3.4.2022 | 15:15
Hugsað til ársins 1934
Hér lítum við á fáeina eftirminnilega veðuratburði ársins 1934. Einn þeirra stendur nokkuð upp úr, mikið norðanillviðri sem gerði fyrsta dag vetrar um haustið. Olli það miklu tjóni. Langmest fer fyrir því í þessari upprifjun.
Þetta ár varð einnig eftirminnileg jarðvá. Þann 23. mars varð vart við vöxt í Skeiðará, hlaup í henni náði hámarki um viku síðar. Allmikið eldgos varð þá í Grímsvötnum, hófst það 30.mars en stóð ekki lengi, líklega aðeins fáeina daga. Um miðjan apríl varð nokkur vöxtur, óskýrður, í Jökulsá á Fjöllum.
Alþýðublaðið segir frá 18.apríl:
Vegna lausafregna, sem borist höfðu um jökulhlaup í Jökulsá á Fjöllum, átti útvarpið tal við Grímsstaði. Var sagt, að dálítill vöxtur hefði verið í ánni undanfarið, og væri það að vísu óvenjulegt á þessum tíma árs, en ekki hefði orðið vart við neinn jakaburð.
Mikill jarðskjálfti varð við Eyjafjörð 2. júní. Er hann langoftast kenndur við Dalvík þar sem tjón af hans völdum varð mest. Jarðskjálftahrinan stóð um nokkurn tíma og varð eftirskjálfti 5. júlí einna öflugastur og olli viðbótartjóni.
Tíð var talin fremur óhagstæð á árinu 1934, en ekki samfellt, framan af hallaði nokkuð á landið suðvestanvert, en síðan var tíð óhagstæðari um landið norðaustanvert. Árið byrjaði með hagstæðu tíðarfari austanlands, en óstöðugu og úrkomusömu um landið vestanvert. Hrakviðrin héldu áfram í febrúar og gæftir voru stopular. Mars þótti allgóður, en talsverður snjór var þó með köflum. Apríl var hagstæður framan af en síðan gerði snjóa og verri tíð um tíma. Óstöðug tíð var í maí. Júní var tvískiptur, hagstæður framan af, en síðan gerði kuldakast. Óþerrar voru vestanlands fram eftir júlí, en undir lokin brá til rigninga á Norðausturlandi. Þó var hlýtt í veðri. Ágúst var hlýr suðvestanlands, en votviðrasamt var, sérstaklega á Norður og Austurlandi. Svipað var í september. Október þótti lengst af hagstæður um landið sunnanvert, en óhagstæður nyrðra. Nóvember þótti óhagstæður, en desember var hins vegar góður og hlýr, jafnvel talinn sá hagstæðasti í manna minnum.
Þegar litið er á frásagnir af tjóni og vandræðum vegna veðurs á árinu vekur athygli að þær greina mjög margar frá flóðum af ýmsu tagi, bæði í ám og vegna sjávargangs. Í febrúar urðu mikil flóð í hlýindum og leysingum, fyrst snemma í mánuðinum og síðan aftur um hann miðjan.
Skriðuföll urðu í Hvalfirði, Lundareykjadal og víðar. Þjórsá flæddi yfir Skeiðin og Eystri-Rangá og Stóra-Laxá rufu vegi við brýr. Einnig flæddi í Héraðsvötnum og Skjálfandafljóti samfara jakahlaupi. Fljótið flæmdist yfir láglendið og sópaði burt smábrúm, girðingum og flóðgörðum. Klakastífla í Þjórsá beindi ánni yfir Skeiðin og olli flóðið nokkrum sköðum. Þann 4. febrúar féllu fimm aurskriður á Gullberastöðum í Lundareykjadal, tvær féllu á túnið og eyðilögðu stóran hluta af því.
Kortið sýnir dæmigerða háloftastöðu í fyrstu viku febrúar. Mjög hlýr suðvestlægður loftstraumur leikur um landið með mikilli úrkomu um landið sunnan- og vestanvert.
Alþýðublaðið segir 5. febrúar frá miklum vexti í Skjálfandafljóti:
Ystafelli í gær. Hlákur miklar hafa verið á Norðurlandi undarafarið. Vatnsflóð hafa orðið í ám og valdið smáskemmdum. Á föstudagsmorguninn gerði jakahlaup í Skjálfandafljót og skemmdi ferjur í Bárðardal, en aðrar týndust. Jakastíflu gerði norðan Kinnarfells, og flæddi um láglendið milli fjalla. Ferðamenn urðu fyrir miklum hrakningum. Smábrýr flutu burt í flóðinu og vegir urðu undir jakahrönnum, girðingar og flóðgarðar sópuðust burt og hey blotnuðu. Í dag er fljótið að ryðja sig til sjávar og flóðið að dvína.
Alþýðublaðið 27. febrúar 1934.
Sunnudaginn 4. þ.m. var aftaka veður af stormi og regni (fréttin rituð á Stóra-Kroppi í Borgarfirði). Þann dag féllu fimm skriður á land jarðarinnar Gullberastaða í Lundarreykjadal. Þess var getið í útvarpsfréttum í sumar, að þar féll skriða á túnið 7. september [1933]. Sú skriða féll um endilangt túnið og flæddi yfir nær því tíu dagsláttur. Nú féllu tvær skriður á túnið og steyptust þær fram af beggja megin við íbúðarhúsið, og er nú á annað hundrað hesta völlur að túninu hulinn stórgrýti, sandi og mold. Skriður þær, er féllu utan túns, skemmdu einnig talsvert.
Um miðjan mánuðinn urðu skemmdir vegna flóða á Suðurlandi og í Húnavatnssýslum. Ölfusá flæddi yfir Skeiðin, hlaup kom í Varmá í Ölfusi og braut hún stíflu og Hvítárbrú við Brúarhlöð skemmdist allmikið. Flóð urðu einnig í Vatnsdalsá og Miðfjarðará.
Morgunblaðið segir frá flóðum á Suðurlandi í 17.febrúar:
Í hlákunni og hlýindunum á fimmtudag [15. febrúar] kom enn feikna vöxtur í allar ár hér á Suðurlandi og í Borgarfirði. Í vatnavöxtunum á dögunum sópaði Eystri-Rangá burtu uppfyllingunni vestan brúarinnar, svo að samgöngur tepptust þar nokkra daga. Var svo sett ný uppfylling í skarðið. Á fimmtudag var flóðið í Eystri-Rangá orðið enn meira en á dögunum og sópaðist þá aftur burtu uppfyllingin vestan brúarinnar. Þykir mönnum flóð þessi í Eystri-Rangá undarlega, því slík flóð hafa aldrei sem vitað sé komið í þá á áður. Samgöngur teppast nú aftur austur, en byrjað verður strax að lagfæra skemmdirnar. ...
Mikill vöxtur kom einnig í stórvötnin í Rangárvallasýslu, Þverá, Affall, Ála og Markarfljót, en ekki urðu skemmdir þar á mannvirkjum. Síðdegis í gær barst sú fregn að austan að Þverá hefði flætt vestur yfir Safamýri, neðan við Bjóluhverfið. Var þar einn hafsjór yfir að líta og má búast við að áin geri þarna mikinn usla.
Í allan gærdag var Ölfusá í örum vexti - hækkaði vatnsborðið jafnt og þétt sem svarar 6 þumlungum á klukkutíma. Um miðjan dag í gær var áin farin að flæða upp á grasflötinn við Tryggvaskála. Og kl.8 í gærkvöldi var vatnið komið upp að íbúðarhúsinu og var enn vöxtur í ánni. ...
Uppi á Skeiðum flóði alt í vatni. Í gærkvöldi var flóðið orðið svo mikið hjá Húsatóftum að vatnsborðið var aðeins 1/2 alin lægra en í flóðinu mikla 1930. Fólkið a bæjum þeim, sem lágt standa, var í óða önn í gær að bjarga skepnum undan flóðinu. Síðdegis í gær var róið á bát frá Útverkum á Skeiðum og fram í Ólafsvíkurhverfi [svo í blaðinu]. Mikið tjón var orðið á heyjum á nokkrum bæjum á Skeiðum.
Í Borgarfirði. Þar urðu feikna vatnavextir. Vegir voru víða í kafi og hætt við að skemmdir hafi orðið talsverðar. ... Brýr stóðu allar þegar síðast fréttist, en samgöngur tepptar víða um Borgarfjörð vegna flóðsins. Aðfaranótt föstudags gerði geysimikla vatnavexti í V-Húnavatnssýslu, hafði þar verið stórrigning allan fimmtudaginn. Helstu skemmdir sem blaðið hefur frétt að orðið hafi af vatnavöxtum þessum var það að Miðfjarðará sópaði burtu nokkrum símastaurum á austurbakka árinnar gegnt Melstað. Flæddi áin þar í gær yfir allar eyrar og láglendi og varð eigi hægt að koma símasambandi yfir flóðið. Er blaðið átti tal við Borðeyri í gærkvöldi var sagt að þurfa myndi ferjubát frá Hvammstanga til þess að geta komið bráðabirgða símasambandi á línunni. ...
