti.
Bandaríska endurgreiningin sýnir okkur aðstæður þrumuveðursins. Mikil lægð er á Grænlandshafi (giskað á 946 hPa í lægðarmiðju). Kortið gildir kl.6 á sunnudagsmorgni, 10. janúar. Skil hafa nokkrum klukkustundum áður farið yfir Vatnsleysuströnd og trúlega hefur þrumuveðrið gert í þann mund, frásagnir segja um kl.2. Þetta hefur verið myndarlegt þrumuveður því að 10 veðurstöðvar geta um þrumur þessa nótt. Níu þrumudagar voru í þessum mánuði.
Nokkrum dögum síðar dró aftur til tíðinda. Óvenjumikla óvenjumikla snjókomu gerði, sérstaklega suðvestanlands. Lítum fyrst á frásagnir blaðanna:
Nýja dagblaðið þriðjudag 19. janúar:
Síðan ég kom hingað til bæjarins fyrir rúmum þrjátíu árum, man ég ekki eftir að hafi komið eins mikill og jafnfallinn snjór hér í bæ og nú", sagði bæjarverkfræðingurinn við Nýja dagblaðið í gær. Það er líka álit margra manna annar a að vart hafi komið hér meiri snjór í manna minnum. Dálítill snjór var fyrir á sunnudaginn [17.janúar], þá var rigning um morguninn, en nokkru fyrir hádegi kom afamikil lognhríð og hélst óslitið fram undir miðnætti. Um kvöldið var kominn svo mikill lognsnjór, að til stórvandræða horfði um alla umferð innanbjar og utan. Var nær ófært 5 og 7 manna bifreiðum innanbæjar og því dæmi til þess að stórar bifreiðar væru teknar til innanbæjaraksturs. Gátu bifreiðastöðvarnar ekki fullnægt eftirspurninni og telja að ekki hafi nándar nærri svarað kostnaði að aka. Utanbæjar varð ófært minni bifreiðum, en strætisvögnum mun hafa tekist að halda uppi ferðum a.m.k. til Hafnarfjarðar fram til kl. 1 eftir miðnætti.
Í gær [18.janúar] unnu um 250 manns hér í bæ að snjómokstri og höfðu fjölda bifreiða til aðstoðar. Tókst að greiða fyrir umferð um aðalgöturnar og var bifreiðaumferð innanbæjar i sæmilegu lagi eftir því sem aðstæður voru til. Ófært var í gær að Lögbergi og situr þar tepptur einn strætisvagninn. Áætlunarbifreiðar komust ekki nema að Blikastöðum árdegis og að Grafarholti síðdegis. Til Hafnarfjarðar og eins suður með sjó" var fært allan daginn stórum vögnum.
Búist var við í gærkvöldi, að ef renningur yrði í nótt muni bifreiðar ekki komast til Hafnarfjarðar i dag eða yfirleitt út úr bænum. Virtist veðurspá benda til að svo myndi fara. En til eru allmargir, sem ekki kvarta undan snjóþyngslunum. Það er skíðafólkið. Fjöldi manns var á skíðum i gær. Kunnugir menn telja, að þegar snjóinn leysi, eða sérstaklega, ef rignir í snjóinn, þá muni hætt við skemmdum af vatni í húsum inni og eins á götum úti hér í bæ. Þessvegna virðist full ástða til að moka snjónum strax frá þeim stöðum, þar sem hætt er við slíku. Mikill snjór er nú austan fjalls" og öll bifreiðaumferð algerlega stöðvuð. Önnur umferð er erfið. Á Hellisheiði er geysi snjór og eins ofan við Lögberg. Snjóbifreið, sem fór frá Lögbergi að Kolviðarhóli var 9 klst á leiðinni Er lognsnjórinn svo mikill að heita má ófært.
Hláka á Norðausturlandi. Í gr [18.janúar] var austan hvassviðri og rigning með 45 stiga hita á Norðaustur- og Austurlandi. Snjór er þar litill og mun hafa minnkað til muna í gær. En allt útlit er fyrir að hér muni enn bæta á hinn mikla snjó. Samt var veður breytilegt sunnanlands í gær, sem sést best á því, að rigning var og slagviðri í gær hjá Sogi þótt hér væri stundum hríðarveður.
Alþýðublaðið 18.janúar:
Snjóþyngslin eru nú svo mikil hér í bænum, að þau hafa ekki orðið meiri á mörgum undanförnum árum. Í gærmorgun {17.janúar] var hér rigning, en um hádegisbilið byrjaði að snjóa og hlóð snjónum niður látlaust til kl. 11 í gærkveldi. Var þá komin svo mikil ófærð á götunum, að þær voru varla færar fyrir gangandi fólk eða bíla ,og varð fólk að vaða snjóinn á aðalgötunum jafnvel í mitt læri. Óvenjulegt var að sjá litlu húsin við Lindargötu með snjó i miðjar hliðar og bílana svo að segja kaffennta sums staðar.
Svo vill til að þó snjódýptarathuganir hafi verið gerðar reglulega í Reykjavík þennan mánuð er færsla þeirra í bækur eitthvað óregluleg. Með því að nýta heimildir í skeytafærslubók og annarri athugunarbók hefur þó tekist að ná gögnum saman fyrir allan mánuðinn.
Þegar litið er á veðurkort þessa daga koma ástæður þessarar miklu snjókomu í ljós:
Bandaríska endurgreiningin sýnir að mjög skörp en hægfara skil voru yfir landinu síðdegis sunnudaginn 17. janúar. Norðan skilanna var suðaustanátt, víða rigning og hláka, en sunnan þeirra og vestan var mjög mikill snjókoma í mjög hægum vindi - en aðeins á til þess að gera mjóu belti. Hægt er að tala um þessa stöðu sem sígilda. Svo virðist sem snjókomubeltið hafi verið það mjótt að lítið náði að snjóa vestan Hafnarfjarðar, en snjókoman náði hins vegar austur fyrir fjall. Á Úlfljótsvatni mældist snjódýptin mest 93 cm þann 20., en talsverður snjór var þar fyrir. Á Hvanneyri í Borgarfirði rigndi ýmist eða snjóaði, snjódýpt var ekki mæld þar, en athugunarmaður gefur til kynna að bleyta hafi verið í snjónum - og hann því væntanlega ekki eins fyrirferðarmikill og í Reykjavík. Austur í Hrunamannahreppi snjóaði ekki mjög mikið.
Snjódýpt var mæld allan mánuðinn í Reykjavík, en færð sitt á hvað í tvær bækur, skeytabók og síðan almenna athugunarbók, nokkuð mál var að púsla þessum færslum saman, en mælingarnar virðast þó vera sannfærandi þegar upp er staðið, og ber vel saman við þær lýsingar sem komu fram hér að ofan.
Alhvítt var í Reykjavík fyrstu 20 daga mánaðarins. Snjór var mikill fyrstu dagana, en minnkaði síðan áður en mesta snjókoman varð, var komin niður í 3 cm þann 11. Að kvöldi þess 20. gerði síðan afgerandi hláku og varð loks autt. Þann 15. fór að snjóa að ráði og að morgni 17. mældist snjódýptin 25 cm. Eitthvert hik hefur því miður verið á athugunarmanni þann 18. því 55 virðast hafa verið skrifaðir ofan í 45. Sé litið nánar á úrkomumælingar og veður virðist aðalsnjókoman hafa verið 16. og 17. Samfelld snjókoma hófst að kvöldi fyrri dagsins og stóð í u.þ.b. sólarhring. Eins og kom fram að ofan var snjódýptin 25 cm þann 17., síðan mældist úrkoman næsta sólarhring 24 mm.
Ekki er því ótrúlegt að 50 cm múrinn hafi verið rofinn strax þann 18. og 55 cm séu því rétt tala og met. En reyndar snjóaði dálítið, bæði síðari hluta dags 18. og 19. Vindur var fyrst fremur hægur af suðaustri, nærri skilunum, en síðan virðist mesti snjórinn hafa fallið í logni. Aðeins skóf síðari daga. Hiti var rétt við frostmark. Umferð nánast stöðvaðist og mjólkurskortur varð í bænum og í blöðum er talað um 50 til 60 cm jafnfallinn snjó.
Myndin sýnir snjódýpt í Reykjavík (þegar alhvítt var) frá 1. janúar til 5. maí 1937. Mikill snjór var tvisvar í janúar. Allmikill um tíma um og fyrir miðjan febrúar, fáeinir cm um tíma í mars, þó 15 cm einn dag. Föl var nokkra daga í apríl og síðast varð alhvítt 3. maí, en aðeins 1 cm.
Kortið sýnir veður að morgni mánudagsins 18.janúar - þá er enn suðaustanátt með hlýindum á Norðaustur- og Austurlandi en heldur farið að draga úr snjókomunni kuldamegin skilanna. Á Stórhöfða er norðanstrekkingur og -2 stiga frost. Lægðin sem á yfirlitskortinu hér að ofan var nokkuð fyrir sunnan land hefur nálgast - miðja hennar er skammt suður af Öræfum.
Nokkurn tíma tók að koma umferð á réttan kjöl eftir snjókomuna.
Nýja Dagblaðið 28.janúar:
Umferð yfir Hellisheiði, sem tepptist nær með öllu í síðustu snjóum, er nú hafin að nokkru attur. Hefir nú verið gert vel bílfært að Kolviðarhóli. Voru 28 menn við snjómokstur á veginum þangað í þrjá daga fyrir og eftir helgina [sunnudagur 23]. Þegar mokstrinum var lokið, fór umferð aftur að aukast yfir Hellisheiði. Á annað hundrað manns kom að austan yfir heiðina i fyrradag og að Kolviðarhóli. Snjóbifreiðar ganga þaðan og a Kambabrún. Flytja þær nokkuð af mjólk en mest mun flutt á sleðum. Öðrum bifreiðum er heiðin ófær. Þó komst litt hlaðin bifreið alla leið yfir heiðina nýlega. þræddi hún hina hörðu slóð snjóbifreiðanna. þótti þar vel hafa til tekist. Bifreiðasamgöngur, eru sæmilegar víðast um Suðurlandsundirlendið og upp á Kambabrún.
Í blaðinu hafði áður komið fram að lítið hafði snjóað vestan Hafnarfjarðar - og vegur til Keflavíkur ekki teppst að ráði.