Morgunblaðið sunnudag 18. febrúar greinir frá vatnavöxtum í Austur-Húnavatnssýslu og í Ölfusi:
(Eftir viðtali við Blönduós á laugardag). Svo mikil flóð voru í öllum ám í Austur-Húnavatnssýslu aðfaranótt föstudags og föstudag, að eigi þekkja menn dæmi til slíks áður. Vatnsdalsá flóði yfir alt láglendi í dalnum og mun hafa gert miklar skemmdir á engjagörðum. Svo mikið var flóðið kringum Hnausa að flæddi um túnið nærri alt og stóð bærinn á litlum hólma, en fjárhús voru umflotin á öðrum hólnum í túninu. Allmikil steinsteypubrú á svonefndu Árfari á þjóðveginum rétt austan við Hnausa, sporðreistist niður í hyl, er flóðið gróf undan öðrum enda brúarinnar. Á engjunum norðan við Hnausa mun flóðið hafa orðið l2 metrar á dýpt, svo mikill hluti heyja, sem þar var sett í heystæði mun hafa eyðilagst. Sáust aðeins kollar heyjanna upp úr flóðinu. Brýr flæddu af lækjum í Vatnsdal. Blanda hefir vart sést meiri en í þetta sinn. Í stórrigningum þeim, sem verið hafa þar nyrðra undanfarið, hafa fjárhús mjög lekið, en fé sýkst af vosbúð, fengið lungnapest og margt drepist. Á Beinakeldu t. d. voru 38 kindur dauðar í gær úr lungnapestinni.
Rafstöðvarstíflan í Varmá í Ölfusi bilar. Aðfaranótt föstudags [16.] kom mikið flóð í Varmá í Ölfusi. Braut flóðið rafstöðvarstífluna hjá Reykjum. Stöðvuðust rafmagnsvélarnar og varð ljós- og rafmagnslaust í mjólkurbúi Ölfusinga, Reykjahæli og öðrum húsum þar í nágrenninu, sem rafmagn fá frá stöðinni. Reynt verður að lagfæra stífluna til bráðabirgða, svo að vélarnar komist aftur í gang.
Morgunblaðið segir enn af flóðum á Suðurlandi í pistli 23. febrúar:
Í mikla vatnsflóðinu er gerði í Hvítá á fimmtudag [15.] og föstudag s.l. tók af nokkurn hluta Hvítárbrúar [við Brúarhlöð] og há vegarfylling beggja megin brúarinnar skolaðist burtu. Hvítárbrúin var um 50 metrar á lengd, aðalbrúin um 20 metra löng yfir gljúfrið sjálft og við vesturenda hennar 30 metra löng brú á 5 stöplum, nær 4 metra háum á klöppinni, sem er þurr nema í stórflóðum. Flóð þetta hefir þarna farið alt að því 2 metrum hærra en mikla flóðið í mars 1930, sem talið er almesta flóð, er vitanlegt var um. Hefir nú að því er virðist á ýmsum ummerkjum, mikil skógartorfa skriðið niður í ána nokkru ofar, og stöðvast við brúna ásamt ísreki, og svipt burtu landbrúnni, ásamt stöplunum undir henni og sópað í gljúfrið. Hefir vatnið gengið um 1 m yfir gólf brúarinnar, en aðalbrúin stendur enn óhögguð Árið 1907 var byggð trébrú um 17 metra löng yfir gljúfrið og stóð hún óhögguð þar til mikla flóðið í mars 1930 svipti henni af. Var þá byggð járnbrú sú, er nú hefir skemmst, nokkru ofar og hæð hennar miðuð við, að hún væri vel örugg í slíku flóði, og gerð þrefalt lengri en gamla brúin. Þrátt fyrir það hefir vatnsrúm brúarinnar og hæð reynst of lítið, en sjálfsagt hefir orðið einhver stífla um brúna, sem þá hefir látið undan, en sjónarvottar eru engir að skemmdum þessum og glöggar fregnir þaðan bárust ekki fyrr en í gær miðvikudag er vegamálastjóri sendi á vettvang til skoðunar. Ófært er nú yfir þarna nema gangandi mönnum og verður þar til aðgerð hefir farið fram, sem má vænta að verði ekki fyrr en snemma sumars.
Á sumardaginn fyrsta gerði allmikinn hríðarbyl, fyrst suðvestanlands en síðar víðar á landinu. Alhvítt varð víða í marga daga og snjódýpt 10 til 30 cm, Þá lentu bátar úr Grindavík í hrakningum, en betur fór en á horfðist.
Miklar leysingar urðu fyrstu dagana í júní og þá varð mikið flóð í Héraðsvötnum í Skagafirði og skriður féllu á Vestfjörðum, m.a. í Eyrarhlíð á Ísafirði.
Skriðuföll urðu í miklum úrkomum í Vatnsdal í júlí (28.) og í ágúst (19.) braust Klifandi í Mýrdal úr farvegi sínum og undir lok mánaðar varð flóð í Breiðá vestan Breiðamerkursands.
Siglufjörður kom mjög við sögu í september og október. Mikið var um að vera í firðinum á þessum árum og líklega hefur verið lítið gert ráð fyrir ágangi náttúrunnar í skipulags- og athafnamálum. Þann 3. september urðu þar skriðuföll, en tjón varð ekki mikið. Þann 18. september gerði mikið norðanveður. Víða varð tjón. Á Siglufirði brotnaði bryggja og önnur á Húsavík, nokkrir bátar sködduðust. Símslit urðu víða norðanlands og hey fuku. Fé fennti víða, en furðulítið drapst. Samgöngur tepptust á fjallvegum. Hvítt varð sumstaðar niður í byggð fyrir norðan og norðan til á Vestfjörðum. Maður varð úti í Húnavatnssýslu. Þann 20. varð svo mikið flóð í Héraðsvötnum í kjölfar hríðarinnar dagana áður að talsverðir heyskaðar urðu.
Morgunblaðið segir frá þann 20.september:
Í gær var norðan stórviðri á Siglufirði. Um morguninn brotnaði bryggjan á Bakka, sem er ysta stöðin við fjörðinn, nú eign Kaupfélags Eyfirðinga. Var unnið að því í gær, að reyna að bjarga staurum og ýmsu braki úr bryggjunni, til þess að það ræki ekki á bryggjurnar niðri á eyrinni og bryti þær. Tókst að varna frekara tjóni, en bryggjan á Bakka er talin gereyðilögð.
Og Vísir þann 23. september:
Í óveðrinu 19. og 20. þ.m. fennti fé í Skagafirði, og hefir margt drepist. Réttir eru byrjaðar, en ganga erfiðlega. Óveðrið olli einnig skemmdum á símanum í Skagafirði. Fimm staurar brotnuðu og símþræðir slitnuðu. Heyskemmdir. Hey, sem voru orðin þurr, skemmdust lítið í óveðrinu, enda voru þau að mestu í sátum. Mikið er enn úti af heyjum, bæði seinni sláttur á túnum, og úthey.
Um miðjan október (14.) urðu fokskaðar bæði á Ísafirði (þar eyðilögðust m.a. þrír bátar) og Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Nokkrum dögum síðar, þ.17. gekk mikil vindhviða yfir Hólmavík og ris reif þar af húsi í byggingu og bát sleit upp. Mjög hlýtt varð um miðjan október og fór hiti á Teigarhorni mest í 18,2 stig. Ekki er ólíklegt að hið þétta stöðvakerfi nútímans hefði skráð hærri tölur.
Langmesta skaðaveður ársins gerði í kringum fyrsta vetrardag, 27.október. Aðaltjónið varð af völdum brims og sjávarganga á Norðurlandi, en einnig urðu fjárskaðar og manntjón og slys urðu vegna snjóflóða. Við leyfum okkur hér að fara nokkuð nákvæmlega yfir þetta veður. Aðdragandi þess minnir að mörgu leyti á fleiri ámóta skaðaveður, t.d. veðrið sem olli snjóflóðinu mikla á Flateyri í október 1995 og bar upp á nærri því sömu almanaksdaga.
Morgunblaðið var með hvað ítarlegastar fréttir af veðrinu og við tökum því flest úr því - styttum aðeins lítillega þar sem um hreinar endurtekningar er að ræða. Blaðið lætur þess getið að flest fréttaskeytin sem það birtir séu frá fréttastofu útvarpsins - reyndar nær allar nema þær sem merktar eru sem einkaskeyti til Morgunblaðsins. Sumar útvarpsfréttanna birtust í öðrum blöðum með nákvæmlega sama orðalagi. Við byrjum yfirferðina á þessum fréttum, síðan kemur kafli með veðurlýsingu Veðurstofunnar og fáeinum kortum úr fórum bandarísku endurgreiningarinnar og þrýstiathugunum sem gera okkur mögulegt að bera styrk veðursins saman við önnur veður.