Leysingar náðu til Austurlands og ollu flóði í Lagarfljóti:
Morgunblaðið segir frá skemmdum á Lagarfljótsbrúnni 29.janúar:
Lagarfljótsbrúin er nú ófær öllum farartækjum og jafnvel gangandi mönnum. Vegna aðstöðu verður aðgerð á brúnni ekki lokið fyrr en lækkar í f1jótinu, en gangfært verður yfir mjög fljótlega (segir í tilkynningu frá vegamálastjóra). Það var austasti stauraokinn undir brúnni, sem brotnaði á föstudagsnótt í óvenju miklum vatnavöxtum og ísreki og féll þá niður í fljótið annar endinn á gólfpallinum á austasta opinu, en hinn endinn situr á landstöplinum. Fljótið er þarna grynnst og venjulega þurr farvegurinn, og þessi oki er sá eini sem ekki er varinn með sterkum ísbrjót. Hefir það ekki komið að sök þau full 30 ár, sem brúin hefir staðið.
Síðustu helgi mánaðarins var blíðuveður sem notað var til skíðaiðkunar.
Morgunblaðið 2.febrúar:
Fjöldi bæjarbúa notaði góða veðrið til skíðaferða um helgina [31. janúar, sunnudagur], og er talið, að alls hafi 3-4 hundruð manns verið á skíðum á sunnudaginn, á Hellisheiði, í Bláfjöllum, í Skálafelli í Esju og víðar. Margt skíðafólk fór þegar á laugardaggkvöld og gisti í skíðaskálunum. Veður var dásamlegt á fjöllum, glampandi sólskin lengi dags og kyrrt veður, þó er sól enn svo lágt á lofti, að hún er ekki orðin verulega sterk, en þess verður ekki lengi að bíða og þá renna upp bestu dagar skíðamannsins, er hann kemur aftur kolbrúnn af sól í bæinn, eftir eins dags skíðaferð.
Snemma í febrúar urðu miklar símabilanir í ísingarveðri:
Morgunblaðið lýsir þeim 9.febrúar:
Samkvæmt fregn, sem póst- og símamálastjóra hefir borist frá umdæmisstjóranum í Seyðisfirði, hafa orðið allmiklar símabilanir af völdum ísinga á Austurlandi: Símalínur milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar féllu niður á löngu svæði á Sandvíkurheiði, eða af 44 staurum á svæði línumannsins á Hámundarstöðum, en fregnir voru ekki komnar um skemmdir Bakkafjarðarmegin. Sunnan í Búrfelli milli Vopnafjarðar og Fagradals, brotnuðu að minnsta kosti 3 staurar og línan milli Fagradals og Ketilsstaða féll niður á löngu svæði og Gönguskarðinu milli Unaóss og Njarðvíkur féllu niður línur á nokkru svæði. ... Í Króardal milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar féll línan niður af 1015 staurum. Er nú unnið að viðgerðum á öllum svæðum og hefir tekist að halda símasambandinu að mestu leyti nothæfu. Á aðfaranótt laugardagsins [6.febrúar] var einnig allmikil ísing á Suðurlandsundirlendinu og féllu niður Vestmannaeyjalínurnar á öllu svæðinu frá Hólum í Landeyjum að sæsímanum í Landeyjasandi, og varð á þann hátt talsímasambandslaust við Vestmannaeyjar á laugardaginn.
Hvassviðri olli vandræðum í Keflavíkurhöfn (rétt einu sinni) þann 26.febrúar og um svipað leyti féll snjóflóð vestur í Arnarfirði:
Morgunblaðið 26.febrúar:
Í nótt rak vélbátinn Höfrung á land í Keflavík. Brotnaði báturinn mjög á annarri síðu. Höfrungur var á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja með vörur, en hafði leitað til Keflavíkur undan óveðrinu. Magnús Guðmundsson skipasmiður úr Reykjavík var fenginn hingað suðureftir til að reyna að ná bátnum út. Austan rok hefir verið hér í þrjá sólarhringa og hefir veðrið ollið ýmsum smáskemmdum á bátum. Þegar rokið skall á á þriðjudaginn [23.] voru allir bátar á sjó. Er þeir komu að gátu þeir ekki landað aflanum fyrir óveðri og lögðust flestir undir Hafnargarðinn. En hafnargarðurinn er alltof lítill fyrir alla þá báta sem ganga frá Keflavík. Sex bátar fluttu sig þess vegna til Hafnarfjarðar og þrír inn á Voga. Í nótt lágu 1214 bátar við garðinn og skemmdust þeir allir meira eða minna, en enginn þó svo mikið, að draga þurfi á land. Austanrok er versta veður sem kemur í Keflavík.
Morgunblaðið hefur þann 27.febrúar eftir Fréttastofu útvarpsins:
Snjóflóð féll aðfaranótt fimmtudags [25.febrúar] á Álftamýri í Arnarfirði og reif þar burtu túngirðinguna á nokkru svæði, braut þakið af kúahlöðunni, tók þakið af fjósinu og fyllti fjóstóftina fönn. Kýrnar náðust þó lifandi, en tvö lömb, sem voru í fjósinu, voru dauð, er til þeirra náðist. (FÚ.).
Eins og áður sagði var mjög þurrt um vestanvert landið í mars, þráviðrasamt var og veðri misskipt á landinu.
Húsavík í mars (Benedikt Jónsson frá Auðnum):
Þótt sjaldan væru grimmdarveður og aldrei eiginlegar stórhríðar, þá var veðráttan þó mjög óhagstæð, umhleypingar og slitringshríðar og logndrífur á víxl. Allan mánuðinn að mestu haglaust um allt héraðið, meira vegna margfaldra áfreða en snjódýptar.
Reykjahlíð í mars (Gísli Pétursson):
Allan marsmánuð var fremur hæg veðurátta, óvenjulega margir logndagar. Snjókoma mikil og snjór var orðinn mjög mikill, þegar brá til suðaustanáttar og þíðu 29. mars. Sauðfé var beitt hér fleiri daga mánaðarins, en það var eini bærinn hér í sveit, sem beitt var á, og jafnvel í allri sýslunni. Frost varð oft mjög mikið hér og allmiklu hærra en útvarpað var sem mesta frosti á landinu og er það ekkert óvinalegt hér.
Reykjanesviti í mars (Jón Á. Guðmundsson):
Sérstaklega bjart og gott veður. Þó nokkuð kalt. Gæftir ágætar og afli sæmilegur í net og ef beitt var loðnu. En hún var mjög mikil, einkum hér í röstinni. Beit var sæmileg þó jörð væri þurr og frosin.
Óhöpp urðu á sjó um mánaðamótin mars/apríl: Þann 30. mars fórust tveir menn í lendingu á báti við Djúpavog og 1. apríl strandaði breskur togari við Stokkseyri, öll áhöfnin fórst.
Þó nokkra hríð gerði snemma í maí. Alhvítt varð víðsvegar um land, nema allrasyðst. Snjódýpt fór í 58 cm í Kjörvogi á Ströndum, en eitthvað af því munu hafa verið fyrningar úr fyrri mánuðum.
Kortið sýnir hríðarveðrið 3. maí. Frost og hríð um mestallt land. Þann 18. eða 19. maí fórst vélbátur frá Súðavík og með honum fjórir menn. Fleiri bátar lentu í vandræðum.
Lítilsháttar hafís kom að landinu í júní. Þann 28. var hann kominn að Selskeri í Húnaflóa og sá ekki út fyrir hann þar um slóðir.
Morgunblaðið 1. júlí:
Hafíshröngl er ennþá meðfram Ströndum og alla leið inn á Húnaflóa. Grynnri ísspöngin er, eftir því sem skipshafnir á síldveiðiskipum sem komu til Siglufjarðar, sögðu í gær, komin alla leið upp undir Gjögur, en siglingarleiðin er þó nokkurn veginn íslaus. Aðeins einstakir jakar hafa sést á þeirri leið.
Morgunblaðið 4.júlí:
Fréttaritar Morgunblaðsins á Siglufirði símaði í gær að bleytuhríð hefði verið á Siglufirði í gær og fjöll öll alhvít af snjó niður í miðjar hlíðar.
Blöðin á þessum árum voru full af síldveiðifréttum. Afkoma þjóðabúsins réðist mjög af árangri síldveiðanna. Þær voru aftur á móti talsvert háðar veðri. Bátar voru smáir og veiðar útilokaðar í strekkingsvindi eða meira.
Morgunblaðið 16.júlí:
Nóg síld virðist vera allstaðar fyrir Norðurlandi, en illviðri hamla stöðugt veiðum svo til stórvandræða horfir. Veiðiveður var slæmt á síldarmiðum í gærdag, norðaustan bræla og þokusúld. ... Til Siglufjarðar bárust alls um 8000 mál síldar frá því í fyrradag og þar til í gær. Var það afli 20 skipa sem öll höfðu verið að veiðum á Siglufirði. Hin stöðuga ótíð er farin að gera menn vondaufa um að síldveiði verði í meðallagi í ár, hvað þá fram yfir það.
Þurrir og góðir dagar komu um landið sunnan- og vestanvert fram eftir júlí, en heyþurrkar voru samt stopulir og sláttur hófst seint sökum slakrar sprettu.
Nokkrir góðir daga komu suðvestanlands í júlí - hér er lýsing á einum þeirra.
Morgunblaðið 24. júlí:
Aldrei á þessu sumri hefir verið slíkur mannfjöldi í sól og sjóböðum í Skerjafirði eins og í gærdag. Mestur hiti sem mældist í sjónum í Skerjafirði í gær, var 25 stig á Celsius. Var það í fjöruborðinu á aðfallinu. Langt úti í firði var sjávarhitinn 14 stig. Giskað er á að 600700 baðgestir hafi veríð í Skerjafirði í gær. Notið sjóinn og sólskinið.
Í lok júlí gerði miklar rigningar á Austfjörðum og Suðausturlandi. Selá í Geithellnahreppi braust fram og bar gjót og leir á stór svæði á engjum. Ár flóðu yfir bakka sína í Hornafirði og ollu heysköðum. Byrjað var að mæla úrkomu við Berufjörð árið 1873 og reyndist úrkoman í júlí 1937 sú mesta í þeim mánuði þar fram að þeim tíma, 256,1 mm, um fjórföld meðalúrkoma (eins og meðaltalið var þá). Síðan hefur úrkoma í júlí nokkrum sinnum mælst ámóta eða lítillega meiri.