Morgunblaðið segir frá sunnudaginn 28. október 1934:
Ofsaveður gerði hér um land allt í gær af norðri. Olli því stormsveipur er barst yfir landið austan úr hafi, sami sveipurinn er orsakaði fárviðri á Noregsströnd dagana áður. ... Eftir þeim fregnum sem fengust í gær, mun tjón hafa orðið einna mest á Siglufirði enda eru þar mest mannvirki sem legið geta undir skemmdum af norðanbrimi.
Siglufirði, laugardag: Norðaustan fárviðri var hér í alla nótt með stórhríð og miklu brimi. Sjávarflóðið var svo mikið að flæddi nærri því yfir alla eyrina. Gekk sjórinn inn í fjölda húsa svo fólk varð að flýja í dauðans ofboði en matvæli og húsmunir stórskemmdust. - Svo hátt var flóðið, að t.d. á Lækjargötunni sem liggur frá norðri til suðurs gegnum miðjan bæinn var vatnið mittisdjúpt, um það leyti sem háflóð var í nótt. Flóðbylgjan flutti með sér feiknin öll af trjáviðarbraki og öðru rekaldi, svo stór hætta var að ganga þar um. Bryggjur og pallar í Bakka og alla leið inn að Hafnarbryggju braut brimið svo lítið sést eftir nema bryggjur Ríkisverksmiðjunnar sem standa uppi en eru þó skemmdar. Trjáviðarhrannir eru með allri sjávarströndinni. Sjávarflóðið gekk alveg yfir Hafnarbryggjuna og inn í vörugeymsluhús sem þar er. Eyðilagðist þar talsvert af vörubirgðum og skemmdist.
Á Siglunesi tók sjórinn alla báta sem þar voru, þar á meðal 6 nýlega trillubáta, braut nokkur hús og eyðilagði vergögn, veiðarfæri, fisk og aðrar vörur. Bryggja vönduð sem byggð var þar í sumar, eyðilagðist ennfremur. Búast má við að tjón hafi orðið á sauðfé bæði á Siglunesi og eins hér í nærsveitum að það hafi ýmist hrakist í sjó fram eða fennt. ... Vélbáturinn Sigurður Pétursson var einn báta á sjó hér í gær. Hann er nú talinn af. Á honum voru fjórir menn.
Kópaskeri 27. október. Í gær og nótt var hér versta veður, norðvestan stórgarður og úrfelli. Rigning var í lágsveitum en sjór og stórhríð í hásveitum. Aftaka stórbrim var í nótt og skemmdir urðu talsverðar hér á Kópaskeri. Ný steinsteypt bátabryggja sem var byggð að mestu leyti 1933 en fullgerð síðastliðið vor er sprungin þvert yfir miðju. Framhluti hennar hefir sigið talsvert og skekkst. Brimfyllan gekk upp fyrir skrifstofuhús Kaupfélagsins og 40 stálföt, full af olíu og bensíni, sem stóðu við húsið, sópuðust út. Mörg þeirra eru eyðilögð, höggin í sundur og tóm. Stórfelldar skemmdir urðu einnig á Húsavík og Þórshöfn. ...
Þórshöfn 27. október Í gær og nótt var aftaka norðanveður og rigning. Meira brim og flóð var hér inni en menn muna. Sjór gekk upp á land í þorpinu og skemmdi mikið götur. Þrír opnir vélbátar slitnuðu upp af höfninni og gerónýttust. Eitt sjóhús ónýttist einnig og nokkur hluti af fiskhúsi, eins skolaðist burtu ásamt þeim fiski er þar var. Sjór gekk í önnur fiskhús og skemmdi þar fisk. Einnig skemmdust af sjó matvæli í kjöllurum íbúðarhúsa. Allar bryggjur ónýttust gersamlega. Mikið af fiskikerrum, línum og fleiru sem útgerðarmenn áttu nærri sjó, skolaðist burtu ásamt spaðkjötstunnum sem voru í eigu Kaupfélagsins. Margt manna var á fótum í alla nótt til þess að reyna að bjarga en gat lítið við ráðið sökum flóða. Geymsluhús með nokkrum matvælum og fleiru, fjárhús og hlöðuveggur ónýttist og hey skemmdist á bænum Jaðri rétt hjá Þórshöfn. Í Skoruvík gekk sjór langt á land upp og ónýtti þar fiskhús, stórt sjóhús og árabát og skemmdi tún og hey. Í fiskhúsinu var nokkuð af fiski og mikið af fóðursíld er bændur áttu. Á Heiði gekk sjór upp á tún og braut girðingar og skemmdi túnið. Nokkrar kindur af bæjum í Þistilfirði fundust reknar innan við Þórshöfn í morgun og óttast menn að margt fé úr Þistilfirði og af Langanesi hafi týnst í sjóinn. ...
Í Vestmannaeyjum hefir einnig verið ofsarok. Þaðan barst útvarpinu svohljóðandi skeyti síðdegis: Ofsarok af norðvestri var í Vestmannaeyjum síðastliðna nótt og í morgun og olli það nokkrum skemmdum. Þak fauk af fiskhús sem er eign Gísla Magnússonar. Tveir vélbátar slitnuðu frá bryggju og rak þá upp í klappir og skemmdust þeir nokkuð. Einnig slitnuðu upp tveir trillubátar og sökk annar á höfninni.
Morgunblaðið 30. október 1934
Hamfarir brimsins valda stórtjóni á Siglunesi. Veðurofsann hefir nú lægt og brim minkað töluvert, en er þó mikið enn. Svo var brimið óskaplegt á Siglunesi, að ekki varð komist niður í nesið þar sem lendingin er frá því á föstudag og þangað til í gærkvöldi. Nesið var áður alt eitt tún og gaf af sér 200250 hesta af töðu, en nú er það gjöreyðilagt. Eiðið, þar sem verbúðirnar voru er nærfellt skorið sundur. Búðir, hjallar og aðgerðapallar er alt meira og minna brotið, eða því hefir skolað algerlega burtu. Öll skip, stærri og smærri, brotin meira og minna, aðeins einn trillubátur eftir af sex, sem þar voru. Aðgerðarhús og þrjú fjárhús feldi brimið. Var fé í einu húsinu og voru þar 11 ær dauðar þegar að var komið. Auk þess er búist við að fleira eða færra fé hafi farið í sjóinn.
Göturnar á Siglufirði ófærar. Auk þeirra skemmda í Siglufjarðarkaupstað, sem áður hefir verið sagt frá, hafa orðið geysimiklar skemmdir á götum bæjarins. Gróf flóðið þær sundur á stórum köflum, en menn vita þó varla enn hvað skemmdirnar eru miklar, því að sumar göturnar eru enn í kafi. Um tvöleytið í gærdag var róið á báti eftir Lækjargötu endilangri. Víða eru götur ófærar fyrir timbri og braki, sem á þær hefir rekið og meðfram sjónum eru hrannir af þara og sandi á þeim, og verður það ákaflega mikið verk að hreinsa þær og gera við skemmdir. Allt tjónið á aðra miljón króna. Enn er eigi ljóst hve miklar skemmdir hafa orðið á sjóvarnargarðinum norðan á eyrinni og verður því ekki metið það tjón, sem Siglfirðingar hafa orðið fyrir, en það, sem þegar er vitað um verður varla undir 225 þús. króna, og er þó þá ótalið tjón í og á mörgum íbúðarhúsum, og nemur það miklu. Hafa bæði hús og húsmunir skemmst stórkostlega. Fiskur skemmdist í mörgum sjóhúsum og síldarmjöl í Ríkisbræðslunni, en það tjón er ómetið enn og vita menn ekki hve mikið verður. Vélskipið Elín" sökk í gær inn hjá sandinum og er sennilega bráðónýtt. Bjarki" liggur í marbakkanum norðan við Hólmann, virðist óbrotinn sjálfur, en braut mannvirkin þar mikið. Kongshaug" er kominn ofarlega í Skútufjöru, en er ólekur enn. Síldin í skipinu var vátryggð hjá Sjóvátryggingarfélagi íslands fyrir 225 þús. kr. Litlar líkur eru til þess, að skipið náist út. Það mun vera vátryggt í Noregi. Skipshöfnin er enn um borð, en sjópróf verður haldið á morgun. Það er ágiskun manna að alt tjónið af veðrinu í Siglufirði með skipunum og farmi Kongshaug muni nema á aðra milj. króna. Í morgun var á Siglufirði byrjað að bjarga trjáviði úr bryggjum, liggur hann í hrönnum kringum fjarðarbotninn og á götum bæjarins. Einnig er starfað að því að rífa niður palla þá, sem enn hanga uppi á bryggjubrotunum.
Sauðárkrók, mánudag. (Einkaskeyti til Morgunnblaðsins) Stórhríð í Skagafirði. Hér var voðaveður á laugardaginn og stórhríð í gær. Sljákkaði þó veðrið heldur í nótt, og morgun, en nú er gengin að grenjandi norðanhríð með frosti og hleður niður snjó alveg eins og á þorra. Er við búið að fé fenni víða og gert er ráð fyrir að fé og hesta hafi þegar fennt í Blönduhlíð. Mun vera orðið jarðlaust og er veðrið svo, að ófært er bæja milli og eins var í gær. Fréttist því lítið og austan yfir Vötn hefir ekkert frést vegna símabilunar. Og litlar líkur eru til þess að það takist að gera við símann bráðlega ef þessu veðri heldur áfram.