Sumrin 1937 og 1938 voru gerðar mælingar í Hvítárnesi við Hvítárvatn. Þetta munu vera fyrstu formlegu mælingarnar sem gerðar voru í óbyggðum Íslands. Áður hafði þó verið athugað í heilan vetur á Jökulhálsi við Snæfellsjökul, 1932-33. Stöðin í Hvítárnesi var talin vera í 425 m hæð yfir sjó. Það er reyndar lægra en athugunarstöðin í Möðrudal. Hún er í um 450 metra hæð - en er auðvitað í byggð. Á þessum árum var skipulega verið að taka loftmyndir af hálendi Íslands vegna landmælinga og kortagerðar og var stöðin starfrækt vegna þessa. Athuganir voru sömuleiðis auknar á ýmsum stöðum öðrum í nágrenni hálendisins.
Árið 1937 var athugað 7. júní til og með 7. september. Fjórar athuganir á dag og sendar sem skeyti niður að Geysi þar sem þau voru símsend til Veðurstofunnar. Mestan hita mældi Jón 11. júlí, 18,4 stig, en -2,4 stiga frost aðfaranótt 4. júlí. Þann 11. júlí mældist einnig hæsti hiti sumarsins í Reykjavík, 20,4 stig. Ekkert frost mældist í Hvítárnesi frá upphafi mælinganna í júní til loka mánaðar og í ágúst var aðeins ein frostnótt, þann 19. Þá mældist frostið -1,0 stig. Ekkert frost mældist þá viku sem athugað var í september. Athuganirnar gerði Jón Jónsson, sá sem síðar varð fiskifræðingur og forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.
Í júlískýrslu sinni ritar Jón:
Fréttir eru héðan fáar, nema að hingað er stöðugur ferðamannastraumur, bæði útlendingar og innlendir ferðamenn. Skemmdir af völdum óveðurs hafa hér engar orðið nema ef helst skyldi telja að undanfarna daga hefi ég ekkert heyrt í Geysi vegna lofttruflana. En þetta lagast vonandi bráðum því síminn sendi hingað mann til þess að lagfæra þetta; annars hefur sambandið við Geysi alltaf verið í sæmilega góðu lagi. Annað er hér fátt að frétta; jörð er hér alauð og snjór að mestu farinn úr fjöllum. Úr skriðjöklinum hrynur jafnt og þétt, en seinni hluta mánaðarins hafa þó verið mjög fáir jakar á vatninu. Undanfarna daga hefur verið hér mikil rigning, svo mikill vöxtur hefur hlaupið í ár hér; Fúlakvísl hefur brotið af sér brúna, sem var sett á hana núna nýlega og flæðir nú töluvert yfir bakka sína. Vegur er nú kominn á Hveravelli og Ferðafélagið vígði veginn á sunnudaginn var. Fleira er nú ekki í fréttum að sinni. Kær kveðja - Jón.
Í ágústbyrjun eykst þungi rigningasumarsins:
Morgunblaðið 5. ágúst:
Til stórvandræða horfir víða í sveitum, einkum austan til á Suðurlandi, vegna hinna langvarandi óþurrka. Verst er ástandið í austurhluta Rangárvallasýslu (frá Hvolhreppi), í Vestur-Skaftafellssýslu og vesturhluta Austur-Skaftafellssýslu. Á öllu þessu svæði má segja að varla sé kominn baggi í hlöðu, og er nú komið fram í ágústmánuð. Sláttur byrjaði að þessu sinni nokkuð seint hér syðra, vegna þess að bændum þótti illa sprottið. En frá 20.25. júlí mun sláttur almennt hafa byrjað, en síðan hefir enginn þurrkdagur komið hér austan til á Suðurlandi. Liggur því taða bænda a á þessu svæði nú undir skemmdum, og sumstaðar er taðan svo hrakin, að hún er að verða ónýt sem fóður. Hér horfir því til stórvandræða. Verst er ástandið, eins og fyrr segir, í austurhlut a Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og vesturhluta Austur-Skaftafellssýslu. En ástandið er enganveginn gott hér vestan til á Suðurlandi, í Borgarfirði, á Vesturlandi og Norðurlandi, austur að Skagafirði. Þurrkdagar hafa verið fáir á þessu svæði og hey hrakist víða, og hirðingar ekki góðar. Og nú upp á síðkastið hafa engir góðir þurrkdagar komið á öllu þessu svæði, svo að þar er útlitið ekki gott, ef ekki breytir um til batnaðar hið skjótasta. Austan til á Norðurlandi (frá Skagafirði) og á Austurlandi hefir tíð verið góð undanfarið og sláttur gengið vel það sem af er.
Morgunblaðið 12. ágúst:
Mikill hluti af töðu bænda á öllu Suður- Suðvestur- og Vesturlandi liggur undir skemmdum, vegna hinna langvarandi óþurrka, sem gengið hafa að heita má óslitið síðan sláttur byrjaði. Eina uppstyttan, sem komið hefir var um síðustu helgi (8. ágúst), en hún stóð skamma stund, eða víðast hvar aðeins sunnudaginn. Á Suðvestur- og Vesturlandi kom rigningin aftur strax á mánudagsmorgun (9. ág.), hér austan fjalls upp úr hádegi, en í Skaftafellssýslu hélst að mestu þurrt allan mánudaginn. Uppstyttan gagnaði því Skaftfellingum ofurlítið betur, en þeir höfðu heldur ekki neinni tuggu náð inn áður.