Tjón af ofviðrinu á Sauðárkróki og Skaga. Óvenjulega mikið flóð gerði hér á laugardaginn og aftaka brim. Gekk sjórinn inn í kjallara í nyrstu húsum í þorpinu og yfir hafskipabryggjuna og síldarplanið. Var sjórok yfir allan bæinn svo að vart var úti verandi. Þrír trillubátar, sem á bryggjunni voru, brotnuðu. Ofan við síldarplanið stóð gamalt bjálkahús. Reif sjórinn hliðina úr því, og kastaði því næst húsinu yfir að frystihúsi Kaupfélagsins. Bryggjan og planið munu ekki hafa orðið fyrir neinum verulegum skemmdum. Var búið að taka pallinn af síldarplaninu efst við uppfyllinguna og gat sjórinn því spýst þar upp um, án þess að ná verulega taki á staurunum undir planinu. Aftur á móti skolaði algerlega burtu fiskipalli neðan við útgerðarhús Steindórs Jónssonar, sunnan við skipabryggjuna, og sjást ekki örmul af honum. Flóðið gekk yfir allan Borgarsand og alla leið inn í Borgartjörn. Er við búið að skemmdir hafi orðið á vegunum við brýrnar á Héraðsvötnum, þótt ekki hafi frést um það.
Hjá Hrauni á Skaga gekk sjórinn svo hátt, að túnið er mjög skemmt af grjóti og möl, sem á það hefir borist. Brotnuðu þar og 2 bátar og eyðilögðust vörur. Segir bóndinn þar að annað eins flóð hafi ekki komið síðan 1896. A Þangskála þar fyrir austan reif sjórinn hlið úr fjárhúsi og drekkti 20 kindum. Á Ásbúð, sem er gegnt Hrauni að vestan, hrakti nokkrar kindur í tjörn undan veðrinu.
Akureyri, mánudag. (Einkaskeyti til Morgunblaðsins). Skemmdir í Dalvík. Í ofviðrinu á laugardaginn skemmdust allar bryggjur í Dalvík, nema bryggja Þorsteins Jónssonar, sem ný. Tveir trillubátar sukku og vélbátinn Víking rak á land. Mun hann lítið skemmdur. Í Ólafsfirði urðu engar skemmdir, nema lítilsháttar á dráttarbrautinni. Sumarafli og vetrarforði sópast burt. Í Grenivík, austan fjarðar, gekk brim hærra á land en nokkur dæmi eru til áður. Tók það þar 4 árabáta og einn vélbát og braut þá í spón. Ennfremur skolaði það burtu fjórum sjóhúsum, með öllu sem í þeim var, þar á meðal öllum sumarafla nokkurra útgerðarmanna, sem geymdu þar fullverkaðan fisk sinn, og beið hann útflutnings. Sumir eiga hvorki línu eða öngul eftir til útgerðar sinnar. Margir geymdu matvæli í sjóhúsum og hafa þeir misst allan haustmat sinn. Á höfninni sukku eða brotnuðu 9 vélbátar, þar af 3 þilfarsbátar. Fólk einangrað. Frá bænum Látrum hafa rekið brot úr bátum og sjóhúsi. Óttast menn að fólkið þar sé einangrað, því að ekki er hægt að komast þaðan né þangað landveg vegna snjóflóðahættu. Munu Grenivíkingar reyna að komast sjóleiðis þangað út eftir á morgun.
Í Hrísey hafa miklar skemmdir orðið á bryggjum og síldarpöllum og sjóhúsum, en einna tilfinnanlegast er tjónið á Ystabæ. Þar tók út sjóhús með um 20 skippundum af fiski, bryggju og bát. Tjón bóndans er talið um 5000 krónur. Talið er að fé, muni hafa fennt víða, en um það er ekki fullkunnugt vegna símslita sem urðu víða á Norðurlandi í ofviðrinu.
70 kjöttunnur fara í sjóinn. Í Haganesvík urðu feiknamiklar skemmdir. Gekk sjór þar svo hátt á land, að hann braut hliðarnar úr sláturhúsinu, og féll sjórinn þar inn í húsið. Sömuleiðis braut sjór sölubúðina, gekk í gegnum hana og sprengdi upp dyr á steinsteyptu vörugeymsluhúsi, fyllti það og ónýtti vörur er inni voru. Steinsteyptum geymsluskúr, er Ólafur í Haganesi átti, sópaði burtu með öllu er inni var. Uppskipunarskipi Kaupfélagsins slöngvaði brimið langt upp á braut, en skemmdi það lítið. Sjötíu kjöttunnur sópuðust burtu og sjást engin örmul af þeim. Bryggjan hefir gjöreyðst. Svo má heita að alt lauslegt er þar var hafi sópast í burt. Tún Ólafs í Haganesi hefir stórskemmst og víkin er ein malarurð. Reynt vax að bjarga en ekkert varð við ráðið sökum hamfara brimsins. Stórhætta var að koma nálægt húsum og inn í þau, því brimsog myndaðist inni í þeim. Talið er víst að margt sauðfé hafi farist í briminu eða hrakið í vatnið. Er það enn órannsakað, Vatnið er ein hrönn og vonskuveður í gær. Brimið hefir brotið nýjan ós í Hraunmöl austan við miðjan Möl, en fyllt gamla ósinn.
Fimm geymsluhúsum sópar burtu með öllu sem í var. Á Litla Árskógsandi hafa brotnað 8 skúrar og hefir 5 þeirra tekið burtu með öllu er í þeim var, fiski, veiðarfærum, kolum og matvælum. Mest var þetta einstakra manna eign.
Litlar skemmdir á Akureyri. Á Akureyri var veðurhæð minni en víða annarsstaðar við Eyjafjörð. Símastaurar og rafmagnsstaurar hafa brotnað og bryggjuskemmdir urðu nokkrar á Oddeyrartanga. Póstbáturinn Drangey kom til Akureyrar frá Grímsey að kvöldi þess 26., kl. 19. Skipstjóri kvað sjó hafa verið fádæma mikinn í fjarðarmynninu, frá Gjögri inn að Kljáströnd. Kvaðst hann aldrei hafa séð svo skelfilegt brimrót, nema í verstu útsynningum á Stokkseyri og Eyrarbakka.
Mikil snjókoma. 28. október. Fréttastofa Útvarps: Fréttaritari útvarpsins á Hvammstanga skýrir frá því í símtali að trillubátur hafi sokkið þar á höfninni í gær. Báturinn var eign Guðmundar Jónssonar og Þorsteins Díómedessonar. Bátsins var leitað í dag og fannst hann ekki, enda var ókyrr sjór. Báturinn var óvátryggður. Aftaka norðan hríð var í hjeraðinu og setti niður feikna fönn. Líkur þykja til að fé hafi fennt.
Þök fjúka á Flateyri. Flateyri, mánudag. Hér var versta veður á laugardagsnótt. Brotnuðu þá 4 símastaurar og tók þak af hlöðu og af sjóbúð á Sólbakka. Enginn sjávargangur var og ekki hefir frést neitt frekar um skemmdir af veðrinu hér í nágrenninu. Í dag er gott veður.
Fé fer í sjó. Hólmavík, mánudag. Veður á Hólmavík var mjög slæmt aðfaranótt laugardagsins. Á Drangsnesi gekk sjór óvenjulega hátt á land og upp í verbúðir. Aðrar skemmdir urðu ekki svo teljandi sé. Menn náðu mestöllu fé sínu, en eitthvað mun hafa farið í sjóinn. Fönn er mikil, en ekki hefir frést að fé hafi fennt.
Skemmdir í Siglufirði. Siglufirði 28. okt. Bakkabryggjan, eign Kaupfélags Eyfirðinga, skolaðist burtu. Sömuleiðis skolaði burtu Shellbryggju og bryggju bæjarins norðanvið Paulsverksmiðju. Allar þrjár bryggjur Paulsverksmiðju eru farnar, nema ræfill af einum bryggjuhausnum. Allir pallar voru þó teknir af þeim í haust, og hafa þeir bjargast. Aðrar bryggjur Ríkisverksmiðjanna eru lítið skemmdar. Allir söltunarpallar og meginið af bryggjum Halldórs Guðmundssonar hefir gereyðst. Sömuleiðis er bryggja Ásgeirs Pjeturssonar og Co, Baldursbryggja og bryggja Ólavs Hinriksens, allur efri hluti Thorarensensbryggju, bryggjur og söltunarpallar Ragnarsbræðra, alt stórskemmt. Togarann Havstein sleit frá Bæjarbryggjunni og lenti hann á austustu Goosbryggju og braut hana. Gufuskipið Hansvaag" braut mikið bryggju Hafliða, Halldórs og vestustu Goosbryggju, sem var með hábryggju. Anleggið" svonefnda er mikið skemmt eftir vélskipið Elínu" og gufuskipið Bjarka" íbúðarhús síldarfólks Ásgeirs Pjeturssonar undir Hafnarbökkunum skekktist á grunni. Gufuskipið ,Kongshaug' hefir laskast. Botn skipsins hefir skemmst og síður beyglast. Ketillinn hefir lyfst upp um 11 cm. og leiðslur sprungið. Mikið vatn kom í kjallara Barnaskóla og leikfimishúss og gólf í þessum húsum stórskemmdust. Ýmsar verslanir urðu fyrir tjóni af sjógangi inn í vörugeymslur.
Símabilanir. Á laugardaginn var ekkert símasamband við Vestfjörðu, og ekki náðist lengra norður en til Blönduóss og ekki lengra suður en að Ölfusá. Á sunnudagsnótt bilaði svo sambandið við Blönduós og náðist þá ekki lengra en að Borðeyri. Unnið var að því i allan sunnudaginn að koma símanum í lag og fékkst þá samband við Flateyri og ísafjörð, talsímasamband til Sauðárkróks og ritsímasamband við Akureyri. Á Suðurlandslínunni komst á talsímasamband til Austfjarða, nema Seyðisfjarðar. Var talsíminn bilaður á Fjarðarheiði, en ritsímasamband var þangað. Var nú hægt að gera sér ljóst hve miklar skemmdir höfðu orðið á símanum og hve víða þær voru.
Mestar urðu skemmdirnar á söndunum austan við Sauðárkrók og í Hegranesi. Þar höfðu brotnað 4050 staurar. Annars staðar höfðu ekki brotnað nema 24 staurar í stað, en símalínurnar víða slegist saman. Í Jökuldal hafði verið mikil ísing. Hlóðst hún á símaþræðina og sleit þá niður af nálægt 50 staurum, án þess þó að brjóta staurana. Hjá Ölfusá brotnuðu þrír staurar og var fljótlega gert við þær skemmdir. Einhver bilun varð líka á símalínunni yfir Haugsfjallgarð, en hún mun ekki vera stórvægileg. Vegna hinnar miklu bilunar í Skagafirði var ekkert talsíma samband við Siglufjörð í gær. Einhverjar bilanir höfðu orðið á símalínunni frá Víðimýri til Akureyrar. Var ekki talsamband við Akureyri né lengra norður í gærmorgun, en ritsímasamband eins og áður segir.
Flateyri, mánudag. (Einkaskeyti til Morgunblaðsins). Á föstudagskvöldið gerði stórhríð hér vestra og helst hríðin allan laugardaginn. Á laugardagsmorgun fóru 3 menn héðan, og ætluðu út á svokölluð Björg utan við Sauðanes, til þess að leita kinda. Menn þessir áttu heima hér á Flateyri og voru allir af sama heimilinu: Bjarni Guðmundsson, Gunnar Benediktsson mágur hans og Ásgeir Kristjánsson bróðursonur hans. Nokkru seinna fór fjórði maðurinn á stað að leita kinda, en þegar hann kom út að Sauðanesi sá hann að snjóflóð hafði hrunið úr fjallinu og hlaupið á sjó út. Sneri hann við það aftur og sagði tíðindin. Var þá þegar brugðið við um kvöldið að leita hinna þriggja, sem menn óttuðust að hefði orðið fyrir snjóflóðinu, en þeir fundust ekki. Í gær (sunnudag) voru 60 menn að leita. Fundust þá lík þeirra Bjarna og Ásgeirs út af Sauðanesi, rekin af sjó. Úr, sem Bjarni hafði í vasa sínum, hafði stansað kl. 2, og 6 mínútur. Í dag er enn fjöldi manns að leita að líki Gunnars, en það er ófundið enn. Hefir verið slætt í dag út hjá Björgunum og hjá Sauðanesinu. Þeir Bjarni og Gunnar voru giftir og átti Gunnar þrjú börn. Snjór er svo mikill og ófærð, að menn voru í gær 3 tíma að ganga héðan út að Sauðanesi, en það er um 40 mínútna gangur á sumardegi. Og menn sem komu hingað frá Ísafirði í gær, voru 9 tíma á leiðinni, en annars er það ekki nema 34 tíma gangur.
Togari strandar við Seyðisfjörð. Í gærkvöldi barst Slysavarnafélaginu skeyti um það, að enskur togari, Mac Lay" frá Grimsby, hefði strandað hjá Seyðisfirði. Kom skeytið í gegn um skip, en það missti þegar samban4 við togarann og vita menn því ekki um strandstaðinn né hvernig hagar þar til. Slysavarnafélagið sendi skeyti til Seyðisfjarðar og bað að gerð yrði gangskör að því, að bjarga mönnunum. Enn fremur sendi það í gegnum útvarpið beiðni til skipa, sem kunna að vera þar nærri, að koma MacLay" til aðstoðar. Seinustu fregnir: Luftskeyti frá Seyðisfirði seint í gærkvöldi hermir að breskur togari, Nightrider, sem lá í Seyðisfirði hafi verið fenginn til þess að leita að MacLay". Fleiri enskir togarar voru þar líka og átti að fá þá í leitina. Frá Brekku í Mjóafirði heyrðist í gærkvöldi eimpípuhvinur frá skipi Ætla menn að það hafi verið Mac Lay". Dimmviðri var eystra.
Togari heimtur úr helju. Hólmavík, 29. okt. Í dag rak á land á svonefndri Glámaströnd rekald úr skipi. Var það stjórnpallur, tveir björgunarhringar og á þeim nafnið Earl Kitchener" frá Hull. Einnig fundust árar af bát og stýri, nokkrar mjólkurflöskur, hurð og hraðamælir. Alt þetta rak svo að segja í einu, og virðist nýbrotið. Akureyri mánudag. Enskur togari, Earl Kitehener frá Hull, eign Hellyer Brothers, kom hingað kl. 14 í dag. Hafði hann fengið áfall á Skagagrunni á laugardag, misst stjórnpall og báta. Tveir menn höfðu slasast og voru þeir fluttir í sjúkrahús. Skipstjóri hafði staðið 54 tíma, við stýrið, var kalinn á fótum. Öll skipshöfnin var flutt í land.
Morgunblaðið 31. október 1934:
Á Húsavík er tjónið talið 150 þús. krónur. Húsavík. Aðfaranótt laugardags var norðan stórviðri og hafrót svo mikið, að menn muna ekki annað eins. Brimið gekk yfir bryggjur og bólverk, tók alt sem fyrir var svo sem bryggjustaura, róðrarbáta, tunnur o.f.l. og fleygði því fram og aftur um fjöruna. öll uppfyllingin ofan hafnarbryggjunnar nýu brotnaði upp og skolaðist burtu. Var ekki búið að múra yfirborð hennar nema að nokkru leyti. Sjálf bryggjan stendur nokkurn veginn óskemmd. Kaupfélagsbryggjan brotnaði og er því nær ónýt orðin. Tveir stórir vélbátar og fjórir trillubátar týndust eða brotnuðu í spón, og margir beituskúrar hafa brotnað og færst úr stað. Öll framhlið á húsi Hafnarsjóðs brotnaði og gekk sjór inn í húsið og eyðilagði fisk, er þar var. Enn er ekki rannsakað hve tjónið er mikið alls, en sennilega er það ekki undir 150 þúsundum króna. Hafa margir orðið öreigar, sem áður voru bjargálna.
Flestir bátar Tjörnesinga brotnir. Húsavík 30. okt. Á Tjörnesi urðu miklar skemmdir í óveðrinu á laugardaginn. Átta róðrarbátar og einn vélbátur brotnuðu og ónýttust. Skúr með fiski og veiðarfærum tók út í Kerlingarvík. Annan skúr tók út í Bangastaðahöfn. Eftir eru fimm sjófærir bátar á Tjörnesi. Á Húsavík brotnuðu og ónýttust þessir vélbátar: Hjeðinn, Otur, Geisli, Óðinn, Stormur, Svanur og Þór; auk þess ónýttust nokkrir róðrarbátar og einn uppskipunarbátur. Margir aðrir bátar eru mikið skemmdir. Sex vélbátar með þilfari og einn uppskipunarbátur héldust við á hafnarlegunni, meðan garðurinn stóð yfir.
Sjór brýtur veg og hús, skolar út fé. Þórshöfn 30. okt. Á Þórshöfn hafa nýjar skemmdir komið í ljós af ofviðrinu, auk þess sem fyrr er getið. Sjór gekk yfir þjóðveginn innan við Þórshöfn, braut hann upp og skolaði burtu ofaníburði. Sumstaðar hlóð sjórinn grjóti á veginn og er hann ófær og mikið skemmdur á tveggja kílómetra kafla. Á Syðralóni skemmdist tún. Brotnaði þar fjárhús og nokkrar kindur tók út af fjörunum. Á Völlum í Þistilfirði tók sjórinn 2030 kindur. Á Læknisstöðum á Langanesi tók sjórinn út fiskhús, og 2030 skippund fiskjar er þar voru sópuðust langt á land upp. Mikill hluti túnsins þar er undir stórgrýti og möl. Á Brimnesi gekk sjórinn inn í bæinn, en skemmdi hann þó ekki mikið. Þar tók einnig út mikið af tómum tunnum og lýsi er bóndinn átti. Tjón á Þórshöfn og þar í nágrenni er mikið og tilfinnanlegt, því sumir hafa misst næstum aleigu sína.