Morgunblaðið 21. ágúst:
Bændur á óþurrkasvæðinu náðu inn miklu af heyjum á þriðjudag [17.] og miðvikudag, því að þá var víðast hvar sæmilegur þurrkur og sumstaðar ágætur. En þessir tveir þurrkdagar nægðu þó ekki til þess að ná inn öllu, sem losað var, enda var orðið feikna mikið úti af heyjum á öllu Suður- og Vesturlandi. Þessir tveir þerridagar löguðu þó mikið fyrir bændum á óþurrkasvæðinu, en útkoman á heyskapnum er og verður alltaf mjög slæm. Hey eru yfirleitt hrakin og léleg til fóðurs.
Morgunblaðið 26. ágúst:
Síðastliðinn sólarhring hefir verið vont veður og snjóað niður í miðjar hlíðar", símar fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði í gær. Ennfremur símar hann: Mörg skip leituðu hafnar vegna veðurs og sögðu mikinn sjó úti fyrir. Stöðva varð löndun á Siglufirði í nótt er leið vegna illveðurs, en byrjaði aftur á hádegi.
Í ágúst sendi Matthías Eggertsson veðurathugunarmaður í Grímsey svokölluð síldarskeyti til Siglufjarðar þrisvar á dag. Í þeim voru upplýsingar um veður, skipaferðir - og síld, ef hún sást. Upplýsingarnar voru lesnar í útvarp fyrir síldveiðiflotann (hvort það hefur verið í Ríkisútvarpið eða aðeins í gegnum loftskeytastöðina á Siglufirði veit ritstjóri hungurdiska ekki).
Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla segir af sumarmánuðunum tveimur 1937, júlí og ágúst. Aðfaranótt þess 4. júlí var köld, þá fraus víðar en í Síðumúla.
Júlí: Fyrstu dagar mánaðarins voru kaldir, sérílagi næturnar. Aðfaranótt þ. 4. sýndi lágmarksmælirinn 0,2 stig frost. Eftir það hlýnaði í veðri og grasið tók að spretta. Um miðjan mánuðinn byrjaði almennt sláttur hér í grennd, sumstaðar fyrr. (Grasspretta er í lakara lagi, en er að batna). Þá var um tíma sæmileg veðrátta, svo að hægt var að þurrka hey, en alla síðastliðna viku var þerrilaust og oft nokkur rigning. Aldrei tók svo af heyi að væri snúið flekk. Er því allstaðar úti, meira en vikuheyskapur í ljá og flötum flekkjum. Í dag (1.8.) er súld og rigning og ófært veður til að skemmta sér úti.
Ágúst: Allan ágústmánuð út var samfelld votviðratíð. Einir 3 dagar mánaðarins voru úrkomulausir. Eftir miðjan mánuð voru nokkra daga þurrkflæsur, þó með smáskúrum. Var þá víða náð inn nokkru af illa þurri hrakinni töðu. Síðan hefir ekkert náðst inn hér, en mikið úti af töðu og útheyi, föngum, sætum, flekkjum og ljá. Engjar eru orðnar dável sprottnar, en víðast flóandi í vatni. Háin er illa sprottin.
Dómar um ágústmánuð voru mjög ólíkir norðaustanlands og á Suðvesturlandi.
Fagridalur í Vopnafirði í ágúst (Oddný S. Wiium):
Tíðin afbragðsgóð og hagstæð bæði á sjó og landi.
Sámsstaðir í ágúst (Klemens Kr. Kristjánsson):
Mánuðurinn raka- og rigningasamur með óvenjuköldu tíðarfari. Svo að segja engir þerrar. Sólarlítið og hráslagalegt veður frá byrjun til enda mánaðarins. Olli þetta tíðarfar miklum skemmdum á heyjum. Töður hröktust mikið og allt annað. ... Tíðarfarið hið óhagstæðasta sem verið getur og ólíkt því sem elstu menn muna.
Í ágústlok kom mikil lægð að landinu úr suðri og olli hvassviðri víða um land og óhemjurigningu á Suðaustur- og Austurlandi. Tjón af skriðuföllum varð í Eskifirði og einnig mun í Norðfirði. Blaðafregnir greina frá:
Þjóðviljinn 3. september:
Á Austurlandi gerði aðfaranótt 1. þessa mánaðar stórrigningu af austri. Olli hún miklum vatnavöxtum, og féllu við það skriður úr fjöllum. Fréttaritari útvarpsins á
Eskifirði símar í dag: Í fyrri nótt gerði aftaka rigningu af austri og hélst hún fram á kvöld í gær. Þegar fram á daginn leið tóku að falla skriður úr Hólmatindi. Féllu 2 allstórar skriður um miðja Hólaströnd en gerðu ekki annað tjón en að stöðva umferð um veginn. Þriðja og mesta skriðan féll skammt fyrir innan fjarðarbotn á tún þeirra Kristjáns Tómassonar og Péturs Jónassonar og eyddi því að mestu en það er nýrækt, 60 hesta tún aðallega sáósléttur og þaksléttur. Huldust þær gjörsamlega aur og stórgrýti. Hólmamegin féllu úr tindinum að sunnan tvær skriður. Féll önnur þeirra vestan við svonefnda Illukeldu, og eyddi 120 metra breiðri engjaskák frá þjóðvegi og niður að nýrækt. Ennfremur kom hlaup í bæjarlækinn á Hólmum. Stöðvaðist það við brú á læknum og bar aur og leðju inn á túnið. Tókst að rjúfa brúna svo að lækurinn fékk framrás og urðu skemmdir minni en á horfðist í fyrstu.