Skemmdirnar meiri á Siglufirði en ætlað var í fyrstu. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Siglufirði, þriðjudag. Með degi hverjum koma í ljós meiri skemmdir er orðið hafa hér i í ofviðrinu og í sjóganginum um helgina. T. A. hefir fiskur í ýmsum fiskbúðum skemmst mun meira en ætlað var í fyrstu á þann hátt, að sjór sem gekk inn í geymsluhúsin hefir borið í fiskinn aur og- óhroða. Talið er víst að Kongshaug náist ekki út. Botn skipsins hefir gengið upp um 5 sentimetra. Þó er ekki enn kominn sjór í skipið að ráði. Um 18 bryggjur eyðilögðust eða skemmdust mikið, einar 15 á Tanganum, en auk þess bryggja í Hólmanum" og 2 bryggjur er tilheyrðu Gooseigninni löskuðust mikið við það að skipið Hansvaag rakst á þær. Verið er að ryðja bryggjutimbur af götunum og öðru rekaldi, en því verki er ekki nærri lokið enn.
Fé og hesta fennir. Sauðárkrók, þriðjudag. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Veður er sæmilega gott í í dag, ekki mjög kalt né hvasst, en þó hefir gengið á með hríðaréljum. Er nú kominn svo mikill snjór, að haglaust má kalla alls staðar, og þó er snjórinn meiri austan Vatna. Menn eru hræddir um að fé hafi fennt í stórum stíl og eins hross. Vita menn með vissu að hross hefir fennt í Gönguskörðum. Þar hefir þegar ágætur reiðhestur verið dreginn dauður úr fönn. Á Bæ, sem er skammt frá Hofsós urðu miklar skemmdir á laugardaginn. Braut sjórinn þar báta og fiskhús, sem bóndinn átti, og hefir hann beðið mikið, tjón.
10 sentimetra ísing. 30. okt. Frá Sauðárkróki símar fréttaritari útvarpsins, að nú sé aðeins eftir að koma upp átta símastaurum, af þeim 40 sem fóru um koll og 16 sem brotnuðu í óveðrinu um daginn. Búið er að gera við öll slit, á símavírum. Fréttaritari getur þess, að ísingin á símavírum eftir óveðrið hafi sumstaðar verið 10 cm þykk.
Margra mannhæða háir skaflar. Blönduósi, þriðjudag. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Undanfarið hefir verið norðan hríð og feikna fannkoma, svo að alls staðar; er jarðlaust. Eru víða margra mannhæða háir skaflar. Víðast hvar hafði fé verið tekið í hús áður en bylurinn kom, en þar sem fé var úti, var því smalað fyrstu hríðardagana. og náðist víst flest. Þó hefir fé verið dregið úr fönn víða, og Vatnsdælir eru hræddir um það, að hross hafi fennt þar á hálsunum. Og sennilega hefir hross fennt víðar. Miklar skemmdir hafa orðið á símum hér í sýslunni. Hefir t.d. verið sambandslaust við Skagaströnd í fjóra daga. Féllu niður í rokinu margir símastaurar rétt hjá þorpinu. Símalínan milli Stóru-Giljá og Þingeyra fór alveg. Á kafla lá hún yfir mýrarhólma og voru þar 6 staurar. En vatnsagi varð svo mikill þarna og jarðvegur svo gljúpur að staurarnir flutu upp hreint og beint og féll þá línan niður. Víða eru símar bilaðir annars staðar. Rafstöð Blönduóss bilar.Rafstöðin á Blönduósi stöðvaðist í bylnum á þann hátt, að rokið lamdi vatnið algerlega frá vatnsveituskurðinum, en svo fylltist skurðurinn af snjó og hefir verið rafmagnslaust hér síðan, og bregður mönnum mikið við. Í tvo daga hafa menn unnið að því að moka upp skurðinn, voru 27 við það verk í dag, og vonast menn eftir að stöðin komist í lag á morgun.
Engar skemmdir í Norðfirði. Norðfirði, þriðjudag. Undanfarið hefir verið stakasta ótíð, sífeldir stormar og rigningar og ekki gefið á sjó í hálfan mánuð. Talsverður afli var þegar seinast var róið. Hér urðu engir skaðar af ofviðrinu á vetrardaginn fyrsta, svo teljandi sé. Þó var ofsarok, brim mikið og sjávarfylla. En það olli ekki tjóni vegna þess að aðalveðrið gekk yfir að degi, og því varð öllum bátum bjargað.
Fregn kom um það í gærkvöldi, að snjóflóð. hefði fallið í gær á bæinn Stafn í Svartárdal í Húnavatnssýslu. Nánari tíðindi af þessum atburði var ekki unnt að fá.
Akureyri 30. okt. Hreppsnefndaroddviti Grýtubakkahrepps skýrir svo frá tjóninu, sem varð á Grenivík og Látraströnd af ofveðrinu og flóðöldunni á laugardaginn: Farið hafa þrír þiljubátar með vél. Einn þeirra stóð á landi í venjulegu vetrarnausti. Sjö minni vélbátar trillur fóru, og 13 árabáta tók út, og brotnuðu allir í spón, nema einn. Allar bryggjur, átta að tölu, gjörónýttust. Níu fiskskúrar fóru alveg, og sex önnur útgerðarhús skemmdust meira og minna. Mikið af fiski fór í sjóinn. Sumir misstu vetrarforða sinn af heyi og eldivið. Tveir menn misstu alt, sem þeir áttu til útgerðar. Yfir 100 olíuföt tók út, sum með olíu. Landbrot var sumstaðar svo mikið, að útgerðarpallar eru eyðilagðir. Sjór tók á einum stað um 20 metra breidd af grónu landi. Stakur klettur undan Hringsdal á Látraströnd Hesturinn", féll algerlega. Er nú verið að safna skýrslum og áætla skaðann.
Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Blönduósi, miðvikudag. Um miðjan dag á laugardaginn ætlaði bóndinn á Stafni í Svartárdal að leita kinda í svonefndu Stafngili, skammt fyrir framan bæinn. Í leiðinni gekk hann við hjá fjárhúsi á túninu og ætlaði að dytta að því, svo að ekki fennti þar inn. En um leið og hann var kominn inn í húsið fell snjóflóð á það og sópaði því burtu. Varð bóndinn þar undir og lenti nokkur hluti fjárhúsþaksins á fótum hans svo að hann var skorðaður. Gat hann þó krafsað snjóinn frá andliti sér svo að hann gat andað. Þarna lá hann nú ósjálfbjarga það sem eftir var dagsins og alla nóttina. Þegar komið var fram á næsta dag heyrði hann í börnum sínum heima við bæinn og reyndi þá að kalla þótt erfiðlega gangi. Börnin heyrðu til hans, en gátu ekki gert sér grein fyrir því hvaðan hljóðin komu. Faðir bóndans, aldraður maður, lagði nú á stað til næsta bæjar til þess að fá menn að leita hans. Þegar þeir komu að Stafni sáu þeir að snjóflóð hafði fallið á fjárhúsið og datt þeim í hug að leita bóndans þar fyrst, áður en þeir færi lengra. Fundu þeir hann þá fljótlega, lifandi og óbrotinn, en mjög þjakaðan. Steinn hafði lent á öðru læri hans og var komin djúp hola í lærið undan honum. Bóndinn var borinn heim og nú líður honum bærilega.
Morgunblaðið segir enn af tjóni í veðrinu þann 22. nóvember - í þetta sinn nánari lýsing frá Húsavík:
Um óveðrið, flóðið og brimið skýrði sýslumaður svo frá: Um hádegi þ. 26. okt.fór að hvessa, og var rokhvasst orðið um kl. 4 síðdegis; þá var komið ískyggilegt háflæði. Þá voru bátar farnir að slitna upp af legunni. Jókst veðurhæðin, háflæðið og brimið fram yfir miðnætti, og stóð sem hæst kl. 12 aðfaranótt þess 27. Sem dæmi upp á það, hve sjór gekk hátt á land, má get a þess, að sjávarlöður gekk yfir rafstöðina um stund. Gekk sjór á land upp í Búðargilið, upp undir hús Árna Sigurðssonar. Brimið sópaði til fiskskúrum, sem stóðu neðan við bakkann, og skullu þeir saman, sem rekald, með öðru lauslegu sem þar var fyrir. Stórir bátar, sem þar voru, fóru úr skorðum, en skemmdust ekki mikið, því þeir voru bundnir, en festar biluðu ekki. Brim gekk upp að sláturhúsi Kaupfélags Þingeyinga, en húsið sakaði ekki. Er talið að það, sem bjargaði tjóni þar, var að stálhurðir eru þar fyrir dyrum, er létu ekki undan. Hefði eigi svo rammlega verið um búið, er talið líklegt, að hurðir hefðu látið undan, og sjór komist í húsið.