Morgunblaðið 2. september - segir af rigningu í Norðfirði:
Óhemju rigningarveður hefir verið hér í dag, og urðu stórhlaup í öllum lækjum, sem orsakað hefir flóð í kauptúninu. Miklar skemmdir hafa orðið á vegum og matjurtagörðum af vatnsflóðunum. Uppfyllingar og brýr í Miðstræti sprengdi vatnið fram. Stór upphleðsla yfir Franskagil sprakk og rótaðist fram alla leið til sjávar. Meiri hluti gatna í bænum eru ófærar vegna flóða. Sumstaðar er hnédjúp aurbleyta. Stórhætta er á frekari skemmdum við Strandgötu, ef ekki styttir upp. Þá hafa orðið miklar skemmdir á túni Sigfúsar Sveinssonar, því flóð hefir borið aur yfir alt túnið. Flóðin hafa rifið upp kartöflur úr görðum og borið þær langar leiðir. Má víða sjá kartöflur á götunum. Sumstaðar barst aurleðja inn í kjallara á húsum, en unnið hefir verið að því að verja hús, með því- að veita flóðunum frá þeim. Á einum stað komst aurleðjan upp að gluggum á pakkhúsi, en þó tókst að verja húsið frá skemmdum, með því að moka frá húsinu og grafa nýja farvegi fyrir vatnið. Mest var rigningin klukkan 111, en fór heldur minnkandi, er leið á daginn.
Hvassviðrið olli allmiklu heyfoki á Suðurlandi. Kortið sýnir veðrið að morgni 1. september. Örin bendir á veðurathugunarstöðina í Hvítárnesi. Hlýtt er um landið suðvestanvert í austræningnum, en mikil rigning austan- og suðaustanlands. Lesa má úrkomutölur næturinnar, þær standa neðst til hægri við stöðina, eining heilir mm. Stækka má kortið.
Eins og fram kom hér að ofan aðstoðaði Veðurstofan loftmyndatökumenn sumarið 1937 með aukningu veðurathugana. En vegna úrkomutíðar gekk myndatakan ekki sérlega vel.
Morgunblaðið segir frá henni 12. september:
Starfi landmælingamannanna sem unnið hafa að því að taka myndir af hálendinu úr lofti, er lokið að þessu sinni. Var vonast eftir því, að hægt yrði á þessu sumri að ljúka myndatöku af þessum 20.000 ferkílómetrum, sem ómældir eru. En sífeld dimmviðri og ótíð hafa valdið því, að þetta tókst ekki, enda þótt flugmennirnir hafi notað hverja stund sem hægt var til myndatöku-flugsins.
Þann 14. október ræðir Morgunblaðið við Klemens á Sámsstöðum um kornrækt sumarsins:
Blaðið hefir átt tal við Klemens Kristjánsson tilraunastjóra á Sámsstöðum, og spurði hann hvernig uppskera hans hefði orðið í haust. Það er alt á góðri leið núna, sagði Klemens, ég er búinn að fá alt kornið í stakka. Hve mikla kornuppskeru býst þú við að fá í haust? Einar 7080 tunnur. Meira verður það ekki, því kornið spillist svo mikið í ofviðrinu 31. ágúst. Hvernig þroskuðust korntegundirnar í sumar? Þær þroskuðust allar, þó þetta væri hið kaldasta, úrfellasamasta og sólarminnsta sumar, síðan ég byrjaði á kornræktartilraunum árið 1923 En samt náði kornið fullum þroska? Já, bæði tvíraðaða byggið, hafrarnir og rúgurinn, að ógleymdu sexraðaða bygginu, sem alltaf er mín aðal-korntegund. Hve mikið færð þú af rúgi? Ég hafði rúg í einni dagsláttu, en fæ ekki nema þrjár tunnur, vegna þess .hve sumarið var slæmt. Og grasfræið? Það var með minna móti vegna kuldanna og votviðranna, en það þroskaðist.
Seint í september varð annað alvarlegt eldingaratvik.
Morgunblaðið segir af því þann 15.október:
Eldingu laust niður hjá bænum Lunansholti á Landi þann 29. fyrra mánaðar [september]. Drap eldingin tvær kindur og reif upp þúfu, sem hún lenti í. Maður, sem úti var er eldingunni laust niður, féll við loftþrýstinginn, en bærinn lék á reiðiskjálfi Eldingunni laust niður að morgni dags fyrrnefndan dag. Gengu þá snarpar hryðjuskúrir úr suðri og útsuðri með þrumum. Ein þruman var fáum þrumum lík einna líkust geysisterkri fallbyssudrunu, sem hjaðnar allt í einu. Með þessari þrumu kom eldingin. Bóndinn í Lunansholti var staddur úti við bæ og féll hann á hné af loftþrýstingnum, eins og fyrr er sagt, og kenndi á eftir undarlegs svima. Kindurnar, sem drápust er eldingunni laust á þær, voru ær með lambi sínu. Eldingunni hafði lostið í ána og sviðið alla ull af hrygglengjunni, en lambið hitti hún fyrir framan bóg og einkum þó á höfuðið. Ullin, sem sviðnað hafði af eldingunni, var blásvört að lit. (Samkv. Fréttastofu Útvarps;)
Veðurkort bandarísku endurgreiningarinnar sýnir stöðuna í háloftunum eldingadaginn 29. september. Mikil og köld háloftalægð er skammt vestan við land og skilyrði til þrumuklakkamyndunar ákjósanleg.
Talsvert illviðri gerði 16. til 17. október með minniháttar tjóni:
Morgunblaðið segir frá þann 19. október:
Um helgina gerði suðvestan storm um alt Suðvestur- og Austurland. Veðurhæð var þó hvergi meiri en 10 vindstig hér sunnan lands t.d. í Vestmannaeyjum. Veður tók að hvessa hér aðfaranótt sunnudags [17.] og var vindur fyrst suðaustlægur, en gekk síðan til vesturs. Stormsins gætti lítið sem ekkert á Norðurlandi, en eftir upplýsingum Veðurstofunnar náði hvassviðrið alla leið milli íslands og Noregs og til Hjaltlandseyja. Ekki hefir frést af neinu verulegu tjóni, sem orsakast hafi af veðrinu beinlínis. Á sunnudagsmorgun voru menn farnir að óttast um tvo báta. Línuveiðarinn Fjölnir var á leið frá Þingeyri með farþega til Reykjavíkur. Hann lá af sér mesta veðrið við Sand á Snæfellsnesi. Vélbáturinn Víðir" frá Vestmannaeyjum var á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja. Hann komst til Njarðvíkur og var þar meðan versta veðrið stóð yfir. Tvö farþegaskip, Lyra" og Dronning Alexandrine" voru á leið til landsins og töfðust þau bæði vegna veðurs. Dronning Alexanddrine" lá til drifs í sólarhring. Sjór kom á skipið, sem beygði bátsuglur og braut björgunarbáta. Skipið kom í gærmorgun til Vestmannaeyja og var væntanlegt hingað snemma í morgun. Lyru seinkaði einnig um sólarhring og er væntanleg hingað í dag. Hér í Reykjavíkurhöfn urðu dálitlar skemmdir á vélbátum sem slógust saman í rokinu, þar sem þeir voru bundnir við bryggju.
Eins og þegar er fram komið var tíð hagstæð í nóvember og desember og fékk góða dóma veðurathugunarmanna.
Ingibjörg í Síðumúla segir frá nóvembermánuði:
Í nóvembermánuði hefir verið einmunagóð tíð, stilt og mild og hin ákjósanlegasta. Jörð er kalla má auð. Skaflar aðeins í giljum og djúpum lautum. Bílar ganga enn hiklaust milli Borgarness og Sauðárkróks. Hross og fé gengur sjálfala núna, en hefir verið hýst, svo sem vikutíma.
Hér eru tvö dæmi um desemberdóma:
Hamraendar í Dölum í desember (Guðmundur Baldvinsson):
Desembermánuður hefur verið óvenju góður, hlýindi og fremur úrkomulítið. Um miðjan mánuð gjörði töluvert frost, en það hélst aðeins stuttan tíma. Enn er töluverður gróður frá liðnu sumri. Þetta er sá besti desember sem fullaldra menn þykjast muna.
Reykjahlíð við Mývatn í desember (Gísli Pétursson):
Desember-mánuður var með afbrigðum góður svo elstu menn muna varla annað eins.
Enn höfðu menn áhyggjur af hafís:
Morgunblaðið segir 1. desember:
Talsverður hafíshroði er 12 sjómílur út af Deild, Stigahlíðarhorni. Í gr var vélbáturinn Kveldúlfur", frá Hnífsdal á þessum slóðum, en gat ekki lagt allar lóðir sínar sökum íss. Skipverjar sáu marga togara halda til lands frá djúpmiðum. Afli hefir verið góður hér við Djúp undanfarið og tíðarfar ágætt.
Þann 17. fauk af kirkju í Ólafsvík, stúlka lá úti á Fróðárheiði, en bjargaðist, á aðfangadag lentu bátar úr Höfnum í hrakningum og á jólanóttina strandaði breskur togari við Gerðar, mannbjörg varð.
Hér lýkur þessari lauslegu yfirferð hungurdiska um árið 1937 - tölur má finna í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:50 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 16
- Sl. sólarhring: 274
- Sl. viku: 2395
- Frá upphafi: 2434837
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 2122
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Sæll Trausti 'eg var að hugsa hvort hægt væri að sjá hvernig veður var aftur í tímann t.d í Hafnarfirði 17 apr. 1955 eða í Grundarfirði í júlí 2016 osv.frv.
Með bestu kveðju Sigríður Diljá
Nýjubúð Eyrarveit
Sigríður Diljá (IP-tala skráð) 6.5.2022 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.