Á þessum árum voru bæði Ríkisútvarpið og Veðurstofan til húsa í Landssímahúsinu við Austurvöll í Reykjavík. Veðurfræðingar lásu þá veðurspár sjálfir og fylgdi þeim oftast yfirlit um stöðu mála. Manni skilst að mismikið hafi verið sagt, stundum meira heldur en ritað er í bækur Veðurstofunnar, en þar má þó oftast sjá kjarna yfirlitsins. Þessi siður hélst að mestu þar til í stríðinu að veðurfréttir í útvarpi féllu niður. Eftir stríð flutti Veðurstofan sig fljótlega um set og lestur veðurfræðinga á eigin spám féll niður. Urðu nokkrar deilur um hina nýju hætti og söknuðu margir hins fyrra fyrirkomulags.
Hér lítum við á yfirlit það sem fylgdi veðurspám dagana 24. til 27. október 1934. Glögg mynd fæst þar af stöðu mála. Í flestum tilvikum fylgdu einnig mjög stuttaralegar spár fyrir einstök spásvæði (ekki miðin), en við látum þær eiga sig. Við byrjum að kvöldi miðvikudagsins 24. október.
Yfirlit í veðurfréttum - með fylgja nokkur veðurkort bandarísku endurgreiningarinnar. Hún nær þessu veðri nokkuð vel. Betur en ýmsum öðrum.
Miðvikudagur [24.10. kl.19:10):
Djúp lægð yfir norðanverðu Grænlandshafi á hreyfingu suðaustur eftir. Vindur er norðan og norðaustan á Grænlandi og má yfirleitt gera ráð fyrir að vindur snúist til norðanáttar hér á landi á morgun, en veður mun verða mjög breytilegt á meðan lægðin er að fara yfir.
Fimmtudagur [25.10 kl. 01:15):
Lægðarmiðjan er nú skammt út af Vestfjörðum og mun hreyfast suðaustur yfir landið. Í Bolungarvík er vindur suðaustan fimm, á Reykjanesi suðvestan 5 og suðvestan 8 í Vestmannaeyjum.
[25.10. kl.10:00]:
Lægðin hefur nú staðnæmst við vesturströnd Íslands svo að vindur er suðlægur um land allt með éljaveðri á Suður- og Vesturlandi, en bjartviðri norðanlands. Úrkoma hefir verið mikil á Suður- og Vesturlandi og sunnan til á Austfjörðum (2 - 13 mm) en því nær engin nyrðra. Loftvog er ört stígandi á Norðausturgrænlandi. Er hætt við að norðaustanátt nái sér brátt um norðvesturhluta landsins með snjókomu og frosti, en annars mun vindur haldast við suður næsta sólarhring með éljaveðri á Suður- og Vesturlandi.
[25.10. kl 15:00):
Lægðin við vesturströnd Íslands þokast hægt austur eða suðaustur eftir, og mun vindur brátt ganga í norðvestur eða norður vestanlands. Hinsvegar mun norðaustanátt ná sér innan skamms á Norðvestur- og Norðurlandi.
[25.10. kl.19:10):
Lægðarmiðjan sem var í gærkveldi milli Vestfjarða og Grænlands er nú yfir Suðvesturlandi og Faxaflóa. Vindur yfirleitt austan eða suðaustan hér á landi og fremur hægur. Út af Vestfjörðum mun þó vera norðaustan hvassviðri. Djúp lægð við Suðureyjar hreyfist norður eftir.
Föstudagur [26.10. kl. 01:15):
Lægðin er nú að mestu horfin úr sögunni hér yfir Suðvesturlandi, en hinsvegar mun Skotlandslægðin hreyfast hratt norður eftir enda er loftvog ört fallandi á Suðausturlandi. Í Bolungarvík var vindur norðan 7 um miðnættið en hæg austanátt á Faxaflóa.
[26.10. kl. 10:00):
Lægðarmiðjan er nú við suðaustur og austurströnd Íslands er djúp - um eða undir 725 mm - og hreyfist hratt norður eftir. Vindur er norðlægur um allt land, allhvass sums staðar á Norður- og Austurlandi með töluverðri úrkomu, regni eða snjókomu. Norðan til á Vestfjörðum var veðurhæðin 8 og vafalaust er norðaustan stormur úti fyrir og milli Vestfjarða og Grænlands. Suðaustanlands er vindur víðast fremur hægur og veður þurrt. Norðanátt mun haldast næstu dægur, hvassviðri og mikil úrkoma norðanlands.
[26.10. kl.15:00):
Lægðarmiðjan er nú skammt fyrir austan land og hreyfist norður eftir. Á Jan Mayen er vindur norðaustan 12, og á Norðurlandi mun yfirleitt vera hvöss norðanátt og mikil úrkoma. Suðvestanlands hefir snjóað lítilsháttar í dag.
[26.10. kl 19:10):
Stormsveipurinn er nú mjög nærri norðausturströnd Íslands og hreyfist norður eða norðvestur eftir. Á Norðvesturlandi er norðanrok og snjókoma en slydda á Norðausturlandi. Sunnanlands er allhvasst á norðan en nærri úrkomulaust.
Laugardagur [27.10. kl. 01:15 (fyrsti vetrardagur)):
Norðanstormur á Suðurlandi, en engar fregnir frá Vestfjörðum eða Norðurlandi vegna línubilana. Mun vera norðan ofsaveður og stórhríð. Óveðrið mun haldast í nótt en fara að draga úr því þegar líður á morgundaginn.
[27.10. kl.10:00):
Norðanstórviðri um allt land, veðurhæð mest 11 á Hesteyri. Snjókoma og allt að 2-3 stiga frost á Norður- og Vesturlandi, en rigning og 3 stiga hiti austanlands. Skeyti vantar frá Bolungarvík og flestum stöðvum norðanlands. Lægðin er skammt fyrir austan land, þokast austur eftir og fer minnkandi, svo að veður mun brátt taka að batna hér á landi.
[27.10. kl.19:10):
Ennþá er norðanstormur hér á landi og stórhríð norðvestanlands en rigning eða slydda norðaustanlands. Loftvog er ört stígandi hér á landi og þokast nú stormsveipurinn fjær landinu austur eftir. Má vænta þess að veður verði orðið allgott um vesturhluta landsins á morgun.
Myndin sýnir sjávarmálsþrýsting á Seyðisfirði (grænn ferill, hægri kvarði) og þrýstimun á milli Bolungarvíkur og Seyðisfjarðar. Við sjáum þrjá vindstrengi, fyrst norðaustanskot þann 22. Þrýstimunur milli stöðvanna fer þá yfir 20 hPa. Þann 24. fer hann í um 16 hPa, þá var hann neikvæður, vindur blés af suðvestri á landinu - lægð var fyrir vestan land eins og lýst var hér að ofan. Lægðarinnar sem kom sunnan frá Bretlandi fór að gæta föstudaginn 26. Þrýstimunur óx hratt og fór mest upp í 34,7 hPa. Þetta er óvenjuleg tala, sú hæsta sem við þekkjum í norðanátt í október. Í Flateyrarveðrinu áðurnefnda varð munur á hæsta og lægsta þrýstingi landsins mest 31,7 hPa.
Eins og fram kom hér að ofan var veður sem gerði á síðasta áratug 19. aldar nefnt í samanburði, 1896 að sögn, en rétt ár mun vera 1895. Bæði þessi ár gerði mikil skaðaveður af norðri í októberbyrjun, en sjávargangur var mun meiri fyrra árið. Seint í nóvember 1961 gerði mikið norðanveður með brimi á Norðurlandi. Var því af ýmsum líkt saman við illviðrið 1934 - flestir, en ekki allir sem samanburð gerðu, töldu fyrra veðrið það verra. Um veðrið 1961 má lesa í tímaritinu Veðrinu 1962 (aðgengilegt á timarit.is). Við getum bara vonað að nú séu hafnirnar á Siglufirði, Húsavík og Dalvík betur varðar fyrir áföllum af þessu tagi og því ólíklegt að samskonar veður valdi nú jafnmiklu tjóni í kringum þær og þá.
Í framhaldi af þessu mætti velta vöngum yfir því hvers vegna helst verður mikið tjón af völdum brims á Norðurlandi á haustin, en við látum umræðu um það - og framtíðarhorfur -liggja milli hluta hér.
Þann 24. nóvember gerir sjötugur eyfirskur bóndi sumarið upp í Degi á Akureyri. Hann lýsir fyrst sumrinu fræga 1882 og ótíðinni þá, en lýsir svo því nýliðna - á mjög gagnorðan hátt:
Síðastliðið vor var mjög kalt og þurrt og gróðurlaust, svo lambfé varð að gefa inni allan sauðburðinn. En í júní fóru að koma hlýindaskúrir, svo grasið þaut upp og grasspretta varð betri en nokkru sinni áður, sem ég man eftir. Sumarið hefir verið hlýtt, en rigningasamt með fádæmum á Norður- og Austurlandi. Miklu betra á Suður- og Vesturlandi. Svo má segja, að því nær óslitinn óþurrkakafli hafi verið frá miðjum júlí til 5. október. Aðeins örfáir þurrkdagar hafa verið á þessu tímabili svo sem laugardag 21. júlí og sunnudag 12. ágúst, en aðal þurrkdagarnir á sumrinu voru 13. 16. sept. og þá náðust upp heyin, sem úti voru hér í Eyjafirði, en svo var eigi allstaðar á Norðurlandi. Í Skagafirði náðust hey þá almennt upp í sæti, en af því mikið var undir, náðust þau eigi öll inn, og lentu aftur í vatni. Eftir miðjan sept. brá enn til norðanáttar og rigningar og jafnvel krapahríða. 19. og 20. sept. var hið versta veður á Norðurlandi. Þá fennti fé, bílar festust í snjó, maður varð úti og stórfelld símslit urðu. Stórfelldastar rigningar voru á sumrinu aðfaranótt 25. sept. og 4. okt. Eftir það fór mestu rigningunum að slota, þó litlir þurrkar væri nema dagana 11.13. okt. Þá náðu flestir upp heyjum sinum, sem úti voru hér í Eyjafirði. Heyfengur manna er eftir þetta sumar miklu minni en búast mátti við eftir hinni ágætu grassprettu. Þar að auki eru þau stórskemmd eftir langvarandi óþurrka, og er því auðsætt, að þau munu reynast illa í vetur. Ofan á aðrar hörmungar þessa sumars bættist óvenjuskæð bráðapest í sauðfé, sem gerði fjáreigendum stórtjón. Hinir stórfelldu jarðskjálftar, sem gengið hafa á Norðurlandi þetta sumar, og langmestum skemmdum hafa valdið á Dalvík, Svarfaðardal og Hrísey, munu mörgum seint úr minni líða, síst þeim, er fyrir miklu eignatjóni hafa orðið. Loksins endar svo þetta sumar, og veturinn byrjar, með ógurlegasta fárviðri, sem olli geysilegu tjóni á húsum, bryggjum, bátum og vetrarforða manna. Bæði þessi sumur, 1882 og 1934, eru mestu hörmungasumur. 1882 er kuldinn, hríðarnar, hafísinn, óþurrkarnir, ákaflega rýr grasspretta, og mislingar, en 1934 eru óþurrkar, dæmafá grasspretta, jarðskjálftar, bráðapest og síðast fárviðrið mikla.
Ritað fyrsta dag vetrar 1934. Sjötugur eyfirskur bóndi.
Í nóvember varð vart við hafís undan Vestfjörðum. Þann 1. birtist frétt í Degi á Akureyri:
Dagur 1.nóv: Hafís undan Horni. Í gær hermdi útvarpið eftir breskum togara, »Lady Rosemary«, að hann hefði séð um 3ja kílómetra breiða ísspöng um 15 kílómetra norður af Aðalvík og á reki til lands. önnur skip hafa séð staka jaka, nær landi. Gengur nú veturinn harðfenglega í garð hér nyrðra, ef þegar skyldi fyllast með hafís, ofan á það allt, sem á undan er gengið.
Og Dagur segir þann 24. nóvember: Útvarpsfregn á mánudagskveld kveður bjarndýrshún hafa gengið á land á Ströndum og drepið tvö lömb. Ekki hafði dýrið náðst og álitu fréttamenn útvarpsins, að það mundi vera horfið til baka á ísinn.
Brim skemmdi bryggju í Borgarnesi þann 19. nóvember og fáeinum dögum síðar, þann 24. skemmdust skip í höfninni í Reykjavík og skemmdir urðu á Kirkjusandi. Hafnargarðurinn á Akranesi laskaðist og bátur skemmdist. Tvo opna báta tók í Ólafsvík. Timburbryggja fauk á Vattarnesi við Reyðarfjörð, þar fauk einnig fiskhjallur og þak af fjárhúsi.
Morgunblaðið 21.nóvember:
Borgarnesi 20. nóv. Í gær var mjög mikið brim hér í Borgarnesi, og brotnaði öldubrjóturinn sem er framan á bryggjunni, á átta og hálfs meters löngu svæði. Brim var óvenjulega mikið, ekki hvassara en var. Í dag hefir veðrinu slotað, og er þegar byrjað að gera við bryggjuna, en hún er úr steinsteypu. Ekki hefir frést um aðrar skemmdir af völdum brimsins í Borgarfirði.
Á jóladag urðu skemmdir á nýja hafnargarðinum í Keflavík. Vélbátur og trilla skemmdust. Í Borgafirði fuku þök af húsum, refagirðingar fuku o.fl.
Þann 23. desember (Þorláksmessu) sáust ljós á lofti víða að á landinu. Morgunblaðið birti frétt um ljósaganginn þann 28. Auk þess létu ýmsir veðurathugunarmenn hans getið. Hvað var hér á ferð?
Á Þorláksmessu sáust eldleiftur frá ýmsum stöðum á landinu, svo sem Mælifelli í Skagafirði, frá ýmsum stöðum í Austur-Húnavatnssýslu, frá Raufarhöfn, Kópaskeri, Húsavík, Akureyri, Núpstað í Skaftafellssýslu, Þórunúpi í Rangárvallasýslu, Ljárskógum í Dalasýslu og víðar. Með því að bera saman stefnu eldleiftranna frá hinum ýmsu stöðum, þóttust menn finna að upptök þeirra væri mjög nærri Grímsvötnum í Vatnajökli, þar sem gosið var í fyrravetur. Sumstaðar þóttust menn heyra bresti og brak. Síðan fréttist ekkert um þetta, enda var dimmt loft bæði á aðfangadag og jóladag. Á annan jólum hélt útvarpið spurnum fyrir um það á ýmsum stöðum, hvort meira hefði orðið vart við eldblossana, en svo var eigi. Í gær átti Morgunblaðið tal við Núpstað í Skaftafellssýslu, og fékk þær fréttir að síðan á Þorláksmessu hefði ekki orðið vart við neinn ljósagang. Var þar þó bjart veður í fyrrakvöld. Ekkert hlaup hefir heldur komið í árnar, Djúpá, Súlu og Skeiðará, svo að sé hér um gos að ræða, getur það ekki verið mjög alvarlegt.
Lýsingar veðurathugunarmanna:
Hvanneyri: 23. þ.m. kl.ca. 17 1/2 sá ég 2 eldbjarma í austur átt með ca. 15 mínútna millibili.
Víðidalstunga: 23. Um kvöldið sáust eldblossar í SE.
Sandur í Aðaldal: 23.: Eldblossar lítið eitt vestan við SSE, hátt á lofti, ca. 30 gráður, frá 20-21.
Grímsstaðir á Fjöllum: Þann 23. þ.m. kl. 17:15 sáust eldblossar í suðri, öðru hvoru allt kvöldið fram á nótt. Stefna dálítið austar en í fyrra er (aðeins) sáust héðan.
Papey: Þ.21. tók ég eftir óvanalega miklum roða á norðvesturlofti. Um kvöldið kl. 22:45 sá ég greinilega gosmökk sem tók hátt upp fyrir fjöll og þar með eldleiftur. Á þessu var lítil breyting til kl.24 að ég hætti að horfa á það. Síðan sá ég ekki til fjalla fyrr en 28. þ.m.
Teigarhorn: 23. Rosaljós.
Fagurhólsmýri 23. Ljósagangur og þrumur kl.16-17. 24. Ljós og þrumur.
Sámsstaðir 23. Ekki sást til eldgoss þess er getið hefir verið um í útvarpi.
Hlíð í Hrunamannahreppi: Glampar af jarðeldi hafa sést, mest sunnudag 23. Fénaður kolaðist lítt af öskufalli.
Þann 26. (á annan jóladag) sáust eldleiftur úr Skagafirði og Mývatni.
Skyldi þetta hafa verið eldgos? Eða óvenjuöflugt þrumuveður? Varla loftsteinn? Kannski Grímsvötn hafi hóstað aftur? - það gat vel gerst án vatnavaxta. Veður var nokkuð þrumuveðralegt - fremur hæg suðaustanátt og skúrir eða slydduél, en hvað sá þá Gísli í Papey tveimur dögum áður?
Margt um að vera í veðri og í jörðu þetta ár hér á landi. Svo var mæðiveikin að hefja sína leiðu ferð um sauðfjárstofn landsmanna. Og blikur voru á lofti í heimsmálunum.
Í viðnenginu eru ýmsar tölur, mánaðameðalhiti, úrkoma, met og margt fleira.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 45
- Sl. sólarhring: 233
- Sl. viku: 1010
- Frá upphafi: 2420894
Annað
- Innlit í dag: 38
- Innlit sl. viku: 887
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.